Ráðstefna um Søren Kierkegaard: Sóttin banvæna

Dagana 22.-24. maí verður haldin við Háskóla Íslands (Odda, stofu 101) alþjóðleg ráðstefna um danska heim­spekinginn Søren Kierkegaard, en í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu þessa kunnasta heimspekings Norður­landa.

Ráðstefnan ber yfirskriftina „Kierkegaard’s Philo­sophical Psychology: The Sickness unto Death“. Útgangspunkturinn er verk Kierkegaards Sygdommen til døden (Sóttin banvæna), sem væntanlegt er í íslenskri þýðingu Kristians Guttesen. Kierkegaard var einhver gleggsti greinandi sálarástands nútíma­mannsins og er talinn helsti upphafsmaður tilvistar­spekinnar. Á ráðstefnunni verða fluttir fimmtán fyrir­lestrar um efnið og þar að auki verður haldið sérstakt pallborð þar sem sjónum verður beint að Magnúsi Eiríkssyni sem var samtímamaður Kierkegaards í Kaupmannahöfn og varð manna fyrstur til að taka verk hans til gagnrýninnar athugunar. Fyrirlesarar koma víða að og eru margir kunnir Kierkegaard-fræðingar í þeirra hópi. Ráðstefnan verður á ensku.

Søren Kierkegaard

Ráðstefnan er haldin á vegum Heimspekistofnunar Háskóla Íslands í samstarfi við The Nordic Network of Kierkegaard Research (NordForsk) og Søren Kierkegaard rannsóknarsetrið við Kaupmannahafnarháskóla.

Ráðstefnan er öllum opin.

Dagskrána má nálgast hér.