Greinasafn eftir: Henry Alexander Henrysson

Heimspeki úr glatkistunni: Greinar úr sögu íslenskrar heimspeki

Á næstu mánuðum munu birtast hér á Heimspekivefnum, með nokkuð reglulegu millibili, greinar um heimspeki og heimspekileg efni eftir íslenska höfunda sem hafa að mestu legið í láginni frá því að þær komu fyrst fyrir almenningssjónir á síðari hluta nítjándu aldar.

Uppruna þessarar greinaraðar má rekja til námskeiðsins Þættir úr íslenskri heimspekisögu, sem var haldið haustið 2011 við Háskóla Íslands. Meðal þess sem nemendur námskeiðsins tókust á við, undir leiðsögn Gunnars Harðarsonar prófessors, var að velja sér grein úr sögu íslenskrar heimspeki til nánari athugunar og fræðilegrar ígrundunar.

Auk þess að gera sjálfan texta greinanna tölvutækan, sem auðveldar bæði frekari rannsóknir og miðlun þessa efnis, sáu nemendurnir einnig um að gera þær textaskýringar sem þóttu nauð­synlegar fyrir nútímalesendur. En síðast en ekki síst var hverri grein fylgt úr hlaði með fræðilegum inngangi þar sem gerð var grein fyrir höfundi hennar og (eftir því sem við var komið) bæði innra og ytra samhengi röksemda þeirra og afstöðu í heimspekilegu og heimspekisögulegu ljósi. Það er samdóma álit þeirra sem um hafa vélað að afrakstur þessarar vinnu eigi tvímælalaust erindi við bæði lærða og leikna á sviði heimspekinnar og Heimspekivefurinn kjörinn birtingarvettvangur.

Til að halda utan um ritstjórn þessa tiltekna verkefnis hefur Heimspekivefurinn fengið til liðs við sig Jakob Guðmund Rúnarsson (jgr2@hi.is). Fyrsta greinin „Heimspeki og guðfræði“ (1896) eftir Grím Thomsen (1820-1896) sem þau Íris Björk Jakobsdóttir og Snorri Haraldsson bjuggu til birtingar mun birtast innan skamms og svo mun hver gullmolinn reka annan eftir því sem líður á veturinn.

Að sætta heimspeki og almenna skynsemi: Hume um augnapot, óendanleika og efnislegan veruleika

eftir Henry Alexander Henrysson

I

Þegar maður kennir námskeið í nýaldarheimspeki lendir maður gjarnan í vandræðum með að finna sér upphafspunkt til þess að hefja námskeiðið á. Vissulega getur verið ágætt að hefja lesturinn á Descartes en það losar mann engu að síður ekki við að útskýra grundvöll hugsunar hans og forsögu þeirrar byltingar sem hann var vissulega þátttakandi í. Ég hef stundum áhyggjur af því að það heyrir til undantekninga að sextánda öldin fái nokkurn sess í heimspekisögukennslu í grunnnámi. Fólk sem menntað er í heimspeki getur auðveldlega lokið námi með þá tilfinningu að á sextándu öld hafi vestræn hugsun gengið í gegnum nokkra lægð. Slíkt er auðvitað fjarri sanni. Það var þá sem menn fóru loks að gera sér grein fyrir hvað leyndist bæði yfir höfðum okkar og undir húð hvers og eins. Bábiljur um hreyfingu (eða hreyfingarleysi) himintungla og útlima urðu fyrir skarpri gagnrýni sem byggði á nýjum uppgötvunum. Árið 1577 getur til dæmis verið fullgilt ártal yfir upphaf nútímans. Eða þar um bil. Nákvæmar teikningar af vöðva-, æða- og taugakerfi líkamans voru þá komnar á prent og voru þar með aðgengilegar menntuðum mönnum. Og stjörnuathuganir höfðu afhjúpað galla í kenningum sem lýstu föstum himnahvelfingum.

Sautjánda öldin og fyrri hluti þeirrar átjándu voru svo auðvitað samfelld sigurganga vísinda eftir því sem margar þverhandarþykkar bækur segja okkur. Tilraunir og vísindalegar athuganir leystu frumspekilegar vangaveltur af hólmi. Að minnsta kosti á Bretlandseyjum ef marka má sumar þessara bóka. Oft er gefið í skyn að heimspekingar á meginlandinu hafi verið seinir til þegar kom að því að varpa frumspekinni fyrir borð. David Hume er gjarnan notaður til þess að orða þessa hugsun og er þá vitnað í þá fleygu málsgrein að ef bækur geymi ekki sértæk rök um magn og tölur eða reynslurök um staðreyndir og tilvist þá skuli þeim „á eld kastað því [þær geti] ekki geymt neitt annað en hártoganir og hillingar.“ Andúð Humes á svokallaðri „skólafrumspeki“ er því talin nægja til þess að flokka hann með fremstu tilraunavísindamönnum nýaldar. Sem er reyndar ekki nákvæmt. Hann var hvorki sérstaklega vel að sér í stærðfræði né eðlisfræði. Enda stundaði hann mannvísindi. Frægasta tilraun hans sameinar reyndar vísindi um manninn og stjörnur. Í henni hvetur hann lesandann til þess að pota fingri í augað á sér. Hver sá sem gerir það sér víst nóg af stjörnum og fræðist nokkuð um lífeðlisfræði í leiðinni.

II

En hér var ég að tala um sigurgöngu vísinda. Er víst að Hume hafi upplifað þróun heimspeki sautjándu og átjándu aldar þannig? Það er ekkert einfalt svar til við þeirri spurningu. Fyrst þyrfti að svara annarri spurningu: hvað snerist þessi svokallaða „sigurganga“ eiginlega um? Það er enginn vafi að þrátt fyrir að margar tilraunir hafi verið gerðar á hæpnum forsendum og teljist vart vísindalega fullgildar samkvæmt stöðlum nútímans þá var um óumdeilanlegan árangur að ræða þegar kom að því að útskýra stærri fyrirbæri veruleikans. Kepler vann til dæmis raunveruleg þrekvirki. Gangur himintungla var ekki lengur lokuð bók. Það sama gilti um hegðun margra annarra efnislegra fyrirbæra. Má segja að því stærri sem þau voru því nær komst hin nýja náttúruspeki að eðli þeirra. Þar réð auðvitað mestu að reynsluathuganir voru þar með auðveldari. Og á þeim forsendum féll raunhyggja Humes ágætlega að nýrri náttúruspeki og því mögulegt – með örlitlum tilfæringum – að telja hann andlegt skyldmenni Newtons.

En nú er það svo að eins miklum árangri og náttúruspekingar nýaldar náðu við að útskýra stærstu efnislegu fyrirbæri heimsins, þá voru þeir sérkennilega vonlausir þegar kom að því að útskýra samsetningu efnisins sjálfs. Sem var kannski ekki að undra. Þrátt fyrir að smásjárskoðun hafi náð sér á strik á sautjándu öld komust náttúruspekingar fljótt að raun um að slíkar rannsóknir segðu lítið til um samsetningu efnis. Þær vonir sem vöknuðu í byrjun við að sjá sáðfrumur skottast um á undirskál slokknuðu fyrr en varði. Þegar hugmyndir og kenningar átjándu aldar eru til umræðu jafnast stundum ekkert á við að vitna í Voltaire til þess að komast að kjarna málsins. Sérstaklega getur það komið sér vel þegar fátt annað en deilur og úrræðaleysi var einkennandi fyrir umræðuefnið. Þar var hann á heimavelli. Í Heimspekilegri orðabók sinni kemst Voltaire svo að orði í grein sinni um „efni“:

Þegar vitrustu menn er inntir eftir eðli sálarinnar geta þeir lítið sagt. Sama svar verður að duga þeim ef þeir eru spurðir um innstu náttúru efnisins. Auðvitað má finna prófessora, og þar með nemendur, sem telja sig vita allt um efni og anda. Þeir svara því til að efnið hafi rúmtak og sé deilanlegt. Ef þeir eru hins vegar spurðir um rúmtakið sjálft þá hefjast vandræðin. „Hver hlutur með rúmtak eru byggður upp af hlutum,“ segja þeir. En úr hverju eru þessi hlutar gerðir? Og er hver hluti hlutanna deilanlegur að nýju? Nú annað hvort þagna þessir góðu menn eða geta ekki hætt að tala. Við ættum að vera jafn tortryggin á hvoru tveggja. (1764)

III

Helsta vandamál náttúruvísinda sautjándu og átjándu aldar var því hvernig bæri að útskýra samsetningu efnisins. Þetta var vandamálið sem sameinaði alla heimspekinga og vísindamenn. Enginn gat látið eins og það kæmi honum ekki við. Vísindamenn ypptu vissulega margir öxlum yfir spurningum um tengsl sálar og líkama, og heimspekingar gátu brosað í kampinn yfir hálsrígnum sem endalaus stjörnuskoðun hlaut að hafa í för með sér. En enginn hugsuður gat sleppt því að hafa skoðun á því úr hverju hlutir eins og mannslíkaminn, himinhnettir og hestur Alexanders mikla væru í raun samansettir. Áskorunin var að gera sér grein fyrir hvernig rúmfræði og efnisvísindi ynnu í raun saman. Voru raunveruleg ódeili til eða voru einfaldlega tilfallandi ástæður fyrir því að vissar agnir skiptust ekki á náttúrulegan hátt?

Ég hef skoðað nokkuð hvernig einn heimspekingur – og reyndar sporgöngumaður hans – brást við áskoruninni. Svar Leibniz byggði fyrst og fremst á þeirri einföldu hugmynd að áskorunin krefðist þess af heimspekingum að þeir leituðu yfir í frumspekina. Svarið var sem sagt hvorki stærðfræðilegt né eðlisfræðilegt. En túlkun á svokölluðum mónöðufræðum sem hann setti að lokum fram er auðvitað hvorki einföld né aðgengileg. Aðeins örfá atriði virðast á hreinu. Það fyrsta er að samkvæmt Leibniz eru hlutir með rúmtak óendanlega deilanlegir. Hann sér enga ástæðu til þess að efast um stærðfræðina þar að baki. Hins vegar eru ekki þar með óendanlega margir hlutar í hverjum efnislegum hlut. Hin óendanlega deiling er einungis möguleg. Enda eru efnislegir hlutir einungis fyrirbæri. Raunverulegir hlutir eru ekki byggðir upp af efnisögnum. Verufræðilega samanstanda þeir af ögnum sem hafa ekki rúmtakseiginleika. Eftirmenn Leibniz eins og Christian Wolff höfnuðu þessari tveggja heima sýn, en héldu sig þó við frumspekilega vídd frumeindanna. Samkvæmt Wolff voru hin „náttúrulegu atóm“ eins og hann kallaði þau utan rúms en einhvers konar frumspekilegur kraftur gerði þeim kleift að bindast saman og mynda efnislega hluti.

Viðbrögðin sem þeir fá í dag eru gjarnan á þann veg að þeir hafi ekki fylgt framgangi vísinda tímabilsins og hafi þar af leiðandi verið einhvers konar afturhaldsseggir. Slíkt viðhorf byggir hins vegar á nokkuð sérkennilegri anakróníu. Og þegar maður skoðar viðbrögðin á átjándu öld kemur í ljós að því fór fjarri að menn hafi séð framgang raunvísinda ná til samsetningu efnishluta. Immanuel Kant skrifaði mikið um þetta efni og reyndi margs konar nálganir sem síður en svo bundust einni hefð fremur öðrum. Niðurstaða hans var hin kunna önnur antinómía Gagnrýni hreinnar skynsemi, en í henni takast á þessar kunnu staðhæfingar um að allt sé samsett úr raunverulegum einingum annars vegar og að engar raunverulegar einingar séu til hins vegar. Það er ómögulegt að segja að önnur staðhæfingin sé vísindalegri og að hin sé frumspekilegir draumórar. Báðar hafa nokkuð til sín máls.

IV

En hér er hugmyndin að ræða um David Hume. Í svokölluðum „Útdrætti“ úr Ritgerð um manneðlið má finna fræg orð hans um að það væri „óskandi að menn dyttu ofan á eitthvert úrræði til að sætta heimspeki og almenna skynsemi“. Það sem verður honum tilefni þessa ákalls er hið afar grimmilega stríð um „spurninguna um óendanlegan deilanleika“. Og hann telur almenna skynsemi augljóslega hafna því að hægt sé að „deila rúmsvídd óendanlega“, eins og segir í íslensku þýðingunni. Merkilegt nokk þá virðast rök Humes ekki síst byggja á þeirri neitun hans að „rúmfræðin sé nógu nákvæm vísindi til að heimila jafn hárfínar ályktanir og þær sem varða óendanlegan deilanleika.“ Hann segist svo sem ekki bjóða upp á nákvæmari vísindi en virðist vera þeirrar skoðunar að við eigum að láta okkur duga kenningar sem virki ekki gagnstæðar ímyndunarafli og skilningarvitum. Og þar hefur hann nokkuð til síns máls. Óendanlegur deilanleiki leiðir okkur að nokkrum þverstæðum sem voru vel kunnar á nýöld. Hume hafði ekki áhyggjur af þeim öllum, t.d. alls ekki þeirri að óendanleikinn gæti aðeins verið eiginleiki Guðs. En aðrar þversagnakenndar staðhæfingar trufluðu hann vissulega. Hvernig var þá hægt að ákvarða stærð efnislegs hlutar? Ef hvert og eitt fyrirbæri er byggt upp af óendanlega mörgum hlutum þá hljóta öll fyrirbæri að vera óendanlega stór í vissum skilningi. Og þar af leiðandi jafn stór. Og þannig koll af kolli.

Þegar fjallað er um vísindasögu átjándu aldar er mest gert úr því hvernig náttúruvísindi Descartes stóðust ekki nákvæmari kenningar Newtons. Menn eins og Voltaire áttu sinn þátt í því að jafnvel í Frakklandi féllu kenningar þess fyrrnefnda út af borðinu. Vandræðin við að útskýra samsetningu efnisheimsins sýna svo ekki verður um villst hversu erfitt er að flokka heimspekinga þegar kemur að þessum málum. Skoðun Humes á rúmfræði virðist ekki sýna fram á að hann hafi viljað skipa sér sérstaklega á bekk með vinningsliðinu þegar kom að því að útskýra hegðun efnislegra hluta. En hegðun efnislegra hluta er reyndar að sumu leyti óskylt fyrirbæri samsetningu þeirra. Þegar litið er yfir verk helstu hugsuða sautjándu og átjándu aldar má með nokkrum sanni segja að aðeins tveir, Galileo og Leibniz, hafi náð að senda frá sér fullmótaðar kenningar sem taka af allan vafa um hvort þeir sjá aðeins rúmfræðilega eða frumspekilega lausn á vandamálinu. Hvorugur lét áðurnefndar þverstæður stjórna lausn sinni. Galileo gaf engan afslátt af hinni rúmfræðilegu niðurstöðu og sagði hvern efnisskammt deilast í óendanlega margar agnir og Leibniz bætti því við að raunverulegir hlutir byggðust upp á ögnum sem væru handan rúms.

V

Það er til marks um hversu alvarlega Hume tók spurningar um samsetningu efnisins að þetta er í raun fyrsta heimspekilega vandamálið sem hann tekst á við í Ritgerð um manneðlið eftir að hann hefur útlistað helstu forsendur þekkingarfræði sinnar. Í öðrum hluta fyrstu bókarinnar má draga fram það sem við getum kallað verufræði Humes. Forsagan hefur komið fram hér á undan, a.m.k. að nokkru leyti. Spurningunni hvort hver partur af efni sé óendanlega deilanlegur var mögulegt að svara á margvíslegan hátt. Flestir höfundar reyndu til að mynda að greina á milli röklegrar, líkamlegrar og frumspekilegrar deilingar. En slíkt var einungis fallið til þess að fresta almennilegu svari. Hugsuðir vildu taka afstöðu til þess hvort raunverulegir efnislegir hlutir fyrir framan þá innhéldu, í einhverjum skilningi, óendalega marga parta þannig að mögulegt sé að deila hlutnum niður í slíka parta. Og þá dugði enginn aristótelískur skilningur á óendanleikanum sem gerði ráð fyrir mögulega endalausri deilingu.

Í fyrstu tveimur greinum annars hluta setur Hume fram skörp rök gegn óendanlegri deilingu sem hann byggir á þeirri spurningu hvort mögulegt sé að deila niður hugmyndum okkar og frumskynjunum af hlutum með rúmtak. Og þar nýtir hann sér eina kunnustu þversögnina hvað varðar slíka deilingu. Hún er eitthvað á þessa leið: Ef eitthvað er óendanlega deilanlegt þá hefur það óendanlega marga hluta. Og ef eitthvað hefur óendanlega marga hluta þá hlýtur það að vera óendanlega stórt. Þar af leiðir að enginn hlutur sem hefur sín takmörk í rúmi, epli, borð, stóll o.s.frv., getur verið óendanlega deilanlegur. Að sumu leyti svipar kenningu Hume hérna til upphafs Mónöðufræðanna og hvernig Leibniz færir rök fyrir því að samsettar verur hljóti að eiga sér fullkomnar einingar sem ekki er hægt að deila niður. En tvennt skilur á milli. Leibniz hafnar því að þar með hafi einingar hans rúmtak. Rök hans eru, og þar fáum við seinna atriðið, að hann fær ekki betur séð heldur en að stærðfræði geti ágætlega gert grein fyrir óendanlegri deilingu.

Margir hafa orðið til þess að gera lítið úr stærðfræðilegri nálgun Humes. En slík gagnrýni er ekki alveg á réttum slóðum. Hume er alvara með að hann er einungis að tala um raunverulega hluti sem hann skynjar. Og það eru partarnir sem skapa hlutinn, líkt og sandkorn skapa sandhrúgu. Eða eins og hann orðar það: „Við getum sagt að tuttugu menn séu til, en það er einungis vegna þess að menn eitt, tvö, þrjú o.s.frv. eru til.“ Með öðrum orðum, Hume er ekki að mótmæla formlegri eða stærðfræðilegri greiningu á mögulegri samsetningu efnishluta. Hann byggir þetta á því að það er fullkomin aðgreining til staðar milli allra hluta sem við getum skynjað. Samsettur hlutur getur ekki verið til nema vegna fullkomlega aðgreinanlegra parta.

Hume gengur reyndar það langt að hann virðist gefa í skyn að greining hans nái ekki aðeins yfir þekkingarfræðilegar forsendur okkur, þ.e. að við getum aðeins skynjað ákveðnar grunneiningar sem saman skapa samsettar verur. Í fjórðu grein annars hluta kemur fram sú hugmynd að heimurinn, þ.e. rúm og tími og hlutir sem koma fyrir í tíma og rúmi, verði sjálfur (ef svo má að orði komast) að taka tillit til þversagnarkenndrar náttúru óendanlegrar deilingar. Allt er því, bókstaflega, samansett af einhvers konar frumeindum sem svipar nokkuð til mónaða Leibniz og náttúrulegra atóma Wolffs. Hume kemst einnig að þeirri niðurstöðu að þessar eindir eða punktar hafi ekki rúmtak í þeim skilningi að þær séu deilanlegar. Og máli sínu til stuðnings dregur hann fram aðra sjónfræðitilraun sem reyndar krefst ekki þess að þátttakendur poti fingri upp í augað sitt. Hann segir okkur að gera punkt á blað og færa okkur svo langt í burtu að punkturinn hverfi. Í þeirri fjarlægð sem punkturinn hverfur sjónum er hann ódeilanlegur þáttur í frumskynjun af rúmtaki. Á þann hátt getur eitthvað sem hefur ekkert rúmtak verið grunnur venjulegs hlutar í rúmvídd.

Hume viðurkennir reyndar seinna (í fimmtu grein) að raunverulegt eðli efnisins sé honum hulið. Gengur hann þar í smiðju Lockes og kunna frásögn þess síðarnefnda af því hvernig við getum ekki þekkt raunverulegt eðli gulls. En þar er verið að ræða um hegðun og eiginleika efnislegra hluta. Slíkar vangaveltur verða svo Hume verkfæri til þess að setja fram kenningu um orsakasamband milli efnislegra hluta og svo framvegis. Hann telur sig þess umkominn að hafna möguleikanum á óendanlegri deilingu einungis út frá því hvernig hlutir tengjast skynfærum. Sem getur varla talist alveg nákvæmt. Það getur verið að kenningin hans sé studd gögnum um það hvernig við kynnumst efnislegum hlutum, en þversögnin sem verður kveikjan, og raunar forsendan, að kenningu hans hefur lítið með þessa reynslu að gera.

VI

Nú væri kannski ekki úr vegi að rifja upp skilyrði Humes fyrir því að verk færu ekki á eldinn? Getur verið að svar hans við því hvort efnisheimurinn sé óendanlega deilanlegur falli hvorki undir „sértæk rök um magn og tölur“ né geymi „reynslurök um staðreyndir og tilvist“? Vissulega má segja að Hume fari ekki langt út fyrir það sem hægt er að rekja til þeirra eiginleika sem við á fáum úr frumskynjunum og svo hugmyndum. En þá má ekki heldur gleyma því að hvatinn sem fær Hume til þess að staldra við er blanda af frumspekilegum vangaveltum sem snúa til dæmis að því að samsettir hlutir hafi minni eða síðri verufræðilega stöðu heldur en hlutar þeirra. Áhyggjur Humes af þversagnarkenndu eðli óendanlegs fjölda efnisagna í hlut í „rúmsvíddinni“ eru einnig dæmi um frumspekilega nálgun sem er í grunninn síður en svo frábrugðin nálgun átjándu aldar heimspekinga sem við teljum tilheyra alls óskyldri hefð.

Tilraun Humes til þess að sætta heimspeki og almenna skynsemi tók á sig margar myndir. Margt af því getur virst sérkennilegt líkt og aðrar svipaðar tilraunir í sögu heimspekinnar. Sú hugmynd að það sem hefur óendanlega marga parta þurfi þar með að vera óendanlega stórt tengist ekki sérstaklega almennri skynsemi og gengur jafnvel gegn henni. Ástæðan fyrir vandræðum heimspekinga átjándu aldar við að ná utan um þetta vandamál – og raunar fyrir því hversu erfitt við eigum með að gera okkur grein fyrir tilraunum þeirra í samtímanum – getur verið sú að verufræði og almenn skynsemi eiga litla samleið. Verufræði í anda Aristótelesar sem gerir ráð fyrir því að að minnsta kosti sum efnisleg fyrirbæri séu raunverulegar heildir, verufræði Leibniz sem hafnar efnislegum verundum og aflfræði í anda Wolffs, Boscovich og Kants eiga það sameiginlegt að vera heimspekilega fágaðar kenningar um veruleikann. Og þær eiga það allar sameiginlegt að þær gætu allar verið sannar. Það sama á við um kenningu Humes. En að setja slíkar kenningar fram í nafni almennrar skynsemi fremur en til dæmis röklegrar greiningar hlýtur að teljast nokkuð hæpið.

Erindi flutt á málþingi sem Félag áhugamanna um heimspeki efndi til um skoska heimspekinginn David Hume, laugardaginn 26. nóvember 2011 í ReykjavíkurAkademíunni.

Inngangur ritstjóra að Hug 2012

eftir Henry Alexander Henrysson

Heimspekin lömuð haltrar út
heldur sjóndauf og niðurlút
þrammar í þessu landi
– Eggert Ólafsson (1726–1768)

Þegar þessi orð eru skrifuð liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um að gera heimspeki að skyldufagi á grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að „heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.“

Hér er komist vel að orði. En það er erfitt að sjá fyrir afdrif þessarar ágætu tillögu. Hún er mjög í anda þess sem íslenskir heimspekingar hafa rætt undanfarin ár. Rannsóknarstofa um háskóla, Siðfræðistofnun og Heimspekistofnun hafa unnið að því að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Félag heimspekikennara hefur sjaldan verið sýnilegra og öflugra. Í Garðabæ hefur verið unnið metnaðarfullt starf við að gera heimspekilega samræðu að viðurkenndri kennsluaðferð. Ég er hóflega bjartsýnn á að önnur sveitarfélög taki sér Garðabæ til fyrirmyndar. Í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingar í Reykjavík er til að mynda mælt fyrir um að auka skuli vægi heimspeki og siðfræði í skólum. Tvö vel heppnuð málþing í október 2011 og 2012 hafa dregið upp fjölmarga fleti á spurningum sem snerta heimspeki með börnum. Nýjar námskrár fyrir samfélagsgreinar í grunn- og framhaldsskólum draga beinlínis fram þann heimspekilega kjarna sem þessar greinar byggja á. Og síðast en ekki síst er gagnrýnin hugsun orðin grunnþáttur í menntun allra skólastiga samkvæmt aðalnámskrám þeirra, ásamt því að nemendur efli siðferðisþroska sinn. Næstu ár verða því augljóslega spennandi fyrir afdrif heim­spekinnar á Íslandi. Ef vel tekst til með símenntun kennara má vel ímynda sér að næstu kynslóðir íslenskra nemenda fái tækifæri til að njóta þess skemmtilega ferðalags sem heimspekileg sam­ræða getur verið. En ferðalög geta verið margs konar. Stundum er það undirbúningurinn og ferðalagið sjálft sem er mesta áskorunin. Heimspekinni er einmitt oft líkt við slíkt ferðalag. Stundum er hins vegar áfangastaðurinn þess eðlis að hann skiptir mestu. Hver sá sem hefur farið á framandi staði til að skoða dýralíf og villta náttúru getur vitnað um að þrátt fyrir að leiðin hafi verið ánægjuleg er það reynslan af því sem maður kom til að sjá sem situr lengst í manni. Að leggja stund á heimspeki felst því einnig í að skoða sig um, ef svo má að orði komast, á áfanga­stað. Það getur verið mikilvægt að skoða sig vel um í þeim mikla sarpi sem saga heimspekinnar er og kunna skil á helstu tímabilum og stefnum.

Ef maður ætti að líkja rannsókn á heimspeki nýaldar við ferðalag held ég að safaríferð um gresjur Afríku kæmi fyrst upp í hugann. Á sautjándu og átjándu öld er sjóndeildarhringurinn víður og skýr og himinninn heiður. Og maður leggur af stað til að koma auga á „þá stóru“. Líkt og safarí­ferðamaðurinn leggur af stað með lista yfir fimm helstu dýrategundirnar sem hann vill koma auga á snúast rannsóknir á heimspeki nýaldar allar um þá „fimm stóru“: Descartes, Spinoza, Locke, Hume og Kant. Þegar aðra heimspekinga ber á góma er það yfirleitt með hliðsjón af „vistkerfi“ þessara risa. Þau sem hafa virt fyrir sér dýra- og plöntulíf í regnskógum þekkja hvernig kattar- og dádýr eru minni heldur en á gresjunni og hversu hlutfallslega stór mörg hin smærri dýr eru. Stundum veit maður ekki hvort það var hjörtur eða naggrís sem skaust inn í laufþykknið. Sjón­deildarhringurinn er enginn og stundum er erfitt að greina hvað snýr upp og niður. Það er einmitt stundum eins og að ferðast um regnskóg að kanna heimspeki nítjándu aldar. Stærðir verða afstæðar, sjónarhornin skipta mestu máli þar sem iðulega er eitthvað sem byrgir sýn og greinar­munurinn á rótum og ávöxtum hugmynda liggur ekki í augum uppi. Og fyrst og fremst er það hin organíska ofgnótt sem slær ferðalanginn út af laginu. Ég hef því persónulega látið nítjándu öldina vera að mestu leyti þegar kemur að heimspekirannsóknum.

En ég stóðst ekki mátið þegar kom að því að velja þema fyrir Hug 2012. Það var spennandi að sjá hvað myndi birtast í tölvupóstinum mínum eftir að ég hafði óskað eftir efni í heftið. Og greinarnar sem bárust endurspegla þá óreiðu sem heimspekileg hugsun á nítjándu öldinni er. Sérstakt ánægjuefni er að birta þýðingu á texta eftir franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau. Undir lok nítjándu aldar benti margt til þess að Guyau yrði sá heimspekingur sem síðari tímar myndu helst kenna við tímabilið. Áhrif hans voru sérlega mikil og skrifaði meðal annars Ágúst H. Bjarnason doktorsritgerð sína um heimspeki Guyau. Ég held að hér birtist í fyrsta skipti texti eftir hann á íslensku og verður spennandi að sjá hver viðbrögð lesenda Hugar verða. Margt bendir til að sú gleymska sem Guyau féll í eftir að tuttugusta öldin gekk í garð sé jafn óverðskulduð og sam­tímaspár um mikilvægi hans fyrir sögu og þróun heimspekinnar. Þýski heimspekingurinn Hermann Lotze var annar slíkur heimspekingur sem aldrei náði að halda sig á þeim stalli í heimspekisögunni sem margir samtímamenn hans gerðu ráð fyrir að honum bæri. Grein Erlendar Jónssonar um Lotze hér í heftinu er áhugaverð og löngu tímabær kynning á þessum sérstæða heimspekingi.

Herbert Spencer er líklega sá hugsuður nítjándu aldar sem flestir hafa yndi af að hunsa. Grein Jakobs Guðmundar Rúnarssonar er frískandi tilraun til að hrista upp í þeim stöðluðu við­brögðum. Fátt bendir til að Spencer verði álitinn mikilvægasti heimspekingur nítjándu aldar en margt í hugsun hans er þess eðlis að mig grunar að áhugi á verkum hans muni glæðast á komandi árum. Greinarnar sem bárust Hug tengdust þó einnig helstu nöfnum í heimspeki nítjándu aldar og eiga þessar greinar það sameiginlegt að skoða þessa höfunda í ljósi sam­tímans, ef svo má að orði komast. Steinunn Hreinsdóttir tekst á við bölhyggju Schopenhauers, Guðmundur Björn Þorbjörnsson greinir það sem hann nefnir „vangaveltuþjóðfélagið“ í félagi við Kierkegaard og Róbert H. Haraldsson fjallar um höfuðrök Johns Stuarts Mill fyrir hugsunarfrelsi og málfrelsi með hliðsjón af stórum ágreiningsmálum í samtímanum.

Um Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi gildir fátt það sem tínt hefur verið til hér að ofan. Honum var ekki spáð frægð og frama innan heimspekinnar. En íslenskum lesendum þykir líklega bara vænna um hann fyrir vikið. Elsa Haraldsdóttir nýtir sér frásögn Brynjólfs af þróun eigin hugsunar til að velta upp spennandi hliðum á því sem við nefnum í daglegu tali „heimspekilega hugsun“. Elsa hefur undanfarið unnið að meistararitgerð um gagnrýna hugsun og má vel greina hversu áhuga­söm hún er um að fólk geri sér grein fyrir einkennum gagnrýninnar hugsunar og heimspekilegrar samræðu þegar rætt er um mikilvægi heimspekikennslu á öllum skólastigum.

En það er meira efni í Hug en það sem tengist þema heftisins. Guðrún C. Emilsdóttir hefur þýtt sérlega áhugaverðan kafla úr sígildu riti Simone de Beauvoir, Síðara kyninu. Handrit þýðingar­innar var lesið í námskeiðinu Heimspekilegum forspjallsvísindum í Sagnfræði- og heimspeki­deild í haust og vakti það fjörugar umræður meðal nemenda. Ný grein eftir Dan Zahavi birtist hér einnig í íslenskri þýðingu. Það er mikið fagnaðarefni að þekktir erlendir höfundar sendi greinar í Hug til ritrýni og birtingar. Guðmundur Sæmundsson og Kristján Kristjánsson eru höfundar mikillar greinar um siðferðismisræmi milli íþróttabókmennta og íþróttaveruleika nútímans á Ís­landi. Má með sanni segja að ekki hafi komið út margar greinar sem snerta á því efni á íslensku áður. Heftinu lýkur með skemmtilegri grein eftir Ólaf Pál Jónsson um svokallað skiptaréttlæti.

Hér að ofan var rætt um ferðalög. Íslensk heimspeki hefði ekki þróast á þann hátt sem hún gerði ef Mikael M. Karlsson hefði ekki haldið í eitt slíkt með Barböru konu sinni til Íslands síðsumars árið 1973. Um ævi Mikes og ástæður þess að hann settist að á Íslandi hefur margt verið skrafað en minna fest á blað. Það var því sérstakt fagnaðarefni að hann féllst á að setjast niður með mér nú í haust og segja þessa sögu. Sú útgáfa hennar sem hér birtist er auðvitað lítið bergmál þessa mikla bálks sem Mike hefur frá að segja, en vonandi fræðast lesendur nokkuð um þá óþrjótandi þekkingarleit sem hefur leitt hann í gegnum lífið.

Að lokum er mér það bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim sem komu að gerð þessa árgangs Hugar. Höfundar efnis fá auðvitað sérstakar þakkir fyrir samstarf og þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt útgáfuferlinu. Útgáfu Hugar hefur verið lýst sem lítilli útgerð í litlum polli. Smæðin hefur víst aldrei flýtt fyrir vinnu hvers árgangs. Ritrýnar fá ómældar þakkir fyrir sitt vanþakkláta starf. Gunnar Harðarson og Björn Þorsteinsson lásu yfir þýðingarnar tvær úr frönsku sem hér birtast. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir og vona að yfirvöld menningarmála í Frakklandi taki eftir því starfi sem þeir hafa innt af hendi í gegnum árin við kynningu á franskri heimspeki. Björn á reyndar mikið hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hann hefur lagt í heftið. Mistökin og villurnar skrifast á mig, en þau væru svo óendanlega miklu fleiri ef hans hefði ekki notið við.

Henry Alexander Henrysson

« Til baka

Siðfræði og gagnrýnin hugsun

Laugardagur 10. mars kl. 13-16.30
Stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa í tæpt ár staðið saman að rannsókna- og námsþróunarverkefni um að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Verkefnið hefur meðal annars haldið málþing, komið á fót vefsíðu og veitt ráðgjöf og forystu við ritun kafla um samfélagsgreinar í nýrri Aðalnámskrá fyrir grunnskóla. Í þessari mál­stofu sem skipulögð er í anda verkefnisins ræða sex heimspekingar tengsl siðfræði og gagn­rýninnar hugsunar frá margvíslegum sjónarhornum til þess að skýra og greina hvort markmið gagnrýninnar hugsunar sé í senn menntunarlegt, þekkingarfræðilegt og siðfræðilegt markmið. Einnig verður leitast við draga fram mismunandi sjónarhorn á gagnrýna hugsun með það fyrir augum að draga fram raunverulegt hlutverk stofnana, fjölmiðla og menntakerfis þegar kemur að þeim gildum sem mestu skipta fyrir einstaklinga, samfélag og umhverfi.

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun: Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög
  • Páll Skúlason, prófessor í heimspeki: Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?
  • Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun: Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
    Að gagnrýna gagnrýna hugsun
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

Málstofustjóri: Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir:

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun HÍ
Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög

Fyrir nokkrum misserum síðan rataði umræða inn á síður dagblaða um stöðu hugvísinda og hlutverk gagnrýninnar hugsunar í mismunandi fræðigreinum háskóla. Menntamálaráðherra hafði tengt þessa gerð hugsunar við heimspeki, listir og „húmanísk“ fög og hópur fræðimanna í raun­greinum svarað og minnt á mikilvægi „rökhugsunar raunvísinda“ þegar kemur að því að mynda sér sjálfstæða og gagnrýna afstöðu. Í erindinu verður gerð tilraun til þess að skýra stöðu gagn­rýninnar hugsunar innan hugvísinda. Einnig verður leitast við að draga fram nokkur atriði varðandi tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði með það fyrir augum að varpa ljósi á eðli þessara greina. Markmiðið er að svara því hvers konar skilningur sé nauðsynlegur til þess að svara spurningum um hvað felst í því að vera maður.

Páll Skúlason, prófessor í heimspeki
Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?

Í erindinu verða skýrð samfélagsleg hlutverk háskóla og fjallað um frumreglur þeirra frá mið­öldum til nútíma í ljósi Magna Charta yfirlýsingu evrópskra háskóla árið 1988 í Bologna.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun
Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels

Ótvírætt má skilja heimspeki Hegels sem tilraun til að kerfisbinda bókstaflega allt í veruleikanum. Einn þátturinn í kerfinu er engu að síður þess eðlis að hann sættir sig aldrei við það sem við blasir eða hið viðtekna. Þannig er kerfið í senn komið til sögunnar og enn í vændum. Í erindinu verður tekist á við þá þversögn sem í þessu býr og dregnar hliðstæður við þá þrotlausu leit að haldbetri skoðunum og sannindum sem íslenskir heimspekingar hafa kennt við gagnrýna hugsun.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
Að gagnrýna gagnrýna hugsun

Á undanförnum árum hefur gjarnan verið talað um mikilvægi þess að sem flestir leggi stund á gagnrýna hugsun og ekki síður að gagnrýnin hugsun sé kennd á hinum ýmsu stigum skóla­kerfisins. En liggur þá fyrir hvað það er sem er átt við með gagnrýnni hugsun? Snýst færni í gagn­rýninni hugsun bara um að kunna grundvallaratriði í rökfræði og þekkja helstu rökvillurnar? Er hægt að nota eitthvað sem kallað er gagnrýnin hugsun til að þagga niður sjónarmið sem fela í sér mikilvæga gagnrýni, og ef svo er, getur það réttilega kallast gagnrýnin hugsun? Eru einhverjir þjóðfélagshópar sem upplifa útilokun frá gagnrýnni hugsun? Leitað verður svara við þessum spurningum og öðrum svipuðum í þessu erindi.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki
Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar

Í fyrirlestrinum verður sett fram tilgáta um hvers konar fréttamennska sé varasömust í ljósi við­miða um gagnrýna hugsun. Tilgátan verður síðan prófuð með greiningu á fjölda nýlegra dæma úr íslenskum fjölmiðlum. Þessi dæmi, sem flest eru frá árunum 2012 og 2011, vekja óþægilegan grun um að gagnrýnin á íslenska fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis (8. bindi) eigi enn við rök að styðjast.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar
Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

lestrinum mun ég velta fyrir mér hlutverki sérfræðinga og fagþekkingar fyrir gagnrýna þjóðfélags­umræðu. Dæmi verða einkum tekin úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Sjá nánar:
http://www.hugvis.hi.is/si%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i_og_gagnr%C3%BDnin_hugsun

Inngangur ritstjóra að Hug 2011

Niður með náttúruna
nördum er því fremur ofaukið.
Hvern skyldi skyrmisferli gruna
er skimar yfir þvílíkt lið.

Niður með náttúruna
náinn hefur hún margfaldað.
Hennar ljóta lasta runa
er lengri en svo að verði tíundað.

Heimspekingar eru stundum spurðir álits á samtímaviðburðum, áhrifum þeirra og þýðingu. Merk­ustu viðburðirnir eiga það gjarnan sammerkt að þeim hafa verið gerð góð skil í sjónvarpi. Áhrif þeirra hafa jafnvel staðið í beinum tengslum við endursýningar þeirra. Sjónvarpið getur einnig sjálft framleitt atvik sem breyta sjónarhorni áhorfenda til frambúðar. Þarf þá ekki merka viðburði til. Dæmi um slíkt atvik eru játningar breska sjónvarpsmannsins Stephens Fry fyrir nokkrum misserum. Við gerð náttúrulífsþáttar sem hann hafði umsjón með varð hann fyrir því óláni að þurfa að sofa í tjaldi úti í guðsgrænni náttúrunni. Upplifun hans af þeirri raun sem hann taldi sig ganga í gegnum vegna þessa var slík að hún hafði varanleg áhrif á alla hugsun mína um mann og náttúru. Lýsing Frys á þeirri þolraun að þurfa að hlusta á brimgný Indlandshafsins á aðra hönd og „háværasta frumskóg heims“ á hina var að sönnu átakanleg. Honum varð svo mikið um að hann taldi upp „wife“ meðal þess sem hann saknaði mest þá stundina, þegar hann meinti augljóslega „Wi-Fi“.
    Sú skoðun að maðurinn standi andspænis náttúrunni og að sá hluti hennar sem búi innra með honum teljist vart til mennsku hans á sér býsna langa sögu innan vestrænnar heimspeki. Stund­um er þessari skoðun lýst sem „tvíhyggju“. Sú lýsing er svo sem ekki alltaf nákvæm. Tvíhyggja getur verið margs konar. Yfirleitt snýst hún þó um að eitthvað sem við kennum frekar við hugar­starfsemi (hugtök, huglægir eiginleikar, sálin) er talið eðlisólíkt því sem við sjáum í kringum (og raunar stundum á og í) okkur og kennum við „náttúruleg“ fyrirbæri. Vinsældir tvíhyggju hafa hins vegar farið þverrandi í heimspeki samtímans. Kenningar sem byggja á fjöleðli veruleikans og stífri flokkunaráráttu eiga í vök að verjast fyrir heildstæðari nálgunum. Heimspekin sjálf er þó verr haldin af tvíeðli en margar aðrar greinar. Innan fræðasamfélagsins reynir hún bæði að vera milda móðirin og ólátabelgurinn sem brýtur allar reglur. Hún reynir að kenna öðrum vísindum hvernig á að hugsa en um leið telur hún sig vera hafna yfir þröngar skorður fræðilegra hefða. Hún heldur utan um rammann og reynir um leið að komast út fyrir hann.
    Sigríður Þorgeirsdóttir hefur á undanförnum árum skapað sér nokkra sérstöðu meðal íslenskra heimspekinga með því að sameina öguð fræðileg vinnubrögð tilraunum til þess að spenna út mörk heimspekilegra rannsókna á nýstárlegan hátt. Í þessu hefti Hugar er birt áhuga­vert viðtal við Sigríði þar sem hún segir meðal annars frá því hversu undarlegt það sé að spyrja einhvern sem leggur stund á heimspeki hvað hann eða hún ætli sér að gera við heimspekina; nær væri að spyrja hvað heimspekin muni gera við viðkomandi. En eins og lesendur viðtalsins munu skjótt gera sér grein fyrir er Sigríður löngu orðin virkur þátttakandi í sambandinu milli hennar sjálfrar og þessarar fræðigreinar sem hún tók svo miklu ástfóstri við. Alþjóðlegi jafnréttis­skólinn GEST og Edda, öndvegissetur í gagnrýnum samtímarannsóknum, eru dæmi um nýjar víddir í rannsóknastarfi og kennslu við Háskóla Íslands og hefur Sigríður unnið mikilvægt og ómælt starf til þess að gera þær að veruleika. Ásamt þessu frumkvöðlastarfi hefur hún einnig birt fjölda greina og bókarkafla um heimspeki sem eftir hefur verið tekið á alþjóðlegum vettvangi. Það var því mikið gleðiefni að hún féllst á viðtalið sem Kristian Guttesen, meistaranemi í heimspeki, tók við hana á sumarmánuðum.
    Forveri minn í stól ritstjóra Hugar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, segir frá því í inngangi sínum að 21. hefti tímaritsins að hún hafi í grunnnámi sínu við Háskóla Íslands aldrei setið tíma hjá kven­kyns kennara. Ég sat eina málstofu sem Sigríður kenndi undir lok náms míns við Háskóla Ís­lands. Vissulega voru það mikil viðbrigði að sitja tíma hjá kvenmanni, en mér er þó minnistæðast hversu sterk áhrif sérstök sýn Sigríðar á heimspekina hafði á mig. Málstofan nefndist „Heimspeki og/eða frumspeki“ og í henni lásum við Sygdommen til Døden eftir Kierkegaard og „Was ist Metaphysik?“ eftir Heidegger. Í tilefni af viðtalinu við Sigríði vildi ég birta íslenskar þýðingar þessara texta. Verk Kierkegaards er auðvitað töluvert að vöxtum og því læt ég duga að birta íslenska þýðingu á formála, inngangi og upphafi fyrsta kafla verksins, en ritgerð Heideggers er birt í heild sinni. Þýðing Magnúsar D. Baldurssonar á henni hefur lengi gengið manna á milli í handriti og er það sérstakt tilhlökkunarefni að geta loksins komið henni á prent með góðfúslegu leyfi Klostermann-útgáfunnar. Sjálfur er ég ákaflega þakklátur fyrir að hafa kynnst frumspekilegri sýn þessara tveggja heimspekinga áður en ég hélt út í framhaldsnám. Áhrif þeirra eru ekki bein í heimspekirannsóknum mínum, en það er geysilega mikilvægt að hafa tilfinningu fyrir því hvernig frumspekin er samofin grundvallargeðshræringum tilvistar okkar. Frumspekileg hugtök eins og „nauðsyn“ og „möguleiki“ byggja ekki einungis á röklegum grunni.
    Þema heftisins sameinar tvo þætti sem ég tengi hvað skýrast við heimspeki Sigríðar: frumspeki og náttúru. Þemað er sem sagt frumspekileg vídd náttúruhugtaksins. Á undanförnum árum hefur umræða um siðferðilega vídd hugtaksins loksins náð einhverju flugi á Íslandi. Þetta hefti er tilraun til þess að vekja annars konar umræðu þar sem náttúruhugtakið einskorðast ekki við hlutverk sitt sem einhvers konar samheiti við „umhverfi“. Hugtakið er margrætt og viðhorf okkar til náttúrunnar mótast af þessari margræðni ekki síður en þeirri birtingarmynd sem hún getur tekið á sig og er svo vel lýst í texta Megasar sem skreytir þessi inngangsorð. Á Hugvísindaþingi 2011 var haldin málstofa sem helguð var þemanu þar sem „náttúran öll og eðli manns“ voru rædd. Í málstofunni lagði ritstjóri til nokkrar hugmyndir sem hér koma saman sem inngangur að þemagreinunum. Þar koma fram efasemdir um að hægt sé að ræða um náttúru sem fyrirbæri sem standi andspænis manninum. Jafnvel í vísindabyltingu sautjándu aldar virðist sem fáir heimspekingar hafi raunverulega talið að natura eða eðli veruleikans sé eitthvað sem við upp­götvum og skilgreinum sem andstæðu hins mannlega.
    Greinarnar sem tilheyra þemanu spanna eins vítt svið og mögulegt var að vonast eftir. Björn Þorsteinsson ríður á vaðið með grein sem kryfur samband manns og náttúru í félagi við kunna grein Páls Skúlasonar „Hugleiðingar við Öskju“. Björn kallar einnig til liðs við sig ekki ómerkari hugsuði en Hegel, Lacan og Žižek til þess að takast á við spurninguna hvort náttúran þurfi að minna á vél þótt hún fylgi einhverjum reglum. Eyja Margrét Brynjarsdóttir kafar djúpt ofan í eðli verufræðinnar sjálfrar og spyr hvort aðferðir náttúru- eða tilraunavísinda eigi við innan greinar­innar. Styðst hún við tvö áhugaverð dæmi í rannsókn sinni. Margar siðfræðikenningar sem vísa til náttúrunnar byggja lauslega á hinu forna stóulögmáli um að maðurinn eigi að lifa í samræmi við náttúruna. Svavar Hrafn Svavarsson skrifar ítarlega grein um þetta lögmál og þær flóknu myndir sem siðfræði stóumanna tekur á sig. Róbert Jack ræðir í sinni grein aðra vídd náttúruhugtaksins eins og það tengist mannlegu eðli í heimspeki fornaldar þegar hann veltir upp áhugaverðri túlkun á svokölluðum „ástarstiga“ Platons. Róbert bendir á að sú leið sem stiginn táknar til æðstu náttúru mannsins byggi á svipaðri sýn til mannlegs þroska og finna má í sálfræði samtímans. Síðasta þemagreinin er ávöxtur samstarfs Sigríðar Þorgeirsdóttur og Guðbjargar R. Jóhannes­dóttur þar sem þær ræða fegurð náttúrunnar og náttúrulega fegurð á áleitinn hátt. Í grein sinni sýna þær fram á hvernig náttúrufegurð krefur okkur um að láta af þröngri sýn á einstaklingseðlið og opna okkur fyrir stund fegurðarinnar þegar skilin milli mannsins og náttúrunnar mást út.

Niður með náttúruna
Neðar neðst og dýpst
Þar sem öskrin djöfla duna
Og dásemd guðs aldrei þrífst

Niður með náttúruna
Nógu sé dýflyssandi hennar lægð
Fyrir goselda og gaddabruna
Grið fái hún engin né vægð

    Ef eitthvert eitt heimspekilegt hugtak hefur verið áberandi á árinu 2011 þá er það „gagnrýnin hugsun“. Tvær ráðstefnur hafa verið haldnar í Háskóla Íslands um gagnrýna hugsun og kennslu hennar og þrjár stofnanir innan Háskólans hafa nú tekið höndum saman og hrundið af stað verkefni sem snýr að eflingu kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Ein niðurstaða þeirrar vinnu er vefurinn www.gagnryninhugsun.hi.is, sem hefur vakið nokkra athygli undanfarið. Umræða um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar hófst þó hvorki í ár né í kjölfar at­burðanna fyrir þremur árum. Í raun má segja að á Íslandi hafi myndast sérstök hefð um gagnrýna hugsun. Sú hefð hefur verið að þróast síðan Páll Skúlason ritaði greinina „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ á seinni hluta níunda áratugs síðustu aldar. Íslenska hefðin er sem sagt nokkuð frábrugðin því sem kennt er við Critical Thinking í enskumælandi löndum svo dæmi sé tekið. Þegar vísað er til „hefðar“ í þessu samhengi er auðvitað ekki verið að vísa til þess að íslenskir heimspekingar séu sammála um allt það sem viðkemur gagnrýninni hugsun. Ólafur Páll Jónsson passar vel inn í þessa íslensku hefð en hefur jafnframt skapað sér ákveðna sérstöðu í umræðunni. Í grein sinni „Hugsandi manneskjur“, sem er eina sjálfstæða heimspeki­ritgerðin sem birtist í þessu hefti sem tengist ekki þemanu, ræðir Ólafur Páll á skemmtilegan hátt hvernig gagnrýnin hugsun og kennsla hennar getur ekki aðeins snúist um óhlutbundnar reglur. Gagnrýnin hugsun, sú hugsun sem beinist að öllum hliðum hvers máls, verður einnig að byggja á þáttum sem felast í skynjun okkar og tilfinningalífi.
    Ólafur Páll hefði þó áreiðanlega haft sitt hvað fram að færa um þemað. Bók hans Náttúra, vald og verðmæti, sem kom út árið 2007, er eitt öflugasta innlegg í umræðuna um málefni náttúrunnar sem gefið hefur verið út á íslensku og er gott dæmi um hvernig umræðan um umhverfismál á Íslandi hefur þroskast á síðustu árum. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar ritdóm um bókina en Guðbjörg hefur sjálf verið í fararbroddi þessarar umræðu. Nokkrir aðrir ritdómar birtast einnig í heftinu. Erla Karlsdóttir skrifar um eitt áhugaverðasta verkefni Sigríðar Þorgeirsdóttur á síðustu árum, verkið Birth, Death and Feminity. Philosophies of Embodiment, sem hún vann ásamt þeim Söru Heinämaa, Robin May Schott og Vigdis Songe-Møller. Egill Arnarson skrifar um greinasafn Jóns Ólafssonar Andóf, ágreiningur og áróður þar sem möguleikar heimspekinnar til þátttöku í umræðu samtímans eru greindir. Einnig eru birtir ritdómar um tvö nýleg verk sem Heimspeki­stofnun hefur gefið út. Róbert Jack fjallar um Tíma heimspekinnar í framhaldsskólum eftir Kristínu Hildi Sætran og Jakob Guðmundur Rúnarsson gagnrýnir Í sátt við óvissuna. Bók um efahyggju og heimspekilega þekkingarfræði eftir Atla Harðarson.
    Að lokum vill ritstjóri nefna nokkur atriði sem sitja í honum í kjölfar vinnunnar við heftið. Í fyrsta lagi má rifja upp þá augljósu staðreynd að Hugur er fræðitímarit. Slík tímarit byggja fyrst og fremst á tvennu: að fá fólk til að ritrýna og að fólk sætti sig við ritrýni. Mér er bæði ljúft og skylt að þakka því fólki sem tók að sér ritrýni fyrir þetta hefti fyrir þá ágætu vinnu sem það innti af hendi. Það er von mín að fræðimenn haldi áfram að taka að sér það vanþakkláta starf á komandi árum. Vönduð ritrýni er ein mikilvægasta forsenda fræðilegrar heimspekilegrar umræðu á Íslandi. Einnig þakka ég þeim höfundum sem eiga greinar í heftinu fyrir samstarfið. Hér var byrjað á að ræða þá þörf heimspekinnar að brjóta af sér hlekki greinarinnar. Ég vona að við getum öll verið sammála um að hvernig svo sem heimspeki mun þróast á næstu árum og áratugum þá muni krafan um að ritrýndar greinar í Hug innihaldi þaulhugsaðar, málefnalegar rökfærslur af heimspekilegum toga vera áfram í heiðri höfð.

Henry Alexander Henrysson

Hugur 2012 – kallað eftir efni

Hugur – tímarit um heimspeki lýsir eftir efni í 24. árgang, 2012. Þema Hugar 2012 verður heim­speki nítjándu aldar.

Fá tímabil í sögu mannsandans hafa verið eins frjó og nítjánda öldin. Allt áhugafólk um heim­speki þekkir til helstu heimspekinga og stefna aldarinnar. Hún geymir bæði uppgjör við upp­lýsinguna og rætur samtímans. Þema Hugar mun snúast jafnt um einstaka heimspekinga, heimspekistefnur og tímabilið í heild sinni. Greinar sem fjalla um lítt rannsakaða heimspekinga og hugmyndir á nítjándu öld eru sérstaklega velkomnar.

Efni 24. árgangs mun þó ekki afmarkast við þemað. Jafnframt verða birtar greinar og þýðingar um margvísleg heimspekileg efni. Allar frumsamdar greinar sem birtast í Hug fara í gegnum nafn­lausa ritrýni og ákvarðanir um birtingu eru teknar á grundvelli hennar. Viðmiðunarlengd greina er átta þúsund orð að hámarki. Höfundar eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um frágang sem má finna á Heimspekivefnum (mappa undir fyrirsögninni FÁH/Hugur).

Skilafrestur efnis fyrir Hug 2012 er 1. apríl 2012. Efni skal senda til ritstjóra, Henrys Alexander Henryssonar, hah@hi.is. Þangað má einnig senda fyrirspurnir.

Að vera athugull á allar hliðar máls: Gagnrýnin hugsun og siðfræði

eftir Henry Alexander Henrysson

Verðmæti hugsana líður örlítið fyrir það að framboðið virðist fullnægja eftirspurninni. Það eina sem er ódýrara er tal sem bendir einmitt til þess að framboðið á því fari fram úr þeirri hugsun sem á sér stað í heiminum. Raunar eigum við örlítið bágt með að tala um hugsun. Sem er undarlegt þar sem hún kemur fyrir flest okkar. Stundum oft á dag. Fólk grípur gjarnan til þess ráðs að leika Hugsuð Rodins til þess að útskýra hugsun, eins og það að styðja hönd undir kinn sé nauðsynlegur hluti hugarstarfs. Ein ástæða þess að fáir vilja ræða um hugsun sem slíka er að okkur grunar að hún sé flókið fyrir­bæri. Skýringarinnar er líklega að leita í því að hugsunin er stigskipt. Öll þekkjum við dæmi um einhvers konar lágmarkshugsun. Það er óþarfi að móðga einhvern með því að nefna þessi dæmi hér. En svo virðist einnig vera til hugarstarf sem er næstum því annars eðlis. Vönduð hugsun getur ger­breytt sýn okkar á heiminn. Stundum rekst maður á fólk sem telur sig hafa allt sitt á hreinu þar sem það fylgist svo vel með. Það hlustar eftir öllum þeim tilboðum sem lífið hefur uppá að bjóða. Og er fyrst af stað. Þetta fólk telur að þær leiðbeiningar sem það hefur heyrt út undan sér dugi til að mynda sér farsæla afstöðu; vangaveltur leiði til glataðra tækifæra. En veruleikinn hefur því miður tilhneigingu til þess að hlífa okkur ekki við því að hugsa mál til enda. Um það vitna fjölmörg myndbönd á You­Tube.

Það kallast gagnrýnin hugsun að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni fellst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Gagnrýnin hugsun er að beita skilningsgáfunni á sjálfa sig. Hún hjálpar okkur að setja kerfisbundið fram vandamál sem við gerum okkur einungis lauslega grein fyrir. Með því að beita gagnrýninni hugsun áttum við okkur á hvaða upplýsingar skipta máli fyrir lausn vandamálsins. Hugsun okkar verður virk þegar við túlkum upp­lýsingarnar með opnum huga og metum afleiðingar mismunandi túlkunarleiða. Gagnrýnin hugsun er bæði athöfn og leiðarvísir fyrir skoðanir okkar og gerðir.

Gagnrýnin hugsun er þannig takmark allrar menntunar. Aðgangur að upplýsingum er fyrir löngu orðinn ótakmarkaður í öllu skólastarfi. Nú er mikilvægara en nokkru sinni að kenna hvernig á að fara með upplýsingarnar. Hver sá sem leggur stund á fræði- eða iðngrein hlýtur að hafa það takmark að ná því valdi á greininni og beitingu hennar að hann geti sjálfur lagt eigið mat á fullyrðingar og skoðanir sem henni tengjast. Ennfremur hlýtur markmiðið að vera að temja sér gagnrýna hugsun sem lífsviðhorf og stefna að þátttöku í samfélagsumræðunni. Réttnefnd gagnrýnin hugsun er ekki einungis getan til að taka við upplýsingum og greina þær. Hún er vani sem maður þarf að temja sér.

Enn eru þó margar spurningar opnar um gildi og gerð gagnrýninnar hugsunar. Orðabókaskilgreining­ar á sögninni að gagnrýna draga aðeins fram neikvæða athöfn, þ.e. að finna að eða að setja út á. Sem betur fer er lýsingarorðið „gagnrýninn“ jákvæðara að mati orðabókarhöfunda og er talið lýsa einhverjum sem er athugull á allar hliðar máls. Hvað nákvæmlega felst í því að „skoða allar hliðar máls“ er engu að síður nokkuð á reiki. Tengsl skapandi hugsunar við gagnrýna hugsun eru til dæmis eilíft rannsóknarefni. Margir fræðimenn vilja ekki gefa eftir það eðli gagnrýni að brjóta niður hið við­tekna. Þeir kalla eftir róttækum viðhorfsbreytingum þegar gagnrýnin hugsun er annars vegar. Og enn aðrir eru þeirrar skoðunar að það að skoða allar hliðar máls beri að taka bókstaflega; hugsun sé ekki gagnrýnin fyrr en öll starfsemi vitundarinnar sé lögð undir. Innsæi og ímyndunarafl skipti því jafn miklu máli og beiting rökhugsunar.

Ákallið um að vegur gagnrýninnar hugsunar verði að batna í skólakerfinu varð nokkuð hávært eftir þær hremmingar sem áttu sér stað í íslensku samfélagi árið 2008. Skýrsla Rannsóknarnefndar Al­þingis varpaði skýru ljósi á hvernig veruleikinn á það til að koma í bakið á þeim sem ekki hafa tamið sér að hugsa um mál á gagnrýninn hátt. Það er þó erfitt að koma auga á hvernig eigi að svara kröfu um að Íslendingar verði gagnrýnni í hugsun þegar menntakerfið byggist ekki, og hefur aldrei gert, á því að efla hæfni nemenda í að hugsa um veruleika sinn. Gagnrýnin hugsun á sér rætur í heimspeki. Þó að gagnrýnin hugsun sé í raun sú hugsun sem allar fræðigreinar og menntir vinna eftir þá er það heimspekin sem best getur svarað því kalli að leiða starf til þess að efla kennslu gagnrýninnar hugsunar. Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa nýlega sett af stað verkefni sem ætlað er að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði á öllum skólastigum.

Krafan um að staðhæfa ekkert nema að hafa einhvers konar haldbær rök fyrir því er ekki einungis vísindaleg krafa. Krafan er einnig siðferðileg. Ákveðnar hugsanareglur og æfingar geta auðvitað hjálpað okkur við að láta ekki blekkjast. Þjálfun í gagnrýninni hugsun gerir okkur hæfari í að takast á við verkefni sem reyna á rökhugsun og beitingu tungumáls. En mikilli hæfni fylgja einnig freistingar. Það er stutt skrefið frá rökræðu yfir í kappræðu; frá því að láta ekki blekkjast og til að freistast til þess að leika sér með trúgirni annarra. Siðfræðin hjálpar okkur til að þjálfa dómgreind okkar og hún hvetur okkur til þess að axla ábyrgð. Þekkingu og rökhæfni á ekki að beita af skeytingarleysi – það skiptir máli í hvað hugsun okkar er notuð.

Verkefni næstu missera er nákvæmari greining á tengslum gagnrýninnar hugsunar og siðfræði. Vissulega er, eins og áður sagði, siðferðileg afstaða að staðhæfa ekkert um menn eða málefni nema hafa fyrir því einhver rök. Og gagnrýnin hugsun liggur að baki raunverulegri hæfni okkar til að beita þekkingu á meðan siðfræðin hjálpar okkur að svara því hvar hæfnin á við. Og enn frekar blasir við að svör fást ekki við siðferðilegum álitamálum nema með yfirvegaðri rökræðu. Ekki er þó ljóst að þetta séu endanleg svör. Hver veit nema tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði byggist síður á mati á réttmæti skoðana og skýrleika hugsunar og því meira á því hvort við temjum okkur að hugsa á þolinmóðan hátt, þar sem nákvæmni í meðferð hugtaka, heiðarleiki og samkvæmni eru höfð í há­vegum. Raunveruleg gagnrýnin hugsun gæti því mögulega byggt á því að við viðurkennum hvar sönnunarbyrði liggur, gerum ekki öðrum upp skoðanir, spilum ekki með tilfinningar viðmælenda og sýnum hugrekki þegar við myndum okkur skoðun fremur en að hugsunin nái stöðlum hagnýtrar rökfræði.

Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun, ásamt Félagi heimspeki­kennara, héldu málþing í Háskóla Íslands þann 1. október síðastliðinn þar sem reynt var að svara því hvernig beri að kenna gagnrýna hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Um leið var opnaður vefur helgaður gagnrýninni hugsun ætlaður öllu áhugafólki um menntun. Heimspekivefurinn birti einnig sígilda grein Páls Skúlasonar „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Á næstu misserum er svo fyrirhugað að bjóða upp á fyrirlestra um gagnrýna hugsun og tengsl hennar við fjölmörg svið mennta og menningar. Einnig er ætlunin að gefa út fjölda aðgengilegra rita um gagnrýna hugsun og siðfræði. Í hugsun okkar er þegar öllu er á botninn hvolft líklega falin þau mestu verðmæti sem við eigum í okkar fórum. Kröfunni um að auka veg gagnrýninnar hugsunar í íslensku þjóðlífi verður vart svarað öðruvísi en með því að sem flestir þeirra sem að menntamálum þjóðarinnar koma taki höndum saman og gefi sér tíma til þess að svara því hvort ungt fólk sem gengur út í lífið eigi að geta hugsað á yfirvegaðan hátt um veruleika sinn og samfélag.

(Styttri útgáfa þessarar greinar birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 8. október 2011)

Ný þjónusta hjá Forlaginu

Prentað eftir pöntun (PEP) er ný þjónusta sem Forlagið býður upp á. Bækur, sem hafa verið ófáanlegar, er nú hægt að fá sérprentaðar í litlu upplagi. Í gegnum heimasíðu Forlagins er hægt að leggja inn pöntun og greiða fyrir bókina/bækurnar og fá þær síðan sendar heim. Afgreiðslu­tíminn er 7-10 dagar.

Heimspekivefurinn vill vekja athygli lesenda sinna á að Farsælt líf, réttlátt samfélag eftir Vihjálm Árnason og Að hugsa á íslenzku eftir Þorstein Gylfason eru meðal þeirra rita sem hægt er að sér­panta með þessum hætti.

Tilgangur lífsins

Eftir Henry Alexander Henrysson

I

Algengasta svarið við spurningunni hver sé tilgangur lífsins er án efa að slá henni upp í grín. Líklega höfum við öll séð myndabrandara þar sem síðskeggjaður vitringur situr einn upp í fjalli og snýr út úr spurningunni gagnvart örþreyttum og angistarfullum spyrjanda. Jafnvel Andrésblöð eiga sínar útgáfur. Það er eitt athyglisvert við þess konar afgreiðslu á spurningunni. Það er augljóst að stór hópur fólks telur ekki mikið vit í að eltast við hana. Það telur að okkur sé ekki ætlað að svara henni. Ég fylli hins vegar þann flokk sem telur að það sé vel hægt að velta henni fyrir sér. Það verði aftur á móti að varast að velja þær leiðir sem aldrei geta annað en veitt okkur annað en tómleika tilfinningu svipaða þeirri þegar langþráður hnerri rennur út í sandinn.

Það eru tveir kostir við að svara spurningunni hver sé tilgangur lífsins sem ber að forðast í lengstu lög. Sá fyrri er að reyna að svara henni með einstökum hugtökum eða skyndilausnum, sbr. „tilgangurinn er ást“. Inn á álíka leið kemur margs konar dulhyggja. Því miður er þetta sú leið sem margir feta þegar spurningin brennur á þeim. Á hinum endanum er fólk sem tekst á við spurninguna er reynir jafnframt að drepa henni (eða mikilvægi hennar) á dreif; s.s. með því að spyrja „hvað er átt við með ‘tilgangur’?“ Þetta er sú leið sem hefðbundin háskólaheimspeki hefur valið, ef hún á annað borð nennir að takast á við hana. Flestar kaffistofur heimspekikennara í vestrænum háskólum hafa orðið vitni að vandræðalegu flissi kennara sem rifja upp kjarkmiklar spurningar nemenda um merkingu og markmið mannlegs lífs.

Að vísu getur það nýst upp að vissu marki að velta fyrir sér hvað sé átt við með „tilgang“. Þannig er hægt að benda á misskilninginn sem getur komið upp ef við skiljum spurninguna á þann hátt að við eigum að leita eins og aðeins eins tilgangs. Það getur verið mjög villandi. Stundum er ekki síður mikilvægt að leita tilgangs í lífinu. Hamingjuleit er svipuð. Það eru margir litlir hlutir sem geta gert okkur hamingjusöm; sá sem leitar ávallt hamingjunnar sjálfrar getur auðveldlega farið á mis við slíka hluti. Og það geta einmitt verið sömu hlutir, eða gæði réttara sagt, sem fylla líf tilgangi. Þekking, vinátta, leikur og starf, fegurð og það að hugsa um þekkingu, vináttu, leik, starf og fegurð eru markmið í sjálfum sér sem gefa lífinu merkingu.

Hér að ofan var minnst á þá dulhyggju sem margir velja að fylgja. Þar á ég einnig við margs konar trú. Það er gjarnan að trúnni sem fólk snýr sér þegar það stendur frammi fyrir spurningunni. Fólk snýr sér svo að heimspekilegri leiðum þegar og ef trúin bregst. Sú heimspeki sem getur gagnast í þeirri leit er sú sem leitast við að skýra tilveru okkar og sjálfsmeðvitund. Í þessum skilningi er heimspekin leitin að skipulagi og tilgangi í allri þeirri óreiðu og tilviljunum sem við verðum vör við allt í kringum okkur í eðlilegri tilveru. Heimspeki sem fræðigrein bregst hins vegar gjarnan þessu hlutverki sínu, sbr. það sem sagt var um hefðbundna háskólaheimspeki hér að ofan. Þess í stað hefur heimspekin sem fræðigrein oft minnt á vitsmunanlegan kappleik þar sem leitað er að snoturri fléttu sem hefur lítið að segja fyrir það fólk sem leitar til heimspekinnar eftir svörum fremur en rannsókn að mögulegum svörum.

II

Öfugt við það hversu erfitt getur verið að henda reiður á hver sé tilgangur lífsins þá virðast menn eiga ákaflega auðvelt með að vera sammála um hvað sé tilgangslaust líf. Þetta tilgangsleysi sjáum við í því þegar lífið felst ekki í neinu öðru en einföldum verkefnum sem sífellt eru endurtekin án markverðrar niðurstöðu. Eða þá þegar menn njóta velgengni sem gerir ekkert nema að fylla hjarta þeirra af tómleika. Í framhaldi af þessu virðist það vera fremur borðleggjandi að leiða einfaldlega af þessu neikvæða viðhorfi annað jákvætt, þ.e. hvernig líf felur í sér tilgang. Sam­kvæmt þessari aðferð þá virðist tilgangur lífsins felast til dæmis í sköpun, þ.e. andstæðu endur­tekningarinnar. Eru það ekki þau sem beita sköpunarmætti sínum til að skapa gildishlaðna hluti, sem gætu ekki verið til öðruvísi, sem sýna okkur fram á hvað mannlegt líf snýst í raun og veru um? Hversu takmörkuð sem þessi niðurstaða er þá færir hún engu að síður grunn sem hægt er að byggja á.

Það eru til að minnsta kosti þrjú virðingarverð og ágæt svör við spurningunni um tilgang lífsins og koma þau öll fram sem andstæður við það tilgangsleysi sem minnst var á hér að ofan. Í fyrsta lagi sjáum við tilgang í því að ala af sér – og upp – afkomendur. Í öðru lagi lítum við upp til þeirra sem lifa skapandi lífi, t.d. farsælla listamanna. Við gerum okkur til dæmis grein fyrir að nöfn þeirra geta lifað lengur en nöfn jafnvel bestu tannlækna. Og í þriðja og síðasta lagi sjáum við ákveðinn tilgang í lífi fólks sem helgar líf sitt ákveðnum málstað eða málefni. Um slíkt líf leikur oft ljómi sem við dáumst að. Flestir viðurkenna til dæmis að án nokkurs vafa að líf Móður Teresu hafi verið innihaldsríkara en þeirra eigið, þrátt fyrir allar þær fórnir sem hún þurfti að færa fyrir því lífi. Ég tel ekkert þessara svara vera fullnægjandi, þó að ekki hvarfli að mér að hafna þeim; ég vil gjarnan láta þau leiða mig að öflugra svari þar sem þau eiga það öll sameiginlegt að ákveðinn þáttur í þeim krefst ítarlegri skoðunar.

Fyrst í stað skulum við bregðast við síðasta liðnum. Það er satt að maður getur gefið lífi sínu vissan tilgang með því að velja málefni sem maður vill helga sig. Á ævikvöldi er hægt að líta til baka og finna vissa fullnægju í því hvernig maður hefur eytt lífi sínu. Það sem er hins vegar athugavert við þetta viðhorf er að þessi tilgangur sprettur þá einungis af gildum manns sjálfs og að annað fólk getur haft sitthvað við þau að athuga. Líf sem hefur ekki verið helgað svo ákveðnum tilgangi þarf ekki að vera tilgangs- eða gildislaust. Þess vegna held ég að þau markmið sem menn setja lífi sínu geti verið ofmetin. Reyndar er allt eins líklegt að maður sem ekki hefur helgað líf sitt einu ákveðnu markmiði muni afreka meira og valda minni skaða á lífsleiðinni.

Ef við snúum okkur því næst að fyrsta svarinu þá er ekki hægt að neita því að barnauppeldi er gefandi svo ég tali nú ekki um að eiga þátt í því að skapa nýtt líf. Það er þó ekki þar með sagt að þetta skuli vera miðpunktur lífs okkar. Við eigum að krefjast lífs þar sem við setjum okkur sjálf í forsæti og þar sem þroskinn er okkar eigin svo lífið hafi einhvern tilgang. Öðruvísi er hætt við að við höfum hvort sem er lítið af okkur að gefa. Í framhaldi af því getum við litið á svar númer tvö. Það er almennt álitið að farsælir listamenn gefi mikið af sér til þess að bæta heiminn. Við dáumst að skapandi lífi listamanna og sjáum tilgang í lífsstarfi þeirra. En það ber að varast að leggja lífsstarf og líf einhvers að jöfnu. Spurningin „hver er tilgangur lífsins?“ snýst um hvernig ákveðinn ein­staklingur hagar lífi sínu. Það fer til dæmis ekki hjá því að okkur finnist eitthvað rotið (eða tilgangslaust) við líf margra listamanna, sama hversu stórfengleg sköpunarverk þeirra eru, ef þeir geta ekki svarað fyrir siðferðilegar gerðir sínar. Mesti durtur getur einnig horft upp á son sinn verða að prýðispilti án þess þó að það bæti upp þau ógæfuskref sem durturinn hefur stigið eða fylli ógæfu hans tilgangi.

III

Nú hef ég drepið á hvað ég tel vera athugavert við þau svör sem ég hef kynnt sem vinsælustu mögulegu svörin við spurningunni um hver sé tilgangur mannlegs lífs. Og hér að ofan minntist ég á hvers konar heimspeki gæti mögulega komist sem næst endanlegu svari við spurningunni. Að lokum langar mig því að til þess að rissa upp hvernig slíkt svar gæti litið út.

Eitt sinn spurði ég mér eldri og vitrari mann hvort hann vissi hver væri tilgangur lífsins. Hann hélt það nú. „Það er mikilvægast að gefa sér góðan tíma til þess að lesa sunnudagsblöðin og borða góðan mat“ var ráðið. Einhverjum kann að finnast þetta dæmi um útúrsnúning. Hver veit nema eitthvað sé til í því. Það sem er þó einmitt mikilvægast við alla leit að tilgangi lífsins er að ofmeta ekki grundvallaratriði mannlegs lífs þannig að þau hljóti að vera stærri og meiri en eitt stykki mannlegt líf. Sem mannverur komumst við vissulega ekki hjá því að leita eftir Tilganginum, einhverju svari sem nær yfir allt það sem brennur á okkur. Spurning sjálf virðist kalla eftir slíku svari. Í þess konar leit gleyma menn sér hins vegar og sjá ekki það sem liggur að fótum þeirra. Lífið verður okkur fyrst bærilegt þegar við förum að skilja og vera meðvituð um smáatriðin í lífi okkar; smáatriði sem verða svo óljós þegar við leitum að einhverju stærra. Grundvallaratriðið er svo sjálfljóst að við tökum ekki eftir því þegar stórt er spurt. Hér á ég við það grundvallaratriði að hver og einn sem spyr spurningarinnar um tilgang lífsins er á lífi. Hann er handhafi eins stykkis mannlegs lífs. Eins stykkis endanlegs mannlegs lífs, réttara sagt, sem um leið er svo óendan­lega dýrmætt þar sem það er eina lífið sem hverjum og einum áskotnast.

Við höfum aðeins einni skyldu að gegna við þetta líf og um leið er sú skylda tilgangur þess: Við eigum að breyta af skynsemi ef við ætlum að nálgast þau mögulegu gæði sem lífið býður upp á. Foreldri, listamaður eða sá sem hefur helgað líf sitt ákveðnu málefni lifir innihaldsríkara lífi með tilgang ef og aðeins ef viðkomandi leitast við að breyta skynsamlega. Líf foreldris sem virðir ekki rétt barns síns til þroska, líf listamanns sem hirðir ekki um tilfinningar þeirra sem næst honum standa og líf þess sem helgar sig aðeins einu verkefni sem getur jafnvel gengið á mannréttindi annarra hafa engan samhljóm með tilgangi mannlegs lífs. Það er vissulega flókið að gera sér grein fyrir því hvers vegna ranglæti er alltaf óskynsamlegt, en leitin að svari við þeirri spurningu er líka sú innihaldsríkasta sem fólk beitir skynsemi sinni í.

En hvað felst þá í því að „breyta rétt“? Hvernig finnum við hina réttu leið? Við þessu er að sjálf­sögðu ekkert einfalt svar en þó er ein almenn leið sem hægt er leggja upp með. Hversu óspennandi sem það hljómar þá hlýtur þetta að vera spurning um að feta einhvers konar meðalveg. Hér á ég við meðalveg milli þess að freistast til þess að veita sér sjálfsdæmi um siðferðileg málefni annars vegar og hins vegar að sættast gagnrýnislaust á viðtekin viðmið og huga aldrei að eigin velferð. Okkar eigin ánægja er besti áttavitinn til skynsamlegrar breytni svo lengi sem hún er ekki eini leiðarvísirinn. Það að hafa kjark til þess að feta þennan meðalveg sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, tilgangur lífsins.

(Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins þann 27. janúar 2001 og er hér endurbirt með ör­fáum breytingum)

Þekking og vissa: Hugleiðingar um tengsl þekkingar og listar

eftir Henry Alexander Henrysson

Fagurfræði átjándu aldar er ekki svið sem fagurfræðingar í samtímanum velta mikið fyrir sér.1 Þegar hún er borin saman við umbrot Endurreisnarinnar og fræðabyltingar seinni hluta nítjándu aldar verður sá hluti hennar sem snýr beint að listum nokkuð óspennandi. Fagurfræðingar vísa auðvitað til Alexanders Baumgarten, þess sem fyrstur setti heiti á fræðigreinina, einhverjir lesa David Hume, aðrir nota greiningu Immanuels Kant á smekksdómum sem upphafspunkt, en fáir gera þessa heimspekinga að höfuðpersónum í sínum rannsóknum. Lykilverk sem greina sögu þessa tímabils, s.s. Listkerfi nútímans eftir Paul Oskar Kristeller2, eru vissulega alltaf í umferð, en almennt má fullyrða að varla nokkur maður skrifi um sjónlistir, bókmenntir og tónlist í dag án þess að styðjast fyrst og fremst við kenningar sem voru settar fram að minnsta kosti hundrað og fimmtíu árum eftir að Baumgarten skrifaði sín helstu verk. Eftirfarandi hugleiðingar eru ekki greinargerð um fagurfræði átjándu aldar. Ég hef hins vegar oft reynt að svara áhugaverðum fagurfræðilegum spurningum með því að styðjast við þær hugmyndir sem flutu um í Upplýsing­unni, m.a. vegna þekkingarleysis á hugmyndastraumum seinni tímabila. Spurningin um tengsl þekkingar og listsköpunar er ein slík.

Þekkingarfræði er ekki grein sem auðvelt er að fara yfir á hundavaði – sérstaklega ekki sögulega. Helstu spurningarnar og vandamálin, þ.e. samanburðurinn á skynhæfi og hugsun sem byggir á hugtökum, spurningin hvort öll þekking sé skynþekking og þar með eins ótrygg og hún, að­greiningin á sjálfsveruhyggju og afstæðishyggju, athugunin á því hvort þekking sé „sönn full­yrðing“, rannsóknin hvernig þekking geti verið uppspretta rangra fullyrðinga, skoðunin á sam­bandi almennra hugtaka við hið einstaka, efasemdirnar um hvort hægt sé að vita eitthvað án fullrar vissu og upptalningin á frumforsendum hugsunarinnar, eiga það til að hlaupa í skjól undan rannsakandanum. Þekkingarfræðin er þó ekki beint full af leyndardómum – þvert á móti. Í henni má finna grunnatriði sem hvert barn skilur. Það fær mann oft til að trúa því að mörg kunn stef þekkingarfræði samtímans séu í raun óþarfur vandi tilkominn vegna pasturslítilla hugtaka. Til dæmis má efast – þetta á ekki að verða neitt aðalatriði í þessum hugleiðingum – um hvað hugtak eins og „þekkingarsköpun“ á að fyrirstilla. Margir sem vilja greina tengsl þekkingar og sköpunar í samtímanum gera það með því skeyta hugtökunum saman. Hvað varð þá um hina sígildu hjálparsagnir að öðlast, leita, afla? Hin fræðilega aðferð skapar ekki þekkingu; greining hugtaka, samanburður hugtaka og hugmynda, og rökfærslur fyrir túlkun, lestri eða kenningu er ekki sköpun. Jafnvel á nýöld gátu menn verið sammála um eitt: Þekkingin verður annað hvort til eða ekki. Í því ljósi eru það kannski í mesta lagi kennisetningar og tilgátur sem við sköpum. En þegar ég hef nefnt þetta við vini mína, m.a. úr listageiranum, hafa þeir frekar gefið í skyn að hér væri um takmarkanir mínar að ræða en ekki þekkingarsköpunar-hugtaksins.

Þegar maður hugleiðir fagurfræði af sjónarhóli átjándu aldar getur maður leyft sér að vera ein­faldur og talið samband þekkingar og lista laust við allan leyndardóm. Sambandið má orða á þann veg að listaverk sem eitthvað er spunnið í miðli þekkingu. Listaverkið miðlar vitnisburði um heiminn, veru mannsins, sjálfið og samband verunda. Slík þekking er stundum nefnd frum­spekileg þekking. Hvernig listamaðurinn öðlast þá þekkingu þarf hvorki að tengjast listinni sjálfri né þeirri vísindalegu aðferð sem sautjánda öldin gaf okkur. Þegar horft er til baka yfir hinar þekkingarfræðilegu deilur sem nýöld gaf vestrænni sögu má gera ráð fyrir að allt lífshlaupið sé undir, persónulegt og sameiginlegt. Mönnum hættir stundum til að gera annað hvort of mikið eða of lítið úr muninum á vísindum og listum. Í fyrra tilvikinu verður til ákveðin tvíhyggja um hið andlega svið. Slíkt getur ekki staðist. Þetta svið líkist mest litrófi. Milli skynjunar á einum endanum og hreinnar rökvísi á hinum má finna reynslu, geðshræringar, stemningar, viðhorf, afstöður og skoðanir. Þetta „róf“ skýrir einnig hvers vegna ekki má þröngva ólíkum sjónarhornum upp á hvort annað. Vísindi og listir eru sem sagt sitt hvor hluturinn og eiga sín svið. En það er einnig ljóst að þessi svið dekka ekki raunveruleikann. Ég fæ ekki séð að Endurreisnin, þrátt fyrir að þar megi oft finna fremstu vísindamennina og listamennina í sama manninum, sýni fram á neitt annað, eins og oft er reynt að nota sem dæmi.

Reyndar er það kunnuglegur undirtónn í margs konar hugvísindum að eitthvað hafi glatast við vísindabyltingu sautjándu aldar og svo enn frekar við Upplýsinguna sjálfa. Í sambandi við listir má kannski orða þetta sem svo að þær hafi fengið sinn stall, settar þangað af heimspekingum, sem sumir hverjir gerðu það í framhaldi af þekkingarfræðilegum og frumspekilegum greinargerðum, en um leið verið skildar eftir á þessum stalli. Flestir vita að „listin“, þ.e. hugtakið sjálft, var auðvitað lengi þekkingin sjálf. Hún var kunnátta (þekking), en varð tjáning (hæfileikar). Líklega má segja sem svo að eitt helsta framlag átjándu aldar til fagurfræði hafi verið að festa þá umbreytingu í sessi. En sú saga snýst mikið til um orðaskýringar. List sem tjáning hefur verið til mjög lengi, en það er hlutverk mannfræðinnar en ekki heimspekinnar að segja hversu lengi.

Þessar hugleiðingar voru að nálgast ákveðinn þráð að ofan: Hvað með listir sem miðlunartæki þekkingar? Hér verður ekki greint á milli listgreina; varla er hægt að tala um mismunandi listgreinar – hugtakið er galopið enda þótt mismunandi fullyrðingar geti átt við hverja listgrein fyrir sig. Í sjálfu sér er spurningin hvernig tæki listir eru ekki mest spennandi. Það hafa komið fram fá haldbær rök fyrir því að list færi okkur sérstaka þekkingu sem aðeins fæst með sköpun; en það er þó ekki þar með útilokað að slík þekking sé möguleg. Hér verður einungis litið á miðlun þekk­ingar í listum sem staðreynd – byggða á reynslu. Og þessi miðlun á sér tvenns konar sjónarhorn. Annars vegar tengist hún upplifunum listamannsins. Hvaða listamaður kannast ekki við að setja fram þekkingu eða skilning sem hann eða hún hafði enga tilfinningu af áður en vinna við verk hófst? Hvaða listamaður kannast ekki við að hafa varpað fram spurningum sem hafa aldrei leitað á hann eða hana áður en vinna við verk hófst? Svo er það hitt sjónarhornið. Viðtökur þessarar miðlunar eru meira spennandi því þær verða svo oft efniviður í þann hugarheim sem aftur skapar önnur verk.

Viðtökur byggja öðru fremur á því að verk fái hljómgrunn sem listaverk. Slíkur dómur, á átjándu öld var talað skammlaust um „smekksdóma“, verður í dag til við flókið samspil listasögu/hefðar, sýningastjóra/gagnrýnenda, og samspil listamanns við, a.m.k. suma, njótendur. Með öðrum orðum, þekking í listaverki kemst ekki til skila nema það sé þekkt sem listaverk. Annars fellur hún dauð niður. Þetta er ekki beint vegna þess að verkið þykir ljót list eða vond list. Slíkir merkimiðar eru ekki nákvæmir. Dómurinn sem listamenn óttast mest er að verkið þyki vitlaust. Helsti tilvistar­kvíðinn sem fylgir hverju sköpunarverki er í daglegu tali kallaður „að það hafi ekkert fram að færa“.

Til að fyrirbyggja misskilning og stilla af sjónarhorn þessara hugleiðinga má benda á að þegar talað er um vitið í verkinu þá er ekki verið að vísa í siðferðilegan eða pólitískan boðskap verka – eða tískuboðskap. List er ekki siðferðileg, pólitísk eða tískubundin. Hvorki réttlæti né axlapúðar er list. Verufræði þess er um eitthvað allt annað, eitthvað miklu einfaldara: Um heiminn, veru mannsins; eitthvað sem þekkist án langra útskýringa. Listunnandi annað hvort nær verkinu, eða nær því ekki. Það þurfa ekki allir að ná því, en einhver verður að gera það.

Fagurfræði byggir ekki (ekki frekar en viðfangsefni sitt) á tilfinningum einum saman. Huglægir – ekki endilega rökrænir – þættir spila inn í gerð lista og mat á list; þættir sem eru annars eðlis en það sem við kennum við tilfinningar. Hér á engin tvíhyggja við. Okkur hættir til að greina á vitlausan hátt á milli fræða um staðreyndir annars vegar og listheiminn hins vegar. Listamenn eiga það til dæmis til að renna stoðum undir harðasta pósitívisma: Það sem við getum ekki sett fram sem staðreyndir sé eingöngu viðfangsefni listarinnar. En slík raunhyggja var ekki til fyrr en á nítjándu öld og hún náði sér ekki á strik fyrr en á þeirri tuttugustu. Það er ekki hægt að skrifa algenga aðgreiningu lista og fræða á Upplýsinguna.

Að þekkja listaverk – og þar með þekkinguna sem í þeim býr – er eins huglægt ferli og nokkuð getur verið. Vandamálið er bara að „taka til“ í vitundarlífinu og gera sér grein fyrir hvaða þættir þess koma við sögu. Skoðanir geta til dæmis verið ákveðin gerð vitundarstarfs, sem þarf að greina frá geðshræringum og tilfinningum. Og jafnframt má greina að reynslu og skynjanir í meðvitundinni. En skoðanir eru ekki lausar við einhvers konar grundvöll. Francis Hutcheson spurði til dæmis í mikilvægu verki hvort skilyrðing sé möguleg: Er hægt að segja einhverjum að hafa skoðun á listaverki? Hann svaraði því neitandi þrátt fyrir að færa römm rök fyrir því að smekksdómar væru eingöngu huglægir.3

Hér þarf að draga fram fyrirbæri sem Hutcheson, og síðar landi hans David Hume, gerðu að aðalatriði en þykir kannski ekki endilega aktúelt í dag: Næmi.4 Hér er ekki átt við nýaldarskilning á geníus eða virtúós, heldur bara almennt hugtak sem útskýrir upp að vissu marki hvers vegna listheimurinn er mögulegur. Hann er mögulegur vegna þess að ákveðinn hluti fólks hefur til að bera milliliðalausan skilning, næmi, á því sem listin miðlar. Hér spilar líka margt annað en eðli þessa næmis inn í, ekki síst hagsmunaleysi, eins og Kant benti á.5 „Ábyrgð“ og „traust“ eru önnur hugtök sem skipta máli – líkt og í hvaða þekkingarumhverfi sem er. Þau eru reyndar sjaldan eins mikilvæg; loddaraskapur er hvergi eins mögulegur og í listheiminum.

Listheimurinn er ekki mögulegur nema vegna þess að sumir vita betur. Hann sprettur beinlínis upp úr þeirri staðreynd. Þetta er auðvitað elítismi, en það er erfitt að sjá hvernig hægt er að komast hjá þessari skoðun. Það er heldur ólíklegt að við fæðumst uppfull af fagurfræðilegu næmi; það þarf að þroska og þjálfa á annan hátt en nautnaseggurinn viðheldur sínu góða nefi og auðkitlandi bragðlaukum. Fagurfræðilegar skoðanir, smekksdómar, eru einhvers konar verkleg skynsemi. Listamaðurinn er ekki vísindamaður og listaverkið er ekki uppfinning, en það er ekki þar með sagt að listin sé þar með handan þekkingarfræðilegrar samræðu. Í grunninn setur bæði listamaðurinn og listnjótandinn fram sama hlutinn, þ.e. kröfu um að aðrir séu sammála. Sú krafa er hins vegar ekki sett fram af frekju, heldur af vissu.

Neðanmálsgreinar

1. Þessi grein er byggð á erindum um fagurfræði. sem ég hef haldið undanfarin ár við margs konar tækifæri. Má þar t.d. nefna ljómandi málfund sem haldin var í maí 2010 í Listasafni Árnesinga í tilefni sýningarinnar Að þekkjast þekkinguna. Ég þakka margs konar athugasemdir sem komu fram við það tilefni, en get þó ekki ábyrgst að allar hafi ratað í eftirfarandi hugleiðingar.

2. Verk Kristellers er til í íslenskri þýðingu Gunnars Harðarsonar; Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2005.

3. Sjá verk Hutcheson frá árinu 1725 sem nefnist An Inquiry into the Original of our Ideas of Beauty and Virtue in Two Treatises.

4. Sjá ritgerðina „Um mælikvarðann á smekk“ í þýðingu Gunnars Ragnarssonar sem birtist í Hug 18, 2006, sérstaklega bls. 32–35. Ritgerðin birtist fyrst árið 1757.

5. Sjá til dæmis 4. grein í Gagnrýni dómgreindarinnar [Kritik der Urteilskraft] frá árinu 1790.