21. nóvember:
Alþjóðadagur heimspekinnar

eftir Gunnar Harðarson

UNESCO hefur lýst þriðja fimmtudag í nóvember alþjóðadag heimspekinnar. Með því er ætlunin að draga fram gildi heimspekinnar fyrir mannlega hugsun, fyrir menninguna og fyrir hvert og eitt okkar. Sérstök áhersla er lögð á að heimspekin geti höfðað til ungs fólk, þar sem hún stuðli að gagnrýninni og sjálfstæðri hugsun og geti þar með lagt fram skerf til betri skilnings á heiminum stuðlað að umburðarlyndi og friði milli manna. Jafnframt er hvatt til atburða og samræðna á heim­spekilegum nótum.

Það er kannski ekki augljóst að heimspeki eigi að geta höfðað til ungs fólks eða stuðlað að því að þroska ákveðna þætti skapgerðar og viðhorfa. Ef jafnvel sprenglærðustu doktorar eiga í erfið­leikum með að botna í Kant, Hegel eða Wittgenstein, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að heimspekin geti gert eitthvað fyrir börn og unglinga eða ungt fólk yfirleitt?

En það er heimspeki og heimspeki. Heimspekileg samræða þarf í sjálfu sér ekkert frekar á sögu heimspekinnar að halda frekar en öðrum ytri uppsprettum hugmynda. Heimspekilega spurningar spretta sjálfkrafa upp úr lífinu sjálfu, kannski ekki síst hjá börnum og unglingum. Brynjólfur frá Minna-Núpi segir skemmtilega frá því hvernig hinar heimspekilegu spurningar vakna með honum þegar hann er (að eigin sögn) á 8.-10. aldursári:

Fyrst framan af var umhugsunarefni mitt ekki annað en það, sem fyrir kom þá og þá stundina. Þó var það mjög snemma, að jeg fór að hugsa um sjálfan mig á sjerstakan hátt. Mjer var orðið það ljóst þá er jeg man fyrst, að jeg sjálfur var aðgreindur frá öllu öðru. … Jeg man glöggt, að í þessu tilliti var mesti mis­munur á því sem jeg vissi af. En í einu tilliti hvarf það þó alltsaman saman í eitt í huga mínum: það var alltsaman annað en jeg. … Og einna mest undraðist jeg það, að allir menn voru eins að því leyti, að enginn þeirra var jeg eða eins og jeg. Og jeg var öðruvísi en allri aðrir að því leyti, að jeg einn var jeg.1

Þó kemur að því að glíman við spurningarnar, hin innri samræða, leiðir hina heimspekilegu hugsun að ákveðinni lausn á vandanum sem við er að glíma:

Loksins rann það upp fyrir mjer, eins og sjálfkrafa, að jeg mundi ekki vera eins frábrugðinn öðrum mönnum og jeg hafði ætlað: Það mundi vera eins ástatt fyrir öllum mönnum, sem um sjálfa sig hugsuðu: hver einasti maður mundi hljóta að líta eins á sig gagnvart öllu öðru eins og jeg leit á mig gagnvart öðru.2

Og þessi niðurstaða leiðir síðan að enn annarri spurningu. Þannig vakna hinar heimspekilegu spurningar „sjálfkrafa“ við það eitt að vera til og hugsa um sjálfan sig, lífið og tilveruna. Það þarf ekki annað til. En þetta verða reyndar aldrei annað en innri samræður hjá honum. Þótt spurning­arnar vakni af sjálfu sér, fær Brynjúlfur að ekki tækifæri til að rækta hina heimspekilegu samræðu í umhverfi þar sem unnt hefði verið að ræða spurningarnar, skoða þær frá ýmsum sjónarhornum og gaumgæfa rökin fyrir mögulegum svörum. Hann vantar stað til að ræða hinar heimspekilegu hugmyndir, hann vantar skólastofu, heimspekikaffihús, eða gönguferð með öðrum sem vilja ræða spurningarnar með sama hætti, hann vantar Alþjóðlega heimspekidaginn!

Í heimspeki vakna spurningar af ólíkum ástæðum, en eitt lykilatriði í heimspeki er að það þarf að orða spurningarnar, koma hugmyndunum í orð, fylgja þeim eftir, rökræða þær. Þannig er mögu­legt að þroska hugsunina, og opna nýjar hliðar á umræðuefninu.

Heimspekileg samræða er einmitt sá staður þar sem unnt er að leggja rækt við þessa þætti. Þar er ekki tekið við skipunum eða setið undir eintali þess sem hæst glymur. Það eina sem hefur vægi er gildi röksemdanna. Í heimspekilegri samræðu hugsum við upphátt með öðrum, hún er einmitt samræða en ekki einræða, leit að sannleikanum, því að í heimspeki er enginn handhafi sannleikans.

Eins og Kristín H. Sætran leggur áherslu á í bók sinni, Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum, er það einmitt frjáls en öguð hugsun heimspekinnar sem getur tekið allt til umræðu, jafnt per­sónulega reynslu sem almenn sannindi, sem ætti að geta höfðað til ungs fólks og veitt því „þjálfun í að takast á við óvissu í spurn, forvitni, frelsi og ögun“ og stuðlað að virðingu fyrir öðrum sem hugsandi verum.

Aftanmálsgreinar

1. Brynjúlfur Jónsson, Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna (Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1912), bls. 7.

2. Sama rit, bls. 9.