Greinasafn eftir: Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Teningaspil á kránni: Molyneux-vandinn á breskri nýöld

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Einu sinni sátu Englendingur, Skoti og Íri saman á krá. Á borðinu fyrir framan þá lágu teningar og þeir fóru að velta því fyrir sér hvort það sem þeir skynjuðu þegar þeir horfðu á teningana væri það sama og þeir skynjuðu þegar þeir þreifuðu á þeim. Englendingurinn sagði að sjónin gæti ekki ein og óstudd gefið okkur það sama og snertingin. Skotinn sagði að þótt það sem sjónin gæfi okkur væri þegar upp er staðið það sama og það sem við fengjum með snertingunni þá væri það eitt­hvað sem við þyrftum að læra sérstaklega. Írinn afgreiddi málið hins vegar endanlega með því að á borðinu væru í raun engir teningar og það væri út í hött að láta sér detta í hug að sjónrænar hug­myndir og snertanlegar ættu sér einhvers konar sameiginlegt viðfang óháð hugsun okkar eða skynjun.
        Svona getum við ímyndað okkur að hefði farið ef Englendingurinn John Locke (1632-1704), Skotinn Thomas Reid (1710-1796) og Írinn George Berkeley (1685-1753) hefðu skroppið saman á krána. Það var hins vegar annar Íri en Berkeley sem átti upphafið að því sem hér verður fjallað um. Árið 1688 spurði írski vísindamaðurinn William Molyneux (1656-1698) í bréfi til Locke hvort blindur maður sem lært hefði að greina kúlur og teninga með snertiskyninu einu saman mundi geta þekkt slíka hluti í sjón ef hann yrði skyndilega sjáandi. Þessi spurning hefur ýmsum orðið hugleikin síðan og er hún þekkt sem „Molyneux-vandinn“. Til grundvallar Molyneux-vandanum liggja í raun margar spurningar, svo sem um það hvernig við byggjum hugtök okkar yfir lögun hluta á skynjunum okkar og um það hvaða eiginleikar það eru sem við skynjum.
        Bresku heimspekingarnir Locke, Berkeley og Reid fjölluðu allir um Molyneux-vandann með einum eða öðrum hætti og ólíkar hugmyndir þeirra um bæði um eðli og viðfang skynjunar og um skiptingu skynjanlegra eiginleika í fyrsta og annars stigs eiginleika gegndu stóru hlutverki í mis­munandi efnistökum þeirra.

*

Skipting skynjanlegra eiginleika í fyrsta og annars stigs eiginleika er einna þekktust í fram­setningu Lockes í 8. hluta 2. bókar Ritgerðar um mannlega skilningsgáfu (An Essay Concerning Human Understanding) sem kom fyrst út 1689. Locke kallar eiginleika á borð við stærð og lögun fyrsta stigs eiginleika en liti, lykt, bragð, hljóð og hita annars stigs eiginleika.
        Hvað Locke á nákvæmlega við með annars stigs eiginleikunum hefur gjarnan verið talið túlkunaratriði en nokkuð ljóst þykir að hann telur annars stigs eiginleika hvíla á fyrsta stigs eigin­leikum. Hann talar um annars stigs eiginleika sem mátt hlutanna til að framkalla í okkur ákveðna upplifun og að þennan mátt hafi hlutirnir í krafti fyrsta stigs eiginleika sinna. Annars stigs eigin­leiki eins og litur er þá einhvers konar tilhneiging hlutarins til að verka á okkur á tiltekinn hátt og valda hjá okkur upplifun en hin raunverulega orsök þessarar upplifunar felst í fyrsta stigs eigin­leikum hlutarins eins og t.d. áferð og lögun yfirborðsins. Eitt grundvallaratriðið í þessari skiptingu er svipmótskenningin sem kveður á um að hugmyndir okkar um fyrsta stigs eiginleika líkist eða beri svip af eiginleikunum sjálfum en að hugmyndir okkar um annars stigs eiginleika geri það hins vegar ekki.
        Til að svipmótskenningin verði skiljanleg þarf að liggja fyrir hvað Locke á við með hugmynd eða ídeu. Í grófum dráttum gengur hugmyndakenningin út á að öll hugarferli séu skynjanir á svo­kölluðum hugmyndum. Hugmyndir Lockes eru nokkurs konar hugrænar myndir eða einingar. Hugmynd er viðfang skynjunar og hugsunar. Ef ég finn rósailm þá skynja ég rósailmshugmynd og ef mig klæjar í tána skynja ég tákláðahugmynd. Skynjunin sem slík er í rauninni alltaf sú sama, það er innihald hennar, hugmyndin, sem er mismunandi. Samkvæmt Locke eru bara tvær tegundir reynslu, skynjun (sensation) og hugsun (reflection). Það sem greinir reynslu mína af rósailmi frá reynslu minni af kláða í tánni er ekki skynjunin sem slík heldur viðfang hennar, rósailmshugmyndin. Hugmyndirnar eru því milliliðir í skynjuninni. Öðru megin höfum við skynjandann, þann sem þefar af rósinni, og hinu megin höfum við rósina sem þefað er af. Það sem er milli þeirra er hins vegar rósailmshugmyndin. Þar sem lykt er annars stigs eiginleiki þá líkist rósailmshugmyndin engum þeirra eiginleika sem eru í rósinni sjálfri. Hins vegar líkist hugmynd okkar um lögun rósarinnar eiginleika sem er í rósinni, þ.e. lögun hennar.
        Í 2. útgáfu Ritgerðar um mannlega skilningsgáfu, sem kom út 5 árum eftir 1. útgáfu eða 1694, hefur Locke m.a. bætt við umfjöllun um spurningu Molyneux.1 Hann vísar þar til spurningarinnar sem hinn lærði og verðugi herra Molyneux hefði sent honum í bréfi. Í ljósi svipmótskenningar Lockes hefur mörgum þótt undarlegt að hann skuli svara spurningu Molyneux neitandi. Ef hugmyndin sem blindi maðurinn hefur um teningslögun á grundvelli snertiskynjunar á teningum líkist teningslöguninni sjálfri og hugmynd hins sjáandi um teningslögun sem fengin er með sjónskynjun líkist teningslöguninni líka virðist liggja beint við að sjónskynjunar- og snerti­skynshugmyndin um teningslögun séu í það minnsta nauðalíkar. Hví ætti hinn blindi þá ekki að þekkja sjónskynshugmyndina þegar hún verður skyndilega á vegi hans? Það ætti að blasa við honum að þessi hugmynd væri af teningslögun.
        Það sem kann að liggja að baki hinu neikvæða svari Lockes er það sem hann telur sérstöðu sjónskynjunar. Sjónin ein og sér gefur okkur ekki teningslögunarhugmyndina beint heldur hug­myndir um liti og ljós. Á þær þarf svo að beita ályktunarhæfni til að fá út teningslögunarhugmynd. Það sem blasir við sjónskyninu þegar horft er á teninginn er tvívíð, skyggð litaskella. Gegnum reynslu höfum við svo lært að draga ályktanir af slíkum hugmyndum og breyta þeim í þrívíðar hugmyndir. En sá blindi sem skyndilega fær sjón hefur enga fyrri reynslu af sjónskynjun til að byggja á og við honum blasir því aðeins tvívíða litaskellan. Ef þessi túlkun er rétt byggir neikvætt svar Lockes við spurningu Molyneux á því að sjónskynið eitt og óstutt gefi aðeins hugmynd um annars stigs eiginleika á borð við lit, en ekki fyrsta stigs lögunarhugmynd.

*

Hughyggjusinninn Berkeley hafnar skiptingu Lockes í fyrsta og annars stigs eiginleika. Sam­kvæmt honum er tómt mál að tala um eiginleika hluta sem eitthvað umfram skynjanir okkar af þeim eða hugmyndir okkar um þær. Eiginleiki, hvort sem um er að ræða teningslögun eða rauðan lit, er einfaldlega það sama og hugmynd okkar um hann. Það er ekkert efnislegt að baki þessum hugmyndum, enginn sjálfstæður og óháður teningur að baki hugmyndum okkar um teninginn. Þar sem eiginleiki er ekkert annað en hugmyndin um hann er enginn grundvöllur fyrir skiptingu í tvær gerðir eiginleika eftir því hvort eiginleikinn líkist hugmyndinni. Þá værum við í raun að skipta hugmyndunum í tvo flokka eftir því hvort þær líktust sjálfum sér sem væri auðvitað fáránlegt.
        Í Ritgerð í átt að nýrri kenningu um sjón (An essay towards a new theory of vision)2 sem kom út 1709 tekur Berkeley sérstaklega fram að þær lögunarhugmyndir sem skynjaðar eru með sjóninni séu aðrar en þær sem skynjaðar eru með snertiskyninu og að þessi tvö skynfæri eigi engar sameiginlegar hugmyndir; við sjáum ekki það sem við snertum, eða öfugt. Berkeley telur, líkt og Locke, að sjónskynið eitt og óstutt gefi okkur ekki þrívíddarhugmyndir þar sem dýptar- og fjarlægðarskyn komi ekki til nema með reynslu. Þeir sem hafa reynslu af því að sjá og snerta hluti hafa lært að tilteknar sjónrænar hugmyndir og tilteknar snertihugmyndir eiga það til að fylgjast að og þess vegna tengjum við þær saman. En maður sem skyndilega fær sjónina hefur ekki þessa reynslu til að byggja á og dregur því enga ályktun um snertihugmyndir á grundvelli þess sem fyrir augu hans ber. Hið neikvæða svar Berkeleys við spurningu Molyneux sem hann ræðir stuttlega síðar í þessu riti sínu um sjónina liggur því beint við.

*

Eitt af helstu viðfangsefnum Reids í riti hans Rannsókn á mannshuganum um lögmál almennrar skynsemi (An Inquiry into the Human Mind on the Principles of Common Sense)3 sem kom út 1764 er að færa rök gegn hugmyndakenningunni sem hann greinir hjá Descartes, Locke, Berkeley, Hume og fleirum. Hugmyndakenningin er að hans dómi viðsjárverður gallagripur sem leiðir til efahyggju sem engum dytti í hug að aðhyllast nema fáeinum heimspekingum sem fjarlægst hafi almenna skynsemi. Reid lítur á sig sem málsvara almúgamannsins og leggur áherslu á að gengið sé út frá að það sem kalla má kenningar heilbrigðrar skynsemi um það hvernig skynjun gangi fyrir sig séu í heiðri hafðar.
        Meðal þess sem Reid finnur að hugmyndakenningunni er að samkvæmt henni eru hlutirnir í kringum okkur ekki bein viðföng skynjunar okkar heldur eru það hugmyndirnar. Hugmyndirnar eru óþarfa milliliðir sem þvælast bara fyrir, Reid segir okkur skynja hlutina beint og milliliðalaust. Þar með hlýtur hann að hafna skiptingunni í fyrsta og annars stigs eiginleika í þeirri mynd sem Locke setur hana fram. Þar liggur greinarmunurinn einmitt í því hvort hugmyndirnar um eiginleikana líkist þeim eða ekki og þar sem Reid losar sig við hugmyndirnar getur hann ekki stuðst við þessa kenningu. Reid segir eiginleikana vera í hlutunum sem við skynjum og að það sé enginn eðlis­munur sem slíkur á t.d. lögun og lit. Hann vill hins vegar halda í einhvers konar skiptingu í fyrsta og annars stigs eiginleika og gerir það á þeim grundvelli að skynjun okkar á hinum fyrrnefndu gefi okkur meiri upplýsingar um eðli þeirra en skynjun okkar á annars stigs eiginleikum gefur okkur. Munurinn á þessum tveimur gerðum eiginleika liggur því ekki í þeim sjálfum heldur í því hvernig okkur er eiginlegt að vinna úr þeim upplýsingum sem skynjunin gefur okkur. Úr skynjun á fyrsta stigs eiginleikum vinnum við hugtök sem gefa til kynna hvernig eiginleikinn er en úr skynjun á annars stigs eiginleikum fáum við hugtök sem gefa ekkert sambærilegt til kynna. Þessi greinarmunur liggur í eðli okkar en ekki í eiginleikunum sjálfum, ef við værum öðruvísi en við erum þá gæti þessi skipting eiginleikanna verið önnur. Af þessu má ráða að svar Reids við spurningu Molyneux blasi ekki við, enda gefur hann tvö mismunandi svör við henni á grundvelli ólíkrar túlkunar á því um hvað hún snýst.
        Reid nefnir Molyneux ekki á nafn en hann hefur samt spurningu Molyneux greinilega í huga á tveimur stöðum í fyrrnefndri bók. Í fyrra tilvikinu svarar hann spurningunni neitandi, þ.e. hann heldur því fram að blindur maður sem skyndilega fær sjón geti ekki strax þekkt lögun hlutanna með sjónskyninu. Þarna gefur hann upp svipaða ástæðu og þeir Locke og Berkeley, þ.e. að dýptarskynið vanti vegna reynsluleysis. Reid gerir greinarmun á upprunalegum skynjunum og aðfengnum. Upprunalegar skynjanir eru þær sem eðli okkar segir okkur strax að séu af tilteknum eiginleikum. Einu upprunalegu skynjanirnar sem sjónskynið veitir okkur, segir Reid, eru litur og sjáanleg lögun. Þetta er nokkuð líkt því sem Locke heldur fram um að það sem blasi við sjónskyninu séu aðeins litaðar skellur. Ljóst er að litur og sjáanleg lögun eru ekki eiginleikar sem áður blindur maður hefur getað numið með snertiskyninu og því má segja að svar Reids sé þarna að þeir eiginleikar sem við sjónskyninu blasa hljóti að vera aðrir en þeir eiginleikar sem snertiskynið fæst við.
        Síðar í rannsókn sinni fjallar Reid aftur um Molyneux-vandann í annarri útfærslu og gefur jákvætt svar. Hann segir að ef blindi stærðfræðingurinn Saunderson4 hefði fengið sjón og skoðað teikningarnar í fyrstu bók Evklíðs af athygli þá hefði hann með umhugsun áttað sig á því að þetta væru sömu formin og hann þekkti með snertiskyninu.
        Í þessari útfærslu er skortur á dýptarskyni ekki að skemma fyrir þar sem formin eru tvívíð. Þarna er líka sá munur að nú fær skilningurinn stærra hlutverk, sá blindi sem fær sjónina er ekki hver sem er heldur lærður stærðfræðingur sem hefur hugsað mikið um þessi form. Þarna má segja að Reid telji að um sé að ræða skynjun á fyrsta stigs eiginleikum. Ef Saunderson hefði fengið sjónina og skoðað evklíðsku teikningarnar þá hefði hann skynjað lögunina sem hann hefði áður skynjað með snertiskyninu. Lögun er fyrsta stigs eiginleiki, hugsun um hana felur í sér skilning á því hvernig hún er. Í fyrri útfærslunni er hins vegar um skynjun á annars stigs eiginleikum að ræða, litirnir sem blasa við eru fyrsta stigs eiginleikar og það sem fyrir hinn nýlega sjáandi ber eru í raun aðeins annars stigs eiginleikar sem hann er ekki farinn að beita skilningnum á til að leiða af þeim fyrsta stigs eiginleika.

*

Segja má að hugmyndir þeirra Lockes, Berkeleys og Reids um fyrsta og annars stigs eiginleika gegni mikilvægu hlutverki hjá þeim öllum er þeir takast á við Molyneux-vandann. Hjá Locke er hugmynd um þrívítt form á borð við tening auðvitað hugmynd um fyrsta stigs eiginleika og sem slík ætti hún að vera óháð því hvaða skynfæri við notum til að nálgast hana. Það er vegna tak­markana sjónskynsins og reynsluleysis hins áður blinda sem Locke telur að honum takist ekki í þessari fyrstu tilraun að nálgast fyrsta stigs hugmyndina og hann sé í raun fastur í hugmyndum um annars stigs eiginleika sem ekki eigi sér samsvörun í þeim hugmyndum sem snertiskynið gefur. Berkeley gefur sitt neikvæða svar á svolítið öðrum forsendum: hjá honum eru í raun allir eiginleikar annars stigs eiginleikar í þeim skilningi að ekki þýðir að leita að samsvörun fyrir hugmyndirnar um þá í neinu öðru. Þar með er enginn grundvöllur fyrir samanburði á hugmyndum sjón- og snertiskyns. Reid hefur svo með því að kasta hugmyndakenningunni fyrir róða fengið ákveðið frelsi fyrir sveigjanlegri útfærslur á Molyneux-vandanum. Með því að tengja skynjunina beint við eiginleikana veltur það meira á aðstæðum tengdum skynjuninni hvort hún er af fyrsta eða annars stigs eiginleikum.5

Erindi flutt í málstofunni Úr sögu heimspekinnar á Hugvísindaþingi 2008.

Neðanmálsgreinar

1. Locke, John (1975), An Essay Concerning Human Understanding, ritstj. Peter H. Nidditch. Oxford: Clarendon.

2. Berkeley, George (1975), Philosophical Works, Including the Works on Vision, ritstj. Michael R. Ayers. London: J. M. Dent.

3. Reid, Thomas (1997), An Inquiry into the Human Mind on the Principles of Common Sense, ritstj. Derek Brookes. Edinborg: Edinburgh University Press.

4. Nicholas Saunderson (1682-1739) var enskur stærðfræðingur. Hann missti sjónina ársgamall vegna bólusóttar.

5. Nýlega mátti lesa fréttir um að vísindamönnum hefði nú tekist að leysa Molyneux-vandann: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/taugaserfraedingar-svara-spurningu-sem-heimspekingar-hafa-velt-fyrir-ser-i-aldanna-ras Sú rannsókn sem þarna er vísað í leiddi í ljós neikvætt svar til að byrja með, þ.e. blindir sem fengu sjón gátu ekki fyrst um sinn þekkt lögun hluta með sjónskyninu, en sýndu þó örar framfarir eftir á. Þó segja má að þarna sé að finna eitthvert svar við hreinni empírískri túlkun á Molyneux-vandanum þá svarar þessi rannsókn ekki heimspekilegri spurningum um hvað liggi að baki neikvæða svarinu eins og ætti að vera ljóst af því að þeir þrír heimspekingar sem fjallað er um hér gefa allir neikvætt svar en á mismunandi forsendum. Meira um rannsóknina má lesa hér: http://news.yahoo.com/s/afp/20110410/sc_afp/­sciencehealthneurosciencevisionindia og hér: http://www.physorg.com/pdf221663372.pdf (Tenglar skoðaðir 25. apríl 2011)

Inngangur ritstjóra að Hug 2010

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Skilyrði þess að unnt sé að skilja, hvað í hugtakinu felst, er að lesandinn viti sjálfur, hvað fegurð er, að hann hafi lifað hana. Allar umræður um fegurð eru því reistar á þeirri forsendu, að fegurðarskynið sé almannlegt. Hið sama gildir raunar um alla listsköpun. Með því, sem er almannlegt, er hér átt við það, sem einkennir manninn, tegundina homo sapiens, enda þótt hæfileikinn sé gefinn hverjum einstaklingi í mismunandi ríkum mæli og sumum ef til vill alls ekki. Skortur á hæfileika til þess að skynja fegurð umhverfisins er mannleg vöntun á sama hátt og blinda eða hæfileikaleysi til að hugsa rökrétt.1

Það er ótal margt sem okkur þykir gefandi að upplifa, eða hafa einhvers konar reynslu af, sem ekki telst fagurt í þröngum skilningi þess orðs. Þetta gildir ekki síst um upplifun okkar af listaverkum, og heimspeki listarinnar er einmitt nátengd fagurfræði og oft talin hluti af fagur­fræðinni. Fagurfræði hlýtur því að fjalla um fegurð í víðum skilningi; um hvaðeina sem við upplifum á jákvæðan hátt, hvort sem það er vegna fegurðar þess í hefðbundnum skilningi eða vegna einhvers annars sem við fáum út úr upplifuninni.

Viðfangsefni fagurfræðinnar eru fjölmörg en líklega má í grófum dráttum skipta þeim í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða sitt hvað það sem hefur með þá hluti að gera sem kunna að þykja fagrir og hins vegar það sem lýtur að upplifunum okkar af því sem fagurt er og þá líka að hlutverki okkar sjálfra í þeirri upplifun og hugmyndum okkar um hið fagra. Í fyrri flokkinn falla hvers kyns vangaveltur um það hvers konar hlutir geti talist fagrir, hvaða hlutir geti talist til listaverka, hvers konar hlutir listaverk geti verið og hvort öll listaverk séu sama eðlis og svo ekki síður um eðli fagurfræðilegra eiginleika, eða þeirra eiginleika sem gera hluti fagra eða ljóta. Meðal annars hefur verið deilt um hvort slíkir eiginleikar skuli teljast hlutlægir eða huglægir, það er hvort sumir hlutir séu einfaldlega fegurri en aðrir óháð því hvaða hugmyndir fólk gerir sér um þá. Seinni flokknum tilheyra hugleiðingar um fegurðarskyn okkar og um fagurfræðileg hugtök. Hvað þarf vera sem skynjar að hafa til að bera til að geta numið hið fagra eða eignað hlutum fegurð? Hvaða eiginleikar okkar koma við sögu í upplifun á fegurð, eins og til dæmis ímyndunin eða tilfinningar okkar?

Stundum getur verið óljóst í hvorn þessara flokka tiltekið viðfangsefni fellur, eins og þegar rætt er um hvort fagurfræðilegir eiginleikar eru hlutlægir eða huglægir. Séu þeir hlutlægir þá er það eitthvað í hlutnum sem gerir hann fagran en séu þeir huglægir er það öðru fremur eitthvað í hugsun eða upplifun þess sem skynjar hlutinn sem gerir hlutinn fagran. Málið snýst sem sagt um það hvort fegurðin felist í hinum fagra hlut eða hvort hún sé í auga sjáandans, sem hljómar kannski eins og klisja. Og í sjálfu sér er það kannski ekkert höfuðatriði hvort tiltekið fagurfræðilegt viðfangsefni falli í flokk hlutarins eða flokk þess sem upplifir hið fagra. Það sem einkennir fagurfræðina fyrst og fremst er að með henni skoðum við hvaðeina sem lýtur að upplifunum okkar á fegurð, hvernig svo sem við skiljum þessar upplifanir.

Eins og við er að búast um svið sem fjallar um hluti sem standa hjarta okkar nærri, og það á nokkuð víðtækan hátt, geta efnistök í fagurfræði verið æði misjöfn. Hugmyndin með því að hafa fagurfræði sem þema Hugar er að gefa lesendum innsýn í þessa fjölbreytni. Jafnframt hefur lítið farið fyrir því á undanförnum árum að íslensku efni um fagurfræði væri safnað saman á einn stað og er von mín að þetta val á þema fyrir 22. árgang Hugar breyti einhverju þar um.

Í viðtali Hugar að þessu sinni ræðir Róbert Jack við þau Brynhildi Sigurðardóttur og Hrein Pálsson um barnaheimspeki. Hreinn hefur verið helsti frumkvöðull barnaheimspeki á Íslandi og rak Heimspekiskólann, með heimspekinámskeiðum fyrir börn, um árabil. Brynhildur hefur einnig sérhæft sig í barnaheimspeki og kennir meðal annars heimspeki í Garðaskóla í Garðabæ.

Sex greinar falla undir fagufræðiþemað. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir ríður á vaðið með greininni „Fagurfræði náttúrunnar: Vitræn skynjun og skynræn þekking“. Greinin er yfirlit um fagurfræði náttúrunnar en segja má að það svið hafi smám saman eflst síðan á 7. áratug tuttugustu aldar eftir að hafa legið í dvala í margar aldir. Guðbjörg kynnir til sögunnar helstu viðfangsefni greinar­innar, svo sem vitrænar og skynrænar kenningar og leiðir til að brúa bilið milli þeirra. Næst er grein Vilhjálms Árnasonar, „Höggmyndir og gimsteinar: Fagurfræði tilvistarinnar að fornu og nýju“. Vilhjálmur fjallar um hugmynd Forngrikkja um lífernislist og ber hana saman við nútíma­hugmyndir um listina að lifa, eins og þær birtast til að mynda hjá Sartre og Foucault. Hann heldur því fram að nútímahugmyndirnar séu í andstöðu við fornu hugmyndina en að sú forna samrýmist hins vegar siðalögmálum að hætti Kants. Ólafur Páll Jónsson veltir því fyrir sér í grein sinni „Leikur, list og merking“ hvort leikur og skapandi starf eigi eitthvað mikilvægt sameiginlegt. Hann segir að oft sé gengið út frá slíku sambandi sem vísu án þess að nánari grein sé gerð fyrir því og setur fram hugmyndir um hvað það er við leik sem efli nám. Næst tekur við önnur grein eftir Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur, „Háleit fegurð: Fegurðarhugtakið í femínískum og fyrirbærafræði­legum skilningi“. Þar segir Guðbjörg frá tilraunum til að endurvekja fegurðarhugtakið og þá sérstaklega hugmyndum Galens A. Johnson um fegurðina, sem eru undir áhrifum frá Maurice Merleau-Ponty, og túlkun Bonnie Mann á hinu háleita. Í „Verufræði listaverksins“ fjallar Erlendur Jónsson um það hvers konar hlutir listaverk geti talist. Hann leiðir þar rök að því að listaverk séu formgerðir. Að lokum birtist þýðing á greininni „Nietzsche um líkamann sem náttúru“ eftir Sigríði Þorgeirsdóttur, en greinin hefur áður birst í Finnlandi í finnskri þýðingu Krista Johansson. Sigríður lýsir þar náttúru- og mótunarhyggjuhugmyndum Nietzsches um líkamann og setur þau í víðara samhengi við heimspeki hans.

Auk þemagreinanna er að finna sex aðrar greinar í heftinu. Í „Hugarfar gagnrýninnar hugsunar“ skrifar Guðmundur Heiðar Frímannsson um það hugarfar sem einkennir gagnrýna hugsun og knýr hana áfram og hvernig gagnrýnin hugsun stýrist af rökum. Róbert H. Haraldsson hugleiðir, í „Jafningjar guða meðal manna: Um heimspeki og hring Gýgesar“, hvaða lærdóm megi draga af sögunni um hring Gýgesar sem rætt er um í Ríkinu eftir Platon. Viðfangsefni Róberts er það hvort heimspekin gefi okkur sambærilegan mátt og hringur Gýgesar, eða mátt til að verða ósýnileg, frjáls og voldug. Þóra Björg Sigurðardóttir skrifar greinina „Ósamsett vera sem kölluð er sál“ og kynnir þar til sögunnar bréfaskriftir þeirra Elísabetar af Bæheimi og René Descartes annars vegar og Damaris Cudworth Masham og Gottfrieds Wilhelms Leibniz hins vegar og gagnrýni Elísabetar og Damaris Masham á tvíhyggju sálar og líkama. Í grein sinni „Freud og dulvitundin (og listin)“ fjallar Stefán Snævarr um möguleikann á því að við búum yfir dulvitund að hætti Freuds og hvernig slík dulvitund gæti tengst svokallaðri þögulli þekkingu. Hlynur Orri Stefánsson ræðir í greininni „Mælingar og samanburður á löngunum“ um aðferðir nytja- og ákvörðunarfræði við að mæla langanir fólks. Lestina rekur svo grein Atla Harðarsonar, „Inn við beinið: Um sjálf og sjálfs­þekkingu“, þar sem Atli tekur fyrir sjálfshugtakið og hvað skilningur á því geti leitt af sér um eðli sjálfsþekkingar.

Í heftinu er að finna tvo ritdóma, báða um bækur sem gefnar voru út á síðasta ári.

Heimspekistofnun Háskóla Íslands kann ég þakkir fyrir fjárhagsstuðning við útgáfuna. Auk þess ber að þakka öllu því góða fólki sem sinnti ritrýni og yfirlestri og að sjálfsögðu höfundum efnisins, en án þeirra yrði víst harla lítið úr útgáfunni.

Tilvísun

1. Brynjólfur Bjarnason (1961), „Um fegurð“, Vitund og verund, Reykjavík: Heimskringla, bls. 108–109.

Hugsanir á dósum: um hjarðhugsun og andlega leti

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Upp úr miðjum fjórða áratug síðustu aldar var heimspekingurinn Susan Stebbing fengin til að semja nokkur útvarpserindi til flutnings hjá BBC. Af flutningi erindanna í útvarpi varð einhverra hluta vegna aldrei – kannski setti vanheilsa Stebbing þar strik í reikninginn – en í staðinn vann Stebbing upp úr þeim bók sem kom út árið 1939 undir heitinu Thinking to Some Purpose eða Hugsun að einhverju gagni. Eins og heitið gefur til kynna var helsta markmið bókarinnar að veita leiðsögn um skýra og vandaða hugsun, en í þeim efnum þótti Stebbing ýmislegt betur mega fara í bresku samfélagi. Hún skrifar:

Það er knýjandi þörf nú á dögum fyrir borgara í lýðræðisríki að hugsa vel. Prent­frelsi og frelsi þingsins nægja ekki. Vandi okkar stafar að hluta til af okkar eigin heimsku, að hluta til af hagnýtingu þessarar heimsku og að hluta til af okkar eigin fordómum og persónulegu löngunum.

Í bókinni kemur Stebbing inn á ýmis atriði er varða góða hugsun en meðal annars kynnir hún til sögunnar það sem hún kallar „potted thinking“, eða „hugsanir á dósum“. Um þær segir hún:

…fáar sannar staðhæfingar um flókið ástand er hægt að túlka með einni setningu.…Við föllum auðveldlega í þá gryfju að samþykkja samþjappaðar staðhæfingar sem spara okkur fyrirhöfnina við að hugsa.

Þessum samþjöppuðu, og þar með ófullkomnu, staðhæfingum líkir Stebbing við dósakjöt sem hefur verið soðið niður og þar með tapað mikilvægum næringarefnum. Dósakjötið getur vissu­lega haft sína kosti, verið þægilegt í notkun og auðvelt að grípa til þess, en það hefur ekki sama næringargildi og ferskt kjöt. Þar að auki er lykilatriði að dósakjötið, eigi það að vera brúklegt, sé unnið úr fersku kjöti. Hið sama gildir um hugsanir á dósum: þótt það geti stundum verið ástæða til að stytta sér leið í hugsun og einfalda hlutina þá þurfa slíkar hugsanir að eiga uppruna sinn í almennilegum hugsunum sem hugsaðar hafa verið til enda. Stebbing segir svo:

Ekki skal halda í [dósahugsun] þegar aðstæður hafa breyst og nýir þættir komið til sögunnar. Við ættum ekki að láta ávana í hugsun okkar loka hugum okkar eða reiða okkur á slagorð til að spara okkur vinnuna við að hugsa. Vítamín eru nauðsynleg fyrir vöxt líkama okkar; gagnrýnin yfirheyrsla dósa­hugsana okkar er nauðsynleg til að þroska getu okkar til að hugsa að einhverju gagni.

Ég tel að hinn rúmlega 70 ára gamli boðskapur Stebbing eigi fullt erindi við okkur í dag. Ég fæ ekki betur séð en dósahugsanir á borð við þær sem Stebbing lýsir sé að finna út um allt hér og nú. Við tileinkum okkur alls konar slagorð og frasa og byggjum skoðanir okkar á mikilvægum málum á þeim og engu öðru. Eins og Stebbing bendir líka á geta slagorð verið gagnleg í ákveðnum tilvikum, t.d. í því skyni að vekja athygli á einhverjum málstað, en þegar skoðana­myndun er byggð á slagorðunum einum saman án þess að kafað sé dýpra skortir eitthvað á hugsunina. Margir sjá sér hag í því að við hugsum ekki of mikið eða djúpt, að hegðun okkar sé frekar byggð á dósahugsunum sem að okkur eru réttar og sem við gagnrýnum aldrei. Þar koma líklega til tveir áhrifaþættir: peningar og völd. Þeir sem ásælast peningana okkar vilja hafa áhrif á hegðun okkar þannig að við kaupum það sem þeir hafa til sölu og ýmsar stofnanir sem ásælast völd vilja hafa áhrif á hegðun okkar svo að við höldum okkur á mottunni og séum ekki fyrir þeim. Auðvitað geta þessir áhrifaþættir svo fléttast saman. Þar sem hrein valdbeiting þykir ekki við hæfi í lýðræðisríki þykir vænlegra að stýra okkur gegnum hugsanir okkar heldur en að berja bókstaflega á okkur. Og við erum upp til hópa stillt og prúð, alla vega svona oftast, tökum við okkar dósum og gerum eins og fyrir okkur er lagt. Eða hvað er það annað en dósahugsun þegar við trúum því að líf okkar verði betra og innihaldsríkara ef við göngum í buxum með einhverju tilteknu merki, að við getum ekki verið góðar og almennilegar manneskjur án þess að sverja yfirnáttúrulegri veru formúlukenndan hollustueið, eða að fullkomlega réttlátt samfélag með fullu jafnrétti öllum til handa sé rétt handan við hornið, bara ef við erum þolinmóð og látum alla jafnréttisbaráttu eiga sig? Þetta eru allt dæmi um staðhæfingar sem reynslan gefur okkur gnægð efnis til að afsanna og ætti ekki að þurfa sérlega djúpan hugsuð til að sjá í gegnum þær.

Að einhverju leyti er mannlegri félagsþörf þarna um að kenna. Við viljum búa í samfélagi með öðrum manneskjum og til þess þarf okkur að lynda sæmilega vel við þær. Hjá flestum okkar eru fyrstu viðbrögðin að vilja þóknast öðru fólki fremur en að lenda upp á kant við það. Samskipti yrðu flóknari ef við værum öllum stundum, við öll tækifæri, með gagnrýnina skrúfaða upp í hæstu stillingu og værum með sífelldar aðfinnslur við samferðafólk okkar. En hræðslan við vanþóknun annarra getur gengið helst til langt; þá fáum við það sem kallað hefur verið hjarðhugsun, þegar við hættum alveg að hugsa sjálfstætt og fylgjum bara hugsun fjöldans, eða því sem við teljum vera hugsun fjöldans. Við fylgjum þá því sem okkur er sagt af ótta við útskúfun eða í það minnsta óvinsældir. En fleira kemur til. Oft fylgjum við fjöldanum vegna þess að við treystum ekki á eigin dómgreind, lítum svo á að fjöldinn hljóti að hafa rétt fyrir sér og teljum því ástæðulaust að fara að gera athugasemdir við það. Eða kannski viljum við bara halda friðinn. Annað fyrirbæri sem er tengt vantrausti á eigin dómgreind er leti. Traustri dómgreind þarf að fylgja þekking á mál­efnunum og til að öðlast hana þarf að gefa sér tíma til að kynna sér málin og ekki síður til að velta þeim fyrir sér, hugsa um þau. Stundum nennum við því hreinlega ekki.

Andleg leti og hvatar til hjarðhugsunar hafa gagnverkandi áhrif hvert á annað. Við nennum ekki að setja okkur almennilega inn í málin, höfum fyrir vikið ekkert vit á umræðuefninu, látum eiga sig að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tökum bara undir með fjöldanum. Og á hinn bóginn hlýtur það að vera þannig að ef við erum hrædd við að setja fram sjálfstæðar skoðanir, eða jafnvel treystum okkur ekki til að mynda þær, þá venjum við okkur ekki á að ígrunda hlutina heldur temjum okkur að láta bara mata okkur, líðum bara áfram í letivímu. Mötunin er áberandi í þessu tæknivædda upplýsingasamfélagi sem við lifum í: Við fáum snyrtilega upplýsingapakka í notendavænum umbúðum og gleypum, oftast án þess að velta því fyrir okkur að einhver manneskja, jafnbrigðul og við sjálf, hafi þarna á hinum endanum sett saman upplýsingapakkann eftir að hafa valið innihald hans (og þá hafnað ýmsu öðru), dregið ályktanir og ákveðið hvernig þetta skyldi sett saman. Og við venjumst því að svona eigi þetta að vera og kvörtum ef hnökrar verða á mötunarþjónustunni eða mötunartrogin eru ekki nógu þægilega staðsett.

Það hefur verið reynsla mín í háskólakennslu á undanförnum árum að flestar athugasemdir nemenda um þá kennslu sem þeir fá ganga út á óskir um meiri mötun. Í raun er þar verið að segja: „Ég vil hugsa minna, ekki þurfa að hafa fyrir því að draga eigin ályktanir, skilja kjarnann frá hisminu, hvað þá bera mig eftir björginni.“ Vissulega eru óskirnar ekki orðaðar nákvæmlega svona, en óskir um að kennarar gangi æ lengra í því að draga saman aðalatriðin úr námsefninu á glærum sem þeir birta á netinu, minni nemendur sífellt á hvað þeir eigi að gera, vita og kunna og hvenær þeir eigi að gera hvað gefa sterklega til kynna að nemendurnir vilji ekki þurfa að treysta á eigin dómgreind eða ályktunarhæfni. Þarna er verið að biðja um hugsanir á dósum.

Hér er ekki ætlunin að ráðast sérstaklega á háskólanema, sem eru eins og við hin hluti af því samfélagi sem við öll hrærumst í. Ég efast um að háskólanemar hafi einhverja sérstöðu í þessum efnum, þessi krafa um mötun er eitthvað sem við höfum upp til hópa vanið okkur á og hún þykir greinilega sjálfsögð, enda er svona snyrtilega frágenginn dósamatur það sem fram er reitt og byrjað á því snemma. Það þykir sjálfsagt í grunnskólum landsins að bjóða börnunum upp á tilbúnar hugsanir í einfölduðum búningi sem þeim er sagt að þau eigi að tileinka sér án nokkurrar gagnrýnnar umræðu.

Mergurinn málsins er sá að sem þátttakendur í lýðræðissamfélagi verðum við að taka ábyrgð á eigin hugsun. Til að hægt sé að halda uppi lýðræði er nauðsynlegt að þegnarnir séu upplýstir og hreinlega vandi sig við að hugsa. Við þurfum að velta fyrir okkur spurningum á borð við „Hvers konar manneskja ætla ég að vera?“, „Hver eru markmið mín í lífinu?“, „Hvað er það sem skiptir máli, hvaða gildismat hef ég?“ og „Hvað hef ég fram að færa til samfélagsins?“. Þetta eru allt spurningar sem við getum ekki leyft öðrum að svara fyrir okkur og niðursoðin svör á dósum duga skammt.

Enski heimspekingurinn Mary Wollstonecraft, sem var uppi fyrir rúmum 200 árum, tengdi saman skynsemi og siðferði á eftirminnilegan hátt. Kenning hennar felur í sér heildstætt kerfi þar sem samþætting skynsemi og tilfinninga tengist lýðræðishugsjóninni með viðkomu hjá hugmyndum um sjálfstæði, skynsemi og dygð. Í raun er ekki hægt að gera neinum þessara þátta full skil án þess að fjalla um tengsl hans við hina. Í stuttu máli telur Wollstonecraft að lýðræðið þurfi að byggja á þegnum sem eru sjálfstæðar siðferðisverur. Lýðræðishugsjónin grundvallast þannig á hugmyndinni um einstaklinginn; það þarf heilsteypta, sjálfstæða og dygðuga einstaklinga til að bera lýðræðið uppi. Sú mynd sem Wollstonecraft dregur upp af mannshuganum er þannig tengd lýðræðishugmyndinni órofa böndum.

Wollstonecraft heldur því fram að skynsemin hljóti að vera nauðsynlegur grundvöllur dygðar og segir það skrípaleik að kalla veru dygðuga ef dygðir hennar eru ekki afurð hennar eigin skynsemi. Til að athafnir okkar geti verið frjálsar og dygðugar þurfi að byggja þær á skynsamlegum ályktunum en ekki að fylgja handahófskenndu valdi annarra. Af þessum sökum fordæmir hún herþjálfun og heraga sem hún telur ósamrýmanleg frelsinu en hún er þó fyrst og fremst að gagnrýna hugmyndir sem uppi voru á hennar tímum um að konan ætti að reiða sig á skynsemi karlsins í siðferðismálum. Þessi gagnrýni á samt við um allar hugmyndir um utanaðkomandi kennivald: Siðferðisvera þarf alltaf að nota eigin skynsemi sem grunn siðferðis síns, gagnrýnis­laus hlýðni við skynsemi annarra er ekki raunveruleg dygð. Án skynsemi er ekkert siðferði eða sjálfstæði og því enginn grundvöllur fyrir lýðræði og þau réttindi sem því eiga að fylgja. Sérhver siðferðisvera hlýtur að vera skynsemisvera. En skynsemin þrífst illa án tilfinninganna, í það minnsta eru þær nauðsynlegar til að auðga hana og þær gefa okkur innsæi og reynslu sem eru skynseminni nauðsynleg.

Myndin sem þarna er dregin upp er nokkurs konar uppskrift að heilsteyptum einstaklingum. Hvort þessi uppskrift Wollstonecraft er nákvæmlega rétt skal ég ekki segja en ég er alveg sannfærð um það að hún hafi haft rétt fyrir sér í því að siðferði án skynsemi sé harla þunnur þrettándi. Ábyrg siðferðisvera tekur ekki gagnrýnislaust við reglum sem henni eru færðar heldur íhugar hún stöðu sína í heiminum og veltir fyrir sér hvers vegna tilteknar athafnir séu, eða séu ekki, réttmætar. Í umræðum um nýútkomna Rannsóknarskýrslu alþingis er mikið talað um virðingarleysi Íslend­inga við reglur og að hluti vandans hafi verið sá að reglur voru ekki virtar. Vissulega er það rétt að í aðdraganda hrunsins voru margar mikilvægar reglur brotnar sem aldrei hefði átt að brjóta. En málið snýst ekki bara um að fylgja reglum. Reglur geta bæði verið góðar og slæmar, þær eru jú settar af misvitru fólki og í mismunandi tilgangi, og þær geta líka verið mismikilvægar. Það er alls ekki æskilegt að fylgja öllum reglum í blindni, við hljótum líka að verða að treysta á eigin dómgreind þegar við förum eftir reglum og í sumum tilfellum getur verið bráðnauðsynlegt að brjóta reglu.

Niðurstaðan er sú að við megum ekki láta aðra um að hugsa fyrir okkur. Það er ekki til það hugmyndakerfi, reglukerfi eða kennivald sem fríar okkur ábyrgðinni á eigin hugsun.

Heimildir

Stebbing, L. Susan. 1939. Thinking to some purpose. Harmondsworth: Penguin Books (Pelican Series).
Wollstonecraft, Mary. 1995. A Vindication of the Rights of Men and A Vindication of the Rights of Woman. Cambridge University Press (Cambridge Texts in the History of Political Thought).