Greinasafn fyrir merki: hlutverk heimspekinnar

Tilgangur lífsins

Eftir Henry Alexander Henrysson

I

Algengasta svarið við spurningunni hver sé tilgangur lífsins er án efa að slá henni upp í grín. Líklega höfum við öll séð myndabrandara þar sem síðskeggjaður vitringur situr einn upp í fjalli og snýr út úr spurningunni gagnvart örþreyttum og angistarfullum spyrjanda. Jafnvel Andrésblöð eiga sínar útgáfur. Það er eitt athyglisvert við þess konar afgreiðslu á spurningunni. Það er augljóst að stór hópur fólks telur ekki mikið vit í að eltast við hana. Það telur að okkur sé ekki ætlað að svara henni. Ég fylli hins vegar þann flokk sem telur að það sé vel hægt að velta henni fyrir sér. Það verði aftur á móti að varast að velja þær leiðir sem aldrei geta annað en veitt okkur annað en tómleika tilfinningu svipaða þeirri þegar langþráður hnerri rennur út í sandinn.

Það eru tveir kostir við að svara spurningunni hver sé tilgangur lífsins sem ber að forðast í lengstu lög. Sá fyrri er að reyna að svara henni með einstökum hugtökum eða skyndilausnum, sbr. „tilgangurinn er ást“. Inn á álíka leið kemur margs konar dulhyggja. Því miður er þetta sú leið sem margir feta þegar spurningin brennur á þeim. Á hinum endanum er fólk sem tekst á við spurninguna er reynir jafnframt að drepa henni (eða mikilvægi hennar) á dreif; s.s. með því að spyrja „hvað er átt við með ‘tilgangur’?“ Þetta er sú leið sem hefðbundin háskólaheimspeki hefur valið, ef hún á annað borð nennir að takast á við hana. Flestar kaffistofur heimspekikennara í vestrænum háskólum hafa orðið vitni að vandræðalegu flissi kennara sem rifja upp kjarkmiklar spurningar nemenda um merkingu og markmið mannlegs lífs.

Að vísu getur það nýst upp að vissu marki að velta fyrir sér hvað sé átt við með „tilgang“. Þannig er hægt að benda á misskilninginn sem getur komið upp ef við skiljum spurninguna á þann hátt að við eigum að leita eins og aðeins eins tilgangs. Það getur verið mjög villandi. Stundum er ekki síður mikilvægt að leita tilgangs í lífinu. Hamingjuleit er svipuð. Það eru margir litlir hlutir sem geta gert okkur hamingjusöm; sá sem leitar ávallt hamingjunnar sjálfrar getur auðveldlega farið á mis við slíka hluti. Og það geta einmitt verið sömu hlutir, eða gæði réttara sagt, sem fylla líf tilgangi. Þekking, vinátta, leikur og starf, fegurð og það að hugsa um þekkingu, vináttu, leik, starf og fegurð eru markmið í sjálfum sér sem gefa lífinu merkingu.

Hér að ofan var minnst á þá dulhyggju sem margir velja að fylgja. Þar á ég einnig við margs konar trú. Það er gjarnan að trúnni sem fólk snýr sér þegar það stendur frammi fyrir spurningunni. Fólk snýr sér svo að heimspekilegri leiðum þegar og ef trúin bregst. Sú heimspeki sem getur gagnast í þeirri leit er sú sem leitast við að skýra tilveru okkar og sjálfsmeðvitund. Í þessum skilningi er heimspekin leitin að skipulagi og tilgangi í allri þeirri óreiðu og tilviljunum sem við verðum vör við allt í kringum okkur í eðlilegri tilveru. Heimspeki sem fræðigrein bregst hins vegar gjarnan þessu hlutverki sínu, sbr. það sem sagt var um hefðbundna háskólaheimspeki hér að ofan. Þess í stað hefur heimspekin sem fræðigrein oft minnt á vitsmunanlegan kappleik þar sem leitað er að snoturri fléttu sem hefur lítið að segja fyrir það fólk sem leitar til heimspekinnar eftir svörum fremur en rannsókn að mögulegum svörum.

II

Öfugt við það hversu erfitt getur verið að henda reiður á hver sé tilgangur lífsins þá virðast menn eiga ákaflega auðvelt með að vera sammála um hvað sé tilgangslaust líf. Þetta tilgangsleysi sjáum við í því þegar lífið felst ekki í neinu öðru en einföldum verkefnum sem sífellt eru endurtekin án markverðrar niðurstöðu. Eða þá þegar menn njóta velgengni sem gerir ekkert nema að fylla hjarta þeirra af tómleika. Í framhaldi af þessu virðist það vera fremur borðleggjandi að leiða einfaldlega af þessu neikvæða viðhorfi annað jákvætt, þ.e. hvernig líf felur í sér tilgang. Sam­kvæmt þessari aðferð þá virðist tilgangur lífsins felast til dæmis í sköpun, þ.e. andstæðu endur­tekningarinnar. Eru það ekki þau sem beita sköpunarmætti sínum til að skapa gildishlaðna hluti, sem gætu ekki verið til öðruvísi, sem sýna okkur fram á hvað mannlegt líf snýst í raun og veru um? Hversu takmörkuð sem þessi niðurstaða er þá færir hún engu að síður grunn sem hægt er að byggja á.

Það eru til að minnsta kosti þrjú virðingarverð og ágæt svör við spurningunni um tilgang lífsins og koma þau öll fram sem andstæður við það tilgangsleysi sem minnst var á hér að ofan. Í fyrsta lagi sjáum við tilgang í því að ala af sér – og upp – afkomendur. Í öðru lagi lítum við upp til þeirra sem lifa skapandi lífi, t.d. farsælla listamanna. Við gerum okkur til dæmis grein fyrir að nöfn þeirra geta lifað lengur en nöfn jafnvel bestu tannlækna. Og í þriðja og síðasta lagi sjáum við ákveðinn tilgang í lífi fólks sem helgar líf sitt ákveðnum málstað eða málefni. Um slíkt líf leikur oft ljómi sem við dáumst að. Flestir viðurkenna til dæmis að án nokkurs vafa að líf Móður Teresu hafi verið innihaldsríkara en þeirra eigið, þrátt fyrir allar þær fórnir sem hún þurfti að færa fyrir því lífi. Ég tel ekkert þessara svara vera fullnægjandi, þó að ekki hvarfli að mér að hafna þeim; ég vil gjarnan láta þau leiða mig að öflugra svari þar sem þau eiga það öll sameiginlegt að ákveðinn þáttur í þeim krefst ítarlegri skoðunar.

Fyrst í stað skulum við bregðast við síðasta liðnum. Það er satt að maður getur gefið lífi sínu vissan tilgang með því að velja málefni sem maður vill helga sig. Á ævikvöldi er hægt að líta til baka og finna vissa fullnægju í því hvernig maður hefur eytt lífi sínu. Það sem er hins vegar athugavert við þetta viðhorf er að þessi tilgangur sprettur þá einungis af gildum manns sjálfs og að annað fólk getur haft sitthvað við þau að athuga. Líf sem hefur ekki verið helgað svo ákveðnum tilgangi þarf ekki að vera tilgangs- eða gildislaust. Þess vegna held ég að þau markmið sem menn setja lífi sínu geti verið ofmetin. Reyndar er allt eins líklegt að maður sem ekki hefur helgað líf sitt einu ákveðnu markmiði muni afreka meira og valda minni skaða á lífsleiðinni.

Ef við snúum okkur því næst að fyrsta svarinu þá er ekki hægt að neita því að barnauppeldi er gefandi svo ég tali nú ekki um að eiga þátt í því að skapa nýtt líf. Það er þó ekki þar með sagt að þetta skuli vera miðpunktur lífs okkar. Við eigum að krefjast lífs þar sem við setjum okkur sjálf í forsæti og þar sem þroskinn er okkar eigin svo lífið hafi einhvern tilgang. Öðruvísi er hætt við að við höfum hvort sem er lítið af okkur að gefa. Í framhaldi af því getum við litið á svar númer tvö. Það er almennt álitið að farsælir listamenn gefi mikið af sér til þess að bæta heiminn. Við dáumst að skapandi lífi listamanna og sjáum tilgang í lífsstarfi þeirra. En það ber að varast að leggja lífsstarf og líf einhvers að jöfnu. Spurningin „hver er tilgangur lífsins?“ snýst um hvernig ákveðinn ein­staklingur hagar lífi sínu. Það fer til dæmis ekki hjá því að okkur finnist eitthvað rotið (eða tilgangslaust) við líf margra listamanna, sama hversu stórfengleg sköpunarverk þeirra eru, ef þeir geta ekki svarað fyrir siðferðilegar gerðir sínar. Mesti durtur getur einnig horft upp á son sinn verða að prýðispilti án þess þó að það bæti upp þau ógæfuskref sem durturinn hefur stigið eða fylli ógæfu hans tilgangi.

III

Nú hef ég drepið á hvað ég tel vera athugavert við þau svör sem ég hef kynnt sem vinsælustu mögulegu svörin við spurningunni um hver sé tilgangur mannlegs lífs. Og hér að ofan minntist ég á hvers konar heimspeki gæti mögulega komist sem næst endanlegu svari við spurningunni. Að lokum langar mig því að til þess að rissa upp hvernig slíkt svar gæti litið út.

Eitt sinn spurði ég mér eldri og vitrari mann hvort hann vissi hver væri tilgangur lífsins. Hann hélt það nú. „Það er mikilvægast að gefa sér góðan tíma til þess að lesa sunnudagsblöðin og borða góðan mat“ var ráðið. Einhverjum kann að finnast þetta dæmi um útúrsnúning. Hver veit nema eitthvað sé til í því. Það sem er þó einmitt mikilvægast við alla leit að tilgangi lífsins er að ofmeta ekki grundvallaratriði mannlegs lífs þannig að þau hljóti að vera stærri og meiri en eitt stykki mannlegt líf. Sem mannverur komumst við vissulega ekki hjá því að leita eftir Tilganginum, einhverju svari sem nær yfir allt það sem brennur á okkur. Spurning sjálf virðist kalla eftir slíku svari. Í þess konar leit gleyma menn sér hins vegar og sjá ekki það sem liggur að fótum þeirra. Lífið verður okkur fyrst bærilegt þegar við förum að skilja og vera meðvituð um smáatriðin í lífi okkar; smáatriði sem verða svo óljós þegar við leitum að einhverju stærra. Grundvallaratriðið er svo sjálfljóst að við tökum ekki eftir því þegar stórt er spurt. Hér á ég við það grundvallaratriði að hver og einn sem spyr spurningarinnar um tilgang lífsins er á lífi. Hann er handhafi eins stykkis mannlegs lífs. Eins stykkis endanlegs mannlegs lífs, réttara sagt, sem um leið er svo óendan­lega dýrmætt þar sem það er eina lífið sem hverjum og einum áskotnast.

Við höfum aðeins einni skyldu að gegna við þetta líf og um leið er sú skylda tilgangur þess: Við eigum að breyta af skynsemi ef við ætlum að nálgast þau mögulegu gæði sem lífið býður upp á. Foreldri, listamaður eða sá sem hefur helgað líf sitt ákveðnu málefni lifir innihaldsríkara lífi með tilgang ef og aðeins ef viðkomandi leitast við að breyta skynsamlega. Líf foreldris sem virðir ekki rétt barns síns til þroska, líf listamanns sem hirðir ekki um tilfinningar þeirra sem næst honum standa og líf þess sem helgar sig aðeins einu verkefni sem getur jafnvel gengið á mannréttindi annarra hafa engan samhljóm með tilgangi mannlegs lífs. Það er vissulega flókið að gera sér grein fyrir því hvers vegna ranglæti er alltaf óskynsamlegt, en leitin að svari við þeirri spurningu er líka sú innihaldsríkasta sem fólk beitir skynsemi sinni í.

En hvað felst þá í því að „breyta rétt“? Hvernig finnum við hina réttu leið? Við þessu er að sjálf­sögðu ekkert einfalt svar en þó er ein almenn leið sem hægt er leggja upp með. Hversu óspennandi sem það hljómar þá hlýtur þetta að vera spurning um að feta einhvers konar meðalveg. Hér á ég við meðalveg milli þess að freistast til þess að veita sér sjálfsdæmi um siðferðileg málefni annars vegar og hins vegar að sættast gagnrýnislaust á viðtekin viðmið og huga aldrei að eigin velferð. Okkar eigin ánægja er besti áttavitinn til skynsamlegrar breytni svo lengi sem hún er ekki eini leiðarvísirinn. Það að hafa kjark til þess að feta þennan meðalveg sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, tilgangur lífsins.

(Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins þann 27. janúar 2001 og er hér endurbirt með ör­fáum breytingum)