Greinasafn eftir: Kristian Guttesen

Útgáfa Heimspekistofnunar

Af ást til heimsins

Háskóli ÍslandsSigríður Þorgeirsdóttir. Hannah Arendt (1906-1975) er í hópi merkustu stjórnmálaheimspekinga 20. aldar. Hún fæddist í Þýskalandi en flúði til Bandaríkjanna 1941. Eftir hamfarir seinni heimstyrjaldar varð hún fyrst til að gera ítarlega rannsókn á hugmyndafræði alræðis í nasisma og stalínisma. Meginviðfangsefni Hönnuh Arendt er að greina ástæðurnar fyrir hruni ríkjandi hugmyndakerfa og kreppu í stjórnmálum. Hún spyr m.a. hvers vegna heimspekin veiti ekki meira viðnám gegn alræðisstjórnarfari en raun ber vitni og leitar svara í sögu hennar. Í leit sinni kemst hún m.a. að því að allt frá fornöld hafi margir helstu heimspekingar Vesturlanda einblínt á ást á visku og fræðilega þekkingu og verið fráhverfir veraldlegri pólitík. Að dómi Arendt er ekki aðeins þörf á visku heldur ekki síður á ást til heimsins, sem komi fram í margbreytilegri pólitískri þátttöku. Greinarnar eftir Arendt sem hér birtast gefa góða innsýn í helstu viðfangsefni hennar og fjalla um samband heimspeki og stjórnmála, alræði, illsku mannsins og mannréttindi.

Sigríður Þorgeirsdóttir ritar inngang um ævi og verk Arendt og tengir stjórnmálaheimspeki hennar við umræðuna um kreppu í stjórnmálum samtímans og mögulegar leiðir út úr henni. Bókin kom út árið 2011 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 251 síða.

Afarkostir. Greinasafn um heimspeki

Háskóli ÍslandsAtli Harðarson. Í bókinni eru 22 greinar um evrópska heimspeki, sögu hennar, vandamál, kenningar og úrlausnarefni. Textinn er á alþýðlegu máli og að mestu laus við tækniorð, enda er bókin skrifuð til þess að kynna heimspeki fyrir almenningi. Nafn sitt dregur bókin af því hvernig heimspekin bannar mönnum öll undanbrögð og setur hugsun þeirra afarkosti. Bókin kom út árið 1995 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 126 blaðsíður.

Að skilja heimspeki Descartes. Inngangur að Orðræðu um aðferð

Étienne Gilson. Þýðand: Gunnar Harðarson. Franski heimspekingurinn René Descartes (1596-1659) er yfirleitt talinn hafa markað upphaf nútímaheimspeki með riti sínu Orðræðu um aðferð sem út kom árið 1637.  Að skilja heimspeki Descartes birtist upphaflega sem inngangur að hinni sígildu skólaútgáfu á Orðræðu um aðferð sem bókaforlagi J. Vrin gaf út í París árið 1970, og er skrifuð af einum fremsta fræðimanni Frakka á sviði heimspekisögu. Í stuttu en ljósu máli tekst honum að veita glögga innsýn í heimspeki Descartes og sýna hvernig hinir einstöku þættir hennar tengjast saman í eina heild.

Bókin kom út árið 1994 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 32 síður.

Eitthvað annað

Björn Þorsteinsson. Er ástæða til að biðja um eitthvað annað en það sem við blasir? Er hinn fullkomni heimur hlutskipti okkar – eða þurfum við að halda áfram leitinni? Hér er leitað svara við þessum spurningum með skírskotun til ýmissa kenninga og hugsuða. Meðal umfjöllunarefna eru lýðræði og vald, frelsun og framtíð, mennska og tómhyggja, vísindi og náttúra – og heimspekin og saga hennar.
Björn Þorsteinsson er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.

Forspjall að frumspeki

Háskóli ÍslandsImmanuel Kant. Þýðandi: Skúli Pálsson. Forspjall að frumspeki eftir Immanuel Kant kom fyrst út árið 1781. Bókin veitir innsýn í hugmyndir Kants um eðli rúms og tíma, gildissvið mannlegs skilnings, möguleika og takmarkanir mannlegrar skynsemi og mörk hins þekkta og hins óþekkta.

Ritinu fylgir greinargóður inngangur eftir Günter Zöller, prófessor í heimspeki við háskólann í München.

Immanuel Kant (1724-1804) var prófessor í heimspeki við háskólann í Königsberg í Prússlandi.

Bókin kom út árið 2008 hjá Heimspekistofnun. Háskólaútgáfan annast dreifingu.

Fyrirbærafræði

Háskóli ÍslandsDan Zahavi. Þýðandi: Björn Þorsteinsson. Fyrirbærafræði eftir Dan Zahavi fjallar um eina af höfuðstefnum heimspekinnar í samtímanum. Í bókinni er gerð skýr og skilmerkileg grein fyrir helstu hugtökum, aðferðum og stefjum í fyrirbærafræði fyrr og nú. Fjallað er um kenningar heimspekinga á borð við Husserl, Heidegger, Sartre og Merleau-Ponty. Meðal helstu álitamála sem glímt er við má nefna rúm og líkama, samkennd, kynni af öðrum vitundarverum og samband fyrirbærafræði og félagsfræði.

Höfundur bókarinnar, Dan Zahavi, er prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Björn Þorsteinsson þýddi.

Bókin kom út hjá Heimspekistofnun árið 2008. Háskólaútgáfan annast dreifingu.

Fyrirlestrar um frumspeki

Háskóli ÍslandsÓlafur Páll Jónsson. Tvenn þáttaskil urðu í sögu rökgreiningarheimspekinnar á 20. öld. Þau fyrri lýstu sér í því að tungumálið varð meginviðfangsefni heimspekinga. Þau síðari urðu þegar háttarökræði hætti að vera tæknilegt sérsvið og varð að hversdagslegu verkfæri heimpekinga í ólíkum greinum.

Í fyrirlestrunum sem hér birtast er gefin innsýn í þessar tvær vendingar í rökgreiningarheimspeki á 20. öld. Fjallað er um nokkra áhrifamestu heimspekinga þessarar hefðar, svo sem Frege, Russel, Wittgenstein, Quine og Kripke, gerð grein fyrir tilteknum þáttum í heimspeki þeirra, flókin og stundum tæknileg atriði útskýrð og valin rit sett í víðara hugmyndasögulegt samhengi.

Ólafur Páll Jónsson er dósent í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann er höfundur bókanna Náttúra, vald og verðmæti (2007) og Lýðræði, réttlæti og menntun (2011).

Útgefandi: Háskólaútgáfan. Útgáfuár: 2012. Blaðsíðufjöldi: 151.

Hrakfallasaga – Bréf

Háskóli ÍslandsAbelard og Heloísa. Þýðand: Einar Már Jónsson. Bókin hefur að geyma hina víðfrægu sjálfsævisögu franska heimspekingsins Péturs Abelard, ásamt persónulegum bréfum hans og ástkonunnar Heloísu. Einnig er hér að finna bréf Péturs ábóta í Cluny um málefni Abelards og ævilok hans.

Ævisaga Péturs Abelard er ekki löng en hún er tvímælalaust merkasta sjálfsævisaga tólftu aldar og snar þáttur í menningarsögu Evrópu. Abelard er lykilmaður í endurreisn heimspeki og mennta á miðöldum og sagan af ógæfusamri ást hans og Heloísu hefur höfðað sterkt til ímyndunarafls manna öldum saman.

Þýðingum Einars Más Jónssonar fylgir rækileg umfjöllun hans um Abelard og samtíma hans, um stöðu hans í evrópskum menntaheimi og framhaldslíf hans og Heloísu í bókmenntum og fræðimennsku síðari tíma.

Bókin kom út árið 1997 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 273 blaðsíður.

Hugleiðingar um gagnrýna hugsun

Háskóli ÍslandsHenry Alexander Henrysson og Páll Skúlason. Margt í samtímanum kallar á gagnrýna afstöðu til skoðana okkar og breytni. Slík afstaða felst meðal annars í því að huga að öllum hliðum hvers máls og gera engar skoðanir að sínum án þess að hafa fyrir því góð rök. En hvernig eigum við að fara að því? Er það mögulegt? Hvaða máli
skiptir gagnrýnin hugsun?

Í bókinni ræða höfundar gildi gagnrýninnar hugsunar og vekja lesendur til umhugsunar um mikilvægi hennar. Bókinni er ætlað að stuðla að markvissum umræðum um eðli og tilgang gagnrýninnar hugsunar og hvetja til eflingar kennslu hennar.

Útgefandi: Háskólaútgáfan. Útgáfuár: 2014. Blaðsíðufjöldi: 174

Hvað er heimspeki?

Háskóli ÍslandsGreinasafnið Hvað er heimspeki? inniheldur greinar frá tuttugustu öld þar sem tíu höfundar greina frá hugmyndum sínum um eðli og tilgang heimspekinnar. Um leið er bókin inngangur að kenningum merkustu hugsuða liðinnar aldar. Greinarnar eru þessar:

 • Inngangur e. Björn Þorsteinsson
 • Fernando Savater: Hugmynd mín um heimspeki
 • Eric Weil: Hugleiðingar um heimspeki
 • Karl Jaspers: Heimspekin í heiminum
 • Martin Heidegger: Hvað er það, heimspekin?
 • Maurice Merleau-Ponty: Heimspekingurinn og félagsfræðin
 • Michel Foucault: Hvað er upplýsing? Hvað er bylting?
 • Richard Rorty: Heimspeki í Ameríku í dag
 • George Lucáks: Hvað er rétttrúnaðar-marxismi?
 • Ernst Bloch: Hvað er heimspeki, sem leitandi og freistandi?
 • Jürgen Habermas: Heimspekin sem staðgengill og túlkandi

Á undan hverri grein má finna stutta kynningu á lífshlaupi viðkomandi höfundar sem og helstu verkum hans og ásetningi.

Greinarnar eru allar afar gagnleg lesning þeim sem vilja kynnast helstu straumum innan „meginlandsheimspeki“ tuttugustu aldar: tilvistarstefnu, fyrirbærafræði og gagnrýnni samfélagsspeki. Útgáfa bókarinnar er mikilvægur áfangi í íslenskri heimspekiumræðu, ekki síst vegna þess að yngstu greinarnar snerta á málefnum sem mjög eru í brennidepli í heimspekiumræðu samtímans.

Bókin er 250 síðna kilja og er fáanleg hjá Háskólaútgáfunni. Ritstjórar eru þeir Róbert Jack og Ármann Halldórsson.

Hversdagsheimspeki

Háskóli ÍslandsRóbert Jack. Nútímaheimspeki er yfirleitt ekki ætlað að móta hversdagslífið en ný heimspekileg hreyfing, heimspekipraktíkin, hefur endurvakið viðleitni fornra heimspekinga til að lifa eftir hugmyndum sínum. Í Hversdagsheimspeki gerir Róbert Jack grein fyrir þessari fornu viðleitni og hinni nýju hreyfingu og fjallar meðal annars um sókratíska samræðu, barnaheimspeki, heimspekilega ráðgjöf, heimspekikaffihúsið og sjö gunnþætti lífslistarinnar.

Róbert Jack hefur kennt heimspeki í framhaldsskólum, stundað heimspekilega ráðgjöf og staðið fyrir heimspekikaffihúsi.

Bókin kom út árið 2005 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 138 blaðsíður.

Innlit hjá Kant. Um gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Immanuel Kant

Háskóli ÍslandsÞorsteinn Gylfason. Innlit hjá Kant eftir Þorstein Gylfason er stutt og aðgengilegt inngangsrit um frumspeki og þekkingarfræði eins áhrifamesta heimspekings Vesturlanda, Immanuels Kant. Þorsteinn fjallar á meistaralegan hátt um ævi Kants og hugmyndaheim, og veitir innsýn í helstu kenningar hans um rúm og tíma, orsakalögmálið, hlutina í sjálfum sér og mörk mannlegrar þekkingar. Auk þess setur Þorsteinn fram rökstudda gagnrýni á kenningar Kants. Innlit hjá Kant á erindi við allt áhugafólk um heimspeki og hugmyndasögu jafnt sem nemendur um heimspeki.

Þorsteinn Gylfason var prófessor við Háskóla Íslands og eftir hann liggja m.a. bækurnar Réttlæti og ranglæti, Að hugsa á íslenzku, Tilraun um heiminn og Tilraun um manninn.

Bókin kom út árið 2005 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 80 blaðsíður.

Inquiring into Contemporary Icelandic Philosophy

Háskóli ÍslandsGabriel Malenfant. Is Icelandic philosophy different from other ‘national’ philosophies? Can we speak of ‘Icelandic philosophers’ or ‘Icelandic philosophy’? This volume aims at providing readers with clues that can help answer these questions, through essays written mostly by a new generation of Icelandic philosophers.

The book provides a general view of Iceland’s diverse philosopical landscape. Its chapters are conceived as introductions to the thought and style of selected Icelandic philosophers. In addition, an introductory essay delves into the historical and cultural backgraound of contemporary Icelandic philosophy, placing the philosophical outlook of intellectual life in Iceland today in a broader context.

Some of the work discussed in the book has only ever been published in Icelandic, and these perspectives and ideas are here made available to an English-speaking audience for the first time.

Gabriel Malenfant holds a Ph.D. in philosphy from the University of Iceland. He lives and works in Montréal, Quebec.

Útgefandi: Háskólaútgáfan. Útgáfuár: 2015. Blaðsíðufjöldi: 238.

Listhugtakið í heimspeki samtímans

Háskóli ÍslandsGunnar Harðarson. Hvað er eiginlega list? Hvenær er hlutur listaverk? Allt frá því Marcel Duschamp sýndi fjöldaframleidda hluti sem eigin listaverk hefur þessi spurning verið áleitin í nútímalist. Í kjölfar kenninga Wittgensteins um hliðstæðu máls og leikja tóku heimspekingar að beita nýjum hugtökum til að takast á við þessa spurningu.

Listhugtakið í heimspeki samtímans inniheldur fjórar lykilgreinar um þetta efni. Fyrst er hin sígilda grein Morris Weitz um hlutverk kenninga í fagurfræði þar sem hann heldur því fram að listhugtakið sé opið hugtak og ekki sé hægt að skilgreina list. Næstar koma ritgerð Arthurs C. Danto um listheiminn og nýleg grein eftir George Dickie um stofnunarkenninguna um list. Loks er birt þekkt ritgerð eftir listamanninn Joseph Kosuth sem heldur því fram að list sé skilgreining á list.

Gunnar Harðarson er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann er höfundur bókanna Smásmíðar: Tilraunir um bóklist og myndmenntir (1998) og Blindramminn bak við söguna (2009).

Útgefandi: Háskólaútgáfan. Útgáfuár: 2014. Blaðsíðufjöldi: 122.

Náttúran í ljósaskiptunum

Björn Þorsteinsson. Hvað er náttúra? Eigum við að leggja hana undir okkur eða eigum við að reyna að sættast við hana? Bók þessi hefur að geyma níu greinar þar sem staða mannverunnar í náttúrunni er skoðuð með skírskotun til kenninga úr austrænni og vestrænni heimspeki. Þótt samband okkar við náttúruna sé ævagamalt viðfangsefni fræðilegrar hugsunar hefur skilningur á því sjaldan verið brýnni en nú.

Orðræða um frumspeki. Nýtt kerfi um eðli verundanna og Mónöðufræðin

Háskóli ÍslandsGottfried Wilhelm Leibniz. Gunnar Harðarson þýddi. Leibniz var einn af mestu heimspekingum Vesturlanda, en auk þess einn fremsti stærðfræðingur síns tíma og í raun mesti alfræðingur sem sögur fara af. Orðræða um frumspeki hefur að geyma þýðingu á þremur ritum eftir Leibniz, „Orðræðu um frumspeki“, „Nýtt kerfi um eðli verunda“ og „Mónöðufræðin“. Í þessum ritum setur Leibniz fram á hnitmiðaðan hátt hugmyndir sínar um eðli veruleikans, möguleika og nauðsyn, samspil efnis og anda og stöðu Guðs gagnvart sköpunarverkinu. Heimspekistofnun styrkti útgáfu þessarar þýðingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2004.

Plotting Against a Lie. A reading of Ibsen´s An Enemy of the People

Háskóli ÍslandsRóbert H. Haraldsson. Í bókinni Plotting Against a Lie ræðir höfundurinn, Róbert H. Haraldsson, um heimspekilegar hugmyndir í leikverkum Henriks Ibsen og ber þær m.a. saman við hugmyndir Friedrichs Nietzsche. Sérstök áhersla er lögð á nákvæman lestur á leikritinu Þjóðníðingur.

An Ememy of the People is usually not ranked among Ibsen’s best works. Its leading character. Dr. Stockmann, is ofen viewed as a mere mouthpiece for Ibsen, a hopeless idealist or a truth fanatic. The play has also been criticized for being too straightforward and psychologically shallow, a humorous interlude between Ghosts and The Wild Duck. In Plotting Against a Lie, Róbert H. Haraldsson reviews and rejects these claims and argues that although Dr. Stockmann was not Ibsen’s mouthpiece he most certainly identified with the doctor’s plight as well as his conception of truth and human nature. In this detailed and convincing study, Haraldsson exemplifies how we must approach Ibsen not only as a playwright but also as a philosopher. Róbert H. Haraldsson is an Associate Professor of Philosophy at the University of Iceland, Reykjavik.

Bókin kom út árið 2004 hjá Háskólaútgáfunni og er 189 blaðsíður.

Rabbað um veðrið — og fleiri heimspekileg hugtök

Vilhjálmur Árnason. Heimspeki getur fjallað um hvað sem er eins og sjá má af fjölbreyttu efni þessarar bókar. Í stuttum, læsilegum pistlum beitir höfundur heimspekilegri greiningu á hversdagsleg málefni af ólíku tagi. Hér eru á ferð ádeilur, þar sem spjótum er beint að vinnubrögðum og viðhorfum í í stjórnmálum, sem og hugleiðingar um tilvistarleg stef á borð við tilgang lífsins, hugrekki, ábyrgð, þakklæti og líðandi stund.

Vilhjálmur Árnason er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hann er höfundur bókanna Siðfræði lífs og dauða (1993), Broddflugur (1997), Farslælt líf, réttlátt samfélag (2008) og Hugsmíðar (2014).

Ríkið eftir Platon

Þýðing: Eyjólf Kjalar Emilsson sem einnig ritar inngang og skýringar. Bundið mál í þýðingu Kristjáns Árnasonar. Ríkið er eitt helsta heimspekirit sögunnar og það má telja höfuðrit Platons. Heimspekistofnun átti frumkvæði að og kostaði að umtalsverðu leyti þýðingu Ríkisins en það kom út í flokki Lærdómsrita hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1991.

Í Ríkinu setur Platon fyrstur manna fram hugmyndir um fyrirmyndarríkið. Út frá þeim heimspekilega grunni sem hann gefur sér rekur hann hvernig því skuli stjórnað og fyrir komið. Þetta gerir hann til þess að greina í hverju réttlæti felst. Einkenni ríkisins telur hann að samsvari einkennum sálarinnar þannig að jafnframt því að vera elsta stjórnspeki sögunnar er ritið einhver fyrsta tilraun til að aðgreina sálarlíf mannsins. Í Ríkinu vinnur Platon frekar úr ýmsum hugmyndum sem reifaðar eru í Gorgíasi. Meðal fjölmargra áhugaverðra efna sem Platon ræðir þegar hann útlistar fyrirmyndarsamfélagið má nefna umræðu um stöðu skálda og þær hættur sem listin hefur í för með sér fyrir hamingju og heill samfélagsins. Hið réttláta fyrirmyndarríki Platons er all ólíkt hugmyndum nútímamanna um slík ríki, enda var Platon svarinn andstæðingur lýðræðis. Þá afstöðu hans má rekja til þess að hann leitaði eftir heilladrýgsta fyrirkomulagi fyrir heildina fremur en samfélagi þar sem hver og einn fengi að njóta sín að vild. Hver skal sinna því sem hann er færastur til og það er ekki ok að láta þá eina stjórna sem búa yfir sannri visku. Af þessari hugsun spretta hin fleygu orð Platons að samfélagið verði ekki réttlátt fyrr en heimspekingarnir verði konungar eða konungarnir heimspekingar. Ein þungamiðja Ríkisins er útlistun Platons á frummyndakenningu sinni, að sönn þekking sé þekking á æðri veruleika en þeim skuggaheimi sem við lifum í. Í ljósi þess verður skiljanlegt hvers vegna hann telur heimspekinga eiga erindi í samfélagsmálum, þar sem þeir einir sem kynnast þessum æðri veruleika eru sannir heimspekingar og slíkir menn eru einir færir um að leiða samfélagið í ljósi þekkingar á hinu góða.

Ríkið er gefið út í tveimur bindum, alls tæpar 800 síður, og fæst hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Sannfæring og rök

Ólafur Páll Jónsson. Allt sem við gerum er undirorpið röklegri hugsun þótt rökin séu oft misjöfn og hin röklega framvinda stundum brotakennd. En hvað eru góð rök? Hvað þýðir að breyta samkvæmt skynsamlegum rökum? Hvernig tengjast sannfæring og sannleikur? Hver er munurinn á samræðu og rökræðu? Hér er fjallað á skýran og aðgengilegan hátt um spurningar sem þessar – um undirstöður rökfræðinnar og gagnrýna hugsun en einnig er hugað að því hvers vegna sannleikurinn má sín lítils þegar rakalaust bullið tekur yfir.
Ólafur Páll Jónsson er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur áður gefið út þrjár bækur um heimspeki, Náttúra, vald og verðmæti (2007), Lýðræði, réttlæti og menntun (2011) og Fyrirlestrar um frumspeki (2012). Auk þess hefur hann gefið út barnabókina Fjársjóðsleit í Granada (2014).

Siðfræði Níkomakkosar eftir Aristóteles

Þýðing: Svavar Hrafn Svavarsson. Aristóteles er að öllum líkindum einn áhrifamesti heimspekingur sögunnar. Hann lifði og hrærðist á fjórðu öld f.Kr. í Grikklandi umkringdur stórmennum, Platoni sem læriföður og Alexander mikla sem nemanda. Hann lagði stund á flest vísindi og fræði, hvort heldur var dýrafræði eða bókmenntafræði, frumspeki eða eðlisfræði, stjórnspeki eða siðfræði, að ógleymdri rökfræði sem hann gerði fyrstur manna grein fyrir. Á miðöldum gekk hann næstur guði. Þá byrjaði heimspekin að tala mál Aristótelesar og hefur gert síðan. Hugmyndir hans og hugtök hafa mótað heimspekisögu nýaldar allt til okkar daga. Eitt af áhrifamestu ritum Aristótelesar er Siðfræði Níkomakkosar. Heimspekistofnun átti frumkvæði að og kostaði að umtalsverðu leyti þýðingu verksins sem kom út í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1995.

Í Siðfræði Níkomakkosar spyr Aristóteles þriggja meginspurninga um mannlega breytni. Þeirra hefur verið spurt allar götur síðan og sjaldan af meiri ákafa en um þessar mundir. Fyrst spyr hann hvað sé hamingja og hvernig manneskjan verði hamingjusöm. Þannig hyggst hann svara því hvert manneskjur stefni með lífi sínu. Þessi hugmynd um hamingju leiðir til annarrar spurningar sem varðar mannlega breytni: hvers vegna er góð breytni einhvers virði og hvers virði er hún? Þannig gerir Aristóteles grein fyrir mikilvægi góðleikans fyrir hamingju einstaklingsins og samfélagið allt. Og loks spyr hann hvers konar siðgerð liggi að baki góðri breytni. Þannig kynnir hann til sögunnar dyggðina og útskýrir hvernig dyggðug siðgerð mótar ásetning okkar, athafnir og loks hamingjuna sjálfa. Kenning Aristótelesar krefst margvíslegrar umræðu um flestar hliðar mannlegrar breytni og þess sem býr að baki: hver sé greinarmunur viljandi athafna og óviljandi, hvernig manneskjur ráði ráðum sínum og komist að niðurstöðu sem leiði til breytni, hver sé raunveruleg ánægja og hvernig megi útskýra breyskleika, hvað aðskilji vitrænar dyggðir og siðrænar, hverjar séu siðrænar dyggðir og hvernig megi lýsa hófsemi og hugrekki, veglyndi og réttlæti. Þessari viðamiklu íslensku útgáfu fylgja ýtarlegur inngangur, þar sem greint er frá ævi, ritum og kenningum heimspekingsins, skýringarkaflar við hvern hluta verksins, neðanmálsgreinar og atriðisorðaskrá, auk yfirlits um íslenskun grískra orða. Siðfræði Níkomakkosar er gefin út í tveimur bindum, alls 670 bls., og fæst hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Ský og klukkur

Háskóli ÍslandsKarl Popper. Þýðandi: Gunnar Ragnarsson. Í þessari bók eru birtar valdar ritgerðir um þekkingarfræði, aðferðafræði og vísindaheimspeki. Hverjar eru uppsprettur þekkingar og vanþekkingar? Er hægt að draga markalínu milli vísinda og gervivísinda? Er vísindaleg aðferð í því fólgin að reyna að afsanna djarfar tilgátur? Hvað er bogið við svokallaða aðleiðluaðferð? Einkennist hinn eðlisfræðilegi heimur af nauðhyggju og brigðihyggju? Sé brigðhyggja rétt kenning hvaða þýðingu hefur það fyrir frelsi mannskins? Slíkar spurningar eru meðal viðfangsefna ritgerðanna í bókinni. Einnig eru hér tvær stuttar greinar um heimspeki Kants og samtal sem Bryan Magee átti við Popper. Að auki ritar Huginn Freyr Þorsteinsson inngang um ævi og verk Poppers. Karl Popper (1902-1994) var prófessor við London School of Economics í Bretlandi og einn áhrifamesti vísindaheimspekingur tuttugustu aldar.

Bókin kom út árið 2009 og er 232 blaðsíður.

Stigi Wittgensteins

Háskóli ÍslandsLogi Gunnarsson. Stigi Wittgensteins eftir Loga Gunnarsson er rannsókn á merkingu og/eða merkingarleysi í heimspeki Ludwigs Wittgenstein, eins víðfrægasta heimspekings 20. aldar. Bókin er skrifuð í nafni tveggja persóna, sem hvorug er þó höfundurinn sjálfur: Jóhannes Commentarius finnur óbirta ritgerð í eftirlátnum plöggum frænda síns, Jóhannesar Philologusar, og uppgötvar sér til mikillar undrunar að í ritgerðinni hefur hinn síðarnefndi rannsakað tvö textabrot og sett fram afdrifaríkar túlkanir á þeim án þess að vita að þau eru hlutar úr bókinni Tractatus logico-philosophicus eftir Wittgenstein. Jóhannes Commentarius ákveður að gefa út ritgerð frænda síns með skýringum og athugasemdum þar sem hann fer í saumana á túlkunum hans og reynir að koma Wittgenstein til varnar. Logi Gunnarsson er lektor í heimspeki við háskólann í Liverpool, Englandi.

Bókin kom út árið 2005 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 112 blaðsíður.

Svo mælti Zaraþústra. Bók fyrir alla og engan

Háskóli ÍslandsFriedrich Nietzsche. Íslensk þýðing bókarinnar er eftir Jón Árna Jónsson, en Sigríður Þorgeirsdóttir ritaði inngang.

Í Svo mælti Zaraþústra setur Nietzsche fram nýstárlega sýn á lífið og gefur því nýja merkingu. Hann ræðir ekki aðeins um tilgang á tímum tilgangsleysis, heldur telur hann einnig að ógerlegt sé að vita neitt með vissu um hinstu rök tilverunnar. Nietzsche lætur Zaraþústru boða að ofurmennið sé „tilgangur jarðarinnar“, markmiðið sem Nietzsche segir að maðurinn skuli stefna að. Með því að játa afdráttarlaust að enginn æðri tilgangur sé til leysir ofurmennið sköpunarkrafta úr læðingi sem gera því kleift að ljá lífinu merkingu og gefa því tilgang. Kenningin um eilífa endurkomu hins sama verður honum eins konar tilvistarlegt skylduboð um að viðurkenna lífið eins og það er.

Bókin kom út árið 1996 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 314 blaðsíður.

Tilraunir handa Þorsteini. Afmæliskveðja til Þorsteins Gylfasonar ríflega fimmtugs

Þorsteinn Gylfason var í fremstu röð íslenskra heimspekinga um langt skeið. Á fimmtugsafmæli hans ákváðu nokkrir vinir hans að efna í bók handa honum. Í bókinni eru fjórtán fjölskrúðugar tilraunir eftir jafnmarga höfunda, er fjalla meðal annars um heimspeki, jarðfræði, guðfræði, íslensk fræði, auk ljóða og laga.

Bókin kom út árið 1994 hjá Háskólaútgáfunni og Heimspekistofnun.

Tími heimspekinnar í framhaldsskólum

Kristín Hildur Sætran. Frjáls og öguð hugsun heimspekinnar höfðar ekki síst til ungs fólks sem þarf svigrúm til að spyrja spurninga út frá sínum eigin forsendum en jafnframt þann aga sem birtist í kröfunni um rökstuðning. Í bókinni er reynt að kynna og skýra þau verðmæti sem felast í ástundun heimspekinnar og sýna fram á kennslufræðileg, efnahagsleg og samfélagsleg gildi hennar. Sérstaklega er litið til framhaldsskólanema og leitast við að hlusta á raddir þeitta sjálfra. Í gagnrýninni hugsun heimspekinnar og sjálfstæðum vinnubrögðum felst virðing fyrir margbreytileika, þjálfun í að takast á við óvissu í spurn, forvitni, frelsi og ögun, allt þættir sem geta nýst í framhaldsskólum landsins. Kristín Hildur Sætran er M.Paed. í heimspeki og kennir við Háskólann í Reykjavík.

Bókin kom út árið 2011 hjá Heimspekistofnun og Háskólaútgáfunni og er 220 síður.

Veit efnið af andanum?

Háskóli ÍslandsRitstjórar: Steinar Örn Atlason og Þórdís Helgadóttir. Hvað er meðvitund? Er hún nauðsynleg fyrir hugsun? Geta tölvur haft meðvitund? Skýra raunvísindin tilurð og virkni meðvitundar eða er það eingöngu á færi sálvísinda? Haustið 2005 skipulögðu tveir heimspekinemar við Háskóla Íslands, Steinar Örn Atlason og Þórdís Helgadóttir, fyrirlestraröð um vitundina og fengu valinkunna sérfræðinga á ólíkum sviðum til að ræða viðfangsefnið og kynna nýjustu hugmyndir sínar. Markmiðið var að opna þverfaglega umræðu um gamalkunn efni úr heimspeki og sálfræi sem nýrri fræðasvið, svo sem tölvunarfræði og taugalífeðlisfræði, varpa óvæntu ljósi á. Höfundar efnis eru: Thomas Metzinger, Anil K. Seth, Kamilla Rún Jóhannsdóttir, Haukur Ingi Jónasson, Kristinn R. Þórisson, Björn Þorsteinsson og Ólafur Páll Jónsson.

Bókin kom út árið 2009 og er 200 blaðsíður.

Í sátt við óvissuna

Atli Harðarson. Þessi bók er málsvörn efahyggjumanns. Hún fjallar um ýmsar hliðar heimspekilegrar efahyggju og fjölbreytileg áhrif hennar á hugsunarhátt og menningu Vesturlanda. Hún er líka öðrum þræði inngangur að heimspekilegri þekkingarfræði, enda hefur glíman við efahyggjuna löngum verið eitt helsta viðfangsefni þeirrar fræðigreinar.

Bókin kom út árið 2009 og er 146 blaðsíður.

Hugleiðingar um gagnrýna hugsun

Hugleiðingar%20um%20gagnrýna%20hugsun%20-%20net[1]Út er komin í ritröð Heimspekistofnunar bókin Hugleiðingar um gagnrýna hugsun eftir Henry Alexander Henrysson og Pál Skúlason.

Margt í samtímanum kallar á gagnrýna afstöðu til skoðana okkar og breytni. Slík afstaða felst meðal annars í því að huga að öllum hliðum hvers máls og gera engar skoðanir að sínum án þess að hafa fyrir því góð rök. En hvernig eigum við að fara að því? Er það mögulegt? Hvaða máli skiptir gagnrýnin hugsun?

Í bókinni ræða höfundar gildi gagnrýninnar hugsunar og vekja lesendur til umhugsunar um mikilvægi hennar. Bókinni er ætlað að stuðla að mark­vissum umræðum um eðli og tilgang gagnrýninnar hugsunar og hvetja til eflingar kennslu hennar.

Sjá nánar á heimasíðu Háskólaútgáfunnar, þar sem einnig er hægt að kaupa bókina.

Ráðstefna um Søren Kierkegaard: Sóttin banvæna

Dagana 22.-24. maí verður haldin við Háskóla Íslands (Odda, stofu 101) alþjóðleg ráðstefna um danska heim­spekinginn Søren Kierkegaard, en í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu þessa kunnasta heimspekings Norður­landa.

Ráðstefnan ber yfirskriftina „Kierkegaard’s Philo­sophical Psychology: The Sickness unto Death“. Útgangspunkturinn er verk Kierkegaards Sygdommen til døden (Sóttin banvæna), sem væntanlegt er í íslenskri þýðingu Kristians Guttesen. Kierkegaard var einhver gleggsti greinandi sálarástands nútíma­mannsins og er talinn helsti upphafsmaður tilvistar­spekinnar. Á ráðstefnunni verða fluttir fimmtán fyrir­lestrar um efnið og þar að auki verður haldið sérstakt pallborð þar sem sjónum verður beint að Magnúsi Eiríkssyni sem var samtímamaður Kierkegaards í Kaupmannahöfn og varð manna fyrstur til að taka verk hans til gagnrýninnar athugunar. Fyrirlesarar koma víða að og eru margir kunnir Kierkegaard-fræðingar í þeirra hópi. Ráðstefnan verður á ensku.

Søren Kierkegaard

Ráðstefnan er haldin á vegum Heimspekistofnunar Háskóla Íslands í samstarfi við The Nordic Network of Kierkegaard Research (NordForsk) og Søren Kierkegaard rannsóknarsetrið við Kaupmannahafnarháskóla.

Ráðstefnan er öllum opin.

Dagskrána má nálgast hér.

Hugsað með Platoni, ráðstefna 15. desember 2012

Laugardaginn 15. desember verður haldin ráðstefna um heimspeki Platons á vegum Heim­spekistofnunar og Siðfræðistofnunar. Þar munu ellefu íslenskir heimspekingar fjalla um ólíkar hliðar platonskar heimspeki og áhrif hennar. Ráðstefnan fer fram í Odda 101 og hefst kl. 9:00.

Dagskrá:

 • 9:15-9:45 Róbert Jack, Að snúa sálinni: Ríkið um menntun og heimspeki.
 • 9:45-10:15 Guðmundur Heiðar Frímannsson, Hugmynd Platons um menntun í Ríkinu og Menoni.
 • 10:30-11:00 Björn Þorsteinsson, Fyrir hvern er Ríkið? Um erindi Platons við lesandann.
 • 11:00-11:30 Eiríkur Smári Sigurðarson, Um dyggðir kvenna.
 • 11:45- 12:15 Vilhjálmur Árnason, Platon og rökræðulýðræði.
  1.  
 • 13:30-14:00 Svavar Hrafn Svavarsson, Hamingja Platons.
 • 14:00-14:30 Gunnar Harðarson, Ræða Laganna í Krítoni: Hver sannfærir hvern?
 • 14:45-15:15 Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Einstefna í báðar áttir: eiginleikar Evþýfrons.
 • 15:15-15:45 Páll Skúlason, Er heimspekin platonsk í eðli sínu? Gagnrýni Aristótelesar á frummyndir Platons.
 • 16:00-16:30 Henry Alexander Henrysson, Frá toppi til táar: Áhrif Platons á heimspeki Leibniz.
 • 16:30-17:00 Róbert H. Haraldsson, Fyrirmynd allra siðspekinga: Um áhrif Sókratesar Platons á Mill.

Ný stjórn Félags áhugamanna um heimspeki

Ný stjórn Félags áhugamanna um heimspeki var kosin á aðalfundi félagsins í nóvember. Nýr formaður er Erla Karlsdóttir, doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands. Ritari er Nanna Hlín Halldórsdóttir og Jakob Guðmundur Rúnarsson mun gegna stöðu gjaldkera áfram. Emma Björg Eyjólfsdóttir og Hólmfríður Þórisdóttir eru meðstjórnendur í nýrri stjórn.

Málþing um barnaheimspeki – Hver er heimspekin í barnaheimspekinni?

Laugardaginn 13. október 2012 verður efnt til málþings um barnaheimspeki í Verzlunarskóla Íslands, en þar munu reyndir heimspekikennarar leggja fram hugleiðingar um heimspeki og heimspekikennslu sem þátttakendur geta síðan tekið til umræðu.

Yfirskrift: Málþing um barnaheimspeki – Hver er heimspekin í barnaheimspekinni?

Staður: Verzlunarskóli Íslands, Græni salurinn.

Tímasetning: Laugardaginn 13. október 2012, kl. 10 – 15.

Hér getur að líta heiti þeirra erinda sem flutt verða á málþinginu.

Brynhildur Sigurðardóttir:
 Hver er þín heimspeki?

Drífa Thorstensen:
 Hver er heimspekin í heimspeki með börnum?

Elsa Haraldsdóttir:
 Heimspeki; gagnrýnin hugsun og siðfræði.

Henry Alexander Henrysson:
 Örlítið af góðu hugferði.

Hjalti Hrafn Hafþórsson:
 Lýðræði í leikskólum.

Hreinn Pálsson:
 Hver er heimspekin í námsefni Lipmans?

Jóhann Björnsson:
 Hversu margir geta búið í einu landi? Hlutverk heimspekinnar í lýðræðis-mannréttinda- og fordómafræðslu.

Kristín Sætran:
 Frjáls öguð heimspekileg nálgun. Um mikilvægi heimspekilegs rýmis innan skólanna.

Sigríður Geirsdóttir:
 Getum við treyst innsæinu? Um ábyrgð kennara í heimspekilegri samræðu með börnum.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Þeir, sem hyggjast ætla mæta, eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig í gegnum netfangið heimspekikennarar@gmail.com svo hægt sé að áætla þær léttu veitingar sem boðið verður upp á í matarhléinu.

Málþingið er haldið á vegum Félags heimspekikennara í samvinnu við verkefni um eflingu gagn­rýninnar hugsunar og siðfræði í skólum. Sömu aðilar stóðu að ráðstefnu um kennslu í gagn­rýninni hugsun og siðfræði í október 2011 og huga næst að undirbúningi málþings um inn­leiðingu grunnþáttanna jafnrétti, lýðræði og mannréttindi í þverfaglegu skólastarfi sem haldið verður í mars 2013.

Alþjóðleg ráðstefna – „Í fótspor Wittgensteins“ – 14.-16. sept.

Dagana 14.-16. september nk. verður alþjóðleg ráðstefna – er nefnist „Í fótspor Wittgensteins“ – haldin í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá því Ludwig Wittgenstein og David Pinsent heimsóttu Ísland.

Ráðstefnan, sem er haldin við Háskóla Íslands á vegum námsbrautar í heimspeki og Heimspekistofnunar, er ókeypis og öllum opin. Allir fyrirlestrar verða fluttir á ensku.

Ráðstefnan hefst föstudaginn 14. september með kvölddagskrá kl. 18-20 í stofu 101 í Lögbergi. Laugardaginn 15. og sunnudaginn 16. fer ráðstefnan fram frá kl. 9 í Lögbergi 101 og Odda 101.

Dagskrá:

Föstudagur, 14. september 2012

18:00-18:15     Mikael M. Karlsson, Háskóla Íslands:
Wittgenstein Walks Again In Iceland

Lögberg 101

18:15-19:15     David Connearn, Skjolden House Conservation Project:
„Wittgenstein’s Peregrinations and the Current Conservation of the Skjolden House“

Lögberg 101

19:15-20:00     Halldór Thorsteinsson, H.F.Securities:
„Wittgenstein in Iceland, 1912“

Lögberg 101

Laugardagur, 15. september 2012

9:00-9:45     Alice Crary, New School for Social Research: „Wittgenstein on How Minds Do (but Aren’t) Matter“

Lögberg 101

9:45-10:00 Hlé     Samhliða fyrirlestraröð A – Lögberg 101     Samhliða fyrirlestraröð B –
Oddi 101
10:00-10:45     Laurence Goldstein, University of Kent:
„An Exceptional Logic“
    Mikel Burley, University of Leeds:
„Wittgenstein and Atheism“
10:45-11:30     Kai Büttner, University of Zurich:
„Surveyability and Infinity“
    Alexander George, Amherst College:
„Too Big a Blunder: Wittgenstein, Hume, and Religious Belief“
11:30-13:00 Matur    
13:00-13:45     Max Weiss, University of British Columbia:
„Naming and Simplicity“
    Anne-Marie Søndergaard Christensen, University of Southern Denmark:
„Ethical Grammar: A Wittgensteinian Reevaluation of Ethical Theories“
13:45-14:30     Michael R. Smith, Jr., Institute for Doctoral Studies in the Visual Arts: „Wittgenstein and the Problem of Metaphysics“     Tracy Bowell, University of Waikato: „Objectivity Humanly Speaking: Wittgenstein, Moral Objectivism and Certainty“
14:30-14:45 Hlé    
14:45-15:30     Elmar Geir Unnsteinsson, University of Iceland & CUNY Graduate Center:
„Wittgenstein on Intention and Interpretation“
    Duncan Richter, Virginia Military Institute:
„Wittgenstein’s Ethics“
15:30-16:15     Ed Witherspoon, Colgate University:
„Wittgenstein Against Knowledge by Description“
    Patrick Quinn, All Hallows College, Dublin City University:
„Belief, Love and Hope in the Writings of Wittgenstein“
16:15-16:30 Hlé    
16:30-17:15     Mikael M. Karlsson, University of Iceland:
„The Tractarian Wittgenstein and Ancient Chinese Skepticism“
    Höskuldur Ólafsson, University of Iceland:
„On the Rules of Art and the A-causality of Aesthetic Reactions“

Sunnudagur, 16. september 2012

9:00-9:45     Bill Child, University of Oxford: „Wittgenstein, Phenomenal Concepts, and Knowing What It’s Like“

Lögberg 101

9:45-10:00 Hlé     Samhliða fyrirlestraröð A – Lögberg 101     Samhliða fyrirlestraröð B –
Oddi 101
10:00-10:45     Lynda Burns, Latrobe University:
„Wittgenstein and Zombies“
    Anna Boncompagni, University of Roma Tre:
„Elucidating Forms of Life“
10:45-11:30     Jordan Rodger, King’s College, London:
„What Is It Like To Be a Conscious Green Cloud from Outer Space?“
    Hili Razinsky, Ben-Gurion University:
„A Live Language: Concreteness, Openness, Ambivalence“
11:30-13:00 Matur    
13:00-13:45     Hiroshi Ohtani, Musashino University:
„The Character of Hinges: Transcending Dichotomy in Interpretation“
    William James DeAngelis, Northeastern University:
„Wittgenstein on Religious Expression“
13:45-14:30     William Max Knorpp, James Madison University:
„The Rule-Following Considerations, The Solitary Language Argument, and Strong-Program Relitavism in the Sociology of Knowledge“
    Bhaskar Bhattacharyya, Krishna Kanta Handiqui State Open University :
„Some Reflections of Wittgenstein’s Concept of Religion: An Analytical Approach“
14:30-14:45 Hlé    
14:45-15:30     Carlo Penco, University of Genoa:
„Wittgenstein’s Thought Experiments and Relativity Theory“
    Lars Hertzberg, Åbo Academy:
„Wittgenstein and Attention“
15:30-16:15     Dewi Trebaul, University of Aix-Marseille:
„Wittgenstein’s Account of Truth in the Light of his Criticism of Frege“
    William Day, Le Moyne College:
„Aspect-Seeing and the Nature of Experience“
16:15-16:30 Hlé    
16:30-17:15     Reshef Agam-Segal, Virginia Military Institute:
„Aspect-Perception as a Philosophical Method“
    Eran Guter, The Max Stern Yezreel Valley College:
„The Good, the Bad and the Vacuous: Wittgenstein’s Case Against Modern
Music“

Auglýst eftir erindum fyrir málþing um barnaheimspeki

Félag heimspekikennara hefur í samvinnu við verkefni um eflingu gagnrýninnar hugsunar og sið­fræði í skólum hafið undirbúning að málþingi um barnaheim­speki sem haldið verður laugar­daginn 13. október nk. í Verzlunarskóla Íslands. Á málþinginu munu reyndir heimspekikennarar leggja fram hugleiðingar um heimspeki og heimspekikennslu sem þátttakendur geta síðan tekið til umræðu. Stjórn Félags heimspekikennara tekur nú við tillögum að örfyrirlestrum sem fluttir verða á málþinginu. Hugmyndir og lýsingar á erindum má senda stjórninni á netfangið heim­spekikennarar@gmail.com.

Að fyrrnefndu verkefni um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum standa Rann­sóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þessir sömu aðilar stóðu ásamt Félagi heimspekikennara að ráðstefnu um kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í október 2011 og huga að undirbúningi málþings um innleiðingu grunnþáttanna jafn­rétti, lýðræði og mannréttindi í þverfaglegu skólastarfi sem haldið verður í mars 2013.

Hefur femínísk heimspeki breytt heimspeki?

Dagana 7. og 8. september standa Heimspekistofnun Háskóla Íslands og Edda – öndvegissetur í samstarfi við Norræn samtök kvenheimspekinga fyrir ráðstefnu í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns­ins um femíníska heimspeki og stöðu hennar innan heimspekinnar.

Femínísk heimspeki hefur orðið að frjórri grein innan vestrænnar heimspeki á undanförnum ára­tugum. Hún hefur gagnrýnt kanónu heimspekinnar og grundvallarhugtök hennar um mann og veruleika. Femínísk þekkingarfræði, siðfræði, fagurfræði og frumspeki hafa getið af sér auðugri skilning á þekkingarverunni, siðaverunni, skyn- og líkamsverunni. Fortíð og nútíð heimspekinnar sem fræðigreinar birtast í nýju ljósi. Þrátt fyrir þetta er hlutfall kvenna og minnihlutahópa meðal kennara og nemenda hvað lægst í heimspeki í samanburði við aðrar greinar hugvísinda og vísinda almennt. Er skýringin sú að femínískar nálganir eru enn lítt viðurkenndar innan greinar­innar? Eða er þörf á að grafa dýpra til að skilja viðnám heimspeki gagnvart breytingum í þessu tilliti? Lykilfyrirlesarar þessarar ráðstefnu, Sally Haslanger og Linda Martín Alcoff, ásamt fleiri fyrirlesurum, hafa vakið athygli fyrir skrif sín um stofnanamenningu, innihald og stíla heimspek­innar, sem og fyrir frumkvæði í þá veru að bæta stöðu kvenna og minnihlutahópa í heimspeki.

Skipuleggjendur: Ásta Sveinsdóttir, San Francisco State University/Háskólinn á Bifröst, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Salvör Nordal og Sigríður Þorgeirsdóttir, Háskóla Íslands

Dagskrá:

    Föstudagur 7. september
   
11.00 – 11.45     Ráðstefna sett
Sigríður Þorgeirsdóttir og Gunnar Harðarson, Háskóla Íslands
12.00 – 13.00     Lykilfyrirlestur
Sally Haslanger, Massachusetts Institute of Technology, BNA

Philosophy and Critical Social Theory: Feminism and the Politics of Inquiry
Málstofustjórn: Ása Kristjana Sveinsdóttir
13.00 – 13.30     Samlokur og drykkir
13.30 – 15.00     Þekkingarfræði
Lorraine Code, York University, Kanada

Has Feminist Philosophy Changed Philosophy? The Fate and the Promise of Epimistic Responsibility
Heidi Grasswick, Middlebury College, BNA
Climbing Out of the Box: Feminist Epistemology as Social Epistemology
Phyllis Rooney, Oakland University, BNA
The Marginal Status of Feminist Philosophy: Insights from the Situation with Feminist Epistemology
Málstofustjórn: Erlendur Jónsson
15.00 – 15.15     Kaffi
15.15 – 16.45     Frumspeki
Nancy J. Holland, Hamline University, BNA

Humility and Feminist Philosophy
Allison Assiter, University of the West England, Bretlandi
Who’s Afraid of Metaphysics?
Málstofustjórn: Salvör Nordal
16.45 – 17.00     Kaffi
17.00 – 18.00     Aðferðafræði
Hildur Kalman, Háskólinn í Ulmeå, Svíþjóð

Has Feminist Philosophy Changed Philosophy? An Empircal or Philosophical Question?
Jami Weinstein, Háskólinn í Linköping, Svíþjóð
Theory Sex as a Feminist Methodology
Málstofustjórn: Arnþrúður Ingólfsdóttir
18.30     Móttaka

 

    Laugardagur 8. september
   
10.00 – 11.00     Lykilfyrirlestur
Linda Martin Alcoff, Hunter College and the City University of New York Graduate Center, BNA

The Politics of Philosophy
Málstofustjórn: Eyja Margrét Brynjarsdóttir
11.00 – 11.15     Kaffi
11.15 – 12.45     Heimspekisaga
Catherine Villaneuva Gardner, Hunter College and the City University of New York Graduate Center, BNA

Beneath the Surface: Feminist Philosophy and Mainstream History of Philosophy
Martina Reuter, Akademia Finnlands/Háskólinn í Jyväskylä
The Roles of Feminist Reinterpretation in History of Philosophy
Ruth Hagengruber, Háskólinn í Paderborn, Þýskalandi
How the History of Women Philosophers Changes Philosophy
Málstofustjórn: Erla Karlsdóttir
12.45 – 13.30     Hádegisverður
13.30 – 15.00     Staðsetning og pólitík heimspekinnar
Stella Sandford, Kingston University, Bretlandi

The Realisation of Feminism? Feminist Critique and the Discipline of Philosophy
Fiona Jenkins, Australian National University, Ástralíu
(Re-)Framing What We Do
Tove Pettersen, Háskólinn í Osló, Noregi
Marginalizing Feminist Philosophy
Málstofustjórn: Vilhjálmur Árnason
15.00 – 15.15     Kaffi
15.15 – 16.45     Margbreytileiki
Kim Q. Hall, Appalachian State University, BNA

A Study of „Philosophical Happiness“: How the Marginal remains Marginal
Sigríður Þorgeirsdóttir, Háskóli Íslands
Transnational and Feminist Philosophy
Málstofustjórn: Guðbjörg S. Jóhannesdóttir
16.45 – 17.30     Umræður og ráðstefnuslit
Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Salvör Nordal stýra umræðum
19.00     Ráðstefnukvöldverður

Heimspekileg æfing 27. júní

Félag heimspekikennara stendur fyrir heimspekilegri æfingu 27. júní kl. 20.00 í Garðaskóla. Lesið verður textabrot eftir Spinoza og samræðuæfing spunnin út frá því. Stjórnandi æfingarinnar er Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir. Æfingin er öllum opin.

Heimspekilegar æfingar þjóna margvíslegum tilgangi. Þátttakendur fá þjálfun í heimspekilegri samræðu og kynnast ólíkum samræðuaðferðum. Æfingarnar eru einnig góður vettvangur til að hitta heimspekikennara og aðra sem eru áhugasamir um ástundun heimspekilegrar samræðu.

Ekki er krafist fyrri þekkingar á textum viðkomandi heimspekings, og ekki er nauðsynlegt að hafa sótt fyrri samræðuæfingu um hann. Eins og fyrr segir eru allir velkomnir og ætti æfingin að geta gagnast öllum sem hafa áhuga á að kynnast bæði hugsun þessa heimspekings og heim­spekilegri samræðu.

Sjá nánar: http://www.facebook.com/events/163811577085461/