eftir Óttar M. Norðfjörð
Þessi fyrirlestur er unninn upp úr lokaritgerð minni „Heimspeki Hávamála“ í heimspeki við Háskóla Íslands og skiptist í þrjá hluta: (1) Fyrst verður fjallað um mögulegan aldur „Hávamála“ og uppruna þeirra, (2) Síðan verður fjallað um hvernig fræðimenn hafa tekið á „Hávamálum“ í gegnum árin (3) og loks verður framlag mitt til fræðanna útskýrt.
1.
„Hávamál“ eru að mestu ort undir ljóðahætti. Hátturinn einkennist af sex ljóðlínum, sem eru lausar við málskrúð og yfirleitt með eftirminnilegu spakmæli í þriðju og sjöttu ljóðlínu. Ljóðin eru lögð í munn Óðins og skiptast í tvennt: annars vegar veraldleg boðorð sem dauðlegir menn geta fylgt (v. 1-137) og hins vegar göldrótt boðorð sem eru dulin dauðlegum mönnum (v. 138-163).
Mikið hefur verið skrifað um hvar og hvenær „Hávamál“ urðu til. Fræðimenn skiptast fyrst og fremst í tvo hópa: þeir sem telja þau norsk og ort fyrir árið 1000, og hinir sem telja þau íslensk og ort eftir árið 1000. Eitt af því fáa sem við vitum fyrir víst í þessum efnum er að „Hávamál“ er aðeins að finna í íslensku handriti sem nefnist Konungsbók Eddukvæða, skrifað um árið 1270. Þar koma „Hávamál“ næst á eftir „Völuspá“ í upphafi handritsins, en það sýnir okkur mikilvægi þeirra fyrir þann sem safnaði Eddukvæðunum saman. Það er of langt mál að rekja deiluna um uppruna „Hávamála“ hér, enda ætla ég að fjalla um hugtakakerfið í kvæðinu. Ég læt mér því nægja að nefna tilgátu mína varðandi uppruna þeirra.
Eins og ég sé málin hafa vísur „Hávamála“ ýmist verið settar saman úr þekktum kviðlingum eða ortar með hliðsjón af tilteknum þjóðfélagsháttum eða náttúrueinkennum. Þannig finnum við vísanir í írska þjóðsögu, norska staðarhætti, færeyskan kviðling, latneska tengiorðið „sic“ og ýmislegt fleira í kvæðinu. Kvæðið er því rammlega háð allri norðurálfu, því landsvæði sem menn á norðurhjara veraldar sigldu um. Rætur „Hávamála“ er því ekki hægt að rekja til eins lands, heldur landsvæðis, og þá líklega sérstaklega Noregs sökum margra orða og orðasambanda sem virðast vísa þangað, þótt ég telji nokkuð öruggt að fullyrða að kvæðið hafi fengið sína lokamynd og mót á Íslandi.
Hvað varðar aldur kvæðisins, þá verðum við fyrst að huga að aldri hvers flokks fyrir sig, en „Hávamálum“ eru jafnan skipt í sex flokka: (1) Gestaþátt (v. 1-83), (2) Billings meyjar þátt (v. 84-102), Gunnlaðarþátt (v. 103-110), Loddfáfnismál (v. 111-137), Rúnatal (v. 138-145) og Ljóðatal (v. 146-163). Fræðimenn hyggja einkum að tungutaki hvers þáttar til að grafast fyrir um aldurinn, en þá virðist koma í ljós að síðustu tveir flokkarnir, Rúnatal og Ljóðatal, séu ortir á fyrri hluta 9. aldar, að Billings meyjar þáttur og Gunnlaðarþáttur séu ortir á 12. öld, að Loddfáfnismál sé samansafn svo margra vísa að það sé í raun ógjörningur að greina aldur þess með nokkurri nákvæmni, og að Gestaþáttur – sem er líklega þekktasti flokkur „Hávamála“ – sé ortur eða „safnað saman“ einhvern tíma eftir árið 1000.
Áhugaverðari spurning um aldurinn tengist þó aldri kvæðasafnsins sjálfs, hvenær flokkunum var safnað saman og þeir látnir mynda eina heild eða heildstæðan kvæðabálk, auk spurningarinnar um hver safnaði þeim saman, en Snorri Sturluson hefur meðal annars verið nefndur í því samhengi. Ég get ekki farið út í þá áhugaverðu umræðu hér og skil ykkur aðeins eftir með tilgátu mína, sem er sú að „Hávamál“ sem kvæðasafn hafi orðið til á tímabilinu 1220-70, eða á milli ritunarSnorra-Eddu og Konungsbókar Eddukvæða.
2.
Þá höfum við útskýrt lítillega mögulegan uppruna og aldur „Hávamála“, svo við höfum ögn skýrari mynd af kvæðinu. En nú skulum við færa okkur nær innihaldi þess, að þeirri heimspeki sem þar birtist. Ég vona að ég móðgi engan þegar ég segi að mér virðist að flestir fræðimenn sem hafa skrifað um „Hávamál“ sé lítið umhugað um að útskýra heimspeki kvæðisins á fræðilegan hátt. Það er í raun ótrúlegt hversu lítið hefur verið fjallað um heimspeki „Hávamála“ á fræðilegan máta, því í rannsóknum mínum rakst ég fyrst og fremst á greinar og bækur um aldur þeirra, uppruna og merkingu tiltekinna orða eða orðasambanda.
Þegar fræðimenn skrifa hins vegar um heimspeki „Hávamála“, þá einkennast þau fyrst og fremst af upptalningu á þeirri heimspeki sem þar birtist, frekar en að mat sé lagt á hana eða þá að reynt sé að grafast fyrir um einhvers konar heimspekilega heildarmynd innan kvæðisins. Þó skal tekið fram að Guðmundur Finnbogason, Símon Ágústsson og Hermann Pálsson hafa allir lagt sig fram við að útskýra heimspeki kvæðisins á nokkuð fræðilegan máta, enda studdist ég mikið við skrif þeirra.
Með því að styðjast við hugmyndir þeirra, auk annarra, ásamt eigin hyggjuviti, reyndi ég að greina undirtexta kvæðisins, svo að segja, í því augnamiði að reyna að finna hvort það væri einhver tiltekinn boðskapur boðaður í kvæðinu. Vegna þessara nálgunar að „Hávamálum“ leiddi ég hjá mér hefðbundna sex flokka skiptingu þeirra, og bjó til mína eigin tvo flokka: sígildan og sérgildan. Sígildi flokkurinn varðar boð um ákveðin lífsgildi sem virðast hvorki bundin stað né stund, heiðni eða kristni, heldur virðast þau eiga jafn vel við í dag og fyrir 1000 árum. Sérgildi flokkurinn varðar hins vegar boð um lífsgildi og hefðir sem virðast bundin þeim stað og stund sem þau spruttu af. Kvenfyrirlitning, rúnir og galdrar í „Hávamálum“ eru dæmi um sérgildar hugmyndir í þessum skilningi. Ég þarf varla að taka fram að í rannsókn minni beini ég sjónum mínum að sígilda flokkinum.
Við getum sagt að nálgun mín að heimspeki „Hávamála“ sé analýtísk, því ég reyni að greina boðskap hverrar vísu eða vísubrots, óháð stöðu þess innan kvæðisins, en þannig tengi ég saman vísur sem eru ekki endilega hlið við hlið í kvæðinu, heldur sem tengjast hugmyndafræðilega. Ég las kvæðið ítrekað yfir og merkti við hvað hver vísa eða vísubrot væri að koma til skila. Þannig sýnir ein vísa að líf manns sem er vitur er betra en þess sem er óvitur, og önnur sýnir að líf manns sem á vini er betra en manns sem á enga vini. Með því að greina kvæðið með þessum hætti, óháð stöðu ákveðinna vísa, kemst boðskapurinn betur til skila að mínu mati, því þá er hver vísa lesin í ljósi ákveðins hugtaks eða sem leið til að koma áleiðis tilteknum skilaboðum.
3.
Með slíkum rökgreinandi lestri á „Hávamálum“ sést fljótlega að höfundur þess – eins og ég nefni hann hér þrátt fyrir að réttara væri að tala um höfunda þeirra þar sem kvæðasafnið er samansafn og afrakstur nokkurra alda og vafalaust margra manna – er að boða tiltekinn lífsmáta sem á að leiða til sæluríks lífs. Sæla er það lífsmarkmið sem „Hávamál“ boða. Hugtakið merkir þó ekki einskæra gleði – tímabundið fallvalt tilfinningaástand – heldur langvarandi, jákvæða sálarvirkni sem erfitt er að öðlast og erfitt er að breyta. Sæla merkir heill eða hamingja mannsins. Höfundurinn fjallar um fjögur hugtök sem eiga að leiði til sæluríks lífs. Þetta eru hugtökin ‘snotur’, ‘sjálfræði’, ‘vinir’ og ‘gleði’. Þessi fjögur hugtök koma reglulega fyrir sem fyrirbæri sem einstaklingurinn ætti að stefna að.
Guðmundur Finnbogason taldi einnig að sæla væri það markmið sem boðað er í „Hávamálum“, svo ég tek augljóslega undir tilgátu hans í rannsókn minni, en skipti hins vegar hugtakinu í tvennt og tala annars vegar um ytri sælu og hins vegar um innri sælu. Ytri sæla varðar sýn annarra á mig, þau ytri gæði sem manni getur hlotnast. Þannig er boðað að virðast ekki heimskur innan um gáfaða menn og að maður passi upp á að skaða ekki orðstír sinn, því hann einn mun lifa lengur en maður sjálfur. Innri sæla varðar aftur á móti mitt persónulega sálarlíf, sálarró einstaklingsins og hamingju. Hér skipta vísurnar um vini og vandamenn og sýn höfundarins á gleði miklu máli. Mikilvægt er þó að hafa í huga að báðar útgáfur sæluhugtaksins eiga sér sömu fjórar lykilforsendurnar sem ég minntist á að ofan. Góður orðstír og hamingja tengjast þannig órjúfanlegum böndum, enda er ásókn í góðan orðstír ásókn í hamingju, og öfugt, því sömu forsendur liggja að baki. Munurinn á hugtökunum liggur fyrst og fremst í mismunandi viðfangsefnum. Innri sæla snýr að hinu einstaklingsbundna sálarlífi, ytri sæla snýr að hinu opinberlega samfélagi. Tvískipting sæluhugtaksins útskýrir því hvernig einstaklingurinn og samfélagið tengjast í hugskoti höfundarins, enda er heill mannsins snertiflöturinn.
Guðmundur Finnbogason taldi tvö skilyrði liggja að baki hinum sæla manni, vinir og að vera snotur, en ég tiltek tvö til viðbótar eins og áður segir, sjálfræði og gleði. Þessi fjögur skilyrði sælu eiga sér svo önnur skilyrði og forsendur, sem við sjáum með því að greina innihald vissra vísna. Þá sjáum við hvað einstaklingurinn þarf að gera til að flokkast sem sjálfráða eða snotur. Með öðrum orðum, frumskilyrðin fjögur eiga sér önnur skilyrði, og sum enn önnur. Með slíkum lestri á „Hávamálum“, það er að segja, með því að reyna að finna undirtexta kvæðisins og greina hann með því að bera saman vísur og hugmyndir sem birtast í þeim gat ég því loks teiknað upp hugtakakerfi eða skema af því sem ég tel að höfundur „Hávamála“ sé að reyna að koma á framfæri.
I. Fyrsta lykilforsenda sælu samkvæmt hugtakakerfi „Hávamála“ er skynsemi, þó með þeim fyrirvara að það tiltekna orð er aldrei notað í „Hávamálum“ sjálfum, heldur ýmis samheiti. Það sem vekur hins vegar eftirtekt er að orðið snotur er langalgengast allra þessa samheita, hvort sem því er beitt einu og sér eða í samsetningunum al-, meðal-, ó- eða ráðsnotur. Hugtakið virðist raunar gegna hlutverki eins konar samnefnis yfir skynsemisþætti einstaklingsins, enda er því beitt fyrir allt í senn, að hafa mannvit eða geð sitt, að vera vitur, fróður, horskur, snjall, svinnur eða spakur.
Til þess að öðlast frekari skilning á þeirri merkingu sem fornmenn lögðu í orðið snotur er nauðsynlegt að skoða Snorra-Eddu, en þar er gyðjunni Snotru lýst sem vitri, kurteisri og hóflátri. Hugtakanotkunin í „Hávamálum“ virðist svipuð, enda er orðið snotur jafnan sett í samhengi við einhvern af ofangreindum mannkostum, auk þess sem þeir tengjast innbyrðis í vísum kvæðisins. Þessir mannkostir eru því forsendur þess að vera snotur og þar með forsendur þess að vera sæll.
Í lokaritgerð minni eyði ég miklu púðri í að sýna fram á þessi tengsl, það er að segja, hvernig vitið, kurteisin og hófsemin eru boðuð sem eftirsóknaverðir eiginleikar sem einstaklingurinn ætti að sækjast eftir vilji hann teljast snotur. Í þeirri umræðu tala ég mikið um áhersluna á rétta beitingu vitsins, enda er vitið álitið fyrsta skilyrði þess að teljast snotur. Ég tala jafnframt um forsendu þess að geta beitt viti sínu rétt, sem er að hafa eitthvert vit til að beita, og í því skyni fjallar höfundurinn um ræktun vits, en hann mælir með ferðalögum, samræðum og athygli í því skyni. Í þessari umræðu er einnig skoðað það sem sagt er um ósnotra menn og hvernig þeir skaða bæði ytri sælu sína og innri sælu sína sökum heimsku sinnar, til dæmis með því að segja eitthvað heimskulegt og þannig skaða orðstír sinn, eða þá að vera ófærir um að velja sér viðeigandi verkefni í lífinu og stuðla þannig að innri ósælu.
Háttprýði er önnur forsenda þess að vera snotur. Hugtakið táknar bæði í senn, almenna kurteisi og þá siðspeki sem réð ríkjum við tilurð kvæðisins. Hin ókurteisi maður í „Hávamálum“ minnir því einnig á siðlausan mann, enda eru mannsiðir og siðferðishvatir álitin af sama meiði. Í greiningu minni eru hófsemi og jöfnuður forsenda þess að geta talist háttprúður, og vísa ég til nokkurra vísna í því samhengi. Nægir þar að nefna v. 17, þar sem við fylgjumst með ókurteisum manni sem glápir og blaðrar og heldur ekki í heiðri þá kurteisi að leyfa öðrum að komast að, en slíkt er bæði merki um óhóf í tali og ójöfnuð í garð viðmælenda sinna. Í vísunum um háttprýði kemur einnig fram að maður skal ekki tala niður til fátækra og þurfarmanna, heldur skal maður sýna þeim gestrisni, því það eykur ytri sælu manns. Níska skaðar aftur á móti orðstír manns, sama hver þiggjandinn er sem á í hlut.
Þrátt fyrir að hófsemi sé önnur forsenda háttprýði, þá gegnir hún svo veigamiklu hlutverki í hugtakakerfi „Hávamála“ að hún er einnig þriðja og síðasta forsenda þess að vera snotur. Hófsemi býr raunar að baki mörgu í „Hávamálum“ og sést mikilvægi hennar einna best í því að hún trónir yfir sjálfu vitinu, þeim mannkosti sem lofsamaður er einna mest í kvæðinu. Mér virðist að það sé gerður greinarmunur á tvenns konar hófsemi: efnislegri hófsemi og andlegri hófsemi. Undir hið fyrra flokkast ofdrykkja, ofát og of mikil auðsöfnun. Undir hið síðara flokkast ofmælgi og ofvit, en allt að framan er talið þurfa vera í hófi í vísum kvæðisins, annars skaðast sæla einstaklingsins, hvort sem við víkjum að ytri sælunni eða hinni innri. Dæmið af ofáti sýnir raunar vel hvernig tvískipting sæluhugtaksins er hugsuð, en sá sem étur yfir sig skaðar bæði hina innri sælu með því að koma líkamanum úr jafnvægi og hina ytri sælu því hann verður skotspónn hinna gestanna, enda minnir slíkt háttalag frekar á skepnu en manneskju, eins og vísa 21. fjallar um. Annað dæmi væri hóf í tali, en það er gott bæði vegna þess að það stuðlar að þroska manns (innri sælu) og vegna þess að orðstír manns eykst (ytri sæla).
II. Þetta eru því hinar þrjár forsendur þess að teljast snotur, vit, kurteisi og hófsemi, sem maður þarf að uppfylla vilji maður eiga einhverja von um að eiga sæluríkt líf samkvæmt kvæðinu. Önnur lykilforsenda sælu er sjálfræði. Gildi sjálfræðisins sést einna best í því að í „Hávamálum“ er ekkert fjallað um ósjálfráða menn, heldur aðeins frjálsa menn sem eru sjálfráðir í vali sínu. Þetta virðist raunar skýra hvers vegna svo sjaldan er vikið að sjálfræðinu í „Hávamálum“ – allt kvæðið er sniðið að frjálsum, jöfnum mönnum. Það er því eiginlega gert ráð fyrir því að einstaklingurinn sem les það sé sjálfráða, þótt það sé tekið fram í v. 8 og 9 að það sé forsenda sælu.
III. Vinir og vandamenn eru þriðja nauðsynlega skilyrði sælu í „Hávamálum„. Umfjöllunin um þá er mjög víðtæk, allt frá persónulegum vísum um mikilvægi þeirra til kaldlyndra vísna um hagnýti þeirra. En það er ekki aðeins fjallað um vini og vandamenn í „Hávamálum“, heldur einnig óvini og böl þeirra.
Samkvæmt greiningu minni flokkast þessar vísur undir þrjá flokka, vísur um vini, vísur um ættingja og fjölskyldu og vísur um maka.
Vísurnar um vini virðast fyrst og fremst tengjast innri sælu, að manni líður vel í góðra vina hópi, á meðan vísurnar um ættingja varða fremur ytri sælu, en því er haldið fram að maður lifi áfram í vitund niðjanna eftir daga manns og allra sem til spyrja, því að þeir muni halda minningu manns á lofti, sama hver hún er. Þetta er því annar boðskapur en kemur fram í hinum margfrægu v. 76 og 77, sem hefjast á orðunum „Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama“ og fjalla einnig um hinn ódauðlega orðstír, því formerkin hér eru þau að sé orðstírinn góður, þá lifi hann áfram óháð niðjum manns. Þó skal tekið fram að einnig er minnst á slíka gagnsemi í vísunum um vini, en þá er sagt að maður ætti að velja sér vini sem tala vel um mann við aðra, svo ytri sæla manns og orðstír megi vaxa.
Vísurnar um maka varða ástina, hvernig hún geti rænt mann öllu viti. Því er raunar haldið fram að elska engan sé líkt og versti sjúkleiki.
IV. Síðasta lykilforsenda sælu er gleði, eða lífsgleði réttara sagt. Kuldinn í „Hávamálum“, ef við getum nefnt það svo, víkur fyrir vísunum um hana. Forsendur gleði eru annars vegar rétt beiting vits og hins vegar hin svokallaða lífsást.
Með því að tengja saman hugmyndina um rétta beitingu vits og lífsgleði sýnir höfundur „Hávamála“ þá skoðun sína að gleði sé að miklu leyti háð vitinu, því hvort við þekkjum sjálf okkur og umheiminn í kring (sjálfsskyn) og hvort við veljum viðfangsefni í lífinu sem eru ekki líkleg til þess að draga úr lífsgleði okkar (gildisskyn).
En lífsgleði næst ekki aðeins með fullnægju skynsamlegra óska, enda gæti slíkt reynst sljóvgandi til lengdar, og mælir höfundurinn því einnig með því sem ég kýs að kalla ‘lífsást’. Í hugtakinu felst einfaldlega að maður skuli ávallt vera glaður á meðan maður er á lífi, sama hvernig ástatt er hjá manni, því aðstæður gætu alltaf verið verri – maður gæti verið látinn. Í v. 15 er þetta orðað skýrt: „Glaður og reifur / skyli gumna hver / uns sinn bíður bana.“ Sú hugsun að lífið séu gæði í sjálfu sér á rætur sínar að rekja til tveggja þátta sem búa að baki en lítið fer fyrir í kvæðinu, en það eru vísur sem tengjast hverfulleika lífsins og nytsemd lífsins. Þessar tvær staðreyndir, að maður sé á lífi í hverfulum heimi og öðrum til einhvers nýtilegur, eiga að nægja að styrkja lífsástina í brjósti manns og þar með gleði manns og sælu.
Þá eru fjórar grunnforsendur í hugtakakerfi „Hávamála“ upptaldar. Sá sem er snotur, sjálfráða, á vini og vandamenn og gleðst yfir lífinu verður sæll samkvæmt því. Þessar fjórar frumforsendur eiga sér svo undirforsendur eins og hófsemi, jöfnuð og ræktun vits, svo dæmi séu tekin. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki flókin heimspeki, ef maður ber hana saman við ýmislegt annað, en þetta er samt áhugaverð heimspeki. Hún tengist lífi einstaklingsins beint, svo að segja, enda fjallar hún fyrst og fremst um hvernig einstaklingurinn ætti að lifa lífi sínu ef hann kýs að verða sæll, óháð spurningunni hvort allir kjósi það.
Hugtakakerfi Hávamála
Sæla (8, 9, 47, 69, 76, 77), er lykilhugtakið í siðfræði Hávamála en hún byggir á 1. “Snotur”, 2. “Vandamenn”, 3. “Vandamenn” og 4. “Gleði”:
1. Snotur, byggir á 1.1. “Viti”, 1.2. “Kurteisi og 1.3. “Hófsemi”:
1.1. Vit (6,8-10), hvílir á 1.1.1. “Beiting vits” en hún aftur á móti á 1.1.2. “Ræktun vits”:
1.1.1. Beiting vits (5, 6, 16, 22-26, 30, 31, 48, 54, 64, 75, 78, 79, 103, 116, 126, 131, 146)
1.1.2. Ræktun vits (1, 5, 6, 7, 15, 17, 18, 27, 28, 38, 53, 57, 63, 65, 73, 111, 118, 122, 127, 131, 141, 164)
1.2. Kurteisi (2-4, 17, 19, 30, 33, 35, 39, 53, 61, 66, 75, 132-136)
1.3. Hófsemi (11-14, 17, 19-21, 28, 29, 32, 33, 40, 54-56, 61, 63, 64, 116)
2. Sjálfræði (8, 9, 36, 37, 58-60, 112)
3. Vandamenn (34, 41-52, 62, 67, 69, 72, 82, 84, 90-102, 104-110, 115, 117, 119-125, 128, 130, 131)
4. Gleði (9, 15, 16, 23, 40, 48, 54-56, 68-71, 74, 81-83, 85-89, 134)
Nákvæmari sundurgreining á tengslunum milli hugtakanna:
0. Sæla
1. Snotur:
1.1. Vit ← 1.1.1. Beiting vits ← 1.1.1.1. Sjálfsskyn og Gildisskyn ← 1.1.1.1.1. Ræktun vits ← 1.1.1.1.1.1. Samræða, 1.1.1.1.1.2. Athygli og 1.1.1.1.1.3. Víðförli
1.2. Kurteisi ← 1.2.1. Jöfnuður/hófsemi
1.3. Hófsemi
2. Sjálfræði:
2.1. Jöfnuður (hófsemi)
2.2. Frelsi
2.3. Ábyrgð
3. Vandamenn:
3.1. Vinir ← 3.1.1. Jöfnuður (heimsóknir)
3.2. Ættingjar og fjölskylda
3.3. Makar ← 3.3.1. Ást
4. Gleði:
4.1. Lífsást ← 4.1.1. Hverfulleiki og 4.1.2. Nytsemi
4.2. Sjálfs- og gildisskyn
« Til baka