Greinasafn fyrir merki: skynjanlegir eiginleikar

Teningaspil á kránni: Molyneux-vandinn á breskri nýöld

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Einu sinni sátu Englendingur, Skoti og Íri saman á krá. Á borðinu fyrir framan þá lágu teningar og þeir fóru að velta því fyrir sér hvort það sem þeir skynjuðu þegar þeir horfðu á teningana væri það sama og þeir skynjuðu þegar þeir þreifuðu á þeim. Englendingurinn sagði að sjónin gæti ekki ein og óstudd gefið okkur það sama og snertingin. Skotinn sagði að þótt það sem sjónin gæfi okkur væri þegar upp er staðið það sama og það sem við fengjum með snertingunni þá væri það eitt­hvað sem við þyrftum að læra sérstaklega. Írinn afgreiddi málið hins vegar endanlega með því að á borðinu væru í raun engir teningar og það væri út í hött að láta sér detta í hug að sjónrænar hug­myndir og snertanlegar ættu sér einhvers konar sameiginlegt viðfang óháð hugsun okkar eða skynjun.
        Svona getum við ímyndað okkur að hefði farið ef Englendingurinn John Locke (1632-1704), Skotinn Thomas Reid (1710-1796) og Írinn George Berkeley (1685-1753) hefðu skroppið saman á krána. Það var hins vegar annar Íri en Berkeley sem átti upphafið að því sem hér verður fjallað um. Árið 1688 spurði írski vísindamaðurinn William Molyneux (1656-1698) í bréfi til Locke hvort blindur maður sem lært hefði að greina kúlur og teninga með snertiskyninu einu saman mundi geta þekkt slíka hluti í sjón ef hann yrði skyndilega sjáandi. Þessi spurning hefur ýmsum orðið hugleikin síðan og er hún þekkt sem „Molyneux-vandinn“. Til grundvallar Molyneux-vandanum liggja í raun margar spurningar, svo sem um það hvernig við byggjum hugtök okkar yfir lögun hluta á skynjunum okkar og um það hvaða eiginleikar það eru sem við skynjum.
        Bresku heimspekingarnir Locke, Berkeley og Reid fjölluðu allir um Molyneux-vandann með einum eða öðrum hætti og ólíkar hugmyndir þeirra um bæði um eðli og viðfang skynjunar og um skiptingu skynjanlegra eiginleika í fyrsta og annars stigs eiginleika gegndu stóru hlutverki í mis­munandi efnistökum þeirra.

*

Skipting skynjanlegra eiginleika í fyrsta og annars stigs eiginleika er einna þekktust í fram­setningu Lockes í 8. hluta 2. bókar Ritgerðar um mannlega skilningsgáfu (An Essay Concerning Human Understanding) sem kom fyrst út 1689. Locke kallar eiginleika á borð við stærð og lögun fyrsta stigs eiginleika en liti, lykt, bragð, hljóð og hita annars stigs eiginleika.
        Hvað Locke á nákvæmlega við með annars stigs eiginleikunum hefur gjarnan verið talið túlkunaratriði en nokkuð ljóst þykir að hann telur annars stigs eiginleika hvíla á fyrsta stigs eigin­leikum. Hann talar um annars stigs eiginleika sem mátt hlutanna til að framkalla í okkur ákveðna upplifun og að þennan mátt hafi hlutirnir í krafti fyrsta stigs eiginleika sinna. Annars stigs eigin­leiki eins og litur er þá einhvers konar tilhneiging hlutarins til að verka á okkur á tiltekinn hátt og valda hjá okkur upplifun en hin raunverulega orsök þessarar upplifunar felst í fyrsta stigs eigin­leikum hlutarins eins og t.d. áferð og lögun yfirborðsins. Eitt grundvallaratriðið í þessari skiptingu er svipmótskenningin sem kveður á um að hugmyndir okkar um fyrsta stigs eiginleika líkist eða beri svip af eiginleikunum sjálfum en að hugmyndir okkar um annars stigs eiginleika geri það hins vegar ekki.
        Til að svipmótskenningin verði skiljanleg þarf að liggja fyrir hvað Locke á við með hugmynd eða ídeu. Í grófum dráttum gengur hugmyndakenningin út á að öll hugarferli séu skynjanir á svo­kölluðum hugmyndum. Hugmyndir Lockes eru nokkurs konar hugrænar myndir eða einingar. Hugmynd er viðfang skynjunar og hugsunar. Ef ég finn rósailm þá skynja ég rósailmshugmynd og ef mig klæjar í tána skynja ég tákláðahugmynd. Skynjunin sem slík er í rauninni alltaf sú sama, það er innihald hennar, hugmyndin, sem er mismunandi. Samkvæmt Locke eru bara tvær tegundir reynslu, skynjun (sensation) og hugsun (reflection). Það sem greinir reynslu mína af rósailmi frá reynslu minni af kláða í tánni er ekki skynjunin sem slík heldur viðfang hennar, rósailmshugmyndin. Hugmyndirnar eru því milliliðir í skynjuninni. Öðru megin höfum við skynjandann, þann sem þefar af rósinni, og hinu megin höfum við rósina sem þefað er af. Það sem er milli þeirra er hins vegar rósailmshugmyndin. Þar sem lykt er annars stigs eiginleiki þá líkist rósailmshugmyndin engum þeirra eiginleika sem eru í rósinni sjálfri. Hins vegar líkist hugmynd okkar um lögun rósarinnar eiginleika sem er í rósinni, þ.e. lögun hennar.
        Í 2. útgáfu Ritgerðar um mannlega skilningsgáfu, sem kom út 5 árum eftir 1. útgáfu eða 1694, hefur Locke m.a. bætt við umfjöllun um spurningu Molyneux.1 Hann vísar þar til spurningarinnar sem hinn lærði og verðugi herra Molyneux hefði sent honum í bréfi. Í ljósi svipmótskenningar Lockes hefur mörgum þótt undarlegt að hann skuli svara spurningu Molyneux neitandi. Ef hugmyndin sem blindi maðurinn hefur um teningslögun á grundvelli snertiskynjunar á teningum líkist teningslöguninni sjálfri og hugmynd hins sjáandi um teningslögun sem fengin er með sjónskynjun líkist teningslöguninni líka virðist liggja beint við að sjónskynjunar- og snerti­skynshugmyndin um teningslögun séu í það minnsta nauðalíkar. Hví ætti hinn blindi þá ekki að þekkja sjónskynshugmyndina þegar hún verður skyndilega á vegi hans? Það ætti að blasa við honum að þessi hugmynd væri af teningslögun.
        Það sem kann að liggja að baki hinu neikvæða svari Lockes er það sem hann telur sérstöðu sjónskynjunar. Sjónin ein og sér gefur okkur ekki teningslögunarhugmyndina beint heldur hug­myndir um liti og ljós. Á þær þarf svo að beita ályktunarhæfni til að fá út teningslögunarhugmynd. Það sem blasir við sjónskyninu þegar horft er á teninginn er tvívíð, skyggð litaskella. Gegnum reynslu höfum við svo lært að draga ályktanir af slíkum hugmyndum og breyta þeim í þrívíðar hugmyndir. En sá blindi sem skyndilega fær sjón hefur enga fyrri reynslu af sjónskynjun til að byggja á og við honum blasir því aðeins tvívíða litaskellan. Ef þessi túlkun er rétt byggir neikvætt svar Lockes við spurningu Molyneux á því að sjónskynið eitt og óstutt gefi aðeins hugmynd um annars stigs eiginleika á borð við lit, en ekki fyrsta stigs lögunarhugmynd.

*

Hughyggjusinninn Berkeley hafnar skiptingu Lockes í fyrsta og annars stigs eiginleika. Sam­kvæmt honum er tómt mál að tala um eiginleika hluta sem eitthvað umfram skynjanir okkar af þeim eða hugmyndir okkar um þær. Eiginleiki, hvort sem um er að ræða teningslögun eða rauðan lit, er einfaldlega það sama og hugmynd okkar um hann. Það er ekkert efnislegt að baki þessum hugmyndum, enginn sjálfstæður og óháður teningur að baki hugmyndum okkar um teninginn. Þar sem eiginleiki er ekkert annað en hugmyndin um hann er enginn grundvöllur fyrir skiptingu í tvær gerðir eiginleika eftir því hvort eiginleikinn líkist hugmyndinni. Þá værum við í raun að skipta hugmyndunum í tvo flokka eftir því hvort þær líktust sjálfum sér sem væri auðvitað fáránlegt.
        Í Ritgerð í átt að nýrri kenningu um sjón (An essay towards a new theory of vision)2 sem kom út 1709 tekur Berkeley sérstaklega fram að þær lögunarhugmyndir sem skynjaðar eru með sjóninni séu aðrar en þær sem skynjaðar eru með snertiskyninu og að þessi tvö skynfæri eigi engar sameiginlegar hugmyndir; við sjáum ekki það sem við snertum, eða öfugt. Berkeley telur, líkt og Locke, að sjónskynið eitt og óstutt gefi okkur ekki þrívíddarhugmyndir þar sem dýptar- og fjarlægðarskyn komi ekki til nema með reynslu. Þeir sem hafa reynslu af því að sjá og snerta hluti hafa lært að tilteknar sjónrænar hugmyndir og tilteknar snertihugmyndir eiga það til að fylgjast að og þess vegna tengjum við þær saman. En maður sem skyndilega fær sjónina hefur ekki þessa reynslu til að byggja á og dregur því enga ályktun um snertihugmyndir á grundvelli þess sem fyrir augu hans ber. Hið neikvæða svar Berkeleys við spurningu Molyneux sem hann ræðir stuttlega síðar í þessu riti sínu um sjónina liggur því beint við.

*

Eitt af helstu viðfangsefnum Reids í riti hans Rannsókn á mannshuganum um lögmál almennrar skynsemi (An Inquiry into the Human Mind on the Principles of Common Sense)3 sem kom út 1764 er að færa rök gegn hugmyndakenningunni sem hann greinir hjá Descartes, Locke, Berkeley, Hume og fleirum. Hugmyndakenningin er að hans dómi viðsjárverður gallagripur sem leiðir til efahyggju sem engum dytti í hug að aðhyllast nema fáeinum heimspekingum sem fjarlægst hafi almenna skynsemi. Reid lítur á sig sem málsvara almúgamannsins og leggur áherslu á að gengið sé út frá að það sem kalla má kenningar heilbrigðrar skynsemi um það hvernig skynjun gangi fyrir sig séu í heiðri hafðar.
        Meðal þess sem Reid finnur að hugmyndakenningunni er að samkvæmt henni eru hlutirnir í kringum okkur ekki bein viðföng skynjunar okkar heldur eru það hugmyndirnar. Hugmyndirnar eru óþarfa milliliðir sem þvælast bara fyrir, Reid segir okkur skynja hlutina beint og milliliðalaust. Þar með hlýtur hann að hafna skiptingunni í fyrsta og annars stigs eiginleika í þeirri mynd sem Locke setur hana fram. Þar liggur greinarmunurinn einmitt í því hvort hugmyndirnar um eiginleikana líkist þeim eða ekki og þar sem Reid losar sig við hugmyndirnar getur hann ekki stuðst við þessa kenningu. Reid segir eiginleikana vera í hlutunum sem við skynjum og að það sé enginn eðlis­munur sem slíkur á t.d. lögun og lit. Hann vill hins vegar halda í einhvers konar skiptingu í fyrsta og annars stigs eiginleika og gerir það á þeim grundvelli að skynjun okkar á hinum fyrrnefndu gefi okkur meiri upplýsingar um eðli þeirra en skynjun okkar á annars stigs eiginleikum gefur okkur. Munurinn á þessum tveimur gerðum eiginleika liggur því ekki í þeim sjálfum heldur í því hvernig okkur er eiginlegt að vinna úr þeim upplýsingum sem skynjunin gefur okkur. Úr skynjun á fyrsta stigs eiginleikum vinnum við hugtök sem gefa til kynna hvernig eiginleikinn er en úr skynjun á annars stigs eiginleikum fáum við hugtök sem gefa ekkert sambærilegt til kynna. Þessi greinarmunur liggur í eðli okkar en ekki í eiginleikunum sjálfum, ef við værum öðruvísi en við erum þá gæti þessi skipting eiginleikanna verið önnur. Af þessu má ráða að svar Reids við spurningu Molyneux blasi ekki við, enda gefur hann tvö mismunandi svör við henni á grundvelli ólíkrar túlkunar á því um hvað hún snýst.
        Reid nefnir Molyneux ekki á nafn en hann hefur samt spurningu Molyneux greinilega í huga á tveimur stöðum í fyrrnefndri bók. Í fyrra tilvikinu svarar hann spurningunni neitandi, þ.e. hann heldur því fram að blindur maður sem skyndilega fær sjón geti ekki strax þekkt lögun hlutanna með sjónskyninu. Þarna gefur hann upp svipaða ástæðu og þeir Locke og Berkeley, þ.e. að dýptarskynið vanti vegna reynsluleysis. Reid gerir greinarmun á upprunalegum skynjunum og aðfengnum. Upprunalegar skynjanir eru þær sem eðli okkar segir okkur strax að séu af tilteknum eiginleikum. Einu upprunalegu skynjanirnar sem sjónskynið veitir okkur, segir Reid, eru litur og sjáanleg lögun. Þetta er nokkuð líkt því sem Locke heldur fram um að það sem blasi við sjónskyninu séu aðeins litaðar skellur. Ljóst er að litur og sjáanleg lögun eru ekki eiginleikar sem áður blindur maður hefur getað numið með snertiskyninu og því má segja að svar Reids sé þarna að þeir eiginleikar sem við sjónskyninu blasa hljóti að vera aðrir en þeir eiginleikar sem snertiskynið fæst við.
        Síðar í rannsókn sinni fjallar Reid aftur um Molyneux-vandann í annarri útfærslu og gefur jákvætt svar. Hann segir að ef blindi stærðfræðingurinn Saunderson4 hefði fengið sjón og skoðað teikningarnar í fyrstu bók Evklíðs af athygli þá hefði hann með umhugsun áttað sig á því að þetta væru sömu formin og hann þekkti með snertiskyninu.
        Í þessari útfærslu er skortur á dýptarskyni ekki að skemma fyrir þar sem formin eru tvívíð. Þarna er líka sá munur að nú fær skilningurinn stærra hlutverk, sá blindi sem fær sjónina er ekki hver sem er heldur lærður stærðfræðingur sem hefur hugsað mikið um þessi form. Þarna má segja að Reid telji að um sé að ræða skynjun á fyrsta stigs eiginleikum. Ef Saunderson hefði fengið sjónina og skoðað evklíðsku teikningarnar þá hefði hann skynjað lögunina sem hann hefði áður skynjað með snertiskyninu. Lögun er fyrsta stigs eiginleiki, hugsun um hana felur í sér skilning á því hvernig hún er. Í fyrri útfærslunni er hins vegar um skynjun á annars stigs eiginleikum að ræða, litirnir sem blasa við eru fyrsta stigs eiginleikar og það sem fyrir hinn nýlega sjáandi ber eru í raun aðeins annars stigs eiginleikar sem hann er ekki farinn að beita skilningnum á til að leiða af þeim fyrsta stigs eiginleika.

*

Segja má að hugmyndir þeirra Lockes, Berkeleys og Reids um fyrsta og annars stigs eiginleika gegni mikilvægu hlutverki hjá þeim öllum er þeir takast á við Molyneux-vandann. Hjá Locke er hugmynd um þrívítt form á borð við tening auðvitað hugmynd um fyrsta stigs eiginleika og sem slík ætti hún að vera óháð því hvaða skynfæri við notum til að nálgast hana. Það er vegna tak­markana sjónskynsins og reynsluleysis hins áður blinda sem Locke telur að honum takist ekki í þessari fyrstu tilraun að nálgast fyrsta stigs hugmyndina og hann sé í raun fastur í hugmyndum um annars stigs eiginleika sem ekki eigi sér samsvörun í þeim hugmyndum sem snertiskynið gefur. Berkeley gefur sitt neikvæða svar á svolítið öðrum forsendum: hjá honum eru í raun allir eiginleikar annars stigs eiginleikar í þeim skilningi að ekki þýðir að leita að samsvörun fyrir hugmyndirnar um þá í neinu öðru. Þar með er enginn grundvöllur fyrir samanburði á hugmyndum sjón- og snertiskyns. Reid hefur svo með því að kasta hugmyndakenningunni fyrir róða fengið ákveðið frelsi fyrir sveigjanlegri útfærslur á Molyneux-vandanum. Með því að tengja skynjunina beint við eiginleikana veltur það meira á aðstæðum tengdum skynjuninni hvort hún er af fyrsta eða annars stigs eiginleikum.5

Erindi flutt í málstofunni Úr sögu heimspekinnar á Hugvísindaþingi 2008.

Neðanmálsgreinar

1. Locke, John (1975), An Essay Concerning Human Understanding, ritstj. Peter H. Nidditch. Oxford: Clarendon.

2. Berkeley, George (1975), Philosophical Works, Including the Works on Vision, ritstj. Michael R. Ayers. London: J. M. Dent.

3. Reid, Thomas (1997), An Inquiry into the Human Mind on the Principles of Common Sense, ritstj. Derek Brookes. Edinborg: Edinburgh University Press.

4. Nicholas Saunderson (1682-1739) var enskur stærðfræðingur. Hann missti sjónina ársgamall vegna bólusóttar.

5. Nýlega mátti lesa fréttir um að vísindamönnum hefði nú tekist að leysa Molyneux-vandann: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/taugaserfraedingar-svara-spurningu-sem-heimspekingar-hafa-velt-fyrir-ser-i-aldanna-ras Sú rannsókn sem þarna er vísað í leiddi í ljós neikvætt svar til að byrja með, þ.e. blindir sem fengu sjón gátu ekki fyrst um sinn þekkt lögun hluta með sjónskyninu, en sýndu þó örar framfarir eftir á. Þó segja má að þarna sé að finna eitthvert svar við hreinni empírískri túlkun á Molyneux-vandanum þá svarar þessi rannsókn ekki heimspekilegri spurningum um hvað liggi að baki neikvæða svarinu eins og ætti að vera ljóst af því að þeir þrír heimspekingar sem fjallað er um hér gefa allir neikvætt svar en á mismunandi forsendum. Meira um rannsóknina má lesa hér: http://news.yahoo.com/s/afp/20110410/sc_afp/­sciencehealthneurosciencevisionindia og hér: http://www.physorg.com/pdf221663372.pdf (Tenglar skoðaðir 25. apríl 2011)