„Kvenfrelsi“

eftir Ónefndan

Það er sjaldan, að kvenfrelsi er nefnt á nafn í íslenskum blöðum, og þó kvenfólkið hér á landi sé dálítið farið að rísa upp úr dái menningarleysis, vankunnáttu og ófrelsis, þá er eigi þess að vænta, að jafnmikill áhugi sé vaknaður meðal kvenþjóðarinnar hér á landi fyrir almennum rétt­indum sem í öðrum löndum, þar sem menntun kvenna er fullkomnari. Vér verðum að játa, að menntunarmál kvenna hér á landi eru enn skammt á veg komin, þrátt fyrir það, þó einstakir menn hafi gengið vel fram í að beina því máli áleiðis, einkum með því að stofna kvennaskólana, sem vitanlega er ábótavant í mörgu, enn geta verið mjór mikils vísir. Vér megum vona, að Íslendingar láti eigi sitt eftir liggja, að veita kvenþjóðinni smámsaman meira jafnrétti enn nú á sér stað, og verði eigi eftirbátar nágrannaþjóðanna í þeirri grein, enda hefur alþingi með lögum um kosningar­rétt kvenna, dags. 12. maí 1882, þar sem sjálfstæðum konum er veittur kosningarréttur í sveita­málum og kirkjumálum, orðið á undan öllum nágrannaþjóðum vorum, og benda nú einkum Norðmenn á dæmi Íslendinga í þessu atriði og hvetja til að breyta eftir því. Vér ættum því síður að láta hér við staðar nema.

Kristindómurinn og skynsemin segir oss, að guð hafi skapað alla jafna sem bræður og systur og börn hins sama föður; að konum og körlum séu af náttúrunni veitt öll hin sömu réttindi til að leita sælu sinnar og fullkomnunar, álíka og blámenn og Indíánar eru jafnfrjálsbornir af náttúrunni sem hvítir menn. Og þó hafa menn verið að leitast við að sanna það af ritningunni, að konan eigi að vera manninum undirgefin; en það getur engan veginn samrýmst við anda kristindómsins. Það er ekki fyrr en á þessari öld, að almennt er farið að viðurkenna jöfnuð karla og kvenna. Ameríku-menn hafa orðið einna fyrstir til að viðurkenna réttindi kvenna og baráttan í Ameríku um afnám þrælahaldsins ruddi braut frelsishreyfingum kvenfólksins.

Ef vér lesum veraldarsöguna, sjáum vér, að kvenfólkið hefur á öllum öldum og í öllum löndum átt við harðan kost að búa, þótt ánauð þeirra hafi eigi verið alstaðar jafn óbærileg. En svo mikið er víst, að ánauð og vanvirða kvenfólksins hefur jafnan verið bölvun lands og lýða og steypt voldug­ustu þjóðum í glötunina. Hvað var það sem steypti Aþenuborg og Róm? Fremst af öllu það, að konur voru þjáðar og svívirtar og svo þrælahaldið; yfir höfuð ekkert annað en ófrelsi lýðsins.

Meðan meiri hluti mannkynsins er þannig sviptur réttindum og seldur í ánauð, þá er ekki sannra framfara að vænta. Nú er margt talað um framfarir í heiminum og svo þykir, sem öllu fleygi fram, enn þessar framfarir ganga flestar í sérstakar stefnur, og eru minni enn þær sýnast. Í sumum greinum eru framfarirnar mjög litlar, svo sem í öllu hinu siðferðislega. Enda liggur í augum uppi, að mannkynið eigi muni geta náð sönnum þroska í siðgæði meðan meiri hluti þess, kvenfólkið, sem að öllum jafnaði er ríkari að siðgæðum, er engu látinn ráða.

Það getur eigi verið aðalákvörðun kvenna, að giftast og þjóna manninum. Fyrst og fremst eru konur miklu fleiri en karlar, og svo eykst tala þeirra með ári hverju, er ekki gifta sig, svo að mikill þorri af þeim verður að vera ógiftar. Hagir ógiftra kvenna verða þó sjaldnast betri enn hinna sem giftar eru, enda ná þær að tiltölu eigi jafnháum aldri sem giftar konur.

Það var 1840, að allsherjarfundur var haldinn í Frímúrarahöllinni í Lundúnum til að ræða um af­nám þrælahalds um allan heim. Fundinn sótti fjöldi manna, og vestan um haf frá Ameríku komu konur á fundinn, er kjörnar höfðu verið til að mæta þar. Í byrjun fundarins varð þref mikið um það, hvort konunum skyldi leyfa sæti á fundinum, og einkum urðu prestarnir óðir og uppvægir og börðu við ritningunni á allar hliðar. Mælskumanni einum frá Ameríku, George Bradburn, ógnaði svo æði prestanna, að hann sagði: „Sannið þið af ritningunni, að kvenfólkið eigi að vera ófrjálst, að annar helmingur mannkynsins eigi að halda hinum í ánauð; ég held ég gæti þá ekki gert annað þarfara fyrir mannkynið, enn að brenna allar heimsins biblíur á báli.“ Síðan var gengið til atkvæða og féllu þau svo, að konunum var vikið af fundinum.

Tvær af konum þeim, er reknar voru af fundinum, hafa síðan orðið frægar fyrir framgöngu sína í framfaramálum kvenna í Ameríku. Þær heita Lucretia Mott og Elisabet Stanton. Þegar þær komu heim aftur til Ameríku, héldu þær fundi og stofnuðu félög til eflingar réttindum kvenna. Síðan hefur því máli fleygt áfram í Ameríku, og það er kunnugt, að konur njóta hvergi slíkra réttinda sem þar.

Englendingar hafa næst Ameríkumönnum látið sér hugað um að bæta kjör kvenna. Rit Stuart Mills hafa átt einna bestan og mestan þátt í því að vekja Englendinga til framkvæmda í þeim efnum. Þar er nú mjög barist fyrir kosningarrétti kvenna, og líður vart á löngu, áður konur ná þar kosningarrétti að lögum.1 Lög um fjárforræði (séreign) giftra kvenna á Englandi náðu gildi 1. janúar 1883. Helsta inntak þeirra er þetta: Sérhver gift kona hefur full fjárforráð út af fyrir sig á þeim eigum, sem hún á, eða kann að eignast, án þess maðurinn eigi þar nokkru um að ráða, eða eigi að skipta sér af samningum þeim, er hún gerir um eignir sínar. Þetta er hennar sérstök eign, en ekki mannsins. Á sama hátt getur hún eigi ráðið neinu um hans hlut af eignunum. Sameiginleg meðferð eignanna verður að vera komin undir vilja beggja þeirra.

Eftir því sem menntun kvenna fer vaxandi, má vænta þess, að þær nái meiri réttindum og hagur þeirra fari batnandi. Konur eru nú á dögum farnar að taka þátt í ýmsum störfum, sem karlmenn einir hafa áður fengist við. Þannig eru í Ameríku konur, sem flytja mál fyrir dómum og dæma mál; konur sem kenna á hinum æðri skólum, konur; sem standa fyrir stórum sjúkrahúsum; konur, sem eru verkvélameistarar, efnafræðingar, prestar; að vér ekki nefnum hinn mikla þorra af kvenlæknum. Við fjármála-stjórnardeildina í Washington eru 600 konur með góðum launum (7—8000 kr. um árið). Bókavarðarstörfum gegna konur allvíða við hin stærri bókasöfn. Í Danmörku og Svíþjóð gegnir fjöldi kvenna ýmsum póststörfum og hraðfréttastörfum. Bankastörfum gegna konur mjög víða. — Í flestum löndum er konum nú leyft að sækja fyrirlestra á háskólunum, og við suma háskóla hafa konur náð kennara-embættum. Það mun og vera almennt viðurkennt, að kvenmaðurinn hafi hér um bil hina sömu andlega hæfileika og karlmaðurinn, en hið sanna er, að vér þekkjum ekki kvenfólkið til neinnar hlítar meðan það er hulið í þokumökkvum ófrelsis og vanþekkingar. Þær hinar fáu konur, er náð hafa mikilli menntun, hafa flestar orðið frægar fyrir lærdóm og dugnað. Vér skulum aðeins nefna mad. Staël, frakkneska lærdómskonu, rithöfund og skáld, George Sand, fræga frakkneska skáldkonu og rithöfund, George Elliot, enska skáldsagn konu (heitir réttu nafni Mary Evans), Friðrikku Bremer, sænska skáldsagnakonu (sögur hennar eru þýddar á flest mál); Rósa Bonheur, frakknesk, er mjög fræg fyrir listamálverk, og svo má nefna hina frægu söngkonur, er enginn fær við jafnast, svo sem er Sarah Bernhardt, Jenny Lind og Adelina Patti og fl.; frægar konur í stærðafræði og eðlisfræði: frú Sommerville, ensk, Sofia Germain og Sofia Kowalevski (rússnesk, prófessor í stærðafræði við háskólann í Stokkhólmi); miss Martineau og mad. Chatelet, mjög frægar fyrir rit sín, o.fl.

Svisslendingar urðu fyrstir til að veita kvenfólki viðtöku á háskóla, enda er alþýðumenntun þar í landi, á mjög háu stigi. Skólarnir eru jafnan skrautlegustu og dýrustu húsin í sveitaþorpum á Svisslandi, og bændur hafa mesta dálæti á alþýðuskólunum og öllu því, sem þar er kennt. Það eru tuttugu ár síðan háskólinn í Zürich leyfði konum fyrst aðgöngu. Háskólarnir í Bern og Genf fylgdu sama dæmi, og til þessara svissnesku háskóla hefur sótt fjöldi kvenna úr öðrum löndum, einkum frá Rússlandi og Englandi.

Ítalir eru miklir framfaramenn í þessu máli. Árið 1875 var ítölskum konum leyft að sækja háskóla, og hafa þær síðan sótt þá rækilega, og margar konur hafa þar hlotið doktors-nafnbót. Fyrir skömmu hefur ítalskur kvenmaður fengið málaflutningsembætti: hún hafði áður tekið próf í lög­fræði. Hún er fyrsta kona í Evrópu, sem gegnir þeim starfa; í Ameríku er það altítt, svo sem áður er sagt.2

Vér höfum áður getið þess, að á Englandi séu kvennamálin á góðum framfaravegi. Þar sækir fjöldi kvenna háskólana, og þar er fjöldi af félögum, sem vinna að því, að efla menntun kvenna og bæta hagi þeirra á allan hátt. Vinnukonur hafa þar ýmis félög, er styðja að því, meðal annars, að jöfnuður sé gerður á kaupgjaldi karla og kvenna er vinna sömu eða líka vinnu, og reyna að sporna við því, að atvinnuleysingjar bjóði vinnu sína hver í kapp við annan fyrir lægsta kaup, enn af því hefur leitt að kvenfólki hefur verið goldið svívirðilega lítið fyrir vinnu sína. Vinnukonur á Englandi hafa oft gert samtök til að hætta vinnu um stundarsakir (verkföll), álíka og títt er meðal verkmanna, til þess að reyna að fá hærra kaup.

Frakkar eru komnir skemmra áleiðis í menningu kvenfólksins enn ætla mætti um svo frjálsa og framgjarna þjóð. Klerkarnir hafa þar verið mestu meinvættir og staðið menntuninni fyrir þroska og þrifum, og enn er það tíðast, að efnað fólk setur dætur sínar til mennta í klaustrunum. Enn klaustur­menntunin hefur aldrei verið talin holl, enda hefur þar verið lögð mest stund á, að kæfa alla frjálsa hugsun unglinganna og innræta þeim blindan guðrækniákafa og hlýðni við prestana. Eigi að síður þokar menntun kvenna talsvert áfram á Frakklandi hin síðustu ár, einkum í stórbæjunum; ganga konur þar á háskóla sem víðast annarstaðar, einkum til að nema lækningar.

Þjóðverjar eru eftirbátar annarra þjóða í menntun og menningu kvenna. Það vantar að vísu eigi, að nóg sé þar rætt og ritað um framfarir kvenfólksins, réttindi kvenna og menntun þeirra, enn það er ekki nema orðin tóm. Þar eru engir kvennaskólar, er teljandi sé, og eigi er konum heldur leyft að ganga á þýska háskóla. Hvergi meðal menntaðra þjóða er framfaramálum kvenna jafnilla tekið sem á Þýskalandi.

Á Rússlandi er einvaldsstjórn, svo sem kunnugt er og harla ófrjálsleg í flestum greinum. Enn rússneska stjórnin á þakkir skilið fyrir, hve mjög hún hefur aukið og eflt menntun kvenna. Konur ganga á ýmsa háskóla á Rússlandi, og auk þess er sérstakur háskóli í Pétursborg handa konum, er stunda lækningar. Sá skóli er svo vel sóttur, að sum ár hefur þar verið veitt viðtaka um 200 konum. Finnland lýtur Rússakeisara, enn þar hafa konur kosningarrétt í kirkjumálum og sveitamálum, álíka og hér á landi og í Svíþjóð. Á Finnlandi er og rætt og ritað um að veita konum kosningarrétt til þingsins (landdagen), og hafa æðstu umboðsmenn stjórnarinnar fylgt því máli af alefli. Hvað mundu íslenskir embættismenn og konungkjörnir þingmenn segja, ef veita ætti íslenskum konum almennan kosningarrétt? Vér treystum þeim verr enn embættismönnunum rússnesku.

Í Danmörku er menntun kvenna komin á góðan rekspöl. Með konungsboði 25. júní 1875 var konum leyft að sækja háskóla í Danmörku, og hefur það borið góðan árangur; lærðir kvenna­skólar eru þar einnig komnir á fót, og geta námskonur lært þar allt það, sem nauðsynlegt er til þess að þeim verði veitt viðtaka á háskólann. En litlar réttarbætur eru konum veittar í Danmörku, enn sem komið er, og eru Danir í þeirri grein eftirbátar margra annarra þjóða og þar hafa Íslendingar orðið þeim fremri.

Nú víkjum vér sögunni heim til Íslands. Það er satt, að Íslendingar hafa orðið fyrri til þess enn margar aðrar þjóðir að veita þeim konum, sem eru sjálfum sér ráðandi, kosningarrétt í kirkjumálum og héraðsmálum, og alþingi veitti konum einnig kjörgengi í bæjarstjórn Akureyrar, enn þessum lögum þingsins var synjað staðfestingar eingöngu vegna þessa atriðis. Þar á mót eru hér engin lög um sérstök fjárráð giftra kvenna í líking við ensk lög eða amerísk. Það er vonanda, að alþingi hafi héðan af þrek og djörfung til að halda uppi réttindum kvenfólksins og reyna að bæta smásaman hagi þeirra með nýjum lögum. Lög um sérstök fjárráð giftra kvenna teljum vér með mestu nauðsynjamálum. Að konan megi sjálf ráða eigum sínum á sama hátt og maður hennar ræður fé sínu, er svo eðlilegt, að óþarft er að færa rök fyrir því eða telja þá kosti, er því fylgja. Það er eitt, t.d., að tengdaforeldrar þurfa síður að óttast, að tengdasynir sói arfi dætra þeirra, ef þær ráða sjálfar fé sínu að lögum. Í öðru lagi getur bóndinn haft góðan hag af því, að skuldunautar geta eigi krafið konuna um skuldir hans. Í þriðja lagi er það óeðlilegt, að konan sé svipt að miklu leyti fjárráðum sínum um leið og hún giftist. Með því að giftur maður fær þannig ráð yfir eignum konu sinnar, gifta margir sig eingöngu til fjár, og er þá jafnan hætt við, að sambúð hjónanna verði eigi svo ástúðleg sem hún annars ætti að vera. Það er heldur eigi fýsilegt fyrir ungar stúlkur, sem eru í góðum efnum, að gifta sig og mega búast við því, að ráða þaðan af engu um eigur sínar. Eyðsluseggir og ráðleysingjar svalla og sólunda oft þeim eigum, sem þeir hafa fengið í hendur með konunum og steypa þeim í eymd og volæði. Flestir munu þekkja mörg dæmi til þessa, enn vér leyfum oss hér að segja frá einu dæmi úr Noregi, er sýnir hve lögunum er þar áfátt í þessum greinum álíka og hér. Haustið 1881 giftust hjón ein i Noregi. Konan var allvel fjáð, enn maðurinn var félaus. Vorið eftir strauk hann frá konunni og nam á brott með sér annars manns konu frillu taki. Leið svo nokkur tími, að ekki spurðist til þeirra. Kona strokumannsins keypti sér þá jarðarskika og fékk peninga að láni, svo að hún gat byggt sér hús og komið svo ár sinni fyrir borð, að hún gat allvel bjargast. Skömmu síðar náðist bóndi hennar og hjákona hans; var hann dæmdur í varðhald um níu mánuði og til að borga málskostnað og varðhaldskostnað beggja þeirra, svo og fatnað handa hjákonunni. Hvorugt þeirra hafði eyrisvirði handa á milli til að borga þetta fé. Var þá ekki annað fyrir hendi, enn að taka allan kostnaðinn fjárnámi hjá konu bóndans, þótt hún yrði þá öreigi. Hún kærði fjárkröfu þessa fyrir stórþinginu, og kvaðst hafa þolað nóga armæðu, þótt það bættist ekki ofan á, að hún yrði svipt aleigu sinni. Lögin heimtuðu, að konan léti aleigu sína til að borga kostnaðinn af því broti, sem maður hennar hafði framið gegn henni, eftir að hann hafði sóað miklu af eigum hennar. — Vér höfum ekki frétt, hver endir hefur orðið á máli þessu.

Ef vér lítum nú á hagi kvenna hér á landi, þá sjáum vér, að þeir eru ekki glæsilegir. Þó hefur margt breyst til batnaðar í þeim efnum hér á landi á síðustu árum. Áður voru það t.d. lög, að arfinum var ekki skipt jafnt milli samborinna systkina, heldur erfðu synirnir tvöfalt á við dæturnar. Þau óréttlátu lög eru nú fyrir löngu afnumin, enn kvenfólkið verður enn að þola margan ójöfnuð þessu líkan, bæði vegna óhaganlegra laga og ýmisrar fornrar óvenju.

Kvenfólkið hefur verið alið upp hér á landi í mestu fáfræði, og fæstir hafa hirt um, að mennta dætur sínar, gætandi ekki þess, að þekking og menntun er aðalskilyrði fyrir allri heill og hagsæld. Lengi þótti það óþarfi, að stúlkurnar lærðu að skrifa; það þótti nægja, að piltarnir kynni það að nafninu. Þessi hugsunarháttur er nú að mestu upprættur, sem betur fer, og kvennaskólarnir eiga eflaust góðan þátt í því, að efla menntun ungra kvenna hér á landi og meiri enn almennt er viðurkennt. Því að auk þess, sem þær stúlkur, er gengið hafa á kvennaskólana, hafa flestar lært eitthvað nýtilegt, eða komist eitthvað niður í nauðsynlegustu námsgreinum, þá hafa kvenna­skólarnir einnig eflt menntunarlöngun út í frá, vakið mannrænu foreldra og námfýsi ungra stúlkna. Vér ætlum ekki að dæma hér um kvennaskólana; þeir gera sjálfsagt mikið gagn, þótt þeim sé áfátt í ýmsu. Enn vér viljum víkja að öðru. Það hefur verið í ráði, að stofna alþýðuskóla í flestum sýslum landsins og alþingi hefur heitið þeim féstyrk. Með því nú að bókleg eða munnleg kennsla má vera hin sama bæði fyrir karla og konur, teljum vér æskilegt, að sýsluskólarnir veiti kennslu jafnt stúlkum sem piltum. Mætti einnig hafa kennslukonur á sýsluskólunum til að kenna stúlkum verklegar menntir og hannyrðir. Þá yrði minni þörf á eiginlegum kvennaskólum, og mætti þannig spara talsvert fé í stað þess að hafa sérstaka skóla fyrir stúlkur.

Það er algengt í Ameríku, að karlar og konur ganga á sama skóla. Ameríkumenn verja meira fé til menntunar 50 milj. manna en öll Evrópa ver til að mennta 350 miljónir. Ameríkumenn þykjast ekki vera þess megnugir, að hafa tvenna alþýðuskóla, eða bæði fyrir pilta og stúlkur, og þeir telja þar að auki marga kosti á sameiginlegri skólakennslu karla og kvenna. Almannaskólar í Ameríku veita öllum kauplausa kennslu, sem eigi eru yngri en 6 vetra eða eldri en 18 vetra; efsta deild þeirra samsvarar latínuskólum og gagnfræðaskólum í Evrópu; þar njóta piltar og stúlkur sömu kennslu og eru venjulega saman í bekkjunum án nokkurrar sundurgreiningar.

Kostir sameiginlegrar skólakennslu fyrir karla og konur eru margir og miklir. Á sama hátt og piltar og stúlkur upp alast saman á heimilunum, og læra hvort af öðru, á sama hátt á uppeldið að vera sameiginlegt í skólunum. Hvortveggja stefna að sama aðalmarki og miði, þarfnast sömu þekk­ingar og hlýða sömu siðferðislögum. Sumir hafa haldið, að sambúð karla og kvenna í skólum mundi spilla góðum siðum, enn reynslan hefur sýnt, að slíkar getsakir eru rakalausar. Heldur fer hið besta orð af skólunum í Ameríku, og einkum er lokið lofsorði á siðferði nemenda á háskólum þeim, þar sem karlar og konur eru saman að námi. Slíkir háskólar eru margir í Ameríku. En hitt er víst, að það er eigi einungis óþarft að meina ungu fólki, piltum og stúlkum, að vera saman, heldur er sú sundurgreining miklu framar skaðleg, og veldur því, að miklu hættara er en ella, að ímyndunaraflið og tilfinningarnar leiði unglingana í gönur. Á Frakklandi eru ungu stúlkurnar upp aldar í klausturklefum, og látnar forðast karlmenn sem heitan eld; en ekki þykja Frakkar siðlátari enn aðrar þjóðir. – Margir nýjustu stjórnfræðingar og framfaramenn berjast fyrir því, að almenn skólamenntun verði sameiginleg fyrir karla og konur. Um það hefur verið ritað í merkustu frakkneskum blöðum (t.d. Revue des deux Mondes) og enskum (t. d. Forthnightly Review) og frelsisblöðum á Norðurlöndum. Aug. Strindberg heldur því og fram í bók sinni „Giftas“, er upptæk var gerð.

Menntun kvenna hér á landi kemst eigi í gott horf fyrr en alþýðuskólar eru komnir á fót víða um land, þar sem bæði er kennt piltum og stúlkum. Þegar kvenfólkið menntast betur, verðu það færara til að leysa af höndum hið mikilvæga starf, að ala upp mannkynið, og hæfara til að hagnýta sér ný réttindi. Þegar kvenfólk hefur fengið jafnrétti á við karlmenn, lifir það sælla lífi enn nú.

Giftar konur eiga tíðum við engu betri hag að búa en vinnukonurnar, þó hvorki sé fátækt eða heilsuleysi um að kenna. Að réttu lagi ættu giftar konur ekki að ganga að stritvinnu, enda eru þær oft ófærar til þess, og hafa nóg annað að gera, svo sem að annast umsjá búsins og uppeldi barnanna.

Verst er farið með vinnukonurnar, og er sú meðferð þrældómi líkust. Vinnukonum er ekki goldið nema að fjórða parti eða þriðjungi á við vinnumenn, og væri hægt að sanna með reikningi, hve óréttlátt það er. Þó vinnukonan vinni sömu vinnu og jafnmikið og karlmaðurinn, er henni goldið meir en helmingi minna.

Hvergi hér á landi er jafn þrælslega farið með kvenfólk sem í Reykjavík. „Eyrar-vinnan“, sem svo er kölluð, er sannur þrældómur. Þar eru kvenmenn hafðir í erfiðustu stritvinnu, er einungis er hraustustu karlmanna, og þó þær beri allan daginn sömu þyngd og karlmennirnir, eða beri börur á móti karlmönnum, og vinni því alveg jafnt og þeir, eru þeir, sem vinnuna borga, svo þrællyndir, að þeir gjalda kvenmanninum helmingi minna enn karlmanninum. „Laugaferðirnar“ eru önnur þrælkun litlu betri. Vinnukonurnar eru reknar í laugar, hvernig sem veður er, og verða að bera þyngsla-bagga alla þá vegleysu,3 enda finnast þær stundum örmagna undir byrðunum, svo að þær geta enga björg sér veitt. Af þessari þrælkun hljóta þær að verða hrumar bæði á sál og líkama, og má þá nærri geta, að afkvæmi þeirra verða varla efnileg.

Það er vonandi, að þessi kvennaþrældómur í Reykjavík fari þverrandi, því að vér teljum það engar framfarir, þótt Reykvíkingar kæmu upp þrælastétt í landinu eða nýrri kynslóð af hálfvitum.

Aftanmálsgreinar

1. Það er merkilegt, að í fornöld tóku konur bæði þátt í löggjöf og dómum hjá Engil-Söxum. Á þjóðfundi, er haldinn var í Boghampstead á 7. öld, voru fleiri konur enn karlar, og rituðu þær undir lög þau, er þar voru sam­þykkt. Á dögum Hinriks 3. sátu fjórar konur í parlamentinu og á dögum Játvarðar 1. voru þær tíu. Á 13. öld sat og kona í æðsta dómi ríkisins. Það var eigi fyrri enn 1831, að konur voru með lögum útilokaðar frá parla­mentinu.

2. Það gegnir furðu, hve ítalskar konur eru framgjarnar og námfúsar, og svo virðist, sem kvennamenning liggi þar í landi. Á elleftu, tólftu og þrettándu öld kenndu konur við háskóla á Ítalíu, og um miðja öldina sem leið kenndi ein kona líkskurðarfræði við háskólann i Bologna í forföllum manns síns. Það er því reyndar engin nýjung að konur sé háskólakennarar.

3. Flestir munu nú finna þörf til, að vegir verði lagðir til lauganna, og er vonandi, að þess verði eigi langt að bíða, og er þess enn meiri þörf, er sundkennsla er komin á í laugunum.