„Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“

eftir Eirík Jónsson

Vér gerum ráð fyrir, að löndum vorum þyki ekki illa tilfallið að koma við hagi kvenþjóðarinnar erlendis, eða það sem gert hefur verið til meira jafnréttis og jafnstæðis með konum og körlum, og það því heldur, sem þing vort er í því máli komið fram fyrir þingin á Norðurlöndum. Hér eru þrjú höfuðatriði, sem sérílagi koma til greina: jöfn ráð giftra kvenna við bændurna á því sem hjónin eiga eða eignast, eða heimild þeirra til þess, sem þær afla eða erfa í hjúskap; kosningarréttur; og réttur til atvinnu og embætta til jafns við karlmenn. Hvað fyrsta atriðinu við víkur, þá gengur víða nokkuð áleiðis, t. d. í Danmörku (sbr. „Skírni“ 1880, bls. 128), og árið sem leið á Englandi, því þar eru áþekk lög leidd til gildis frá nýári 1883. Þar á móti veitir alstaðar erfiðara með kosningar­réttinn, og fæstum þykir við það komanda, að konur kjósi fulltrúa til löggjafarþinganna. Á meginlandi norðurálfunnar hafa menn varnað konum kjörréttar með öllu, en á Englandi kjósa ógiftar, fjárhaldsnjótandi og húsráðandi konur bæði í bæjar og sveitastjórn og menn til skólaráða, ef hagir þeirra eru hinir sömu sem karlmannanna, sem þessa kjörréttar njóta. Einnig veita þær forstöðu fátækrastjórninni á sumum stöðum. Á málfundi, sem var haldinn í sumar í Nottingham (Social Science Congress), var meðal annarra mála rætt um þegnréttindi kvenna, og tóku þar þrjár konur þátt í umræðunum. Ein þeirra sagði, að konur hefðu á Englandi notið langt um meiri réttinda á 13. öld en nú á hinni 19. Þetta er rétt, og hvað kosningarréttinn snertir hafa þær verið hans aðnjótandi til 1832. Þeim er því ekki láandi þó þær vilji hafa hlut sinn réttan. Á síðustu 14 árum hafa líka komið bænarskrár til þingsins með miklum nafnafjölda — ein með 500.000 undirskriftum — meðal þeirra var vitringurinn J. Stuart Mill. Þó málið næði ekki framgöngu, fjölgaði tala þeirra manna lengi á hverju ári, sem jákvæddu frumvarpinu, en hefur hún rýrnað nokkuð aftur á seinustu árunum. Þetta virðist boða, að málið eigi enn heldur langt í land. En þegar það vinnst þá fær tala þingkjósendanna drjúgan viðauka, því við síðasta manntal voru á Englandi 400.000 kvenna, sem að efnahag til og að öðru leyti höfðu alla burði til kjörréttar, guldu allar skyldur og skatta og stóðu jafnfætis karlkynsþegnunum. Í Bandaríkjunum í Norður-Ameríku hafa konur eigi fengið enn kosningarrétt til þinganna, en undir árslokin, kom uppástunga fram á alríkisþinginu um þá breytingu á ríkislögunum. Mönnum þykir ekki líklegt, að hér falli tré við fyrsta högg, og það því síður sem ¾ hljóta að samþykkja í báðum þingdeildum, en síðan ¾ af landaþingunum að fallast á lagabreytinguna. En kröfur kvenna í Bandaríkjunum lúta ekki aðeins að kosningarrétti, en þær heimta líka bæði kjörgengi til þinga, og jafnan rétt við karlmenn til allra embætta þar á meðal til landstjórnarembætta í hinum einstöku löndum, og til alríkisforustunnar í Washington. Við síðustu forsetakosningu bauð ein kona sig fram til kjörs, og ein kona í San Francisco, Stow að nafni, reyndi að komast í landstjórasessinn í Kaliforníu. Hún heldur út blaði, og í því mælti hún fram með sér sjálfri með þeim ummælum:

„Í þessu ríki, þar sem karlmennirnir fjalla einir um landstjórn og fjárneyslu landsins, er allt komið í það óstand, allt svo atað og sauri orpið í flokka­deilunum, að það er mesta þörf á konu með sóp og sorptrog til að koma á burt öllu því skarni sem akkazt hefur saman í mörg ár. Mundi það ekki sæma vel „gullríkinu“, ef það yrði fyrst til þess að setja borgarakórónu á höfuð kvenmanni?“

Til embætta og ýmissar atvinnu, sem áður hefur verið ætluð karlmönnum, hefur vegurinn orðið konum greiðari í Bandaríkjunum en í öðrum löndum, en vér eigum hér við þá atvinnu sérílagi, sem menn verða hæfir til fyrir skólamenntun og uppfræðandi undirbúning. Annars hefur allstaðar mikið áunnist, einkum á seinustu árunum, hvað slíka menntun og undirbúning snertir. Auk þess að æðri menntaskólar eru í öllum löndum fyrir ungar stúlkur, og þær eru settar til kennslu í alþýðuskólum samhliða karlmönnum, er þeim nú víða veitt aðganga til háskólanna. Vér nefnum háskólana í Kaupmannahöfn, Lundi, Helingjafossi, suma háskóla á Rússlandi, Spáni og Ítalíu. Á Englandi er stofnaður kvennaháskóli í grennd við Cambridge. Hér hafa 44 stúlkur lokið prófi, en 68 eru þar nú við nám. En þeim er ekki leyft að ná akademískum nafnbótum (meistaranöfnum). Á meginlandinu eru þegar nokkur dæmi til, að kvenmenn hafa náð doktorsnafni í læknisfræði. Í Evrópu stunda flestar stúlkur þá fræði. Í þessari grein eru Bandaríkin í Norður-Ameríku langt á undan öllum öðrum. Hér eru stórkostlegir kvennaháskólar, og að námsgreinirnar sé margar, og skólarnir sóttir í ýmsum atvinnu- og embætta- tilgangi, má ráða af því, að í Bandaríkjunum gegna hér um bil 400 kvenna læknastörfum, og í fjármáladeild stjórnarinnar í Washington eru 577 kvenna, sem hafa í laun 1900—3500 króna. Þar að auki er talað um konur þar vestra, sem bæði gegna klerka störfum og dómara. Um hlutdeild þeirra í uppfræðingu barna eða skólaforstöðu þarf ekki að tala.

One thought on “„Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“

  1. Bakvísun: Heimspeki úr glatkistunni: Konur og kvenréttindi 1876-1885 | Heimspekivefurinn

Lokað er á athugasemdir.