Grímur manns og heims

eftir Vilhjálm Árnason

Grímur manns og heims

 

Látbragðslistin í heimspeki Nietzsches1

Nietzsche notar ekki oft hugtakið „gríma“ í verkum sínum, en það er áberandi í hvert sinn sem því bregður fyrir. En þótt orðið sé sjaldgæft sést við nánari skoðun að hugtök sem tengjast grímunni, á borð við látbragð, blæja, skikkja, hlutverk, leikrit og leikur gegnsýra textann. Ætlun mín í þessari ritgerð er að sýna að þessi hugtök „látbragðslistarinnar“ séu mikilvæg til skilnings á heimspeki Nietzsches. Notkun hans á grímutengdum orðum er afar þýðingarmikil bæði fyrir hugsun hans um eðli veruleikans og einnig fyrir endurmat hans á tilvist manna og gildum. Meginkostur þess að ræða hugsun Nietzsches í ljósi grímunnar er hin djúpa margræðni þessa hugtaks. Það er sífelld spenna milli þeirra eiginleika grímunnar að afhjúpa og að fela og þessir tveir eiginleikar eru ekki andstæður heldur samtvinnaðir. Þrátt fyrir að yfirhylming sé megineinkenni hennar er hún hún líka leið að sannleikanum: Hún getur bæði staðið fyrir blekkingu og það sem Nietzsche kallar „sanna blekkingu“. Hana má nota til að fela og flýja en einnig til að leiða í ljós og skapa.

Viðhorf Nietzsches til veruleikans er af ætt Heraklítosar: Allt er á stöðugri hreyfingu og undirselt látlausri verðandi. Það er engin greinarmunur á ‘sýnd’ og ‘reynd’; veruleikinn er eins og hann er skynjaður í lifaðri reynslu. Allar hugmyndir um veru í sjálfri sér utan og ofan við skynheiminn, sem svo mjög setja svip sinn á vestræna frumspeki, eru af rót tómhyggjunnar. Þær eru til marks um óhæfilegar kröfur um algilda og örugga þekkingu og um skort á sálarstyrk til að gangast við veruleikanum eins og hann er. En með því að segja að sýndin sé allt sem er, felst Nietzsche ekki á þá raunhyggju sem telur sig finna merkingarbærar skynreyndir í beinni reynslu. Frá bæjardyrum Nietzsches er ekkert „þarna“ sem hægt er að endurspegla á þennan hátt; um leið og sýndin tekur á sig form og mynd þá er hún ekki „empírísk staðreynd“ heldur túlkun. Ég kalla þessar túlkanir veruleikagrímur og í raun eru þær grímur hvata okkar:

Setjum nú svo að ekkert sé raunverulega „gefið“ nema veröld okkar eigin langana og ástríðna og við komumst hvergi niður né upp til neins annars „veruleika“ en veruleika eigin hvata – því hugsunin er ekkert annað en samspil þessara hvata.2

Við erum aldrei hlutlausir skoðendur andspænis hlutlægum heimi. Með því að láta vilja okkar til sín taka í veröldinni erum við fremur virkir skapendur veruleikans. En þar eð veruleikagrímurnar hafa stirnað, gleymir manneskjan framlagi sínu og fer að trúa því að heimurinn sé sannur eins og hann er:

einungis vegna þess að mannskepnan gleymir sjálfsveru sinni, listrænt skapandi sjálfsveru sinni, býr hún við sæmilega ró, öryggi og samkvæmni.3

Stundum segir Nietzsche að það að vera maður sé að meta og túlka. Hann talar um hvötina „til að skapa myndhverfingar“ sem „frumþörf manneskjunnar“4; sem manneskjur nærumst við á merkingu og gildum. Þetta grundvallareinkenni mannlegrar tilvistar, að skapa úr skynbrotum verðandinnar merkingarbært form, felur samkvæmt Nietzsche ávallt í sér blekkingu að einhverju marki – blekkingu af ætt grímunnar. Máttur okkar til að breiða yfir eðli veruleikans um leið og við leiðum hann í ljós er innbyggður í sjálfan hátt okkar á að hugtaka heiminn og í boðskiptum okkar; hann á rætur í eðli tungumálsins. Með tungumálinu skipuleggjum við veruleikann, sem í eðli sínu er síkvik verðandi. Rétt eins og það sé okkur lífsnauðsyn að negla hlutina niður á þennan hátt þrengjum við flokkunum hugans, á borð við samsemd, líkindum og andstæðum, upp á það sem birtist okkur. Raunar telur Nietzsche þetta mannlegu lífi nauðsyn vegna þess að tungumálið gerir tjáskipti möguleg með samsömun og reglubindingu veruleikans.

Öll hugtök verða til við samsömun þess sem er ekki eins. […] Maðurinn sem skynsemisvera lætur sértekninguna stjórna athöfnum sínum: Hann þolir ekki lengur að hrífast og gefa sig á vald óvæntum áhrifum og skynjunum, heldur alhæfir og aflitar þessi áhrif og færir í kaldan hugtakabúning sem hann síðan spennir fyrir vagn lífs síns og athafna. […] Við getum ekki annað en dáðst að því hvílíkur völundarsmiður mannskepnan er að reisa jafn óendanlega flókna hugtakahvelfingu á hreyfanlegum undirstöðum, svo að segja á rennandi vatni.5

Auk þessa óhjákvæmilega grímueiginleika tungumálsins hafa túlkanir trúarbragða, frumspeki og þekkingarfræði smám saman tekið sér bólfestu í því og fyllt það villandi hugmyndum um mann og heim. Þess vegna þarf að

þýða manninn aftur yfir í náttúruna, ná valdi yfir ótölulegum hégómlegum og öfgakenndum túlkunum og aukamerkingum sem búið er að krota og mála yfir hinn eilífa frumtexta homo natura6

Í tungumálinu afhjúpast heimurinn og manneskjan en vegna þessara tálmynda eru þau líka falin eða grímuklædd. Vitnisburður skynfæranna er afbakaður af skynseminni en jafnframt er skynsemin nauðsynleg til að verðandin geti tekið á sig mynd og birzt á ‚merkingarbæran’ hátt. Þetta er hin sérstaka leið manneskjunnar til sjálfsvarðveizlu. Stundum talar Nietzsche um þetta sem „viljann til sannleika“ en líka sem það „afl lífsins sem vill blekkingu“ og hann sér það sem tjáningarmynd viljans til valds: „að þröngva eiginleikum verunnar upp á verðandina – það er æðsti viljinn til valds“.7 Sannleiksvilji mannsins byggist á vissri sannfæringu; hann er trú á óhagganlegan og merkingarríkan veruleika. Nietzsche sér þessa trú sem tegund villu sem maðurinn getur ekki lifað án:

mennirnir gætu ekki þrifist án rökrænna ímyndana, án þess að meta veruleikann í ljósi hreins uppspuna á borð við veröld hins óskilyrta, hins sjálfu sér samkvæma, án þess að nota tölurnar stöðugt til að rangtúlka heiminn. Við höldum því einnig fram að vísuðu menn röngum dómum á bug væru þeir jafnframt að hafna og afneita lífinu sjálfu. Að viðurkenna ósannindi sem skilyrði lífsins sjálfs …8

Þannig getum við séð að frá bæjardyrum Nietzsches er forsenda hins einstæða mannlega lífs sjálf blekking eða villa af einhverju tagi: Sú blekking að það sé til eitthvað fast og „röklega niðurneglt“. Og þessi „blekking“ er forsenda þeirrar staðreyndar að veruleikinn birtist yfirhöfuð. Í þessu felst hin mikla margræðni tilverunnar, margræðni grímunnar: Fyrirbærin taka óhjákvæmilega á sig mynd til að geta birzt og þessi mynd dylur þeirra innsta eðli, síkvika verðandina. Gríman er nauðsynleg til að setja hlutina fram. En með því að sýna leynir hún og blekkir um leið. Í þessu ljósi verðum við að skilja þá staðhæfingu Nietzsches að „Öll heimspeki felur líka heimspeki. Allar skoðanir eru líka felustaðir, hvert orð er líka gríma.“9 Í þessum fullyrðingum er fólgin sú meginhugmynd að öll skynjun, hugsun og þekking sé bundin vissum sjónarhornum. Eins og við höfum séð eru það þarfir okkar sem túlka heiminn og hver dómur og sérhver mannleg viðleitni er því tengd hagsmunum og lituð af gildum. Grunnfordómar af þessu tagi, hvort sem þeir eru lífeðlisfræðilegir, sögulegir eða félagslegir að uppruna, eru nauðsynlegir til að gefa mannlegri viðleitni „stefnu, merkingu, mörk og tilverurétt“10. Hér verður á vegi okkar sama margræðni og áður. Þrátt fyrir að sérhvert mannlegt sjónarhorn sé takmarkað og hlutdrægt, að minnsta kosti á mælistiku hefðarinnar, er það einnig forsenda sannleika og þekkingar. Hættan felst í því að alhæfa einhverja eina túlkun eða sjónarhorn og að útiloka þátt lífsaflanna í túlkunum okkar. Hvert takmarkað sjónarhorn gefur sem slíkt afbakaða og villandi mynd. Þar með er ekki sagt að til sé eitthvað í sjálfu sér sem megi afbaka, einhver endanlegur sannleikur sem alltaf gengur okkur úr greipum. Það merkir fremur að enginn slíkur sannleikur sé til og einungis með því að gangast við margbreytileika sjónarhornanna sé hægt að vera trúr hinni margbreytilegu reynslu. Nietzsche kallar þetta „ástríðufulla“ hlutlægni:

því fleiri hvötum sem við leyfum að tjá sig um hvert atriði, því fleiri augu, ólík augu sem við höfum til að skoða hvern hlut, þeim mun fyllra verður „hugtak“ okkar um þann hlut, þeim mun meiri „hlutlægni“.11

Meginstefið í framansögðu er að veruleikinn sé óhjákvæmilega grímuklæddur. Við sögðum að sérhver túlkun sé sett fram undir takmörkuðu sjónarhorni sem felur í sér vissa blekkingu. Engu að síður eru sumar túlkanir meira viðeigandi en aðrar; sumar grímur dylja einungis, aðrar miða ekki að því að blekkja heldur reyna að afhjúpa á sannan hátt. Eins og undanfarandi umfjöllun gefur til kynna ræðst það hve sönn túlkun er af tvennu (eða tveimur hliðum sama fyrirbæris): Annars vegar er hún opin fyrir fjölbreytilegri reynslu og sýnir hinn auðuga margbreytileika sjónarhorna. Hins vegar er hún trú hinum mennska veruleika og viðurkennir að fullu hlutverk ástríðna og eðlishvata í túlkunarferlinu, með ástríðufullri hlutlægni. Einkenni þess sem birtist ræðst af sjónarhorninu og því er gríman ákvörðuð af gagnvirkni heims og manns, túlkandanum. En hver er þessi túlkandi? „Sjálfið“ er alveg jafn mikið túlkunarverkefni og allt annað. Líkt og engin vera er að baki ásýndar veruleikans þá er ekkert hefðbundið, eiginlegt sjálf að baki túlkuninni. Sjálf túlkandans er ekki „ég“ heldur „það“ eða sjálfsveran sem af eðlishvöt leysir orku sína úr læðingi.

… hugsun kemur þegar „hún“ vill en ekki þegar „ég“ vil; þannig er það fölsun á staðreyndum að segja frumlagið „ég“ er skilyrði umsagnarinnar hugsa […] jafnvel með „það“ hugsar er of langt gengið: þetta „það“ ber í sér túlkun á ferlinu og tilheyrir ekki ferlinu sjálfu. Hér er ályktað eftir málfræðivenjunni …12

Heimurinn er ákvarðaður af viljanum sem við veitum í hann. Athafnir okkar, sem leiða í ljós túlkanir okkar á heiminum, eru tjáning ástríðna okkar og langana. Breytni manna, birting okkar í heiminum, ræður því úrslitum. Túlkunin sem bregður grímu á veruleikann og fær hann til að birtast leiðir jafnframt túlkandann í ljós. Við stígum fram í athöfnum okkar og túlkunum. Í þessum skilningi er gríman skilyrði sjálfsins, leið þess til að birtast. ‘Sjálfið’ er líka gríma og röð af grímum í stöðugri ummyndun. Uppgerðarlistin er sérkennandi fyrir manninn og á rætur í vitsmunum hans. Umbreyting hvatanna í meðvitaða rökhugsun er undirstaða skilningslistarinnar, „sem er listin sem leyfir okkur að bera grímur“.13 Yfirvegun fjarlægir manninn frá náttúrunni og þetta rof er forsenda látbragðs og uppgerðar. Í krafti þessarar fjarlægðar erum við mennsk og getum þar með borið grímur.

Vitsmunirnir þjóna því hlutverki að viðhalda einstaklingnum og er megintilgangur þeirra að villa á sér heimildir. […] Listin að villa á sér heimildir nær hámarki hjá mannskepnunni: hér eru allsráðandi blekking, skjall, svik og prettir, baktal, yfirborðsmennska, tildur, grímuklæðnaður, hulur hefðarinnar, sýndarmennska gagnvart sjálfum sér og öðrum, í stuttu máli sagt eitt allsherjar flökt í kringum hégómans eilífa loga.14

Látbragðslistin kemur sér sérstaklega vel fyrir þrælasiðferðið – það siðferði sem á rætur í kjörum hinna undirokuðu – vegna þess að það getur ekki gengizt við eigin hvötum. Yfirvegun verður lífsnauðsynlegt skilyrði tilvistar þrælsins sem verður alltaf að fara krókaleiðir og leita óbeinna leiða til athafna. Stöðug gagnrýni Nietzsches á siðferðið beinist að þessu atriði.

Siðapostular þurfa að hafa á sér yfirbragð dygðarinnar, einnig yfirbragð sannleikans, þeir gera þá fyrst mistök þegar dygðin nær tökum á þeim, þegar þeir missa tökin á dygðinni og þeir verða sjálfir siðferðisverur, verða sannir. Eitt af því sem góður siðapostuli þarf að hafa til að bera eru góðir leikhæfileikar; áhættan sem hann tekur er að leiktilburðirnir verði honum óvart eiginlegir, því það er guðleg hugsjón hans að halda eðli sínu og athöfnum aðskildum.15

Þetta er ein ástæða þess að Nietzsche metur mikils hina „göfugu kynþætti“. Hegðun þeirra einkennist af því að vera óyfirveguð og hreinskiptin, öfugt við hina yfirveguðu, útpældu hegðun sem einkennir hinn „útsmogna þræl“. Hinn göfugi maður tjáir hvatir sínar og ástríður á óheftan hátt. Hið „göfuga“ við þetta er hreinskilni og trúmennska við mannlegt eðli. Það er einmitt í hinni sjálfsprottnu athöfn og ræðu sem við erum sannarlegast „við sjálf“. Bæling hvatanna sem svo mjög einkennir hina andlíkamlegu frumspeki þrælanna er lífsafneitandi, þótt hún marki upphaf siðmenningar. „Skynsemin“ er aðgreind frá og tekin fram yfir ástríðurnar sem eru bældar. Þessi afneitun lífsaflanna leiðir til sjálfsblekkingar og afbökuð mynd af mannlegu eðli verður til. Ein ástæðan fyrir hrörnun siðferðisins að mati Nietzsches er sú að áherzlan hefur flutzt frá hinum einstaka geranda höfðingjasiðferðisins yfir á almenna flokka athafna og siðareglna í þrælasiðferði. Hið síðarnefnda felur í sér áherzlu á dygðugt látæði í stað dygðugra manngerða og þess vegna leiðir það látbragðslistina, sem blekkjandi tilvistarhátt, inn að kjarna siðferðisins. Í stað þess að skapa gildi og taka áhættu leitum við öryggis í búningum venja og hefða. Markmið hinna veiku er að alhæfa gildi sín, gera allt sameiginlegt svo að allir geti falizt bak við hefðir, klæddir í búning meðalmennskunnar. Afleiðingin er sú að blekkingin hefur öðlazt vaxandi gildi fyrir okkur í lífsbaráttunni. Viljinn til að vera blekktur er orðin náttúruleg hneigð mannsins; hann flýr vandamálin, forðast þjáningu og leitar hælis í blekkingum um heiminn og handanheiminn, jarðlífið og lífið eftir dauðann. Það sem í raun angrar Nietzsche hér er sú staðreynd að þessar veruleikagrímur hafa fengið stöðu sem viðtekin sannindi: blekking sem við höfum gleymt að sé blekking.

Sannindi eru tálsýnir sem við höfum gleymt að eru tálsýnir, útjaskaðar og máttlausar myndhverfingar […] samfélagið leggur okkur [skyldu] á herðar til að halda velli: sannsöglina, þ.e. fastbundna notkun myndhverfinga; eða siðferðilega orðað: skylduna til að ljúga samkvæmt fastmótaðri hefð, ljúga saman í hjörð eftir reglum sem allir verða að hlýða.16

Hér að ofan kom fram að öll þekking er bundin takmörkuðum sjónarhornum. Allar tilraunir til að upphefja þessar grundvallartakmarkanir mannsins eru veruleikaflótti af rót tómhyggjunnar. Slíkar túlkanir eru blekkingar, yfirhylmandi grímur. Einungis með því að gangast við takmörkunum okkar og fagna jarðneskum lífsskilyrðum, getum við forðað blekkingu og sjálfsafneitun og skapað möguleikann á skapandi lífsstyrkingu. Þar eð takmarkað sjónarhorn er forsenda þess að eitthvað sé leitt í ljós og sérhvert sjónarhorn dylur jafnframt því sem það afhjúpar þá verður sannleikurinn aldrei sviptur grímunni: „Við trúum því ekki lengur að sannleikurinn verði sannleikur þegar hulunni er svipt af; við höfum upplifað of mikið til að trúa þessu“.17 Í ljósi þessa má segja að vandinn sé ekki sá að bera grímu, heldur hvernig hún er borin, hvernig birtingin á sér stað. Villa hefðbundins siðferðis er að alhæfa og halda fram sem sannleika viðhorfum sem eru einungis sjónarhorn. Grundvallareiginleika mannlegrar tilvistar er afneitað með því að alhæfa siðadóma og aftengja þá hagsmunum og persónum. Siðferði verður þá flótti fyrir einbera leikendur, gríma sem hefur það meginhlutverk að breiða yfir. Hugmynd Nietzsches um að sigrast á þrælasiðferðinu má því skoða sem viðleitni mannsins til að birta sig á sannan hátt. Í ljósi þess sem sagt hefur verið getur hann þó ekki gert það grímulaust. Munurinn á eiginlegri og óeiginlegri grímu kemur skýrt fram í riti Nietzsches Fæðing harmleiksins. Í verkum Sófóklesar og Æskýlosar birtast appólónskar og díonýsískar grímur. Það er guðleg vera að baki hverri grímu og hin guðlega vera stígur einungis fram fyrir tilverknað grímunnar. Hér er gríman sönn listræn aðferð, nauðsynlegt form til að setja guðina á svið. Í leikverki Evripídesar er goðsögnin á hinn bóginn á hverfanda hveli og það sem eftir stendur er einungis „endurgerð, grímubúin goðsögn“, hetjur hans sýna „tilgerðarlegar, grímuklæddar ástríður og flytja tilgerðarlegar, grímuklæddar ræður“.18 Þessi samanburður gefur ljóslega til kynna greinarmun á hinu grímubúna og hinu sanna. En hið sanna ber einnig grímu. Munurinn er fólginn í því hvernig gríman er notuð sem birtingarmynd, hversu sönn framsetningin er. Þessum greinarmun má velta fyrir sér út frá hugmyndum um tvenns konar leikara á leiksviði lífsins. Sumir, ég kalla þá einbera leikara, nota list sína sem felustað. Þeir eru því eins konar loddarar sem setja upp grímur til að blekkja sjálfa sig og aðra. Eiginlegur leikari breytir hinsvegar gagngert til að kanna aðstæður sínar, hann spinnur og gerir tilraunir með lífið. Slíkur maður ber því ekki grímu til að flýja heldur til að leiða sjálfan sig í ljós. Þetta er ein ástæða þess að „Allt sem er djúpt elskar grímur“.19 Á meðan hinn einberi leikari bregður yfir sig skikkjunni vegna hentugleika eða þæginda til að leyna hvötum sínum sem ekki þola dagsbirtuna, notar eiginlegur leikari grímur sínar til að tjá hin margvíslegu lífsöfl sín á sannan hátt. Hann forðast að festa einhverja eina af grímum sínum vegna þess að hann gerir sér grein fyrir að látbragðslistin er óhjákvæmileg, að sjálfið er hans eigin sköpun. Og takist hann ekki sjálfur á við það mun heimurinn hrifsa það úr höndum hans og negla á hann útjaskaða grímu hins viðtekna. Því slík gríma er alltaf vinsæl.20 Hins vegar eru „hinir ósviknu […] alltaf sjaldgæfir, einkum ósviknir leikarar“21 Það verkefni, að verða maður sjálfur er því fólgið í því að skapa grímur: „ að ljá sér stíl – göfug og sjaldgæf list“.22 Það kemur margoft fram í verkum Nietzsches að lykillinn að þessari lífslist er að lífsöfl einstaklingsins séu stælt til sköpunar. Sigrazt er á hvötum og ástríðum á þann hátt að þær þjóna lífinu án þess að dreginn sé úr þeim máttur eða þær geltar. Þessi göfgun lífsaflanna felur í sér leið til sjálfsumsköpunar. Þótt við séum að vissu marki þegar ákvörðuð „í okkar innsta kjarna, „dýpst“ í okkur“,23 erum við sjálfum okkur verkefni til að sigrast á. Það felur í sér að gangast við náttúru mannsins og endurheimta þá hreinskilni sem einkenndi höfðingjann. Hér er þó mikilvægur munur á. Höfðinginn tjáir hvatir sínar og eðlisávísun óheft á náttúrulegan hátt, en hin frjálsa tjáning ofurmennisins á hvötum sínum og ástríðum er í mynd göfgunar sem „beinir hugsunum manns og líkamsöflum í aðra farvegi“.24 Höfuðatriði er þó að einstaklingurinn öðlist styrk til að verða hann sjálfur: „Sumir menn hafa vilja, en flestir láta bara að vilja annarra. Sumir eru ósviknir, en flestir eru lélegir leikarar.“25 Sannur leikari lítur á líf sitt sem verkefni og reynir að lifa því eins og listaverki. Það verkefni er listrænn grímudans. Til að losna undan túlkunarfargi heimsins leitast hann við að vera „Doppelgänger“ sem hefur „annað andlit til viðbótar því fyrsta. Og kannski líka hið þriðja“.26 Í þessu er fólgin viðurkenning á nauðsynlegri margræðni mannlegrar tilvistar og fjölbreytileika sjálfsins. Maður getur engu frekar neglt sjálfan sig niður með hlutlægri túlkun en maður getur neglt niður heiminn eða aðra. Alvöruþrungi í túlkun felur bæði í sér veruleikafrystingu og sjálfsblekkingu. Á hinn bóginn hafnar Nietzsche ekki allri alvöru:

Manndómsþroski: það er að hafa fundið aftur alvöruna sem maður bjó yfir sem barn að leik.27

Kát alvara barnsins að leik er einlæg, heilshugar, og óyfirveguð sjálfstjáning. Hinn þroskaði maður er frábrugðinn barninu að því leyti að hann er meðvitaður um þá staðreynd að leikur er aðeins leikur, hreinskilin blekking. En um leið gerir hinn sanni leikari sér grein fyrir að líf hans er leikur vegna þess að einungis í leiknum kemur í ljós túlkun hans eða mat á lífinu. Þess vegna er vitneskjan um að maður sé ekkert annað en heild allra þeirra gríma sem maður setur upp, ástæða til að fara gætilega í vali sínu á grímum. Að þessu leyti er það að setja upp sanna grímu sambærilegt við list. Heil hegðun er ekki í því fólgin að hafa fangað einhvern tiltekinn lífsmáta; hún fylgir hvorki gefnum siðareglum né er markmið hennar fyrirfram skilgreint. Þetta gerir hana þó ekki algerlega undirselda geðþótta. Hún er ávallt meðvituð um þá staðreynd að gildi lífsins eru undir henni komin. Þess vegna verður grímudansinn léttstígur og glaðvær. Þegar lífið verður list forðumst við blekkinguna – því listin ein gengst við því að hún er uppgerð.

 

Tilvísanir

1. Grein þessi birtist í <i>Tímariti Máls og menningar</i> 58 (1997:3), bls. 51–59.

2. HGI 36. Lykil að tilvísunum í rit Nietzsches er að finna hér fyrir ofan.

3. USL, bls. 23.

4. USL, bls. 26.

5. USL, bls. 21–22.

6. HGI 230.

7. NF 1885–1887, 7 [54] (KSA 12).

8. HGI 4.

9. HGI 289.

10. GM III 24.

11. GM III 12.

12. HGI 17.

13. NF 1884–1885, 35 [9] (KSA 11).

14. USL, bls. 16.

15. NF 1887–1889, 11 [54] (KSA 13).

16. USL, bls. 21.

17. FW 4.

18. GT 10.

19. HGI 40.

20. FW 77.

21. ZA. 176.

22. FW 290.

23. HGI 231.

24. M 109.

25. ZA 176.

26. EH Af hverju ég er svona vitur 3.

27. HGI 94.

 

Lykill að tilvísunum

 

KSA: Friedrich Nietzsche, Sämtliche Werke. Kritische Studienausgabe in 15 Bänden. Ritstjórar Giorgio Colli og Mazzino Montinari. Berlin/New York: de Gruyter Verlag 1967-1977.

EH: Ecce Homo. KSA, 6. bindi.

FW: Die Fröhliche Wissenschaft. KSA, 3. bindi.

GM: Zur Genealogie der Moral. KSA, 5. bindi.

GT: Die Geburt der Tragödie. KSA, 1. bindi.

HGI: Handan góðs og ills. Arthúr Björgvin Bollason og Þröstur Ásmundsson þýddu. Hið íslenzka bókmenntafélag 1994.

M: Morgenröte. KSA, 3. bindi.

USL: „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir þýddu, Skírnir (vorhefti 1993).

Z: Svo mælti Zaraþústra. Jón Árni Jónsson þýddi. Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan 1996.

« Til baka

Related Entries