Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

21. nóvember:
Alþjóðadagur heimspekinnar

eftir Gunnar Harðarson

UNESCO hefur lýst þriðja fimmtudag í nóvember alþjóðadag heimspekinnar. Með því er ætlunin að draga fram gildi heimspekinnar fyrir mannlega hugsun, fyrir menninguna og fyrir hvert og eitt okkar. Sérstök áhersla er lögð á að heimspekin geti höfðað til ungs fólk, þar sem hún stuðli að gagnrýninni og sjálfstæðri hugsun og geti þar með lagt fram skerf til betri skilnings á heiminum stuðlað að umburðarlyndi og friði milli manna. Jafnframt er hvatt til atburða og samræðna á heim­spekilegum nótum.

Það er kannski ekki augljóst að heimspeki eigi að geta höfðað til ungs fólks eða stuðlað að því að þroska ákveðna þætti skapgerðar og viðhorfa. Ef jafnvel sprenglærðustu doktorar eiga í erfið­leikum með að botna í Kant, Hegel eða Wittgenstein, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að heimspekin geti gert eitthvað fyrir börn og unglinga eða ungt fólk yfirleitt?

En það er heimspeki og heimspeki. Heimspekileg samræða þarf í sjálfu sér ekkert frekar á sögu heimspekinnar að halda frekar en öðrum ytri uppsprettum hugmynda. Heimspekilega spurningar spretta sjálfkrafa upp úr lífinu sjálfu, kannski ekki síst hjá börnum og unglingum. Brynjólfur frá Minna-Núpi segir skemmtilega frá því hvernig hinar heimspekilegu spurningar vakna með honum þegar hann er (að eigin sögn) á 8.-10. aldursári:

Fyrst framan af var umhugsunarefni mitt ekki annað en það, sem fyrir kom þá og þá stundina. Þó var það mjög snemma, að jeg fór að hugsa um sjálfan mig á sjerstakan hátt. Mjer var orðið það ljóst þá er jeg man fyrst, að jeg sjálfur var aðgreindur frá öllu öðru. … Jeg man glöggt, að í þessu tilliti var mesti mis­munur á því sem jeg vissi af. En í einu tilliti hvarf það þó alltsaman saman í eitt í huga mínum: það var alltsaman annað en jeg. … Og einna mest undraðist jeg það, að allir menn voru eins að því leyti, að enginn þeirra var jeg eða eins og jeg. Og jeg var öðruvísi en allri aðrir að því leyti, að jeg einn var jeg.1

Þó kemur að því að glíman við spurningarnar, hin innri samræða, leiðir hina heimspekilegu hugsun að ákveðinni lausn á vandanum sem við er að glíma:

Loksins rann það upp fyrir mjer, eins og sjálfkrafa, að jeg mundi ekki vera eins frábrugðinn öðrum mönnum og jeg hafði ætlað: Það mundi vera eins ástatt fyrir öllum mönnum, sem um sjálfa sig hugsuðu: hver einasti maður mundi hljóta að líta eins á sig gagnvart öllu öðru eins og jeg leit á mig gagnvart öðru.2

Og þessi niðurstaða leiðir síðan að enn annarri spurningu. Þannig vakna hinar heimspekilegu spurningar „sjálfkrafa“ við það eitt að vera til og hugsa um sjálfan sig, lífið og tilveruna. Það þarf ekki annað til. En þetta verða reyndar aldrei annað en innri samræður hjá honum. Þótt spurning­arnar vakni af sjálfu sér, fær Brynjúlfur að ekki tækifæri til að rækta hina heimspekilegu samræðu í umhverfi þar sem unnt hefði verið að ræða spurningarnar, skoða þær frá ýmsum sjónarhornum og gaumgæfa rökin fyrir mögulegum svörum. Hann vantar stað til að ræða hinar heimspekilegu hugmyndir, hann vantar skólastofu, heimspekikaffihús, eða gönguferð með öðrum sem vilja ræða spurningarnar með sama hætti, hann vantar Alþjóðlega heimspekidaginn!

Í heimspeki vakna spurningar af ólíkum ástæðum, en eitt lykilatriði í heimspeki er að það þarf að orða spurningarnar, koma hugmyndunum í orð, fylgja þeim eftir, rökræða þær. Þannig er mögu­legt að þroska hugsunina, og opna nýjar hliðar á umræðuefninu.

Heimspekileg samræða er einmitt sá staður þar sem unnt er að leggja rækt við þessa þætti. Þar er ekki tekið við skipunum eða setið undir eintali þess sem hæst glymur. Það eina sem hefur vægi er gildi röksemdanna. Í heimspekilegri samræðu hugsum við upphátt með öðrum, hún er einmitt samræða en ekki einræða, leit að sannleikanum, því að í heimspeki er enginn handhafi sannleikans.

Eins og Kristín H. Sætran leggur áherslu á í bók sinni, Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum, er það einmitt frjáls en öguð hugsun heimspekinnar sem getur tekið allt til umræðu, jafnt per­sónulega reynslu sem almenn sannindi, sem ætti að geta höfðað til ungs fólks og veitt því „þjálfun í að takast á við óvissu í spurn, forvitni, frelsi og ögun“ og stuðlað að virðingu fyrir öðrum sem hugsandi verum.

Aftanmálsgreinar

1. Brynjúlfur Jónsson, Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna (Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1912), bls. 7.

2. Sama rit, bls. 9.

Heimspeki úr glatkistunni: Greinar úr sögu íslenskrar heimspeki

Á næstu mánuðum munu birtast hér á Heimspekivefnum, með nokkuð reglulegu millibili, greinar um heimspeki og heimspekileg efni eftir íslenska höfunda sem hafa að mestu legið í láginni frá því að þær komu fyrst fyrir almenningssjónir á síðari hluta nítjándu aldar.

Uppruna þessarar greinaraðar má rekja til námskeiðsins Þættir úr íslenskri heimspekisögu, sem var haldið haustið 2011 við Háskóla Íslands. Meðal þess sem nemendur námskeiðsins tókust á við, undir leiðsögn Gunnars Harðarsonar prófessors, var að velja sér grein úr sögu íslenskrar heimspeki til nánari athugunar og fræðilegrar ígrundunar.

Auk þess að gera sjálfan texta greinanna tölvutækan, sem auðveldar bæði frekari rannsóknir og miðlun þessa efnis, sáu nemendurnir einnig um að gera þær textaskýringar sem þóttu nauð­synlegar fyrir nútímalesendur. En síðast en ekki síst var hverri grein fylgt úr hlaði með fræðilegum inngangi þar sem gerð var grein fyrir höfundi hennar og (eftir því sem við var komið) bæði innra og ytra samhengi röksemda þeirra og afstöðu í heimspekilegu og heimspekisögulegu ljósi. Það er samdóma álit þeirra sem um hafa vélað að afrakstur þessarar vinnu eigi tvímælalaust erindi við bæði lærða og leikna á sviði heimspekinnar og Heimspekivefurinn kjörinn birtingarvettvangur.

Til að halda utan um ritstjórn þessa tiltekna verkefnis hefur Heimspekivefurinn fengið til liðs við sig Jakob Guðmund Rúnarsson (jgr2@hi.is). Fyrsta greinin „Heimspeki og guðfræði“ (1896) eftir Grím Thomsen (1820-1896) sem þau Íris Björk Jakobsdóttir og Snorri Haraldsson bjuggu til birtingar mun birtast innan skamms og svo mun hver gullmolinn reka annan eftir því sem líður á veturinn.

Ráðstefna um Søren Kierkegaard: Sóttin banvæna

Dagana 22.-24. maí verður haldin við Háskóla Íslands (Odda, stofu 101) alþjóðleg ráðstefna um danska heim­spekinginn Søren Kierkegaard, en í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu þessa kunnasta heimspekings Norður­landa.

Ráðstefnan ber yfirskriftina „Kierkegaard’s Philo­sophical Psychology: The Sickness unto Death“. Útgangspunkturinn er verk Kierkegaards Sygdommen til døden (Sóttin banvæna), sem væntanlegt er í íslenskri þýðingu Kristians Guttesen. Kierkegaard var einhver gleggsti greinandi sálarástands nútíma­mannsins og er talinn helsti upphafsmaður tilvistar­spekinnar. Á ráðstefnunni verða fluttir fimmtán fyrir­lestrar um efnið og þar að auki verður haldið sérstakt pallborð þar sem sjónum verður beint að Magnúsi Eiríkssyni sem var samtímamaður Kierkegaards í Kaupmannahöfn og varð manna fyrstur til að taka verk hans til gagnrýninnar athugunar. Fyrirlesarar koma víða að og eru margir kunnir Kierkegaard-fræðingar í þeirra hópi. Ráðstefnan verður á ensku.

Søren Kierkegaard

Ráðstefnan er haldin á vegum Heimspekistofnunar Háskóla Íslands í samstarfi við The Nordic Network of Kierkegaard Research (NordForsk) og Søren Kierkegaard rannsóknarsetrið við Kaupmannahafnarháskóla.

Ráðstefnan er öllum opin.

Dagskrána má nálgast hér.

Inngangur ritstjóra að Hug 2012

eftir Henry Alexander Henrysson

Heimspekin lömuð haltrar út
heldur sjóndauf og niðurlút
þrammar í þessu landi
– Eggert Ólafsson (1726–1768)

Þegar þessi orð eru skrifuð liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um að gera heimspeki að skyldufagi á grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að „heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.“

Hér er komist vel að orði. En það er erfitt að sjá fyrir afdrif þessarar ágætu tillögu. Hún er mjög í anda þess sem íslenskir heimspekingar hafa rætt undanfarin ár. Rannsóknarstofa um háskóla, Siðfræðistofnun og Heimspekistofnun hafa unnið að því að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Félag heimspekikennara hefur sjaldan verið sýnilegra og öflugra. Í Garðabæ hefur verið unnið metnaðarfullt starf við að gera heimspekilega samræðu að viðurkenndri kennsluaðferð. Ég er hóflega bjartsýnn á að önnur sveitarfélög taki sér Garðabæ til fyrirmyndar. Í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingar í Reykjavík er til að mynda mælt fyrir um að auka skuli vægi heimspeki og siðfræði í skólum. Tvö vel heppnuð málþing í október 2011 og 2012 hafa dregið upp fjölmarga fleti á spurningum sem snerta heimspeki með börnum. Nýjar námskrár fyrir samfélagsgreinar í grunn- og framhaldsskólum draga beinlínis fram þann heimspekilega kjarna sem þessar greinar byggja á. Og síðast en ekki síst er gagnrýnin hugsun orðin grunnþáttur í menntun allra skólastiga samkvæmt aðalnámskrám þeirra, ásamt því að nemendur efli siðferðisþroska sinn. Næstu ár verða því augljóslega spennandi fyrir afdrif heim­spekinnar á Íslandi. Ef vel tekst til með símenntun kennara má vel ímynda sér að næstu kynslóðir íslenskra nemenda fái tækifæri til að njóta þess skemmtilega ferðalags sem heimspekileg sam­ræða getur verið. En ferðalög geta verið margs konar. Stundum er það undirbúningurinn og ferðalagið sjálft sem er mesta áskorunin. Heimspekinni er einmitt oft líkt við slíkt ferðalag. Stundum er hins vegar áfangastaðurinn þess eðlis að hann skiptir mestu. Hver sá sem hefur farið á framandi staði til að skoða dýralíf og villta náttúru getur vitnað um að þrátt fyrir að leiðin hafi verið ánægjuleg er það reynslan af því sem maður kom til að sjá sem situr lengst í manni. Að leggja stund á heimspeki felst því einnig í að skoða sig um, ef svo má að orði komast, á áfanga­stað. Það getur verið mikilvægt að skoða sig vel um í þeim mikla sarpi sem saga heimspekinnar er og kunna skil á helstu tímabilum og stefnum.

Ef maður ætti að líkja rannsókn á heimspeki nýaldar við ferðalag held ég að safaríferð um gresjur Afríku kæmi fyrst upp í hugann. Á sautjándu og átjándu öld er sjóndeildarhringurinn víður og skýr og himinninn heiður. Og maður leggur af stað til að koma auga á „þá stóru“. Líkt og safarí­ferðamaðurinn leggur af stað með lista yfir fimm helstu dýrategundirnar sem hann vill koma auga á snúast rannsóknir á heimspeki nýaldar allar um þá „fimm stóru“: Descartes, Spinoza, Locke, Hume og Kant. Þegar aðra heimspekinga ber á góma er það yfirleitt með hliðsjón af „vistkerfi“ þessara risa. Þau sem hafa virt fyrir sér dýra- og plöntulíf í regnskógum þekkja hvernig kattar- og dádýr eru minni heldur en á gresjunni og hversu hlutfallslega stór mörg hin smærri dýr eru. Stundum veit maður ekki hvort það var hjörtur eða naggrís sem skaust inn í laufþykknið. Sjón­deildarhringurinn er enginn og stundum er erfitt að greina hvað snýr upp og niður. Það er einmitt stundum eins og að ferðast um regnskóg að kanna heimspeki nítjándu aldar. Stærðir verða afstæðar, sjónarhornin skipta mestu máli þar sem iðulega er eitthvað sem byrgir sýn og greinar­munurinn á rótum og ávöxtum hugmynda liggur ekki í augum uppi. Og fyrst og fremst er það hin organíska ofgnótt sem slær ferðalanginn út af laginu. Ég hef því persónulega látið nítjándu öldina vera að mestu leyti þegar kemur að heimspekirannsóknum.

En ég stóðst ekki mátið þegar kom að því að velja þema fyrir Hug 2012. Það var spennandi að sjá hvað myndi birtast í tölvupóstinum mínum eftir að ég hafði óskað eftir efni í heftið. Og greinarnar sem bárust endurspegla þá óreiðu sem heimspekileg hugsun á nítjándu öldinni er. Sérstakt ánægjuefni er að birta þýðingu á texta eftir franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau. Undir lok nítjándu aldar benti margt til þess að Guyau yrði sá heimspekingur sem síðari tímar myndu helst kenna við tímabilið. Áhrif hans voru sérlega mikil og skrifaði meðal annars Ágúst H. Bjarnason doktorsritgerð sína um heimspeki Guyau. Ég held að hér birtist í fyrsta skipti texti eftir hann á íslensku og verður spennandi að sjá hver viðbrögð lesenda Hugar verða. Margt bendir til að sú gleymska sem Guyau féll í eftir að tuttugusta öldin gekk í garð sé jafn óverðskulduð og sam­tímaspár um mikilvægi hans fyrir sögu og þróun heimspekinnar. Þýski heimspekingurinn Hermann Lotze var annar slíkur heimspekingur sem aldrei náði að halda sig á þeim stalli í heimspekisögunni sem margir samtímamenn hans gerðu ráð fyrir að honum bæri. Grein Erlendar Jónssonar um Lotze hér í heftinu er áhugaverð og löngu tímabær kynning á þessum sérstæða heimspekingi.

Herbert Spencer er líklega sá hugsuður nítjándu aldar sem flestir hafa yndi af að hunsa. Grein Jakobs Guðmundar Rúnarssonar er frískandi tilraun til að hrista upp í þeim stöðluðu við­brögðum. Fátt bendir til að Spencer verði álitinn mikilvægasti heimspekingur nítjándu aldar en margt í hugsun hans er þess eðlis að mig grunar að áhugi á verkum hans muni glæðast á komandi árum. Greinarnar sem bárust Hug tengdust þó einnig helstu nöfnum í heimspeki nítjándu aldar og eiga þessar greinar það sameiginlegt að skoða þessa höfunda í ljósi sam­tímans, ef svo má að orði komast. Steinunn Hreinsdóttir tekst á við bölhyggju Schopenhauers, Guðmundur Björn Þorbjörnsson greinir það sem hann nefnir „vangaveltuþjóðfélagið“ í félagi við Kierkegaard og Róbert H. Haraldsson fjallar um höfuðrök Johns Stuarts Mill fyrir hugsunarfrelsi og málfrelsi með hliðsjón af stórum ágreiningsmálum í samtímanum.

Um Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi gildir fátt það sem tínt hefur verið til hér að ofan. Honum var ekki spáð frægð og frama innan heimspekinnar. En íslenskum lesendum þykir líklega bara vænna um hann fyrir vikið. Elsa Haraldsdóttir nýtir sér frásögn Brynjólfs af þróun eigin hugsunar til að velta upp spennandi hliðum á því sem við nefnum í daglegu tali „heimspekilega hugsun“. Elsa hefur undanfarið unnið að meistararitgerð um gagnrýna hugsun og má vel greina hversu áhuga­söm hún er um að fólk geri sér grein fyrir einkennum gagnrýninnar hugsunar og heimspekilegrar samræðu þegar rætt er um mikilvægi heimspekikennslu á öllum skólastigum.

En það er meira efni í Hug en það sem tengist þema heftisins. Guðrún C. Emilsdóttir hefur þýtt sérlega áhugaverðan kafla úr sígildu riti Simone de Beauvoir, Síðara kyninu. Handrit þýðingar­innar var lesið í námskeiðinu Heimspekilegum forspjallsvísindum í Sagnfræði- og heimspeki­deild í haust og vakti það fjörugar umræður meðal nemenda. Ný grein eftir Dan Zahavi birtist hér einnig í íslenskri þýðingu. Það er mikið fagnaðarefni að þekktir erlendir höfundar sendi greinar í Hug til ritrýni og birtingar. Guðmundur Sæmundsson og Kristján Kristjánsson eru höfundar mikillar greinar um siðferðismisræmi milli íþróttabókmennta og íþróttaveruleika nútímans á Ís­landi. Má með sanni segja að ekki hafi komið út margar greinar sem snerta á því efni á íslensku áður. Heftinu lýkur með skemmtilegri grein eftir Ólaf Pál Jónsson um svokallað skiptaréttlæti.

Hér að ofan var rætt um ferðalög. Íslensk heimspeki hefði ekki þróast á þann hátt sem hún gerði ef Mikael M. Karlsson hefði ekki haldið í eitt slíkt með Barböru konu sinni til Íslands síðsumars árið 1973. Um ævi Mikes og ástæður þess að hann settist að á Íslandi hefur margt verið skrafað en minna fest á blað. Það var því sérstakt fagnaðarefni að hann féllst á að setjast niður með mér nú í haust og segja þessa sögu. Sú útgáfa hennar sem hér birtist er auðvitað lítið bergmál þessa mikla bálks sem Mike hefur frá að segja, en vonandi fræðast lesendur nokkuð um þá óþrjótandi þekkingarleit sem hefur leitt hann í gegnum lífið.

Að lokum er mér það bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim sem komu að gerð þessa árgangs Hugar. Höfundar efnis fá auðvitað sérstakar þakkir fyrir samstarf og þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt útgáfuferlinu. Útgáfu Hugar hefur verið lýst sem lítilli útgerð í litlum polli. Smæðin hefur víst aldrei flýtt fyrir vinnu hvers árgangs. Ritrýnar fá ómældar þakkir fyrir sitt vanþakkláta starf. Gunnar Harðarson og Björn Þorsteinsson lásu yfir þýðingarnar tvær úr frönsku sem hér birtast. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir og vona að yfirvöld menningarmála í Frakklandi taki eftir því starfi sem þeir hafa innt af hendi í gegnum árin við kynningu á franskri heimspeki. Björn á reyndar mikið hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hann hefur lagt í heftið. Mistökin og villurnar skrifast á mig, en þau væru svo óendanlega miklu fleiri ef hans hefði ekki notið við.

Henry Alexander Henrysson

« Til baka

Auglýst eftir erindum fyrir málþing um barnaheimspeki

Félag heimspekikennara hefur í samvinnu við verkefni um eflingu gagnrýninnar hugsunar og sið­fræði í skólum hafið undirbúning að málþingi um barnaheim­speki sem haldið verður laugar­daginn 13. október nk. í Verzlunarskóla Íslands. Á málþinginu munu reyndir heimspekikennarar leggja fram hugleiðingar um heimspeki og heimspekikennslu sem þátttakendur geta síðan tekið til umræðu. Stjórn Félags heimspekikennara tekur nú við tillögum að örfyrirlestrum sem fluttir verða á málþinginu. Hugmyndir og lýsingar á erindum má senda stjórninni á netfangið heim­spekikennarar@gmail.com.

Að fyrrnefndu verkefni um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum standa Rann­sóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þessir sömu aðilar stóðu ásamt Félagi heimspekikennara að ráðstefnu um kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í október 2011 og huga að undirbúningi málþings um innleiðingu grunnþáttanna jafn­rétti, lýðræði og mannréttindi í þverfaglegu skólastarfi sem haldið verður í mars 2013.

Ný þjónusta hjá Forlaginu

Prentað eftir pöntun (PEP) er ný þjónusta sem Forlagið býður upp á. Bækur, sem hafa verið ófáanlegar, er nú hægt að fá sérprentaðar í litlu upplagi. Í gegnum heimasíðu Forlagins er hægt að leggja inn pöntun og greiða fyrir bókina/bækurnar og fá þær síðan sendar heim. Afgreiðslu­tíminn er 7-10 dagar.

Heimspekivefurinn vill vekja athygli lesenda sinna á að Farsælt líf, réttlátt samfélag eftir Vihjálm Árnason og Að hugsa á íslenzku eftir Þorstein Gylfason eru meðal þeirra rita sem hægt er að sér­panta með þessum hætti.

Hugleiðing frá ritstjóra

Nú er Heimspekivefurinn kominn aftur á netið í umbúðum sem eru vonandi bæði aðgengilegar og smekklegar hvað varðar framsetningu og útlit, en yfirumsjón með uppsetningu hafði Sigurjón Ólafsson, vefstjóri Hugvísindasviðs. Ætlunin er að fara rólega af stað enda ótal atriði sem þarf að lagfæra og fínstilla og hefur Kristian Guttesen, vefstjóri Heimspekivefjarins, þegar unnið mikið starf. Kann ég honum bestu þakkir fyrir. Á næstu mánuðum er ætlunin að vefurinn verði kominn í sitt besta form þannig að hann verði reglulegur viðkomustaður á „netrúnti“ áhugamanna og atvinnufólks í heimspeki.

Víst er þó að Heimspekivefurinn hefur ekki verið og verður vart lesinn af mörgum. Hann þarf þó ekki að vera „fáséður“ eins og einhver lýsti honum. Það gildir væntanlega það sama um hann og aðra vefmiðla að birtingartíðni mun skipta miklu ef fólk á að hafa hann í huga þegar íslensk heimspeki er til umræðu. Efnið sem birtist hlýtur þó að skipta meiru máli en hversu oft nýtt efni ratar inn. Íslenskir heimspekingar eiga hér kost á umræðuvettvangi sem væri annars ekki til staðar. Vefsíða er ekki tímarit og því ekki náttúrulegt heimasvæði djúprar og efnismikillar umræðu. Heimspekilegar ritsmíðar eiga sér hins vegar margs konar birtingarform sem sum hver kalla hvorki á nákvæma ritrýni né langar rökfærslur og hafa þann helsta kost að eiga erindi við sem flesta. Heimspekivefurinn stendur þeim opinn.

Íslenskir heimspekingar eru því beðnir um að hjálpa til við að halda vefnum eins ferskum og áhugaverðum og mögulegt er með því að leggja til pistla, ritdóma, athugasemdir, ábendingar (ritfregnir og fréttir af málþingum) og stuttar ádrepur. Einnig er hugur í ritstjórn að birta sem flestar heimspekilegar greinar sem skrifaðar hafa verið fyrir almenna lesendur í margvísleg tímarit og blöð ef leyfi fæst fyrir endurbirtingu þeirra. Þannig hafa tvær nýlegar greinar úr Stúdentablaðinu nú verið birtar á Heimspekivefnum sem annars hefðu að öllum líkindum farið framhjá mörgu áhuga­fólki um heimspeki. Eru allar ábendingar um slíkar greinar vel þegnar.

Að lokum vil ég nefna að þegar eru margar góðar greinar komnar inn á vefinn. Ekki þarf alltaf að bíða eftir nýju efni til þess að heimsækja Heimspekivefinn!

Með von um ánægjulegt samstarf,

Henry Alexander Henrysson

Doktorsnemi við HÍ hlýtur viðurkenningu CINS

Gabriel Malenfant, doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands, hlaut á dögunum viðurkenningu hinnar kanadísku stofnunar í Norrænum fræðum (Canadian Institue for Nordic Studies).

Verðlaunin eru veitt árlega og eru ætluð kanadískum framhaldsnemum sem stunda nám á Norðurlöndum.

Gabriel lauk MA prófi i heimspeki frá Montréal-háskóla í Kanada og hefur birt nokkrar greinar um fyrirbærafræði og siðfræði. Doktorsverkefni hans snýr að heimspeki Levinas og umhverfis­siðfræði.

Verkefni um ríkari skilning á landslagi fær styrk úr sjóði Brynjólfs Bjarnasonar

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, fékk viðurkenningu úr Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, fékk viðurkenningu úr Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, hefur hlotið viðurkenningu úr Heimspeki­sjóði Brynjólfs Bjarnasonar. Þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur styrkurinn 200.000 þúsund krónum.

Doktorsverkefni Guðbjargar R. Jóhannesdóttur, Íslenskt landslag; fagurfræði og verndargildi, er rannsókn á fagurfræði íslenskrar náttúru og liggur á mörkum þriggja fræðasviða: náttúru­fagurfræði, fyrirbærafræði og landslagsfræða. Með aukinni þekkingu á fagurfræðilegu gildi íslenskrar náttúru er mögulegt að skapa grundvöll fyrir nýjan farveg í umræðu um náttúruvernd á Íslandi þar sem áhersla er lögð á mikilvægi náttúrufegurðar og upplifun okkar af henni.

Markmiðið með verkefninu er að öðlast ríkari skilning á merkingu landslags og þeim gildum sem eru tengd við fagurfræðilega upplifun af íslenskri náttúru og afbyggja þá tvíhyggju sem hingað til hefur einkennt umræðu um gildi íslenskrar náttúru. Þessi hugmyndafræði tvíhyggju hefur leitt til þess að vísindalegt og hagrænt gildi náttúrunnar hefur haft forgang á kostnað fagurfræðilegra gilda.

Fagurfræðilegt gildi náttúrunnar hafa þannig verið vanrækt þar sem þau eru talin of huglæg, afstæð og persónuleg – og þar með ómælanleg. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á það hvernig gildi íslenskrar náttúru hefur verið túlkað of þröngt þegar kemur að ákvörðunartöku um náttúruvernd og nýtingu.

Fagurfræðileg upplifun er ekki ný af nálinni hjá Íslendingum, samanber íslenskar bókmenntir og myndlist, en í doktorsverkefninu er sjónum beint að því að gildi upplifunar á náttúrunni út frá fagurfræðilegu sjónarmiði er ekki eingöngu huglæg rómantík heldur grundvallarþáttur í lífsgæðum og skilningi á landslagi og meðferð þess. Leiðbeinendur eru Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Háskólaseturs á Hornafirði Nýheima.

Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar var stofnaður árið 1990 af Elínu Brynjólfsdóttur, dóttur Brynjólfs Bjarnasonar, og eiginmanni hennar, Godtfred Vestergaard. Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta í framhaldsnámi í heimspeki og skal styrkþegi halda fyrirlestur á vegum Félags áhugamanna um heimspeki eigi síðar en tveimur árum eftir að honum er veittur styrkurinn. Brynjólfur Bjarnason fæddist árið 1898 og stundaði sem ungur maður heimspekinám í Kaupmannahöfn og Berlín.

Heimspekiiðkun og önnur fræðastörf Brynjólfs véku þó fyrir pólitísku starfi fram á efri ár en Brynjólfur var í framvarðasveit íslenskra sósíalista, sat á þingi og gegndi ráðherraembætti. Framlag hans til íslenskrar heimspeki verður þó seint ofmetið enda má segja að hann hafi unnið brautryðjendastarf í heimspekiiðun hér á landi.

Þegar hann hóf að rita um heimspeki á 6. áratug síðustu aldar var hann nánast sá eini hér á landi sem fékkst við slíkar skriftir. Eftir að kennsla í heimspeki sem sjálfstæðri grein var tekin upp við Háskóla Íslands upp úr 1970 komst Brynjólfur í ágæt kynni við marga nemendur og kennara við skólann. Var hann m.a. gerður að fyrsta heiðursfélaga Félags áhugamanna um heimspeki.

Rit á borð við Frelsi og lögmál, Forn og ný vandamál og Á mörkum mannlegrar þekkingar bera þekkingu Brynjólfs og innsýn í sígild vandamál heimspekinnar vitni. Brynjólfur bar velferð íslenskra heimspekinga fyrir brjósti og það var einlæg ósk hans að styrkja þá til náms og er það ástæðan fyrir stofnun sjóðsins. Brynjólfur lést árið 1989.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir sjóðirnir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.


Fréttin birtist upphaflega á vef Háskóla Íslands

Eldri greinar komnar í gagnið

Vefstjóri Heimspekivefjarins hefur undanfarið varið kröftum í að fara í gegnum afrit af gamla vefnum. Við þessa vinnu hefur komið á daginn að nokkrar greinar urðu út undan þegar yfirfærslan átti sér stað fyrir enduropnun vefjarins. Á þetta hafa einnig glöggir lesendur bent. Ekki tekur því að tíunda hvað þessu olli, en í stuttu máli voru á tímibili ekki allar greinar aðgengilegar af efnisyfirliti gamla vefjarins. Við höfum nú tínt til flestar þessara greina (nokkrar eiga enn eftir að bætast við) og bætt þeim í veglegt greinasafn Heimspekivefjarins. Má þar telja ýmsar góðar greinar eftir okkar fremstu heimspekinga, einn leikdóm eftir Atla Harðarson og þrjár þýðingarperlur Gunnars Ragnarssonar.

Hér að neðan getur að líta heildarlista þeirra greina sem um ræðir, en þegar fleiri hafa bæst við munum við segja frá því á þessum vettvangi. Þeir sem nú rata inn á vefinn eru hvattir til að „gramsa“ í efnisyfirlitinu og skoða þær fjölmörgu og skemmtilegu greinar sem þar er að finna.

Þær greinar sem að undanförnu hafa komið í leitirnar eru:

  1. Vilhjálmur Árnason:
    Að velja sjálfan sig. Tilraunir Kierkegaards um mannlífið

  2. Jóhanna Þráinsdóttir:
    Er trúin þverstæða? Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

  3. Vilhjálmur Árnason:
    Við rætur mannlegs siðferðis. Siðagagnrýni og heilræði Friedrichs Nietzsche

  4. Kristján Árnason:
    „Bara flón! bara skáld!“ Heimspeki í molum eða molar um Nietzsche
    Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

  5. Róbert H. Haraldsson:
    Eftirmyndir Nietzsches
    Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

  6. Arthúr Björgvin Bollason:
    Stefnumót við Díonýsos. Nokkrir punktar um Nietzsche
    Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

  7. Matthew Ray:
    Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches
    Birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

  8. Atli Harðarson:
    Nietzsche og Dínamít
    Leikrit Birgis Sigurðssonar, Dínamít, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 2005. Efniviður þess er ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche, samband hans við systur sína, Elisabeth, og andleg hrörnun. Hér birtist gagnrýni Atla Harðarsonar á heimspeki­sögulegan þátt leikritsins, þ.e. á þá meinleysislegu mynd sem honum þykir þar vera dregin af hugsuðinum. Dómurinn birtist áður í Lesbók  Morgunblaðsins.

  9. Bryan Magee:
    Töfrar málspekinnar. Bernard Williams og Bryan Magee ræðast við
    Samræðan birtist upphaflega í Men of Ideas. Gunnar Ragnarsson þýddi.

  10. Anthony Kenny:
    Descartes fyrir byrjendur
    „Út allar miðaldir í Evrópu var Aristóteles hið óumdeilda kennivald í vísindum … Á fyrri helmingi sautjándu aldar breyttu verk franska heimspekingsins René Descartes þessu ástandi til frambúðar.“ – Í greininni „Descartes fyrir byrjendur“ fjallar breski heim­spekingurinn Anthony Kenny um helstu atriðin í kenningum franska heimspekingsins René Descartes. Gunnar Ragnarsson þýddi.

  11. Peter Kemp:
    Vísindi og skáldskapur
    Vísindaheimspeki tengja flestir við ákveðna höfunda sem virkir voru í hinum engilsaxneska heimi. Þó var alla hina 20. öld til sterk frönsk hefð í þessari grein með þeim Gaston Bachelard, Georges Canguilhem og Jean Cavaillès í fararbroddi. Þeir mótuðu ekki einungis kenningar margra síðari tíma spámanna, s.s. Foucaults og Althussers, heldur var Thomas Kuhn einnig undir áhrifum frá þeim. Hér birtist grein eftir Peter Kemp um Bachelard en hún kom áður út í TMM 1974. Einnig er þar greint frá öðru meginviðfangsefni verka hans, þ.e. hugleiðingum hans um skáldskap.

  12. Richard Dawkins:
    Góðar og vondar ástæður fyrir trú
    Bréf sem þróunarlíffræðingurinn og guðleysinginn Richard Dawkins ritaði handa 10 ára gamalli dóttur sinni. Í því reynir hann að skýra með einföldum hætti hvaða ástæður til að trúa einhverju teljist vondar, svo sem hefð, kennivald og opinberun. Ennfremur skýrir hann hvers vegna sterk innri tilfinning sé vandmeðfarin sem mælikvarði á réttar og rangar skoðanir. Af þeim sökum hvetur hann hana til þess að krefjast í hvívetna sannana eða góðra raka fyrir hverri þeirri skoðun sem aðrir vilji sannfæra hana um. Gunnar Ragnarsson þýddi.

  13. Jóhann Björnsson:
    Trúin, efinn og hið frumspekilega hjálparleysi
    Í þessum pistli veltir Jóhann Björnsson fyrir sér þeirri þverstæðu hversu margir trúleysingjar eða efahyggjumenn skuli taka þátt í trúarathöfnum þegar efi þeirra ætti einmitt að vera andstæða trúar. Í ljósi sögu okkar og menningar hafnar Jóhann því að slíkt sé einatt dæmi um hræsni. Hins vegar beinir hann athygli sinni að siðferðilegum rökum fyrir kostum trúarinnar sem og að meintum huggunaráhrifum hennar og bendir á takmarkanir hvorra tveggja.

  14. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson:
    Póststrúktúralismi, marxismi, femínismi: Að valda usla eða leita að höfuðmóthverfu?
    Í þessu erindi fjallar Ingólfur Ásgeir Jóhannesson um tengsl póststrúktúralisma, marxisma og femínisma. Fyrst er útskýrður munur hugtakanna póststrúktúralismi og póstmódernismi en aðallega snýst erindið um það hvernig femínistar og aðrir baráttusinnar geta haft gagn af hugmyndum sem kenna má við póststrúktúralisma, einkum þeim hugmyndum sem franski hugmyndasagnfræðingurinn Michel Foucault setti fram. Rætt er um hvernig marxísk leit að höfuðmóthverfu hefur glatað hluta af gildi sínu í fjölmenningarþjóðfélögum nútímans og um hvort vænta megi e.k. „póst-póst-isma“.
    Fyrirlestur fluttur á málstefnu Sagnfræðingafélags Íslands Póstmódernismi – hvað nú? þann 13. október 2000, sem haldin var í tengslum við hugvísindaþing 2000. Birtist einnig á Kistunni.

  15. Antonio Gramsci:
    Inngangsfræði heimspeki og sögulegrar efnishyggju: Nokkur byrjunaratriði
    Hugleiðing um „praxis-heimspeki“ úr svonefndum Fangelsisritum Antonios Gramsci. Slík heimspeki láti sér ekki nægja að endurspegla brjóstvit eða trúarbrögð manna og reyni heldur ekki að uppgötva nýjan sannleika að hætti „snillinga“. Henni sé þess í stað ætlað að „miðla með gagnrýni sannindum sem þegar hafa verið uppgötvuð, gera þau að félagseign … að andlegum og siðferðilegum hvötum“ þ.e. að „skapa nýja menningu“ og gera „einfaldar sálir … aðnjótandi æðri lífsskilnings“. Að baki henni liggur því val á heimsskilningi sem er fólgið í pólitískri athöfn og hlýtur þ.a.l. oftast að birtast sem „reikningsskil við þann hugsunarhátt sem ríkir“. Það er þó ýmsum vandkvæðum bundið fyrir „praxis-heimspekinga“ að hugsa fyrir fjöldann og ákveðnar hættur sem þarf að varast í þeim efnum. Greinin kom fyrst út í TMM 2/1975. Sigfús Daðason þýddi.

  16. Clarence E. Glad:
    Introduction to Philodemus’ On Frank Criticism
    Þetta er stytt útgáfa af innganginum í: Philodemus: On Frank Criticism. Introduction, Translation, and Notes eftir David Konstan, Diskin Clay, Clarence E. Glad, Johan C. Thom, and James Ware. Atlanta, Georgia 1988.