Greinasafn fyrir merki: Martin Heidegger

Samhuglægni hjá Heidegger og Merleau-Ponty

eftir Jóhann Helga Heiðdal

Fyrir nokkru var hér á Heimspekivefnum birt grein eftir undirritaðan um samhuglægni í fyrir­bærafræði Husserls (http://heimspeki.hi.is/?p=2923).1 Í þessari grein er samhuglægni skoðuð hjá fyrirbærafræðingum sem komu á eftir Husserl: Martin Heidegger og Maurice Merleau-Ponty.

Tæki og tól Heideggers

Þótt Heidegger sé frægasti lærisveinn Husserls er heimspeki þeirra ólík um margt. Hér gefst ekki rúm til að ræða öll þessi atriði sem greina að heimspeki þeirra. Helsta atriðið er einfaldlega það að Heidegger vildi breyta viðfangsefni fyrirbærafræðinnar. Hann taldi það vera misskilning að hægt væri að finna sameiginlega og hlutlæga formgerð vitundarinnar eins og draumur Husserls kvað á um. Þess í stað vildi Heidegger breyta fyrirbærafræðinni í verufræðilega rannsókn á því sem er. Hann rannsakar sjálfið (Dasein)2 í hversdagsleika sínum; hvernig umhverfi þess og skilningur eru gefin í vitundinni áður en fræðileg íhugun á sér stað. Í þessu samhengi er að­greining Heideggers milli tvenns konar skilnings á hlutunum í umhverfi okkar sérstaklega mikilvæg. Greinarmunurinn felst í því sem Heidegger kallar að upplifa hluti sem tiltæka (zuhanden) annars vegar og fyrirliggjandi (vorhanden) hins vegar.3

      Greining Heideggers á Dasein byrjar á þeirri einföldu staðreynd að Dasein er alltaf til staðar í heiminum og hefur vissar fyrirframgefnar hugmyndir um veru sína áður en fræðileg hugsun á sér stað. Vísindalegur skilningur á heiminum og hlutunum í honum er með öðrum orðum atburður sem kemur á eftir okkar hversdagslega skilningi. Samkvæmt greiningu Heideggers skiljum við þá hluti sem verða á vegi okkur fyrst á tiltækan hátt. Tengsl okkar við hlutina í kringum okkur byggjast fyrst á því að við höfum viss not fyrir þá; til dæmis er blýantur til að skrifa með, hnífur er til að skera með, sími er til að hringja með. Þetta er viss tegund ætlunar, hlutir eru gefnir í reynslu okkar áður en fræðileg, vísindaleg íhugun á sér stað. Íhugun um eiginleika hlutanna, til dæmis um gerð þeirra og efnasamsetningu, er athöfn sem kemur síðar.

      Þessi fyrirbærafræðilega staðreynd bendir á óyggjandi hátt til samhuglægni. Vera Dasein í heiminum gerir ráð fyrir öðrum af því að: „Þetta leiðir til þess að samfara skilningnum er ávallt búið að varpa fram sérstakri mögulegri veru með öðrum og sérstakri veru sem beinist að verum sem byggja sama heim. Þar eð vera-í-heiminum tilheyrir grundvallar samsetningu Dasein er tilvist Dasein í eðli sínu vera-með-öðrum sem vera-á-meðal vera sem byggja sama heim.“4

      Mikilvægasta framlag Heideggers er greining hans á tólum (Das Zeug)5. Eins og hann bendir á eru tól notuð á ýmsan hátt. Þess vegna eru tólin ávallt nauðsynlega og óhjákvæmilega skilin innan viss samhengis. Ef við gerum okkur ekki grein fyrir samhenginu myndum við ekki geta notað tólið sem um ræðir: „Tól verða alltaf á vegi okkar innan samhengis. Sérhvert tól felur í sér samhengið og er aðeins þetta tól með tilliti til þess samhengis.“6

      Þannig skilur Heidegger öll tól út frá notkunarhætti þeirra.7 Tólin eru með öðrum orðum fyrst og fremst skilin út frá notkunarhætti þeirra, ekki með hjálp fræðilegrar íhugunar. Við getum aðeins skilið og notað eitthvert tól ef við höfum skilið það sem visst fyrirbæri og „aðeins ef við höfum nú þegar varpað skilningi okkar á notkunartengslin.“8 Við fáum á vissan hátt í kaupbæti samhuglægni með skilningi okkar á mismunandi tólum. Það stafar af því að við skiljum samtímis að aðrir hafa framleitt þessi tól, notað þau og kennt öðrum að nota þau. Hversdagsleg tengsl okkar við margvísleg tól gera nauðsynlega ráð fyrir öðrum sjálfum. Þetta er grundvallareiginleiki tilvistar okkar sem við komumst ekki undan. Eins og Heidegger útskýrir: „Í notkun tóla er Dasein alltaf einnig nú þegar mjög vel að sér í tilvist-með-öðrum og það skiptir engu máli hvort annað Dasein sé raunverulega til staðar.“9 Það er því ekki hægt að skilja hann öðruvísi en á þann hátt að fyrirbærafræðileg reynsla okkar af hinum eigi sér ekki upprunalega stað við fyrstu kynni. Hinn er alltaf nauðsynlega fyrirframgefinn í allri reynslu Dasein frá upphafi. Þótt annað sjálf hefði aldrei orðið á vegi okkar samanstæði tilvist okkar samt sem áður af tilvísunum í önnur sjálf. Þetta er óumflýjanlegur eiginleiki tilvistarinnar, fyrirbæri sem Heidegger kallaði Mit-Sein.

      Það er því misskilningur að við finnum okkur fyrst í heimi og hittum seinna meir önnur sjálf, sem svo leiðir til ýmissa heimspekilegra vandamála (sem allir heimspekingar ættu að kannast við.) Vera-með-öðrum er fremur grundvallar eiginleiki Dasein frá upphafi og þannig inn­byggður eiginleiki tilverunnar. Heidegger sér hið svokallaða vandamál um aðra huga sem gervi-vandamál sem gufar upp þegar ítarleg fyrirbærafræðileg greining á Dasein í hversdagsleika þess á sér stað. Hann skrifar:

Dasein er ekki fyrst aðeins vera-með-öðrum og rís þaðan í veru-með-einum-öðrum í hlutlægan heim og kemst þannig út úr hlutunum. Þessi nálgun myndi vera alveg jafn misheppnuð og huglæg hughyggja sem byrjar út frá sjálfi sem svo útvegar sér viðfang fyrir sig. Að byrja með ég-þú (I-thou) sambandi milli tveggja sjálfa myndi leiða af sér að fyrst væru tvö sjálf sem seinna kæmu svo á sambandi sín á milli. Líkt og Dasein er alltaf í grunninn með-öðrum er það einnig í grunninn með því tiltæka og nærliggjandi. Á sama hátt er Dasein heldur ekki fyrst aðeins á meðal hluta og uppgötvar svo annað slagið þessa hluti með sína eigin tilvist. Heldur er Dasein vera-með-öðrum og verum sem dvelja í sama heim.10

Afstaða Heideggers til fyrirbærafræðilegrar samhuglægni er því sú að tilvist okkar, sem grund­vallast á veru-í-heiminum, gerir alltaf þegar ráð fyrir hinum í gegnum félagslega vídd Dasein. Fyrirbærafræðileg greining á Dasein og tilvist þess leiðir þennan sannleika í ljós.

Merleau-Ponty og líkamleg vera-í-heiminum

Merleau-Ponty deilir innsýn Heideggers í mikilvægi tóla og áhrif þeirra á hinn samhuglæga heim. Hann nýtir sér einnig hugtak Heideggers um veru-í-heiminum sem grundvallareiginleika tilvistar­innar. Fyrir honum erum við alltaf umlukin sameiginlegum menningarheimi sem inniheldur ýmsa hluti sem þjóna ólíkum markmiðum. Þessir hlutir gera beint ráð fyrir öðrum sjálfum og spila mikilvægt hlutverk í reynslu okkar af heiminum og hinum: „Einhver notar pípuna til að reykja, skeiðina til að borða, bjölluna til að hringja inn, og það er í gegnum skynjunina á mannlegri gjörð og annarri manneskju sem skynjunin á menningarheimi er staðfest.“11 Að hans mati fer þessi aðgerð fram undir vissri nafnleysis blæju eins og hann lýsir því.12 Hún vísar sem sagt ekki til neinnar sérstakrar félagslegrar persónu sem við höfum persónuleg kynni af heldur til hins nafn­lausa hins og ópersónulegu heildarinnar.

      Ólíkt Heidegger sem tefldi fram mjög abstrakt greiningu á formgerð tilvistar Dasein, leggur Merleau-Ponty mikla áherslu á líkamleika. Hann vill afhjúpa heiminn og hinn í raunverulegri skynjun okkar á þeim. Til að þetta sé mögulegt er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að öll skynjun á sér stað út frá líkama okkar og sjónarhorni hans. Líkamar okkar hafa vissa stað­setningu í rúminu sem hefur mikil áhrif á það hvernig hlutir eru skynjaðir. Þetta er atriði sem lítið hefur verið gert úr í vísindum og heimspeki að mati Merleau-Ponty. Í gegnum nákvæma fyrirbærafræðilega greiningu er hægt að brjótast úr viðjum gamalla, kreddukenndra hugsunar­hátta og kenninga um samband hugar og líkama, kenninga sem leiða af sér heimspekileg vandamál um tilvist annarra huga og upplifun okkar á hinum. Hann skrifar: „Tilvist annarra er vandamál og svívirðilegt fyrir hlutlæga hugsun.“13 Það er aðeins þegar við setjum okkur í hlutlægar, vísindalegar og/eða fræðilegar stellingar sem dagleg fyrirbæri eins og samhuglægni og hinn verða að einhvers konar erfiðu, óútskýrðu heimspekilegu vandamáli. Því segir hann: „Skynjun á öðru fólki og hinum samhuglæga heim er aðeins vandamál fyrir fullorðna.“14

      Fyrir Merleau-Ponty er heimurinn því samhuglægur alveg frá byrjun. Til að undirstrika þennan punkt nýtir hann sér dæmi úr uppeldissálfræði. Hann beinir spjótum sínum að ungabörnum og reynslu þeirra. Hann var mjög áhugasamur sálfræðilegar rannsóknir á börnum og taldi þær geta sagt okkur margt um reynslu okkar og skynjun á heiminum.15 Í frægu dæmi ritar hann:

Fimmtán mánaða gamalt barn opnar munninn ef ég að gamni tek einn fingur þess og læst bíta hann. En samt þarf barnið varla að horfa á andlit sitt í spegli og tennur þess eru ekki eins og mínar. Staðreyndin er sú að munnur þess og tennur, eins og það finnur fyrir þeim að innan, er um leið fært um að fram­kvæma sömu aðgerð. Bit hefur samstundis, fyrir barninu, samhuglægt mikil­vægi.16

Ungt barn getur um leið áttað sig á ætlun hins, tileinkað sér hana og framkvæmt sömu aðgerð. Hvernig ber að skilja þetta? Barnið er ljóslega of ungt til að geta framkvæmt einhvers konar huglæga íhugun. Merleau-Ponty ræðir einnig hliðstæðurök sem kveða á um að við yfirfærum okkar eigin upplifun og reynslu yfir á aðra en kemst að því að þau eru ófullnægjandi og hafnar þeim.7

      Annað atriði sem Merleau-Ponty bendir á er að reynsla okkar af hinum þarfnist ekki neinnar hugrænnar áreynslu. Þegar við skynjum tilfinningar einhvers svo sem reiði, sorg, pirring skynjum við ekki hinn fyrst og drögum síðar ályktun um hugarástands hans og hvernig honum líður. Við skynjum beint tilfinninguna sjálfa:

Ég skynja hinn sem hluta af hegðun, til dæmis, ég skynja sorgina eða reiðina í atferli hins, í andliti hans eða höndum án þess að vísa til neinnar „innri“ reynslu sorgar eða reiði. Og af því að sorg og reiði eru ólíkar leiðir til að tilheyra heiminum, án skiptingar í líkama og vitundar og eiga jafnt við atferli hins, sjáanlegar í fyrirbærafræðilega líkama hans, og eigin atferli eins og það birtist mér.18

Þetta hefur víðtækar afleiðingar, ekki bara fyrir fyrirbærafræði eða skilning á samhuglægni heldur gjörvalla heimspekisöguna. Ef við fylgjum Merleau-Ponty skiljum við kartesíska tvíhyggju hugar og líkama við okkur. Óhætt er að segja að sú áhrifamikla og lífseiga afstaða sé helsta skotmark ekki bara Merleau-Pontys heldur einnig Husserls og Heideggers. Skynjun okkar á hinum er bein skynjun. Við skynjum ekki aðeins líkamann sem vísbendingu um að eitthvað eigi sér stað innan í þessum hlut sem er fyrir framan okkur, einhvers konar huga sem er okkur ósýnilegur. Samband hugar og líkama er flóknara og allt annars eðlis en Descartes og hinir mörgu fylgjendur hans skildu það. Með hjálp Merleau-Pontys brjótumst við út úr því kverkataki sem gömul og úrelt hugtök hafa enn á okkur og takmarka þannig skilning okkar.

      Merleau-Ponty vildi, líkt og Husserl, viðhalda annarleika hins. Hinn er alltaf skynjaður sem annar og því, jafnvel þótt við skynjum tilfinningar hins beint, eru þær ekki mínar tilfinningar. Það er mikilvægt að þessi greinarmunur þurrkist ekki út. Það myndi útrýma greinarmuninum á sjálfinu og hinum eins og hann bendir á: „Páll þjáist af því hann hefur misst konuna sína eða er reiður af því að úri hans var stolið. En ég þjáist hins vegar af því að Páll er sorgmæddur, eða ég er reiður af því að hann er reiður, og aðstæður okkar geta ekki verið yfirfærðar inn í hver aðra.“19 Þótt hinn sé alltaf gefinn í fyrirbærafræðilegu reynslu okkar og sé eitthvað óhjákvæmilegt og frumstætt, grundvallar eiginleiki tilvist okkar og reynslu, er hinn samt sem áður skynjaður sem hinn. Skynjanir sjálfsins og skynjanir hins eru tvö ólík fyrirbæri.

Eins og við höfum séð tekur Heidegger upp þráðinn frá Husserl og undirstrikar mikilvægi samhuglægni enn frekar með að sýna fram á hvernig hinn er alltaf gefinn í hversdagslegri tilvist okkar í gegnum tól. Merleau-Ponty nýtir sér það besta úr báðum fyrirrennurum sínum en fer á sama tíma fram úr þeim og kemur með sterkar og sannfærandi fyrirbærafræðilegar lýsingar sem stangast á við gamlar og úr sér gengnar hugmyndir um sjálfið, líkamann, hinn og samhuglægni. Ef fyrirbærafræðileg afstaða er tekin upp hverfa ýmis gömul heimspekileg vandamál sem lengi hefur verið glímt við. Eitt af því er vandamálið um aðra huga. Eins og fyrirbærafræðingurinn Dan Zahavi orðar það: „Vandamálið um aðra huga er nákvæmlega eitt af þessum gervi-vandamálum sem hafa allt of lengi byrgt heimspekingum sýn.“20

      Hér hefur verið stiklað á stóru en ég hef reynt að draga fram aðalatriðin varðandi fyrirbærafræði og hvernig hún hefur tekist á við samhuglægni. Ég hef einblínt á Heidegger og Merleau-Ponty þar sem þeir eru hvað áhrifamestu hugsuðir stefnunnar. Vissulega mætti nefna mun fleiri sem hafa lagt mikið af mörkum, hvort sem þeir kalli sig fyrirbærafræðinga eða ekki.21 En þetta ágrip ætti þó að vera nóg til að sýna fram á að fyrirbærafræði hefur alls ekki vanrækt eða vanvirt mikilvægi sameiginlegrar reynslu okkar og upplifun okkar á hvert öðru heldur þvert á móti er það eitt af helstu viðfangsefnum fyrirbærafræðinnar og hefur hún alið af sér margar og frumlegar uppgötvanir sem allir þeir sem standa í deilum um svipuð efni í samtímanum myndu græða mikið á að kynna sér betur.

Neðanmálsgreinar

1. Björn Þorsteinsson hefur þýtt „intersubjektivitet“ sem „samveruleika“ í Zahavi, D. Fyrirbærafræði (Reykjavík: Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan, 2008) sjá orðalista, bls. 125. Að mínu mati nær sú þýðing ekki merkingu orðsins almennilega, þar eð það undirstrikar ekki nóg að þetta sé huglægt fyrirbæri sjálfsverunnar. Í þessari grein styðst ég þó að ýmsu leyti við þýðingar Björns á fyrirbærafræðilegum hugtökum í riti Zahavis.

2. Björn Þorsteinsson þýðir hugtakið „Dasein“ sem „þarveru“, í Fyrirbærafræði, bls. 126.

3. Björn Þorsteinsson fjallar m.a. um þennan greinarmun í „Hvernig er hægt að útskýra heimspeki Heideggers á mannamáli?“. Vísindavefurinn 27.1.2009. http://visindavefur.is/?id=18095. (Skoðað 10.4.2011).

4. Heidegger, M. The Basic Problems of Phenomenology, A. Hofstadter þýð. (Bloomington: Indiana University Press, 1982), bls. 278.

5. Das Zeug er hugtak sem erfitt er að þýða (eins og mörg önnur hugtök Heideggers). Ég notast hér við tól en það er þýtt sem equipment á ensku. En ég vil undirstrika að með þessu hugtaki á hann ekki aðeins við tólin eða hlutina sem við notum í daglegu lífi, það er víðfeðmara. Tól eru alltaf upprunalega skilin á merkingarbæran hátt sem fyrirbæri sem hægt er að gera eitthvað með og það er þessi eiginleiki, til-þess-að (in-order-to á ensku) sem Heidegger er einnig að reyna að fanga með hugtakin

6. Heidegger, M. The Basic Problems of Phenomenology, A. Hofstadter þýð. (Bloomington: Indiana University Press, 1982), bls. 292.

7. Sama rit, bls. 292.

8. Sama rit, bls. 293.

9. Sama rit, bls. 292.

10. Sama rit, bls. 296-297

11. Merleau-Ponty, M. Phenomenology of Perception, C. Smith þýð. (New York.: Routledge Classics, 2002) bls. 405.

12. Sama rit, bls. 405.

13. Sama rit, bls. 406.

14. Sama rit, bls. 413.

15. Fyrir ítarlega skoðun og gagnrýni Merleau-Pontys á barnasálfræði síns tíma og mikilvægi skynjunar barna sjá: Merleau-Ponty, M. „The Child’s Relations with Others.“ Í The Primacy of Perception, W.Cobb, þýð. (Evanston: Northwestern University Press, 1964).

16. Merleau-Ponty, M. Phenomenology of Perception, C. Smith þýð. (New York.: Routledge Classics, 2002) bls. 410.

17. Sama rit, bls. 410. Hér þarf þó að taka fram að Merleau-Ponty, þrátt fyrir að ráðast hér á hliðstæðurökin, byggir að mestu leyti á vinnu Schelers sem hann minnist einnig á. Fyrir ítarlega, fyrirbærafræðilega gagnrýni á hliðstæðurökin sjá rit Schelers, The Nature of Sympathy.

18. Sama rit, bls. 414-41

19. Sama rit, bls. 415.

20. Zahavi, D. „Beyond Empathy. Phenomenological Approaches to Intersubjectivity“. Í Journal of Consciousness Studies, 8/5-7, 2001, bls. 151-167 og bls. 154-155.

21. Til dæmis Scheler, Stein, Levinas, Hartmann, Sartre, de Beauvoir, Ricoeur, Derrida svo einhverjir séu nefndir, en áfram mætti lengi telja.