Greinasafn fyrir merki: hugsun

Hugsum við með heilanum?

eftir Mikael M. Karlsson

I

Hugsum við með heilanum?1 Ef svarið er játandi hvað leiðir af því? Getum við til dæmis ályktað að hugsunin eigi sér stað í heilanum? Eða að hún sé ekkert umfram starfsemi heilans? Má setja samasemmerki milli hugsunar og heilastarfsemi?
      Í umfjöllun minni um þessar spurningar mun ég ekki nota orðið „heili“ aðeins um heilann sjálfan og hluta hans heldur einnig um miðtaugakerfið í heild. Stundum vísar hugtakið „hugsun“ og sögnin „að hugsa“ til hugarstarfsemi sem felur ekki aðeins í sér hugsun heldur einnig skynjun, hugarflug og því um líkt. Það er hugarstarfsemi almennt, en ekki aðeins það afbrigði hennar sem við köllum „að hugsa“ í ströngum skilningi, sem athygli mín beinist að.

II

Hvers vegna göngum við út frá því, sem ég ætla að flest okkar geri, að við hugsum með heilum okkar? Trúlega er hugmynd okkar eitthvað á þessa leið: Þegar við hugsum er heilinn virkur og virkni hans nauðsynleg forsenda hugsunar. Þetta hefur verið haft fyrir satt síðan Galen var uppi á annarri öld fyrir Krists burð.2 Hin síðari árin hefur þekking okkar á því hvernig heilastarfsemi tengist hugarstarfsemi fleygt fram. Ólíkar og sérhæfðar heilastöðvar virðast vera virkar þegar við hlustum á eða lesum sömu orðin, þegar við segjum þau eða semjum.3 Nýlega hefur verið leitt í ljós að á sjónsvæði heilabarkar eru fjögur kerfi sem vinna samhliða og hvert um sig tengist takmörkuðu svæði hnakkageirans: Eitt þessara svæða (V5) tengist sjóngreiningu hreyfingar, annað (V4) fæst við litaskyn, og tvö þeirra (V4 og V3) tengjast formskyni.4 Varmasneiðsjá5 sýnir okkur myndir í öllum regnbogans litum af starfandi heila: Andspænis þessum myndum er freistandi að halda að við horfum á hugsun, skynjun, geðshræringu og aðra andlega starfsemi fara fram í heilanum.
      En freistingar eru til að standast þær. Ég mun færa rök að því að þekking af því tagi sem ég hef lýst hér að ofan nægi ekki til að fullyrða að hugarstarfsemi eigi sér stað í heilanum eða til að setja samasemmerki milli hugar- og heilastarfsemi. Í raun nægir hún ekki til að færa sann­færandi rök að því að við hugsum með heilum okkar.

III

Þegar við segjum að við hugsum með heilum okkar, þá segum við í raun að við nýtum þá sem verkfæri eða líffæri hugsunar. Að hugsa sér eitthvað (til að mynda fótleggi) sem líffæri ákveðinnar starfsemi (til dæmis að hlaupa) er að líta á það sem nánasta geranda þeirrar starfsemi (í þessu tilfelli, þess að hlaupa). Það er að segja athöfnin (til dæmis hlaup) er framkvæmd milliliðalaust með ákveðnum aðgerðum gerandans (í þessu tilfelli fótanna). Hlaup (svo við höldum okkur við efnið)—athöfn þar sem líkaminn er knúinn áfram í rými með tilteknum hætti—er milliliðalaus afurð fótavirkni. Af þessum sökum getum við sagt að við hlaupum með því að hreyfa fæturna. Með öðrum orðum eru fótleggirnir þau líffæri sem með virkni sinni framkvæma hlaupið; hreyfingar þeirra knýja líkamann áfram í rýminu; og við sjáum þetta með eigin augum.6
      Það þarf að uppfylla frekari skilyrði en það að vera nánasti gerandi einhverrar starfsemi til þess að teljast verkfæri eða líffæri hennar;7 en í bili látum við okkur nægja að ræða nánar það skilyrði sem þegar er nefnt. Að því gefnu sjáum við að það að nefna eitthvað líffæri, eða segja að við framkvæmum eitthvað með því, felur í sér miklu meira en að við notum það við framkvæmdina.

IV

Við notum heilann og ýmsar taugar við hlaup, en það hvarflar ekki að okkur að hugsa um þau sem líffæri hlaupa eða hreyfingar úr stað. Við hlaupum ekki með þeim. Það sem er átt við með því að segja að við notum þau við hlaup er að þessi líffæri taka þátt í—gegna ákveðnu hlutverki—í heildarhlaupaferlinu: Ferli sem leiðir til þess að fótleggirnir knýja líkamann áfram með vissum hætti. Þegar við hlaupum verða þessi líffæri að vera virk á þann veg sem gagnast hlaupi og eru nauðsynleg svo af hlaupi verði.8
      Núverandi staða þekkingar í lífeðlisfræði heimilar okkur að álykta að við notum heila okkar við hugsun, tilfinningu og skynjun. Reyndar heimilar hún nákvæmari ályktanir, til að mynd þá að við notum ákveðin svæði sjónbarkar þegar við greinum liti. Okkur er unnt að draga slíkar ályktanir vegna þess að ákveðin heilastarfsemi virðist ekki einasta nauðsynleg heldur er hún einnig hluti af hugsunar-, tilfinninga- og skynjunarferlinu. En ályktun þess eðlis jafngildir ekki þeirri niður­stöðu—sem er mun sterkari—að við hugsum með heilunum.
      Ekki er um það deilt að fætur eru nauðsynlegir til að geta hlaupið og hjarta til að blóðið rási um æðakerfið. Einnig eru heilinn og starfsemi hans að því er virðist nauðsynleg til hugar­starfsemi. Hvort þau eru nægjanleg er önnur spurning. Ég hef sagt að skilyrði þess að vera líffæri einhverrar starfsemi sé að líffærið geti framkvæmt þá starfsemi milliliðalaust. Við hljótum því að spyrja okkur hvort heilinn geti, sem nánasti gerandi, innt af hendi hugsun og aðra hugsun, skynjun, minni og því um líkt megi skilja sem milliliðalausa afurð heilastarfsemi.

V9

Nú ber að hafa í huga að hugarstarfsemi er fyrst og fremst viðskipti einstaklings og umhverfis10 (oftast viðskipti einstaklingsins við sitt nánasta umhverfi í tíma og rúmi en einnig við það sem fjær er): maður sér eitthvað (dæmi um sjónskyn), maður elskar einhvern (dæmi um tilfinningu), maður kallar fram liðinn atburð (dæmi um minni), maður leysir þraut11 (dæmi um hugsun í ströngum skilningi þess orðs).
      Viðskipti fela í sér samstarf, það er að segja til þess að af þeim geti orðið þurfa að koma til sögunnar tveir eða fleiri virkir aðilar sem vinna saman.12 Hugsum okkur að ég kaupi einhvern hlut í gegnum póstverslun. Hér er augljóslega um viðskipti að ræða. Til þess að af þeim geti orðið þarf ég að senda pöntun og annar gerandi—póstverslunin—verður að senda mér umbeðinn hlut heim. Margt fleira kann að þurfa að koma til, svo sem þátttaka fleiri aðila, til dæmis starfsfólks Pósts og síma. Kannski má líta á þessa viðbótaraðila sem baksviðsskilyrði viðskiptanna, því í raun gætu aðrir miðlarar komið í þeirra stað. Á hinn bóginn er það algerlega nauðsynlegt að ég sendi pöntun mína og að póstverslunin afgreiði hana til þess að viðskiptin, það er póstviðskiptin, eigi sér stað.
      Ég held að þegar við sjáum eitthvað, elskum einhvern, minnumst einhvers, eða leysum vandamál, þá beri að skilja þann hlut sem við sjáum, manneskjuna sem við elskum, atburðinn sem við minnumst og hið óleysta vandamál sem virkan samstarfsaðila í sjón, minni, ást og lausn vandans.13 Sé þetta rétt þá er þess lítil von að heilinn reynist fær um að annast þessi viðskipti, þótt hann virki alla sína starfsemi—taugaboð og efnaboð. Því sama er hvers heilinn kann að reynast megnugur, viðskiptunum verður ekki komið í kring án samstarfsaðila sem eru utan heilans og jafnvel utan yfirráðasvæðis hans og sem leysa af hendi sinn hlut í viðskiptunum.
      Lítum á sjónskyn. Til þess að það sem við köllum að „sjá eitthvað“ geti átt sér stað þarf að minnsta kosti sýnilegan hlut, ljós sem ferðast frá þeim hlut til augans, myndun ímyndar á sjónu, boðburð frá sjónu til heila um sjóntaug, úrvinnslu þeirra boða í sjónberki (og trúlega fleiri heilastöðvum) og að lokum að öðlast reynslu sem gefur okkur rétta mynd af hinum sýnilega hlut (en ekki handahófskennda, óreglulega, skynvillukennda eða að öðru leyti villandi). Ekki einasta verða allir þessir þættir að vera til staðar til þess að af sjón verði, heldur er nauðsynlegt að milli þeirra séu ákveðin orsakatengsl. Í grófum dráttum má segja að þeir þættir sem fyrst eru taldir verði að valda þeim síðari. En það sem meira er, allir þessir þættir fela í sér starfsemi annarra miðlara en heilans, til að mynda augasteina og viðtaka í sjónu. Það kemur engum á óvart að augað og einstakir hlutar þess eru samstarfsaðilar heilans um sjón.14 En það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu sambandi er virk þátttaka hluta sem eru ekki hluti sjáandans—í þessu tilfelli hinn sjáanlegi hlutur og ljósið sem hann sendir auganu. Án hlutar sem býr yfir getu og nýtir hana til að senda auganu ljós (rafsegulöldur) sést enginn skapaður hlutur.
      Hér einskorðum við okkur ekki við skoðun þeirra skilyrða sem eru forsenda þess að eitthvað sjáist, það er að enginn hlutur sést nema hann endurvarpi ljósi til auga. Heldur er athugun okkar skyldari þeirri sem varðaði pöntun og afgreiðslu í póstviðskiptum. Að sjá eitthvað er ákveðin tegund viðskipta milli sjáanda og sjáanlegs hlutar í umhverfi sjáandans. Báðir eru virkir—eru gerendur, og það sem meira er samstarfsaðilar—í þessum viðskiptum, og þátttaka þeirra sem samstarfsaðila skiptir öllu máli, ekkert getur komið í hennar stað í neinu því sem með réttu má nefna „að sjá“.
      Sé sjón skilin sem viðskipti af því tagi sem hér er lýst blasir við að heilinn getur ekki annast þau, þótt hann framkvæmi augljóslega ýmsa mikilvæga þætti viðskiptanna. Heilinn er því ekki líffæri sjónskyns. Við sjáum ekki með heilanum.15

VI

Ekki verður heldur sagt að við elskum með heilanum eða munum með honum. Því það að elska einhvern er að mynda og varðveita ákveðna afstöðu til manneskju16 sem vekur með okkur þessa afstöðu (samanber orðalagið „að vera hrifinn af henni“). Einstaklingur sá sem ástarinnar nýtur verður að búa yfir eiginleikum sem vekja eitthvað með okkur17 og til þess að við getum brugðist við þeim verða þeir að ná vitund okkar. Það tekst þeim gegnum skynjun af einhverju tagi.18 Ef ekki er til persóna sem vekur þessa afstöðu með okkur með því (meðvitað eða ómeðvitað, beint eða óbeint, ljóst eða óljóst) að senda okkur einhver boð, er útilokað við elskum. Að til sé persóna sem blæs okkur ást í brjóst með þessum hætti er nauðsynleg forsenda þeirra viðskipta „að elska einhvern“; sú persóna sem ástar nýtur er hér ómissandi samstarfsaðili nákvæmlega á sama hátt og sjáanlegur hlutur reyndist ómissandi samstarfsaðili í sjónskynjun. Segja má að það að minnast einhvers sé að skoða að nýju liðna atburði sem við skynjuðum áður fyrr. Og líkt og í fyrri dæmum, hinum sjáanlega hlut og elskaða einstaklingi, þá er hið liðna samstarfsaðili munandans þá hann minnist. Hafi ekki eitthvað í fortíðinni með einhverjum hætti náð athygli okkar er engin leið að við minnumst þess. Og ekki er því um að kenna að við leggjum ekki nógu hart að okkur, heldur hinu, að það að minnast einhvers eru viðskipti af því tagi að samvinna liðinna atburða er ómissandi. Heilinn getur ekki af sjálfum sér skapað ást eða minningar. Til þess þarf hann samstarf hinnar elskuðu19 og hins liðna. Við notum heila okkar til ásta og við að minnast einhvers, en heilinn er hvorki líffæri ástarinnar né minnisins.
      Jafnvel það að hugsa, sem kann að virðast eitthvað sem við gerum algjörlega upp á eigin spýtur, er þegar öll kurl eru komin til grafar svar við vanda sem við vorum leidd í. Á það jafnt við þegar við erum að hugsa upp snjallan mótleik í skák, eða hvernig við komumst norður þegar snjóskriða hefur lokað veginum til Akureyrar, eða gruflum í starfi hugans. Þótt hugmyndin um „vanda sem umhverfið býr okkur“ sé ekki jafn áþreifanleg og hugmyndin um hið elskaða og hið liðna, þá gegnir hún svipuðu hlutverki í hugsanaviðskiptum og hin elskaða vera og liðna atvik gegna í ást og endurminningu.

VII

Eins og þegar hefur verið minnst á er hugsanlegt að það sem heilastarfsemi getur gert sé að leiða af sér huglæga reynsluþætti—þætti af því tagi sem við nefnum hugsanir, tilfinningar, skynjanir og minningar.20 Með öðrum orðum virðist heilinn vera þess megnugur að skapa þannig þætti. Auðvitað er þetta ekki ný hugsun og trúlega nákvæmlega það sem þeir eiga við sem kjósa að tala um heilann sem líffæri hugsunar eða hugarstarfsemi.
      Á sjötta áratug þessarar aldar gerði kanadíski heilaskurðlæknirinn Wilder Penfield frægar tilraunir sem fólust í því að raferta bæði skyn- og hreyfistöðvar í heilaberki vakandi sjúklinga, sem þurftu að gangast undir heilaaðgerðir.21 Rafertingin kallaði fram ýmsar skynjanir, sýnir og minningar, eða að minnsta kosti það sem virtist vera minningar úr frumbernsku. Tilraunir af þessu tagi, ásamt þekkingu okkar á byggingu miðtaugakerfisins,22 virðast styðja þá hugmynd að rafboð og efnaferli í heilanum kunni að vera nægileg til að skapa ýmis konar hugarþætti.
      Samkvæmt þessu má ræða um heilann sem einhverskonar líffæri skuggamyndunar, það er líffæri sem getur af sér skugga (sem ég kýs að kalla svo) af ýmsu tagi: Hugsanir, tilfinningar, skynjanir eða gervi slíkra hugarþátta;23 og skuggarnir eru afurð heilastarfseminnar án milliliða. Þetta þarf ekki að þýða að skuggar séu eina afurð þessarar starfsemi. Ég er reyndar sannfærður um að svo sé ekki. Ég læt ekki heldur liggja að því að skuggar nái alltaf meðvitund, það er verði hluti af reynsluheimi okkar.
      Að þessu mæltu skiptir það miklu máli að átta sig á að skuggamyndun er alls ekki fullburða hugarstarfsemi. Sjónskuggamyndun er til dæmis ekki það sama og að sjá frekar en það að setja stút á munninn er það sama og að kyssa, né það að gera hlaupahreyfingar með fótunum jafngildi því að hlaupa.24
      Hugsum okkur til samanburðar geimfara sem byltist þyngdarvana í geimnum. Hann getur hreyft fætur sína eins og væri á harða hlaupum, en hann hleypur samt ekki. Hreyfingar fót­leggjanna knýja ekki líkama hans áfram eins og þær gera þegar um jarðbundið hlaup er að ræða. Þetta dæmi má nota til að bregða ljósi á hluti sem skipta miklu máli. Geta fótleggjanna til að framkvæma hlaup með því að hreyfa sig eins og um hlaup væri að ræða er skilyrt. Starfsemi þeirra, það er hlaupahreyfingar, leiða aðeins til hlaups við ákveðin skilyrði. Ákveðnar aðstæður eru nauðsynlegar til að fótahreyfingar skili tilætluðum árangri, það er að segja hlaupi eða hreyfingu af stað. Af þessum sökum hljótum við að hafna þeirri fullyrðingu að það að hlaupa sé ekkert annað en ákveðin hreyfing fótanna—að það sé sú hreyfing sem er átt við þegar við nefnum hlaup. Til þess að sú fullyrðing fái staðist verður hlaupahreyfing fótleggja skilyrðislaust að leiða til hlaups.
      Það mun reynast erfitt að skilgreina þær ytri aðstæður sem tryggja að hlaupahreyfingar fótleggja nægi til þess að eigandinn hlaupi. Meðal megin skilyrða eru trúlega að standa í fæturna, lítið umhverfisviðnám, föst jörð undir fótum og viðspyrna. Séu þessi skilyrði fyrir hendi ættu hlaupahreyfingar fótleggja að nægja til þess að knýja líkamann áfram.

VIII

Í ljósi þess sem nú hefur verið sagt um getu fótleggjanna til að framkvæma hlaup, að hún sé skilyrðum bundin, en við föllumst engu að síður á að við hlaupum með fótunum, þá getur einhverjum dottið í hug að með sömu rökum megi halda því fram að sjónskyn sé, þegar öllu er á botninn hvolft, milliliðalaus afurð heilastarfsemi—að við sjáum með heilanum. Starfi hinn „sjáandi“ heili við réttar ytri aðstæður mætti halda að það nægði eigandanum til að sjá. Með öðrum orðum skapar heilinn sjónskugga með starfsemi sinni; og slík skuggamyndun ásamt þessum ytri aðstæðum jafngildir sjónskyni, það er því að sjá.
      En hverjar þyrftu þessar ytri aðstæður að vera? Trúlega flestar eða allar þeirra sem áður voru taldar: sýnilegur hlutur, ljós sem hann endurkastar til augans, myndun ímyndar á sjónu, örvun og afskautun stafa og keila, boðburður frá sjónu til sjónbarkar. Og heilinn bregst við með því að mynda sjónskugga sem hæfa (svipað og fótleggirnir svara boðum frá taugakerfinu og hreyfast).
      En hér er sá hængur á að meðal þeirra ytri aðstæðna sem nauðsynlegar eru til að valda sjón, andstætt þeim sem við höfum séð að eru nauðsynlegar fótum til að valda hlaupi með hlaupahreyfingum, er starfsemi annarra virkra miðlara—samstarfsaðila heilans—en án þátttöku þeirra er tómt mál að tala um sjón. Því er ekki til að dreifa að heilinn geti, óháð starfsemi þessara þátta, myndað sjónskugga, sem að uppfylltum þessum ofangreindum skilyrðum geri það að verkum að sjónskuggamyndun jafngildi sjón. Því það að sjá jafngildir ekki því að mynda með sér sjónskugga sem ef til vill spegla eða tákna sjónræna eiginleika umhverfisins. Til þess að sjá verða sjónskuggarnir að vera bein afleiðing áhrifa slíkra eiginleika á sjáandann. Þátttaka fleiri samstarfsaðila en heilans er ómissandi og verður ekki ýtt á bak við tjöldin frekar en pöntunin í póstverslun.25
      Góð vísa verður ekki of oft kveðin. Heilinn einn og óstuddur sér ekki nokkurn skapaðan hlut. Það gerir augað ekki heldur, þótt við köllum það líffæri sjónarinnar (trúlega vegna gamalla kreddukenninga um getu þess). Það er sama hvað augað aðhefst; ekkert sést—jafnvel ekki við þær ytri aðstæður þar sem sjóngóð manneskja gæti séð—nema heilinn skili sínu. Og það má kveða fastar að ef rök mín standast: Það nægir ekki að auga, sjóntaug og heili leggist öll á eitt til að eitthvað sjáist, því virk þátttaka hins sjáanlega hlutar sem samstarfsaðila er óhjákvæmileg. Hann er aðili viðskiptanna og verður ekki vísað af sviðinu né settur bak við tjöldin.26
      Svipuðum rökum held ég að megi beita þegar fjallað er um tilfinningar eins og ást, um hugarstarf, til dæmis það að minnast einhvers og hugsa, og trúlega einnig um að gera sér eitthvað í hugarlund. Hugarstarf af þessu tagi verður ekki smættað í skuggamyndagerð heilans þar sem öllu öðru er ýtt á bak við tjöldin. Viðföng allrar þessarar starfsemi gegna, eins og sýnt hefur verið fram á, afgerandi hlutverki sem viðskiptaaðilar.

IX

Það sem að ofan er sagt um hlut heilans í hugarstarfsemi er í grófum dráttum á þessa leið: Trúlega getur heilinn, með myndun viðeigandi skugga, lokað þeim viðskiptum sem kallast að skynja, finna til og hugsa, og annarri því um líkri hugarstarfsemi, án þess að geta af sjálfum sér komið þeim viðskiptum í kring. Vera má að heilinn geti með starfsemi sinni myndað hugsana-, tilfinninga- og skynskugga milliliðalaust og sé í þeim skilningi líffæri sem fæst við hugar­starfsemi; en það gerir hann ekki að líffæri hugsunar og hugarstarfs. Með öðrum orðum er heilinn líffæri ófullburða hugarstarfsemi, ef svo má að orði komast: Hún er skuggakennd—jafnvel skuggaleg—andspænis þeirri hugar­starfsemi sem er fullburða og stálslegin. Ef við höldum okkur við þá skoðun að varmasneiðsjá sýni okkur hugarstarfsemi í gangi í heilanum, þá hlýtur hún að vera harla ófullburða.
      Nú má spyrja, að því gefnu að heilinn sé líffæri einhverrar hugarstarfsemi (fullburða eða ófullburða), hvort sú starfsemi fari fram í heilanum. Það kann að virðast augljóst að öll sú starfsemi sem heilinn annast eigi sér stað í honum. En hugum nánar að þessu: Við hlaupum með fótunum, en á hlaupið sér stað í fótunum? Hjartað knýr blóðrásina; eigum við þá að segja að blóðrásin eigi sér stað í hjartanu? Það blasir við að obbinn af blóðrásinni er utan hjartans í æðakerfinu, sem er lokað kerfi röra er beinir blóðinu á hringferð sinni um líkamann.
      Trauðla verður séð að einhver skýr merking felist í þeirri fullyrðingu að hlaup eigi sér stað í fótunum. Í raun er erfitt að segja nokkuð um hvar það eigi sér stað. Eigi að segja eitthvað sem máli skiptir um staðsetningu hlaups þá er það helst að kveða á um upphaf þess og lok (hann hljóp þaðan og hingað), eða um rás þess (hann hljóp meðfram ánni eða yfir háskólalóðina), eða um umhverfi hlaupsins (hann hljóp í skóginum eða á íþróttavellinum). Trúlega væri hægt að gera ítarlega grein fyrir öllu því rými sem hlaupari lagði að baki sér í ákveðnu hlaupi, en er það þar sem hlaupið átti sér stað? Það virðist harla handahófskennt að segja svo.
      Hlaup er aðeins eitt af mörgum fyrirbærum—sem flest eru ósköp venjuleg og vel þekkt—sem ekki verða staðsett með neinni nákvæmni. Ég kalla staðsetningu þeirra þokukennda.27 Það er einkenni slíkra fyrirbæra að hægt er að kveða á um vissa þætti staðsetningar þeirra af umtals­verðri nákvæmni en þegar segja skal hvar þau séu í raun—hvar þau eigi sér stað að öllu leyti—þá verður nákvæmnin minni en engin.
      Að sjálfsögðu er hlaupið með tilstilli fótanna og blóðið knúið um líkamann af hjartanu. En hreyfing fótleggjanna á sér ekki stað í þeim sjálfum neitt frekar en hlaupið átti sér stað í þeim, né heldur er hræring hjartans í hjartanu. Nær sanni er að leggirnir og hjartað hreyfist. Mér virðist að minnst sé hallað réttu máli með því að segja að hreyfingar þeirra eigi sér stað þar sem þau eru stödd á þeirri stundu.

X

Við höfum gert því skóna að tiltekin tegund hugarstarfsemi28 sé ef til vill komið til leiðar með starfsemi heila. Og næsta víst er að starfsemi heila fer fram þar sem hann er staddur. Ennfremur virðist að segja megi um ýmsa heilastarfsemi sem veldur tiltekinni hugarstarsemi að hún fari fram að því er virðist í ákveðnum hlutum heilans.29 Hvaða ályktanir verða dregnar af þessum og öðrum bollaleggingum fyrr í lestrinum um staðsetningu hugarstarfsemi?
      Hugum fyrst að fullburða hugarstarsemi: Hugsun, skynjun og geðshræringu. Ljóst er að sú starfsemi fer ekki fram í heilanum (þótt hlutar hennar geri það trúlega). Til þessa liggja tvær ástæður, ekki óskyldar. Sú fyrri felst í því að fullburða hugarstarfsemi af þessu tagi felst í við­skiptum sem er komið í kring með þátttöku fjölda samstarfsaðila, sem margir hverjir eru utan heilans og jafnvel utan áhrifasvæðis hans. Sumir ómissandi aðilar viðskiptanna eru meira að segja utan líkamans. Hin síðari kveður á um að erfitt sé að staðsetja viðskipti, jafnvel hin allra hversdagslegustu. Þau eru dæmi um fyrirbæri sem hafa þokukennda staðsetningu.
      Hugum aftur að dæminu um póstviðskipti. Ýmsum spurningum um staðsetningu þeirra fer ég létt með að svara: Hvar var ég staddur þegar ég útfyllti pöntunarseðilinn? Hvar var sjálft eyðu­blaðið? Hvert var heimilsfang fyrirtækisins sem sendi hlutinn? Eftir hvaða leiðum náði pöntun mín fyrirtækinu? Og eftir hvaða leiðum komst hluturinn í mínar hendur? En sé ég spurður hvar sjálf viðskiptin áttu sér stað þá verður mér orða vant. Allar tilraunir til að svara þessu með einhverri nákvæmni verða óhjákvæmilega geðþóttakenndar. Það væri ekki fjarri lagi að tilgreina Evrópu fremur en Afríku, eða á þessari plánetu fremur en á Mars. En jafnvel með þeirri léttúð sem við leyfum okkur dagsdaglega, þá liggur ekkert sannfærandi í augum uppi.
      Á sama hátt vefst fyrir okkur að skilgreina staðsetningu viðskipta á borð við skynjun og ást. „Hvar unni hann henni?“ er spurning sem hlýtur ekki gott svar nema að það sé handahófskennt: Svarið er örugglega ekki: „í heilanum á sér“! En hér gildir, eins og um önnur fyrirbæri með þoku­kennda staðsetningu, að spyrja má spurninga um viðskipti af þessu tagi sem hægt er að svara með talsverðri nákvæmni. Hvar varð hann ástfanginn af henni? Í París, eða jafnvel í herberginu sínu í Bouchardonstræti. Hvar var hann staddur þegar hann unni henni? Úti um allt, en kannski þó alltaf innan Frakklands og Belgíu. Tökum annað dæmi. Sé spurt: „Hvar sá hann kisa?“ þá er venjulega átt við: „Hvar var kisi þegar hann sá hann?“ eða: „Hvar var hann sjálfur staddur þegar kisa bar fyrir augu?“ Slíkum spurningum má oftast svara. En sé spurt um hvar sjónreynsla hans af kettinum átti sér stað, þá er spurt um hugarstarfsemi—viðskipti—og spurningin á sér ekkert nákvæmt svar sem ekki er geðþóttakennt.
      Ekkert af því sem hér er sagt felur í sér að þeir gerendur og sú virkni þeirra sem framleiðir hugarfyrirbæri séu á nokkurn hátt óefniskennd eða dularfull. Við höfum enga þörf fyrir ólönd eða ofurrými til að hýsa hugsun, skynjun, geðshræringu eða póstkröfuviðskipti.

XI

Beinum athygli okkar um stund að þeirri ófullburða hugsunarstarfsemi sem ég hef kallað skuggamyndun, sem getur verið milliliðalaus afurð heilastarfsemi. Fer hún fram í heilanum? Fer til dæmis sjónskuggamyndun fram í sjónberki? Það er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á þessari spurningu og hinni, hvort sú heilastarfsemi sem leiðir til skuggamyndunar fari fram í heilanum eða að minnsta kosti þar sem hann er staddur hverju sinni. Gerum ráð fyrir að síðari spurningunni megi svara játandi.30
      En segir það okkur að hugsun og skuggamyndun fari fram þar? Við sáum að hlaup á sér ekki stað í fótunum, eða þar sem fæturnir, þótt fótahreyfingar komi því til leiðar. Með hvaða rökum má ætla að skuggamyndun tengist heilastarfsemi á einhvern annan hátt en hlaup tengist fóta­hreyfingum?
      Þegar Penfield erti skynbörk vakandi sjúklinga sinna, urðu þeir fyrir ýmissi reynslu: Þeir fundu fyrir fiðringi í útlimum og víðar. Þegar sjónbörkurinn var ertur þá lýstu sjúklingarnir sjónreynslu sem var „nokkuð lífleg en án forms og merkingar—blikkandi ljós, myndlausir litir, rákir.“31 Erting heyrnarbarkar vakti líka skynjanir, „merkingarlausa og óræða—smelli, suð, dyni, nið.“32 Þegar hann erti hreyfibörk, þá kipptust útlimir til. Freistar það nokkurn til að halda því fram að kippirnir hafi átt sér stað í heilanum? En því er það meira freistandi að hugsa sér að stingirnir, suðið og leiftrin hafi gerst þar? Kannski vegna þess að erfitt er að koma þeim fyrir annars staðar! Það er þó tæplega næg rök að mínu viti.
      Þegar þetta er skrifað er plötuspilari minn að flytja tónlist. Berum saman tónlistarflutning græjanna og skuggamyndun heilans. Sé plötuspilarinn rannsakaður að hætti Penfields, með því að pota í innyfli magnara hans, flytur hann áreiðanlega alls kyns ískur, suð og ólæti. Af þessu getum við eflaust lært eitt og annað um starfsemi magnarans, þótt aðferðin kunni að þykja gróf. En hvers verðum við vísari um það hvar tónlistin myndast (nema kannski bara að það sé væntanlega á sama stað og ískrið og ólætin)? Ef við skoðum plötuspilarann með varmasneiðsjá, kemur það sennilega í ljós að einhverjar stöðvar í magnaranum (og reyndar í fleiri hlutum tækja­samstæðunnar) verði heitari þegar hann flytur tónlist þegar engin plata er á fóninum. En ég spyr enn og aftur, hvað sýnir þetta okkur um það hvar tónlistin myndast? Ef fólk hefur ekki nein hald­betri rök en þessi fyrir því að skuggamyndun fari fram í heilanum, þá get ég aðeins ráðið því að skoða hug sinn betur.
      Ég sagði áðan að hlaup væri aðeins eitt af mörgum dæmum um hvunndagsfyrirbæri með þokukennda staðsetningu, og ég fæ ekki séð hvers vegna skuggamyndun ætti ekki að vera í þeim hópi. Að einhverju marki má staðsetja hlaup í rými, til dæmis með því að kveða á um upphaf þess og lok. Aðrar spurningar um staðsetningu, hversu saklausar sem þær kunna að virðast í fljótu bragði, hljóta ekki svör sem eru í senn bæði skýr og ekki geðþóttakennd. Sumum spurningum sem varða staðsetningu skuggamyndunar má svara með talsverðri nákvæmni: „Hvar fann hann fiðringinn?“ „Í vinstri þumli.“ Engu að síður dreg ég í efa að ef spurt er almennt hvar skugga­myndun eigi sér stað að til sé nokkurt skýrt svar sem sé ekki um leið geðþóttakennt. Svarið „í heilanum“ hefur ekkert fram yfir önnur svör að því er virðist. Ég fæ heldur ekki séð að þetta sé knýjandi spurning.

XII

Samt virðist hún leita mjög á suma, ef til vill vegna þess að þeir ganga út frá því sem gefnu að fyrirbæri sem ekki verður vel fyrir komið í tíma og rúmi hljóti að vera leyndardómsfull og óefnis­kennd—eitur í beinum vísinda og efnishyggju eins og þau koma þeim fyrir sjónir. Við höfum þó bent á það að hlaup sé einmitt fyrirbæri af þessum toga; en hlaup er hvorki dularfullt né hafið yfir efnisheiminn. Hlaup fer hvorki fram í fimmtu víddinni né særir það fram ámáttka vofu frumspekilegrar tvíhyggju.
      Óneitanlega er skuggamyndun um margt dularfyllri en hlaup. Samt er ekki ríkari ástæða til þess að reyna að þvinga hana inn í ákveðin hólf í rúmi og tíma fremur en hlaup. Í stað þess að slíta sér út við að finna henni nákvæman stað væri nær að leita nýrra spurninga og frjórra um það efni. Þótt skuggamyndun sé nátengd heilastarfsemi er engin gild ástæða til að ætla að hún fari fram í heilanum eða til að halda eins og sumir að hún sé heilastarfsemi og ekkert umfram það. Það að staðsetning hennar er þokukennd—jafnvel í svartaþoku—er ekki sannfærandi ástæða.
      Við tölum um hlaup og finnum því stað í raunheimi vegna þess að slíkt viðhorf hefur hlutverki að gegna í kerfi lýsinga og skýringa sem við notum til að skipuleggja og skilja það sem fyrir okkur kemur. Þetta kerfi er kerfið sem á við um breytni lífvera og efnislegra gerenda af viðráðanlegri stærð. Það raskast ekki af þeirri staðreynd að hlaup og ýmis önnur breytni, meðal annars póstviðskipti, verða ekki staðsett með neinni nákvæmni. Og önnur lýsinga- og skýringakerfi, svo sem skammtafræði, stærðfræði og hugfræði raskast ekki heldur af því. Í fljótu bragði sé ég enga ástæðu til þess að hin þokukennda staðsetning skuggamyndunar skoðist sem vandamál, svo skelfilegt í augum þeirra sem ég kalla taugatrekkta, að þeir finna sig knúna til að gangast ekki við skuggamyndun eða til að smætta hana út í veður og vind. Gagnstætt þessu virðist mér að skuggamyndun eigi heima í kerfi lýsinga og skýringa sem við notum til að skilja hugarstarfsemi og annað sem fyrir okkur kemur. Mér virðist að það að gangast við skuggamyndun og eigna henni stað í heimi hér ógni hvorki því kerfi né neinu öðru lýsinga- og skýringakerfi sem okkur er kært.

(Greinin birtist fyrst í Hug – tímariti um heimspeki árið 1995. Hér birt með smávægilegum endurbótum)

Neðanmálsgreinar

1. Innblástur þessarar ritgerðar kemur frá ritgerð Peters Geach, „What Do We Think With?“, sem prentuð er í God and the Soul (London: Routledge & Kegan Paul, 1969), bls. 30-41. Í þeirri ritgerð er varpað fram mjög áhugaverðri spurningu en að mínum dómi valda svörin vonbrigðum. Í minni ritgerð reyni ég að orða sumt af því sem ég tel að Geach hefði átt að segja. Reyndar orðaði Geach sum þessara atriða á einn eða annan hátt og í heild eru viðhorf okkar nokkuð svipuð, enda erum við báðir ákafir fylgjendur Aristótelesar. Hér vil ég þakka Magnúsi Kristjánssyni, Sigurði J. Grétarssyni, Magnúsi Stephensen, Haraldi Ingólfssyni, Helenu Jónsdóttur, Vigfúsi Eiríkssyni og einkum og sér í lagi Þorsteini Gylfasyni fyrir að hafa lesið yfir ritgerðina í handriti og gert skarpar og hjálplegar athugasemdir. Góður vinur minn Jóhann Axelsson nýtur þó sérstöðu meðal samstarfsaðila minna í þessari ritsmíð—hann hefur verið mér ómetanlegs fulltingis við öll heilabrotin. Hafi ég hugsað og skrifað um þetta efni með einhverjum heila þá er það heila Jóhanns jafnt og mínum eigin. Vinstra heilahvel hans hefur að minnsta kosti reynst mér sérstaklega vel í því að koma þessari tilraun um heilann og hugann frá mér á íslensku. Ritgerðina tileinka ég Jóhanni og Þóri Kr. Þórðarsyni, sameiginlegum vini okkar og starfsfélaga sem nú er sárt saknað, en hann lést þann 26. febrúar 1995.

2. Þessu var haldið fram mun fyrr af Egyptum til forna, eins og fram kemur í papírus-handriti sem kennt er við Edwin Smith, en það fjallar um læknislist. Handritið er talið vera frá 16. öld fyrir okkar tímatal en er ef til vill mun eldra. Sú kenning að heilinn gegndi þessu hlutverki náði ekki fótfestu í hugmyndafræði Vesturlanda fyrr en á tíma Galens. Þrátt fyrir fylgni Hippókratesar við þessa skoðun, hafnaði Aristóteles hugmyndinni og áleit hjartað vera líffæri hugarstarfsemi.

3. Sjá Gerald D. Fischback, „Mind and Brain“, Scientific American 267 (September, 1992) 3, bls. 24-33.

4. Sjá Semir, Zeki, „The Visual Image in Mind and Brain“, Scientific American 267 (September, 1992) 3, bls. 43-50, einkum 45-47.

5. Á ensku „PET scan“.

6. Fylgjendur Humes gætu andmælt á þeim forsendum að það sem mestu máli skipti, nefnilega orsaka­hlutverk fótahreyfingar sem knýjandi afls í hreyfingu líkamans, sé ekki sjáanlegt, heldur fremur ályktað eða ávarpað. Hér er ekki tóm til að fjalla um þetta atriði; hugmyndinni um að „sjá fæturna knýja líkamann,“ eins og hún er notuð hér, er ekki ætlað afgerandi hlutverk.

7. Til dæmis verðum við að skoða starfsemi þess í samhengi líffærakerfis eða lífveru.

8. Þetta er ekki ströng nauðsyn; gera verður ráð fyrir að einhverjum þáttum ferlisins sé skipt út í stað jafngildra þátta.

9. Rétt er að nefna hér að kenningum mínum, eins og ég set þær fram í köflum V-XII, þótt þær séu um margt mitt eigið verk, svipar að einhverju leyti til hugmynda (og einkum til afstaðna) annarra manna. Sumar kjarnahugsanir mínar liggja í loftinu í ritum Ludwigs Wittgenstein; og fylgjendur hans—sérstaklega þeir sem eru einnig fylgjendur frumkvöðulsins Aristótelesar, eins og Gilbert Ryle, Elizabeth Anscombe, Peter Geach og John McDowell—hafa sagt ýmislegt sem stefnir í sömu áttina og það sem ég segi í þessari ritgerð; sjá einkum Ógöngur eftir Ryle (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2000), Intention eftir Anscombe (Oxford: Basil Blackwell, 1957), God and the Soul eftir Geach (sjá neðanmálsgrein 1), og Mind and World eftir McDowell (Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press, 1994). Þetta má kalla hefð sem á eftir að skilgreina sig betur; og segja má að ég, ásamt samkennara mínum Þorsteini Gylfasyni, tilheyri þeirri hefð og taki hér þátt í skilgreiningarstarfinu. Aðra hefð sem tekur svipaðan pól í hæðina má rekja til Georgs Wilhelms Friedrichs Hegel, sem var sjálfur undir sterkum áhrifum frá Aristótelesi; sjá einkum Phänomenologie des Geistes (Würtsburg & Bambert, 1807). Samkennari minn Páll Skúlason, sem er fylgjandi Hegels og Aristótelesar í þessum efnum, tekur skylda afstöðu í greininni „Hvernig rannsaka skal mannshugann“ (í Pælingum (Reykjavík: Ergo, 1987); greinin byggist á fyrirlestri fluttum á málþingi Félags sálfræðinema 24. Apríl 1982). Upp á síðkastið hefur skynjunarfræðingum dottið tengdar hugmyndir í hug; sjá til dæmis Evan Thompsons, Adrian Palacios og Francisco J. Varela: „Ways of Coloring: Comparative Color Vision as a Case Study for Cognitive Science,“ ásamt umsögnum og svörum, í Behavioral and Brain Sciences 15 (1992) 1, bls. 1-74.

10. Hér ber að nefna að orðið viðskipti er í þessari grein íðorð eða fræðiheiti að því leyti að þátttakendur í viðskiptum þurfa ekki nauðsynlega að vera manneskjur eða stofnanir, en fræðiheitið á líka við um venjuleg mannleg viðskipti. Til er ensk gerð af ritgerðinni sem var samin samhliða þessari. Þar nota ég transactions um það sem ég kalla hér viðskipti.

11. Í þessari ritgerð mun ég takmarka mig við þá tegund hugsunar sem nefna má „lausn þrauta“. Ég held því ekki fram að öll hugsun sé af þessu tagi. Engu að síður trúi ég að í öllum tilfellum sé fyrir hendi eitthvert tilefni hugsunar og að þetta tilefni, eins og verkefni eða „þraut“ sem umhverfið færir okkur í hendur, verði að teljast virkur samstarfsaðili í hugsun.

12. Þetta er nánast skilgreiningaratriði á grundvelli þess sem hér er átt við með viðskipti (sjá neðan­málsgrein 10) og á reyndar við um öll viðskipti.

13. Þorsteinn Gylfason spyr hvort þetta sé ekki annarlegt orðalag um liðinn atburð eða óleystand vanda (að kalla þá „virka samstarfsaðila“). Ég held að það sé óvenjulegt—jafnvel óvænt—frekar en annarlegt, sökum þess að dæmin eru óvenjuleg. Virkni slíkra þátta yfirsést, væntanlega vegna fjarlægðar þeirra í rúmi og sér í lagi í tíma.

14. Sjá nánar neðanmálsgrein 15.

15. Þessi ályktun kemur ekki á óvart sem slík, vegna þess að venjulega segjumst við sjá með augunum en ekki heilanum. Það er hinsvegar rangt, að minnsta kosti er það sú skoðun sem ég færi rök fyrir síðar í þessari ritgerð. Hin viðtekna skoðun að við sjáum með augunum gleymist aftur á móti þegar við horfum á myndir í varmasneiðsjá og teljum okkur trú um að við séum að horfa á sjónskynjun í heilanum.

16. Ef til vill getum við elskað verur sem ekki eru manneskjur; ég held mig við eðlilegasta dæmið til ein­földunar.

17. Þetta eru ekki nauðsynlega þeir eiginleikar sem við teljum okkur vera að bregðast við!

18. Þetta ferli getur verið mjög óbeint þegar um ást er að ræða. Til dæmis gæti einhver fellt ástarhug til mín eftir að hafa lesið ljóð sem ég orti.

19. Hér er að sjálfsögðu átt við annað en venjulegt samstarf tveggja aðila í gagnkvæmum ástarsamböndum.

20. Athugið að þessir þættir eru frábrugðnir hinni sálrænu virkni hugsunar, tilfinninga, skynjunar og minnis. Þá má hugsa sér sem afurðir slíkrar virkni.

21. Sjá til dæmis W. Penfield og T. Rasmussen, The Cerebral Cortex of Man (New York: Macmillan, 1950), W. Penfield og L. Roberts, Speech and Brain Mechanisms (Princeton: Princeton University Press, 1959) og W. Penfield, The Mystery of the Mind (Princeton: Princeton University Press, 1975).

22. Til dæmis að heilinn sé „innsti“ hluti taugakerfisins; í grófum dráttum: Aðfærsluhluti taugakerfisins, sá hluti sem liggur „inn á við“, endi þar; en affærsluhluti taugakerfisins, sá hluti sem liggur „út á við“, hefjist þar.

23. Sjónskuggi, til dæmis, er ekki sjónskynjun nema hann sé afurð þess að sjá.

24. Ryle ber sjón saman við kapphlaup í Ógöngum, þótt markmið hans sé svolítið annað en mitt markmið hér; sjá kafla hans sem fjallar um skynjun, bls. 213-245.

25. Skipting orsakaþátta í frumþætti og baksviðsskilyrði er alltaf að einhverju leyti afsprengi þeirrar greiningar sem við beitum hverju sinni. Það er oft völ á fleiri en einni greiningu. Samkvæmt einni verður ákveðinn orsakaþáttur talinn til frumþátta, en samkvæmt annarri jafngildri verður hann baksviðsskilyrði. Sveigjanleiki orsakagreiningar á sér þó takmörk. Ekki er hægt að líta á geranda af því tagi sem ég hef kallað ómissandi sem baksviðsskilyrði, eins og ég vonast til að hafa sýnt fram á.

26. Öllu fremur mætti líta á starfsemi augans sem baksviðsskilyrði þess að sjá. Því að hugsanlegt er að tækniþróun skapi verkfæri sem leysi augað af hólmi—verkfæri sem starfaði eftir gjörólíkum lögmálum; sem byggi til dæmis ekki til ímynd þess sem er viðfang sjónarinnar eða innihéldi ekkert sambærilegt við stafi og keilur augans. Það sem slíkt verkfæri þyrfti að gera væri að taka við ljósgeislum frá sjáanlegum hluti og sjá heilanum fyrir sömu upplýsingum (boðum) og auga myndi gera við sömu aðstæður: Með öðrum orðum þyrfti eitthvað að koma í stað augans og allrar starfsemi þess er varðar það að sjá. En ekkert þyrfti að koma í stað þeirra innri ferla sem eiga sér stað í auganu og því eru þau ekki „ómissandi“. En hvað yrði um sjónina án sjáanlegs hlutar og samsvarandi sjónskugga?

27. Í „What Do We Think With?“ (bls. 34-40) fjallar Geach um þokukennda staðsetningu hugsana í tíma, án þess að smíða sérstakt orð um fyrirbærið. Í þessari ritgerð er áherslan hins vegar á þokukennda stað­setningu ýmissa fyrirbæra (þeirra á meðal ósköp venjulegra fyrirbæra eins og hlaupa) í rými.

28. Það er að segja skuggamyndun, sem er ófullburða hugarstarfsemi.

29. Sem stendur vitum við litlu meira en það að ákveðnar heilastöðvar verða mjög virkar þegar ákveðin starfsemi hugans á sér stað. Af því leiðir ekki að þessar tilteknu hugsanir séu framkvæmdar með virkni þessara heilastöðva eingöngu. Hér er vert að hafa í huga orð hins mikla tilraunalífeðlisfræðings Pierre Flourens (1794-1867), sem skrifaði (1824): „Heilablöðin, litli heilinn, … , mænukylfan, mænan, taugarnar; allir hinir mismunandi og nauðsynlegu þættir taugakerfisins hafa sérstaka eiginleika, eigið hlutverk, mis­munandi verkun og þrátt fyrir hinn mikilfenglega margbreytileika eiginleikanna, hlutverkanna og áhrifanna, mynda þeir heildstætt kerfi. Þegar einn hluti taugakerfisins ertist, þá ertast allir hinir; einn hluti er áreittur, allir eru áreittir. Þetta eru samvirkandi viðbrögð. Einnig er hið ráðandi lögmál; það er hvarvetna; það stjórnar öllu. Taugakerfið er semsagt aðeins eitt stakt kerfi.“; tilvitnun í „Experimental Researches on the Properties and Functions of the Nervous System in the Vertebrate Animal“ í þýðingu (að hluta) Jules Kann. Prentuð í Wayne Dennis, ritstj., Readings in the History of Psychology. (New York: Appelton-Century-Crofts, 1948), bls. 139.

30. Þó að svo væri, myndi sá sem reyndi að staðsetja slíka heilastarfsemi með örkvarðanákvæmni, lenda í verulegum erfiðleikum; sjá til dæmis Daniel C. Dennett og Marcel Kinsbourne: „Time and the Observer: The Where and When of Consciousness in the Brain,“ ásamt umsögnum og svörum, í Behavioral and Brain Sciences 15 (1992) 2, bls. 183-247.

31. Henry Gleitman, Psychology (New York & London: W. W. Norton, 1981), bls. 43. Rétt er að nefna í þessu sambandi að erting Penfields á vissum svæðum öðrum leiddi til eðlilegra og skynsamlegra minninga eða minningagervi.

32. Gleitman, bls. 43.