Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar

Vísindaaðferð nútímans

Francis Bacon
1561-1626

„Menn hafa leitast við að skapa heim úr eigin hugmyndum og draga fram úr eigin hugarfylgsnum allan efniviðinn sem þeir notuðu, en ef þeir hefðu, í staðinn fyrir að gera það, tekið mið af reynslu og athugun þá hefðu þeir staðreyndir en ekki skoðanir til að rökræða um og kynnu að lokum að hafa öðlast þekkingu á þeim lögmálum sem stjórna efnisheiminum.“

Bacon átti þátt í að þróa tilraunaaðferð nútímavísinda. Hinn ungi Francis hafði ekki mikinn áhuga á skólaspekinni sem hafði drottnað yfir menntun hans í háskóla. Hjá skólaspekingunum var vísinda­leg rannsókn að mestu leyti skrifborðsvinna. Þeir vörðu mestum hluta tíma síns í að ígrunda verk Aristótelesar og setja saman rökfærslur í rökhenduformi og sýndu litla viðleitni til að skoða heim­inn í kringum sig í raun og veru.

Bacon taldi þessa aðferð forheimskandi og þróaði aðra aðferð til vísindarannsókna sem eindregið byggðist á tilraunum og athugunum. Hann ráðlagði vísindamönnum að safna gögnum og gera tilraunir til þess að ákvarða hvenær fyrirbæri eru til staðar og hvenær þau er ekki að finna.

Bacon sjálfur framkvæmdi margar slíkar tilraunir og uppgötvaði til dæmis að geislarnir sem sól og eldur senda frá sér innihalda hita en geislar sem tunglið og stjörnur senda frá sér gera það ekki.

Hið endanlega markmið vísinda, taldi Bacon, ætti að vera að færa sönnur á grundvallarlögmálin sem stjórna náttúrunni. Hann varð á undan Popper með að leggja áherslu á að vísindamenn ættu ekki aðeins að kosta kapps um að sanna tilgátur sínar með tilraunum heldur einnig að afsanna þær. Það er mikilsvert ekki aðeins að finna gögn til stuðnings tilgátu heldur einnig að útiloka tilgátu endanlega.

Bacon lagði líka áherslu á mikilvægi þess að byggja upp réttar stofnanir til vísindalegra rann­sókna. Hann áleit að vísindin væru fyrst og fremst samfélagsleg starfsemi, rannsóknir væru hóp­vinna. Bacon gerði tilraun til að setja á stofn „skóla“ (college) búinn tilraunastofum þar sem vísindamenn gætu í sameiningu beitt hinni nýju vísindaaðferð. Því miður fékkst ekki nauðsynlegt fjármagn til þess frá ríkinu. En hópur eðlisfræðinga fór samt að koma saman á miðjum fimmta áratug sautjándu. aldar til að fjalla um hugmyndir Bacons og þetta leiddi að lokum til stofnunar Hins konunglega félags (the Royal Society) árið 1660.

Glapsýnirnar fjórar

Í Nýja verkfærinu (New Organon) útskýrir Bacon hvers vegna hann telur að vísindamenn ættu, áður en þeir beita hinni nýju vísindaaðferð hans, að ráðast í dálitla persónulega hreinsunar­aðgerð með því að losa sig við „glapsýnirnar“ fjórar sem hann álítur að sé annars líklegt að afbaki hugsun þeirra.1 Þessar glapsýnir eru tilhneigingar eða annmarkar hugans sem geta komið í veg fyrir að hann öðlist réttan skilning á náttúrunni. Bacon skiptir þeim í fjóra flokka:

1. Glapsýnir mannkynsins: Þetta eru meðfæddar tilhneigingar sem við búum öll yfir og fela í sér:

  1. tilhneigingu skilningarvitanna til að blekkja okkur um það sem er þarna í raun og veru (Bacon ráðleggur nákvæma notkun vísindatækja til að leiðrétta þessa annmarka),
  2. hneigð okkar til að þröngva meiri reglu og skipulagi upp á náttúruna en þar er í raun og veru (á sama hátt og okkur hættir til að sjá andlit í eldsglæðum eða skepnur í skýjunum),
  3. hneigð okkar til óskhyggju og
  4. tilhneigingu okkar til að hrapa að niðurstöðum áður en nægileg gaumgæfileg rannsóknarvinna hefur farið fram.

2. Glapsýnir hellisins: Ólíkt glapsýnum mannkynsins geta þessar glapsýnir verið breytilegar frá manni til manns og eru afleiðing hins sérstaka menningarlega bakgrunns okkar. Við höfum til að mynda tilhneigingu til að skoða fyrirbæri út frá fyrirfram gefnum sjónarmiðum okkar. Okkur hættir líka til að bera óhóflega virðingu fyrir og fara eftir skoðunum þeirra kennivalda og sérfræðinga sem við höldum sérstaklega upp á.

3. Glapsýnir markaðstorgsins: Þetta eru hindranir fyrir skilning og rökhugsun sem stafa af samskiptum manna og sérstaklega af tungumálinu. Bacon varar við notkun óljóss og óskýrs fag­máls. Hann mundi án efa fordæma sem glapsýnir markaðstorgsins hið gervivísindalega hrogna­mál sem sumir nýaldarhugsuðir samtímans tala. Bacon telur að tilhneiging til að nota málið af of miklu skeytingarleysi og ónákvæmni geti orsakað vandamál um gjörvöll vísindin. Einkum telur hann að vísindamenn hneigist til að ímynda sér og nefna hluti sem eru ekki til.

4. Glapsýnir leikhússins: Við heillumst af því glæsilega og tilgerðarlega og það getur leitt okkur burt frá sannleikanum. Þær kenningar og kreddur sem við erum vel kunnug geta fengið á sig sér­stakan dýrðarljóma og við getum orðið bergnumin af þeim, eins og við erum til að mynda af leik­sýningu. Vísindamenn hafa einnig tilhneigingu til að reyna að útskýra alla hluti á stórbrotinn hátt á grundvelli nokkurra tilvika eða út frá einni innsýn. Sú hugmynd að til að mynda næstum allt sem hver sem er gerir nokkurn tíma megi skýra sem afleiðingu reynslu í bernsku ber án efa vott um þá tilhneigingu sem Bacon hefur í huga. Jú, stundum getur reynsla í bernsku haft sterk áhrif á hegðun manneskju síðar á ævinni, en sá sem blæs þessa athugun upp í flókna kenningu sem skýri mannlega hegðun almennt væri eflaust sekur um að ýkja mikilvægi tiltölulega einfaldrar hugmyndar.

Kóngulær, maurar og býflugur

Bacon setur fram geðfellda líkingu til að lýsa hvernig hann telur að vísindin ættu að sækja fram. Hinir hefðbundnu frumspekingar, segir Bacon, líkjast kóngulóm sem spinna flókna vefi sem svífa í loftinu og eru allir úr efni framleiddu úr þeirra eigin líkama. Reynslusinnarnir – svo sem gullgerðarmennirnir – líkjast á hinn bóginn maurum sem safna efni ötullega saman en búa aldrei neitt til úr því. Vísindamenn, segir Bacon, ættu að líkjast býflugum sem ekki aðeins safna saman nýju efni heldur melta það líka og umbreyta því. Starf vísindamanna er ekki einungis að safna gögnum, þó það sé mikilvægt, heldur einnig að búa eitthvað til úr þessu efni – þeir ættu að stefna að því að þróa kenningar sem geri þeim kleift að skilja, skýra og spá út frá því sem þeir rannsaka. En það sem þeir búa til verður að byggjast á því sem þeir hafa rannsakað.

Þeir sem áður hafa fengist við vísindi kvartar Bacon:

[…] hafa annaðhvort verið tilraunamenn eða kreddumenn. Tilraunamennirnir líkjast maurnum, þeir bara safna og nota; rökhugsuðirnir líkjast kóngulóm sem búa til kóngulóarvefi úr eigin efni. En býflugan fer bil beggja: Hún safnar efni sínu úr blómum garðsins og vallarins en umbreytir því og meltir það með eigin hæfileika. Ekki ósvipað þessu er hið sanna verkefni heimspekinnar; því hún treystir hvorki eingöngu eða aðallega á hæfileika hugans né tekur hún efnið sem hún safnar frá náttúrusögu og vélrænum tilraunum og safnar því eins og það leggur sig í minnið heldur safnar því í skilninginn breyttu og meltu. Þess vegna má vænta mikils af nánara og hreinna bandalagi milli þessara tveggja hæfileika, þess sem fæst við tilraunir og hins vitsmunalega (bandalagi sem aldrei hefur verið komið á fót).

Auðvelt er að gleyma því að vísindin, eins og við skiljum þau nú, eru ný af nálinni. Á eftir tungu­málinu má vel vera að þau séu mesta uppfinning okkar. Hin nýja aðferð til að skilja heiminn sem Bacon hjálpaði til við að þróa átti eftir, á aðeins fjórum öldum, að gerbreyta lífi okkar.

Okkur getur láðst að viðurkenna einmitt hversu hraðar framfarir í vísindum hafa verið. Á einungis fjórum öldum höfum við uppgötvað rafmagn, deyfilyf og fúkalyf, komið okkur upp tölvum og gervi­tunglum, uppgötvað byggingareiningar efnisins og horft út að ystu mörkum alheimsins; við höfum farið niður á botn úthafanna, gengið á tunglinu, öðlast skilning á grundvelli æxlunar og hvernig lífið þróaðist. Án aðferðanna sem Bacon átti þátt í að þróa hefði ekkert af þessu gerst.2

Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Glapsýn er þýðing á enska orðinu „idol“ sem m.a. merkir skurðgoð eða falsguð. Bacon no-tar það í merkingunni „fölsk hugmynd eða ranghugmynd“. Í íslenskri þýðingu Heimspekisögu Skirbekk og Gilje eru idola Bacons kölluð „hugarvillur“. – Gríska orðið sem hugtakið „idol“ á rætur að rekja til þýðir skuggamynd eða vofa. – Þýð.

2. Grein þessi er þýdd úr bókinni The Great Philosophers: The Lives and Ideas of History’s Greatest Thinkers (2007) eftir breska heimspekinginn Stephen Law. Bókin er safn stuttra greina um 50 heimspeki­lega hugsuði. Law er höfundur allmargra bóka, m.a. The Philosophy Gym, Believing Bullshit og Humanism. Hann er ritstjóri heimspekitímaritsins THINK – philosophy for everyone. – Þýð.

Menntun tilfinninganna

eftir John Macmurray1

Meðal skólamanna er vaxandi viðurkenning á því að brýna nauðsyn beri til að mennta tilfinning­arnar rétt.2 En mér virðist ekki vera neinn samsvarandi skilningur á eðli viðfangsefnisins svo að viðleitni til að fullnægja þörfinni hefur, þegar allt kemur til alls, einkennilega tilhneigingu til að ónýta markmiðið. Hinar hefðbundnu aðferðir sem hafa nú sem betur fer að mestu leyti verið lagðar niður, eða hafa alltént fallið í ónáð, hafa verið þær að beita ströngum aga þar sem börnum er refsað og þau bæld niður. Það mundi almennt vera viðurkennt að í sínum verstu myndum var þessi gamaldags agi hrottafenginn og að líklegt væri að í grundvallaratriðum reyndust afleiðing­arnar hörmulegar. „Lögreglumanns“-afstöðu kennarans til barnsins hefur að mestu leyti verið skipt út fyrir mannúðlegri afstöðu. En þó er ástæða til að spyrja hvort eldri afstaðan hafi ekki verið skárri en sumar þeirra aðferða sem hafa komið í staðinn, einkum þær sem byggjast á því að höfða til „betra eðlis“ barnsins. Hinar eldri ögunaraðferðir, þó að þær byggðust á ótta, forðuðust samt hinar lúmskari hættur að notfæra sér náttúrlega ástúð barnsins og virðingu þess fyrir valdi.
      Ég hygg við verðum að fallast á að menntun tilfinninganna er ögun eðlislægra viðbragða manndýrsins. En spurningin sem skiptir máli snýst um hvað átt er við með aga. Fyrsti greinar­munurinn sem við verðum að gera er greinarmunur á aga sem er þröngvað upp á með valdi og þess aga sem uppgötvast í reynslunni. Þessar tvær tegundir aga eru í grundvallaratriðum ólíkar. Það kann að vera auðveldara að skilja þennan greinarmun með vísun til vitsmunalífsins. Hægt er að aga hugsunina, eins og gert var á miðöldum, með kennivaldi. Kreddufesta miðalda sagði við hugsuðinn: „Þetta er sannleikurinn. Þú verður að læra að hugsa á þann hátt að þú komist að þessum og þessum niðurstöðum. Gerirðu það ekki er hugsun þín slæm hugsun vegna þess að við vitum að þessar niðurstöður eru hinar sönnu.“ Slík ögun hugsunar, eins og við ættum öll að vera sammála um, er hugsanakúgun. Henni tekst að tryggja samræmi hjá öllum hugsuðum og forðast þannig ágreining og deilur. En hún gerir það með því að gera út af við sjálfar uppsprettur raunverulegrar hugsunar. Í samanburði við þetta er nútíma vísindaleg hugsun frjáls og ókreddu­bundin. En hún er ekki óöguð. Hún finnur agann í viðleitninni að afla þekkingar, í hinu óþvingaða vitsmunalega starfi sjálfu. Hún er öguð af þeirri nauðsyn að tryggja raunverulega samsvörun hugmyndanna og þess sem hugsunin er um. Afleiðingin er fjöldinn allur af kenningum og niður­stöðum, stöðug barátta milli hugsuða sem eiga í samkeppni, sannkallað hugmyndastríð. Samt erum við öll sammála um að slíkt frelsi sé einmitt aflvaki hugsunar; og alltént í orði styðjum við frelsi einstaklingsins til að hugsa sjálfstætt.
      Munurinn á hinum tveimur tegundum aga á tilfinningasviðinu er nákvæmlega sá sami. Agi valdsins hefur að markmiði að tryggja bælingu þeirra tilfinninga sem eru álitnar óviðurkvæmilegar og hlúa að tilfinningum sem eru lofsverðar og góðar. Þetta er án efa gerlegt. Það stuðlar að sam­ræmi, að árekstralausum félagslegum samskiptum, að því að viðhalda hefðinni. En það tekst einungis með því að gera út af við hina frjálsu sjálfkvæmni tilfinningalífsins. Gegn þessu kreddubundna valdi verðum við að beina trú okkar á frelsi einstaklingsins til að finna til sjálfur, að þroska eigin tilfinningagáfur og leitast við að uppgötva gildi lífsins, ekki með því að viðurkenna samræmdar góðar tilfinningar og ekki heldur með því að þröngva fræðilegum hugmyndum um góðleik upp á tilfinningalíf sitt, heldur með frjálsri tjáningu eigin tilfinninga. Víst er að þetta felur í sér aga, en sá agi er allt annars eðlis. Það er sá agi sem fæst með stöðugri viðleitni til að uppgötva hin raunverulegu gildi lífsins sjálfur.
      Menntun tilfinninganna ætti því að vera yfirveguð viðleitni til að kenna börnum að finna til af eigin hvötum, í sama skilningi og vitsmunaleg menntun þeirra ætti að vera viðleitni til að kenna þeim að hugsa sjálfstætt. Svo framarlega sem við leggjum upp með þá ósögðu forsendu að við vitum hvernig fólk ætti að finna til og það sé hlutverk okkar að kenna nemendum okkar að finna þannig til, því verr sem okkur tekst það því betra. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hve veikburða og óburðugt tilfinningalíf okkar er og átta okkur á því að einmitt af þeirri ástæðu eru hugmyndir okkar um hvað sé góð tilfinning og hvað ekki einnig veikburða og ef til vill ósannar. Þá förum við kannski að uppgötva hvað við getum gert til að þroska hjá börnum hinn dýrmæta hæfileika til óþvingaðs tilfinningalífs sem hefur verið svo vanþroska hjá okkur. Ein fyrsta afleiðing svo djúpstæðrar viðhorfsbreytingar yrði eflaust sú að við mundum viðurkenna að það sé jafn fráleitt að leggja tilfinningalega menntun barna í hendur kennara sem hafa óburðugt eða vanþroska tilfinningalíf og það er að fela vitsmunalega menntun þeirra kennurum sem eru vitgrannir og heimskir.
      Þetta er helsta viðhorfsbreytingin sem við þörfnumst. Ef við gefum okkur að við nálgumst spurninguna um tilfinningamenntun í þessum anda þá getum við haldið áfram og spurt ítarlega hvernig hægt sé að framkvæma hana í megindráttum. Við verðum þá að veita því athygli að tilfinningalífið er í eðli sínu skynrænt og að menntun tilfinninga er fyrst og fremst þjálfun skilningarvitanna. Flest sem okkur mistekst í menntun skilningarvitanna stafar af því að við lítum á þau frá verklegu sjónarmiði sem tæki til að ná hagnýtum markmiðum, með þeim afleiðingum að við þjálfum þau, að svo miklu leyti sem við menntum börn yfirleitt í hinu skynræna lífi þeirra, til að nota skilningarvitin í hagnýtum tilgangi. Hins vegar er tilfinninganæmið snar þáttur í mannlegu eðli og það verður að þroska það vegna þess sjálfs. Við verðum að mennta börn til að gera hið skynræna líf þeirra auðugt og fallegt: að sjá til þess að sjá, að heyra til þess að heyra, að lykta, bragða og snerta vegna lífsgleðinnar sem fólgin er í þeim skynjunarhæfileikum sem þau eru gædd.
      Slík menntun mundi stefna að því sem William Blake kallaði einu sinni í augnabliksinnblæstri „fágun hins skynræna“. Á hinu grófara vísindalega fræðimáli okkar gætum við kallað það þroskun skynrænnar greiningar og samstillingar. Það sem fær okkur til að óttast birtingarmyndir hins skynræna lífs er hve gróft það er og óheflað, og þetta er einungis til marks um hið frumstæða, vanþroskaða eðli þess. Það er einmitt þetta sem viðeigandi menntun skilningarvitanna verður að fást við. Hún verður að finna leið til að þroska hæfileika skilningarvitanna til að komast á það stig að þau greini á hárfínan og fágaðan hátt það sem þau skynja, og hæfileikann til að samstilla og samræma greiningu þeirra. Gróf og óhefluð tjáning tilfinninga er ævinlega afleiðing þess að skynjunin er gróf og skortir fágun. Að bæla niður slíka móðgandi tjáningu tilfinninga (sem er í megindráttum það sem við stefnum enn að) skiptir máli fyrir lífsgæðin. Sé eðli manns gróft er nauðsynlegt að hafa hemil á því þó ekki sé nema vegna annarra. En hlutverk menntunar er að gera slíkar hömlur óþarfar með því að fága eðlið sem þær eru nú lagðar á.
      Það eru bein tengsl, sem liggja til grundvallar öllu lífi, milli skynvitundar og verklegra athafna. Hægt er að hafa hemil á og koma í veg fyrir þessi tengsl upp að vissu marki, en aldrei full­komlega. Mannlífið, líkt og allt líf, fullkomnar sig einungis í tengslum beinnar skynjunar við athöfn sem tjáir það sem hún hefur orðið áskynja. Hugsunina skortir þessa beinu svörun í athöfn við meðvitaðri skynjun. Vitsmunagreind getur þess vegna aldrei komið í staðinn fyrir beina skynræna athöfn. Hún getur auðgað hana með því að lyfta henni á hærra stig eða rýrt hana með neikvæði og bælingu. Annað sviðið í menntun tilfinningalífsins er því svið óþvingaðrar tjáningar. Hin skynræna vitund um heiminn vegna hennar sjálfrar, án dulinna hvata eða ástæðna, er tilfinninganæmi okkar, og það fullkomnar sig, sé það ekki hindrað, í athöfnum sem eru óþvinguð tjáning tilfinninga, athöfnum sem eru framkvæmdar vegna þeirra sjálfra en ekki vegna einhvers markmiðs utan við þær. Slík tjáning tilfinninga í athöfn – hvort heldur í tali, söng eða hreyfingum – er í fyrstu gróf og ruglingsleg. Hlutverk menntunar er ekki að breyta sjálfsprottnu eðli hennar heldur að fága hana og fíngera, viðhalda sjálfsprottnu eðli hennar svo að þróun yndisþokka og fágunar í athöfn sé ætíð án annarrar hvatar eða ástæðu en tjáningargleðinnar. Að öðru jöfnu fara saman fágun í tjáningu og fágun í skyngreiningu svo það er ekki þörf fyrir tvenns konar þjálfun heldur aðeins eina tegund þjálfunar þar sem þroskun fágaðrar skyngreiningar fæst með viðleitni til að tjá það sem er skynjað og viðleitnin til að þroska skyngreininguna er framkvæmd með viðleitni til að tjá hana í athöfn af einhverju tæi. Það er ekki í mínum verkahring að ákveða aðferðir sem þetta skuli gert með. Þeir sem hafa það starf að gera tilraunir með kennsluaðferðir munu eiga létt með að finna upp slíkar aðferðir svo framarlega sem þeir gera sér ljóst hvað það er sem þeir vilja þroska. Það sem skiptir mestu máli að hafa efst í huga er að menntun tilfinningalífsins, hvort sem það er skynvitund eða tjáningarathafnir, má ekki hafa neina dulda eða hagnýta ástæðu. Þetta er menntun í sjálfkvæmni og þess vegna eru bæði vitundin og athafnirnar sem hún leitast við að fága og þroska markmið í sjálfum sér. Við erum að leitast við á þessu sviði að skerpa vitund barna um heiminn sem þau lifa í eingöngu vegna hennar sjálfrar af því að það gerir þau færari um að njóta lífsins. Við erum að leitast við að þroska fágun í tjáningu vegna þess að það er gott í sjálfu sér, ekki í neinum skilningi vegna þess sem kann að vera hægt að ávinna sér með því.
      Ljóst er að þegar slík menntun kemst á ákveðið stig verður hún menntun í starfsemi lista­mannsins. Það er óhjákvæmileg afleiðing af réttri menntun tilfinninganna. Það er þroskun hinna listrænu til aðgreiningar frá hinum vísindalegu hæfileikum manneðlisins. Ég get því lagt áherslu á boðskap minn með tilvísun til þess sem er rangt við slíka listræna menntun eins og hana er venjulega að finna í skólanámskránni. Hún gerir menntun í list að vitsmunalegri eða vísindalegri starfsemi og verður ekki þjálfun í listrænum vinnubrögðum heldur þjálfun hugans í greiningu og skilningi á listrænum vinnubrögðum annarra. Rétt þjálfun hinna listrænu hæfileika, eins og ég hef lýst henni, er þjálfun í skynjun og tjáningu sem í fyllingu tímans mundi þroska til hins ýtrasta hæfileika barnsins til að vera listamaður, það er að segja að skynja heiminn fagurlega með sínu eigin tilfinninganæmi og tjá þessa skynjun í óþvinguðum eða sjálfsprottnum athöfnum einungis vegna gleðinnar sem fylgir því að gera það.
      Engin þörf er á að útfæra þessa grunnhugmynd frekar. Ég vil heldur vekja athygli á afleiðingum þess að láta undir höfuð leggjast að mennta tilfinningalífið á þennan hátt sem er í grundvallaratriðum eina leiðin til að mennta það. Mig langar til að láta í ljós þá skoðun mína að það að vanrækja þessa hlið á menntun barns, eða bregðast í því, er að bregðast fullkomlega í mikilvægasta menntunarstarfinu.
      Tilfinningalífið er ekki bara hluti af mannlegu lífi eða ein hlið á því. Það er ekki, eins og við höldum svo oft, sett skör lægra, eða lægra skipað, en hugurinn. Það er kjarni og meginþáttur mannlífsins. Vitsmunirnir spretta upp af því, eiga rætur sínar í því, sækja næringu sína og viðurværi í það, og eru hinn óæðri félagi í mannlífsbúskapnum. Þetta stafar af því að vitsmunirnir gegna í meginatriðum hlutverki verkfæris. Að hugsa er ekki að lifa. Í versta falli er það staðgengill þess, í besta falli leið til að lifa betur. Eins og komið hefur fram er tilfinningalífið líf okkar, bæði sem vitund um heiminn og sem athafnir í heiminum, að svo miklu leyti sem því er lifað vegna þess sjálfs. Gildi þess felst í því sjálfu, ekki í neinu utan við það sem það er leið til að öðlast. Menntun sem gerir sér fulla grein fyrir hlutverki sínu hlýtur að hafna því að meðhöndla mannlífið eins og leið að markmiði. Hún hlýtur að leggja áherslu að eina skylda sín sé að þroska hinn áskapaða hæfileika til fulls mennsks lífs. Öll sönn menntun er menntun í að lifa.
      En afleiðing þess að einbeita sér að menntun vitsmunanna þannig að menntun tilfinninganna verður útundan er einmitt að koma í veg fyrir þetta markmið. Vegna þess að vitsmunirnir fást við leiðirnar til að lifa getur einskorðuð einbeiting að þjálfun þeirra, og að setja tilfinningalífið skör lægra, aðeins leitt til þess að gera nemendur okkar færa um að ákveða leiðirnar til mennsks lífs en mjög lítið til að lifa því. Hún mun óhjákvæmilega skapa tækjaskilning á lífinu þar sem allar mannlegar athafnir verða metnar sem leiðir að markmiði, aldrei vegna þeirra sjálfra. Þegar það er varanleg og almenn tilhneiging í einhverju þjóðfélagi að beina athyglinni að vitsmununum og þjálfun þeirra þá verður afleiðingin þjóðfélag sem safnar völdum og með völdum auðnum til hins góða lífs en hefur engan samsvarandi þroskaðan hæfileika til að lifa hinu góða lífi sem það hefur safnað auðnum til. Þetta er að mínu viti alveg greinilega það ástand sem við erum nú í og hin evrópska menning okkar. Við höfum gífurleg völd og gífurleg auðæfi; við dýrkum skilvirkni og velgengni en við kunnum ekki að lifa afbragðsvel. Ég mundi rekja þetta ástand mála næstum algerlega til þess að við höfum vanrækt að mennta tilfinningalífið.
      Önnur afleiðing þessarar vanrækslu hlýtur að vera eyðilegging heildar. Vitsmunirnir geta aðeins fjallað um lífið í pörtum vegna þess að þeir eru verkfæri. Þeir verða að sundurgreina og sértaka. Það er í tilfinningalífinu sem eining persónuleikans, bæði einstaklingsbundin og félagsleg eining hans, er raungerð og henni haldið við. Það er í tilfinningaríkum athöfnum sem þessi eining er tjáð. Tilfinningarnar eru sameinandi þátturinn í lífinu. Að vanrækja að þroska tilfinningalífið leiðir því til sértekningar og sundurgreiningar, til þess að menn geta ekki séð lífið staðfastlega og sem heild. Þegar vitsmunirnir taka völdin er sérhæfing óhjákvæmileg afleiðing, sérstakar hliðar mannlegra athafna eru gerðar að fullkomnum hugmyndum um lífið, hluti kemur í stað heildar. Afleiðingin er sundrun í lífinu og samhengisleysi í hugsun og reynd. Bæði einstaklingar og samfélag munu smitast af hinni þröngu sýn sérfræðingsins sem gerir jafnvægi, hrynjandi og heildarsýn óraunhæf og jafnvel óhugsandi. Hér birtist aftur vanræksla okkar að mennta tilfinningalífið í samkeppni langana innra með okkur sem við getum ekki samhæft, í samkeppni öndverðra krafna og hagsmuna, í flokkadráttum innan samfélags okkar. Enda þótt kringumstæðurnar hafi þröngvað upp á okkur vitsmunalegum skilningi á nauðsyn þess að öðlast einingu og heildarsýn í samfélagslífi okkar, þjóðlegu og alþjóðlegu, erum við ófær um að raungera þá einingu sem við höfum svo brýna og meðvitaða þörf fyrir.

                                                                                                    Gunnar Ragnarsson þýddi

Aftanmálsgreinar

1. John Macmurray (1891–1976) var prófessor í siðfræði við háskólann í Edinborg í Skotlandi á árunum 1944–1958.
     Macmurray var eftirsóttur fyrirlesari og voru greinarnar í Reason and Emotion upphaflega fyrirlestrar. Reyndar má segja það um flestar bækur hans. Bókin Freedom in the Modern World samanstendur af fyrirlestrum sem hann flutti í Breska ríkisútvarpið (BBC) 1930 og 1932 og nutu gríðarlegra vinsælda, einkum fyrri fyrirlestraröðin, Reality and Freedom (12 lestrar). Þeir komu út á bók 1932 sem hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum og útg. með nýjum inngangi 1992.
     Macmurray var afkastamikill rithöfundur. Af öðrum verkum hans nefni ég hér Interpreting the Universe (1933; ný útg. 1996), The Boundaries of Science: a Study in the Philosophy of Psychology (1939), The Self as Agent (1957) og Persons in Relation (1961). Tvö síðastnefndu verkin voru endurútgefin 1991 og 1995. Sameiginlegur titill þeirra er The Form of the Personal. Þau byggjast á skosku Gifford fyrirlestrunum sem Macmurray flutti í háskólanum í Glasgow 1953–1954.
     Þessi frumlegi og róttæki hugsuður hefur að mestu leyti verið sniðgenginn af akademísku heimspeki­hefðinni. Hann hefur hins vegar haft umtalsverð áhrif á guðfræðinga, sálfræðinga, menntunarfræðinga og félags- og stjórnmálahugsuði. Grundvallarhugtök í heimspeki hans eru athöfn (e. action), gerandi (e. agent), persóna (e. person) og vinátta (e. friendship). Heimspeki hans mætti kalla „persónuhyggju“ (e. personalism) sem er ein tegund af tilvistarspeki.
     Athöfnin kemur á undan hugsuninni, „ég geri“ á undan „ég hugsa“. Macmurray gerir uppreisn gegn kartesískri tvíhyggju og þar með vestrænni heimspekihefð. Að því leyti má flokka hann með Heidegger, Wittgenstein og bandarísku pragmatistunum sem allir reyna að brjótast undan oki hefðarinnar – komast út úr Descartes!
     Macmurray er einn örfárra heimspekinga sem leggur sérstaka áherslu á tilfinningalífið. Fyrstu þrjár greinarnar í Reason and Emotion heita „Reason in the emotional life“. Kenning hans um „emotional rationality“ er sett fram rúmum sex áratugum á undan kenningu Daniels Goleman um „emotional intelligence“ í samnefndu riti, sem byggist á heilarannsóknum og þróunarrökum.

2. Þýtt úr greinasafninu Reason and Emotion, 6. prentun 1947. útg. með nýjum inngangi 1992. Greinin kom fyrst út í tímaritinu The New Era árið 1932.

Heimspeki úr glatkistunni: „Um það að vita“ eftir Benedikt Gröndal, seinni hluti

Seinni heimsspeki. Platon og Aristoteles eru hinir mestu vitríngar sem uppi hafa verið: á þeim var ekki einúngis bygð öll skoðandi rannsókn guðlegra hluta á miðöldunum, heldur er og öll heims­speki ýngstu tíma á þeim bygð. Þó að Sophistíkin í rauninni væri rannsókn heimseðlisins, þá var hún loksins orðin svo afmynduð og misbrúkuð til orðaleiks og rángra ályktana, að Platon og Aristoteles kölluðu hana þá list, að rugla menn; og menn kalla enn Sophista þá menn, sem hártoga alla hluti. Lærisveinar Platons og Aristoteles dreifðu kenníngum þeirra sjálfsagt út, en eru þó ekki neitt í samanburði við þá; vér þekkjum varla Arkesilaus frá Pitana (í Eolíu), Karneades frá Kyrene, Theophrastus, Straton frá Lampsakus, Díkearkus frá Messína, Aristoxenus eða Aristion. En þar sem Platon hafði sagt, að heimsspekin væri undirbúníngur undir dauðann, þá sannaðist það síðar meir, þegar Kristur kom og lífgaði og stofnaði trúna. Þá tóku margir trú, og þá varð trúin heimsspeki, og heimsspekin trú.

Nýplatónsku heimsspekíngarnir, sem kallaðir eru, eru tvenns konar. Fyrri flokkurinn var uppi á 1. og 2. öld eptir Krist, og ruglaði saman kenníngum Platons, Aristoteles og Pythagoras; merki­legastir þeirra eru Theon frá Smyrna og Plútarkus frá Keronea. Síðari flokkurinn var uppi á 3. öld e. Kr., og sameinaði gríska heimsspeki við austurlandafræði, svo sem kenníngu Zoroasters o.fl. Stofnandi hans var Ammonius Sakkas, en ritaði ekki. Lærisveinar hans voru Plotinus, Origenes, Longinus, Herenníus. Ammonius Sakkas féll frá kristni til heiðindóms. Lærisveinn Plotinus var Porfyríus, hans lærisveinn Jamblichus, sem hefir ritað merkilega bók um leyndardóma Egiptatrúar. Lærisveinar Jamblichus voru Eustathius, Aedesius og Julianus Apostata Rómakeisari. Þessi heimspeki leiðir til Mysticismus, sem er sú stefna andans, að menn skoða hið yfirnáttúrlega sem orsök heimsins, og megi það sjást með innri sjón andans, með andlegri sjón sem er á undan allri hugsun, og er hér gert ráð fyrir andaheimi, sem menn geti staðið í sambandi við. Þessir nýplatónsku heimsspekíngar trúðu á eina æðstu veru og að öll heiðin trúarbrögð væru opin­beranir hennar á ýmsan hátt; þeir tignuðu Krist sem mikinn mann, er væri misskilinn. Hinir veru­legu hlutir (objecta) koma fram af hugsuninni (eins og Hegel kennir), með því að hið guðlega skilníngsveldi upplýsir sálina, svo hún snýr til sjálfrar sín og verður æðri og einfaldari, gengur þá aptur út frá sjálfri sér og rennur saman við það sem hún sér. Þessi óskiljanlega sálarsjón verður ekki lærð né öðrum gefin; með henni kemst skynsemin að takmarki sínu, hinu andlega og guðlega. Hin lægri, skynjandi skoðun felur engan sannleika í sér; en einúngis það er sannleikur, sem skynsemin skilur sem andlegt. Andi mannsins er forgengilegur, og er hniginn í eðli líkamans af eigin synd; hann fer eptir dauðann í dýr eða menn, eða í stjörnurnar.12 Þessa samanblöndun ýmissa kennínga sjá menn hæglega að vera örstutt frá Gnosticismus og þeim heimsspekínga­flokkum, sem honum eru skyldir, sem vér nú skulum hugleiða.

Gnosticismus. Þetta nafn kemur af γνωσις, þekkíng, og lítur til þess, að þeir flokkar, sem bera það nafn, þóttust hafa þekkíngu — annað merkir það ekki. En aðaleðli þessara flokka er það, að þeir létust sjá inn í einhvern andaheim, með sálarsjóninni, og það var þessi þekkíng þeirra. Kenníngar þeirra aðgreinast frá hinum nýplatónsku á því, að Gnostíkarnir framsettu Krist í þeim á ýmsan hátt, og upphugsuðu ýmsar skiptíngar og ýms hlutföll andaheimsins, sem minna á austurlanda trú. — Ýmsir trúarflokkar komu upp eptir Krist, sem eru ekki eiginlegir Gnostikar, en þetta er allt í rauninni svo skylt, að vér höfum það saman. Þannig voru til að mynda Ebionitarnir, sem Tertúllíanus segir að dragi nafn af Ebion, stofnanda sínum, en Origenes af svipuðu orði ebresku, sem þýðir »fátækur«; þeir áttu heima í Nabathea og víðar í landinu helga, og á Cyprus. Þeir viðurkendu Krist einúngis sem spámann, og fylgdu lögum Móses; Pál postula kölluðu þeir trúarníðíng (apostata) og vonuðu eptir jarðnesku ríki Messíasar.— Nazarearnir trúðu yfirnáttúrlegri fæðíngu Krists og guðdómlegu eðli hans; þeir áttu heima í Beroea og fylgdu lögum Móses. — Þá var og sá flokkur, er kallaðist Elkesaitar, en seinna Sampsear, og var uppi eptir daga Traianus keisara; þeir menn trúðu að andi guðs hefði farið í suma menn, svo sem Adam, Enoch, Abraham, Isak, Móses og Krist. Þeir höfðu ceremoníur gyðínga, köstuðu samt á burtu öllum offurgerðum, máttu giptast og afneita Kristi munnlega, ef þeir játuðu hann í hjartanu. Líkir þessum flokki voru Essear og Cerinthusmenn. Margir trúðu og, að Kristur mundi koma aptur eptir þúsund ár, eptir að Antikristur væri kominn áður, sú trú kallaðist Kilíasmus, og höfðu hana sumir merkir menn, svo sem Justinus Martyr og Ireneus.

Nú er hinn eiginlegi Gnosticismus, sem Tertúllíanus reit á móti þá bók, er heitir »Scorpiacum contra Gnosticos«; aðalkenníngar þeirra eru þannig: það eru tvö frumeðli eða frumguðir, annar illur en annar góður. Hið góða býr í óaðgengilegu ljósi, ljósfyllíngu (πληρωμα), og stendur ekki í beinlínis sambandi við heiminn. Þetta er hinn órjúfandi eða eilífi guð (ϑεος αῤῥηϰτος), hinn ónefnandi (αϰατονομαστος), botnlausi (βυϑος); hið illa, hinn vondi guð er sama sem Ahriman hjá Persum, eptir syriskri og austurlenzkri skoðun, en eptir platónskri og alexandrínskri skoðun sama sem hið eilífa dauða efni (ὔλη), sem lífgast af óreglu í ljóssríkinu. Hið góða frumeðli streymir út sem kraptar (δυναμεις), sem mynda aeones og svo framvegis niðureptir. Hinn líkamlegi heimur er ekki skapaður af hinu góða frumeðli (frumguði), heldur af hinu illa, og hann er díblissa þeirra lífskrapta, sem komnir eru úr ljóssríki. Kristur er æðri vera, hann er endurlausnari, en varð aldrei maður, heldur andlegur líkami (σῶμα πνευματαστις). Sálirnar streyma aptur til ljóssins og sam­einast því (αποϰαταστασις).

Gnostíkunum ber eigi öllum saman.

Satúrnínus, sem lifði í Antiochía á 2. öld, kendi um hinn óþekkta föður, πατερα αγνωστον, og um anda, sem hinir neðstu eru sjö plánetuandar (αγγελοι ϰοσμοϰρατορες, heimsstýrendur; talan 7 er heilög tala). Á móti föðurnum er djöfullinn (σατανας), en hvort hann sé fallinn, eða hann sé illur frá eilífð, er ekki kennt svo menn viti. Hinir sjö plánetu-andar sköpuðu manninn, en sú sköpun skreið; þá kendi faðirinn í brjósti um hann og sendi honum lífsgneista (πνευμα, anda): einúngis sá gneisti kemur aptur til ljóssríkisins (πληρωμα). Einn af hinum 7 öndum er skapari heimsins og guð gyðínga; hann er útstreymdur af Aeónaheiminum, og er því ekki illur andi, af því αιωνες eru frá hinu góða frumeðli; en þó er hann of máttlítill til þess að verja mennina á móti djöflinum. Hinn óþekkti faðir sendir því Krist, hugann (νοῠν), mönnunum til hjálpar. — Áhángendur Satúrnínus lifðu mjög stránglega, máttu aldrei giptast og aldrei eta kjöt.

Basilídes hét annar gnostiskur kennari, og lifði um sama leyti og Satúrnínus. Hann kendi um að­streymíngu andanna að frumguðinum, og eptir hans kenníngu er ættartalan þannig:

θεὸς ἀϰατονόμαστος (hinn ónefnanlegi)
|
νοῦς (hugur)
|
λόγος (orð)
|
φρόνησις (hyggindi)
|
σοφία (vizka)

δύναμις (vald). διϰαιοσύνη (réttvísi). εἰρήνη (friður).

Þessir 7 andar (ↄ: að fráreiknuðum frumguðinum) skapa heiminn og mynda hina fyrstu áttúng (ογδοάς) í sameiníngu með frumverunni. Þessir sjö geta af sér aptur sjö og svo framvegis í sífellu, eptir tölu himnanna (7), eða eptir því sem aðrir segja, eptir tölu andanna (365 ↄ: tala ársdaganna). Þessi andaheimur heitir Abraxas (Αβραξας eða αβρασαξ, sem merkir eptir bókstöfunum 365). Allir andar eru ímynd hins ónefnanlega, en því daufari, sem þeir eru honum fjær. Hinir sjö seinustu (ↄ: fjærstu guði og þess vegna daufustu) andar skapa heiminn og stjórna honum; hinn mesti (αρχων) er fyrir þeim, og er sama sem guð gyðínga; hann er enginn sjálfráður guð, heldur er hann undir æðri stjórn. Basilides kendi ekki upprunalega illsku (malum absolutum), heldur eilíft efni (ὑλην, eins og Platon). Gneisti guðdómsins er ekki einúngis í manninum, heldur og í öllu aleðlinu. Maðurinn á að erfiða sig upp eptir, hann gengur frá einum líkama í annan og verður loksins æðri en höfuðandinn αρχων, því hann er æðra eðlis. En höfuðandinn og hinir 7 skildu ekki veraldar­áformið, þess vegna sendi guð hugann (νοῠν), sem sameinast í skírninni við Jesús, en skilur sig frá honum við dauða hans og sameinast þá ljóssríkinu (πληρωμα). Þessi hugur (νους) kendi mönnum að þekkja hinn æðsta guð; tilgángur endurlausnarinnar var sá, að láta menn þekkja ætt mannanna frá andaheiminum og að menn geti komist þángað aptur með trúnni.

Enn var sá kennari gnostiskur, er Valentinus hét; hann var frá Egiptalandi og lifði í Rómi á annari öld; hann var þrisvar sinnum rekinn úr kirkjunni. Kenníng hans var þannig, að til væri frumvera, frumguð, hinn órannsakanlegi (βυϑός, προπάτωρ, προαρχή); af honum koma (fæðast, getast) þrjár tegundir anda: Ráð (διαϑεσις), Völd (δυναμεις) og Aldir (αιωνες). Gæzkan (ευνοια χαρις, náð) er frá eilífð sameinuð hinum órannsakanlega og framleiðir hugann eður hinn eingetna (νουν, μονογεητον), sem er hinn fyrsti aldarandi (αιων), upphaf alls og sá sem opinberar eða leiðir í ljós hinn órannsakanlega (βυϑος), en samhliða hinum eingetna gengur sannleiksandinn (αληϑεια) fram, honum til uppfyllíngar; af þeim báðum framgánga orðið (λογος) og lífið (ζωη), og þar af aptur maðurinn (ἄνϑρωπος) og kirkjan (έϰϰλησία). Þessir átta andar (ↄ: líf, orð, sannleikur, hugur, aldir, völd, ráð og hinn órannsakanlegi) mynda hina fyrstu áttúng (ογδοας). Orðið og lífið geta aptur af sér tíu aðra aldaranda (αιωνες), fimm karlkyns og fimm kvennkyns; maðurinn og kirkjan geta af sér tólf anda, sex karlkyns og sex kvennkyns, og sú röð endar á viljanum (ϑελετος) og vizkunni (σοφια). — Einúngis hugurinn, hinn eingetni (μονογεης) getur séð frumveruna, en hinir ekki, en þó lángar þá alla til þess. Þessi laungun varð hjá vizkunni (σοφια) að ástríðu; hún vildi ekki samlagast viljanum (ϑελετος), en vildi brjótast fram. Þá sendi guð anda takmörkunarinnar (ὡρος). En nú var friðurinn einu sinni truflaður, og hann þurfti að komast aptur á; þá gat hugurinn Jesús við kenníngarandanum (πνεμα). Jesús átti að vera hið sama fyrir hinn lægra heim, sem hinn eingetni var fyrir hinn æðra. Af þeirri styrjöld, sem vizkan (σοφια) gjörði með því hún vildi brjótast fram, var sköpunarverkið orðið útvíkkað fyrir utan ljóssríkið. Vizkan gat af sér hina lægri vizku (ή ϰατω σοφια, επιϑυμησις, αχαμωϑ) einúngis við laungun sinni eptir hinum órannsakanlega (βυϑος), en ekki við viljanum (ϑελετος); þetta afkvæmi heitir einnig Prunicos, og er óhreint og fullt af ástríðum. Þegar andi takmörkunarinnar (ὡρος) ekki flutti hina lægri vizku og móður hennar til ljóssríkisins, þá steypti hún sér í óskepið (Chaos) og meingaðist því. Loksins beiddi hún Krists; þá frelsaði andi takmörkunarinnar hana úr óskepinu og andinn (αιων) Jesús friðaði hana við hinn órannsakanlega, en þó kemst hún ekki í ljóssríkið, heldur í lægra heim; þar skapar hún ásamt með heimshöfðíngjanum (δημιουργος) hinn óæðra heim, sem er líkamlegur (φυσιϰος) og sálarlegur (ψυχιϰος). Þá koma fram sex heimar með sex öndum; það er hin önnur áttúng (ογδσας;ↄ:6 + δημωυργος og σοφια), sem er ímynd hinnar fyrri áttúngar. Demiurgus (»þessa heims höfðíngi«) skapar hinn þriðja heim úr efninu (ύλη, materia), og veitir honum sál frá sér (ψυχη) og anda (πνευμα) frá vizkunni, sá heimur er mannheimur. Fyrir krapt andans (πνεματος) hefir maðurinn sig upp yfir Demiurgum, sem verður hræddur og englar hans; og til þess að halda mönnunum í hlýðni, bannar hann þeim að eta af tré skilníngsins. En maðurinn óhlýðnaðist því, og fyrir það steypti Demiurgus honum úr sælustaðnum (Paradís) og niður á jörðina eður í hinn lægra líkamsheim og gefur manninum holdlegan líkama; það er hinni lægri vizku að þakka, að maðurinn verður ekki undir líkamanum. Af þessu er hið andlega (τύ πνευματιϰόν) komið um allan heiminn. Þá varð Jesús frelsari (σωτήρ) að koma, til þess að frelsa manninn frá glötun og sameina hann ljóssríkinu (πληρωμα). Demiurgus hafði heitið gyðíngum einúngis sálarlegum (ψυχιϰῳ) Messíasi, og sem svo kemur Jesús í andlegum líkama (σωματι αιϑηριϰῳ), og í skírninni sameinast hann Jesúsi frelsara. Endurlausnin er sameiníng við Krist og sigur yfir líkamanum. Allt er fullkomnað, þegar hinar andlegu (puevmatisku) náttúrur eru orðnar hæfar til að komast í ljóssríkið; hinar sálarlegu (psychisku) koma í ríki Demiurgus, því þær eru þaðan runnar; en hið líkamlega verður að engu.

Ofitar kallaðist einn flokkur, er trúði Gnosticismus: þeir draga nafn af höggorminum (οφις), því hans gætir mjög hjá þeim (höggormsmenn). Þeir trúðu þannig, að einn er frumguð, frumljós, frummaður, upphaf alls (βυϑος); frá því útstreymir þagnarhyggjan (εννοια, σιγη), sem er hinn annar maður; af henni streymir fram andinn eða hin æðri vizka (πνευμα, ή ανω συφία); hún er svo fögur, að bæði frumljósið og þagnarhyggjan verða ástfángnar í henni, og eiga við henni hið algjörða mannlega ljósseðli, sem er hinn himneski Kristur, og hina kvennlegu vizku, eða hina lægri vizku (αχαμωϑ, προυνειϰος). Kristur sameinast ljóssríkinu (πληρωμα), en hin lægri vizka steypir sér niður í óskepið og lífgar það; hún getur af sér heimshöfðíngjann (Demiurgum), sem einnig heitir ίαλδαβαωδ. Demiurgus getur af sér engil, og svo koll af kolli; þá kemur fram hin heilaga sjöund (έβδομας), en hún skapar manninn, en hann er sálarlaus líkami. Demiurgus, sem ætlaði að sameinast frumljósinu, en lenti í miðríkinu (τοπῳ μεσοτητος), gefur manninum líf, en við það rennur allt guðlegt ljós frá Demiurgus til mannanna. Þá speiglar Demiurgus sig í dýpsta óskepi (Chaos), og getur af sér öfundsjúkan og hatursfullan djöful (οφιομορφον). —- Líka trú höfðu fleiri flokkar, svo sem Sethianar, Kainitar o.fl.

Karpokrates frá Alexandríu var samtíða Basilides, og kendi, að alfaðirinn (μονας) væri upphaf margra anda, sem gjörðu upphlaup á móti honum og sköpuðu heiminn. Hin sanna þekkíng (γνωσις) er það, að hefja sig upp yfir heiminn og til alföðursins; þá fær maður ráð yfir heiminum og öndunum; það gjörðu Pythagoras, Platon, og einkum Jesús »sonur Jóseps og Maríu« (ɔ: Karp. kendi að hann væri maður); einúngis fyrir samhand sitt við alföðurinn gjörði Kristur kraptaverk. Karpokrates kendi og, að sálin væri til áður en maðurinn; hann kendi fyrirlitníngu á öllum siðferðislögum og bænum, og að allir ættu allt jafnt. — Bardesanes frá Edessa, á annari öld, kendi svo, að hinn órannsakanlegi (πατηρ αγνωστος) og efnið (ύλη) hefði framleitt djöfulinn (σατανα).

Gnostiskar skoðanir komu upp einnig af sorg skynsamra manna yfir illsku heimsins, svo að þeir gátu ekki trúað því að algóður guð hefði skapað svo illan heim; þessi skoðan kemur fram hjá Hermogenes, en einkum hjá Marcion, sem báðir lifðu á 2. öld. Marcion var biskupssonur, og átti barn við stúlku, en fyrir það setti faðir hans hann út af heilagri kirkju, og þótt Marcion leitaðist hvað eptir annað við að fá aptur inngaungu í kirkjuna með iðran og yfirbót, þá fékk hann það ekki. Hann fékk því melankólska skoðun á heiminum, og guði, og mundi varla hafa stofnað kenníngarflokk sinn, ef kirkjan hefði ekki gefið sjálf tilefni til þess með hörku sinni. Marcion gat ekki ímyndað sér, að sá guð væri góður, sem hefði skapað svo illan heim. Hann hélt því, að til væri æðri guð en skapari heimsins (Demiurgus). Þetta eru aðalatriði Marcions: Skapari hins illa og góða er guð gamla sáttmálans (δημιουργος ϰοσμοϰρατωρ), og hefir aldrei opinberað sig, hvorki í líkama né skynsemi, fyrr en Kristur kom. Guð gamla sáttmálans (testam.) er ófullkominn, takmarkaður og fávís, óstöðug vera og í mótsögn við sjálfan sig. Sé hann almáttugur, hví leyfir hann þá syndina? Sé hann alvitur, hví sér hann þá ei syndina fyrir? Ef hann sér syndina fyrirfram og tálmar henni ekki, þá er hann vondur. — Þessi vera spurði: Adam, hvar ertu? Þess vegna er hann ekki alvitur. Hann lét Ísraels lýð fara á burtu með gull og silfur úr Egiptalandi; þess vegna er hann ránglátur. Hann lét villudýr rífa í sundur börnin, sem smánuðu Elíseus; hann getur því ekki verið góður. Hann iðraðist eptir að hann smurði Saúl; hann veit því ekki hvað hann gjörir. — Marcion reit bók, sem heitir Antitheses, og aðgreindi þar guð gamla sáttmálans og guð nýja sáttmálans; hinn góði og ókunni guð opinberast í Kristi; og eins og guð gamla sáttmálans er harður, eins er guð nýja sáttmálans mildur. Marcion trúði því ekki, að Kristur hefði íklæðzt líkamlegu holdi, af því hið líkamlega er illt og skapað af guði gamla sáttmálans; þess vegna trúði hann heldur ekki upprisunni. Í flokki Marcions voru furðulega strángir siðir; þar mátti engi giptast, af því holdið var sköpun hins illa guðs; enginn giptur maður mátti skírast; enginn mátti nokkurn tíma bragða kjöt, og margar og strángar föstur voru haldnar; þrisvar sinnum varð sérhverr að skírast, og máttu kvennmenn skíra, ef á lá; í kvöldmáltíðinni var haft vatn fyrir vín.

Þrjú eilif frumeðli eru ránglega eignuð kenníngu Marcious (ϑεος αγαϑος, ϑεος πονηροςύληδιαβυλος og δημιουργος διϰαιος), en Tertúllíanus getur þeirra eigi í þeirri bók, sem hann reit á móti Marcion (adv. Marcionem Libb. V og de carne Christi.)

Náskyldir hinum gnostisku flokkum voru Manichæarnir, á miðri 3. öld; þeir tóku lærdóma sína úr Zendavesta, Búddhismus og Gnosticismus, og rugluðu þar Evangelio saman við. Þeir trúðu að tvö ríki væri, ljóssríki og myrkurríki, og ætti í sífeldu stríði. Guðdómurinn setti alheimssálina (ψυχη απαντων) á móti áhlaupum hinna illu anda, sem liggja bæði í stríði hvorr við annan og sameiginlega við hið góða. Heimssálin hefir 5 eiginlegleika: vind, ljós, vatn, eld og líkama. Hinn sýnilegi heimur kemur fram af baráttunni á milli ljóssríkisins og myrkurríkisins.

Ályktan. Þessar skoðanir lýsa erfiðri eptirleit eptir sannleikanum, og það er svo lángt frá því, að menn hafi nokkurn rétt til að skoða þær sem vitleysur, að þær einmitt tela í sér djúpan sannleika. Þær eru heldur ekki draumórar, því flest í þeim má heimfæra uppá trúna og náttúruhlutföllin; þegar menn skoða búníng þeirra sem líkíngarfullan búníng (Allegoria), þá hverfur af þeim þetta ríngl, sem mönnum finnst liggja í þeim. En hitt er og satt, að mennirnir rugluðust og aðgreindu ekki hið trúarlega og hið veraldlega með nógu ákvörðuðum takmörkum; en hvað á að segja, þegar »hugurinn reikar víða«? Sá sem lítið hugsar, hann truflast síður en sá sem mikið hugsar (confunditur animus multa cogitans segir Augustinus). En því ruglaðist þá ekki Platon eða Aristo­teles? Þartil liggja tvö svör: 1. Þeir voru gáfaðri en þessir menn og höfðu betur vit á að greina hugmyndirnar í sundur; 2. Þeir þektu ekki ritnínguna eða Krist. Því eins og hið illa bægir mönnum frá hinu góða, ef menn ekki yfirstíga það, eins verður hið góða sjálft manni til falls, ef menn neyta þess ekki réttilega; þetta á jafn vel við um ritnínguna og sanna trú sem við allt annað í heiminum; það er ekkert orð ritað, og Kristur hefir ekkert orð talað, sem eigi má hártoga, rángskilja eða misskilja, og tveir menn, sem skilja eitthvað sinn á hvorn veg, geta báðir haft rángt fyrir sér. Þetta sést á mörgum ágreiníngi katólskra og prótestanta, og ekki síst á meiníngunum um erfðasyndina.

Eg nenni nú ekki að hleypa mér út í nákvæmar útlistanir á gnostisku kenníngunum; þær eru eins og allt annað, að það má skoða þær á fleiri en einn veg. Eg skal þess vegna benda á fáein atriði, sem mér nú detta í hug. Gnosticismus er samsettur af þrem greinum, 1. Sálarfræði (Psychologia), 2. Guðfræði (Theosophia)13 og 3. Náttúrufræði (Physica, Astrologia og Astronomia). En Evan­gelíið hefir einmitt orðið til þess að rugla allt fyrir þessum mönnum, og kenníng Pythagoras, sem ber með sér sumstaðar gnostiskan keim, hefir á sér hreinni blæ, einmitt af því Pythagoras hafði ekki kenníngu Krists, og gat því ekki misskilið hana né truflast af henni. Það eru fleiri en Gnostikarnir, sem truflast hafa af orðum Krists; eg skal hér einúngis minna menn á Ochin, sem var kallaður lærðari en öll Ítalía, hann kastaði loksins kristinni trú og gjörðist gyðíngur, ekki af neinni léttúð né mannvonzku, heldur af því hann sagðist ekki geta skilið neitt í þeim; þau mótsegðu sjálfum sér og því gæti Kristur ekki verið guðs sonur. Þýðíngar ritníngarinnar af »guðfræðíng­unum«, sem kallast svo, marka eg ekkert betur en hverra annara manna; og þarsem þeir þykjast skilja »rétt«, og geta eytt mótsögnum biblíunnar, er það opt ekkert annað en hártogaðir útúrsnúníngar.

Til sálarfræðinnar (sem svo er kölluð) heyrir til að mynda hin niðurstígandi ættartala hins þríeina veldis jarðarlífsins: valdsins, réttvísinnar og friðarins, sem á sér rót í guði (hinum ónefnanlega), eins og eg hef ritað þegar eg nefndi Basilides; þetta er rétt hugsunarröð: hugur, orð, hyggindi og vizka. Hér til heyrir og kenníng Valentinus um viljann og vizkuna, sem er ekkert annað en sama niðurstaðan sem Aristoteles komst að, og sem seinna á miðöldunum kom fram í allri trúarheims­spekinni (philosophia scholastica) sem intellectus og voluntas; á þessu tvennu er öll Summa theologiae Tómasar frá Aquino bygð. Ætterni vizkunnar er og rétt rakið af Valentínus; ef að vizka og vilji eru alveg samhljóða, þá er andinn á tindi fullkomlegleika síns, en það er nú aldrei, því »viljinn er reiðubúinn, en holdið er veikt«, og vitið getur verið mikið, en viljinn lítill. Vizkan, sem ekki vill þýðast viljann, sem er stýrið, hún vill alltaf leita hærra og hærra (NB. það er ekki guðs vizka, sem hér ræðir um), og hún hefir laungun eptir að komast eptir uppruna alls, sem er guð, en af því hún er ekki einhlít, en vill vera einhlít, þá lendir hún í böndum ófullkomlegleikans og af­kvæmi hennar hlýtur að bera keim af því (προνειϰος).

Það má nærri geta, að þegar menn hugsa um guð sem skapara heimsins, þá er ekki hægt að hugsa sér hann lausan við heiminn; en í kenníngum Gnostikanna kemur guð alltaf fram sem skapari, af því Gnosticismus er ekkert annað en leitan eptir uppruna hlutanna. Hér sveiflast menn þá óumflýjanlega inn í náttúrufræðina, sem hefir orðið mörgum guðfræðíngi til falls, af því þeir þekkja sjaldan mikið til hennar. En á tímum Gnostikanna var náttúrufræðin mestmegnis sama sem trúin, ↄ: sköpunarfræði, eins og á tímum elztu heimsspekíngaskóla Grikkja: þeir fóru einmitt þángað sem engum er ætlað, en hlupu yfir allt sem er á milli uppruna heimsins og mannsins, og það er mikið, því það er ekki hálftæmt enn í dag; Aristoteles lá í dái þángað til seint á 12. öld, þegar trúarheimsspekin tók að magnast; og Galenusi lækni (á 2. öld e. Kr.) var enginn gaumur gefinn. Þess ber og að geta, að þetta voru heiðnir rithöfundar, en allir vita, hversu þverhnýpt trúin tók fyrst fyrir allar kenníngar og rit heiðinna manna.

Aðalatriðið í skoðunum Gnostikanna er það, að þeir gátu ekki ímyndað sér, að algóður guð hefði skapað svo tvískipta tilveru, eins og heimurinn er, og þetta kemur glöggast fram hjá Marcion. En það er einnig hjá öllum hinum, því með því að kenna »frumljós«, »hinn ónefnanlega« o.s.fr., þá vildu þeir ekkert annað en það, að koma guði sem lengst frá heiminum, svo að hann mætti vera öldúngis hreinn af synd og illsku heimsins. Þeir gleymdu gjörsamlega frelsi mannsins eða sáu ekki, að hið illa leiðir greinilega þar af, en ekki af guði (peccatum est aversio a Deo segir Augustinus). En engu að síður gátu þeir ekki komizt hjá þessu, því þó þeir léti guð (»hinn ónefnanlega«) ekki vera skapara heimsins, þá var hann það óbeinlínis, með því allt var af honum runnið. Að hneykslast á því, að Gnosticismus kennir »útrennsli« andanna frá guði (Emanation), það virðist vera óþarfi, því það er ósannað hvernig þeir hafi hugsað sér þessa emanationem; það má allt eins skilja hana fígúrulega eins og bókstaflega; eins og gnostiskir lærdómar eru ekki fyrirdæmanlegir í sjálfum sér, þegar menn skilja þá sem líkíngar í myrkum búníngi, en að skilja þá bókstaflega og gjöra þá að trú, það er fyrirdæmanlegt.

Frá Gnosticismus er skammt til Mysticismus, og Montanistarnir, sem voru uppi í Phrygíu á 2. öld, og kallast einnig Kataphrygii og Pepuziani, eru milliliðurinn á milli Gnosticismus og Mysticismus. Þeir voru mótsettir Gnostíkunum að því leyti, að þeir héldu fast við ritnínguna og viku ekki frá bókstaf hennar, en þeir trúðu helgum innblæstri (inspiratio); þeir lifðu straungu líferni, giptust aldrei og sóktust eptir píslardauða fyrir trúna.

Trúarheimsspekin (Philosophia scholastica). Eg kalla trúarheimsspeki það sama sem Sigurður Melsteð kallar »skólaguðfræði«, og hún er »heimfærsla heimsspekinnar uppá rannsókn um setníngar trúarinnar«. Bonaventura segir, að heimsspekin sé það meðal, sem guðfræðíngurinn gjöri sér speigil með úr hinu skapaða, og stigi á því eins og á stiga upp í himininn. En þó að trúarheimsspekin þannig væri guðfræði; þá var hún meira um leið; hún innifól alla rannsókn allra hluta, en af því guð er æðstur, þá var líka »guðfræðin« æðst, og því hét heimsspekin »ambátt guðfræðinnar« (philosophia theologiae ancilla). Bonaventura hefir ritað annað rit, er kallast »heimfærsla kunnáttanna (ɔ: vísindanna) til guðfræðinnar« (Reductio artium ad theologiam), og þar lýsir hann berlega, að heimsspekin sé rannsókn alls heimsins: »heimsspekin er rannsókn hinna skiljanlegu sannleika, og af því þessir sannleikar eru bundnir við orð, hluti eða siði, þá er hún skynsemisleg, náttúruleg eða siðferðisleg. Sem skynsemisleg rannsókn felur hún í sér málfræði, sem býr hugmyndirnar orðum (Grammatík); hugsunarfræði, sem lýsir gángi þeirra og setníngum (Logík); mælskufræði, sem á við hreifíngu líkamans, framburð og orðaval (Rhetorík). Sem náttúruleg hlýtur heimsspekin að innibinda náttúrufræði (Physík), sem rannsakar uppruna og hvarf hlutanna; mælíngarfræði (Mathematík), er skoðar einstaka sannleika í reikníngshlutföllum og hin almennu lög; Metaphysík, sem leiðir lögin að uppruna sínum, til frumeðlis þeirra og tilgángs. Sem siðferðisleg (moralis) er heimsspekin Monastík, Oeconomía og Politík, eptir því sem hún á við einstaklínginn, félagslíf eða ríkisveldi«. Vér höfum ekki betri skiptíngu á vísindunum, en þessi er, þótt gömul sé, og sannast þar enn hið fornkveðna, að »opt er gott það sem gamlir kveða (Bonaventura dó 1274, sama ár og Tómas frá Aquino).

Öll trúarheimsspeki miðaldanna er bygð á Platon, Aristoteles og ritníngunni; hún tók tvær aðalstefnur eptir þessu, því sumir fylgdu Platon, en sumir Aristoteles. Hin platónska heimsspeki komst helzt inn í trúna frá Augustinus (Quidquid a Platone dicitur, vivit in Augustino, sögðu menn); en Aristoteles frá máriskum lærdómsmönnum (samt hafði Boëthius († 524) snúið mörgu eptir hann á latínu), á 11 — 13 öld, og náði hæstum blóma hjá Thomasi af Aquino, sem hefur hann fyrir aðra máttarsúlu alls skilníngs í Summa totius theologiae, og kallar hann nærri því aldrei með nafni, heldur einúngis »heimsspekínginn« (ut ait philosophus). Trúarheimsspekin hefir enn aðrar tvær aðalstefnur, sem eg heldur vil taka fram.

1. Hina fyrri stefnuna halda hinir eiginlegu guðfræðíngar, sem voru ofaná, samkvæmt anda tímans, og héldu sér við guðfræðina stránglega. 2. Hina síðari stefnu halda fróðir menn (Poly­histori), sem stunduðu öll vísindi og eptir miklu stærri mælikvarða en flestir menn nú. Þar að auki eru enn tveir flokkar, sem tóku alveg heimsspekilega stefnu í rannsókninni um frumeðli hlutanna, en það eru Nominalistarnir og Realistarnir.

»Allt sem vér gjörum, er saga«, segir Lamartine (24. Febr. 1848), og það má líka með sanni segja um kirkjusögu miðaldanna. Saga trúarheimsspekinnar er saga kirkjunnar, og saga kirkjunnar er saga mannlegs anda. En trúarheimsspekin stóð ekki lengur en hér um bil þrjár aldir (10—13 öld), svo hún er ekki saga kirkjunnar lengi. Mennirnir sjálfir komu byggíngu kirkjunnar til þess að riða og haggast, með því þeir timbruðu hana of hátt: Bonifacius VIII. bætti annari krúnu ofan á páfa­krúnuna, til þess að tákna verzlega valdið líka, og Úrbanus V. bætti þriðju krúnunni þar ofan á, þegar hann flutti frá Avignon 1367, til þess að tákna að hann væri jarl Krists á jarðríki; en bæði var það, að hann var fluttur þángað aptur fám árum síðar (1370), enda stóð páfakrúnan ekki lengi þreföld eptir það nema að nafninu til.

Tímabil trúarheimsspekinnar er eitthvert hið merkilegasta atriði í allri sögunni, því þá byrjuðu vísindin að lifa nýju lífi, vermdu og ljómuðu í geislum guðs sólar. Aldrei hefir »atorka andans og athöfn þörf« skinið í fegri ljóma. Þá voru engin stríð, engir herkonúngar á suðurlöndum — því hersögurnar urðu þá norður í heimi, í Svíþjóð, í Norvegi og á Íslandi, og í krossferðunum — en lærdómsmennirnir voru andlegir herkonúngar og háðu andleg stríð. Tími trúarheimsspekinnar er sama sem tími riddaranna var þá og seinna; en annar var með orðum, en hinn með vopnum. Um lok elleftu aldar komu háskólarnir upp, og menn geta ekki líkt því vísindalífi, sem þá hófst, við annað í sögunni en heimsspekíngaskóla Grikkja og Alexandríu, þegar bezt lét, nema hvað þetta var því efldara, sem það gilti um eilífa sælu eða eilífa fyrirdæmíngu. Háskólarnir voru fyrst eins og nokkurs konar þjóðstjórnarríki, og voru ekkert riðnir við ríkisvald eða kirkjustjórn, þángað til 1231, þegar Gregor IX. komst í það þjark, sem kom upp um það, hvort leyfilegt væri að byggja skoðanir á Aristoteles í skólunum, en »philosophus« hafði það og komst inn. Í fyrstunni var einúngis ein aðalvísindagrein stunduð við sér hvern háskóla, til að mynda guðfræði við háskólana í París, Öxnafurðu og Kolni; lög í Bologna og læknisfræði í Salerno. Háskólinn í Neapel var hinn fyrsti háskóli, sem stofnaður var fyrir öll vísindi. Þessir háskólar voru svo stórkostlegir, að á þá gengu margar þúsundir stúdenta; fjörutigi þúsundir gátu setið á bekkjunum í Parísarháskólanum, og hann var styrktur og stoðaður af kóngum og keisurum, leikmönnum, páfum og klerus, og kallaður sól vísindanna, sem andann ala. Páfadómurinn var á þessum öldum í hinum mesta blóma, og Gregoríus VII. og Innocentíus III. tindruðu á söguhimninum með voðalegum og fögrum ljóma, sem aldrei mun blikna.

Ógurlegar styrjaldir voru á þessum tímum út af kenníngum Berengaríus frá Tours († 1088), sem sagði að Kristur væri ekki verulega sjálfur nærverandi í brauðinu og víninu, heldur væri helgunin ónóg nema menn neyttu líkama og blóðs frelsarans með sannri trú, eins og Kalvín kendi síðar; Berengaríus hafði komið sér vel við Gregor VII. og komst við það undan illu, en apturkallaði allt. Anselmus af Kantaraborg barðist við Roscelin út af þrenníngar lærdóminum og því lauk svo, að Roscelin var fyrirdæmdur á fundinum í Soissons 1092 og kallað að hann kendi þrjá guði. En harðasta styrjöldina vakti Abailarð. Petrus Abailarð var hinn gáfaðasti, djarfasti og lærðasti, skarpasti, mælskasti og liprasti allra þeirra, sem nokkrar sögur eru af á 11. og 12. öld, og hinn heilagi Bernardus, sem var sá eini sem á honum vann, gjörði það hvorki með lærdómi né lipurleik, og ekki með slægð eður ofríki, heldur einúngis með trúnni, því hann var sannheilagur maður. Þessir tveir, Abailarð og Bernardus, voru hinar mestu hetjur á sínum tíma. Abailarð stofnaði skóla hjá París, og þángað flyktust menn að honum hvaðanæfa; hann götvaði upp hverja mótsögnina af annari í bókum kirkjunnar og þrumaði hlífðarlaust á móti kirkjufeðrunum. Hann var fyrst lærisveinn Vilhjálms af Champeaux, sem stofnaði háskólann í París, en óx bráðum svo yfir höfuð Vilhjálmi, að hann þrumaði hann niður með mælsku, lærdómi og dirfsku; hann lagði hann svo í einelti með »dispútazíum«, og beitti öllum vopnum, skarpleika, hártogunum og drambi, að Vilhjálmur, sem var haldinn hinn mesti »dialecticus« allra manna, lagði niður kennsluna. Þetta var orsökin til yfirgángs Abailarðs, er hann hlóð slíkum dreka, og þótti sér nú ekkert ófært. Fúlbertus kanúki fékk Abailarð til að kenna frændkonu sinni Helóisu, og af þessari kennslu er Abailarð orðinn alkunnur og hafa margar skáldsögur verið ortar um þau. Hann var manna fríðastur sýnum og útbúinn öllu því sem mann mátti prýða; Helóisa var fögur og gáfuð, og nú feldu þau ástarhug hvort til annars, Abailarð og Helóisa. Þau létu gefa sig saman á laun, og nú fór svo, að Helóisa varð ólétt af völdum Abailarðs, en neitaði fastlega að hún væri hans kona; átti hún þúngum álögum að sæta af öllum ættíngjum sínum. Af þessum orsökum flúði Abailarð á burt með Helóisu og kom henni í nunnusetur; en Fúlbertus varð fokvondur, lét taka Abailarð og gelda. Abailarð gjörðist þá múnkur og ætlaði að hætta allri kennslu, fyrir sakir harms og reiði, en hafði engan frið fyrir hinum fyrri lærisveinum sínum og varð að taka til kennslunnar að nýju. En hann gjörði háð að ýmsu í kirkjulærdómunum og var nokkuð keskinn í orði, og nú var hann dæmdur til að brenna kennslubók sína á báli og að setjast í klausturvarðhald. Aptur komst hann samt þaðan og götvaði upp nýja villu; þá gerðu múnkar aðsúg að honum, og hlaut hann að flýja í skóg nokkurn og ætlaði að verða þar einsetumaður; en múgur og margmenni streymdi til hans aptur og neyddi hann til að halda fyrirlestra, og leið ekki á laungu, áður þar komst upp mikið ábótasetur. Þar eirði hann ekki, og fékk Helóisu ábótasetrið til umráða; en hún var abbadís í öðru klaustri og réði ekkert við nunnurnar vegna lostasemi þeirra og óreglu. Abailarð var síðan í átta ár ábóti í klaustri einu í Bretagne og fékk ekkert ráðið við múnkana þar; síðan tók hann aptur til að kenna og sóktu hann eins margir og fyrr, eða jafn vel fleiri. Sýndi hann enn ýmsa hluti, er ekki samrýmdust kirkjunni (í bókunum: Scito te ipsum, Theologia christiana og Sic et nou), og mótsagnir kirkjulæraranna. Þá fór Bernardus á móti honum, og var hann dæmdur villumaður og í klausturvarðhald að nýju, og bækur hans allar skyldi á bál bera (1140). Eptir það var Abailarð kyrr og bjó hjá ágætum ábóta, Petrus venerabilis, til dauðadags (1142), en sættist við Bernardus áður. Þannig er æfisaga þessa merkilega manns, sem vér ekki þekkjum hans líka með tilliti til ákefðar, heiptar og ástar. Bernardus af Claravalle (Clairvaux) var sannheilagur maður og innblásinn af heilögum anda svo mikið sem maður má vera; hann hneigist til Mysticismus og lýsa því öll hans rit. Merkir og vitrir lúterskir guðfræðíngar kannast við að öll æfi hans sé sveipuð kraptaverkanna geislandi dýrð. Frá fyrstu barnæsku stóð hann á móti freistíngum holdsins, og menn vita ekki um hann hinn minnsta skugga nokkurrar syndar. Hann var jafnt riðinn við ríkisvöld sem kirkjumálefni, og sóktur frá einu landi til annars til þess að dæma milli þengla og þjóða. Engin hræsni var hjá honum fundin, hann var blíður og góður, en refsaði harðlega misbrúkun klerkavaldsins: honum stóð páfatignin til boða fremur en öllum öðrum, en hann neitti því. Bæn og hugsun um guð var öll guðfræði hans (Orando facilius quam disputando et dignius Deus quaeritur et invenitur, segir Bernardus, og benda þessi orð á anda tímans). Af engum manni eru sögð jafn mörg og mikil kraptaverk og Bernardus, það er engu líkara en Jesú Kristi sjálfum, sem af honum er sagt, og miklu fremur en Þorláki helga, sem honum er þó líkastur þeirra er eg man eptir; þó er Franz af Sales líkur honum einnig, en um hann eru engin kraptaverk sögð, og þó er hann heilagur maður. Það þarf mikla bíræfni og dirfsku til að neita slíkum hlutum, en menn geta neitað öllu, og sumir neita öllu þótt þeir sjái það. Bernardus andaðist 1153.

Eptir þessa styrjöld komst friður á um hríð í kirkjunni. Á þessari öld voru uppi þeir Húgó af sancte Victore, vinur Bernardus og áþekkur Augustinusi, djúpsæjasti og lærðasti maður, og reit um sakramentin. Petrus Lombardus reit um trúarsetníngar kirkjunnar (sententias), og var það rit haft í öllum skólum og staðfest af kirkjunni sjálfri 1215. Fleiri merkilegir menn voru og uppi.

Öll lærdómsstríð þessarar aldar áttu sér rót í rannsóknunum um frumeðli hlutanna, og er harla torvelt að lýsa þessu, en þó er það nauðsynlegt, til þess að sjá anda tímans.

Heimsspekin var í fyrstunni kend á háskólunum sem formleg (Dialectica), og fékkst ekki við guð­fræði. Guðfræðin var fyrst sama sem skoðun hins ósýnilega (Metaphysica); en af sameiníngu Metaphysices og Logices (eða –orum) kom fram trúarsetníngafræðin (Theol. Dogmatica). Úr ritum Porphyrius, nýplatonisks heimsspekíngs († 304) náðu menn þeirri spurníngu, hvort lifandi hlutfall mundi vera á milli hins ósýnilega, sem Metaphysica kennir, og hugmyndanna (Begriffe), sem Logica gjörir ráð fyrir, ↄ: á milli realitatis og ideae. Þessu svaraði Anselmus af Kantaraborg († 1109) með því að leiða tilveru guðs út af hugmyndinni um guð (eins og Cartesíus gjörði síðar); tilvera eða verulegleiki hugmyndanna var þannig ályktaður sem gildur, og svo varð Anselmus foríngi þessa flokks, er því trúði. Þeir kölluðust Realistar, af því þeir vörðu verulegleika hugmynd­anna (Realitas idearum), og álitu, að hugmyndirnar hlytu að vera til áður en maður gæti hugsað um þær, og hvort sem menn hugsuðu um þær eður ekki. Á móti Anselmusi reis upp Roscelin kanúki, og neitaði að hugmyndirnar væru til þannig, en sagði að þær væru einúngis tilbúníngur málsins (flatus vocis) og ekki nema nöfnin tóm; hans menn kölluðust Nominalistar. Þessi ágrein­íngur réði öllum styrjöldum í trúarheimsspekinni með ýmsum háttum, sumir hneigðust til Platons og þar með til innri sjónar andans (Mysticismus); sumir til Aristoteles, eða sameinuðu þá.

Þrettánda öld. Þessi öld er einhver hin merkilegasta í sögunni, og á henni var trúarheimsspekin í mestum blóma. Þá voru og fagrar menntir í ekki minni dýrð, því að þá var Dante uppi og þá var farið að byggja dómkirkjuna í Kolni, sem er hin mesta meistarasmíð allra byggínga, og ekki búin enn. Þetta, og hinir fjórir menn, sem eg nú mun nefna, lýsir afli aldarinnar; hinir fjórir fólu í sér allan lærdóm, sem menn voru þá búnir að ná.

1. Tómas frá Aquino, 1227—1274, var greifi, frændi Hinriks keisara VIta og Friðreks konúngs annars, náskyldur Friðreki Barbarossa og kominn af Norðmönnum í móðurætt. Hann yfirgaf alla dýrð þessa heims og gjörðist múnkur af Dominikus reglu, á móti vilja allra ættíngja sinna. Hann var lærisveinn Albertus mikla, og var þar kallaður »nautið þegjandi«, því hann var mikill vexti og mjög fátalaður. En Albertus mikli sagði einhverju sinni, þegar verið var að gjöra gys að Tómasi í heyrnarsalnum: »það skuluð þér vita, að þetta naut mun einhvern tíma öskra svo hátt, að það heyrist um allan heim«. Hann kendi síðan bæði í Kolni, París og Rómi, hann sat að veizlum með Frakkakonúngi (Loðvíki helga) og var þá opt eins og utan við sig, því hann var sí og æ svo á sig kominn, að hann »hátt og djúpt huga sendi.« Síðan hafðist hann við í Dominikussetri í Neapel og dó á ferð til kirkjufundarins í Lyon, og halda sumir af eitri. Tómas af Aquino var »hinn voldugasti omnium scholasticorum«, hinn djúpsæjasti og skarpasti spekíngur þessarar aldar; jafn mikill heimsspekíngur og Augustinus, en ekki eins lærður. Í trúarlegu tilliti fylgdi hann Augustinus, en í öllu hinu formlega lagði hann Aristoteles til grundvallar. Aðalverk hans er Summa totius theol­ogiae, sem er eitthvert hið mesta verk sem nokkur einn maður hefir gjört, því að þar er ekki einúngis innifalin í öll guðfræði og heimsspeki kirkjunnar, heldur er það samanhángandi byggíng, sem mænir upp yfir öll önnur manna verk í þeirri stefnu.

2. Bonaventura (1211 — 1274) var annar mestur guðfræðíngur þessarar aldar. Hann var af Fransiskus reglu, og svo siðgóður, að menn sögðu um hann þegar á únga aldri, að það sýndist sem Adam hefði eigi í honum syndgazt. Hann hneigðist að hinnri innri sjón andans (Mystik), og ræður það í ritum hans. Bæði Tómas og Bonaventura voru skáld, því trúin og listirnar eru óaðgreinanlegar í eðli sínu; Tómas hefir ort svo fagra sálma á latínu, að aldrei hefir fegra verið kveðið í þá stefnu; þeir reyndu sig, Tómas og Bonaventura, og fór svo að Tómas vann sigur (það kvæði byrjar svo: Lauda Zion). Bonaventura orti mart og reit mart; hann var svo engilhreinn, að hann var kallaður »doctor seraphicus«,14 og var það sann-nefni. Tómas hafði lesið ýms rit og kvæði eptir hann, og með því hann var hinn hneigðasti fyrir alla bókvísi, þá gjörði hann sér ferð til Bonaventura til þess að sjá bókasafn hans, því hann hélt það væri mikið, en Bonaventura sýndi honum ímynd frelsarans, og sagði það væri bókasafnið sitt. Hann hafði nefnilega alla sína vizku af trúnni á Krist.

Hinir aðrir tveir hrókar alls náms á þessari öld voru fróðir menn, sem stunduðu öll veraldleg vísindi ásamt guðfræðinni.

3. Albertus mikli (1195—1280), greifi af Bollstädt, kennari í París og Kolni, af reglu Dominikus. Hann kunni jafn vel austurlanda mál sem grísku og latínu og ritaði í öllum vísindagreinum, en hann hugsaði ekki mikið upp sjálfur; að fjölhæfni var hann mestur allra trúarheimsspekínga, en hvergi nærri eins djúpsær og hinir þrír. Það liggur við að mönnum megi ægja hversu mikið sá maður hefir komizt yfir að rita; verk hans eru 21 bindi in folio, alls konar efnis. Hann lagði mjög stund á náttúruvísindi, og þekti marga hluti er ókunnir voru almenníngi; því lék það orð á honum, að hann væri fjölkunnugur, en aldrei komst hann í stríð við kirkjuna.

4. Roger Baco (1214—1294) álíta sumir fjölhæfastan mann allrar miðaldarinnar, og hann var lángt á undan sínum tíma í mörgum greinum. Hann nam fræði í París og Öxnafurðu. Hann kunni latínu, grísku, hebresku og arabísku eins vel og ensku og frakknesku; hann rýndi lángt fram fyrir sína öld inn í reikníngslist, stjörnufræði, læknisfræði og öll náttúruvísindi, og lét ekki lenda við eintóma skoðun, eins og annars var siður, en reyndi og prófaði sjálfur alla hluti, og réði alltaf til þess að gánga þann veg. Tilraunir hans í efnafræðínni leiddu hann svo lángt, að hann sá fyrir þá hluti, sem menn nýlega hafa upp götvað; hvað sem menn segja um Salomon de Caus eða þá sem menn rekja til uppáfinníngar gufuvélanna, þá er auðséð, að Baco hefir séð það miklu fyrr. Hann segir í þeirri bók, sem er ritin um leyndardóma listanna og náttúrunnar (de secretis artis et naturae), að menn geti búið til slík verkfæri fyrir skip, að þau geti farið yfir fljót og höf miklu harðar en með árum, og menn geti búið til vagna, sem geti runnið hart áfram án nokkurra eykja. Þótt menn eigi reikni uppgötvan púðurs og skotfæra eldri en til 15. Aldar,15 þá hefir Baco samt sagt í sama riti, að ef menn láti sérlegt efni í koparpípu, þá geti menn gjört óttalegan hvell, og með því efni geti menn eyðilagt staði og herlið. (Í fornum sögum vorum er talað um »herbrest«, sem gerður hefir verið með einhverju þess konar efni, t. d. í Biskupasögunum, um Þórð fiseler ↄ: fusilier). Samt ber þess að geta, að Arabar og Márar þektu púðrið miklu fyrr en norðurálfubúar. En andi tímans var ekki fyrir þessa stefnu Bacós; hann var ákærður fyrir fjölkynngi og galdra, og hlaut að sitja í díblissu í mörg ár, þángað til Clemens páfi hinn IV. leysti hann þaðan; segja menn að hann einn hafi skilið Baco, og á hann þakkir skilið fyrir það.

Aftanmálsgreinar

12. Sálarflakks-kenníng Pythagoras, sem hann án efa hefir numið á Egiptalandi.

13. Það sem menn kalla guðfræði (Theologia) almennt, er allt þetta til samans, en engin ein vísindagrein.

14. Hann er alls eigi kallaður þannig vegna stíls síns, eins og segir í „Nordisk Conversationslexicon.“

15. Þannig segja menn almennt í fræðibókum skólanna; en menn vita með vissu að púðrið, ↄ: efni sem haft var til að spreingja grjót með, er miklu eldra (frá 12. öld) – en til skotfæra hefir það ekki verið notað fyrr en seinna.

Heimspeki úr glatkistunni: „Um það að vita“ eftir Benedikt Gröndal, fyrri hluti

„Um það að vita“

eftir Benedikt Gröndal

Inngangur

eftir Helgu Jónsdóttur og Jón Braga Pálsson

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal fæddist árið 1826 á Bessastöðum. Faðir hans var Sveinbjörn Egilsson, kennari við Bessastaðaskóla og móðir hans Helga Gröndal. Foreldrar Benedikts voru gott fólk, vel gefið og vel lesið, en að sögn Benedikts sýndu þau ekki mikla hjartahlýju í garð barna sinna og hann segist snemma hafa orðið einrænn og fúll.1 Þrátt fyrir að vera alinn upp á miklu menntaheimili var skólaganga hans slitrótt. Hann var mikill lestrarhestur og gæddur góðum námshæfileikum en hefðbundið nám átti þó ekki vel við hann. Hann var alla tíð sveimhuga og mótþróasamur, átti erfitt með að festa hugann við ákveðið efni og lét ekki skipa sér fyrir. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 19 ára gamall, með lægstu einkunn bekkjarins, og hélt til Kaup­mannahafnar til að hefja háskólanám. Hann flosnaði fljótt upp úr því en gerði tvær tilraunir í viðbót og lauk að lokum mastersgráðu í norrænum fræðum fyrstur Íslendinga árið 1864 eftir sautján ára gloppóttan háskólaferil.2 Hann vatt sér þá beint í doktorsnám og skrifaði doktorsritgerð um skáld Haralds hárfagra. Ritgerðin var hins vegar ekki samþykkt til varnar af Kaupmannahafnarháskóla vegna þess að hún þótti ekki nógu nákvæm. Þetta var mikið áfall fyrir Benedikt en eftir þetta varð ekkert úr frekara háskólanámi hans.3

Þótt Benedikt hafi ekki sinnt háskólanáminu af miklum metnaði allan tímann, sat hann ekki auðum höndum. Hann las sér ýmislegt til gagns og sökkti sér niður í vísindi, heimspeki og lestur klassískra bókmennta. Hann orti einnig sjálfur kvæði og fékk fjögur birt í Fjölni, 21 árs gamall, og varð þjóðþekktur í kjölfarið. Hann var vinsælt skáld í samtíma sínum og almenningur talaði um hann, Matthías Jochumsson (1835-1920) og Steingrím Thorsteinsson (1831-1913) sem þjóð­skáldaþríeykið. Kvæði Benedikts hafa þó fallið í skuggann á síðari tímum en óbundið mál hans lifir enn góðu lífi, þá sérstaklega, Heljarslóðarorrusta frá 1863 og sjálfsævisaga hans, Dægra­dvöl, sem hann ritaði á ævikvöldinu.4

Hann er sennilega þekktastur í dag fyrir skáldskap sinn en fékkst þó við margt fleira. Eins og kemur fram í, „Um það að vita“, þótti Benedikt mikilvægt að hafa vítt þekkingarsvið og gagnrýnir þá sem „slíta einhverja grein út úr heildinni og vita svo ekkert um annað.“5 Það mætti í raun kalla hann fjölfræðing, auk ritlistarinnar og norrænu fræðanna, fékkst hann við náttúrufræði, þýðingar á klassískum bókmenntum, myndlist og heimspeki ásamt því að vera eftirsóttur skrautritari.6

Heimspekin sem Benedikt lagði stund á var fjölbreytt. Hann getur þess að hafa lesið meðal annars Hegel, Aristóteles og Platón en um þann síðastnefnda orti hann aðdáunaróð sem hefst á vísuorðunum: „Viskunnar veglegi son! Þú voldugi, guðlegi Platon!“7 Hann varð þó fyrir mestum áhrifum af þýsku hughyggjunni og eru kvæði hans lituð af ídealisma.8 Hann ritaði einnig greinar um fagurfræði þar sem hann er undir sterkum áhrifum frá heimspekingum hughyggjunnar, þeim Kant og Hegel.9 Sömu áhrif eru einnig augljós í greininni, „Um það að vita“.

Greinin birtist árið 1873 í tímaritinu Gefn sem Benedikt gaf út á árunum 1870-1874 en hann ritaði allt efni þess sjálfur. Á þessu fimm ára tímabili var útgáfa Gefn aðalviðfangsefni hans og var því vel tekið.10 Því var ætlað að vera skemmtilegt og fræðandi rit og höfða til allra Íslendinga eins og kemur fram í leiðara Benedikts að fyrsta tölublaðinu. Hann vildi kynna „helztu uppgötvanir og uppáfinníngar“ úr fræðaheiminum, aðallega í málvísindum og fornfræðum, en einnig segja skemmtilegar sögur og fjalla um pólitík á alþýðlegum nótum.11

„Um það að vita“ fjallar um heimspekisögu Vesturlanda frá upphafi fram á 13.öld og er jafnframt fyrsta tilraunin til að skrifa heimspekisögu á íslensku. Benedikt telur ekki nauðsynlegt að fjalla um yngri heimspeki því hann heldur því fram að hún sé „ekki frumhugsuð, heldur upptygging eptir enum eldri mönnum.“12 Greinin byrjar á stuttum inngangi og hefst Benedikt síðan handa við að rekja söguna. Hann telur upp og fjallar stuttlega um hverja heimspekistefnu fyrir sig, nokkurn veginn í tímaröð. Í innganginum fjallar Benedikt um mikilvægi þess að þekkja heimspekina og sögu hennar. Hann skilgreinir heimspekina og útskýrir m.a. tengsl hennar við guðfræði. Mikilvægt er að hafa í huga að merking orðsins heimspeki er ekki sú sama í dag og á tíma Benedikts. Hugtakið var í raun notað yfir þekkingarleit í víðum skilningi og þar af leiðandi sem regnhlífar­hugtak yfir margar fræðigreinar.13 Skilgreining Benedikts er að heimspekin sé „það að skoða alla þá hluti sem í heiminum eru, en það er náttúran og andinn […] þá er hún ekkert annað en það að leita að upphafi heimsins til að leiða þar allt af.“14 Benedikt leggur áherslu á að allar vísindagreinar tengist saman og að þekking á einni varpi ljósi á aðrar. Þannig veitir þekking á heimspeki­sögunni skilning á tengslum vísindagreinanna.

Benedikt útskýrir tengsl guðfræði og heimspeki á þá leið að guð búi að baki hinum sýnilega heimi og þar sem heimspekin fæst við að rannsaka heiminn, verður guð óhjákvæmilega umhugsunarefni heimspekinnar. Siðfræðin á, að mati Benedikts, einnig rætur sínar að rekja til guðfræðinnar, vegna þess að í upphafi var hún útskýring á því hvernig bæri að þóknast guð­dómnum. Þar með hefur hann sett útgangspunkt fyrir sögu heimsspekinnar: að greina frá þeim hugmyndum um andann, náttúruna og guð sem heimspekingar og heimspekistefnur mótuðu út frá skoðun á heiminum. Aðaláhersla Benedikts er þó á hugmyndir um andann og guð.

Umfjöllun Benedikts er allt annað en þurr og hlutlaus upptalning. Ákveðið sjónarhorn Benedikts sem tekur mið af hughyggjunni, helsta heimspekilega áhrifavaldi hans, litar textann. Til að mynda tengir hann kenningar nýplatónismans við kenningar Hegels og auk þess rímar mikil áhersla hans á andann við hugmyndafræði hughyggjunnar. Benedikt fjallar á skemmtilegan og persónu­legan hátt um stefnurnar og oft skína hans eigin viðhorf til ákveðinna heimspekinga í gegn. Hann hefur aðdáun á þeim mönnum sem börðust gegn viðteknum hugmyndum samfélagsins eins og til dæmis Abelard (1079-1141). Um hann segir Benedikt: „[hann] var hinn gáfaðasti, djarfasti, lærðasti, skarpasti og mælskasti og liprasti allra þeirra sem nokkrar sögur eru af á 11. og 12. öld […] hann götvaði upp hverja mótsögnina af annari í bókum kirkjunnar og þrumaði hlífðarlaust á móti kirkjufeðrum.“15 Benedikt þykir hins vegar lítið koma til ófrumlegra manna sem börðust ekki á móti valdinu eins og umfjöllun hans um Albertus Mikla (1193/1206-1280) ber með sér. Hann tekur fram að Albertus hafi aldrei komist í stríð við kirkjuna og segir: „hann hugsaði ekki mikið upp sjálfur.“16 Þessi afstaða Benedikt kemur ekki á óvart þegar hans eigin lífshlaup er haft í huga, en eins og áður sagði var hann mikill mótþróaseggur.

Í ritgerðinni er hann trúr markmiði sínu, að vera á aðþýðlegum nótum og höfða til Íslendinga. Hann tengir á nokkrum stöðum heimspekisöguna við íslenska menningu. Hann líkir til að mynda ljóðum Hesiodusar við Eddukvæðin og kenningu sjálfs Aristótelesar um hið góða við helgikvæðið Lilju. Þannig reynir Benedikt að vekja áhuga landsmanna á efninu. Greinin getur varla talist vísindaleg en það var heldur ekki ætlun Benedikts eins og afsökun hans til hinna „lærðu“ manna, sem hann hefur innan sviga í upphafi skrifa sinna, gefur til kynna. Þrátt fyrir að vera menntaður maður var Benedikt fyrst og fremst alþýðufræðari og kennari, fremur en vísindamaður eins og til dæmis útgáfustarf hans á Gefn ber vitni.17 „Um það að vita“ er ekki hnökralaus en vert er að hafa í huga sögulegt samhengi hennar og tilgang, ásamt því að hún er frumkvöðlaverk í ritun heimspekisögu á Íslandi.

Aftanmálsgreinar

1. Benedikt Gröndal 1983: 25-26.

2. Páll Valsson 1996: 361.

3. Gils Guðmundsson 1981: 18.

4. Páll Valsson 1996: 359-366.

5. Benedikt Gröndal 1983: 62.

6. Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011: 241. Náttúrufræðin, myndlistin og skrautskriftin sameinast í stórvirk­inu Íslenskir fuglar (Crymogea, 2011).

7. Benedikt Gröndal 1981: 143 og 158.

8. Páll Valsson 1996: 362.

9. Þórir Óskarsson 1987: 108.

10. Benedikt Gröndal 1983: 284.

11. Benedikt Gröndal 1870: 11.

12. Benedikt Gröndal 1873: 65.

13. Gottskálk Jensson 2010: 31-33.

14. Benedikt Gröndal 1873: 64.

15. Benedikt Gröndal 1873: 98-99.

16. Benedikt Gröndal 1873: 104.

17. Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011: 245.

Heimildir

Benedikt Gröndal. 1870. Leiðari. Gefn 1:1, 1-14.
Benedikt Gröndal. 1873. „Um það að vita“. Gefn 4:1, 61-105.
Benedikt Gröndal. 1981. „Platon“. Rit I, bls. 158. Skuggsjá, Hafnarfirði.
Benedikt Gröndal. 1983. „Dægradvöl (Ævisaga mín)“. Rit III, bls. 7-288. Skuggsjá, Hafnarfirði.
Gils Guðmundsson. 1981. „Benedikt Gröndal: Æviferill og helstu störf“. Rit I, bls. 7-30. Skuggsjá, Hafnarfirði.
Gottskálk Jensson. 2010. ,Af merkingarusla í heitum háskólagreina: hugleiðing um sögu 18. aldar nýyrðanna „bókmenntir“ og „heimspeki““. Ritið 10:3: 7-35.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson. 2011. Eftirmáli. Íslenskir fuglar: teiknaðir af Benedikt Gröndal, bls. 235-251. Crymogea, Reykjavík.
Páll Valsson. 1996. „Hömlulaus ljóðræn sveimhygli: Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal“. Íslensk bókmenntasaga III, bls. 359-366. Mál og menning, Reykjavík.
Þórir Óskarsson. 1987. Undarleg tákn á tímans bárum: Ljóð og fagurfræði Benedikts Gröndals. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

 


 

Um það að vita

(Þó þessi ritgjörð kunni að þykja nokkuð „prestaskólaleg“ eða þessleiðis, þá læt eg nú samt prenta hana hér, af því eg er ekki viss um að fá betra tækifæri til þess í bráð. Eg vona að kunníngjar mínir fyrirgefi, þó eg sem „ólærður“ maður velti mér hér inn í efni þessara „lærðu“ manna, sem ekki geta ritað einn staf fyrir tómum „lærdómi“: Það sem eg les, fyrir því geri eg mér sjálfur opt grein með því að rita það; og svo hefir og orðið með þetta efni.)

Menn leggja fyrir sig ýmsa hluti, og sú regla gildir ætíð, að einn maður getur ekki vitað allt. En þetta allt er heimurinn, og heimurinn er einúngis einn. Heimurinn er allt hið skapaða, bæði and­legt og líkamlegt, og allt hið skapaða er óaðgreinanlega samtengt hvað við annað. En það er sjálfsagt, að guð er undan skilinn hér frá, því hann einn er ekki skapaður, heldur er hann einn skapari alls. Að þekkja heiminn, er þá sama sem að þekkja allt sem í heiminum er. En af því að enginn maður kemst yfir það, þá hafa menn skipt hlutunum niður, og leggur sinn stund á hvern hlut, eptir því sem hann finnur sig lagaðan til; sumir stunda málin (málfræðíngar), og sumir enda ekki nema eitt mál; sumir rýna eptir stjörnum, sumir eptir dýrum o.s.fr. Heimurinn bendir oss þegjandi á þetta, því engum dettur í hug að slengja saman stjörnum og málum t.a.m., eða dýrum og jurtum eða því sem er auðsjáanlega annars eðlis. Þannig er undir komin skiptíng heimsins í vísindagreinir, og þær eru mjög margar og margvíslegar. En af því sem áður er sagt, leiðir, að allar vísindagreinir hánga saman og mega eigi aðgreinast; menn sjá líka, að það er ekki unnt að stunda eina grein, nema menn stundi fleiri, og því verr er maðurinn að sér, sem hann er eintrjáníngslegar bundinn við þá einu. Hvernig á nokkur málfræðíngur til að mynda að skilja dýrasögu Aristóteles, nema hann þekki dýrafræði? Sjálfsagt er það, að ekki liggja allar vísindagreinir jafn nærri hvor annari; til að mynda dýrafræði og stjörnufræði — þær eru ekki náskyldar, en þó skyldar að því leyti sem jarðarhnötturinn er einn hluti alheimsins; málfræði er og ekki náskyld dýrafræði, en þó er hún henni skyld að því leyti sem málið heimtar munn, og hann hafa öll dýr; en munnurinn er ós raddarinnar, þótt eigi hafi hana öll dýr. — En hin óendanlega margbreytni og mikilleiki heimsins veldur því, að menn hrasa á tvær hendur: ýmist vita menn einúngis eina vísindagrein eða mjög fáar, og þá eru menn eintrjáníngslegir; eða menn stunda allar eða allflestar, og þá er það með öllu ómögulegt, að menn komist jafn lángt í öllum, eins og aðrir komast í einni eða fám. Þeir menn eru samt ætíð betur að sér og menntaðri, sem stunda sem flest, því þeir taka heiminn í samanhengi hans og heild, en hinir slíta einhverja grein út úr heildinni og vita svo ekkert um annað. Vér skulum hugleiða aðalstefnur vísindanna betur.

Guðfræði er engin vísindagrein og engin fræði, því enginn þekkir guð nema hann sjálfur, og hvernig á nokkur maður að rannsaka guð? Höfðíngi nokkur beiddi Simonides heimspekíng að segja sér hvað guð væri. Simonides beiddi um einn dag til að hugsa sig um. Daginn eptir kom hann og beiddi um tvo daga, og síðan um fjóra. Höfðínginn spurði loksins hví svo væri. Simonides mælti: »Það er af þeirri orsök, að því meir sem eg hugsa um guð, því meira fjarlægist hann mig.« — Það þarf hvorki heimsspekínga né guðfræðínga til að þekkja guð, því sér hverr góður maður þekkir hann. Heldur ekki er það nein vísindagrein, að þýða ritnínguna, því í fyrsta lagi er ritníngin öllum gefin jafnt, en allir geta ekki lesið og skilja heldur ekki allt það sem »guðfræðíngarnir« rita um hana; og í öðru lagi er það venja guðfræðínganna, en enginn réttur, að þýða hana, og að koma sér aldrei saman um margt í henni. En menn skulu ekki ímynda sér, að lærdómur guðfræðínganna um ritnínguna sé meiri eða sannari en annara manna, því það er ekki það orð í heiminum talað, sem ekki má þýða á marga vegu og verða tvíeggjað sverð, ef menn vilja svo. Guðfræðíngarnir koma mönnum ekki nær guði, heldur fjær honum, ef nokkuð er, því af skoðuninni kemur efinn, en efinn er rót trúarleysisins. Hin sanna guðfræði er ekki það, að skilja grísku, eða Clausen og Baur og þess konar rusl; en hún er það, að lifa siðferðislega og réttvíslega í heimi þessum; hún er það, að tilbiðja guð, en menn tilbiðja ekki guð með því að lesa Clausens Hermeneutik eða Martensens Dogmatik, heldur leiðast menn á því í freistíngar og snörur, með því þeir sem þannig lifa, ímynda sér að þeir geti handsamað guð og skilið hann betur en aðrir, en þó gera þeir ekkert annað með þessu, en fyrirlíta guð og saurga helgidóm hans. Það sem menn kalla guðfræði, ætti miklu heldur að heita mannfræði, því það er ekkert annað en um samband mannsins við hið heilaga, og samband mannanna sín á milli, sem er byggt á réttvísi og góðum siðum. Þetta er og hið sama, sem menn kalla að nokkru leyti sálarfræði — það er vísindagrein, sem ekki er til nema í höfðum sálarfræðínga og guðfræðínga.

Heimsspekin er engin vísindagrein, því hún innifelur öll vísindi og alla fræði, eins og nafn hennar sýnir. Guðfræði og heimsspeki eru hvor í annari. Margir hafa þá skoðun, að öfl og viðburðir náttúrunnar hafi leitt af sér guðafræðina (mythologiu), með því að menn hafi ekki getað gert sér grein fyrir þessum hlutum og ímyndað sér þannig æðri verur en menn eru; þannig er goða-trúin upp komin: Þór og Júpíter eru guðir reiðarslaganna, Bragi og Apollo guðir skáldskaparins o.s.fr., af því hið mikla og hið fagra — sem í rauninni á sér rót í hinu eilífa og guðdómlega — hrífur anda mannanna til guðs, hversu sem menn kalla hann og hvernig sem menn trúa á hann. Af guðafræðinni er aptur heimsspekin runnin á þann hátt, að ef guð eða guðir eru til, þá eru þeir í einhverju hlutfalli við menn, en þetta hlutfall er ætíð siðferðislegt, þar af eru komin blót og tilbeiðsla. Hin fyrsta heimsspeki er því kenníng um siðferði manna (Ethik), það er, um það hvernig menn eigi að þóknast guðdóminum. En heimsspekin verður líka sama sem guðafræðin, ef hún hugleiðir guðina sem náttúruöfl. Aptur á móti hafa aðrir þá skoðun, að guðfræðin sé ein tegund af heimsspeki, og það er líka rétt, samkvæmt því sem sagt er um guðfræðina, seinast í greininni.

Heimsspekin er það að skoða þá hluti sem í heiminum eru, en það er náttúran og andinn; á öllum öldum og í hverri mynd sem hún er, hvort heldur hún er skáldskapur, óbundin ræða eða kenníng, þá er hún ekkert annað en það að leita að grundvelli og upphafi heimsins, til þess að leiða allt þar af. Nú er miklu minna um þessa »heimsspekínga« en áður, því menn eru búnir að sjá, að heimsspekin er engin sérstakleg fræði, heldur felur hún í sér bæði náttúruvísindin, málfræði, sögu og fegurðarvísindi, ásamt með kenníngum siðferðilegs lífs eða mannfélagsins, en þessi fimm vísindi eru aðalstefnur andans.

Sér hverr skynsamur maður á hægt með að sjá, hvernig þessi fimm vísindi grípa hvort inní annað. Náttúran er umgjörð og undirstaða mannlegs lífs og félags; úr náttúrunni fáum vér allt viðurværi og á hennar leiksviði eru framdir sjónarleikir mannanna, sem eru annað hvort friður eða styrjöld. Án málsins væru mennirnir ekki menn, því málið er upphaf og viðhald mannlegs félags, allra samtaka, allrar vinnu, allrar styrjaldar og alls friðar; en án siðferðilegs lífs getur mannlegt félag ekki stadizt, en félagið og siðferðið heimtar fegurðina eins og krydd lífsins og má ekki án hennar vera, því þar sem hana vantar, þar er menntunarleysi og myrkur dauðans; fegurðin er sameiníngarliður á milli líkamsins og andans, á milli hins jarðneska og hins himneska, á milli guðs og manna; hún minnir oss á hina eilífu, heilögu rót, sem vér erum runnir af, og hún bendir oss til þess lífsveldis, er vér eigum að leitast við að ná. En sagan segir frá allri þessari eptirsókn mannsins, um dimmar nætur og daga ljósa, hún faðmar allt. Þannig sameinast öll vísindi. Eg skal nú gefa yfirlit yfir heimsspekina eða skoðun manna á heiminum frá elztu tímum og fram á 13du öld, en ekki lengra, því það sem ýngra er, er ekki frumhugsað, heldur upptyggíng eptir enum eldri mönnum.

Hin elzta heimsspeki hefur komið fram í ljóðum. Þannig er bók Jobs, orðskviðir Salómons, Davíðs sálmar: þetta er allt saman ekki annað en heimsspeki, það er: skoðun á lífinu og heiminum, og hlutfalli þess við skaparann, hið góða og hið almáttuga veldi guðs. Það er ekki furða, þótt hin skáldlega heimsspeki gyðínga væri tignarlegust allra, því þeim hlotnaðist hinn mesti löggjafi, sem nokkurn tíma hefir uppi verið, hann, sem sagði þetta hið óttalega og fagra orð: »eg er drottinn þinn guð, þú átt eigi að hafa aðra guði fyrir mér.« Með þessum einföldu orðum var þjóð gyðínga umsvifalaust leidd að upphafi vizkunnar, og þessi orð gjörðu þá hæfilega til þess, að verða jarðneskir forfeður frelsarans, því þau létu þá varðveita trúna á sannan guð, og það er hin sanna heimsspeki. En þótt það nú sé rétt, að kalla löggjafana heimsspekínga, svo sem Móses, eða Lykúrgus, af því þeir heimfærðu heimsspekina uppá mannlegt félag og gáfu lög samkvæmt því sem þeir vissu bezt um hlutfall þess við guðdóminn, þá eigum vér hér ekki við slíka heimsspekínga, heldur þá, sem einúngis skoðuðu heiminn og leituðust við að finna upphaf hans. Móses leitaði ekki þessa upphafs; hann fann það þegar í stað, og því er allt önnur birta yfir gyðíngum en öðrum þjóðum fornaldarinnar. — Sá er ómenntaður, sem ekki veit neitt um þessa baráttu hinna vitrustu manna við fávizkuna, hvernig þeir reyndu til af öllum mætti andans, til þess að ná þekkíngu á uppruna heimsins og með því á sönnu eðli mannlegs lífs, og því skal jeg nú fara stuttlega yfir hinar helztu tilraunir í því efni.

Hin elzta skoðandi heimsspeki er, að því leyti oss er kunnugt, hjá Grikkjum og Indverjum, og á meðal Grikkja er Hesiodus elztur (eitthvað 960 eða 1000 árum fyrir Krist); hann hefir kveðið um goðin, eins konar Gylfaginníngu; er þar sagt frá upphafi þeirra og ýmsum undarlegum hlutum. Enn er til eptir hann kvæði, um vinnu og daga (έργα ϰαί ήμέραι); þar reiknar hann hina fimm mannsaldra: gullöld, silfuröld, eiröld, hetjuöld (hálfguða-öld) og hina fimmtu öld, sem er hans öld, og hefur þá þannig upp: »Æ, að jeg skuli vera vitni til hins fimmta aldurs mannanna! Að jeg ekki fyrir laungu skyldi mega deyja! … Þetta er járn-öld, og hinir spilltu menn hvíla hvorki nætur né daga fyrir eymd og kvöl … Þá flýðu blygðanin og réttvísin aptur til himins frá bústöðum mannanna, skrýddar skínandi blæjum; en hjá dauðlegum mönnum varð eptir harðhent neyð, og engin hjálp finnst handa hinum aumu« — þannig kveður Hesiodus, svo menn sjá, að ekki er það spónnýtt að mönnum mislíkar heimurinn; þetta er eins og í Völuspá: »Bræður munu berjast og að bönum verðast … skeggöld, skálmöld, skildir eru klofnir, vindöld, vargöld, áður veröld steypist«, nema hvað þetta er spá, en hitt lýsíng aldarinnar, eins og Hesiodusi fannst hún.

Þess konar kvæði eru í rauninni ekki annað en trú mannanna, sem skáldið hefur sett í ljóð, eins og Íslendingar kváðu Völuspá, Grímnismál og fleiri Eddukvæði. En seinna, þegar menntun Grikkja óx, þá komu upp margir menn, sem bæði ferðuðust erlendis, til þess að nema vizku af öðrum þjóðum, sem reyndar voru ekki jafn menntaðar (?), en áttu afar gamla klerkastétt, þar sem gömul trú hafði haldist við frá alda öðli (Egiptar), og jósu einnig af sínum eigin brunni, með því þeim var veitt meira ljós en öðrum til þess að rýna eptir eðli hlutanna, þótt þeir sjaldan kæmist nærri sönnu. Þessir vitríngar kendu öðrum, og þeir flokkar, sem námu af þeim og héldu uppi meiníngum þeirra, kallast »skólar«. Heimsspekíngarnir voru þá á allan annan hátt en nú eru lærðir menn; þeir ýmist kendu úti undir berum himni, eða í svölugaungunum í Aþenuborg, eða þeir ferðuðust til og frá, því þá voru engir háskólar né skólahús, heldur var kennslan og allt líf manna öðru vísi en nú. Sumir voru og mjög kátlegir, eins og Diogenes, er hafði tunnu fyrir hús og fyrirleit svo mikið allt mannlegt félag, að þegar hann gat að líta hund lepja vatn, þá fleygði hann burtu trésleif þeirri, sem hann var vanur að drekka með, og drakk eptir það úr lúku sinni; og um albjartan dag gekk hann um torgið í Aþenuborg með skriðljós, og kvaðst vera að leita að mönnum (hann meinti, að hvergi væri þeir til, sem menn mætti kalla). Þegar Alexander mikli kom til Korintuborgar, þá kom hann þar að, sem Diogenes lá í tunnunni, og spurði hann hvað hann gæti gert fyrir hann. »Farðu frá, svo sólin megi skína á mig«, sagði Diogenes.

1. Hinn ióniski skóli leitaði að frumrökum heimsins og vildi fylgja reynslunni; frá honum er runnin sú tilraun, að heimfæra allt uppá skynsemina. Vitríngar þessa skóla fóru eptir frumefnunum: þannig kendi Thales (á 7. öld f.Kr.), að heimurinn hefði upptök sín af vatni;1 Heraklitus (frá Efesus, 500 árum f.Kr) kendi, að hann væri skapaður úr eldi, Anaximenes (frá Miletus, 550 ár. f.Kr.) úr lopti. Empedocles (sikileyskur, 550 ár. f.Kr.) kendi, að heimurinn væri ein sameiníng fjögra höfuðskepna: elds, lopts, vatns og jarðar; hann neitaði að guðirnir hefðu mannlega mynd, og sagði, að guð væri ósýnileg, andleg og óumræðileg vera. Pherecydes (á 6tu öld f.Kr.) kendi fjórar aðalhugmyndir: Seif(ↄ: guð), tímann og jörðina; hann sagði að andi mannsins væri ódauðlegur.2

2. Hinn ítalski skóli kallaðist þannig, af því Pythagoras, sem var fyrir honum, var á Suðurítalíu, sem þá var mjög bygð af Grikkjum. Pythagoras dó 504 f.Kr., og er einhverr hinn merkasti maður. Hann fór austur í heim til að nema fræði, og hélt mörgum venjum austurlandabúa síðan; hann var ætíð þann veg búinn, að hann gekk í síðri kápu alhvítri og gylta krúnu á höfði. Sjálfur sást hann aldrei, að kalla mátti, nema þegar hann kendi, og svo mikinn trúnað lögðu lærisveinar hans á allt er hann sagði, að þegar þeim greindi á um einhvern sannleika, þá var það ætíð úrskurðurinn: »hann sagði það sjálfur« (αὺτοϛ έῳα). Á sér hverjum morgni gengu þeir á móti austurátt og heilsuðu sólinni með saung og hörpuslætti. Aðal lífsregla þeirra var: »að gjöra gott og segja satt« (άληδεύειν ϰαί εύεργετειν). Pythagoras bygði heimsspeki sína á reikníngslist. Byrjun alls er ein einíng (monas); sálin er tala (numerus symbolicus). Þær einíngar, sem mynda alheiminn, eru frumeiníng, sem er púnkturinn; tvítala, sem er línan: þrítala, sem er yfirborðið; fjórtalan, sem er hið þétta (fasta). Sálin streymir út frá mið-eldinum, sem er upphaf lífs og varma; hún fer úr líkamanum, þegar hann deyr, og í aðra líkami (sálarflakk, μετεμψυχωσις). Pythagoras kendi mjög reikníng og stjörnufræði; hann fann að ferhyrníngur á lengstu línu þríhyrníngs er jafn stór og tveir á hinum styttri línunum (magister matheseos); hann rýndi og eptir hlutfalli milli hljóms og strengs; hann vissi að vatn varð að lopti með gufan, og að túnglið var dimmur líkami. Enn skildi hann og, að sólin mundi vera knöttur, og hann vissi hreifíngu og möndulhalla jarðar; hann áleit allan alheiminn að vera samhljóðandi heild; að tíu himinhnettir rynni í kríngum sólu, og að af rás himin­hnattanna kæmi hljómur (harmonia coelestis, ↄ: ef Pythagoras hefur meint þetta þannig, eins og allir lærðir menn halda; en άρμονία þýðir líka samhljóðan í sömu merkíngu og vér höfum það, sem er setníng, niðursetníng hluta, svo þeir eiga rétt saman); hann vissi og að morgunstjarna og kvöldstjarna er hið sama, og sýnast breyta stöðu sinni eptir snúníngi jarðar. Hann kendi, að skilníngur væri æðst sálareðli, en dygðin honum undirorpin. Réttvísin er jöfn tala (άριϑμός ίσάϰις ϊσος). Mennirnir standa í sambandi við guðdóminn fyrir krapt stjarnanna. Margir lærisveinar Pythagoras voru merkilegir menn, svo sem Archytas frá Tarent, Timeus frá Lokris, Hippon frá Rhegium og margir fleiri. Auðséð er á kenníngum Pythagoras, að hann hefir numið af Egiptum og Indum, því þar var stjörnulist iðkuð frá alda öðli meir en nokkurstaðar í heimi; en kenníngum hans var ekki nægur gaumur gefinn, heldur týndust þær í heimslífinu; annars mundu menn hafa vitað marga hluti nær sanni en var. Ekkert rit er til eptir Pythagoras; kvæði nokkurt, er kallast »gullvers« (χρυσεα έπη), og inniheldur lífsreglur og ýmsar kenníngar, er varla eptir hann, þótt það sé kent við nafn hans.

3. Hinn eleatiski skóli kallaðist þannig af Elea, borg á Suðurítalíu; þar bjó Zenon (500 árum f.Kr.), hann var einna helztur heimsspekíngur þessa skóla. Þeir sem þessum skóla fylgdu, álitu alla hluti að vera tómar hugmyndir, að skilníngurinn einn væri verulegleiki, og að guð væri heimurinn. Zenon kendi, að ef hlutir þeir, er í kríngum oss eru, væri í raun og veru eins og vér skynjum þá, þá væru þeir eintóm vitleysa og staðleysa; hann áleit að engin hreifíng gæti átt stað. Þann kennslumáta hafði Zenon, að hann talaði við menn, og kom þeim í bobba með orðasnúníngum, svo þeir féllu um sjálfa sig. — Xenofanes frá Kolofon stofnaði þennan skóla í Elea 536 árum f.Kr., og orti kvæði um náttúruna; hann kendi, að guð væri einn efstur guða og manna, ólíkur mönnum að mynd og muna;3 hann kendi og að guð væri hnöttóttur,4 og að hnattmyndin táknaði íhugan; að ekkert kæmi af engu, og að allt eða alheimurinn væri því einn einasti hlutur, óbreytanlegur og eilífur. Alheimurinn er einn, og þessi eini er guð. Menn geta ekkert sagt visst, heldur er allt get­gátur. Parmenides (kennari Zenons og honum samtíða) kendi, að eldur hefði myndað jörðina, og hreifði hana; hann hélt að guð væri ljóshríngur, sem girti himininn.5 Hann var fyrstur heimsspekíngur, sem gerði mun á, meiníngu og vissu. — Melissus frá Samos (440 árum f.Kr.), hershöfðíngi og stjórnarmaður, neitaði því, að líkamarnir hefði nokkra útþenslu eða stærð.

4. Atomista skólinn kendi, að frumefni allra hluta og alls verulegleika væri frum-arið (atoma), eður ímyndaðar agnir sem enginn sæi, en væri eilífar og margvíslegar að mynd; þessar agnir hefði sameinast af hendíngu, og þannig væri heimurinn til kominn. Sálin er sameiníng eldagna. Tveir eru merkilegastir af þessum skóla: Heraklitus frá Efesus (500 árum f.Kr.), sem kallaður var grátstafur, af því hann harmaði óstöðugleika heimsins og að allt hvyrfi á burtu en ekkert stæði í stað. Hið sama áleit og Platon, en hann fór betur með það: »ekkert er, en allt verður«.6 Heraklitus var þúnglyndur og þúngskilinn, skáldlegur og djúpsær. — Demokritus frá Abdera (470 f.Kr.) var gagnstæður Heraklitus; því þar sem Heraklitus grét af öllu, þá hló Demokritus að öllu; hann kendi að nauðsynin stýrði náttúrunni, og að jafnlyndi væri upphaf sælunnar. (Sumir telja Epikurus til þessa skóla, sumir sleppa Heraklitusi; o.s.fr.)

Þeir heimsspekíngar, sem vér nú munum minnast á, mynduðu eigi kennsluskóla, en höfðu nafn sitt ýmist af mönnum, stöðum eða öðrum hlutum. Sophistarnir höfðu ýmsar skoðanir á lífinu: Gorgías frá Leontium sagði, að enginn hlutur væri í rauninni til; Protagoras frá Abdera, að menn gætu aldrei komist að neinum sannleika; Critias, að trúarbrögðin væru uppáfinníngar löggjaf­anna; Pólus og Trasymakkus, að enginn munur væri á góðu og illu o.s.fr. —

Kynikarnir álitu bindindi hina mestu dygð, og að með því einu móti yrðu menn lausir við öll hlutföll heimsins. Þeir sögðu að hið góða væri fagurt, hið illa ljótt, en allt annað ómerkilegt. Meðal þeirra voru Antisthenes og Diogenes frá Sinope, sem fyrr var nefndur.

Kyrenaíkarnir sögðu, að dygðin væri réttstilt, samhljóðandi fullnægíng allrar nautnar og laung­unar, og menn ætti að njóta sem lengst. Meðal þeirra var Theodorus, er sagði: engin dygð er til, en tilgángur lífsins er einúngis að skemta sér. Þó að heimsspekíngarnir, bæði þessir, Epikúrarnir og fl., hefðu þessar skoðanir, sem vér álítum óhafandi, og sem raunar eru undirrót ólifnaðar og alls ills, þá megum vér ekki halda, að þeir hafi lifað þannig; þeir voru miklu fremur fyrirmynd manna í dygðum og góðum siðum.

Kynikarnir heita á íslendsku »hundíngjar« (af ϰύων hundur), þeir nefndust svo, af því of mikil bindindi gerir mann eins dýrslegan, eins og of mikil nautn á hinn bóginn. Menn hafa engan rétt til þess, að neita sér um þá ánægju og þann unað, er lífið má veita; mennirnir eru menn, en ekki dýr; mennirnir einir geta fundið verulega gleði og djúpa hrygð, en það geta dýrin ekki á sama hátt; þetta sannast af því, að engin jarðnesk vera getur grátið eða hlegið og brosað, nema maðurinn einn; allar menntaðar þjóðir heimta unað og gleði, ágæti listanna og nautn líkama og sálar, og er það ætíð merki uppá eintrjáníngsskap og skakka skoðun á lífinu, ef menn kalla það óþarfa. En allt á að vera í hófi, og ekki um of. Kyrenaíkarnir höfðu nafn af Kyrene í Affríku; þar bjó Aristippus, sem var foríngi þessa flokks.

Þá er enn sá flokkur heimsspekínga, er heitir efunarmenn (Sceptici, af σχεψις, skoðun); þeir skoðuðu allt og efuðust um allt. Zenon frá Elea hafði þegar lagt grundvöll til þessa flokks, eða gefið honum undir fótinn, með því hann gekk ætíð út frá einhverju, sem hann gerði ráð fyrir að gæti verið (δποϑεσις), en sagði ekki víst, að það endilega hlyti að vera; hann sagði til að mynda: »setjum nú svo, að staður sé til« (εί έστί τόπος) — hvað þá? En hann grundvallaði samt ekki efunarflokkinn, heldur gerði það Pyrrhon. Hann var fyrst málari, en lærði síðan hjá Demokritus. Hann gat ekki fellt sig við Demokritus, en áleit, að á móti hverri sönnun ætti koma með aðra sönnun eins gilda, og þess vegna væri allar ályktanir (conclusiones) óvissar; menn gæti aldrei sagt já eða nei með neinni vissu. Ekki neitaði hann með öllu tilveru guðs, en áleit bæði það og annað ósannandi og menn yrðu því allt af að efast um það. Hann trúði því, að menn skynjuðu hlutina einúngis af vana, og því yrðu menn að fara eptir venju og almenníngs áliti; menn mættu ekki forðast neitt, né sækjast eptir neinu, ekki gleðjast mjög né hryggjast, því ætíð væri óvisst, hvað væri gott, og hvað illt. — En þótt nú þessi skoðun ætti að leiða af sér fyrirlitníngu á öllu, jafnt góðu og illu, fyrst menn vita aldrei hvað er gott eða illt, sem og líka fögru og ófögru, vizku og fávizku, fyrst menn vita ekkert ákveðið um hlutina, og þótt Timon frá Flion segði hreint út, að öll vísindi væri ónýt, af því allt væri óvisst og gæti því ekki leitt mann til lukku né rósemi: þá hefir samt þessi flokkur miklu meira gagnað vísindunum en hitt, með því þeir hafa rannsakað alla hluti frá öllum hliðum, og sjálfir sýnt afbragðs lærdóm opt og tíðum, svo sem Sextus Empiricus, er menn halda að hafi verið uppi á 2. öld eptir Krist, og hefir látið eptir sig rit, er lýsa miklum lærdómi og skarpleik. En það gefur að skilja, að slíkir menn eru ekki sem beztir vinir trúarinnar, því trúin vill trú, en ekki efa, og gerðu því efunarmennirnir mesta spell á efri tímum kristninnar, eins og lesa má í einni ræðu Gregoríus af Nazianz: »En eptir að Sextusarnir og Pyrrhónarnir7 og sú túnga, sem full er mótmæla, hefir smogið inn í kirkjur vorar eins og óttaleg og ill sýki, og þvaður þykir upp­lýsíng — ó, hverr Jeremías mun harma truflan vora og blindu!«8

Þá var og Megara-flokkurinn, sem Evklídes stofnaði, frá Megara; hann fylgdi mjög íóniska skóla­num, en heimfærði það allt uppá siðferðið.

Enn var sá heimsspekíngaflokkur, sem Epikúrus stofnaði fyrst í Lampsakus (310 f.Kr.), en flutti sig síðan til Aþenuborgar. Þetta er mikill flokkur, og er þetta aðalkenníng Epíkúrus: Heimsspekin er sú fræði, sem leiðir manninn til lukkunnar fyrir krapt skynseminnar; siðafræðin er því aðalhluti heimsspekinnar, en náttúrufræðin (physica) og ræðan (canonica, dialectica) eru aukahlutir. Ef maðurinn ekki hefði nema einfaldar tilfinníngar, þá gæti hann ekki ályktað, og væri ekki meiri en dýrin. En maðurinn hefur tvenns konar eðli, sem er hið ytra, nefnilega það að menn skynja líkamana, og hið innra, sem er skilníngsveldið. Heimurinn er úr frum-ari (atomista kenníng), og er orðinn til af hendíngu; beri menn saman hið illa og ófullkomna í heiminum við sælu og frið guðanna, þá geta menn ekki trúað því, að heimurinn sé skapaður af skynsamri eða viturri veru. Ekkert er gott til nema nautn og skemtan; unaður andans er það að vera nærri hinu þægilega, en fjarri hinu óþægilega; allar tilfinníngar eru jafnar að tign eður ágæti, en ójafnar að afli, varanleika og afleiðíngum. Hin mesta dygð er þess vegna hyggindin, sem er uppspretta réttvísinnar. — Ekkert er til af ritum Epikúrus, nema fáein brot í riti Diogenes Laertíuss um náttúruna, sem fundist hefir í Herkúlanum. Engin heimsspeki hefir, ef til vill, verið jafn misskilin og kenníng Epikúrus. Hann kendi að hyggindi væri hin mesta dygð, en hófsemi er og hyggindi. Epikúrus var manna hófsamastur, en þó héldu menn að hann kendi eptirsókn allrar nautnar, og eru því enn óhófsmenn og sælkerar kallaðir »Epikúrar«. Svo mjög var þetta allt misskilið, að Epikúrarnir voru reknir burtu úr Macedoníu, af Lysippussi; frá Messeníu, Rómaborg og Aþenuborg.

Enn er Stóa-flokkurinn, sem nefndist svo af Stoa, er var gángur eða hallargarður í Aþenuborg, og söfnuðust þeir þar fyrst saman. Þessi flokkur er stofnaður af Zenon frá Citium á Cyprus, hér um bil 350 árum fyrir Krist, og er einhverr hinn merkilegasti allra heimsspekínga flokka; einkunn hans var: »þoldu og þreyðu« (abstine et sustine), og þessi orð einkenna allan anda hans. Þeir hafa haft ákaflega mikil áhrif á heiminn, og flestir hinir lærðustu og merkustu menn miðaldanna hafa án efa tekið sér snið eptir þeim, með því að samlaga alvörugefni þeirra við kristna skoðun. Stóikarnir álitu dygðina hið einasta góða, og allt annað ónýtt; enginn tröppugángur er í illu og góðu; annars fylgdu þeir skiptíngu Platons á dygðinni. Ein af reglum þeirra var sú, að láta engan hlut hrífa sig til undrunar,9 og engan til harma. En af þessari kenníngu leiddi aptur rángláta fyrirlitníngu á mörgu, eins og allir sjá. Hinir kristnu vitríngar fetuðu og dyggilega í fótspor þeirra, og kölluðu allt hégóma (vanitas vanitatum), eins og Salómon, þegar hann var orðinn saddur á nautninni. Flestir þeir Rómverjar, sem mikið kvað að og voru uppi eptir fall fólkstjórnarinnar, voru Stóikar: óbeygjanlegir á móti spillíngunni og harðstjórninni; þeir trúðu á mátt sinn og megin og létu aldrei undan; meiníngar Stóikanna um heimsbyggínguna voru bygðar á skynseminni, sem var gjörandi heimsins, og á efninu (materia), sem er þolandi. Heimurinn er einúngis einn, umkríngdur af óendanlegum og óhugsandi tómleika; hann er fjórir himnar eða hvolf; í hinum fjærsta himni eru fasta-stjörnur, þá eru reikistjörnur og lopt, þá er vatn og þá jörðin, sem er miðja heimsins. Heimurinn endurnýjast á vissum tímabilum, en endir hvers tímabils er heimsbál. Enginn meðal­vegur er á milli heimsku og vizku; dygðin er ein, og lösturinn einn; hinn dygðugi er tilfinníngarlaus, það er: heimurinn hefir engin áhrif á hann, hið fagra og góða tælir hann ekki til undrunar né gleði; hið ljóta og illa leiðir hann ekki til viðbjóðs né lasta. Margir merkilegir menn voru af þessum flokki: Kleantus, er orti lofsaunginn mikla; Krysippus; Panetius, vinur Scipions Africanus og fyrirmynd Cicerós; Hecaton, Philon frá Larissa. — Cicero og Seneca voru ekki neitt, þeir stældu allt eptir öðrum, sitt eptir hverjum.

Platon og Aristoteles. 1. Platon er einhverr hinn merkilegasti maður í öllu tilliti og heimsspeki hans öll yfirskygð unaðlegum friði og blíðu. Án efa hefir hann komizt næst kristninni af öllum heiðnum mönnum. Þótt hann væri lærisveinn Socrates, þá ritaði Socrates aldrei neitt, en talaði við menn og kendi svo. Platon hafði sama hátt og Socrates, að hann kendi með viðræðum við menn, en reit kenníngar sínar á fögru máli, sem er jafn skáldlegt, sem það er djúpsært. Það sýnir, hve tignarlegar hugsanir Platon hafði, að hann kallaði heimsspekina undirbúníng undir dauðann (μελέτη ϑανάτου), eins og hún væri kenníng kristninnar sjálfrar, því guð er upphaf og endir (α ϰαί ω) og dauðinn leiðir til guðs.10 Aðalatriðin í kenníngu Platons eru þessi: A, Skoðun heimsins. Grundvöllur alls sannleika er guð, sem er hin æðsta hugmynd, hugmynd (hugsjón) hins góða; ímynd guðs er sólin, en hún stendur í miðju allrar tilveru. Heimurinn er verk guðs, og er mikil og reglubundin heild; með reglu heimsins gefur guð sig til kynna: hann er ekki einúngis voldugur, heldur einnig vitur og góður, og án líkama; hann er hið fyrsta sem er sjálfu sér líkt, hin sanna og hreina fegurð, hið einasta eina, sem er hafið upp yfir umbreytíngu og iðran. Alheimurinn er þannig til kominn, að guð, hið eilífa góða, sem ógæfan og öfundin ekki mega snerta, vildi umkríngja sig með verkum, sem væri eins fullkomin og góð og hann sjálfur. Þessi verk gátu ekki orðið til án fyrirmyndar, en þessi fyrirmynd er guðs eigið orð, sem hann talar við sjálfan sig, og vizka hans, er stefnir í hugsun hans á hugmyndina um heiminn. Heims-hugmyndin, sem er al­menn, aðgreinist í margar ólíkar hugmyndir, að því leyti sem hún hángir saman við hinar marg­víslegu eðlistegundir, sem tilveran kemur fram í. Þessar hinar mörgu hugmyndir (ideae) eru í æðsta veldi verulegleikans, óskapaðar og eilífar, ólíkamlegar og óbreytanlegar, og ríkjandi í öllu því sem er og líður; þær eru ómeingaðir eiginlegleikar guðlegrar vizku, og lifandi straumar hennar. Einstaklíngarnir (ↄ: sér hverr hlutur út af fyrir sig) eiga sér rót í þeirri hluttekníngu, sem þeir hafa í þeirri hugmynd, sem er grundvöllur tegundar þeirra. Nauðsyn eyðileggíngarinnar ríkir í einstaklíngunum samsíða grundvelli lífsins og fullkomlegleikans, og allt verður að deyja; hinn upprunalegi tilgángur hins eilífa góða verður aldrei hreinn í verkinu, af því líkaminn og andinn geta aldrei algjörlega sameinast. Þessi eyðileggíng liggur í efnislegu eðli tilverunnar (materia), sem hefur blint og ósigranda afl, sem aldrei var sköpuð, heldur einúngis sett í skorður af guði. Efniseðli heimsins er rót hins illa, og hindrun hins góða. — B, Skoðun sálarinnar og andans. Öll hneigíng andans til hins góða er í rauninni endurminníng (άναμνησις) þess, er hann var sameinaður því í öndverðu. Í anda mannsins eru tveir staðir, hinn guðlausi og dimmi, þarsem ekki er guð; og hinn guðlegi og bjarti, þar sem er sá andi, sem minnir oss á guð, og þessi gáfa eða eðli er hin æðsta sjón sálarinnar, sem er veitt oss ofanað, ↄ: frá guði sjálfum. Hin æðsta skynsemi (vizka), sem er drottinn allrar tilveru, sýnir sig öllum skynsömum verum, fyrst öndunum, þá mönnunum, en það er torvelt að sjá hana. Þekking og sannleikur eru ekki sjálft hið æðsta góða, heldur ímyndir þess. Fyrir krapt þekkíngarinnar komumst vér frá ímyndinni að sjálfum sannleikanum og sjáum síðan hið æðsta góða; þetta er hneigíng sálarsjónarinnar frá skuggunum til ljóssins (ↄ: frá ímynd hins góða til þess sjálfs). Ljósið, sem er alvizkan, sem er guð, sem er hið æðsta góða, er hið eina sem fullkomlega er, sem hefir fullkomna og algilda tilveru, sem er eilíft, og er orsök til þeirra skuggamynda og hugsjóna, er vér sjáum. — Ákvarðan mannsins er tvenns konar, að framkvæma og skilja. Ástin gengur í gegnum allt sem framkvæmt er: hún uppfyllir alla byggíngu alheimsins, hún ræður öllu til framkvæmdar og stillir veraldar-heildina til furðulegra hljóma. Ástin kemur fegurst fram í manninum, hún laðar hann með laungun og vekur hann með sjón hlutarins, og veitir honum ekki hvíld nema í sameiníngu hans sjálfs við hlutinn (andinn verður að samlaga sig sannleikanum, ef hann á að geta skilið hann). Af þessari sameiníngu koma ekki einúngis endanlegir hlutir, heldur einnig óvæntar uppgötvanir, fagrar listir og miklar framkvæmdir. Af því ástin er margvísleg og breytileg, þá er hún í sjálfri sér hvorki ill né góð, en hún fær ágæti sitt af því takmarki, sem hún stefnir á. Meðfædd laungun vekur holdlega fýsn; ágæti andans, sem er hækkað og aukið með iðju og lærdómi, leiðir til dygðarinnar; þetta er hin einasta ást, sem heimsspekíngi sæmir. Fegurðin vekur enga óhreina ást; hún er fyrir ástinni eins og endurskin sannleikans, skuggi ósýnilegrar hugsjónar hins góða; undrunin veitir ástinni það flug, sem henni var neitað um af hinu jarðneska eðli. Eptir því sem dygðin nálgast takmark sitt, hið góða, þá skiptist hún í fjórar greinir, en er þó í rauninni hin sama: hyggindi, hófsemi, hugrekki og réttvísi; í sér hverjum manni er óákvörðuð laungun eptir einhverju, og þetta eitthvað kalla menn hið góða. Sumir hlutir, sem fullnægja oss, eru skammvinnir og ófullkomnir, það eru líkamleg gæði og sú gæfa, sem forlögin veita oss. Aðrir hlutir veita oss varanlega sælu; það eru vísindi og dygð, sem ríkja hjá guði einum í óþrotlegum ljóma og hátt ytir alheimi. Frá guði koma öll gæði, og til hans snúa þau aptur; hann vekur alla laungun sálarinnar eða fremur endurminníngu, því áður var sá tími, er sálin sá hann frá augliti til auglitis, áður en hún bygði þessa jörð; hún getur aptur nálgast hann, ef hún með dygðum hefur sig til hans, frjáls og hreinsuð frá hinu illa. En þetta getur ekki orðið í þessu lífi, af því það er takmarkað af efniseðlinu, heldur er ódauðleikinn það takmark, sem uppfyllast munu hin eptiræsktu gæði. Hin æðsta hugsjón mannlegrar fullsælu getur ekki hugsast nema í reglubundnu ríki, þar sem konúngurinn er heimsspekíngur, það er: skilur heimslífið og hefur í sér hugsjón hins góða, sem hann lætur streyma út til allra og lífgar þá með.

Þetta eru nú aðalatriðin úr kenníngum Platons, og hefur mönnum fundist mikið um þær á öllum tímum. Jeg hef raunar ekki lýst nákvæmlega kenníngu Platons um sálina, hversu hann deilir henni í þrjá flokka eða stefnur, og mörgu öðru er hér sleppt. Katólskir heimsspekíngar hafa mjög leitað fyrir sér um það, hvort Platon muni hafa þekkt sannan guð eða ekki. Þessi spurníng er jafn heimskuleg og hún er óþörf; því það liggur í augum uppi, að Platon hefur leitað hins sanna guðs, og hann hefur fundið hann. En menn sjá hæglega, jafnvel á hinni daufu og ónógu lýsíngu, sem jeg hef gefið um Platon, hversu örðugt hann hefir átt með það; hann ýmist leikur sér í skáldahugmyndum eða stritar í þýngstu hugsunum til þess að finna þetta góða »sem er torvelt að sjá« (μόγις ὁρασϑαι), sem varla verður séð, en þótt andinn sé allur á flugi. Þessi rannsókn katólskra manna um Platon hófst snemma; Justinus fullyrðir að hann hafi þekkt guð, en Augustinus þorir eigi að fullyrða það; og nú á seinustu tímum hafa menn aptur vakið máls á þessu; en það er einkum til þess að fá að vita, hvort Platon muni vera í helvíti eða ekki, því þar er mörgum svo mikið um að gjöra, að hnýsast eptir því, sem er óviðurkvæmilegt og ómögulegt. Dante hefur náttúrlega látið Platon vera í helvíti,11 eptir þeirri skoðun, sem Kristur hefir sjálfur styrkt, að enginn sjái föðurinn nema hann trúi á soninn; og katólskir fara því enn lengra, til að hjálpa Platon, með því þeir segja að hann kenni um hið »lifanda orð« (λογον) og þetta orð sé sonurinn (Kristur); þannig heimfæra þeir alla kenníngu hans til biblíustaða. Það, sem æfinlega er víst, er það, að þótt Platon hafi þekkt guð sem »hið góða«, þá skoðaði hann ekki guð sem skapara, sem er frumeðli guðs (ef það er leyfilegt að orða þetta þannig); því enginn nema guð er til frá eilífð, og sé annar hlutur til frá eilífð (nefnilega efnið, sem Platon lætur vera eilíft), þá eru til tveir guðir, sem ekki getur staðist. Platon fór nú aldrei svo lángt í hina stefnuna, að hann kallaði efnið guð; en hefði hann gert það, þá hefði hann lent í austurlenzkum kennígum, sem kendu tvo guði, illan og góðan (myrkur og ljós), sem sí og æ lægi í baráttu, eins og Heimdallur og Loki, sem börðust til eilífðar um Brísíngamen að vestursölum við Síngastein; og mundi allt þetta hafa orðið að Gnosticismus. Platon skoðaði guð sem fylki heimsins (διαπραττοτα την ϰοσμου ταξιν); en hvort Platon sé í himnaríki eða helvíti, það vitum vér eigi, og enginn skynsamur maður kemur upp með slík spursmál.

2. Aristoteles var lærisveinn Platons, og segja menn hann hafi vitað allt sem vitað varð á hans dögum. Hann var kennari Alexanders mikla. »Eg er ekki eins glaður yfir því að eg hef eignast son«, ritaði Filippus Macedonakonúngur til Aristoteles, þegar hann beiddi hann að kenna Alexander, »eins og yfir því að hann er fæddur á meðan þú ert uppi«, enda mun varla nokkur kennari hafa haft meiri lærisvein, né nokkur lærisveinn meiri kennara. Í ritum sínum hefur Platon ætíð viðtals-hátt (dialog) og lætur kennara (Socrates) og lærisvein hjálpast að til að leiða fram hið sanna; verður ritið á þessu miklu lengra, en þá aptur líka fjörugt og skáldlegt; þessa ritmáta neytir Aristoteles aldrei; hann er sjálfur kennandi, stuttorður og gagnorður, og hnitmiðar orðin niður; lýsíngar hans eru furðulega nákvæmar og votta það, að hann hefir sjálfur séð og reynt allt það er hann talar um. Sagt er að hann hafi verið um tíma með Alexander á herferð hans; og hafi Alexander sent honum fjölda dýra ávallt, og meir en millíón ríkisdala (800 talent), en hvað sem er um það, þá hefir Aristoteles hlotið að sjá sjálfur það er hann hefir lýst í dýrasögu sinni, svo er frá því gengið. Enginn fornmaður hefir eins vísindalegt mál og það sem Aristoteles ritar. Aristoteles hafði þann kennsluhátt, að hann gekk um gólf með lærisveinum sínum og kendi svo, því var hans flokkur kallaður gaungumanna-flokkur (περιπατιτηϰοι af περιπατειν að gánga til og frá), en Platon kendi í þeim garði er Αϰαδημιϰοι hét, því voru hans menn kallaðir Akademíumenn (αϰαδημιϰοι, academici); af Academia eru skólar og kallaðir þannig, og eru það einkum æðri skólar. Sum af ritum Aristoteles eru týnd, en þó er ákaflega mikið sem til er, og jafn undrunar vert fyrir sakir mikilleika og margfaldleika sem djúpleika og skarpleika.

Aristoteles vill sanna tilveru guðs af hreifíngunni, þannig, að allt það er hreifist, hlýtur að hafa einhverja orsök, sem komi því í hreifíngu. Og ef þessi orsök hreifist, þá hlýtur hún að hreifast af annari orsök. En það þótti Ar. ótækt, að láta þetta gánga óendanlega, og því trúir hann því, að guð, sem hreifir allt, sé sjálfur kyrr. En þessa kenníngu um kyrð guðs framsetur Aristoteles af þeirri orsök, að hann segir að hreifíng sé umbreytíng, en guð getur ekki verið undirorpinn umbreytíngu. Vegna þess að guð kemur öllu í hreifíngu, þá er hann endalaus verkan (actus purus); en þessi verkan, sem er endalaus og sjálf í eilífri kyrð, getur ekki verið annað en hugsan, og hún er hið æðsta veldi sælunnar. Í tilverunni eru þrjú grundvallareðli: hið góða út af fyrir sig; hugsunin út af fyrir sig, og verkanin eða lífið út af fyrir sig. En hugsunin út af fyrir sig er hugsun hins góða út af fyrir sig, og þetta góða er guð sjálfur. Guð hugsar því sjálfan sig eilíflega; hann er sjálfhugsandi hugsun, sem alheimurinn hreifist í kríngum. Þetta hið góða, óhreifanlega hreifandi (»stað haldandi í kyrrleiks valdi« segir Eysteinn í Lilju) sem menn æskja eptir, er nauðsynlegt upphaf hlutanna, sem heimurinn er staðfestur í. Tilverurnar eru þrjár, ein óumbreytanleg (guð), og tvær náttúrulegar: andinn og líkaminn. Heimurinn er eilífur; og undir hinum gjörsamlega kyrra guði, hinum æðsta, standa aðrir guðir, eilífir, óhreifanlegir hverr fyrir sig, og ódeililegir. Hinn æðsti guð er hin einasta fullkomna frumvera (substantia, entelechia), ódeililegur gjörsamlega. Maðurinn er samsettur af efni (líkama) og anda. En af því andinn ekki getur komið til vitundar vorrar, nema í líkamanum, þá getur hann ekki verið fyrir utan líkamann, þótt hann sé annars eðlis. — Ástin á hæðsta stigi er vinátta. Á milli ánægjunnar og framkvæmdar stendur frelsið, og skilur þau stundum að, með því það afneitar ánægjunni og kýs hið sára. Löstur er þrennt: illska, óhóf og ómennska. Dygðin er tvenns konar: hin siðferðislega dygð, sem kemur fram í mannlífinu, og hin skilningslega dygð, sem kemur fram í hugsuninni, og er æðra eðlis. Menn geta kosið um tvenns konar líf, nefnilega hið framkvæmdarsama, sem er hægra, og hið skoðandi líf, sem er æðra og erfiðara; á þessu er fullsælan bygð. Góð heilsa, afl og auður eru nauðsynleg til fullsælu, en samt ekki nóg. Hin sanna fullsæla, sem allt annað fylgir, er framkvæmdarsemi sálarinnar, sem verður innan vebanda dygðarinnar. Eðli andans eru tvö: 1. Skilníngur, sem er list, hyggindi, skynsemi, vísindi og vizka; 2. Tilfinníng, sem er skynjan, laungun og vit. Tilveran hefir tíu aðalhætti (kate­goriae): 1, efni, 2, stærð, 3, ástand, 4, hlutfall, 5, rúm, 6, tíma, 7, legu, 8, að hafa, 9, að gjöra, 10, að þola. (Seinni lærisveinar hans bættu fimm öðrum við (postpraedicamenta): 11, mótsögn, 12, undanfara, 13, eptirfara, 14, samveru, 15, hreifingu).

Aftanmálsgreinar

1. Deum autem eam mentem, quae ex aquã cuncta fingeret. Cic. de nat. deor. Engin rit eru til eptir þessa menn.

2. Quoad literis exstat proditum, Pherecydes primus dixit, animos hominum esse sempiternos. Cis. Tusc.

3. Έίς ϑεός ἒν τε ϑεοϊσι ϰαί άνϑρώποισι μέγιστος οϋτι δέμας ϑνητοϊσιν δμοιος, ούδέ νόημα

4. conglobatȧ figura. Cic. Acad. I 2.

5. Nam Parmenides commentitium quiddam coronae similitudine efficit: Stephanen appellat, continentem ardore lucis orbem, qui cingit coelum, quem appellat Deum. Cic. de nat. Deor. l.

6. ἒστ μέν γάρ οϑδέποτ ούδέν, άεί δέ γίγνεται. Plat. Theaetet.

7. Svo kölluðust efunarmennirnir og, af Pyrrhóni.

8. Gregor. Naziazenus Oratio. XXI in Athanasium: άφ’ ού δέ Σέξτοι Πυρρώνες, ϰαί ή άντίϑετος γλῶσσα ὤσπερ τι νόσημα δεινόν ϰαί ϰαϰόηϑες ταϊς έϰϰλησίαις ήμῶν είσεφϑάρη, ϰαί ή φλυαρία΄παίδευσις ἒὁοξε — ὡ, τίς Ιερεμίας ὀὄύρηται τήν ήμετέραν σύγχυσιν ϰαί σϰοτόμαιναν;

9. Nil admirari, prope res est una, Numici!
Solaque, quæ possit facere et servare beatum.
                  Hor. Ep. VI. Lib. I.

10. „Svo lifa sér hverr á, sem sálast eigi“ eru fullkomlega platonicé hugsuð orð, og eru hin fegurstu – jeg efast um að fegurra sálmvers hafi nokkruntíma verið ort en þetta.

11. „Tutti l’ammiran, tutti onor gli fanno.
Quivi vid’io e Socrate e Platone
Che’nnanzi agli altri piú presso gli stanno.“
                  Inferno C. IV.
Þetta er nú raunar í skáldskap, en „öllu gamni fylgir nokkur alvara.“ Þessi staður í helvíti, þar sem Dante setur heiðin skáld, heimsspekínga, og aðra mikla heiðíngja, er ekki kvalastaður, heldur inndælt og blómvaxið engi, eins konar campi Elysii eða Ódáinsakur; en hegningin er sú, að rannsóknir þeirra ná aldrei að takmarkinu, sem er guð, fyrir það að Kristur hefir ekki endurleyst þá. Þeir ná því aldrei hinni sönnu sælu himinríkis, sem er tak­mark og mið jarðarlífsins: að sjá guð.

Heimspeki úr glatkistunni: Konur og kvenréttindi 1876-1885

Umræða 19. aldar skoðuð út frá fimm greinum í Skírni og Fjallkonunni

 

Inngangur

eftir Hrund M. Þorgeirsdóttur og Svandísi Þorsteinsdóttur

„Kvölin sem svo margar ungar konur þekkja; bundnar á höndum og fótum með ást og móðureðli en hafa ekki gleymt fyrrum draumum sínum.“

Simone de Beauvoir

Konur hafa verið kallaðar stóri minnihlutahópurinn. Það tók þær margar aldir að átta sig á því að hlutskipti þeirra í þessum heimi gæti verið betra og ætti að vera betra. Það var ekki fyrr en á 19. öldinni sem hin eiginlega „kvenréttindabarátta“ hófst, mörgum til mikillar óánægju, og þar var Ís­land ekki undanskilið. Greinar í blöðum og tímaritum frá þessum tíma er ein besta heimildin um þær áherslur sem einkenndu kvenréttindabaráttunnar hér á landi. Hér verður litið til fimm greina eftir fjóra höfunda sem birtust á síðum Skírnis og Fjallkonunnar á árunum 1876-1885. Höfundar þeirra eru þau: Guðmundur Þorláksson (1852-1910), Eiríkur Jónsson (1822-1899) og Bríet Bjarn­héðinsdóttir (1856-1940), sem skrifaði undir dulnefninu Æsa, en fjórði höfundurinn er „Ónefndur.“1 Allar greinarnar gera tilraun til þess að opna augu Íslendinga fyrir bættri stöðu kvenna víðsvegar um heiminn og undirstrika hversu farsællega þær höfðu í raun staðið undir þeim væntingum og skyldum sem fylgdu auknum réttindum og bættri félagslegri stöðu.

Höfundarnir eiga það allir sameiginlegt að hamra á mikilvægi þess að konur fái notið menntunar til jafns við karla. Menntun er lykillinn að bættum kjörum og réttindum. Á þessum tíma var það hinsvegar útbreidd skoðun að aukin réttindi myndu óhjákvæmilega bitna á getu kvenna til að sinna móðurhlutverkinu. Þetta var þá þegar umdeilt en óttinn að baki spurningunni „hver á þá sjá um börnin ef konurnar fara út af heimilinu?“ var áþreifanlegur. Enginn höfundanna fjögurra dregur úr mikilvægi móðurhlutverksins og telur Bríet Bjarnhéðinsdóttir m.a. að bætt menntun geri mæður að betri fyrirmyndum og efli þær í uppeldishlutverkinu.

Þó svo að meginboðskapur greinanna sé sá sami er umtalsverður blæbrigðamunur á stíl og þeim röksemdafærslum sem höfundarnir beita. En þegar litið er yfir greinarnar í tímaröð bera þær skýran vott um framfarir, bæði hvað varðar kvenréttindi og viðhorf til kvenréttinda, á tiltölulega stuttum tíma. Baráttan átti eftir að halda áfram fram eftir 20. öldinni og hún er enn háð á þeirri 21. En þrátt fyrir að margt hafi áunnist þá má ekki gleyma upphafinu.

Aftanmálsgrein

1. Um Ónefndan vitum við ekkert fyrir víst, en okkur grunar að um kvenmann sé að ræða. Þessi grunur byggist á áherslum textans, vali á dæmum og sýn höfundar á kynjamisrétti samtíma síns.

Heimildir

Bríet Bjarnhéðinsdóttir [Æsa], „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 11. tbl., bls. 42-43.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir [Æsa], „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 12. tbl., bls. 45-47.
Eiríkur Jónsson, „Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum“, Skírnir, 58. árg. (1884), bls. 18-19.
Eiríkur Jónsson, „Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“, Skírnir, 57. árg. (1883), bls. 15-17.
Guðmundur Þorláksson, „[Jafnrétti kvenna]“, Skírnir, 50. árg. (1876), bls. 14-16.
Ónefndur, „Kvenfrelsi“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 1. tbl., bls. 1-2.
Ónefndur, „Kvenfrelsi“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 2. tbl. bls. 5-7.

 

Greinarnar fimm sem birtust á síðum Skírnis og Fjallkonunnar á árunum 1876-1885

 

„Jafnrétti kvenna“

eftir Guðmund Þorláksson

Þá er enn eitt mál, alþjóðlegt mál, sem lengi hefur verið talað um og lengi rifist um, en sem þó aldrei sýnist að hafa haft eiginlegan framgang fyrr en nú á síðustu árum, og það er þess vegna, að vér tökum það fyrir hér. Það er jafnrétti kvenna.

Til þess rétt að geta skilið það mál, verða menn einkum að gefa gætur að, hvernig allur iðnaður og vinna hefur breyst nú á síðari tímum frá því, sem áður var. Starfssvið kvenna var þá nokkuð annað og ólíkt rýmra en það er nú. Mest af vinnunni var þá unnið á heimilunum sjálfum, og þar komust jafnt að konur sem karlar. Nú er það ekki lengur, og næstum allt er unnið utan húss. Vélar og verksmiðjur tóku við, og þar komust konur ekki að. Þær urðu að kaupa það í búðunum, sem þær höfðu áður búið til sjálfar. Svona er það í flestum löndum. Vinnan hefur smám saman dregist meira og meira úr höndum þeirra; verksvið þeirra hefur ekki verið aukið að því skapi sem iðnaðurinn óx; almenningsálit hefur ekki þolað, að þær tæki sér annað fyrir hendur en það sem ættmæður þeirra um margar aldir höfðu gert undir allt öðrum atvikum; í fáum orðum: þeim var ekki treyst til annars en vera réttar og sléttar heimasætur. Þetta gekk nú góða stund. Iðnaði, vísindum og menntun fleygði alltaf áfram, og mennirnir fylgdust, hver á sinn hátt, með straum­num, — en kvenfólkið eitt stóð í stað. Þær fengu ekki að taka þátt í neinum af þessum almennu störfum, hvað þá að fylgjast með í vísindalegri menntun, og neyta í öllu sömu réttinda og karlmenn.

Það var nokkuð sem fáum kom til hugar, fyrr en seint og síðar meir, og þegar svo fyrst var farið að vekja máls á því, þótti varla nokkrum það takandi í mál. Fjöldi manna reis upp og ritaði, og ritar enn, bæði með og mót, og það af ákafa. Öll atriði málsins voru nú, hvert á eftir öðru, tekin fram og rædd, og þau eru ekki fá. Hluttaka í iðnaðar- og verslunarefnum jafnt karlmönnunum, jafn eignarréttur og arftaka, jöfn hluttaka í stjórnlegum efnum, og þar af fylgjandi jafn kosningar- og atkvæðisréttur, jafnrétti í menntun og vísindum, jafn réttur til allra embætta, o. fl. Allt þetta hefur verið tekið fram, og mikið er unnið á í ýmsum löndum, þótt mikið vanti á. En við ramman hefur verið reip að draga, þar sem vaninn og almenningsálitið er, og það er því ekki að undra, þótt for­vígismenn þessa máls hafi mætt mikilli mótstöðu. Loksins fóru menn þó að sjá, að staða kvenna og atvinnuleysi fór alltaf dagversnandi, og eitthvað yrði til bragðs að taka, að bæta hag og auka réttindi þeirra. Bandafylkin urðu hér á undan sem í mörgu öðru; þau fóru smátt og smátt að rýmka um réttindi þeirra. Fyrst komust þær að skrifstofustörfum, póstafgreiðslu, ýmislegri atvinnu við rafsegulþræði og mörgu öðru. Kvennaskólar fóru að komast á um allt landið. Allt þetta mætti raunar mikilli mótstöðu í fyrstunni, en þær stóðu ekkert ver í sinni stöðu, en þeir, og svo var því lokið. Bráðum var þeim veitt jafnrétti við karlmenn í öðru. Þær fengu leyfi til að sækja háskóla, og taka próf, og nokkru seinna fengu þær jafnan rétt til embætta. Þær sækja nú 30 háskóla þar, og allir þessir háskólar ljúka lofsorði á iðni þeirra og dugnað.

Erfiðara hefur þetta mál átt uppdráttar í Norðurálfunni. Það hefur raunar fengið öfluga með­mælendur, svo sem Englendinginn Stuart Mill, Þjóðverjann H. von Scheel og fleiri, en hinir hafa þó verið jafnan fleiri, er móti hafa verið. Merkastir af þeim eru Bischoff, líffræðingur í München, og Proudhon, frakkneskur maður. Bischoff hefur nýlega ritað stóra bók á móti þessu; þar segir hann, að konur geti alls ekki lært neitt vísindalegt, það skyldi þá helst vera ögn í grasafræði, um falleg­ustu blómin eða þess háttar. Hann færir þá eina sönnun fyrir sínu máli, sem hann vill láta nægja, að kvenmannsheilinn sé að jafnaði 134 grömmum léttari, en karlmannsheilinn. Nákvæmur er reikningurinn, enda þykist hann geta byggt á honum. Proudhon gengur lengra, og það svo langt, að jafnvel mestu mótstöðumönnum þessa máls ofbýður. Það mun því nær sanni, er Scbeel segir, að þessir menn bæti meira en þeir spilli fyrir málinu. Fyrir alla þessa baráttu vannst þó það á, að Svisslendingar leyfðu konum að hlusta á fyrirlestra og taka próf við háskólann í Zürich. Það var árið 1864. Leyfið var lítið notað í fyrstunni, þó jókst talan smátt og smátt og 1873 lásu 114 stúlkur við þennan háskóla, en af þessum 114 voru 100 rússneskar. Það kom til af því að heldri meyjar Rússa njóta langtum betra uppeldis, en í öðrum löndum, og kvennaskólar hafa verið þar um langan aldur miklu fleiri og betri en annars staðar. Þetta átti þó ekki við skap Rússa og sama árið var þeim öllum fyrirboðið að halda áfram og boðið að koma heim. Skarðið, sem varð við þetta, fyllist smám saman aftur, háskólinn í Bern veitti þeim aðgöngu líka, og rússneskar stúlkur fóru nú aftur að vitja til þessara háskóla. Fleiri háskólar hafa nú tekið þetta eftir, þótt þeir séu engan veginn margir. Danir leyfðu þeim í fyrra að sækja háskólann í Kaupmannahöfn, en ekki er enn komið svo langt, að þær hafi rétt til embætta eða nokkurn almennan styrk til bókiðna sinna.

Flestar af þeim konum, sem stunda lærdóm við háskólana, lesa læknisfræði, og ber ekki neitt á, að þær séu hugminni eða kveifarlegri en karlmennirnir, þótt því væri spáð í fyrstunni. Margar hneigjast líka að náttúrufræði, heimspeki og fagurvísi, og nokkrar jafnvel að lögfræði og tungumálum. Á sumum stöðum (t. a. m. í Höfn) er þeim ekki leyft að lesa guðfræði. Það þykir undarlegt því að flestir ætla, að þær séu almennt betur lagaðar fyrir það, en margt annað.

Aðrar framfarir í þessu máli hafa verið litlar. Þó skulum vér geta þess, að Svíar hafa nýlega gefið út lög um jafnan eignarrétt hjóna, og hins sem meira er, að á Svissaralandi hafa tvö fylkin (Schweitz og Uri) veitt konum fullkomið jafnrétti í öllu.

„Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“

eftir Eirík Jónsson

Vér gerum ráð fyrir, að löndum vorum þyki ekki illa tilfallið að koma við hagi kvenþjóðarinnar erlendis, eða það sem gert hefur verið til meira jafnréttis og jafnstæðis með konum og körlum, og það því heldur, sem þing vort er í því máli komið fram fyrir þingin á Norðurlöndum. Hér eru þrjú höfuðatriði, sem sérílagi koma til greina: jöfn ráð giftra kvenna við bændurna á því sem hjónin eiga eða eignast, eða heimild þeirra til þess, sem þær afla eða erfa í hjúskap; kosningarréttur; og réttur til atvinnu og embætta til jafns við karlmenn. Hvað fyrsta atriðinu við víkur, þá gengur víða nokkuð áleiðis, t. d. í Danmörku (sbr. „Skírni“ 1880, bls. 128), og árið sem leið á Englandi, því þar eru áþekk lög leidd til gildis frá nýári 1883. Þar á móti veitir alstaðar erfiðara með kosningar­réttinn, og fæstum þykir við það komanda, að konur kjósi fulltrúa til löggjafarþinganna. Á meginlandi norðurálfunnar hafa menn varnað konum kjörréttar með öllu, en á Englandi kjósa ógiftar, fjárhaldsnjótandi og húsráðandi konur bæði í bæjar og sveitastjórn og menn til skólaráða, ef hagir þeirra eru hinir sömu sem karlmannanna, sem þessa kjörréttar njóta. Einnig veita þær forstöðu fátækrastjórninni á sumum stöðum. Á málfundi, sem var haldinn í sumar í Nottingham (Social Science Congress), var meðal annarra mála rætt um þegnréttindi kvenna, og tóku þar þrjár konur þátt í umræðunum. Ein þeirra sagði, að konur hefðu á Englandi notið langt um meiri réttinda á 13. öld en nú á hinni 19. Þetta er rétt, og hvað kosningarréttinn snertir hafa þær verið hans aðnjótandi til 1832. Þeim er því ekki láandi þó þær vilji hafa hlut sinn réttan. Á síðustu 14 árum hafa líka komið bænarskrár til þingsins með miklum nafnafjölda — ein með 500.000 undirskriftum — meðal þeirra var vitringurinn J. Stuart Mill. Þó málið næði ekki framgöngu, fjölgaði tala þeirra manna lengi á hverju ári, sem jákvæddu frumvarpinu, en hefur hún rýrnað nokkuð aftur á seinustu árunum. Þetta virðist boða, að málið eigi enn heldur langt í land. En þegar það vinnst þá fær tala þingkjósendanna drjúgan viðauka, því við síðasta manntal voru á Englandi 400.000 kvenna, sem að efnahag til og að öðru leyti höfðu alla burði til kjörréttar, guldu allar skyldur og skatta og stóðu jafnfætis karlkynsþegnunum. Í Bandaríkjunum í Norður-Ameríku hafa konur eigi fengið enn kosningarrétt til þinganna, en undir árslokin, kom uppástunga fram á alríkisþinginu um þá breytingu á ríkislögunum. Mönnum þykir ekki líklegt, að hér falli tré við fyrsta högg, og það því síður sem ¾ hljóta að samþykkja í báðum þingdeildum, en síðan ¾ af landaþingunum að fallast á lagabreytinguna. En kröfur kvenna í Bandaríkjunum lúta ekki aðeins að kosningarrétti, en þær heimta líka bæði kjörgengi til þinga, og jafnan rétt við karlmenn til allra embætta þar á meðal til landstjórnarembætta í hinum einstöku löndum, og til alríkisforustunnar í Washington. Við síðustu forsetakosningu bauð ein kona sig fram til kjörs, og ein kona í San Francisco, Stow að nafni, reyndi að komast í landstjórasessinn í Kaliforníu. Hún heldur út blaði, og í því mælti hún fram með sér sjálfri með þeim ummælum:

„Í þessu ríki, þar sem karlmennirnir fjalla einir um landstjórn og fjárneyslu landsins, er allt komið í það óstand, allt svo atað og sauri orpið í flokka­deilunum, að það er mesta þörf á konu með sóp og sorptrog til að koma á burt öllu því skarni sem akkazt hefur saman í mörg ár. Mundi það ekki sæma vel „gullríkinu“, ef það yrði fyrst til þess að setja borgarakórónu á höfuð kvenmanni?“

Til embætta og ýmissar atvinnu, sem áður hefur verið ætluð karlmönnum, hefur vegurinn orðið konum greiðari í Bandaríkjunum en í öðrum löndum, en vér eigum hér við þá atvinnu sérílagi, sem menn verða hæfir til fyrir skólamenntun og uppfræðandi undirbúning. Annars hefur allstaðar mikið áunnist, einkum á seinustu árunum, hvað slíka menntun og undirbúning snertir. Auk þess að æðri menntaskólar eru í öllum löndum fyrir ungar stúlkur, og þær eru settar til kennslu í alþýðuskólum samhliða karlmönnum, er þeim nú víða veitt aðganga til háskólanna. Vér nefnum háskólana í Kaupmannahöfn, Lundi, Helingjafossi, suma háskóla á Rússlandi, Spáni og Ítalíu. Á Englandi er stofnaður kvennaháskóli í grennd við Cambridge. Hér hafa 44 stúlkur lokið prófi, en 68 eru þar nú við nám. En þeim er ekki leyft að ná akademískum nafnbótum (meistaranöfnum). Á meginlandinu eru þegar nokkur dæmi til, að kvenmenn hafa náð doktorsnafni í læknisfræði. Í Evrópu stunda flestar stúlkur þá fræði. Í þessari grein eru Bandaríkin í Norður-Ameríku langt á undan öllum öðrum. Hér eru stórkostlegir kvennaháskólar, og að námsgreinirnar sé margar, og skólarnir sóttir í ýmsum atvinnu- og embætta- tilgangi, má ráða af því, að í Bandaríkjunum gegna hér um bil 400 kvenna læknastörfum, og í fjármáladeild stjórnarinnar í Washington eru 577 kvenna, sem hafa í laun 1900—3500 króna. Þar að auki er talað um konur þar vestra, sem bæði gegna klerka störfum og dómara. Um hlutdeild þeirra í uppfræðingu barna eða skólaforstöðu þarf ekki að tala.

„Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum“

eftir Eirík Jónsson

Bók J. St. Mills „Kúgun kvenmannsins“ (Subjection of Woman) hefði eins mátt kalla: „Lausn kvenna úr ánauð“, því þetta var tilgangurinn. Hér var til mikils verkefnis vísað, og skorað á þann anda kærleiks og mannúðar, sem lyftir mönnunum af lægri stigum á efri, á stig vaxanda göfug­leiks og framfara. Ánauð kvenmannsins er eins gömul og mannkynið sjálft. Konan var fyrsti þræll á jörðinni, og þó var í henni sá neisti fólginn, sem átti að framleiða vermsl allrar ástar og kær­leika. Það var móðurástin. Hið upphaflega ástand ætla menn hafi farið því nær, sem enn finnst hjá sumum villiþjóðum, t. d. í Afríku og Eyjaálfunni, sem skemmst eru komnar í mannúð og menningarsiðum. Hin kristna þjóðmenning hefur að vísu mikið að gert til að rétta hlut kven­mannsins, en þó eru enn of margar leifar eftir af ójafnaði fyrri alda og hleypidómum. Vér þurfum ekki annað enn benda á, hverjum takmörkum eignarréttur og þegnréttindi kvenna hafa verið háð til vorra tíma í flestum löndum. Ókristilegast og afskræmislegast er þó það þýjamark, sem lögin setja á kvenmanninn fyrir afbrot, sem karlmanninum eru látin hlýða eða honum haldast uppi átölulaust. — Hér þarf ekki berara að mæla. —

Vor öld á það lof skilið, að á síðara hluta hennar hefur hér verið margur steinn úr götu tekinn, og að því er nú á hverju ári kappsamlega unnið, að greiða veg fyrir jafnrétti karla og kvenna. Mest hefur til þessa áunnist, þar sem til atvinnunnar kemur, og kvenmenn nema það nú til atvinnu í þúsunda tali, sem fáum mundi hafa þótt í mál takanda á fyrirfarandi öldum. Vér nefnum fátt eitt til dæmis. Í fyrra stúderuðu 108 stúlkur við háskólana á Svisslandi. Við háskólann í París nema læknisfræði 50 kvenmenn, og við tvo háskóla á Hollandi 40. Vér nefndum í fyrra kvennaskólann (í Girton) í námunda við Cambridge, og eru þar nú drjúgum fleiri. En við háskólana í Cambridge, Lundúnum og Dýflinni nema ýmis fræði hér umbil 750 kvenna (samtals). Nú á að reisa nýjan kvennaskóla nálægt Vindsor, og hefur auðugur læknir, Halloway að nafni, gefið til hans 4 ½ millj­ón króna. Frakkar hafa líka stofnað marga menntaskóla, þar sem stúlkum er ætlað að nema þau fræði, sem allmennt eru kennd í kvennaskólum, á Norðurlöndum og víðar. Til síðustu tíma hafa klaustrin verið helstu kvennaskólarnir á Frakklandi. Hinu sama fer fram á Ítalíu, og þar beiðast konur fullkomins jafnstæðis við karlmenn, t.d. jafnrar heimildar að öllum embættum og umboð­um, sem þær geta gegnt fyrir kunnáttu sakir. Vér látum þess getið, að 150 kvenmenn gegna póst­embættum í Austurríki, og 1000 þjónustu við hraðfréttasendingar í Lundúnum, Dýflinni og Edína­borg. Hvað eignarréttinn og þegnréttindin snertir, þá er því máli vel fram haldið í öllum löndum, og er víða áleiðis komið. Í fyrra var kosningarréttur kvenna (til þingkosninga) borinn enn upp í neðri málstofu Englendinga. Með honum urðu 114 atkvæði gegn 130. Þegar Stúart Mill bar sitt frumvarp fram í fyrsta sinn, fylgdu því ekki fleiri enn 73 atkvæði. Að niðurlagi þessarar greinar skal þess getið, að alþjóðafélag, eða deildir þess í öllum löndum vorrar álfu, kostar mesta kapps um, að takmarka og afnema þau lög, sem hafa fyrir ávirðingar og tálarfall skipað konum í her lastanna og forsmánarinnar.

„Kvenfrelsi“

eftir Ónefndan

Það er sjaldan, að kvenfrelsi er nefnt á nafn í íslenskum blöðum, og þó kvenfólkið hér á landi sé dálítið farið að rísa upp úr dái menningarleysis, vankunnáttu og ófrelsis, þá er eigi þess að vænta, að jafnmikill áhugi sé vaknaður meðal kvenþjóðarinnar hér á landi fyrir almennum rétt­indum sem í öðrum löndum, þar sem menntun kvenna er fullkomnari. Vér verðum að játa, að menntunarmál kvenna hér á landi eru enn skammt á veg komin, þrátt fyrir það, þó einstakir menn hafi gengið vel fram í að beina því máli áleiðis, einkum með því að stofna kvennaskólana, sem vitanlega er ábótavant í mörgu, enn geta verið mjór mikils vísir. Vér megum vona, að Íslendingar láti eigi sitt eftir liggja, að veita kvenþjóðinni smámsaman meira jafnrétti enn nú á sér stað, og verði eigi eftirbátar nágrannaþjóðanna í þeirri grein, enda hefur alþingi með lögum um kosningar­rétt kvenna, dags. 12. maí 1882, þar sem sjálfstæðum konum er veittur kosningarréttur í sveita­málum og kirkjumálum, orðið á undan öllum nágrannaþjóðum vorum, og benda nú einkum Norðmenn á dæmi Íslendinga í þessu atriði og hvetja til að breyta eftir því. Vér ættum því síður að láta hér við staðar nema.

Kristindómurinn og skynsemin segir oss, að guð hafi skapað alla jafna sem bræður og systur og börn hins sama föður; að konum og körlum séu af náttúrunni veitt öll hin sömu réttindi til að leita sælu sinnar og fullkomnunar, álíka og blámenn og Indíánar eru jafnfrjálsbornir af náttúrunni sem hvítir menn. Og þó hafa menn verið að leitast við að sanna það af ritningunni, að konan eigi að vera manninum undirgefin; en það getur engan veginn samrýmst við anda kristindómsins. Það er ekki fyrr en á þessari öld, að almennt er farið að viðurkenna jöfnuð karla og kvenna. Ameríku-menn hafa orðið einna fyrstir til að viðurkenna réttindi kvenna og baráttan í Ameríku um afnám þrælahaldsins ruddi braut frelsishreyfingum kvenfólksins.

Ef vér lesum veraldarsöguna, sjáum vér, að kvenfólkið hefur á öllum öldum og í öllum löndum átt við harðan kost að búa, þótt ánauð þeirra hafi eigi verið alstaðar jafn óbærileg. En svo mikið er víst, að ánauð og vanvirða kvenfólksins hefur jafnan verið bölvun lands og lýða og steypt voldug­ustu þjóðum í glötunina. Hvað var það sem steypti Aþenuborg og Róm? Fremst af öllu það, að konur voru þjáðar og svívirtar og svo þrælahaldið; yfir höfuð ekkert annað en ófrelsi lýðsins.

Meðan meiri hluti mannkynsins er þannig sviptur réttindum og seldur í ánauð, þá er ekki sannra framfara að vænta. Nú er margt talað um framfarir í heiminum og svo þykir, sem öllu fleygi fram, enn þessar framfarir ganga flestar í sérstakar stefnur, og eru minni enn þær sýnast. Í sumum greinum eru framfarirnar mjög litlar, svo sem í öllu hinu siðferðislega. Enda liggur í augum uppi, að mannkynið eigi muni geta náð sönnum þroska í siðgæði meðan meiri hluti þess, kvenfólkið, sem að öllum jafnaði er ríkari að siðgæðum, er engu látinn ráða.

Það getur eigi verið aðalákvörðun kvenna, að giftast og þjóna manninum. Fyrst og fremst eru konur miklu fleiri en karlar, og svo eykst tala þeirra með ári hverju, er ekki gifta sig, svo að mikill þorri af þeim verður að vera ógiftar. Hagir ógiftra kvenna verða þó sjaldnast betri enn hinna sem giftar eru, enda ná þær að tiltölu eigi jafnháum aldri sem giftar konur.

Það var 1840, að allsherjarfundur var haldinn í Frímúrarahöllinni í Lundúnum til að ræða um af­nám þrælahalds um allan heim. Fundinn sótti fjöldi manna, og vestan um haf frá Ameríku komu konur á fundinn, er kjörnar höfðu verið til að mæta þar. Í byrjun fundarins varð þref mikið um það, hvort konunum skyldi leyfa sæti á fundinum, og einkum urðu prestarnir óðir og uppvægir og börðu við ritningunni á allar hliðar. Mælskumanni einum frá Ameríku, George Bradburn, ógnaði svo æði prestanna, að hann sagði: „Sannið þið af ritningunni, að kvenfólkið eigi að vera ófrjálst, að annar helmingur mannkynsins eigi að halda hinum í ánauð; ég held ég gæti þá ekki gert annað þarfara fyrir mannkynið, enn að brenna allar heimsins biblíur á báli.“ Síðan var gengið til atkvæða og féllu þau svo, að konunum var vikið af fundinum.

Tvær af konum þeim, er reknar voru af fundinum, hafa síðan orðið frægar fyrir framgöngu sína í framfaramálum kvenna í Ameríku. Þær heita Lucretia Mott og Elisabet Stanton. Þegar þær komu heim aftur til Ameríku, héldu þær fundi og stofnuðu félög til eflingar réttindum kvenna. Síðan hefur því máli fleygt áfram í Ameríku, og það er kunnugt, að konur njóta hvergi slíkra réttinda sem þar.

Englendingar hafa næst Ameríkumönnum látið sér hugað um að bæta kjör kvenna. Rit Stuart Mills hafa átt einna bestan og mestan þátt í því að vekja Englendinga til framkvæmda í þeim efnum. Þar er nú mjög barist fyrir kosningarrétti kvenna, og líður vart á löngu, áður konur ná þar kosningarrétti að lögum.1 Lög um fjárforræði (séreign) giftra kvenna á Englandi náðu gildi 1. janúar 1883. Helsta inntak þeirra er þetta: Sérhver gift kona hefur full fjárforráð út af fyrir sig á þeim eigum, sem hún á, eða kann að eignast, án þess maðurinn eigi þar nokkru um að ráða, eða eigi að skipta sér af samningum þeim, er hún gerir um eignir sínar. Þetta er hennar sérstök eign, en ekki mannsins. Á sama hátt getur hún eigi ráðið neinu um hans hlut af eignunum. Sameiginleg meðferð eignanna verður að vera komin undir vilja beggja þeirra.

Eftir því sem menntun kvenna fer vaxandi, má vænta þess, að þær nái meiri réttindum og hagur þeirra fari batnandi. Konur eru nú á dögum farnar að taka þátt í ýmsum störfum, sem karlmenn einir hafa áður fengist við. Þannig eru í Ameríku konur, sem flytja mál fyrir dómum og dæma mál; konur sem kenna á hinum æðri skólum, konur; sem standa fyrir stórum sjúkrahúsum; konur, sem eru verkvélameistarar, efnafræðingar, prestar; að vér ekki nefnum hinn mikla þorra af kvenlæknum. Við fjármála-stjórnardeildina í Washington eru 600 konur með góðum launum (7—8000 kr. um árið). Bókavarðarstörfum gegna konur allvíða við hin stærri bókasöfn. Í Danmörku og Svíþjóð gegnir fjöldi kvenna ýmsum póststörfum og hraðfréttastörfum. Bankastörfum gegna konur mjög víða. — Í flestum löndum er konum nú leyft að sækja fyrirlestra á háskólunum, og við suma háskóla hafa konur náð kennara-embættum. Það mun og vera almennt viðurkennt, að kvenmaðurinn hafi hér um bil hina sömu andlega hæfileika og karlmaðurinn, en hið sanna er, að vér þekkjum ekki kvenfólkið til neinnar hlítar meðan það er hulið í þokumökkvum ófrelsis og vanþekkingar. Þær hinar fáu konur, er náð hafa mikilli menntun, hafa flestar orðið frægar fyrir lærdóm og dugnað. Vér skulum aðeins nefna mad. Staël, frakkneska lærdómskonu, rithöfund og skáld, George Sand, fræga frakkneska skáldkonu og rithöfund, George Elliot, enska skáldsagn konu (heitir réttu nafni Mary Evans), Friðrikku Bremer, sænska skáldsagnakonu (sögur hennar eru þýddar á flest mál); Rósa Bonheur, frakknesk, er mjög fræg fyrir listamálverk, og svo má nefna hina frægu söngkonur, er enginn fær við jafnast, svo sem er Sarah Bernhardt, Jenny Lind og Adelina Patti og fl.; frægar konur í stærðafræði og eðlisfræði: frú Sommerville, ensk, Sofia Germain og Sofia Kowalevski (rússnesk, prófessor í stærðafræði við háskólann í Stokkhólmi); miss Martineau og mad. Chatelet, mjög frægar fyrir rit sín, o.fl.

Svisslendingar urðu fyrstir til að veita kvenfólki viðtöku á háskóla, enda er alþýðumenntun þar í landi, á mjög háu stigi. Skólarnir eru jafnan skrautlegustu og dýrustu húsin í sveitaþorpum á Svisslandi, og bændur hafa mesta dálæti á alþýðuskólunum og öllu því, sem þar er kennt. Það eru tuttugu ár síðan háskólinn í Zürich leyfði konum fyrst aðgöngu. Háskólarnir í Bern og Genf fylgdu sama dæmi, og til þessara svissnesku háskóla hefur sótt fjöldi kvenna úr öðrum löndum, einkum frá Rússlandi og Englandi.

Ítalir eru miklir framfaramenn í þessu máli. Árið 1875 var ítölskum konum leyft að sækja háskóla, og hafa þær síðan sótt þá rækilega, og margar konur hafa þar hlotið doktors-nafnbót. Fyrir skömmu hefur ítalskur kvenmaður fengið málaflutningsembætti: hún hafði áður tekið próf í lög­fræði. Hún er fyrsta kona í Evrópu, sem gegnir þeim starfa; í Ameríku er það altítt, svo sem áður er sagt.2

Vér höfum áður getið þess, að á Englandi séu kvennamálin á góðum framfaravegi. Þar sækir fjöldi kvenna háskólana, og þar er fjöldi af félögum, sem vinna að því, að efla menntun kvenna og bæta hagi þeirra á allan hátt. Vinnukonur hafa þar ýmis félög, er styðja að því, meðal annars, að jöfnuður sé gerður á kaupgjaldi karla og kvenna er vinna sömu eða líka vinnu, og reyna að sporna við því, að atvinnuleysingjar bjóði vinnu sína hver í kapp við annan fyrir lægsta kaup, enn af því hefur leitt að kvenfólki hefur verið goldið svívirðilega lítið fyrir vinnu sína. Vinnukonur á Englandi hafa oft gert samtök til að hætta vinnu um stundarsakir (verkföll), álíka og títt er meðal verkmanna, til þess að reyna að fá hærra kaup.

Frakkar eru komnir skemmra áleiðis í menningu kvenfólksins enn ætla mætti um svo frjálsa og framgjarna þjóð. Klerkarnir hafa þar verið mestu meinvættir og staðið menntuninni fyrir þroska og þrifum, og enn er það tíðast, að efnað fólk setur dætur sínar til mennta í klaustrunum. Enn klaustur­menntunin hefur aldrei verið talin holl, enda hefur þar verið lögð mest stund á, að kæfa alla frjálsa hugsun unglinganna og innræta þeim blindan guðrækniákafa og hlýðni við prestana. Eigi að síður þokar menntun kvenna talsvert áfram á Frakklandi hin síðustu ár, einkum í stórbæjunum; ganga konur þar á háskóla sem víðast annarstaðar, einkum til að nema lækningar.

Þjóðverjar eru eftirbátar annarra þjóða í menntun og menningu kvenna. Það vantar að vísu eigi, að nóg sé þar rætt og ritað um framfarir kvenfólksins, réttindi kvenna og menntun þeirra, enn það er ekki nema orðin tóm. Þar eru engir kvennaskólar, er teljandi sé, og eigi er konum heldur leyft að ganga á þýska háskóla. Hvergi meðal menntaðra þjóða er framfaramálum kvenna jafnilla tekið sem á Þýskalandi.

Á Rússlandi er einvaldsstjórn, svo sem kunnugt er og harla ófrjálsleg í flestum greinum. Enn rússneska stjórnin á þakkir skilið fyrir, hve mjög hún hefur aukið og eflt menntun kvenna. Konur ganga á ýmsa háskóla á Rússlandi, og auk þess er sérstakur háskóli í Pétursborg handa konum, er stunda lækningar. Sá skóli er svo vel sóttur, að sum ár hefur þar verið veitt viðtaka um 200 konum. Finnland lýtur Rússakeisara, enn þar hafa konur kosningarrétt í kirkjumálum og sveitamálum, álíka og hér á landi og í Svíþjóð. Á Finnlandi er og rætt og ritað um að veita konum kosningarrétt til þingsins (landdagen), og hafa æðstu umboðsmenn stjórnarinnar fylgt því máli af alefli. Hvað mundu íslenskir embættismenn og konungkjörnir þingmenn segja, ef veita ætti íslenskum konum almennan kosningarrétt? Vér treystum þeim verr enn embættismönnunum rússnesku.

Í Danmörku er menntun kvenna komin á góðan rekspöl. Með konungsboði 25. júní 1875 var konum leyft að sækja háskóla í Danmörku, og hefur það borið góðan árangur; lærðir kvenna­skólar eru þar einnig komnir á fót, og geta námskonur lært þar allt það, sem nauðsynlegt er til þess að þeim verði veitt viðtaka á háskólann. En litlar réttarbætur eru konum veittar í Danmörku, enn sem komið er, og eru Danir í þeirri grein eftirbátar margra annarra þjóða og þar hafa Íslendingar orðið þeim fremri.

Nú víkjum vér sögunni heim til Íslands. Það er satt, að Íslendingar hafa orðið fyrri til þess enn margar aðrar þjóðir að veita þeim konum, sem eru sjálfum sér ráðandi, kosningarrétt í kirkjumálum og héraðsmálum, og alþingi veitti konum einnig kjörgengi í bæjarstjórn Akureyrar, enn þessum lögum þingsins var synjað staðfestingar eingöngu vegna þessa atriðis. Þar á mót eru hér engin lög um sérstök fjárráð giftra kvenna í líking við ensk lög eða amerísk. Það er vonanda, að alþingi hafi héðan af þrek og djörfung til að halda uppi réttindum kvenfólksins og reyna að bæta smásaman hagi þeirra með nýjum lögum. Lög um sérstök fjárráð giftra kvenna teljum vér með mestu nauðsynjamálum. Að konan megi sjálf ráða eigum sínum á sama hátt og maður hennar ræður fé sínu, er svo eðlilegt, að óþarft er að færa rök fyrir því eða telja þá kosti, er því fylgja. Það er eitt, t.d., að tengdaforeldrar þurfa síður að óttast, að tengdasynir sói arfi dætra þeirra, ef þær ráða sjálfar fé sínu að lögum. Í öðru lagi getur bóndinn haft góðan hag af því, að skuldunautar geta eigi krafið konuna um skuldir hans. Í þriðja lagi er það óeðlilegt, að konan sé svipt að miklu leyti fjárráðum sínum um leið og hún giftist. Með því að giftur maður fær þannig ráð yfir eignum konu sinnar, gifta margir sig eingöngu til fjár, og er þá jafnan hætt við, að sambúð hjónanna verði eigi svo ástúðleg sem hún annars ætti að vera. Það er heldur eigi fýsilegt fyrir ungar stúlkur, sem eru í góðum efnum, að gifta sig og mega búast við því, að ráða þaðan af engu um eigur sínar. Eyðsluseggir og ráðleysingjar svalla og sólunda oft þeim eigum, sem þeir hafa fengið í hendur með konunum og steypa þeim í eymd og volæði. Flestir munu þekkja mörg dæmi til þessa, enn vér leyfum oss hér að segja frá einu dæmi úr Noregi, er sýnir hve lögunum er þar áfátt í þessum greinum álíka og hér. Haustið 1881 giftust hjón ein i Noregi. Konan var allvel fjáð, enn maðurinn var félaus. Vorið eftir strauk hann frá konunni og nam á brott með sér annars manns konu frillu taki. Leið svo nokkur tími, að ekki spurðist til þeirra. Kona strokumannsins keypti sér þá jarðarskika og fékk peninga að láni, svo að hún gat byggt sér hús og komið svo ár sinni fyrir borð, að hún gat allvel bjargast. Skömmu síðar náðist bóndi hennar og hjákona hans; var hann dæmdur í varðhald um níu mánuði og til að borga málskostnað og varðhaldskostnað beggja þeirra, svo og fatnað handa hjákonunni. Hvorugt þeirra hafði eyrisvirði handa á milli til að borga þetta fé. Var þá ekki annað fyrir hendi, enn að taka allan kostnaðinn fjárnámi hjá konu bóndans, þótt hún yrði þá öreigi. Hún kærði fjárkröfu þessa fyrir stórþinginu, og kvaðst hafa þolað nóga armæðu, þótt það bættist ekki ofan á, að hún yrði svipt aleigu sinni. Lögin heimtuðu, að konan léti aleigu sína til að borga kostnaðinn af því broti, sem maður hennar hafði framið gegn henni, eftir að hann hafði sóað miklu af eigum hennar. — Vér höfum ekki frétt, hver endir hefur orðið á máli þessu.

Ef vér lítum nú á hagi kvenna hér á landi, þá sjáum vér, að þeir eru ekki glæsilegir. Þó hefur margt breyst til batnaðar í þeim efnum hér á landi á síðustu árum. Áður voru það t.d. lög, að arfinum var ekki skipt jafnt milli samborinna systkina, heldur erfðu synirnir tvöfalt á við dæturnar. Þau óréttlátu lög eru nú fyrir löngu afnumin, enn kvenfólkið verður enn að þola margan ójöfnuð þessu líkan, bæði vegna óhaganlegra laga og ýmisrar fornrar óvenju.

Kvenfólkið hefur verið alið upp hér á landi í mestu fáfræði, og fæstir hafa hirt um, að mennta dætur sínar, gætandi ekki þess, að þekking og menntun er aðalskilyrði fyrir allri heill og hagsæld. Lengi þótti það óþarfi, að stúlkurnar lærðu að skrifa; það þótti nægja, að piltarnir kynni það að nafninu. Þessi hugsunarháttur er nú að mestu upprættur, sem betur fer, og kvennaskólarnir eiga eflaust góðan þátt í því, að efla menntun ungra kvenna hér á landi og meiri enn almennt er viðurkennt. Því að auk þess, sem þær stúlkur, er gengið hafa á kvennaskólana, hafa flestar lært eitthvað nýtilegt, eða komist eitthvað niður í nauðsynlegustu námsgreinum, þá hafa kvenna­skólarnir einnig eflt menntunarlöngun út í frá, vakið mannrænu foreldra og námfýsi ungra stúlkna. Vér ætlum ekki að dæma hér um kvennaskólana; þeir gera sjálfsagt mikið gagn, þótt þeim sé áfátt í ýmsu. Enn vér viljum víkja að öðru. Það hefur verið í ráði, að stofna alþýðuskóla í flestum sýslum landsins og alþingi hefur heitið þeim féstyrk. Með því nú að bókleg eða munnleg kennsla má vera hin sama bæði fyrir karla og konur, teljum vér æskilegt, að sýsluskólarnir veiti kennslu jafnt stúlkum sem piltum. Mætti einnig hafa kennslukonur á sýsluskólunum til að kenna stúlkum verklegar menntir og hannyrðir. Þá yrði minni þörf á eiginlegum kvennaskólum, og mætti þannig spara talsvert fé í stað þess að hafa sérstaka skóla fyrir stúlkur.

Það er algengt í Ameríku, að karlar og konur ganga á sama skóla. Ameríkumenn verja meira fé til menntunar 50 milj. manna en öll Evrópa ver til að mennta 350 miljónir. Ameríkumenn þykjast ekki vera þess megnugir, að hafa tvenna alþýðuskóla, eða bæði fyrir pilta og stúlkur, og þeir telja þar að auki marga kosti á sameiginlegri skólakennslu karla og kvenna. Almannaskólar í Ameríku veita öllum kauplausa kennslu, sem eigi eru yngri en 6 vetra eða eldri en 18 vetra; efsta deild þeirra samsvarar latínuskólum og gagnfræðaskólum í Evrópu; þar njóta piltar og stúlkur sömu kennslu og eru venjulega saman í bekkjunum án nokkurrar sundurgreiningar.

Kostir sameiginlegrar skólakennslu fyrir karla og konur eru margir og miklir. Á sama hátt og piltar og stúlkur upp alast saman á heimilunum, og læra hvort af öðru, á sama hátt á uppeldið að vera sameiginlegt í skólunum. Hvortveggja stefna að sama aðalmarki og miði, þarfnast sömu þekk­ingar og hlýða sömu siðferðislögum. Sumir hafa haldið, að sambúð karla og kvenna í skólum mundi spilla góðum siðum, enn reynslan hefur sýnt, að slíkar getsakir eru rakalausar. Heldur fer hið besta orð af skólunum í Ameríku, og einkum er lokið lofsorði á siðferði nemenda á háskólum þeim, þar sem karlar og konur eru saman að námi. Slíkir háskólar eru margir í Ameríku. En hitt er víst, að það er eigi einungis óþarft að meina ungu fólki, piltum og stúlkum, að vera saman, heldur er sú sundurgreining miklu framar skaðleg, og veldur því, að miklu hættara er en ella, að ímyndunaraflið og tilfinningarnar leiði unglingana í gönur. Á Frakklandi eru ungu stúlkurnar upp aldar í klausturklefum, og látnar forðast karlmenn sem heitan eld; en ekki þykja Frakkar siðlátari enn aðrar þjóðir. – Margir nýjustu stjórnfræðingar og framfaramenn berjast fyrir því, að almenn skólamenntun verði sameiginleg fyrir karla og konur. Um það hefur verið ritað í merkustu frakkneskum blöðum (t.d. Revue des deux Mondes) og enskum (t. d. Forthnightly Review) og frelsisblöðum á Norðurlöndum. Aug. Strindberg heldur því og fram í bók sinni „Giftas“, er upptæk var gerð.

Menntun kvenna hér á landi kemst eigi í gott horf fyrr en alþýðuskólar eru komnir á fót víða um land, þar sem bæði er kennt piltum og stúlkum. Þegar kvenfólkið menntast betur, verðu það færara til að leysa af höndum hið mikilvæga starf, að ala upp mannkynið, og hæfara til að hagnýta sér ný réttindi. Þegar kvenfólk hefur fengið jafnrétti á við karlmenn, lifir það sælla lífi enn nú.

Giftar konur eiga tíðum við engu betri hag að búa en vinnukonurnar, þó hvorki sé fátækt eða heilsuleysi um að kenna. Að réttu lagi ættu giftar konur ekki að ganga að stritvinnu, enda eru þær oft ófærar til þess, og hafa nóg annað að gera, svo sem að annast umsjá búsins og uppeldi barnanna.

Verst er farið með vinnukonurnar, og er sú meðferð þrældómi líkust. Vinnukonum er ekki goldið nema að fjórða parti eða þriðjungi á við vinnumenn, og væri hægt að sanna með reikningi, hve óréttlátt það er. Þó vinnukonan vinni sömu vinnu og jafnmikið og karlmaðurinn, er henni goldið meir en helmingi minna.

Hvergi hér á landi er jafn þrælslega farið með kvenfólk sem í Reykjavík. „Eyrar-vinnan“, sem svo er kölluð, er sannur þrældómur. Þar eru kvenmenn hafðir í erfiðustu stritvinnu, er einungis er hraustustu karlmanna, og þó þær beri allan daginn sömu þyngd og karlmennirnir, eða beri börur á móti karlmönnum, og vinni því alveg jafnt og þeir, eru þeir, sem vinnuna borga, svo þrællyndir, að þeir gjalda kvenmanninum helmingi minna enn karlmanninum. „Laugaferðirnar“ eru önnur þrælkun litlu betri. Vinnukonurnar eru reknar í laugar, hvernig sem veður er, og verða að bera þyngsla-bagga alla þá vegleysu,3 enda finnast þær stundum örmagna undir byrðunum, svo að þær geta enga björg sér veitt. Af þessari þrælkun hljóta þær að verða hrumar bæði á sál og líkama, og má þá nærri geta, að afkvæmi þeirra verða varla efnileg.

Það er vonandi, að þessi kvennaþrældómur í Reykjavík fari þverrandi, því að vér teljum það engar framfarir, þótt Reykvíkingar kæmu upp þrælastétt í landinu eða nýrri kynslóð af hálfvitum.

Aftanmálsgreinar

1. Það er merkilegt, að í fornöld tóku konur bæði þátt í löggjöf og dómum hjá Engil-Söxum. Á þjóðfundi, er haldinn var í Boghampstead á 7. öld, voru fleiri konur enn karlar, og rituðu þær undir lög þau, er þar voru sam­þykkt. Á dögum Hinriks 3. sátu fjórar konur í parlamentinu og á dögum Játvarðar 1. voru þær tíu. Á 13. öld sat og kona í æðsta dómi ríkisins. Það var eigi fyrri enn 1831, að konur voru með lögum útilokaðar frá parla­mentinu.

2. Það gegnir furðu, hve ítalskar konur eru framgjarnar og námfúsar, og svo virðist, sem kvennamenning liggi þar í landi. Á elleftu, tólftu og þrettándu öld kenndu konur við háskóla á Ítalíu, og um miðja öldina sem leið kenndi ein kona líkskurðarfræði við háskólann i Bologna í forföllum manns síns. Það er því reyndar engin nýjung að konur sé háskólakennarar.

3. Flestir munu nú finna þörf til, að vegir verði lagðir til lauganna, og er vonandi, að þess verði eigi langt að bíða, og er þess enn meiri þörf, er sundkennsla er komin á í laugunum.

„Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“

eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur

„Allstaðar er sá nýtur, sem nokkuð kann“

Nú á þessari mennta og framfaraöld hefur verið rætt og ritað um mörg mikilvæg málefni, sem til framfara og þjóðþrifa heyra, og því verður eigi neitað, að margir hafa ritað vel. En því meiri furðu gegnir það, hve fáir hafa fundið köllun hjá sér til að rita um það málefni, sem þó má efalaust kall­ast eitt af hinum mikilvægustu, en það er um menntun og réttindi kvenna. Og þó getur naumast neinum blandast hugur um, að þetta mál má heita grundvöllur allrar sannrar menntunar og fram­fara. Að vísu hafa einstöku athugasemdir um þetta komið fram í dagblöðum vorum, og einstöku hinna yngri mennta og framfara manna vorra hafa drepið á, hvers réttar konum bæri að njóta gagnvart þeim. En það virðist sem þessar kenningar eigi ekki vinsældum að fagna, fyrst þær deyja svo skjótlega án þess að skilja svo mikið sem bergmál eftir í næstu blöðum.

Það eru annars mikil undur hve kvennaskólar þeir sem nú eru komnir á fót hafa átt örðugt upp­dráttar. Í stað þess, sem líklegt hefði verið, að allur þorri manna hefði veitt þeim góða viðtöku og gjört sitt til að styrkja þá, þar sem þeir miðuðu til almennings nota, megum vér játa, að flestir hafa verið þeim andstæðir. Og þó hljóta allir að játa, að menntun kvenna er aðalskilyrði fyrir allri sannri velgengni í heimilislífinu, og þannig eitt af þeim málum, sem framfarir þjóðfélagsins eru að miklu leyti komnar undir.

Það er næsta eftirtektavert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og réttindum í helgreipum, og það virðist, sem þeir álíti það mikilvæg einkaréttindi, helguð af fornri venju, að vera allt gagn­vart þeim, en að þær megi ekkert vera. Að þetta sé rétt og eðlilegt þykjast þeir sanna með þeim ritningargreinum, að konan sé ekki nema eitt „rif úr síðu mannsins“, og eigi því aldrei að verða til­tölulega meira, og að „maðurinn sé konunnar höfuð“. Síðara hluta þessarar margendurteknu setningar sleppa þeir. Annaðhvort nær minni þeirra ekki lengra, eða þeim þykir hann ekki þess verður að haldast á lofti. Það er nú eðlilegt, að mönnum þeim þyki allmikið koma til þessara orða (þótt þeir í öðrum greinum séu hvorki biblíufróðir né trúaðir á hana), sem ekki hafa yfirgripsmeiri skilning enn það, að þykja menntun og framfarir kvenna standa sér fyrir þrifum, og ekki meiri drengskap en svo, að vilja byggja upphefð og framfarir sínar á niðurlægingu og ófrelsi kvenna. En þrátt fyrir öll rök sín og allar sínar mótbárur, geta þeir þó aldrei fært gildar ástæður fyrir þeirri skoðun sinni, að konur séu óhæfari til hvers konar framfara og menntunar en karlar, eða að þær eigi minni rétt og heimtingu til þess en þeir. Og meira að segja, þeir geta ekki neitað því, að nú, einmitt á þessari framfara og frelsis öld eru konur hér langtum harðara haldnar í ýmsu tilliti en á dögum forfeðra vorra, sem þó stóðu óneitanlega nútíðarmönnum langt á baki í mörgu því er til framfara horfir. Vér þurfum ekki annað en að lesa sögurnar til þess að sjá, að þá hafa konur almennt ráðið meira með mönnum sínum og verið sjálfstæðari en nú tíðkast. Hvað mundi t.a.m. nú vera sagt um annað eins tiltæki og Þorbjargar digru, er hún leysti Gretti Ásmundsson, sem þá var tekinn eftir vilja Vermundar bónda hennar? Og hver getur þá borið móti því, að hún færði ljós og viturleg rök fyrir tiltæki sínu? Og munu menn ekki hljóta að játa, að hún sæi lengra fram í veginn en Vermundur sá í það skipti; eða hver getur neitað því, að honum var fremur sómi en vanvirða að eiga þá konu, sem hafði bæði vit, þor og vilja til að taka upp slíkt ráð að honum forspurðum? Eða mundi Guðrún Ósvífursdóttir hafa kunnað því, að vera að engu talin, hún sem lét sér ekki vaxa í augum að standa upp af brúðarbekknum til að verja þann mann, sem hún hafði heitið ásjá, fyrir Þorkeli, sem þá var að drekka brúðkaup sitt til hennar? Ekki lítur heldur út fyrir að hún hafi verið talin minna verð í föðurgarði, þegar Kjartan taldi það standa fyrir utanför hennar, að faðir hennar væri gamall, og bræður hennar ungir og óráðnir, sem ekki mættu missa forsjá hennar. Og sjáum vér ekki hinn sama anda, sjálfstæðis og frelsis anda, er vér hyggjum að Auði djúpauðgu, Þorgerði Egilsdóttur, Bergþóru Skarphéðinsdóttur og ótal fleirum?

Þeir sem fyrst og fremst hafa réttindi kvenna í höndum sér eru feður þeirra. Það er skylda þeirra, að bera jafna umhyggju fyrir velferð barna sinna, dætra sem sona. Sólon, hinn vitri löggjafi Aþenu­borgarmanna, ákvað, að sá faðir, sem ekki hefði kennt syni sínum neina iðn ætti ekki heimting á umsjón sonarins í elli sinni. En hvernig verður sagt, að sá faðir sjái barni sínu borgið í því tilliti, sem neytir föðurréttinda sinna til að neyða barnið að leggja eitthvað það fyrir sig, sem það er óhæft til, og sem það hefur óbeit á, án þess að hafa tillit til vilja þess og hæfilegleika? Með því móti gjörir hann það að andlegum umskiptingi, og það barn, sem hafði hæfilegleika og löngun til að verða nýtur limur í þjóðfélaginu, ef kraftar þess og vilji hefðu verið rétt notaðir, verður nú oft, ef ekki öðrum til þyngsla og hneykslis, þá samt sjálfu sér til byrði og öðrum gagnslaust. Þótt þetta muni nú ekki þykja glæsileg meðferð, eru það þó kjör kvenna, gangi hæfileikar þeirra og vilji í aðra átt en að óskum foreldranna. Þótt margir menn séu góðir og umhyggjusamir feður, eru þeir þó ekki almennt komnir svo langt áleiðis, að þeir geti hafið sig yfir forna venju og hleypidóma. Dæturnar eru fyrirfram ákvarðaðar af þeim til að vera stoð og stytta móðurinnar í hússtjórninni, og þetta er í sjálfu sér rétt og eðlilegt. En nú kann stundum að bera svo við, að unglingsstúlkan hafi óbeit og leiðindi á bústörfum, en sterka löngun og góða hæfilegleika til einhvers annars. Ef til vill er óbeit hennar á venjulegum kvenstörfum sprottin af því, að hana vantar menntun og þekkingu til að sjá, hve nauðsynleg þau geta verið, og fengi hún að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, mætti heldur vænta að hún mundi síðar með aldri og þekkingu verða hæfari til hússtjórnar, og vinna með ljúfara geði að bústörfum, en ef það er ekki, hvern rétt eiga þá vandamenn hennar til að meina henni að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, og liggur þeim þá ekki nær að beina veg hennar, svo að hún geti notað hæfilegleika sína og „spilað á sínar spýtur“, enn að leggja stein í veg fyrir hana, og verða þannig orsök í ógæfu og auðnuleysi hennar, sem svo oft hefir orðið hlutskipti bæði karla þeirra og kvenna sem ekki hafa fylgt hinni upphaflegu löngun sinni og hæfilegleikum?

En til þess að dæturnar geti orðið nýtir limir þjóðfélagsins, verða foreldrar og vandamenn þeirra að taka jafnt tillit til vilja þeirra og hæfileika sem sonanna. Þeir verða að hætta að gjöra þennan mikla mun á mey og manni. Þeir verða að láta sér hugfast, að ábyrgðin hvílir að miklu leyti á þeim, hvaða stefnu og hugsunarhátt börnin hafa. Eins og það er hin fyrsta skylda foreldranna, að vekja tilfinningu hjá börnunum fyrir öllu fögru, sönnu og góðu, eins er það helg skylda þeirra að vekja þá sjálfstæðis og sóma tilfinningu hjá þeim, að ekki hæfi neinum að liggja á liði sínu eða þurfa jafnan styrktar annarra við. Hafi dæturnar ekki í fyrstu ljósa hugmynd um, hversu ósæmilegt það sé að ungar stúlkur geti ekki vikið sér við án hjálpar bræðra þeirra eða annarra manna, þarf að glæða hana. Þær þurfa að finna, að hið góða og gamla orðtæki: „ef jeg finn ekki veg, ryð jeg mjer sjálfur braut“, á eins við þær og bræður þeirra, – að finna hversu atorka og einbeittur vilji geta komið miklu til leiðar. Þær verða að sjá, hversu tildur og tepruskapur er hégómlegt og einkenni menntunarskorts og lágra hugsana, en hin mesta og varanlegasta fegurð sé göfugur og atorku­samur vilji og viðleitni að starfa sér og öðrum til gagns. Það væri sannlega nauðsynlegt, að menn vendu dætur sínar meira við utanhúss stjórn og almenn málefni en nú gjörist. Enginn skynsamur maður mun geta látið sér þykja nokkur kona afneita hinu kvenlega eðli sínu og hæfilegleikum, þótt hún vilji vera svo sjálfstæð og öðrum óháð, að hún geti tekið jafnan þátt í verkstjórn utanhúss og almennum viðskiptum sem innanhúss-vinnu, og þannig komist hjá að sjá allt með annarra augum, — þótt hún vilji heldur styðjast við þekkingu og reynslu sjálfrar sinnar en eiga undir viti og góðvilja annarra. Oss finnst auðséð að fengi konur fjölbreyttari og praktískari menntun, mundu þær verða sjálfstæðari og færari að hafa sjálfar fjár síns forráð en hingað til hefur átt sér stað. Gefi menn gætur að uppeldi kvenna og beri það saman við uppeldi drengja, er fljótt auðséð, að aðalorsök framkvæmdarleysis kvenna og ódugnaðar í fjárhagslegu tilliti er fólgin í því, að þeim er aldrei kennt að hugsa, né sýnt hið eðlilega samband orsaka og afleiðinga. Af því leiðir, að þeim er oft brugðið um fljótfærni og fyrirhyggju skort, og að þær byggi ekki ráð sín eða ásetning á gildum rökum, og má oft játa, að slík ásökun er ekki með öllu ástæðulaus. Væri nú uppeldi þeirra hagað þannig, að þær fengju sem fjölbreyttasta þekkingu á öllu, sem að búnaði lýtur, mundu færri feður kvarta um, að dætur sínar yrðu þyngstir ómagar með fullorðins aldrinum.

Það er að vísu erfitt fyrir stúlkur þær að komast áfram, sem eru frábitnar búskap en vilja nema bóklegar greinar til hlítar, á meðan réttindi þeirra eru svo skorðuð, að þær geta ekki fengið aðgang að almennum námsstofnunum, og því síður að embættum og atvinnuvegum þeim, sem þó gætu átt eins við hæfi kvenna sem karla, og meðan er þannig komið í veg fyrir að þær geti nokkru sinni haft verulegt gagn af námi sínu, en það er einmitt þessi grein, sem þarf lagfæringar við, og vér vonum, að menn verði innan skamms tíma komnir svo langt áleiðis, að þeir sjái hver hnekkir það er í framförum almennings, að meira en helmingur hans taki engan þátt í málefnum þeim, sem snerta gagn hans og hagsmuni.

En að hinu leytinu er það skylda kvenna, að gjöra allt hvað í þeirra valdi stendur til að sýna, að það sé meira en orðagjálfur eitt, að þær hafi hæfilegleika og vilja til að vera jafningjar bræðra sinna. Þær verða að sýna í verkinu, að þær séu jafnfærar til þess að taka þátt í alvöru lífsins sem skemmtunum þess. Þeim hefur oft verið borið óþarft tepur og hégómaskapur og það ekki ófyrirsynju. En þessir ókostir eru að nokkru leyti afleiðingar þess menntunarskorts, sem hefur oft átt sér stað hjá þeim, og þess hve lítið far vandamenn þeirra hafa gjört sér um, að sýna þeim hina alvarlegu og þýðingarmiklu ákvörðun þeirra. Konurnar eru ekki skapaðar til að vera einungis sem skrautgripir inni í húsi, sem enga ákvörðun hefur og ekkert gagn getur gjört annað enn það, að skemmta augum þeirra, sem líta þær, sem gangi í arf mann frá manni, frá foreldrum til manns þeirra, eða takist það ekki, þá til bræðranna, sem eins og líklegt er, taka ekki ætíð báðum höndum við þesskonar arfi. Nei, konan er sköpuð til þess að gegna sömu skyldum og njóta sömu réttinda og karlmaðurinn, að svo miklu leyti sem hæfilegleikar hennar og vilji leyfa. Hún er jafningi bræðranna og félagi mannsins. Hún verður því sjálf að hafa vakandi áhuga á réttindum sínum, og jafnframt því sýna, að hún hafi bæði vit og vilja til að nota sér þau. Konur mega ekki álíta að hin eina köllun þeirra sé að giftast. Þær verða að fá ljósa hugmynd um hvað það er meiðandi fyrir sómatilfinningu þeirra, að hægt sé með réttu að bregða þeim um, að giftingin sé þeirra alvarlegasta löngun og viðleitni. Þær eiga að sýna, að þær hvorki vilji vera né þurfi að vera í vandræðum, þótt maðurinn bjóðist ekki þegar foreldrarnir falla frá, heldur séu þær þá sjálfar færar um að „ryðja sér braut“. Það er auðvitað, að enn sem komið er eru þeim flestir vegir bannaðir í þessu tilliti, meðan þær eiga hvorki kost á að geta fengið svo fjölbreytta og einhlíta menntun, sem á við hæfilegleika ýmsra þeirra, né heldur tækifæri að geta notað hana, þótt hún fengist. Það hefur jafnvel borið við, að kona hefir sótt um kennarastörf við barnaskóla án þess henni væri gefinn gaumur, þótt hún reyndist síðar vel fallin til þess, og þætti jafnvel eigi síðri enn menn, sem teknir voru fram yfir hana. Þetta heftir nú framför og áhuga kvenna, því þegar þær finna hvarvetna lagðar tálmanir fyrir sig, er hætt við að þær gefist upp að lokum. En til þess, að þær geti gjört sér von um að kröfum þeirra verði gefinn gaumur, verða þær að nota sér þau réttindi sem þær hafa þegar fengið. Lög þau, sem nú eru komin út og veitt hafa konum kjörgengi og kosningarrétt í ýmsar nefndir, viðurkenna þó þegjandi rétt þeirra og hæfilegleika, enn lítill árangur sést enn sem komið er af þeim. Vér vitum ekki til, að konur hafi notað sér þessi réttindi, sem þó hafa talsverða þýðingu fyrir þær, eða að þær hafi verið kosnar í almennar nefndir, og er næst að skilja það svo, að þær láti sig engu varða hvort þeim er veitt eftirtekt eða ekki; þær sitja of margar mjög spakar við „kjötkatlana“, og láta sig litlu skipta þá viðburði, sem gjörast fyrir utan hinn þrönga verkahring þeirra. Þetta skeytingarleysi þeirra nota sér síðan mótstöðumenn frelsis og réttinda kvenna sem aðalástæðu fyrir því, að konur séu með öllu óhæfar að gegna öðrum störfum en þeim, sem heyra til hinu vanalega verkasviði þeirra.

En þótt konum sé að mörgu leyti gjört örðugt og óhægt fyrir, geta þær þó gefið meiri gaum að almennum framförum og málefnum en þær hafa gjört til þessa. Þær geta fylgt tímanum með framför hans og breytingum. Þær geta séð í hverju þeim er helst ábótavant, og hver meðul eiga helst við því. Þær geta aukið menntun sína og leitast við að nema fleira en eintómt glingur og smámuni. Þær verða að skilja orðið „menntun“ rétt. Menntunin er ekki sönn né veruleg, ef hún hefur ekki hugann yfir hið hégómlega og smálega til hins göfuga, góða og fagra. Hún hlýtur að hafa áhrif á alla hugsun og lífsstefnu vora. Hún glæðir löngunina eftir öllu góðu og nytsömu, en vekur óbeit á öllu ófögru, lítilfjörlegu og hégómlegu; öllu gjálfri og hlægilegu glysi, sem er aðeins á yfirborðinu, en er í raun og veru kjarnalaust. Menntunin heimtar, að hver og einn sé það, sem hann vill sýnast. Hún bendir oss á köllun vora, glæðir hæfilegleikana, hvetur viljann og eflir þrekið; hún heimtar að skyldur og gagnsmunir sitji í fyrirrúmi fyrir skemmtunum, þótt það kunni stundum að útheimta sjálfsafneitun. Fyrir því hlýtur konan að sjá betur skyldur sínar og köllun sé hún menntuð en ella. Dóttirin sér þá gjör, hvaða skyldur hún hefur að uppfylla gagnvart foreldrum sínum, að hún þarf meira en að heimta og taka við, að hún hefur jöfnum skyldum að gegna gagnvart þeim og synirnir; að hún er jafnskyld að sjá þeim farborða á efri árum og styrkja þau með ráðum og dáð og verða nýtur limur í þjóðfélaginu sem þótt hún væri sonur þeirra.

Einhleypa konan hlýtur þá að sjá betur hvers henni ber að gæta gagnvart sjálfri sér og almenn­ingi; hún veit að hún hefur krafta og vilja, sem hún á að verja í þjónustu hins sanna, góða og nyt­sama; hún sér þá að staða hennar hefur einnig talsverða þýðingu í mannfélaginu, og að það hefur rétt til að heimta óskipta krafta einstaklinganna sér til framfara og velgengni, og að hún hefur einnig tækifæri, þótt það kunni að vera í smáum stíl, til að vinna að almenningsheill ásamt bræðrum sínum. Sagan sýnir henni líka, að til hafa verið konur á öllum öldum og í ólíkum ástæðum, sem hafa þó tekið mikinn þátt í áhugamálum þjóðar þeirra, og unnið oft ótrauðar að hag og heill fósturjarðar þeirra. Hún sér að það er heimska ein, að láta gamlan vana og rótgróna hleypidóma blinda huga og framkvæmdir sínar, þegar um áhugamál og velferð almennings er að ræða, og þótt í fyrstu kunni að vera tekið misjafnt upp, að hún fylgir af áhuga framförum tímans, og þótt ýmsar torfærur verði á vegi hennar þegar hún vill halda fram sannfæringu sinni eða stofna til nýrra fyrirtækja, vekja áhuga og efla félagskap hjá systrum sínum, þá má hún ekki láta slíkt tálma sér eða letja sig að halda áfram. Það er jafnan hægara að endurbæta hlutinn en að frumsmíða, og jafnan hefur öll nýbreytni mátt sæta óvild margra, hversu þörf sem hún hefur verið, enda hafa oft forvígismenn framfaranna verið fótum troðnir, þótt minningu þeirra hafi síðar verið haldið á lofti öldum saman. Þeir hafa oft einir og aðstoðarlausir byrjað að ryðja þá braut, sem þúsundir manna hafa síðan með ljúfu geði lokið við og farið. Því hljóta hverjir þeir, sem að framförum vinna og vilja brjóta gamlan vana á bak, að búa sig við að hafa ekki ætíð almenningsálitið sín megin í fyrstu. En sé haldið áfram jafnt og sjálfu sér samkvæmt með gætni og fyrirhyggju, fella menn sig smám saman við nýbreytnina, þegar þeir sjá að hún er þarfleg og sanngjörn. Þannig getur vel borið til, að það verði í fyrstu kallað óþarfa framhleypni og „vas“, ef konur leyfa sér að leitast við að fylgja tímanum, en það á sér ekki langan aldur, því að margir hinna skynsamari manna álíta það æski­legt og sanngjarnt og vilja styðja að því með ráðum og dáð. Þannig liggur opinn verkahringur fyrir einhleypum konum, sem hafa þær ástæður, að geta verið öðrum óháðar, og vilja leggja nokkuð í sölurnar fyrir réttindi sín og framfarir.

Gifta konan sér skyldur sínar sem eiginkona, móðir og húsmóðir frá annarri hlið en áður, og þær verða Ijósari og markverðari í augum hennar. Hún sér að hún er gagnvart manni sínum sem félagi og ráðgjafi, er ræður öllum ráðum sameiginlega með honum. En til þess að slík stjórn fari vel úr hendi þarf hún fjölbreytta þekkingu, svo hún byggi jafnan ráð sín á skynsamlegum rökum. Hún á þá hægara með að skilja mann sinn, tilgang hans og vilja, og betra vit til að ráða honum heilt ef honum skjátlast, og taka bendingum hans ef þess þarf við. Aðalgrundvöllur góðs skipu­lags í heimilislífinu er að konan þekki skyldur sínar og hafi bæði vilja, þekkingu og hæfilegleika til að uppfylla þær. Það yrði bæði torvelt og óþarft að vilja reyna að telja upp hinar ýmsu skyldur konunnar, því sé hún í orðsins fyllstu merkingu kona, getur enginn fundið þær jafnvel sem hún, og þá er víst að hún leysir þær af fremsta megni af hendi. Hin menntaða kona hlýtur að eiga hægara með að standa vel í stöðu sinni gagnvart hjúum sínum, en hin ómenntaða, og orð og ráð hennar hafa meira gildi í augum þeirra, af því að þau reka sig ekki á vankunnáttu og þekkingar­leysi í neinu tilliti. Auk þess getur hún komið miklu góðu til leiðar og kennt hinum fáfróðari margt þarft. Hún getur bent vinnukonum sínum á, að þær hafi einnig tækifæri til að láta sér fara fram, og sýnt þeim, að það er ekki staðan, sem skapar hæfilegleikana, heldur séu það oft hæfilegleikarnir, viljinn og framkvæmdin, sem skapa stöðuna, og að engin staða sé svo þýðingarlítil, að á sama standi hvernig í henni sé staðið; enda hafa það oft verið menn af lægstu stigum, sem hafa komist til mestu metorða og orðið bjargvættir þjóðar sinnar. Þannig getur menntuð kona fremur vakið áhuga og keppni í framfaralegu tilliti enn hin ómenntaða, og er slíkt mjög þýðingarmikið.

En þó kemur hvergi jafn ljóslega fram munurinn á vel menntaðri konu og lítt menntaðri sem gagn­vart börnum þeirra. Móðirin er ætíð hinn fyrsti og sjálfsagðasti leiðtogi barnsins, og mun þá nokkur geta neitað því, að til að geta gegnt vel skyldu sinni—hinni þungu og ábyrgðarmiklu skyldu—að vera fóstra og fræðari hinnar uppvaxandi kynslóðar þarf bæði menntun, þolgæði og ljósa þekkingu í sem flestu. Menn munu segja, að lítil þörf sé á að konur séu sprenglærðar fyrir þær sakir, því nú sé lítill hörgur á hæfum kennurum. En þó svo væri viljum vér spyrja: hver getur veitt barninu aðra eins tilsögn og móðirin, sé hún góð og menntuð? Hver hefur jafnmikil áhrif á hugarfar og hjarta barnsins og hún, þegar hún er vaxin hinu vandasama verki sínu? Eða mun ekki börnunum verða ljúfara og eðlilegra að fá hina fyrstu tilsögn hjá móðurinni enn óviðkomandi mönnum? En til þess, að hún geti veitt þeim sem best uppeldi, útheimtist, að þau beri virðingu fyrir henni og hafi fullkomið traust á ráðum hennar og orðum. Nú er víst, að börnin trúa engum jafnvel og móðurinni, meðan þau eru sem menn kalla milli vita, og þá liggur í augum uppi, hve áríðandi það er, að orð hennar séu jafnan sönn og holl, og að börnunum sé ætíð óhætt að trúa því þegar hún fræðir þau um eitthvað sem þau hafa ekki skilið áður. Greind og eftirtektasöm börn taka eftir mörgu og spyrja margs, og þau gjöra sig ekki ánægð með að fá úrlausn að eins að hálfu leyti eða jafnvel ekki. Að minnsta kosti hlýtur það, að móðirin ekki getur gefið þeim fullnægjandi upplýsingar á spurningar þeirra eða ef hún eyðir þeim, að veikja traust þeirra á þekkingu og yfirburðum hennar. Aldurinn frá 10 til 16 ára er sá tími, sem hentastur er til undirbúnings fyrir börnin til meiri menntunar og andlegs þroska. Á þessum aldri hafa þau ekki náð þeirri íhugunarsemi að þau geti séð, hvort von sé til að móðirin geti leyst úr spurningum þeirra, eða veitt þeim þá tilsögn, sem þau æskja eftir. Þeim þykir aðeins sjálfsagt að hún viti þetta eða hitt, er þau spyrja að, og bregðist það, er hætt við að traust þeirra til hennar og virðing sú, er þau hafa borið fyrir henni minnki, og þá veikjast þau áhrif, sem hún getur haft á vilja og lífsstefnu þeirra, þótt hún í mörgu öðru tilliti kunni að vera fær um að vísa þeim leið. Það er líka æskilegt, að móðirin sé svo menntuð að hún geti haft eftirlit með hvernig börnum hennar er kennt, taki hún aðra til þess, og geti leiðbeint í því tilliti ef henni ekki líkar hvað eða hvernig er kennt. Enda mundi það glæða virðingu og traust barnanna til hennar ef þau sæju að hún væri þeim jafnan fremri, þótt þau kæmust nokkuð áleiðis, og að hún stæði ekki á baki kennara þeirra hvað menntun og þekkingu snerti. Hún fengi þannig meira vald yfir vilja þeirra og hugsunarhætti en ella; orð hennar festu þá dýpri rætur og yrðu þeim minnisstæðari. Það eru svo mörg og djúp áhrif, sem góð og menntuð kona getur haft á mannfélagið, að eins með uppeldi barnanna, að torvelt verður að telja upp, hvernig hún getur beint huga unglinganna að hinu góða og sanna, hvernig hún getur við smá atvik minnt þau á að margt það, sem er hvað mikilvægast, á rót sína í atvikum, sem lítill gaumur er gefinn. Hún getur sýnt þeim, að þau eiga ekki einungis að lifa fyrir sig, heldur einnig fyrir aðra; að ættjörð og þjóð þeirra hefur kröfu til að þau noti krafta og hæfilegleika sína, og að hið sanna gagn og hugsanir liggi ekki ætíð í að leita sem fjærst, og byltast í umsvifamiklum fyrir­tækjum, heldur í því, að verða sem færastur í hvaða stöðu sem er, og rækja sem best þær skyldur, sem menn hafa að uppfylla, og að þótt þær séu ekki ætíð fljótt á að líta þýðingarmiklar, þá geti þær þó verið mikilvægar, og jafn áríðandi að stunda þær vel þótt meira bæri á þeim. Hún er það, sem einkanlega á að leiðbeina dætrunum, að venja þær á þrifnað og hreinlæti. Hún sýnir þeim hvernig hreinlæti og vandvirkni eiga rót sína í hugarfarinu, og sé hugsunarhátturinn hreinn og góður, hljóti verkin að verða eins. Hún á að sýna þeim hve áríðandi það er, að fá sem mesta og gagnlegasta menntun og þekkingu, og benda þeim jafnframt á, að hégómaskapur og tepur eru langt frá allri sannri menntun, og tilfinningin fyrir hinu fagra og góða á ekkert skylt við glys og glingur. Hún sýnir þeim, að mannúð og hluttekning í annarra kjörum eru ávextir sannrar mennt­unar, og að það séu einkum konur, sem geti oft mýkt böl annarra með nærgætni og lipurð. Hún sýnir þeim, hvernig þær eigi að láta sér annt um þær systur þeirra, sem ekki hafi fengið tækifæri eða hæfilegleika til að taka jafnmiklum framförum og þær, og að það sé skylda þeirra, að gefa þeim heil ráð og segja þeim til eftir megni, en henda ekki gaman að fáfræði þeirra, eða sýna þeim hrak og fyrirlitningu, sem vottar aðeins heimsku og menntunarskort sjálfra þeirra. Þannig leggur góð og menntuð kona grundvöllinn til velgengni og heilla þjóðarinnar, með því hún vekur löngun barna sinna að verða öðrum til gagns, og glæðir þekkingu þeirra og hvetur þau til ósér­plægni og göfuglyndis. Hún er sem steinhöggvarinn, sem meitlar og lagar grjótið, svo úr ólíku og ólögulegu efni verður reist öflug og varanleg bygging, sem vekur undrun og virðingu seinni alda manna.

Það er vonandi, að menn taki nú þetta mál til alvarlegrar umhugsunar áður langt líður, og að það verði ekki að eins hinir einstöku menn, sem hingað til hafa hafið máls á því, heldur almenningur. Það er vonandi, að konur sjái nú sjálfar að hér er um heill og réttindi þeirra að tefla, og að þær sitji ekki lengur aðgjörðalausar og horfi þegjandi á, ef einhver ber fram merki þeirra, heldur gangi örugglega fram og berjist við deyfð og dofa, ófrelsi og hleypidóma, sem hingað til hafa staðið í vegi fyrir öllum andlegum og verklegum framförum þeirra. Það er vonandi, að þær finni sannleika málsháttarins: „þekking er veldi.“ Það er vonandi að þær skilji nú loksins „tákn tímanna“ og sjái, að þeim er einnig mál að rísa upp af svefni. Það er vonandi, að þær vilji sýna, að þær séu réttbornar dætur hinna fornu, frjálsu Íslendinga, sem ekki þoli neinum að sitja yfir rétti sínum og frelsi.

Ég enda þá mál þetta að sinni, og vona að einhver af hinum ungu og framfara og mennta konum riti betur um það en ég hef gjört, svo það verði ekki algjörlega dregið út af dagsskránni, heldur standi þar efst á blaði jafnt hinum mestu áhuga og framfara málum þjóðar vorrar.

Heimspeki úr glatkistunni: „Heimspeki og guðfræði“ eftir Grím Thomsen

 

Inngangur

eftir Írisi Björk Jakobsdóttur og Snorra Haraldsson

Grímur Thomsen fæddist þann 15. maí árið 1820 á Bessastöðum á Álftanesi. Hann var efnilegur nemandi og var því sendur í einkakennslu til Árna Helgasonar biskups (1777-1869) sem þótti góður kennari. Þegar Grímur var sautján ára gamall taldi faðir hans hann fullnuma svo að þá gæti Árni ekki kennt honum meira en foreldrar Gríms voru efnaðir og fékk Grímur þess vegna frekari tækifæri til menntunar en aðrir Íslendingar á þessum tíma. Með stúdentspróf frá Árna var Grímur sendur í Kaupmannahafnarháskóla. Með þeim Árna hélst vinskapur alla tíð og sem fullorðinn maður skrásetti Grímur ævisögu síns gamla kennara.

Í háskólanum lagði Grímur stund á bókmenntir, heimspeki og fagurfræði en mestur hefur áhuginn verið á bókmenntum. Það tíðkaðist í Kaupmannahöfn að nemendur kepptu í ritgerðar­samkeppnum og eftir fjögra ára námsdvöl tók Grímur þátt í slíkri keppni og fékk önnur verðlaun. Ritgerðin það árið átti að vera um það hvort viti Frakka á skáldskap hefði farið fram eða aftur og hverjar væru orsakir þess. Í ævisögu sinni segir Grímur spurninguna hafa aukið áhuga hans á heimspeki en heimspekiáhuginn hefur þó ekki tekið bókmenntaáhuganum fram því meistara­ritgerð sína skrifaði hann um enska ljóðskáldið Byron lávarð (1788-1824). Sú ritgerð var gefin út og átti þátt í því að vekja athygli Dana á Byroni en auðvitað Grími líka. Meðal þeirra sem lofuðu ritgerðina var H.C. Andersen (1805-1875) en öðrum mun hafa fundist hún þung og flókin og er þar líklega áhrifum frá G.W. Friedrich Hegel (1770-1831) um að kenna. Heimspeki Hegels var þá nýleg og mjög áhrifamikil en hún er líka alræmd fyrir að vera torskilin. Hvað sem því líður varð ritgerðin til þess að Grímur fékk styrk frá konungi árið 1846 til þess að ferðast um Evrópu og læra nýju málin, sem sagt frönsku, þýsku og ensku. Eftir að hann kom til baka úr því ferðalagi varð hann aðstoðarmaður sendiherra í Brussel og London en vann síðar í utanríkisráðuneytinu.

Árið 1854 fékk hann doktorsnafnbót út á meistararitgerðina um Byron. Næstu ár gegndi Grímur ýmsum opinberum störfum og skrifaði greinar í blöð og tímarit. Eftir þrjátíu ára dvöl erlendis, flutti hann aftur til Íslands um sumarið 1867 og settist að á æskustöðvum sínum á Bessastöðum sem hann hafði þá fengið frá konungi í skiptum fyrir aðra jörð. Einungis ári eftir heimkomuna hafði Grímur tekið sæti á Alþingi og tveimur árum síðar kvæntist hann Jakobínu Jónsdóttur (1835-1919). Grímur gegndi þingmennsku allt til ársins 1892 en samhliða þingsetunni og öðrum opin­berum störfum fékkst hann við þýðingar úr grísku, skrifaði lærðar greinar, aðallega um bók­menntir en einnig um heimspeki og trúmál, og orti auðvitað kvæði sem mörg hver eru vel þekkt í dag. Hann lést að heimili sínu á Bessastöðum þann 27. nóvember 1896, 76 ára að aldri.

Greinar Gríms um heimspeki bera vitni um sterk áhrif frá Aristótelesi og Platón. Nærtækustu upp­tök þessara áhrifa má rekja til þess að í námi sínu hafði Grímur lagt stund á grísku en í víðara samhengi verður jafnframt að horfa til ríkjandi hugmyndafræði nýhúmanismans á nítjándu öld sem lagði m.a. áherslu á ótvírætt gildi grískrar menningar í víðum skilningi. Sá hugmynda­straumur einkenndi m.a. störf Sveinbjörns Egilssonar (1791-1852) við Bessastaðaskóla á upp­vaxtar árum Gríms. Meðal greina Gríms um heimspekileg efni, sem m.a. ber þessi einkenni, er „Heimspeki og guðfræði“ sem birtist í Kirkjublaðinu árið 1896.1 Tilefni greinarinnar var bókin Foundations of belief (1895) eftir Arthur Balfour (1848-1930), breskan heimspekimenntaðan stjórnmálamann, sem fjallaði um kosti kristilegra kenninga umfram vísindalegar kenningar.2 Sjálft umfjöllunarefni greinarinnar er aftur á móti sambandið á milli trúar og heimspeki. Grímur fjallar því ekki sérstaklega um kenningar kristindómsins í greininni, sem var að hans mati ekki viðfangsefni heimspekinnar, heldur beinir hann athyglinni að trúnni sem slíkri frá heimspekilegu sjónarhorni. Hann leggur áherslu á nauðsyn þess að gott samræmi sé á milli heimspekinnar annarsvegar og trúarinnar hinsvegar og færir rök bæði fyrir mikilvægi trúarinnar í heimsmynd mannsins og sem grundvallar fyrir skilning hans á veröldinni. Trú verður því heimspekilegt hugtak í meðförum Gríms, sem telur að heimspeki sé fyrst og fremst fólginn í tiltekinni afstöðu til heimsins. Þannig gagnrýnir hann raunvísindin fyrir að grundvalla afstöðu sína til heimsins, eða fyrir að byggja heimspeki sína, á engu öðru en trúnni á reynslusannindi.

Heimspekileg afstaða Gríms til trúarhugtaksins felur bæði í sér þekkingarfræðilega og siðfræði­lega afstöðu. Þessi tvískipta heimspekilega afstaða kemur fram sem hluti af gagnrýni hans á efnishyggju sem tekur þó að mestu til raunvísinda. Þekkingarfræðilega gagnrýnin er á þessa leið: Efnishyggja lýsir heiminum þannig að ekkert er til nema það sem hægt er að hafa reynslu af og því skilur hún ekkert rúm eftir fyrir trú. Trúi maður aðeins því sem maður upplifir af reynslu en ekki því sem gæti mögulega verið, þó maður hafi enga reynslu af því, þá er maður samkvæmt Grími í mótsögn við sjálfan sig vegna þess að allt sem er hægt að upplifa af reynslu á sér orsakir langt utan sviðs einstaklingsbundinnar hversdagslegrar reynslu og endar sú langa orsakakeðja í hinni upphaflegu orsök eða „hinum fyrsta hreifanda.“3 Það er margt sem við ekki vitum og ekkert að því að trúa á fleira en það eitt sem við höfum reynslu af. Grímur segir það einfaldlega ekki „hugsunarrjett“ að gera ráð fyrir því að allt sé hægt að útskýra með vísan til reynslu. Til þess að útskýra frekar þessa skoðun sína bendir hann á að allt sem sé háð einhverju hljóti að vera háð því sem ekki er neinu háð, hinu óháða. Hér gagnrýnir hann Herbert Spencer (1820-1903) á athyglisverðan hátt fyrir að segjast trúa aðeins reynslunni. Grímur bendir á að þó hið óháða sé handan veru og reynslu þá sé það ekki óþekkjanlegt. Það er þekkjanlegt í gegnum allt hið háða því hið háða er háð hinu óháða sem er þar af leiðandi í sérstöku sambandi við allt sem til er. Með öðrum orðum er trúin á það sem kom fyrst og er öllu óháð, hina upphaflegu orsök, rökrétt afleiðing af því að trúa því að viðföng reynslunnar séu til. Eða með enn öðrum orðum: Heim­spekin verður að vera í samræmi við guðfræðina.

Siðfræðileg afstaða Gríms til trúar kemur líka í ljós sem afleiðing af gagnrýni hans á efnishyggju. Hann varar við siðferðislegum afleiðingum þess að líta á heiminn sem vél. Ef allt stefnir aðeins til „holdlegra framfara“ og siðferðið aðeins leið náttúrunnar til að „styrkja vöxt og viðgang mann­fjelagsins“ þá stefnir siðferðið ekki lengur að réttlæti sem jöfnuði heldur aðeins að réttlæti hins sterkari. Afstöðu Gríms má skoða í sambandi við hugmyndir Friedrichs Nietzsche (1844-1900) þó ekki sé hann nefndur í greininni. Fáum árum áður en Grímur skrifaði hugleiðingar sínar niður var Nietzsche að hugleiða svipaðar spurningar en með gjörólíku yfirbragði. Á meðan Nietzsche vill afnema kristilegt siðferði er byggir á trú og endurmeta öll gildi þá sér Grímur ekki fram á að siðferðið muni lifa það af að missa sinn trúarlega grunn og muni enda í einhvers konar mannkynbóta hugsjónum sem voru einmitt lengi framan af viðloðandi heimspeki Nietzsches. Félagsfræði Augustes Comte (1798-1857) og heimspeki Arthurs Schopenhauer (1788-1860) draga líka upp heldur siðlausa mynd af heiminum, samkvæmt Grími, því þeir reyna að gera grein fyrir mannlífi útfrá lögmálum, á sama hátt og þeir gera grein fyrir gangi heimsins.

Kannski er það markverðast við greinina, og það sem gerir hana heimspekilega, að hún miðar að því að ryðja burt kreddutrú, sem trúin á kenningar vísindanna getur orðið ef ekki er varlega farið með þær. Í staðinn fyrir kreddutrú á að koma djúpur skilningur á margbreytileika heimsins og á einstaklingurinn sjálfur að móta sér þann skilning með því að finna samræmi milli heimspeki og guðfræði. Þetta gerðu Aristóteles og Platón en allir seinni tíma menn sem nefndir eru í greininni eru gagnrýndir fyrir að skorta samhljóm við guðfræði.

Heimildir

Grímur Thomsen, „Heimspeki og guðfræði“, Kirkjublaðið, 2.tbl., 6. árg. (1896), bls. 17-26. Af timarit.is. Slóðin er:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=160266&pageId=2211908&lang=is&q=KIRKJUBLA%D0I%D0
Jón Þorkelsson, „Grímur Thomsen“, Andvari, 1. tbl. 23. árg. (1898), bls. 1-33. Af timarit.is. Slóðin er:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=292851&pageId=4326827&lang=is&q=Gr%EDmur%20Thomsen
Kristján Jóhann Jónsson, „Magister Klipfisk“, Lesbók Morgunblaðsins,19. feb. 2000, bls. 4-5. Af timarit.is. Slóðin er: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3315245&lang=0

 

Heimspeki og guðfræði

Út af bók A. J. Balfour: Foundations of belief, Eptir * * *

eftir Grím Thomsen

Þótt heimspekin og guðfræðin hafi hvor sína landareign, þá liggja þó löndin saman, og hefir þetta, eins og við var að búast, af sjer leitt miklar og margar landaþrætur gegnum alla sögu mannkynsins og vísindanna. Reyndar bar minna á þessu stríði í fornum sið, og hinn mesti heim­spekingur, að minnsta kosti fornmanna, — ef ekki allra tíma, — Aristoteles, byggði jafnvel guð­fræðinni höfuðbólið í sinni kenningu, og kallaði hana »hina fyrstu heimspeki«. Í kristnum sið reyndi Hegel, eptir dæmi Aristotelis, til að taka trú og trúarlærdóma upp í sína kenningu, og skapa kristna heimspeki. Hvernig það tókst, um það eru deildar meiningar, en víst er um það, að svo framarlega sem það er höfuðþörf hvers hugsandi manns, að gjöra sjer grein fyrir upphafi og til­gangi tilverunnar, er það einnig áríðandi, bæði fyrir hinn einstaka og fyrir mannfjelagið, að sem mest og bezt samhljóðan sje milli heimspeki og guðfræði, er báðar einmitt fást við þau sömu eilífu sannindi og þeirra rannsókn. En—hingað til hefir þessi ósk ekki rætzt, og lítur á stundum svo út, sem báðar fjarlægist hvor aðra aptur, þó þær áður því nær gengi samhliða.

Um síðustu aldamót og nokkuð fram eptir þeirri öld, sem nú er að líða, var straumur heim­spekinnar samhliða guðfræðinni. Þeir tveir miklu spekingar, sem þá voru uppi, fyrst Kant4 og síðan Hegel, fóru, það sem jeg kalla efri veginn í sínum kenningum; þeir leituðu að upphafi alls hjá þeirri eilífu skynsemi, sem af sjer hefði framleitt hið gjörvalla bæði í þeim sýnilega og þeim ósýnilega heimi (idealismus). En—þegar leið á öldina komu aðrir, sjálfsagt menn miklum hæfi­legleikum búnir, og fóru neðri veginn, að rannsaka nákvæmlega hið einstaka, finna í því lögmál náttúrunnar og hinna sjerstöku eðlis-afla, hvernig hvert greip í annað, hvert var öðru andstætt, en hjeldu þó einmitt með því saman hinni miklu vjel heimsins, og efldu framför hans, að minnsta kosti að sumu leyti og um stundarsakir, hvað sem síðar yrði. Þessir spekingar þóttust byggja á reynslunni einni, og ekki taka neitt til greina nema það sem sjeð og sannað yrði. Þeir tóku sigurverk heimsins í sundur og settu það aptur saman, skoðuðu hjól og fjaðrir og sönsuðu sig á, hvernig allt samverkaði til gangs og hreifingar, en fengust ekkert um úrsmiðinn eða hvernig sigur­verkið væri dregið upp. Þessa stefnu hafa menn ýmist kallað realismus, materialismus eða naturalismus, en hún skiptist aptur í margar greinir. Einn, Auguste Comte, frakkneskur maður, gjörði mannkynið að guði, reyndar ekki í þeim skilningi, að manneskjan hefði upphaflega skapað heiminn eða sjálfa sig, — við það fjekkst hann eigi, — heldur þannig, að framför mannkynsins og vilji mannfjelagsins í þessu lífi væri tilverunnar æðsta mark og mið, og skapaði hann orð, sem síðan er búið að fá borgararjett í heimspekinni, og í sjer felur sanna kristilega hugmynd, altruismus, viðleitni kærleikans að vinna fyrir aðra og byggja út síngirninni. Honum fylgdi hjá Bretum J. S. Mill5 og hefir þeirra kenning síðan verið kölluð positivismus. Á Þýzkalandi rann af sömu rótum upp heimspeki Schopenhauers og Hartmanns, hinn svo nefndi pessimismus eða örvæntingarlærdómur.6 Báðir finna góða röð og reglu í ríki náttúrunnar, í athöfnum og lífi dýra, fugla, jurta o. s. frv., en þegar til manneskjunnar og mannlegrar skynsemi kemur, þá virðist þeim allt fara aflaga, og »að sköpunarverkið borgi sig ekki!«

Það er ekki ómerkilegt, að hjá Bretum, svo trúrækinni þjóð, skuli einmitt hafa komið upp þeir þrír miklu natúralistar, Darwin, Huxley og Herbert Spencer.7 Svo miklir vísindamenn, sem að minnsta kosti hinir tveir fyrnefndu eru, þá á heima hjá þeim, það sem Platon sagði um natúralista sinna tíma, þá fræðimenn sem sje, er stunda eingöngu undirbúningsvísindi heimspekinnar, stærð­fræði, eðlisfræði, náttúrufræði, en ná ekki til heimspekinnar sjálfrar —: »þeir eru eins og biðlarnir í Odysseifs drápu þeir ná ekki ráðahag við Penelópu sjálfa, en sofa hjá þernum hennar«. Þeir eru leiknir í rannsókn eðlis-aflanna, þeir (einkum Darwin) sýna snildarlega fram á »baráttu lífsins«, og hvernig hún eflir allar kynbætur, sjer í lagi hjá jurtum og dýrum, en um »hinn fyrsta hreifanda« um »smiðinn«, »sáðmann akursins«, þann sem setti allt í gang, um hann skipta þeir sjer ekki. Þeir þekkja hann ekki, heldur en Herbert Spencer, sem í því sjerstaka, því »háða« (relativa) fylgir þeim og stjörnufræðingnum Herschel8, en — sem kallar hið upphaflega, hið »óháða« (absoluta): hið óþekkjanlega (agnosticismus). Þessi tvískipting tilverunnar í hið háða og hið óháða, það sem afstöðu hefir til annara hluta og það sem enga þvílíka afstöðu hefir, er nú raunar ekki hugsunarrjett, því það er ómögulegt að hugsa sjer hið háða, nema í afstöðu til þess, sem engum er háð; og því næst hefir ekkert tillit og afstöðu til eins margra og margvíslegra hluta eins og einmitt hið óháða, með því það bendir til alls hins háða. Því er það djúpur sannleiki hjá gömlum spekingi: »væri heimurinn ekki til, væri hvorki Guð nje guðs-hugmyndin til«, og svo snýr hann setningunni við: »væri Guð ekki til, svo væri heimurinn ekki til«, — og þá hefðum vjer hinn fullkomna níhilismus, og indverskt nirwana, og þá hefðu þeir rjett að mæla Schopenhauer og Hartmann: »sköpunarverkið borgar sig ekki«. En — hversu mýmargt fleira er það, sem vjer ekki þekkjum heldur en Herbert Spencer, fyrir utan upphaf og viðhald sköpunarverksins? Vjer þekkjum ekki það sem vjer sjáum dagsdaglega fyrir augunum, og sem er skilyrðið fyrir að sjá, — ljósið. Helmholtz9, sem dó í fyrra, kvaðst hafa varið 30 árum til að komast eptir eðli ljóssins, en svo fór hann burt úr þessum heimi, að hann var jafnnær; hann fann ljósöldur og margvíslegan verknað ljóssins, en hvað ljósið sjálft í rauninni er, hvort það er »æther« (eldlopt), og hvað þá »æther« er, það fann hann ekki. Aristoteles spurði opt sjálfan sig, »hvað kemur til, að hljómurinn, röddin, kemst í gegnum fastan ógegnsæan líkama, en ljósið ekki?« hvorttveggja er þó jafn-ólíkamlegt. Hvað kemur til, að dýrum og fuglum er skapaður mislangur aldur, sumum nokkrir dagar og vikur, sumum eins og t. d. fílnum 100 ár og þar yfir, og þó virðast þessar skepnur frá upphafi jafn heilbrigðar? Og svona má ótal dæmi til tína úr daglegu lífi, sem vjer sjáum og heyrum, en — skiljum og þekkjum ekki. Herbert Spencer trúir eða segist engu trúa, nema ályktunum vísind­anna. »Að spyrja um það, hvort vísindin (hann meinar náttúruvísindin) herma sannleika, er líkt og að spyrja um það, hvort sólin gefur ljós« (Herb. Spencer: First principles, bls. 19). En — nú segir hann á öðrum stað (Principles of psychology II; bls. 493) »það sem vjer þykjumst þekkja, sem eiginlegleika efnisins (materíunnar), jatnvel allt niður að þyngd og hörku eða þjettleika, eru að eins áhrif á oss sjálfa af hálfu utan við oss verandi hluta, sem vjer þekkjum eigi og getum eigi þekkt«. En — hvað verður þá um sólina? — Sólskinið er orðið að áhrifum sólarinnar, sem vjer ekki þekkjum og getum ekki þekkt. Og sje sú vissa, sem vísindin gefa oss, ekki áreiðanlegra en þetta, þá er eigi mikið fyrir gefandi. En — sjálfur er Spencer þar orðinn Kantisti, og farinn að gjöra muninn á milli hlutanna, eins og hann er í raun og veru (Ding an sich) og eins og hann kemur fyrir sjónir, þó veit hann, að sólarkjarninn er að minnka, og að sólin einhvern tíma muni slokkna! Hann hefir það eptir Herschel.

Allt um það þykjast þeir byggja á reynslunni eingöngu þessir þrír Englendingar, og það er víst og satt, að reynslan er holl fæða fyrir þankann, þegar hún virkilega er reynsla, óblönduð öllum hugarburði. En — þegar Spencer ritar langt mál um kraptinn og framhald kraptarins, þá liggur nærri að spyrja, þekkirðu kraptinn af reynslunni? Þú þekkir af reynslunni ýmsa krapta, einstaka krapta, aðdráttarkraptinn, mótspyrnukraptinn, þyngdarkraptinn, og jafnvel lífskraptinn, ef þú vissir, hvað lifið er. En þú þekkir eigi kraptinn, aðalkraptinn, hann er það sem Platon mundi hafa kallað frumsjón (ídea), en hinir nýrri nefna afdráttar- eða tæmda hugmynd (abstraction) og er eigi til í ríki reynslunnar. — Enda nægir eigi krapturinn, eða rjettara hin einstöku öfl eingöngu, til þess að gjöra heimslífið skiljanlegt, einhver eða eitthvað verður fyrst að hafa fyllt þessa hugmynd innihaldi, og síðan komið þessum kröptum á stað. Annars er vel hugsanlegt, að þessi kraptur hefði verið og væri í hvíld — því kraptarnir geta einnig hvílzt; þá stæði allt kyrrt, og enginn kraptur væri að verki, nema kraptur verkleysunnar (vis inertiæ), og allt væri þá til, að möguleikanum til, en ekkert í raun og veru. Þetta sá Aristoteles og því er stór munur á kenningu hans um hreifinguna — hana þekkjum vjer af reynslunni — og hinn »fyrsta hreifanda«, guðdóminn, sem vjer raunar ekki þekkjum af reynslunni, en, það sem betra er, af innri og ytri nauðsyn. Þessi kraptur Spencers annast nú sköpunarverkið, fyrirkomulag og viðhald heimsins. En — með tímanum, á þúsund ára þúsunda fresti þreytist hann; sólin »sem hann ekki þekkir, og ekki getur þekkt«, er að smágefa frá sjer, þangað til hún loksins sloknar, án þess þeir Spencer og Herschel, sem þó þekkir stjörnu­þokurnar, og veit, að þær eru að þjettast, gjöri ráð fyrir, að »krapturinn« hafi nýja sól til á sínum tíma í hinnar stað. Að endingu láta þeir alheiminn leysast upp í agnir (atómur), en eru þó ekki vonlausir um, að þær aptur kunni að taka saman og þjettast í nýjan heim. Þeir staðhæfa ekkert um það. Um allt þetta hafa þeir enga reynslu; maður getur eigi haft reynslu fyrir því ókomna. Öll þessi kenning er vísindalegur hugarburður, sem einnig gæti haft sitt gildi, væri hann hugsunarrjettur. En — viti menn! þeir fullyrða, eins og nú er almennt viðurkennt, og heldur eigi stríðir á móti ritningunni,10 að efnið hafi verið til frá eilífu. Það sem eigi hefir upphaf, hefir heldur eigi endir, og því er það sjálfsagt, að heimurinn, í hverri svo mynd, sem menn hugsa sjer hann, og hverjum breytingum, sem hann kann að vera undirorpinn, er eilífur, en — að láta hann enda í meiningarlausu agnafoki er hugsunarvilla. Hvað er orðið af kraptinum og kröptunum, sem hreifa, sameina, niðurskipa? Eru þeir eða hann einnig orðinn að ögnum?

Og nú siðalærdómurinn, sem öllum heimspekisstefnum og öllum trúarbrögðum bæði fornum og nýjum i höfuðefninu hefir komið nokkurn veginn saman um ágreiningslítið? Um hið góða og sanna, um dyggð, skyldu og samvizku, sem annars er varla teljandi meiningarmunur um — hvað verður um þetta allt hjá natúralistunum? — Þeir hafa engan siðalærdóm, þó þeir aldrei nema reyni, fyrir siðasakir, að fleyga siðalærdóm (Ethik) inn í fjelagsfræði sína (Sociologi). Og hvernig eiga þeir að geta haft nokkra siðafræði? Alheimurinn, og mannlífið með, er hjá þeim vjel, sem fyrir afvindu (evolution) náttúruaflanna, fýsnanna og tilhneiginganna, gegnum »baráttu lífsins« erfiðar áfram, eptir innri nauðsyn, til meiri og meiri holdlegra framfara, rýmir burt (eliminates) því veikara, en útvelur og knjesetur (selection) hið sterkara; einskonar kynbótavjel jurta, dýra, manna og mannfjelaga i holdlegu, líkamlegu og veraldlegu skyni. En — gjörir þessi vjel hinn einstaka mann, eða mannfjelagið betra í andlegan máta? Hún þekkir og notar baráttu lífsins, til þess að efla dugnað og atorku dýra og dýrakynja, manna og mannfjelaga í því verklega. En — þekkir hún annað stríð, sem meiri þýðingu hefir fyrir mannsins anda, stríðið milli holdsins og andans? — Undir sigrinum í þessu stríði er þó siðferði mannsins komið. Þessa baráttu taka natúralistarnir ekki til greina, því hennar mark og mið er ekki að efla ytri hagsmuni og hæfileika, heldur að skapa dyggð, en máske ekki verzlegan dugnað, og því síður verzlega yfirburði yfir aðra menn,11 og sið­ferðisbeztu mennirnir eru því miður ekki altjend mestu uppgangsmennirnir. Natúralistarnir þekkja því hvorki samvizku, nje sálarinnar ódauðleika, nje annað líf, og því ekki heldur þann jöfnuð á kjörum manna, sem annað líf er ætlað til að verka. Siðferðið kemur í fjelagsfræðinni að eins fram, ekki sjálfs sín vegna, sem tilgangur, heldur sem eitt af mörgum nauðsynlegum meðulum til þess að efla og styrkja vöxt og viðgang mannfjelagsins, það er hjá þeim hinum einstaka manni ósjálfrátt, og frjálsum vilja mannsins óháð. Það er, eins og löghlýðnin, fjelagsnauðsyn, er að eins til vegna mannfjelagsins. Einstaklingurinn hefir af því engan veg, þó hann kunni að hafa vandann. Barátta lífsins, að undiroka þann veikari, hvort það er jurt, dýr, maður eða þjóð, er vegurinn til þess endamarks, sem þeirra heimspeki setur sjer. En — er nú þetta mark og mið, sem sje að skipa og í hásætið að setja duglegasta kynið, og duglegustu þjóðirnar, er það einu sinni ugglaust að það náist? Meðal dýranna hafa menn tekið eptir, að sumar lægri tegundir lifa þær æðri af, og þola samkeppnina. Þegar gráa valskan kom austan að til norðurálfunnar, þá flæmdi hún reyndar hina innlendu svörtu völsku burt,12 en — hún er enn þá eigi búin að vinna svig á miklu veikara dýri, — músunum. Og þó að Darwinistar sjálfsagt ætlist til, að hinn hvíti, kákasíski mannflokkur verði að lokunum ofan á í þeim byggða heimi, þá óttast aptur sumir, að hinn guli mannflokkur (Mongólar, Kínverjar, Japansmenn) verði þeim hvíta skæður, að minnsta kosti hefir nýrri tíma reynsla sýnt, að Ameríkubúar hafa beig af þeim. Og hvað er að lokunum unnið við alla þessa kynbótaframför, alla þessa evolution, ef allt endar i agnafoki, bæði hið líflausa og hið lifandi, því eigi mun manneskjunni ætlað að lifa í því veðri? Og svo að endingu engin vissa fyrir, »að ný jörð og nýr himinn« rísi upp úr rústunum. —

Það er því gleðilegt tímanna teikn, að á þessum aldamótum er farin að kvikna straumur gegn kenningum natúralistanna bæði á Frakklandi og Englandi. Á Þýzkalandi er þegar langt síðan, að farið var að andæfa þeim. Á Frakklandi hefir Brunetiére13, og á Englandi sjálfu, sjer í lagi einn af ráðherrunum í ráðaneyti Salisburys, A. J. Balfour, risið upp á móti þeim. Þessi rithöfundur hefir í ritum sínum: Religion of humanity (trú mannkynsins), Philosophic doubt (heimspekilegur efi) og loksins í síðustu bók sinni: Foundations of belief (undirstöðu-atriði trúar) með miklum skarpleika sýnt fram á, að höfuðlærdómar kristilegrar trúar sjeu bæði hollari og einnig hugsunarrjettari en þær nýjustu kenningar, sem án þess eiginlega að hafna kristindóminum, þó ekki vilja kannast við hann, eða, eins og þær sjálfar segja, »ekki þekkja hann«. Plássið leyfir eigi í stuttri grein að þræða röksemdafærslu höfundarins, enda eru höfuðatriðin í mótbárum hans gegn Herbert Spencer og natúralistunum tekin fram hjer á undan.

Aptur hefi jeg ekki getað fylgt höfundinum í hugleiðingum hans sumum hverjum um hið »opinberaða orð«. Eptir mínum skilningi getur þetta þrennt aldrei verið heimspekilegt umtalsefni: Holdtekja frelsarans, þrenningarlærdómurinn og kraptaverkin; það heyrir að eins undir guð­fræðina, og tilraun Hegels, að fella þetta inn í heimspeki sína, sannaði bezt, að það á þar ekki heima. Sjer í lagi virðist mjer Balfour hafa verið óheppinn í athugasemdum sínum um krapta­verkin. Skilji maður við kraptaverk sjerstök afbrigði frá náttúrulögmálinu, sem skaparinn framkvæmir eða leyfir, til þess að styrkja trúna á kenningum sinna eiginlegu erindsreka meðal mannkynsins, þá er mótsögn í því fólgin, að vilja gjöra þau náttúrleg og skiljanleg, því takist það, eru þau ekki lengur kraptaverk og missa því þau áhrif, sem þau voru ætluð til að gjöra sjer í lagi á þá, sem voru sjónarvottar að þeim, er þau skeðu. Þau eru miklu síður ætluð oss, eða eptirtíðinni; enda vantar oss og hana skilyrðin fyrir, að kunna að meta þau rjett, því að vjer höfum eigi sjeð þau.

Hræddur er jeg einnig um, að Balfour sje of harður við natúralistana, þegar hann leiðir eptirfylgjandi fjórar ályktanir af kenningum þeirra: —

  1. Sannfæringar mínar, að því leyti, sem þær yfir höfuð eru byggðar á hugsun, styðjast við ástæður, sem upphaflega eiga rót sína að rekja til agna (atómur) er rekast hver á aðra.
  2. Með því sannleikur er ekki ögnum hugarhaldinn, þá er eins líklegt, að þær framleiði rangar eins og rjettar ástæður, og jafnvel líklegra, með því sannleikurinn er einn, en villurnar margar.
  3. Því eru fyrst og fremst ástæður mínar, og þar næst ályktanir mínar óáreiðanlegar ef ekki ósannar. En — ósannleiki þeirra verður eigi leiðrjettur; því sjerhver viðleitni til að leiðrjetta hann verður að styðjast við ástæður (premissur), sem eigi hafa sama galla. En — slíkar ástæður eru eigi til.
  4. Þess vegna hefir meining mín um þær upphaflegu orsakir, er af sjer leiddu ástæðurnar, sama veikleika, eins og þær, með því hún stafar frá þeim; svo að jeg get hvorki óhræddur efast um mína vissu, nje verið viss um mínar efasemdir.

Annað mál er það, að þessi natúralismus er ljós vottur þess, að fróðleiki og skarpleiki hrökkva eigi til að ráða gátur tilverunnar. Þar skal meira til, þá innri skygni (intuition) sem sje, er Guð sjer í lagi hefir gefið sínum útvöldu meðal vísinda- og fagurlista-manna. Þessi skygni, sem Platon kallaði þriðja augað sitt, gjörir þá fundvísa í ríki andans og náttúrunnar; hún giörði það að verkum, að Kepler14 fann lögin, sem við hann eru kennd, fyrir gangi himintunglanna, að Newton15 fann aðdráttaraflið (gravitation), að Leverrier16 vissi af plánetu á himninum, sem hvorki hann nje aðrir höfðu sjeð, að Beethoven, þótt hann væri heyrnarlaus, heyrði innra og skrifaði niður þau fegurstu sönglög, að frægir læknar hafa gjört sínar þörfustu uppgötvanir o. s. frv., og þessa skygni þarf, ekki til að trúa yfir höfuð, en til þeirrar lifandi trúar, sem sjer hinn ósýnilega hvervetna í náttúrunni, í mannkynssögunni og lífi einstaklingsins, þótt það, sem hún sjer, verði eigi altjend sannað. —

Þegar maður lítur yfir og kynnir sjer þær mörgu heimspekilegu kenningar, sem smám saman spretta upp hver í sína stefnu, þá furðar mann sjer í lagi á einu. Menn hafa fengið viljans heimspeki (Schopenhauer), heimspeki hins meðvitundarlausa (Hartmann), heimspeki náttúru­aflanna (Herbert Spencer), heimspeki mannkynsins (Auguste Comte); en enginn kristinn heim­spekingur hefir boðið oss heimspeki kærleikans, sem lægi þó beint við fyrir kristinn hugsandi mann. Að eins einn heiðingi (Empedokles) fór nokkuð í áttina, þegar hann gjörði kærleika og hatur að undirstöðu sköpunar og tilveru.

Aftanmálsgreinar

1. Kirkjublaðið (1891-1897) var mánaðarlegt tímarit um trúmál sem þótti nokkuð frjálslynt á sínum tíma og var gefið út og ritstýrt af sr. Þórhalli Bjarnasyni (1855-1916), sem síðar varð biskup. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir birtist greinin sama ár og Grímur lést og var höfundar hennar ekki getið á síðum Kirkjublaðsins. Jón Þorkelsson (1822-1904) tók saman æviágrip og ritaskrá Gríms og birti í Andvara árið 1898 þar sem hann til­greinir Grím sem höfund „Heimspeki og guðfræði.“

2. Balfour var meðlimur í breska Íhaldsflokknum og gegndi m.a. embætti forsætisráðherra 1902-1905. Eftir hann liggja nokkur verk um heimspekileg efni þar sem hann m.a. gagnrýnir meint hlutleysi vísindalegrar þekkingar og heldur því fram að vísindi reiði sig á trú líkt og trúarbrögð. (Sjá:
http://www.britannica.com/EBchecked/topic/50179/Arthur-James-Balfour-1st-earl-of-Balfour)

3. Hugmyndin um „hinn fyrsta hreifanda“ er ættuð frá Aristótelesi (sjá 12tu bók Frumspekinnar (Meta­physica), XII 7 1072b1-13). Hugtaki Aristótelesar hefur verið fundinn íslenskur búningur með orðinu „frum­hreyfill.“ Samanber inngang Svavars Hrafns Svavarssonar að Siðfræði Níkomakkosar, útg. Hið íslenzka bók­menntafélag, Reykjavík, 1995, bls. 11-91; hér bls. 81.

4. Immanuel Kant (1724-1804) var þýskur heimspekingur. [Innskot]

5. John Stuart Mill (1806-1873) er einn þekktasti heimspekingur Breta á nítjándu öld og hafa verk hans Frelsið (1859), Nytjastefnan (1861) og Kúgun kvenna (1869) öll verið þýdd á íslensku. [Innskot]

6. Karl Robert Eduard von Hartmann (1842-1906) var þýskur heimspekingur sem hélt m.a. fram frumspekilegri kenningu sem tefldi saman andstæðum þáttum úr heimspeki Hegel og Schopenhauer innan ramma líffræði­legrar þróunarhyggju. [Innskot]

7. Charles Darwin (1809-1882) var náttúrufræðingur og er þekktastur fyrir kenningu sína um líffræðilega þróun á grundvelli náttúruvals, Thomas H. Huxley (1825-1895) var líffræðingur og verjandi þróunarkenningar Darwins og Herbert Spencer (1820-1903) var félagsfræðingur og heimspekingur. [Innskot]

8. John Herschel (1792-1871) var breskur stjörnufræðingur, stærðfræðingur, efnafræðingur og tilrauna-ljósmyndari. [Innskot]

9. Hermann von Helmholtz (1821-1894) var þýskur læknir og eðlisfræðingur. [Innskot]

10. Í upphafi skóp Guð himin og jörð og jörðin var í eyði og tóm og myrkur var yfir djúpinu, og Guðs andi lagðist á djúpið o. s. frv. — Gen. I, 1.

11. „Verzlegur“ merkir „veraldlegur“ í þessu samhengi. [Innskot]

12. Valska er úrelt orð yfir rottu. [Innskot]

13. Ferdinand Brunetiére (1849-1906) var franskur rithöfundur. [Innskot]

14. Johannes Kepler (1571-1630) var þýskur stærð–og stjörnufræðingur og gegndu verk hans lykilhlutverk í framvindu vísindabyltingarinnar svonefndu á 17. öld. [Innskot]

15. Isaac Newton (1642-1727) var enskur eðlisfræðingur sem olli straumhvörfum í vestrænni heimspeki- og hugmyndasögu með verkum sínum á sviði náttúruvísinda. [Innskot]

16. Urbain Le Verrier (1811-1877) var franskur stærðfræðingur sem gat sagt fyrir um tilvist og staðsetningu Neptúnusar með stærðfræðilegri greiningu á sporbraut Úranusar árið 1846. [Innskot]