Færslusöfn

Góðar og vondar ástæður fyrir trú

eftir Richard Dawkins1

Elsku Júlía,

Þar sem þú ert orðin tíu ára langar mig til að skrifa þér um dálítið sem skiptir mig máli. Hefurðu nokkurn tíma velt því fyrir þér hvernig við vitum það sem við vitum? Hvernig vitum við, til dæmis, að stjörnurnar sem líta út eins og örlítil nálargöt á himninum eru í raun og veru gríðarstórir eldhnettir eins og sólin og mjög langt í burtu? Og hvernig vitum við að jörðin er minni hnöttur sem snýst kringum eina af þessum stjörnum, sólina?

Svarið við þessum spurningum er ‘sannanir’. Stundum merkir þetta orð, sannanir, í rauninni að sjá (eða heyra, finna, lykta …) að eitthvað er satt. Geimfarar hafa farið nógu langt frá jörðinni til að sjá með eigin augum að hún er hnöttótt. Stundum þurfa augun á hjálp að halda. ‘Kvöldstjarnan‘ lítur út eins og bjartur glampi á himninum en með sjónauka sjáum við að hún er fallegur hnöttur – reikistjarnan sem við köllum Venus. Eitthvað sem við lærum með því að sjá það beint (eða heyra það eða finna það …) er kallað athugun.

Oft eru sannanir ekki bara athugun út af fyrir sig, en athugun býr þeim alltaf að baki. Hafi morð verið framið er það oft svo að enginn sá það (nema morðinginn og sá sem dó!). En rann­sóknarlögreglumenn geta safnað saman mörgum öðrum athugunum sem allar geta bent til þess að ákveðinn maður sé grunaður. Ef fingraför manns passa við þau sem finnast á rýtingi þá sannar það að hann hafi snert hann. Það sannar ekki að hann hafi framið morðið en það getur komið að gagni þegar það er tengt mörgum öðrum sönnunargögnum. Stundum getur rann­sóknarlögreglumaður hugleitt heilan helling af athugunum og allt í einu gert sér ljóst að þær koma allar heim og saman og eru skiljanlegar ef viss persóna framdi morðið.

Vísindamenn – sérfræðingarnir í að uppgötva sannleikann um jörðina og heiminn – vinna oft eins og rannsóknarlögreglumenn. Þeir koma með ágiskun (sem kallast tilgáta) um hvað kynni að vera satt. Síðan segja þeir við sjálfa sig: Ef þetta væri í raun og veru satt þá ættum við að sjá þetta og annað. Þetta kallast forsögn eða spá. Til dæmis, ef jörðin er í raun og veru hnöttótt þá getum við sagt fyrir um að ferðamaður sem héldi stöðugt áfram í sömu átt mundi að lokum koma aftur þangað sem hann lagði af stað. Þegar læknir segir að þú sért með mislinga lítur hann ekki á þig í eitt skipti og sér mislinga. Við fyrstu athugun dettur honum í hug sú tilgáta að þú kunnir að vera með mislinga. Síðan segir hann við sjálfan sig: Ef hún er í raun og veru með mislinga þá ætti ég að sjá þetta og þetta og … Síðan fer hann yfir þennan lista af spám og prófar þær með augunum (Ertu með bletti?); með höndunum (Er ennið á þér heitt?), og eyrunum (Heyrist soghljóð þegar þú andar, sem lýsir sér eins og þú værir með mislinga?). Þá fyrst kveður hann upp úrskurð og segir: „Ég greini að barnið er með mislinga.“ Stundum þurfa læknar að gera aðrar rannsóknir eins og blóðrannsókn eða röntgenrannsókn sem hjálpa augum þeirra, höndum og eyrum við að gera athuganir.

Hvernig vísindamenn nota sönnunargögn til að fræðast um heiminn er langtum snjallara og flóknara en ég get sagt í stuttu bréfi. En nú vil ég hverfa frá sönnunum og sönnunargögnum, sem eru góð ástæða til að trúa einhverju, og vara þig við þremur vondum ástæðum til að trúa hverju sem er. Þær kallast ‘hefð‘, ‘kennivald‘ og ‘opinberun‘.

Byrjum á hefðinni. Fyrir nokkrum mánuðum fór ég í sjónvarpið til að ræða við um fimmtíu börn. Þessum börnum var boðið vegna þess að þau höfðu verið alin upp við mörg ólík trúarbrögð. Sum höfðu verið alin upp sem kristið fólk, önnur sem gyðingar, múslímar, hindúar eða sikhar. Maðurinn með hljóðnemann fór frá barni til barns og spurði þau hverju þau tryðu. Það sem þau sögðu sýnir nákvæmlega hvað ég á við með ‘hefð‘. Trú þeirra reyndist ekki hafa nein tengsl við sannanir eða rök. Þau romsuðu bara upp úr sér trúarskoðunum foreldra sinna og afa og ömmu sem voru ekki heldur reistar á sönnunum eða rökum. Þau sögðu til dæmis: „Við hindúar trúum þessu og þessu“; „Við múslímar trúum þessu og þessu“; „Við sem erum kristin trúum einhverju öðru.“

Auðvitað gátu þau ekki öll haft á réttu að standa þar sem þau trúðu öll ólíkum hlutum. Maðurinn með hljóðnemann virtist álíta þetta alveg rétt og tilhlýðilegt og hann reyndi ekki einusinni að fá þau til að rökræða hvert við annað um þessi ólíku trúaratriði. En núna er þetta ekki aðalatriðið. Ég vil einfaldlega spyrja hvaðan trúarskoðanir þeirra komu. Þær komu frá hefð. Hefð merkir trú og skoðanir sem eru látnar ganga að erfðum frá afa og ömmu til foreldra, til barna og þar fram eftir götunum. Eða þær komu úr bókum sem hafa gengið frá einni kynslóð til annarrar í aldanna rás. Hefðbundin trú á sér oft upphaf í næstum engu; einhver býr hana kannski bara til upphaflega, eins og sögurnar um Þór og Seif. En eftir að þær hafa gengið mann fram af manni í nokkrar aldir virðast þær eitthvað sérstakar einungis vegna þess að þær eru svo gamlar. Fólk trúir hlutum einfaldlega vegna þess að það hefur trúað þeim öldum saman. Þetta er hefðin.

Gallinn við hefðina er sá að sama hve langt er liðið síðan saga var búin til þá er hún enn nákvæmlega jafn sönn eða ósönn og upphaflega sagan var. Ef maður býr til sögu sem er ekki sönn þá gerir það hana ekkert sannari þótt hún gangi mann fram af manni í eins margar aldir og vera skal!

Flest fólk í Englandi hefur verið skírt inn í ensku þjóðkirkjuna en hún er aðeins ein af mörgum deildum kristinnar trúar. Það eru til aðrar deildir eins og rússneska rétttrúnaðarkirkjan, rómversk-kaþólska kirkjan og meþódistakirkjan. Þær trúa allar ólíkum hlutum. Gyðingatrú og múslímatrú eru þó ögn ólíkari, og það eru til ólíkar tegundir gyðinga og múslíma. Fólk sem trúir jafnvel örlítið mismunandi hlutum fer í stríð út af ágreiningnum. Það mætti því halda að það hlyti að hafa nokkuð góðar ástæður – sannanir – til að trúa því sem það trúir. En í rauninni stafar ólíkur átrúnaður þess eingöngu af ólíkum hefðum.

Við skulum tala um eina ákveðna hefð. Rómersk-kaþólskir menn trúa því að María, móðir Jesú, hafi verið svo sérstök að hún hafi ekki dáið heldur hafi hún hafist upp til himna í líkamanum. Aðrar kristnar hefðir eru ósammála þessu og segja að María hafi dáið eins og allir aðrir. Þessar trúar­hefðir tala ekki mikið um hana og ólíkt hinni rómversk-kaþólsku kalla þær hana ekki ‘himna­drottninguna‘. Sú hefð að líkami Maríu hafi hafist upp til himna er ekki mjög gömul. Biblían segir ekkert um hvernig eða hvenær hún dó; reyndar er aumingja konan varla nefnd í biblíunni. Sú trú að líkami hennar hæfist upp til himna var ekki hugsuð upp fyrr en um það bil sex öldum eftir tíma Jesú. Í fyrstu var hún bara búin til á sama hátt og aðrar sögur eins og til að mynda ‘Mjallhvít‘ var búin til. En í aldanna rás varð hún að hefð og fólk fór að taka hana alvarlega einfaldlega vegna þess að sagan hafði gengið mann fram af manni í svo margar kynslóðir. Því eldri sem hefðin varð því flera fólk tók hana alvarlega. Að lokum var hún skrifuð niður sem opinber rómversk-kaþólsk trú aðeins fyrir skemmstu, eða árið 1950, þegar ég var á þínum aldri. En sagan var ekkert sannari árið 1950 en hún var þegar hún var fyrst búin til sex hundruð árum eftir dauða Maríu.

Ég kem aftur að hefðinni í lok bréfsins og lít á hana með öðrum hætti. En fyrst má ég til með að fjalla um tvær aðrar vondar ástæður til að trúa hverju sem er, en þær eru kennivald og opinberun.

Kennivald, sem ástæða til að leggja trúnað á eitthvað, merkir að trúa því af því að einhver hátt­settur maður segir manni að trúa því. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni er páfinn æðstur manna og fólk heldur að hann hljóti að hafa rétt fyrir sér bara af því að hann er páfinn. Í einni deild múslímatrúarinnar er háttsetta fólkið gamlir karlar með skegg sem kallaðir eru höfuðklerkar. Fjöldi múslíma hér á landi eru reiðubúnir að fremja morð eingöngu vegna þess að höfuð­klerkarnir í fjarlægu landi segja þeim að gera það.

Þegar ég segi að það hafi ekki verið fyrr en 1950 sem rómversk-kaþólsku fólki var loks sagt að það yrði að trúa því að líkami Maríu hafi skotist upp til himna á ég við að árið 1950 sagði páfinn fólki að það yrði að trúa því. Þar við sat. Páfinn sagði að það væri satt svo að það hlaut að vera satt! Nú, sennilega hefur sumt af því sem páfinn sagði um sína ævidaga verið satt og sumt ekki. Engin góð og gild ástæða er fyrir því að maður ætti að trúa öllu sem hann sagði, bara af því að hann var páfinn, frekar en maður trúir öllu sem fjöldi annarra manna segir. Núverandi páfi hefur skipað fylgismönnum sínum að takmarka ekki barneignir sínar. Ef fólk fer eftir kennivaldi hans eins auðmjúklega og hann mundi óska gætu afleiðingarnar orðið skelfileg hungursneyð, sjúk­dómar og styrjaldir sem orsökuðust af of miklum fólksfjölda.

Auðvitað er það þannig, jafnvel í vísindunum, að stundum höfum við sjálf ekki séð sönnunar­gögnin eða sannanirnar og verðum að hafa það fyrir satt sem einhver annar segir. Ég hef ekki séð með eigin augum sannanirnar fyrir því að ljós fari með 300 þúsund kílómetra hraða á sekúndu. Í staðinn trúi ég bókum sem segja mér hver ljóshraðinn er. Þetta lítur út eins og ‘kennivald‘. En í raun og veru er það langtum betra en kennivald vegna þess að fólkið sem skrifaði bækurnar hefur séð sönnunargögnin og öllum er frjálst að skoða gögnin vandlega hvenær sem þeir vilja. Þetta er mjög hughreystandi. En ekki einusinni prestarnir halda því fram að til séu neinar sannanir fyrir sögu þeirra að líkami Maríu hafi svifið upp til himna.

Þriðja tegund vondrar ástæðu til að trúa hverju sem er kallast ‘opinberun‘. Hefði maður spurt páfann árið 1950 hvernig hann vissi að líkami Maríu hefði horfið upp til himna mundi hann sennilega sagt að það hafi ‘opinberast‘ sér. Hann lokaði sig inni í herberginu sínu og bað til Guðs um leiðsögn. Hann hugsaði og hugsaði, alveg út af fyrir sig, og hann varð vissari og vissari innra með sér. Þegar trúað fólk hefur bara tilfinningu innra með sér um að eitthvað hljóti að vera satt kallar það tilfinninguna ‘opinberun‘. Það eru ekki aðeins páfar sem halda því fram að þeir fái opinberanir. Fjöldi trúaðs fólks gerir það. Það er ein aðalástæða þess fyrir að trúa því sem það trúir. En er það góð ástæða?

Setjum svo að ég segði þér að hundurinn þinn væri dauður. Þér yrði mikið um þetta og þú mundir líklega spyrja: „Ertu viss? Hvernig veistu það? Hvernig gerðist það?“ Setjum nú svo að ég svaraði: „Ég veit reyndar ekki hvort Peppi er dauður. Ég hef engar sannanir. Ég hef bara þessa skrýtnu tilfinningu djúpt innra með mér að hann sé dauður.“ Þú yrðir allreið út í mig fyrir að hræða þig af því að þú vissir að innri ‘tilfinning‘ ein sér er ekki góð ástæða til að trúa að hundur sé dauður. Maður þarf sannanir. Við höfum öll innri tilfinningar annað veifið og stundum reynast þær réttar og stundum ekki. Hvað sem því líður, ólíkt fólk hefur gagnstæðar tilfinningar svo hvernig eigum við þá að skera úr um hver hafi réttu tilfinninguna? Eina leiðin til að vera viss um að hundur sé dauður er að sjá hann dauðan eða heyra að hjartað er hætt að slá, eða að einhver sem hefur fengið áreiðanlegar sannanir segi manni að hann sé dauður.

Stundum segir fólk að maður verði að trúa á tilfinningar djúpt innra með sér, annars yrði hann aldrei fullviss um hluti eins og „Konan mín elskar mig.“ En þetta er vond röksemd. Það geta verið nægar sannanir fyrir því að einhver elski mann. Daginn út og daginn inn þegar maður er með einhverjum sem þykir vænt um mann sér hann og heyrir marga litla sannanamola og þeir leggjast allir saman. Það er ekki eingöngu innri tilfinning eins og tilfinningin sem prestar kalla opinberun. Það eru ytri hlutir sem veita innri tilfinningunni stuðning: augnaráð, blíður raddblær, smágreiðar og annar vinsemdarvottur. Allt þetta er raunverulegar sannanir.

Stundum hefur fólk sterka innri tilfinningu um að einhver elski það þótt hún byggist ekki á neinum sönnunum og þá er líklegt að það hafi algerlega á röngu að standa. Til er fólk með sterka innri tilfinningu um að fræg kvikmyndastjarna elski það þótt kvikmyndastjarnan hafi ekki einusinni séð það í raun og veru. Slíkt fólk er andlega sjúkt. Innri tilfinningar verða að vera studdar sönnunum, annars er bara ekki hægt að treysta þeim.

Innri tilfinningar skipta líka máli í vísindunum en einungis til að gefa manni hugmyndir sem hann prófar seinna með því að leita sannana. Vísindamaður getur haft ‘grun‘ um hugmynd sem honum bara ‘finnst‘ rétt. Í sjálfu sér er þetta ekki góð ástæða fyrir að trúa einhverju. En það getur verið góð ástæða til að verja dálitlum tíma til gera ákveðna tilraun eða til að leita á ákveðinn hátt að sönnunum. Vísindamenn nota stöðugt innri tilfinningar til að fá hugmyndir. En þær eru einskis virði fyrr en þær eru studdar sönnunum.

Ég lofaði að koma aftur að hefðinni og skoða hana á annnan hátt. Mig langar til að reyna að út­skýra hvers vegna hefðin er svona mikilvæg fyrir okkur. Öll dýr eru byggð (af ferli sem kallast þróun) til að lifa á þeim stað þar sem tegund þeirra á venjulega heima. Ljón eru byggð til að vera hæf til að lifa á sléttum Afríku. Vatnakrabbar eru byggðir til að vera hæfir til að lifa í fersku vatni, en humrar eru hins vegar byggðir til að vera hæfir til að lifa í söltum sjó. Fólk er líka dýr og við erum byggð til að vera hæf til að lifa í heimi fullum af … öðru fólki. Fæst okkar veiða sér til matar eins og ljón eða humrar; við kaupum matinn af öðru fólki sem hefur keypt hann af enn öðru fólki. Við ‘syndum‘ gegnum ‘sjó af fólki‘. Alveg eins og fiskur þarf tálkn til að lifa í vatni þarf fólk heila til að gera það fært um að eiga samskipti við annað fólk. Alveg eins og sjórinn er fullur af söltu vatni er fólkssjórinn fullur af erfiðum hlutum sem þarf að læra. Eins og tungumálinu.

Þú talar ensku en vinkona þín Ann-Kathrin talar þýsku. Hvor ykkar talar það mál sem gerir ykkur hæfar til að ‘synda um‘ í ykkar eigin sérstaka ‘fólkssjó‘. Hefðin flytur tungumálið frá einni kynslóð til annarrar. Það er engin önnur leið. Í Englandi er Peppi ‘a dog‘. Í Þýskalandi er hann ‘ein Hund‘. Hvorugt þessara orða er réttara eða sannara en hitt. Bæði ganga einfaldlega að erfðum frá kynslóð til kynslóðar. Til þess að vera fær um ‘að synda um í fólkssjó sínum‘ verða börn að læra tungumál lands síns og helling af öðrum hlutum um sína eigin þjóð, og þetta þýðir að þau verða að drekka í sig, eins og þerripappír, gífurlegt magn af hefðbundnum fróðleik. (Mundu að hefðbundinn fróðleikur merkir bara hluti sem eru látnir ganga að erfðum frá öfum og ömmum til foreldra, til barna.) Heili barnsins verður að gleypa við hefðbundnum fróðleik. Og ekki er hægt að búast við að barnið skilji góðan og gagnlegan fróðleik, eins og orðin í tungumáli, frá vondum eða heimskulegum fróðleik eins og trú á nornir og djöfla og eilífar jómfrúr.

Það er leiðinlegt, en það er óhjákvæmilegt, að vegna þess að börn verða að gleypa við hefðbundnum fróðleik þá er líklegt að þau trúi öllu sem fullorðnir segja þeim, hvort sem það er satt eða ósatt, rétt eða rangt. Mikið af því sem fullorðnir segja þeim er satt og á rökum reist, eða það er að minnsta kosti skynsamlegt. En sé sumt af því ósatt, heimskulegt eða jafnvel andstyggilegt getur ekkert komið í veg fyrir að börnin trúi því líka. Þegar börnin svo vaxa úr grasi hvað gera þau? Nú, vitanlega segja þau það næstu kynslóð barna. Svo að þegar farið er að leggja eindreginn trúnað á eitthvað – jafnvel þótt það sé ósatt með öllu og það hafi aldrei verið nein ástæða til að trúa því – þá getur það haldið áfram um aldur og ævi.

Getur þetta verið það sem hefur gerst með trúarbrögð? Trú á tilveru guðs eða guða, trú á himnaríki, sú trú að María hafi aldrei dáið, sú trú að Jesús hafi ekki átt mannlegan föður, sú trú að við séum bænheyrð, sú trú að vín breytist í blóð – ekkert af þessum átrúnaði hefur við nein góð rök að styðjast. Samt leggja milljónir manna trúnað á þetta. Kannski það sé vegna þess að þeim var sagt að trúa því þegar þeir voru nógu ungir til að trúa hverju sem er.

Milljónir annarra manna trúa allt öðrum hlutum vegna þess að þeim var sagt annað þegar þeir voru börn. Múslímabörnum eru sagðir aðrir hlutir en kristnum börnum og bæði vaxa úr grasi alveg sannfærð um að þau hafi á réttu að standa og hinir hafi rangt fyrir sér. Jafnvel innan kristninnar trúa rómversk-kaþólskir menn öðrum hlutum en fólk í ensku þjóðkirkjunni eða biskupa­kirkjumenn, hristarar eða kvekarar, mormónar eða hvítasunnumenn, og allir eru fullkomlega sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér og hinir rangt. Þeir trúa ólíkum hlutum af nákvæmlega sams konar ástæðu og þú talar ensku og Ann-Kathrin talar þýsku. Í sínu eigin landi eru bæði málin rétta málið til að tala. En það getur ekki verið satt að ólík trúarbrögð séu rétt í sínum löndum vegna þess að ólík trúarbrögð halda því fram að gagnstæðir hlutir séu réttir. María getur ekki verið á lífi í hinu kaþólska Suður-Írlandi en dáin í Norður-Írlandi mótmælenda.

Hvað getum við gert í öllu þessu? Það er ekki auðvelt fyrir þig að gera neitt af því að þú ert ekki nema tíu ára. En þú gætir reynt þetta. Næst þegar einhver segir þér eitthvað sem virðist mikilvægt hugsaðu þá með sjálfri þér: „Er þetta eitthvað sem fólk veit kannski vegna sannana? Eða er það eitthvað sem fólk trúir einungis vegna hefðar, kennivalds eða opinberunar?“ Og næst þegar einhver segir þér að eitthvað sé satt hvers vegna ekki að segja við hann: „Hvers konar sannanir eru fyrir þessu?“ Og ef hann getur ekki gefið þér gott svar vona ég að þú hugsir þig mjög vandlega um áður en þú trúir orði af því sem hann segir.

Með ástarkveðju,

pabbi

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Höfundur þessa ‘bréfs’, Richard Dawkins, er þróunarlíffræðingur og prófessor við Oxford-háskóla. Fyrsta bók hans, The Selfish Gene (Eigingjarna genið) sem kom út 1976, fjallaði um það sem nú er kallað félagslíffræðilega byltingin. Hann er annálaður fyrir frumlegar hugmyndir og skýra framsetningu. Þekktastur mun Dawkins vera fyrir bókina The Blind Watchmaker (Blindi úrsmiðurinn) sem kom fyrst út 1986. Báðar þessar bækur eru metsölubækur. ‘Bréfið‘ birtist í bókinni How Things Are: A Science Tool-Kit for the Mind sem kom út í Bretlandi árið 1995. Í bókinni eru 34 stuttar ritgerðir eftir jafnmarga höfunda sem hver fjallar um eitthvert grundvallarhugtak á sínu sviði. Þýð.

« Til baka

Grímur manns og heims

eftir Vilhjálm Árnason

Grímur manns og heims

 

Látbragðslistin í heimspeki Nietzsches1

Nietzsche notar ekki oft hugtakið „gríma“ í verkum sínum, en það er áberandi í hvert sinn sem því bregður fyrir. En þótt orðið sé sjaldgæft sést við nánari skoðun að hugtök sem tengjast grímunni, á borð við látbragð, blæja, skikkja, hlutverk, leikrit og leikur gegnsýra textann. Ætlun mín í þessari ritgerð er að sýna að þessi hugtök „látbragðslistarinnar“ séu mikilvæg til skilnings á heimspeki Nietzsches. Notkun hans á grímutengdum orðum er afar þýðingarmikil bæði fyrir hugsun hans um eðli veruleikans og einnig fyrir endurmat hans á tilvist manna og gildum. Meginkostur þess að ræða hugsun Nietzsches í ljósi grímunnar er hin djúpa margræðni þessa hugtaks. Það er sífelld spenna milli þeirra eiginleika grímunnar að afhjúpa og að fela og þessir tveir eiginleikar eru ekki andstæður heldur samtvinnaðir. Þrátt fyrir að yfirhylming sé megineinkenni hennar er hún hún líka leið að sannleikanum: Hún getur bæði staðið fyrir blekkingu og það sem Nietzsche kallar „sanna blekkingu“. Hana má nota til að fela og flýja en einnig til að leiða í ljós og skapa.

Viðhorf Nietzsches til veruleikans er af ætt Heraklítosar: Allt er á stöðugri hreyfingu og undirselt látlausri verðandi. Það er engin greinarmunur á ‘sýnd’ og ‘reynd’; veruleikinn er eins og hann er skynjaður í lifaðri reynslu. Allar hugmyndir um veru í sjálfri sér utan og ofan við skynheiminn, sem svo mjög setja svip sinn á vestræna frumspeki, eru af rót tómhyggjunnar. Þær eru til marks um óhæfilegar kröfur um algilda og örugga þekkingu og um skort á sálarstyrk til að gangast við veruleikanum eins og hann er. En með því að segja að sýndin sé allt sem er, felst Nietzsche ekki á þá raunhyggju sem telur sig finna merkingarbærar skynreyndir í beinni reynslu. Frá bæjardyrum Nietzsches er ekkert „þarna“ sem hægt er að endurspegla á þennan hátt; um leið og sýndin tekur á sig form og mynd þá er hún ekki „empírísk staðreynd“ heldur túlkun. Ég kalla þessar túlkanir veruleikagrímur og í raun eru þær grímur hvata okkar:

Setjum nú svo að ekkert sé raunverulega „gefið“ nema veröld okkar eigin langana og ástríðna og við komumst hvergi niður né upp til neins annars „veruleika“ en veruleika eigin hvata – því hugsunin er ekkert annað en samspil þessara hvata.2

Við erum aldrei hlutlausir skoðendur andspænis hlutlægum heimi. Með því að láta vilja okkar til sín taka í veröldinni erum við fremur virkir skapendur veruleikans. En þar eð veruleikagrímurnar hafa stirnað, gleymir manneskjan framlagi sínu og fer að trúa því að heimurinn sé sannur eins og hann er:

einungis vegna þess að mannskepnan gleymir sjálfsveru sinni, listrænt skapandi sjálfsveru sinni, býr hún við sæmilega ró, öryggi og samkvæmni.3

Stundum segir Nietzsche að það að vera maður sé að meta og túlka. Hann talar um hvötina „til að skapa myndhverfingar“ sem „frumþörf manneskjunnar“4; sem manneskjur nærumst við á merkingu og gildum. Þetta grundvallareinkenni mannlegrar tilvistar, að skapa úr skynbrotum verðandinnar merkingarbært form, felur samkvæmt Nietzsche ávallt í sér blekkingu að einhverju marki – blekkingu af ætt grímunnar. Máttur okkar til að breiða yfir eðli veruleikans um leið og við leiðum hann í ljós er innbyggður í sjálfan hátt okkar á að hugtaka heiminn og í boðskiptum okkar; hann á rætur í eðli tungumálsins. Með tungumálinu skipuleggjum við veruleikann, sem í eðli sínu er síkvik verðandi. Rétt eins og það sé okkur lífsnauðsyn að negla hlutina niður á þennan hátt þrengjum við flokkunum hugans, á borð við samsemd, líkindum og andstæðum, upp á það sem birtist okkur. Raunar telur Nietzsche þetta mannlegu lífi nauðsyn vegna þess að tungumálið gerir tjáskipti möguleg með samsömun og reglubindingu veruleikans.

Öll hugtök verða til við samsömun þess sem er ekki eins. […] Maðurinn sem skynsemisvera lætur sértekninguna stjórna athöfnum sínum: Hann þolir ekki lengur að hrífast og gefa sig á vald óvæntum áhrifum og skynjunum, heldur alhæfir og aflitar þessi áhrif og færir í kaldan hugtakabúning sem hann síðan spennir fyrir vagn lífs síns og athafna. […] Við getum ekki annað en dáðst að því hvílíkur völundarsmiður mannskepnan er að reisa jafn óendanlega flókna hugtakahvelfingu á hreyfanlegum undirstöðum, svo að segja á rennandi vatni.5

Auk þessa óhjákvæmilega grímueiginleika tungumálsins hafa túlkanir trúarbragða, frumspeki og þekkingarfræði smám saman tekið sér bólfestu í því og fyllt það villandi hugmyndum um mann og heim. Þess vegna þarf að

þýða manninn aftur yfir í náttúruna, ná valdi yfir ótölulegum hégómlegum og öfgakenndum túlkunum og aukamerkingum sem búið er að krota og mála yfir hinn eilífa frumtexta homo natura6

Í tungumálinu afhjúpast heimurinn og manneskjan en vegna þessara tálmynda eru þau líka falin eða grímuklædd. Vitnisburður skynfæranna er afbakaður af skynseminni en jafnframt er skynsemin nauðsynleg til að verðandin geti tekið á sig mynd og birzt á ‚merkingarbæran’ hátt. Þetta er hin sérstaka leið manneskjunnar til sjálfsvarðveizlu. Stundum talar Nietzsche um þetta sem „viljann til sannleika“ en líka sem það „afl lífsins sem vill blekkingu“ og hann sér það sem tjáningarmynd viljans til valds: „að þröngva eiginleikum verunnar upp á verðandina – það er æðsti viljinn til valds“.7 Sannleiksvilji mannsins byggist á vissri sannfæringu; hann er trú á óhagganlegan og merkingarríkan veruleika. Nietzsche sér þessa trú sem tegund villu sem maðurinn getur ekki lifað án:

mennirnir gætu ekki þrifist án rökrænna ímyndana, án þess að meta veruleikann í ljósi hreins uppspuna á borð við veröld hins óskilyrta, hins sjálfu sér samkvæma, án þess að nota tölurnar stöðugt til að rangtúlka heiminn. Við höldum því einnig fram að vísuðu menn röngum dómum á bug væru þeir jafnframt að hafna og afneita lífinu sjálfu. Að viðurkenna ósannindi sem skilyrði lífsins sjálfs …8

Þannig getum við séð að frá bæjardyrum Nietzsches er forsenda hins einstæða mannlega lífs sjálf blekking eða villa af einhverju tagi: Sú blekking að það sé til eitthvað fast og „röklega niðurneglt“. Og þessi „blekking“ er forsenda þeirrar staðreyndar að veruleikinn birtist yfirhöfuð. Í þessu felst hin mikla margræðni tilverunnar, margræðni grímunnar: Fyrirbærin taka óhjákvæmilega á sig mynd til að geta birzt og þessi mynd dylur þeirra innsta eðli, síkvika verðandina. Gríman er nauðsynleg til að setja hlutina fram. En með því að sýna leynir hún og blekkir um leið. Í þessu ljósi verðum við að skilja þá staðhæfingu Nietzsches að „Öll heimspeki felur líka heimspeki. Allar skoðanir eru líka felustaðir, hvert orð er líka gríma.“9 Í þessum fullyrðingum er fólgin sú meginhugmynd að öll skynjun, hugsun og þekking sé bundin vissum sjónarhornum. Eins og við höfum séð eru það þarfir okkar sem túlka heiminn og hver dómur og sérhver mannleg viðleitni er því tengd hagsmunum og lituð af gildum. Grunnfordómar af þessu tagi, hvort sem þeir eru lífeðlisfræðilegir, sögulegir eða félagslegir að uppruna, eru nauðsynlegir til að gefa mannlegri viðleitni „stefnu, merkingu, mörk og tilverurétt“10. Hér verður á vegi okkar sama margræðni og áður. Þrátt fyrir að sérhvert mannlegt sjónarhorn sé takmarkað og hlutdrægt, að minnsta kosti á mælistiku hefðarinnar, er það einnig forsenda sannleika og þekkingar. Hættan felst í því að alhæfa einhverja eina túlkun eða sjónarhorn og að útiloka þátt lífsaflanna í túlkunum okkar. Hvert takmarkað sjónarhorn gefur sem slíkt afbakaða og villandi mynd. Þar með er ekki sagt að til sé eitthvað í sjálfu sér sem megi afbaka, einhver endanlegur sannleikur sem alltaf gengur okkur úr greipum. Það merkir fremur að enginn slíkur sannleikur sé til og einungis með því að gangast við margbreytileika sjónarhornanna sé hægt að vera trúr hinni margbreytilegu reynslu. Nietzsche kallar þetta „ástríðufulla“ hlutlægni:

því fleiri hvötum sem við leyfum að tjá sig um hvert atriði, því fleiri augu, ólík augu sem við höfum til að skoða hvern hlut, þeim mun fyllra verður „hugtak“ okkar um þann hlut, þeim mun meiri „hlutlægni“.11

Meginstefið í framansögðu er að veruleikinn sé óhjákvæmilega grímuklæddur. Við sögðum að sérhver túlkun sé sett fram undir takmörkuðu sjónarhorni sem felur í sér vissa blekkingu. Engu að síður eru sumar túlkanir meira viðeigandi en aðrar; sumar grímur dylja einungis, aðrar miða ekki að því að blekkja heldur reyna að afhjúpa á sannan hátt. Eins og undanfarandi umfjöllun gefur til kynna ræðst það hve sönn túlkun er af tvennu (eða tveimur hliðum sama fyrirbæris): Annars vegar er hún opin fyrir fjölbreytilegri reynslu og sýnir hinn auðuga margbreytileika sjónarhorna. Hins vegar er hún trú hinum mennska veruleika og viðurkennir að fullu hlutverk ástríðna og eðlishvata í túlkunarferlinu, með ástríðufullri hlutlægni. Einkenni þess sem birtist ræðst af sjónarhorninu og því er gríman ákvörðuð af gagnvirkni heims og manns, túlkandanum. En hver er þessi túlkandi? „Sjálfið“ er alveg jafn mikið túlkunarverkefni og allt annað. Líkt og engin vera er að baki ásýndar veruleikans þá er ekkert hefðbundið, eiginlegt sjálf að baki túlkuninni. Sjálf túlkandans er ekki „ég“ heldur „það“ eða sjálfsveran sem af eðlishvöt leysir orku sína úr læðingi.

… hugsun kemur þegar „hún“ vill en ekki þegar „ég“ vil; þannig er það fölsun á staðreyndum að segja frumlagið „ég“ er skilyrði umsagnarinnar hugsa […] jafnvel með „það“ hugsar er of langt gengið: þetta „það“ ber í sér túlkun á ferlinu og tilheyrir ekki ferlinu sjálfu. Hér er ályktað eftir málfræðivenjunni …12

Heimurinn er ákvarðaður af viljanum sem við veitum í hann. Athafnir okkar, sem leiða í ljós túlkanir okkar á heiminum, eru tjáning ástríðna okkar og langana. Breytni manna, birting okkar í heiminum, ræður því úrslitum. Túlkunin sem bregður grímu á veruleikann og fær hann til að birtast leiðir jafnframt túlkandann í ljós. Við stígum fram í athöfnum okkar og túlkunum. Í þessum skilningi er gríman skilyrði sjálfsins, leið þess til að birtast. ‘Sjálfið’ er líka gríma og röð af grímum í stöðugri ummyndun. Uppgerðarlistin er sérkennandi fyrir manninn og á rætur í vitsmunum hans. Umbreyting hvatanna í meðvitaða rökhugsun er undirstaða skilningslistarinnar, „sem er listin sem leyfir okkur að bera grímur“.13 Yfirvegun fjarlægir manninn frá náttúrunni og þetta rof er forsenda látbragðs og uppgerðar. Í krafti þessarar fjarlægðar erum við mennsk og getum þar með borið grímur.

Vitsmunirnir þjóna því hlutverki að viðhalda einstaklingnum og er megintilgangur þeirra að villa á sér heimildir. […] Listin að villa á sér heimildir nær hámarki hjá mannskepnunni: hér eru allsráðandi blekking, skjall, svik og prettir, baktal, yfirborðsmennska, tildur, grímuklæðnaður, hulur hefðarinnar, sýndarmennska gagnvart sjálfum sér og öðrum, í stuttu máli sagt eitt allsherjar flökt í kringum hégómans eilífa loga.14

Látbragðslistin kemur sér sérstaklega vel fyrir þrælasiðferðið – það siðferði sem á rætur í kjörum hinna undirokuðu – vegna þess að það getur ekki gengizt við eigin hvötum. Yfirvegun verður lífsnauðsynlegt skilyrði tilvistar þrælsins sem verður alltaf að fara krókaleiðir og leita óbeinna leiða til athafna. Stöðug gagnrýni Nietzsches á siðferðið beinist að þessu atriði.

Siðapostular þurfa að hafa á sér yfirbragð dygðarinnar, einnig yfirbragð sannleikans, þeir gera þá fyrst mistök þegar dygðin nær tökum á þeim, þegar þeir missa tökin á dygðinni og þeir verða sjálfir siðferðisverur, verða sannir. Eitt af því sem góður siðapostuli þarf að hafa til að bera eru góðir leikhæfileikar; áhættan sem hann tekur er að leiktilburðirnir verði honum óvart eiginlegir, því það er guðleg hugsjón hans að halda eðli sínu og athöfnum aðskildum.15

Þetta er ein ástæða þess að Nietzsche metur mikils hina „göfugu kynþætti“. Hegðun þeirra einkennist af því að vera óyfirveguð og hreinskiptin, öfugt við hina yfirveguðu, útpældu hegðun sem einkennir hinn „útsmogna þræl“. Hinn göfugi maður tjáir hvatir sínar og ástríður á óheftan hátt. Hið „göfuga“ við þetta er hreinskilni og trúmennska við mannlegt eðli. Það er einmitt í hinni sjálfsprottnu athöfn og ræðu sem við erum sannarlegast „við sjálf“. Bæling hvatanna sem svo mjög einkennir hina andlíkamlegu frumspeki þrælanna er lífsafneitandi, þótt hún marki upphaf siðmenningar. „Skynsemin“ er aðgreind frá og tekin fram yfir ástríðurnar sem eru bældar. Þessi afneitun lífsaflanna leiðir til sjálfsblekkingar og afbökuð mynd af mannlegu eðli verður til. Ein ástæðan fyrir hrörnun siðferðisins að mati Nietzsches er sú að áherzlan hefur flutzt frá hinum einstaka geranda höfðingjasiðferðisins yfir á almenna flokka athafna og siðareglna í þrælasiðferði. Hið síðarnefnda felur í sér áherzlu á dygðugt látæði í stað dygðugra manngerða og þess vegna leiðir það látbragðslistina, sem blekkjandi tilvistarhátt, inn að kjarna siðferðisins. Í stað þess að skapa gildi og taka áhættu leitum við öryggis í búningum venja og hefða. Markmið hinna veiku er að alhæfa gildi sín, gera allt sameiginlegt svo að allir geti falizt bak við hefðir, klæddir í búning meðalmennskunnar. Afleiðingin er sú að blekkingin hefur öðlazt vaxandi gildi fyrir okkur í lífsbaráttunni. Viljinn til að vera blekktur er orðin náttúruleg hneigð mannsins; hann flýr vandamálin, forðast þjáningu og leitar hælis í blekkingum um heiminn og handanheiminn, jarðlífið og lífið eftir dauðann. Það sem í raun angrar Nietzsche hér er sú staðreynd að þessar veruleikagrímur hafa fengið stöðu sem viðtekin sannindi: blekking sem við höfum gleymt að sé blekking.

Sannindi eru tálsýnir sem við höfum gleymt að eru tálsýnir, útjaskaðar og máttlausar myndhverfingar […] samfélagið leggur okkur [skyldu] á herðar til að halda velli: sannsöglina, þ.e. fastbundna notkun myndhverfinga; eða siðferðilega orðað: skylduna til að ljúga samkvæmt fastmótaðri hefð, ljúga saman í hjörð eftir reglum sem allir verða að hlýða.16

Hér að ofan kom fram að öll þekking er bundin takmörkuðum sjónarhornum. Allar tilraunir til að upphefja þessar grundvallartakmarkanir mannsins eru veruleikaflótti af rót tómhyggjunnar. Slíkar túlkanir eru blekkingar, yfirhylmandi grímur. Einungis með því að gangast við takmörkunum okkar og fagna jarðneskum lífsskilyrðum, getum við forðað blekkingu og sjálfsafneitun og skapað möguleikann á skapandi lífsstyrkingu. Þar eð takmarkað sjónarhorn er forsenda þess að eitthvað sé leitt í ljós og sérhvert sjónarhorn dylur jafnframt því sem það afhjúpar þá verður sannleikurinn aldrei sviptur grímunni: „Við trúum því ekki lengur að sannleikurinn verði sannleikur þegar hulunni er svipt af; við höfum upplifað of mikið til að trúa þessu“.17 Í ljósi þessa má segja að vandinn sé ekki sá að bera grímu, heldur hvernig hún er borin, hvernig birtingin á sér stað. Villa hefðbundins siðferðis er að alhæfa og halda fram sem sannleika viðhorfum sem eru einungis sjónarhorn. Grundvallareiginleika mannlegrar tilvistar er afneitað með því að alhæfa siðadóma og aftengja þá hagsmunum og persónum. Siðferði verður þá flótti fyrir einbera leikendur, gríma sem hefur það meginhlutverk að breiða yfir. Hugmynd Nietzsches um að sigrast á þrælasiðferðinu má því skoða sem viðleitni mannsins til að birta sig á sannan hátt. Í ljósi þess sem sagt hefur verið getur hann þó ekki gert það grímulaust. Munurinn á eiginlegri og óeiginlegri grímu kemur skýrt fram í riti Nietzsches Fæðing harmleiksins. Í verkum Sófóklesar og Æskýlosar birtast appólónskar og díonýsískar grímur. Það er guðleg vera að baki hverri grímu og hin guðlega vera stígur einungis fram fyrir tilverknað grímunnar. Hér er gríman sönn listræn aðferð, nauðsynlegt form til að setja guðina á svið. Í leikverki Evripídesar er goðsögnin á hinn bóginn á hverfanda hveli og það sem eftir stendur er einungis „endurgerð, grímubúin goðsögn“, hetjur hans sýna „tilgerðarlegar, grímuklæddar ástríður og flytja tilgerðarlegar, grímuklæddar ræður“.18 Þessi samanburður gefur ljóslega til kynna greinarmun á hinu grímubúna og hinu sanna. En hið sanna ber einnig grímu. Munurinn er fólginn í því hvernig gríman er notuð sem birtingarmynd, hversu sönn framsetningin er. Þessum greinarmun má velta fyrir sér út frá hugmyndum um tvenns konar leikara á leiksviði lífsins. Sumir, ég kalla þá einbera leikara, nota list sína sem felustað. Þeir eru því eins konar loddarar sem setja upp grímur til að blekkja sjálfa sig og aðra. Eiginlegur leikari breytir hinsvegar gagngert til að kanna aðstæður sínar, hann spinnur og gerir tilraunir með lífið. Slíkur maður ber því ekki grímu til að flýja heldur til að leiða sjálfan sig í ljós. Þetta er ein ástæða þess að „Allt sem er djúpt elskar grímur“.19 Á meðan hinn einberi leikari bregður yfir sig skikkjunni vegna hentugleika eða þæginda til að leyna hvötum sínum sem ekki þola dagsbirtuna, notar eiginlegur leikari grímur sínar til að tjá hin margvíslegu lífsöfl sín á sannan hátt. Hann forðast að festa einhverja eina af grímum sínum vegna þess að hann gerir sér grein fyrir að látbragðslistin er óhjákvæmileg, að sjálfið er hans eigin sköpun. Og takist hann ekki sjálfur á við það mun heimurinn hrifsa það úr höndum hans og negla á hann útjaskaða grímu hins viðtekna. Því slík gríma er alltaf vinsæl.20 Hins vegar eru „hinir ósviknu […] alltaf sjaldgæfir, einkum ósviknir leikarar“21 Það verkefni, að verða maður sjálfur er því fólgið í því að skapa grímur: „ að ljá sér stíl – göfug og sjaldgæf list“.22 Það kemur margoft fram í verkum Nietzsches að lykillinn að þessari lífslist er að lífsöfl einstaklingsins séu stælt til sköpunar. Sigrazt er á hvötum og ástríðum á þann hátt að þær þjóna lífinu án þess að dreginn sé úr þeim máttur eða þær geltar. Þessi göfgun lífsaflanna felur í sér leið til sjálfsumsköpunar. Þótt við séum að vissu marki þegar ákvörðuð „í okkar innsta kjarna, „dýpst“ í okkur“,23 erum við sjálfum okkur verkefni til að sigrast á. Það felur í sér að gangast við náttúru mannsins og endurheimta þá hreinskilni sem einkenndi höfðingjann. Hér er þó mikilvægur munur á. Höfðinginn tjáir hvatir sínar og eðlisávísun óheft á náttúrulegan hátt, en hin frjálsa tjáning ofurmennisins á hvötum sínum og ástríðum er í mynd göfgunar sem „beinir hugsunum manns og líkamsöflum í aðra farvegi“.24 Höfuðatriði er þó að einstaklingurinn öðlist styrk til að verða hann sjálfur: „Sumir menn hafa vilja, en flestir láta bara að vilja annarra. Sumir eru ósviknir, en flestir eru lélegir leikarar.“25 Sannur leikari lítur á líf sitt sem verkefni og reynir að lifa því eins og listaverki. Það verkefni er listrænn grímudans. Til að losna undan túlkunarfargi heimsins leitast hann við að vera „Doppelgänger“ sem hefur „annað andlit til viðbótar því fyrsta. Og kannski líka hið þriðja“.26 Í þessu er fólgin viðurkenning á nauðsynlegri margræðni mannlegrar tilvistar og fjölbreytileika sjálfsins. Maður getur engu frekar neglt sjálfan sig niður með hlutlægri túlkun en maður getur neglt niður heiminn eða aðra. Alvöruþrungi í túlkun felur bæði í sér veruleikafrystingu og sjálfsblekkingu. Á hinn bóginn hafnar Nietzsche ekki allri alvöru:

Manndómsþroski: það er að hafa fundið aftur alvöruna sem maður bjó yfir sem barn að leik.27

Kát alvara barnsins að leik er einlæg, heilshugar, og óyfirveguð sjálfstjáning. Hinn þroskaði maður er frábrugðinn barninu að því leyti að hann er meðvitaður um þá staðreynd að leikur er aðeins leikur, hreinskilin blekking. En um leið gerir hinn sanni leikari sér grein fyrir að líf hans er leikur vegna þess að einungis í leiknum kemur í ljós túlkun hans eða mat á lífinu. Þess vegna er vitneskjan um að maður sé ekkert annað en heild allra þeirra gríma sem maður setur upp, ástæða til að fara gætilega í vali sínu á grímum. Að þessu leyti er það að setja upp sanna grímu sambærilegt við list. Heil hegðun er ekki í því fólgin að hafa fangað einhvern tiltekinn lífsmáta; hún fylgir hvorki gefnum siðareglum né er markmið hennar fyrirfram skilgreint. Þetta gerir hana þó ekki algerlega undirselda geðþótta. Hún er ávallt meðvituð um þá staðreynd að gildi lífsins eru undir henni komin. Þess vegna verður grímudansinn léttstígur og glaðvær. Þegar lífið verður list forðumst við blekkinguna – því listin ein gengst við því að hún er uppgerð.

 

Tilvísanir

1. Grein þessi birtist í <i>Tímariti Máls og menningar</i> 58 (1997:3), bls. 51–59.

2. HGI 36. Lykil að tilvísunum í rit Nietzsches er að finna hér fyrir ofan.

3. USL, bls. 23.

4. USL, bls. 26.

5. USL, bls. 21–22.

6. HGI 230.

7. NF 1885–1887, 7 [54] (KSA 12).

8. HGI 4.

9. HGI 289.

10. GM III 24.

11. GM III 12.

12. HGI 17.

13. NF 1884–1885, 35 [9] (KSA 11).

14. USL, bls. 16.

15. NF 1887–1889, 11 [54] (KSA 13).

16. USL, bls. 21.

17. FW 4.

18. GT 10.

19. HGI 40.

20. FW 77.

21. ZA. 176.

22. FW 290.

23. HGI 231.

24. M 109.

25. ZA 176.

26. EH Af hverju ég er svona vitur 3.

27. HGI 94.

 

Lykill að tilvísunum

 

KSA: Friedrich Nietzsche, Sämtliche Werke. Kritische Studienausgabe in 15 Bänden. Ritstjórar Giorgio Colli og Mazzino Montinari. Berlin/New York: de Gruyter Verlag 1967-1977.

EH: Ecce Homo. KSA, 6. bindi.

FW: Die Fröhliche Wissenschaft. KSA, 3. bindi.

GM: Zur Genealogie der Moral. KSA, 5. bindi.

GT: Die Geburt der Tragödie. KSA, 1. bindi.

HGI: Handan góðs og ills. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson þýddu. Hið íslenzka bókmenntafélag 1994.

M: Morgenröte. KSA, 3. bindi.

USL: „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir þýddu, Skírnir (vorhefti 1993).

Z: Svo mælti Zaraþústra. Jón Árni Jónsson þýddi. Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan 1996.

« Til baka

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820–1896), bókmenntafræðingur, skáld og áhugamaður um heimspeki.

Fæddur að Bessastöðum 1820, sonur Þorgríms gullsmiðs Tómassonar og konu hans. Stúdent 1837 frá Árna Helgasyni, tók 1. og 2. lærdómspróf við Hafnarháskóla 1837-1838 og lagði síðan stund á heimspeki og bókmenntir. Skrifaði verðlaunaritgerð um franskan samtímaskáldskap („Om den nyfranske Poesi“, 1843) og varð mag. art. 1845 með ritgerð um Byron („Om Lord Byron“); titlinum var breytt í dr. phil. 1854. Ferðaðist nokkuð um Evrópu, varð 1848 ritari í danska utanríkisráðuneytinu og skrifstofustjóri þar frá 1859. Fékk 1866 lausn frá störfum með biðlaunum og eftirlaunum og hvarf aftur til Íslands, keypti Bessastaði og bjó þar frá 1868, var m.a. þingmaður og ritstjóri. Lést að Bessastöðum 1896.

Grímur var á yngri árum hallur undir heimspeki Hegels, en hneigðist síðar æ meir til fornra fræða. Í ritgerðinni „Rúm og tími“, sem birtist í Tímariti Hins íslenska Bókmenntafélags, 1885, reynir hann að leiðrétta Kant og Hegel með Aristótelesi.

Nokkur önnur rit: „Platon og Aristoteles. Tveir kapítular úr sögu heimspekinnar“,Tímarit Hins íslenska Bókmenntafélags, 18 (1897), 1–27; 19 (1898), 1–66.,Ljóðmæli 1880, Rvk, (Kh 1895, Rvk. 1906), Íslenzkar bókmenntir og heimsskoðun, Andrés Björnsson þýddi og gaf út, Reykjavík, 1975.

« Til baka

Guðmundur Bergþórsson

Guðmundur Bergþórsson (1657–1705), skáld.

Fæddur að Stöpum á Vatnsnesi, Húnavatnssýslu, veiktist illa í æsku og varð krypplingur, hálflamaður og lítt til verka fallinn. Lærði að lesa upp á eigin spýtur og hafði ofan af fyrir sér með barnakennslu og rímnakveðskap.

Helsta framlag hans til íslenskrar heimspeki er kvæðið Heimspekingaskóli sem hann orti að mestu leyti út frá íslenskri þýðingu á dönsku riti, Collegium Philosophorum eftir Hans Hanssøn Skonning, sem kom út 1636. Á fáeinum stöðum bætir Guðmundur þó við efnið einhverju frá sjálfum sér.

« Til baka

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason (1873–1944) heimspekingur og prófessor við H.Í.

Fæddur 6. júní 1873 að Arnarstapa í Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsýslu, sonur Finnboga Finnbogasonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Stúdent 1896, lauk forprófi í heimspeki í Kh. 1897 og meistaraprófi í heimspeki (mag. art.) 1901. Undirbjó fræðslulöggjöf á Íslandi 1901–1905. Hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1908 og dvaldist aðallega í París. Doktorspróf í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um samúðarskilning. Prófessor í hagnýtri sálarfræði við H.Í. 1918–1924, Landsbókavörður 1924–1943. Lést 1944.

Samkvæmt Guðmundi á heimspekin að veita útsýn yfir tilveruna og getur fjallað um hvað sem er út frá því sjónarhorni. Persónuleg tök og greining heimspekingingsins á viðfangsefninu er þá það sem mestu skiptir. Guðmundur ritaði ókjör af greinum og bókum. Í meginriti sínu, Hugur og heimur, fjallar hann um samúðarskilning milli manna út frá andstæðu umheims og hugarheims, vísinda og vitundar og leitast við að sýna hvernig sálarlíf manna birtist í látæði þeirra. Guðmundur þýddi fjölmargar greinar um heimspeki, m.a. eftir Henri Bergson og William James.

Helstu rit: Lýðmenntun (1903), Den sympatiske forstaaelse (1911), L’intelligence sympatique (1913), Hugur og heimur (1912), Frá sjónarheimi (1918), Huganir(1943).

« Til baka

Hálfdan Einarsson

Hálfdan Einarsson (1732–1785), guðfræðingur, fræðimaður, rektor Hólaskóla.

Fæddur að Prestbakka á Síðu 1732, sonur Einars Hálfdanarsonar og Guðrúnar Sigurðardóttur. Eftir nám í Skálholtsskóla innritaðist hann í Hafnarháskóla 1750, lauk lárviðarprófi 1753 og guðfræðiprófi 1755. Var þá skipaður skólameistari á Hólum. Var sæmdur meistaranafnbót í heimspeki 1763. Gegndi biskupsstarfi 1779 til 1784. Lést 1785.

Hálfdan sinnti heimspekikennslu við Hólaskóla og kenndi m.a. rökfræði, siðfræði og verufræði eftir kennslubókum sem lærisveinar Wolffs höfðu samið.

Hann samdi einnig íslenska bókmenntasögu, Sciagraphia (1777).

« Til baka

Hannes Árnason

Hannes Árnason (1812–1879), prestur og heimspekingur, kennari við Prestaskólann í Reykjavík.

Fæddur 11. október 1812 að Belgsholti í Melasveit, Borgarfjarðarsýslu. Stúdent frá Bessastaðaskóla 1837 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1847. Settur kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann í Reykjavík 27. september 1848 og kenndi þar uns hann fékk lausn frá starfi, 26. september 1876. Lést þremur árum síðar, 1. desember 1879.

Hannes var fyrsti kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum á Íslandi. Fyrirlestra sína byggði hann að nokkru leyti á ritum kennara síns, F. C. Sibbern, prófessors í heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn.

Auk þess er hans minnst fyrir hinn rausnarlega styrktarsjóð sinn sem hann stofnaði 15. ágúst 1878. Sjóðurinn var veittur sjötta hvert ár og stóð undir framfærslu styrkþegans í fjóra vetur, þrjá vetur við nám erlendis en fjórða árið átti styrkþegi að flytja fyrirlestra um efni sitt í Reykjavík. Mörg merkustu heimspekirit íslensk á fyrri hluta 20. aldar voru upphaflega til komin sem Hannesar Árnasonar fyrirlestrar (t.d. Saga mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason, Hugur og heimur eftur Guðmund Finnbogason og Einlyndi og marglyndi eftir Sigurð Nordal). Sjóðurinn brann upp á tímum óðaverðbólgu.

« Til baka

Hannes Finnsson

Hannes Finsson (1739–1796), guðfræðingur, fræðimaður og biskup í Skálholti.

Fæddur í Reykholti 1739, sonur Finns Jónssonar, síðar Skálholtsbiskups og Guðríðar Gísladóttur, innritaðist 16 ára gamall í Hafnarháskóla, tók lárviðarpróf í heimspeki 1757, lokapróf í guðfræði 1763. Stóð til boða prófessorsstaða í stærðfræði við Hafnarháskóla, en vígðist að beiðni föður síns 1776 til kirkjuprests í Skálholti og 1777 til biskups, tók þó ekki við embættinu fyrr en 1785. Lést í Skálholti 1796.

Hannes var undir miklum áhrifum frá heimspeki upplýsingarinnar, einkum Wolffs, og kenndi ýmsar greinar heimspekinnar við Skálholtsskóla út frá kennslubókum sem lærisveinar Wolffs höfðu samið.

Nokkur önnur rit: Um mannfækkun af hallærumGaman og alvara.

« Til baka

Heidegger og nútíma tilvistarstefna

William Barrett og Bryan Magee ræða saman

INNGANGUR

Magee Við og við kemst alvarleg heimspeki skyndilega í tísku í hugmyndaheiminum eftir dúk og disk, venjulega sem afleiðing af einhverjum sérstökum sögulegum kringumstæðum. Milli heims­styrjaldanna tveggja gerðist þetta með marxismann, aðallega sem afleiðing af rússnesku byltingunni. Eftir heimsstyrjöldina síðari gerðist það með tilvistarstefnuna, en hún komst í tísku á meginlandi Evrópu aðallega sem svar við reynslunni af hernámi nasista. Þegar ég tala um að heimspeki sé í tísku hef ég í huga að hún verður vinsæl ekki aðeins hjá háskólafólki heldur hjá rithöfundum af öllu tæi – skáldsagnahöfundum, leikskáldum, ljóðskáldum og blaðamönnum – svo að hún fer að gegnsýra allt menningarlegt andrúmsloft einhvers tíma og staðar. Í París eftir­stríðsáranna, svo dæmi sé tekið, virtist látlaust vísað til tilvistarstefnunnar úr öllum áttum, ekki aðeins í samtölum, vissum tegundum lista og alvarlegri tegundum blaðamennsku, heldur í alþýðlegri blaðamennsku, jafnvel í skemmtanalífi almennings, einkum í kabarettum og nætur­klúbbum. Frægasta nafnið sem tengdist allri þessari hugmyndalegu og félagslegu þróun, bæði þá og nú, er nafn Jean-Paul Sartres. En tilvistarstefna þessarar aldar hófst í rauninni ekki í Frakk­landi heldur í Þýskalandi – og á tímabilinu eftir heimsstyrjöldina fyrri en ekki þá síðari. Með tilliti til hugmynda er mikilvægasti einstaklingur hreyfingarinnar ekki Sartre heldur Heidegger; það er að segja, þeir sem fjalla um nútíma tilvistarstefnu í alvöru eru næstum því einhuga um að Heidegger, sem er eldri en Sartre, sé dýpri og frumlegri hugsuður. Í þessari umræðu munum við því nálgast tilvistarstefnuna aðallega út frá verkum Heideggers – þótt við munum einnig segja eitthvað um Sartre og hvernig hann fellur inn í myndina.

Martin Heidegger fæddist í Suður-Þýskalandi árið 1889 og bjó á sama litla blettinum í Evrópu nánast alla ævi. Hann var nemandi Husserls áður en hann varð sjálfur kennari í heimspeki. Árið 1927, þrjátíu og átta ára að aldri, gaf hann út mikilvægustu bók sína, Veru og tíma. Hann lifði upp undir hálfa öld eftir það og skrifaði mikið meira, sumt mjög áhugavert, en ekkert annað sem kom frá honum átti nokkurn tíma eftir að verða jafn stórt, jafn gott eða jafn áhrifamikið og Vera og tími. Bókin er ekki auðveld aflestrar, en höfundur þess sem mér virðist vera best allra inngangsrita um tilvistarstefnuna fyrir hinn almenna lesanda ræðir hér um hana við mig. Það er William Barrett, prófessor í heimspeki við New York háskóla og höfundur hinnar ágætu bókar Irrational Man.1

UMRÆÐA

Magee Væri ég einhver sem vissi alls ekkert um heimspeki Martins Heideggers og þig langaði til að gefa mér grunnhugmynd um hana, hvernig mundirðu byrja?

Barrett Ég mundi byrja með því að reyna að staðsetja Heidegger innan sögulegs samhengis hans en það yrði stærra samhengi en það sem þú hefur gefið til kynna. Það yrði mælt í öldum frekar en áratugum. Samhengið sem ég veldi mundi reyndar vera tímabil nútíma heimspeki í heild sem byrjar með Descartes á sautjándu öld. Descartes var einn af upphafsmönnum hinna Nýju vísinda – þess sem við köllum nú nútíma vísindi – og fyrirætlun hans um að koma þeim af stað fól í sér undarlegan klofning milli vitundar og ytri heims. Hugurinn kerfisbindur náttúruna í megindlegum tilgangi – til mælinga og útreikninga, í þeim endanlega tilgangi að ráðskast með náttúruna – og um leið er vitundinni sem gerir allt þetta, hinni mannlegu hugveru, teflt gegn náttúrunni. Það sem kemur þá fram er mjög athyglisverð tvískipting milli hugar og ytri heims. Næstum því öll heimspeki á næstu tveimur og hálfri öld lagaði sig að þessari umgjörð. En í byrjun þessarar aldar sjáum við svo að farið er að brydda á uppreisn í ýmsum myndum og hjá ýmsum stefnum í heimspeki gegn þessari tvískiptingu sem rekja má til Descartes, vítt og breitt um heiminn – í Englandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Heidegger er einn af uppreisnarmönnunum gegn Descartes. Reyndar höfum við í þessari uppreisn góðan lykil að hugsun hans. Það væri hvað sem öðru líður þarna sem ég mundi byrja fræðsluna um heimspeki hans.

Magee Upphafspunktur þinn er þá þessi: Með framgangi nútíma vísinda, en gullöld þeirra var sautjánda öldin, kom sú skoðun fram í menningu okkar að veruleikinn í heild skiptist milli skynjenda og hins skynjaða eða milli hugvera og hlutvera. Til eru mannverur (og kannski líka Guð) sem skynja heiminn og til er heimurinn sem þær skynja. Þessi tvíhyggja, þessi skoðun um tvískiptingu alls veruleikans, gegnsýrir orðið hugsun okkar, heimspeki okkar og vísindi. En samt, gagnstætt því sem flestir vestrænir karlar og konur halda sennilega, er þetta viðhorf til veruleikans sérkennandi fyrir Vesturlönd og, það sem meira er, sérkennandi fyrir þau aðeins síðustu þrjár eða fjórar aldir.

Barrett Það er óþægilegt viðhorf vegna þess að í einum skilningi lifum við ekki í raun og veru með því. Ég lít ekki á þig sem hug tengdan við líkama. Og ég lít ekki heldur svo á að tilvist þín eins og ég er að tala við þig núna sé á einhvern hátt vafasöm – að hún sé eitthvað sem ég álykta. Það er gagnstætt venjulegri tilfinningu okkar fyrir hlutunum að haga okkur eins og hugurinn og hinn ytri heimur séu andstæðir hvor öðrum á þennan hátt. Uppreisnin gegn tvíhyggjunni, sem eitt af sérkennum heimspeki tuttugustu aldar, er því auðskiljanleg. Heidegger hefur sína eigin uppreisnaraðferð. Hann byrjar út frá þeim aðstæðum sem við erum í raun og veru í. Þú og ég erum saman í sama heimi – við erum tvær mannverur innan sama heims. Ég mundi byrja að kynna heimspeki Heideggers með þessu grundvallarhugtaki „að vera í heiminum“. Orðið ‘vera’ kann að gera okkur bilt við, okkur finnst það kannski langsótt og hástemmt; en við verðum að skilja það í hversdagslegustu og algengustu merkingu. Hvernig venjulegar mannverur eru áþreifanlega í heiminum er upphafspunktur okkar. Og það er þar sem við byrjum að hugsa heimspekilega.

Magee Ég verð að segja að þessi upphafspunktur er mér að skapi. Sú hugmynd að veruleikinn sé klofinn milli tveggja eðlisóskyldra verunda er nokkuð sem mér hefur aldrei þótt eðlilegt: Það var eitthvað sem ég varð að læra í skóla eða sem nemandi, og til að byrja með fannst mér það furðuleg, jafnvel framandi hugmynd. Reynsla okkar sem einstaklinga er í miklu meira samræmi við það sem þú ert nú að segja: Við stígum upp úr meðvitundarleysi frumbernskunnar til vitundar um okkur sem verur í heiminum. Við bara erum hér. Og hér byrjum við.

Barrett Strax og okkur hefur verið komið kirfilega fyrir í heiminum verður aðalverkefni heimspekinnar að lýsa. Heimspekingurinn leitast við að kanna og lýsa hinum ýmsu tilvistarháttum okkar í þessum heimi. Hér eru efnistök Heideggers gerólík efnistökum uppreisnarmanns gegn tvíhyggju Descartes á borð við G. E. Moore sem er upptekinn af vanda­málum þekkingar og skynjunar. Tökum grein Moores „Sönnun á ytri heimi“, sem hlotið hefur frægð af verðleikum. Hún var upphaflega flutt frammi fyrir áheyrendum – Bresku akademíunni, ef ég man rétt. Ég ímynda mér að þessir áheyrendur hafi ekki talið að raunveruleg tilvist þeirra í salnum sem hlustaði á Moore værri komin undir því að hann gæfi vel heppnaða sönnun á þeirri tilvist. Staðreyndin er að þegar maður ber fram þekkingarfræðilega spurningu eins og þessa verður hann þá þegar að vera í heiminum til þess að bera hana fram. Að fá aðgöngumiðann að hinum venjulega heimi er ekki háð því að maður leysi þekkingarfræðilegar ráðgátur. Þekkingarfræði er vitsmunaleg starfsemi sem við, eða sum okkar, iðkum sem verur í heimi.

Magee Felur nafnið ‘tilvistarstefna’ í sér að tilvistarheimspekingar líti á tilvist okkar í þessum heimi sem mikilvægasta heimspekilega vandamálið?

Barrett Það er vandamál í þeim skilningi að við verðum að ráða fram úr því. En það er hið gefna: það er ekki ályktað. Vandinn er þá að gefa lýsingu á því. Vel á minnst, það er mikilvægt þegar Heidegger á í hlut að leggja áherslu á að markmið hans er að lýsa. Hann er ekki fræðilegur frumspekingur. Hann er ekki að setja saman óhlutbundna kenningu um hvað hinsti veruleiki sé.

Magee Mundirðu fallast á eftirfarandi samantekt á umfjöllun okkar fram að þessu? Vestræn vísindi, tækni, heimspeki og samfélagið sjálft hafa öll þróast á tiltekinn hátt á síðustu þremur eða fjórum öldum sumpart vegna þess að náin tengsl eru milli þróunar þeirra. Meginviðfangsefni hins vestræna manns hefur verið að sigrast á náttúrunni. Þetta hefur orðið til þess að hann lítur á náttúruna með tilteknum hætti, eins og hann sé húsbóndinn en hún þrællinn, hann frumlagið en náttúran andlagið. Þetta hefur leitt til klofnings í viðhorfi hins vestræna manns til veruleikans sem hefur orðið hluti af allri hugsun hans, þar með talin vísindi hans og heimspeki. Í heimspeki, að gefnu þessu viðhorfi til veruleikans, kemur þekkingarvandinn næstum óhjákvæmilega til með að verða fyrirferðarmestur. „Hvað vitum við? Hvernig getum við vitað að við vitum? Hvað er það að vita? Er það sama og að vera viss?“ Þetta eru meginspurningar allrar heimspekihefðar okkar frá dögum Descartes. En Heidegger er ekki aðallega að fást við þessar spurningar. Hann er ekki að fást við vandamálið um hvað það sé að vita heldur um hvað það sé að vera. Hvað er það að vera til? Hvað er þessi tilvist sem við einfaldlega erum stödd í eða sitjum uppi með?

Barrett Já, þetta er rétt.

Magee Hann byrjar þá, eins og rökrétt má kallast, rannsóknir sínar með greiningu á þeim tilvistarhætti sem við höfum beinasta og milliliðalausasta reynslu af, það er að segja okkar eigin reynslu. Fyrsti hluti Veru og tíma samanstendur af nákvæmri greiningu á meðvitaðri sjálfskennd, beinni þekkingu okkar á eigin tilvist í hennar frumlægustu mynd. Hann kallar þetta „tilvistarlega greiningarhlutann“. Maður kynni að hafa ætlað að þessi reynsla væri ógreinanleg, einmitt vegna þess að hún er milliliðalaus. En Heidegger hrekur þetta með því að tengja saman með góðum árangri tvær aðferðir. Önnur er hin fyrirbærafræðilega aðferð að einbeita sér til hins ýtrasta að fyrirbærunum eins og þau eru í raun og veru upplifuð. Hin er kantíska aðferðin að spyrja sig: „Hvað þarf að vera tilfellið til þess að þetta sé tilfellið, þ. e. hver eru nauðsynleg skilyrði þessarar reynslu þannig að væru þau ekki snar þáttur í henni þá gæti ég ekki haft hana?“ Með þessari aðferð tekur hann til við að rekja sundur innri gerð meðvitaðrar sjálfskenndar okkar í aðgreinda þætti. Í fyrsta lagi – þar sem það gæti ekki hugsanlega verið nein meðvituð sjálfskennd án einhverrar skynjunar um að eitt eða annað væri að gerast – þá verður að vera einhvers konar ‘atburðasvið’, einhver ‘veröld’: Veran er því óhugsandi án þess að hún sé ‘veraldleg’. Í öðru lagi, vitneskja okkar um hvað svo sem það er sem við höfum vitneskju um merkir að það verður að vera einhvers konar þátttaka vitundar okkar í því. Þessu gefur hann heitið Sorge sem venjulega er þýtt sem ‘áhyggja’ en væri kannski betra að þýða sem ‘umhyggja’ eða ‘þátttaka’. Í þriðja lagi, ekkert af þessu er hugsanlegt án einhvers konar atburðarásar: Allt verður að hafa tímavídd – veran hlýtur því að vera í tíma. Og þar fram eftir götunum. Sérhver rannsókn er, eðli sínu samkvæmt, erfið og langvarandi, en maður fær hjá Heidegger, eins og hjá Kant, þá spennandi tilfinningu að gera sér grein fyrir að það sem maður hafði alltaf talið vera jarðhæð vitundarinnar hefur undir sér heila öðruvísi hæð sem hægt er að komast inn á og rannsaka.

Einhver sem hefur fylgst með okkur hingað til kynni að segja: „Já, þetta er allt mjög áhugavert en það er sjálfsskoðunarsálfræði, ekki heimspeki, eða hvað?“ Stutta svarið við þessu er nei. Tilgangurinn með rannsókn Heideggers er ekki að uppgötva eitthvað um mannlega hegðun, eða hvernig hugur okkar starfar, heldur að byrja að útlista tilvistarhugtakið með því að reyna að ákvarða hvað sé ósmættanlegt í því, hvað svo sem það er, sem við erum að segja um okkur sjálf þegar við segjum að við séum til. Þetta er óumdeilanlega heimspekilegt viðfangsefni. Mér finnst það að sumu leyti mest heillandi af öllum heimspekilegum viðfangsefnum. En ég geri mér grein fyrir að sumum veitist erfitt að takast á við það, ef til vill vegna þess að það er ekki í samræmi við venjulega hugsunarhætti okkar. Fyrir heimspekinga er það oft erfitt viðureignar sökum þess að það er vandamál sem er allsendis ólíkt þekkingarvandanum sem er miðlægur í hefð okkar og er þess vegna svo óvenjulegt í samhengi þeirrar hefðar.

Barrett Það er óvenjulegt. En ég vil aftur leggja áherslu á að hið miðlæga hlutverk sem þekkingarvandinn hefur helgað sér er nokkuð sem aðeins hefur einkennt heimspekina í meiri eða minni mæli eftir Descartes. Þekkingarvandinn var ræddur af fyrri tíma heimspekingum, en hann hafði ekki þá algerlega miðlægu stöðu sem hann hafði eftir Descartes. Í einhverjum skilningi hugsar Heidegger því sem svo að hann sé að hverfa aftur til Grikkja, einkum til heimspekinga fyrir daga Sókratesar.

Magee Við höfum sagt að það sem Heidegger er að reyna að gera sé að gefa lýsingu á veruleikanum sem við erum stödd í, sem merkir lýsandi greiningu á veru okkar í heiminum. Leikmaður gæti spurt: „Hver er tilgangurinn með því? Við höfum þessa tilvist. Hér erum við. Við erum að lifa hana. Í vissum skilningi er hún allt sem við höfum. Hvernig getur lýsing á því sem okkur er þegar kunnugra en nokkuð annað gefið okkur eitthvað sem skiptir máli? Já, hvað getur hún sagt okkur sem við vitum ekki nú þegar?“

Barrett Það er hið kunnuga sem venjulega reynist okkur óskiljanlegt í lífinu. Það sem er fyrir framan nefið á okkur er það sem við sjáum síðast. Það er rétt að þau einkenni mannlegrar tilvistar sem Heidegger lýsir eru að mörgu leyti hversdagsleg, en þegar við erum búin að lesa greiningu hans sjáum við þau á þann hátt sem við höfum aldrei alveg séð þau fyrr.

Magee Mundirðu segja að það sem Heidegger er að gefa okkur sé eingöngu greining á hinu hversdagslega, hinu venjulega, hinu kunnuglega?

Barrett Til að byrja með, já. En það er þá einnig áhersla á hið afbrigðilega og hið óvenjulega – hinn óhugnanlega þátt í tilverunni sem alltaf skýtur upp kollinum. Ég vil bera Heidegger að þessu leyti saman við annan heimspeking hins hversdagslega (og nota þetta orð í almennustu merkingu þess), Wittgenstein í seinni heimspeki hans. Samanburðurinn er athyglisverður vegna þess að Wittgenstein sér fyrir sér verkefni heimspekinnar sem það að greiða úr flækjunum í hversdagsmálinu svo að við getum starfað áfram á sama stigi skilvirkra samskipta innan heimsins. Í þessum skilningi getum við næstum því gert okkur í hugarlund, með Wittgenstein, þann möguleika að ef við greiddum úr öllum flækjunum í tungumálinu þá hyrfu öll vandamálin eða spurningarnar sem urðu til þess að við fórum að stunda heimspeki og heimspekin sjálf mundi því hverfa. En með Heidegger rólum við í þessum hversdagsveruleika þegar allt í einu óvenjulegar gjár opnast undir fótum okkar.

Magee Hvað ertu að hugsa um – dauðann?

Barrett Dauðinn væri eitt dæmi.

Magee Hver væru önnur?

Barrett Angist. Samviska. En tökum dauðann. Þú spurðir mig: „Hvernig geta lýsingar hans gefið okkur nokkuð sem við vitum ekki fyrir?“ Lýsingin sem hann gefur á dauðanum er lýsing sem umbyltir venjulegum hugmyndum okkar. Því hinar venjulegu hugmyndir okkar reyna af öllum mætti að sneiða hjá veruleika dauðans. Venjulega hugsum við um dauðann sem staðreynd í heiminum – eitthvað sem við lesum um í andlátsfréttum. Hann kemur fyrir annað fólk. Vissulega kemur hann fyrir mig, en ekki strax, svo að hann er eitthvað þarna úti í heiminum, enn sem komið er utan við mig. Það furðulega er að staldri ég við til að hugsa um hann sem dauða minn geri ég mér ljóst að dauði minn verður aldrei staðreynd í heiminum fyrir mig. Ég mun aldrei vita að ég sjálfur hafi dáið.

Magee Wittgenstein segir þetta í Tractatusi: „Dauðinn er ekki atburður í lífinu: Við upplifum ekki dauðann.“

Barrett Einmitt. Dauði minn er eitthvað sem hefur afar mikla þýðingu fyrir mig en þó getur hann aldrei verið staðreynd í mínum heimi. Í mínum heimi getur hann aðeins verið möguleiki. Hann er samt alltaf nálægur veruleiki. Vera má að ég sé ekki til hvenær sem er. Og þessi möguleiki „gerir að engu alla aðra möguleika mína“, eins og hann orðar það. Í þessum skilningi er hann ýtrastur allra möguleika. Og aðalatriðið hjá Heidegger er að strax og þú gerir þér ljóst að þessi möguleiki gegnsýrir tilveru þína eins og hún leggur sig getur þú annaðhvort flúið óttasleginn frá þeirri staðreynd, brotnað niður eða horfst í augu við hana. Ef þú horfist í augu við hana spyrðu þig þessarar spurningar: „Frammi fyrir þessum möguleika, hvaða merkingu hefur líf mitt?“ Með öðrum orðum, á þessu stigi hugsunar sinnar mundi Heidegger vera sammála Tolstoj að grundvallarspurningin sem sérhver maður, og þess vegna sérhver heimspekingur, verður að leggja fyrir sjálfan sig er þessi: „Fyrst dauðinn er til hvaða merkingu / tilgang hefur líf mitt?” Þessi spurning er eðlileg afleiðing af því að horfast í augu við sannleikann um hvernig við stöndum í raun og veru gagnvart dauðanum, sannleika sem stangast á við það hvernig fólk hugsar og talar venjulega um hann. Og dauðinn hugsaður sem varanlegur innri möguleiki fær alveg nýja vídd í samanburði við dauðann skoðaðan sem atburð í heiminum.

Magee Ég verð að segja einu sinni enn að þetta er nokkuð sem höfðar sterkt til mín. Enda þótt ég væri þjálfaður í gerólíkri heimspekihefð finnst mér heilmikið vit í öllu sem þú segir. Ég hef þessa tilfinningu í ríkum mæli – ég býst við að fjöldi fólks hljóti að hafa hana – að hversdagslíf okkar sé í senn ómerkilegt, innantómt, ofurkunnuglegt en samt dularfullt, furðulegt. Ég hef í enn ríkari mæli þá tilfinningu að það að horfast í augu við dauðann fái mann til að leita að einhverri merkingu eða tilgangi í lífi sínu. Hvernig fer Heidegger að því, þegar hér er komið, að svara spurningum sínum?

Barrett Hann hefur ekkert svar. Hann er bara að benda á þá formgerð mannlegrar tilvistar sem umgjörðina sem spurningarnar verða að falla inn í. Hann er að sýna fram á að þetta er vídd mannlegrar tilvistar sem einfaldlega verður að horfast í augu við. Svarið við spurningunni: „Hvaða merkingu hefur líf mitt?“ er komið undir einstaklingnum. Í þessum skilningi hefur Heidegger enga siðfræði.

Magee Þrátt fyrir það kemur það fram með eðlilegum hætti að tiltekin umræðuefni eru miðlæg í hugsun hans, og hann útfærir þau í löngu máli – þú nefndir eitt eða tvö rétt áðan. Getum við tekið þau mikilvægustu til umfjöllunar? Til að mynda er eitt einkenni lífsins sem hann veitir mikla athygli sú staðreynd að við erum einfaldlega stödd hér án þess að okkur hafi verið boðið. Okkur er öllum bara varpað inn í heiminn – reyndar merkir orðið sem hann notar um þetta hugtak bókstaflega ‘það að vera varpað eða kastað’: Geworfenheit.

Barrett Við völdum ekki foreldra okkar. Við fæddumst af þessum foreldrum, á þessum sérstaka tíma, á okkar sérstaka sögulega tímaskeiði, í sérstöku samfélagi með þá arfgerð, hver svo sem hún er, sem okkur er gefin – og með þessu verðum við að móta líf okkar. Sjálft upphaf mannlegs lífs er því eins og teningi sé varpað. Hending þess á sér djúpar rætur í óhjákvæmilegum staðreyndum. Þær eru hið ‘gefna’ fyrir okkur – svo þessu þekkingarfræðilega hugtaki sé gefin tilvistarleg merking.

Magee Og þessari ‘vörpun inn í heiminn’ og þar af leiðandi hendingu sem gegnsýrir næstum því allt sem varðar líf okkar fylgir jafn óhjákvæmilegur endanleiki, er það ekki? Ævi manns varir ákaflega stuttan tíma. Það er ekki bara þannig að við vöknum í heiminum og erum einfaldlega stödd hér, heldur erum við varla orðin vön þessu þegar því lýkur öllu aftur. Og sú staðreynd að því lýkur er fyrir flest okkar skelfileg. Hvernig ráðleggur Heidegger okkur að sætta okkur við allt þetta?

Barrett Engar forskriftir. Kjarni málsins er að hvaða ákvörðun sem við tökum til að gefa lífi okkar merkingu eða mæta dauðanum verðum við að horfast í augu við aðstæður mannsins með einum eða öðrum hætti. Hann segir þetta ekki en gefið er í skyn að kannski sé öll heimspeki svar við spurningunni um dauðann. Sókrates hafði orð á að öll heimspeki væri hugleiðing um dauðann – sem við gætum túlkað frjálslega að merkti að maðurinn mundi ekki hugsa heimspekilega þyrfti hann ekki að horfast í augu við dauðann. Værum við allir Adam sem lifðum eilíflega í garðinum Eden mundum við bara rölta um og velta fyrir okkur hinu og þessu en ekki neinu alvarlegu heimspekilegu viðfangsefni.

Magee Eitt sem Heidegger og tilvistarheimspekingar horfast í augu við, og sem ég hygg að fyrri heimspekingar hafi ekki fyllilega gert, er sú staðreynd að vitund okkur um dauðann veldur angist. Reyndar er hún skelfileg. Þessi angist frammi fyrir okkar eigin endanleika er eitt af meginþemum tilvistarheimspekinnar, er það ekki?

Barrett Jú. Og vitundin skerpist af þeirri staðreynd að það að vera til yfirleitt felur í sér að fara inn í framtíð sem hefur að geyma óumflýjanlegan dauða okkar. Hér komum við að öðru meginþema Heideggers – þeirri staðreynd að vera okkar öll er gegnsýrð af tíma. Já, þess vegna er heiti bókar hans Vera og tími. Við byrjum tilvist okkar sem verkefni í þeim skilningi að hún er eitthvað sem lagt er á okkur og við síðan tökum á okkur. Mannleg tilvist er ferli, (svo ég umorði Pope) hún er aldrei en á alltaf eftir að vera. Við erum alltaf flækt í það verkefni að skapa okkur sjálf – og alltaf út frá raunverulegum upphafspunkti okkar sem hefði getað verið öðruvísi.

Magee Og allan tímann á ferð inn í opna framtíð.

Barrett Rétt. Framtíðin er aðaltíðin hjá Heidegger vegna þess að hann sér manninn í meginatriðum sem opna veru sem stefnir fram. Ástæðan fyrir því að við smíðum hugmyndina klukku-tími og búum til úr og aðra tímamæla er einmitt sú að við ætlum að nota tíma okkar. Við erum að varpa okkur inn í framtíðina. Nútíðin hefur aðeins merkingu fyrir okkur að svo miklu leyti sem hún opnast í átt til mögulegrar framtíðar.

Magee Við vorum ekki fyrr komnir að viðfangsefninu ‘angist’ rétt áðan en við hurfum frá því og fórum að tala um ‘tíma’. Getum við farið aftur til ‘angistarinnar’ – þangað sem þú samþykktir að hún væri eitt af meginþemum tilvistarstefnunnar?

Barrett Angistin hefur átt margvíslegan feril í nútíma menningu. Fyrir fáeinum áratugum, þegar Auden gaf út bók sína The Age of Anxiety, komst hún meira að segja í tísku. Hún var það sem var ‘inni’. Fólk ræktaði angist sína – sem er heimskulegt að gera vegna þess að (minnugir umræðu okkar um dauðann) angistin er innbyggð í aðstæður okkar. Angistin er einfaldlega okkar mannlega tilvist, í óvissuástandi sínu, að koma upp á meðvitundarstig – hið einskæra óvissu­ástand mannlegrar tilvistar að titra gegnum okkur. Önnur nútíma afstaða – sumpart afleiðing þess að við erum tæknisamfélag sem ræður yfir vissum tækjum, lyfjum, úrræðum af ýmsu tæi – er að við ímyndum okkur að það hljóti að vera til eitthvert tæki eða ráð sem er þannig að við getum ýtt á hnapp og losnað við angistina. Hér er blekkingin sú að hún sé ekki eitthvað sem verður að horfast í augu við og lifa gegnum. Báðar öfgarnar eru óheppilegar. Angist er einfaldlega hluti þess að vera mannlegur. Á einum stað segir Heidegger reyndar: „Það eru til alls konar afbrigði af angist: í sumum myndum hefur hún friðsæld skapandi löngunar.“ Með öðrum orðum ef við værum ekki angistarfull sköpuðum við aldrei neitt.

Magee Tilraun mannsins til að flýja frá eigin angist, að komast undan raunveruleika eigin dauðleika, leiðir til einhvers sem er annað stórt þema tilvistarstefnunnar: firring. Við lokum augunum fyrir skelfilegum staðreyndum eigin tilvistar og leitumst raunar við að komast hjá að lifa með tilliti til þessara staðreynda. Það er eins og við séum utan við raunveruleika eigin lífs. Firring er líkt og angist nokkuð sem tilvistarstefnuheimspekingar hafa haft mikið að segja um – og bæði hugtökin hafa verið stórlega misskilin og misnotuð af nýtískulegum höfundum.

Barrett Já, reyndar hefur ‘firring’ verið svo mikið í umferð að sé orðið notað nú segir fólk: „Ó, þetta leiðinlega umræðuefni.“ Engu að síður vill svo til að þetta er eitt djúptækasta þema nútíma menningar: Hegel og Marx voru uppteknir af því og það hefur verið eitt aðaleinkenni bókmennta tuttugustu aldar. Bara sú staðreynd að siðmenning okkar hefur svo margar upplýsingaleiðir til umráða – svo að fólk veit hvað er ‘inni’ og hvað er ‘úti’ og orð eins og ‘firring’ ganga manna á milli þangað til þau verða ekkert annað en innantómar klisjur – eykur á firringu okkar, er eitt þeirra afla sem gera það. Blaður okkar um firringu gerir okkur einungis firrtari.

Magee Vitanlega, að fara með þessa hluti eins og tískufyrirbæri er að taka þá ekki alvarlega og þess vegna leið til að sneiða hjá þeim.

Barrett Já, en sjáðu til, firring kemur fyrir á nokkrum stigum. Eitt er það stig þar sem við getum týnt sjálfi okkar í hinu ópersónulega félagslega sjálfi – maður felur sig í félagslegu hlutverki sínu.

Magee Eins og Wordsworth orðaði það:

          „Veraldarvafstrið ríður okkur á slig:
          Sýknt og heilagt að afla og eyða slítur okkur út.
          Náttúran er orðin okkur fjarlæg og framandi.
          Við höfum svikið hjörtu okkar . . .“

Barrett En það er til annars konar firring. Og hún er raunverulegt vandamál, í þessum skilningi – ég orða þetta á svolítið gamansaman hátt, en ég held þú skiljir það. Hér er ég, stiginn af himnum ofan niður í London. Ég er ekki alveg búinn að finna sjálfan mig. Það virðist allt frekar framandlegt.

Magee Þér finnst þú ekki vera í sambandi við veruleikann.

Barrett Já. Þegar ég geng um göturnar er þetta framandi fólk. Eftir fáeina daga finnst mér sennilega að ég sé ‘heima’. Grunnmerking orðsins ‘firring’ er að vera framandi.

Magee Þetta finnst okkur öllum í framandi borgum. En sumum finnst þeir vera eins og framandi menn í heiminum sem slíkum.

Barrett Þeir búa í eigin skinni sem framandi menn.

Magee Við höfum nefnt helstu viðfangsefnin í Veru og tíma: þau tvö sem koma fyrir í titlinum sjálfum, og einnig dauðann, angist og firringu. Það er heilmikið annað í bókinni, mikið af því of tæknilegt, eða að minnsta kosti of erfitt, til að fjalla um í þessari stuttu samræðu. Dýrmætast af öllu er, að því er mér virðist, hin fyrirbærafræðilega greining á meðvitundinni – óvanalega djúp, hugvitssamleg og frumleg rannsókn, í raun afreksverk snillings. Í heild fjallar bókin um raunverulega djúpstæð efni. Og jafnvel þar sem hún gefur engin svör er sú staðreynd afar mikils virði að hún varpar ljósi á spurningarnar, eins og hún vissulega gerir.

Hins vegar, líkt og svo margir aðrir heimspekingar, eftir að Heidegger hafði útfært ‘stóra’ heimspeki sem ungur maður, hélt hann áfram og í einhverjum skilningi burt frá fyrri viðfangsefnum sínum. Enda þótt Vera og tími væri kynnt sem fyrra bindi þess sem átti að vera tveggja binda verk, kom annað bindið aldrei út, svo að við fengum bara hálfa bók. Hvers vegna lauk hann ekki verkinu sem hann hafði áformað?

Barrett Þetta er efni sem menn bæði rökræða og velta vöngum yfir. Heidegger reyndist hafa skilið eftir sig handritið að seinni hlutanum. Það verður gefið út sem eins konar Nachlass. En sjálfur held ég ekki að það breyti miklu fyrir skilninginn á honum. Ég held ég viti hvað hann ætlaði að segja í seinni hlutanum: Hann sagði sumt af því í fyrstu bók sinni um Kant. En þá gerist þetta – einhvers staðar í kringum 1936 – sem Heidegger fræðimenn kalla ‘vendinguna’. Honum fannst, í einhverjum skilningi, að hann hefði í Veru og tíma einskorðað athyglina um of við manninn. Hann sá að heimspeki sín var öflug gerð mannhyggju en líka að hún skildi eftir óljósa þá spurningu hverjar væru rætur mannverunnar.

Magee Þú átt við heim náttúrunnar, efnisheiminn?

Barrett Alheiminn. Í vissum skilningi, sjáðu til, mundi Heidegger kalla sig fylgismann Parmenídasar. Hann hefur skrifað um Parmenídas, gríska spekinginn sem fékk hina spennandi hugmynd: ‘alheimurinn er eitt’. Í fyrsta sinn í sögu mannsins kemur hér fram hugmyndin um alla tilveruna sem eitthvað sem við verðum að tengja okkur við í hugsun okkar. Heidegger álítur að það sem hefur gerst með nútíma menningu sé einmitt að við höfum glatað þessum alheimsrótum, orðið viðskila við tilfinninguna fyrir tengslum við heildina.

Magee Hvers vegna ætti að eigna þetta nútíma menningu sérstaklega? Er það ekki hluti af aðstæðum mannsins?

Barrett Það er það í þeim skilningi að maðurinn er vera sem flýr frá sannleikanum jafnvel þegar hann sækist eftir honum – og Parmenídes andmælti þessari ‘firringu’ hjá samtíðarmönnum sínum. En ég tel að ein af ástæðunum fyrir því að það gerist sérstaklega í menningu samtímans sé að við höfum byggt upp miklu tæknilegra samfélag. Við erum umloknari einskærum manngerðum ramma hluta en fólk var áður fyrr. Ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar ég kem til London, að hún sé nú mjög ólík þessari borg á dögum Shakespeares sem þá var miklu nær sveitinni – maður gat hreint og beint gengið út í sveit.

Magee Að setja firringu í sögulegt samhengi og þar af leiðandi með tilliti til þess sem er sérstakt við aðstæður mannsins á tuttugustu öld, er þá eitthvað sem Heidegger fór að verða upptekinn af eftir að hann hafði lokið við Veru og tíma?

Barrett Já. En seinni Heidegger er ekki kerfisbundinn, ekki einusinni kerfisbundinn á þann hátt sem hann leitast við að vera í Veru og tíma. Seinni Heidegger er aðallega að fást við vandamál skáldskapar og vandamál tækni. Hann telur að eitt af verkefnum heimspekinga á okkar tímum sé að reyna að hugsa til enda hvað tæknin felur í sér. Nútíma hugsun er of yfirborðsleg, of óekta hvað varðar viðfangsefnið tækni. Til er fólk með mjög hálfkæringslega afstöðu: Það er á móti vélum eða það er með tækni. Það er ekkert vit í því, sagði Heidegger, að maður á þessum sérstöku tímamótum í sögunni sé með eða á móti tækni. Við erum háð tækninni. Væri hún fjarlægð mundi öll siðmenningin hrynja. Þetta er áhættufé tilvistar okkar, hluti af hættuspili okkar. Á hinn bóginn er sú staðreynd sem kjarnorkusprengjan hefur gert mannlegri vitund ljósa almennt að tækninni fylgja róttækir möguleikar. Hingað til hefur fólk mótmælt tækninni sem orsök staðbundinna vandræða – atvinnuleysis, mengunar og þar fram eftir götunum – en sú hugmynd að maðurinn gæti tortímt sjálfum sér sýndi okkur hina skelfilegu möguleika innan tækniheimsins. Seinni Heidegger var að hugsa það til enda hvar í sögu mannsins rætur tæknilegrar tilveru hans liggja og hvert hún kynni að fara með hann.

Magee Hvernig tengist áhugi hans á skáldskap áhuga hans á tækni – nema hann sjái þetta tvennt sem gagnstæðar hliðar á sömu mynt?

Barrett Skáldskapur og tækni eru það. Eins og þér er vel kunnugt úr öðrum greinum heimspeki samtímans er viss tilhneiging hjá sumum heimspekingum að fara með tungumálið eins og formlegan reikning, tæki sem hægt er að ráðskast með og stjórna. Nú er það svo með ljóð, að dómi Heideggers, að það lætur ekki að kröfum vilja okkar. Skáldið getur ekki viljað yrkja ljóð, það bara kemur. Og við sem lesendur þess getum ekki heldur viljað viðbrögð okkar: Við verðum að gefa okkur ljóðinu á vald og leyfa því að orka á okkur. Heidegger tengir tæknilegar framfarir þessarar siðmenningar við fástískan vilja hennar sem verður að lokum viljinn til valds. Lykiltilvitnunin hér væri í Francis Bacon: „Við verðum að leggja náttúruna á píslarbekkinn til að knýja hana til að svara spurningum okkar“; áhrifamikil leið til að láta í ljós fylgi við tilraunaaðferðina. En staldri maður við til að hugsa, jafnvel þótt við leggjum veslings kvalda náttúruna á píslarbekkinn, verðum við samt að hlusta á viðbrögð hennar. Við verðum í einhverjum skilningi að gefa okkur sjálf, vera móttækileg. Það kemur að því að þvingunarstarf okkar verður að víkja fyrir því sem er þarna til að hlustað sé á það, hvað svo sem það er.

Magee Þetta minnir mig sterklega á upphafsatriðið hjá þér sem var viðskilnaður Heideggers við meginhefð vestrænnar heimspeki. Jafnvel byltingarkennd heimspeki innan þeirrar hefðar, eins og marxisminn, gengur að því sem vísu að það að sigrast á náttúrunni sé viðvarandi viðfangsefni mannkyns og það með réttu. En ein meginhugmynd Heideggers er andstæð þessu á róttækan hátt. Það er sú hugmynd að viljum við í raun og veru skilja aðstæður okkar – eða (orðað á annan hátt) viljum við í raun og veru skilja veruleikann – þá verðum við að reyna að þröngva okkur ekki upp á hann heldur frekar að gefa okkur honum á vald. Heldurðu að þetta tengist á einhvern alvarlegan hátt austrænum hugmyndum – hugmyndum sem maður er vanur að setja í samband við búddhatrú og hindúatrú eða austræna heimspeki almennt?

Barrett Ég held það geri það. Það eru vísbendingar um þetta í sumum seinni skrifum Heideggers þar sem stuttlega er vísað til taóisma og, á einum stað, til Zen búddhatrúar. Að sumu leyti virðist Heidegger að öll Vesturlönd séu fyrir rétti á þessum stað í sögunni. Möguleikar kjarnorkusprengjunnar leiddu honum þetta fyrir sjónir og við verðum að íhuga þá heimspekilega. Siðmenning sem sækist eindregið eftir yfirráðum og valdi kann líka á einhverjum tímapunkti að ganga af göflunum. Það kann því að koma að tímamótum þar sem við ættum að hætta að sýna vald okkar og bara láta hlutina í friði. Og, ef þú vilt, þá er hér að finna skynjun einhvers sem líkist hinum austræna anda.

Magee Ég hef fundið svo mikla ósvikna innsýn og dýpt hjá Heidegger að mér er fyrirmunað að skilja hvernig svo margir aðrir heimspekingar sem eru augljóslega gáfaðir – ég hef í huga menn eins og Rudolf Carnap, Karl Popper og A. J. Ayer – hafa getað fjallað um hann með slíku háði og fyrirlitningu sem raun ber vitni. Ekki aðeins í samtölum heldur einnig í útgefnum skrifum sínum hafa þeir hafnað verkum hans sem vitleysu í bókstaflegri merkingu, innantómri mælgi, eintómum orðaflaumi. En samt virðist mér að maður þurfi aðeins að lesa fyrsta innganginn að Veru og tíma til að sjá að fjarri því að vera einungis orðaflaumur þá er hún bæði merkileg og djúphugsuð. Hvers vegna hafa svo margir hæfir menn hafnað honum með svo mikilli fyrirlitningu?

Barrett Ja, ég vil ekki viðhafa móðgandi ummæli um ástand heimspekinnar en það er til viss tegund fagmannlegrar bjögunar. Maður hefur ákveðna sýn og henni fylgir blinda á sýn einhvers annars. Ég hygg að ein fyrirstaðan sé orðaforði Heideggers sem í byrjun fer í taugarnar á manni. En sé hann lesinn á þýsku kemst maður að raun um að hann skrifar sæmilega skýra þýsku. Ef prósi hans er borinn saman við prósa Hegels, til dæmis, þá er Heidegger skýrleikinn sjálfur. En ég er hræddur um að við finnum það alltaf í heimspeki að menn hafa dálæti á tilteknum völdum orðaforða. Þú nefndir Carnap. Ég var nemandi Carnaps í nokkur ár og ég fékk áhuga á Heidegger sumpart til að komast að því hvað væri hér á ferðinni: Gæti hann verið eins slæmur og þeir segja?

Magee Er það virkilega svo að árásir Carnaps á Heidegger komu þér í kynni við hann og þú lítir nú á hann sem að öllu leyti meiri heimspeking en Carnap?

Barrett Það er rétt . . .

Magee Áður en við hættum að fjalla um Heidegger held ég það skipti máli að leggja áherslu á að sú mynd af verkum hans sem flestir rökgreiningarheimspekingar virðast hafa og láta ganga áfram til nemenda sinna sem síðan endurtaka hana án þess að vita betur, er blátt áfram ósönn. Þeir ímynda sér að þau séu alls ekki heimspeki enda þótt ljóst sé að þau eru það. Þeir virðast gera ráð fyrir að honum sé mikið í mun að segja okkur hvernig við ættum að lifa – en eins og þú hefur lagt áherslu á forðast hann það sérstaklega. Þeir telja því að hann sé að setja reglur þegar hann er í raun að lýsa. Þeir virðast líka álíta að þetta sé allt eitt stórt sjónarspil – rómantískt, uppskrúfað og óagað – en mestur hluti Veru og tíma, að minnsta kosti, samanstendur hins vegar af frekar hægfara og mjög nákvæmri lýsandi greiningu sem væri þurrlega akademísk ef ekki væri vegna þess hve viðfangsefnið er frumlegt, spennandi og mikilvægt. Þar sem þessu er svona varið eru háðsglósur eða svívirðingar um Heidegger og heimspeki hans sem maður er vanur að heyra frá rökgreiningarheimspekingum svo fjarri sanni að þær leiða í ljós svo ekki verður um villst vanþekkingu þeirra. Bara persónulega held ég að honum hljóti að hafa virst þetta smánarlegt með öllu, ef ekki ófyrirgefanlegt. En vitanlega er hann ekki eini stóri hugsuðurinn í sögu heimspekinnar sem hefur verið ófrægður. Í sumum kringumstæðum virðist það vera hluti af gjaldinu sem hver sá þarf að greiða sem er frumlegur á róttækan hátt.

En við skulum halda áfram. Ég vil koma með annan mann inn í umræðuna. Í innganginum lofaði ég að við mundum segja eitthvað um Sartre. Ég sagði að enda þótt Sartre hafi orðið frægasti tilvistarspekingurinn, reyndar eina nafnið sem flestir setja í samband við tilvistarstefnuna, þá sé hann ekki eins frumlegur hugsuður og Heidegger. Engu að síður hefur hann lagt eitthvað af mörkum. Hvernig mundirðu lýsa helsta framlagi Sartres?

Barrett Sjálfur tel ég að sumar skáldsögur Sartres og sum leikrit hans séu mikilvægari en nokkur heimspekiskrif hans, en samt sem áður fellst ég á að hann sé töluvert snjall heimspekingur. Aðalheimspekirit hans kallast Vera og neind. Þetta er hrikalegt rangnefni. Bókin er ekki um veru og hún er ekki um neind. Sartre hefur ekki mikla tilfinningu fyrir verunni. Hverju svo sem maður kann að andmæla hjá Heidegger þá verður hann að viðurkenna að maðurinn er gegnsýrður af tilfinningu fyrir verunni. Bók Sartres er í raun og veru melódrama tveggja vitunda eins og Descartes hugsar sér þær. Auðvitað eru þær cartesískar vegna þess að hann er franskur – sérhver Frakki er hallur undir Descartes þegar gengið er nógu hart að honum. Þessar tvær vitundir skilja aldrei hvor aðra. Þær eru tveir sjálfsveruhugir sem rangtúlka hvor annan: Ég, sem sjálfsvera, þröngva mér upp á þig og breyti þér í hlutveru; þú svarar í sömu mynt. Og svo heldur þessi djöfullega samræða rangtúlkunar og misskilnings áfram. Að lokum verður ógerlegt fyrir okkur að eiga samskipti í einlægni. Þessi doðrantur Sartres er því í rauninni bók um vandamálið einlægni eða heilindi – sem er, að ég hygg, grundvallarvandamál franskra bókmennta frá Montaigne, um Molière til Prousts.

Frægasta og jákvæðasta kenning Sartres er hugmynd hans um frelsi. Það er kenningin sem náði mestri hylli almennings af því að hún gefur okkur víðfeðmustu möguleika frelsisins. Sem mannverur er frelsi okkar algert og ótakmarkað. Ekkert aftrar okkur frá að gera óteljandi fljótfærnislega og hættulega hluti hvenær sem er.

Magee Mér skilst þú eigir til að mynda við, að ég sé nú frjáls til að taka upp þennan þunga öskubakka og lemja þig í höfuðið með honum, eða stökkva ofan af þaki þessarar byggingar, eða taka næstu flugvél frá London og koma aldrei aftur það sem eftir er ævinnar. Ég get bókstaflega, ef ég vil, gert þetta allt og enginn gæti stöðvað mig. Það eru óteljandi aðrar slíkar athafnir sem ég er frjáls til að framkvæma hvenær sem er – hvaða hugsanleg athöfn sem er, hversu öfgakennd eða ofsafengin eða duttlungafull eða óvenjuleg sem hún er, sem enginn er í raun og veru í aðstöðu til aftra mér með valdi frá að gera. Og það sem Sartre leggur stöðugt áherslu á er að við horfumst ekki í augu við þessa hlið á raunveruleika aðstæðna okkar. Í staðinn látum við eins og við séum langtum takmarkaðri, langtum ófrjálsari en við erum. Þess vegna látum við stjórnast af siðvenju og því sem aðrir hugsa miklu meira en nauðsynlegt er. Við gefum ímyndunaraflinu langtum minna svigrúm í lífi okkar – og því langtum minna frelsi – en við gætum notað með skapandi hætti.

Barrett Dæmin hjá þér eru ljómandi góð – þau leggja áherslu á það sem er vafasamast í skoðun Sartres. Hvenær verður þetta algera og ótakmarkaða frelsi sjúklegt? Eyðileggjandi og sjálfseyðileggjandi? Samkvæmt hefð hefur frelsi ætíð verið tengt hugmyndinni um ábyrgð og ég mundi vilja varðveita þau tengsl. Án efa er siðvenja of þungur baggi á sumum og takmarkar möguleika þeirra til frelsis. En ég velti því fyrir mér hvort við höfum ekki ýkt hugmyndina um hamlandi hlutverk siðvenju þegar hér er komið sögu. Þeir sem eru heftir af siðvenju hafa yfirleitt ekki bein í nefinu hvort eð er. Og dágóður fjöldi þeirra sem brjóta gegn siðvenju eiga ekkert sjálfir til að brjóta gegn henni með. Á árunum milli nítján hundruð og sextíu og sjötíu sá ég dágóðan fjölda ungs fólks bjóða siðvenju byrginn og jafnvel slá um sig með tilvistarorðunum ‘ekta’ og ‘óekta’, og í flestum tilvikum var árangurinn ákaflega rýr og satt að segja óekta. Þeir hefðu verið meira ekta einstaklingar ef þeir hefðu fylgt einhverjum siðvenjum; og sumir þeirra tortímdu reyndar sjálfum sér. Það er jákvætt gildi í vissum siðvenjum: Þegar allt kemur til alls er tungumálið sjálft siðvenja og þú og ég gætum ekki verið að tala saman án þess. Fylgi maður siðvenjunum, og hafi einhvern frumleika til að bera, endar hann með því að vera óhefðbundinn hvort eð er – en án þess að leggja sig fram um það. Þetta snýst um að fara meðalveg – en Sartre kýs heldur að leggja áherslu á öfgarnar. Og sé orðræða hans skoðuð sést að tortímingarmöguleikar þessa frelsis sem hann mælir með sækja að henni, í trássi við hann sjálfan. Þannig segir hann okkur að mann sundli við tilhugsunina um þetta algera frelsi: Það er eins og að standa á hengiflugi sem ég get hvenær sem er fleygt mér fram af út í loftið. Ekkert aftrar mér. Hér er ímynd frelsisins ímynd sjálfstortímingar.

Magee En það er þó rétt hjá Sartre að ýkja þá staðreynd að veruleiki vals og frelsis sem við höfum í raun og veru í lífinu er langtum meiri en við sjálf viljum horfast í augu við lengst af, er það ekki?

Barrett Ýkjurnar eru ágætar. Spurningin er hvort hann ýkir ekki um of eina hliðina á málinu í heild. Og hér tel ég að skilningur Heideggers sé langtum dýpri en skilningur Sartres. Eigi maður að finna frelsi sitt einhvers staðar verður það að lokum að vera innan hins venjulega daglega veruleika lífsins. Eftir hið glæsilega og tilkomumikla frelsisstökk sem maður tekur einn (og ég held annars að það sé rangt að þrengja frelsisvandann í spurninguna um hina einstöku athöfn) verður hann að koma til jarðar í hversdagsheiminum aftur. Þú skellir þér með flugvél til Tahiti til að byrja nýtt líf – og þú berð sama gamla sjálfið með þér. Einstaklingurinn sem æðir út í eitthvað að vanhugsuðu máli er kannski að þjóta í ranga átt, ranga fyrir þann einstakling sem hann er. Í því tilfelli verður hann áfram, þrátt fyrir allt sýndarfrelsið, jafn blindur og þegar hann lagði af stað – og þess vegna jafn ófrjáls.

Grundvallarfrelsið, að dómi Heideggers, er frelsi okkar til að vera opin fyrir sannleikanum og kemur athafnafrelsið á eftir því. Hver er tilgangur athafnar okkar ef við sjálf erum ekki upplýst? Að vera opin fyrir sannleikanum er ekki auðvelt mál, eins og allir sálkönnuðir geta sagt manni. Sálkönnunarsjúklingurinn getur ekki séð sannleikann í aðstæðum sínum af því að hann sjálfur setur hindranir fyrir sýn sína á þær. Okkur er öllum trúandi til að sýna yfirþyrmandi þvermóðsku í því að afskræma þær mannlegu aðstæður sem við stöndum andspænis daglega. Það er erfitt að stíga skref til baka og láta vera, láta hluti sjást í réttu ljósi. Við verðum að gefa upp á bátinn, alltént um sinn, hina hamslausu frekju okkar, með allri þeirri afskræmingu sem af henni leiðir. Öll seinni skrif Heideggers eru í raun langvarandi árás á viljann til valds sem sýkir vestræna siðmenningu jafnvel þar sem um persónuleg tengsl er að ræða.

Magee Kjarni málsins er þó sá að maður getur aðeins í raun og veru skilið veruleikann, eða náttúruna, ef hann í einhverjum skilningi gefur sig henni á vald.

Barrett Já, og mundu að náttúran felur einnig í sér okkar mannlegu náttúru. Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir ekki aðeins efnisheiminum heldur einnig fólki, og ekki aðeins öðru fólki heldur okkur sjálfum: Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir persónulegu lífi okkar. Eins og sálkönnunin sýnir getur fólk verið í stríði við sjálft sig, meðvitað gegn ómeðvituðu. Það kann að vera að við komumst á ákveðið stig þar sem við verðum að hætta að reyna að kúga til hlýðni þann hluta náttúrunnar sem er við sjálf, stig þar sem við verðum að gefa okkur henni á vald. Hið eina sem Heidegger hefur að bjóða er viss tegund hugsunar sem er (segir hann) í ætt við skáldskap að því leyti að hún íhugar veruna frekar en hluti sem hún getur ráðskast með. Þetta kann ef til vill að opna okkur fyrir einhverjum víddum í tilverunni sem eru ekki tæknilegar.

Magee En ef við viljum halda áfram að lifa í heimi sem hefur brýr og sjúkrahús og heilauppskurði þá verðum við að lifa í heimi sem er á háu tæknistigi, og þess vegna munum við verða að hugsa tæknilega, samhliða annars konar hugsun.

Barrett Hárrétt. En þetta er einmitt kjarni málsins hjá Heidegger. Fólk sem er ‘á móti tækninni’ er algerlega óekta. Það hefur ekki ígrundaða og skynsamlega söguskoðun vegna þess að tæknin er hluti af örlögum okkar. Við getum ekki lifað án hennar. Hún er vera okkar í vissum skilningi: Það sem við erum sem nútíma mannverur er að hluta það sem við erum með atbeina tækni. Svo það er einfaldlega ekki hægt að hafna henni. Allar slíkar skoðanir bera í rauninni ekki vott um neina djúpa hugsun. Samt sem áður veldur tæknin vandamálum. Ef við, til að mynda, sprengjum okkur ekki í loft upp þá verður tæknin sem við höfum nú úrelt og agnarsmá að hundrað árum liðnum – alveg eins og það er mikið af nútíma tækni sem nítjándu aldar mótmæli gegn sýnast nú úrelt. En það þýðir gerbreyting á lífi okkar sem við erum ekki undirbúin hvað hugsun okkar varðar. Hugleiðum spurninguna um erfðastjórnun, erfðatækni: Erum við tilbúin að segja hvers konar arfgerðir við viljum hanna? Sjáðu til, við öflum okkur kannski tækjanna til þess arna án þess að hafa öðlast mannlega visku til að nota þau okkur til endanlegs góðs.

Magee En ég sé ekki hvernig Heidegger kemur inn í þetta. Hvernig ætlar hann hjálpa okkur að framkvæma þess konar val?

Barrett Með því að vekja okkur til vitundar um þá staðreynd að samhliða tæknilegum hugsunarhætti okkar verðum við að tileinka okkur annars konar hugsun sem er gerólík. Ég fer í gönguferðir í skóginum í grennd við staðinn þar sem ég á heima, og fari ég í gönguferð í þessum skógi síðdegis er ég að hugsa allan tímann. En spyrji einhver þegar ég kem aftur: „Hvaða vandamál leystirðu?“ yrði ég að svara: „Ég var ekki að hugsa þess konar hugsun. Ég var að velta hinu og þessu fyrir mér, átta mig á sjálfum mér og náttúrunni.“ Ég er miklu heilbrigðari og heilli þegar ég kem til baka eftir þess konar hugleiðingar. En það má ímynda sér að spyrjandinn hugsi með sjálfum sér: „Þetta er mjög furðulegt. Hann segist hafa verið að hugsa, en hann var samt ekki að íhuga neitt vandamál og hann reiknaði ekkert út.“

Magee Ég ver miklum tíma niðursokkinn í þess konar sjálfsáttun svo það þarf ekki að sannfæra mig um gildi hennar. Samt sem áður er það í sjálfu sér ekki nóg. Þrátt fyrir allt sem þú hefur sagt sé ég það samt sem takmörkun að það vantar jákvæða kenningu hjá Heidegger, en þó takmörkun heimspekinnar sem slíkrar, viðurkenni ég. Á aukinn skilningur á aðstæðum okkar sem við öðlumst með því að kynna okkur heimspeki hans að vera óvirkur einvörðungu? Eigum við alls ekki á neinn hátt að hegða okkur öðruvísi eða lifa öðruvísi? Ef hann ætti eftir að halda áfram – eins og þeir guðfræðingar sem hann hefur haft áhrif á gera og eins og hinn vestræni maður var vanur að gera samkvæmt hefð – og segja að endanleg skýring á heiminum sé að hann hafi verið skapaður af Guði, að þessi Guð hefði ákveðnar fyrirætlanir með því að skapa heiminn og okkur, að réttur lífsmáti fyrir okkur sé að lifa í samræmi við þessar fyrirætlanir, og að Guð hafi gert ráðstafanir til að láta okkur vita hverjar þessar fyrirætlanir eru – ef Heidegger héldi áfram og segði allt þetta þá væri það eitt. En hann gerir það ekki. Hann skilur okkur enn eftir án leiðsagnar um hvernig halda skuli áfram. Hin trúarlega skoðun á heiminum gaf hinum vestræna manni bæði alheimslega skýringu og gildakerfi og þar af leiðandi markmið. Fyrir marga hefur missir trúar á Guð tekið allt þetta burt. Mörgum okkar finnst nú að við lifum í heimi án merkingar, án tilgangs, án gildis. Ég get vel ímyndað mér að einhver horfi til tilvistarspekinnar til að fá einhvern skilning á þessum hlutum. En mér virðist Heidegger ekki láta hann í té.

Barrett Nei, hann útvegar ekki það sem þú biður um. En það er ekki lítið sem þú biður um og ég velti því fyrir mér hvort heimspeki, nokkur heimspeki, geti látið í té svörin sem þú leitar. Um nokkurt skeið hefur heimspekin spurt hvort hún hafi nokkra ‘jákvæða kenningu’ – í merkingunni samhangandi kerfi staðhæfinga – upp á að bjóða. Á það er lögð áhersla aftur og aftur, og það kemur frá ýmsum stefnum í heimspeki, að heimspeki sé aðallega útskýringastarf. Minnumst hinnar afar einföldu en yfirþyrmandi setningar Wittgensteins: „Heimspekin skilur við heiminn eins og hann er.“ Hún færir okkur enga nýja vitneskju eða kenningu um heiminn. Allt þetta er arfleifðin frá Kant: Að frumspekin samanstandi einungis af stýrihugmyndum sem hafi ekkert hlutlægt inntak. Við getum áreiðanlega ekki vænst þess að heimspekin láti í té nokkuð jafn mikilvægt fyrir þorra manna og trúin var einu sinni.

Nú, Heidegger er uppi á sama tímabili í sögunni og hinir heimspekingarnir og honum eru vel ljósar takmarkanirnar sem það setur. Heimspekin á þessu tímabili kann að verða að takast á hendur hógværara hlutverk. Hjá Heidegger er þessi fallega setning einhvers staðar: „Heimspekin verður að læra að lækka flugið enn einu sinni og horfast í augu við vanmátt sinn.“ Til hvers að flýta sér að setja saman eitthvert nýtt heimspekikerfi áður en við höfum lært að lifa með spurningunum sjálfum? Við förum bara frá einni sýndarlausninni til annarrar – kerfum sem eru allsráðandi í áratug og er síðan horfið frá. Á heimspekiferli mínum, frá námsárunum til þessa dags, hef ég komist í kynni við sex ólíkar almennt viðteknar rétttrúnaðarkreddur. Og ég sé nú þegar að sú síðasta er á leið út. Hvað trúarbrögðin varðar verðum við kannski að byrja þar einnig á byrjuninni. Heidegger mundi krefjast þess að heimspekingurinn legði mat á tíðarandann og gerði sér grein fyrir því sérstaka myrkri sem grúfir yfir okkar tímaskeiði. Ég held það hafi verið Matthew Arnold sem sagði, og það mjög spámannlega, að við værum milli tveggja heima, annars sem er dauður og hins sem er ófær um að fæðast. Þetta er líka hugsun Heideggers, en skáldið sem hann vitnar í er Hölderlin: Við erum í dimmunni milli guðanna sem eru horfnir og guðsins sem enn er ókominn. Heidegger sjálfur ólst upp sem kaþólikki og var í kaþólskum prestaskóla að læra til prests þegar hann las fyrst Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant og sannfærðist af rökum Kants um að sannanirnar fyrir tilvist Guðs stæðust ekki. Hann færði sig í háskólann og nam náttúruvísindi um nokkurt skeið, síðan heimspeki. Hann er, eftir allt saman, án sérstakrar guðstrúar. Hann hefur talað um sig sem ‘guðlausan’ – eins og hann meinti þetta sem persónuleg örlög sem hann hefði orðið fyrir. En í ritgerð sem er skrifuð seint hefur hann sagt: „En samt er guðleysi mitt kannski nær Guði en heimspekileg guðstrú.“ Hann varðveitir þannig frá Kant þá sannfæringu að leiðin til Guðs sé ekki gegnum röksemdafærslur eða sannanir. Vera-okkar-til-Guðs hlýtur að vera eitthvað afar ólíkt vitsmunalegri sannfæringu eingöngu. Hann er hvorki guðleysingi né guðstrúarmaður heldur hugsuður sem undirbýr leiðina fyrir nýjan skilning á því hvað það merkir að vera trúaður.

Magee Ég er ekki trúaður í venjulegum skilningi en mér virðist grundvallarvandamálin enn vera til staðar eftir að við höfum pælt gegnum Heidegger. Hann varpar heilmiklu ljósi á allt sem við höfum verið að tala um en hann skilur samt við okkur frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu staðreynd að við munum deyja, sem svo aftur veldur hjá okkur ákafri tilfinningalegri þörf til að finna einhverja merkingu í þessu lífi okkar og hann hefur samt ekki gefið okkur minnstu vísbendingu um hver hún kynni að vera eða jafnvel gæti verið. Það er þörf fyrir næsta skref. Hvert höldum við héðan . . . ? Mér virðist heimspeki Heideggers ekki vera möguleg endastöð. Hún er næstum því forleikur að annars konar heimspeki frekar en hún sé sjálf heimspeki.

Barrett Hún er undirbúningur undir heimspeki en ekki í þeim skilningi sem handbók í rökfræði kynni að vera talin slíkur undirbúningur. Og sú endanlegu heimspeki sem hugsun hans ryður brautina fyrir, segir Heidegger okkur, kynni að vera svo ólík því sem við höfum nú að hún yrði kannski alls ekki kölluð ‘heimspeki’. Hún kynni að vera jafn ólík þeirri heimspeki sem við höfum nú og grísk heimspeki var ólík þeirri tegund vitundar sem var á undan henni. Er Heidegger hér hinn óraunsæi draumóramaður? Ja, hugleiðum þennan einfalda en tilkomumikla sögulega bakgrunn: Heimspekin gat af sér vísindin; nú eru raunvísindin og tæknin komin og hafa gerbreytt öllu lífi mannkynsins á þessum hnetti. Hefur heimspekin nokkra nýja sýn sem svarar til þessa einstæða stigs sögulegrar tilvistar sem mannkynið hefur komist á? Kannski þetta sé ástæðan fyrir því að svo mikið af akademískri heimspeki okkar fangar ekki athygli fólks utan greinarinnar sjálfrar. Að svo miklu leyti sem við hugsum heimspekilega innan gamla hugtakarammans getum við aðeins skreytt hann með nýjum tæknilegum smáatriðum sem verða að lokum léttvæg. Viðleitnin til að finna nýja leið fyrir hugsun hlýtur óhjákvæmilega að vera tilraunakennd og hikandi. Eins og ég sagði rétt áðan talar Heidegger gjarnan um sig sem hugsuð á leiðinni. Kannski virðist hann fara of hægt á stundum, en mér líkar frekar vel við þennan hægagang Heideggers í seinni verkum hans. Sjálfur getur hann ekki skýrt frá því hver áfangastaður hans er. Til þess að geta það hefði hann nú þegar orðið að vera kominn, hingað til er hann bara á leiðinni. Eflaust hlýtur þetta ástand fálmandi leitar og biðar að reyna á þolinmæði þeirra sem mundu fagna stóru kerfi eða vildu æða út í trúarleg sinnaskipti. En hvað annað eigum við að gera?

Magee Í sumri nútíma list er sá skilningur á manninum að hann lifi í heimi án Guðs skelfilegur – til að mynda í leikritum Samuels Becketts. Beðið eftir Godot lætur í ljós á næstum því óbærilegan hátt þá einangrunartilfinningu, sem og tilfinningu um merkingarleysi, sem sá einstaklingur skynjar sem upplifir sig í heimi án tilgangs. Mér virðist vanta í verk Heideggers þá skelfingu sem gerir það að horfa á Beðið eftir Godot næstum því sársaukafullt.

Barrett Það er athyglisvert að þú skyldir nefna Beðið eftir Godot. Ég hef heyrt að Heidegger hafi séð leikritið flutt í Þýskalandi og sagt að lokinni sýningu: „Þessi maður hlýtur að hafa lesið Heidegger.“ Vel á minnst, áherslan í titlinum er á ‘beðið’ – og Heidegger segir að öll hugsun sín sé einhvers konar bið. En að halda samt fast við þessa bið felur í sér vissa yfirlýsingu: Það er eins konar könnun, eins konar leit. Heidegger fór ekki inn í fyrirheitna landið. En hann kynni að gera öðrum kleift að fara þangað.

Magee Þegar öllu er á botninn hvolft virðist mér tilvistarstefnan vera for-trúarleg. Það er að segja, fari maður gegnum þessa heimspeki skilur hún að lokum við hann á þröskuldi trúarinnar – eða kannski ætti ég frekar að segja, hún skilur við mann frammi fyrir endanlegu vali sem felur í sér trú. Að lokum, annaðhvort merkir sú staðreynd eitthvað að það sem er til skuli vera til eða að öðrum kosti er allt merkingarlaust.

Barrett Já, að svo miklu leyti sem heimspeki fæst við grundvallarviðhorf bendir hún okkur til hins trúarlega sviðs tilverunnar, hvernig svo sem við kunnum að bregðast við á því sviði.
                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísun

1. William Barrett (1913–1992). – Auk bókarinnar sem Magee nefnir hefur Barrett m.a. skrifað The Illusion of Technique: A Search for Meaning in a Technological Civilization (1979) og Death of the Soul: From Descartes to the Computer (1986). Irrational Man kom fyrst út 1958 og var endurútgefin 1977; hafði reyndar verið prentuð í kiljuformi áður. Talsvert ólíka umfjöllun um Heidegger er að finna í samræðu sem Magee átti við bandaríska heimspekinginn Hubert Dreyfus í BBC 1987 undir heitinu „Husserl, Heidegger og nútíma tilvistarstefna“. Þýðingu á þeirri samræðu má lesa í bókinni Miklir heimspekingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi 2002. – Þýð.

Heimspeki Hávamála

eftir Óttar M. Norðfjörð

Þessi fyrirlestur er unninn upp úr lokaritgerð minni „Heimspeki Hávamála“ í heimspeki við Háskóla Íslands og skiptist í þrjá hluta: (1) Fyrst verður fjallað um mögulegan aldur „Hávamála“ og uppruna þeirra, (2) Síðan verður fjallað um hvernig fræðimenn hafa tekið á „Hávamálum“ í gegnum árin (3) og loks verður framlag mitt til fræðanna útskýrt.

1.

„Hávamál“ eru að mestu ort undir ljóðahætti. Hátturinn einkennist af sex ljóðlínum, sem eru lausar við málskrúð og yfirleitt með eftirminnilegu spakmæli í þriðju og sjöttu ljóðlínu. Ljóðin eru lögð í munn Óðins og skiptast í tvennt: annars vegar veraldleg boðorð sem dauðlegir menn geta fylgt (v. 1-137) og hins vegar göldrótt boðorð sem eru dulin dauðlegum mönnum (v. 138-163).

Mikið hefur verið skrifað um hvar og hvenær „Hávamál“ urðu til. Fræðimenn skiptast fyrst og fremst í tvo hópa: þeir sem telja þau norsk og ort fyrir árið 1000, og hinir sem telja þau íslensk og ort eftir árið 1000. Eitt af því fáa sem við vitum fyrir víst í þessum efnum er að „Hávamál“ er aðeins að finna í íslensku handriti sem nefnist Konungsbók Eddukvæða, skrifað um árið 1270. Þar koma „Hávamál“ næst á eftir „Völuspá“ í upphafi handritsins, en það sýnir okkur mikilvægi þeirra fyrir þann sem safnaði Eddukvæðunum saman. Það er of langt mál að rekja deiluna um uppruna „Hávamála“ hér, enda ætla ég að fjalla um hugtakakerfið í kvæðinu. Ég læt mér því nægja að nefna tilgátu mína varðandi uppruna þeirra.

Eins og ég sé málin hafa vísur „Hávamála“ ýmist verið settar saman úr þekktum kviðlingum eða ortar með hliðsjón af tilteknum þjóðfélagsháttum eða náttúrueinkennum. Þannig finnum við vísanir í írska þjóðsögu, norska staðarhætti, færeyskan kviðling, latneska tengiorðið „sic“ og ýmislegt fleira í kvæðinu. Kvæðið er því rammlega háð allri norðurálfu, því landsvæði sem menn á norðurhjara veraldar sigldu um. Rætur „Hávamála“ er því ekki hægt að rekja til eins lands, heldur landsvæðis, og þá líklega sérstaklega Noregs sökum margra orða og orðasambanda sem virðast vísa þangað, þótt ég telji nokkuð öruggt að fullyrða að kvæðið hafi fengið sína lokamynd og mót á Íslandi.

Hvað varðar aldur kvæðisins, þá verðum við fyrst að huga að aldri hvers flokks fyrir sig, en „Hávamálum“ eru jafnan skipt í sex flokka: (1) Gestaþátt (v. 1-83), (2) Billings meyjar þátt (v. 84-102), Gunnlaðarþátt (v. 103-110), Loddfáfnismál (v. 111-137), Rúnatal (v. 138-145) og Ljóðatal (v. 146-163). Fræðimenn hyggja einkum að tungutaki hvers þáttar til að grafast fyrir um aldurinn, en þá virðist koma í ljós að síðustu tveir flokkarnir, Rúnatal og Ljóðatal, séu ortir á fyrri hluta 9. aldar, að Billings meyjar þáttur og Gunnlaðarþáttur séu ortir á 12. öld, að Loddfáfnismál sé samansafn svo margra vísa að það sé í raun ógjörningur að greina aldur þess með nokkurri nákvæmni, og að Gestaþáttur – sem er líklega þekktasti flokkur „Hávamála“ – sé ortur eða „safnað saman“ einhvern tíma eftir árið 1000.

Áhugaverðari spurning um aldurinn tengist þó aldri kvæðasafnsins sjálfs, hvenær flokkunum var safnað saman og þeir látnir mynda eina heild eða heildstæðan kvæðabálk, auk spurningarinnar um hver safnaði þeim saman, en Snorri Sturluson hefur meðal annars verið nefndur í því samhengi. Ég get ekki farið út í þá áhugaverðu umræðu hér og skil ykkur aðeins eftir með tilgátu mína, sem er sú að „Hávamál“ sem kvæðasafn hafi orðið til á tímabilinu 1220-70, eða á milli ritunarSnorra-Eddu og Konungsbókar Eddukvæða.

2.

Þá höfum við útskýrt lítillega mögulegan uppruna og aldur „Hávamála“, svo við höfum ögn skýrari mynd af kvæðinu. En nú skulum við færa okkur nær innihaldi þess, að þeirri heimspeki sem þar birtist. Ég vona að ég móðgi engan þegar ég segi að mér virðist að flestir fræðimenn sem hafa skrifað um „Hávamál“ sé lítið umhugað um að útskýra heimspeki kvæðisins á fræðilegan hátt. Það er í raun ótrúlegt hversu lítið hefur verið fjallað um heimspeki „Hávamála“ á fræðilegan máta, því í rannsóknum mínum rakst ég fyrst og fremst á greinar og bækur um aldur þeirra, uppruna og merkingu tiltekinna orða eða orðasambanda.

Þegar fræðimenn skrifa hins vegar um heimspeki „Hávamála“, þá einkennast þau fyrst og fremst af upptalningu á þeirri heimspeki sem þar birtist, frekar en að mat sé lagt á hana eða þá að reynt sé að grafast fyrir um einhvers konar heimspekilega heildarmynd innan kvæðisins. Þó skal tekið fram að Guðmundur Finnbogason, Símon Ágústsson og Hermann Pálsson hafa allir lagt sig fram við að útskýra heimspeki kvæðisins á nokkuð fræðilegan máta, enda studdist ég mikið við skrif þeirra.

Með því að styðjast við hugmyndir þeirra, auk annarra, ásamt eigin hyggjuviti, reyndi ég að greina undirtexta kvæðisins, svo að segja, í því augnamiði að reyna að finna hvort það væri einhver tiltekinn boðskapur boðaður í kvæðinu. Vegna þessara nálgunar að „Hávamálum“ leiddi ég hjá mér hefðbundna sex flokka skiptingu þeirra, og bjó til mína eigin tvo flokka: sígildan og sérgildan. Sígildi flokkurinn varðar boð um ákveðin lífsgildi sem virðast hvorki bundin stað né stund, heiðni eða kristni, heldur virðast þau eiga jafn vel við í dag og fyrir 1000 árum. Sérgildi flokkurinn varðar hins vegar boð um lífsgildi og hefðir sem virðast bundin þeim stað og stund sem þau spruttu af. Kvenfyrirlitning, rúnir og galdrar í „Hávamálum“ eru dæmi um sérgildar hugmyndir í þessum skilningi. Ég þarf varla að taka fram að í rannsókn minni beini ég sjónum mínum að sígilda flokkinum.

Við getum sagt að nálgun mín að heimspeki „Hávamála“ sé analýtísk, því ég reyni að greina boðskap hverrar vísu eða vísubrots, óháð stöðu þess innan kvæðisins, en þannig tengi ég saman vísur sem eru ekki endilega hlið við hlið í kvæðinu, heldur sem tengjast hugmyndafræðilega. Ég las kvæðið ítrekað yfir og merkti við hvað hver vísa eða vísubrot væri að koma til skila. Þannig sýnir ein vísa að líf manns sem er vitur er betra en þess sem er óvitur, og önnur sýnir að líf manns sem á vini er betra en manns sem á enga vini. Með því að greina kvæðið með þessum hætti, óháð stöðu ákveðinna vísa, kemst boðskapurinn betur til skila að mínu mati, því þá er hver vísa lesin í ljósi ákveðins hugtaks eða sem leið til að koma áleiðis tilteknum skilaboðum.

3.

Með slíkum rökgreinandi lestri á „Hávamálum“ sést fljótlega að höfundur þess – eins og ég nefni hann hér þrátt fyrir að réttara væri að tala um höfunda þeirra þar sem kvæðasafnið er samansafn og afrakstur nokkurra alda og vafalaust margra manna – er að boða tiltekinn lífsmáta sem á að leiða til sæluríks lífs. Sæla er það lífsmarkmið sem „Hávamál“ boða. Hugtakið merkir þó ekki einskæra gleði – tímabundið fallvalt tilfinningaástand – heldur langvarandi, jákvæða sálarvirkni sem erfitt er að öðlast og erfitt er að breyta. Sæla merkir heill eða hamingja mannsins. Höfundurinn fjallar um fjögur hugtök sem eiga að leiði til sæluríks lífs. Þetta eru hugtökin ‘snotur’, ‘sjálfræði’, ‘vinir’ og ‘gleði’. Þessi fjögur hugtök koma reglulega fyrir sem fyrirbæri sem einstaklingurinn ætti að stefna að.

Guðmundur Finnbogason taldi einnig að sæla væri það markmið sem boðað er í „Hávamálum“, svo ég tek augljóslega undir tilgátu hans í rannsókn minni, en skipti hins vegar hugtakinu í tvennt og tala annars vegar um ytri sælu og hins vegar um innri sælu. Ytri sæla varðar sýn annarra á mig, þau ytri gæði sem manni getur hlotnast. Þannig er boðað að virðast ekki heimskur innan um gáfaða menn og að maður passi upp á að skaða ekki orðstír sinn, því hann einn mun lifa lengur en maður sjálfur. Innri sæla varðar aftur á móti mitt persónulega sálarlíf, sálarró einstaklingsins og hamingju. Hér skipta vísurnar um vini og vandamenn og sýn höfundarins á gleði miklu máli. Mikilvægt er þó að hafa í huga að báðar útgáfur sæluhugtaksins eiga sér sömu fjórar lykilforsendurnar sem ég minntist á að ofan. Góður orðstír og hamingja tengjast þannig órjúfanlegum böndum, enda er ásókn í góðan orðstír ásókn í hamingju, og öfugt, því sömu forsendur liggja að baki. Munurinn á hugtökunum liggur fyrst og fremst í mismunandi viðfangsefnum. Innri sæla snýr að hinu einstaklingsbundna sálarlífi, ytri sæla snýr að hinu opinberlega samfélagi. Tvískipting sæluhugtaksins útskýrir því hvernig einstaklingurinn og samfélagið tengjast í hugskoti höfundarins, enda er heill mannsins snertiflöturinn.

Guðmundur Finnbogason taldi tvö skilyrði liggja að baki hinum sæla manni, vinir og að vera snotur, en ég tiltek tvö til viðbótar eins og áður segir, sjálfræði og gleði. Þessi fjögur skilyrði sælu eiga sér svo önnur skilyrði og forsendur, sem við sjáum með því að greina innihald vissra vísna. Þá sjáum við hvað einstaklingurinn þarf að gera til að flokkast sem sjálfráða eða snotur. Með öðrum orðum, frumskilyrðin fjögur eiga sér önnur skilyrði, og sum enn önnur. Með slíkum lestri á „Hávamálum“, það er að segja, með því að reyna að finna undirtexta kvæðisins og greina hann með því að bera saman vísur og hugmyndir sem birtast í þeim gat ég því loks teiknað upp hugtakakerfi eða skema af því sem ég tel að höfundur „Hávamála“ sé að reyna að koma á framfæri.

I. Fyrsta lykilforsenda sælu samkvæmt hugtakakerfi „Hávamála“ er skynsemi, þó með þeim fyrirvara að það tiltekna orð er aldrei notað í „Hávamálum“ sjálfum, heldur ýmis samheiti. Það sem vekur hins vegar eftirtekt er að orðið snotur er langalgengast allra þessa samheita, hvort sem því er beitt einu og sér eða í samsetningunum al-, meðal-, ó- eða ráðsnotur. Hugtakið virðist raunar gegna hlutverki eins konar samnefnis yfir skynsemisþætti einstaklingsins, enda er því beitt fyrir allt í senn, að hafa mannvit eða geð sitt, að vera vitur, fróður, horskur, snjall, svinnur eða spakur.

Til þess að öðlast frekari skilning á þeirri merkingu sem fornmenn lögðu í orðið snotur er nauðsynlegt að skoða Snorra-Eddu, en þar er gyðjunni Snotru lýst sem vitri, kurteisri og hóflátri. Hugtakanotkunin í „Hávamálum“ virðist svipuð, enda er orðið snotur jafnan sett í samhengi við einhvern af ofangreindum mannkostum, auk þess sem þeir tengjast innbyrðis í vísum kvæðisins. Þessir mannkostir eru því forsendur þess að vera snotur og þar með forsendur þess að vera sæll.

Í lokaritgerð minni eyði ég miklu púðri í að sýna fram á þessi tengsl, það er að segja, hvernig vitið, kurteisin og hófsemin eru boðuð sem eftirsóknaverðir eiginleikar sem einstaklingurinn ætti að sækjast eftir vilji hann teljast snotur. Í þeirri umræðu tala ég mikið um áhersluna á rétta beitingu vitsins, enda er vitið álitið fyrsta skilyrði þess að teljast snotur. Ég tala jafnframt um forsendu þess að geta beitt viti sínu rétt, sem er að hafa eitthvert vit til að beita, og í því skyni fjallar höfundurinn um ræktun vits, en hann mælir með ferðalögum, samræðum og athygli í því skyni. Í þessari umræðu er einnig skoðað það sem sagt er um ósnotra menn og hvernig þeir skaða bæði ytri sælu sína og innri sælu sína sökum heimsku sinnar, til dæmis með því að segja eitthvað heimskulegt og þannig skaða orðstír sinn, eða þá að vera ófærir um að velja sér viðeigandi verkefni í lífinu og stuðla þannig að innri ósælu.

Háttprýði er önnur forsenda þess að vera snotur. Hugtakið táknar bæði í senn, almenna kurteisi og þá siðspeki sem réð ríkjum við tilurð kvæðisins. Hin ókurteisi maður í „Hávamálum“ minnir því einnig á siðlausan mann, enda eru mannsiðir og siðferðishvatir álitin af sama meiði. Í greiningu minni eru hófsemi og jöfnuður forsenda þess að geta talist háttprúður, og vísa ég til nokkurra vísna í því samhengi. Nægir þar að nefna v. 17, þar sem við fylgjumst með ókurteisum manni sem glápir og blaðrar og heldur ekki í heiðri þá kurteisi að leyfa öðrum að komast að, en slíkt er bæði merki um óhóf í tali og ójöfnuð í garð viðmælenda sinna. Í vísunum um háttprýði kemur einnig fram að maður skal ekki tala niður til fátækra og þurfarmanna, heldur skal maður sýna þeim gestrisni, því það eykur ytri sælu manns. Níska skaðar aftur á móti orðstír manns, sama hver þiggjandinn er sem á í hlut.

Þrátt fyrir að hófsemi sé önnur forsenda háttprýði, þá gegnir hún svo veigamiklu hlutverki í hugtakakerfi „Hávamála“ að hún er einnig þriðja og síðasta forsenda þess að vera snotur. Hófsemi býr raunar að baki mörgu í „Hávamálum“ og sést mikilvægi hennar einna best í því að hún trónir yfir sjálfu vitinu, þeim mannkosti sem lofsamaður er einna mest í kvæðinu. Mér virðist að það sé gerður greinarmunur á tvenns konar hófsemi: efnislegri hófsemi og andlegri hófsemi. Undir hið fyrra flokkast ofdrykkja, ofát og of mikil auðsöfnun. Undir hið síðara flokkast ofmælgi og ofvit, en allt að framan er talið þurfa vera í hófi í vísum kvæðisins, annars skaðast sæla einstaklingsins, hvort sem við víkjum að ytri sælunni eða hinni innri. Dæmið af ofáti sýnir raunar vel hvernig tvískipting sæluhugtaksins er hugsuð, en sá sem étur yfir sig skaðar bæði hina innri sælu með því að koma líkamanum úr jafnvægi og hina ytri sælu því hann verður skotspónn hinna gestanna, enda minnir slíkt háttalag frekar á skepnu en manneskju, eins og vísa 21. fjallar um. Annað dæmi væri hóf í tali, en það er gott bæði vegna þess að það stuðlar að þroska manns (innri sælu) og vegna þess að orðstír manns eykst (ytri sæla).

II. Þetta eru því hinar þrjár forsendur þess að teljast snotur, vit, kurteisi og hófsemi, sem maður þarf að uppfylla vilji maður eiga einhverja von um að eiga sæluríkt líf samkvæmt kvæðinu. Önnur lykilforsenda sælu er sjálfræði. Gildi sjálfræðisins sést einna best í því að í „Hávamálum“ er ekkert fjallað um ósjálfráða menn, heldur aðeins frjálsa menn sem eru sjálfráðir í vali sínu. Þetta virðist raunar skýra hvers vegna svo sjaldan er vikið að sjálfræðinu í „Hávamálum“ – allt kvæðið er sniðið að frjálsum, jöfnum mönnum. Það er því eiginlega gert ráð fyrir því að einstaklingurinn sem les það sé sjálfráða, þótt það sé tekið fram í v. 8 og 9 að það sé forsenda sælu.

III. Vinir og vandamenn eru þriðja nauðsynlega skilyrði sælu í „Hávamálum„. Umfjöllunin um þá er mjög víðtæk, allt frá persónulegum vísum um mikilvægi þeirra til kaldlyndra vísna um hagnýti þeirra. En það er ekki aðeins fjallað um vini og vandamenn í „Hávamálum“, heldur einnig óvini og böl þeirra.

Samkvæmt greiningu minni flokkast þessar vísur undir þrjá flokka, vísur um vini, vísur um ættingja og fjölskyldu og vísur um maka.

Vísurnar um vini virðast fyrst og fremst tengjast innri sælu, að manni líður vel í góðra vina hópi, á meðan vísurnar um ættingja varða fremur ytri sælu, en því er haldið fram að maður lifi áfram í vitund niðjanna eftir daga manns og allra sem til spyrja, því að þeir muni halda minningu manns á lofti, sama hver hún er. Þetta er því annar boðskapur en kemur fram í hinum margfrægu v. 76 og 77, sem hefjast á orðunum „Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama“ og fjalla einnig um hinn ódauðlega orðstír, því formerkin hér eru þau að  orðstírinn góður, þá lifi hann áfram óháð niðjum manns. Þó skal tekið fram að einnig er minnst á slíka gagnsemi í vísunum um vini, en þá er sagt að maður ætti að velja sér vini sem tala vel um mann við aðra, svo ytri sæla manns og orðstír megi vaxa.

Vísurnar um maka varða ástina, hvernig hún geti rænt mann öllu viti. Því er raunar haldið fram að elska engan sé líkt og versti sjúkleiki.

IV. Síðasta lykilforsenda sælu er gleði, eða lífsgleði réttara sagt. Kuldinn í „Hávamálum“, ef við getum nefnt það svo, víkur fyrir vísunum um hana. Forsendur gleði eru annars vegar rétt beiting vits og hins vegar hin svokallaða lífsást.

Með því að tengja saman hugmyndina um rétta beitingu vits og lífsgleði sýnir höfundur „Hávamála“ þá skoðun sína að gleði sé að miklu leyti háð vitinu, því hvort við þekkjum sjálf okkur og umheiminn í kring (sjálfsskyn) og hvort við veljum viðfangsefni í lífinu sem eru ekki líkleg til þess að draga úr lífsgleði okkar (gildisskyn).

En lífsgleði næst ekki aðeins með fullnægju skynsamlegra óska, enda gæti slíkt reynst sljóvgandi til lengdar, og mælir höfundurinn því einnig með því sem ég kýs að kalla ‘lífsást’. Í hugtakinu felst einfaldlega að maður skuli ávallt vera glaður á meðan maður er á lífi, sama hvernig ástatt er hjá manni, því aðstæður gætu alltaf verið verri – maður gæti verið látinn. Í v. 15 er þetta orðað skýrt: „Glaður og reifur / skyli gumna hver / uns sinn bíður bana.“ Sú hugsun að lífið séu gæði í sjálfu sér á rætur sínar að rekja til tveggja þátta sem búa að baki en lítið fer fyrir í kvæðinu, en það eru vísur sem tengjast hverfulleika lífsins og nytsemd lífsins. Þessar tvær staðreyndir, að maður sé á lífi í hverfulum heimi og öðrum til einhvers nýtilegur, eiga að nægja að styrkja lífsástina í brjósti manns og þar með gleði manns og sælu.

Þá eru fjórar grunnforsendur í hugtakakerfi „Hávamála“ upptaldar. Sá sem er snotur, sjálfráða, á vini og vandamenn og gleðst yfir lífinu verður sæll samkvæmt því. Þessar fjórar frumforsendur eiga sér svo undirforsendur eins og hófsemi, jöfnuð og ræktun vits, svo dæmi séu tekin. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki flókin heimspeki, ef maður ber hana saman við ýmislegt annað, en þetta er samt áhugaverð heimspeki. Hún tengist lífi einstaklingsins beint, svo að segja, enda fjallar hún fyrst og fremst um hvernig einstaklingurinn ætti að lifa lífi sínu ef hann kýs að verða sæll, óháð spurningunni hvort allir kjósi það.

Hugtakakerfi Hávamála

 

Sæla (8, 9, 47, 69, 76, 77), er lykilhugtakið í siðfræði Hávamála en hún byggir á 1. “Snotur”, 2. “Vandamenn”, 3. “Vandamenn” og 4. “Gleði”:

1. Snotur, byggir á 1.1. “Viti”, 1.2. “Kurteisi og 1.3. “Hófsemi”:
1.1. Vit (6,8-10), hvílir á 1.1.1. “Beiting vits” en hún aftur á móti á 1.1.2. “Ræktun vits”:
1.1.1. Beiting vits (5, 6, 16, 22-26, 30, 31, 48, 54, 64, 75, 78, 79, 103, 116, 126, 131, 146)
1.1.2. Ræktun vits (1, 5, 6, 7, 15, 17, 18, 27, 28, 38, 53, 57, 63, 65, 73, 111, 118, 122, 127, 131, 141, 164)
1.2. Kurteisi (2-4, 17, 19, 30, 33, 35, 39, 53, 61, 66, 75, 132-136)
1.3. Hófsemi (11-14, 17, 19-21, 28, 29, 32, 33, 40, 54-56, 61, 63, 64, 116)

2. Sjálfræði (8, 9, 36, 37, 58-60, 112)

3. Vandamenn (34, 41-52, 62, 67, 69, 72, 82, 84, 90-102, 104-110, 115, 117, 119-125, 128, 130, 131)

4. Gleði (9, 15, 16, 23, 40, 48, 54-56, 68-71, 74, 81-83, 85-89, 134)

Nákvæmari sundurgreining á tengslunum milli hugtakanna:

0. Sæla

1. Snotur:
1.1. Vit ← 1.1.1. Beiting vits ← 1.1.1.1. Sjálfsskyn og Gildisskyn ← 1.1.1.1.1. Ræktun vits ← 1.1.1.1.1.1. Samræða, 1.1.1.1.1.2. Athygli og 1.1.1.1.1.3. Víðförli
1.2. Kurteisi ← 1.2.1. Jöfnuður/hófsemi
1.3. Hófsemi

2. Sjálfræði:
2.1. Jöfnuður (hófsemi)
2.2. Frelsi
2.3. Ábyrgð

3. Vandamenn:
3.1. Vinir ← 3.1.1. Jöfnuður (heimsóknir)
3.2. Ættingjar og fjölskylda
3.3. Makar ← 3.3.1. Ást

4. Gleði:
4.1. Lífsást ← 4.1.1. Hverfulleiki og 4.1.2. Nytsemi
4.2. Sjálfs- og gildisskyn

 

« Til baka