Eldri greinar komnar í gagnið

Vefstjóri Heimspekivefjarins hefur undanfarið varið kröftum í að fara í gegnum afrit af gamla vefnum. Við þessa vinnu hefur komið á daginn að nokkrar greinar urðu út undan þegar yfirfærslan átti sér stað fyrir enduropnun vefjarins. Á þetta hafa einnig glöggir lesendur bent. Ekki tekur því að tíunda hvað þessu olli, en í stuttu máli voru á tímibili ekki allar greinar aðgengilegar af efnisyfirliti gamla vefjarins. Við höfum nú tínt til flestar þessara greina (nokkrar eiga enn eftir að bætast við) og bætt þeim í veglegt greinasafn Heimspekivefjarins. Má þar telja ýmsar góðar greinar eftir okkar fremstu heimspekinga, einn leikdóm eftir Atla Harðarson og þrjár þýðingarperlur Gunnars Ragnarssonar.

Hér að neðan getur að líta heildarlista þeirra greina sem um ræðir, en þegar fleiri hafa bæst við munum við segja frá því á þessum vettvangi. Þeir sem nú rata inn á vefinn eru hvattir til að „gramsa“ í efnisyfirlitinu og skoða þær fjölmörgu og skemmtilegu greinar sem þar er að finna.

Þær greinar sem að undanförnu hafa komið í leitirnar eru:

 1. Vilhjálmur Árnason:
  Að velja sjálfan sig. Tilraunir Kierkegaards um mannlífið

 2. Jóhanna Þráinsdóttir:
  Er trúin þverstæða? Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

 3. Vilhjálmur Árnason:
  Við rætur mannlegs siðferðis. Siðagagnrýni og heilræði Friedrichs Nietzsche

 4. Kristján Árnason:
  „Bara flón! bara skáld!“ Heimspeki í molum eða molar um Nietzsche
  Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

 5. Róbert H. Haraldsson:
  Eftirmyndir Nietzsches
  Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

 6. Arthúr Björgvin Bollason:
  Stefnumót við Díonýsos. Nokkrir punktar um Nietzsche
  Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

 7. Matthew Ray:
  Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches
  Birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

 8. Atli Harðarson:
  Nietzsche og Dínamít
  Leikrit Birgis Sigurðssonar, Dínamít, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 2005. Efniviður þess er ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche, samband hans við systur sína, Elisabeth, og andleg hrörnun. Hér birtist gagnrýni Atla Harðarsonar á heimspeki­sögulegan þátt leikritsins, þ.e. á þá meinleysislegu mynd sem honum þykir þar vera dregin af hugsuðinum. Dómurinn birtist áður í Lesbók  Morgunblaðsins.

 9. Bryan Magee:
  Töfrar málspekinnar. Bernard Williams og Bryan Magee ræðast við
  Samræðan birtist upphaflega í Men of Ideas. Gunnar Ragnarsson þýddi.

 10. Anthony Kenny:
  Descartes fyrir byrjendur
  „Út allar miðaldir í Evrópu var Aristóteles hið óumdeilda kennivald í vísindum … Á fyrri helmingi sautjándu aldar breyttu verk franska heimspekingsins René Descartes þessu ástandi til frambúðar.“ – Í greininni „Descartes fyrir byrjendur“ fjallar breski heim­spekingurinn Anthony Kenny um helstu atriðin í kenningum franska heimspekingsins René Descartes. Gunnar Ragnarsson þýddi.

 11. Peter Kemp:
  Vísindi og skáldskapur
  Vísindaheimspeki tengja flestir við ákveðna höfunda sem virkir voru í hinum engilsaxneska heimi. Þó var alla hina 20. öld til sterk frönsk hefð í þessari grein með þeim Gaston Bachelard, Georges Canguilhem og Jean Cavaillès í fararbroddi. Þeir mótuðu ekki einungis kenningar margra síðari tíma spámanna, s.s. Foucaults og Althussers, heldur var Thomas Kuhn einnig undir áhrifum frá þeim. Hér birtist grein eftir Peter Kemp um Bachelard en hún kom áður út í TMM 1974. Einnig er þar greint frá öðru meginviðfangsefni verka hans, þ.e. hugleiðingum hans um skáldskap.

 12. Richard Dawkins:
  Góðar og vondar ástæður fyrir trú
  Bréf sem þróunarlíffræðingurinn og guðleysinginn Richard Dawkins ritaði handa 10 ára gamalli dóttur sinni. Í því reynir hann að skýra með einföldum hætti hvaða ástæður til að trúa einhverju teljist vondar, svo sem hefð, kennivald og opinberun. Ennfremur skýrir hann hvers vegna sterk innri tilfinning sé vandmeðfarin sem mælikvarði á réttar og rangar skoðanir. Af þeim sökum hvetur hann hana til þess að krefjast í hvívetna sannana eða góðra raka fyrir hverri þeirri skoðun sem aðrir vilji sannfæra hana um. Gunnar Ragnarsson þýddi.

 13. Jóhann Björnsson:
  Trúin, efinn og hið frumspekilega hjálparleysi
  Í þessum pistli veltir Jóhann Björnsson fyrir sér þeirri þverstæðu hversu margir trúleysingjar eða efahyggjumenn skuli taka þátt í trúarathöfnum þegar efi þeirra ætti einmitt að vera andstæða trúar. Í ljósi sögu okkar og menningar hafnar Jóhann því að slíkt sé einatt dæmi um hræsni. Hins vegar beinir hann athygli sinni að siðferðilegum rökum fyrir kostum trúarinnar sem og að meintum huggunaráhrifum hennar og bendir á takmarkanir hvorra tveggja.

 14. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson:
  Póststrúktúralismi, marxismi, femínismi: Að valda usla eða leita að höfuðmóthverfu?
  Í þessu erindi fjallar Ingólfur Ásgeir Jóhannesson um tengsl póststrúktúralisma, marxisma og femínisma. Fyrst er útskýrður munur hugtakanna póststrúktúralismi og póstmódernismi en aðallega snýst erindið um það hvernig femínistar og aðrir baráttusinnar geta haft gagn af hugmyndum sem kenna má við póststrúktúralisma, einkum þeim hugmyndum sem franski hugmyndasagnfræðingurinn Michel Foucault setti fram. Rætt er um hvernig marxísk leit að höfuðmóthverfu hefur glatað hluta af gildi sínu í fjölmenningarþjóðfélögum nútímans og um hvort vænta megi e.k. „póst-póst-isma“.
  Fyrirlestur fluttur á málstefnu Sagnfræðingafélags Íslands Póstmódernismi – hvað nú? þann 13. október 2000, sem haldin var í tengslum við hugvísindaþing 2000. Birtist einnig á Kistunni.

 15. Antonio Gramsci:
  Inngangsfræði heimspeki og sögulegrar efnishyggju: Nokkur byrjunaratriði
  Hugleiðing um „praxis-heimspeki“ úr svonefndum Fangelsisritum Antonios Gramsci. Slík heimspeki láti sér ekki nægja að endurspegla brjóstvit eða trúarbrögð manna og reyni heldur ekki að uppgötva nýjan sannleika að hætti „snillinga“. Henni sé þess í stað ætlað að „miðla með gagnrýni sannindum sem þegar hafa verið uppgötvuð, gera þau að félagseign … að andlegum og siðferðilegum hvötum“ þ.e. að „skapa nýja menningu“ og gera „einfaldar sálir … aðnjótandi æðri lífsskilnings“. Að baki henni liggur því val á heimsskilningi sem er fólgið í pólitískri athöfn og hlýtur þ.a.l. oftast að birtast sem „reikningsskil við þann hugsunarhátt sem ríkir“. Það er þó ýmsum vandkvæðum bundið fyrir „praxis-heimspekinga“ að hugsa fyrir fjöldann og ákveðnar hættur sem þarf að varast í þeim efnum. Greinin kom fyrst út í TMM 2/1975. Sigfús Daðason þýddi.

 16. Clarence E. Glad:
  Introduction to Philodemus’ On Frank Criticism
  Þetta er stytt útgáfa af innganginum í: Philodemus: On Frank Criticism. Introduction, Translation, and Notes eftir David Konstan, Diskin Clay, Clarence E. Glad, Johan C. Thom, and James Ware. Atlanta, Georgia 1988.