Inngangur ritstjóra að Hug 2012

eftir Henry Alexander Henrysson

Heimspekin lömuð haltrar út
heldur sjóndauf og niðurlút
þrammar í þessu landi
– Eggert Ólafsson (1726–1768)

Þegar þessi orð eru skrifuð liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um að gera heimspeki að skyldufagi á grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að „heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.“

Hér er komist vel að orði. En það er erfitt að sjá fyrir afdrif þessarar ágætu tillögu. Hún er mjög í anda þess sem íslenskir heimspekingar hafa rætt undanfarin ár. Rannsóknarstofa um háskóla, Siðfræðistofnun og Heimspekistofnun hafa unnið að því að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Félag heimspekikennara hefur sjaldan verið sýnilegra og öflugra. Í Garðabæ hefur verið unnið metnaðarfullt starf við að gera heimspekilega samræðu að viðurkenndri kennsluaðferð. Ég er hóflega bjartsýnn á að önnur sveitarfélög taki sér Garðabæ til fyrirmyndar. Í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingar í Reykjavík er til að mynda mælt fyrir um að auka skuli vægi heimspeki og siðfræði í skólum. Tvö vel heppnuð málþing í október 2011 og 2012 hafa dregið upp fjölmarga fleti á spurningum sem snerta heimspeki með börnum. Nýjar námskrár fyrir samfélagsgreinar í grunn- og framhaldsskólum draga beinlínis fram þann heimspekilega kjarna sem þessar greinar byggja á. Og síðast en ekki síst er gagnrýnin hugsun orðin grunnþáttur í menntun allra skólastiga samkvæmt aðalnámskrám þeirra, ásamt því að nemendur efli siðferðisþroska sinn. Næstu ár verða því augljóslega spennandi fyrir afdrif heim­spekinnar á Íslandi. Ef vel tekst til með símenntun kennara má vel ímynda sér að næstu kynslóðir íslenskra nemenda fái tækifæri til að njóta þess skemmtilega ferðalags sem heimspekileg sam­ræða getur verið. En ferðalög geta verið margs konar. Stundum er það undirbúningurinn og ferðalagið sjálft sem er mesta áskorunin. Heimspekinni er einmitt oft líkt við slíkt ferðalag. Stundum er hins vegar áfangastaðurinn þess eðlis að hann skiptir mestu. Hver sá sem hefur farið á framandi staði til að skoða dýralíf og villta náttúru getur vitnað um að þrátt fyrir að leiðin hafi verið ánægjuleg er það reynslan af því sem maður kom til að sjá sem situr lengst í manni. Að leggja stund á heimspeki felst því einnig í að skoða sig um, ef svo má að orði komast, á áfanga­stað. Það getur verið mikilvægt að skoða sig vel um í þeim mikla sarpi sem saga heimspekinnar er og kunna skil á helstu tímabilum og stefnum.

Ef maður ætti að líkja rannsókn á heimspeki nýaldar við ferðalag held ég að safaríferð um gresjur Afríku kæmi fyrst upp í hugann. Á sautjándu og átjándu öld er sjóndeildarhringurinn víður og skýr og himinninn heiður. Og maður leggur af stað til að koma auga á „þá stóru“. Líkt og safarí­ferðamaðurinn leggur af stað með lista yfir fimm helstu dýrategundirnar sem hann vill koma auga á snúast rannsóknir á heimspeki nýaldar allar um þá „fimm stóru“: Descartes, Spinoza, Locke, Hume og Kant. Þegar aðra heimspekinga ber á góma er það yfirleitt með hliðsjón af „vistkerfi“ þessara risa. Þau sem hafa virt fyrir sér dýra- og plöntulíf í regnskógum þekkja hvernig kattar- og dádýr eru minni heldur en á gresjunni og hversu hlutfallslega stór mörg hin smærri dýr eru. Stundum veit maður ekki hvort það var hjörtur eða naggrís sem skaust inn í laufþykknið. Sjón­deildarhringurinn er enginn og stundum er erfitt að greina hvað snýr upp og niður. Það er einmitt stundum eins og að ferðast um regnskóg að kanna heimspeki nítjándu aldar. Stærðir verða afstæðar, sjónarhornin skipta mestu máli þar sem iðulega er eitthvað sem byrgir sýn og greinar­munurinn á rótum og ávöxtum hugmynda liggur ekki í augum uppi. Og fyrst og fremst er það hin organíska ofgnótt sem slær ferðalanginn út af laginu. Ég hef því persónulega látið nítjándu öldina vera að mestu leyti þegar kemur að heimspekirannsóknum.

En ég stóðst ekki mátið þegar kom að því að velja þema fyrir Hug 2012. Það var spennandi að sjá hvað myndi birtast í tölvupóstinum mínum eftir að ég hafði óskað eftir efni í heftið. Og greinarnar sem bárust endurspegla þá óreiðu sem heimspekileg hugsun á nítjándu öldinni er. Sérstakt ánægjuefni er að birta þýðingu á texta eftir franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau. Undir lok nítjándu aldar benti margt til þess að Guyau yrði sá heimspekingur sem síðari tímar myndu helst kenna við tímabilið. Áhrif hans voru sérlega mikil og skrifaði meðal annars Ágúst H. Bjarnason doktorsritgerð sína um heimspeki Guyau. Ég held að hér birtist í fyrsta skipti texti eftir hann á íslensku og verður spennandi að sjá hver viðbrögð lesenda Hugar verða. Margt bendir til að sú gleymska sem Guyau féll í eftir að tuttugusta öldin gekk í garð sé jafn óverðskulduð og sam­tímaspár um mikilvægi hans fyrir sögu og þróun heimspekinnar. Þýski heimspekingurinn Hermann Lotze var annar slíkur heimspekingur sem aldrei náði að halda sig á þeim stalli í heimspekisögunni sem margir samtímamenn hans gerðu ráð fyrir að honum bæri. Grein Erlendar Jónssonar um Lotze hér í heftinu er áhugaverð og löngu tímabær kynning á þessum sérstæða heimspekingi.

Herbert Spencer er líklega sá hugsuður nítjándu aldar sem flestir hafa yndi af að hunsa. Grein Jakobs Guðmundar Rúnarssonar er frískandi tilraun til að hrista upp í þeim stöðluðu við­brögðum. Fátt bendir til að Spencer verði álitinn mikilvægasti heimspekingur nítjándu aldar en margt í hugsun hans er þess eðlis að mig grunar að áhugi á verkum hans muni glæðast á komandi árum. Greinarnar sem bárust Hug tengdust þó einnig helstu nöfnum í heimspeki nítjándu aldar og eiga þessar greinar það sameiginlegt að skoða þessa höfunda í ljósi sam­tímans, ef svo má að orði komast. Steinunn Hreinsdóttir tekst á við bölhyggju Schopenhauers, Guðmundur Björn Þorbjörnsson greinir það sem hann nefnir „vangaveltuþjóðfélagið“ í félagi við Kierkegaard og Róbert H. Haraldsson fjallar um höfuðrök Johns Stuarts Mill fyrir hugsunarfrelsi og málfrelsi með hliðsjón af stórum ágreiningsmálum í samtímanum.

Um Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi gildir fátt það sem tínt hefur verið til hér að ofan. Honum var ekki spáð frægð og frama innan heimspekinnar. En íslenskum lesendum þykir líklega bara vænna um hann fyrir vikið. Elsa Haraldsdóttir nýtir sér frásögn Brynjólfs af þróun eigin hugsunar til að velta upp spennandi hliðum á því sem við nefnum í daglegu tali „heimspekilega hugsun“. Elsa hefur undanfarið unnið að meistararitgerð um gagnrýna hugsun og má vel greina hversu áhuga­söm hún er um að fólk geri sér grein fyrir einkennum gagnrýninnar hugsunar og heimspekilegrar samræðu þegar rætt er um mikilvægi heimspekikennslu á öllum skólastigum.

En það er meira efni í Hug en það sem tengist þema heftisins. Guðrún C. Emilsdóttir hefur þýtt sérlega áhugaverðan kafla úr sígildu riti Simone de Beauvoir, Síðara kyninu. Handrit þýðingar­innar var lesið í námskeiðinu Heimspekilegum forspjallsvísindum í Sagnfræði- og heimspeki­deild í haust og vakti það fjörugar umræður meðal nemenda. Ný grein eftir Dan Zahavi birtist hér einnig í íslenskri þýðingu. Það er mikið fagnaðarefni að þekktir erlendir höfundar sendi greinar í Hug til ritrýni og birtingar. Guðmundur Sæmundsson og Kristján Kristjánsson eru höfundar mikillar greinar um siðferðismisræmi milli íþróttabókmennta og íþróttaveruleika nútímans á Ís­landi. Má með sanni segja að ekki hafi komið út margar greinar sem snerta á því efni á íslensku áður. Heftinu lýkur með skemmtilegri grein eftir Ólaf Pál Jónsson um svokallað skiptaréttlæti.

Hér að ofan var rætt um ferðalög. Íslensk heimspeki hefði ekki þróast á þann hátt sem hún gerði ef Mikael M. Karlsson hefði ekki haldið í eitt slíkt með Barböru konu sinni til Íslands síðsumars árið 1973. Um ævi Mikes og ástæður þess að hann settist að á Íslandi hefur margt verið skrafað en minna fest á blað. Það var því sérstakt fagnaðarefni að hann féllst á að setjast niður með mér nú í haust og segja þessa sögu. Sú útgáfa hennar sem hér birtist er auðvitað lítið bergmál þessa mikla bálks sem Mike hefur frá að segja, en vonandi fræðast lesendur nokkuð um þá óþrjótandi þekkingarleit sem hefur leitt hann í gegnum lífið.

Að lokum er mér það bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim sem komu að gerð þessa árgangs Hugar. Höfundar efnis fá auðvitað sérstakar þakkir fyrir samstarf og þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt útgáfuferlinu. Útgáfu Hugar hefur verið lýst sem lítilli útgerð í litlum polli. Smæðin hefur víst aldrei flýtt fyrir vinnu hvers árgangs. Ritrýnar fá ómældar þakkir fyrir sitt vanþakkláta starf. Gunnar Harðarson og Björn Þorsteinsson lásu yfir þýðingarnar tvær úr frönsku sem hér birtast. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir og vona að yfirvöld menningarmála í Frakklandi taki eftir því starfi sem þeir hafa innt af hendi í gegnum árin við kynningu á franskri heimspeki. Björn á reyndar mikið hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hann hefur lagt í heftið. Mistökin og villurnar skrifast á mig, en þau væru svo óendanlega miklu fleiri ef hans hefði ekki notið við.

Henry Alexander Henrysson

« Til baka