Greinasafn fyrir merki: Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Inngangur ritstjóra að Hug 2010

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Skilyrði þess að unnt sé að skilja, hvað í hugtakinu felst, er að lesandinn viti sjálfur, hvað fegurð er, að hann hafi lifað hana. Allar umræður um fegurð eru því reistar á þeirri forsendu, að fegurðarskynið sé almannlegt. Hið sama gildir raunar um alla listsköpun. Með því, sem er almannlegt, er hér átt við það, sem einkennir manninn, tegundina homo sapiens, enda þótt hæfileikinn sé gefinn hverjum einstaklingi í mismunandi ríkum mæli og sumum ef til vill alls ekki. Skortur á hæfileika til þess að skynja fegurð umhverfisins er mannleg vöntun á sama hátt og blinda eða hæfileikaleysi til að hugsa rökrétt.1

Það er ótal margt sem okkur þykir gefandi að upplifa, eða hafa einhvers konar reynslu af, sem ekki telst fagurt í þröngum skilningi þess orðs. Þetta gildir ekki síst um upplifun okkar af listaverkum, og heimspeki listarinnar er einmitt nátengd fagurfræði og oft talin hluti af fagur­fræðinni. Fagurfræði hlýtur því að fjalla um fegurð í víðum skilningi; um hvaðeina sem við upplifum á jákvæðan hátt, hvort sem það er vegna fegurðar þess í hefðbundnum skilningi eða vegna einhvers annars sem við fáum út úr upplifuninni.

Viðfangsefni fagurfræðinnar eru fjölmörg en líklega má í grófum dráttum skipta þeim í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða sitt hvað það sem hefur með þá hluti að gera sem kunna að þykja fagrir og hins vegar það sem lýtur að upplifunum okkar af því sem fagurt er og þá líka að hlutverki okkar sjálfra í þeirri upplifun og hugmyndum okkar um hið fagra. Í fyrri flokkinn falla hvers kyns vangaveltur um það hvers konar hlutir geti talist fagrir, hvaða hlutir geti talist til listaverka, hvers konar hlutir listaverk geti verið og hvort öll listaverk séu sama eðlis og svo ekki síður um eðli fagurfræðilegra eiginleika, eða þeirra eiginleika sem gera hluti fagra eða ljóta. Meðal annars hefur verið deilt um hvort slíkir eiginleikar skuli teljast hlutlægir eða huglægir, það er hvort sumir hlutir séu einfaldlega fegurri en aðrir óháð því hvaða hugmyndir fólk gerir sér um þá. Seinni flokknum tilheyra hugleiðingar um fegurðarskyn okkar og um fagurfræðileg hugtök. Hvað þarf vera sem skynjar að hafa til að bera til að geta numið hið fagra eða eignað hlutum fegurð? Hvaða eiginleikar okkar koma við sögu í upplifun á fegurð, eins og til dæmis ímyndunin eða tilfinningar okkar?

Stundum getur verið óljóst í hvorn þessara flokka tiltekið viðfangsefni fellur, eins og þegar rætt er um hvort fagurfræðilegir eiginleikar eru hlutlægir eða huglægir. Séu þeir hlutlægir þá er það eitthvað í hlutnum sem gerir hann fagran en séu þeir huglægir er það öðru fremur eitthvað í hugsun eða upplifun þess sem skynjar hlutinn sem gerir hlutinn fagran. Málið snýst sem sagt um það hvort fegurðin felist í hinum fagra hlut eða hvort hún sé í auga sjáandans, sem hljómar kannski eins og klisja. Og í sjálfu sér er það kannski ekkert höfuðatriði hvort tiltekið fagurfræðilegt viðfangsefni falli í flokk hlutarins eða flokk þess sem upplifir hið fagra. Það sem einkennir fagurfræðina fyrst og fremst er að með henni skoðum við hvaðeina sem lýtur að upplifunum okkar á fegurð, hvernig svo sem við skiljum þessar upplifanir.

Eins og við er að búast um svið sem fjallar um hluti sem standa hjarta okkar nærri, og það á nokkuð víðtækan hátt, geta efnistök í fagurfræði verið æði misjöfn. Hugmyndin með því að hafa fagurfræði sem þema Hugar er að gefa lesendum innsýn í þessa fjölbreytni. Jafnframt hefur lítið farið fyrir því á undanförnum árum að íslensku efni um fagurfræði væri safnað saman á einn stað og er von mín að þetta val á þema fyrir 22. árgang Hugar breyti einhverju þar um.

Í viðtali Hugar að þessu sinni ræðir Róbert Jack við þau Brynhildi Sigurðardóttur og Hrein Pálsson um barnaheimspeki. Hreinn hefur verið helsti frumkvöðull barnaheimspeki á Íslandi og rak Heimspekiskólann, með heimspekinámskeiðum fyrir börn, um árabil. Brynhildur hefur einnig sérhæft sig í barnaheimspeki og kennir meðal annars heimspeki í Garðaskóla í Garðabæ.

Sex greinar falla undir fagufræðiþemað. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir ríður á vaðið með greininni „Fagurfræði náttúrunnar: Vitræn skynjun og skynræn þekking“. Greinin er yfirlit um fagurfræði náttúrunnar en segja má að það svið hafi smám saman eflst síðan á 7. áratug tuttugustu aldar eftir að hafa legið í dvala í margar aldir. Guðbjörg kynnir til sögunnar helstu viðfangsefni greinar­innar, svo sem vitrænar og skynrænar kenningar og leiðir til að brúa bilið milli þeirra. Næst er grein Vilhjálms Árnasonar, „Höggmyndir og gimsteinar: Fagurfræði tilvistarinnar að fornu og nýju“. Vilhjálmur fjallar um hugmynd Forngrikkja um lífernislist og ber hana saman við nútíma­hugmyndir um listina að lifa, eins og þær birtast til að mynda hjá Sartre og Foucault. Hann heldur því fram að nútímahugmyndirnar séu í andstöðu við fornu hugmyndina en að sú forna samrýmist hins vegar siðalögmálum að hætti Kants. Ólafur Páll Jónsson veltir því fyrir sér í grein sinni „Leikur, list og merking“ hvort leikur og skapandi starf eigi eitthvað mikilvægt sameiginlegt. Hann segir að oft sé gengið út frá slíku sambandi sem vísu án þess að nánari grein sé gerð fyrir því og setur fram hugmyndir um hvað það er við leik sem efli nám. Næst tekur við önnur grein eftir Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur, „Háleit fegurð: Fegurðarhugtakið í femínískum og fyrirbærafræði­legum skilningi“. Þar segir Guðbjörg frá tilraunum til að endurvekja fegurðarhugtakið og þá sérstaklega hugmyndum Galens A. Johnson um fegurðina, sem eru undir áhrifum frá Maurice Merleau-Ponty, og túlkun Bonnie Mann á hinu háleita. Í „Verufræði listaverksins“ fjallar Erlendur Jónsson um það hvers konar hlutir listaverk geti talist. Hann leiðir þar rök að því að listaverk séu formgerðir. Að lokum birtist þýðing á greininni „Nietzsche um líkamann sem náttúru“ eftir Sigríði Þorgeirsdóttur, en greinin hefur áður birst í Finnlandi í finnskri þýðingu Krista Johansson. Sigríður lýsir þar náttúru- og mótunarhyggjuhugmyndum Nietzsches um líkamann og setur þau í víðara samhengi við heimspeki hans.

Auk þemagreinanna er að finna sex aðrar greinar í heftinu. Í „Hugarfar gagnrýninnar hugsunar“ skrifar Guðmundur Heiðar Frímannsson um það hugarfar sem einkennir gagnrýna hugsun og knýr hana áfram og hvernig gagnrýnin hugsun stýrist af rökum. Róbert H. Haraldsson hugleiðir, í „Jafningjar guða meðal manna: Um heimspeki og hring Gýgesar“, hvaða lærdóm megi draga af sögunni um hring Gýgesar sem rætt er um í Ríkinu eftir Platon. Viðfangsefni Róberts er það hvort heimspekin gefi okkur sambærilegan mátt og hringur Gýgesar, eða mátt til að verða ósýnileg, frjáls og voldug. Þóra Björg Sigurðardóttir skrifar greinina „Ósamsett vera sem kölluð er sál“ og kynnir þar til sögunnar bréfaskriftir þeirra Elísabetar af Bæheimi og René Descartes annars vegar og Damaris Cudworth Masham og Gottfrieds Wilhelms Leibniz hins vegar og gagnrýni Elísabetar og Damaris Masham á tvíhyggju sálar og líkama. Í grein sinni „Freud og dulvitundin (og listin)“ fjallar Stefán Snævarr um möguleikann á því að við búum yfir dulvitund að hætti Freuds og hvernig slík dulvitund gæti tengst svokallaðri þögulli þekkingu. Hlynur Orri Stefánsson ræðir í greininni „Mælingar og samanburður á löngunum“ um aðferðir nytja- og ákvörðunarfræði við að mæla langanir fólks. Lestina rekur svo grein Atla Harðarsonar, „Inn við beinið: Um sjálf og sjálfs­þekkingu“, þar sem Atli tekur fyrir sjálfshugtakið og hvað skilningur á því geti leitt af sér um eðli sjálfsþekkingar.

Í heftinu er að finna tvo ritdóma, báða um bækur sem gefnar voru út á síðasta ári.

Heimspekistofnun Háskóla Íslands kann ég þakkir fyrir fjárhagsstuðning við útgáfuna. Auk þess ber að þakka öllu því góða fólki sem sinnti ritrýni og yfirlestri og að sjálfsögðu höfundum efnisins, en án þeirra yrði víst harla lítið úr útgáfunni.

Tilvísun

1. Brynjólfur Bjarnason (1961), „Um fegurð“, Vitund og verund, Reykjavík: Heimskringla, bls. 108–109.