Greinasafn eftir: Kristian Guttesen

Um merkingarfræði tilvísunarorða

eftir Kristian Guttesen

Bandaríski merkingarfræðingurinn og heimspekingurinn James Higginbotham hélt þrjá fyrirlestra við Háskóla Íslands dagana 15. – 16. júní 2009 um merkingarfræði tilvísunarorða.1 Hér mun ég gera grein fyrir efninu í ljósi fyrirlestra hans, útskýra þau hugtök sem gengið er út frá og fjalla um gagnrýni Higginbothams á svokallaða ,samhengistilfærslu’ franska heimspekingsins og mál­vísindamannsins Philippe Schlenkers. Að lokum mun ég setja framlag Higginbothams til við­fangsefnisins í samhengi við þróun málvísinda undanfarinna ára innan heimspekinnar.

1. De dicto og de re

Heimspekingar tala um að leggja megi tvennan skilning í setningar, annars vegar út frá því sem er sagt (de dicto) og hins vegar út frá hlutnum sem það er sagt um (de re). Dæmi:

       Kata trúir að Jón Stefánsson hafi skrifað Dýrasögur.

      Fyrri skilningurinn tekur til yrðingarinnar að Jón hafi skrifað Dýrasögur. Þetta þýðir að de dicto túlkunin er sú að Kata trúir þeirri yrðingu. Seinni skilningurinn tekur til skoðunar Kötu á Jóni sjálfum. Hún trúir einhverju um hann, nefnilega að hann sé höfundur Dýrasagna. Við vitum hins vegar ekki hvorn skilninginn við eigum að leggja í setninguna. Rýnum nánar í hana. Þó að Kata trúi að höfundur Dýrasagna sé Jón Stefánsson þá er ekki þar með sagt að hún viti að Jón Stefánsson sé Þorgils gjallandi (og trúi því að höfundur Dýrasagna sé Þorgils gjallandi). Ef við bentum henni á þetta, hvort værum við þá að leiðrétta de re skoðun hennar um Jón eða de dicto skoðun hennar um yrðinguna „Jón skrifaði Dýrasögur“? Hvort tveggja má heimfæra á hitt og í þessu felst merkingarfræðileg tvíræðni. Þannig er de re vitneskja ákveðin vitneskja um ákveðinn hlut, en de dicto vitneskja er hald­bær vitneskja sem án vandkvæða felur í sér ólíkar réttar túlkanir sama hlutar.2

2. De se

Þegar talað er um de se vitneskju er átt við vitneskju um mann sjálfan. Segjum að Jón Stefáns­son viti að Þorgils gjallandi hafi skrifað Dýrasögur, þá er hægt að hugsa sér de se vitneskju sem ekki er gefið að Jón Stefánsson búi yfir: Að hann sjálfur (sé Þorgils gjallandi og) hafi skrifað Dýra­sögur. Gefum okkur aðstæður þar sem Jón einhverra hluta vegna veit ekki að hann sjálfur er Þorgils gjallandi. Hann veit hver skrifaði Dýrasögur. En ef við bendum honum á að hann sé Þorgils gjallandi, þá öðlast hann enga nýja vitneskju um yrðinguna að „Þorgils gjallandi hafi skrifað Dýrasögur“, heldur bætist við eða „fullkomnast“ de se vitneskja hans um hana. Hann vissi alltaf að Þorgils gjallandi skrifaði sögurnar og þar af leiðandi vissi hann einnig að sá einstakling­ur sem hann er hafi skrifað þær. Hann vissi bara ekki hver þessi einstaklingur væri – að það væri hann sjálfur. Hann bjó ekki yfir þeirri tilteknu de se vitneskju. Af þessu má sjá að til að skera úr um sanna merkingu yrðingar verður að greina tengslin innan hennar á milli vísunar og um­sagnar.

3. Samhengi og afturvísun

Eins og Quine kemst að orði er tilvísun „tengsl einfaldrar umsagnar og sérhvers hlutar sem hún á við“.3 Tilvísunarorð4, sem í íslensku eru „sem“ og „er“, vísa til nafnorða, og að ensku lagi til setn­inga5, og tengja tilvísun við umsögn. Ábendingarorð er „orð sem ætlað er að benda á eitt­hvað en hefur ekki sjálfstæða hlutkennda merkingu“.6 Þegar tilvísun ber með sér þetta einkenni á­bendingarorða (sem þarf þó ekki að einskorðast eingöngu við ábendingarorð) er hætta á merkingarfræðilegri tvíræðni. Af þeim sökum ræðst merking tilvísunar stundum af samhengi (context). Dæmi:

       tilvísun            umsögn
      
   Í  dag  er  sólríkur  dagur.

      Þetta þýðir að dagurinn á þeim degi sem setningin er sögð er sólríkur dagur. Og þannig skilj­um við tilvísunina „í dag“ – þ.e. dagurinn á þeim degi sem setningin er sögð.
      Í sumum tilvikum hegða tilvísanir sér öðruvísi innan setningar heldur en ef þær stæðu einar og sér. Dæmi um þetta væri:

       Á sunnudaginn í síðustu viku sagðist Mæja sjá eftir gærdeginum.

      Eðlileg hegðun tilvísunarinnar „gærdagsins“ væri dagurinn á undan þeim degi sem setningin er sögð en í þessu samhengi, með tilvísun innan umsagnar, verður sú tilvísun að afturvísun (anaphora) sem í þessu samhengi merkir dagurinn á undan þeim degi sem umsögnin á við um. Merking tilvísana getur því ráðist af samhengi.
      Higginbotham gagnrýnir tilraun Schlenkers og annarra málspekinga til að útskýra þetta fyrir­brigði sem samhengistilfærslu (context shift), þ.e. þegar tilvísun fær breytta merkingu í aðal­setningu og aukasetningu. Higginbotham segir að útskýra megi þetta sem afturvísun, þar eð samhengi yrðingar er það sem það er en ekki hvað sem er (og heldur í þeim skilningi, að minnsta kosti til bráðabirgða, fram innhyggju (internalism) um merkingu). Þannig felst enginn merkingarmunur í því að segja eitthvað de re um sjálfan sig og segja eitthvað de se, en til að undirstrika mismunandi túlkun setningarinnar setur Higginbotham (að hætti Chomskys) yrðing­una fram með FOR (núllfrumlagi)7:8

        (i)    Jóna býst við að hún muni vinna
    (∃e) (fyrir x = Jóna) Býst við (x, e, að x vinnur)
     
  (ii) Jóna býst við að FOR vinna
    (∃e) (fyrir x = Jóna) Býst við (x, e, að viðfang e vinnur)

      Í tilfelli (ii) vísar FOR til frumlags „móðursagnarinnar“, þ.e. frumlags sagnarinnar að „búast við“. Munurinn á því sem sagt er í (i) og (ii) er enginn, og túlkun viðfangs tilvísunarinnar er sú sama. Jóna býst við að sú sem Jóna er muni vinna.9 Vandamálið við þetta er aftur á móti að ef Jóna vissi ekki að hún að hugsaði þetta um sjálfa sig, þá legði hún sjálf annan skilning í yrðing­una – eða færi „aðra leið“ að niðurstöðunni – en sá sem hefði de re og de se samhengi setning­arinnar á takteinum. Það er með öðrum orðum ekki ljóst hvernig greina eigi muninn á milli de se og de re yrðinga um de se vitneskju (þetta verður skýrt nánar í kafla 5 hér að neðan). Þó að við­fangið sú sem Jóna er hefði aðra merkingu væri merking setningarinnar sú sama, en túlkun hennar háð samhenginu. Meðal þess sem Higginbotham og Schlenker greinir á um er hvaða þýðingu þetta hefur í för með sér. Sá síðarnefndi telur sig eins og áður segir hafa útskýrt þetta fyrirbrigði, en sá fyrrnefndi er ekki sannfærður um að svo sé. Áður en lengra er haldið er vert að skoða kenninguna sem Higginbotham gagnrýnir.

4. Samhengistilfærsla og skrímsli

Shlenker fjallar um svokölluð „skrímsli“, ábendingarorð sem hegða sér öðruvísi innan setningar heldur en ef þau stæðu ein og sér.10 Hann er að bregðast við skrifum bandaríska rökfræðing­sins og heimspekingsins Davids Kaplan sem í grein sinni um „ábendingarorð“ frá árinu 198911 segir að spurnarliður geti ekki stýrt merkingu ábendingarorðs í náttúrulegu tungumáli12, og verður því að álykta um það út frá samhengi.13 Svar Schlenkers felst meðal annars í því að at­huga hvað fyrstu persónu fornöfn gera innan setningar og hver munurinn á þeim og ábendingar­orðum er.14

       (iv)   Á einhverjum tímapunkti var sá sem mælti Jón.
    T[ιx: M(x)] (x = Jón)
  (v)  Á einhverjum tímapunkti var ég Jón.
    [ιx: M(x)]T (x = Jón)

      Form setninganna er það sama en þar sem síðari setningin gerir þá kröfu til þess að hún sé rétt skilin, að viðfang hennar sé sami einstaklingur og sá sem mælir hana af vörum, þá breytist rök­fræðilegur ritháttur hennar eins og sést hér að ofan. Schlenker spyr hvað veldur. Fyrri setningin er skilin út frá því sem er sagt (de dicto) og sú seinni út frá hlutnum, þ.e. persónunni, sem það er sagt um (de re). Önnur útfærsla beggja setninga reynir að túlka merkinguna þannig að það beri að skilja hana út frá þeim tímapunkti sem setningin er sögð:15

      (vi)   Á einhverjum tímapunkti var sá sem mælti Jón.
    [∃t: t < t*] [ιx: sá sem mælir setninguna af vörum (x, t)] (x = Jón)
      (vii)  Á einhverjum tímapunkti var ég Jón.
    [∃t: t < t*] [ιx: sá sem mælir setninguna af vörum (x, t*)] (x = Jón)

      Sá sem mælir setninguna af vörum getur aðeins hafa gert það á einum tímapunkti og á þeim tímapunkti gat einn og aðeins einn einstaklingur hafa verið sá sem það gerði. Hér er um að ræða ögn víðari túlkun en sett var fram á undan og er verið að fást við hvenær setningin getur verið sönn. Athygli vekur að ábendingarorðið ég getur bara skilist óháð samhengi í tilfellum (v) og (vii).16
      Samkvæmt Schlenker verður hægt að eyða þessum merkingarmuni þegar tilvísunin tekur til samhengisins en ekki tímans, og í þessu felst skoðanamunur Kaplans og Schlenkers. Þannig segir hann lausn vandans að viðurkenna svokölluð samhengisskrímsli í tungumálinu og gera ráð fyrir að þau valdi merkingarmuni tilvísunarorða vegna samhengistilfærslu.17 Þessu and­mælir Higginbotham með því að beita sinni eigin greiningu á FOR, og tekur þannig ólíkan pól í hæðina en Kaplan.

5. Sérhugsanir og almennar yrðingar

Að sögn Higginbothams sýnir hið svokallaða Fodor-Thomson dæmi ((viii), (ix) og (x) hér að neðan) að hin hefðbundna merking FOR (og þar áður svokölluð „equi-NP útstrikun“) gerir ekki fullnægjandi röklega grein fyrir greiningu tiltekinna setninga. Í dæminu sem hér verður stuðst við væri ekki unnt að skilgreina ígildismagnvirkjann (quasi-quantifier) aðeins Björn M. Ólsen með FOR.18 Að framansögðu eru tengsl (eða skyldleiki ef við horfum á málið frá sjónarhóli Wittgen­steins) de se og de re yrðinga um de se vitneskju óljós. Til að eyða þeim vanda spyr Higgin­botham tveggja spurninga: (1) Hvert er eðli de se túlkana? (2) Hvaða skyldleika bera þær við notkun fornafna í fyrstu persónu eintölu?19
      Higginbotham er þeirrar skoðunar að túlka verði fyrstu persónu sérhugsanir (reflexive thoughts) með FOR viðfangi þannig að þær sporni við rangtúlkun endurþekkingar (error through mis­identification).20 Þær lýsi reynslu sem maður verður fyrir og getur ekki með skynsamlegu móti dregið í efa að maður hafi sjálfur tekið þátt í. Ef við gefum okkur aðstæður þar sem „ég finn fyrir sársauka“, þá get ég velt því fyrir mér hvort það sem ég finn fyrir sé í raun og sanni sársauki en ég get ekki með skynsamlegu móti dregið í efa að það sé ég sem finn fyrir honum.21 Higgin­botham gerir hér greinarmun á ímyndun (imagining) og endurminningu (remembering). Ef endurminning felur í sér FOR þá er ljóst að maður rifjar upp atburðinn „innan frá“, þ.e.a.s. með auga þátttakandans. Endur­minnning með FOR er því meira „í fyrstu persónu“ en fyrstu persónu fornöfn og sérhugsanir.22 Lausn vandans, svo að skýra megi tengsl de se og de re yrðinga um de se vitneskju, þarf að búa yfir fimm eiginleikum, segir Higginbotham:23

     (a)    Að útskýra hvað sé sérkennandi fyrir hið merkingarfræðilega framlag (contribution) hins til­tekna FOR viðfangs.
  (b)  Þetta framlag ætti þegar í stað að gera greinarmun á eðli de se og de re túlkana.
  (c)  Eins ætti það að sporna við rangtúlkun endurþekkingar.
  (d)  Viðnám þess gegn rangtúlkun endurþekkingar í niðurskipan venjulegrar skynreynslu ætti að vera þannig úr garði gert að það komi fram sem sérstakt tilfelli.
  (e)  Að útskýra greinarmuninn á hinu „innra“ umfangi sem FOR gefur til kynna, og hinu eina hugsanlega „ytra“ umfangi sem venjuleg fornöfn og séryrðingar láta í té.

      Lausnina segir Higginbotham vera rökfræðilegs eðlis og ætti hún jafnframt að útskýra á hvaða grundvelli de se túlkanir og viðnám gegn rangtúlkun endurþekkingar koma fram.24
      Sýna verður fram á að túlka megi eftirfarandi tvær setningar á sama veg:

      (viii) Aðeins Björn M. Ólsen flutti setningarræðu Háskóla Íslands.
  (ix)  Björn M. Ólsen minnist þess að hafa FOR flutt setningarræðu Háskóla Íslands.

      Til að uppfylla öll skilyrðin verður túlkun beggja í þýðingu yfir á umsagnarmáli rökfræðinnar að hljóða svo:

      (x)    Aðeins Björn M. Ólsen minnist þess að hafa FOR flutt setningarræðu Háskóla Íslands.

      Til að uppfylla öll þessi tilgreindu markmið verður að meðhöndla FOR sem „skyldubundna breytu25, eins og hér segir26:

      (xi)   (Fyrir x=Björn M. Ólsen) (∃e) Minnist þess [x, e, ^(λe´) flytja (σ(e) & θ(e´), setningarræða H.Í., e´)]
  (xii)  (∀x≠Björn M. Ólsen) ¬(∃e) Minnist þess [x, e, ^(λe´) flytja (σ(e) & θ(e´), setningarræða H.Í., e´)]

    Þetta leiðir af sér hin tilfallandi skilyrði; þar sem e er inntak yrðingarinnar sem Björn M. Ólsen man og e´ er einhver hugsanlegur flutningur setningarræðunnar, er sjálfur Björn M. Ólsen rétti­lega einstaklingurinn sem „tekur þátt“ í atburðinum σ(e) og θ(e´). Þannig telur Higginbotham að með því að beita greiningu hans á FOR megi leiða tiltekna setningu í náttúrulegu máli af tveimur öðrum slíkum setningum, en slíkt hefur hingað til reynst öðrum kenningum ógjörningur.27 Við sjáum að minnsta kosti ögn gleggra28 hvert eðli de se túlkana er og með hvaða hætti þær bera skyldleika við notkun fornafna í fyrstu persónu eintölu.

6. Afturvísunarorð og endurþekking

Þegar eðlileg notkun afturvísunarorða (anaphoric indexicals) felur í sér breytta merkingu innan um­sagnar, heldur en ef þau stæðu ein og sér (líkt og í dæminu um Mæju sem á sunnudaginn í síðustu viku sagðist sjá eftir gærdeginum), er möguleiki á skertri endurþekkingu (identification). Í ólíkum mögulegum heimum er óvíst að forseti Íslands og Ólafur Ragnar Grímsson þekki sjálfan sig sem sama einstakling. De se setning verður staðbundin yrðing fyrir viðfang tilvísunarinnar. Higginbotham spyr hvað það sé að þekkja sjálfan sig sem vissa persónu (so-and-so). Svar hans er fólgið í því að skoða mengi mögulegra heima og sannleiksgildi yrðingar eins og „Ég trúi að ég hafi unnið í lottóinu.“ Í því sambandi segir hann í fyrirlestrinum að ekki sé hægt að draga ályktun um de se skoðun. Higginbotham gefur einnig de se merkingu afturbeygðra fornafna gaum, eins og „P dáist að sjálfum sér“ (de se skoðun sem er nauðsynlega meðvituð um eigið sjálf) og „Jón skammast sín“ (sama, því hér er um sérhugsun að ræða). Í fyrirlestrinum útskýrir hann setning­una á mannamáli sem „að standa sjálfan sig að því að hafa hagað sér forkastanlega, og að hafa það orð á sig í augum annarra“ – en auðvitað er yrðingin best orðuð sem svo að Jón skammist sín.

Meginniðurstaða Higginbothams í fyrirlestrunum var að ekki sé fótur fyrir samhengistilfærslu Schlenkers í „A Plea for Monsters“ (2003). „Það er aðeins sannleiksgildi í hinu mögulega sam­hengi,“ segir hann. Skrímsli Schlenkers (er valda samhengistilfærslu) eiga sér enga stoð í um­fjöllun Higginbothams. Innhyggja um merkingu tilvísunarorða í meðferð Higginbothams þýðir (með nokkurri einföldun) að setning í fyrstu persónu eintölu skírskoti til manns sjálfs, en setning í þriðju persónu eintölu til hins. Skoðun Schlenkers virðist einmitt stangast á við þetta atriði, ef sannleiksgildi setninga markast af samhengi þeirra (en ekki öfugt), og hlýtur það að koma fólki spánskt fyrir sjónir.
      „Merkingin breytist ekki vegna samhengistilfærslu, heldur vegna breytingar hinnar sér­kennandi afturvísunar,“ en svo mörg voru lokaorð hans í þriðja og síðasta fyrirlestrinum.

7. Frá Wittgenstein til Higginbothams

Til eru þeir sem segja mál og merkingu vera viðfangsefni heimspekinnar ekki síður en mál­fræðinnar.29 Wittgenstein er einn af brautryðjendum nútíma málspeki. Ferill hans skiptist í tvo hluta, í þeim fyrri aðhyllist hann þá hugmynd að formgerð raunveruleikans ákvarði formgerð tungumálsins. Í þeim síðari að tungumálið stýri sýn okkar á veruleikann þar sem við sjáum hlutina í gegnum tungu­málið.30 Á einum stað segir Wittgenstein öll orð „eins og við beitum þeim við vísindaiðkanir [vera] ílát sem ekkert verður í látið nema merking og skilningur – náttúruleg merking og skilningur“.31 Það sem málspekingar á tuttugustu öld hafa einkum fengist við er að gera þessa náttúrulegu merkingu athafna og hluta skiljanlega innan ramma hins hlutlæga heims. Ekki er fráleitt að hugsa sér vinnu Higginbothams í fyrirlestrum sínum um málvísindi og heimspeki sem lóð á vogarskálar þeirrar viðleitni Wittgensteins til þess að skýra sýn okkar á veruleikann.

Aftanmálsgreinar

1. „Merkingarfræði tilvísunarorða“ er þýðing á enska hugtakinu indexical expressions, en það er yrðing sem felur í sér tilvísun og umsögn. „Tilvísunarorð“ (relative), sem skilgreint er neðar í textanum, er hluti af eða tenging í þeirri yrðingu. Hér verður ekki fjallað sérstaklega um „tilvísunarorð“ sem slík heldur um „merkingarfræði tilvísunarorða“ í þeim skilningi sem framangreind útskýring tekur til. Grein þessi er unnin upp úr ritgerð sem ég skrifaði fyrir námskeiðið Fyrirlestrar um málvísindi og heimspeki við Háskóla Íslands, sumarið 2010. Ég vil þakka Eyju Margréti Brynjarsdóttur, Matthew Whelpton og nafnlausum rýni fyrir gagn­legar ábendingar og aðstoð.

2. „Knowledge de re is knowledge of a particular thing, that it is thus and so; knowledge de dicto is know­ledge that something is the case where what is known could in principle be ‘realized‘ by different things“ (Blackburn, 2005: 95).

3. Quine, 1995: 11.

4. Einnig kallað „tilvísunartenging“, en þar sem tilvísunarorð fallbeygjast ekki má færa rök fyrir því að villandi sé að kalla þau „tilvísunarfornöfn“ eins og tíðkast hefur meðal ýmissa málfræðinga. Sjá nánar, t.d. grein Höskuldar Þráinssonar „Tilvísunarfornöfn?“ í Íslensku máli og almennri málfræði: 2. árgangi, 1980 (skoðað 21. október 2010), bls. 53 – 96.

5. Jón G. Friðjónsson, 2009; skoðað 11. september 2010. Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2005.

6. Þorsteinn Vilhjálmsson, 2006; skoðað 11. september 2010.

7. Núllfrumlagið „FOR“ (PRO) er það fyrirbæri þegar „fornafn“ er notað um frumlag sem er ósagt, en að einhverju leyti til staðar í setningunni – þ.e. „hugsað með“. Það kemur fyrir í nafnháttarsetningum og getur ýmist vísað til frumlags (subject controlled PRO) eða andlags (object controlled PRO) móðursetningar. Hér að neðan vitum við einungis út frá samhenginu í hvern fornafnið „sig“ vísar:

       a)  Jóna skipaði Gunnar [að FOR vanda sig]
  b)  Jóna skipaði Gunnar [að FOR láta sig í friði]

      FOR er bundið við aukasetningar. Núllfrumlagið „for“ (ritað með litlum stöfum) kemur fyrir í aðalsetning­um með sögn í persónuhætti, en er ekki til umfjöllunar hér. Eiríki Rögnvaldssyni eru færðar þakkir fyrir gagngóðar ábendingar í tölvupósti í þessum efnum (Eiríkur Rögnvaldsson, 2010). Hægt er að lesa nánar um „FOR“ hér og um „for“ hér (í 3. kafla; skoðað 15. október 2010).

8. Í þeim rökfræðilega rithætti sem hér fer á eftir (og áfram í greininni) er rétt að útskýra nánar greiningu Higginbothams, en hún gengur út á svokallaða skömmtun (quantification) sem tekur til atburða (events). Aðferðin felur í sér að setja fram almenna yrðingu eða setningu, fyrst á náttúrulegu máli en jafnframt á máli háttarökfræðinnar, og sýna því næst fram á hvaða nauðsynlega breyting verður að eiga sér stað á hinum rökfræðilega rithætti ef smætta á tiltekin skilyrði atburðarinnar sem yrðingin tekur til. Einfalt dæmi um hvernig þetta er gert, væri eins og hér segir:

       c)  Jóna fer í skólann
    fara í skólann (e) & Viðfang (x, e)
       d)  Jóna fer aldrei í skólann
    [Aldrei e: C(e)] fara í skólann (Jóna, e)

      Í þessu dæmi er magnvirkinn (quantifier) „aldrei“, sem þannig smættar hversu oft atburðurinn að fara í skólann á sér stað hjá viðfanginu Jónu.

9. Það sem Higginbotham á við er að setning (i) er nákvæmlega eins og setning (ii). Í fyrirlestrunum notar hann FOR til þess að hafa einhvern „tilvísanda“ eða viðfang tilvísunarinnar (referent) fyrir báðar sagnirnar. Í sumum tilvikum er viðfang (eða þema) tilvísunarinnar, þ.e. einstaklingurinn sem „tekur þátt“ í atburðinum, ekki frumlagið:

       (iii)  a.  Jóna skipaði Gunnar að FOR fara í hlý föt
    b.  x skipaði yy fari í hlý föt

       Vert er að geta þess að „expect“ í ensku getur aðeins haft andlag móðursagnarinnar sem FOR. Theó­dóru A. Torfadóttur eru færðar þakkir fyrir gagngóðar ábendingar í tölvupósti í þessum efnum (Theódóra A. Torfadóttir, 2009).

10. Schlenker, 2009; sjá, „0. Introduction“. Sjá einnig umfjöllun þýska málfræðingsins Arnim von Stechow um skrímsli Schlenkers (skoðað 15. október 2010).

11. Kaplan, 1989; greinin birtist fyrst 1977.

12. Schlenker, 2009; skoðað 11. september 2010.

13. Sjá einnig umfjöllun Eyju Margrétar Brynjarsdóttur um ábendingarorð á Vísindavefnum (skoðað 1. apríl 2010).

14. T er einhver tímapúnktur. M er tjáning (utterance) eða það „að mæla orð af vörum“. Gríska táknið ι (iota) er notað um „einn og aðeins einn“.

15. Hér er t einhver tímapunktur og t* er sá tímapunktur sem setning er sögð eða mæld af vörum (utterance)

16. Schlenker, 2009; sjá, „0. Introduction“.

17. Schlenker, 2009; sjá, 5. „A Monster-Based Account“, 8. „Extensions“ og áfr.

18. Nafnlausum rýni er þakkað fyrir ábendingu um þetta atriði.

19. Higginbotham, 2003: 496-533; sjá, „1. Introduction“.

20. Lee, 2010: 752.

21. Sama rit.

22. Sama rit.

23. Higginbotham, 2003; sjá, „6. The Semantic Contribution of PRO“.

24. Sama rit.

25. Higginbotham, 2003: 496-533; sjá, „6. The Semantic Contribution of PRO“.

26. Í háttarökfræði er lambda-sértekning (lambda-quantification), λ, notuð til að skilgreina inntak yrðingar. Í dæminu sem hér fer á eftir þýðir það að setningarræða H.Í. er bundin við viðfangið Björn M. Ólsen. Gríska táknið θ (theta) gefur til kynna að yrðingin taki til tiltekinnar stöðu. Higginbotham segir að nota megi θ til að tákna mögulega heima. Táknið σ (sigma) er notað til að afmarka val í sjálfu inntakinu og gengur út frá að allt sem á eftir fylgir sé satt.

27. Nafnlausum rýni er þakkað fyrir ábendingu um þetta atriði.

28. Kafa mætti enn dýpra ofan í þessa umræðu. Hér verður ekki farið út í útfærslu de se túlkunar hinnar minnislausu stríðshetju sem telur sjálfa sig vera hetju (dæmið, sem er þekkt, var sett fram af Castañeda), en látið nægja að vísa í sömu heimild (sama rit).

29. Þorsteinn Gylfason, 1996: 16.

30. Pears, 1971: 13.

31. Wittgenstein, 1994: 52.

Heimildir

Blackburn, S. (2005). Oxford Dictionary of Philosophy (2nd. ed.). Oxford: Oxford University Press.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2010). „Re: Núllfumlag“. Tölvupóstur til Kristians Guttesen. 15. október 2010.
Higginbotham, J. (2003). Remembering and Imagining, and the First Person. Í A. Barber (Ritstj.), Epistemology of Language. Oxford: Oxford University Press.
Jón G. Friðjónsson. (2009). Íslenskt mál – 47. þáttur. Sótt af http://malfraedi.is/grein.php?id=54
Kaplan, D. (1989). Demonstratives. Í J. Almog, J. Perry og H. Wettstein (Ritstj.), Themes from Kaplan. Oxford: Oxford University Press.
Lee, E. (2010). „James Higginbotham, Tense, aspect, and indexicality“. J Linguistics, 46, 749-754.
Pears, D. (1971). Wittgenstein. Glasgow: Fontana Press.
Quine, W. v. O. (1995). Hvar greinir okkur á? (Ólafur Páll Jónsson þýddi). Í Ólafur Páll Jónsson og Haraldur Ingólfsson (ritstj.), Hugur. Reykjavík: Félag áhugamanna um heimspeki.
Schlenker, P. (2003). A Plea For Monsters. Linguistics and Philosophy.
Schlenker, P. (2009). A Plea for Monsters. Sótt 1. apríl 2010 af http://philpapers.org/rec/SCHAPF-4
Theódóra A. Torfadóttir. (2009). „RE: Spurning úr málvísindafyrirlestrinum hjá Higginbotham“. Tölvupóstur Kristians Guttesen. 20. ágúst 2009.
Wittgenstein, L. (1994). Fyrirlestur um siðfræði (Þorsteinn Gylfason þýddi). Í Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (ritstj.), Heimspeki á tuttugustu öld. Reykjavík: Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar.
Þorsteinn Gylfason. (1996). Að hugsa á íslenzku. Reykjavík: Heimskringla.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006). Ef þetta er spurning hvert er þá svarið? Sótt af
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6290

Doktorsnemi við HÍ hlýtur viðurkenningu CINS

Gabriel Malenfant, doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands, hlaut á dögunum viðurkenningu hinnar kanadísku stofnunar í Norrænum fræðum (Canadian Institue for Nordic Studies).

Verðlaunin eru veitt árlega og eru ætluð kanadískum framhaldsnemum sem stunda nám á Norðurlöndum.

Gabriel lauk MA prófi i heimspeki frá Montréal-háskóla í Kanada og hefur birt nokkrar greinar um fyrirbærafræði og siðfræði. Doktorsverkefni hans snýr að heimspeki Levinas og umhverfis­siðfræði.

Eldri greinar komnar í gagnið

Vefstjóri Heimspekivefjarins hefur undanfarið varið kröftum í að fara í gegnum afrit af gamla vefnum. Við þessa vinnu hefur komið á daginn að nokkrar greinar urðu út undan þegar yfirfærslan átti sér stað fyrir enduropnun vefjarins. Á þetta hafa einnig glöggir lesendur bent. Ekki tekur því að tíunda hvað þessu olli, en í stuttu máli voru á tímibili ekki allar greinar aðgengilegar af efnisyfirliti gamla vefjarins. Við höfum nú tínt til flestar þessara greina (nokkrar eiga enn eftir að bætast við) og bætt þeim í veglegt greinasafn Heimspekivefjarins. Má þar telja ýmsar góðar greinar eftir okkar fremstu heimspekinga, einn leikdóm eftir Atla Harðarson og þrjár þýðingarperlur Gunnars Ragnarssonar.

Hér að neðan getur að líta heildarlista þeirra greina sem um ræðir, en þegar fleiri hafa bæst við munum við segja frá því á þessum vettvangi. Þeir sem nú rata inn á vefinn eru hvattir til að „gramsa“ í efnisyfirlitinu og skoða þær fjölmörgu og skemmtilegu greinar sem þar er að finna.

Þær greinar sem að undanförnu hafa komið í leitirnar eru:

  1. Vilhjálmur Árnason:
    Að velja sjálfan sig. Tilraunir Kierkegaards um mannlífið

  2. Jóhanna Þráinsdóttir:
    Er trúin þverstæða? Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

  3. Vilhjálmur Árnason:
    Við rætur mannlegs siðferðis. Siðagagnrýni og heilræði Friedrichs Nietzsche

  4. Kristján Árnason:
    „Bara flón! bara skáld!“ Heimspeki í molum eða molar um Nietzsche
    Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

  5. Róbert H. Haraldsson:
    Eftirmyndir Nietzsches
    Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

  6. Arthúr Björgvin Bollason:
    Stefnumót við Díonýsos. Nokkrir punktar um Nietzsche
    Birt með leyfi Tímarits Máls og menningar.

  7. Matthew Ray:
    Tilraun um styrk: Trúin í túlkunarsálarfræði Nietzsches
    Birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

  8. Atli Harðarson:
    Nietzsche og Dínamít
    Leikrit Birgis Sigurðssonar, Dínamít, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 2005. Efniviður þess er ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche, samband hans við systur sína, Elisabeth, og andleg hrörnun. Hér birtist gagnrýni Atla Harðarsonar á heimspeki­sögulegan þátt leikritsins, þ.e. á þá meinleysislegu mynd sem honum þykir þar vera dregin af hugsuðinum. Dómurinn birtist áður í Lesbók  Morgunblaðsins.

  9. Bryan Magee:
    Töfrar málspekinnar. Bernard Williams og Bryan Magee ræðast við
    Samræðan birtist upphaflega í Men of Ideas. Gunnar Ragnarsson þýddi.

  10. Anthony Kenny:
    Descartes fyrir byrjendur
    „Út allar miðaldir í Evrópu var Aristóteles hið óumdeilda kennivald í vísindum … Á fyrri helmingi sautjándu aldar breyttu verk franska heimspekingsins René Descartes þessu ástandi til frambúðar.“ – Í greininni „Descartes fyrir byrjendur“ fjallar breski heim­spekingurinn Anthony Kenny um helstu atriðin í kenningum franska heimspekingsins René Descartes. Gunnar Ragnarsson þýddi.

  11. Peter Kemp:
    Vísindi og skáldskapur
    Vísindaheimspeki tengja flestir við ákveðna höfunda sem virkir voru í hinum engilsaxneska heimi. Þó var alla hina 20. öld til sterk frönsk hefð í þessari grein með þeim Gaston Bachelard, Georges Canguilhem og Jean Cavaillès í fararbroddi. Þeir mótuðu ekki einungis kenningar margra síðari tíma spámanna, s.s. Foucaults og Althussers, heldur var Thomas Kuhn einnig undir áhrifum frá þeim. Hér birtist grein eftir Peter Kemp um Bachelard en hún kom áður út í TMM 1974. Einnig er þar greint frá öðru meginviðfangsefni verka hans, þ.e. hugleiðingum hans um skáldskap.

  12. Richard Dawkins:
    Góðar og vondar ástæður fyrir trú
    Bréf sem þróunarlíffræðingurinn og guðleysinginn Richard Dawkins ritaði handa 10 ára gamalli dóttur sinni. Í því reynir hann að skýra með einföldum hætti hvaða ástæður til að trúa einhverju teljist vondar, svo sem hefð, kennivald og opinberun. Ennfremur skýrir hann hvers vegna sterk innri tilfinning sé vandmeðfarin sem mælikvarði á réttar og rangar skoðanir. Af þeim sökum hvetur hann hana til þess að krefjast í hvívetna sannana eða góðra raka fyrir hverri þeirri skoðun sem aðrir vilji sannfæra hana um. Gunnar Ragnarsson þýddi.

  13. Jóhann Björnsson:
    Trúin, efinn og hið frumspekilega hjálparleysi
    Í þessum pistli veltir Jóhann Björnsson fyrir sér þeirri þverstæðu hversu margir trúleysingjar eða efahyggjumenn skuli taka þátt í trúarathöfnum þegar efi þeirra ætti einmitt að vera andstæða trúar. Í ljósi sögu okkar og menningar hafnar Jóhann því að slíkt sé einatt dæmi um hræsni. Hins vegar beinir hann athygli sinni að siðferðilegum rökum fyrir kostum trúarinnar sem og að meintum huggunaráhrifum hennar og bendir á takmarkanir hvorra tveggja.

  14. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson:
    Póststrúktúralismi, marxismi, femínismi: Að valda usla eða leita að höfuðmóthverfu?
    Í þessu erindi fjallar Ingólfur Ásgeir Jóhannesson um tengsl póststrúktúralisma, marxisma og femínisma. Fyrst er útskýrður munur hugtakanna póststrúktúralismi og póstmódernismi en aðallega snýst erindið um það hvernig femínistar og aðrir baráttusinnar geta haft gagn af hugmyndum sem kenna má við póststrúktúralisma, einkum þeim hugmyndum sem franski hugmyndasagnfræðingurinn Michel Foucault setti fram. Rætt er um hvernig marxísk leit að höfuðmóthverfu hefur glatað hluta af gildi sínu í fjölmenningarþjóðfélögum nútímans og um hvort vænta megi e.k. „póst-póst-isma“.
    Fyrirlestur fluttur á málstefnu Sagnfræðingafélags Íslands Póstmódernismi – hvað nú? þann 13. október 2000, sem haldin var í tengslum við hugvísindaþing 2000. Birtist einnig á Kistunni.

  15. Antonio Gramsci:
    Inngangsfræði heimspeki og sögulegrar efnishyggju: Nokkur byrjunaratriði
    Hugleiðing um „praxis-heimspeki“ úr svonefndum Fangelsisritum Antonios Gramsci. Slík heimspeki láti sér ekki nægja að endurspegla brjóstvit eða trúarbrögð manna og reyni heldur ekki að uppgötva nýjan sannleika að hætti „snillinga“. Henni sé þess í stað ætlað að „miðla með gagnrýni sannindum sem þegar hafa verið uppgötvuð, gera þau að félagseign … að andlegum og siðferðilegum hvötum“ þ.e. að „skapa nýja menningu“ og gera „einfaldar sálir … aðnjótandi æðri lífsskilnings“. Að baki henni liggur því val á heimsskilningi sem er fólgið í pólitískri athöfn og hlýtur þ.a.l. oftast að birtast sem „reikningsskil við þann hugsunarhátt sem ríkir“. Það er þó ýmsum vandkvæðum bundið fyrir „praxis-heimspekinga“ að hugsa fyrir fjöldann og ákveðnar hættur sem þarf að varast í þeim efnum. Greinin kom fyrst út í TMM 2/1975. Sigfús Daðason þýddi.

  16. Clarence E. Glad:
    Introduction to Philodemus’ On Frank Criticism
    Þetta er stytt útgáfa af innganginum í: Philodemus: On Frank Criticism. Introduction, Translation, and Notes eftir David Konstan, Diskin Clay, Clarence E. Glad, Johan C. Thom, and James Ware. Atlanta, Georgia 1988.

Heimspekivefurinn opnar að nýju!

Heimspekivefurinn hefur nú hafið göngu sína á ný eftir alllangt hlé. Vefurinn er starfræktur af Heimspekistofnun í samvinnu við Hugvísindastofnun og Félag áhugamanna um heimspeki. Vefurinn birtir greinar og annað efni á íslensku tengt heimspeki og leitast við að gera það á sem aðgengilegastan hátt. Vefurinn verður jafnframt góður byrjunarreitur fyrir þá sem vilja leita að heimspekilegu efni á veraldarvefnum, hvort sem er íslensku eða erlendu.

Allar ábendingar eru vel þegnar, sem og innsent efni.

Ritstjóri er Henry Alexander Henrysson og vefstjóri Kristian Guttesen. Yfirumsjón með uppsetningu hafði Sigurjón Ólafsson, vefstjóri Hugvísindasviðs.

Blindramminn bak við söguna og fleiri skilagreinar eftir Gunnar Harðarson

Blindramminn bak við söguna eftir Gunnar Harðarson

Blindramminn bak við söguna eftir Gunnar Harðarson

Út er komin bókin Blindraminn bak við söguna og fleiri skilagreinar eftir Gunnar Harðarson.

Um bókina segir: „Margar viðteknar hugmyndir sem taldar eru rammíslenskar eru í raun og veru afsprengi gleymdra erlendra hugmynda sem standa eins og blindrammi bak við hina sýnilegu mynd af íslenskri bókmennta- og hugmyndasögu. Íslensk menning er þá í vissum skilningi þýdd menning án þess að við gerum okkur alltaf grein fyrir því.“

Í bókinni er m.a. fjallað um tungumál og bókmenntasköpun á miðöldum, heimspekirit og hug­leiðslubókmenntir á 17. öld, íslenskar þjóðsögur og Gregóríus mikla, nýhúmanisma og heim­spekilegan kveðskap á 19. öld og inngöngu íslensks skáldskapar í heim erlendra nútíma­bókmennta á 20. öld.

Gunnar Harðarson er dósent við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

Heimspeki eigin samsömunar og rofins persónuleika

Philosophy of Personal Identity and Multiple Personality eftir Loga Gunnarsson

Philosophy of Personal Identity and Multiple Personality eftir Loga Gunnarsson

Á síðasta ári kom út hjá Routledge forlaginu bókin Philosophy of Personal Identity and Multiple Personality eftir Loga Gunnarsson.

Í tilkynningu frá útgefanda segir að bókin skoði birtingarmyndir sjálfsins í myndum eins og Fight Club (Fincher, 1999) og greini hinn óvenjulega áhuga á fyrirbærinu ‘rofinn persónuleiki’ (multiple personality) í menningunni.

Logi Gunnarsson er prófessor í heimspeki við Háskólann í Dortmund.

Ný bók eftir Kristján Kristjánsson

The Self and Its Emotions eftir Kristján Kristjánsson

The Self and Its Emotions eftir Kristján Kristjánsson

Á dögunum kom út hjá, Cambridge háskólaútgáfunni, bókin The Self and Its Emotions eftir Kristján Kristjánsson.

Höfundur er prófessor í heimspeki við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Nokkur helstu rita hans eru:

  • 2007 Aristotle, Emotions, and Education (Aldershot og Burlington: Ashgate).
  • 2006 Justice and Desert-Based Emotions (Aldershot og Burlington: Ashgate).
  • 2003 (ritstj.) ásamt Loga Gunnarssyni Heimspekimessa: Ritgerðir handa Mikael M. Karlssyni prófessor sextugum (Reykjavík: Háskólaútgáfan).
  • 2002 Justifying Emotions: Pride and Jealousy (London: Routledge).
  • 2002 Mannkostir: Ritgerðir um heimspeki (Reykjavík: Háskólaútgáfan).
  • 1997 Af tvennu illu: Ritgerðir um heimspeki (Reykjavík: Mál og menning).
  • 1996 Social Freedom: The Responsibility View (Cambridge: Cambridge University Press).
  • 1992 Þroskakostir: Ritgerðir um siðferði og menntun (Reykjavík: Háskólaútgáfan).

Sjá nánar um nýju bók Kristjáns hér.