Greinasafn eftir: Bryan Magee

Bryan Magee ræðir við R. M. Hare um siðfræði

eftir Bryan Magee

INNGANGUR

„Mest hamingja sem flestra er undirstaða siðferðis og löggjafar.“ Þetta er meginstaðhæfing nytjastefnunnar sem mér virðist langáhrifamesta siðfræðin í bresku samfélagi nú á dögum. Alltaf þegar Englendingar sem hafa stjórnmál eða opinber störf að atvinnu, eða hvaða annað svið opinberrar stjórnsýslu sem er, koma saman til að ræða hvað skuli gert eru margar ef ekki flestar af þeim ósögðu forsendum sem liggja til grundvallar umræðunni forsendur grófrar – oft ekki þaulhugsaðrar – nytjastefnu. En samt er þessi heimspeki alls ekki ný af nálinni. Grunnregla hennar var sett fram af Francis Hutcheson1 fyrir tveimur og hálfri öld, og henni var sprautað inn í blóðrás félagslegrar hugsunar fyrir einni og hálfri öld af Jeremy Bentham.2 Bentham og fylgismenn hans – fyrst og fremst John Stuart Mill – höfðu áhrif á hugsun heillar valdastéttar í Bretlandi á öðrum helmingi nítjándu aldar, aðallega fyrir tilstilli menntakerfisins. Og þau hafa varað í stofnunum Bretlands til þessa dags. Hér höfum við ágætt dæmi um hvernig heimspeki, sem í fyrstu er sett fram og komið á framfæri af mönnum sem eru eingöngu hugmyndasmiðir, getur haft bein áhrif á daglegt líf milljóna manna. Hins vegar fer því fjarri að nytjastefnan njóti stuðnings alls staðar og hjá öllum. Í samfélagsmálum er hún dregin í efa bæði af hinum róttæka vinstri og hægri væng stjórnmála og einnig af mörgu trúuðu fólki. Í háskólum sætir hún æ oftar árásum atvinnuheimspekinga. Þessi deila verður skoðuð nánar hér á eftir, en fyrst vil ég setja hana í víðara samhengi siðfræðinnar sem slíkrar. Ég hef fengið hingað til mín prófessor í siðfræði við Oxford háskóla, R. M. Hare [1919–2002], til að ræða þessi mál.

SAMRÆÐA

Magee  Mig langar að fara aftur til undirstöðuatriða greinarinnar og byrja þar og ég geri það með því að spyrja djúptækustu spurningarinnar: Hvað er siðfræði?

Hare  Hvað við segjum að siðfræði sé mun ráðast af því hvað við teljum að heimspekin sjálf sé. Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar leitast við að varpa ljósi á vandamál af ýmsu tæi með því að gera sér ljósari grein fyrir hugtökunum sem vandamálin voru sett fram með. „Heim­spekilegt vandamál“ er einfaldlega vandamál sem talið er að hægt sé að fjalla um með þessum hætti. Siðfræði er engin undantekning: Vandamálin sem hún leitast við að varpa ljósi á eru raun­hæf mál um siðferði. Hvernig gætum við ákveðið hvað væri sanngjörn kauphækkun, svo dæmi sé tekið, ef við hefðum enga hugmynd um hvað „sanngjarn“ merkir og þess vegna enga hugmynd um hvað mundi gera út um slíkar spurningar?

Magee  Það er eitt sem ég held við verðum að gera ljóst en það er munurinn á siðfræðingi og siðapostula. Það er sérstaklega mikilvægt að gera þetta með tilliti til fullyrðingar þinnar (og minnar) að siðfræðingurinn geti lagt eitthvað raunhæft af mörkum til lausnar á raunverulegum siðrænum vandamálum – vegna þess að þeir gera það ekki, er ekki svo, með því að segja fólki hvað það eigi að gera en það gerir siðapostulinn?

Hare  Í stað þess að „segja fólki hvað það eigi að gera“ (sem hljómar svolítið eins og við værum öll í hernum) hefðirðu kannski átt að segja „að hugsa um hvað það, eða aðrir í tilteknum að­stæðum, ætti að gera“. Í þeim skilningi eru flest okkar siðapostular, sum vitrari en önnur. Siðfræðingurinn er öðruvísi sökum þess að hann nálgast þessi vandamál með sérstakri færni (þó það sé færni sem allar greindar manneskjur geta tileinkað sér ef þær reyna). Þetta er hæfnin til að skilja fullkomlega og skýrt orðin sem notuð eru til að setja fram siðferðilegar spurningar og vita þannig nákvæmlega hvers við erum að spyrja og þess vegna hvaða röksemdir eru okkur tiltækar þegar við svörum þeim og hverjar þeirra muni standast.

Magee  Hvaða siðferðishugtök er gagnlegast að rannaka á þennan hátt?

Hare  Heimspekingar hafa mismunandi skoðanir á þessu. Iris Murdoch skrifaði bók sem heitir The Sovereignty of Good sem gefur til kynna með titlinum, að ég hygg, að hún taldi að „góður“ væri mikilvægasta hugtakið. Aðrir hafa talið að „skylda“ væri það. Og enn aðrir vilja að við rannsökum afmarkaðri hugtök á borð við „góðvild“ og „réttlæti“. Ég sjálfur tel að það sé gagnlegt að rannsaka öll þessi hugtök en hef upp á undanfarið einbeitt mér að orðinu „ætti“ vegna þess að það er einfaldasta siðferðishugtakið og einnig það miðlægasta – því að þegar allt kemur til alls viljum við að lokum vita, er það ekki, hvað við ættum að gera?

Magee  Þú hefur lýst viðfangsefni siðfræðinnar eingöngu sem greiningu á siðferðilegum hug­tökum. Hvað um kenningar, líkön og forsendur athafna, ákvarðanir, valkosti? Greining á þessu er líka heimspekileg iðja og vissulega mikilvæg, eða hvað?

Hare  Það held ég; en það sem mikilvægast er að rannsaka á gagnrýninn hátt auk hugtaka, og með hugtökum, eru röksemdafærslur til að sjá hvort þær eru góðar eða vondar. Með því að öðlast skilning á hugtökunum getum við prófað röksemdafærslurnar og þess vegna kenningarnar sem þau eru notuð til að styðja. Að skilja hugtak er að skilja röklega eiginleika þess og þess vegna að vita hvaða ályktanir sem nota það ganga upp.

Magee  Hvað geta hugtakagreining og greining á siðferðilegum rökfærslum lagt af mörkum til að leysa raunhæf vandamál?

Hare  Ja, hvernig mundum við leysa raunhæf vandamál ef við vissum ekki hvað væru góð og hvað væru vond rök? Og hvernig vissum við það ef við skildum ekki hvað spurningarnar sem við værum að spyrja merkja?

Magee  Það sem ég hafði í huga þegar ég spurði þig síðustu spurningarinnar var þetta: Þú ert rökgreiningarheimspekingur og þú lítur á hlutverk þitt fyrst og fremst sem það að skýra hugtök og rökfærslur. En það eru til aðrar tegundir heimspekinga – marxistar, til dæmis, og nytjastefnu­menn – sem sjá heimspekina ekki í sama ljósi. Þeir eru vissir um að afstaða þeirra skipti máli í reynd – svo sannarlega, í tilviki marxista og nytjastefnumanna er augljóst að það skiptir máli í reynd, það sést greinilega að svo er. Hvaða máli skiptir afstaða þín í samanburði við afstöðu þeirra?

Hare  Ég er reyndar nytjastefnumaður í hefð Mills sem taldi rökfræði skipta svo miklu máli að hann skrifaði heilan doðrant um hana, og honum var vel ljóst hve mikilvægt er að rannsaka hugtök. Marxistar eru líka nytjastefnumenn, þó af mjög ólíkri gerð. Eins og hinir miklu bresku nytjastefnumenn, en ólíkt flestum marxistum, tel ég að siðferðilegar röksemdir þurfi á stuðningi að halda, ekki einungis með nákvæmri könnun staðreyndanna um siðferðilegar aðstæður okkar heldur og með nákvæmri rannsókn á röksemdafærslum okkar sem aðeins verður gert með því að gera sér skýra grein fyrir hugtökunum og hvernig þau virka.

Magee  Telurðu siðfræðina sem kemur frá marxistum vera á vitsmunalega lágu stigi?

Hare  Vitsmunalegt stig marxískrar hugsunar, sumt af henni, er hátt á sinn hátt. Þessir menn hafa lagt mjög mikið af mörkum til skilnings okkar á samfélaginu. Framlag Marx til félagsfræði og ef til vill hagfræði skiptir mjög miklu máli, þó betra hefði verið ef það hefði verið skýrara – ef það gæfi ekki tilefni til svo margra ólíkra túlkana sem lærisveinar hans slást um eins og guðfræðingar. En hvað heimspekina varðar var hann ekki í raun og veru með hugmyndina um hvað heimspekingur þarf að gera til að veita sína sérstöku aðstoð við að leysa raunhæf vandamál.

Magee  Eru ekki margir hinna yngri heimspekinga nú á dögum, líkt og marxistar og nytjastefnumenn gærdagsins, að hverfa frá „einberri” skýringu hugtaka til beinnar umfjöllunar um siðferðileg álitamál?

Hare  Mér virðist að hér sé um ranga andstæðu að ræða. Þeir heimspekingar sem halda sig geta komist hjá að skýra hugtök og horfast í augu við raunveruleg siðferðileg vandamál í lífinu sjálfu eru eins og pípulagningarmaðurinn sem þýtur út til vinnu og skilur öll verkfæri sín eftir og gleymir öllu sem hann vissi um pípulagningu. Hann er þá ekkert betur í stakk búinn en húsráðandinn til að stöðva lekann.

Magee  Þú ert með öðrum orðum að segja að atvinnutæki heimspekingsins séu greining hugtaka og rökgreining og að noti hann þau ekki meira en aðrir þá sé hann ekki að leggja það af mörkum sem hann er sérstaklega hæfur til.

Hare  Já. Hann kemur að minna gagni en fjöldi stjórnmálamanna og blaðamanna vegna þess að hann skortir reynslu þeirra.

Magee  Úr því að minnst er á stjórnmálamenn þá hefur alltaf verið talið að sérstakt samband væri milli siðfræði og stjórnmálafræði en í nálægri fortíð hafa þessi tengsl veikst töluvert. Hvað viltu segja um þetta?

Hare  Ég er ekki viss um hve nálæga fortíð þú átt við. Um þessar mundir skrifa heimspekingar áreiðanlega heilmikið um mál sem hafa pólitíska þýðingu, en það ætti ekki að gera of mikið úr hve ný þessi þróun er. Ég birti fyrstu grein mína á þessu sviði árið 1955 og geri ég meira af því nú þá er það vegna þess að ég tel mig vera betur í stakk búinn til að gera það eftir þær grunnrannsóknir sem ég hef verið að fást við síðan þá. Ég vildi vona að sama gæti átt við um rökgreiningarheimspekinga almennt enda þótt sumir þeirra telji sig verða, því miður og hörmulega, að skilja verkfæri sín eftir þegar þeir leyfa sér að skrifa um stjórnmál. Róttæklingar segja stundum að rökgreiningarheimspekingar skrifi ekkert „sem skiptir máli“, en það sem þeir eiga við með þessu er að þeir skrifi ekki nóg af því sem er róttæklingum að skapi pólitískt séð. Ef ég má vera á heimaslóðum andartak skulum við líta á ástandið í Oxford. Heimspeki-, stjórnmála- og hagfræðiskólinn hefur menntað fjölda færra stjórnmálafræðinga með heimspekilegan bakgrunn, sem sumir þeirra eru enn við kennslu þar, með því að flétta saman heimspeki og félagsvísindi. Á prófinu fyrir þessa háskólagráðu eru tvö verkefni sem kallast „siðfræði og stjórnmálaheimspeki“ og „stjórnmálakenningar“ en svið þeirra skarast svo mikið að séu nemendur að taka hið síðarnefnda mega þeir ekki svara pólitísku spurningunum í hinu fyrrnefnda því að þá fengju þeir tvöfalda einkunn fyrir einfalda vinnu. Prófverkefnið „stjórnmálakenningar“ er samið af stjórnmálafræðingunum og þeir gefa einkunn ásamt heimspekingunum, og samkvæmt minni reynslu eru einkunnirnar jafn samhljóða og einkunnir ólíkra prófenda innan sömu fræði­greinar eru venjulega. Og það eru önnur prófverkefni stjórnmálalegs eðlis sem heimspekingar hjálpa oft til við að fara yfir og meta. Hér er engin vísbending um klofning milli greinanna. Það er líka ákaflega fjörug umræða meðal kennara á þessum greinamörkum. Ég er í hópi sem kemur saman í Allrasálnagarði og ræðir málefni á því sviði sem hið víðlesna nýja bandaríska tímarit Philosophy and Public Affairs gerir ítarleg skil. Það vill svo skemmtilega til að þessi hópur stjórnmálafræðinga, lögfræðinga og heimspekinga sem byrjar með þeim ásetningi að ræða raunhæf málefni sem eru ofarlega á baugi hefur mjög fljótlega uppgötvað að rannsókn á þessum málefnum, sé farið djúpt í hana, leiðir beint til þeirra áríðandi vandamála í kennilegri siðfræði sem þú sagðir að við værum að hverfa frá. Svo við erum í raun að hverfa aftur til þeirra með nýjum skilningi á mikilvægi þeirra.

Magee  Það sem ég hef orðið áskynja bara á undanförnum fáum árum er vaxandi tilhneiging hjá siðfræðingum að fást við vandamál á félagslegum sviðum öðrum en þeim sem eru strangt tekið stjórnmálaleg – vandamál í hagfræðikenningum, til dæmis, eða í stefnu í fólksfjöldamálum.

Hare  En þetta er efniviður stjórnmála nú á dögum; heimspekingar eru að leggja til orrustu. Það sem þú segir er vissulega að gerast enda þótt það byrjaði fyrir nokkru. Derek Parfit, sem ásamt lögfræðingnum Ronald Dworkin stofnaði hópinn sem ég nefndi rétt áðan, er að skrifa um stefnu í fólksfjöldamálum sem ristir dýpra en nokkuð annað sem ég þekki, og hann ásamt nokkrum öðrum heimspekingum halda viðvarandi málstofu á þessu og skyldum sviðum sem er ein þeirra mest spennandi í Oxford. Tómstundaiðja mín hefur verið umhverfisskipulag og ég tók allvirkan þátt í því áður en ég gerðist atvinnuheimspekingur fyrir þrjátíu árum; og ég held satt að segja að heimspekin hafi hjálpað mér við þá tegund rannsókna. Ég geri ekki svo mikið af þessu nú orðið og ástæðan er kannski athyglisverð: Það er vegna þess að umhverfisskipulag (og sérstaklega skipulag flutninga sem ég hef mest fengist við, sökum þess að það er svo miðlægt í umhverfisvandamálum) er nú orðið svo miklu tæknilegra en það var. Þetta þýðir að þeir sem eru áhugamenn, eins og ég, geta í rauninni ekki gert mikið í því nú sem er ómaksins vert. Ég var vanur að skrifa greinar í Traffic Engineering and Control, en ég mundi ekki dirfast að gera það nú vegna þess að viðfangsefnið er orðið svo stærðfræðilegt og erfitt. Maður var vanur að geta gert umferðarspár sem tóku til heillar borgar eins og til dæmis Oxford, með erfiðismunum með blýanti og blaði, að íbúatölunni gefinni; og ég gerði nokkrar í tengslum við vegadeiluna í Oxord, en nú verður maður að nota tölvu og ég hef ekki lært það. Þetta er kennidæmi um það sem kemur fyrir heimspekinginn. Ef ég hefði hug á að sérhæfa mig í þessu efni yrði ég að gefa heimspekina upp á bátinn – ég hefði ekki tíma.

Magee  Þegar kemur að raunverulegum samfélagsmálum líkt og þessu neitarðu því samt að viðhorf í siðfræði sem eru opinskátt „pólitísk“ eins og til dæmis marxisminn (og jafnvel vissar tegundir tilvistarstefnu) hafi meira að segja?

Hare  Þeir sem aðhyllast þessi viðhorf hafa meira að segja í þeim skilningi að þeir nota fleiri orð: Bækur þeirra eru venjulega lengri. Enda þótt það séu nokkrir góðir heimspekingar sem aðhyllast þessar stefnur gerir algengari tegundin lítið annað en blása upp blöðrur af mismunandi lögun og lit, fullar af engu nema andardrætti þeirra sjálfra, sem svífa hingað yfir Ermarsundið eða Atlantshafið, og sé stungið í þær með oddhvassri nál er mjög erfitt að segja hvað var í þeim nema að það var sennilega eldfimt og áreiðanlega ölvandi. Ég held ekki að þetta fólk geri neitt til að leysa úr raunhæfum vandamálum. Það eykur kannski útblásturinn dálítið umfram það sem eðlileg árásarhneigð hópa framleiðir hvort eð er; en vegna gallaðrar pípulagningar lendir mest af honum á gleraugum fólks.

Magee  Með öðrum orðum álítur þú að þessum öndverðu heimspekilegu viðhorfum hætti til að vera skrautleg mælskulist en skorti bitastætt innihald. Og þetta stafar sumpart af því að þau skortir einnig röklega nákvæmni.

Hare  Nákvæmni er lykilorðið.

Magee  Mælskulist er einnig lykilorð.

Hare  Ég fordæmi ekki mælskulist þar sem hún á heima – ég sjálfur var nú rétt áðan að leyfa mér að viðhafa hana – að því tilskildu að nákvæmnin sé þar líka. Og mælskulist sumra þessara manna er mjög góð. Þeir hafa haft áhrif á söguna á þann hátt sem við rökgreiningar­heimspekingar höfum, því miður, ekki haft – enn þá – nema við teljum með fyrri tíma rökgreiningarheimspekinga eins og Locke og Mill. Ef við förum alveg aftur til Hegels og manna á borð við hann, rómantísku heimspekinganna eins og hin tegundin hefur verið kölluð, þá hafa þeir haft gífurleg áhrif á söguna – til hins verra, að mínum dómi.

Magee  Það er leitt fyrir rökgreiningarheimspeki að hún hefur ekki þessa hæfni til að hafa örvandi áhrif á fjöldann. En það felst kannski í eðli greinarinnar.

Hare  Ég er viss um að svo er vegna þess að til að miðla því sem læra má af rökgreiningarheimspeki verður maður að gera meira en að örva fólk: Maður verður að fá það til að hugsa, en það er langtum óþægilegra.

Magee  Ég held það hafi verið Whitehead sem sagði að við mundum gera næstum hvað sem væri til að komast hjá að hugsa.

Hare  Síðari tíma saga hugmyndaheimsins sýnir þetta mjög svo vel.

Magee  Rétt áðan varstu að tala um nokkur af þeim vandamálum í athafnaheiminum sem þú sjálfur hefur fengist við sem siðfræðingur. Af því sem þú segir mætti ætla að siðfræði sé í grundvallaratriðum blendingsgrein, sambland af viðfangsefnum sem sum varða staðreyndir eða eru reynslubundin og sum sem eru greinandi eða óháð reynslu. Er þetta í raun svona? Og ef svo er gerir það hana ólíka öðrum greinum heimspeki?

Hare  Það held ég ekki. Vissulega er mikilvægt að greina milli þessara tveggja tegunda viðfangsefna. Það sem þú segir minnir mig á hina frægu spurningu Kants í upphafi bókarinnar Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni: „Væri það ekki betra fyrir allan þennan lærða iðnað ef þeir sem eru vanir að útvega, í samræmi við smekk almennings, sambland af hinu reynslu­bundna og röklega í ýmsum hlutföllum sem þeir þekkja ekki einu sinni sjálfir – hinir sjálfskipuðu „skapandi hugsuðir“ andstætt „orðhenglunum“ sem sjá um þann hluta sem er eingöngu röklegur – ef þeir væru varaðir við því að inna af hendi samtímis tvö verk mjög ólík hvað aðferð snertir, og hvort um sig þarfnast kannski sérstaks hæfileika og sameining beggja í einni manneskju býr til eintóma klastrara?“

Magee  Ertu sammála Kant?

Hare  Mér fer að hitna í hamsi alveg eins og honum þegar ég hitti þessa klastrara. En þetta er ekki síðasta orðið hjá honum. Hann heldur áfram og lætur það liggja milli hluta hvort röklegi hlutinn „eigi að vera í höndum allra siðapostula (en til eru herskarar af þeim) eða einungis í höndum þeirra sem hafa köllun til verksins.“ Hann krefst þess aðeins að báðir hlutar sið­fræðinnar séu stranglega aðskildir, og í því efni er ég vissulega sammála honum. Maður verður að vita hvenær hann er að fjalla um annan og hvenær um hinn.

Magee  Þú átt við að maður verði að hafa það á hreinu hvenær hann er að fjalla um rökhæfingar og hvenær um staðreyndir.

Hare  Staðreyndir og efnislegar spurningar almennt, því að sumar efnislegar spurningar – til að mynda siðferðilegar spurningar – snúast ekki eingöngu um staðreyndir heldur um hvað við ættum að gera. En ég er sammála því að báðar verður að greina frá hugtakalegum spurningum eða rökhæfingum hvaða tegund heimspeki sem maður fæst við – þótt siðfræði sé kannski sérstaklega móttækileg fyrir ruglingi af þessu tæi.

Magee  Við skulum nú líta á núverandi ástand greinarinnar. Geturðu sagt eitthvað um hvað siðfræðingar hafa aðallega verið að fást við á undanförnum árum?

Hare  Í siðfræðikenningum hefur aðalspurningin á undanförnum árum snúist um hvort hægt sé að leiða matskenndar niðurstöður af forsendum sem byggjast á staðreyndum. Er hægt að leiða gildi af staðreyndum? Er hægt að fá „ætti“ út úr „er“? Þetta á ekki bara við um rökgreiningar­heimspeki; það liggur til grundvallar deilunum milli tilvistarstefnumanna og andstæðinga þeirra, svo dæmi sé tekið. Þeir setja þó hlutina öðruvísi fram, og vegna skorts á færni í rökgreiningu leyfa þeir sér heilmikla ástæðulausa angist til að losa sig úr vandræðum sínum sem krefst þess að gerður sé nokkur afar mikilvægur og frekar erfiður greinarmunur. En ég held ekki að hægt sé að gera mikið sem kemur að gagni í siðfræði nema maður hafi skilið til hlítar rökin báðum megin við þessa spurningu sem snýst um „er“ og „ætti“.

Magee  Þegar þú spyrð: „Er hægt að fá ‘ætti’ út úr ‘er’?“ þá er þetta svo snúin spurning, og samt svo mikið grundvallaratriði, að þú fyrirgefur mér kannski ef ég reyni að útskýra það dálítið. Viðtekna staðhæfingin er, er það ekki, að engan gildisdóm, siðadóm, stefnu eða ákvörðun leiði nauðsynlega af staðreyndum? Samkvæmt þessari skoðun eru staðreyndir og gildi röklega óháð hvort öðru. Og þetta sjálfstæði er tvíeggjað: Alveg eins og gildi eru óháð staðreyndum þannig eru staðreyndir óháðar gildum, til að mynda forgangskostum okkar. Ég skal koma með dæmi. Það væri gagnstætt því sem við báðir viljum geta trúað ef vísindamönnum tækist að sanna að einhverjir kynþættir séu erfðafræðilega verr gefnir vitsmunalega en aðrir. Það kæmi illa við okkur að uppgötva að þetta væri þannig. En þó, sé það staðreynd er það staðreynd og við verðum að viðurkenna það sem staðreynd og neita því ekki. Enn síður ættum við að reyna að þagga það niður með því til dæmis að koma í veg fyrir að vísindamenn skrifi um það eða haldi um það fyrirlestra. Í stuttu máli, staðreyndir eru óháðar óskum okkar. En samt sem áður mundi enga sérstaka stefnu í félagsmálum leiða nauðsynlega af þessari staðreynd. Sumir kynnu að segja: „Jæja, sé þessi hópur miður gefinn en hinn þarf samfélagið að verja minna af fjármunum sínum til að mennta hann.“ En aðrir gætu með sama rétti sagt: „Þvert á móti, sé þetta fólk fætt með minni greind þarf samfélagið að verja meira af fjármunum sínum til að mennta það.“ Það væri með öðrum orðum algerlega undir fólki komið að hvaða stefnuákvörðun það kæmist í ljósi sömu staðreyndar.

Þessi hugmynd að staðreyndir og gildi séu óháð hvort öðru er grundvallaratriði í menningu okkar sem byggist á vísindum, það mætti jafnvel segja menningu sem vísindin drottna yfir. Samfélagsvísindin hafa líka tekið hugmyndina upp í miklum mæli: Einkum eru félagsfræðingar að reyna að þróa það sem þeir kalla „gildisfrjálsa félagsfræði.“ Hugmyndin hefur jafnvel smitað bókmenntagagnrýni. En samt samþykkja hana ekki allir. Hvorum megin í deilunni ert þú?

Hare  Sömu megin og ég tel þig vera: Ég er þeirrar skoðunar að staðreyndir og gildi séu aðskilin. En auðvitað á ég ekki við með því, eins og sumir hafa skilið það, að staðreyndirnar skipti ekki máli fyrir spurningar um gildi. Þegar við reynum að svara spurningum um gildi, eða ef því er að skipta reyna að ákveða hvað gera skuli, þá erum við að gera upp á milli tveggja eða fleiri raunhæfra valkosta og hvað felst í valkostunum ræðst af staðreyndunum. Það sem ég á við er að, í dæminu sem þú nefnir, sé verið að ákveða hvort ætti að veita fólkinu sem talið er að hafi lakari vitsmunalega hæfileika meiri eða minni menntun þá mun það ráðast af því, er það ekki, hvað verið væri að gera ef þetta eða hitt væri gert, og það ræðst af afleiðingum þess að gera það, svo í raun og veru er verið að velja milli afleiðinganna. Ef ég þá spyr: „Ætti að veita þeim meiri eða ætti að veita þeim minni menntun?“ þá verður að greina orðtökin „veita þeim meira“ og „veita þeim minna“ með skírskotun til fjölmargra staðreynda um afleiðingarnar af því að gera þetta.

Magee  Ákvörðun eða stefna, sem merkir matskenndur forgangskostur, verður því að tengjast hinum raunverulegu aðstæðum eigi hún ekki að vera algerlega fráleit eða handahófskennd?

Hare  Það er rétt, já. Og enginn, mér vitanlega, sem heldur fast fram greinarmuni staðreynda og gilda vill halda því fram að ekki sé hægt að nota staðreyndir á þennan hátt í siðferðilegum röksemdafærslum.

Magee  En það eru til, er ekki svo, heimspekingar sem vilja halda því fram að jafnvel þegar öll kurl eru komin til grafar þá séu staðreyndir og gildi eftir sem áður einhvern veginn blönduð?

Hare  Þeir eru til. Ég held ekki að við höfum tíma til að ræða þetta en leyfist mér að segja að ég hef aldrei séð nein rök fyrir þessari skoðun sem byggðist ekki á hugtakaruglingi.

Magee  Eitt sem sannfærir mig um að það sé rangt er að þeim sem halda því fram að hægt sé að leiða staðhæfingar um gildi af staðhæfingum um staðreyndir hefur aldrei tekist það. Enginn þeirra hefur nokkurn tíma sýnt okkur eitt einasta sannfærandi dæmi.

Hare  Ekki um einfalda skilyrðislausa matskennda ályktun af forsendum um staðreyndir af þeirri gerð sem mundi hjálpa til við að leysa raunhæft vandamál á borð við það sem þú varst að lýsa. Það eru til ályktanir um gildi af staðreyndum eins og þessi: „Allir Grikkir eru menn, svo ef ekki ætti að éta menn þá ætti ekki að éta Grikki“; og þessi: „Jack gerði nákvæmlega það sem Bill gerði og kringumstæður þeirra, skapgerð o.s.frv. voru alveg eins, svo ef setja ætti Bill í fangelsi þá ætti að setja Jack í fangelsi“. Ég hef notað ályktanir af þessari gerð. Það eru einfaldar skilyrðislausar efnislegar ályktanir sem ekki er hægt að draga, þar sem engin ef og þess háttar eru.

Magee  Hverjir eru nokkrir hinna merkari heimspekinga sem eru þér ósammála í þessu efni?

Hare  Ég nefni nokkra sem líklegt er að séu vel þekkt nöfn enda þótt þeir séu reyndar ekki aðalverjendur ályktana um gildi af staðreyndum í fræðilegri heimspeki. Tökum til að mynda John Rawls í Harvard. Hann hefur skrifað bókina A Theory of Justice sem hefur hlotið mjög mikið lof og ég er þess fullviss að hann tilheyrir þeirri hlið þessarar deilu sem er andstæð okkur. Það er að segja hann telur að hægt sé að leiða gildisdóma af staðhæfingum um staðreyndir. En skoðirðu bók hans og spyrð: „Beitir hann nokkurn tíma gildri afleiðslurökfærslu út frá staðreyndum til gilda til að sýna að einhver siðferðileg ályktun sé sönn?“ Ég held ekki að hann geri það. Það sem hann gerir í staðinn er að skírskota til innsæishugmynda og setja fram staðhæfingar sem hann vonast til að við föllumst á; og hér hefur hann talsvert til síns máls því vegna þess hvernig við höfum verið alin upp þá hafa mörg okkar sömu innsæishugmyndir eða fordóma og Rawls. En sem röksemdafærsla hangir hún í rauninni ekki saman.

Magee  Geturðu komið með dæmi um þetta hjá honum?

Hare  Má ég setja málið í sitt víðara samhengi? Hann er aðallega að tala um skiptaréttlæti, og það hafa komið út nokkrar merkisbækur um það efni nýlega, sérstaklega bók Rawls, og einnig bók eftir Robert Nozick, Anarchy, State and Utopia. Hann starfar líka við Harvard og það er undarlegt að tveir menn með svona áþekkan bakgrunn skyldu skrifa bækur sem eru gjörólíkar í pólitísku tilliti. Það sýnir að við getum ekki treyst því að fólk fái sömu innsæishugmyndir. Báðir þessir höfundar höfða til innsæis – til þess sem þeir vona að lesendur þeirra muni fallast á, og samt komast þeir að næstum því andstæðum niðurstöðum – ekki alveg andstæðum af því að alger andstæða við afstöðu Nozicks er afstaða jafnréttissinna en Rawls er ekki alger jafnréttissinni. Jafnréttissinnar segja að gæðum í samfélaginu ætti að dreifa jafnt nema einhver knýjandi nauðsyn sé til þess víkja frá ströngum jöfnuði. Nozick er á þveröfugri skoðun. Hann telur að við eigum sem frjálsir menn rétt á því að skiptast á gæðum (að því tilskildu að við höfum aflað þeirra á réttlátan hátt og skiptin séu réttlát) þar til ef svo vill til að hin vaxandi áhrif allra þessara sanngjörnu skipta leiði af sér gríðarlegan ójöfnuð. Rawls er mitt á milli þessara tveggja viðhorfa; hann telur að réttlátt hagkerfi sé það sem gerir það besta fyrir þá sem eru verst settir. Sé staða þeirra sem eru verst settir eins góð og hún getur verið virðist Rawls vera nokkuð sama hvað verður um hina. Við höfum þá þessi þrjú viðhorf (og ég leyfi mér að segja að ég aðhyllist ekkert þeirra), og hið furðulega er að það virðast ekki vera nein rök af því tæi sem beitt er í bókum þeirra Rawls og Nozicks sem mundu gera út um málið, því allt sem þeir geta gert er að vísa til innsæishugmynda þeirra sjálfra og lesenda þeirra, sem eru breytilegar eftir því hvar maður stendur í stjórnmálum.

Magee  Þetta leiðir til einnar þeirra spurninga sem er mikilvægust allra. Hvernig dæmir maður milli gerólíkra viðhorfa eins og þessara?

Hare  Til að sýna Rawls sanngirni er siðferðilegur hugsunarháttur hans þess eðlis að hann gæti svarað spurningu þinni ef hann vildi beita honum og reiddi sig ekki alltaf á innsæi. Eins og Brian Barry sagði í bók sinni um Rawls er þessi aðferð hans mjög lík minni hvað röklega eiginleika snertir og hefði Rawls bara beitt rökfræðinni sem er undirskilin í aðferð hans og hafnað innsæi þá hefði hann getað gert miklu betur. Ástæðan fyrir því að hann gerði það ekki er sú að hefði hann gert það þá hefði hann endað sem einhvers konar nytjastefnumaður, og hann taldi það verri örlög en dauða. Innsæið sagði honum að hann mætti ekki vera nytjastefnumaður; hann treysti því ekki á rökfræðina, hann treysti á innsæið.

Magee  Þú hefur orðað það skýrt og skilmerkilega að það gengur ekki að byggja siðferðilegt viðhorf á innsæi af því að ólíkar manneskjur hafa ólíkt innsæi – en merkir það að þú hafnir innsæi? Telurðu að við ættum að ýta því til hliðar?

Hare  Nei, alls ekki. Innsæishugmyndir eru mjög mikilvægar en þær eru ekki það eina. Ástæðan fyrir því að þær eru mikilvægar er sú að í flestum siðferðilegum klípum höfum við ekki tíma til að hugsa, og stundum væri hættulegt að hugsa, eins og Hamlet komst að raun um. Þess vegna var það mjög viturlegt af þeim sem ólu okkur upp að innræta okkur vissar tilhneigingar sem gera flest okkar, svo dæmi sé tekið, ákaflega treg til að segja ósatt og mjög fús til að segja, ef einhver annar segir ósatt, að hann hafi gert rangt. Sama á við um grimmd. Standirðu einhvern að því, nú á dögum í þessu landi, að lúberja hund – hvað þá manneskju – segirðu strax að hann sé að gera rangt. Við höfum sem sé verið alin upp með innsæistilfinningu fyrir hvað sé rétt og hvað sé rangt og það er mjög æskilegt að við séum alin upp þannig. Værum við ekki alin upp á þann hátt mundum við hegða okkur miklu verr. Ég er því vissulega hlynntur innsæishugmyndum. En spurningin er: „Hvaða innsæishugmyndum?“ Setjum nú svo, þegar þú ert að ala börnin þín upp, þá spyrjirðu sjálfan þig: „Er rétt að innræta þeim þá innsæishugmynd að menn með sítt hár séu verri en menn með stutt hár?“ eða, á alvarlegri nótum, „Er rétt að innræta þeim að það sé rangt að halda fram hjá?“ Hvernig skerðu úr um þetta? Sértu að velta því fyrir þér hvort innsæishugmyndir þínar séu í raun og veru þær bestu, og ef börn þín eða aðrir vefengja þær, hvað þá? Innsæishyggja – sú skoðun að við vitum með innsæi að siðadómar séu sannir og verði ekki vefengdir – getur ekki svarað þessari spurningu. Við þurfum hærra stig siðferðilegrar hugsunar sem getur gagnrýnt innsæishugmyndir – gagnrýnið stig þar sem við getum tekið ýmsar andstæðar innsæishugmyndir, annaðhvort hjá sömu manneskju eða ólíkum manneskjum, og lagt mat á þær til að kanna hver sé best.

Magee  Hvernig á að framkvæma þessa hærra stigs hugsun? Hafni maður innsæi sem leið til að skera úr milli ósamrýmanlegra röksemda og telji ekki heldur að hægt sé að leiða siðadóma af staðreyndum, hvaða hlutverki gegna þá rökhugsun og skynsamlegar rökfærslur í málefnum sem eru sérstaklega siðferðileg?

Hare  Ég vildi gjarnan, ef ég má, taka þetta í áföngum. Ég held að rökfærsla geti komið að gagni hér – hún getur komið að miklu meira gagni en hún hefur gert hingað til – en við skulum taka fyrsta áfangann. Hann er, eins og ég sagði hér áðan, að rökfræðinni er beitt til að skýra hugtökin sem notuð eru í þessum deilum, eins og hugtakið sanngjarnt eða réttlátt, og til að varpa ljósi á röklega eiginleika þeirra. Annar áfanginn er þessi: Þegar búið er að skýra þessi hugtök verður hægt að greina eina tegund spurningar frá annarri. Allar þessar pólitísku og siðferðilegu spurningar koma til okkar eins og sambland eða blanda af nokkrum ólíkum tegundum spurninga. Í fyrsta lagi höfum við hversdagslegar staðreyndaspurningar um aðstæðurnar sem við erum í og afleiðingar þeirra athafna eða stefnumála sem við eigum kost á. Þar næst koma rökfræðilegu spurningarnar sem ég nefndi rétt áðan um eðli hugtakanna sem verið er að beita – merkingu orðanna – og fólk fer eflaust að tala í kross þegar það skilur þessar spurningar sem spurningar um staðreyndir en það eru þær ekki. Til að mynda í deilunni um fóstureyðingar heldur það að um sé að ræða spurningu um staðreynd á hvaða stigi fóstrið breytist í mannveru. En hér er reyndar um að ræða þrjár spurningar (eða flokka spurninga), ekki eina. Það eru spurningar um staðreyndir í þröngum skilningi – aðallega læknisfræðilegar spurningar um núverandi ástand fóstursins og móður þess og líklega framtíð þeirra sé fóstrinu ekki eytt; og það eru spurningar um hvernig við ætlum að nota orðið „mannvera“; og að lokum, þriðji flokkur spurninga sem ég hef ekki nefnt enn þá, eru spurningar um gildi á borð við „Hvernig ætti að fara með fóstur, sem þannig er lýst, eða mannverur, í hinni mismunandi merkingu orðanna?“ Með því að blanda saman þessum tegundum spurninga snýst fólk í hringi og fer aldrei að kljást við þriðju tegundina sem vitaskuld er sú mikilvægasta. Annað framlag heimspekingsins er að aðskilja allar þessar ólíku spurningar, og þá sjáum við að hægt er að gera út um staðreyndaspurningarnar með aðferðum reynslubundinna rannsókna og ráða fram úr rökfræðilegu og hugtakalegu spurningunum, með aðstoð heimspekilegra rökfræðinga ef þess gerist þörf, með því að ákveða merkingu orðanna, eða ef við viljum breyta merkingu þeirra hvað við ætlum þá að láta þau merkja. Og þá eru eftir spurningarnar um gildi sem kann að vera auðveldara að svara þegar við höfum losað okkur við hinar, vegna þess að við getum loksins séð þær skýrt og aðgreindar frá þessum öðrum tegundum spurninga.

Magee  Hvernig er hægt að beita rökfræði á spurningar sem eru einvörðungu um gildi?

Hare  Þetta er mikilvægasta málið í siðfræði um þessar mundir, eins og það hefur alltaf verið. Þú spyrð mig réttilega hvernig rökfræði geti komið að gagni við að svara hinum mikilvægu spurningum um gildi eftir að þær hafa verið greindar frá hinum, eins og ég hef verið að reyna að gera alla tíð. Fólk hefur snúist í hringi af því að það heldur að hér sé um að ræða ógöngur, en ég held að til sé leið áfram. Skoðanir mínar eru ögn áþekkar skoðunum Kants – þótt ég hiki við að segja þetta af því að ég er aldrei viss um hvað Kant er nákvæmlega að segja; hann er svo óskýr höfundur. En það sem ég vil segja um siðferðishugtökin er að þau hafa tvo eiginleika sem saman nægja til að láta í té rökfræði fyrir siðferðilega röksemdafærslu. Hinn fyrri er sá sem heimspekingar kalla „alhæfanleika“. Þetta þýðir í grófum dráttum að siðadóm sem ég felli um eitthvert mál verður líka að fella um öll mál sem eru nákvæmlega eins. Síðari eiginleikinn kallast „forskriftareðli“. Þetta merkir að hinir miðlægu siðadómar varða athafnir okkar (vitanlega eru aðrir ekki jafn miðlægir siðadómar sem hafa ekki þennan eiginleika.) Ef við trúum þeim þá munum við breyta í samræmi við þá ef við getum. Ég held því fram að þessir tveir formlegu eiginleikar, einir sér, nægi til að láta í té rökfræði sem getur í raun og veru hjálpað til við siðferðilegar röksemdafærslur.

Magee  Þú ert farinn að tala eins og siðfræði, alltént hvað eina hlið hennar varðar, sé grein af meiði rökfræðinnar.

Hare  Ég tel hana vera það. „Ætti“, svo dæmi sé tekið, er háttarhugtak alveg eins og „verða að“ og „geta“. Rökfræðingar eru með tegund rökfræði sem þeir kalla háttarökfræði og fjallar um hugtök á borð við nauðsyn og möguleika; og til er tegund háttarökfræði sem kallast skyldurökfræði og fjallar um það að vera skuldbundinn og það að vera leyfilegt (það er að segja um setningar sem byrja á „Ég ætti að“ og „Það er í lagi að“). Hinn formlegi hluti siðfræðinnar, sem allt annað verður að byggjast á, er einfaldlega skyldurökfræði. Ég er ekki sérfræðingur í formlegri rökfræði en ég lít svo á að ég leggi eitthvað af mörkum til greinarinnar óformlega á minn leikmannshátt.

Magee  Hér áðan lýstirðu þér sem einskonar nytjastefnumanni. Nú talarðu eins og þú sért einskonar kantisti. Eru kantistar og nytjastefnumenn ekki venjulega taldir vera á öndverðum meiði?

Hare  Fylgismenn þessara stefna nú á dögum segja þetta stundum. Það er almennt talið að Kant og Mill, svo dæmi sé tekið, eða Bentham, séu á öndverðum meiði í siðfræði. Það er alrangt. Kant var á móti þeirri tegund nytjastefnu sem hann taldi sig hafa fundið hjá Hume – tegund sem leitast við að byggja siðferði algjörlega á reynslubundnum rannsóknum á tilfinningum manna og gerir lítið úr því sem Kant kallar „hreina röklega hlutann“. Hins vegar taldi Mill að nytjareglan sín væri í samræmi við hið skilyrðislausa skylduboð Kants, túlkuð á þann eina hátt sem gefur henni einhverja merkingu; og það er erfitt að vera ekki sammála honum. Kant var að tala um form siðferðilegrar hugsunar, nytjastefnumennirnir um inntak hennar þar sem staðreyndir heimsins eins og þær birtast okkur hljóta að koma fram. Kannski komst Henry Sidgwick3, mestur hinna klassísku nytjastefnumanna, næst þeirri sameiningu Kants og nytjastefnunnar sem þörf er fyrir og er vissulega möguleg.

Magee  Hvað telurðu vera rétt og hvað telurðu vera rangt í hvoru þessara viðhorfa?

Hare  Ég skal segja þér hvað ég tel mig hafa lært af hvorri þessara hugmyndastefna um sig. Af Kant hef ég lært mikilvægi röklega þáttarins í siðferðilegri hugsun. Við getum ekki án hans verið; við þurfum að kanna rökfræðina. Ég er Kant ekki sammála þegar hann heldur því fram að þessi þáttur geti líka verið efnislegur. Tractatus Wittgensteins sannfærði mig um að efnisleg röksannindi séu hvorki til né nauðsynleg hugsun okkar. Það er að segja, við getum ekki með rökhugsun einni saman komist að efnislegum niðurstöðum, hvort heldur um staðreyndir eða gildi. Rökfræðin sannar þá eiginleika hugtaka sem eru eingöngu formlegir. Viljum við staðreyndir verðum við að rannsaka, og viljum við gildi verðum við að velja. (Hinn sjálfráði vilji Kants er langtum betri og réttari tjáning þessarar hugmyndar en tilfinningar Humes). En hvort heldur við rannsökum eða veljum, jafnskjótt og við reynum að segja hvað við sjáum eða veljum, setur rökgerð hugtakanna okkur skorður. Þetta er kantismi í hnotskurn, eða öllu heldur hógværari útgáfa mín af honum.

Frá nytjastefnumönnum tek ég þá hugmynd að siðferðileg hugsun okkar verði að fara fram í heiminum eins og hann er. Það skiptir máli að fólkið í honum er eins og það er og aðstæður þess eru eins og þær eru. Engar siðareglur sem eiga að vera raunhæfar er hægt að setja saman öðruvísi en með því að sjá hinar raunverulegu afleiðingar þess, í lífinu, að fara eftir þessum reglum.

Magee  Hvernig svararðu hinni venjulegu mótbáru gegn nytjastefnunni að vegna þess að mælikvarði hennar er meiri hamingja sem flestra þá sé hægt að gera skelfilega hluti í hennar nafni? Eftirfarandi ögrun við nytjastefnuna er orðin vel þekkt. Séu tveir sjúklingar á sjúkrahúsi að deyja vegna þess að þá vantar góð nýru og einn vegna þess að hann vantar góðan maga, og hægt væri að bjarga þeim öllum með ígræðslu líffæra, og ef inn í þetta sjúkrahús kæmi fullkomlega heilbrigður maður til að heimsækja einhvern annan veikan ættingja, þá ætti með nytjastefnurökum að sundurlima heilbrigða manninn og skipta líffærum hans milli sjúklinganna – af því að með því móti mundi aðeins einn maður deyja og þrír lifa, en að öðrum kosti mundu þrír deyja og aðeins einn lifa.

Hare  Ja hérna, heimspekingar eru alltaf að búa til falleg dæmi á borð við þetta, en siðareglur verður að finna upp fyrir heiminn eins og hann er. Hugsum okkur bara hverjar yrðu afleiðingarnar í hinum raunverulega heimi ef læknar og aðrir samþykktu þá reglu að það væri í lagi að taka gesti á sjúkrahúsum fasta og stela líffærum þeirra! Þessi fjarstæðukenndu dæmi koma í raun og veru vali á siðareglum ekkert við. Það sem nytjastefnumenn ættu að segja við dæmi af þessu tæi er að reglurnar sem við ættum að innræta okkur til raunhæfra nota – innsæið sem við ættum að leggja rækt við – eru þær sem hafa það sem þeir kalla „mestu viðurkenningar-nytsemi“. Þetta þýðir reglurnar sem er fyrir bestu að séu almennt viðurkenndar í samfélaginu. Þetta á bæði við það sem kallast athafna-nytjastefna og reglu-nytjastefna því að með athöfnum okkar – með því hvernig við lifum eftir reglum okkar – erum við að valda góðum eða vondum afleiðingum og þetta eru afleiðingarnar af því að samþykkja reglurnar sem við förum eftir. Að hafa eða trúa á reglu tengist, bæði röklega og sálrænt, staðföstum vilja til að fara eftir henni. Ég er samþykkur öllu þessu. Ég gæti orðað það með kantískari kenningu minni á þessa leið: „Hugsaðu þér að þú verðir að velja reglur til almennrar upptöku í samfélaginu – eða bara fyrir þig sjálfan – og þú megir ekki velja þær með tilliti til eigin hags; þú verður að velja eins og þú gætir verið þiggjandinn þegar þú og aðrir færu eftir þessum reglum. Hvaða reglur mundirðu þá velja?“ Ég hygg að ef við spyrðum okkur þessarar spurningar þá vissum við hvaða innsæishugmyndir við veldum – að svo miklu leyti sem það er sálrænt séð mögulegt að breyta inngrónum siðareglum manns. Alltént vissum við hvaða siðareglur við mundum reyna að innræta börnum okkar – ef til vill okkur sjálfum.

Magee  Mér skilst að þú sért að segja að við ættum að velja siðareglur okkar, og velja þær innsæishugmyndir sem við reynum að innræta börnum okkar, á grundvelli þess hverjar muni verða afleiðingarnar af því að taka þær upp; og að þannig sé heimur staðreyndanna samofinn vali okkar á siðareglum.

Hare  Það er alveg rétt. Bestu innsæishugmyndirnar eru þær sem best er að hafa og þær sem best er að hafa eru þær sem gera okkur kleift að lifa sem best í samfélagi hvert við annað. En ég skal útskýra fyrir þér hvernig við ættum að framkvæma valið. Séu siðadómar alhæfanlegir – sem sagt, verði maður að fella sömu dóma um tilvik sem eru nákvæmlega eins – þá hentar það reyndar ekki steggnum sem hentar gæsinni – því að þrátt fyrir lögin um mismunun kynjanna kann að vera munur sem skiptir máli á gæsum og steggjum (steggir geta ekki orpið eggjum, svo dæmi sé tekið) – en það sem hentar þessari gæs hlýtur að henta gæs sem er nákvæmlega eins, hver sem hún er, séu kringumstæðurnar eins. Ég verð því að segja við sjálfan mig: „Ef ég ætti að gera þér þetta þá ætti einhver annar að gera mér það í kringumstæðum sem eru nákvæmlega eins.“ Og því verð ég að spyrja sjálfan mig: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa að einhver annar ætti að gera mér það í svipuðum kringumstæðum? Segjum að það væri ég sem ætti að gera það við: vel ég samt að það sé gert?“ Mér virðist þetta vera mjög öflugt tæki í siðferðilegri rökfærslu og það tæki sem stöðugt er verið að nota með góðum árangri. Reyndar væri hægt að draga allar skoðanir mínar um siðferðilega rökfærslu saman í gullnu regluna: „Það sem þú vilt að aðrir geri þér skaltu líka gera þeim.“

Magee  Geturðu gefið okkur raunhæft dæmi?

Hare  Þú átt við dæmi um heimfærslu þeirrar tegundar hugsunar sem ég er að mæla með undir raunhæft málefni? Gott dæmi væri það sem kom sjálfum mér til að leggja stund á siðfræði: deilur friðarsinna og andstæðinga þeirra. Meginrökin með friðarstefnu eru hvernig það er fyrir fólk að verða að þola afleiðingar stríðs. Ein af ástæðunum gegn því, til að mynda, að Bandaríkjamenn háðu stríðið í Víetnam voru hinar skelfilegu þjáningar sem voru afleiðingar þess stríðs. Hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna, eða hver annar sem er, búið við reglu sem krefðist þess að svona lagað væri gert þá væri það rök fyrir því að varpa reglunni fyrir róða. Og ég hygg að þeir hefðu horfið frá henni ef þeir hefðu þurft að spyrja sig spurningar eins og þeirrar sem ég spurði rétt áðan: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa slíka reglu hver svo sem staða mín verður á því sviði sem hún gildir?“

Í öðrum tilvikum kynnu að vera mótrök. Tökum dæmi: Enda þótt seinni heimsstyrjöldin hefði í för með sér gríðarlegar þjáningar hefði það sennilega orðið verra fyrir næstum alla, að Þjóðverjum meðtöldum, hefðum við ekki tekið þátt í henni. Alltént var það mín ástæða fyrir að berjast í henni. En maður verður að skoða staðreyndirnar til að ákveða hvaða reglum hann ætti að fylgja. Ég sjálfur mundi ekki taka upp algerlega ósveigjanlegar friðarsinnareglur því að ég tel að afleiðingar þess að allir í minni stöðu (þ.e. stöðu þar sem einhver á borð við Hitler hefur hafið árásarstríð) hefðu slíka reglu yrðu langtum verri en afleiðingar þess að fylgja þeirri reglu sem ég reyndar fylgi og leyfir mér að berjast í tilteknum styrjöldum.

Magee  Við höfum tekið fyrir heilmikið efni í umræðu okkar. Við höfum talað um hlutverk rökfræði í siðferðilegum rökfærslum og hlutverk staðreynda og innsæis og um það hvernig þetta tengist innbyrðis á fremur flókna vegu. Mig langar til að ljúka þessu með því að taka dæmi úr verkum þínum og skoða það í ljósi alls þessa. Í upphafi umræðu okkar vékst þú til að mynda að þeirri spurningu hvað væru „sanngjörn“ laun. Geturðu sagt eitthvað um hvernig þú sem heimspekingur mundir fara að því að rannsaka hugtak eins og þetta?

Hare  Þetta er í rauninni besta dæmið því að það er svo mikið í umræðunni núna og skiptir svo miklu máli og samfélag okkar er, ef til vill, á leiðinni að liðast í sundur vegna skorts á heimspekilegum skilningi á því. Ég tel að heimspekingar geti hjálpað til við þessi vandamál ef fólk hlustaði bara á þá. Við höfum námumennina sem álíta að það sé ósanngjarnt fái þeir ekki hærra kaup fyrir óþægilega vinnu sína. Og við höfum ellilífeyrisþegann sem telur það ósanngjarnt að hann deyi úr kulda vegna þess að verð á eldsneyti hefur hækkað svo mikið. Hvernig fer maður að því að leysa deilur eins og þessar? Að mínum dómi tekur maður til við það með því að spyrja: „Hverjar eru réttlætisreglurnar, reglurnar um sanngjarna skiptingu gæða í samfélaginu sem hefðu, væru þær viðurkenndar, bestu afleiðingarnar þegar á allt er litið fyrir fólkið í því samfélagi?“ Ef við gætum fundið reglur um sanngjörn skipti sem samfélagið almennt gæti fallist á og myndi skipta gæðum á sem bestan hátt fyrir fólkið í þessu samfélagi tekið sem heild, þá værum við laus úr vandræðunum. Ef maður skilur þetta þá er það ekki spurning um að bíta bara í sig einhverja hugmynd um sanngirni sem hann hefur lært, til dæmis, af félögum sínum eða eitthvað sem hann hefur séð í dagblöðunum. En þetta er það sem fólk gerir: það bítur í sig þessi órökstuddu réttindi, þessar hugmyndir um sanngirni sem það gagnrýnir ekki og þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í slagsmálum hvert við annað. Ef við, í stað þess að gera það, gætum spurt okkur: „Hvaða hugmynd um sanngirni ættum við að hafa? Hvaða hugmynd væri best fyrir okkur að hafa í samfélagi okkar?“ þá er hugsanlegt að við gætum verið sammála.

Magee  Hvernig framkvæmir þú sem heimspekingur leitina? Hvernig ferðu að því að reyna að finna svarið við spurningum þínum?

Hare  Þegar hér er komið þarf ég kannski að kalla til aðrar fræðigreinar því að staðreyndirnar eru mikilvægar, eins og ég sagði, og ég hef enga sérfræðiþekkingu á þeim. Heimspekingurinn getur aðeins útskýrt spurninguna og sagt: „Þetta er spurningin sem við verðum að snúa okkur að.“ Ég hef kannski hjálpað til með því að setja spurninguna fram á skýrari hátt en hún var sett fram áður. Ég hef útskýrt hvað það er sem þarf að finna – að hverju maður er að leita, og það er verkefni hagfræðinganna, til dæmis, og félagsvísindamanna almennt, að framkvæma leitina að mögulegum lausnum – að reglum sem mundu í hinum raunverulega heimi okkar uppfylla skilyrðin sem ég hef sagt að þær verði að uppfylla. Jafnvel þessir ákaflega færu menn finna stundum ekki lausnirnar vegna þess að þeim er ekki alveg ljóst að hverju þeir eru að leita, og það er þar sem heimspekingurinn getur ef til vill lagt hönd á plóginn.

Magee  Finnst þér stundum sem heimspekingi að fólk á þessum öðrum sviðum – og ég mundi bæta stjórnmálamönnum við – veiti ekki nægilega athygli útskýringu hugtaka, röksemda og málefna sem þú og aðrir heimspekingar geta lagt til?

Hare  Sumir þeirra gera það og sumir ekki. Til eru heimspekilega menntaðir stjórnmálamenn, eins og þú sjálfur, og meðal hagfræðinga er, svo dæmi sé tekið, Amartya Sen sem er líka mjög góður heimspekingur. Heimspekingar (einkum nytjastefnumenn) geta mikið lært af hagfræðingum á borð við hann. Og það væri betra ef enn fleiri góðir heimspekingar tækjust á við þessi málefni og færri slæmir sem útbreiða meiri rugling en skýrleika. Í yfirstandandi umræðum um spurningar af þessu tæi finnur maður orð eins og sanngjarn, réttindi, réttlæti og þvíumlík notuð, jafnvel stundum af heimspekingum, eins og það lægi í augum uppi hvað væri sanngjarnt eða réttlátt – eins og við þyrftum ekki að spyrja okkur hvort innsæishugmyndir okkar sjálfra um sanngirni ætti að draga í efa. En ég held að ef fólk mundi gagnrýna innsæishugmyndir sínar (eða fordóma) um hvað sé sanngjarnt og hvað réttlátt og leitast við að skilja innsæishugmyndir og fordóma annarra þá væru meiri líkur til þess að við gætum orðið sammála.

Magee  Og kjarninn í viðhorfi þínu í heild er að þessi gagnkvæmi skilningur byggist ekki einungis á samhygð eða samkennd heldur einnig á beitingu rökhugsunar á siðferðileg úrlausnarefni.

Hare  Þetta er ágæt samantekt.

                                                                                                                     Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Francis Hutcheson (1694–1746) var breskur siðfræðingur, stjórnspekingur og fagurfræðingur. Hafði mikil áhrif á heimspeki Humes, einkum hvað varðar tilfinningalífið.

2. Jeremy Bentham (1748–1832) var enskur lögspekingur og siðfræðingur. Hann var frumkvöðull nytja­stefnunnar og hélt fram svokölluðu „hámarkshamingjulögmáli”. Hann var áhrifamikill umbótasinni í stjórnmálum, félagsmálum og menntamálum og hafði mikil áhrif á John Stuart Mill.

3. Henry Sidgwick (1838–1900) var enskur heimspekingur. Mikilvægasta verk hans er The Methods of Ethics. Almennt er litið á þetta verk sem klassíska framsetningu á hinum ólíku tegundum röksemda í siðfræði.

Heimspeki í félagslegu og sögulegu samhengi

Bryan Magee og Ernest Gellner ræða saman1

INNGANGUR

Í þessari samræðu ætlum við að draga saman í eina heilsteypta mynd hinar ýmsu hræringar og stefnur í samtíma heimspeki. Þetta þýðir að við skoðum nútíma vestræna heimspeki í samhengi nútíma vestræns samfélags. Það þýðir líka að við skoðum hana í samhengi sögu hennar til að sjá nákvæmlega hvers vegna og hvernig meginviðfangsefnin þróuðust eins og raun varð á – og þar af leiðandi hver megineinkenni núverandi stöðu okkar eru.
     Þegar heimspekingar nota heitið „nútíma heimspeki“ eiga þeir við heimspeki eftir daga Descartes sem starfaði á fyrri hluta sautjándu aldar. Þróun vestrænnar heimspeki síðan hefur verið ein óslitin hefð, þó margslungin sé – sem þýðir að heimspekina á okkar dögum þarf að skoða með þann bakgrunn í huga. Í nokkur hundruð ár fyrir daga Descartes hafði ástandið verið gerólíkt. Þá hafði aðeins verið ein heimsskoðun, byggð á kristinni trú og haldið uppi af pólitískum yfirvöldum. Allar opinberar efasemdir um hana voru bannaðar og venjulega refsað með lífláti. Í samanburði við okkar tíma er freistandi að segja að þekking fólks hafi næstum því verið kyrrstæð eða alltént mjög lengi að breytast. Í öllu falli fylgdi þekkingunni mikil vissa, enda byggðist hún á engu minna kennivaldi en Guði eða kirkju hans á jörðinni. Það er ekki fyrr en með endurreisninni og siðaskiptunum sem hin nýju vísindi verða til og vaxa með tilkomumiklum hætti, en þetta veldur því meðal annars að hugmyndir taka nýja stefnu. Grafið er undan því sem áður voru talin bjargföst sannindi og með þeim riða til falls hin gömlu kennivöld – og þetta vekur í nýrri og alvarlegri mynd spurninguna: Hvernig er hægt að staðfesta fullyrðingar okkar um þekkingu? Það er vandamál sem enn er óleyst. Lengi töldu menn að vísindunum mundi fylgja alger vissa, en nú vitum við að svo mun ekki verða.
     Til að ræða samtíma heimspeki með þennan sögulega og félagslega bakgrunn í huga hef ég boðið Ernest Gellner sem er bæði heimspekingur og félagsfræðingur að atvinnu – opinber titill hans er „prófessor í heimspeki með sérstöku tilliti til félagsfræði“ við London School of Economics.

UMRÆÐA

Magee Mér virðist það liggja í augum uppi að samtíma heimspeki verður aðeins rétt skilin með einhverja slíka sögulega og félagslega heildarsýn í huga sem ég var nú að reifa mjög lauslega, en samt virðast of margir starfsbræðra þinna í hópi atvinnuheimspekinga hálfblindir á þessa sögulegu og félagslegu vídd. Ertu sammála?

Gellner Ég er mjög sammála báðum aðalatriðunum hjá þér. Ég kann að hafa efasemdir um einhverjar af hliðarathugasemdum þínum, en tvö aðalatriðin hjá þér sýnast mér öldungis rétt. Í fyrsta lagi, það sem þú skilgreindir sem nútíma heimspeki er í grundvallaratriðum, þó ekki ætíð á meðvitaðan hátt, einskonar skýring á þeirri félagslegu og vitsmunalegu breytingu sem hefur átt sér stað síðan á sextándu og sautjándu öld og verður einungis rétt skilin í því ljósi. Í öðru lagi er ljóst að fólk gerir sér ekki grein fyrir þessu.

Magee Maður þarf aðeins að skoða nútíma heimspeki á þennan hátt til að sjá alveg skýrt hvernig á því stendur að aðalvandamálið allt frá dögum Descartes hefur verið þekkingarfræðilegt. Hvað vitum við? Já, vitum við í raun og veru nokkuð – í þeim skilningi að vera algerlega viss? Ef við vitum, hvernig getum við vitað að við vitum?

Gellner Yrði maður að skilgreina nútíma heimspeki út frá aðeins einu einkenni þá er það þetta: hin miðlæga staða þekkingar. Fyrir þennan tíma er þekking eitt fyrirbæri meðal annarra, mikilvægt, en það eru til önnur vandamál; þekking er því eitthvað í heiminum. Það sem einkennir hugsun nútímans er að heimurinn verður eitthvað í þekkingunni. Þarna er búið að snúa hlutunum við.

Magee Ertu mér líka sammála um að þetta stafar, þótt óbeint sé, af niðurbroti hefðgróins kenni­valds í vitsmunalegum efnum? Áður höfðu menn verið vissir um hvað þeir vissu af því að Guð hafði sagt að það væri þannig eða af því að kirkja hans hafði sagt það. En þegar búið var að grafa undan þessum kennivöldum hvernig áttu menn að vita hvað væri satt?

Gellner Já, ég er sammála; en það sem skipti virkilega máli hvað varðar undanfarandi skipulag var ekki hið trúarlega einkenni þess heldur stöðugleiki. Samfélagið gat treyst því að hugmyndirnar hefðu fast land undir fótum. Jæja, stöðugleikinn er horfinn. Nú höfum við það sem er sennilega eina samfélagið sem nokkurn tíma hefur lifað við látlausan vöxt þekkingar. Fólk er upptekið af hagvexti, en hagvöxtur er nátengdur þeirri staðreynd að þekkingin vex. Þetta getur svo aftur verið mjög ónotalegt á ýmsa lund.

Magee Hvernig þá helst?

Gellner Til samanburðar við velgengnisöguna, söguna um góðan árangur, þar sem eru í grófum dráttum náttúruvísindin, er saga um lélegan árangur á öðrum sviðum. Þar sem fólk var áður öruggt með sig er því nú öfugt farið. Miðað við það sem áður var er það eins og samdráttur þekkingar.

Magee Þegar þú talar um samdrátt þekkingar skilst mér að þú sért að vísa til þess að fólk hefur glatað vissu í siðferðis- og trúarskoðunum sínum, er það ekki?

Gellner Fólk er ekki lengur visst á sama hátt og áður um siðferðilegar, félagslegar og margar aðrar tegundir skoðana, og alger andstæða þessa við glæsilegan árangur náttúruvísindanna undirstrikar þetta. Náttúruvísindin eru ekki aðeins óstöðug, þau eru óstöðug með góðum árangri. Það er þokkalegt samkomulag um breytingar innan þeirra og yfirleitt er hið næsta betra en hið síðasta. Enginn veit alveg hvernig þetta virkar, en yfirleitt virkar það og virkar til hins betra. Á öðrum sviðum er þessu alls ekki þannig farið.

Magee Fyrir daga Descartes vissi fólk ekki mikið en í samanburði við viðhorf nú á dögum var það visst um það sem það taldi sig vita, þar sem hins vegar eftir daga Descartes vissi fólk miklu meira en var miklu óvissara um það.

Gellner Kort þekkingarinnar brenglast afskaplega. Sum svið eru augljóslega að vaxa, önnur eru alls ekki að vaxa eða þau dragast saman. Tengt þessu er þriðja einkenni: það er ekki hægt að nota sviðin sem eru að þenjast út til að styðja hin. Ástæðan er ekki einungis sú að vitað er að þau eru óstöðug þar sem þau eru á hreyfingu. Árangursrík þekking verður sérhæfð. Hún er sett fram á sérhæfðu máli, ekki lengur á því máli sem við notum venjulega til að tala um mannleg málefni. Þetta veldur því að það er ekki tiltækt sem forsenda fyrir sýn manns á heiminn, eða fyrir samfélagslíf manns.

Magee Lengi eftir að búið var að grafa undan trúnni á hinar stöðugu guðshyggjuforsendur voru menn að leita að einhverju í staðinn. Það er að segja, það hafði svo lengi verið eitt frumhugtak sem allt átti endanlega að skýrast út frá, nefnilega Guð, að menn héldu lengi áfram að leita að einhverju öðru slíku einstöku frumhugtaki sem allt átti endanlega að útskýrast með. Í fyrstu töldu þeir sig hafa fundið það í vísindunum. Síðan, með ný-kantistum, verður sagan frumhugtakið sem á að útskýra allt. Svo fáum við marxismann sem reynir að fella sögu og vísindi inn í einn ramma endanlegrar skýringar. Það er ekki fyrr en við komum að greinilega nútímalegri hugsun – að Nietzsche, til dæmis – að menn fara að segja: „Kannski það sé ekkert eitt frumhugtak til sem allt á endanlega að útskýra með. Kannski veruleikinn sé, allt til enda, fjölræður. Kannski hann samanstandi bara af mörgum ólíkum, aðskildum hlutum, og eina leiðin til að skilja hann sé að rannsaka þá hvern fyrir sig. Sé svo verður einhver ein, alltumlykjandi skýringarkenning blekking, draumur, og mun koma í veg fyrir að við sjáum veruleikann eins og hann er.“ Bertrand Russell, svo bara eitt dæmi sé tekið, hélt þessu viðhorfi mjög fast fram. Það gegnsýrir mjög alla nútíma raunhyggju.

Gellner Ég samþykki þessa mynd. En ég held að ég mundi lýsa henni dálítið öðruvísi en þú. Það eru ekki svo mjög vísindin sem slík sem koma í staðinn fyrir fyrri vissu, heldur er það aðferðin sem notuð er til að afla vísindalegrar þekkingar. Sé sýn manns á heiminn ekki lengur stöðug þá getur alltént aðferðin sem hann uppgötvar eitthvað um heiminn með verið stöðug. Þetta verður annað af tveimur meginþemum nútíma heimspeki: áherslan á að þekkingarfræði láti í té prófstein á hvað sé góð þekking og hvað ekki og þar með á hvernig heimurinn sé. Sé heimurinn ekki stöðugur geta alltént tækin sem við fræðumst um hann með verið stöðug. Þannig fær heimurinn óbeint eins konar stöðugleika. Þetta leiðir til óhóflegs áhuga á þessum tækjum. Hitt meginþema nútíma heimspeki – marxisminn væri til að mynda dæmi – er leit að einhverri nýrri tegund frumspeki sem er ekki greinargerð um yfirskilvitlegan veruleika heldur frekar það sem kalla mætti mannlega-félagslega frumspeki, nánar tiltekið lýsingu á hinum almennu einkennum hinna mannlegu eða félags-sögulegu aðstæðna. Þessir tveir þræðir ganga í gegnum mest af því sem hefur gerst á undanförnum þrjú hundruð árum, og samtvinnun þeirra er í raun saga nútíma hugsunar.

Magee Þú nefndir marxismann – hversu árangursríkur heldurðu að hann hafi verið í hugmynda­legu tilliti?

Gellner Ja, í grundvallaratriðum hefur hann ekki verið það. Hann fær góða einkunn fyrir að reyna að skoða hið félagslega samhengi vandræða okkar og fyrir að spyrja sumra hinna réttu spurninga, en í grunninn skjátlast honum.

Magee Geturðu skýrt með einhverjum dæmum á hvern hátt spurningar hans eru réttar en svörin röng?

Gellner Ja, þetta er mikið mál. Það er rétt að spyrja spurninga sem grafast fyrir um forsendur þess að nútíminn kemur fram. En hvað varðar röngu atriðin sem mér virðast skipta sköpum þá er fyrst að nefna væntingu um fullkomið samfélag. Sú hugmynd að einhvers konar heildarfullnæging sé til: þegar búið sé að fjarlægja vissa galla og ókosti núverandi samfélagsskipunar þá verði til kerfi sem stillir sig sjálfkrafa þar sem vandamál koma ekki lengur upp. Þar til þessari fullkomnun hefur verið náð verða hlutir að skoðast sem rangir í grundvallaratriðum. Þessi almenna staðleysutrú eða endurlausnaratrú er oft rakin aftur til trúarlegra uppsprettna eða til hinnar algildu hughyggju þýskrar rómantíkur sem ríkti rétt á undan Karli Marx og hafði áhrif á hann. Nánar tiltekið eru ranghugmyndir um eðli stjórnmála sem skipta alveg sköpum. Til að mynda sú kenning að stjórnmál, í merkingunni þvingun, að stjórna fólki, séu einfaldlega aukaafleiðing vissrar tegundar stéttasamsetningar – og að jafnskjótt og þessi stéttasamsetning hverfi verði stjórnmál ekki lengur nauðsynleg – sú kenning gerir hverjum þeim sem trúir henni ókleift að spyrja réttrar spurningar, sem er: „Þvert á móti, að því gefnu að stjórnun á fólki af fólki og stjórnun ríkisins á hagkerfinu sé alltaf til staðar hjá okkur, hvers konar stjórnskipulag eigum við að hafa sem bæði útvegar hin efnahagslegu gæði og kemur í veg fyrir harðstjórn?“

Magee Mig langar til að biðja þig að segja eitthvað um aðra heimspeki sem við erum nú í aðstöðu til að sjá í samhengi, nefnilega afstæðishyggju. Auðvelt er að sjá, í ljósi þess sem ég var að segja hér á undan, hvernig fólk sem veit ekki lengur hvar það á að leita staðfestingar á skoðunum sínum getur endað með því að segja: „Jæja, kannski er ekki hægt að staðfesta skoðanir – þær eru allar jafn gildar eða jafn ógildar.“ Og þetta hefur reyndar gerst hjá mörgum nú á tímum – það hafa verið tímar þegar afstæðishyggja var næstum því í tísku. Hver er skoðun þín á stöðu hennar í nútíma hugsun?

Gellner Afstæðishyggja, sú skoðun að sérhvert samfélag geti lifað samkvæmt eigin viðmiðum og að engin þörf sé á að leita sameiginlegs mælikvarða, er einfaldlega alls ekki tiltækur kostur. Sem uppskrift til að ráða við niðurbrot kennivalds gæti hún einungis virkað ef til væri eitthvað í líkingu við eyjasamfélög, hvert með sína eigin sýn, þar sem maður gæti búið. Það hafa verið aðstæður í veraldarsögunni sem uppfylltu þessi skilyrði að einhverju leyti, þótt þær uppfylltu þau ekki fullkomlega. Til er fræg saga um manninn sem spurði véfréttina í Delfí hvaða siðum hann ætti að fylgja. Svarið var: „Í hverri borg fylgdu siðum þeirrar borgar.“ Þetta var allt sjálfsagt í Grikklandi til forna. Áður en Alexander kom til sögunnar voru til afmörkuð borgríki og maður sem var sagt að fylgja siðum borgarinnar sem hann bjó í gat gert það. En séu engar afmarkaðar borgir þá veit maður þegar honum er sagt að gera í Róm eins og Rómverjar gera einfaldlega ekki hvað verið er að segja honum að gera. Hinar félagslegu einingar eru svo fljótandi, óstöðugar, samtvinnaðar og skarast.

Magee Afstæðishyggjumaður gæti vel sagt við þig: „Ætlirðu að afneita afstæðishyggju minni verðurðu að sýna mér einhverja leið til að staðfesta yfirburði einnar skoðunar fram yfir aðrar.“

Gellner Meginhefð nútíma heimspeki hefur ekki brugðist að þessu leyti. Þekkingarfræðin sem leitast við að kerfisbinda kennimörk gildrar þekkingar, þótt hún sé ekki alger sigurganga, hefur þegar á allt er litið verið nokkuð farsæl. Það er furðulega víðtækt samkomulag um siðferði þekkingar: á sviði þekkingaröflunar er mjög víðtækt samkomulag um reglurnar og þær eru jafnvel felldar í kerfi. Þetta hefur raunar afleiðingu sem við höfum ekki nefnt en mér virðist ákaflega mikilvæg, og þetta mætti kalla „afmennskun sem framfarir í þekkingu kosta.“ Ein hliðin á þekkingarferlinu er heimfærsla atburða og fyrirbæra, þar með talið mannlegt atferli, undir alhæfingar sem settar eru fram á hlutlausu máli, aðgengilegu öðrum. Í vissum skilningi sviptir þetta fyrirbærin sem lýst er einstaklingseinkennum sínum. Ef persónuleg hegðun þín, og persónuleg viðhorf þín, eru útskýrð á þennan hátt gerir það að engu, ef svo má segja, sérstöðu þína sem einstaklings. Hugsanlega eyðileggur það líka þá blekkingu þína að þú sért frjáls (ef það er blekking). Þessi afmennskunaráhrif – það sem félagsfræðingar kalla stundum, undir áhrifum frá Max Weber, aftöfrun heimsins – þessi heimfærsla mannlegra málefna undir ómannleg, óhlutbundin frumhugtök kemur afar ónotalega við mann.
     Ef ég ætti að gefa nafn hinni meginframvindunni í nútíma heimspeki yrði það ‘mannverndarhreyfingin’ – baráttan fyrir því að halda hinni mannlegu ímynd sem vörn gegn því að hún sé útskýrð af vísindunum. Þetta er rómantík! Fyrsta meginþemað er vitanlega efling þekkingarfræðinnar sem þessi vísindi eru sjálf hluti af. Þú nefndir marxismann. Athyglisvert við marxismann er að hann reynir bæði að sleppa og halda. Annars vegar höfðar hann til þess sem í niðrandi merkingu er kallað ‘vísindahyggja’ með sinni svokölluðu vísindalegu sögukenningu, en á hinn bóginn er rómantísk hlið á marxismanum sem segir okkur að við fáum mennsku okkar til baka að fullu: við verðum ósérhæfð, frjáls og óþvinguð. Mannleg þjáning er útskýrð í sögu sem er áhrifamikil, hefur farsælan endi og viðhefur samt líka einhvern veginn sama tungutak og vísindin, eða alltént vísindin á dögum Marx. Marx gerir hvort tveggja að sleppa og halda. Sumir aðrir heimspekingar gera það auðvitað líka.

Magee Það sem þú segir er mjög mikilvægt. Sjáum til hvort ég get endursagt það í aðalatriðum á einfaldan hátt. Þekking okkar er orðin svo víðtæk, svo margslungin, svo tæknileg og svo sérhæfð að það verður að setja hana fram á máli sem í minnkandi mæli tengist máli daglegs lífs og samskiptum manna í milli. Þetta gerir þekkinguna aftur æ fjarlægari okkur og síður færa um að grundvalla skoðun á heiminum sem við getum í raun og veru lifað með, í hversdagslegum skilningi. Útkoman úr þessu er sú að við förum mjög sterklega að finna til þess að það er eitthvað við afleiðingarnar af vexti okkar eigin þekkingar sem sviptir okkur mennskunni. Og niðurstaðan af þessu er – samhliða vexti þekkingarinnar og í beinum tengslum við hann – vaxandi tilfinning fyrir að þörf sé á einhverju sem kalla mætti heimspeki mannsins, einhvers konar fræðilegri hugmynd um okkur sjálf sem hjálpar okkur til að varðveita vitund okkar um eigin mennsku og tengja okkur við félagslegar og þekkingarlegar aðstæður okkar. Þannig fáum við meginstraumana tvo í þróun nútíma hugsunar.
     Eftir að hafa aðgreint þá á þennan hátt langar mig samt til að hverfa aftur að umræðu okkar um þekkingarfræðina áður en við förum að fjalla um samfélagsheimspeki vegna þess að það eru enn tvær eða þrjár áhugaverðar og mikilvægar hliðar á henni sem við höfum ekki vikið að. Til að mynda höfum við ekki í raun og veru farið út í óstöðugleika nútíma þekkingar, þá staðreynd að hún vex svo hratt að engar mögulegar forsendur sem hægt væri að byggja samhangandi skoðun á heiminum á virðast stöðugar í tvo áratugi samfellt.

Gellner Svona er þetta. Sumar heimspekikenningar um þekkingu reyna að taka þetta einkenni með og halda því fram að það sé ekki vandamál. Á mismunandi vegu fullvissa heimspekingar á borð við Quine og Popper okkur um að við getum lifað við óstöðugleika í þekkingu, og verðum að gera það. Ég held það sé hægt að gera of mikið úr þessu atriði – og þeim hættir til að gera það. Það er vitanlega bæði satt og æskilegt að hið sérstaka inntak vísindakenninga breytist, en hin almennu ef svo má segja formlegu einkenni heimsins sem gera hann viðráðanlegan fyrir vísindin breytast ekki. Þetta eru þau einkenni sem gera að verkum að vísindin eru prófanleg og vísindaleg þekking getur vaxið. Í vissum skilningi eru þau alls ekki einkenni heimsins. Í raun og veru eru þau einkenni hugarástands rannsakandans eða samfélags rannsakenda. Þau komu fram með vísindabyltingunni. Það sem máli skiptir að gera sér ljóst hér er að þessi einkenni hafa ekki alltaf verið til staðar hjá okkur. Og það sem ég er ósammála í heimspekikenningum sem eru aðeins of ánægðar með eilífa breytingu er að þær gera ráð fyrir að rétt hegðun í þekkingarefnum, undir heitinu líffræðileg aðlögun eða einfaldlega happa- og glappaaðferð, hafi reyndar ætíð verið til staðar, ekki einungis í sögu mannsins heldur jafnvel í sögu lífsins. Þetta er sú skoðun að vöxtur þekkingar hafi verið ein samfelld saga frá amöbunni til Einsteins, með sama grunnstefið frá upphafi til enda. Þetta mætti kalla samfellukenninguna. Ég tel að hún sé röng. Það sem skiptir máli um hegðun okkar í þekkingarefnum er ekki hvað hún á sameiginlegt með amöbunni eða hinum myrku miðöldum heldur hvað er sérkennandi fyrir hana. Hinir mikilvægu leyndardómar felast í mismuninum.

Magee Ég held það sé vert að leggja áherslu á að sumar afleiðingar óstöðugleika hafa verið til góðs en ekki til ills. Til að mynda hefur missir trúar á kennivald sameinast hinum hraða vexti þekkingar til að valda jákvæðri efahyggju um næstum því allar gerðir valds sem slíkar, og þetta tengist aftur beint tilkomu frjálslyndra hugmynda – hugmynda um frelsi, umburðarlyndi, jafnrétti og þar fram eftir götunum. Þetta virðist mér hafa ómetanlegt gildi.

Gellner Ég fellst á þetta, já.

Magee Annað atriði sem mig langar til að bera upp við þig er þetta: Fyrir daga Descartes var mikilvægasta viðfangsefni heimspekinnar yfirnáttúrlegt: samband mannsins við Guð. Eftir Descartes færist miðdepill athyglinnar að mannlegri starfsemi einvörðungu: vísindum, stjórn­málum, siðferði, hagfræði, sögu, menningu, sálarfræði, félagslegum málefnum af öllu tæi, og það verður gríðarleg þróun í vísindalegum, eða hálf-vísindalegum, rannsóknum á þessum sviðum og einnig í heimspeki þeirra.

Gellner Ég er sammála þessu þó mér virðist að setja megi eitthvað út á hvernig þú setur það fram. Þú talar um heimspeki og vísindi eins og þau væru aðgreind á þessum tíma, en í raun urðu þau ekki skýrt aðgreind fyrr en á átjándu öld. Jafnvel þá þýddi heitið ‘náttúruheimspeki’ eðlisfræði. Prófessorar í eðlisfræði í skoskum háskólum eru enn kallaðir prófessorar í náttúruheimspeki. Aðgreiningin, sem kom nokkuð seint, endurspeglar að nokkru leyti það sem við erum að tala um, það er að segja greinarmuninn á rannsóknarefninu og rannsókninni á þekkingaraðferðum. En ég fellst samt að mestu leyti alveg á aðalatriðið hjá þér.

Magee Ef við förum lengra með það sem þú ert að segja þá er það athyglisvert að sumir allra­bestu núlifandi heimspekinga sjá heimspekina sem framlengingu raunvísindanna. Til dæmis Quine. Og Chomsky, að vissu leyti. Jafnvel mætti segja að Popper gerði það, í vissum mjög sérstökum skilningi.

Gellner Quine, vissulega. Það er svolítið vafasamara með Popper.

Magee Mig langar til að líta á eina eða tvær mikilvægustu stefnurnar í samtíma heimspeki með þennan bakgrunn í huga sem við höfum verið að rissa upp. Við erum þegar búnir að því með marxismann og afstæðishyggjuna. Hvað til að mynda um tilvistarstefnuna? Hvernig sérðu hana falla inn í mynd okkar?

Gellner Ja, hún fellur inn í hana. Tilvistarstefnan er sérkennileg heimspeki að því leyti að hún er, eins og cartesíska hefðin, mjög einstaklingshyggjuleg, en ólíkt henni er hún ekki fyrst og fremst upptekin af þekkingarvandanum. Það er sérkennandi fyrir hana að hún hefur yfirleitt ekki mikinn áhuga á náttúruvísindunum. Hún er aðallega upptekin af hinum mannlegu aðstæðum.

Magee Jæja, með þessu erum við í raun komnir að hinu af þeim tveimur grundvallarþemum nútíma hugsunar sem við aðgreindum rétt áðan. Kannski það sé best að þú útfærir lýsingu þína á tilvistarstefnunni á bakgrunni þeirrar hefðar.

Gellner Nú jæja, hið kaldhæðnislega við tilvistarstefnuna stafar af því að hún er upptekin af hinum mannlegu aðstæðum. Hún gefur í skyn að hún sé lýsing á hinum mannlegu aðstæðum sem slíkum. En kaldhæðnin er að þetta er með sérstökum hætti lýsing á hinum mannlegu aðstæðum í heiminum eftir Descartes, jafnvel heiminum eftir átjándu öld. Hún einbeitir sér að einstaklingnum sem verður að bera ábyrgð á heimsskoðun sinni og siðferðilegri skuldbindingu og getur ekki vísað ábyrgðinni frá sér. En mér virðist það einkennandi fyrir hinar mannlegu aðstæður í flestum samfélögum sem eru samfélög með stöðug skoðanakerfi að kennivald er öruggt með sig, og að nema því aðeins að einstaklingurinn sé í virkri uppreisn geti hann alltaf gripið til þess. Tilvistarstefnan er því í raun lýsing á mjög sérstöku afbrigði af hinum mannlegu aðstæðum þótt hún haldi því fram að hún sé almenn lýsing á þeim.

Magee Engu að síður er hún, eins og þú varst nú að setja hana fram, nákvæm lýsing á okkar aðstæðum.

Gellner Svo langt sem það nær hefur hún áhugaverða hluti að segja um aðstæður okkar. En eitt af því sem er merkilegt við hana er að hún er vinsælust á tímum bráðrar kreppu og lægðar í andlegum efnum – í Þýskalandi eftir heimsstyrjöldina fyrri, í Frakklandi eftir þá síðari. Með tilkomu allsnægta og tiltölulega góðs samkomulags – tímabilið sem kennt er við „endalok hugmynda­fræði“ – dró úr vinsældum hennar. Hún hefur alvarlega annmarka sem háskólagrein: Það er eitthvað undarlegt við að breyta hinum mannlegu aðstæðum í fræðigrein – hinar mannlegu aðstæður eru eitthvað sem maður þekkir án þess að skrifa um þær fræðiritgerðir, og maður þarf ekki að lesa doðranta til þess að kynnast þeim. Þetta er dálítið skoplegt, sérstaklega þar sem tilvistarstefnan á vanda til að vera sett fram á yfirlætisfullu máli – sem er, að ég hygg, hluti af hinum hegelska arfi hennar.
Annað einkenni hennar, áberandi hjá hugsuði eins og Sartre, er að tilvistarstefnan er einskonar fyrirfram sálarfræði. Hún fræðir okkur um hvernig við finnum til og hvernig við hugsum, ekki með því að spyrja okkur eða athuga okkur, heldur með því að álykta það út frá vissum almennum einkennum aðstæðna okkar – þeirri staðreynd að við munum deyja og vitum það, að við verðum að taka siðferðilegar ákvarðanir án þess að hafa tryggingu fyrir þeim, að annað fólk sé hlutir fyrir okkur en við hins vegar hlutir fyrir öðru fólki. Af þessu og þvílíku ályktar hún hvernig við finnum til í raun og veru. Hún segir samt virkilega athyglisverða hluti um þetta. En ein andmælin gegn henni eru að það er reyndar þó nokkuð gagnlegt að komast að því hvernig fólk finnur til í raun og veru án tillits til þess hvað felst í líkani okkar af hinum mannlegu aðstæðum. Og fólk finnur ekki endilega til eins og það ætti að finna til samkvæmt þessari kenningu eða einhverri annarri. Hjá mjög áhugaverðum hugsuði eins og Sartre, sem reynir svo að samræma tilvistarstefnuna og marxismann, blandast fyrirframhyggja tilvistarstefnu hans og hinir áþreifanlegu, reynslubundnu þættir marxisma hans engan veginn auðveldlega.

Magee Í hefð félagsheimspeki, til aðgreiningar frá þekkingarfræði, eru nokkrar aðrar samtíma stefnur í hugsun sem þér virðast sérstaklega áhugaverðar eða efnilegar – nokkrir aðrir hlutar af því sem þú kallaðir hér áðan ‘mannverndarhreyfinguna’?

Gellner Ég held ekki að við getum vænst þess að vernda of mikið af mennsku okkar á of auðveldan hátt. Boðnar eru uppskriftir, næstum því ótakmarkaðar uppskriftir, til að færa sönnur á að við séum í raun og veru eins og við höldum að við séum, að hægt sé að varðveita hvaða sjálfsmynd eða heimsmynd sem menn óska sér, og að okkur þurfi ekki að finnast að okkur sé ógnað. Ég tel að okkur þurfi að finnast að okkur sé ógnað. Það er gjald sem við verðum að greiða. Því meira sem við getum útskýrt heiminn því meira erum við sjálf útskýrð. Það er ekki hægt að hafa annað án hins. Ég er ekki óskaplega hlynntur Félaginu fyrir verndun mennskunnar. Ég tel við ættum að vernda mennskuna, en ekki of mikið, og umfram allt ekki með of litlum tilkostnaði. Fyrirmynd mín á þessu sviði er nokkuð gamaldags heimspekingur – Immanúel Kant, sem var mjög umhugað um að vernda lágmarksmennsku, nefnilega frjálsan vilja, siðferðilega ábyrgð og sjálfstætt hugarstarf, en að öðru leyti féllst hann á að hluti af gjaldinu fyrir framfarir í þekkingu sé að við verðum líka viðföng þekkingar. Hvað þekkingu varðar endum við með því að gera okkur sjálfum það sem við gerum heiminum.

Magee Hvað segirðu um engilsaxnesku hefðina í heimspeki sem við ólumst báðir upp í – og sem við höfum bæði kennt og lært. Hvernig fellur hún inn í myndina?

Gellner Áhrifamesta heimspekin á því tímabili sem við vorum viðriðnir hana, bæði sem nemendur og kennarar, var svokölluð málspeki, sú heimspeki sem á sér aðaluppsprettu í seinni verkum Ludwigs Wittgensteins. Ég er afar gagnrýninn á þessa heimspeki, eins og þú veist. En til að ræða hana verð ég að brjóta regluna sem þú settir mér um að aðgreina þekkingarfræðihefðina frá hefðinni fyrir verndun mennskunnar.

Magee Þér er frjálst að brjóta regluna.

Gellner Wittgenstein endaði með því að klofa yfir aðgreininguna. Hann byrjaði með dálítið óvenjulegt afbrigði innan hefðarinnar í þekkingarfræði, þ.e.a.s. að takast á hendur að afmarka ekki svo mjög hvað hægt væri að vita eins og hvað hægt væri að hugsa og hvað hægt væri að segja: að afmarka merkingu. Þetta var nýbreytni, ákaflega sérkennandi fyrir þessa öld. Það er mjög hentugt ráð. Eins og þegar um er að ræða að takmarka hvað hægt er að vita, ef aðeins er mjög takmarkaður fjöldi hluta sem hægt er að segja eða meina þá sér þetta manni fyrir þægilega endanlegu mengi forsendna. Sé aðeins hægt að setja fram takmarkaðan fjölda hugmynda er þetta einskonar grundvöllur. Það er einskonar staðgengill fyrir gamla stöðugleikann. Nú, þessi hugmynd var í fyrri heimspeki Wittgensteins og hana er líka að finna hjá Bertrand Russell. En Wittgenstein snerist fljótt gegn henni – fór reyndar út í öfgar og fordæmdi hana sem hina dæmigerðu heimspekilegu villu. Hið raunverulega eðli tungumálsins, sagði hann seinna, felst ekki í því að það sé skjól fyrir takmarkaðan fjölda hluta; hið raunverulega eðli tungumálsins felist í þeirri staðreynd að við notum það í óendanlega margvíslegum tilgangi, í óendanlega marg­víslegu félagslegu samhengi, og að þetta sé fullkomlega í lagi. Strax og við gerum okkur grein fyrir þessu hverfur vandamálið. Kórvillan, samkvæmt seinni skoðun hans, er að leita einhvers konar ytri staðfestara – en það hafði hann gert á æskuárum sínum með því að leitast við að afhjúpa leyndardóma táknkerfis.
     Ég tel nú að hann hafi haft algerlega rangt fyrir sér í því að sjá sína eigin fyrri villu sem hina dæmigerðu og almennu heimspekilegu villu. Það sem örvaði eftirsókn nútímans í viðmið var ekki misskilin löngun í hið eina sanna táknkerfi hugsunarinnar. Viðmiðunarskilmálarnir voru ekki settir af heimspekinni – sem allavega var ekki til sem sérstök fræðigrein þá – heldur af sameiginlegum mannlegum félagsaðstæðum okkar: þeirri staðreynd að við vissum of mikið á einu sviði og of lítið á öðru, að mynd okkar af okkur sjálfum var að afmennskast, að þau svið þar sem við vitum mikið og höldum áfram að vita mikið koma ekki að gagni sem mjög góðar forsendur til að ákveða, segjum, hvers konar félags-pólitískt skipulag við höfum. Þetta er hin raunverulega vandamálsstaða og þegar fólk bregst við henni hugsar það oft heimspekilega. En hún stafar af hlutlægum aðstæðum. Hún hefur ekkert að gera með að vera í álögum tungumálsins eða að sækjast eftir fullkomnu táknkerfi.

Magee Ég hef boðið þér að segja eitthvað um nokkrar stefnur í samtíma heimspeki – þá sem tengist seinni heimspeki Wittgensteins, tilvistarstefnuna, marxismann, afstæðishyggjuna. Hverjar þessara stefna heldurðu að hafi mestan lífsþrótt í sér fólginn, í þeim skilningi að vera líklegastar til að bera ávöxt í framtíðinni?

Gellner Ég held ekki að ég mundi velja einhverja hreyfingu með nafni. Báðir meginstraumarnir – annars vegar kerfisbinding þekkingarferlisins og viðleitnin til að setja skipulega fram mæli­kvarðana á þekkingu; hins vegar linnulaus rannsókn á hinum mannlegu félagslegu aðstæðum okkar – eru mjög lofsverðir. Leiðin áfram virðist mér vera fólgin í einskonar samruna þeirra á háþróaðra stigi. Kjarni málsins hvað varðar hefðina sem rannsakar þekkingu eða hugsun, eða í seinna afbrigði hennar tungumálið, virðist mér vera eftirfarandi: Hún er í grundvallaratriðum iðkun í að setja staðla eða viðmið. Hún er iðkun í að reyna að kerfisbinda viðmiðin fyrir gildar full­yrðingar um þekkingu. Hún er viðleitni til að koma á, ef svo má segja, föstum ákvæðum stjórnskipunar þekkingarsamfélagsins. Mér virðist þetta vera aðdáunarverð starfsemi sem mun hafa gagn af að vera séð sem slík. Í fortíðinni var oft litið á hana sem lýsandi eða skýrandi greinargerð um hvernig einstaklingsbundin þekking virkar í raun – og þannig séð hefur hún ekki svo mikið gildi

Magee Þetta hljómar eins og þú lítir á heimspeki aðallega sem verkfæri, það er að segja sem tæki til að afla þekkingar.

Gellner Ég skal nálgast þetta svona. Einn af gildu þáttunum í seinni heimspeki Wittgensteins, sem ég að öðru leyti hafna, er þessi. Hann lagði áherslu á eitthvað sem menn vissu en tóku ekki nógu alvarlega, nefnilega að sú greinargerð sem gegnsýrir raunhyggjuhefðina um hvernig tungumálið virkar í raun er fáránleg. Tungumálið snýst ekki um að máta setningar við skynjanir eða við litlar athuganir og byggja síðan upp mynd út frá því. Mynd okkar af hlutum er ekki byggð upp á þennan sandkastalahátt, úr litlum kornum að viðbættu mati sem líkt og flaggi er stungið efst á kastalann. Það virkar ekki þannig. Raunveruleg málnotkun okkar er byggð inn í stofnanir, siðvenjur og svo framvegis. Wittgenstein í seinni heimspeki sinni hafði hárrétt fyrir sér í því. Sem niðurrif lýsandi greinargerðar um tungumálið – hafi þess þurft – stenst það. Á sama hátt felst mikilvægi verka Chomskys í málvísindum að mínum dómi í endanlegri sönnun þess að sem skýrandi greinargerð um hvernig við tileinkum okkur mállega færni (og það á einnig við um þekkingarlega færni) var gamla þekkingarfræðihefðin ákaflega fátækleg.
     En jafnvel þótt maður fagni þessum neikvæðu niðurrifsstörfum á vettvangi hugmyndanna upp á síðkastið skyldar það mann ekki til, eða öllu heldur leyfir manni ekki, að varpa fyrir róða þekkingarfræðinni sem viðleitni til að kerfisbinda viðmiðin fyrir þekkingarstarfsemina. Og hún, ég endurtek, verður að tengjast langtum raunsærri greinargerð um hinar félagslegu og sögulegu aðstæður okkar. Þetta mun velta á því sem er sérkennilegt við það sem er lauslega kallað ‘iðnaðarsamfélag’, samfélag sem byggist á árangursríkri stjórn á náttúrunni sem fer vaxandi, hagnýttri tæknifræði, allsherjarlæsi og skipulagningu í stórum stíl. Þótt kaldhæðnislegt megi virðast er ég að segja að heimspekin þurfi að vera bæði óhlutbundnari og gera meira af að setja viðmið annars vegar og félagsfræðilega hlutbundnari hins vegar. Og ég held ekki að það felist mótsögn í að leggja þetta tvennt til. Marx var hlutbundinn og félagsfræðilegur. Honum bara skjátlaðist, því miður. En ég vildi gjarnan sjá einhvern annan skilja þetta rétt – og, vel að merkja, skilja það rétt án væntinga um fullkomið samfélag. Þetta virðist mér vera leiðin fram á við. Hin nánu tengsl sem við þörfnumst eru tengsl milli raunhæfs skilnings á því sem er sérkennilegt við iðnaðarmenningu, á skilyrðum hennar og því sem felst í henni annars vegar, og þess forskriftar­starfs að nota þekkingarviðmið sem eina grundvöllinn fyrir öryggi sem við getum hugsanlega fengið hins vegar.

Magee Eins og málum er háttað sérðu almennan áhuga á tungumálinu sem sameinandi þátt meðal allra hinna augljóslega ólíku greina samtíma heimspeki?

Gellner Nei. Í inngangi þínum sagðirðu að saga heimspekinnar eftir daga Descartes hefði einn samfelldan söguþráð. Ja, hún hefur það, og í umræðu okkar höfum við verið sammála um hver hafa verið hin sameiginlegu þemu og viðfangsefni sem liggja henni til grundvallar. Tungumálið, þótt undarlegt sé, virðist ekki hafa verið eitt þeirra. Á yfirborðinu lítur út eins og svo hafi verið og mér detta í hug þrjár meiriháttar hreyfingar á þessari öld sem gera mikið veður út af tungumálinu, en mér virðist að hvernig þær skírskota til tungumálsins sé svo mismunandi að samlíkingin sé yfirborðsleg. Hin raunverulega mikla andstæða er milli ofuráhuga Wittgensteins og fylgismanna hans á tungumálinu í hinni enskumælandi heimspekiveröld og Chomskys. Báðir láta mikið með tungumálið en eru næstum því alveg á öndverðum meiði hvað varðar framsetningu sjálfs vandans. Aðalatriðið hvað varðar viðhorfið til tungumálsins samkvæmt seinni heimspeki Wittgensteins er notkun þess sem einskonar lausnar. Tungumálið er endastöðin. Hin raunverulega notkun málsins lætur í té einu viðmiðin sem við getum haft, eða höfum, eða þurfum að hafa. Hún réttlætir sig sjálf og skýrir sig sjálf. Hugmyndin er að eftirsóknin í almennari, ytri staðfestingar er sögð vera blekking og mælt er með raunverulegri málvenju sem endastöð okkar. Hins vegar er meginhugmynd Chomskys, sem gerir hann mikilvægan, hversu mikið vandamál tungumálið er. Sú tegund færni sem þarf til að búa til og skilja setningar, sem við tökum sem sjálfsagðan hlut, er nokkuð sem einfaldlega má ekki taka sem sjálfsagðan hlut. Chomsky uppgötvaði hve mikið vandamál þessi færni er. Wittgenstein reyndi að nota hana sem lausn. Ég get varla hugsað mér tvö hugsunarkerfi andstæðari hvort öðru í grundvallaratriðum, hvort sem einstakir fylgismenn þeirra viðurkenna það eða ekki. Ennfremur er einnig mjög umtalsverð andstæða milli seinni Wittgensteins og hinna rökfræðilegu raunhyggjumanna. Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir reyndu að nota takmörk tungumálsins til að afmarka heiminn. Þeir voru að láta okkur í té grundvöll til að koma aftur á almennu samkomulagi, heila nýja sýn á heiminn. En Wittgenstein notaði tungumálið sem sönnun þess að við þurfum alls ekki slíkan grundvöll, að við höfum aldrei þurft hann og það sé engin þörf á að leita að honum. Nei, áhugi á tungumálinu virðist mér ekki vera sameinandi þáttur, og hann sameinar ekki í raun hugsun tuttugustu aldar.
     Ef í nauðir rekur gæti maður sagt að raunhyggjumenn og áhangendur seinni Wittgensteins gefi gersamlega andstæð svör við nánast sömu spurningunni, en Chomsky sér gerólíkt vandamál og svar hans er ekki sambærilegt við svör þeirra.
     Nei, hin raunverulega eining sem liggur til grundvallar er leitin að skilningi á bæði hinum þekkingarlegu og félagslegu hömlum sem takmarka valkosti okkar og hjálpa okkur að velja. Verkefnið framundan er að tengja saman skilning okkar á þessum tvenns konar hömlum.

                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Þessi þýðing Gunnars Ragnarssonar birtist fyrst árið 2006 í bók til heiðurs Arnóri Hannibalssyni á 70 ára afmæli hans, Þekking engin blekking, í ritstjórn Erlends Jónssonar, Guðmundar Heiðars Frímannssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Heimspekivefurinn birtir hana hér með góðfúslegu leyfi Háskólaútgáfunnar. Samræðan er sú síðasta í bókinni Men of Ideas, með undirtitlinum Some Creators of Contemporary Philosophy, eftir Bryan Magee og viðmælendur hans. Hún kom út 1978 og er byggð á fimmtán samræðum sem var sjónvarpað hjá BBC fyrri hluta sama árs.
     Bryan Magee (f. 1930) er víðkunnur enskur heimspekingur, rithöfundur og fjölmiðlamaður. Hann hefur getið sér góðan orðstír fyrir samræður sínar við heimspekinga um vestræna heimspeki þar sem lögð er áhersla á einfalda og skýra framsetningu. Fyrir utan Men of Ideas hafa komið út tvær bækur byggðar á samræðum Magees. Þær eru Modern British Philosophy (1971) og The Great Philosophers (1987). Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.
     Ernest Gellner (1925–95) olli miklu fjaðrafoki í röðum Oxfordheimspekinga með bókinni Words and Things (1959) sem er hörð árás á málspeki þeirra og Wittgensteins. Gellner er fjölhæfur og mikilvirkur rithöfundur og þykir merkur fræðimaður, einkum á sviði heimspeki og félagslegrar mannfræði. Hann lauk starfsferli sínum sem prófessor í félagslegri mannfræði við Cambridgeháskóla. Af fjölmörgum öðrum bókum Gellners skulu þessar nefndar: Thought and Change (1964), Nations and Nationalism (1983), Reason and Culture (1992) og Conditions of Liberty (1994).

Heidegger og nútíma tilvistarstefna

William Barrett og Bryan Magee ræða saman

INNGANGUR

Magee Við og við kemst alvarleg heimspeki skyndilega í tísku í hugmyndaheiminum eftir dúk og disk, venjulega sem afleiðing af einhverjum sérstökum sögulegum kringumstæðum. Milli heims­styrjaldanna tveggja gerðist þetta með marxismann, aðallega sem afleiðing af rússnesku byltingunni. Eftir heimsstyrjöldina síðari gerðist það með tilvistarstefnuna, en hún komst í tísku á meginlandi Evrópu aðallega sem svar við reynslunni af hernámi nasista. Þegar ég tala um að heimspeki sé í tísku hef ég í huga að hún verður vinsæl ekki aðeins hjá háskólafólki heldur hjá rithöfundum af öllu tæi – skáldsagnahöfundum, leikskáldum, ljóðskáldum og blaðamönnum – svo að hún fer að gegnsýra allt menningarlegt andrúmsloft einhvers tíma og staðar. Í París eftir­stríðsáranna, svo dæmi sé tekið, virtist látlaust vísað til tilvistarstefnunnar úr öllum áttum, ekki aðeins í samtölum, vissum tegundum lista og alvarlegri tegundum blaðamennsku, heldur í alþýðlegri blaðamennsku, jafnvel í skemmtanalífi almennings, einkum í kabarettum og nætur­klúbbum. Frægasta nafnið sem tengdist allri þessari hugmyndalegu og félagslegu þróun, bæði þá og nú, er nafn Jean-Paul Sartres. En tilvistarstefna þessarar aldar hófst í rauninni ekki í Frakk­landi heldur í Þýskalandi – og á tímabilinu eftir heimsstyrjöldina fyrri en ekki þá síðari. Með tilliti til hugmynda er mikilvægasti einstaklingur hreyfingarinnar ekki Sartre heldur Heidegger; það er að segja, þeir sem fjalla um nútíma tilvistarstefnu í alvöru eru næstum því einhuga um að Heidegger, sem er eldri en Sartre, sé dýpri og frumlegri hugsuður. Í þessari umræðu munum við því nálgast tilvistarstefnuna aðallega út frá verkum Heideggers – þótt við munum einnig segja eitthvað um Sartre og hvernig hann fellur inn í myndina.

Martin Heidegger fæddist í Suður-Þýskalandi árið 1889 og bjó á sama litla blettinum í Evrópu nánast alla ævi. Hann var nemandi Husserls áður en hann varð sjálfur kennari í heimspeki. Árið 1927, þrjátíu og átta ára að aldri, gaf hann út mikilvægustu bók sína, Veru og tíma. Hann lifði upp undir hálfa öld eftir það og skrifaði mikið meira, sumt mjög áhugavert, en ekkert annað sem kom frá honum átti nokkurn tíma eftir að verða jafn stórt, jafn gott eða jafn áhrifamikið og Vera og tími. Bókin er ekki auðveld aflestrar, en höfundur þess sem mér virðist vera best allra inngangsrita um tilvistarstefnuna fyrir hinn almenna lesanda ræðir hér um hana við mig. Það er William Barrett, prófessor í heimspeki við New York háskóla og höfundur hinnar ágætu bókar Irrational Man.1

UMRÆÐA

Magee Væri ég einhver sem vissi alls ekkert um heimspeki Martins Heideggers og þig langaði til að gefa mér grunnhugmynd um hana, hvernig mundirðu byrja?

Barrett Ég mundi byrja með því að reyna að staðsetja Heidegger innan sögulegs samhengis hans en það yrði stærra samhengi en það sem þú hefur gefið til kynna. Það yrði mælt í öldum frekar en áratugum. Samhengið sem ég veldi mundi reyndar vera tímabil nútíma heimspeki í heild sem byrjar með Descartes á sautjándu öld. Descartes var einn af upphafsmönnum hinna Nýju vísinda – þess sem við köllum nú nútíma vísindi – og fyrirætlun hans um að koma þeim af stað fól í sér undarlegan klofning milli vitundar og ytri heims. Hugurinn kerfisbindur náttúruna í megindlegum tilgangi – til mælinga og útreikninga, í þeim endanlega tilgangi að ráðskast með náttúruna – og um leið er vitundinni sem gerir allt þetta, hinni mannlegu hugveru, teflt gegn náttúrunni. Það sem kemur þá fram er mjög athyglisverð tvískipting milli hugar og ytri heims. Næstum því öll heimspeki á næstu tveimur og hálfri öld lagaði sig að þessari umgjörð. En í byrjun þessarar aldar sjáum við svo að farið er að brydda á uppreisn í ýmsum myndum og hjá ýmsum stefnum í heimspeki gegn þessari tvískiptingu sem rekja má til Descartes, vítt og breitt um heiminn – í Englandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Heidegger er einn af uppreisnarmönnunum gegn Descartes. Reyndar höfum við í þessari uppreisn góðan lykil að hugsun hans. Það væri hvað sem öðru líður þarna sem ég mundi byrja fræðsluna um heimspeki hans.

Magee Upphafspunktur þinn er þá þessi: Með framgangi nútíma vísinda, en gullöld þeirra var sautjánda öldin, kom sú skoðun fram í menningu okkar að veruleikinn í heild skiptist milli skynjenda og hins skynjaða eða milli hugvera og hlutvera. Til eru mannverur (og kannski líka Guð) sem skynja heiminn og til er heimurinn sem þær skynja. Þessi tvíhyggja, þessi skoðun um tvískiptingu alls veruleikans, gegnsýrir orðið hugsun okkar, heimspeki okkar og vísindi. En samt, gagnstætt því sem flestir vestrænir karlar og konur halda sennilega, er þetta viðhorf til veruleikans sérkennandi fyrir Vesturlönd og, það sem meira er, sérkennandi fyrir þau aðeins síðustu þrjár eða fjórar aldir.

Barrett Það er óþægilegt viðhorf vegna þess að í einum skilningi lifum við ekki í raun og veru með því. Ég lít ekki á þig sem hug tengdan við líkama. Og ég lít ekki heldur svo á að tilvist þín eins og ég er að tala við þig núna sé á einhvern hátt vafasöm – að hún sé eitthvað sem ég álykta. Það er gagnstætt venjulegri tilfinningu okkar fyrir hlutunum að haga okkur eins og hugurinn og hinn ytri heimur séu andstæðir hvor öðrum á þennan hátt. Uppreisnin gegn tvíhyggjunni, sem eitt af sérkennum heimspeki tuttugustu aldar, er því auðskiljanleg. Heidegger hefur sína eigin uppreisnaraðferð. Hann byrjar út frá þeim aðstæðum sem við erum í raun og veru í. Þú og ég erum saman í sama heimi – við erum tvær mannverur innan sama heims. Ég mundi byrja að kynna heimspeki Heideggers með þessu grundvallarhugtaki „að vera í heiminum“. Orðið ‘vera’ kann að gera okkur bilt við, okkur finnst það kannski langsótt og hástemmt; en við verðum að skilja það í hversdagslegustu og algengustu merkingu. Hvernig venjulegar mannverur eru áþreifanlega í heiminum er upphafspunktur okkar. Og það er þar sem við byrjum að hugsa heimspekilega.

Magee Ég verð að segja að þessi upphafspunktur er mér að skapi. Sú hugmynd að veruleikinn sé klofinn milli tveggja eðlisóskyldra verunda er nokkuð sem mér hefur aldrei þótt eðlilegt: Það var eitthvað sem ég varð að læra í skóla eða sem nemandi, og til að byrja með fannst mér það furðuleg, jafnvel framandi hugmynd. Reynsla okkar sem einstaklinga er í miklu meira samræmi við það sem þú ert nú að segja: Við stígum upp úr meðvitundarleysi frumbernskunnar til vitundar um okkur sem verur í heiminum. Við bara erum hér. Og hér byrjum við.

Barrett Strax og okkur hefur verið komið kirfilega fyrir í heiminum verður aðalverkefni heimspekinnar að lýsa. Heimspekingurinn leitast við að kanna og lýsa hinum ýmsu tilvistarháttum okkar í þessum heimi. Hér eru efnistök Heideggers gerólík efnistökum uppreisnarmanns gegn tvíhyggju Descartes á borð við G. E. Moore sem er upptekinn af vanda­málum þekkingar og skynjunar. Tökum grein Moores „Sönnun á ytri heimi“, sem hlotið hefur frægð af verðleikum. Hún var upphaflega flutt frammi fyrir áheyrendum – Bresku akademíunni, ef ég man rétt. Ég ímynda mér að þessir áheyrendur hafi ekki talið að raunveruleg tilvist þeirra í salnum sem hlustaði á Moore værri komin undir því að hann gæfi vel heppnaða sönnun á þeirri tilvist. Staðreyndin er að þegar maður ber fram þekkingarfræðilega spurningu eins og þessa verður hann þá þegar að vera í heiminum til þess að bera hana fram. Að fá aðgöngumiðann að hinum venjulega heimi er ekki háð því að maður leysi þekkingarfræðilegar ráðgátur. Þekkingarfræði er vitsmunaleg starfsemi sem við, eða sum okkar, iðkum sem verur í heimi.

Magee Felur nafnið ‘tilvistarstefna’ í sér að tilvistarheimspekingar líti á tilvist okkar í þessum heimi sem mikilvægasta heimspekilega vandamálið?

Barrett Það er vandamál í þeim skilningi að við verðum að ráða fram úr því. En það er hið gefna: það er ekki ályktað. Vandinn er þá að gefa lýsingu á því. Vel á minnst, það er mikilvægt þegar Heidegger á í hlut að leggja áherslu á að markmið hans er að lýsa. Hann er ekki fræðilegur frumspekingur. Hann er ekki að setja saman óhlutbundna kenningu um hvað hinsti veruleiki sé.

Magee Mundirðu fallast á eftirfarandi samantekt á umfjöllun okkar fram að þessu? Vestræn vísindi, tækni, heimspeki og samfélagið sjálft hafa öll þróast á tiltekinn hátt á síðustu þremur eða fjórum öldum sumpart vegna þess að náin tengsl eru milli þróunar þeirra. Meginviðfangsefni hins vestræna manns hefur verið að sigrast á náttúrunni. Þetta hefur orðið til þess að hann lítur á náttúruna með tilteknum hætti, eins og hann sé húsbóndinn en hún þrællinn, hann frumlagið en náttúran andlagið. Þetta hefur leitt til klofnings í viðhorfi hins vestræna manns til veruleikans sem hefur orðið hluti af allri hugsun hans, þar með talin vísindi hans og heimspeki. Í heimspeki, að gefnu þessu viðhorfi til veruleikans, kemur þekkingarvandinn næstum óhjákvæmilega til með að verða fyrirferðarmestur. „Hvað vitum við? Hvernig getum við vitað að við vitum? Hvað er það að vita? Er það sama og að vera viss?“ Þetta eru meginspurningar allrar heimspekihefðar okkar frá dögum Descartes. En Heidegger er ekki aðallega að fást við þessar spurningar. Hann er ekki að fást við vandamálið um hvað það sé að vita heldur um hvað það sé að vera. Hvað er það að vera til? Hvað er þessi tilvist sem við einfaldlega erum stödd í eða sitjum uppi með?

Barrett Já, þetta er rétt.

Magee Hann byrjar þá, eins og rökrétt má kallast, rannsóknir sínar með greiningu á þeim tilvistarhætti sem við höfum beinasta og milliliðalausasta reynslu af, það er að segja okkar eigin reynslu. Fyrsti hluti Veru og tíma samanstendur af nákvæmri greiningu á meðvitaðri sjálfskennd, beinni þekkingu okkar á eigin tilvist í hennar frumlægustu mynd. Hann kallar þetta „tilvistarlega greiningarhlutann“. Maður kynni að hafa ætlað að þessi reynsla væri ógreinanleg, einmitt vegna þess að hún er milliliðalaus. En Heidegger hrekur þetta með því að tengja saman með góðum árangri tvær aðferðir. Önnur er hin fyrirbærafræðilega aðferð að einbeita sér til hins ýtrasta að fyrirbærunum eins og þau eru í raun og veru upplifuð. Hin er kantíska aðferðin að spyrja sig: „Hvað þarf að vera tilfellið til þess að þetta sé tilfellið, þ. e. hver eru nauðsynleg skilyrði þessarar reynslu þannig að væru þau ekki snar þáttur í henni þá gæti ég ekki haft hana?“ Með þessari aðferð tekur hann til við að rekja sundur innri gerð meðvitaðrar sjálfskenndar okkar í aðgreinda þætti. Í fyrsta lagi – þar sem það gæti ekki hugsanlega verið nein meðvituð sjálfskennd án einhverrar skynjunar um að eitt eða annað væri að gerast – þá verður að vera einhvers konar ‘atburðasvið’, einhver ‘veröld’: Veran er því óhugsandi án þess að hún sé ‘veraldleg’. Í öðru lagi, vitneskja okkar um hvað svo sem það er sem við höfum vitneskju um merkir að það verður að vera einhvers konar þátttaka vitundar okkar í því. Þessu gefur hann heitið Sorge sem venjulega er þýtt sem ‘áhyggja’ en væri kannski betra að þýða sem ‘umhyggja’ eða ‘þátttaka’. Í þriðja lagi, ekkert af þessu er hugsanlegt án einhvers konar atburðarásar: Allt verður að hafa tímavídd – veran hlýtur því að vera í tíma. Og þar fram eftir götunum. Sérhver rannsókn er, eðli sínu samkvæmt, erfið og langvarandi, en maður fær hjá Heidegger, eins og hjá Kant, þá spennandi tilfinningu að gera sér grein fyrir að það sem maður hafði alltaf talið vera jarðhæð vitundarinnar hefur undir sér heila öðruvísi hæð sem hægt er að komast inn á og rannsaka.

Einhver sem hefur fylgst með okkur hingað til kynni að segja: „Já, þetta er allt mjög áhugavert en það er sjálfsskoðunarsálfræði, ekki heimspeki, eða hvað?“ Stutta svarið við þessu er nei. Tilgangurinn með rannsókn Heideggers er ekki að uppgötva eitthvað um mannlega hegðun, eða hvernig hugur okkar starfar, heldur að byrja að útlista tilvistarhugtakið með því að reyna að ákvarða hvað sé ósmættanlegt í því, hvað svo sem það er, sem við erum að segja um okkur sjálf þegar við segjum að við séum til. Þetta er óumdeilanlega heimspekilegt viðfangsefni. Mér finnst það að sumu leyti mest heillandi af öllum heimspekilegum viðfangsefnum. En ég geri mér grein fyrir að sumum veitist erfitt að takast á við það, ef til vill vegna þess að það er ekki í samræmi við venjulega hugsunarhætti okkar. Fyrir heimspekinga er það oft erfitt viðureignar sökum þess að það er vandamál sem er allsendis ólíkt þekkingarvandanum sem er miðlægur í hefð okkar og er þess vegna svo óvenjulegt í samhengi þeirrar hefðar.

Barrett Það er óvenjulegt. En ég vil aftur leggja áherslu á að hið miðlæga hlutverk sem þekkingarvandinn hefur helgað sér er nokkuð sem aðeins hefur einkennt heimspekina í meiri eða minni mæli eftir Descartes. Þekkingarvandinn var ræddur af fyrri tíma heimspekingum, en hann hafði ekki þá algerlega miðlægu stöðu sem hann hafði eftir Descartes. Í einhverjum skilningi hugsar Heidegger því sem svo að hann sé að hverfa aftur til Grikkja, einkum til heimspekinga fyrir daga Sókratesar.

Magee Við höfum sagt að það sem Heidegger er að reyna að gera sé að gefa lýsingu á veruleikanum sem við erum stödd í, sem merkir lýsandi greiningu á veru okkar í heiminum. Leikmaður gæti spurt: „Hver er tilgangurinn með því? Við höfum þessa tilvist. Hér erum við. Við erum að lifa hana. Í vissum skilningi er hún allt sem við höfum. Hvernig getur lýsing á því sem okkur er þegar kunnugra en nokkuð annað gefið okkur eitthvað sem skiptir máli? Já, hvað getur hún sagt okkur sem við vitum ekki nú þegar?“

Barrett Það er hið kunnuga sem venjulega reynist okkur óskiljanlegt í lífinu. Það sem er fyrir framan nefið á okkur er það sem við sjáum síðast. Það er rétt að þau einkenni mannlegrar tilvistar sem Heidegger lýsir eru að mörgu leyti hversdagsleg, en þegar við erum búin að lesa greiningu hans sjáum við þau á þann hátt sem við höfum aldrei alveg séð þau fyrr.

Magee Mundirðu segja að það sem Heidegger er að gefa okkur sé eingöngu greining á hinu hversdagslega, hinu venjulega, hinu kunnuglega?

Barrett Til að byrja með, já. En það er þá einnig áhersla á hið afbrigðilega og hið óvenjulega – hinn óhugnanlega þátt í tilverunni sem alltaf skýtur upp kollinum. Ég vil bera Heidegger að þessu leyti saman við annan heimspeking hins hversdagslega (og nota þetta orð í almennustu merkingu þess), Wittgenstein í seinni heimspeki hans. Samanburðurinn er athyglisverður vegna þess að Wittgenstein sér fyrir sér verkefni heimspekinnar sem það að greiða úr flækjunum í hversdagsmálinu svo að við getum starfað áfram á sama stigi skilvirkra samskipta innan heimsins. Í þessum skilningi getum við næstum því gert okkur í hugarlund, með Wittgenstein, þann möguleika að ef við greiddum úr öllum flækjunum í tungumálinu þá hyrfu öll vandamálin eða spurningarnar sem urðu til þess að við fórum að stunda heimspeki og heimspekin sjálf mundi því hverfa. En með Heidegger rólum við í þessum hversdagsveruleika þegar allt í einu óvenjulegar gjár opnast undir fótum okkar.

Magee Hvað ertu að hugsa um – dauðann?

Barrett Dauðinn væri eitt dæmi.

Magee Hver væru önnur?

Barrett Angist. Samviska. En tökum dauðann. Þú spurðir mig: „Hvernig geta lýsingar hans gefið okkur nokkuð sem við vitum ekki fyrir?“ Lýsingin sem hann gefur á dauðanum er lýsing sem umbyltir venjulegum hugmyndum okkar. Því hinar venjulegu hugmyndir okkar reyna af öllum mætti að sneiða hjá veruleika dauðans. Venjulega hugsum við um dauðann sem staðreynd í heiminum – eitthvað sem við lesum um í andlátsfréttum. Hann kemur fyrir annað fólk. Vissulega kemur hann fyrir mig, en ekki strax, svo að hann er eitthvað þarna úti í heiminum, enn sem komið er utan við mig. Það furðulega er að staldri ég við til að hugsa um hann sem dauða minn geri ég mér ljóst að dauði minn verður aldrei staðreynd í heiminum fyrir mig. Ég mun aldrei vita að ég sjálfur hafi dáið.

Magee Wittgenstein segir þetta í Tractatusi: „Dauðinn er ekki atburður í lífinu: Við upplifum ekki dauðann.“

Barrett Einmitt. Dauði minn er eitthvað sem hefur afar mikla þýðingu fyrir mig en þó getur hann aldrei verið staðreynd í mínum heimi. Í mínum heimi getur hann aðeins verið möguleiki. Hann er samt alltaf nálægur veruleiki. Vera má að ég sé ekki til hvenær sem er. Og þessi möguleiki „gerir að engu alla aðra möguleika mína“, eins og hann orðar það. Í þessum skilningi er hann ýtrastur allra möguleika. Og aðalatriðið hjá Heidegger er að strax og þú gerir þér ljóst að þessi möguleiki gegnsýrir tilveru þína eins og hún leggur sig getur þú annaðhvort flúið óttasleginn frá þeirri staðreynd, brotnað niður eða horfst í augu við hana. Ef þú horfist í augu við hana spyrðu þig þessarar spurningar: „Frammi fyrir þessum möguleika, hvaða merkingu hefur líf mitt?“ Með öðrum orðum, á þessu stigi hugsunar sinnar mundi Heidegger vera sammála Tolstoj að grundvallarspurningin sem sérhver maður, og þess vegna sérhver heimspekingur, verður að leggja fyrir sjálfan sig er þessi: „Fyrst dauðinn er til hvaða merkingu / tilgang hefur líf mitt?” Þessi spurning er eðlileg afleiðing af því að horfast í augu við sannleikann um hvernig við stöndum í raun og veru gagnvart dauðanum, sannleika sem stangast á við það hvernig fólk hugsar og talar venjulega um hann. Og dauðinn hugsaður sem varanlegur innri möguleiki fær alveg nýja vídd í samanburði við dauðann skoðaðan sem atburð í heiminum.

Magee Ég verð að segja einu sinni enn að þetta er nokkuð sem höfðar sterkt til mín. Enda þótt ég væri þjálfaður í gerólíkri heimspekihefð finnst mér heilmikið vit í öllu sem þú segir. Ég hef þessa tilfinningu í ríkum mæli – ég býst við að fjöldi fólks hljóti að hafa hana – að hversdagslíf okkar sé í senn ómerkilegt, innantómt, ofurkunnuglegt en samt dularfullt, furðulegt. Ég hef í enn ríkari mæli þá tilfinningu að það að horfast í augu við dauðann fái mann til að leita að einhverri merkingu eða tilgangi í lífi sínu. Hvernig fer Heidegger að því, þegar hér er komið, að svara spurningum sínum?

Barrett Hann hefur ekkert svar. Hann er bara að benda á þá formgerð mannlegrar tilvistar sem umgjörðina sem spurningarnar verða að falla inn í. Hann er að sýna fram á að þetta er vídd mannlegrar tilvistar sem einfaldlega verður að horfast í augu við. Svarið við spurningunni: „Hvaða merkingu hefur líf mitt?“ er komið undir einstaklingnum. Í þessum skilningi hefur Heidegger enga siðfræði.

Magee Þrátt fyrir það kemur það fram með eðlilegum hætti að tiltekin umræðuefni eru miðlæg í hugsun hans, og hann útfærir þau í löngu máli – þú nefndir eitt eða tvö rétt áðan. Getum við tekið þau mikilvægustu til umfjöllunar? Til að mynda er eitt einkenni lífsins sem hann veitir mikla athygli sú staðreynd að við erum einfaldlega stödd hér án þess að okkur hafi verið boðið. Okkur er öllum bara varpað inn í heiminn – reyndar merkir orðið sem hann notar um þetta hugtak bókstaflega ‘það að vera varpað eða kastað’: Geworfenheit.

Barrett Við völdum ekki foreldra okkar. Við fæddumst af þessum foreldrum, á þessum sérstaka tíma, á okkar sérstaka sögulega tímaskeiði, í sérstöku samfélagi með þá arfgerð, hver svo sem hún er, sem okkur er gefin – og með þessu verðum við að móta líf okkar. Sjálft upphaf mannlegs lífs er því eins og teningi sé varpað. Hending þess á sér djúpar rætur í óhjákvæmilegum staðreyndum. Þær eru hið ‘gefna’ fyrir okkur – svo þessu þekkingarfræðilega hugtaki sé gefin tilvistarleg merking.

Magee Og þessari ‘vörpun inn í heiminn’ og þar af leiðandi hendingu sem gegnsýrir næstum því allt sem varðar líf okkar fylgir jafn óhjákvæmilegur endanleiki, er það ekki? Ævi manns varir ákaflega stuttan tíma. Það er ekki bara þannig að við vöknum í heiminum og erum einfaldlega stödd hér, heldur erum við varla orðin vön þessu þegar því lýkur öllu aftur. Og sú staðreynd að því lýkur er fyrir flest okkar skelfileg. Hvernig ráðleggur Heidegger okkur að sætta okkur við allt þetta?

Barrett Engar forskriftir. Kjarni málsins er að hvaða ákvörðun sem við tökum til að gefa lífi okkar merkingu eða mæta dauðanum verðum við að horfast í augu við aðstæður mannsins með einum eða öðrum hætti. Hann segir þetta ekki en gefið er í skyn að kannski sé öll heimspeki svar við spurningunni um dauðann. Sókrates hafði orð á að öll heimspeki væri hugleiðing um dauðann – sem við gætum túlkað frjálslega að merkti að maðurinn mundi ekki hugsa heimspekilega þyrfti hann ekki að horfast í augu við dauðann. Værum við allir Adam sem lifðum eilíflega í garðinum Eden mundum við bara rölta um og velta fyrir okkur hinu og þessu en ekki neinu alvarlegu heimspekilegu viðfangsefni.

Magee Eitt sem Heidegger og tilvistarheimspekingar horfast í augu við, og sem ég hygg að fyrri heimspekingar hafi ekki fyllilega gert, er sú staðreynd að vitund okkur um dauðann veldur angist. Reyndar er hún skelfileg. Þessi angist frammi fyrir okkar eigin endanleika er eitt af meginþemum tilvistarheimspekinnar, er það ekki?

Barrett Jú. Og vitundin skerpist af þeirri staðreynd að það að vera til yfirleitt felur í sér að fara inn í framtíð sem hefur að geyma óumflýjanlegan dauða okkar. Hér komum við að öðru meginþema Heideggers – þeirri staðreynd að vera okkar öll er gegnsýrð af tíma. Já, þess vegna er heiti bókar hans Vera og tími. Við byrjum tilvist okkar sem verkefni í þeim skilningi að hún er eitthvað sem lagt er á okkur og við síðan tökum á okkur. Mannleg tilvist er ferli, (svo ég umorði Pope) hún er aldrei en á alltaf eftir að vera. Við erum alltaf flækt í það verkefni að skapa okkur sjálf – og alltaf út frá raunverulegum upphafspunkti okkar sem hefði getað verið öðruvísi.

Magee Og allan tímann á ferð inn í opna framtíð.

Barrett Rétt. Framtíðin er aðaltíðin hjá Heidegger vegna þess að hann sér manninn í meginatriðum sem opna veru sem stefnir fram. Ástæðan fyrir því að við smíðum hugmyndina klukku-tími og búum til úr og aðra tímamæla er einmitt sú að við ætlum að nota tíma okkar. Við erum að varpa okkur inn í framtíðina. Nútíðin hefur aðeins merkingu fyrir okkur að svo miklu leyti sem hún opnast í átt til mögulegrar framtíðar.

Magee Við vorum ekki fyrr komnir að viðfangsefninu ‘angist’ rétt áðan en við hurfum frá því og fórum að tala um ‘tíma’. Getum við farið aftur til ‘angistarinnar’ – þangað sem þú samþykktir að hún væri eitt af meginþemum tilvistarstefnunnar?

Barrett Angistin hefur átt margvíslegan feril í nútíma menningu. Fyrir fáeinum áratugum, þegar Auden gaf út bók sína The Age of Anxiety, komst hún meira að segja í tísku. Hún var það sem var ‘inni’. Fólk ræktaði angist sína – sem er heimskulegt að gera vegna þess að (minnugir umræðu okkar um dauðann) angistin er innbyggð í aðstæður okkar. Angistin er einfaldlega okkar mannlega tilvist, í óvissuástandi sínu, að koma upp á meðvitundarstig – hið einskæra óvissu­ástand mannlegrar tilvistar að titra gegnum okkur. Önnur nútíma afstaða – sumpart afleiðing þess að við erum tæknisamfélag sem ræður yfir vissum tækjum, lyfjum, úrræðum af ýmsu tæi – er að við ímyndum okkur að það hljóti að vera til eitthvert tæki eða ráð sem er þannig að við getum ýtt á hnapp og losnað við angistina. Hér er blekkingin sú að hún sé ekki eitthvað sem verður að horfast í augu við og lifa gegnum. Báðar öfgarnar eru óheppilegar. Angist er einfaldlega hluti þess að vera mannlegur. Á einum stað segir Heidegger reyndar: „Það eru til alls konar afbrigði af angist: í sumum myndum hefur hún friðsæld skapandi löngunar.“ Með öðrum orðum ef við værum ekki angistarfull sköpuðum við aldrei neitt.

Magee Tilraun mannsins til að flýja frá eigin angist, að komast undan raunveruleika eigin dauðleika, leiðir til einhvers sem er annað stórt þema tilvistarstefnunnar: firring. Við lokum augunum fyrir skelfilegum staðreyndum eigin tilvistar og leitumst raunar við að komast hjá að lifa með tilliti til þessara staðreynda. Það er eins og við séum utan við raunveruleika eigin lífs. Firring er líkt og angist nokkuð sem tilvistarstefnuheimspekingar hafa haft mikið að segja um – og bæði hugtökin hafa verið stórlega misskilin og misnotuð af nýtískulegum höfundum.

Barrett Já, reyndar hefur ‘firring’ verið svo mikið í umferð að sé orðið notað nú segir fólk: „Ó, þetta leiðinlega umræðuefni.“ Engu að síður vill svo til að þetta er eitt djúptækasta þema nútíma menningar: Hegel og Marx voru uppteknir af því og það hefur verið eitt aðaleinkenni bókmennta tuttugustu aldar. Bara sú staðreynd að siðmenning okkar hefur svo margar upplýsingaleiðir til umráða – svo að fólk veit hvað er ‘inni’ og hvað er ‘úti’ og orð eins og ‘firring’ ganga manna á milli þangað til þau verða ekkert annað en innantómar klisjur – eykur á firringu okkar, er eitt þeirra afla sem gera það. Blaður okkar um firringu gerir okkur einungis firrtari.

Magee Vitanlega, að fara með þessa hluti eins og tískufyrirbæri er að taka þá ekki alvarlega og þess vegna leið til að sneiða hjá þeim.

Barrett Já, en sjáðu til, firring kemur fyrir á nokkrum stigum. Eitt er það stig þar sem við getum týnt sjálfi okkar í hinu ópersónulega félagslega sjálfi – maður felur sig í félagslegu hlutverki sínu.

Magee Eins og Wordsworth orðaði það:

          „Veraldarvafstrið ríður okkur á slig:
          Sýknt og heilagt að afla og eyða slítur okkur út.
          Náttúran er orðin okkur fjarlæg og framandi.
          Við höfum svikið hjörtu okkar . . .“

Barrett En það er til annars konar firring. Og hún er raunverulegt vandamál, í þessum skilningi – ég orða þetta á svolítið gamansaman hátt, en ég held þú skiljir það. Hér er ég, stiginn af himnum ofan niður í London. Ég er ekki alveg búinn að finna sjálfan mig. Það virðist allt frekar framandlegt.

Magee Þér finnst þú ekki vera í sambandi við veruleikann.

Barrett Já. Þegar ég geng um göturnar er þetta framandi fólk. Eftir fáeina daga finnst mér sennilega að ég sé ‘heima’. Grunnmerking orðsins ‘firring’ er að vera framandi.

Magee Þetta finnst okkur öllum í framandi borgum. En sumum finnst þeir vera eins og framandi menn í heiminum sem slíkum.

Barrett Þeir búa í eigin skinni sem framandi menn.

Magee Við höfum nefnt helstu viðfangsefnin í Veru og tíma: þau tvö sem koma fyrir í titlinum sjálfum, og einnig dauðann, angist og firringu. Það er heilmikið annað í bókinni, mikið af því of tæknilegt, eða að minnsta kosti of erfitt, til að fjalla um í þessari stuttu samræðu. Dýrmætast af öllu er, að því er mér virðist, hin fyrirbærafræðilega greining á meðvitundinni – óvanalega djúp, hugvitssamleg og frumleg rannsókn, í raun afreksverk snillings. Í heild fjallar bókin um raunverulega djúpstæð efni. Og jafnvel þar sem hún gefur engin svör er sú staðreynd afar mikils virði að hún varpar ljósi á spurningarnar, eins og hún vissulega gerir.

Hins vegar, líkt og svo margir aðrir heimspekingar, eftir að Heidegger hafði útfært ‘stóra’ heimspeki sem ungur maður, hélt hann áfram og í einhverjum skilningi burt frá fyrri viðfangsefnum sínum. Enda þótt Vera og tími væri kynnt sem fyrra bindi þess sem átti að vera tveggja binda verk, kom annað bindið aldrei út, svo að við fengum bara hálfa bók. Hvers vegna lauk hann ekki verkinu sem hann hafði áformað?

Barrett Þetta er efni sem menn bæði rökræða og velta vöngum yfir. Heidegger reyndist hafa skilið eftir sig handritið að seinni hlutanum. Það verður gefið út sem eins konar Nachlass. En sjálfur held ég ekki að það breyti miklu fyrir skilninginn á honum. Ég held ég viti hvað hann ætlaði að segja í seinni hlutanum: Hann sagði sumt af því í fyrstu bók sinni um Kant. En þá gerist þetta – einhvers staðar í kringum 1936 – sem Heidegger fræðimenn kalla ‘vendinguna’. Honum fannst, í einhverjum skilningi, að hann hefði í Veru og tíma einskorðað athyglina um of við manninn. Hann sá að heimspeki sín var öflug gerð mannhyggju en líka að hún skildi eftir óljósa þá spurningu hverjar væru rætur mannverunnar.

Magee Þú átt við heim náttúrunnar, efnisheiminn?

Barrett Alheiminn. Í vissum skilningi, sjáðu til, mundi Heidegger kalla sig fylgismann Parmenídasar. Hann hefur skrifað um Parmenídas, gríska spekinginn sem fékk hina spennandi hugmynd: ‘alheimurinn er eitt’. Í fyrsta sinn í sögu mannsins kemur hér fram hugmyndin um alla tilveruna sem eitthvað sem við verðum að tengja okkur við í hugsun okkar. Heidegger álítur að það sem hefur gerst með nútíma menningu sé einmitt að við höfum glatað þessum alheimsrótum, orðið viðskila við tilfinninguna fyrir tengslum við heildina.

Magee Hvers vegna ætti að eigna þetta nútíma menningu sérstaklega? Er það ekki hluti af aðstæðum mannsins?

Barrett Það er það í þeim skilningi að maðurinn er vera sem flýr frá sannleikanum jafnvel þegar hann sækist eftir honum – og Parmenídes andmælti þessari ‘firringu’ hjá samtíðarmönnum sínum. En ég tel að ein af ástæðunum fyrir því að það gerist sérstaklega í menningu samtímans sé að við höfum byggt upp miklu tæknilegra samfélag. Við erum umloknari einskærum manngerðum ramma hluta en fólk var áður fyrr. Ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar ég kem til London, að hún sé nú mjög ólík þessari borg á dögum Shakespeares sem þá var miklu nær sveitinni – maður gat hreint og beint gengið út í sveit.

Magee Að setja firringu í sögulegt samhengi og þar af leiðandi með tilliti til þess sem er sérstakt við aðstæður mannsins á tuttugustu öld, er þá eitthvað sem Heidegger fór að verða upptekinn af eftir að hann hafði lokið við Veru og tíma?

Barrett Já. En seinni Heidegger er ekki kerfisbundinn, ekki einusinni kerfisbundinn á þann hátt sem hann leitast við að vera í Veru og tíma. Seinni Heidegger er aðallega að fást við vandamál skáldskapar og vandamál tækni. Hann telur að eitt af verkefnum heimspekinga á okkar tímum sé að reyna að hugsa til enda hvað tæknin felur í sér. Nútíma hugsun er of yfirborðsleg, of óekta hvað varðar viðfangsefnið tækni. Til er fólk með mjög hálfkæringslega afstöðu: Það er á móti vélum eða það er með tækni. Það er ekkert vit í því, sagði Heidegger, að maður á þessum sérstöku tímamótum í sögunni sé með eða á móti tækni. Við erum háð tækninni. Væri hún fjarlægð mundi öll siðmenningin hrynja. Þetta er áhættufé tilvistar okkar, hluti af hættuspili okkar. Á hinn bóginn er sú staðreynd sem kjarnorkusprengjan hefur gert mannlegri vitund ljósa almennt að tækninni fylgja róttækir möguleikar. Hingað til hefur fólk mótmælt tækninni sem orsök staðbundinna vandræða – atvinnuleysis, mengunar og þar fram eftir götunum – en sú hugmynd að maðurinn gæti tortímt sjálfum sér sýndi okkur hina skelfilegu möguleika innan tækniheimsins. Seinni Heidegger var að hugsa það til enda hvar í sögu mannsins rætur tæknilegrar tilveru hans liggja og hvert hún kynni að fara með hann.

Magee Hvernig tengist áhugi hans á skáldskap áhuga hans á tækni – nema hann sjái þetta tvennt sem gagnstæðar hliðar á sömu mynt?

Barrett Skáldskapur og tækni eru það. Eins og þér er vel kunnugt úr öðrum greinum heimspeki samtímans er viss tilhneiging hjá sumum heimspekingum að fara með tungumálið eins og formlegan reikning, tæki sem hægt er að ráðskast með og stjórna. Nú er það svo með ljóð, að dómi Heideggers, að það lætur ekki að kröfum vilja okkar. Skáldið getur ekki viljað yrkja ljóð, það bara kemur. Og við sem lesendur þess getum ekki heldur viljað viðbrögð okkar: Við verðum að gefa okkur ljóðinu á vald og leyfa því að orka á okkur. Heidegger tengir tæknilegar framfarir þessarar siðmenningar við fástískan vilja hennar sem verður að lokum viljinn til valds. Lykiltilvitnunin hér væri í Francis Bacon: „Við verðum að leggja náttúruna á píslarbekkinn til að knýja hana til að svara spurningum okkar“; áhrifamikil leið til að láta í ljós fylgi við tilraunaaðferðina. En staldri maður við til að hugsa, jafnvel þótt við leggjum veslings kvalda náttúruna á píslarbekkinn, verðum við samt að hlusta á viðbrögð hennar. Við verðum í einhverjum skilningi að gefa okkur sjálf, vera móttækileg. Það kemur að því að þvingunarstarf okkar verður að víkja fyrir því sem er þarna til að hlustað sé á það, hvað svo sem það er.

Magee Þetta minnir mig sterklega á upphafsatriðið hjá þér sem var viðskilnaður Heideggers við meginhefð vestrænnar heimspeki. Jafnvel byltingarkennd heimspeki innan þeirrar hefðar, eins og marxisminn, gengur að því sem vísu að það að sigrast á náttúrunni sé viðvarandi viðfangsefni mannkyns og það með réttu. En ein meginhugmynd Heideggers er andstæð þessu á róttækan hátt. Það er sú hugmynd að viljum við í raun og veru skilja aðstæður okkar – eða (orðað á annan hátt) viljum við í raun og veru skilja veruleikann – þá verðum við að reyna að þröngva okkur ekki upp á hann heldur frekar að gefa okkur honum á vald. Heldurðu að þetta tengist á einhvern alvarlegan hátt austrænum hugmyndum – hugmyndum sem maður er vanur að setja í samband við búddhatrú og hindúatrú eða austræna heimspeki almennt?

Barrett Ég held það geri það. Það eru vísbendingar um þetta í sumum seinni skrifum Heideggers þar sem stuttlega er vísað til taóisma og, á einum stað, til Zen búddhatrúar. Að sumu leyti virðist Heidegger að öll Vesturlönd séu fyrir rétti á þessum stað í sögunni. Möguleikar kjarnorkusprengjunnar leiddu honum þetta fyrir sjónir og við verðum að íhuga þá heimspekilega. Siðmenning sem sækist eindregið eftir yfirráðum og valdi kann líka á einhverjum tímapunkti að ganga af göflunum. Það kann því að koma að tímamótum þar sem við ættum að hætta að sýna vald okkar og bara láta hlutina í friði. Og, ef þú vilt, þá er hér að finna skynjun einhvers sem líkist hinum austræna anda.

Magee Ég hef fundið svo mikla ósvikna innsýn og dýpt hjá Heidegger að mér er fyrirmunað að skilja hvernig svo margir aðrir heimspekingar sem eru augljóslega gáfaðir – ég hef í huga menn eins og Rudolf Carnap, Karl Popper og A. J. Ayer – hafa getað fjallað um hann með slíku háði og fyrirlitningu sem raun ber vitni. Ekki aðeins í samtölum heldur einnig í útgefnum skrifum sínum hafa þeir hafnað verkum hans sem vitleysu í bókstaflegri merkingu, innantómri mælgi, eintómum orðaflaumi. En samt virðist mér að maður þurfi aðeins að lesa fyrsta innganginn að Veru og tíma til að sjá að fjarri því að vera einungis orðaflaumur þá er hún bæði merkileg og djúphugsuð. Hvers vegna hafa svo margir hæfir menn hafnað honum með svo mikilli fyrirlitningu?

Barrett Ja, ég vil ekki viðhafa móðgandi ummæli um ástand heimspekinnar en það er til viss tegund fagmannlegrar bjögunar. Maður hefur ákveðna sýn og henni fylgir blinda á sýn einhvers annars. Ég hygg að ein fyrirstaðan sé orðaforði Heideggers sem í byrjun fer í taugarnar á manni. En sé hann lesinn á þýsku kemst maður að raun um að hann skrifar sæmilega skýra þýsku. Ef prósi hans er borinn saman við prósa Hegels, til dæmis, þá er Heidegger skýrleikinn sjálfur. En ég er hræddur um að við finnum það alltaf í heimspeki að menn hafa dálæti á tilteknum völdum orðaforða. Þú nefndir Carnap. Ég var nemandi Carnaps í nokkur ár og ég fékk áhuga á Heidegger sumpart til að komast að því hvað væri hér á ferðinni: Gæti hann verið eins slæmur og þeir segja?

Magee Er það virkilega svo að árásir Carnaps á Heidegger komu þér í kynni við hann og þú lítir nú á hann sem að öllu leyti meiri heimspeking en Carnap?

Barrett Það er rétt . . .

Magee Áður en við hættum að fjalla um Heidegger held ég það skipti máli að leggja áherslu á að sú mynd af verkum hans sem flestir rökgreiningarheimspekingar virðast hafa og láta ganga áfram til nemenda sinna sem síðan endurtaka hana án þess að vita betur, er blátt áfram ósönn. Þeir ímynda sér að þau séu alls ekki heimspeki enda þótt ljóst sé að þau eru það. Þeir virðast gera ráð fyrir að honum sé mikið í mun að segja okkur hvernig við ættum að lifa – en eins og þú hefur lagt áherslu á forðast hann það sérstaklega. Þeir telja því að hann sé að setja reglur þegar hann er í raun að lýsa. Þeir virðast líka álíta að þetta sé allt eitt stórt sjónarspil – rómantískt, uppskrúfað og óagað – en mestur hluti Veru og tíma, að minnsta kosti, samanstendur hins vegar af frekar hægfara og mjög nákvæmri lýsandi greiningu sem væri þurrlega akademísk ef ekki væri vegna þess hve viðfangsefnið er frumlegt, spennandi og mikilvægt. Þar sem þessu er svona varið eru háðsglósur eða svívirðingar um Heidegger og heimspeki hans sem maður er vanur að heyra frá rökgreiningarheimspekingum svo fjarri sanni að þær leiða í ljós svo ekki verður um villst vanþekkingu þeirra. Bara persónulega held ég að honum hljóti að hafa virst þetta smánarlegt með öllu, ef ekki ófyrirgefanlegt. En vitanlega er hann ekki eini stóri hugsuðurinn í sögu heimspekinnar sem hefur verið ófrægður. Í sumum kringumstæðum virðist það vera hluti af gjaldinu sem hver sá þarf að greiða sem er frumlegur á róttækan hátt.

En við skulum halda áfram. Ég vil koma með annan mann inn í umræðuna. Í innganginum lofaði ég að við mundum segja eitthvað um Sartre. Ég sagði að enda þótt Sartre hafi orðið frægasti tilvistarspekingurinn, reyndar eina nafnið sem flestir setja í samband við tilvistarstefnuna, þá sé hann ekki eins frumlegur hugsuður og Heidegger. Engu að síður hefur hann lagt eitthvað af mörkum. Hvernig mundirðu lýsa helsta framlagi Sartres?

Barrett Sjálfur tel ég að sumar skáldsögur Sartres og sum leikrit hans séu mikilvægari en nokkur heimspekiskrif hans, en samt sem áður fellst ég á að hann sé töluvert snjall heimspekingur. Aðalheimspekirit hans kallast Vera og neind. Þetta er hrikalegt rangnefni. Bókin er ekki um veru og hún er ekki um neind. Sartre hefur ekki mikla tilfinningu fyrir verunni. Hverju svo sem maður kann að andmæla hjá Heidegger þá verður hann að viðurkenna að maðurinn er gegnsýrður af tilfinningu fyrir verunni. Bók Sartres er í raun og veru melódrama tveggja vitunda eins og Descartes hugsar sér þær. Auðvitað eru þær cartesískar vegna þess að hann er franskur – sérhver Frakki er hallur undir Descartes þegar gengið er nógu hart að honum. Þessar tvær vitundir skilja aldrei hvor aðra. Þær eru tveir sjálfsveruhugir sem rangtúlka hvor annan: Ég, sem sjálfsvera, þröngva mér upp á þig og breyti þér í hlutveru; þú svarar í sömu mynt. Og svo heldur þessi djöfullega samræða rangtúlkunar og misskilnings áfram. Að lokum verður ógerlegt fyrir okkur að eiga samskipti í einlægni. Þessi doðrantur Sartres er því í rauninni bók um vandamálið einlægni eða heilindi – sem er, að ég hygg, grundvallarvandamál franskra bókmennta frá Montaigne, um Molière til Prousts.

Frægasta og jákvæðasta kenning Sartres er hugmynd hans um frelsi. Það er kenningin sem náði mestri hylli almennings af því að hún gefur okkur víðfeðmustu möguleika frelsisins. Sem mannverur er frelsi okkar algert og ótakmarkað. Ekkert aftrar okkur frá að gera óteljandi fljótfærnislega og hættulega hluti hvenær sem er.

Magee Mér skilst þú eigir til að mynda við, að ég sé nú frjáls til að taka upp þennan þunga öskubakka og lemja þig í höfuðið með honum, eða stökkva ofan af þaki þessarar byggingar, eða taka næstu flugvél frá London og koma aldrei aftur það sem eftir er ævinnar. Ég get bókstaflega, ef ég vil, gert þetta allt og enginn gæti stöðvað mig. Það eru óteljandi aðrar slíkar athafnir sem ég er frjáls til að framkvæma hvenær sem er – hvaða hugsanleg athöfn sem er, hversu öfgakennd eða ofsafengin eða duttlungafull eða óvenjuleg sem hún er, sem enginn er í raun og veru í aðstöðu til aftra mér með valdi frá að gera. Og það sem Sartre leggur stöðugt áherslu á er að við horfumst ekki í augu við þessa hlið á raunveruleika aðstæðna okkar. Í staðinn látum við eins og við séum langtum takmarkaðri, langtum ófrjálsari en við erum. Þess vegna látum við stjórnast af siðvenju og því sem aðrir hugsa miklu meira en nauðsynlegt er. Við gefum ímyndunaraflinu langtum minna svigrúm í lífi okkar – og því langtum minna frelsi – en við gætum notað með skapandi hætti.

Barrett Dæmin hjá þér eru ljómandi góð – þau leggja áherslu á það sem er vafasamast í skoðun Sartres. Hvenær verður þetta algera og ótakmarkaða frelsi sjúklegt? Eyðileggjandi og sjálfseyðileggjandi? Samkvæmt hefð hefur frelsi ætíð verið tengt hugmyndinni um ábyrgð og ég mundi vilja varðveita þau tengsl. Án efa er siðvenja of þungur baggi á sumum og takmarkar möguleika þeirra til frelsis. En ég velti því fyrir mér hvort við höfum ekki ýkt hugmyndina um hamlandi hlutverk siðvenju þegar hér er komið sögu. Þeir sem eru heftir af siðvenju hafa yfirleitt ekki bein í nefinu hvort eð er. Og dágóður fjöldi þeirra sem brjóta gegn siðvenju eiga ekkert sjálfir til að brjóta gegn henni með. Á árunum milli nítján hundruð og sextíu og sjötíu sá ég dágóðan fjölda ungs fólks bjóða siðvenju byrginn og jafnvel slá um sig með tilvistarorðunum ‘ekta’ og ‘óekta’, og í flestum tilvikum var árangurinn ákaflega rýr og satt að segja óekta. Þeir hefðu verið meira ekta einstaklingar ef þeir hefðu fylgt einhverjum siðvenjum; og sumir þeirra tortímdu reyndar sjálfum sér. Það er jákvætt gildi í vissum siðvenjum: Þegar allt kemur til alls er tungumálið sjálft siðvenja og þú og ég gætum ekki verið að tala saman án þess. Fylgi maður siðvenjunum, og hafi einhvern frumleika til að bera, endar hann með því að vera óhefðbundinn hvort eð er – en án þess að leggja sig fram um það. Þetta snýst um að fara meðalveg – en Sartre kýs heldur að leggja áherslu á öfgarnar. Og sé orðræða hans skoðuð sést að tortímingarmöguleikar þessa frelsis sem hann mælir með sækja að henni, í trássi við hann sjálfan. Þannig segir hann okkur að mann sundli við tilhugsunina um þetta algera frelsi: Það er eins og að standa á hengiflugi sem ég get hvenær sem er fleygt mér fram af út í loftið. Ekkert aftrar mér. Hér er ímynd frelsisins ímynd sjálfstortímingar.

Magee En það er þó rétt hjá Sartre að ýkja þá staðreynd að veruleiki vals og frelsis sem við höfum í raun og veru í lífinu er langtum meiri en við sjálf viljum horfast í augu við lengst af, er það ekki?

Barrett Ýkjurnar eru ágætar. Spurningin er hvort hann ýkir ekki um of eina hliðina á málinu í heild. Og hér tel ég að skilningur Heideggers sé langtum dýpri en skilningur Sartres. Eigi maður að finna frelsi sitt einhvers staðar verður það að lokum að vera innan hins venjulega daglega veruleika lífsins. Eftir hið glæsilega og tilkomumikla frelsisstökk sem maður tekur einn (og ég held annars að það sé rangt að þrengja frelsisvandann í spurninguna um hina einstöku athöfn) verður hann að koma til jarðar í hversdagsheiminum aftur. Þú skellir þér með flugvél til Tahiti til að byrja nýtt líf – og þú berð sama gamla sjálfið með þér. Einstaklingurinn sem æðir út í eitthvað að vanhugsuðu máli er kannski að þjóta í ranga átt, ranga fyrir þann einstakling sem hann er. Í því tilfelli verður hann áfram, þrátt fyrir allt sýndarfrelsið, jafn blindur og þegar hann lagði af stað – og þess vegna jafn ófrjáls.

Grundvallarfrelsið, að dómi Heideggers, er frelsi okkar til að vera opin fyrir sannleikanum og kemur athafnafrelsið á eftir því. Hver er tilgangur athafnar okkar ef við sjálf erum ekki upplýst? Að vera opin fyrir sannleikanum er ekki auðvelt mál, eins og allir sálkönnuðir geta sagt manni. Sálkönnunarsjúklingurinn getur ekki séð sannleikann í aðstæðum sínum af því að hann sjálfur setur hindranir fyrir sýn sína á þær. Okkur er öllum trúandi til að sýna yfirþyrmandi þvermóðsku í því að afskræma þær mannlegu aðstæður sem við stöndum andspænis daglega. Það er erfitt að stíga skref til baka og láta vera, láta hluti sjást í réttu ljósi. Við verðum að gefa upp á bátinn, alltént um sinn, hina hamslausu frekju okkar, með allri þeirri afskræmingu sem af henni leiðir. Öll seinni skrif Heideggers eru í raun langvarandi árás á viljann til valds sem sýkir vestræna siðmenningu jafnvel þar sem um persónuleg tengsl er að ræða.

Magee Kjarni málsins er þó sá að maður getur aðeins í raun og veru skilið veruleikann, eða náttúruna, ef hann í einhverjum skilningi gefur sig henni á vald.

Barrett Já, og mundu að náttúran felur einnig í sér okkar mannlegu náttúru. Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir ekki aðeins efnisheiminum heldur einnig fólki, og ekki aðeins öðru fólki heldur okkur sjálfum: Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir persónulegu lífi okkar. Eins og sálkönnunin sýnir getur fólk verið í stríði við sjálft sig, meðvitað gegn ómeðvituðu. Það kann að vera að við komumst á ákveðið stig þar sem við verðum að hætta að reyna að kúga til hlýðni þann hluta náttúrunnar sem er við sjálf, stig þar sem við verðum að gefa okkur henni á vald. Hið eina sem Heidegger hefur að bjóða er viss tegund hugsunar sem er (segir hann) í ætt við skáldskap að því leyti að hún íhugar veruna frekar en hluti sem hún getur ráðskast með. Þetta kann ef til vill að opna okkur fyrir einhverjum víddum í tilverunni sem eru ekki tæknilegar.

Magee En ef við viljum halda áfram að lifa í heimi sem hefur brýr og sjúkrahús og heilauppskurði þá verðum við að lifa í heimi sem er á háu tæknistigi, og þess vegna munum við verða að hugsa tæknilega, samhliða annars konar hugsun.

Barrett Hárrétt. En þetta er einmitt kjarni málsins hjá Heidegger. Fólk sem er ‘á móti tækninni’ er algerlega óekta. Það hefur ekki ígrundaða og skynsamlega söguskoðun vegna þess að tæknin er hluti af örlögum okkar. Við getum ekki lifað án hennar. Hún er vera okkar í vissum skilningi: Það sem við erum sem nútíma mannverur er að hluta það sem við erum með atbeina tækni. Svo það er einfaldlega ekki hægt að hafna henni. Allar slíkar skoðanir bera í rauninni ekki vott um neina djúpa hugsun. Samt sem áður veldur tæknin vandamálum. Ef við, til að mynda, sprengjum okkur ekki í loft upp þá verður tæknin sem við höfum nú úrelt og agnarsmá að hundrað árum liðnum – alveg eins og það er mikið af nútíma tækni sem nítjándu aldar mótmæli gegn sýnast nú úrelt. En það þýðir gerbreyting á lífi okkar sem við erum ekki undirbúin hvað hugsun okkar varðar. Hugleiðum spurninguna um erfðastjórnun, erfðatækni: Erum við tilbúin að segja hvers konar arfgerðir við viljum hanna? Sjáðu til, við öflum okkur kannski tækjanna til þess arna án þess að hafa öðlast mannlega visku til að nota þau okkur til endanlegs góðs.

Magee En ég sé ekki hvernig Heidegger kemur inn í þetta. Hvernig ætlar hann hjálpa okkur að framkvæma þess konar val?

Barrett Með því að vekja okkur til vitundar um þá staðreynd að samhliða tæknilegum hugsunarhætti okkar verðum við að tileinka okkur annars konar hugsun sem er gerólík. Ég fer í gönguferðir í skóginum í grennd við staðinn þar sem ég á heima, og fari ég í gönguferð í þessum skógi síðdegis er ég að hugsa allan tímann. En spyrji einhver þegar ég kem aftur: „Hvaða vandamál leystirðu?“ yrði ég að svara: „Ég var ekki að hugsa þess konar hugsun. Ég var að velta hinu og þessu fyrir mér, átta mig á sjálfum mér og náttúrunni.“ Ég er miklu heilbrigðari og heilli þegar ég kem til baka eftir þess konar hugleiðingar. En það má ímynda sér að spyrjandinn hugsi með sjálfum sér: „Þetta er mjög furðulegt. Hann segist hafa verið að hugsa, en hann var samt ekki að íhuga neitt vandamál og hann reiknaði ekkert út.“

Magee Ég ver miklum tíma niðursokkinn í þess konar sjálfsáttun svo það þarf ekki að sannfæra mig um gildi hennar. Samt sem áður er það í sjálfu sér ekki nóg. Þrátt fyrir allt sem þú hefur sagt sé ég það samt sem takmörkun að það vantar jákvæða kenningu hjá Heidegger, en þó takmörkun heimspekinnar sem slíkrar, viðurkenni ég. Á aukinn skilningur á aðstæðum okkar sem við öðlumst með því að kynna okkur heimspeki hans að vera óvirkur einvörðungu? Eigum við alls ekki á neinn hátt að hegða okkur öðruvísi eða lifa öðruvísi? Ef hann ætti eftir að halda áfram – eins og þeir guðfræðingar sem hann hefur haft áhrif á gera og eins og hinn vestræni maður var vanur að gera samkvæmt hefð – og segja að endanleg skýring á heiminum sé að hann hafi verið skapaður af Guði, að þessi Guð hefði ákveðnar fyrirætlanir með því að skapa heiminn og okkur, að réttur lífsmáti fyrir okkur sé að lifa í samræmi við þessar fyrirætlanir, og að Guð hafi gert ráðstafanir til að láta okkur vita hverjar þessar fyrirætlanir eru – ef Heidegger héldi áfram og segði allt þetta þá væri það eitt. En hann gerir það ekki. Hann skilur okkur enn eftir án leiðsagnar um hvernig halda skuli áfram. Hin trúarlega skoðun á heiminum gaf hinum vestræna manni bæði alheimslega skýringu og gildakerfi og þar af leiðandi markmið. Fyrir marga hefur missir trúar á Guð tekið allt þetta burt. Mörgum okkar finnst nú að við lifum í heimi án merkingar, án tilgangs, án gildis. Ég get vel ímyndað mér að einhver horfi til tilvistarspekinnar til að fá einhvern skilning á þessum hlutum. En mér virðist Heidegger ekki láta hann í té.

Barrett Nei, hann útvegar ekki það sem þú biður um. En það er ekki lítið sem þú biður um og ég velti því fyrir mér hvort heimspeki, nokkur heimspeki, geti látið í té svörin sem þú leitar. Um nokkurt skeið hefur heimspekin spurt hvort hún hafi nokkra ‘jákvæða kenningu’ – í merkingunni samhangandi kerfi staðhæfinga – upp á að bjóða. Á það er lögð áhersla aftur og aftur, og það kemur frá ýmsum stefnum í heimspeki, að heimspeki sé aðallega útskýringastarf. Minnumst hinnar afar einföldu en yfirþyrmandi setningar Wittgensteins: „Heimspekin skilur við heiminn eins og hann er.“ Hún færir okkur enga nýja vitneskju eða kenningu um heiminn. Allt þetta er arfleifðin frá Kant: Að frumspekin samanstandi einungis af stýrihugmyndum sem hafi ekkert hlutlægt inntak. Við getum áreiðanlega ekki vænst þess að heimspekin láti í té nokkuð jafn mikilvægt fyrir þorra manna og trúin var einu sinni.

Nú, Heidegger er uppi á sama tímabili í sögunni og hinir heimspekingarnir og honum eru vel ljósar takmarkanirnar sem það setur. Heimspekin á þessu tímabili kann að verða að takast á hendur hógværara hlutverk. Hjá Heidegger er þessi fallega setning einhvers staðar: „Heimspekin verður að læra að lækka flugið enn einu sinni og horfast í augu við vanmátt sinn.“ Til hvers að flýta sér að setja saman eitthvert nýtt heimspekikerfi áður en við höfum lært að lifa með spurningunum sjálfum? Við förum bara frá einni sýndarlausninni til annarrar – kerfum sem eru allsráðandi í áratug og er síðan horfið frá. Á heimspekiferli mínum, frá námsárunum til þessa dags, hef ég komist í kynni við sex ólíkar almennt viðteknar rétttrúnaðarkreddur. Og ég sé nú þegar að sú síðasta er á leið út. Hvað trúarbrögðin varðar verðum við kannski að byrja þar einnig á byrjuninni. Heidegger mundi krefjast þess að heimspekingurinn legði mat á tíðarandann og gerði sér grein fyrir því sérstaka myrkri sem grúfir yfir okkar tímaskeiði. Ég held það hafi verið Matthew Arnold sem sagði, og það mjög spámannlega, að við værum milli tveggja heima, annars sem er dauður og hins sem er ófær um að fæðast. Þetta er líka hugsun Heideggers, en skáldið sem hann vitnar í er Hölderlin: Við erum í dimmunni milli guðanna sem eru horfnir og guðsins sem enn er ókominn. Heidegger sjálfur ólst upp sem kaþólikki og var í kaþólskum prestaskóla að læra til prests þegar hann las fyrst Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant og sannfærðist af rökum Kants um að sannanirnar fyrir tilvist Guðs stæðust ekki. Hann færði sig í háskólann og nam náttúruvísindi um nokkurt skeið, síðan heimspeki. Hann er, eftir allt saman, án sérstakrar guðstrúar. Hann hefur talað um sig sem ‘guðlausan’ – eins og hann meinti þetta sem persónuleg örlög sem hann hefði orðið fyrir. En í ritgerð sem er skrifuð seint hefur hann sagt: „En samt er guðleysi mitt kannski nær Guði en heimspekileg guðstrú.“ Hann varðveitir þannig frá Kant þá sannfæringu að leiðin til Guðs sé ekki gegnum röksemdafærslur eða sannanir. Vera-okkar-til-Guðs hlýtur að vera eitthvað afar ólíkt vitsmunalegri sannfæringu eingöngu. Hann er hvorki guðleysingi né guðstrúarmaður heldur hugsuður sem undirbýr leiðina fyrir nýjan skilning á því hvað það merkir að vera trúaður.

Magee Ég er ekki trúaður í venjulegum skilningi en mér virðist grundvallarvandamálin enn vera til staðar eftir að við höfum pælt gegnum Heidegger. Hann varpar heilmiklu ljósi á allt sem við höfum verið að tala um en hann skilur samt við okkur frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu staðreynd að við munum deyja, sem svo aftur veldur hjá okkur ákafri tilfinningalegri þörf til að finna einhverja merkingu í þessu lífi okkar og hann hefur samt ekki gefið okkur minnstu vísbendingu um hver hún kynni að vera eða jafnvel gæti verið. Það er þörf fyrir næsta skref. Hvert höldum við héðan . . . ? Mér virðist heimspeki Heideggers ekki vera möguleg endastöð. Hún er næstum því forleikur að annars konar heimspeki frekar en hún sé sjálf heimspeki.

Barrett Hún er undirbúningur undir heimspeki en ekki í þeim skilningi sem handbók í rökfræði kynni að vera talin slíkur undirbúningur. Og sú endanlegu heimspeki sem hugsun hans ryður brautina fyrir, segir Heidegger okkur, kynni að vera svo ólík því sem við höfum nú að hún yrði kannski alls ekki kölluð ‘heimspeki’. Hún kynni að vera jafn ólík þeirri heimspeki sem við höfum nú og grísk heimspeki var ólík þeirri tegund vitundar sem var á undan henni. Er Heidegger hér hinn óraunsæi draumóramaður? Ja, hugleiðum þennan einfalda en tilkomumikla sögulega bakgrunn: Heimspekin gat af sér vísindin; nú eru raunvísindin og tæknin komin og hafa gerbreytt öllu lífi mannkynsins á þessum hnetti. Hefur heimspekin nokkra nýja sýn sem svarar til þessa einstæða stigs sögulegrar tilvistar sem mannkynið hefur komist á? Kannski þetta sé ástæðan fyrir því að svo mikið af akademískri heimspeki okkar fangar ekki athygli fólks utan greinarinnar sjálfrar. Að svo miklu leyti sem við hugsum heimspekilega innan gamla hugtakarammans getum við aðeins skreytt hann með nýjum tæknilegum smáatriðum sem verða að lokum léttvæg. Viðleitnin til að finna nýja leið fyrir hugsun hlýtur óhjákvæmilega að vera tilraunakennd og hikandi. Eins og ég sagði rétt áðan talar Heidegger gjarnan um sig sem hugsuð á leiðinni. Kannski virðist hann fara of hægt á stundum, en mér líkar frekar vel við þennan hægagang Heideggers í seinni verkum hans. Sjálfur getur hann ekki skýrt frá því hver áfangastaður hans er. Til þess að geta það hefði hann nú þegar orðið að vera kominn, hingað til er hann bara á leiðinni. Eflaust hlýtur þetta ástand fálmandi leitar og biðar að reyna á þolinmæði þeirra sem mundu fagna stóru kerfi eða vildu æða út í trúarleg sinnaskipti. En hvað annað eigum við að gera?

Magee Í sumri nútíma list er sá skilningur á manninum að hann lifi í heimi án Guðs skelfilegur – til að mynda í leikritum Samuels Becketts. Beðið eftir Godot lætur í ljós á næstum því óbærilegan hátt þá einangrunartilfinningu, sem og tilfinningu um merkingarleysi, sem sá einstaklingur skynjar sem upplifir sig í heimi án tilgangs. Mér virðist vanta í verk Heideggers þá skelfingu sem gerir það að horfa á Beðið eftir Godot næstum því sársaukafullt.

Barrett Það er athyglisvert að þú skyldir nefna Beðið eftir Godot. Ég hef heyrt að Heidegger hafi séð leikritið flutt í Þýskalandi og sagt að lokinni sýningu: „Þessi maður hlýtur að hafa lesið Heidegger.“ Vel á minnst, áherslan í titlinum er á ‘beðið’ – og Heidegger segir að öll hugsun sín sé einhvers konar bið. En að halda samt fast við þessa bið felur í sér vissa yfirlýsingu: Það er eins konar könnun, eins konar leit. Heidegger fór ekki inn í fyrirheitna landið. En hann kynni að gera öðrum kleift að fara þangað.

Magee Þegar öllu er á botninn hvolft virðist mér tilvistarstefnan vera for-trúarleg. Það er að segja, fari maður gegnum þessa heimspeki skilur hún að lokum við hann á þröskuldi trúarinnar – eða kannski ætti ég frekar að segja, hún skilur við mann frammi fyrir endanlegu vali sem felur í sér trú. Að lokum, annaðhvort merkir sú staðreynd eitthvað að það sem er til skuli vera til eða að öðrum kosti er allt merkingarlaust.

Barrett Já, að svo miklu leyti sem heimspeki fæst við grundvallarviðhorf bendir hún okkur til hins trúarlega sviðs tilverunnar, hvernig svo sem við kunnum að bregðast við á því sviði.
                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísun

1. William Barrett (1913–1992). – Auk bókarinnar sem Magee nefnir hefur Barrett m.a. skrifað The Illusion of Technique: A Search for Meaning in a Technological Civilization (1979) og Death of the Soul: From Descartes to the Computer (1986). Irrational Man kom fyrst út 1958 og var endurútgefin 1977; hafði reyndar verið prentuð í kiljuformi áður. Talsvert ólíka umfjöllun um Heidegger er að finna í samræðu sem Magee átti við bandaríska heimspekinginn Hubert Dreyfus í BBC 1987 undir heitinu „Husserl, Heidegger og nútíma tilvistarstefna“. Þýðingu á þeirri samræðu má lesa í bókinni Miklir heimspekingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi 2002. – Þýð.