Færslusöfn

Heimspekivefurinn hefur nú verið settur upp sem greinasafn. Allar greinar og hlekkir af eldri útgáfu Heimspekivefjarins virka enn, en framvegis verða ekki fluttar ritfregnir eða fréttir af viðburðum.

Heimspekivefurinn er í umsjá Heimspekistofnunar Háskóla Íslands. Á honum má einnig finna upplýsingar um Félag áhugamanna um heimspeki, um tímaritið Hug og um útgáfu Heimspekistofnunar.

Senda má athugasemdir í tölvupósti á ritstjorn@hi.is.

Descartes fyrir byrjendur

eftir Anthony Kenny1

Út allar miðaldir í Evrópu var Aristóteles hið óumdeilda kennivald í vísindum. Fyrir heilögum Tómasi frá Akvínó var hann heimspekingurinn; fyrir Dante var hann „meistari þeirra sem vita.“ Á fyrri helmingi sautjándu aldar breyttu verk franska heimspekingsins René Descartes þessu ástandi til frambúðar.

Descartes fæddist árið 1596, um það leyti sem Shakespeare var að skrifa Hamlet. Siðaskiptin höfðu skipt Evrópu í herbúðir mótmælenda og kaþólskra manna. Sjálfur tók hann þátt í trúarbragðastyrjöldunum. Þótt hann fæddist og dæi kaþólskur bjó hann mestalla ævi í Hollandi mótmælenda en ekki í heimalandi sínu, hinu kaþólska Frakklandi.

Descartes var að tvennu leyti ólíkur þeim heimspekingum sem voru uppi á öldunum á undan. Hann var leikmaður bæði í hinni klerklegu og faglegu merkingu. Allir hinir miklu heimspekingar miðalda höfðu verið kirkjunnar menn – prestar, biskupar, munkar – en Descartes var aftur á móti heimsmaður, ‘lausamaður’ sem lifði á eignum sínum. Og þótt allir heimspekingarnir á miðöldum hefðu verið háskólaprófessorar sem kenndu á fagmáli hélt Descartes aldrei á ævinni fyrirlestur en skrifaði oft fyrir hinn almenna lesanda. Frægasta verk hans, Orðræða um aðferð, var ekki skrifað á latínu hinna lærðu heldur á góðri látlausri frönsku svo að „jafnvel kvenfólk“, eins og hann komst að orði, gæti skilið það.

Descartes var mjög óvenjulegur snillingur. Nú á dögum eru það heimspekiverk hans sem eru mest lesin. Á hans dögum byggðist orðstír hans ekki síður á stærðfræði- og vísindaverkum hans. Hann lagði grundvöll að hnitarúmfræði og ‘cartesísku’ hnitin, sem hvert skólabarn lærir um, draga heitið af hinni latnesku mynd nafns hans, Cartesíus. Á fertugsaldri skrifaði hann ritgerð um ljósfræði sem var verulegt framlag til ljósfræðivísinda, árangur vandaðrar fræðilegrar vinnu og tilrauna með eðli augans og ljóssins. Hann samdi líka eina af fyrstu vísindalegu ritgerðunum um háloftafræði og á kröfu til að vera fyrstur til að uppgötva hið sanna eðli regnbogans.

Hápunkturinn á fyrsta vísindastarfi hans var ritgerð sem hét Heimurinn. Þar hugðist hann gera tæmandi vísindalega grein fyrir uppruna og eðli heimsins og starfsemi mannslíkamans. Þar tók hann upp tilgátu sem þá var óvenjuleg: að sólin en ekki jörðin væri miðpunktur heims okkar. Þegar hann var að ljúka þessu verki frétti hann að stjörnufræðingurinn Galilei hefði verið bannfærður af yfirvöldum kirkjunnar á Ítalíu fyrir að verja sama sólmiðjukerfi. Þetta varð til þess að hann tók þá ákvörðun að birta ekki ritgerðina. Hann geymdi hana hjá sér til dauðadags. Þegar hann var fertugur hafði hann áunnið sér nokkurt snillingsorð í vinahópi en hann hafði ekki enn gefið neitt út.

Árið 1637 ákvað hann að birta ljósfræðina, rúmfræðina og háloftafræðina, og var stutt Orðræða um aðferð formáli að þessum verkum. Vísindaritgerðirnar þrjár eru nú aðeins lesnar af sérfræðingum í sögu vísindanna, en formálinn er endurprentaður á hverju ári, hefur verið þýddur á meira en hundrað tungumál og er enn lesinn með ánægju af milljónum manna sem gætu ekki skilið verkin sem hann er inngangur að.

Formálinn er yndislegur sjálfsævisögulegur texti: fjörlegur, fágaður og hæðinn. Fáeinar tilvitnanir geta gefið keiminn af honum.

Ég lagði því bóknámið á hilluna jafnskjótt og ég varð nógu gamall til að losna undan yfirráðum kennara minna og afréð að leita ekki framar að öðrum vísindum en þeim sem ég fyndi í sjálfum mér eða í hinni miklu bók heimsins. Ég varði því sem eftir var æskuáranna til ferðalaga, til að sjá hirðir og heri, kynnast fólki, ólíku að hugarfari og kjörum, heyja mér ýmislega reynslu . . .
En ég var enn í menntaskóla þegar mér var kennt að ekkert gæti maður hugsað sér svo furðulegt né ósennilegt að ekki fyndust þess dæmi að einhver heimspekingur hefði haldið því fram. En á ferðum mínum síðar meir varð mér ljóst að allir þeir sem hafa allt aðrar skoðanir en við eru ekki þar fyrir siðleysingjar né villimenn, heldur hafa þeir margir hverjir skynsemina að leiðarljósi ekki síður en við og jafnvel fremur.
Fólk lætur miklu fremur stjórnast af hefð og fordæmi en óyggjandi þekkingu. En þó er ekkert mark að fylgi fjöldans við sannindi sem ekki liggja á yfirborðinu, því að miklu meiri líkindi eru til að einn maður finni þau en heil þjóð. Ég fékk því ekki séð að ég gæti tekið skoðanir eins manns fram yfir aðrar, og var þá nauðugur einn kostur að grípa til eigin ráða.2

Í Orðræðunni koma fram, í furðulega stuttu máli, aðalaatriðin í vísindalegum viðhorfum Descartes og heimspekilegri aðferð hans. Hann gat sett fram flóknar heimspekikenningar með svo miklum glæsibrag að þær virtust fullkomlega skiljanlegar við fyrsta lestur og láta samt enn í té efni til umhugsunar lærðustu sérfræðingum. Hann hældi sér af því að verk sín mætti lesa „alveg eins og skáldsögur.“ Meginhugmyndir hans má reyndar setja fram á svo gagnorðan hátt að þær kæmust fyrir aftan á póstkorti, og samt voru þær svo byltingarkenndar að þær breyttu gangi heimspekinnar um aldir.

Vildi maður skrifa meginhugmyndir Descartes aftan á póstkort þyrfti hann aðeins tvær setningar: Maðurinn er hugsandi andi. Efnið er rúmtak á hreyfingu. Allt í kerfi Descartes á að skýra út frá þessari tvískiptingu í anda og efni. Það er einmitt Descartes að þakka að við hugsum um anda og efni sem hinar tvær miklu deildir heimsins sem við búum í og sem útiloka hvor aðra og eru í sameiningu tæmandi.

Fyrir Descartes er maðurinn hugsandi veruleiki. Í heimspeki Aristótelesar er maðurinn í eðli sínu samsettur úr sál og líkama. Ef líkamslaus tilvera er möguleg yfirleitt er það lemstruð / bækluð og ófullkomin mannleg tilvera. Fyrir Descartes er allt eðli mannsins andi eða hugur. Í þessu lífi er náið samband milli hugar okkar og líkama, en það er ekki líkaminn sem gerir okkur að því sem við erum. Ennfremur er hugurinn hugsaður á nýjan hátt. Eðli hugarins er ekki skynsemi heldur meðvitund, vitund um eigin hugsanir og viðföng þeirra. Maðurinn er eina dýrið sem hefur meðvitund; öll önnur dýr, taldi Descartes, eru einungis flóknar en meðvitundarlausar vélar.

Fyrir Descartes er efnið rúmtak á hreyfingu. Með ‘rúmtaki’ er átt við það sem hefur rúmfræðilegu eiginleikana lögun, stærð, deilanleika og svo framvegis. Þetta erueinu eiginleikarnir sem Descartes eignaði efninu á grundvallarstigi. Hann bauðst til að skýra öll fyrirbæri hita, ljóss, litar og hljóðs út frá hreyfingu efnisagna með mismunandi stærð og lögun. Descartes er einn fyrsti skipulegi talsmaður hugmyndarinnar um vestræn nútímavísindi sem sameiningu stærðfræði­legra vinnubragða og tilraunaaðferða.

Báðar hinar miklu frumsetningar cartesískrar heimspeki voru – við vitum það nú – rangar. Meðan Descartes var á lífi voru fyrirbæri uppgötvuð sem ógerlegt var að skýra undanbragðalaust út frá efni á hreyfingu. Hringrás blóðsins og starfsemi hjartans, eins og Englendingurinn John Harvey uppgötvaði, útheimtu krafta sem ekkert rúm var fyrir í kerfi Descartes. Engu að síður var hin vísindalega skýring hans á uppruna og eðli heimsins í tísku um það bil eina öld eftir andlát hans; og hugmynd hans um dýr sem vélar var seinna útvíkkuð af nokkrum lærisveinum hans sem héldu því fram, samtíðarmönnum sínum til mikillar skelfingar, að mannverur væru líka einungis flóknar vélar.

Skoðun Descartes á eðli hugarins entist miklu lengur en skoðun hans á efninu. Hún er reyndar enn algengasta skoðun á huganum meðal menntaðra manna á Vesturlöndum sem eru ekki atvinnuheimspekingar. Á okkar öld hefur hún verið hrakin með ótvíræðum hætti af austurríska heimspekingnum Wittgenstein sem sýndi fram á að jafnvel þegar við hugsum leyndustu og andlegustu hugsanir okkar notum við sem tjáningarmiðil tungumál sem er í eðli sínu bundið við opinbera og líkamlega tjáningu sína. Við vitum nú, og það er Wittgenstein að þakka, að hin cartesíska tvískipting í hug og líkama stenst ekki. En það er mælikvarði á hin gífurlegu áhrif Descartes að jafnvel þeir sem dást mest að snilli Wittgensteins telja að mesta afrek hans hafi verið að kollvarpa hugarheimspeki Descartes.

Descartes sagði að þekkingin líktist tré og væru rætur þess heimspekin, stofninn eðlisfræðin og frjósamar greinarnar siðvísindin og nytjavísindin. Skrif hans sjálfs eftir Orðræðuna fylgdu röðinni sem þannig var gefin til kynna. Árið 1641 skrifaði hann Hugleiðingar um frumspeki, 1644 Lögmál heimspekinnar (endurskoðuð gerð afHeiminum) og 1649 Ritgerð um hræringar sálarinnar sem er að miklu leyti siðfræðileg ritgerð. Fimmti áratugur aldarinnar var síðasti, og heimspekilega séð frjóasti, áratugur ævi hans.

Eitt er það í afstöðu Descartes sem hafði djúp áhrif á heimspekina eftir hans dag: að krefjast þess að fyrsta verkefni heimspekings sé að losa sig við alla fordóma með því að draga í efa allt sem hægt er að efast um. Þetta setur þekkingarfræði, eða skipulega rannsókn á því sem við getum vitað, í öndvegi í heimspeki. Annað verkefni heimspekings, eftir að hann hefur komið fram með þessar efasemdir, er að koma í veg fyrir að þær leiði til efahyggju. Þetta kemur skýrt fram í HugleiðingumDescartes. Hér eru nokkur sýnishorn úr fyrstu hugleiðingu þar sem hinar róttæku efasemdir eru settar fram.

Það sem ég hef hingað til talið sannast hef ég fengið annaðhvort frá skilningarvitunum eða með atbeina þeirra. En ég hef stundum komist að raun um að skilningarvitin blekkja, og það er hyggilegt að bera aldrei fullt traust til þeirra sem hafa blekkt mann, þó ekki sé nema einu sinni.
En þótt skilningarvitin blekki okkur stundum um hluti sem eru örlitlir eða langt í burtu er margt annað sem alveg útilokað er að efast um, jafnvel þótt það eigi rætur að rekja til skilningarvitanna – til dæmis að ég er hérna, sit við arineldinn í vetrarslopp og held á þessari pappírsörk í höndunum og þar fram eftir götunum.
Bráðsnjöll rökleiðsla! Eins og ég væri ekki maður sem sefur á næturnar og upplifir reglulega í draumi það sama og vitfirringar í vöku – reyndar stundum enn ósennilegri hluti. Hversu oft er ég ekki, sofandi að nóttu til, sannfærður um að ég sitji hér við arininn í sloppnum mínum – þegar ég ligg í raun og veru nakinn í rúminu!
Setjum þá svo að mig sé að dreyma . . . Því hvort heldur ég er vakandi eða sofandi, tveir og þrír eru fimm og ferningur hefur ekki fleiri en fjórar hliðar. Það virðist útilokað að efast um svo augljós sannindi.
En rótgróin í huga mér er þó sú gamla skoðun að til sé almáttugur Guð sem skapaði mig og gerði mig eins og ég er. Hvernig veit ég að hann hafi ekki komið því til leiðar að ekki sé til nein jörð, neinn himinn, neinn þrívíður hlutur, nein lögum, nein stærð, neinn staður, en sjái um leið svo um að mér virðist allt þetta vera til eins og það er nú? Og ennfremur, úr því að ég tel stundum að öðrum skjátlist um það sem þeir halda sig vita með vissu, getur mér þá ekki á sama hátt skjátlast í hvert skipti sem ég legg saman tvo og þrjá eða tel hliðar fernings eða geri eitthvað enn einfaldara, ef hægt er að ímynda sér það? En kannski Guð hafi ekki viljað að mér skjátlaðist á þennan hátt, því sagt er að hann sé algóður.
Ég mun því ekki gera ráð fyrir að Guð, sem er algóður og uppspretta sannleikans, blekki mig, heldur að einhver ákaflega máttugur og slægvitur illur andi neyti allrar orku til að gabba mig. Ég mun hugsa mér að himinn, loft, jörð, litir, lögun hluta, hljóð og allir ytri hlutir séu einungis villandi draumsýnir sem andinn hefur fundið upp til að blekkja mig. Ég mun líta svo á að ég hafi engar hendur, engin augu, ekkert hold eða blóð, engin skilningarvit en ímyndi mér bara að ég hafi þetta allt. Ég mun halda mér fast við þessa hugleiðingu og gera allt sem í mínu valdi stendur til að fallast ekki á neinar rangar skoðanir, jafnvel þótt mér sé um megn að vita nokkur sannindi, svo að þessi illi andi geti alls ekki villt mér sýn hversu máttugur og slægvitur sem hann kann að vera.3

Endi er bundinn á þessar efasemdir með hinni frægu röksemdafærslu Descartes til hans eigin tilveru. Hversu mjög sem illi andinn kann að blekkja hann getur hann ekki villt svo um fyrir honum að hann hugsi að hann sé til ef hann er það ekki.4 „Ég hugsa, þess vegna er ég til,“ segir Descartes og fer síðan í afganginum af hugleiðingunni að svara spurningunni: „Hvað er ég, þessi ég sem ég veit að er til?“

Descartes varð frægur um alla Evrópu fyrir verk sín. Hann var í bréfasambandi og átti í ritdeilum við flesta lærdómsmenn síns tíma. Sumir vina hans fóru að leggja stund á skoðanir hans í háskólum, og ritið Lögmál heimspekinnar var hugsað sem kennslubók. Aðrir prófessorar réðust heiftarlega á kenninagr hans er þeir sáu hinu aristótelíska kerfi sínu ógnað. Jafnvel í hinu tiltölulega frjálslynda Hollandi fann Descartes fyrir gusti trúarofsókna.

En hann skorti þó ekki valdamikla vini og var því aldrei í alvarlegri hættu. Elísabet prinsessa af Pfalz, frænka Karls I Englandskonungs, hreifst af verkum hans og skrifaði honum mörg bréf. Hún var fullfær um að standa fyrir sínu í röksemdafærslu, og upp af bréfasambandi þeirra spratt síðasta verk Descartes sem hann lauk við,Hræringar sálarinnar. Þegar það kom út var það samt ekki tileinkað Elísabetu heldur annarri konunglegri frú sem hafði fengið áhuga á heimspeki, Kristínu Svíadrottningu. Gegn betri vitund féllst hann á að þiggja stöðu sem hirðheimspekingur Kristínar drottningar sem sendi aðmírál með herskip til að flytja hann frá Hollandi til Stokkhólms.

Descartes hafði feikilega mikla trú á hæfileikum sínum og enn meiri trú á aðferðinni sem hann hafði fundið. Hann hugði að lifði hann nokkrum árum lengur og fengi nægilegt fé til að gera tilraunir þá gæti hann leyst öll helstu vandamál lífeðlisfræði og þar með uppgötvað lækningu við öllum sjúkdómum. Kannski vissi hann aldrei hversu fjarstæðukennd þessi von var, því snöggur endi var bundinn á líf hans er hann tók þá óskynsamlegu ákvörðun að þiggja stöðu við sænsku hirðina. Kristín drottning heimtaði kennslutíma í heimspeki klukkan fimm á morgnana. Með þessu fyrirkomulagi fékk Descartes fljótt að kenna á hörku sænsks vetrar og lést árið 1650 úr einum þeirra sjúkdóma sem hann hafði til einskis vonað að lækning væri til við innan seilingar aðferða hans. Það var eitthvað undarlega og kaldhæðnislega viðeigandi við grafskriftina sem hann hafði valið sér að einkunnarorðum.

Dauðinn skaðar engan nema þann
sem skortir sjálfsþekkingu,
þótt allur heimurinn þekki hann of vel.

Illi mors gravis incubat
Qui, notus nimis omnibus
Ignotus moritur sibi.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Höfundur þessarar greinar, Anthony Kenny, er mikilvirkur og mikilsvirtur enskur heimspekingur. Hann hefur m.a. skrifað bókina Descartes: A Study of His Philosophy (1968) og tvær bækur um Wittgenstein. – Greinin er prentuð í The Heritage of Wisdom, safni ritgerða í sögu heimspekinnar eftir Kenny, en var upphaflega erindi flutt í Breska ríkisútvarpinu, BBC, (1978).

2. Úr þýðingu Magnúsar G. Jónssonar á Orðræðu um aðferð sem kom út í lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags 1991, með inngangi og skýringum eftir Þorstein Gylfason. – Kommusetningu er breytt.

3. Eftir enskri þýðingu Johns Cottinghams í The Philosophical Writings of Descartes, Volume II (Cambridge University Press, 1984). – Descartes skrifaði Hugleiðingarnar á latínu og voru þær þýddar á frönsku meðan hann lifði. Þýðing Cottinghams er gerð eftir latneska textanum. – Hugleiðingar um frumspeki komu út sem lærdómsrit hjá Bókmenntafélaginu árið 2001 í þýðingu Þorsteins Gylfasonar.

4. Í Annarri hugleiðingu segir Descartes: „ …ég er líka án efa til ef hann er að blekkja mig; og blekki hann mig eins og hann getur, hann mun aldrei koma því til leiðar að ég sé ekkert svo framarlega sem ég hugsa að ég sé eitthvað.“

 

« Til baka

Um merkingarfræði tilvísunarorða

eftir Kristian Guttesen

Bandaríski merkingarfræðingurinn og heimspekingurinn James Higginbotham hélt þrjá fyrirlestra við Háskóla Íslands dagana 15. – 16. júní 2009 um merkingarfræði tilvísunarorða.1 Hér mun ég gera grein fyrir efninu í ljósi fyrirlestra hans, útskýra þau hugtök sem gengið er út frá og fjalla um gagnrýni Higginbothams á svokallaða ,samhengistilfærslu’ franska heimspekingsins og mál­vísindamannsins Philippe Schlenkers. Að lokum mun ég setja framlag Higginbothams til við­fangsefnisins í samhengi við þróun málvísinda undanfarinna ára innan heimspekinnar.

1. De dicto og de re

Heimspekingar tala um að leggja megi tvennan skilning í setningar, annars vegar út frá því sem er sagt (de dicto) og hins vegar út frá hlutnum sem það er sagt um (de re). Dæmi:

Kata trúir að Jón Stefánsson hafi skrifað Dýrasögur.

Fyrri skilningurinn tekur til yrðingarinnar að Jón hafi skrifað Dýrasögur. Þetta þýðir að de dicto túlkunin er sú að Kata trúir þeirri yrðingu. Seinni skilningurinn tekur til skoðunar Kötu á Jóni sjálfum. Hún trúir einhverju um hann, nefnilega að hann sé höfundur Dýrasagna. Við vitum hins vegar ekki hvorn skilninginn við eigum að leggja í setninguna. Rýnum nánar í hana. Þó að Kata trúi að höfundur Dýrasagna sé Jón Stefánsson þá er ekki þar með sagt að hún viti að Jón Stefánsson sé Þorgils gjallandi (og trúi því að höfundur Dýrasagna sé Þorgils gjallandi). Ef við bentum henni á þetta, hvort værum við þá að leiðrétta de re skoðun hennar um Jón eða de dicto skoðun hennar um yrðinguna „Jón skrifaði Dýrasögur“? Hvort tveggja má heimfæra á hitt og í þessu felst merkingarfræðileg tvíræðni. Þannig er de re vitneskja ákveðin vitneskja um ákveðinn hlut, en de dicto vitneskja er hald­bær vitneskja sem án vandkvæða felur í sér ólíkar réttar túlkanir sama hlutar.2

2. De se

Þegar talað er um de se vitneskju er átt við vitneskju um mann sjálfan. Segjum að Jón Stefáns­son viti að Þorgils gjallandi hafi skrifað Dýrasögur, þá er hægt að hugsa sér de se vitneskju sem ekki er gefið að Jón Stefánsson búi yfir: Að hann sjálfur (sé Þorgils gjallandi og) hafi skrifað Dýra­sögur. Gefum okkur aðstæður þar sem Jón einhverra hluta vegna veit ekki að hann sjálfur er Þorgils gjallandi. Hann veit hver skrifaði Dýrasögur. En ef við bendum honum á að hann sé Þorgils gjallandi, þá öðlast hann enga nýja vitneskju um yrðinguna að „Þorgils gjallandi hafi skrifað Dýrasögur“, heldur bætist við eða „fullkomnast“ de se vitneskja hans um hana. Hann vissi alltaf að Þorgils gjallandi skrifaði sögurnar og þar af leiðandi vissi hann einnig að sá einstakling­ur sem hann er hafi skrifað þær. Hann vissi bara ekki hver þessi einstaklingur væri – að það væri hann sjálfur. Hann bjó ekki yfir þeirri tilteknu de se vitneskju. Af þessu má sjá að til að skera úr um sanna merkingu yrðingar verður að greina tengslin innan hennar á milli vísunar og um­sagnar.

3. Samhengi og afturvísun

Eins og Quine kemst að orði er tilvísun „tengsl einfaldrar umsagnar og sérhvers hlutar sem hún á við“.3 Tilvísunarorð4, sem í íslensku eru „sem“ og „er“, vísa til nafnorða, og að ensku lagi til setn­inga5, og tengja tilvísun við umsögn. Ábendingarorð er „orð sem ætlað er að benda á eitt­hvað en hefur ekki sjálfstæða hlutkennda merkingu“.6 Þegar tilvísun ber með sér þetta einkenni á­bendingarorða (sem þarf þó ekki að einskorðast eingöngu við ábendingarorð) er hætta á merkingarfræðilegri tvíræðni. Af þeim sökum ræðst merking tilvísunar stundum af samhengi (context). Dæmi:

 tilvísun            umsögn
    
 Í  dag  er  sólríkur  dagur.

Þetta þýðir að dagurinn á þeim degi sem setningin er sögð er sólríkur dagur. Og þannig skilj­um við tilvísunina „í dag“ – þ.e. dagurinn á þeim degi sem setningin er sögð.
Í sumum tilvikum hegða tilvísanir sér öðruvísi innan setningar heldur en ef þær stæðu einar og sér. Dæmi um þetta væri:

Á sunnudaginn í síðustu viku sagðist Mæja sjá eftir gærdeginum.

Eðlileg hegðun tilvísunarinnar „gærdagsins“ væri dagurinn á undan þeim degi sem setningin er sögð en í þessu samhengi, með tilvísun innan umsagnar, verður sú tilvísun að afturvísun (anaphora) sem í þessu samhengi merkir dagurinn á undan þeim degi sem umsögnin á við um. Merking tilvísana getur því ráðist af samhengi.
Higginbotham gagnrýnir tilraun Schlenkers og annarra málspekinga til að útskýra þetta fyrir­brigði sem samhengistilfærslu (context shift), þ.e. þegar tilvísun fær breytta merkingu í aðal­setningu og aukasetningu. Higginbotham segir að útskýra megi þetta sem afturvísun, þar eð samhengi yrðingar er það sem það er en ekki hvað sem er (og heldur í þeim skilningi, að minnsta kosti til bráðabirgða, fram innhyggju (internalism) um merkingu). Þannig felst enginn merkingarmunur í því að segja eitthvað de re um sjálfan sig og segja eitthvað de se, en til að undirstrika mismunandi túlkun setningarinnar setur Higginbotham (að hætti Chomskys) yrðing­una fram með FOR (núllfrumlagi)7:8

(i) Jóna býst við að hún muni vinna
(∃e) (fyrir x = Jóna) Býst við (x, e, að x vinnur)
(ii) Jóna býst við að FOR vinna
(∃e) (fyrir x = Jóna) Býst við (x, e, að viðfang e vinnur)

Í tilfelli (ii) vísar FOR til frumlags „móðursagnarinnar“, þ.e. frumlags sagnarinnar að „búast við“. Munurinn á því sem sagt er í (i) og (ii) er enginn, og túlkun viðfangs tilvísunarinnar er sú sama. Jóna býst við að sú sem Jóna er muni vinna.9 Vandamálið við þetta er aftur á móti að ef Jóna vissi ekki að hún að hugsaði þetta um sjálfa sig, þá legði hún sjálf annan skilning í yrðing­una – eða færi „aðra leið“ að niðurstöðunni – en sá sem hefði de re og de se samhengi setning­arinnar á takteinum. Það er með öðrum orðum ekki ljóst hvernig greina eigi muninn á milli de se og de re yrðinga um de se vitneskju (þetta verður skýrt nánar í kafla 5 hér að neðan). Þó að við­fangið sú sem Jóna er hefði aðra merkingu væri merking setningarinnar sú sama, en túlkun hennar háð samhenginu. Meðal þess sem Higginbotham og Schlenker greinir á um er hvaða þýðingu þetta hefur í för með sér. Sá síðarnefndi telur sig eins og áður segir hafa útskýrt þetta fyrirbrigði, en sá fyrrnefndi er ekki sannfærður um að svo sé. Áður en lengra er haldið er vert að skoða kenninguna sem Higginbotham gagnrýnir.

4. Samhengistilfærsla og skrímsli

Shlenker fjallar um svokölluð „skrímsli“, ábendingarorð sem hegða sér öðruvísi innan setningar heldur en ef þau stæðu ein og sér.10 Hann er að bregðast við skrifum bandaríska rökfræðing­sins og heimspekingsins Davids Kaplan sem í grein sinni um „ábendingarorð“ frá árinu 198911 segir að spurnarliður geti ekki stýrt merkingu ábendingarorðs í náttúrulegu tungumáli12, og verður því að álykta um það út frá samhengi.13 Svar Schlenkers felst meðal annars í því að at­huga hvað fyrstu persónu fornöfn gera innan setningar og hver munurinn á þeim og ábendingar­orðum er.14

(iv) Á einhverjum tímapunkti var sá sem mælti Jón.
T[ιx: M(x)] (x = Jón)
(v) Á einhverjum tímapunkti var ég Jón.
[ιx: M(x)]T (x = Jón)

Form setninganna er það sama en þar sem síðari setningin gerir þá kröfu til þess að hún sé rétt skilin, að viðfang hennar sé sami einstaklingur og sá sem mælir hana af vörum, þá breytist rök­fræðilegur ritháttur hennar eins og sést hér að ofan. Schlenker spyr hvað veldur. Fyrri setningin er skilin út frá því sem er sagt (de dicto) og sú seinni út frá hlutnum, þ.e. persónunni, sem það er sagt um (de re). Önnur útfærsla beggja setninga reynir að túlka merkinguna þannig að það beri að skilja hana út frá þeim tímapunkti sem setningin er sögð:15

(vi) Á einhverjum tímapunkti var sá sem mælti Jón.
[∃t: t < t*] [ιx: sá sem mælir setninguna af vörum (x, t)] (x = Jón)
(vii) Á einhverjum tímapunkti var ég Jón.
[∃t: t < t*] [ιx: sá sem mælir setninguna af vörum (x, t*)] (x = Jón)

Sá sem mælir setninguna af vörum getur aðeins hafa gert það á einum tímapunkti og á þeim tímapunkti gat einn og aðeins einn einstaklingur hafa verið sá sem það gerði. Hér er um að ræða ögn víðari túlkun en sett var fram á undan og er verið að fást við hvenær setningin getur verið sönn. Athygli vekur að ábendingarorðið ég getur bara skilist óháð samhengi í tilfellum (v) og (vii).16
Samkvæmt Schlenker verður hægt að eyða þessum merkingarmuni þegar tilvísunin tekur til samhengisins en ekki tímans, og í þessu felst skoðanamunur Kaplans og Schlenkers. Þannig segir hann lausn vandans að viðurkenna svokölluð samhengisskrímsli í tungumálinu og gera ráð fyrir að þau valdi merkingarmuni tilvísunarorða vegna samhengistilfærslu.17 Þessu and­mælir Higginbotham með því að beita sinni eigin greiningu á FOR, og tekur þannig ólíkan pól í hæðina en Kaplan.

5. Sérhugsanir og almennar yrðingar

Að sögn Higginbothams sýnir hið svokallaða Fodor-Thomson dæmi ((viii), (ix) og (x) hér að neðan) að hin hefðbundna merking FOR (og þar áður svokölluð „equi-NP útstrikun“) gerir ekki fullnægjandi röklega grein fyrir greiningu tiltekinna setninga. Í dæminu sem hér verður stuðst við væri ekki unnt að skilgreina ígildismagnvirkjann (quasi-quantifier) aðeins Björn M. Ólsen með FOR.18 Að framansögðu eru tengsl (eða skyldleiki ef við horfum á málið frá sjónarhóli Wittgen­steins) de se og de re yrðinga um de se vitneskju óljós. Til að eyða þeim vanda spyr Higgin­botham tveggja spurninga: (1) Hvert er eðli de se túlkana? (2) Hvaða skyldleika bera þær við notkun fornafna í fyrstu persónu eintölu?19
Higginbotham er þeirrar skoðunar að túlka verði fyrstu persónu sérhugsanir (reflexive thoughts) með FOR viðfangi þannig að þær sporni við rangtúlkun endurþekkingar (error through mis­identification).20 Þær lýsi reynslu sem maður verður fyrir og getur ekki með skynsamlegu móti dregið í efa að maður hafi sjálfur tekið þátt í. Ef við gefum okkur aðstæður þar sem „ég finn fyrir sársauka“, þá get ég velt því fyrir mér hvort það sem ég finn fyrir sé í raun og sanni sársauki en ég get ekki með skynsamlegu móti dregið í efa að það sé ég sem finn fyrir honum.21 Higgin­botham gerir hér greinarmun á ímyndun (imagining) og endurminningu (remembering). Ef endurminning felur í sér FOR þá er ljóst að maður rifjar upp atburðinn „innan frá“, þ.e.a.s. með auga þátttakandans. Endur­minnning með FOR er því meira „í fyrstu persónu“ en fyrstu persónu fornöfn og sérhugsanir.22 Lausn vandans, svo að skýra megi tengsl de se og de re yrðinga um de se vitneskju, þarf að búa yfir fimm eiginleikum, segir Higginbotham:23

(a) Að útskýra hvað sé sérkennandi fyrir hið merkingarfræðilega framlag (contribution) hins til­tekna FOR viðfangs.
(b) Þetta framlag ætti þegar í stað að gera greinarmun á eðli de se og de re túlkana.
(c) Eins ætti það að sporna við rangtúlkun endurþekkingar.
(d) Viðnám þess gegn rangtúlkun endurþekkingar í niðurskipan venjulegrar skynreynslu ætti að vera þannig úr garði gert að það komi fram sem sérstakt tilfelli.
(e) Að útskýra greinarmuninn á hinu „innra“ umfangi sem FOR gefur til kynna, og hinu eina hugsanlega „ytra“ umfangi sem venjuleg fornöfn og séryrðingar láta í té.

Lausnina segir Higginbotham vera rökfræðilegs eðlis og ætti hún jafnframt að útskýra á hvaða grundvelli de se túlkanir og viðnám gegn rangtúlkun endurþekkingar koma fram.24
Sýna verður fram á að túlka megi eftirfarandi tvær setningar á sama veg:

(viii) Aðeins Björn M. Ólsen flutti setningarræðu Háskóla Íslands.
(ix) Björn M. Ólsen minnist þess að hafa FOR flutt setningarræðu Háskóla Íslands.

Til að uppfylla öll skilyrðin verður túlkun beggja í þýðingu yfir á umsagnarmáli rökfræðinnar að hljóða svo:

(x) Aðeins Björn M. Ólsen minnist þess að hafa FOR flutt setningarræðu Háskóla Íslands.

Til að uppfylla öll þessi tilgreindu markmið verður að meðhöndla FOR sem „skyldubundna breytu25, eins og hér segir26:

(xi) (Fyrir x=Björn M. Ólsen) (∃e) Minnist þess [x, e, ^(λe´) flytja (σ(e) & θ(e´), setningarræða H.Í., e´)]
(xii) (∀x≠Björn M. Ólsen) ¬(∃e) Minnist þess [x, e, ^(λe´) flytja (σ(e) & θ(e´), setningarræða H.Í., e´)]

Þetta leiðir af sér hin tilfallandi skilyrði; þar sem e er inntak yrðingarinnar sem Björn M. Ólsen man og e´ er einhver hugsanlegur flutningur setningarræðunnar, er sjálfur Björn M. Ólsen rétti­lega einstaklingurinn sem „tekur þátt“ í atburðinum σ(e) og θ(e´). Þannig telur Higginbotham að með því að beita greiningu hans á FOR megi leiða tiltekna setningu í náttúrulegu máli af tveimur öðrum slíkum setningum, en slíkt hefur hingað til reynst öðrum kenningum ógjörningur.27 Við sjáum að minnsta kosti ögn gleggra28 hvert eðli de se túlkana er og með hvaða hætti þær bera skyldleika við notkun fornafna í fyrstu persónu eintölu.

6. Afturvísunarorð og endurþekking

Þegar eðlileg notkun afturvísunarorða (anaphoric indexicals) felur í sér breytta merkingu innan um­sagnar, heldur en ef þau stæðu ein og sér (líkt og í dæminu um Mæju sem á sunnudaginn í síðustu viku sagðist sjá eftir gærdeginum), er möguleiki á skertri endurþekkingu (identification). Í ólíkum mögulegum heimum er óvíst að forseti Íslands og Ólafur Ragnar Grímsson þekki sjálfan sig sem sama einstakling. De se setning verður staðbundin yrðing fyrir viðfang tilvísunarinnar. Higginbotham spyr hvað það sé að þekkja sjálfan sig sem vissa persónu (so-and-so). Svar hans er fólgið í því að skoða mengi mögulegra heima og sannleiksgildi yrðingar eins og „Ég trúi að ég hafi unnið í lottóinu.“ Í því sambandi segir hann í fyrirlestrinum að ekki sé hægt að draga ályktun um de se skoðun. Higginbotham gefur einnig de se merkingu afturbeygðra fornafna gaum, eins og „P dáist að sjálfum sér“ (de se skoðun sem er nauðsynlega meðvituð um eigið sjálf) og „Jón skammast sín“ (sama, því hér er um sérhugsun að ræða). Í fyrirlestrinum útskýrir hann setning­una á mannamáli sem „að standa sjálfan sig að því að hafa hagað sér forkastanlega, og að hafa það orð á sig í augum annarra“ – en auðvitað er yrðingin best orðuð sem svo að Jón skammist sín.

Meginniðurstaða Higginbothams í fyrirlestrunum var að ekki sé fótur fyrir samhengistilfærslu Schlenkers í „A Plea for Monsters“ (2003). „Það er aðeins sannleiksgildi í hinu mögulega sam­hengi,“ segir hann. Skrímsli Schlenkers (er valda samhengistilfærslu) eiga sér enga stoð í um­fjöllun Higginbothams. Innhyggja um merkingu tilvísunarorða í meðferð Higginbothams þýðir (með nokkurri einföldun) að setning í fyrstu persónu eintölu skírskoti til manns sjálfs, en setning í þriðju persónu eintölu til hins. Skoðun Schlenkers virðist einmitt stangast á við þetta atriði, ef sannleiksgildi setninga markast af samhengi þeirra (en ekki öfugt), og hlýtur það að koma fólki spánskt fyrir sjónir.
„Merkingin breytist ekki vegna samhengistilfærslu, heldur vegna breytingar hinnar sér­kennandi afturvísunar,“ en svo mörg voru lokaorð hans í þriðja og síðasta fyrirlestrinum.

7. Frá Wittgenstein til Higginbothams

Til eru þeir sem segja mál og merkingu vera viðfangsefni heimspekinnar ekki síður en mál­fræðinnar.29 Wittgenstein er einn af brautryðjendum nútíma málspeki. Ferill hans skiptist í tvo hluta, í þeim fyrri aðhyllist hann þá hugmynd að formgerð raunveruleikans ákvarði formgerð tungumálsins. Í þeim síðari að tungumálið stýri sýn okkar á veruleikann þar sem við sjáum hlutina í gegnum tungu­málið.30 Á einum stað segir Wittgenstein öll orð „eins og við beitum þeim við vísindaiðkanir [vera] ílát sem ekkert verður í látið nema merking og skilningur – náttúruleg merking og skilningur“.31 Það sem málspekingar á tuttugustu öld hafa einkum fengist við er að gera þessa náttúrulegu merkingu athafna og hluta skiljanlega innan ramma hins hlutlæga heims. Ekki er fráleitt að hugsa sér vinnu Higginbothams í fyrirlestrum sínum um málvísindi og heimspeki sem lóð á vogarskálar þeirrar viðleitni Wittgensteins til þess að skýra sýn okkar á veruleikann.

 

Aftanmálsgreinar

1. „Merkingarfræði tilvísunarorða“ er þýðing á enska hugtakinu indexical expressions, en það er yrðing sem felur í sér tilvísun og umsögn. „Tilvísunarorð“ (relative), sem skilgreint er neðar í textanum, er hluti af eða tenging í þeirri yrðingu. Hér verður ekki fjallað sérstaklega um „tilvísunarorð“ sem slík heldur um „merkingarfræði tilvísunarorða“ í þeim skilningi sem framangreind útskýring tekur til. Grein þessi er unnin upp úr ritgerð sem ég skrifaði fyrir námskeiðið Fyrirlestrar um málvísindi og heimspeki við Háskóla Íslands, sumarið 2010. Ég vil þakka Eyju Margréti Brynjarsdóttur, Matthew Whelpton og nafnlausum rýni fyrir gagn­legar ábendingar og aðstoð.

2. „Knowledge de re is knowledge of a particular thing, that it is thus and so; knowledge de dicto is know­ledge that something is the case where what is known could in principle be ‘realized‘ by different things“ (Blackburn, 2005: 95).

3. Quine, 1995: 11.

4. Einnig kallað „tilvísunartenging“, en þar sem tilvísunarorð fallbeygjast ekki má færa rök fyrir því að villandi sé að kalla þau „tilvísunarfornöfn“ eins og tíðkast hefur meðal ýmissa málfræðinga. Sjá nánar, t.d. grein Höskuldar Þráinssonar „Tilvísunarfornöfn?“ í Íslensku máli og almennri málfræði: 2. árgangi, 1980 (skoðað 21. október 2010), bls. 53 – 96.

5. Jón G. Friðjónsson, 2009; skoðað 11. september 2010. Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2005.

6. Þorsteinn Vilhjálmsson, 2006; skoðað 11. september 2010.

7. Núllfrumlagið „FOR“ (PRO) er það fyrirbæri þegar „fornafn“ er notað um frumlag sem er ósagt, en að einhverju leyti til staðar í setningunni – þ.e. „hugsað með“. Það kemur fyrir í nafnháttarsetningum og getur ýmist vísað til frumlags (subject controlled PRO) eða andlags (object controlled PRO) móðursetningar. Hér að neðan vitum við einungis út frá samhenginu í hvern fornafnið „sig“ vísar:

a) Jóna skipaði Gunnar [að FOR vanda sig]
b) Jóna skipaði Gunnar [að FOR láta sig í friði]

FOR er bundið við aukasetningar. Núllfrumlagið „for“ (ritað með litlum stöfum) kemur fyrir í aðalsetning­um með sögn í persónuhætti, en er ekki til umfjöllunar hér. Eiríki Rögnvaldssyni eru færðar þakkir fyrir gagngóðar ábendingar í tölvupósti í þessum efnum (Eiríkur Rögnvaldsson, 2010). Hægt er að lesa nánar um „FOR“ hér og um „for“ hér (í 3. kafla; skoðað 15. október 2010).

8. Í þeim rökfræðilega rithætti sem hér fer á eftir (og áfram í greininni) er rétt að útskýra nánar greiningu Higginbothams, en hún gengur út á svokallaða skömmtun (quantification) sem tekur til atburða (events). Aðferðin felur í sér að setja fram almenna yrðingu eða setningu, fyrst á náttúrulegu máli en jafnframt á máli háttarökfræðinnar, og sýna því næst fram á hvaða nauðsynlega breyting verður að eiga sér stað á hinum rökfræðilega rithætti ef smætta á tiltekin skilyrði atburðarinnar sem yrðingin tekur til. Einfalt dæmi um hvernig þetta er gert, væri eins og hér segir:

c) Jóna fer í skólann
fara í skólann (e) & Viðfang (x, e)
d) Jóna fer aldrei í skólann
[Aldrei e: C(e)] fara í skólann (Jóna, e)

Í þessu dæmi er magnvirkinn (quantifier) „aldrei“, sem þannig smættar hversu oft atburðurinn að fara í skólann á sér stað hjá viðfanginu Jónu.

9. Það sem Higginbotham á við er að setning (i) er nákvæmlega eins og setning (ii). Í fyrirlestrunum notar hann FOR til þess að hafa einhvern „tilvísanda“ eða viðfang tilvísunarinnar (referent) fyrir báðar sagnirnar. Í sumum tilvikum er viðfang (eða þema) tilvísunarinnar, þ.e. einstaklingurinn sem „tekur þátt“ í atburðinum, ekki frumlagið:

(iii) a. Jóna skipaði Gunnar að FOR fara í hlý föt
b. x skipaði yy fari í hlý föt

Vert er að geta þess að „expect“ í ensku getur aðeins haft andlag móðursagnarinnar sem FOR. Theó­dóru A. Torfadóttur eru færðar þakkir fyrir gagngóðar ábendingar í tölvupósti í þessum efnum (Theódóra A. Torfadóttir, 2009).

10. Schlenker, 2009; sjá, „0. Introduction“. Sjá einnig umfjöllun þýska málfræðingsins Arnim von Stechow um skrímsli Schlenkers (skoðað 15. október 2010).

11. Kaplan, 1989; greinin birtist fyrst 1977.

12. Schlenker, 2009; skoðað 11. september 2010.

13. Sjá einnig umfjöllun Eyju Margrétar Brynjarsdóttur um ábendingarorð á Vísindavefnum (skoðað 1. apríl 2010).

14. T er einhver tímapunktur. M er tjáning (utterance) eða það „að mæla orð af vörum“. Gríska táknið ι (iota) er notað um „einn og aðeins einn“.

15. Hér er t einhver tímapunktur og t* er sá tímapunktur sem setning er sögð eða mæld af vörum (utterance).

16. Schlenker, 2009; sjá, „0. Introduction“.

17. Schlenker, 2009; sjá, 5. „A Monster-Based Account“, 8. „Extensions“ og áfr.

18. Nafnlausum rýni er þakkað fyrir ábendingu um þetta atriði.

19. Higginbotham, 2003: 496-533; sjá, „1. Introduction“.

20. Lee, 2010: 752.

21. Sama rit.

22. Sama rit.

23. Higginbotham, 2003; sjá, „6. The Semantic Contribution of PRO“.

24. Sama rit.

25. Higginbotham, 2003: 496-533; sjá, „6. The Semantic Contribution of PRO“.

26. Í háttarökfræði er lambda-sértekning (lambda-quantification), λ, notuð til að skilgreina inntak yrðingar. Í dæminu sem hér fer á eftir þýðir það að setningarræða H.Í. er bundin við viðfangið Björn M. Ólsen. Gríska táknið θ (theta) gefur til kynna að yrðingin taki til tiltekinnar stöðu. Higginbotham segir að nota megi θ til að tákna mögulega heima. Táknið σ (sigma) er notað til að afmarka val í sjálfu inntakinu og gengur út frá að allt sem á eftir fylgir sé satt.

27. Nafnlausum rýni er þakkað fyrir ábendingu um þetta atriði.

28. Kafa mætti enn dýpra ofan í þessa umræðu. Hér verður ekki farið út í útfærslu de se túlkunar hinnar minnislausu stríðshetju sem telur sjálfa sig vera hetju (dæmið, sem er þekkt, var sett fram af Castañeda), en látið nægja að vísa í sömu heimild (sama rit).

29. Þorsteinn Gylfason, 1996: 16.

30. Pears, 1971: 13.

31. Wittgenstein, 1994: 52.

 

 

Heimildir

Blackburn, S. (2005). Oxford Dictionary of Philosophy (2nd. ed.). Oxford: Oxford University Press.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2010). „Re: Núllfumlag“. Tölvupóstur til Kristians Guttesen. 15. október 2010.
Higginbotham, J. (2003). Remembering and Imagining, and the First Person. Í A. Barber (Ritstj.), Epistemology of Language. Oxford: Oxford University Press.
Jón G. Friðjónsson. (2009). Íslenskt mál – 47. þáttur. Sótt af http://malfraedi.is/grein.php?id=54
Kaplan, D. (1989). Demonstratives. Í J. Almog, J. Perry og H. Wettstein (Ritstj.), Themes from Kaplan. Oxford: Oxford University Press.
Lee, E. (2010). „James Higginbotham, Tense, aspect, and indexicality“. J Linguistics, 46, 749-754.
Pears, D. (1971). Wittgenstein. Glasgow: Fontana Press.
Quine, W. v. O. (1995). Hvar greinir okkur á? (Ólafur Páll Jónsson þýddi). Í Ólafur Páll Jónsson og Haraldur Ingólfsson (ritstj.), Hugur. Reykjavík: Félag áhugamanna um heimspeki.
Schlenker, P. (2003). A Plea For Monsters. Linguistics and Philosophy.
Schlenker, P. (2009). A Plea for Monsters. Sótt 1. apríl 2010 af http://philpapers.org/rec/SCHAPF-4
Theódóra A. Torfadóttir. (2009). „RE: Spurning úr málvísindafyrirlestrinum hjá Higginbotham“. Tölvupóstur Kristians Guttesen. 20. ágúst 2009.
Wittgenstein, L. (1994). Fyrirlestur um siðfræði (Þorsteinn Gylfason þýddi). Í Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (ritstj.), Heimspeki á tuttugustu öld. Reykjavík: Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar.
Þorsteinn Gylfason. (1996). Að hugsa á íslenzku. Reykjavík: Heimskringla.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006). Ef þetta er spurning hvert er þá svarið? Sótt af
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6290