Greinasafn fyrir merki: listir

Hugleiðingar um The Radicant eftir Nicolas Bourriaud

eftir Egil Arnarson

Gegn postmódernisma …

Nýlegt rit Nicolas Bourriaud, The Radicant, er augljóslega ákveðið uppgjör við postmódernisma og því tjóni sem sú stefna hefur valdið í samtímalistrýni. Hafi sú kenning verið hugsuð sem andóf gegn hvers konar eðlishyggju er ljóst að hún felst nú á dögum einkum í því að beita eðlis­hyggjukenndu sjónarhorni á viðfangsefnin, a.m.k. á sviði listar: Vegna áhrifa postmódernismans veitir listrýnirinn ekki sjálfu listaverkinu eða listamanninum sem slíkum áhuga, heldur hópnum sem hann er álitinn tilheyra. Og þar eð slíkir hópar, s.s. þjóðarbrot og takmörkuð málsvæði, eiga það á hættu að leysast upp í ólgusjó hnattvæðingarinnar, felst þessi sýn á listsköpun umfram allt í því að lýsa listamanninum sem hugsanlegu fórnarlambi þeirra sviptivinda sem leika um heim­inn allan og verður jafnvel í því að smætta hann niður í tegund í útrýmingarhættu.

Þessa sýn gagnrýnir Bourriaud með ýmsum hætti.

Fyrir það fyrsta er sérlega lítillækkandi að velta umfram allt uppruna listamannsins fyrir sér fremur en t.d. að forvitnast um hugmyndir hans og hvernig hann reynir að koma þeim til skila.

En eins og Bourriaud sýnir einnig fram á, má skoða postmódernisma sem rökrétt viðbrögð við endalok ákveðins efnahagsskeiðs á 8. áratugnum sem byggði á þeirri tálsýn, að við myndum ávallt njóta orkuauðlinda í ótakmörkuðum mæli. Samhliða þessu efnahagsskeiði á 20. öld ríkti módernisminn í listum sem heillaðist einmitt af óþrjótandi orku og sprengikrafti hennar. En þegar tímabili módernískrar róttækni í listum lauk og hvers kyns hugmyndir um stefnumark sögunnar glötuðu um leið trúverðugleika sínum, fylgdi því í fyrstu ákveðið sorgarferli sem einkenndist af stöðugum leik að ólíkum sögulegum stíltegundum. Síðar, þegar kalda stríðinu var lokið, hófst skeið eftirlendufræða og fjölmenningarstefnu, m.a. listrænnar. Aftur var þar um að ræða sögu­skeið sem rímaði við hnattvæðinguna og opnun nýrra markaða. Hins vegar nær þessi fjöl­menningarstefna ekki lengur að lýsa eða skýra nýjustu straumum og stefnum í samtímalist; sem „gagnrýnið skýringarmódel“ er fjölmenningarstefnan „í kreppu“ (184). Og þetta sýnir Bourriaud þegar hann lýsir verkum hinna ýmsu listamanna um heim allan.

… og gegn módernisma

En hvað á þá að taka við af fjölmenningarstefnu? Það er a.m.k. ljóst að ekki kemur til greina að hverfa aftur til 20. aldar módernisma, því hvað sem endalokum postmódernismans líður, þá er módernisminn áfram allt eins úreltur: sem stórsaga er hann allt eins ótrúverðugur og hann hefur verið síðastliðna áratugi. Þar fyrir utan geymir módernisminn ýmsa þætti sem vart er hægt að fallast á, svo sem algildisstefnu sem byggði þó aðeins á svæðisbundinni, þ.e. vestrænni, menningu er gat því aðeins birst á öðrum svæðum heimsins sem menningarleg nýlendustefna. Enn fremur heillaðist módernisminn alltaf af þeirri hugmynd að geta máð út fortíðina til þess að reisa nýja sjálfsmynd, þ.e. með því að rífa upp gamlar rætur og stinga nýjum í svörðinn – en þannig mætti einmitt lýsa róttækni.

Nýtt upphaf af þeim toga er þó með öllu óhugsandi, heldur Bourriaud fram, þar eð með „öllum þeim skarkala sem einkennir okkar tíma og endurspeglast í óreiðukenndri fjölgun menningar­afurða, mynda, miðla og athugasemda […] höfum við ekki einu sinni yfir myndrænu formi eða hugtaki að ráða sem mætti hugsa nýtt upphaf út frá og enn síður rökréttan valkost við umhverfið sem við lifum í.“ (48) Því þarf ekki að koma á óvart að „öll róttækni virðist hafa horfið úr listinni. Og ef hugtakið er notað til þess að lýsa einhverjum nýlegum verkum verður að viðurkennast að því býr að baki í senn leti og söknuður.“ (46)

Það sem er áhugavert í þessu sambandi er að Bourriaud lýsir engu að síður yfir hollustu sinni eða tryggð við „þá áætlun sem módernisminn hleypti af stokkunum [sem] viðburði á sviði hug­myndanna (um leið og maður tekur suma hluti fram yfir aðra)“ (36). Þannig lifir módernisminn áfram sem sannleiks-viðburður í skilningi franska heimspekingsins Alain Badiou, sem mætti skýra sem hugsjón er felur í sér ákveðið algildi (þ.e. fyrir allt mannkyn) en þarfnast mismunandi birtingarmynda fyrir ólík tímabil og aðstæður. Það sem Bourriaud virðist hafa í huga sem sannleiks-viðburð módernismans er hugsjónin um heimslist sem hvílir á sannri algildisstefnu (en ekki menningarlegri heimsvaldastefnu) og hrinti þeirri fjölmenningarsinnuðu eðlishyggju af stalli sem virðist búa í postmódernismanum. Þetta er það sem hugtök Bourriaud um annan nú­tíma (e. altermodernity) og rótskeyting1 (e. radicancy) snúast um.

Efnishyggja hendingarinnar

Það sem mér þótti sérlega ánægjulegt að finna í The Radicant – þar eð hún er ekki beinlínis hugsuð sem heimspekilegt rit – var að Bourriaud skyldi setja fram heimspekilegan og jafnvel frumspekilegan grunn að t.a.m. 1) höfnun sinni á því að skilgreina beri sjálfsemd út frá uppruna, 2) höfnun sinni á stórsögu módernismans og annarra stefna og að 3) upphafningu sinni á hinu brothætta eða fallvalta, hvort heldur það birtist sem veruháttur eða sem viðeigandi viðfangsefni lista (en allt eru þetta stef sem hann minntist á í fyrirlestri sínum í gær). Þennan fræðilega grunn sækir hann einkum í ein af seinustu skrifum franska heimspekingsins Louis Althusser þar sem hann setur fram hugmyndir sínar um „efnishyggju hendingarinnar“ eða „efnishyggju á­rekstrarins“. Um er að ræða hugmyndir sem Althusser kvaðst áður hafa leitast við að leiða af verkum Marx en sem skjóti þó fram að þeim síðarnefnda með mismunandi hætti aftur og aftur upp kollinum í verkum Machiavelli, Hobbes, Spinoza, Rousseau o.fl.

Með því að byggja á atómisma forn-gríska heimspekingsins Epíkúrosar og lýsingu hans á því hvernig allir hlutir hafi orðið til í árekstri sveigjandi ódeila sem þannig taki á sig fastmótaðar myndir, leiðir Althusser að því líkum að „sveigjan eða frávikin [séu] undirstaða alls veruleika“ (153): Allt byggir á tilviljanakenndum árekstrum, þ. á m. náttúrulögmál, sem og önnur lögmál, s.s. á sviði siðferðis eða fagurfræði; öll eru þau fallvölt og tímabundin þar eð nýr árekstur gæti leyst þau upp (og mun gera það fyrr eða síðar), eins og allt annað fastmótað skipulag. Því sé ekki fyrir neinum miklum uppruna eða ástæðu allra hluta fyrir að fara, hvað þá sameiginlegt eða nauð­synlegt stefnumark þeirra, heldur hefur einfaldlega ávallt verið til staðar tóm sem er fullt af stefnulausum ódeilum.

Svo við vitum í Althusser: „Við munum segja að efnishyggja árekstrarins sé einnig að öllu leyfi fólgin í því að hafna Lokatakmarkinu, hvers kyns tilgangshyggju, hvort heldur af röklegum, veraldlegum, siðferðilegum, stjórnmálalegum eða fagurfræðilegum toga. Við munum loks segja að efnishyggja árekstrarins sé ekki efnishyggja sjálfsverunnar (guðs eða öreigastéttarinnar), heldur ferlis, ferlis án sjálfsveru, sem lætur sjálfsverurnar (einstaklinga eða aðra) sem því fylgja þeirri skipan sem hlýst af þróun þess, án þess að hún hafi eitthvert ákvarðanlegt markmið.“2 Þar af leiðir að t.d. marxismi „árekstrarins“, sem Althusser er þá fulltrúi fyrir, yrði að fallast á að stórsagan um sigur öreigastéttarinnar markaði ekki endalok sögunnar, heldur aðeins sögulok kapítalismans (og e.t.v. því aðeins tímabundin en ekki endanleg sögulok). Með öðrum orðum getur aðeins verið að finna tímabundna merkingu innan sögunnar; sagan sem slík hefur enga tiltekna merkingu.

Rótskeyttir listamenn

Hvaða ályktanir ber listinni að draga af þessari heimspeki? Að mati Bourriaud er „fagurfræði sem byggir á efnishyggju árekstrarins vitaskuld andsnúin tilgangshyggju módernismans, sem boðaði ákveðna stefnu og upphaf listsögunnar“(157). „Listamenn sem vinna út frá þeirri […] hugmynd að menning sé eins konar verkfærakassi vita að listin á sér hvorki uppruna né frumspekilegt stefnumark og að verkin sem þeir sýna eru aldrei sköpuð heldur ákveðið stig í eftirfram­leiðslunni3. Líkt og efnishyggjusinnuðu heimspekingarnir sem Althusser dregur upp mynd af4 […] vita þeir hvorki hvert lestin [sem þeir taka] stefnir né hvaðan hún kemur. Þeim er líka alveg sama: þeir bara halda áfram.“(158)

Flakk af slíku tagi álítur Bourriaud vera æ meira einkennandi fyrir okkar tíma. Ekki er þar aðeins um að ræða hina fjármálalegu hlið hnattvæðingarinnar, heldur bætast til að mynda um 10 milljónir á ári við þann stóra hóp flóttafólks og farandverkafólks sem fyrir er. Aftur og aftur þarf fólk því að skjóta rótum, uppruni þess er orðinn flókinn og stefnan sem það tekur oft aðeins mörkuð til bráðabirgða. Um listamenn gildir hið sama: Þeir takast á við eigin samtíma með því að fást við hvað allar sjálfsmyndir eru orðnar óstöðugar, með því að sýna að sérhver skipan mála er tilfallandi en ekki nauðsynleg, ávallt sé til valkostur við ríkjandi skipulag og að rætur þeirra sjálfra séu aðeins tímabundnar. Til þess að orða þessa hugsun kynnir Bourriaud ýmis ný hugtök til sögunnar, svo sem „merkingarfara“ (e. semionaut) sem „ferðbúa“ (e. viatorize) eigin rætur, koma hreyfingu á þær til þess að skjóta aftur rótum á nýju svæði og flækja þær við aðrar rætur með aðstoð „þýðingar“ og verða þannig að nýjum „kreólum“. Vitaskuld þarf að lesa bókina til þess að fá fyllri mynd af því hvað felst í því að vera „rótskeyttur“ eða „rótskeytandi“ listamaður. En í þessu ferli leysa listamenn ekki upp eigin sjálfsemd heldur þróa hana áfram, enda „er það hreyfingin sem gerir sjálfsemd kleift að mótast“ (55).

Og hér?

Ef ég reyni nú – af veikum listfræðilegum mætti – að leita að dæmum um „radicant“ listaverk á þessari sýningu5, virðist mér sem ýmis þeirra fáist fremur við rætur íslenskrar myndlistarhefðar fremur en rætur t.d. sjálfsmyndar Íslendinga: Einar Garibaldi festir upp á vegg málverk eftir Kjarval sem búið er að loka í viðarkassa og gæti þannig beðið þess að verða sent á annað safn eða kannski í geymslu. Svo er að sjá sem Þór Vigfússon brjóti upp (með glerverki, þ.e. glerbroti) hluta af módernísku málverki eftir Svavar Guðnason á meðan Tumi Magnússon komi flæði á grunn­þætti þess í vídeóverki. Einar Falur Ingólfsson tekur ljósmynd af bænum Snartartungu í Bitrufirði og umhverfi þess frá sama sjónarhóli og W.G. Collingwood hafði málað landslagsmynd rúmri öld fyrr og dregur þannig fram muninn á mynd Collingwood og veruleikans í dag.

Leikurinn að rótunum nær þó út fyrir íslenska málverkið í endurprentun Rúríar á gamalli mynd af íslenskri stúlku – sem hún nefnir „That day …“ – og er væntanlega tilraun til þess að láta okkur varða þessa fjarlægu fígúru: hvað var stúlkan að hugsa um eða að upplifa þennan tiltekna dag? Ólöf Nordal sýnir nokkrar ljósmyndir af lömbum (annað þeirra ávallt tvíhöfða) á mosabreiðum með snævi þakin fjöll í fjarska. Allt saman mjög íslensk mótív – en telst þetta til að mynda vera „rótskeytt“ list? Um það er ég ekki endilega viss. Það virðist að talsverðu leyti velta á ætlun lista­mannsins.
Við getum einnig spurt okkur, að því gefnu að um „rótskeytt“ verk sé að ræða, hvort listamennirnir flæki rætur sínar við rætur annarra? Enn á ný skortir mig svör en mér kæmi á óvart ef ekki væri fyrir því að fara að einhverju marki. Ég kasta boltanum einfaldlega út í sal með þá spurningu – og til listafólksins sjálfs.

Brottför, þýðing og umræður

The Radicant er einkum lýsing á ýmsum straumum á listasviðinu sem má sjá verða til um heim allan um þessar mundir. Með endurteknum hætti boðar ritið þó ákveðna „pólitík“ (í breiðum skilningi) innan listarinnar, þ.e.a.s. það gefur vísbendingar um hvers konar list væri áhugaverð og mikilvæg í dag. Í umræðum gærdagsins var Bourriaud inntur eftir því hvort það væri ekki mótsagnakennt að vera í senn lýsandi og boðandi í greiningu sinni. Væntanlega hefur hann rétt fyrir sér þegar hann segir það ekki vera vandamál, enda fari það bara eftir samhenginu hverju sinni hvor hliðin það sé sem birtist hverju sinni á einum og sama peningnum.

Sú stjórnlist (eða „strategía“) sem Bourriaud ýjar aftur og aftur að í bók sinni (en skýrir þó ekki fyrr en í lok hennar) er nokkuð sem hann nefnir „brottför“. Eins og ykkur er kunnugt um er exódus notað um brotthvarf gyðinga úr Egyptalandi í Gamla Testamentinu. Til þess að skýra í hvaða skilningi Bourriaud notar orðið vitnar hann í þýska heimspekinginn Peter Sloterdijk, sem segir brottförina vera þann tímapunkt þegar „alla hluti þarf að endurmeta með hliðsjón af því hvort hægt er að bera þá með sér – jafnvel þótt það feli í sér þá áhættu að skilja eftir hvaðeina það sem er of þungt fyrir menn að bera.“ Í þessu fólust „umskiptin frá staðbundinni menningu til hirðingja­heimsins“ sem urðu kleif með því að þýða eldri kennileiti yfir í nýtt samhengi. Módernismi 20. aldar var dæmi um slíka brottför, að dómi Bourriaud: „listahefðir heimsins alls […] komu í ljós og voru metnar upp á nýtt“ frá sjónarhóli þeirrar stefnu. „Í dag,“ bætir hann við, „hefur sjónarhornið snúist við og spurningin er orðin sú hvernig listin getur skilgreint og búið í hnattvæddum menningarheimi, þvert á alla þá stöðlun sem hnattvæðing gerir ráð fyrir.“ Vandinn er nefnilega sá, að hnattvæðingin í senn staðlar heiminn sem við lifum í og veldur „sífelldri ókyrrð“ innan hans. Listamenn sem eru „rótskeyttir“ og taka þá pólitísku áskorun sem vandanum fylgir alvarlega „iðka þýðingu og skipuleggja umræður sem munu leiða til nýs sameiginlegs skilnings“. Þess vegna „verða þeir að koma hlutunum aftur á hreyfingu – koma af stað nýrri andófs-hreyfingu (counter-movement) – með því að hefja nýja brottför,“ segir Bourriaud að síðustu.

Að svo komnu máli vil ég aðeins gera tvær athugasemdir og kannski afmarka boðskap The Radicant þannig úr sitt hvorri áttinni.

Það kann að þykja athyglisvert að í verkum sínum nota Michael Hardt og Toni Negri hugtakið „exódus“ með svipuðum hætti: Það er með því að hverfa frá Veldinu (hinum fjölþætta kapítalisma vorra tíma) sem mergðin (sem postmódern ígildi öreigastéttarinnar) storkar því og nær að endingu að ráða niðurlögum þess. En í samanburði við þá kemur í ljós að „brottförin“ hjá Bourriaud er aðeins listræns eðlis, þ.e.a.s. að hún felst aðeins í því að tengja saman ólíkar „rætur“ með „þýðingu“ og skapa þannig „umræður“. Hardt og Negri ganga mikla lengra með því að sjá fyrir sér lýðræðislega stjórn mergðarinnar á sameiginlegum gæðum mannkyns.
Engu að síður velti ég því fyrir mér hvort áherslan á stjórnmál sé hér ekki of rík. Með því er ekki ætlunin að segja að list megi ekki vera pólitísk eða þá aðeins upp að vissu „magni“. Hins vegar virðist hættan vera sú að list verði umfram allt metin eftir því hvaða pólitíska boðskap hún hafi að geyma eða hvernig hún geti komið að notum í „baráttunni“. Ekki svo að skilja að þetta sé eitthvað sem hægt sé að saka Bourriaud um að iðka. En hvað sem líður öllu því áhugaverða sem er að finna í þessari bók hans virðist hún leggja of mikið upp úr þessum ákveðna þætti listarinnar.

Íslensk útgáfa af erindi sem haldið var í tengslum við málþingið Önnur Sjónarmið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, helgina 13.–14. ágúst 2011. Sjá nánar: http://www.listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/­tabid-2185/3362_read-27625/

Neðanmálsgreinar

1. Orðið „radicant“ sem er titill bókar Bourriaud er í frönsku lýsingarháttur nútíðar á sögn sem er þó aðeins til í latínu, þ.e. radicare, sem merkir að stinga rótum. (Enska sögnin „eradicate“ er einnig leidd af henni.) Þar sem „rótskjótandi“ virðist heldur óþjál þýðing á „radicant“ er orðið hér þýtt sem lýsingarháttur þátíðar, „rótskeyttur“ (sbr. harðskeyttur).

2. Louis Althusser: „Le courant souterrain du matérialisme de la rencontre (1982)“, Écrits philosophiques et politiques. Tome I, STOCK/IMEC: París 1994, s. 577.

3. Sjá bók Bourriaud: Postproduction. Culture as Screenplay: How Art Reprograms the World. Lukas & Sternberg. New York 2002. Sjá: http://www9.georgetown.edu/faculty/irvinem/theory/Bourriaud-Postproduction2.pdf

4. Hér er vísað í textann „Portrait du philosophe matérialiste“, Écrits philosophiques et politiques. Tome I, s. 595-596.

5. Sjónarmið – Á mótum myndlistar og heimspeki, Hafnarhúsi, 21. maí – 4. september 2011. Sjá: http://lista­safnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2182/3368_read-1768/date-1662/