Heimspeki úr glatkistunni: Greinar úr sögu íslenskrar heimspeki

Á næstu mánuðum munu birtast hér á Heimspekivefnum, með nokkuð reglulegu millibili, greinar um heimspeki og heimspekileg efni eftir íslenska höfunda sem hafa að mestu legið í láginni frá því að þær komu fyrst fyrir almenningssjónir á síðari hluta nítjándu aldar.

Uppruna þessarar greinaraðar má rekja til námskeiðsins Þættir úr íslenskri heimspekisögu, sem var haldið haustið 2011 við Háskóla Íslands. Meðal þess sem nemendur námskeiðsins tókust á við, undir leiðsögn Gunnars Harðarsonar prófessors, var að velja sér grein úr sögu íslenskrar heimspeki til nánari athugunar og fræðilegrar ígrundunar.

Auk þess að gera sjálfan texta greinanna tölvutækan, sem auðveldar bæði frekari rannsóknir og miðlun þessa efnis, sáu nemendurnir einnig um að gera þær textaskýringar sem þóttu nauð­synlegar fyrir nútímalesendur. En síðast en ekki síst var hverri grein fylgt úr hlaði með fræðilegum inngangi þar sem gerð var grein fyrir höfundi hennar og (eftir því sem við var komið) bæði innra og ytra samhengi röksemda þeirra og afstöðu í heimspekilegu og heimspekisögulegu ljósi. Það er samdóma álit þeirra sem um hafa vélað að afrakstur þessarar vinnu eigi tvímælalaust erindi við bæði lærða og leikna á sviði heimspekinnar og Heimspekivefurinn kjörinn birtingarvettvangur.

Til að halda utan um ritstjórn þessa tiltekna verkefnis hefur Heimspekivefurinn fengið til liðs við sig Jakob Guðmund Rúnarsson (jgr2@hi.is). Fyrsta greinin „Heimspeki og guðfræði“ (1896) eftir Grím Thomsen (1820-1896) sem þau Íris Björk Jakobsdóttir og Snorri Haraldsson bjuggu til birtingar mun birtast innan skamms og svo mun hver gullmolinn reka annan eftir því sem líður á veturinn.