Vísindaaðferð nútímans

Francis Bacon
1561-1626

„Menn hafa leitast við að skapa heim úr eigin hugmyndum og draga fram úr eigin hugarfylgsnum allan efniviðinn sem þeir notuðu, en ef þeir hefðu, í staðinn fyrir að gera það, tekið mið af reynslu og athugun þá hefðu þeir staðreyndir en ekki skoðanir til að rökræða um og kynnu að lokum að hafa öðlast þekkingu á þeim lögmálum sem stjórna efnisheiminum.“

Bacon átti þátt í að þróa tilraunaaðferð nútímavísinda. Hinn ungi Francis hafði ekki mikinn áhuga á skólaspekinni sem hafði drottnað yfir menntun hans í háskóla. Hjá skólaspekingunum var vísinda­leg rannsókn að mestu leyti skrifborðsvinna. Þeir vörðu mestum hluta tíma síns í að ígrunda verk Aristótelesar og setja saman rökfærslur í rökhenduformi og sýndu litla viðleitni til að skoða heim­inn í kringum sig í raun og veru.

Bacon taldi þessa aðferð forheimskandi og þróaði aðra aðferð til vísindarannsókna sem eindregið byggðist á tilraunum og athugunum. Hann ráðlagði vísindamönnum að safna gögnum og gera tilraunir til þess að ákvarða hvenær fyrirbæri eru til staðar og hvenær þau er ekki að finna.

Bacon sjálfur framkvæmdi margar slíkar tilraunir og uppgötvaði til dæmis að geislarnir sem sól og eldur senda frá sér innihalda hita en geislar sem tunglið og stjörnur senda frá sér gera það ekki.

Hið endanlega markmið vísinda, taldi Bacon, ætti að vera að færa sönnur á grundvallarlögmálin sem stjórna náttúrunni. Hann varð á undan Popper með að leggja áherslu á að vísindamenn ættu ekki aðeins að kosta kapps um að sanna tilgátur sínar með tilraunum heldur einnig að afsanna þær. Það er mikilsvert ekki aðeins að finna gögn til stuðnings tilgátu heldur einnig að útiloka tilgátu endanlega.

Bacon lagði líka áherslu á mikilvægi þess að byggja upp réttar stofnanir til vísindalegra rann­sókna. Hann áleit að vísindin væru fyrst og fremst samfélagsleg starfsemi, rannsóknir væru hóp­vinna. Bacon gerði tilraun til að setja á stofn „skóla“ (college) búinn tilraunastofum þar sem vísindamenn gætu í sameiningu beitt hinni nýju vísindaaðferð. Því miður fékkst ekki nauðsynlegt fjármagn til þess frá ríkinu. En hópur eðlisfræðinga fór samt að koma saman á miðjum fimmta áratug sautjándu. aldar til að fjalla um hugmyndir Bacons og þetta leiddi að lokum til stofnunar Hins konunglega félags (the Royal Society) árið 1660.

Glapsýnirnar fjórar

Í Nýja verkfærinu (New Organon) útskýrir Bacon hvers vegna hann telur að vísindamenn ættu, áður en þeir beita hinni nýju vísindaaðferð hans, að ráðast í dálitla persónulega hreinsunar­aðgerð með því að losa sig við „glapsýnirnar“ fjórar sem hann álítur að sé annars líklegt að afbaki hugsun þeirra.1 Þessar glapsýnir eru tilhneigingar eða annmarkar hugans sem geta komið í veg fyrir að hann öðlist réttan skilning á náttúrunni. Bacon skiptir þeim í fjóra flokka:

1. Glapsýnir mannkynsins: Þetta eru meðfæddar tilhneigingar sem við búum öll yfir og fela í sér:

  1. tilhneigingu skilningarvitanna til að blekkja okkur um það sem er þarna í raun og veru (Bacon ráðleggur nákvæma notkun vísindatækja til að leiðrétta þessa annmarka),
  2. hneigð okkar til að þröngva meiri reglu og skipulagi upp á náttúruna en þar er í raun og veru (á sama hátt og okkur hættir til að sjá andlit í eldsglæðum eða skepnur í skýjunum),
  3. hneigð okkar til óskhyggju og
  4. tilhneigingu okkar til að hrapa að niðurstöðum áður en nægileg gaumgæfileg rannsóknarvinna hefur farið fram.

2. Glapsýnir hellisins: Ólíkt glapsýnum mannkynsins geta þessar glapsýnir verið breytilegar frá manni til manns og eru afleiðing hins sérstaka menningarlega bakgrunns okkar. Við höfum til að mynda tilhneigingu til að skoða fyrirbæri út frá fyrirfram gefnum sjónarmiðum okkar. Okkur hættir líka til að bera óhóflega virðingu fyrir og fara eftir skoðunum þeirra kennivalda og sérfræðinga sem við höldum sérstaklega upp á.

3. Glapsýnir markaðstorgsins: Þetta eru hindranir fyrir skilning og rökhugsun sem stafa af samskiptum manna og sérstaklega af tungumálinu. Bacon varar við notkun óljóss og óskýrs fag­máls. Hann mundi án efa fordæma sem glapsýnir markaðstorgsins hið gervivísindalega hrogna­mál sem sumir nýaldarhugsuðir samtímans tala. Bacon telur að tilhneiging til að nota málið af of miklu skeytingarleysi og ónákvæmni geti orsakað vandamál um gjörvöll vísindin. Einkum telur hann að vísindamenn hneigist til að ímynda sér og nefna hluti sem eru ekki til.

4. Glapsýnir leikhússins: Við heillumst af því glæsilega og tilgerðarlega og það getur leitt okkur burt frá sannleikanum. Þær kenningar og kreddur sem við erum vel kunnug geta fengið á sig sér­stakan dýrðarljóma og við getum orðið bergnumin af þeim, eins og við erum til að mynda af leik­sýningu. Vísindamenn hafa einnig tilhneigingu til að reyna að útskýra alla hluti á stórbrotinn hátt á grundvelli nokkurra tilvika eða út frá einni innsýn. Sú hugmynd að til að mynda næstum allt sem hver sem er gerir nokkurn tíma megi skýra sem afleiðingu reynslu í bernsku ber án efa vott um þá tilhneigingu sem Bacon hefur í huga. Jú, stundum getur reynsla í bernsku haft sterk áhrif á hegðun manneskju síðar á ævinni, en sá sem blæs þessa athugun upp í flókna kenningu sem skýri mannlega hegðun almennt væri eflaust sekur um að ýkja mikilvægi tiltölulega einfaldrar hugmyndar.

Kóngulær, maurar og býflugur

Bacon setur fram geðfellda líkingu til að lýsa hvernig hann telur að vísindin ættu að sækja fram. Hinir hefðbundnu frumspekingar, segir Bacon, líkjast kóngulóm sem spinna flókna vefi sem svífa í loftinu og eru allir úr efni framleiddu úr þeirra eigin líkama. Reynslusinnarnir – svo sem gullgerðarmennirnir – líkjast á hinn bóginn maurum sem safna efni ötullega saman en búa aldrei neitt til úr því. Vísindamenn, segir Bacon, ættu að líkjast býflugum sem ekki aðeins safna saman nýju efni heldur melta það líka og umbreyta því. Starf vísindamanna er ekki einungis að safna gögnum, þó það sé mikilvægt, heldur einnig að búa eitthvað til úr þessu efni – þeir ættu að stefna að því að þróa kenningar sem geri þeim kleift að skilja, skýra og spá út frá því sem þeir rannsaka. En það sem þeir búa til verður að byggjast á því sem þeir hafa rannsakað.

Þeir sem áður hafa fengist við vísindi kvartar Bacon:

[…] hafa annaðhvort verið tilraunamenn eða kreddumenn. Tilraunamennirnir líkjast maurnum, þeir bara safna og nota; rökhugsuðirnir líkjast kóngulóm sem búa til kóngulóarvefi úr eigin efni. En býflugan fer bil beggja: Hún safnar efni sínu úr blómum garðsins og vallarins en umbreytir því og meltir það með eigin hæfileika. Ekki ósvipað þessu er hið sanna verkefni heimspekinnar; því hún treystir hvorki eingöngu eða aðallega á hæfileika hugans né tekur hún efnið sem hún safnar frá náttúrusögu og vélrænum tilraunum og safnar því eins og það leggur sig í minnið heldur safnar því í skilninginn breyttu og meltu. Þess vegna má vænta mikils af nánara og hreinna bandalagi milli þessara tveggja hæfileika, þess sem fæst við tilraunir og hins vitsmunalega (bandalagi sem aldrei hefur verið komið á fót).

Auðvelt er að gleyma því að vísindin, eins og við skiljum þau nú, eru ný af nálinni. Á eftir tungu­málinu má vel vera að þau séu mesta uppfinning okkar. Hin nýja aðferð til að skilja heiminn sem Bacon hjálpaði til við að þróa átti eftir, á aðeins fjórum öldum, að gerbreyta lífi okkar.

Okkur getur láðst að viðurkenna einmitt hversu hraðar framfarir í vísindum hafa verið. Á einungis fjórum öldum höfum við uppgötvað rafmagn, deyfilyf og fúkalyf, komið okkur upp tölvum og gervi­tunglum, uppgötvað byggingareiningar efnisins og horft út að ystu mörkum alheimsins; við höfum farið niður á botn úthafanna, gengið á tunglinu, öðlast skilning á grundvelli æxlunar og hvernig lífið þróaðist. Án aðferðanna sem Bacon átti þátt í að þróa hefði ekkert af þessu gerst.2

Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Glapsýn er þýðing á enska orðinu „idol“ sem m.a. merkir skurðgoð eða falsguð. Bacon no-tar það í merkingunni „fölsk hugmynd eða ranghugmynd“. Í íslenskri þýðingu Heimspekisögu Skirbekk og Gilje eru idola Bacons kölluð „hugarvillur“. – Gríska orðið sem hugtakið „idol“ á rætur að rekja til þýðir skuggamynd eða vofa. – Þýð.

2. Grein þessi er þýdd úr bókinni The Great Philosophers: The Lives and Ideas of History’s Greatest Thinkers (2007) eftir breska heimspekinginn Stephen Law. Bókin er safn stuttra greina um 50 heimspeki­lega hugsuði. Law er höfundur allmargra bóka, m.a. The Philosophy Gym, Believing Bullshit og Humanism. Hann er ritstjóri heimspekitímaritsins THINK – philosophy for everyone. – Þýð.