Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2013

21. nóvember:
Alþjóðadagur heimspekinnar

eftir Gunnar Harðarson

UNESCO hefur lýst þriðja fimmtudag í nóvember alþjóðadag heimspekinnar. Með því er ætlunin að draga fram gildi heimspekinnar fyrir mannlega hugsun, fyrir menninguna og fyrir hvert og eitt okkar. Sérstök áhersla er lögð á að heimspekin geti höfðað til ungs fólk, þar sem hún stuðli að gagnrýninni og sjálfstæðri hugsun og geti þar með lagt fram skerf til betri skilnings á heiminum stuðlað að umburðarlyndi og friði milli manna. Jafnframt er hvatt til atburða og samræðna á heim­spekilegum nótum.

Það er kannski ekki augljóst að heimspeki eigi að geta höfðað til ungs fólks eða stuðlað að því að þroska ákveðna þætti skapgerðar og viðhorfa. Ef jafnvel sprenglærðustu doktorar eiga í erfið­leikum með að botna í Kant, Hegel eða Wittgenstein, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að heimspekin geti gert eitthvað fyrir börn og unglinga eða ungt fólk yfirleitt?

En það er heimspeki og heimspeki. Heimspekileg samræða þarf í sjálfu sér ekkert frekar á sögu heimspekinnar að halda frekar en öðrum ytri uppsprettum hugmynda. Heimspekilega spurningar spretta sjálfkrafa upp úr lífinu sjálfu, kannski ekki síst hjá börnum og unglingum. Brynjólfur frá Minna-Núpi segir skemmtilega frá því hvernig hinar heimspekilegu spurningar vakna með honum þegar hann er (að eigin sögn) á 8.-10. aldursári:

Fyrst framan af var umhugsunarefni mitt ekki annað en það, sem fyrir kom þá og þá stundina. Þó var það mjög snemma, að jeg fór að hugsa um sjálfan mig á sjerstakan hátt. Mjer var orðið það ljóst þá er jeg man fyrst, að jeg sjálfur var aðgreindur frá öllu öðru. … Jeg man glöggt, að í þessu tilliti var mesti mis­munur á því sem jeg vissi af. En í einu tilliti hvarf það þó alltsaman saman í eitt í huga mínum: það var alltsaman annað en jeg. … Og einna mest undraðist jeg það, að allir menn voru eins að því leyti, að enginn þeirra var jeg eða eins og jeg. Og jeg var öðruvísi en allri aðrir að því leyti, að jeg einn var jeg.1

Þó kemur að því að glíman við spurningarnar, hin innri samræða, leiðir hina heimspekilegu hugsun að ákveðinni lausn á vandanum sem við er að glíma:

Loksins rann það upp fyrir mjer, eins og sjálfkrafa, að jeg mundi ekki vera eins frábrugðinn öðrum mönnum og jeg hafði ætlað: Það mundi vera eins ástatt fyrir öllum mönnum, sem um sjálfa sig hugsuðu: hver einasti maður mundi hljóta að líta eins á sig gagnvart öllu öðru eins og jeg leit á mig gagnvart öðru.2

Og þessi niðurstaða leiðir síðan að enn annarri spurningu. Þannig vakna hinar heimspekilegu spurningar „sjálfkrafa“ við það eitt að vera til og hugsa um sjálfan sig, lífið og tilveruna. Það þarf ekki annað til. En þetta verða reyndar aldrei annað en innri samræður hjá honum. Þótt spurning­arnar vakni af sjálfu sér, fær Brynjúlfur að ekki tækifæri til að rækta hina heimspekilegu samræðu í umhverfi þar sem unnt hefði verið að ræða spurningarnar, skoða þær frá ýmsum sjónarhornum og gaumgæfa rökin fyrir mögulegum svörum. Hann vantar stað til að ræða hinar heimspekilegu hugmyndir, hann vantar skólastofu, heimspekikaffihús, eða gönguferð með öðrum sem vilja ræða spurningarnar með sama hætti, hann vantar Alþjóðlega heimspekidaginn!

Í heimspeki vakna spurningar af ólíkum ástæðum, en eitt lykilatriði í heimspeki er að það þarf að orða spurningarnar, koma hugmyndunum í orð, fylgja þeim eftir, rökræða þær. Þannig er mögu­legt að þroska hugsunina, og opna nýjar hliðar á umræðuefninu.

Heimspekileg samræða er einmitt sá staður þar sem unnt er að leggja rækt við þessa þætti. Þar er ekki tekið við skipunum eða setið undir eintali þess sem hæst glymur. Það eina sem hefur vægi er gildi röksemdanna. Í heimspekilegri samræðu hugsum við upphátt með öðrum, hún er einmitt samræða en ekki einræða, leit að sannleikanum, því að í heimspeki er enginn handhafi sannleikans.

Eins og Kristín H. Sætran leggur áherslu á í bók sinni, Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum, er það einmitt frjáls en öguð hugsun heimspekinnar sem getur tekið allt til umræðu, jafnt per­sónulega reynslu sem almenn sannindi, sem ætti að geta höfðað til ungs fólks og veitt því „þjálfun í að takast á við óvissu í spurn, forvitni, frelsi og ögun“ og stuðlað að virðingu fyrir öðrum sem hugsandi verum.

Aftanmálsgreinar

1. Brynjúlfur Jónsson, Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna (Reykjavík: Sigurður Kristjánsson, 1912), bls. 7.

2. Sama rit, bls. 9.

Heimspeki úr glatkistunni: Konur og kvenréttindi 1876-1885

Umræða 19. aldar skoðuð út frá fimm greinum í Skírni og Fjallkonunni

 

Inngangur

eftir Hrund M. Þorgeirsdóttur og Svandísi Þorsteinsdóttur

„Kvölin sem svo margar ungar konur þekkja; bundnar á höndum og fótum með ást og móðureðli en hafa ekki gleymt fyrrum draumum sínum.“

Simone de Beauvoir

Konur hafa verið kallaðar stóri minnihlutahópurinn. Það tók þær margar aldir að átta sig á því að hlutskipti þeirra í þessum heimi gæti verið betra og ætti að vera betra. Það var ekki fyrr en á 19. öldinni sem hin eiginlega „kvenréttindabarátta“ hófst, mörgum til mikillar óánægju, og þar var Ís­land ekki undanskilið. Greinar í blöðum og tímaritum frá þessum tíma er ein besta heimildin um þær áherslur sem einkenndu kvenréttindabaráttunnar hér á landi. Hér verður litið til fimm greina eftir fjóra höfunda sem birtust á síðum Skírnis og Fjallkonunnar á árunum 1876-1885. Höfundar þeirra eru þau: Guðmundur Þorláksson (1852-1910), Eiríkur Jónsson (1822-1899) og Bríet Bjarn­héðinsdóttir (1856-1940), sem skrifaði undir dulnefninu Æsa, en fjórði höfundurinn er „Ónefndur.“1 Allar greinarnar gera tilraun til þess að opna augu Íslendinga fyrir bættri stöðu kvenna víðsvegar um heiminn og undirstrika hversu farsællega þær höfðu í raun staðið undir þeim væntingum og skyldum sem fylgdu auknum réttindum og bættri félagslegri stöðu.

Höfundarnir eiga það allir sameiginlegt að hamra á mikilvægi þess að konur fái notið menntunar til jafns við karla. Menntun er lykillinn að bættum kjörum og réttindum. Á þessum tíma var það hinsvegar útbreidd skoðun að aukin réttindi myndu óhjákvæmilega bitna á getu kvenna til að sinna móðurhlutverkinu. Þetta var þá þegar umdeilt en óttinn að baki spurningunni „hver á þá sjá um börnin ef konurnar fara út af heimilinu?“ var áþreifanlegur. Enginn höfundanna fjögurra dregur úr mikilvægi móðurhlutverksins og telur Bríet Bjarnhéðinsdóttir m.a. að bætt menntun geri mæður að betri fyrirmyndum og efli þær í uppeldishlutverkinu.

Þó svo að meginboðskapur greinanna sé sá sami er umtalsverður blæbrigðamunur á stíl og þeim röksemdafærslum sem höfundarnir beita. En þegar litið er yfir greinarnar í tímaröð bera þær skýran vott um framfarir, bæði hvað varðar kvenréttindi og viðhorf til kvenréttinda, á tiltölulega stuttum tíma. Baráttan átti eftir að halda áfram fram eftir 20. öldinni og hún er enn háð á þeirri 21. En þrátt fyrir að margt hafi áunnist þá má ekki gleyma upphafinu.

Aftanmálsgrein

1. Um Ónefndan vitum við ekkert fyrir víst, en okkur grunar að um kvenmann sé að ræða. Þessi grunur byggist á áherslum textans, vali á dæmum og sýn höfundar á kynjamisrétti samtíma síns.

Heimildir

Bríet Bjarnhéðinsdóttir [Æsa], „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 11. tbl., bls. 42-43.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir [Æsa], „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 12. tbl., bls. 45-47.
Eiríkur Jónsson, „Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum“, Skírnir, 58. árg. (1884), bls. 18-19.
Eiríkur Jónsson, „Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“, Skírnir, 57. árg. (1883), bls. 15-17.
Guðmundur Þorláksson, „[Jafnrétti kvenna]“, Skírnir, 50. árg. (1876), bls. 14-16.
Ónefndur, „Kvenfrelsi“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 1. tbl., bls. 1-2.
Ónefndur, „Kvenfrelsi“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 2. tbl. bls. 5-7.

 

Greinarnar fimm sem birtust á síðum Skírnis og Fjallkonunnar á árunum 1876-1885

 

„Jafnrétti kvenna“

eftir Guðmund Þorláksson

Þá er enn eitt mál, alþjóðlegt mál, sem lengi hefur verið talað um og lengi rifist um, en sem þó aldrei sýnist að hafa haft eiginlegan framgang fyrr en nú á síðustu árum, og það er þess vegna, að vér tökum það fyrir hér. Það er jafnrétti kvenna.

Til þess rétt að geta skilið það mál, verða menn einkum að gefa gætur að, hvernig allur iðnaður og vinna hefur breyst nú á síðari tímum frá því, sem áður var. Starfssvið kvenna var þá nokkuð annað og ólíkt rýmra en það er nú. Mest af vinnunni var þá unnið á heimilunum sjálfum, og þar komust jafnt að konur sem karlar. Nú er það ekki lengur, og næstum allt er unnið utan húss. Vélar og verksmiðjur tóku við, og þar komust konur ekki að. Þær urðu að kaupa það í búðunum, sem þær höfðu áður búið til sjálfar. Svona er það í flestum löndum. Vinnan hefur smám saman dregist meira og meira úr höndum þeirra; verksvið þeirra hefur ekki verið aukið að því skapi sem iðnaðurinn óx; almenningsálit hefur ekki þolað, að þær tæki sér annað fyrir hendur en það sem ættmæður þeirra um margar aldir höfðu gert undir allt öðrum atvikum; í fáum orðum: þeim var ekki treyst til annars en vera réttar og sléttar heimasætur. Þetta gekk nú góða stund. Iðnaði, vísindum og menntun fleygði alltaf áfram, og mennirnir fylgdust, hver á sinn hátt, með straum­num, — en kvenfólkið eitt stóð í stað. Þær fengu ekki að taka þátt í neinum af þessum almennu störfum, hvað þá að fylgjast með í vísindalegri menntun, og neyta í öllu sömu réttinda og karlmenn.

Það var nokkuð sem fáum kom til hugar, fyrr en seint og síðar meir, og þegar svo fyrst var farið að vekja máls á því, þótti varla nokkrum það takandi í mál. Fjöldi manna reis upp og ritaði, og ritar enn, bæði með og mót, og það af ákafa. Öll atriði málsins voru nú, hvert á eftir öðru, tekin fram og rædd, og þau eru ekki fá. Hluttaka í iðnaðar- og verslunarefnum jafnt karlmönnunum, jafn eignarréttur og arftaka, jöfn hluttaka í stjórnlegum efnum, og þar af fylgjandi jafn kosningar- og atkvæðisréttur, jafnrétti í menntun og vísindum, jafn réttur til allra embætta, o. fl. Allt þetta hefur verið tekið fram, og mikið er unnið á í ýmsum löndum, þótt mikið vanti á. En við ramman hefur verið reip að draga, þar sem vaninn og almenningsálitið er, og það er því ekki að undra, þótt for­vígismenn þessa máls hafi mætt mikilli mótstöðu. Loksins fóru menn þó að sjá, að staða kvenna og atvinnuleysi fór alltaf dagversnandi, og eitthvað yrði til bragðs að taka, að bæta hag og auka réttindi þeirra. Bandafylkin urðu hér á undan sem í mörgu öðru; þau fóru smátt og smátt að rýmka um réttindi þeirra. Fyrst komust þær að skrifstofustörfum, póstafgreiðslu, ýmislegri atvinnu við rafsegulþræði og mörgu öðru. Kvennaskólar fóru að komast á um allt landið. Allt þetta mætti raunar mikilli mótstöðu í fyrstunni, en þær stóðu ekkert ver í sinni stöðu, en þeir, og svo var því lokið. Bráðum var þeim veitt jafnrétti við karlmenn í öðru. Þær fengu leyfi til að sækja háskóla, og taka próf, og nokkru seinna fengu þær jafnan rétt til embætta. Þær sækja nú 30 háskóla þar, og allir þessir háskólar ljúka lofsorði á iðni þeirra og dugnað.

Erfiðara hefur þetta mál átt uppdráttar í Norðurálfunni. Það hefur raunar fengið öfluga með­mælendur, svo sem Englendinginn Stuart Mill, Þjóðverjann H. von Scheel og fleiri, en hinir hafa þó verið jafnan fleiri, er móti hafa verið. Merkastir af þeim eru Bischoff, líffræðingur í München, og Proudhon, frakkneskur maður. Bischoff hefur nýlega ritað stóra bók á móti þessu; þar segir hann, að konur geti alls ekki lært neitt vísindalegt, það skyldi þá helst vera ögn í grasafræði, um falleg­ustu blómin eða þess háttar. Hann færir þá eina sönnun fyrir sínu máli, sem hann vill láta nægja, að kvenmannsheilinn sé að jafnaði 134 grömmum léttari, en karlmannsheilinn. Nákvæmur er reikningurinn, enda þykist hann geta byggt á honum. Proudhon gengur lengra, og það svo langt, að jafnvel mestu mótstöðumönnum þessa máls ofbýður. Það mun því nær sanni, er Scbeel segir, að þessir menn bæti meira en þeir spilli fyrir málinu. Fyrir alla þessa baráttu vannst þó það á, að Svisslendingar leyfðu konum að hlusta á fyrirlestra og taka próf við háskólann í Zürich. Það var árið 1864. Leyfið var lítið notað í fyrstunni, þó jókst talan smátt og smátt og 1873 lásu 114 stúlkur við þennan háskóla, en af þessum 114 voru 100 rússneskar. Það kom til af því að heldri meyjar Rússa njóta langtum betra uppeldis, en í öðrum löndum, og kvennaskólar hafa verið þar um langan aldur miklu fleiri og betri en annars staðar. Þetta átti þó ekki við skap Rússa og sama árið var þeim öllum fyrirboðið að halda áfram og boðið að koma heim. Skarðið, sem varð við þetta, fyllist smám saman aftur, háskólinn í Bern veitti þeim aðgöngu líka, og rússneskar stúlkur fóru nú aftur að vitja til þessara háskóla. Fleiri háskólar hafa nú tekið þetta eftir, þótt þeir séu engan veginn margir. Danir leyfðu þeim í fyrra að sækja háskólann í Kaupmannahöfn, en ekki er enn komið svo langt, að þær hafi rétt til embætta eða nokkurn almennan styrk til bókiðna sinna.

Flestar af þeim konum, sem stunda lærdóm við háskólana, lesa læknisfræði, og ber ekki neitt á, að þær séu hugminni eða kveifarlegri en karlmennirnir, þótt því væri spáð í fyrstunni. Margar hneigjast líka að náttúrufræði, heimspeki og fagurvísi, og nokkrar jafnvel að lögfræði og tungumálum. Á sumum stöðum (t. a. m. í Höfn) er þeim ekki leyft að lesa guðfræði. Það þykir undarlegt því að flestir ætla, að þær séu almennt betur lagaðar fyrir það, en margt annað.

Aðrar framfarir í þessu máli hafa verið litlar. Þó skulum vér geta þess, að Svíar hafa nýlega gefið út lög um jafnan eignarrétt hjóna, og hins sem meira er, að á Svissaralandi hafa tvö fylkin (Schweitz og Uri) veitt konum fullkomið jafnrétti í öllu.

„Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“

eftir Eirík Jónsson

Vér gerum ráð fyrir, að löndum vorum þyki ekki illa tilfallið að koma við hagi kvenþjóðarinnar erlendis, eða það sem gert hefur verið til meira jafnréttis og jafnstæðis með konum og körlum, og það því heldur, sem þing vort er í því máli komið fram fyrir þingin á Norðurlöndum. Hér eru þrjú höfuðatriði, sem sérílagi koma til greina: jöfn ráð giftra kvenna við bændurna á því sem hjónin eiga eða eignast, eða heimild þeirra til þess, sem þær afla eða erfa í hjúskap; kosningarréttur; og réttur til atvinnu og embætta til jafns við karlmenn. Hvað fyrsta atriðinu við víkur, þá gengur víða nokkuð áleiðis, t. d. í Danmörku (sbr. „Skírni“ 1880, bls. 128), og árið sem leið á Englandi, því þar eru áþekk lög leidd til gildis frá nýári 1883. Þar á móti veitir alstaðar erfiðara með kosningar­réttinn, og fæstum þykir við það komanda, að konur kjósi fulltrúa til löggjafarþinganna. Á meginlandi norðurálfunnar hafa menn varnað konum kjörréttar með öllu, en á Englandi kjósa ógiftar, fjárhaldsnjótandi og húsráðandi konur bæði í bæjar og sveitastjórn og menn til skólaráða, ef hagir þeirra eru hinir sömu sem karlmannanna, sem þessa kjörréttar njóta. Einnig veita þær forstöðu fátækrastjórninni á sumum stöðum. Á málfundi, sem var haldinn í sumar í Nottingham (Social Science Congress), var meðal annarra mála rætt um þegnréttindi kvenna, og tóku þar þrjár konur þátt í umræðunum. Ein þeirra sagði, að konur hefðu á Englandi notið langt um meiri réttinda á 13. öld en nú á hinni 19. Þetta er rétt, og hvað kosningarréttinn snertir hafa þær verið hans aðnjótandi til 1832. Þeim er því ekki láandi þó þær vilji hafa hlut sinn réttan. Á síðustu 14 árum hafa líka komið bænarskrár til þingsins með miklum nafnafjölda — ein með 500.000 undirskriftum — meðal þeirra var vitringurinn J. Stuart Mill. Þó málið næði ekki framgöngu, fjölgaði tala þeirra manna lengi á hverju ári, sem jákvæddu frumvarpinu, en hefur hún rýrnað nokkuð aftur á seinustu árunum. Þetta virðist boða, að málið eigi enn heldur langt í land. En þegar það vinnst þá fær tala þingkjósendanna drjúgan viðauka, því við síðasta manntal voru á Englandi 400.000 kvenna, sem að efnahag til og að öðru leyti höfðu alla burði til kjörréttar, guldu allar skyldur og skatta og stóðu jafnfætis karlkynsþegnunum. Í Bandaríkjunum í Norður-Ameríku hafa konur eigi fengið enn kosningarrétt til þinganna, en undir árslokin, kom uppástunga fram á alríkisþinginu um þá breytingu á ríkislögunum. Mönnum þykir ekki líklegt, að hér falli tré við fyrsta högg, og það því síður sem ¾ hljóta að samþykkja í báðum þingdeildum, en síðan ¾ af landaþingunum að fallast á lagabreytinguna. En kröfur kvenna í Bandaríkjunum lúta ekki aðeins að kosningarrétti, en þær heimta líka bæði kjörgengi til þinga, og jafnan rétt við karlmenn til allra embætta þar á meðal til landstjórnarembætta í hinum einstöku löndum, og til alríkisforustunnar í Washington. Við síðustu forsetakosningu bauð ein kona sig fram til kjörs, og ein kona í San Francisco, Stow að nafni, reyndi að komast í landstjórasessinn í Kaliforníu. Hún heldur út blaði, og í því mælti hún fram með sér sjálfri með þeim ummælum:

„Í þessu ríki, þar sem karlmennirnir fjalla einir um landstjórn og fjárneyslu landsins, er allt komið í það óstand, allt svo atað og sauri orpið í flokka­deilunum, að það er mesta þörf á konu með sóp og sorptrog til að koma á burt öllu því skarni sem akkazt hefur saman í mörg ár. Mundi það ekki sæma vel „gullríkinu“, ef það yrði fyrst til þess að setja borgarakórónu á höfuð kvenmanni?“

Til embætta og ýmissar atvinnu, sem áður hefur verið ætluð karlmönnum, hefur vegurinn orðið konum greiðari í Bandaríkjunum en í öðrum löndum, en vér eigum hér við þá atvinnu sérílagi, sem menn verða hæfir til fyrir skólamenntun og uppfræðandi undirbúning. Annars hefur allstaðar mikið áunnist, einkum á seinustu árunum, hvað slíka menntun og undirbúning snertir. Auk þess að æðri menntaskólar eru í öllum löndum fyrir ungar stúlkur, og þær eru settar til kennslu í alþýðuskólum samhliða karlmönnum, er þeim nú víða veitt aðganga til háskólanna. Vér nefnum háskólana í Kaupmannahöfn, Lundi, Helingjafossi, suma háskóla á Rússlandi, Spáni og Ítalíu. Á Englandi er stofnaður kvennaháskóli í grennd við Cambridge. Hér hafa 44 stúlkur lokið prófi, en 68 eru þar nú við nám. En þeim er ekki leyft að ná akademískum nafnbótum (meistaranöfnum). Á meginlandinu eru þegar nokkur dæmi til, að kvenmenn hafa náð doktorsnafni í læknisfræði. Í Evrópu stunda flestar stúlkur þá fræði. Í þessari grein eru Bandaríkin í Norður-Ameríku langt á undan öllum öðrum. Hér eru stórkostlegir kvennaháskólar, og að námsgreinirnar sé margar, og skólarnir sóttir í ýmsum atvinnu- og embætta- tilgangi, má ráða af því, að í Bandaríkjunum gegna hér um bil 400 kvenna læknastörfum, og í fjármáladeild stjórnarinnar í Washington eru 577 kvenna, sem hafa í laun 1900—3500 króna. Þar að auki er talað um konur þar vestra, sem bæði gegna klerka störfum og dómara. Um hlutdeild þeirra í uppfræðingu barna eða skólaforstöðu þarf ekki að tala.

„Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum“

eftir Eirík Jónsson

Bók J. St. Mills „Kúgun kvenmannsins“ (Subjection of Woman) hefði eins mátt kalla: „Lausn kvenna úr ánauð“, því þetta var tilgangurinn. Hér var til mikils verkefnis vísað, og skorað á þann anda kærleiks og mannúðar, sem lyftir mönnunum af lægri stigum á efri, á stig vaxanda göfug­leiks og framfara. Ánauð kvenmannsins er eins gömul og mannkynið sjálft. Konan var fyrsti þræll á jörðinni, og þó var í henni sá neisti fólginn, sem átti að framleiða vermsl allrar ástar og kær­leika. Það var móðurástin. Hið upphaflega ástand ætla menn hafi farið því nær, sem enn finnst hjá sumum villiþjóðum, t. d. í Afríku og Eyjaálfunni, sem skemmst eru komnar í mannúð og menningarsiðum. Hin kristna þjóðmenning hefur að vísu mikið að gert til að rétta hlut kven­mannsins, en þó eru enn of margar leifar eftir af ójafnaði fyrri alda og hleypidómum. Vér þurfum ekki annað enn benda á, hverjum takmörkum eignarréttur og þegnréttindi kvenna hafa verið háð til vorra tíma í flestum löndum. Ókristilegast og afskræmislegast er þó það þýjamark, sem lögin setja á kvenmanninn fyrir afbrot, sem karlmanninum eru látin hlýða eða honum haldast uppi átölulaust. — Hér þarf ekki berara að mæla. —

Vor öld á það lof skilið, að á síðara hluta hennar hefur hér verið margur steinn úr götu tekinn, og að því er nú á hverju ári kappsamlega unnið, að greiða veg fyrir jafnrétti karla og kvenna. Mest hefur til þessa áunnist, þar sem til atvinnunnar kemur, og kvenmenn nema það nú til atvinnu í þúsunda tali, sem fáum mundi hafa þótt í mál takanda á fyrirfarandi öldum. Vér nefnum fátt eitt til dæmis. Í fyrra stúderuðu 108 stúlkur við háskólana á Svisslandi. Við háskólann í París nema læknisfræði 50 kvenmenn, og við tvo háskóla á Hollandi 40. Vér nefndum í fyrra kvennaskólann (í Girton) í námunda við Cambridge, og eru þar nú drjúgum fleiri. En við háskólana í Cambridge, Lundúnum og Dýflinni nema ýmis fræði hér umbil 750 kvenna (samtals). Nú á að reisa nýjan kvennaskóla nálægt Vindsor, og hefur auðugur læknir, Halloway að nafni, gefið til hans 4 ½ millj­ón króna. Frakkar hafa líka stofnað marga menntaskóla, þar sem stúlkum er ætlað að nema þau fræði, sem allmennt eru kennd í kvennaskólum, á Norðurlöndum og víðar. Til síðustu tíma hafa klaustrin verið helstu kvennaskólarnir á Frakklandi. Hinu sama fer fram á Ítalíu, og þar beiðast konur fullkomins jafnstæðis við karlmenn, t.d. jafnrar heimildar að öllum embættum og umboð­um, sem þær geta gegnt fyrir kunnáttu sakir. Vér látum þess getið, að 150 kvenmenn gegna póst­embættum í Austurríki, og 1000 þjónustu við hraðfréttasendingar í Lundúnum, Dýflinni og Edína­borg. Hvað eignarréttinn og þegnréttindin snertir, þá er því máli vel fram haldið í öllum löndum, og er víða áleiðis komið. Í fyrra var kosningarréttur kvenna (til þingkosninga) borinn enn upp í neðri málstofu Englendinga. Með honum urðu 114 atkvæði gegn 130. Þegar Stúart Mill bar sitt frumvarp fram í fyrsta sinn, fylgdu því ekki fleiri enn 73 atkvæði. Að niðurlagi þessarar greinar skal þess getið, að alþjóðafélag, eða deildir þess í öllum löndum vorrar álfu, kostar mesta kapps um, að takmarka og afnema þau lög, sem hafa fyrir ávirðingar og tálarfall skipað konum í her lastanna og forsmánarinnar.

„Kvenfrelsi“

eftir Ónefndan

Það er sjaldan, að kvenfrelsi er nefnt á nafn í íslenskum blöðum, og þó kvenfólkið hér á landi sé dálítið farið að rísa upp úr dái menningarleysis, vankunnáttu og ófrelsis, þá er eigi þess að vænta, að jafnmikill áhugi sé vaknaður meðal kvenþjóðarinnar hér á landi fyrir almennum rétt­indum sem í öðrum löndum, þar sem menntun kvenna er fullkomnari. Vér verðum að játa, að menntunarmál kvenna hér á landi eru enn skammt á veg komin, þrátt fyrir það, þó einstakir menn hafi gengið vel fram í að beina því máli áleiðis, einkum með því að stofna kvennaskólana, sem vitanlega er ábótavant í mörgu, enn geta verið mjór mikils vísir. Vér megum vona, að Íslendingar láti eigi sitt eftir liggja, að veita kvenþjóðinni smámsaman meira jafnrétti enn nú á sér stað, og verði eigi eftirbátar nágrannaþjóðanna í þeirri grein, enda hefur alþingi með lögum um kosningar­rétt kvenna, dags. 12. maí 1882, þar sem sjálfstæðum konum er veittur kosningarréttur í sveita­málum og kirkjumálum, orðið á undan öllum nágrannaþjóðum vorum, og benda nú einkum Norðmenn á dæmi Íslendinga í þessu atriði og hvetja til að breyta eftir því. Vér ættum því síður að láta hér við staðar nema.

Kristindómurinn og skynsemin segir oss, að guð hafi skapað alla jafna sem bræður og systur og börn hins sama föður; að konum og körlum séu af náttúrunni veitt öll hin sömu réttindi til að leita sælu sinnar og fullkomnunar, álíka og blámenn og Indíánar eru jafnfrjálsbornir af náttúrunni sem hvítir menn. Og þó hafa menn verið að leitast við að sanna það af ritningunni, að konan eigi að vera manninum undirgefin; en það getur engan veginn samrýmst við anda kristindómsins. Það er ekki fyrr en á þessari öld, að almennt er farið að viðurkenna jöfnuð karla og kvenna. Ameríku-menn hafa orðið einna fyrstir til að viðurkenna réttindi kvenna og baráttan í Ameríku um afnám þrælahaldsins ruddi braut frelsishreyfingum kvenfólksins.

Ef vér lesum veraldarsöguna, sjáum vér, að kvenfólkið hefur á öllum öldum og í öllum löndum átt við harðan kost að búa, þótt ánauð þeirra hafi eigi verið alstaðar jafn óbærileg. En svo mikið er víst, að ánauð og vanvirða kvenfólksins hefur jafnan verið bölvun lands og lýða og steypt voldug­ustu þjóðum í glötunina. Hvað var það sem steypti Aþenuborg og Róm? Fremst af öllu það, að konur voru þjáðar og svívirtar og svo þrælahaldið; yfir höfuð ekkert annað en ófrelsi lýðsins.

Meðan meiri hluti mannkynsins er þannig sviptur réttindum og seldur í ánauð, þá er ekki sannra framfara að vænta. Nú er margt talað um framfarir í heiminum og svo þykir, sem öllu fleygi fram, enn þessar framfarir ganga flestar í sérstakar stefnur, og eru minni enn þær sýnast. Í sumum greinum eru framfarirnar mjög litlar, svo sem í öllu hinu siðferðislega. Enda liggur í augum uppi, að mannkynið eigi muni geta náð sönnum þroska í siðgæði meðan meiri hluti þess, kvenfólkið, sem að öllum jafnaði er ríkari að siðgæðum, er engu látinn ráða.

Það getur eigi verið aðalákvörðun kvenna, að giftast og þjóna manninum. Fyrst og fremst eru konur miklu fleiri en karlar, og svo eykst tala þeirra með ári hverju, er ekki gifta sig, svo að mikill þorri af þeim verður að vera ógiftar. Hagir ógiftra kvenna verða þó sjaldnast betri enn hinna sem giftar eru, enda ná þær að tiltölu eigi jafnháum aldri sem giftar konur.

Það var 1840, að allsherjarfundur var haldinn í Frímúrarahöllinni í Lundúnum til að ræða um af­nám þrælahalds um allan heim. Fundinn sótti fjöldi manna, og vestan um haf frá Ameríku komu konur á fundinn, er kjörnar höfðu verið til að mæta þar. Í byrjun fundarins varð þref mikið um það, hvort konunum skyldi leyfa sæti á fundinum, og einkum urðu prestarnir óðir og uppvægir og börðu við ritningunni á allar hliðar. Mælskumanni einum frá Ameríku, George Bradburn, ógnaði svo æði prestanna, að hann sagði: „Sannið þið af ritningunni, að kvenfólkið eigi að vera ófrjálst, að annar helmingur mannkynsins eigi að halda hinum í ánauð; ég held ég gæti þá ekki gert annað þarfara fyrir mannkynið, enn að brenna allar heimsins biblíur á báli.“ Síðan var gengið til atkvæða og féllu þau svo, að konunum var vikið af fundinum.

Tvær af konum þeim, er reknar voru af fundinum, hafa síðan orðið frægar fyrir framgöngu sína í framfaramálum kvenna í Ameríku. Þær heita Lucretia Mott og Elisabet Stanton. Þegar þær komu heim aftur til Ameríku, héldu þær fundi og stofnuðu félög til eflingar réttindum kvenna. Síðan hefur því máli fleygt áfram í Ameríku, og það er kunnugt, að konur njóta hvergi slíkra réttinda sem þar.

Englendingar hafa næst Ameríkumönnum látið sér hugað um að bæta kjör kvenna. Rit Stuart Mills hafa átt einna bestan og mestan þátt í því að vekja Englendinga til framkvæmda í þeim efnum. Þar er nú mjög barist fyrir kosningarrétti kvenna, og líður vart á löngu, áður konur ná þar kosningarrétti að lögum.1 Lög um fjárforræði (séreign) giftra kvenna á Englandi náðu gildi 1. janúar 1883. Helsta inntak þeirra er þetta: Sérhver gift kona hefur full fjárforráð út af fyrir sig á þeim eigum, sem hún á, eða kann að eignast, án þess maðurinn eigi þar nokkru um að ráða, eða eigi að skipta sér af samningum þeim, er hún gerir um eignir sínar. Þetta er hennar sérstök eign, en ekki mannsins. Á sama hátt getur hún eigi ráðið neinu um hans hlut af eignunum. Sameiginleg meðferð eignanna verður að vera komin undir vilja beggja þeirra.

Eftir því sem menntun kvenna fer vaxandi, má vænta þess, að þær nái meiri réttindum og hagur þeirra fari batnandi. Konur eru nú á dögum farnar að taka þátt í ýmsum störfum, sem karlmenn einir hafa áður fengist við. Þannig eru í Ameríku konur, sem flytja mál fyrir dómum og dæma mál; konur sem kenna á hinum æðri skólum, konur; sem standa fyrir stórum sjúkrahúsum; konur, sem eru verkvélameistarar, efnafræðingar, prestar; að vér ekki nefnum hinn mikla þorra af kvenlæknum. Við fjármála-stjórnardeildina í Washington eru 600 konur með góðum launum (7—8000 kr. um árið). Bókavarðarstörfum gegna konur allvíða við hin stærri bókasöfn. Í Danmörku og Svíþjóð gegnir fjöldi kvenna ýmsum póststörfum og hraðfréttastörfum. Bankastörfum gegna konur mjög víða. — Í flestum löndum er konum nú leyft að sækja fyrirlestra á háskólunum, og við suma háskóla hafa konur náð kennara-embættum. Það mun og vera almennt viðurkennt, að kvenmaðurinn hafi hér um bil hina sömu andlega hæfileika og karlmaðurinn, en hið sanna er, að vér þekkjum ekki kvenfólkið til neinnar hlítar meðan það er hulið í þokumökkvum ófrelsis og vanþekkingar. Þær hinar fáu konur, er náð hafa mikilli menntun, hafa flestar orðið frægar fyrir lærdóm og dugnað. Vér skulum aðeins nefna mad. Staël, frakkneska lærdómskonu, rithöfund og skáld, George Sand, fræga frakkneska skáldkonu og rithöfund, George Elliot, enska skáldsagn konu (heitir réttu nafni Mary Evans), Friðrikku Bremer, sænska skáldsagnakonu (sögur hennar eru þýddar á flest mál); Rósa Bonheur, frakknesk, er mjög fræg fyrir listamálverk, og svo má nefna hina frægu söngkonur, er enginn fær við jafnast, svo sem er Sarah Bernhardt, Jenny Lind og Adelina Patti og fl.; frægar konur í stærðafræði og eðlisfræði: frú Sommerville, ensk, Sofia Germain og Sofia Kowalevski (rússnesk, prófessor í stærðafræði við háskólann í Stokkhólmi); miss Martineau og mad. Chatelet, mjög frægar fyrir rit sín, o.fl.

Svisslendingar urðu fyrstir til að veita kvenfólki viðtöku á háskóla, enda er alþýðumenntun þar í landi, á mjög háu stigi. Skólarnir eru jafnan skrautlegustu og dýrustu húsin í sveitaþorpum á Svisslandi, og bændur hafa mesta dálæti á alþýðuskólunum og öllu því, sem þar er kennt. Það eru tuttugu ár síðan háskólinn í Zürich leyfði konum fyrst aðgöngu. Háskólarnir í Bern og Genf fylgdu sama dæmi, og til þessara svissnesku háskóla hefur sótt fjöldi kvenna úr öðrum löndum, einkum frá Rússlandi og Englandi.

Ítalir eru miklir framfaramenn í þessu máli. Árið 1875 var ítölskum konum leyft að sækja háskóla, og hafa þær síðan sótt þá rækilega, og margar konur hafa þar hlotið doktors-nafnbót. Fyrir skömmu hefur ítalskur kvenmaður fengið málaflutningsembætti: hún hafði áður tekið próf í lög­fræði. Hún er fyrsta kona í Evrópu, sem gegnir þeim starfa; í Ameríku er það altítt, svo sem áður er sagt.2

Vér höfum áður getið þess, að á Englandi séu kvennamálin á góðum framfaravegi. Þar sækir fjöldi kvenna háskólana, og þar er fjöldi af félögum, sem vinna að því, að efla menntun kvenna og bæta hagi þeirra á allan hátt. Vinnukonur hafa þar ýmis félög, er styðja að því, meðal annars, að jöfnuður sé gerður á kaupgjaldi karla og kvenna er vinna sömu eða líka vinnu, og reyna að sporna við því, að atvinnuleysingjar bjóði vinnu sína hver í kapp við annan fyrir lægsta kaup, enn af því hefur leitt að kvenfólki hefur verið goldið svívirðilega lítið fyrir vinnu sína. Vinnukonur á Englandi hafa oft gert samtök til að hætta vinnu um stundarsakir (verkföll), álíka og títt er meðal verkmanna, til þess að reyna að fá hærra kaup.

Frakkar eru komnir skemmra áleiðis í menningu kvenfólksins enn ætla mætti um svo frjálsa og framgjarna þjóð. Klerkarnir hafa þar verið mestu meinvættir og staðið menntuninni fyrir þroska og þrifum, og enn er það tíðast, að efnað fólk setur dætur sínar til mennta í klaustrunum. Enn klaustur­menntunin hefur aldrei verið talin holl, enda hefur þar verið lögð mest stund á, að kæfa alla frjálsa hugsun unglinganna og innræta þeim blindan guðrækniákafa og hlýðni við prestana. Eigi að síður þokar menntun kvenna talsvert áfram á Frakklandi hin síðustu ár, einkum í stórbæjunum; ganga konur þar á háskóla sem víðast annarstaðar, einkum til að nema lækningar.

Þjóðverjar eru eftirbátar annarra þjóða í menntun og menningu kvenna. Það vantar að vísu eigi, að nóg sé þar rætt og ritað um framfarir kvenfólksins, réttindi kvenna og menntun þeirra, enn það er ekki nema orðin tóm. Þar eru engir kvennaskólar, er teljandi sé, og eigi er konum heldur leyft að ganga á þýska háskóla. Hvergi meðal menntaðra þjóða er framfaramálum kvenna jafnilla tekið sem á Þýskalandi.

Á Rússlandi er einvaldsstjórn, svo sem kunnugt er og harla ófrjálsleg í flestum greinum. Enn rússneska stjórnin á þakkir skilið fyrir, hve mjög hún hefur aukið og eflt menntun kvenna. Konur ganga á ýmsa háskóla á Rússlandi, og auk þess er sérstakur háskóli í Pétursborg handa konum, er stunda lækningar. Sá skóli er svo vel sóttur, að sum ár hefur þar verið veitt viðtaka um 200 konum. Finnland lýtur Rússakeisara, enn þar hafa konur kosningarrétt í kirkjumálum og sveitamálum, álíka og hér á landi og í Svíþjóð. Á Finnlandi er og rætt og ritað um að veita konum kosningarrétt til þingsins (landdagen), og hafa æðstu umboðsmenn stjórnarinnar fylgt því máli af alefli. Hvað mundu íslenskir embættismenn og konungkjörnir þingmenn segja, ef veita ætti íslenskum konum almennan kosningarrétt? Vér treystum þeim verr enn embættismönnunum rússnesku.

Í Danmörku er menntun kvenna komin á góðan rekspöl. Með konungsboði 25. júní 1875 var konum leyft að sækja háskóla í Danmörku, og hefur það borið góðan árangur; lærðir kvenna­skólar eru þar einnig komnir á fót, og geta námskonur lært þar allt það, sem nauðsynlegt er til þess að þeim verði veitt viðtaka á háskólann. En litlar réttarbætur eru konum veittar í Danmörku, enn sem komið er, og eru Danir í þeirri grein eftirbátar margra annarra þjóða og þar hafa Íslendingar orðið þeim fremri.

Nú víkjum vér sögunni heim til Íslands. Það er satt, að Íslendingar hafa orðið fyrri til þess enn margar aðrar þjóðir að veita þeim konum, sem eru sjálfum sér ráðandi, kosningarrétt í kirkjumálum og héraðsmálum, og alþingi veitti konum einnig kjörgengi í bæjarstjórn Akureyrar, enn þessum lögum þingsins var synjað staðfestingar eingöngu vegna þessa atriðis. Þar á mót eru hér engin lög um sérstök fjárráð giftra kvenna í líking við ensk lög eða amerísk. Það er vonanda, að alþingi hafi héðan af þrek og djörfung til að halda uppi réttindum kvenfólksins og reyna að bæta smásaman hagi þeirra með nýjum lögum. Lög um sérstök fjárráð giftra kvenna teljum vér með mestu nauðsynjamálum. Að konan megi sjálf ráða eigum sínum á sama hátt og maður hennar ræður fé sínu, er svo eðlilegt, að óþarft er að færa rök fyrir því eða telja þá kosti, er því fylgja. Það er eitt, t.d., að tengdaforeldrar þurfa síður að óttast, að tengdasynir sói arfi dætra þeirra, ef þær ráða sjálfar fé sínu að lögum. Í öðru lagi getur bóndinn haft góðan hag af því, að skuldunautar geta eigi krafið konuna um skuldir hans. Í þriðja lagi er það óeðlilegt, að konan sé svipt að miklu leyti fjárráðum sínum um leið og hún giftist. Með því að giftur maður fær þannig ráð yfir eignum konu sinnar, gifta margir sig eingöngu til fjár, og er þá jafnan hætt við, að sambúð hjónanna verði eigi svo ástúðleg sem hún annars ætti að vera. Það er heldur eigi fýsilegt fyrir ungar stúlkur, sem eru í góðum efnum, að gifta sig og mega búast við því, að ráða þaðan af engu um eigur sínar. Eyðsluseggir og ráðleysingjar svalla og sólunda oft þeim eigum, sem þeir hafa fengið í hendur með konunum og steypa þeim í eymd og volæði. Flestir munu þekkja mörg dæmi til þessa, enn vér leyfum oss hér að segja frá einu dæmi úr Noregi, er sýnir hve lögunum er þar áfátt í þessum greinum álíka og hér. Haustið 1881 giftust hjón ein i Noregi. Konan var allvel fjáð, enn maðurinn var félaus. Vorið eftir strauk hann frá konunni og nam á brott með sér annars manns konu frillu taki. Leið svo nokkur tími, að ekki spurðist til þeirra. Kona strokumannsins keypti sér þá jarðarskika og fékk peninga að láni, svo að hún gat byggt sér hús og komið svo ár sinni fyrir borð, að hún gat allvel bjargast. Skömmu síðar náðist bóndi hennar og hjákona hans; var hann dæmdur í varðhald um níu mánuði og til að borga málskostnað og varðhaldskostnað beggja þeirra, svo og fatnað handa hjákonunni. Hvorugt þeirra hafði eyrisvirði handa á milli til að borga þetta fé. Var þá ekki annað fyrir hendi, enn að taka allan kostnaðinn fjárnámi hjá konu bóndans, þótt hún yrði þá öreigi. Hún kærði fjárkröfu þessa fyrir stórþinginu, og kvaðst hafa þolað nóga armæðu, þótt það bættist ekki ofan á, að hún yrði svipt aleigu sinni. Lögin heimtuðu, að konan léti aleigu sína til að borga kostnaðinn af því broti, sem maður hennar hafði framið gegn henni, eftir að hann hafði sóað miklu af eigum hennar. — Vér höfum ekki frétt, hver endir hefur orðið á máli þessu.

Ef vér lítum nú á hagi kvenna hér á landi, þá sjáum vér, að þeir eru ekki glæsilegir. Þó hefur margt breyst til batnaðar í þeim efnum hér á landi á síðustu árum. Áður voru það t.d. lög, að arfinum var ekki skipt jafnt milli samborinna systkina, heldur erfðu synirnir tvöfalt á við dæturnar. Þau óréttlátu lög eru nú fyrir löngu afnumin, enn kvenfólkið verður enn að þola margan ójöfnuð þessu líkan, bæði vegna óhaganlegra laga og ýmisrar fornrar óvenju.

Kvenfólkið hefur verið alið upp hér á landi í mestu fáfræði, og fæstir hafa hirt um, að mennta dætur sínar, gætandi ekki þess, að þekking og menntun er aðalskilyrði fyrir allri heill og hagsæld. Lengi þótti það óþarfi, að stúlkurnar lærðu að skrifa; það þótti nægja, að piltarnir kynni það að nafninu. Þessi hugsunarháttur er nú að mestu upprættur, sem betur fer, og kvennaskólarnir eiga eflaust góðan þátt í því, að efla menntun ungra kvenna hér á landi og meiri enn almennt er viðurkennt. Því að auk þess, sem þær stúlkur, er gengið hafa á kvennaskólana, hafa flestar lært eitthvað nýtilegt, eða komist eitthvað niður í nauðsynlegustu námsgreinum, þá hafa kvenna­skólarnir einnig eflt menntunarlöngun út í frá, vakið mannrænu foreldra og námfýsi ungra stúlkna. Vér ætlum ekki að dæma hér um kvennaskólana; þeir gera sjálfsagt mikið gagn, þótt þeim sé áfátt í ýmsu. Enn vér viljum víkja að öðru. Það hefur verið í ráði, að stofna alþýðuskóla í flestum sýslum landsins og alþingi hefur heitið þeim féstyrk. Með því nú að bókleg eða munnleg kennsla má vera hin sama bæði fyrir karla og konur, teljum vér æskilegt, að sýsluskólarnir veiti kennslu jafnt stúlkum sem piltum. Mætti einnig hafa kennslukonur á sýsluskólunum til að kenna stúlkum verklegar menntir og hannyrðir. Þá yrði minni þörf á eiginlegum kvennaskólum, og mætti þannig spara talsvert fé í stað þess að hafa sérstaka skóla fyrir stúlkur.

Það er algengt í Ameríku, að karlar og konur ganga á sama skóla. Ameríkumenn verja meira fé til menntunar 50 milj. manna en öll Evrópa ver til að mennta 350 miljónir. Ameríkumenn þykjast ekki vera þess megnugir, að hafa tvenna alþýðuskóla, eða bæði fyrir pilta og stúlkur, og þeir telja þar að auki marga kosti á sameiginlegri skólakennslu karla og kvenna. Almannaskólar í Ameríku veita öllum kauplausa kennslu, sem eigi eru yngri en 6 vetra eða eldri en 18 vetra; efsta deild þeirra samsvarar latínuskólum og gagnfræðaskólum í Evrópu; þar njóta piltar og stúlkur sömu kennslu og eru venjulega saman í bekkjunum án nokkurrar sundurgreiningar.

Kostir sameiginlegrar skólakennslu fyrir karla og konur eru margir og miklir. Á sama hátt og piltar og stúlkur upp alast saman á heimilunum, og læra hvort af öðru, á sama hátt á uppeldið að vera sameiginlegt í skólunum. Hvortveggja stefna að sama aðalmarki og miði, þarfnast sömu þekk­ingar og hlýða sömu siðferðislögum. Sumir hafa haldið, að sambúð karla og kvenna í skólum mundi spilla góðum siðum, enn reynslan hefur sýnt, að slíkar getsakir eru rakalausar. Heldur fer hið besta orð af skólunum í Ameríku, og einkum er lokið lofsorði á siðferði nemenda á háskólum þeim, þar sem karlar og konur eru saman að námi. Slíkir háskólar eru margir í Ameríku. En hitt er víst, að það er eigi einungis óþarft að meina ungu fólki, piltum og stúlkum, að vera saman, heldur er sú sundurgreining miklu framar skaðleg, og veldur því, að miklu hættara er en ella, að ímyndunaraflið og tilfinningarnar leiði unglingana í gönur. Á Frakklandi eru ungu stúlkurnar upp aldar í klausturklefum, og látnar forðast karlmenn sem heitan eld; en ekki þykja Frakkar siðlátari enn aðrar þjóðir. – Margir nýjustu stjórnfræðingar og framfaramenn berjast fyrir því, að almenn skólamenntun verði sameiginleg fyrir karla og konur. Um það hefur verið ritað í merkustu frakkneskum blöðum (t.d. Revue des deux Mondes) og enskum (t. d. Forthnightly Review) og frelsisblöðum á Norðurlöndum. Aug. Strindberg heldur því og fram í bók sinni „Giftas“, er upptæk var gerð.

Menntun kvenna hér á landi kemst eigi í gott horf fyrr en alþýðuskólar eru komnir á fót víða um land, þar sem bæði er kennt piltum og stúlkum. Þegar kvenfólkið menntast betur, verðu það færara til að leysa af höndum hið mikilvæga starf, að ala upp mannkynið, og hæfara til að hagnýta sér ný réttindi. Þegar kvenfólk hefur fengið jafnrétti á við karlmenn, lifir það sælla lífi enn nú.

Giftar konur eiga tíðum við engu betri hag að búa en vinnukonurnar, þó hvorki sé fátækt eða heilsuleysi um að kenna. Að réttu lagi ættu giftar konur ekki að ganga að stritvinnu, enda eru þær oft ófærar til þess, og hafa nóg annað að gera, svo sem að annast umsjá búsins og uppeldi barnanna.

Verst er farið með vinnukonurnar, og er sú meðferð þrældómi líkust. Vinnukonum er ekki goldið nema að fjórða parti eða þriðjungi á við vinnumenn, og væri hægt að sanna með reikningi, hve óréttlátt það er. Þó vinnukonan vinni sömu vinnu og jafnmikið og karlmaðurinn, er henni goldið meir en helmingi minna.

Hvergi hér á landi er jafn þrælslega farið með kvenfólk sem í Reykjavík. „Eyrar-vinnan“, sem svo er kölluð, er sannur þrældómur. Þar eru kvenmenn hafðir í erfiðustu stritvinnu, er einungis er hraustustu karlmanna, og þó þær beri allan daginn sömu þyngd og karlmennirnir, eða beri börur á móti karlmönnum, og vinni því alveg jafnt og þeir, eru þeir, sem vinnuna borga, svo þrællyndir, að þeir gjalda kvenmanninum helmingi minna enn karlmanninum. „Laugaferðirnar“ eru önnur þrælkun litlu betri. Vinnukonurnar eru reknar í laugar, hvernig sem veður er, og verða að bera þyngsla-bagga alla þá vegleysu,3 enda finnast þær stundum örmagna undir byrðunum, svo að þær geta enga björg sér veitt. Af þessari þrælkun hljóta þær að verða hrumar bæði á sál og líkama, og má þá nærri geta, að afkvæmi þeirra verða varla efnileg.

Það er vonandi, að þessi kvennaþrældómur í Reykjavík fari þverrandi, því að vér teljum það engar framfarir, þótt Reykvíkingar kæmu upp þrælastétt í landinu eða nýrri kynslóð af hálfvitum.

Aftanmálsgreinar

1. Það er merkilegt, að í fornöld tóku konur bæði þátt í löggjöf og dómum hjá Engil-Söxum. Á þjóðfundi, er haldinn var í Boghampstead á 7. öld, voru fleiri konur enn karlar, og rituðu þær undir lög þau, er þar voru sam­þykkt. Á dögum Hinriks 3. sátu fjórar konur í parlamentinu og á dögum Játvarðar 1. voru þær tíu. Á 13. öld sat og kona í æðsta dómi ríkisins. Það var eigi fyrri enn 1831, að konur voru með lögum útilokaðar frá parla­mentinu.

2. Það gegnir furðu, hve ítalskar konur eru framgjarnar og námfúsar, og svo virðist, sem kvennamenning liggi þar í landi. Á elleftu, tólftu og þrettándu öld kenndu konur við háskóla á Ítalíu, og um miðja öldina sem leið kenndi ein kona líkskurðarfræði við háskólann i Bologna í forföllum manns síns. Það er því reyndar engin nýjung að konur sé háskólakennarar.

3. Flestir munu nú finna þörf til, að vegir verði lagðir til lauganna, og er vonandi, að þess verði eigi langt að bíða, og er þess enn meiri þörf, er sundkennsla er komin á í laugunum.

„Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“

eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur

„Allstaðar er sá nýtur, sem nokkuð kann“

Nú á þessari mennta og framfaraöld hefur verið rætt og ritað um mörg mikilvæg málefni, sem til framfara og þjóðþrifa heyra, og því verður eigi neitað, að margir hafa ritað vel. En því meiri furðu gegnir það, hve fáir hafa fundið köllun hjá sér til að rita um það málefni, sem þó má efalaust kall­ast eitt af hinum mikilvægustu, en það er um menntun og réttindi kvenna. Og þó getur naumast neinum blandast hugur um, að þetta mál má heita grundvöllur allrar sannrar menntunar og fram­fara. Að vísu hafa einstöku athugasemdir um þetta komið fram í dagblöðum vorum, og einstöku hinna yngri mennta og framfara manna vorra hafa drepið á, hvers réttar konum bæri að njóta gagnvart þeim. En það virðist sem þessar kenningar eigi ekki vinsældum að fagna, fyrst þær deyja svo skjótlega án þess að skilja svo mikið sem bergmál eftir í næstu blöðum.

Það eru annars mikil undur hve kvennaskólar þeir sem nú eru komnir á fót hafa átt örðugt upp­dráttar. Í stað þess, sem líklegt hefði verið, að allur þorri manna hefði veitt þeim góða viðtöku og gjört sitt til að styrkja þá, þar sem þeir miðuðu til almennings nota, megum vér játa, að flestir hafa verið þeim andstæðir. Og þó hljóta allir að játa, að menntun kvenna er aðalskilyrði fyrir allri sannri velgengni í heimilislífinu, og þannig eitt af þeim málum, sem framfarir þjóðfélagsins eru að miklu leyti komnar undir.

Það er næsta eftirtektavert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og réttindum í helgreipum, og það virðist, sem þeir álíti það mikilvæg einkaréttindi, helguð af fornri venju, að vera allt gagn­vart þeim, en að þær megi ekkert vera. Að þetta sé rétt og eðlilegt þykjast þeir sanna með þeim ritningargreinum, að konan sé ekki nema eitt „rif úr síðu mannsins“, og eigi því aldrei að verða til­tölulega meira, og að „maðurinn sé konunnar höfuð“. Síðara hluta þessarar margendurteknu setningar sleppa þeir. Annaðhvort nær minni þeirra ekki lengra, eða þeim þykir hann ekki þess verður að haldast á lofti. Það er nú eðlilegt, að mönnum þeim þyki allmikið koma til þessara orða (þótt þeir í öðrum greinum séu hvorki biblíufróðir né trúaðir á hana), sem ekki hafa yfirgripsmeiri skilning enn það, að þykja menntun og framfarir kvenna standa sér fyrir þrifum, og ekki meiri drengskap en svo, að vilja byggja upphefð og framfarir sínar á niðurlægingu og ófrelsi kvenna. En þrátt fyrir öll rök sín og allar sínar mótbárur, geta þeir þó aldrei fært gildar ástæður fyrir þeirri skoðun sinni, að konur séu óhæfari til hvers konar framfara og menntunar en karlar, eða að þær eigi minni rétt og heimtingu til þess en þeir. Og meira að segja, þeir geta ekki neitað því, að nú, einmitt á þessari framfara og frelsis öld eru konur hér langtum harðara haldnar í ýmsu tilliti en á dögum forfeðra vorra, sem þó stóðu óneitanlega nútíðarmönnum langt á baki í mörgu því er til framfara horfir. Vér þurfum ekki annað en að lesa sögurnar til þess að sjá, að þá hafa konur almennt ráðið meira með mönnum sínum og verið sjálfstæðari en nú tíðkast. Hvað mundi t.a.m. nú vera sagt um annað eins tiltæki og Þorbjargar digru, er hún leysti Gretti Ásmundsson, sem þá var tekinn eftir vilja Vermundar bónda hennar? Og hver getur þá borið móti því, að hún færði ljós og viturleg rök fyrir tiltæki sínu? Og munu menn ekki hljóta að játa, að hún sæi lengra fram í veginn en Vermundur sá í það skipti; eða hver getur neitað því, að honum var fremur sómi en vanvirða að eiga þá konu, sem hafði bæði vit, þor og vilja til að taka upp slíkt ráð að honum forspurðum? Eða mundi Guðrún Ósvífursdóttir hafa kunnað því, að vera að engu talin, hún sem lét sér ekki vaxa í augum að standa upp af brúðarbekknum til að verja þann mann, sem hún hafði heitið ásjá, fyrir Þorkeli, sem þá var að drekka brúðkaup sitt til hennar? Ekki lítur heldur út fyrir að hún hafi verið talin minna verð í föðurgarði, þegar Kjartan taldi það standa fyrir utanför hennar, að faðir hennar væri gamall, og bræður hennar ungir og óráðnir, sem ekki mættu missa forsjá hennar. Og sjáum vér ekki hinn sama anda, sjálfstæðis og frelsis anda, er vér hyggjum að Auði djúpauðgu, Þorgerði Egilsdóttur, Bergþóru Skarphéðinsdóttur og ótal fleirum?

Þeir sem fyrst og fremst hafa réttindi kvenna í höndum sér eru feður þeirra. Það er skylda þeirra, að bera jafna umhyggju fyrir velferð barna sinna, dætra sem sona. Sólon, hinn vitri löggjafi Aþenu­borgarmanna, ákvað, að sá faðir, sem ekki hefði kennt syni sínum neina iðn ætti ekki heimting á umsjón sonarins í elli sinni. En hvernig verður sagt, að sá faðir sjái barni sínu borgið í því tilliti, sem neytir föðurréttinda sinna til að neyða barnið að leggja eitthvað það fyrir sig, sem það er óhæft til, og sem það hefur óbeit á, án þess að hafa tillit til vilja þess og hæfilegleika? Með því móti gjörir hann það að andlegum umskiptingi, og það barn, sem hafði hæfilegleika og löngun til að verða nýtur limur í þjóðfélaginu, ef kraftar þess og vilji hefðu verið rétt notaðir, verður nú oft, ef ekki öðrum til þyngsla og hneykslis, þá samt sjálfu sér til byrði og öðrum gagnslaust. Þótt þetta muni nú ekki þykja glæsileg meðferð, eru það þó kjör kvenna, gangi hæfileikar þeirra og vilji í aðra átt en að óskum foreldranna. Þótt margir menn séu góðir og umhyggjusamir feður, eru þeir þó ekki almennt komnir svo langt áleiðis, að þeir geti hafið sig yfir forna venju og hleypidóma. Dæturnar eru fyrirfram ákvarðaðar af þeim til að vera stoð og stytta móðurinnar í hússtjórninni, og þetta er í sjálfu sér rétt og eðlilegt. En nú kann stundum að bera svo við, að unglingsstúlkan hafi óbeit og leiðindi á bústörfum, en sterka löngun og góða hæfilegleika til einhvers annars. Ef til vill er óbeit hennar á venjulegum kvenstörfum sprottin af því, að hana vantar menntun og þekkingu til að sjá, hve nauðsynleg þau geta verið, og fengi hún að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, mætti heldur vænta að hún mundi síðar með aldri og þekkingu verða hæfari til hússtjórnar, og vinna með ljúfara geði að bústörfum, en ef það er ekki, hvern rétt eiga þá vandamenn hennar til að meina henni að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, og liggur þeim þá ekki nær að beina veg hennar, svo að hún geti notað hæfilegleika sína og „spilað á sínar spýtur“, enn að leggja stein í veg fyrir hana, og verða þannig orsök í ógæfu og auðnuleysi hennar, sem svo oft hefir orðið hlutskipti bæði karla þeirra og kvenna sem ekki hafa fylgt hinni upphaflegu löngun sinni og hæfilegleikum?

En til þess að dæturnar geti orðið nýtir limir þjóðfélagsins, verða foreldrar og vandamenn þeirra að taka jafnt tillit til vilja þeirra og hæfileika sem sonanna. Þeir verða að hætta að gjöra þennan mikla mun á mey og manni. Þeir verða að láta sér hugfast, að ábyrgðin hvílir að miklu leyti á þeim, hvaða stefnu og hugsunarhátt börnin hafa. Eins og það er hin fyrsta skylda foreldranna, að vekja tilfinningu hjá börnunum fyrir öllu fögru, sönnu og góðu, eins er það helg skylda þeirra að vekja þá sjálfstæðis og sóma tilfinningu hjá þeim, að ekki hæfi neinum að liggja á liði sínu eða þurfa jafnan styrktar annarra við. Hafi dæturnar ekki í fyrstu ljósa hugmynd um, hversu ósæmilegt það sé að ungar stúlkur geti ekki vikið sér við án hjálpar bræðra þeirra eða annarra manna, þarf að glæða hana. Þær þurfa að finna, að hið góða og gamla orðtæki: „ef jeg finn ekki veg, ryð jeg mjer sjálfur braut“, á eins við þær og bræður þeirra, – að finna hversu atorka og einbeittur vilji geta komið miklu til leiðar. Þær verða að sjá, hversu tildur og tepruskapur er hégómlegt og einkenni menntunarskorts og lágra hugsana, en hin mesta og varanlegasta fegurð sé göfugur og atorku­samur vilji og viðleitni að starfa sér og öðrum til gagns. Það væri sannlega nauðsynlegt, að menn vendu dætur sínar meira við utanhúss stjórn og almenn málefni en nú gjörist. Enginn skynsamur maður mun geta látið sér þykja nokkur kona afneita hinu kvenlega eðli sínu og hæfilegleikum, þótt hún vilji vera svo sjálfstæð og öðrum óháð, að hún geti tekið jafnan þátt í verkstjórn utanhúss og almennum viðskiptum sem innanhúss-vinnu, og þannig komist hjá að sjá allt með annarra augum, — þótt hún vilji heldur styðjast við þekkingu og reynslu sjálfrar sinnar en eiga undir viti og góðvilja annarra. Oss finnst auðséð að fengi konur fjölbreyttari og praktískari menntun, mundu þær verða sjálfstæðari og færari að hafa sjálfar fjár síns forráð en hingað til hefur átt sér stað. Gefi menn gætur að uppeldi kvenna og beri það saman við uppeldi drengja, er fljótt auðséð, að aðalorsök framkvæmdarleysis kvenna og ódugnaðar í fjárhagslegu tilliti er fólgin í því, að þeim er aldrei kennt að hugsa, né sýnt hið eðlilega samband orsaka og afleiðinga. Af því leiðir, að þeim er oft brugðið um fljótfærni og fyrirhyggju skort, og að þær byggi ekki ráð sín eða ásetning á gildum rökum, og má oft játa, að slík ásökun er ekki með öllu ástæðulaus. Væri nú uppeldi þeirra hagað þannig, að þær fengju sem fjölbreyttasta þekkingu á öllu, sem að búnaði lýtur, mundu færri feður kvarta um, að dætur sínar yrðu þyngstir ómagar með fullorðins aldrinum.

Það er að vísu erfitt fyrir stúlkur þær að komast áfram, sem eru frábitnar búskap en vilja nema bóklegar greinar til hlítar, á meðan réttindi þeirra eru svo skorðuð, að þær geta ekki fengið aðgang að almennum námsstofnunum, og því síður að embættum og atvinnuvegum þeim, sem þó gætu átt eins við hæfi kvenna sem karla, og meðan er þannig komið í veg fyrir að þær geti nokkru sinni haft verulegt gagn af námi sínu, en það er einmitt þessi grein, sem þarf lagfæringar við, og vér vonum, að menn verði innan skamms tíma komnir svo langt áleiðis, að þeir sjái hver hnekkir það er í framförum almennings, að meira en helmingur hans taki engan þátt í málefnum þeim, sem snerta gagn hans og hagsmuni.

En að hinu leytinu er það skylda kvenna, að gjöra allt hvað í þeirra valdi stendur til að sýna, að það sé meira en orðagjálfur eitt, að þær hafi hæfilegleika og vilja til að vera jafningjar bræðra sinna. Þær verða að sýna í verkinu, að þær séu jafnfærar til þess að taka þátt í alvöru lífsins sem skemmtunum þess. Þeim hefur oft verið borið óþarft tepur og hégómaskapur og það ekki ófyrirsynju. En þessir ókostir eru að nokkru leyti afleiðingar þess menntunarskorts, sem hefur oft átt sér stað hjá þeim, og þess hve lítið far vandamenn þeirra hafa gjört sér um, að sýna þeim hina alvarlegu og þýðingarmiklu ákvörðun þeirra. Konurnar eru ekki skapaðar til að vera einungis sem skrautgripir inni í húsi, sem enga ákvörðun hefur og ekkert gagn getur gjört annað enn það, að skemmta augum þeirra, sem líta þær, sem gangi í arf mann frá manni, frá foreldrum til manns þeirra, eða takist það ekki, þá til bræðranna, sem eins og líklegt er, taka ekki ætíð báðum höndum við þesskonar arfi. Nei, konan er sköpuð til þess að gegna sömu skyldum og njóta sömu réttinda og karlmaðurinn, að svo miklu leyti sem hæfilegleikar hennar og vilji leyfa. Hún er jafningi bræðranna og félagi mannsins. Hún verður því sjálf að hafa vakandi áhuga á réttindum sínum, og jafnframt því sýna, að hún hafi bæði vit og vilja til að nota sér þau. Konur mega ekki álíta að hin eina köllun þeirra sé að giftast. Þær verða að fá ljósa hugmynd um hvað það er meiðandi fyrir sómatilfinningu þeirra, að hægt sé með réttu að bregða þeim um, að giftingin sé þeirra alvarlegasta löngun og viðleitni. Þær eiga að sýna, að þær hvorki vilji vera né þurfi að vera í vandræðum, þótt maðurinn bjóðist ekki þegar foreldrarnir falla frá, heldur séu þær þá sjálfar færar um að „ryðja sér braut“. Það er auðvitað, að enn sem komið er eru þeim flestir vegir bannaðir í þessu tilliti, meðan þær eiga hvorki kost á að geta fengið svo fjölbreytta og einhlíta menntun, sem á við hæfilegleika ýmsra þeirra, né heldur tækifæri að geta notað hana, þótt hún fengist. Það hefur jafnvel borið við, að kona hefir sótt um kennarastörf við barnaskóla án þess henni væri gefinn gaumur, þótt hún reyndist síðar vel fallin til þess, og þætti jafnvel eigi síðri enn menn, sem teknir voru fram yfir hana. Þetta heftir nú framför og áhuga kvenna, því þegar þær finna hvarvetna lagðar tálmanir fyrir sig, er hætt við að þær gefist upp að lokum. En til þess, að þær geti gjört sér von um að kröfum þeirra verði gefinn gaumur, verða þær að nota sér þau réttindi sem þær hafa þegar fengið. Lög þau, sem nú eru komin út og veitt hafa konum kjörgengi og kosningarrétt í ýmsar nefndir, viðurkenna þó þegjandi rétt þeirra og hæfilegleika, enn lítill árangur sést enn sem komið er af þeim. Vér vitum ekki til, að konur hafi notað sér þessi réttindi, sem þó hafa talsverða þýðingu fyrir þær, eða að þær hafi verið kosnar í almennar nefndir, og er næst að skilja það svo, að þær láti sig engu varða hvort þeim er veitt eftirtekt eða ekki; þær sitja of margar mjög spakar við „kjötkatlana“, og láta sig litlu skipta þá viðburði, sem gjörast fyrir utan hinn þrönga verkahring þeirra. Þetta skeytingarleysi þeirra nota sér síðan mótstöðumenn frelsis og réttinda kvenna sem aðalástæðu fyrir því, að konur séu með öllu óhæfar að gegna öðrum störfum en þeim, sem heyra til hinu vanalega verkasviði þeirra.

En þótt konum sé að mörgu leyti gjört örðugt og óhægt fyrir, geta þær þó gefið meiri gaum að almennum framförum og málefnum en þær hafa gjört til þessa. Þær geta fylgt tímanum með framför hans og breytingum. Þær geta séð í hverju þeim er helst ábótavant, og hver meðul eiga helst við því. Þær geta aukið menntun sína og leitast við að nema fleira en eintómt glingur og smámuni. Þær verða að skilja orðið „menntun“ rétt. Menntunin er ekki sönn né veruleg, ef hún hefur ekki hugann yfir hið hégómlega og smálega til hins göfuga, góða og fagra. Hún hlýtur að hafa áhrif á alla hugsun og lífsstefnu vora. Hún glæðir löngunina eftir öllu góðu og nytsömu, en vekur óbeit á öllu ófögru, lítilfjörlegu og hégómlegu; öllu gjálfri og hlægilegu glysi, sem er aðeins á yfirborðinu, en er í raun og veru kjarnalaust. Menntunin heimtar, að hver og einn sé það, sem hann vill sýnast. Hún bendir oss á köllun vora, glæðir hæfilegleikana, hvetur viljann og eflir þrekið; hún heimtar að skyldur og gagnsmunir sitji í fyrirrúmi fyrir skemmtunum, þótt það kunni stundum að útheimta sjálfsafneitun. Fyrir því hlýtur konan að sjá betur skyldur sínar og köllun sé hún menntuð en ella. Dóttirin sér þá gjör, hvaða skyldur hún hefur að uppfylla gagnvart foreldrum sínum, að hún þarf meira en að heimta og taka við, að hún hefur jöfnum skyldum að gegna gagnvart þeim og synirnir; að hún er jafnskyld að sjá þeim farborða á efri árum og styrkja þau með ráðum og dáð og verða nýtur limur í þjóðfélaginu sem þótt hún væri sonur þeirra.

Einhleypa konan hlýtur þá að sjá betur hvers henni ber að gæta gagnvart sjálfri sér og almenn­ingi; hún veit að hún hefur krafta og vilja, sem hún á að verja í þjónustu hins sanna, góða og nyt­sama; hún sér þá að staða hennar hefur einnig talsverða þýðingu í mannfélaginu, og að það hefur rétt til að heimta óskipta krafta einstaklinganna sér til framfara og velgengni, og að hún hefur einnig tækifæri, þótt það kunni að vera í smáum stíl, til að vinna að almenningsheill ásamt bræðrum sínum. Sagan sýnir henni líka, að til hafa verið konur á öllum öldum og í ólíkum ástæðum, sem hafa þó tekið mikinn þátt í áhugamálum þjóðar þeirra, og unnið oft ótrauðar að hag og heill fósturjarðar þeirra. Hún sér að það er heimska ein, að láta gamlan vana og rótgróna hleypidóma blinda huga og framkvæmdir sínar, þegar um áhugamál og velferð almennings er að ræða, og þótt í fyrstu kunni að vera tekið misjafnt upp, að hún fylgir af áhuga framförum tímans, og þótt ýmsar torfærur verði á vegi hennar þegar hún vill halda fram sannfæringu sinni eða stofna til nýrra fyrirtækja, vekja áhuga og efla félagskap hjá systrum sínum, þá má hún ekki láta slíkt tálma sér eða letja sig að halda áfram. Það er jafnan hægara að endurbæta hlutinn en að frumsmíða, og jafnan hefur öll nýbreytni mátt sæta óvild margra, hversu þörf sem hún hefur verið, enda hafa oft forvígismenn framfaranna verið fótum troðnir, þótt minningu þeirra hafi síðar verið haldið á lofti öldum saman. Þeir hafa oft einir og aðstoðarlausir byrjað að ryðja þá braut, sem þúsundir manna hafa síðan með ljúfu geði lokið við og farið. Því hljóta hverjir þeir, sem að framförum vinna og vilja brjóta gamlan vana á bak, að búa sig við að hafa ekki ætíð almenningsálitið sín megin í fyrstu. En sé haldið áfram jafnt og sjálfu sér samkvæmt með gætni og fyrirhyggju, fella menn sig smám saman við nýbreytnina, þegar þeir sjá að hún er þarfleg og sanngjörn. Þannig getur vel borið til, að það verði í fyrstu kallað óþarfa framhleypni og „vas“, ef konur leyfa sér að leitast við að fylgja tímanum, en það á sér ekki langan aldur, því að margir hinna skynsamari manna álíta það æski­legt og sanngjarnt og vilja styðja að því með ráðum og dáð. Þannig liggur opinn verkahringur fyrir einhleypum konum, sem hafa þær ástæður, að geta verið öðrum óháðar, og vilja leggja nokkuð í sölurnar fyrir réttindi sín og framfarir.

Gifta konan sér skyldur sínar sem eiginkona, móðir og húsmóðir frá annarri hlið en áður, og þær verða Ijósari og markverðari í augum hennar. Hún sér að hún er gagnvart manni sínum sem félagi og ráðgjafi, er ræður öllum ráðum sameiginlega með honum. En til þess að slík stjórn fari vel úr hendi þarf hún fjölbreytta þekkingu, svo hún byggi jafnan ráð sín á skynsamlegum rökum. Hún á þá hægara með að skilja mann sinn, tilgang hans og vilja, og betra vit til að ráða honum heilt ef honum skjátlast, og taka bendingum hans ef þess þarf við. Aðalgrundvöllur góðs skipu­lags í heimilislífinu er að konan þekki skyldur sínar og hafi bæði vilja, þekkingu og hæfilegleika til að uppfylla þær. Það yrði bæði torvelt og óþarft að vilja reyna að telja upp hinar ýmsu skyldur konunnar, því sé hún í orðsins fyllstu merkingu kona, getur enginn fundið þær jafnvel sem hún, og þá er víst að hún leysir þær af fremsta megni af hendi. Hin menntaða kona hlýtur að eiga hægara með að standa vel í stöðu sinni gagnvart hjúum sínum, en hin ómenntaða, og orð og ráð hennar hafa meira gildi í augum þeirra, af því að þau reka sig ekki á vankunnáttu og þekkingar­leysi í neinu tilliti. Auk þess getur hún komið miklu góðu til leiðar og kennt hinum fáfróðari margt þarft. Hún getur bent vinnukonum sínum á, að þær hafi einnig tækifæri til að láta sér fara fram, og sýnt þeim, að það er ekki staðan, sem skapar hæfilegleikana, heldur séu það oft hæfilegleikarnir, viljinn og framkvæmdin, sem skapa stöðuna, og að engin staða sé svo þýðingarlítil, að á sama standi hvernig í henni sé staðið; enda hafa það oft verið menn af lægstu stigum, sem hafa komist til mestu metorða og orðið bjargvættir þjóðar sinnar. Þannig getur menntuð kona fremur vakið áhuga og keppni í framfaralegu tilliti enn hin ómenntaða, og er slíkt mjög þýðingarmikið.

En þó kemur hvergi jafn ljóslega fram munurinn á vel menntaðri konu og lítt menntaðri sem gagn­vart börnum þeirra. Móðirin er ætíð hinn fyrsti og sjálfsagðasti leiðtogi barnsins, og mun þá nokkur geta neitað því, að til að geta gegnt vel skyldu sinni—hinni þungu og ábyrgðarmiklu skyldu—að vera fóstra og fræðari hinnar uppvaxandi kynslóðar þarf bæði menntun, þolgæði og ljósa þekkingu í sem flestu. Menn munu segja, að lítil þörf sé á að konur séu sprenglærðar fyrir þær sakir, því nú sé lítill hörgur á hæfum kennurum. En þó svo væri viljum vér spyrja: hver getur veitt barninu aðra eins tilsögn og móðirin, sé hún góð og menntuð? Hver hefur jafnmikil áhrif á hugarfar og hjarta barnsins og hún, þegar hún er vaxin hinu vandasama verki sínu? Eða mun ekki börnunum verða ljúfara og eðlilegra að fá hina fyrstu tilsögn hjá móðurinni enn óviðkomandi mönnum? En til þess, að hún geti veitt þeim sem best uppeldi, útheimtist, að þau beri virðingu fyrir henni og hafi fullkomið traust á ráðum hennar og orðum. Nú er víst, að börnin trúa engum jafnvel og móðurinni, meðan þau eru sem menn kalla milli vita, og þá liggur í augum uppi, hve áríðandi það er, að orð hennar séu jafnan sönn og holl, og að börnunum sé ætíð óhætt að trúa því þegar hún fræðir þau um eitthvað sem þau hafa ekki skilið áður. Greind og eftirtektasöm börn taka eftir mörgu og spyrja margs, og þau gjöra sig ekki ánægð með að fá úrlausn að eins að hálfu leyti eða jafnvel ekki. Að minnsta kosti hlýtur það, að móðirin ekki getur gefið þeim fullnægjandi upplýsingar á spurningar þeirra eða ef hún eyðir þeim, að veikja traust þeirra á þekkingu og yfirburðum hennar. Aldurinn frá 10 til 16 ára er sá tími, sem hentastur er til undirbúnings fyrir börnin til meiri menntunar og andlegs þroska. Á þessum aldri hafa þau ekki náð þeirri íhugunarsemi að þau geti séð, hvort von sé til að móðirin geti leyst úr spurningum þeirra, eða veitt þeim þá tilsögn, sem þau æskja eftir. Þeim þykir aðeins sjálfsagt að hún viti þetta eða hitt, er þau spyrja að, og bregðist það, er hætt við að traust þeirra til hennar og virðing sú, er þau hafa borið fyrir henni minnki, og þá veikjast þau áhrif, sem hún getur haft á vilja og lífsstefnu þeirra, þótt hún í mörgu öðru tilliti kunni að vera fær um að vísa þeim leið. Það er líka æskilegt, að móðirin sé svo menntuð að hún geti haft eftirlit með hvernig börnum hennar er kennt, taki hún aðra til þess, og geti leiðbeint í því tilliti ef henni ekki líkar hvað eða hvernig er kennt. Enda mundi það glæða virðingu og traust barnanna til hennar ef þau sæju að hún væri þeim jafnan fremri, þótt þau kæmust nokkuð áleiðis, og að hún stæði ekki á baki kennara þeirra hvað menntun og þekkingu snerti. Hún fengi þannig meira vald yfir vilja þeirra og hugsunarhætti en ella; orð hennar festu þá dýpri rætur og yrðu þeim minnisstæðari. Það eru svo mörg og djúp áhrif, sem góð og menntuð kona getur haft á mannfélagið, að eins með uppeldi barnanna, að torvelt verður að telja upp, hvernig hún getur beint huga unglinganna að hinu góða og sanna, hvernig hún getur við smá atvik minnt þau á að margt það, sem er hvað mikilvægast, á rót sína í atvikum, sem lítill gaumur er gefinn. Hún getur sýnt þeim, að þau eiga ekki einungis að lifa fyrir sig, heldur einnig fyrir aðra; að ættjörð og þjóð þeirra hefur kröfu til að þau noti krafta og hæfilegleika sína, og að hið sanna gagn og hugsanir liggi ekki ætíð í að leita sem fjærst, og byltast í umsvifamiklum fyrir­tækjum, heldur í því, að verða sem færastur í hvaða stöðu sem er, og rækja sem best þær skyldur, sem menn hafa að uppfylla, og að þótt þær séu ekki ætíð fljótt á að líta þýðingarmiklar, þá geti þær þó verið mikilvægar, og jafn áríðandi að stunda þær vel þótt meira bæri á þeim. Hún er það, sem einkanlega á að leiðbeina dætrunum, að venja þær á þrifnað og hreinlæti. Hún sýnir þeim hvernig hreinlæti og vandvirkni eiga rót sína í hugarfarinu, og sé hugsunarhátturinn hreinn og góður, hljóti verkin að verða eins. Hún á að sýna þeim hve áríðandi það er, að fá sem mesta og gagnlegasta menntun og þekkingu, og benda þeim jafnframt á, að hégómaskapur og tepur eru langt frá allri sannri menntun, og tilfinningin fyrir hinu fagra og góða á ekkert skylt við glys og glingur. Hún sýnir þeim, að mannúð og hluttekning í annarra kjörum eru ávextir sannrar mennt­unar, og að það séu einkum konur, sem geti oft mýkt böl annarra með nærgætni og lipurð. Hún sýnir þeim, hvernig þær eigi að láta sér annt um þær systur þeirra, sem ekki hafi fengið tækifæri eða hæfilegleika til að taka jafnmiklum framförum og þær, og að það sé skylda þeirra, að gefa þeim heil ráð og segja þeim til eftir megni, en henda ekki gaman að fáfræði þeirra, eða sýna þeim hrak og fyrirlitningu, sem vottar aðeins heimsku og menntunarskort sjálfra þeirra. Þannig leggur góð og menntuð kona grundvöllinn til velgengni og heilla þjóðarinnar, með því hún vekur löngun barna sinna að verða öðrum til gagns, og glæðir þekkingu þeirra og hvetur þau til ósér­plægni og göfuglyndis. Hún er sem steinhöggvarinn, sem meitlar og lagar grjótið, svo úr ólíku og ólögulegu efni verður reist öflug og varanleg bygging, sem vekur undrun og virðingu seinni alda manna.

Það er vonandi, að menn taki nú þetta mál til alvarlegrar umhugsunar áður langt líður, og að það verði ekki að eins hinir einstöku menn, sem hingað til hafa hafið máls á því, heldur almenningur. Það er vonandi, að konur sjái nú sjálfar að hér er um heill og réttindi þeirra að tefla, og að þær sitji ekki lengur aðgjörðalausar og horfi þegjandi á, ef einhver ber fram merki þeirra, heldur gangi örugglega fram og berjist við deyfð og dofa, ófrelsi og hleypidóma, sem hingað til hafa staðið í vegi fyrir öllum andlegum og verklegum framförum þeirra. Það er vonandi, að þær finni sannleika málsháttarins: „þekking er veldi.“ Það er vonandi að þær skilji nú loksins „tákn tímanna“ og sjái, að þeim er einnig mál að rísa upp af svefni. Það er vonandi, að þær vilji sýna, að þær séu réttbornar dætur hinna fornu, frjálsu Íslendinga, sem ekki þoli neinum að sitja yfir rétti sínum og frelsi.

Ég enda þá mál þetta að sinni, og vona að einhver af hinum ungu og framfara og mennta konum riti betur um það en ég hef gjört, svo það verði ekki algjörlega dregið út af dagsskránni, heldur standi þar efst á blaði jafnt hinum mestu áhuga og framfara málum þjóðar vorrar.