Greinasafn fyrir flokkinn: Á döfinni

Aðalfundur Félags heimspekikennara 9. júní 2012

Aðalfundur Félags heimspekikennara verður haldinn laugardaginn 9. júní 2012 kl. 13.00-16.30 í Verzlunarskólanum í Reykjavík. Dagskrá hefst með námskeiði Jóhanns Björnssonar heimspeki­kennara í Réttarholtsskóla. Eftir kaffihlé verður síðan aðalfundur haldinn með hefðbundinni dagskrá.

 

Dagskrá fundarins:

13.00 Heimspekingar í hægindastólum, nokkrar æfingar í heimspeki fyrir skólastofuna, partíið og sumarbústaðinn. Jóhann Björnsson heimspekikennari í Réttarholtsskóla miðlar af reynslu og innsýn.

15.00 Kaffi

15.30 Aðalfundur

  • skýrsla stjórnar
  • reikningar félagsins
  • skýrsla ritstjórnar
  • tilllaga um fréttabréf borin undir félagsmenn
  • kosningar
  • önnur mál

Stjórn Félags heimspekikennara

Siðfræði og gagnrýnin hugsun

Laugardagur 10. mars kl. 13-16.30
Stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa í tæpt ár staðið saman að rannsókna- og námsþróunarverkefni um að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Verkefnið hefur meðal annars haldið málþing, komið á fót vefsíðu og veitt ráðgjöf og forystu við ritun kafla um samfélagsgreinar í nýrri Aðalnámskrá fyrir grunnskóla. Í þessari mál­stofu sem skipulögð er í anda verkefnisins ræða sex heimspekingar tengsl siðfræði og gagn­rýninnar hugsunar frá margvíslegum sjónarhornum til þess að skýra og greina hvort markmið gagnrýninnar hugsunar sé í senn menntunarlegt, þekkingarfræðilegt og siðfræðilegt markmið. Einnig verður leitast við draga fram mismunandi sjónarhorn á gagnrýna hugsun með það fyrir augum að draga fram raunverulegt hlutverk stofnana, fjölmiðla og menntakerfis þegar kemur að þeim gildum sem mestu skipta fyrir einstaklinga, samfélag og umhverfi.

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun: Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög
  • Páll Skúlason, prófessor í heimspeki: Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?
  • Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun: Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
    Að gagnrýna gagnrýna hugsun
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

Málstofustjóri: Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir:

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun HÍ
Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög

Fyrir nokkrum misserum síðan rataði umræða inn á síður dagblaða um stöðu hugvísinda og hlutverk gagnrýninnar hugsunar í mismunandi fræðigreinum háskóla. Menntamálaráðherra hafði tengt þessa gerð hugsunar við heimspeki, listir og „húmanísk“ fög og hópur fræðimanna í raun­greinum svarað og minnt á mikilvægi „rökhugsunar raunvísinda“ þegar kemur að því að mynda sér sjálfstæða og gagnrýna afstöðu. Í erindinu verður gerð tilraun til þess að skýra stöðu gagn­rýninnar hugsunar innan hugvísinda. Einnig verður leitast við að draga fram nokkur atriði varðandi tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði með það fyrir augum að varpa ljósi á eðli þessara greina. Markmiðið er að svara því hvers konar skilningur sé nauðsynlegur til þess að svara spurningum um hvað felst í því að vera maður.

Páll Skúlason, prófessor í heimspeki
Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?

Í erindinu verða skýrð samfélagsleg hlutverk háskóla og fjallað um frumreglur þeirra frá mið­öldum til nútíma í ljósi Magna Charta yfirlýsingu evrópskra háskóla árið 1988 í Bologna.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun
Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels

Ótvírætt má skilja heimspeki Hegels sem tilraun til að kerfisbinda bókstaflega allt í veruleikanum. Einn þátturinn í kerfinu er engu að síður þess eðlis að hann sættir sig aldrei við það sem við blasir eða hið viðtekna. Þannig er kerfið í senn komið til sögunnar og enn í vændum. Í erindinu verður tekist á við þá þversögn sem í þessu býr og dregnar hliðstæður við þá þrotlausu leit að haldbetri skoðunum og sannindum sem íslenskir heimspekingar hafa kennt við gagnrýna hugsun.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
Að gagnrýna gagnrýna hugsun

Á undanförnum árum hefur gjarnan verið talað um mikilvægi þess að sem flestir leggi stund á gagnrýna hugsun og ekki síður að gagnrýnin hugsun sé kennd á hinum ýmsu stigum skóla­kerfisins. En liggur þá fyrir hvað það er sem er átt við með gagnrýnni hugsun? Snýst færni í gagn­rýninni hugsun bara um að kunna grundvallaratriði í rökfræði og þekkja helstu rökvillurnar? Er hægt að nota eitthvað sem kallað er gagnrýnin hugsun til að þagga niður sjónarmið sem fela í sér mikilvæga gagnrýni, og ef svo er, getur það réttilega kallast gagnrýnin hugsun? Eru einhverjir þjóðfélagshópar sem upplifa útilokun frá gagnrýnni hugsun? Leitað verður svara við þessum spurningum og öðrum svipuðum í þessu erindi.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki
Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar

Í fyrirlestrinum verður sett fram tilgáta um hvers konar fréttamennska sé varasömust í ljósi við­miða um gagnrýna hugsun. Tilgátan verður síðan prófuð með greiningu á fjölda nýlegra dæma úr íslenskum fjölmiðlum. Þessi dæmi, sem flest eru frá árunum 2012 og 2011, vekja óþægilegan grun um að gagnrýnin á íslenska fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis (8. bindi) eigi enn við rök að styðjast.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar
Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

lestrinum mun ég velta fyrir mér hlutverki sérfræðinga og fagþekkingar fyrir gagnrýna þjóðfélags­umræðu. Dæmi verða einkum tekin úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Sjá nánar:
http://www.hugvis.hi.is/si%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i_og_gagnr%C3%BDnin_hugsun

Heimspekileg samræða í leik- og grunnskólum Garðabæjar

Heimspeki í leik- og grunnskólum: Fyrstu skrefin

Námskeið á vegum þróunarverkefnis um heimspekikennslu í
Garðabæ

Þróunarhópur um heimspekilega samræðu í Garðabæ og heldur námskeið í Garðaskóla 9.-10. mars. Þar mun sænski heimspekikennarinn Liza Haglund fjalla um hlutverk heimspeki í leik- og grunnskólum og unnin verða verkefni sem henta í kennslu barna og unglinga.

Liza Haglund kennir við Södertörns Högskola í Stokkhólmi og hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, unglingum og kennurum. Hún undir­býr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heimspekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosofiska.nu.

Námskeiðið í Garðaskóla hefst á fyrirlestri um heimspeki í skólastarfi og er hann öllum opinn. Á dagskránni er síðan verkefnavinna og samræður þátttak­enda og verður sérstök áhersla lögð á vinnubrögð sem henta vel í kennslu yngri barna.

Tveir leikskólakennarar, Guðbjörg Guðjónsdóttir og Helga María Þórarinsdóttir munu segja frá reynslu sinni af heimspekikennslu í leikskólum. Einnig munu grunnskólakennarar í Garðabæ segja frá reynslu sinni af því að innleiða heim­spekilega samræðu í kennsluna hjá sér.

Tími: Föstudagur 9. mars kl. 1 3-17 og laugardagur 1 0. mars kl. 9-16

Staður: Garðaskóli, Garðabæ

Þátttakendur: Allir sem eru áhugasamir um heimspekikennslu í leik- og grunnskólum eru velkomnir

Skráning: Tekið er á móti skráningum á netfangið: brynhildur@gardaskoli.is.
Skráningargjald er 2000 krónur. Sjá einnig á http://www.klifid.is/index.php?
option=com_zoo&task=item&item_id=98&Itemid=89
.
Leik- og grunnskólakennarar í Garðabæ og félagar í félagi heimspekikennara greiða ekki námskeiðsgjald.

Samstarfsaðilar: Félag heimspekikennara, Sprotasjóður Mennta- og menningar­málaráðuneytis

Tími: föstudagur 9. mars kl. 13-17, laugardagur 10. mars kl. 9-16

Undirbúningsnefnd: Brynhildur Sigurðardóttir, Ingimar Waage, Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir og Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir

Gestakennari: Liza Haglund, Södertörn Högskola, Stokkhólmi

Dagskrá

Föstudagur 9. mars:

13.00 Gestir á fyrirlestri og námskeiði boðnir velkomnir

13.15 Liza Haglund – opnunarfyrirlestur: Children’s rights to think together – philosophy for children in multiple dimension of education

14.00 Umræður um fyrirlestur Lizu Haglund

14.30 Kaffihlé

15.00 Námskeið Lizu Haglund hefst í stofu 301: The very start- An inquiry that anyone can do

17.00 Samantekt í lok dagsins

Laugardagur 10. mars:

9.00 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: Beyond anecdotes -What to do in order to deepen the discussions

10.30 Kaffihlé

11.00 Málstofa um heimspeki í leik- og grunnskólum (öllum opin):
Liza Haglund
Helga María Þórarinsdóttir (leikskólakennari á Akureyri)
Guðbjörg Guðjónsdóttir (leikskólakennari í Garðabæ og fyrrum leikskólastjóri í Foldaborg)
Kristjana Fjóla Sigursteinsdóttir grunnskólakennari í Garðabæ

12.00 Matarhlé

12.30 Samræða um kynningar Lizu, Helgu Maríu, Guðbjargar og Kristjönu Fjólu

13.30 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: The meaning of meaning- practical work on ambiguous and vague concepts

14.30 Kaffihlé

14.45 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: Inquiry into practicalities – what are our hinders?

16.00 Námskeiðslok

Heimspekileg samræða á öllum skólastigum

Opinn fyrirlestur

Liza Haglund kennari við Södertörns Högskola í Stokkhólmi heldur fyrirlesturinn „Réttur barna og unglinga til að hugsa saman – heimspekileg samræða á öllum sviðum menntunar“ föstudaginn 9. mars kl.13.00. Það er þróunarhópur um heimspekilega samræðu í leik- og grunnskólum Garðabæjar sem stendur fyrir fyrirlestrinum. Hópurinn er styrktur af Sprotasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Félagi heimspekikennara.

Liza Haglund hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, ungling­um og kennurum. Hún undirbýr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heim­spekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosof­iska.nu. Í kjölfar opna fyrirlestursins mun Liza kenna nám­skeið sem 30 kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum taka þátt í helgina 9.-10. mars. Á námskeiðinu fá kennarar þjálfun í heimspekilegri samræðu sem er kennslu­aðferð sem svarar kalli nýrrar menntastefnu í lýðræðislegum vinnubrögðum, læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, jafnrétti og sköpun. Heimspekilega samræðu má flétta inn í kennslu allra námsgreina til að dýpka og aga umræðu og hugsun nemenda um þau viðfangsefni sem þeir fást við í skólanum.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram á ensku. Fyrirlestur og umræður í kjölfar hans fara fram í stofu 301 í Garðaskóla Garðabæ kl. 13.00-14.30.

Útdráttur úr fyrirlestri Lizu Haglund:

Eitt af markmiðum heimspekikennslu fyrir börn og unglinga er að efla gagnrýna og skapandi hugsun. Markmiðið byggir á þeirri forsendu að iðkun heim­spekinnar þjálfi hugsunina og læsi í víðum skilningi. Að mati Matthew Lipman frumkvöðuls í heimspeki með börnum er það markmið heimspekinnar að gera reynsluna af skólastarfinu öllu merkingarbærara en ella. Skólinn á að vera merkingarbær en honum hefur ekki tekist það.

Nemendur geta íhugað heimspekilega fjölmarga þætti innan þeirra námsgreina sem þeir stunda í skólum. Í sögukennslu geta nemendur t.d. rökrætt að hvaða marki söguleg greining geti verið hlutlæg. Svipaðra spurninga má spyrja í félags- og náttúruvísindum, t.d. spurninga um að hvaða marki vísindin séu góð fyrir okkur. Heimspeki með börnum og unglingum er þar að auki nýtt sem tæki til að byggja upp skilning og merkingarbæra reynslu nemenda. Ástundun heim­spekilegrar samræðu skapar reynslu þar sem nemandinn skilur sjálfan sig betur og stöðu sína í samfélaginu og þar með hefur heimspekikennsla siðferði­legt hlutverk.

Í fyrirlestrinum verður vísað í dæmi úr rannsóknum á hugtakaþróun og úr nýlegu þróunarverkefni í siðferðismenntun (values education) til að leggja upp umræðu um hvernig ástundun heim­spekinnar getur átt sér stað á öllum sviðum menntunar.

Fyrsta doktorsvörn í heimspeki á Íslandi – föstudaginn 10. feb.

Doktorsvörn í heimspeki: „Relations to Others, Relations to Nature: Discovering Allocentrism with Emmanuel Levinas.“

Föstudaginn 10. febrúar mun Gabriel Malenfant verja doktorsritgerð sína í heimspeki: „Relations to Others, Relations to Nature: Discovering Allocentrism with Emmanuel Levinas.“ Ritgerðin er á sviði gildakenninga, umhverfissiðfræði og Levinas-fræða.

Andmælendur við vörnina verða þau Søren Overgaard frá Háskólanum í Kaupmannahöfn and Tove Pettersen frá Háskólanum í Osló.

Leiðbeinandi Gabriels er Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd voru ásamt henni Hans Ruin frá Södertörn háskóla og Olli Loukola frá Helsinki háskóla.

Vilhjálmur Árnason, varadeildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, mun stýra athöfninni sem fer fram í hátíðasal Aðalbyggingar og hefst kl. 13:00.

Um rannsóknina

Megin spurning doktorsritgerðarinnar snýst um hvernig megi hugsa um siðferðilegt gildi ósnortins náttúrulegs umhverfis (einkum landslags). Í fyrstu köflunum er rakið hvernig umræða í hefðbundinni og samtímaumhverfissiðfræði er mótuð af klofningi milli mannhverfrar og ómannhverfrar umhverfissiðfræði. Því er haldið fram að báðar nálganir séu ófullnægjandi. Vegna þessa klofnings sitjum uppi með að velja á milli þess að líta annað hvort svo á að náttúran hafi gildi í sjálfu sér án tillits til þess hvort maðurinn komi þar nálægt (ómannhverfa viðhorfið) eða að náttúran hafi siðferðilegt gildi upp að því marki sem hún hafi beint notagildi fyrir menn (mannhverfa viðhorfið). Í doktorsritgerðinni er því haldið fram að þetta séu rangir valkostir og þriðji valkostur kynntur sem er ,,hinhverft“ viðhorf (e. allocentrism), en þetta viðhorf er reist á nákvæmri rannsókn á megin stefum í heimspeki Emmanuel Levinas.

Í grófum dráttum kveður hinhverfa viðhorfið (hinir/aðrir sem viðmið) á um að ómanngert/ósnortið umhverfi geti haft siðferðilegt gildi og vægi vegna þeirra tengsla sem aðrir gætu haft við það. Þessi afstaða heldur því sem er gagnlegt við mannhverfa viðhorfið, nefnilega að siðferðileg gildi eigi sér upptök í tengslum milli manna, og hafnar þannig ómannhverfu kröfunni um að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Hinhverfa viðhorfið staðfestir einnig innsæi sem býr hugsanlega að baki ómannhverfu afstöðunni: Hugmyndin um að mannhverfir umhverfissiðfræðingar beini einungis sjónum að tækisgildi ósnortinnar náttúru smættar ómanngerða náttúru í safn auðlinda til að fullnægja þörfum manna. Mannhverfa viðhorfinu yfirsést þannig margs konar önnur gildi sem unnt er að eigna náttúrunni. Tilgáta ritgerðarinnar er sú að hinverfa viðhorfið geti hent reiður á slík gildi vegna þess að siðferðileg gildi eru ekki hugsuð út frá sjálfsveru sem þurfi að fullnægja einstaklingsbundnum þörfum, heldur út frá sjálfsveru sem er snortin af siðferðilegu ákalli sem aðrir gera til hennar.

Um doktorsefnið

Gabriel Malenfant fæddist í Montréal, Québec. Hann lauk M.A.-prófi frá Université de Montréal árið 2007. Gabriel fékk styrk til doktorsnáms úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands.


Hefst: 10/02/2012 – 13:00
Staðsetning: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðasalur Háskóla Íslands

http://www.hi.is/vidburdir/doktorsvorn_i_heimspeki_%E2%80%9Erelations_to_others_relations­_to_nature_discovering_allocentrism_with_emmanuel_levinas%E2%80%9C

Hugur 2012 – kallað eftir efni

Hugur – tímarit um heimspeki lýsir eftir efni í 24. árgang, 2012. Þema Hugar 2012 verður heim­speki nítjándu aldar.

Fá tímabil í sögu mannsandans hafa verið eins frjó og nítjánda öldin. Allt áhugafólk um heim­speki þekkir til helstu heimspekinga og stefna aldarinnar. Hún geymir bæði uppgjör við upp­lýsinguna og rætur samtímans. Þema Hugar mun snúast jafnt um einstaka heimspekinga, heimspekistefnur og tímabilið í heild sinni. Greinar sem fjalla um lítt rannsakaða heimspekinga og hugmyndir á nítjándu öld eru sérstaklega velkomnar.

Efni 24. árgangs mun þó ekki afmarkast við þemað. Jafnframt verða birtar greinar og þýðingar um margvísleg heimspekileg efni. Allar frumsamdar greinar sem birtast í Hug fara í gegnum nafn­lausa ritrýni og ákvarðanir um birtingu eru teknar á grundvelli hennar. Viðmiðunarlengd greina er átta þúsund orð að hámarki. Höfundar eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um frágang sem má finna á Heimspekivefnum (mappa undir fyrirsögninni FÁH/Hugur).

Skilafrestur efnis fyrir Hug 2012 er 1. apríl 2012. Efni skal senda til ritstjóra, Henrys Alexander Henryssonar, hah@hi.is. Þangað má einnig senda fyrirspurnir.

Málþing um David Hume 26. nóvember 2011

Félag áhugamanna um heimspeki efnir til málþings um skoska heimspekinginn David Hume laugar­daginn 26. nóvember, kl. 13 í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, 4. hæð.

Erindi munu flytja:

Henry Alexander Henryson:
„Að sætta heimspeki og almenna skynsemi: Hume um augnapot, óendanleika og efnislegan veru­leika“

Sveinn Eldon:
„Úr engu er ekkert komið“
Lýsing: Sveinn mun velta fyrir sér umfjöllun Hume um staðhæfinguna að allt eigi sér orsök í A Treatise of Human Nature (Book I, Part III, Section II).

Emma Björg Eyjólfsdóttir:
„Hið góða og hið illa í annarri rannsókn Humes“
Lýsing: Í annarri rannsókn sinni virðist Hume leggja að jöfnu hið góða og hið ánægjulega og hið slæma og hið sársaukafulla. Í þessu erindi mun Emma kanna hvers eðlis sambandið á milli þess­ara hugtaka er, hvort Hume skilur þau sem samheiti eða hvort hann telur í raun og veru hið ánægjulega vera gott og hið sársaukafulla vera slæmt.

Mikael Marlies Karlsson:
„Rök, skynsemi og sannfæring í kenningum Davids Hume“

Að þeim loknum fara fram almennar umræður.

Að málþinginu loknu verður haldinn árlegur aðalfundur Félags áhugamanna um heimspeki (væntan­lega kl. 15). Þar fer m.a. fram kosning í stjórn og önnur embætti FÁH og eru allir sem áhuga hafa á að bjóða sig fram til þeirra beðnir um að láta vita. Ekki er þó neinn lokafrestur til þess að skila inn framboði.

Dagskrá aðalfundar er skv. lögum FÁH svohljóðandi:

7.gr. Aðalfundur skal haldinn ár hvert, og skal dagskrá vera þessi:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Önnur mál.
  4. Kosning stjórnarmanna sbr. 5.gr.
  5. Kosning tveggja endurskoðenda.
  6. Umræður um næsta starfsár.

Formaður stjórnar fundinum, eða kjörinn fundarstjóri í fjarveru hans.

Aðalfund skal boða eins og félagsfund sbr. 6.gr. Er hann lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Sjá nánar um lög félagsins á heimasíðu FÁH.

Að hugsa gagnrýnið

Alþjóðlegum degi heimspekinnar fagnað í Réttarholtsskóla

Þriðja fimmtudag ár hvert í nóvember hefur UNESCO tekið frá sem alþjóðlegan dag heim­spekinnar. Ýmsar heimspekilegar uppákomur eiga sér stað vítt og breitt um heiminn, en haldið hefur verið upp á daginn frá árinu 2002.

Haldið verður upp á daginn í Réttarholtsskóla með sýningu á verkum nemenda á göngum skólans fimmtudaginn 17. nóvember og föstudaginn 18. nóvember. Alls stunda rúmlega 160 nemendur nám í heimspeki við skólann í vetur.

Þema sýningarinnar að þessu sinni er „Hugsum gagnrýnið og látum ekki telja okkur trú um hvað sem er“.

Allir sem áhuga hafa á að skoða og velta vöngum yfir heimspekilegum hugverkum nemenda eru hjartanlega velkomnir.

Upplýsingar um alþjóðlegan dag heimspekinnar má finna á vefslóðinni: http://www.unesco.org/­new/­en/social-and-human-sciences/themes/human-rights/philosophy/philosophy-day-at-unesco/philosophy-day-2011/

Nánari upplýsingar veitir Jóhann Björnsson (johann.bjornsson@reykjavik.is) sími 8449211.

Að vera athugull á allar hliðar máls: Gagnrýnin hugsun og siðfræði

eftir Henry Alexander Henrysson

Verðmæti hugsana líður örlítið fyrir það að framboðið virðist fullnægja eftirspurninni. Það eina sem er ódýrara er tal sem bendir einmitt til þess að framboðið á því fari fram úr þeirri hugsun sem á sér stað í heiminum. Raunar eigum við örlítið bágt með að tala um hugsun. Sem er undarlegt þar sem hún kemur fyrir flest okkar. Stundum oft á dag. Fólk grípur gjarnan til þess ráðs að leika Hugsuð Rodins til þess að útskýra hugsun, eins og það að styðja hönd undir kinn sé nauðsynlegur hluti hugarstarfs. Ein ástæða þess að fáir vilja ræða um hugsun sem slíka er að okkur grunar að hún sé flókið fyrir­bæri. Skýringarinnar er líklega að leita í því að hugsunin er stigskipt. Öll þekkjum við dæmi um einhvers konar lágmarkshugsun. Það er óþarfi að móðga einhvern með því að nefna þessi dæmi hér. En svo virðist einnig vera til hugarstarf sem er næstum því annars eðlis. Vönduð hugsun getur ger­breytt sýn okkar á heiminn. Stundum rekst maður á fólk sem telur sig hafa allt sitt á hreinu þar sem það fylgist svo vel með. Það hlustar eftir öllum þeim tilboðum sem lífið hefur uppá að bjóða. Og er fyrst af stað. Þetta fólk telur að þær leiðbeiningar sem það hefur heyrt út undan sér dugi til að mynda sér farsæla afstöðu; vangaveltur leiði til glataðra tækifæra. En veruleikinn hefur því miður tilhneigingu til þess að hlífa okkur ekki við því að hugsa mál til enda. Um það vitna fjölmörg myndbönd á You­Tube.

Það kallast gagnrýnin hugsun að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni fellst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Gagnrýnin hugsun er að beita skilningsgáfunni á sjálfa sig. Hún hjálpar okkur að setja kerfisbundið fram vandamál sem við gerum okkur einungis lauslega grein fyrir. Með því að beita gagnrýninni hugsun áttum við okkur á hvaða upplýsingar skipta máli fyrir lausn vandamálsins. Hugsun okkar verður virk þegar við túlkum upp­lýsingarnar með opnum huga og metum afleiðingar mismunandi túlkunarleiða. Gagnrýnin hugsun er bæði athöfn og leiðarvísir fyrir skoðanir okkar og gerðir.

Gagnrýnin hugsun er þannig takmark allrar menntunar. Aðgangur að upplýsingum er fyrir löngu orðinn ótakmarkaður í öllu skólastarfi. Nú er mikilvægara en nokkru sinni að kenna hvernig á að fara með upplýsingarnar. Hver sá sem leggur stund á fræði- eða iðngrein hlýtur að hafa það takmark að ná því valdi á greininni og beitingu hennar að hann geti sjálfur lagt eigið mat á fullyrðingar og skoðanir sem henni tengjast. Ennfremur hlýtur markmiðið að vera að temja sér gagnrýna hugsun sem lífsviðhorf og stefna að þátttöku í samfélagsumræðunni. Réttnefnd gagnrýnin hugsun er ekki einungis getan til að taka við upplýsingum og greina þær. Hún er vani sem maður þarf að temja sér.

Enn eru þó margar spurningar opnar um gildi og gerð gagnrýninnar hugsunar. Orðabókaskilgreining­ar á sögninni að gagnrýna draga aðeins fram neikvæða athöfn, þ.e. að finna að eða að setja út á. Sem betur fer er lýsingarorðið „gagnrýninn“ jákvæðara að mati orðabókarhöfunda og er talið lýsa einhverjum sem er athugull á allar hliðar máls. Hvað nákvæmlega felst í því að „skoða allar hliðar máls“ er engu að síður nokkuð á reiki. Tengsl skapandi hugsunar við gagnrýna hugsun eru til dæmis eilíft rannsóknarefni. Margir fræðimenn vilja ekki gefa eftir það eðli gagnrýni að brjóta niður hið við­tekna. Þeir kalla eftir róttækum viðhorfsbreytingum þegar gagnrýnin hugsun er annars vegar. Og enn aðrir eru þeirrar skoðunar að það að skoða allar hliðar máls beri að taka bókstaflega; hugsun sé ekki gagnrýnin fyrr en öll starfsemi vitundarinnar sé lögð undir. Innsæi og ímyndunarafl skipti því jafn miklu máli og beiting rökhugsunar.

Ákallið um að vegur gagnrýninnar hugsunar verði að batna í skólakerfinu varð nokkuð hávært eftir þær hremmingar sem áttu sér stað í íslensku samfélagi árið 2008. Skýrsla Rannsóknarnefndar Al­þingis varpaði skýru ljósi á hvernig veruleikinn á það til að koma í bakið á þeim sem ekki hafa tamið sér að hugsa um mál á gagnrýninn hátt. Það er þó erfitt að koma auga á hvernig eigi að svara kröfu um að Íslendingar verði gagnrýnni í hugsun þegar menntakerfið byggist ekki, og hefur aldrei gert, á því að efla hæfni nemenda í að hugsa um veruleika sinn. Gagnrýnin hugsun á sér rætur í heimspeki. Þó að gagnrýnin hugsun sé í raun sú hugsun sem allar fræðigreinar og menntir vinna eftir þá er það heimspekin sem best getur svarað því kalli að leiða starf til þess að efla kennslu gagnrýninnar hugsunar. Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa nýlega sett af stað verkefni sem ætlað er að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði á öllum skólastigum.

Krafan um að staðhæfa ekkert nema að hafa einhvers konar haldbær rök fyrir því er ekki einungis vísindaleg krafa. Krafan er einnig siðferðileg. Ákveðnar hugsanareglur og æfingar geta auðvitað hjálpað okkur við að láta ekki blekkjast. Þjálfun í gagnrýninni hugsun gerir okkur hæfari í að takast á við verkefni sem reyna á rökhugsun og beitingu tungumáls. En mikilli hæfni fylgja einnig freistingar. Það er stutt skrefið frá rökræðu yfir í kappræðu; frá því að láta ekki blekkjast og til að freistast til þess að leika sér með trúgirni annarra. Siðfræðin hjálpar okkur til að þjálfa dómgreind okkar og hún hvetur okkur til þess að axla ábyrgð. Þekkingu og rökhæfni á ekki að beita af skeytingarleysi – það skiptir máli í hvað hugsun okkar er notuð.

Verkefni næstu missera er nákvæmari greining á tengslum gagnrýninnar hugsunar og siðfræði. Vissulega er, eins og áður sagði, siðferðileg afstaða að staðhæfa ekkert um menn eða málefni nema hafa fyrir því einhver rök. Og gagnrýnin hugsun liggur að baki raunverulegri hæfni okkar til að beita þekkingu á meðan siðfræðin hjálpar okkur að svara því hvar hæfnin á við. Og enn frekar blasir við að svör fást ekki við siðferðilegum álitamálum nema með yfirvegaðri rökræðu. Ekki er þó ljóst að þetta séu endanleg svör. Hver veit nema tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði byggist síður á mati á réttmæti skoðana og skýrleika hugsunar og því meira á því hvort við temjum okkur að hugsa á þolinmóðan hátt, þar sem nákvæmni í meðferð hugtaka, heiðarleiki og samkvæmni eru höfð í há­vegum. Raunveruleg gagnrýnin hugsun gæti því mögulega byggt á því að við viðurkennum hvar sönnunarbyrði liggur, gerum ekki öðrum upp skoðanir, spilum ekki með tilfinningar viðmælenda og sýnum hugrekki þegar við myndum okkur skoðun fremur en að hugsunin nái stöðlum hagnýtrar rökfræði.

Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun, ásamt Félagi heimspeki­kennara, héldu málþing í Háskóla Íslands þann 1. október síðastliðinn þar sem reynt var að svara því hvernig beri að kenna gagnrýna hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Um leið var opnaður vefur helgaður gagnrýninni hugsun ætlaður öllu áhugafólki um menntun. Heimspekivefurinn birti einnig sígilda grein Páls Skúlasonar „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Á næstu misserum er svo fyrirhugað að bjóða upp á fyrirlestra um gagnrýna hugsun og tengsl hennar við fjölmörg svið mennta og menningar. Einnig er ætlunin að gefa út fjölda aðgengilegra rita um gagnrýna hugsun og siðfræði. Í hugsun okkar er þegar öllu er á botninn hvolft líklega falin þau mestu verðmæti sem við eigum í okkar fórum. Kröfunni um að auka veg gagnrýninnar hugsunar í íslensku þjóðlífi verður vart svarað öðruvísi en með því að sem flestir þeirra sem að menntamálum þjóðarinnar koma taki höndum saman og gefi sér tíma til þess að svara því hvort ungt fólk sem gengur út í lífið eigi að geta hugsað á yfirvegaðan hátt um veruleika sinn og samfélag.

(Styttri útgáfa þessarar greinar birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 8. október 2011)