Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar

Siðferði og sannfæringar

eftir Philippu Foot*

I

Þegar spurt er að merkasta framfaraskrefi í siðfræði undanfarna hálfa öld nefna margir til að eðlishyggjan hafi verið hrakin; og hinir sömu furða sig dálítið á því að hún skuli enn vera tekin til umræðu um þessar mundir. Auðvelt er að skilja afstöðu þeirra: sé fallist á ákveðnar forsendur, sem virðast hafnar yfir vafa, er ekki annað að sjá en álíka vonlaust sé að blása nýju lífi í eðlis­hyggjuna og bera vatn í hripi. Þeir sem sjá málið í þessu ljósi hafa sannfært sig um að sérhver eðlishyggjukenning hljóti að vera gölluð og hafa engan áhuga á að eyða meiri tíma í að kveða niður drauginn. Ritgerð þessi er tilraun til að telja slíka menn á að huga betur að forsendunum sem þeir byggja rökfærslur sínar á.

Ekki er ofmælt að siðfræðin, eins og hún er nú víða kennd, hvíli gjörvöll á greinarmun á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir. Þessum greinarmun má lýsa á þessa leið: „Sanngildi fullyrðinga um staðreyndir er leitt í ljós með rökum; og það, hvað telja má rök, er látið ráðast af merkingu orðanna sem fullyrðingarnar eru settar saman úr. (Til dæmis réði merking orðanna ,hnöttóttur‘ og ,flatur‘ því að siglingar Magellans eru rök fyrir því að jörðin sé hnöttótt en ekki flöt; sá sem fellst ekki á það og dregur í efa að þessi rök komi málinu við verður að lokum uppvís að rangri málnotkun af einhverju tagi.) Af þessu leiðir að tveir menn geta aldrei fullyrt það sama með alveg ólíkum rökum; þegar allt er talið hlýtur ætíð að koma í ljós að annar þeirra, eða báðir, hafi gerst sekur um ranga beitingu tungumálsins. Af þessu leiðir líka að ef manni eru látin í té fullnægjandi rök fyrir tiltekinni niðurstöðu um staðreyndir getur hann með engu móti hafnað niðurstöðunni á þeirri forsendu að frá sínum bæjardyrum séð séu umrædd rök alls engin rök. Öðru gegnir um gildisdóma: þeir eru ekki í röklegum tengslum við þær staðhæfingar um stað­reyndir sem þeir byggja á. Maður einn getur sagt að hlutur sé góður vegna einhverrar staðreyndar um hann, en annar getur rétt eins neitað því að sú staðreynd sé rök fyrir því að hluturinn sé góður og sagt sem svo að ekkert í merkingu orðsins ,góður‘ tengi það einum ,rökum‘ fremur en öðrum. Í þessu felst þá að sérvitringur um siðferði getur komist að siðlegum niðurstöðum út frá afar sérkennilegum forsendum; hann gæti til dæmis dæmt mann góðan á grundvelli þess að hann ætti til að núa hendur sínar á sérstakan hátt eða að hann sneri sér aldrei í norðnorðaustur eftir að hafa horft í suðsuðvestur. Hann gæti líka hafnað annars manns gildisdómi einfaldlega með því að neita að fallast á að rökin, sem sá reisi dóminn á, séu réttnefnd rök.

Ástæða þess að sérvitringurinn getur notað hugtakið ,góður‘ með einhverri merkingu er að það er ,leiðbeinandi um breytni‘, það hefur ,verklegt‘ hlutverk. Þessu hlutverki gegnir hugtakið í öllum tilvikum; um sérvitringinn eins og aðra gildir að hann sækist fremur eftir því sem hann telur ,gott‘ en ,slæmt‘. Eins og aðrir menn notar hann hugtakið ,góður‘ ætíð í tengslum við ,jákvæða afstöðu‘; munurinn er einvörðungu sá að hjá sérvitringnum er þessi afstaða á skjön við það sem vant er.“

Hér eru fólgnar tvær forsendur um „gildisdóma“ sem ég mun nefna forsendu (1) og forsendu (2).

Forsenda (1) er sú að maður geti, án þess að gerast sekur um rökvillu, reist gildisdóma sína að öllu leyti á forsendum sem enginn annar myndi telja að væru gild rök. Forsenda (2) er sú að maður geti hafnað því að fella tiltekinn gildisdóm á grunni staðhæfinga sem aðrir teldu fullgild rök fyrir dómnum með þeim orðum að í hans augum séu þessar staðhæfingar ekki gild rök.

Lítum á forsendu (1). Segja má að hún velti á því hvort hægt sé að halda merkingu orðsins „góður“ fastri þegar hugað er að öllum tilbrigðum í mögulegum rökum fyrir því að eitthvað sé gott. (Ég á að sjálfsögðu ekki við að maður geti tínt til ný tilbrigði eins ört og honum sýnist, heldur aðeins að ekkert af því sem valið er megi dæma úr leik.) En til er betri framsetning á forsendunni sem tekur fyrir fáfengilegar deilur um hinar ýmsu merkingar sem orðið „góður“ kann að hafa. Við skulum því orða forsenduna upp á nýtt og segja að hún sé sú að það hlutverk orðsins „góður“ sem kemur við sögu í gildisdómi geti haldist fast þó að breytingar verði á reglunum sem gildisdómurinn miðast við; eftir þessu má þá segja að enda þótt enginn geti kallað mann góðan á grundvelli þess að hann núi hendur sínar megi samt hrósa honum eða láta í ljós jákvæða afstöðu til hans, og, ef nauðsyn krefur, finna upp nýtt tungutak um siðferði til að lýsa hinu óvenjulega siðamati mannsins.

Þeir sem aðhyllast kenningu í þessum dúr bæta sjálfsagt ýmsum skilyrðum við. Í fyrsta lagi tekur þorri fólks nú orðið undir með Hare í deilu hans við Stevenson og segir að orð eins og „góður“ hafi merkingu í einstökum tilvikum vegna þess að almenn lögmál búi að baki; þannig verði allir, líka verstu sérvitringar, að fallast á að það að hrósa hlíti vissum reglum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að „það að hrósa“,„að hafa jákvæða afstöðu“ o.s.frv. tengist breytni og vali, þannig að til dæmis sé óleyfilegt að segja mann því aðeins góðan að hann hafi lifað í þúsund ár. Gert er ráð fyrir að gildisdómar eigi aðeins við um mögulega breytni og mögulegt val. Hér er ég ekki að draga í efa þessar skorður sem gert er ráð fyrir um gildishugtök, heldur vil ég halda fram að fleira þurfi til.

Spurningin sem allt veltur á er þessi: Er fært að draga út úr merkingu orða á borð við „góður“ einhvern þátt sem nefna mætti „gildismerkingu“ þeirra og mætti hugsa sér að standi í ytri tengslum við viðföng sín? Slíkur þáttur kæmi til dæmis fram í þeirri reglu að sá sem dæmir tiltekna breytni lofsamlega hljóti að telja sig bundinn boðorðinu „ég vil breyta á þessa leið“. Þetta boðorð er í ytri tengslum við viðfang sitt vegna þess að ef við einskorðum okkur eins og áður við athafnir sem á annað borð eru mögulegar er fullt vit í því að segja að hvaða athöfn sem er geti orðið tilefni til lofs af þessu tagi. Samkvæmt þessari tilgátu gætum við leyft okkur að segja um sérvitringinn að honum þætti sú athöfn að núa saman höndum lofsamleg og hæfa góðum manni, án þess að við þyrftum að bægslast við að leita að vitrænum forsendum fyrir yrðingunni. Það er að segja: samkvæmt þessari tilgátu gæti það að núa saman höndum talist lofsamlegt án frekari skýringar; það gæti verið „undirstöðusiðaregla“ svo gripið sé til orðalags sem fylgismenn slíkra kenninga nota.

Ég vil halda fram að þessi tilgáta standist ekki, og að ekki sé hægt að lýsa gildisþættinum í merkingu hugtaksins „góður“, gildisdómum, lofsemdardómum, eða nokkru af því tagi, nema það sem dómurinn á við liggi fyrir. Ef við ákvörðum ekki strax í upphafi viðfang gildisdóms, eða annars af svipuðu tagi, fáum við eitthvað allt annað í netið en til stóð, til dæmis það að fara að fyrirmælum eða taka ákvörðun, eða bara alls ekki neitt.

Áður en ég tek þetta til athugunar ætla ég að ræða ýmis önnur huglæg viðhorf og skoðanir sem eru í innri tengslum við viðfang sitt með hliðstæðum hætti. Með þessu vonast ég til að geta skýrt þessa hugmynd um innri tengsl við viðfang, og ef til vill, í því tilviki að dæmi mín veki andóf en séu þó tekin gild að lokum, að sýna fram á hversu auðvelt er að sjást yfir innri tengsl þar sem þau eru til staðar.

Lítum til dæmis á stolt.

Margir furða sig á þeirri hugmynd að takmörk séu fyrir því sem maður geti verið stoltur af, þ.e.a.s. því sem geti fyllt mann stolti. Ég veit ekki alveg hvað þeir sem eru á þessu máli vilja segja um stolt; kannski að það sé eitthvað í þá átt að brosa og ganga sperrtur um, eða hampa grip í allra augsýn; eða kannski halda þeir að stolt sé einhvers konar innri skynjun af því tagi að manni væri eðlilegt að berja á brjóst sér og segja „stolt er nokkuð sem ég finn fyrir hér“. Tormerkin á þessu síðara viðhorfi eru vel þekkt; það sem er einkalegt í rökfræðilegum skilningi getur ekki svarað til þess sem orð í almennu máli vísar til.1 Fyrra viðhorfið er því öllu trúverðugra, og það virðist skynsamlegt að segja að ef maður hegðar sér á tiltekinn hátt megi segja hann stoltan af einhverju, hvað sem það nú annars er. Að einu leyti er þetta rétt, að öðru leyti ekki. Um sérhverja lýsingu á hlut, athöfn, skapgerð o.s.frv. má segja að hún geti verið uppspretta stolts. Til að geta fækkað möguleikunum verðum við að vita hvað maðurinn, sem á að vera stoltur af því sem lýsingin kveður á um, myndi sjálfur segja um stoltið; hafi hann ekki réttar skoðanir á því er ljóst að það sem hann finnur til er áreiðanlega ekki stolt. Leiðum hugann að því hvort einhver geti verið stoltur af himninum eða hafinu: hann beini augum að himni eða hafi og finni til stolts, eða hann sperri fram brjóstið og bendi með stolti á himin eða haf. Í þessu er ekkert vit nema með fylgi sérstakar athugasemdir um skoðanir mannsins, til dæmis í þá veru að hann trúi því fyrir einhverja sturlun að hann hafi forðað himninum frá að falla eða hafinu frá að þorna upp. Dæmigert viðfang stolts telst vera (a) með einhverjum hætti manns eigið, (b) einhvers konar afrek eða ávinningur; án þessa viðfangs er ekki hægt að lýsa stolti. Til skýringar á seinna skilyrðinu er hægt að ímynda sér að svo vilji til að maður finni til stolts vegna þess að hann hefur lagt aðra hönd sína ofan á hina þrisvar á einni klukkustund. Eins og áður er hægt að réttlæta stolt hans fullkomlega með því að lýsa skilyrðunum nánar. Ef til vill er maðurinn lasinn og það er honum afrek að geta hreyft hendur sínar með þessum hætti; ef til vill hefur þessi hreyfing trúarlega eða pólitíska merkingu þannig að maðurinn sýni með henni það hugrekki að breyta á skjön við guði eða ráðamenn. En án sérstakra skilyrða af þessu tagi er tómt mál að tala um stolt, ekki vegna þess að það stangist á við sálfræðileg lögmál heldur rökfræðileg. Vitaskuld getur fólk talið hinar furðulegustu athafnir til afreka, en þó ekki hvað sem er; fólki getur dottið í hug að telja sig sína eigin fjarlægu forfeður, skyldmenni eða nágranna eða jafnvel sjálft Mannkynið. Ég ætla ekki að neita því að til eru mörg langsótt og spaugileg dæmi um stolt.

Við hefðum eins getað valið ýmis önnur dæmi um huglæg viðhorf sem eru í innri tengslum við viðfang sitt á hliðstæðan hátt. Til dæmis er ótti annað og meira en að skjálfa, hlaupa og fölna upp; einu gildir af hve mikilli innlifun þetta er gert, það er enginn ótti nema til komi tilhugsun um skelfilegt böl. Né heldur er unnt að segja um nokkurn mann að hann skelfist eitthvað sem honum þykir ekki slæmt; þyki honum það harla gott þegar allt kemur til alls getur hann ekki sagt að svo skrítið sem það nú sé finni hann reyndar til skelfingar gagnvart því. „Mikill er andskotinn, ég er skelfingu lostinn en ætti að vera kátur“ segir maðurinn og fer svo að leita að því illa í hlutnum sem hann ímyndar sér að liggi í leyni undir snotru yfirborði. Einhver kynni hér að andmæla og benda á að stolt og ótti og skelfing séu kenndir eða hughrif og af þeim sökum óhæfar hliðstæður við „lofsemd“; betra sé að huga að annars konar dæmum. Til dæmis gætum við beint sjónum að þeirri skoðun að tiltekinn hlutur sé hættulegur, og spurt hvort rökfræðin leyfi að segja það um hvaða hlut sem er. „Þetta er hættulegt“, rétt eins og „þetta er gott“, er staðhæfing sem við ættum eðli málsins samkvæmt að fallast á eða hafna eftir því hvort þær eru sannar eða ósannar; svo virðist sem við styðjum staðhæfingar af þessu tagi með rökum, og svo má líka tína til að litið geti út fyrir að orðið „hættulegur“ hafi einhvers konar „viðvörunarhlutverk“ á sama hátt og gert er ráð fyrir að orðið „góður“ hafi „lofsemdarhlutverk“. Gerum ráð fyrir að heimspekingar sem velta vöngum yfir eiginleikum þess sem er hættulegt komi sér saman um að orðið eigi alls ekki við neinn eiginleika heldur sé í eðli sínu verklegt hugtak sem sé leiðbeinandi um breytni og notað til viðvörunar. Orðið „hættulegur“ væri notað til að vara við hættu, nema þegar það væri haft innan gæsalappa, og í þessu fælist að sá sem notaði orðið með þessum hætti hlyti þá að helga sig því að forðast þá hluti sem hann nefndi hættulega, hindra aðra í að koma nærri þeim, og ef til vill flýja undan þeim. Ef horft er framhjá því hve þessi niðurstaða er fráleit gætum við hæglega dregið af henni þá ályktun að maður sem notaði hugtakið á annan hátt en við í öllum tilvikum gæti sagt hina undarlegustu hluti hættulega án þess að við gætum hrakið það; hugmyndin væri þá sú að um manninn mætti segja að hann „teldi hlutina hættulega“ eða a.m.k. „viðsjárverða“ ef viðhorf hans og breytni væri í samræmi við þau skilyrði sem við miðum slíkt að öðru jöfnu við. Þetta er vitleysa vegna þess að það er tómt mál að tala um viðsjá eða að telja eitthvað hættulegt nema viðfangið sé haft með. Af röklegum ástæðum er ókleift að vara við því sem ekki er talið bjóða heim böli, og við tölum ekki um háska nema þegar við sérstaklega alvarlegu böli er búið, svo sem skaða eða dauða.

Hvað sem því líður er ýmislegt ólíkt með því að telja eitthvað hættulegt og því að vera stoltur, hræddur eða kvíðinn. Þegar maður segir að eitthvað sé hættulegt verður hann að styðja þá staðhæfingu sérstökum rökum; en þegar hann segist stoltur, hræddur eða kvíðinn stendur viðfang stoltsins, hræðslunnar eða kvíðans ekki alveg í sömu tengslum við staðhæfinguna. Ef uppvíst verður að maðurinn var að hreykja sér af einhverju sem hann átti ekkert með, eða þá að tilefni stoltsins reynist ekki ýkja merkilegt, þarf hann að vísu að fallast á að stolt hans hafi verið tilefnislaust en engu að síður er hann á engan hátt knúinn til að éta ofan í sig að hann hafi verið stoltur. Á hinn bóginn verður sá sem segir að hlutur sé hættulegur, en skilur síðar að honum skjátlaðist í því að telja að af hlutnum gæti hlotist mein, að endurskoða fullyrðingu sína og viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. En í hvorugu tilfellinu getur mælandinn haldið uppteknum hætti. Bóndi sem kemst að því að það var ekki hrúturinn hans sem vann fyrstu verðlaun, heldur hrútur bóndans á næsta bæ, getur því aðeins sagst vera jafnstoltur eftir sem áður að hann réttlæti stoltið með öðrum hætti. Í þessum efnum geta staðreyndirnar meira að segja gert tilfinningum rökfræðilegar skráveifur.

Líklega verður þeim andmælum hreyft við þessum dæmum að þau gefi sér að nokkru leyti það sem sanna eigi. Sagt verður að vissulega geti maður einungis verið stoltur af því sem hann telur góða athöfn, afrek eða merki um göfugan uppruna; á sama hátt geti hann aðeins kviðið því sem hann telur slæmt, eða hræðst það sem geti orðið til meins; ennfremur, svo dæmi sé tekið, geti hann aðeins varað við háska ef hann telur til dæmis að hætt sé við sköddun. En í þessu mun því aðeins felast takmörkun á mögulegum viðföngum þessara viðhorfa og skoðana að merkingar­svið sjálfra hugtakanna sé einnig takmarkað. Til svars við þessum andmælum læt ég nægja að ræða merkingu orðsins „sköddun“, því að það er einfaldasta dæmið. Sá sem vill segja að hvaðeina geti talist afrek, eða mein sem fólk óttast eða ber kvíða fyrir, ætti að reyna þetta. Ég ætla að athuga þá staðhæfingu að hvaðeina geti talist hættulegt, úr því að það sem veldur sköddun sé hættulegt, og hvað sem er megi telja sköddun. Ég beini sjónum að líkamlegri sköddun – það er að segja meiðslum – vegna þess að slík sköddun er tengd hættu; ekkert vit er í því að setja upp vegaskilti sem varar við hættu þegar aðeins er um það að tefla að runnar í vegkantinum geti rispað bíla. Né heldur er hægt að telja tiltekna efnablöndu „hættulega“ af þeim sökum einum að hún geti valdið sköddun á fíngerðum vefnaði; við getum að vísu talað um að hætta sé á að blandan valdi slíkri sköddun, en þá er orðið notað á annan hátt en þann sem ég er hér að velta fyrir mér.

Þegar líkami verður fyrir sköddun breytist hann til hins verra á tiltekinn hátt. Við viljum vita hvers kyns breytingar geti talist sköddun. Í fyrsta lagi skiptir máli hvernig sköddunin verður; til dæmis getur náttúruleg hrörnun ekki talist sköddun. Einnig virðist ljóst að ekki kemur hvað sem er til greina, til dæmis er ekki hægt að telja með öll torkennileg för á líkamanum, og þá gildir einu hversu mikið menn gætu lagt á sig til að fá þau fjarlægð. Sú sköddun sem skiptir langmestu máli er sköddun á líkamshluta sem skerða hæfni hans til að gegna hlutverki sínu; sköddun á fótlegg, auga, eyra, hönd, vöðva, hjarta, heila, mænu. Sköddun á auga spillir sjóninni eða telst líkleg til þess; meiðsl á hendi valda því að höndin er vanhæfari til að hreyfast og grípa um hluti og gera annað af því tagi. Fótleggur getur verið skaddaður vegna þess að hreyfingar hans og burðargeta sé skert; lunga vegna þess að það sé of veikburða til að draga inn nægilegt magn af lofti. Okkur er eðlilegast að tala um sköddun þegar um er að ræða líkamshluta sem hafa tiltekið hlutverk sem einkennir þá, eins og í þessum dæmum. Líklega segjum við ekki hiklaust að höfuðkúpa geti orðið fyrir sköddun, heldur frekar að hún laskist, með því að höfuðkúpan hefur að vísu hlutverk (að hlífa heilanum), en í þessu hlutverki felst engin virkni. Ef við höfum hlífðarhlutverk höfuðkúpunnar í huga getum við að vísu kosið að tala um sköddun í þessu sambandi. Að því leyti sem hugtakið sköddun veltur á hugtakinu hlutverk eru því afar þröngar skorður settar úr því að hægt er að nota líkamshluta á fleiri vegu en þá sem felast beinlínis í hlutverki þeirra. Hvernig stendur á því að okkur finnst það engin sköddun að rétta úr bakinu á krypplingi eða taka fyrir skeggvöxt skeggjuðu konunnar í fjölleikahúsi, eins þótt við séum þar með að svipta þau lífsbjörginni? Nú er freistandi að segja að kryppa og skegg á konu séu lýti, en það kemur málinu ekki við; ef við gerum ráð fyrir að til sé maður sem starfi sem hirðfífl og hafi þann sérstaka hæfileika að geta blakað eyrunum fyrir tilstilli ósýnilegs aukavöðva, myndum við ekki segja að eyrun hefðu orðið fyrir sköddun þótt vöðvinn væri fjarlægður. Væri mönnum eðlilegt að skiptast á merkjum með því að blaka eyrunum hefðu eyrun það hlutverk að senda slík merki (við eigum ekkert orð fyrir þess háttar „tal“) og þá væri það sköddun að skerða þessa hæfni þeirra; en málum er ekki hagað á þennan hátt. Hirðfíflið myndi nota eyrun til að skemmta fólki, en það er ekki hlutverk eyrna.

Án efa fyllast margir óþoli þegar staðreyndir af þessu tagi eru dregnar fram, vegna þess að þeim þykir það koma málinu lítið við að þetta eða hitt sé á einn eða annan hátt vaxið fyrir hendingu eina, og þeim virðist geðþótti ráða því að missir skeggsins, kryppunnar eða eyrnavöðvans fær ekki að heita sköddun. Er ekki býsna hræðilegt að glata því sem maður hefur viðurværi sitt af? Engu að síður virðist alveg eðlilegt að telja þennan missi eitthvað annað en sköddun ef maður leiðir hugann að skilyrðum mannlegs lífs og ber saman annars vegar það að glata hæfileikanum að koma fólki til að gapa eða hlæja og hins vegar það að geta ekki lengur séð, heyrt, gengið eða tekið hluti upp. Hið fyrrnefnda er aðeins nauðsynlegt við afar sérstök skilyrði, en hitt í allri fyrirsjáanlegri framtíð sérhvers manns. Þegar rætt er um hættu er heldur ekki alltaf um að ræða hættu á sköddun: um dauðann getur verið að tefla eða skerðingu á starfsemi hugans. Rafstuð sem leiddi til brigðlyndis eða minnistaps myndi teljast hættulegt, enda þarf maðurinn á greind, minni og einbeitingarhæfni að halda rétt eins og sjón, heyrn eða beitingu handanna. Í þessu myndum við ekki tala um meiðsl nema mögulegt sé að tengja fötlunina við einhverja breytingu á líkamanum, en við tölum á hinn bóginn um hættu vegna þess að um er að ræða hæfileika sem allir menn þarfnast.

Til eru fleiri tilbrigði af sköddun en þau sem við höfum skoðað hér, því í sumum tilfellum má segja um mann að hann hafi orðið fyrir sköddun enda þótt líkamshlutar hans geti eftir sem áður starfað eðlilega. Almennt tel ég að sköddun verði fyrir hvers kyns áfall sem setji líkamann úr skorðum með þeim hætti að því fylgi langvarandi sársauki, eins þótt ekkert annað illt hljótist af, en ég veit ekki af öðrum mikilvægum hliðarmerkingum hugtaksins.

Úr því að það virðist býsna skýrt afmarkað hvað geti kallast sköddun lítur út fyrir að orðið „hættulegur“ sé líka afmarkað að svo miklu leyti sem það tengist sköddun. Okkur leyfist að fullyrða að maður geti ekki ákveðið að nefna hvað sem er hættulegt, og þá gildir einu hversu mjög hann hristir höfuðið.

Ég hef hér fært rök fyrir því að fyrirbrigði á borð við stolt, ótta, kvíða og það að telja eitthvað hættulegt hafi innri tengsl við viðfang sitt, og vona að það sé að koma upp úr dúrnum hvað ég á við með þessu. Nú þurfum við að velta fyrir okkur hvort þau viðhorf og skoðanir sem siðfræðingar fást við séu svipaðrar ættar, eða hvort fyrirbrigði á borð við „gildisdóm“, „að telja eitthvað gott“ og „hrós“ geti rökfræðinnar vegna átt við hvaða viðfang sem vera skal. Hér verð ég að láta nægja að taka dæmi sem kann að varpa rýrð á þessa skoðun, og andmæla síðan nokkrum forsendum hennar. Dæmið er af fáfengilegri og marklausri athöfn á borð við þá sem við höfum þegar rætt, að núa hendur sínar þrisvar á einni klukkustund. Við getum bent á að eitthvað sé bogið við að telja slíka athöfn góða. Þessi gáta krefst þess að við stillum okkur um að bæta við dæmið einhverjum sérstökum skilyrðum, og enn einu sinni skal tekið fram að spurningin snýst um það hvaða rök megi færa fyrir því að athöfn sé góð eða slæm (eða maður góður eða slæmur), en ekki um það hvað geti verið eða megi telja gott eða slæmt við sérstök skilyrði. Ég held að viðhorfið sem ég er að gagnrýna virðist oft sennilegt einungis í krafti þess að hin sérstöku skilyrði eru laumulega dregin inn í dæmin.

Sá sem segði það góða athöfn að núa hendur sínar þrisvar á einni klukkustund yrði fyrst að svara spurningunni „Á hvaða hátt?“, því að hjá honum hefur setningin „þetta er góð athöfn“ ekki skýra merkingu. Úr því að við erum að velta siðfræði fyrir okkur má útiloka að setningin merki „þetta var gott hjá þér“, því að þetta mætti segja um hvern þann sem gerir eitthvað skynsamlegt í eftirsókn sinni eftir hverju sem vera skal; við verðum að einskorða okkur við „siðferðilega notkun orðsins ,góður‘“. Ég er ekki viss um að vit sé í að tala um „siðferðilega notkun orðsins góður‘“, en hvað sem því líður getum við tínt til ýmis dæmi sem vekja upp siðferðileg álitaefni. Dæmin eru ólík, og setningin „þetta er góð athöfn“ dugar ekki til að gera upp á milli þeirra, og þess vegna verðum við að spyrja „Á hvaða hátt?“ Til dæmis eru sumar athafnir sprottnar af skyldu, til dæmis skyldu foreldra við börn sín eða barna við foreldra sína. Ég geri ráð fyrir að heimspekingar teldu slíkar athafnir til góðra athafna. Sumar athafnir falla undir tilteknar dygðir, svo sem góðvild, og teljast þá líka góðar. Aðrar athafnir krefjast dygða á borð við hugrekki eða hófsemi, og þá er siðferðisgildið fólgið í að breytt er í trássi við hræðslu eða freistandi nautn; slíkar athafnir geta raunar allt eins miðað að ímynduðum gæðum eins og raunverulegum, og þar með ekki nauðsynlega að því sem heimspekingar myndu nefna siðferðisgæði. Hugrekki snýst ekki sérstaklega um það að bjarga fólki úr lífsháska, né heldur hófsemi um það að gefa öðrum kost á sínum skerf af mat og drykk. Það sem ræður því að það sem gert er telst gott getur hér verið ýmiskonar nytsemi. Vegna þess að um öll þessi ólíku dæmi má hafa orðin „góð athöfn“ (geri ég ráð fyrir) ættum við að hafna þeim möguleika að nota þau án þess að spyrja fyrst hvað átt er við, og við ættum þá að spyrja hvað sé á seyði þegar einhver segir það góða athöfn að núa hendur sínar þrisvar á klukkustund. Er átt við að þessi athöfn uppfylli skyldu? Ef svo er, hvaðan kemur manninum þessi skylda, og við hvern á hann hana? Við höfum heitið því að lauma ekki að sérstökum skilyrðum, en alveg er útilokað að það sé skylda mannsins að núa hendur sínar ef einhver slík skilyrði eru ekki til staðar. Athöfnin gæti ekki heldur verið sprottin af góðvild, því að hún telst ekki gera neinum gott, og engu fremur getur hún verið merki um hógværð nema einhverju því sé bætt við sem breyti dæminu á þann veg. Athöfnin gæti verið merki um hugrekki, en þá aðeins ef hún er gerð í trássi við hræðslu og miðar að einhverjum gæðum; og okkur leyfist ekki að lýsa sérstökum skilyrðum sem gætu gert raunina þessa.

Nú þykist ég vita að hreyft verði svofelldum andmælum: „Auðvitað er ekki hægt að bendla þá athöfn að núa hendur sínar þrisvar á einni klukkustund við einhverja af þeim dygðum sem við viðurkennum, en það helgast einvörðungu af því að í ríkjandi siðferði telst athöfnin ekki til góðra athafna. Í gerólíku siðferði er rökfræðilega mögulegt að miðað sé við allt aðrar dygðir, sem við eigum ekki einu sinni hugtök um.“ Ég get ekki svarað þessum andmælum til fullnustu, því að til þess þyrfti fyrst að gera bærilega grein fyrir dygðahugtakinu. En sá sem telur það hægan vanda að lýsa nýrri dygð sem tengist því að núa hendur sínar þrisvar á klukkustund ætti að reyna sig við það verk. Ég held hann kæmist að því að hann yrði að svindla og gera ráð fyrir samfélagi þar sem það að þrýsta saman höndunum hefur eitthvert sérstakt hlutverk, eða telst hafa einhverjar sérstakar afleiðingar. Erfiðleikarnir eiga greinilega rætur í því að án þess að tiltaka sérstök skilyrði er engin leið að svara spurningunni „Að hverju miðar athöfnin?“ Engan veginn dugar að segja að athöfnin hafi tilgang vegna þess að hún sé siðferðilega góð: málið snýst um það hvort lýsa megi athöfninni á slíkan hátt ef ekki er unnt að tiltaka fyrst einhvern tilgang. Alveg jafn fráleitt er að gera ráð fyrir að nefna megi hvað sem er tilgang athafnar en láta ósagt hver sé þá einmitt tilgangur þess. Þegar maður þrýstir saman höndunum heyrist ef til vill dálítið soghljóð, en hver er tilgangur þess? Það hlýtur að vera ljóst að siðferðilegar dygðir hljóta að tengjast því sem er mönnum gott og illt, og að það er alveg fráleitt að nota orðin „gott“ og „illt“ eftir geðþótta. Gerum ráð fyrir að maður segist hafa skaddast af því að einni fötu af vatni hafi verið ausið úr hafinu. Eins og endranær má ímynda sér aðstæður sem koma viti í þessi orð; til dæmis má vísa til yfirnáttúrulegra fyrirbæra; en þá ætti sköddunin upptök hjá illum öndum, en ekki í því einu að vatni var ausið úr hafinu. Þetta er álíka skrítið og það ef maður segðist hafa skaðast af því að hárunum á höfði hans hafi fækkað þannig að fjöldi þeirra sé ekki lengur oddatala heldur slétt.2

Niðurstaða mín er sú að forsenda (1) sé afar tortryggileg, og að engum sé leyfilegt að láta eins og við skiljum hugtökin „gildisdómur“,„lofsemd“ eða „jákvæð afstaða“ óháð því hvaða athafnir er um að ræða.

II

Nú hyggst ég taka til athugunar það sem nefnt var forsenda (2) og kvað á um að hver sem er geti alltaf neitað því að fallast á niðurstöðu af rökfærslu um verðmæti á þeirri forsendu að það sem teljist rök fyrir öðru fólki þurfi ekki endilega að vera rök í hans augum. Forsenda (2) gæti verið sönn þó að forsenda (1) sé ósönn því að hugsast getur að þegar komist hafi verið að niðurstöðu í álitamáli um verðmæti – til dæmis siðferðilegu álitamáli – séu allir þeir sem velta málinu fyrir sér neyddir til að telja sömu atriði til raka og allir aðrir, en samt geti hver sem er hafnað því að draga af þeim nokkrar siðferðilegar niðurstöður eða taka yfirleitt til umræðu álitamál sem fela í sér siðferðilega þætti. Við ætlum ekki heldur að skilja orðin „hann gæti hafnað niðurstöðunni“ þeim augljósa skilningi að ætíð megi hafna hvaða niðurstöðu sem vera skal; kjarninn er sá að stað­hæfingar um verðmæti virðast ætíð ganga lengra en staðhæfingar um staðreyndir, og því geti maður með fullum rétti fallist á forsendur gildisdóms en jafnframt hafnað sjálfum dómnum. Þeim sem halda fram þessari skoðun virðist hún leiða af þeirri vísun til breytni sem í gildisdómi felst. Þegar maður notar orð eins og „góður“ í hinni „gildishlöðnu“ merkingu þess, en ekki „óeiginlegri merkingu“, er gert ráð fyrir að hann láti í ljós vilja sinn. Af þessu virðist óhjákvæmilega leiða að rökfræðileg gjá sé á milli staðreynda og gilda: er það ekki eitt að segja að málum sé háttað á einn eða annan veg, en annað að hafa tiltekna afstöðu til þess; eitt að sjá að vissar afleiðingar verði af tiltekinni athöfn, en annað að kæra sig um þær? Einu gildi hvernig kjarna gildisdóms er lýst – hvort hann er kenndur við geðshræringar, viðhorf, viðurkenningu á siðaboðum eða eitthvað annað – staðreyndin sé alltaf sú að í gildisdómi felist ný vídd sem ekki sé hægt að réttlæta með vísun til staðreynda.

Ég mun færa rök fyrir því að þessi skoðun sé röng, og að hún setji vísun siðferðilegra hugtaka til breytni á skakkan stað; en ef þessari vísun sé lýst á réttan hátt muni hin röklega gjá milli stað­reynda sem hafðar eru að forsendu og siðferðilegra niðurstaðna hverfa.

Í þessari rökfærslu er gott að hafa fyrir sér hvernig orðið „sköddun“ hefur verklegan blæ sem er „leiðbeinandi um breytni“, og er þannig að sumu leyti, en þó ekki öllu, hliðstætt við siðferðileg hugtök. Það er ljóst að mínu viti að sköddun er nauðsynlega slæm og þar með er alltaf ástæða til að forðast hana, og heimspekingum mun af þeim sökum þykja freistandi að halda fram að sá sem noti hugtakið „sköddun“ í hinni hreinu „leiðbeinandi“ merkingu þess reyni þá líka að forðast hvaðeina sem hann kallar sköddun. Þeir munu þá lenda í hinum gamalkunnu erfiðleikum um manninn sem segist vita að hann ætti að breyta á tiltekinn hátt en hefur það samt alls ekki í hyggju; hér gæti líka vaknað vandinn um breyskleikann. Við skulum heldur athuga af hvaða toga það er sem telja má sköddun, og reyna að sjá hvort tengslin við viljann eigi rætur þar. Eins og við höfum sýnt verður maður fyrir líkamlegri sköddun þegar einhver hluti líkama hans skemmist á þann hátt að hann verður vanhæfari til að gegna venjulegu hlutverki sínu. Af því leiðir að maðurinn verður fyrir einhverri fötlun, eða á það a.m.k. á hættu; ef hann hefur skaddast á hendi felur það í sér skerðingu á hæfni hans að lyfta hlutum, halda á þeim, binda þá saman eða höggva þá sundur, og svo framvegis. Hafi augu hans skaddast verður hann ófær um að gera óteljandi aðra hluti, og í báðum tilvikum ætti okkur að vera eðlilegt að segja að hann verði oft ófær um að öðlast það sem hann vill öðlast eða forðast það sem hann vill forðast.

Heimspekingar munu án efa henda orðið „vill“ á lofti og segja að ef við gerum ráð fyrir að svo vilji til að maður vilji öðlast einhverja hluti sem hann getur ekki öðlast af þeim sökum að hann hafi orðið fyrir einhverri sköddun, höfum við þar með lætt að tilteknum fyrirframskilyrðum; og að hver sá sem hafi ekki sömu langanir geti þá samt sem áður hafnað því að nota orðið „sköddun“ í hinni vísandi eða „leiðbeinandi“ merkingu þess. Þá getur svo virst sem eina leiðin að koma á nauðsynlegum tengslum milli hugtaksins „sköddun“ og hluta sem ber að forðast sé að segja að hugtakið sé notað í „merkingu sem er leiðbeinandi um breytni“ einungis þegar það er haft um eitthvað sem mælandinn vill forðast. En við skulum gaumgæfa lykilatriðið í þeirri rökfærslu og draga í efa þá hugmynd að verið geti að maður vilji ekki öðlast neitt af því sem hann þarf að nota hendur og augu til. Hendur og augu, rétt eins og eyru og fótleggir, koma við sögu í svo mörgum athöfnum að engin leið er að segja um mann að hann þurfi ekki á þeim að halda, nema þá að maðurinn hafi alls engar þarfir. Einu gildir hvort slíkt fólk kunni að vera til á geðsjúkrahúsum; vilji maður eitthvað á annað borð hlýtur það að geta notað útlimina með eðlilegum hætti að vera þar á meðal.

Ég veit ekki hvað sá sem neitar þessari staðhæfingu gæti haft í huga. Kannski vill hann breyta staðreyndum um mannlega tilveru þannig að lækna mætti öll heimsins mein með því einu að óska sér eða hefja upp raust sína. Þó er líklegra að hann vilji gera ráð fyrir að hægt sé setja lífi tiltekins manns skorður innan vébanda hins venjulega heims, til dæmis með því að gera ráð fyrir að hann sé prins og þjónn hans sái fræinu og skeri kornið og sitji og standi fyrir hann og noti hendur sínar og augu í þjónustu hans með þeim hætti að hann þurfi ekki á sínum eigin að halda. Gerum ráð fyrir að slíka sögu megi segja um einhvern mann; hún er feikilega ósennileg, en lítum framhjá því. Ljóst er að engu að síður gætum við fullyrt að sérhver maður hafi ástæðu til að forðast skaða; því að jafnvel þótt segja megi um deyjandi mann að hann hafi aldrei í lífi sínu þurft á höndum sínum eða augum að halda, var heldur engin leið að sjá það fyrir. Slíkri spá væri ekki hægt að treysta nema staðreyndir um mannlega tilvist væru aðrar en þær eru og hægt væri að sjá fyrir öll hugsanleg tilbrigði í þessari tilvist.

Þar með er ekki tekið fyrir að af sköddun geti af tilviljun hlotist meiri ávinningur en ógagn; í því efni nægir að hugsa til þess þegar hraustir menn eru settir undir vopn og falla síðan á vígvellinum. Við óvenjuleg skilyrði mætti jafnvel sjá slíkan ávinning fyrir með vissu, þannig að maður gæti haft betri ástæðu til að sækjast eftir sköddun heldur en forðast hana. Að þessu leyti er orðið „sköddun“ frábrugðið hugtökum á borð við „óréttlæti“; vísun orðsins „sköddun“ til breytni felur ekki annað í sér en það að allir hafa einhverja ástæðu til að forðast skaða, en ekki að sú ástæða sé alltaf þyngst á metum.

Menn munu taka eftir því að þessi greinargerð fyrir þeim þætti orðsins „sköddun“ sem er leiðbeinandi um breytni tengir það við ástæður fyrir breytni fremur en sjálfa breytnina. En ég fellst ekki á að þetta dragi úr gildi þess að skoða leiðbeinandi þátt siðferðishugtaka með þessum hætti. Heimspekingar sem hafa gert ráð fyrir að athöfn þurfi að fylgja þegar orðið „góður“ er notað í einlægum gildisdómi hafa ratað í erfiðleika með breyskleikahugtakið, og þeir hljóta að fallast á að nægilegt sé að sýna fram á að allir menn hafi ástæðu til að stefna að dygðugri breytni en forðast lesti. En er þetta alveg ókleift ef við veltum fyrir okkur hvað það er sem telst til dygða og lasta? Lítum til dæmis á höfuðdygðirnar, skynsemi, hófsemi, hugrekki og réttlæti. Augljóst er að sérhverjum manni er skynsemin nauðsynleg, en þarf hann ekki líka að standast þá freistingu að veita sér einhverja ánægju þegar henni fylgir skaði? Og hvernig er hægt að halda fram að hann þurfi aldrei að takast á við eitthvað skelfilegt á leið sinni að góðu marki? Ekki er augljóst hvað sá ætti við sem segði að hófsemi eða hugrekki væru ekki kostir á manni, ekki vegna þess lofs sem liggur í merkingu orðanna, heldur vegna þess, hvað hugrekki og hófsemi eru.

Fyrir mér vakir að nota þessi dæmi til að sýna fram á tómahljóðið í hugtökunum um „hrós“ og „jákvæða afstöðu“ eins og þau eru iðulega notuð. Heimspekingar sem ræða um þessi mál munu segja að eftir að fallist hefur verið á staðreyndirnar – til dæmis að X sé maður af því tagi sem klífur hættuleg fjöll, býður uppstökkum vinnuveitanda byrginn með því að óska eftir launahækkun, og, almennt talað, tekst á við það sem er skelfilegt þegar það stendur í vegi fyrir því sem hann sækist eftir – þá sé eftir að athuga „hrós“ eða „gildismat“. Ef orðið „hugrekki“ er notað munu þeir spyrja hvort sá sem talar um að annar sé hugrakkur sé þar með að hrósa honum. Ef við svörum því játandi munu þeir fullyrða að það að fella þennan dóm um hugrekki feli í sér meira en felst í staðreyndunum, og á þeirri forsendu megi hafna honum; ef við svörum því neitandi munu þeir halda fram að við notum „hugrekki“ í hreinni lýsandi merkingu, eins og við hefðum það innan gæsalappa, dæmið sé ekki af því tagi þegar tungumálið er notað til að fella gildisdóma, og það sé því utan við hið sérstaka verksvið siðfræðingsins. Hvaða vit er á hinn bóginn hægt að fá í spurninguna „Er sá sem mælir að hrósa hinum hugrakka?“ Hvað er það sem sagt er hafa bæst við, eða fallið út, eftir að staðreyndirnar hafa verið negldar niður? Málið snýst ekki um að sá hugrakki falli manni í geð, eða að maður telji hann algóðan, heldur um það að maður „hrósar honum fyrir hugrekki sitt“. Hvernig er ætlast til að við gerum það? Því verður svarað á þá leið að þegar við tölum um að maður sé hugrakkur séum við því aðeins að hrósa honum að við föllumst sjálf á að hlíta boðorðinu „ég vil vera hugrakkur“. En þetta er alveg óþarft. Ég get talað um að einhver annar búi yfir dygðinni hugrekki, og að sjálfsögðu viðurkennt að það sé dygð í réttum skilningi þess orðs, en vitað jafnframt að sjálf er ég algjör og óforbetranlegur hugleysingi. Ég veit þá að mér væri hollt að vera hugrökk og hef því ástæðu til að rækta með mér hugrekki, en ef til vill veit ég líka að ég muni láta það alveg eiga sig.

Ef einhver segir að hugrekki sé ekki dygð verður hann jafnframt að segja að það sé ekki eiginleiki sem leiði til réttrar breytni. Ef til vill væri hann að hugsa um að til væru menn sem hefðu orðið fyrir skaða hugrekkis síns vegna, sem er alveg satt, en það er þá bara vegna þess að skaði getur orðið fyrir hendingu. Til dæmis gæti sá hugrakki hafa vanmetið tiltekna áhættu og lent þannig í slysi sem heigullinn hefði komist hjá vegna þess að hann hefði ekki viljað hætta á neitt. Og hugrekki, eins og allar aðrar dygðir, gæti valdið skaða með því að vekja einhverskonar ógæfulegt stolt.3 Á sama hátt eru þeir sem draga hófsemisdygðina í efa að öllum líkindum ekki að hugsa um dygðina sjálfa heldur um menn sem hafa látið hófsemina bægja frá sér nautnum fyrir sýndargæða sakir, eða um menn sem hafa gert þessa dygð að helsta stolti sínu.

Einnig verður spurt að réttlætinu, því að skynsemi, hugrekki og hófsemi eru eiginleikar sem virðast koma þeim til góða sem hefur eiginleikana, en réttlæti virðist á hinn bóginn fremur vera hinum réttláta í óhag og öðrum til góða. Þegar fjallað er um réttlæti á þennan hátt, það er að segja sem eina af höfuðdygðunum, nær það til alls þess sem annað fólk á heimtingu á: morð, þjófnaður og lygar falla undir óréttlæti, og líka það þegar foreldrar vanrækja börn sín eða börnin foreldrana, svo og þær athafnir sem nefndar eru óréttlátar í hversdagslegu máli. Þannig að þegar sá sem forðast óréttlæti þarf á einhverjum gripum að halda sem hann er búinn að skila til eiganda síns, og má ekki nýta sér það að svíkja og ljúga, lendir hann í öllum þeim erfiðleikum sem Þrasýmakkos lýsir í fyrstu bók Ríkisins og kveður sýna fram á að óréttlæti sé til meiri hagsbóta en réttlæti fyrir þann sem er sterkur og kænn. Við verðum spurð að því hvernig réttlæti geti verið dygð og óréttlæti löstur samkvæmt kenningu okkar, því það sé augljóslega erfitt að sýna að sérhver maður þarfnist þess að vera réttlátur á sama hátt og hann þarfnast handa sinna eða augna, eða á sama hátt og hann þarfnast skynsemi, hugrekkis og hófsemi.

Áður en ég svara þessari spurningu vil ég færa rök fyrir því að ef ekki sé unnt að svara henni sé einnig ófært að halda fram eins og ekkert hafi í skorist að réttlæti sé dygð í raun og veru. Tilgangurinn með þessu er ekki að sýna fram á að spurningunni megi svara úr því að réttlætið er dygð, heldur öllu fremur að leggja til að við ættum að minnsta kosti að velta fyrir okkur þeim möguleika að réttlæti sé ekki dygð. Sókrates tók þessa tillögu alvarlega í Ríkinu, og þar gerðu allir ráð fyrir að ef Þrasýmakkos gæti fært sönnur á forsendu sína – að óréttlæti sé ábatasamara en réttlæti – fylgdi niðurstaða hans með: að sá sem hefði þann styrk er þyrfti til að komast upp með óréttlæti hefði góða ástæðu til að helga líf sitt óréttlætinu. Í siðfræði nútímans er áberandi að enginn sér nein tormerki á því að fallast á forsendu Þrasýmakkosar en hafna niðurstöðunni, og afstaða Nietzsches er í þessu efni fjarri siðfræðingum nútímans vegna þess að hún er miklu nær skoðun Platons.

Í Ríkinu er gert ráð fyrir því, að sé réttlæti ekki gæði hins réttláta manns þá séu siðvitringar sem telji réttlætið dygð sekir um pretti. Ég fellst á þetta og verð þá eflaust spurð hvaðan þessir prettir séu sprottnir; með hvaða orðalagi séu þau ósannindi tjáð að réttlæti sé einstaklingnum til hagsbóta. Til bráðabirgða má spyrja á móti hversu margir myndu í raun fullyrða að óréttlæti sé ábatasamara en réttlæti. Við skulum láta trúarskoðanir sem flækja málið liggja á milli hluta, eins og endranær í þessari ritgerð, og ímynda okkur að harðsnúinn trúleysingi spyrji okkur „Hvers vegna ætti ég að vera réttlátur?“ (Þeir sem telja að eitthvað sé bogið við þessa spurningu mega hafa sínar aðferðir við að sía út „gildisþáttinn“ í henni, og geta svo gert ráð fyrir að spurningin sé „Hvers vegna ætti ég að vera ,réttlátur‘?“) Erum við reiðubúin að svara á þessa leið: „Hvað sjálfan þig varðar kæmi sér betur að þú værir óréttlátur, en það er okkur hinum til hagsbóta að þú sért réttlátur, og því ætlum við að reyna að fá þig til að vera réttlátur“? Hann myndi vísast gaumgæfa hvernig við bærum okkur að í eftirliti með réttlætinu og gæta þess síðan að ekki kæmist upp um sig, og ég held að margir þeir sem telja að ekki sé nauðsynlegt að sýna að réttlæti sé hinum réttláta til hagsbóta myndu hæglega fallast á að meira gætu þeir ekki sagt.

Lykilspurningin er þessi: „Getum við gefið hverjum sem er, hvort sem hann er sterkur eða veikburða, gilda ástæðu til að vera réttlátur?“ – og það stoðar ekkert að segja að orðin „réttlátur“ og „óréttlátur“ séu „leiðbeinandi um breytni“ og því megi ekki einu sinni spyrja „Hvers vegna ætti ég að vera réttlátur?“ Ef mið er tekið af þeim rökum þarf maðurinn sem vill geta gert það sem honum sýnist einungis að forðast að nota orðið, og þá hefur hann ekki neina ástæðu til þess að láta það ógert sem annað fólk nefnir „óréttlátt“. Líklega verður þeim rökum hreyft að manninum hafi verið fengin ástæða að svo miklu leyti sem menn geti yfirhöfuð haft ástæðu til að gera eða gera ekki nokkurn skapaðan hlut, úr því að einhvers staðar hljóti ástæðukeðjan að enda, og svo geti virst sem maður geti alltaf hafnað ástæðu sem annar maður telur gilda. En þarna er villa; til eru svör við spurningu af taginu „Hvers vegna ætti ég að gera þetta?“ sem vísa til endanlega margra ástæðna, og önnur sem gera það ekki. Hume sýndi fram á þetta í eftirfarandi orðum:

Spyrjið mann að því, hvers vegna hann stundi líkamsþjálfun; hann mun svara því til að hann vilji halda heilsu sinni. Ef þið spyrjið þá, hvers vegna hann vilji vera heilbrigður, þá mun hann svara um hæl, vegna þess að sjúkdómar valda sársauka. Ef þið spyrjið enn í þaula, og krefjist ástæðu þess að hann hafi óbeit á sársauka, þá er útilokað að hann geti gefið nokkurt svar. Hér er komið endanlegt markmið sem er aldrei tengt við annan hlut. (Rannsókn á undirstöðum siðferðisins, viðbætur I, V. hluti.)

Hume hefði rétt eins getað endað þessa ástæðukeðju með því að nefna leiðindi til: sjúkdómum fylgja iðulega leiðindi, og enginn þarf að tilgreina ástæðu þess að hann vilji forðast þau, engu fremur en hann þarf að tilgreina ástæðu þess að hann vilji öðlast það sem vekur áhuga hans. Almennt má segja að maður fái ástæðu til að aðhafast þegar honum opnast leið til að öðlast eitthvað sem hann sækist eftir; en um sumar langanir er hægt að spyrja með fullu viti „Hvers vegna sækist þú eftir þessu?“, um aðrar er ekki hægt að spyrja þannig.4 Það virðist ljóst að í þessari tvískiptingu lendi réttlæti öfugum megin við ánægju og áhuga og annað af því tagi. Spurningunni „Af hverju ætti ég að láta þetta ógert?“ er ekki svarað með orðunum „af því að það er óréttlátt“, en samsvarandi orð eru á hinn bóginn notuð þegar átt er við að athöfnin muni leiða til leiðinda, einsemdar, sársauka, óþæginda eða tiltekinnar vanhæfni, og af þessum sökum er ekki satt að segja að staðhæfingin „það er óréttlátt“ láti í té ástæðu ef ástæður verða þá látnar í té á annað borð. Staðhæfingin „Það er óréttlátt“ lætur einungis ástæðu í té ef sýnt verður að eðli réttlætis sé með því lagi að það sé nauðsynlega tengt því sem maður sækist eftir.

Af þessu sést að býsna margt veltur á þeirri spurningu hvort réttlæti sé gott fyrir hinn réttláta eða ekki, og hvers vegna það er vafasamt að fallast á forsendu Þrasýmakkosar en hafna samt niðurstöðu hans. Þeir sem gera þetta mæla með réttlætinu við hvern sem er, og segja hann hafa góða ástæðu til að vera réttlátur, en þegar þeir eru krafðir um rök fyrir þessu geta þeir ekki alltaf fært þau fram. Þessi síðasta staðhæfing hvílir ekki á neinni heimspekilegri „eigingirniskenningu um manneðlið“. Oft er kleift að láta manni í té ástæðu fyrir tiltekinni breytni með því að benda honum á að ella muni annar maður þjást; vel getur verið að velferð annars manns skipti hann meira máli en velferð hans sjálfs. En ást móður á barni sínu eða gagnkvæm ást elskenda eða vina verður okkur að litlu gagni þegar við erum beðin um ástæðu fyrir því að maður eigi að vera réttlátur; að hluta til vegna þess að það hrekkur ekki til, og að hluta til vegna þess að sú breytni sem hlýst af góðvild er ekki alltaf sú sama og sú sem hlýst af réttlæti. Setjum svo að ég skuldi einhverjum fé:

  .  .  .  en ef hann er óvinur minn og hefur gefið mér góða ástæðu til að hata hann? Ef hann er grimmdarseggur sem verðskuldar hatur alls mannkyns? Ef hann er nirfilshró sem getur ekki notið þess sem ég myndi svipta hann? Ef hann er siðspilltur nautnaseggur sem myndi fremur hljóta skaða en hag af miklum eignum?“5

Jafnvel þótt hægt væri að rekja alla ástundun réttlætisins til góðvildar í garð mannkynsins – til þeirrar afstöðu að óska sem flestum mönnum sem mestrar hamingju – er augljóst að margir hafa ekki þá afstöðu. Þannig að ef aðeins á að mæla með réttlætinu á þeim forsendum geta þúsund hörkutól eftir sem áður haldið fram að þeir hafi enga gilda ástæðu fengið fyrir því að vera réttlátir, og margir fleiri tækju undir það ef þeir hefðu döngun og vit til að efast um þær hefðir í samskiptum sem þeir hafa alist upp við. Það er því ljóst að ef forsenda Þrasýmakkosar er tekin gild er fullt vit í sjónarmiði hans; við höfum enga sérstaka ástæðu til að dást að þeim sem eru réttlátir af hugleysi eða heimsku.

Mér virðist því að ef fallist er á tilgátu Þrasýmakkosar geti skipan mála ekki haldist í fyrra horfi; þá verðum við að viðurkenna að sú skoðun sé röng að réttlætið sé dygð, og ef við viljum samt sem áður fá fólk til að vera réttlátt verðum við að finna nýja leið til að gera réttlætið að aðlaðandi kosti.6 Við verðum þá að viðurkenna að óréttlæti sé affarasælla en réttlæti, í það minnsta fyrir hina sterku, og reyna svo allt hvað við getum til að tryggja að enginn komist upp með óréttlæti. Okkur býðst vitaskuld líka sá kostur að þegja og vona að fólk muni upp til hópa breyta rétt af vana, og að það spyrji ekki óþægilegra spurninga, en þessi stefna gæti vikið fyrir óljósri efahyggju, jafnvel hjá þeim sem vita ekki alveg hvað á vantar; við ættum ennfremur stöðugt á hættu að einhver kæmi upp um svikamyllu okkar.

En er það annars satt að til sé sá maður sem þurfi ekki á réttlæti að halda í samskiptum sínum við annað fólk vegna þess eins að hann er sterkur? Þá, sem telja að hann geti lifað ágætu lífi án þess að vera réttlátur, ætti að biðja um að lýsa því nákvæmlega hvernig líf þessa manns á að vera. Við vitum að hann breytir ætíð í anda óréttlætis þegar það er honum í hag; en hvað á hann sjálfur að segja? Fellst hann á hann að hann viðurkenni ekki rétt annars fólks, eða þykist hann kannski gera það? Í fyrra tilvikinu myndu meira að segja þeir sem tengjast honum vita að þegar gæfan snýst við eða vináttan hjaðnar mun hann snúast gegn þeim og ræna þá og rupla, og hann hlýtur að vita af svikráðum þeirra eins og þeir af hans. Líklega er gert ráð fyrir að hinn hamingju­sami og óréttláti maður sé í stíl við þann sem lýst er í II. bók Ríkisins, semsé afar útsmoginn lygari og blekkingameistari sem er fullkomlega óréttlátur en lítur samt út fyrir að vera réttlátur: hann skirrist ekki við að níðast á öðrum en lætur þó líta út fyrir að ekkert sé vilja hans fjær. Heimspekingar virðast oft gera ráð fyrir að maður geti með slíkum hætti falið sig fyrir þeim sem eru í kringum hann, en sú forsenda er vafasöm, og hvað sem öðru liði yrði slíkur maður að vera einstaklega árvakur. Láti hann skína í sitt rétta eðli í hópi manna verður hann að hafa gát á þeim öllum upp frá því; og ef hann leyfir engum að vita leyndarmál sitt verður hann stöðugt að gæta þess að gefa ekkert til kynna. Þessar staðreyndir eru mikilvægar vegna þess að þörfin sem menn hafa fyrir réttlæti í samskiptum sínum við aðra er sprottin úr því að þeir eru menn en ekki dauðir hlutir eða dýr. Þyrfti maður ekki á öðrum mönnum að halda nema á sama hátt og maður hefur þörf fyrir búsáhöld, og ef hægt væri að fara með menn eins og búsáhöld, eða berja þá til hlýðni eins og asna, væri þessu öðruvísi farið. En eins og málum er háttað er sú skoðun að óréttlæti sé ábatasamara en réttlæti afar vafasöm, enda þótt vera megi að það geti verið ábatasamt í undantekningartilvikum á sama hátt og hugleysi og óhóf.

Ástæða þess að sumum virðist með öllu ókleift að sýna fram á að réttlæti komi sér betur en óréttlæti er að þeir beina sjónum einungis að tilteknum réttlátum athöfnum, slitnum úr öllu samhengi. Það er hafið yfir vafa að ef maður er réttlátur felst í því að þegar hann kemst í mikla þröng er hann reiðubúinn að ganga í dauðann fremur en brjóta gegn réttlætinu – til dæmis með því að láta dæma saklausan mann fyrir glæp. Hann sér að réttlætið muni leiða hann í glötun, en samt hefur hann, eins og hver annar, góða ástæðu til að vera réttlátur en ekki óréttlátur. Hann gæti ekki verið hvort tveggja, það er að segja búið yfir réttlætisdygðinni en jafnframt látið eftir sér að brjóta gegn réttlætinu þegar það kemur sér sérstaklega vel fyrir hann. Sá sem býr yfir dygð réttlætisins lætur ekki vissar athafnir eftir sér, en ef hann fellur of hæglega í freistni munum við taka svo til orða að þegar allt komi til alls hafi hann verið sjálfum sér eftirlátur.

Aftanmálsgreinar

*  „Moral Beliefs“ birtist upphaflega í Proceedings of the Aristotelian Society, 59, 1958-1959. Greinin birtist í íslenskri þýðingu Björn Þorsteinssonar í Heimspeki á tuttugustu öld. Safn merkra ritgerða úr heimspeki aldarinnar, ritstjórar Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (Reykjavík: Mál og menning (Heimskringla), 1994). Þýðandi, ritstjórar og útgefandi gáfu Heimspekivefnum góðfúslegt leyfi til að birta þýðinguna til að minnast Philippu Foot sem lést 3. október 2010.

1. Sjá Rannsóknir í heimspeki eftir Wittgenstein, einkum § 243–315.

2. Margir heimspekingar leita skjóls í laufþykkni fagurfræðinnar þegar þeir standa andspænis dæmi af þessum toga. Gaman væri að vita hvort þeir teldu vænlegt að láta málflutning sinn standa og falla með möguleikanum á því að til séu fagurfræðileg andmæli við athöfninni.

3. Sbr. Tómas frá Akvínó, Ágrip af guðfræði (Summa Theologica), I-II, spurning 55, grein 4.

4. Sjá afburðagóða umræðu um ástæður athafna hjá G.E.M. Anscombe, Ætlun (Intention), § 34–40.

5. Hume, Tilraun um manneðlið, III. bók, II. hluti, 1. grein.

6. Ég átti í þessum erfiðleikum vegna þess að ég hafði tekið undir með andmælendum mínum í því að tilhugsun um góða athöfn hlyti að tengjast valkostum einstaklingsins með afar sérstæðum hætti. Þá hafði ekki hvarflað að mér að draga í efa þá margnotuðu röksemd að siðferðisdómar láti mönnum í té ástæður fyrir breytni. Nú virðist mér þetta vera misskilningur. Almennt séð vísar ástæða þess að sá, sem hyggst velja úr flokki möguleika, „sé líklegur“ að velja góðan kost fremur en slæman, til þess að viðmiðanir okkar um gæði tiltekinna hluta tengjast tilteknum hagsmunum sem einn eða annar maður á eða telur sig eiga með tilliti til þessara hluta. Þeir sem eiga hlut að þessum hagsmunum hafa ástæðu til að velja góðu kostina, en ekki hinir. Þegar um athafnir er að tefla getum við greint á milli góðs og ills með vísun til þeirra hagsmuna sem við tengjum við það sem er öllum almenningi til góðs, og af þeim sökum getur sá sem er andskotans sama um almenning spurt hvers vegna hann ætti að vera réttlátur, og við verðum að taka þessa spurningu fyllilega alvarlega eins og Platon á undan okkur. Við þurfum heldur ekki að hræðast þá hugmynd að ekki þurfi nauðsynlega að veita svar, og að ekki sé unnt að reiða sig á skynsamlega þátttöku annarra í siðferðilegri breytni. Málin gætu mjakast til betri vegar, en ekki verri, ef við féllumst á að ástæðurnar sem menn hafa fyrir því að breyta af réttlæti og góðvild velta á hverfulum viðhorfum manna og samjöfnuði eins manns við annan í samfélaginu. Þá sæjum við að það er verkefni okkar að sinna þessum málum, og (umfram allt) að það er ekki til góðs að koma fram við fólk af vanvirðingu og sundurgerð og láta síðan framandleg boðorð um að krefja það um siðlega breytni. [Þessa grein var ekki að finna í upphaflegri gerð greinarinnar, heldur bætti Foot henni við þegar greinin var endurprentuð í Virtue and Vices. (Þýð.)]

Heimspeki í barnaskóla

Markmið, inntak og aðferðir

eftir Björn Egilsson

Í grunnskólanum sem ég starfa í, Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, er ekki unnið eftir hefðbundinni stundatöflu. Fyrir hádegi er hópatími þar sem börnin eru með sínum hópstjóra (umsjónarkennara) þar sem verkefni tengd íslensku og stærðfræði auk lotna í ensku eru í fyrirrúmi en eftir valtíma og hádegismat taka við smiðjur af ýmsu tagi. Skólinn býður nemendum sínum upp á tónlistarsmiðju, leiklistarsmiðju, þróttsmiðju, smíðasmiðju, náttúrusmiðju, yoga­smiðju, myndlistarsmiðju, textílsmiðju, heimssmiðju (þar sem börnin fræðast um landafræði og menningu annarra landa) og síðan hugsmiðju sem undirritaður hefur veg og vanda að. Í náms­áætlun skólans hefur orðinu heimspeki verið bætt aftan við orðið hugsmiðja í sviga og hefur það leitt til skemmtilegs ruglings. Í margra hugum er það óljóst fyrir hvað heimspeki stendur og sumir jafnvel getið sér til um að ég fræði nemendur mína um landa- og menningarfræði eða jafnvel einhvers konar jarðvísindi. Ónefndur góðborgari hafði meira að segja orð á því að orðið heim­speki bæri með sér hroka og yfirlæti vegna þess að það slægi eign sinn á alla þekkingu heimsins og að enginn heilvita maður gæti viljað láta titla sig á svo hlægilegan hátt – ástmögur viskunnar væri meira við hæfi.

Á kennarafundi lýsti skólastjóri skólans þeirri skoðun sinni að vel heppnað smiðjustarf ein­kenndist af metnaðarfullum undirbúningi sem leiddi til sterkrar upplifunar fyrir barnið sem það gæti tengt við veruleika sinn. Máli sínu til stuðnings vísaði hún í starf textílsmiðjukennarans sem hafði kynnt fimm ára börn fyrir grunnlitunum og unnið litahring út frá því með textílbútum. Þá hafi þau farið í strætó og heimsótt vinnustofu þar sem þau völdu sér efni, teiknuðu mynstur og prjónuðu húfu í prjónavél sem þau síðan straujuðu og þæfðu. Helsta hvatning vinnunnar hafi verið að börnin fengu tækifæri til þess að hanna og framleiða eitthvað nothæft á sig sjálf. Þessa sömu viku hafði ég sex ára stúlkur í hugsmiðju og velti því fyrir mér hvort starf mitt fylgdi ofan­greindum viðmiðum og kröfum um þýðingarmikla upplifun og raunveruleikatengda útkomu. Var ég að fylla þau af „heimsþekkingu“ eða hafði smiðjustarfið einhverja þýðingu fyrir börnin? Í hug­smiðjutímunum könnuðum við hugtakið vilja, út frá nokkrum grunnspurningum: Hvað það sé að vilja eitthvað, hvort hver og einn viti hvað hann eða hún vilji og hvort viðfangsefni viljans sé gott eða slæmt. Spurningarnar afhjúpuðu fyrirframgefnar hugmyndir sem voru þó enn að mótast; maður réði sjálfur hvort maður vildi eitthvað eða ekki, en stundum réði þó heilinn för. Ef að maður sjálfur (sem ein þeirra kallaði „manneskjan“), vildi ekki eitthvað sem að hugurinn vildi væri minnsta mál að slökkva á huganum með því að fara að sofa. Auðvitað mátti einnig spyrja hvort og hvernig hugurinn eða heilinn væri eitthvað annað en maður sjálfur og hvað sjálfið væri þá eiginlega, en þann þráð ætla ég ekki að rekja hér.

Stúlkunum fannst líklegast að þeir sem væru góðir vildu eitthvað sem væri gott á meðan þeir sem væru illir sæktust eftir hinu gagnstæða. Eftir að hafa rætt þær hugmyndir sem við höfðum um viljann las ég fyrir þær barnabækur af ýmsum toga með það fyrir sjónum að kanna hvort og hvernig vilji birtist í þeim. Ein bókanna var Emma fær mislinga eftir Gunillu Wolde. Í bókinni þráir söguhetjan að fá mislinga þegar litli bróðir hennar steypist út í rauðum dílum. Ég spurði hvað það væri sem Emma vildi í bókinni og fyrsta svarið virtist augljóst: hún vildi fá mislinga eins og bróðir sinn. Ég spurði þá hvort þær teldu Emmu góða eða illa og hvort það væri gott eða slæmt að veikjast. Emmu töldu þær góða stúlku en hikuðu þegar þær áttuðu sig á því að það væri ekki gott að veikjast – hvernig gæti gott barn viljað eitthvað slæmt? Þá benti ein þeirra á að Emma hefði í raun verið öfundsjúk út í litla bróður sinn vegna þess að mamma og pabbi hefðu hugsað svo vel um hann á meðan hann var veikur, ekki vegna þess að það væri gott að vera veikur. Á þessum tímapunkti var samræðan komin með bitastæða ráðgátu í hendurnar um sjálfstæð og ósjálfstæð markmið: Er hægt að óska sér einhvers ills í von um að það leiði eitthvað gott af sér?

Í hópi fimm ára drengja las ég söguna um Láka jarðálf og bað þá að lestri loknum að flokka sögupersónurnar í mengi eftir því hvort þær teldust góðar, illar eða þá í annað mengi sem var fyrir þær sem við vissum ekki hvort væru góðar eða illar. Hver og einn þurfti að rökstyðja val sitt á mengi með því að vísa til gjörða viðkomandi persónu. Í þessum æfingum studdist ég við ramma sem börnin þekkja; hinn afgerandi, fyrirframgefna og svarthvíta mun góðs og ills. Auk þess dýpkaði ég samræðuna með gömlum sögum og ævintýrum sem nú voru lesin í nýju ljósi. Markmið æfinganna er að víkka hugsunina og kveikja neista hins rannsakandi huga. Neistinn sést best á bliki undrunar í augum barnanna þegar sam­ræðan hefur dregið fram þverstæðu sem ögrar hafðbundinni hugsun. „Kannski þýðir gott bara vont“ sagði einn drengur að lokum þegar samræðan hafði leitt í ljós að Láki jarðálfur hafði gert fleiri góðverk en drengurinn sem Láki breyttist í við lok sögunnar; Láki jarðálfur var sem sagt betri í siðferðislegum skilningi en Láki drengur þó að Láki jarðálfur hefði framið yfir sjöhundruð illvirki. Þó svo að hinn hefðbundni skilningur á sögupersónum gæfi sér það að Láki drengur væri góður (enda hafði jarðálfurinn breyst í dreng eftir að hafa gert góðverk) lenti hann í mengi óvissunnar rétt eins og bangsinn, dúkkan Soffía og kisa sem létu hvorki gott né illt af sér leiða innan sögunnar.

Markmið smiðjunnar er ekki fræðsla um staðreyndir; smiðjan á ekki nesta börnin með vitneskju um höfuðborgir Norðurlandanna og ólík tungumál íbúa þeirra eða að kenna þeim muninn á ösp og reynivið. Smiðjan er ólík hannyrðasmiðjunum þar sem nemendur geta farið stoltir með hand­verksmuni heim til fjölskyldunnar, og þau öðlast ekki sömu færni og þau gera í tónlistar­smiðjunni. Samanburði á starfi hugsmiðjunnar við leiklistarsmiðjuna hef ég enn ekki lokið. Helst finnst mér hún líkjast yogasmiðjunni. Kennari hennar lýsti markmiðum starfsins svo að börnin ættu að öðlast sterkari vitund um líkama sinn og þá möguleika sem í honum búa. Það sagði hann endurspeglast bæði í áhuga þeirra og því hve auðvelt þeim reyndist að skapa nýjar æfingar, t.d. að finna upp á nýjum dýrum til að herma eftir. Heimspekiiðkun hugsmiðjunnar, eins og ég sé hana fyrir mér, er einmitt ætlað að börnin fái tilfinningu fyrir raunveruleika eigin hugsunar (þ.e.a.s. að afhjúpa hugsunina, ljá henni orð og reyna á hana á ýmsan máta) og ómældri getu eigin huga til þess að vaxa og dýpka. Af þeim sökum held ég að útkoma vel heppnaðs hugsmiðjustarfs verði vart raunveruleikatengdari, þó svo að hún sé oftar en ekki óræðari og torskildari út frá kunnum við­miðum um fræðslu og færni.

Ritdómur um ritdóm um greiningu á greiningu

Um Réttlætið og Derrida eftir Björn Þorsteinsson

eftir Tryggva Örn Úlfsson

Fyrir þremur árum síðan, árið 2007, kom út á frönsku bókin La question de la justice chez Jacques Derrida (Réttlætið og Derrida) eftir Björn Þorsteinsson, byggð á doktorsritgerð hans. Bókin inniheldur greiningu á hugmynd Derrida um afbyggingu sem réttlæti en tilefnið er einföld en óvænt orð sem hann lét falla í fyrirlestri árið 1989: „Afbyggingin er réttlætið.“ Ekki er hægt að segja að bókin hafi vakið mikla athygli hér á landi. Höfundur þessarar greinar veit aðeins um eina grein sem fjallar um meginhugmyndir bókarinnar, „Samhengið í hugsun Jacques Derrida“1, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins eftir Björn sjálfan. Nýlega birtist svo um bókina ritdómur eftir Alexöndru Popovici í tímaritinu International Journal for the Semiotics of Law2 og er hugmyndin með þessari grein að nota hann til að kynna í örstuttu máli téðar meginhugmyndir.
          Áður en lengra er haldið er rétt að beina athygli að þeim erfiðleikum sem Björn stendur frammi fyrir við að skrifa doktorsritgerð um heimspekinginn sem hafnaði helstu verkfærum heimspekinnar, gagnrýni og greiningu, án þess að vanvirða arfleifð hans með því að gagnrýna og greina. Björn er vel meðvitaður um þessa erfiðleika og byrjar verkið á viðeigandi hátt með því að vitna í Jean Luc-Nancy: „Að skrifa um Derrida virðist mér vera ofbeldi“ (bls. 9). Ef trúa má Derrida sjálfum þarf það þó ekki að vera neitt slæmt að beita arfleifð hans ofbeldi. Eins og Björn bendir á felst trúnaður ekki einfaldlega í því að endurtaka eitthvað sem aðrir hafa sagt (þá er betra að þegja). Í bókinni hefur Björn þetta eftir Derrida: „Maður getur ekki óskað eftir erfingja sem finnur ekki upp það sem hann erfir, sem fer ekki með það á annan stað í trúnaði sínum. Trúnaðar­lausum trúnaði“ (bls. 10). Hér er reyndar strax snert á lykilatriði í verkinu, nefnilega því að skrif að hætti Derrida eru ekki og eiga ekki að vera hlutlaus, heldur miða þau að því að breyta þeim merkingarbundna veruleika sem þau spretta úr. Þess vegna getur bókin ekki einfaldlega miðað að því að útskýra hvað afbygging sem réttlæti í rauninni er. Slík útskýring myndi einmitt ekki vera í anda Derrida sem gagnrýndi hefðbundnar skilgreiningar heimspekinnar fyrir að þykjast geta flutt það sem skilgreint er í heild sinni fyrir vitund þess sem ætlað er að skilja skilgreininguna. Það sem ritgerðin býður frekar upp á er afbygging sem réttlæti í framkvæmd. Björn sýnir afbygginguna í verki með því að beita henni á texta Derrida í trúnaðarlausum trúnaði.
          Hvernig skyldi hann svo sýna afbygginguna í framkvæmd? Björn segir verkefnið krefjast rannsóknar á meginhugtökum Derrida, skilafrestinum (la différance) sem er tekinn fyrir í fyrsta hluta verksins), afbyggingunni (í öðrum hlutanum), sambandi Derrida við heimspekina (efni þriðja hlutans) áður en réttlætið sjálft birtist loksins „í eigin persónu“ í fjórða og síðasta hlutanum.
          Björn nálgast skilafrestinn með því að skrifa um hann „einhvers konar sifjafræðilega sögu“ (bls. 23). Þannig sýnir hann hvernig hugtakið fæðist í grein um skáldið og leikhúsfræðinginn Antonin Artaud, áður en hann sýnir skýrari birtingarmynd þess í túlkun Derrida á málvísinda­manninum og strúktúralistanum Ferdinand de Saussure og loks í greiningu á fyrirbærafræði Husserls. Þó að Björn sýni okkur ekki uppruna eða gefi okkur skilgreiningu á skilafrestinum – hugtakið sjálft hafnar bæði hreinum uppruna og einföldum skilgreiningum á hugtökum yfir höfuð – erum við þó einhvers vísari um hann eftir yfirferð Björns.
          Við skulum taka eitt dæmi hér um það hvernig skilafresturinn birtist í verkum Derrida í gegnum bók Björns. Derrida skýrir skilafrestinn með samanburði við klassíska hugmynd um tákn sem kemur skýrt fram í táknfræði Saussures. Samkvæmt þessari hugmynd felst virkni táknsins í því að leysa af hólmi upprunalega nærveru einhvers hlutar, nefnilega hlutarins sem það táknar. „Táknið stendur fyrir hið nálæga í fjarveru sinni“ (bls. 119, tilvitnun í bók Derrida Marges – de la philosophie, 9). Þegar orðið ljón hefur orðið til í tungumálinu þurfum við til dæmis ekki á nærveru raunverulegs ljóns að halda til að kalla fram hugmyndina um það; táknið nægir. Framlag eða frammígrip Derrida felst í að benda á að hér stangast Saussure á við sjálfan sig: þessi hugmynd um táknið er í andstöðu við kenningu Saussures um tungumálið sem „kerfi mismuna“. Það þýðir að einstök tákn í málkerfinu sækja ekki merkingu sína til einhverrar upprunalegrar nálægðar utan kerfisins, heldur til þess hvernig þau greina sig frá öðrum táknum kerfisins. Svo við höldum áfram að notast við táknið „ljón“ felst merking þess í að vera ekki hlébarði, tígrisdýr, köttur, maríubjalla, hagvöxtur o.s.frv. þangað til öll önnur tákn málkerfisins hafa verið talin upp. Merking táknsins býr þannig ekki í því sjálfu heldur í öllum hinum táknunum. Eða eins og Derrida segir: Táknið er einungis ummerki hinna táknanna án þess að nokkuð sé til sem það er upprunalega merki um. Skilafresturinn (différance) nefnir meðal annars þetta samspil tákna í tungumáli. Hann er ekki hugtak heldur uppruni og undirstaða hugtakleikans (þ.e. lýsir því hvað það er að vera hugtak), undirstaða allra stöku og venjulegu mismunanna (différences) í tungumálinu – án þess að vera hvorki undirstaða né uppruni eins og bent hefur verið á.
          Réttlæting Björns fyrir því að eyða svona miklu púðri í þetta hugtak sem ekki er hugtak er að það er nauðsynlegt til að útskýra annað slíkt lykilhugtak (sem ekki er hugtak), nefnilega afbyggingu Derrida. Það gildir nákvæmlega það sama um afbygginguna og gildir um skila­frestinn: þar sem hún er tæki Derrida í uppreisn hans gegn heimspekihefðinni er ekki hægt að fella hana undir eina skilgreiningu – ótvíræðar skilgreiningar eru sjúkdómseinkenni hefð­bundinnar heimspeki. En eins og Björn sýnir fram á er ekki þar með sagt að ekkert sé um hana að segja eða að enga þekkingu sé á henni að hafa. Einmitt í því skyni að auðvelda skilning á afbygginguni reynir hann að útskýra rökvísi og kerfi afbyggingarinnar. Þessu kerfi lýsir hann sem keðju þar sem hver hlekkur er hugtak sem verður til í afbyggingarferlinu. En þar sem ekkert þessara hugtaka (það gildir þó sama um þau og afbygginguna og skilafrestinn: þau eru eiginlega ekki hugtök) getur lýst afbyggingunni í eitt skipti fyrir öll verður aldrei hægt að loka keðjunni eða ljúka henni. Keðjan verður alltaf að vera opin. Möguleikinn til þess að bæta við einum hlekk í viðbót verður alltaf að vera til staðar.
          Við skulum gera grein fyrir einum þessara hlekkja. Hugtakið „tvöfaldar hömlur“ (úr ensku: „double bind“) notaði Derrida sjálfur þegar hann stóð frammi fyrir því að útskýra virkni (eða óvirkni) afbyggingarinnar. Það á upptök sín í viðleitni mannfræðingsins Gregorys Bateson til að skýra uppruna geðklofa og þýðir í hans fræðum tvöfaldar skipanir sem skarast á og er þess vegna enginn leið að hlýða. Maurice Blanchot sem Derrida las mikið og lærði af gefur gott dæmi um það sem hér er á ferðinni þegar hann lætur eina persónu sína skipa: „Ef þér drepið mig ekki, eruð þér morðingi.“ Í textum Derrida er orðið notað yfir það sem gerist þegar maður reynir að nálgast það sem er fjarlægt eða öðruvísi: því meir sem maður nálgast það því fjarlægari er maður. Eins og við höfum séð er ekki til nein nálægð sem vísar ekki á eitthvað annað sem er fjarlægt – ummerkin (um eitthvað annað) eru upprunaleg. Hlutskipti okkar svipar til hlutskiptis K., persónu Franz Kafka úr Höllinni, sem sekkur dýpra og dýpra ofan í þorpið eftir því sem hann reynir meira að nálgast höllina. Af þessari ástæðu getur afbyggingin ekki verið greining. Derrida útskýrir að greining snýst um að taka hluti í sundur svo við blasi upprunalegt byggingarefni þeirra – við færum fyrir vitundina það sem hlutirnir eru raunverulega úr. Afbyggingin verður frekar að felast í tvöföldum hömlum þar sem greining í átt að upprunalegri nálægð færir okkur fjær hlutunum en ella.
          Þegar afbyggingin verður í meðförum Björns (næstum því) skýr og rökleg vaknar sú spurning hvað það er sem greini hana frá heimspekihefðinni sem hún er í uppreisn gegn. Í næsta hluta, „Heimspekinni“, upplýsir Björn lesendur sína um að afbygging Derrida beinist fyrst og fremst gegn díalektík Hegels. Eins og Popovici bendir á snýst málið aftur um trúnað við arfleifð: er Derrida afkvæmi heimspekihefðarinnar eða er hann útlagi hennar? Vandi Derrida í uppreisn sinni gegn heimspekihefðinni felst fyrst meðal annars í því að með því að beina afbyggingunni gegn díalektíkinni á Derrida á hættu að díalektíkin gleypi hana eins og díalektíkin er vön að gleypa aðra andstæðinga sína – afbyggingin væri eins og hver önnur antitesa sem biði eftir að vera hafinn upp (hoben auf) í næsta hugtaki. Lausn Derrida er að staðsetja sig við afganginn sem kerfi Hegels skilur eftir.
          Hvernig? Í greiningu Björns birtist svarið í samanburði á Hegel og skáldinu Jean Genet sem er úthlutað sínum hvorum dálknum í bók Derrida, Glas. Í öðrum dálknum er nákvæm greining Derrida á kerfi Hegels þar sem fjölskyldan gegnir lykilhlutverki: menn geta ekki yfirstigið dýrslegt eðli sitt, orðið raunverulegir menn, verur andans, án þess að tilheyra fjölskyldu. Í hinum dálknum er Genet í aðalhlutverki. Ólíkt venjulegum mönnum fæddist hann ekki inn í fjölskyldu; hann átti ekki foreldra (móðir hans yfirgaf hann við fæðingu og ekkert er vitað um föðurinn). Að sama skapi gat hann ekki stofnað hefðbundna fjölskyldu þegar hann óx úr grasi þar sem hann var samkynhneigður. Þess vegna getur hann ekki, samkvæmt nákvæmri greiningu Derrida á Hegel, talist eiginlegur maður. Derrida bendir raunar á að hann er nær því að teljast vera planta. Þannig sýnir Derrida afganginn af alltumlykjandi kerfi Hegels, því sem díalektíkin nær ekki utan um, hefur ekki upp, heldur vísar út fyrir sig. Munurinn á Hegel og Derrida liggur í þessum afgangi sem hér ber nafnið Genet en hefur áður verið kallað skilafrestur.
          Samband Derrida við hegelismann verður þó ekki afgreitt nema spurningunni um réttlætið verði svarað. Síðasti hlutinn, þar sem réttlætið birtist „í eigin persónu“ skiptist í þrennt. Fyrst er rannsókn á birtingarmyndum réttlætisins í höfundarverki Derrida og greining á lykiltextanum, Afl laganna (Force de loi) þar sem kemur fram að réttlætið er reynslan af hinu ómögulega. Síðan nákvæm greining á texta Heideggers, Mál Anaximanders (La parole d’Anaximander). Og loks eru ólíkir þræðir verksins tengdir saman í túlkun á bók Derrida Vofu Marx (Spectre de Marx) sem snýst um hugtakið arfleifð. Björn nær að tengja saman Derrida og Heidegger með því að sýna fram á að tímahugtakið sem gegnir lykilhlutverki í Vofu Marx, tíminn sem ósamræmi, eitthvað sem fer út af sporinu (the time is out of joint Hamlets) á sér samsvörun í Un-fug Heideggers. Derrida er sumsé trúr arfleifð Heideggers. Afbyggingin sem réttlæti er þetta ósamræmi tímans, þegar eðlilegur gangur hlutanna er truflaður, þegar bátnum er ruggað, til dæmis þegar höfundur fer með texta annars höfundar eitthvert annað í trúnaðarlausum trúnaði.
          Niðurstaða Popovici er sú að Björn nær að sýna þennan trúnaðarlausa trúnað. Þannig tekst honum hið ómögulega: að skrifa um Derrida án þess að vanvirða arfleifð hans.

Tilvísanir

1. Til á Heimspekivefnum: http://heimspeki.hi.is/?page_id=532

2. Dómurinn er aðgengilegur á netinu: http://www.springerlink.com/content/t3401l14272j81h5/

Heimspeki í félagslegu og sögulegu samhengi

Bryan Magee og Ernest Gellner ræða saman1

INNGANGUR

Í þessari samræðu ætlum við að draga saman í eina heilsteypta mynd hinar ýmsu hræringar og stefnur í samtíma heimspeki. Þetta þýðir að við skoðum nútíma vestræna heimspeki í samhengi nútíma vestræns samfélags. Það þýðir líka að við skoðum hana í samhengi sögu hennar til að sjá nákvæmlega hvers vegna og hvernig meginviðfangsefnin þróuðust eins og raun varð á – og þar af leiðandi hver megineinkenni núverandi stöðu okkar eru.
     Þegar heimspekingar nota heitið „nútíma heimspeki“ eiga þeir við heimspeki eftir daga Descartes sem starfaði á fyrri hluta sautjándu aldar. Þróun vestrænnar heimspeki síðan hefur verið ein óslitin hefð, þó margslungin sé – sem þýðir að heimspekina á okkar dögum þarf að skoða með þann bakgrunn í huga. Í nokkur hundruð ár fyrir daga Descartes hafði ástandið verið gerólíkt. Þá hafði aðeins verið ein heimsskoðun, byggð á kristinni trú og haldið uppi af pólitískum yfirvöldum. Allar opinberar efasemdir um hana voru bannaðar og venjulega refsað með lífláti. Í samanburði við okkar tíma er freistandi að segja að þekking fólks hafi næstum því verið kyrrstæð eða alltént mjög lengi að breytast. Í öllu falli fylgdi þekkingunni mikil vissa, enda byggðist hún á engu minna kennivaldi en Guði eða kirkju hans á jörðinni. Það er ekki fyrr en með endurreisninni og siðaskiptunum sem hin nýju vísindi verða til og vaxa með tilkomumiklum hætti, en þetta veldur því meðal annars að hugmyndir taka nýja stefnu. Grafið er undan því sem áður voru talin bjargföst sannindi og með þeim riða til falls hin gömlu kennivöld – og þetta vekur í nýrri og alvarlegri mynd spurninguna: Hvernig er hægt að staðfesta fullyrðingar okkar um þekkingu? Það er vandamál sem enn er óleyst. Lengi töldu menn að vísindunum mundi fylgja alger vissa, en nú vitum við að svo mun ekki verða.
     Til að ræða samtíma heimspeki með þennan sögulega og félagslega bakgrunn í huga hef ég boðið Ernest Gellner sem er bæði heimspekingur og félagsfræðingur að atvinnu – opinber titill hans er „prófessor í heimspeki með sérstöku tilliti til félagsfræði“ við London School of Economics.

UMRÆÐA

Magee Mér virðist það liggja í augum uppi að samtíma heimspeki verður aðeins rétt skilin með einhverja slíka sögulega og félagslega heildarsýn í huga sem ég var nú að reifa mjög lauslega, en samt virðast of margir starfsbræðra þinna í hópi atvinnuheimspekinga hálfblindir á þessa sögulegu og félagslegu vídd. Ertu sammála?

Gellner Ég er mjög sammála báðum aðalatriðunum hjá þér. Ég kann að hafa efasemdir um einhverjar af hliðarathugasemdum þínum, en tvö aðalatriðin hjá þér sýnast mér öldungis rétt. Í fyrsta lagi, það sem þú skilgreindir sem nútíma heimspeki er í grundvallaratriðum, þó ekki ætíð á meðvitaðan hátt, einskonar skýring á þeirri félagslegu og vitsmunalegu breytingu sem hefur átt sér stað síðan á sextándu og sautjándu öld og verður einungis rétt skilin í því ljósi. Í öðru lagi er ljóst að fólk gerir sér ekki grein fyrir þessu.

Magee Maður þarf aðeins að skoða nútíma heimspeki á þennan hátt til að sjá alveg skýrt hvernig á því stendur að aðalvandamálið allt frá dögum Descartes hefur verið þekkingarfræðilegt. Hvað vitum við? Já, vitum við í raun og veru nokkuð – í þeim skilningi að vera algerlega viss? Ef við vitum, hvernig getum við vitað að við vitum?

Gellner Yrði maður að skilgreina nútíma heimspeki út frá aðeins einu einkenni þá er það þetta: hin miðlæga staða þekkingar. Fyrir þennan tíma er þekking eitt fyrirbæri meðal annarra, mikilvægt, en það eru til önnur vandamál; þekking er því eitthvað í heiminum. Það sem einkennir hugsun nútímans er að heimurinn verður eitthvað í þekkingunni. Þarna er búið að snúa hlutunum við.

Magee Ertu mér líka sammála um að þetta stafar, þótt óbeint sé, af niðurbroti hefðgróins kenni­valds í vitsmunalegum efnum? Áður höfðu menn verið vissir um hvað þeir vissu af því að Guð hafði sagt að það væri þannig eða af því að kirkja hans hafði sagt það. En þegar búið var að grafa undan þessum kennivöldum hvernig áttu menn að vita hvað væri satt?

Gellner Já, ég er sammála; en það sem skipti virkilega máli hvað varðar undanfarandi skipulag var ekki hið trúarlega einkenni þess heldur stöðugleiki. Samfélagið gat treyst því að hugmyndirnar hefðu fast land undir fótum. Jæja, stöðugleikinn er horfinn. Nú höfum við það sem er sennilega eina samfélagið sem nokkurn tíma hefur lifað við látlausan vöxt þekkingar. Fólk er upptekið af hagvexti, en hagvöxtur er nátengdur þeirri staðreynd að þekkingin vex. Þetta getur svo aftur verið mjög ónotalegt á ýmsa lund.

Magee Hvernig þá helst?

Gellner Til samanburðar við velgengnisöguna, söguna um góðan árangur, þar sem eru í grófum dráttum náttúruvísindin, er saga um lélegan árangur á öðrum sviðum. Þar sem fólk var áður öruggt með sig er því nú öfugt farið. Miðað við það sem áður var er það eins og samdráttur þekkingar.

Magee Þegar þú talar um samdrátt þekkingar skilst mér að þú sért að vísa til þess að fólk hefur glatað vissu í siðferðis- og trúarskoðunum sínum, er það ekki?

Gellner Fólk er ekki lengur visst á sama hátt og áður um siðferðilegar, félagslegar og margar aðrar tegundir skoðana, og alger andstæða þessa við glæsilegan árangur náttúruvísindanna undirstrikar þetta. Náttúruvísindin eru ekki aðeins óstöðug, þau eru óstöðug með góðum árangri. Það er þokkalegt samkomulag um breytingar innan þeirra og yfirleitt er hið næsta betra en hið síðasta. Enginn veit alveg hvernig þetta virkar, en yfirleitt virkar það og virkar til hins betra. Á öðrum sviðum er þessu alls ekki þannig farið.

Magee Fyrir daga Descartes vissi fólk ekki mikið en í samanburði við viðhorf nú á dögum var það visst um það sem það taldi sig vita, þar sem hins vegar eftir daga Descartes vissi fólk miklu meira en var miklu óvissara um það.

Gellner Kort þekkingarinnar brenglast afskaplega. Sum svið eru augljóslega að vaxa, önnur eru alls ekki að vaxa eða þau dragast saman. Tengt þessu er þriðja einkenni: það er ekki hægt að nota sviðin sem eru að þenjast út til að styðja hin. Ástæðan er ekki einungis sú að vitað er að þau eru óstöðug þar sem þau eru á hreyfingu. Árangursrík þekking verður sérhæfð. Hún er sett fram á sérhæfðu máli, ekki lengur á því máli sem við notum venjulega til að tala um mannleg málefni. Þetta veldur því að það er ekki tiltækt sem forsenda fyrir sýn manns á heiminn, eða fyrir samfélagslíf manns.

Magee Lengi eftir að búið var að grafa undan trúnni á hinar stöðugu guðshyggjuforsendur voru menn að leita að einhverju í staðinn. Það er að segja, það hafði svo lengi verið eitt frumhugtak sem allt átti endanlega að skýrast út frá, nefnilega Guð, að menn héldu lengi áfram að leita að einhverju öðru slíku einstöku frumhugtaki sem allt átti endanlega að útskýrast með. Í fyrstu töldu þeir sig hafa fundið það í vísindunum. Síðan, með ný-kantistum, verður sagan frumhugtakið sem á að útskýra allt. Svo fáum við marxismann sem reynir að fella sögu og vísindi inn í einn ramma endanlegrar skýringar. Það er ekki fyrr en við komum að greinilega nútímalegri hugsun – að Nietzsche, til dæmis – að menn fara að segja: „Kannski það sé ekkert eitt frumhugtak til sem allt á endanlega að útskýra með. Kannski veruleikinn sé, allt til enda, fjölræður. Kannski hann samanstandi bara af mörgum ólíkum, aðskildum hlutum, og eina leiðin til að skilja hann sé að rannsaka þá hvern fyrir sig. Sé svo verður einhver ein, alltumlykjandi skýringarkenning blekking, draumur, og mun koma í veg fyrir að við sjáum veruleikann eins og hann er.“ Bertrand Russell, svo bara eitt dæmi sé tekið, hélt þessu viðhorfi mjög fast fram. Það gegnsýrir mjög alla nútíma raunhyggju.

Gellner Ég samþykki þessa mynd. En ég held að ég mundi lýsa henni dálítið öðruvísi en þú. Það eru ekki svo mjög vísindin sem slík sem koma í staðinn fyrir fyrri vissu, heldur er það aðferðin sem notuð er til að afla vísindalegrar þekkingar. Sé sýn manns á heiminn ekki lengur stöðug þá getur alltént aðferðin sem hann uppgötvar eitthvað um heiminn með verið stöðug. Þetta verður annað af tveimur meginþemum nútíma heimspeki: áherslan á að þekkingarfræði láti í té prófstein á hvað sé góð þekking og hvað ekki og þar með á hvernig heimurinn sé. Sé heimurinn ekki stöðugur geta alltént tækin sem við fræðumst um hann með verið stöðug. Þannig fær heimurinn óbeint eins konar stöðugleika. Þetta leiðir til óhóflegs áhuga á þessum tækjum. Hitt meginþema nútíma heimspeki – marxisminn væri til að mynda dæmi – er leit að einhverri nýrri tegund frumspeki sem er ekki greinargerð um yfirskilvitlegan veruleika heldur frekar það sem kalla mætti mannlega-félagslega frumspeki, nánar tiltekið lýsingu á hinum almennu einkennum hinna mannlegu eða félags-sögulegu aðstæðna. Þessir tveir þræðir ganga í gegnum mest af því sem hefur gerst á undanförnum þrjú hundruð árum, og samtvinnun þeirra er í raun saga nútíma hugsunar.

Magee Þú nefndir marxismann – hversu árangursríkur heldurðu að hann hafi verið í hugmynda­legu tilliti?

Gellner Ja, í grundvallaratriðum hefur hann ekki verið það. Hann fær góða einkunn fyrir að reyna að skoða hið félagslega samhengi vandræða okkar og fyrir að spyrja sumra hinna réttu spurninga, en í grunninn skjátlast honum.

Magee Geturðu skýrt með einhverjum dæmum á hvern hátt spurningar hans eru réttar en svörin röng?

Gellner Ja, þetta er mikið mál. Það er rétt að spyrja spurninga sem grafast fyrir um forsendur þess að nútíminn kemur fram. En hvað varðar röngu atriðin sem mér virðast skipta sköpum þá er fyrst að nefna væntingu um fullkomið samfélag. Sú hugmynd að einhvers konar heildarfullnæging sé til: þegar búið sé að fjarlægja vissa galla og ókosti núverandi samfélagsskipunar þá verði til kerfi sem stillir sig sjálfkrafa þar sem vandamál koma ekki lengur upp. Þar til þessari fullkomnun hefur verið náð verða hlutir að skoðast sem rangir í grundvallaratriðum. Þessi almenna staðleysutrú eða endurlausnaratrú er oft rakin aftur til trúarlegra uppsprettna eða til hinnar algildu hughyggju þýskrar rómantíkur sem ríkti rétt á undan Karli Marx og hafði áhrif á hann. Nánar tiltekið eru ranghugmyndir um eðli stjórnmála sem skipta alveg sköpum. Til að mynda sú kenning að stjórnmál, í merkingunni þvingun, að stjórna fólki, séu einfaldlega aukaafleiðing vissrar tegundar stéttasamsetningar – og að jafnskjótt og þessi stéttasamsetning hverfi verði stjórnmál ekki lengur nauðsynleg – sú kenning gerir hverjum þeim sem trúir henni ókleift að spyrja réttrar spurningar, sem er: „Þvert á móti, að því gefnu að stjórnun á fólki af fólki og stjórnun ríkisins á hagkerfinu sé alltaf til staðar hjá okkur, hvers konar stjórnskipulag eigum við að hafa sem bæði útvegar hin efnahagslegu gæði og kemur í veg fyrir harðstjórn?“

Magee Mig langar til að biðja þig að segja eitthvað um aðra heimspeki sem við erum nú í aðstöðu til að sjá í samhengi, nefnilega afstæðishyggju. Auðvelt er að sjá, í ljósi þess sem ég var að segja hér á undan, hvernig fólk sem veit ekki lengur hvar það á að leita staðfestingar á skoðunum sínum getur endað með því að segja: „Jæja, kannski er ekki hægt að staðfesta skoðanir – þær eru allar jafn gildar eða jafn ógildar.“ Og þetta hefur reyndar gerst hjá mörgum nú á tímum – það hafa verið tímar þegar afstæðishyggja var næstum því í tísku. Hver er skoðun þín á stöðu hennar í nútíma hugsun?

Gellner Afstæðishyggja, sú skoðun að sérhvert samfélag geti lifað samkvæmt eigin viðmiðum og að engin þörf sé á að leita sameiginlegs mælikvarða, er einfaldlega alls ekki tiltækur kostur. Sem uppskrift til að ráða við niðurbrot kennivalds gæti hún einungis virkað ef til væri eitthvað í líkingu við eyjasamfélög, hvert með sína eigin sýn, þar sem maður gæti búið. Það hafa verið aðstæður í veraldarsögunni sem uppfylltu þessi skilyrði að einhverju leyti, þótt þær uppfylltu þau ekki fullkomlega. Til er fræg saga um manninn sem spurði véfréttina í Delfí hvaða siðum hann ætti að fylgja. Svarið var: „Í hverri borg fylgdu siðum þeirrar borgar.“ Þetta var allt sjálfsagt í Grikklandi til forna. Áður en Alexander kom til sögunnar voru til afmörkuð borgríki og maður sem var sagt að fylgja siðum borgarinnar sem hann bjó í gat gert það. En séu engar afmarkaðar borgir þá veit maður þegar honum er sagt að gera í Róm eins og Rómverjar gera einfaldlega ekki hvað verið er að segja honum að gera. Hinar félagslegu einingar eru svo fljótandi, óstöðugar, samtvinnaðar og skarast.

Magee Afstæðishyggjumaður gæti vel sagt við þig: „Ætlirðu að afneita afstæðishyggju minni verðurðu að sýna mér einhverja leið til að staðfesta yfirburði einnar skoðunar fram yfir aðrar.“

Gellner Meginhefð nútíma heimspeki hefur ekki brugðist að þessu leyti. Þekkingarfræðin sem leitast við að kerfisbinda kennimörk gildrar þekkingar, þótt hún sé ekki alger sigurganga, hefur þegar á allt er litið verið nokkuð farsæl. Það er furðulega víðtækt samkomulag um siðferði þekkingar: á sviði þekkingaröflunar er mjög víðtækt samkomulag um reglurnar og þær eru jafnvel felldar í kerfi. Þetta hefur raunar afleiðingu sem við höfum ekki nefnt en mér virðist ákaflega mikilvæg, og þetta mætti kalla „afmennskun sem framfarir í þekkingu kosta.“ Ein hliðin á þekkingarferlinu er heimfærsla atburða og fyrirbæra, þar með talið mannlegt atferli, undir alhæfingar sem settar eru fram á hlutlausu máli, aðgengilegu öðrum. Í vissum skilningi sviptir þetta fyrirbærin sem lýst er einstaklingseinkennum sínum. Ef persónuleg hegðun þín, og persónuleg viðhorf þín, eru útskýrð á þennan hátt gerir það að engu, ef svo má segja, sérstöðu þína sem einstaklings. Hugsanlega eyðileggur það líka þá blekkingu þína að þú sért frjáls (ef það er blekking). Þessi afmennskunaráhrif – það sem félagsfræðingar kalla stundum, undir áhrifum frá Max Weber, aftöfrun heimsins – þessi heimfærsla mannlegra málefna undir ómannleg, óhlutbundin frumhugtök kemur afar ónotalega við mann.
     Ef ég ætti að gefa nafn hinni meginframvindunni í nútíma heimspeki yrði það ‘mannverndarhreyfingin’ – baráttan fyrir því að halda hinni mannlegu ímynd sem vörn gegn því að hún sé útskýrð af vísindunum. Þetta er rómantík! Fyrsta meginþemað er vitanlega efling þekkingarfræðinnar sem þessi vísindi eru sjálf hluti af. Þú nefndir marxismann. Athyglisvert við marxismann er að hann reynir bæði að sleppa og halda. Annars vegar höfðar hann til þess sem í niðrandi merkingu er kallað ‘vísindahyggja’ með sinni svokölluðu vísindalegu sögukenningu, en á hinn bóginn er rómantísk hlið á marxismanum sem segir okkur að við fáum mennsku okkar til baka að fullu: við verðum ósérhæfð, frjáls og óþvinguð. Mannleg þjáning er útskýrð í sögu sem er áhrifamikil, hefur farsælan endi og viðhefur samt líka einhvern veginn sama tungutak og vísindin, eða alltént vísindin á dögum Marx. Marx gerir hvort tveggja að sleppa og halda. Sumir aðrir heimspekingar gera það auðvitað líka.

Magee Það sem þú segir er mjög mikilvægt. Sjáum til hvort ég get endursagt það í aðalatriðum á einfaldan hátt. Þekking okkar er orðin svo víðtæk, svo margslungin, svo tæknileg og svo sérhæfð að það verður að setja hana fram á máli sem í minnkandi mæli tengist máli daglegs lífs og samskiptum manna í milli. Þetta gerir þekkinguna aftur æ fjarlægari okkur og síður færa um að grundvalla skoðun á heiminum sem við getum í raun og veru lifað með, í hversdagslegum skilningi. Útkoman úr þessu er sú að við förum mjög sterklega að finna til þess að það er eitthvað við afleiðingarnar af vexti okkar eigin þekkingar sem sviptir okkur mennskunni. Og niðurstaðan af þessu er – samhliða vexti þekkingarinnar og í beinum tengslum við hann – vaxandi tilfinning fyrir að þörf sé á einhverju sem kalla mætti heimspeki mannsins, einhvers konar fræðilegri hugmynd um okkur sjálf sem hjálpar okkur til að varðveita vitund okkar um eigin mennsku og tengja okkur við félagslegar og þekkingarlegar aðstæður okkar. Þannig fáum við meginstraumana tvo í þróun nútíma hugsunar.
     Eftir að hafa aðgreint þá á þennan hátt langar mig samt til að hverfa aftur að umræðu okkar um þekkingarfræðina áður en við förum að fjalla um samfélagsheimspeki vegna þess að það eru enn tvær eða þrjár áhugaverðar og mikilvægar hliðar á henni sem við höfum ekki vikið að. Til að mynda höfum við ekki í raun og veru farið út í óstöðugleika nútíma þekkingar, þá staðreynd að hún vex svo hratt að engar mögulegar forsendur sem hægt væri að byggja samhangandi skoðun á heiminum á virðast stöðugar í tvo áratugi samfellt.

Gellner Svona er þetta. Sumar heimspekikenningar um þekkingu reyna að taka þetta einkenni með og halda því fram að það sé ekki vandamál. Á mismunandi vegu fullvissa heimspekingar á borð við Quine og Popper okkur um að við getum lifað við óstöðugleika í þekkingu, og verðum að gera það. Ég held það sé hægt að gera of mikið úr þessu atriði – og þeim hættir til að gera það. Það er vitanlega bæði satt og æskilegt að hið sérstaka inntak vísindakenninga breytist, en hin almennu ef svo má segja formlegu einkenni heimsins sem gera hann viðráðanlegan fyrir vísindin breytast ekki. Þetta eru þau einkenni sem gera að verkum að vísindin eru prófanleg og vísindaleg þekking getur vaxið. Í vissum skilningi eru þau alls ekki einkenni heimsins. Í raun og veru eru þau einkenni hugarástands rannsakandans eða samfélags rannsakenda. Þau komu fram með vísindabyltingunni. Það sem máli skiptir að gera sér ljóst hér er að þessi einkenni hafa ekki alltaf verið til staðar hjá okkur. Og það sem ég er ósammála í heimspekikenningum sem eru aðeins of ánægðar með eilífa breytingu er að þær gera ráð fyrir að rétt hegðun í þekkingarefnum, undir heitinu líffræðileg aðlögun eða einfaldlega happa- og glappaaðferð, hafi reyndar ætíð verið til staðar, ekki einungis í sögu mannsins heldur jafnvel í sögu lífsins. Þetta er sú skoðun að vöxtur þekkingar hafi verið ein samfelld saga frá amöbunni til Einsteins, með sama grunnstefið frá upphafi til enda. Þetta mætti kalla samfellukenninguna. Ég tel að hún sé röng. Það sem skiptir máli um hegðun okkar í þekkingarefnum er ekki hvað hún á sameiginlegt með amöbunni eða hinum myrku miðöldum heldur hvað er sérkennandi fyrir hana. Hinir mikilvægu leyndardómar felast í mismuninum.

Magee Ég held það sé vert að leggja áherslu á að sumar afleiðingar óstöðugleika hafa verið til góðs en ekki til ills. Til að mynda hefur missir trúar á kennivald sameinast hinum hraða vexti þekkingar til að valda jákvæðri efahyggju um næstum því allar gerðir valds sem slíkar, og þetta tengist aftur beint tilkomu frjálslyndra hugmynda – hugmynda um frelsi, umburðarlyndi, jafnrétti og þar fram eftir götunum. Þetta virðist mér hafa ómetanlegt gildi.

Gellner Ég fellst á þetta, já.

Magee Annað atriði sem mig langar til að bera upp við þig er þetta: Fyrir daga Descartes var mikilvægasta viðfangsefni heimspekinnar yfirnáttúrlegt: samband mannsins við Guð. Eftir Descartes færist miðdepill athyglinnar að mannlegri starfsemi einvörðungu: vísindum, stjórn­málum, siðferði, hagfræði, sögu, menningu, sálarfræði, félagslegum málefnum af öllu tæi, og það verður gríðarleg þróun í vísindalegum, eða hálf-vísindalegum, rannsóknum á þessum sviðum og einnig í heimspeki þeirra.

Gellner Ég er sammála þessu þó mér virðist að setja megi eitthvað út á hvernig þú setur það fram. Þú talar um heimspeki og vísindi eins og þau væru aðgreind á þessum tíma, en í raun urðu þau ekki skýrt aðgreind fyrr en á átjándu öld. Jafnvel þá þýddi heitið ‘náttúruheimspeki’ eðlisfræði. Prófessorar í eðlisfræði í skoskum háskólum eru enn kallaðir prófessorar í náttúruheimspeki. Aðgreiningin, sem kom nokkuð seint, endurspeglar að nokkru leyti það sem við erum að tala um, það er að segja greinarmuninn á rannsóknarefninu og rannsókninni á þekkingaraðferðum. En ég fellst samt að mestu leyti alveg á aðalatriðið hjá þér.

Magee Ef við förum lengra með það sem þú ert að segja þá er það athyglisvert að sumir allra­bestu núlifandi heimspekinga sjá heimspekina sem framlengingu raunvísindanna. Til dæmis Quine. Og Chomsky, að vissu leyti. Jafnvel mætti segja að Popper gerði það, í vissum mjög sérstökum skilningi.

Gellner Quine, vissulega. Það er svolítið vafasamara með Popper.

Magee Mig langar til að líta á eina eða tvær mikilvægustu stefnurnar í samtíma heimspeki með þennan bakgrunn í huga sem við höfum verið að rissa upp. Við erum þegar búnir að því með marxismann og afstæðishyggjuna. Hvað til að mynda um tilvistarstefnuna? Hvernig sérðu hana falla inn í mynd okkar?

Gellner Ja, hún fellur inn í hana. Tilvistarstefnan er sérkennileg heimspeki að því leyti að hún er, eins og cartesíska hefðin, mjög einstaklingshyggjuleg, en ólíkt henni er hún ekki fyrst og fremst upptekin af þekkingarvandanum. Það er sérkennandi fyrir hana að hún hefur yfirleitt ekki mikinn áhuga á náttúruvísindunum. Hún er aðallega upptekin af hinum mannlegu aðstæðum.

Magee Jæja, með þessu erum við í raun komnir að hinu af þeim tveimur grundvallarþemum nútíma hugsunar sem við aðgreindum rétt áðan. Kannski það sé best að þú útfærir lýsingu þína á tilvistarstefnunni á bakgrunni þeirrar hefðar.

Gellner Nú jæja, hið kaldhæðnislega við tilvistarstefnuna stafar af því að hún er upptekin af hinum mannlegu aðstæðum. Hún gefur í skyn að hún sé lýsing á hinum mannlegu aðstæðum sem slíkum. En kaldhæðnin er að þetta er með sérstökum hætti lýsing á hinum mannlegu aðstæðum í heiminum eftir Descartes, jafnvel heiminum eftir átjándu öld. Hún einbeitir sér að einstaklingnum sem verður að bera ábyrgð á heimsskoðun sinni og siðferðilegri skuldbindingu og getur ekki vísað ábyrgðinni frá sér. En mér virðist það einkennandi fyrir hinar mannlegu aðstæður í flestum samfélögum sem eru samfélög með stöðug skoðanakerfi að kennivald er öruggt með sig, og að nema því aðeins að einstaklingurinn sé í virkri uppreisn geti hann alltaf gripið til þess. Tilvistarstefnan er því í raun lýsing á mjög sérstöku afbrigði af hinum mannlegu aðstæðum þótt hún haldi því fram að hún sé almenn lýsing á þeim.

Magee Engu að síður er hún, eins og þú varst nú að setja hana fram, nákvæm lýsing á okkar aðstæðum.

Gellner Svo langt sem það nær hefur hún áhugaverða hluti að segja um aðstæður okkar. En eitt af því sem er merkilegt við hana er að hún er vinsælust á tímum bráðrar kreppu og lægðar í andlegum efnum – í Þýskalandi eftir heimsstyrjöldina fyrri, í Frakklandi eftir þá síðari. Með tilkomu allsnægta og tiltölulega góðs samkomulags – tímabilið sem kennt er við „endalok hugmynda­fræði“ – dró úr vinsældum hennar. Hún hefur alvarlega annmarka sem háskólagrein: Það er eitthvað undarlegt við að breyta hinum mannlegu aðstæðum í fræðigrein – hinar mannlegu aðstæður eru eitthvað sem maður þekkir án þess að skrifa um þær fræðiritgerðir, og maður þarf ekki að lesa doðranta til þess að kynnast þeim. Þetta er dálítið skoplegt, sérstaklega þar sem tilvistarstefnan á vanda til að vera sett fram á yfirlætisfullu máli – sem er, að ég hygg, hluti af hinum hegelska arfi hennar.
Annað einkenni hennar, áberandi hjá hugsuði eins og Sartre, er að tilvistarstefnan er einskonar fyrirfram sálarfræði. Hún fræðir okkur um hvernig við finnum til og hvernig við hugsum, ekki með því að spyrja okkur eða athuga okkur, heldur með því að álykta það út frá vissum almennum einkennum aðstæðna okkar – þeirri staðreynd að við munum deyja og vitum það, að við verðum að taka siðferðilegar ákvarðanir án þess að hafa tryggingu fyrir þeim, að annað fólk sé hlutir fyrir okkur en við hins vegar hlutir fyrir öðru fólki. Af þessu og þvílíku ályktar hún hvernig við finnum til í raun og veru. Hún segir samt virkilega athyglisverða hluti um þetta. En ein andmælin gegn henni eru að það er reyndar þó nokkuð gagnlegt að komast að því hvernig fólk finnur til í raun og veru án tillits til þess hvað felst í líkani okkar af hinum mannlegu aðstæðum. Og fólk finnur ekki endilega til eins og það ætti að finna til samkvæmt þessari kenningu eða einhverri annarri. Hjá mjög áhugaverðum hugsuði eins og Sartre, sem reynir svo að samræma tilvistarstefnuna og marxismann, blandast fyrirframhyggja tilvistarstefnu hans og hinir áþreifanlegu, reynslubundnu þættir marxisma hans engan veginn auðveldlega.

Magee Í hefð félagsheimspeki, til aðgreiningar frá þekkingarfræði, eru nokkrar aðrar samtíma stefnur í hugsun sem þér virðast sérstaklega áhugaverðar eða efnilegar – nokkrir aðrir hlutar af því sem þú kallaðir hér áðan ‘mannverndarhreyfinguna’?

Gellner Ég held ekki að við getum vænst þess að vernda of mikið af mennsku okkar á of auðveldan hátt. Boðnar eru uppskriftir, næstum því ótakmarkaðar uppskriftir, til að færa sönnur á að við séum í raun og veru eins og við höldum að við séum, að hægt sé að varðveita hvaða sjálfsmynd eða heimsmynd sem menn óska sér, og að okkur þurfi ekki að finnast að okkur sé ógnað. Ég tel að okkur þurfi að finnast að okkur sé ógnað. Það er gjald sem við verðum að greiða. Því meira sem við getum útskýrt heiminn því meira erum við sjálf útskýrð. Það er ekki hægt að hafa annað án hins. Ég er ekki óskaplega hlynntur Félaginu fyrir verndun mennskunnar. Ég tel við ættum að vernda mennskuna, en ekki of mikið, og umfram allt ekki með of litlum tilkostnaði. Fyrirmynd mín á þessu sviði er nokkuð gamaldags heimspekingur – Immanúel Kant, sem var mjög umhugað um að vernda lágmarksmennsku, nefnilega frjálsan vilja, siðferðilega ábyrgð og sjálfstætt hugarstarf, en að öðru leyti féllst hann á að hluti af gjaldinu fyrir framfarir í þekkingu sé að við verðum líka viðföng þekkingar. Hvað þekkingu varðar endum við með því að gera okkur sjálfum það sem við gerum heiminum.

Magee Hvað segirðu um engilsaxnesku hefðina í heimspeki sem við ólumst báðir upp í – og sem við höfum bæði kennt og lært. Hvernig fellur hún inn í myndina?

Gellner Áhrifamesta heimspekin á því tímabili sem við vorum viðriðnir hana, bæði sem nemendur og kennarar, var svokölluð málspeki, sú heimspeki sem á sér aðaluppsprettu í seinni verkum Ludwigs Wittgensteins. Ég er afar gagnrýninn á þessa heimspeki, eins og þú veist. En til að ræða hana verð ég að brjóta regluna sem þú settir mér um að aðgreina þekkingarfræðihefðina frá hefðinni fyrir verndun mennskunnar.

Magee Þér er frjálst að brjóta regluna.

Gellner Wittgenstein endaði með því að klofa yfir aðgreininguna. Hann byrjaði með dálítið óvenjulegt afbrigði innan hefðarinnar í þekkingarfræði, þ.e.a.s. að takast á hendur að afmarka ekki svo mjög hvað hægt væri að vita eins og hvað hægt væri að hugsa og hvað hægt væri að segja: að afmarka merkingu. Þetta var nýbreytni, ákaflega sérkennandi fyrir þessa öld. Það er mjög hentugt ráð. Eins og þegar um er að ræða að takmarka hvað hægt er að vita, ef aðeins er mjög takmarkaður fjöldi hluta sem hægt er að segja eða meina þá sér þetta manni fyrir þægilega endanlegu mengi forsendna. Sé aðeins hægt að setja fram takmarkaðan fjölda hugmynda er þetta einskonar grundvöllur. Það er einskonar staðgengill fyrir gamla stöðugleikann. Nú, þessi hugmynd var í fyrri heimspeki Wittgensteins og hana er líka að finna hjá Bertrand Russell. En Wittgenstein snerist fljótt gegn henni – fór reyndar út í öfgar og fordæmdi hana sem hina dæmigerðu heimspekilegu villu. Hið raunverulega eðli tungumálsins, sagði hann seinna, felst ekki í því að það sé skjól fyrir takmarkaðan fjölda hluta; hið raunverulega eðli tungumálsins felist í þeirri staðreynd að við notum það í óendanlega margvíslegum tilgangi, í óendanlega marg­víslegu félagslegu samhengi, og að þetta sé fullkomlega í lagi. Strax og við gerum okkur grein fyrir þessu hverfur vandamálið. Kórvillan, samkvæmt seinni skoðun hans, er að leita einhvers konar ytri staðfestara – en það hafði hann gert á æskuárum sínum með því að leitast við að afhjúpa leyndardóma táknkerfis.
     Ég tel nú að hann hafi haft algerlega rangt fyrir sér í því að sjá sína eigin fyrri villu sem hina dæmigerðu og almennu heimspekilegu villu. Það sem örvaði eftirsókn nútímans í viðmið var ekki misskilin löngun í hið eina sanna táknkerfi hugsunarinnar. Viðmiðunarskilmálarnir voru ekki settir af heimspekinni – sem allavega var ekki til sem sérstök fræðigrein þá – heldur af sameiginlegum mannlegum félagsaðstæðum okkar: þeirri staðreynd að við vissum of mikið á einu sviði og of lítið á öðru, að mynd okkar af okkur sjálfum var að afmennskast, að þau svið þar sem við vitum mikið og höldum áfram að vita mikið koma ekki að gagni sem mjög góðar forsendur til að ákveða, segjum, hvers konar félags-pólitískt skipulag við höfum. Þetta er hin raunverulega vandamálsstaða og þegar fólk bregst við henni hugsar það oft heimspekilega. En hún stafar af hlutlægum aðstæðum. Hún hefur ekkert að gera með að vera í álögum tungumálsins eða að sækjast eftir fullkomnu táknkerfi.

Magee Ég hef boðið þér að segja eitthvað um nokkrar stefnur í samtíma heimspeki – þá sem tengist seinni heimspeki Wittgensteins, tilvistarstefnuna, marxismann, afstæðishyggjuna. Hverjar þessara stefna heldurðu að hafi mestan lífsþrótt í sér fólginn, í þeim skilningi að vera líklegastar til að bera ávöxt í framtíðinni?

Gellner Ég held ekki að ég mundi velja einhverja hreyfingu með nafni. Báðir meginstraumarnir – annars vegar kerfisbinding þekkingarferlisins og viðleitnin til að setja skipulega fram mæli­kvarðana á þekkingu; hins vegar linnulaus rannsókn á hinum mannlegu félagslegu aðstæðum okkar – eru mjög lofsverðir. Leiðin áfram virðist mér vera fólgin í einskonar samruna þeirra á háþróaðra stigi. Kjarni málsins hvað varðar hefðina sem rannsakar þekkingu eða hugsun, eða í seinna afbrigði hennar tungumálið, virðist mér vera eftirfarandi: Hún er í grundvallaratriðum iðkun í að setja staðla eða viðmið. Hún er iðkun í að reyna að kerfisbinda viðmiðin fyrir gildar full­yrðingar um þekkingu. Hún er viðleitni til að koma á, ef svo má segja, föstum ákvæðum stjórnskipunar þekkingarsamfélagsins. Mér virðist þetta vera aðdáunarverð starfsemi sem mun hafa gagn af að vera séð sem slík. Í fortíðinni var oft litið á hana sem lýsandi eða skýrandi greinargerð um hvernig einstaklingsbundin þekking virkar í raun – og þannig séð hefur hún ekki svo mikið gildi

Magee Þetta hljómar eins og þú lítir á heimspeki aðallega sem verkfæri, það er að segja sem tæki til að afla þekkingar.

Gellner Ég skal nálgast þetta svona. Einn af gildu þáttunum í seinni heimspeki Wittgensteins, sem ég að öðru leyti hafna, er þessi. Hann lagði áherslu á eitthvað sem menn vissu en tóku ekki nógu alvarlega, nefnilega að sú greinargerð sem gegnsýrir raunhyggjuhefðina um hvernig tungumálið virkar í raun er fáránleg. Tungumálið snýst ekki um að máta setningar við skynjanir eða við litlar athuganir og byggja síðan upp mynd út frá því. Mynd okkar af hlutum er ekki byggð upp á þennan sandkastalahátt, úr litlum kornum að viðbættu mati sem líkt og flaggi er stungið efst á kastalann. Það virkar ekki þannig. Raunveruleg málnotkun okkar er byggð inn í stofnanir, siðvenjur og svo framvegis. Wittgenstein í seinni heimspeki sinni hafði hárrétt fyrir sér í því. Sem niðurrif lýsandi greinargerðar um tungumálið – hafi þess þurft – stenst það. Á sama hátt felst mikilvægi verka Chomskys í málvísindum að mínum dómi í endanlegri sönnun þess að sem skýrandi greinargerð um hvernig við tileinkum okkur mállega færni (og það á einnig við um þekkingarlega færni) var gamla þekkingarfræðihefðin ákaflega fátækleg.
     En jafnvel þótt maður fagni þessum neikvæðu niðurrifsstörfum á vettvangi hugmyndanna upp á síðkastið skyldar það mann ekki til, eða öllu heldur leyfir manni ekki, að varpa fyrir róða þekkingarfræðinni sem viðleitni til að kerfisbinda viðmiðin fyrir þekkingarstarfsemina. Og hún, ég endurtek, verður að tengjast langtum raunsærri greinargerð um hinar félagslegu og sögulegu aðstæður okkar. Þetta mun velta á því sem er sérkennilegt við það sem er lauslega kallað ‘iðnaðarsamfélag’, samfélag sem byggist á árangursríkri stjórn á náttúrunni sem fer vaxandi, hagnýttri tæknifræði, allsherjarlæsi og skipulagningu í stórum stíl. Þótt kaldhæðnislegt megi virðast er ég að segja að heimspekin þurfi að vera bæði óhlutbundnari og gera meira af að setja viðmið annars vegar og félagsfræðilega hlutbundnari hins vegar. Og ég held ekki að það felist mótsögn í að leggja þetta tvennt til. Marx var hlutbundinn og félagsfræðilegur. Honum bara skjátlaðist, því miður. En ég vildi gjarnan sjá einhvern annan skilja þetta rétt – og, vel að merkja, skilja það rétt án væntinga um fullkomið samfélag. Þetta virðist mér vera leiðin fram á við. Hin nánu tengsl sem við þörfnumst eru tengsl milli raunhæfs skilnings á því sem er sérkennilegt við iðnaðarmenningu, á skilyrðum hennar og því sem felst í henni annars vegar, og þess forskriftar­starfs að nota þekkingarviðmið sem eina grundvöllinn fyrir öryggi sem við getum hugsanlega fengið hins vegar.

Magee Eins og málum er háttað sérðu almennan áhuga á tungumálinu sem sameinandi þátt meðal allra hinna augljóslega ólíku greina samtíma heimspeki?

Gellner Nei. Í inngangi þínum sagðirðu að saga heimspekinnar eftir daga Descartes hefði einn samfelldan söguþráð. Ja, hún hefur það, og í umræðu okkar höfum við verið sammála um hver hafa verið hin sameiginlegu þemu og viðfangsefni sem liggja henni til grundvallar. Tungumálið, þótt undarlegt sé, virðist ekki hafa verið eitt þeirra. Á yfirborðinu lítur út eins og svo hafi verið og mér detta í hug þrjár meiriháttar hreyfingar á þessari öld sem gera mikið veður út af tungumálinu, en mér virðist að hvernig þær skírskota til tungumálsins sé svo mismunandi að samlíkingin sé yfirborðsleg. Hin raunverulega mikla andstæða er milli ofuráhuga Wittgensteins og fylgismanna hans á tungumálinu í hinni enskumælandi heimspekiveröld og Chomskys. Báðir láta mikið með tungumálið en eru næstum því alveg á öndverðum meiði hvað varðar framsetningu sjálfs vandans. Aðalatriðið hvað varðar viðhorfið til tungumálsins samkvæmt seinni heimspeki Wittgensteins er notkun þess sem einskonar lausnar. Tungumálið er endastöðin. Hin raunverulega notkun málsins lætur í té einu viðmiðin sem við getum haft, eða höfum, eða þurfum að hafa. Hún réttlætir sig sjálf og skýrir sig sjálf. Hugmyndin er að eftirsóknin í almennari, ytri staðfestingar er sögð vera blekking og mælt er með raunverulegri málvenju sem endastöð okkar. Hins vegar er meginhugmynd Chomskys, sem gerir hann mikilvægan, hversu mikið vandamál tungumálið er. Sú tegund færni sem þarf til að búa til og skilja setningar, sem við tökum sem sjálfsagðan hlut, er nokkuð sem einfaldlega má ekki taka sem sjálfsagðan hlut. Chomsky uppgötvaði hve mikið vandamál þessi færni er. Wittgenstein reyndi að nota hana sem lausn. Ég get varla hugsað mér tvö hugsunarkerfi andstæðari hvort öðru í grundvallaratriðum, hvort sem einstakir fylgismenn þeirra viðurkenna það eða ekki. Ennfremur er einnig mjög umtalsverð andstæða milli seinni Wittgensteins og hinna rökfræðilegu raunhyggjumanna. Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir reyndu að nota takmörk tungumálsins til að afmarka heiminn. Þeir voru að láta okkur í té grundvöll til að koma aftur á almennu samkomulagi, heila nýja sýn á heiminn. En Wittgenstein notaði tungumálið sem sönnun þess að við þurfum alls ekki slíkan grundvöll, að við höfum aldrei þurft hann og það sé engin þörf á að leita að honum. Nei, áhugi á tungumálinu virðist mér ekki vera sameinandi þáttur, og hann sameinar ekki í raun hugsun tuttugustu aldar.
     Ef í nauðir rekur gæti maður sagt að raunhyggjumenn og áhangendur seinni Wittgensteins gefi gersamlega andstæð svör við nánast sömu spurningunni, en Chomsky sér gerólíkt vandamál og svar hans er ekki sambærilegt við svör þeirra.
     Nei, hin raunverulega eining sem liggur til grundvallar er leitin að skilningi á bæði hinum þekkingarlegu og félagslegu hömlum sem takmarka valkosti okkar og hjálpa okkur að velja. Verkefnið framundan er að tengja saman skilning okkar á þessum tvenns konar hömlum.

                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Þessi þýðing Gunnars Ragnarssonar birtist fyrst árið 2006 í bók til heiðurs Arnóri Hannibalssyni á 70 ára afmæli hans, Þekking engin blekking, í ritstjórn Erlends Jónssonar, Guðmundar Heiðars Frímannssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Heimspekivefurinn birtir hana hér með góðfúslegu leyfi Háskólaútgáfunnar. Samræðan er sú síðasta í bókinni Men of Ideas, með undirtitlinum Some Creators of Contemporary Philosophy, eftir Bryan Magee og viðmælendur hans. Hún kom út 1978 og er byggð á fimmtán samræðum sem var sjónvarpað hjá BBC fyrri hluta sama árs.
     Bryan Magee (f. 1930) er víðkunnur enskur heimspekingur, rithöfundur og fjölmiðlamaður. Hann hefur getið sér góðan orðstír fyrir samræður sínar við heimspekinga um vestræna heimspeki þar sem lögð er áhersla á einfalda og skýra framsetningu. Fyrir utan Men of Ideas hafa komið út tvær bækur byggðar á samræðum Magees. Þær eru Modern British Philosophy (1971) og The Great Philosophers (1987). Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.
     Ernest Gellner (1925–95) olli miklu fjaðrafoki í röðum Oxfordheimspekinga með bókinni Words and Things (1959) sem er hörð árás á málspeki þeirra og Wittgensteins. Gellner er fjölhæfur og mikilvirkur rithöfundur og þykir merkur fræðimaður, einkum á sviði heimspeki og félagslegrar mannfræði. Hann lauk starfsferli sínum sem prófessor í félagslegri mannfræði við Cambridgeháskóla. Af fjölmörgum öðrum bókum Gellners skulu þessar nefndar: Thought and Change (1964), Nations and Nationalism (1983), Reason and Culture (1992) og Conditions of Liberty (1994).

Fornfræðileg skólaspeki

Hugleiðing um mikilvægi heimspekisögu

eftir Jakob Guðmund Rúnarsson

I: Atvinnusjúkdómar

Einu sinni sem oftar þurfti Þorsteinn Gylfason að verja gildi heimspekinnar í samræðum við samtímamenn sína. Í gamansömum tón vék Þorsteinn að þeirri fullyrðingu að orðhengilsháttur væri þekktur atvinnusjúkdómur meðal heimspekinga. Það stóðst engan veginn nánari skoðun að mati Þorsteins. Orðhengilsháttur væri, þvert á móti, aðalatvinna heimspekinga. Þó svo að um góðlátlegt grín hafi verið að ræða þá fylgir öllu gamni nokkur alvara.

Á sínum tíma veitti ástralski heimspekingurinn John Passmore þessari sömu tilhneigingu athygli. Passmore hélt því fram að skólaspekileg skilgreiningarárátta væri einkennandi fyrir suma heimspekinga, þar sem skilgreiningafarganið felur, ruglar og afvegaleiðir frekar en að afhjúpa eða dýpka skilning okkar á viðfangsefninu. Þetta leiðir til þess ástands sem hefð er fyrir að kenna við moldviðri.1 En Passmore veitti því einnig athygli að svipuð meinsemd gerði vart um sig meðal sagnfræðinga. Þeim bresti væri hinsvegar best lýst sem „fornfræðingshætti.“ Líkt og „skóla­spekingum“ hættir til að setja fram skilgreiningar þeirra sjálfra vegna, skemmtir „forn­fræðingurinn“ sér við að tína saman athyglisverðar eða sérkennilegar frásagnir þeirra sjálfra vegna. Frásagnir „fornfræðinganna“ eru því undir sömu sök seldar og heimspeki „skóla­spekinganna.“ Í stað afhjúpandi rannsóknar eða umbreytandi skilnings á viðfangsefninu er afraksturinn safn sjálfhverfra athugasemda.2

II: Samband heimspekinnar við sögu sína

Maður gæti því auðveldlega haldið að fræðilegt heilbrigði þeirra sem fást við sögu heimspekinnar sé frekar brothætt og hættan á svæsnum tilfellum „fornfræðilegrar skólaspeki“ mikil. En ég leyfi mér að halda því fram að það sé öðru nær. Eins og sannast svo ágætlega á Passmore sjálfum sem fléttaði listilega saman heimspeki og rannsóknum á sögu heimspekinnar. Það sama mætti líka segja um mörg bestu verk Þorsteins Gylfasonar. Mikil áhersla er lögð á sögu heimspekinnar við kennslu hennar í háskólum og eitt höfuðeinkenni góðs heimspekings er staðgóð þekking á sögu fræðigreinarinnar. Margir helstu heimspekingar hinnar vestrænu hefðar eru ekki einungis kunnugir sögu heimspekinnar heldur er heimspekisagan snar þáttur af heimspeki þeirra, hvort heldur sem þau sækja til, styðjast við eða takast á við hana. Nægir þar að nefna Richard Rorty, Hannah Aarendt, Paul Ricoeur, Karl Popper og Hegel.

En jafnframt þessu hefur verið löng og sterk hefð meðal vestrænna heimspekinga að reyna að halda heimspekinni rækilega aðskilinni frá sögu sinni. Ekki svo að skilja að sögu heimspekinnar sé hafnað sem fræðilegu viðfangsefni. Hún er einfaldlega álitin vera algjörlega aðgreind fræðigrein sem komi heimspeki samtímans ekkert sérstaklega við. Ekkert frekar en saga samgangna í Rómaveldi komi geimförum NASA við.

Páli Skúlasyni sýndist það vera orðið ráðandi sjónarmið meðal heimspekinga að heimspeki væri „ósöguleg fræðigrein“ og að „hún horfi fram hjá allri sögu og smíði kenningar sem hafi enga tímalega vídd“ og snúist fyrst og fremst um að „ skýra rökleg tengsl ekki söguleg.“3 Þetta viðhorf leiðir til þess að heimspekingar reyna að takast á við „eilífðar vandamál“ eða hinar klassísku spurningar heimspekinnar með því að skapa hugtaka- og kenningakerfi til að takast á við veruleikann. Sem dæmi má nefna, aðleiðslu-vandann, vandann um aðra hugi, mælikvarða-vandann o.s.frv. En það er til annað og andstætt viðhorf:

„Hins vegar höfum við svo það sjónarmið að heimspeki sé eða eigi að vera söguleg fræðigrein, kenningar hennar eigi að hafa tímanlega vídd, sýna röklega mótun hugmynda og skoðana gegnum tíðina og hvernig rökvísi mannsandans hefur þroskast, þekkingin aukist. Veruleikinn sem slík heimspeki vill hugsa er verðandi, hann er breytilegur og dýnamískur. […] Slík heimspeki miðar að því að gera reynslu manna skiljanlega, e.t.v. ekki endanlega heldur við tilteknar sögulegar aðstæður. Samkvæmt þessu sjónarmiði eru viðfangsefni heimspekinnar ekki nein eilífðarvandamál, heldur miklu fremur spurning um skilning, merkingu og tilgang sem sífellt tekur á sig nýjar myndir.“4

Þá ríkjandi tilhneigingu heimspekinnar að vilja hafna fortíð sinni og treysta einungis á kraft skynseminnar, og þá skynsemi hins sjálfstæða hugsandi einstaklings, má rekja allt til upphafs nútíma heimspeki, t.a.m. verka Descartes.5 Kant sömuleiðis brýndi samtíð sína með orðum Hórasar sapere aude til að varpa af sér klafa kennivalds og stöðnunar í nafni upplýsingar. Hin engilsaxneska rökgreiningarheimspeki 20. aldarinnar, sérstaklega á fyrrihluta aldarinnar, fylgdi þessari hefð og lagði litla áherslu á sögu heimspekinnar og sögulega greiningu þeirra vandamála sem heimspekingar fengust við.6 Það er m.ö.o. sterk hefð innan vestrænnar heim­speki að gera hinn íhugandi einstakling að „sjálfberandi“ miðpunkti allrar heimspeki.7 Hinn íhugandi einstakling sem er einangraður frá sögulegum veruleika sínum, og þar með að mikil­vægu leyti frá samtíma sínum.

III: Upplýsingargoðsögnin og sögulegt eðli huglægra fyrirbæra

Kanadíski heimspekingurinn Charles Taylor vakti máls á þeirri undarlegu staðreynd að svo virðist sem krafan um að heimspekin hafni fortíð sinni og taki upp algjörlega nútímalegan hugsunarhátt komi reglulega fram. Sem dæmi má nefna rökfræðilega raunhyggju á öndverðri 20. öld. Þessa tilhneigingu nefndi Taylor „upplýsingargoðsögnina.“ Við þau skilyrði er sögu heimspekinnar kannski ekki hafnað algjörlega en hin „tímalega vídd,“ sem Páll Skúlason talaði um, grynnkar og afbakast. Söguleg tengsl eru sniðgengin og rökleg tengsl lesin inn í framandi umhverfi. Slík nálgun getur ekki alið af sér neitt nema sögulegar rangfærslur og heimspekilega einfeldni.8 Svo virðist sem „upplýsingargoðsögnin“ sé skilgetið afkvæmi þeirrar áherslu sem heimspekingar hafa viljað leggja á mátt hreinnar skynsemi hins sjálfstæða og óskilyrta huga.

Nýlega hefur bandaríski hugmyndasagnfræðingurinn Donald Kelley bent á grundvallarmun sem honum virðist hafa einkennt skilning heimspekinga annarsvegar og sagnfræðinga hinsvegar, á eðli „hugmynda“ í gegnum söguna. Heimspekingum hættir til að einblína á hugmyndir sem „hrein“ huglæg fyrirbæri án nokkrar skírskotunar til félagslegar, eða sögulegrar víddar. Þær eru tjáðar og miðlaðar á formlegan hátt sem hluti af röksemdarfærslu höfunda sinna, annað hvort í ræðu eða riti. Sagnfræðingar hinsvegar takast á við hugmyndir fyrst og fremst sem félagsleg og söguleg fyrirbæri sem segja meira um ytri veruleika en hugarheim höfundarins. Þær eru afurðir flókinna ferla og samspils höfundar við umhverfi sitt, í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.9 Sagnfræðingur túlkar oftast hugmyndir sem afsprengi félagslegra og sögulegra þátta en heimspekingum hættir til að einblína á röklega eiginleika þeirra. Þetta eru vissulega nokkuð groddalegar einfaldanir; það má spyrja sig hvort málspekingar í anda hins síðari Wittgensteins eða fyrirbærafræðingar í anda Ricoeurs gætu samsamað sig þessari lýsingu Kelleys á heimspekingum. En líkt og með „fornfræðinganna“ og „skólaspekingana“ í dæmi Passmores þá virðist vera eitthvert sannleikskorn fólgið í þessari greiningu.

Ef við samþykkjum að heimspekingum sé hætt við sögulegum einfeldningshætti, sem getur haft neikvæð áhrif á gildi heimspeki þeirra og rannsókna, hver er þá lausnin? Er nóg að fara fram á aukið „sagnfræðilegt næmi“ heimspekinga? Hvað myndi það þýða?

IV: Göngugrind, spegill og starf

Saga heimspekinnar verður að snúast um eitthvað meira en innantóma naflaskoðun heimspekinga á viðurkenndum stórvirkjum heimspekisögunnar. Þó svo að heimspekingar verði að geta tileinkað sér sagnfræðilega ögun er hin „fornfræðilega“ hætta sífellt nálægt. Allir geta tekið undir að heimspeki megi ekki snúast um daufdumban utanbókarlærdóm. Það sama gildir um rannsóknir á sögu heimspekinnar. Hún má ekki snúast um skeyta skoðunum eða rökum úr verkum genginna heimspekinga ógagnrýnið inní rökræður samtímans. Við getum ekki ætlast til þess að fortíðin hafi að geyma tilbúnar lausnir við þeim vandamálum sem við glímum við í dag. Við verðum að hafa meira fyrir hlutunum.

Ef við berum virðingu fyrir mikilvægi heimspekinnar sem hluta af menningu okkar, þá verðum við að þekkja það sögulega samhengi sem hefur skapað, mótað og skilyrt heimspekina og starf heimspekingsins. Og heldur áfram að skapa, móta og skilyrða starf heimspekingsins og hugmyndir okkar um heimspeki. Með því að takast á við sögu heimspekinnar öðlumst við skilning á heimspekinni og hvers vegna við leggjum rækt við hana. En þar með er ekki sagt að heimspekisagan sé einhverskonar göngugrind fyrir heimspekinga til að styðja sig við í amstri sínu; eða spegill til sjá dást að ímynd sinni í.

Sagan sýnir að það er hægt að stunda heimspeki (eða í það minnsta að skrifa heimspekileg verk) án vísana til heimspekisögunnar eða hinnar sögulegu víddar almennt (svo má deila um gildi slíkrar heimspeki). En rannsóknir á sögu heimspekinnar fela nauðsynlega í sér heim­spekilegt starf og niðurstöður slíkra rannsókna snúast ekki einvörðungu um sögulegan veruleika heldur líka, og jafnvel fyrst og fremst, um heimspeki.10

En nákvæmlega með hvaða hætti, eða með hvernig aðferð, við ættum að leggja stund á sögu heimspekinnar er svo allt önnur spurning sem verður ekki svarað hér.

Tilvísanir

1. Sjá Guðmund Finnbogason, „Trúin á moldviðrið,“ birtist í: Huganir. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1943, bls. 59-69.

2. John Passmore, „The Idea of a History of Philosophy“, birtist í: History and Theory, 5. árg., 5. Beiheft: The Historiography of the History of Philosophy. 1965, bls. 1-32. Sérstaklega bls. 31.

3. Páll Skúlason, „Hugleiðingar um heimspeki og frásagnir“, birtist í: Skírnir, 157. Ár, 1983, bls. 5-28. Hér bls. 17.

4. Páll Skúlason, „Hugleiðingar um heimspeki og frásagnir“, bls. 18.

5. Mikilvægi þess að sýna hugmyndafræðilegt og heimspekilegt sjálfstæði má rekja allt aftur til Platons, og kemur einnig fram í heimspeki Ágústínusar á miðöldum og í hinni húmanísku hefð nýaldar.

6. Um samband rökgreiningarheimspeki við heimspekisögu, sjá safnritið Analytical Philosophy and History of Philosophy, ritstj. Tom Sorell og G.A.J. Rogers, Clarendon Press, Oxford-UK, 2005.

7. Um hinn „íhugandi einstakling“ sjá grein Ólafs Páls Jónssonar, „Gagnrýnar manneskjur,“ birtist í: Hugur, 20. árg, 2008, bls. 98-112.

8. Taylor, „Philosophy and its history“, birtist í: Ideas in Context: Philosophy in History. Essays on the historiography of philosophy. Ritstj. Richard Rorty, J.B. Schneewind og Quentin Skinner. Cambridge University Press, Cambridge, 1984. Bls. 17-30. Hér bls. 17.

9. Donald Kelley, The Descent of Ideas: The History of Intellectual History. Ashgate Publishing Limited, Aldershot, 2002. Hér bls. 106.

10. Sjá grein Svavars Hrafns Svavarssonar, „Saga og samtíð heimspekinnar“, birtist í: Ritið 7. árg., 2-3. tbl. 2007, bls. 197-215. Sérstaklega bls. 208, þar sem Svavar brýnir fyrir lesendum sínum að tilgangur heimspekisögu sé einmitt að stunda heimspeki. Þeim sem hafa hug á að kynna sér samband heimspeki og heimspekisögu nánar er eindregið bent á grein Svavars.

Ludwig Wittgenstein

eftir Gilbert Rylei

Frumlegur og áhrifamikill heimspekingur, Ludwig Wittgenstein, Austurríkismaður sem að lokum gerðist breskur ríkisborgari, kom til Englands skömmu fyrir heimsstyrjöldina fyrri til að leggja stund á verkfræði. Gagntekinn af rökfræðilegum og heimspekilegum vandamálum um eðli stærð­fræðinnar, fluttist hann árið 1912 til Cambridge til að starfa með Bertrand Russell. Í heims­styrjöldinni sem í hönd fór þjónaði hann í austurríska hernum og varð að lokum stríðsfangi. Á þessu tímabili skrifaði hann sína einu bók, hinn fræga Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræði­leg ritgerð um heimspeki) sem kom út árið 1922 í heldur óáreiðanlegri enskri þýðingu. Hann kenndi í austurrískum þorpsskóla um nokkurt skeið og komst þá í nána heimspekilega snertingu við nokkra af leiðandi félögum í Vínarhringnum. Árið 1929 sneri hann til Cambridge þar sem mikilvægi hugmynda hans hafði fljótt hlotið viðurkenningu. Hann varð prófessor árið 1939. Hluta af seinni heimsstyrjöldinni var hann sjúkraliði við Guy’s Hospital (í Lundúnum). Árið 1947 sagði hann upp prófessorsstöðunni. Auk Tractatusar birti hann aðeins eina grein um ævina.
Síðustu tuttugu árin birti hann ekkert, að því er ég best veit; sótti engar ráðstefnur í heimspeki; hélt enga fyrirlestra fyrir utan Cambridge; átti ekki bréfaskipti við neinn um heimspekileg efni og var andvígur því að jafnvel glósur úr fyrirlestrum sínum og umræðum í Cambridge kæmust í um­ferð. Hann var engu að síður óþreytandi að ræða heimspekileg málefni við áhugasama nemend­ur og nokkra starfsfélaga, hagfræðinga, stærðfræðinga, eðlisfræðinga og heimspekinga. Þrátt fyrir þetta hafa öldur frá smátjörninni hans sem hann gætti af svo miklu kappi breiðst út um heim­spekilega hugsun mikils hluta hins enskumælandi heims. Heyra má heimspekinga sem aldrei hittu hann – og fáir okkar gerðu það – tala á hans nótum um heimspeki; og nemendur sem kunna varla að stafa nafnið hans fitja nú upp á nefið út af hlutum sem honum líkaði illa lyktin af. Hvaða máli hefur hann þá skipt fyrir heimspekina?
Það er tilgangslaust að reyna að segja fyrir um dóm sögunnar yfir samtíðarmanni. Ég verð að reyna að gera þetta um mann sem hefur forðast alla birtingu á hugmyndum sínum síðastliðin þrjátíu ár. Það sem ég býð upp á er því mengi skoðana og túlkana á því sem er að hluta til ekki nema ómur af einberu bergmáli.
Frá tímum Lockes til Bradleys höfðu heimspekingar rökrætt viðfangsefni sín eins og um sálfræðileg efni væri að ræða. Vissulega voru vandamál þeirra oft ósvikin heimspekileg vanda­mál en þeir fjölluðu um þau á sálfræðilegum forsendum. Og þá sjaldan að þeir spurðu sig hvað þeir væru að rannsaka, áttu þeir vanda til að segja að þeir væru að rannsaka hvernig hugurinn starfar alveg eins og náttúruvísindamenn rannsaka efnishluti. Þau ‘hugvísindi’ sem þeir ræddu byggðust ýmist á raunhyggju eða hughyggju, eftir því hvort þeir voru, í grófum dráttum, meira undir áhrifum frá efnafræði en guðfræði eða öfugt.
Fyrir hálfri öld voru heimspekingar þó farnir að koma fótunum upp úr þessum sálfræðilegu stígvélum. Því nú var farið að stunda sálfræði í tilrauna- og lækningastofum, svo að stofusálfræði varð tortryggileg. Sú staðreynd skipti þó enn meira máli að rökfræðilegar ógöngur höfðu nýlega verið leiddar í ljós við sjálfar rætur hreinnar stærðfræði. Stærðfræðingar þörfnuðust líflína sem þeir gátu ekki útvegað sjálfir. Rökfræðingar urðu að ráða fram úr rökfræði stærðfræðinnar og þeir gátu ekki byggt hana á uppgötvunum raunvísinda, síst svo þokukenndra vísinda sem sál­fræðinnar. Um hvað fjalla rökfræði og heimspeki ef þær byggjast ekki á sálfræðilegum rann­sóknum?
Á fyrstu tuttugu árum þessarar aldar gáfu margir heimspekingar annað svar við þessari spurningu, platonskt svar. Heimspekin rannsakar ekki hugann og því síður efnishluti; hún rann­sakar íbúa þriðja sviðs, þar sem búa sértekningar eða hugtök, möguleikar, eigindir, tímalausar alstæður, tölur, sannindi, ósannindi, gildi og merking. Þessi hugmynd gerði þeim sem hana að­hylltust kleift að halda til streitu að heimspekin væri vísindi um eitthvað en neita því að hún ætti sér eitthvert venjulegt viðfangsefni; að verja sjálfstæði hennar sem fræðigreinar en neita því að hún væri bara ein vísindagrein meðal annarra; að gefa henni stöðu vísindagreinar en viðurkenna að hún væri ólík vísindunum. Spurningin: „Um hvað fjalla heimspeki og rökfræði?“ fékk nýtt svar, en þó svar með uggvænlega draumkenndum blæ. Það var svar þeirra Freges og Russells.
Í Vín stóðu hugsuðir frammi fyrir svipaðri spurningu, en frá gagnstæðu sjónarhorni. Í hinum enskumælandi heimi hafði verið gengið út frá því að heimspekin væri hugvísindi og teldist því systir eðlisfræði, efnafræði, dýrafræði o.s.frv., en í hinum þýskumælandi heimi var aftur á móti almennt gengið út frá því að heimspekin væri ekki systir heldur móðir annarra vísindagreina − jafnvel kennslukona. Einhvern veginn höfðu heimspekiprófessorar þar slíkt kennivald að þeir gátu sagt jafnvel vísindamönnunum fyrir verkum. Að sjálfsögðu voru heimspekingar rétta fólkið til að skera úr um hvort kenningar Darwins, Freuds og Einsteins væru sannar.
Seint á nítjándu öld hafði Mach gert uppreisn gegn þessari skoðun að frumspekin væri kennslukonuvísindi. Upp úr 1920 varð þessi uppreisn að byltingu. Vínarhringurinn vísaði á bug þeirri goðsögn að frumspeki gæti leyst úr spurningum í eðlisfræði, líffræði, sálfræði eða stærð­fræði. Frumspekin væri hvorki kennslukona vísindanna né systir þeirra; hún væri alls ekki vísindi. Afstæðislögmál Einsteins er dæmið sem sýnir þetta best. Tilkall prófessora í heimspeki til að hrekja þetta lögmál var tilhæfulaust. Vandamál í vísindum verða aðeins leyst með vísindalegum aðferðum og þær eru ekki aðferðir heimspekinga.
Í Englandi var spurningin því þessi: Hverjir eru þeir sérstöku eiginleikar sem raunvísindin skortir en rökfræði og heimspeki hafa til að bera þannig að skírskota verður til þeirra þegar hin fyrrnefndu lenda í ógöngum? Í Vín var spurningin þessi: Að því gefnu að heimspekingar geta ekki ráðið fram úr vísindalegum vandamálum, hverjir eru hinir röklegu kostir vísindalegra aðferða sem heimspekilegar aðferðir skortir? Andstæðan milli heimspeki og vísinda var dregin upp á báðum stöðum. Í Vín þar sem sjálfstæði vísindanna var vefengt var markmiðið að afhjúpa kröfur heim­spekinnar sem kennslukonuvísindi. Í Englandi, þar sem sjálfstæði vísindanna var ekki að ráði dregið í efa, að undantekinni sálfræði, var andstæðan dregin upp til að fá fram hin jákvæðu ein­kenni rökfræði og heimspeki. Í Vín var litið á heimspekina sem sníkjudýr sem sygi blóð; í Englandi sem læknandi blóðsugu.
Spurningin kom í sinni ensku mynd til Wittgensteins. Og því væri ekki hægt að telja hann til rökfræðilegra raunhyggjumanna. Rökdeilur þeirra voru ekki hans, og leit hans að hinu jákvæða hlutverki rökfræði og heimspeki varð ekki þeirra fyrr en löngu seinna. Hann var undir áhrifum frá Frege og Russell, ekki frá Mach. Sjálfur hafði hann ekki fundið fyrir hinni dauðu hönd aka­demískrar heimspeki sem var dragbítur á jafnvel vísindalega hugsun í Þýskalandi og Austurríki og er það enn. Þvert á móti hjálpaði hann til við að festa hinar rökfræðilegu líflínur fyrir stærð­fræðingana.
Ég vil sýna hvernig Wittgenstein umbreytti og svaraði því sem var ætíð meginspurning hans: „Hvað geta heimspekingar og rökfræðingar gert og hvernig ættu þeir að gera það?“
Ég hef sagt að eftir langa fangelsisvist í sálfræðilegu málfari hafi heimspekin um nokkurt skeið verið endurhýst í platonsku málfari. En það var aðeins skammtímahæli, því ekki leið á löngu þar til eitthvað vakti heimspekingana til vitundar um hið draumkennda eðli hins nýja hælis sem þeir höfðu reynt að láta sér standa á sama um. Russell komst að því í rannsóknum sínum á frum­reglum stærðfræðinnar að hann gat ekki með góðu móti komist hjá að búa til staðhæfingar sem höfðu þann rökfræðilega óþægilega eiginleika að þær voru sannar einungis að því tilskildu að þær væru ósannar og ósannar einungis að því tilskildu að þær væru sannar. Sumar þessara staðhæfinga sem kollvörpuðu sjálfum sér virtust vera innbyggðar í sjálfan grunninn sem átti að gera stærðfræðina áreiðanlega. Það var meiriháttar leki í þurrkvínni sem þeir Frege og Russell höfðu smíðað fyrir stærðfræðina.
Russell fann bót fyrir lekann. Til grundvallar hinum þekkta greinarmuni á sannleik og ósannindum liggur róttækari greinarmunur á merkingu og merkingarleysi. Bæði sannar og ósannar staðhæfingar hafa merkingu, en sumar yrðingar, með orðum og byggingu staðhæfinga, eru hvorki sannar né ósannar heldur merkingarlausar – og ekki merkingarlausar vegna orðalags eða málfræði, heldur af röklegum ástæðum. Staðhæfingarnar sem kollvörpuðu sjálfum sér voru af þessari gerð, hvorki sannar né ósannar heldur merkingarleysur í mynd staðhæfinga. Takið eftir að það er aðeins um fyrirbæri eins og samsettar yrðingar sem hægt er að spyrja hvort hafi merkingu eða séu merkingarlausar. Þeirrar spurningar væri ekki hægt að spyrja um hugræn ferli eða um platonska hluti. Rökfræðin getur því ekki fengist við þetta, heldur fæst hún við það sem hægt er eða ekki hægt að segja á merkingarbæran hátt. Viðfangsefni hennar er tungumálið enda þótt verkefni hennar séu alls ekki verkefni í málvísindum.
Í Tractatusi Wittgensteins er þessi afmarkaða niðurstaða alhæfð. Öll heimspeki og öll rökfræði eru rannsóknir á því hvað ljær einhverju sem sagt er merkingu eða gerir það merkingarlaust. Vísindin miða að því að segja sannleikann um heiminn; heimspekin miðar að því að leiða aðeins í ljós rökgerð þess sem hægt er að segja satt eða jafnvel ósatt um heiminn. Þetta er ástæðan fyrir því að heimspekin er hvorki systir vísindanna né foreldri. Hlutverk hennar er ekki að fjölga vísindalegum staðhæfingum, heldur að leiða í ljós rökgerð þeirra.
Wittgenstein byrjar með því að athuga hvernig setning, kort, skýringarmynd eða líkan geta lýst eða jafnvel gefið talsvert villandi lýsingu á staðreyndunum. Orðin ‘London’ og ‘suður’ ein sér eru ekki sönn eða ósönn. Og ekki getur einstakur punktur á pappírsörk verið nákvæmt eða ónákvæmt kort. Setningin „London er fyrir norðan Brighton“ er sönn. Sömu orðin í annarri röð svo sem „Brighton er fyrir norðan London“ eru ósönn. Í röðinni „Suður er London fyrir Brighton“ eru þau hrærigrautur sem er hvorki sannur né ósannur heldur merkingarleysa. Eigi punktar á blaði að gefa rétta eða ranga lýsingu á því í hvaða átt Brighton er frá London þarf að vera punktur fyrir hvora borg um sig og það þarf að setja þá samkvæmt einhverri venju um áttastrikin á kompásnum. Eigi staðhæfing, kort eða skýringarmynd að vera rétt eða röng þarf fjölda orða eða merkja; en fleira þarf til, einingarnar verður að setja saman á ákveðna vegu. Og til grundvallar því að staðhæfingin eða kortið gefi sanna lýsingu að hluta vegna þess hvernig einingunum er raðað saman liggur sú staðreynd að það ræðst algerlega af þeim almenna hætti sem einingarnar eru settar saman á hvort útkoman getur talist merkingarbær staðhæfing eða kort. Sumir samsetningar eru útilokaðar. Hvaða reglur útiloka þær?
Í Tractatusi komst Wittgenstein að þeirri óþægilegu niðurstöðu að þessar samsetningarreglur er ekki hægt að setja fram á merkingarbæran hátt. Tilraun til að segja í hverju munurinn á merkingarbæru og merkingarlausu tali sé fólginn er að fara yfir skilin milli merkingarbærs og merkingarlauss tals. Heimspekilegar vangaveltur geta reyndar opnað augu okkar fyrir þessum formgerðarreglum en þær geta ekki endað með merkingarbærri framsetningu á þeim. Heim­spekin er ekki vísindagrein; hún getur ekki gefið af sér vísindakenningar. Samt sem áður getur hún verið leikin eða klaufsk, vel heppnuð eða misheppnuð. Viðleitnin lætur okkur sjá það sem við þurfum að sjá. Líkt og gerist í námi í tónlist eða tennis leiðir nám í heimspeki ekki til þess að við getum sagt hvað við höfum lært, þó við getum, eins og í tónlist og tennis, sýnt hvað við höfum lært.
Nú er það rétt að heimspekilegum skýrleika er náð með því að leggja mat á rökfærslur frekar en með því að setja fram kenningar. En það er rangt að allt heimspekilegt tal sé merkingarlaust tal. Wittgenstein hafði sjálfur sagt mjög áhrifaríka hluti og að tala á áhrifaríkan hátt er ekki að bulla. Hvað hafði leitt hann til þessarar óþægilegu niðurstöðu? Þegar hann skrifaði Tractatus var hann, að ég hygg, undir of miklum áhrifum frá hliðstæðunum sem hann dró milli þess að segja hluti og búa til kort, skýringarmyndir og líkön. Vissulega er það svo að eigi merki á blaði að skrá sótthita eða töluð orð að mynda merkingarbæra staðhæfingu verður að raða merkjunum og orðunum samkvæmt reglum og venjum. Því aðeins að merkingarnar á grafpappír hjúkrunar­konunnar séu á kerfisbundinn hátt tengdar við aflestrana á hitamælinum sem teknir eru hver af öðrum daglega geta þær gefið rétta eða þess vegna ranga mynd af breytingunum á sótthita sjúklingsins. Því aðeins að orðum sé raðað samkvæmt ýmsum flóknum almennum reglum verður útkoman sönn eða ósönn staðhæfing.
Setjum nú svo að við bæðum hjúkrunarkonuna að sýna á annarri pappírsörk, ekki ganginn í sótthita sjúklingsins, heldur reglurnar um að tákna hitann í honum með merkjum á grafpappír, þá yrði hún ráðþrota. Og ekki heldur er hægt að kortleggja sjálfar reglurnar og venjurnar sem gilda um kortagerð. Wittgenstein hélt því fram á sambærilegan hátt í Tractatusi að heimspekingnum eða rökfræðingnum sé ómögulegt að segja hvað það er sem gerir sagða hluti merkingarbæra eða merkingarlausa. Hann getur sýnt það en ekki sagt það. Eftir Tractatus áttaði hann sig á því að enda þótt það að segja hluti líkist því að draga upp mynd eða kortleggja hluti, en það var í því samhengi sem hann dró líkinguna upphaflega, þá er það ekki að öllu leyti sambærilegt. Rétt eins og hjúkrunarkonan getur sagt, en þó ekki sýnt, hvernig sótthitakortið gefur rétta eða ranga mynd af hitanum í sjúklingnum þannig getur heimspekingurinn sagt hvers vegna, til dæmis, staðhæfing vísindamanns hefur merkingu eða er merkingarlaus. Það eitt sem væri fáránlegt mundi vera setning sem þættist gefa umsögn um eigin merkingu eða merkingarleysi.
Tractatus hefur tvö ólík en tengd markmið. Hið fyrra, sem ég hef lýst í grófum dráttum, er að sýna bæði hvað heimspekin er ekki, nefnilega einhver tegund vísinda, og hvað hún er, nefnilega starfsemi sem kannar rökgerð þess sem sagt er, til að mynda í einhverri vísindakenningu. Hið síðara, sem ég ætla ekki einusinni að reyna að lýsa, er að sýna hvers konar rannsókn form­rökfræði er. Hér kem ég að almennu atriði um Tractatus. Megináhugi Wittgensteins hafði frá upphafi verið á rökfræði stærðfræðinnar og þar af leiðandi á hinum rökfræðilegu þverstæðum sem voru lekinn mikli í þurrkvínni sem Frege og Russell höfðu smíðað. Þess vegna hneigðist hann til og var til þess búinn að þröngva öllu sem hægt er að segja á merkingarbæran hátt inn í hin fáu staðhæfingamynstur sem rökfræði stærðfræðilegra staðhæfinga vinnur með. Hann notaði íðorðaforða hennar, táknmál og reikniaðgerðir við könnun sína á ýmsum heimspekilegum við­fangsefnum og, umfram allt, á meginviðfangsefni sínu, sjálfu eðli heimspekilegrar hugsunar. Þar af leiðandi er Tractatus í ríkum mæli lokuð bók fyrir þeim sem skortir þennan tæknilega búnað. Fáir geta lesið bókina án þess að skynja að eitthvað mikilvægt sé að gerast, en meira að segja fáir sérfræðingar geta sagt hvað það er.
En þetta eru ekki sögulok. Kannski er þetta aðeins formálinn. Því eftir að hafa verið óvirkur í nokkur ár sneri Wittgenstein sér aftur að heimspekinni. Kenning hans eftir það er áberandi ólík því sem hann kenndi í Tractatusi. Hún hafnar meira að segja hluta Tractatusar.
Í fyrsta lagi þröngvar hann ekki öllum yrðingum inn í hin fáu mót rökfræði stærðfræðinnar. Þessu fylgir uppreisn gegn mótum af öllum gerðum. Reglur rökfræðikerfa og sértekningar heim­spekikenninga eru eins og skór kínverskra kvenna sem aflöguðu fætur þeirra og meinuðu þeim að ganga á þeim. Heimspekileg útlistun er eftir sem áður rannsókn á yrðingum en hún er ekki lengur rannsókn gegnum raufarnar á stensli rökfræðings eða dilkadráttur eftir flokkunarkerfi háskólanna. Málfar Wittgensteins er ekki lengur eins og Russells að ræða við stærðfræðinga um torskilin efni heldur eins og Sókratesar að ræða hversdagslegar hugmyndir við óuppfrædda unga menn. Hann einskorðar sig heldur ekki lengur við að útlista staðhæfingar vísindanna. Hann kannar nú rökgerð alls þess sem við öll segjum líkt og Moore.
Í öðru lagi telur hann ekki lengur að heimspekingar séu dæmdir til að reyna að segja hið ósegjanlega, þó ég telji að aðalviðfangsefni hans sé áfram vandamálið um eðli, verkefni og aðferðir heimspekinnar. En nú forðast hann að segja nokkuð almennt um eðli heimspekinnar, ekki vegna þess að það væri að segja hið ósegjanlega, heldur vegna þess að það væri að segja eitthvað að hætti háskólamanna og þess vegna eitthvað sem gerði hlutina óskýra. Í heimspeki gera alhæfingar hlutina óskýra. Það á að kenna eðli heimspekinnar með því að sýna raunveruleg dæmi um hana. Eins og læknisfræðinemi lærir skurðlækningar með því að fylgjast með og framkvæma aðgerðir á dauðum og lifandi viðföngum þannig lærir heimspekinemi hvað heim­speki er með því að fylgjast með og framkvæma aðgerðir á einstökum talsmátum sem leiða okkur í ógöngur. Þannig flakkaði Wittgenstein, að því er virðist stefnulaust, því að hann setti ekki fram nein markmið, frá einni áþreifanlegu ráðgátunni til bræðra hennar, frænda og frænkna, foreldra og félaga, og sýndi hvað gerir þær ruglandi og hvernig skuli leysa þær – sýndi en sagði ekki; fór gegnum lausnaskrefin en tók ekki saman handbók um þau; kenndi færni, en mælti ekki fyrir um kenningu.
Eina uppáhaldsaðferð hans mætti kalla ‘tesmökkunaraðferðina.’ Tesmakkarar slengja ekki sýnishornunum saman í tvo eða þrjá allsherjarflokka. Öllu heldur smakka þeir á hverju sýnishorni fyrir sig og reyna að staðsetja það við hliðina á næstu nágrönnum þess, og það er ekki aðeins með tilliti til eins aðgreinanlegs eiginleika heldur út frá margvíslegum ólíkum eiginleikum. Þannig sýndi Wittgenstein dæmigerða notkun tiltekinnar yrðingar með því að bera hana saman við aðrar sem stig af stigi víkja frá henni í ýmsu tilliti og í ýmsar áttir. Hann sýndi hvernig sláandi líkindi geta farið saman með mikilvægum mun sem venjulega er ekki tekið eftir og hvernig við freistumst til að reiða okkur um of á það sem er líkt með þeim og ruglumst því í ríminu vegna hins dulda munar á þeim.
Enda rannsaka heimspekingar yrðingar ekki af handahófi. Leitinni að rökgerð þeirra er þröngvað upp á okkur af þeirri staðreynd að við erum þegar lent í ófyrirséðum flækjum. Hvers vegna lendum við í ógöngum? Ég set hér fram upphugsað dæmi. Við stöndum okkur að því að tala að líkt og lest hægir á sér og nemur staðar þannig kynni tíminn sjálfur einn góðan veðurdag að hægja á sér og stöðvast. Við skiptum lestinni í vagna og vögnunum í klefa. Við skiptum mánuði í vikur og vikum í daga. Þegar lest fer fram hjá mér eru nokkrir vagnar komnir fram hjá, aðrir eru enn ókomnir og ákveðinn klefi í einum vagni er beint á móts við mig. Ég horfi á farþegana í honum gegnum gluggann. Svona hlýtur tíminn að vera. Síðasta vika er farin, næsta vika er enn ókomin en ég get horfst á við farþegana í Núinu. Þar sem lestir hægja alltaf á sér og stoppa einhvers staðar, hvað lætur þá tímann renna áfram svona linnulaust? Gæti ekki Núið verið síðasti klefinn í aftasta vagninum? En samt auðvitað ekki; það væri enn eitthvað fyrir aftan hann, þó það væri ekki annað en vindurinn. Þið sjáið að það er freistandi, en einnig að það hljómar eins og þvættingur, að tala um síðasta klefa tímans. Hvers vegna getum við sagt það um tímann sem líkist mjög því sem við segjum með réttu um lestir, þegar engar réttar ályktanir um tímann samsvara sumu sem leiðir réttilega af því sem við segjum um lestir? Til að svara þessari spurningu yrðum við að skoða fjölmörg afbrigði þess sem við segjum um lestir, ár og vinda; um skuggaspil, regnboga og speglanir; um sólskífur og dagatöl; um talnaröðina, daga vikunnar og mínútur dagsins. Og þá sjáum við kannski hvers vegna við hurfum smátt og smátt frá og höfum ekki lengur tilhneigingu til að hverfa frá réttum ályktunum af algengri orðnotkun um lestir til samsvarandi ályktana af nokkuð svipaðri orðnotkun um tímann. Við sjáum að við höfum lagt of mikið á tilteknar hliðstæður milli talsmáta, og að við vorum svo gagntekin af líkani sem við héldum upp á að við höfðum haldið áfram að nota það þar sem það átti ekki lengur við. Og nú vitum við að vissu leyti hvað tíminn er þó ekki sé til nein styttri eða betri leið til að segja / útlista það en að fara aftur í gegnum sams konar mállega tesmökkun.
Ég verð að ljúka máli mínu. Wittgenstein hefur vakið okkar kynslóð heimspekinga til umhugsunar um heimspekina sjálfa. Það er að sjálfsögðu mögulegt að manneskja verði afar íhugul um eðli og aðferðir einhverrar starfsemi án þess að verða neitt betri í að inna hana af hendi. Margfætlan í kvæðinu kunni vel að hlaupa þar til hún fór að velta því fyrir sér hvernig hún færi að því. Kannski erum við orðin dálítið óörugg um hlutverk okkar. En niðursöllun Wittgensteins á þeirri hugmynd að heimspekin sé eins konar vísindi hefur alltént gert okkur árvökul um verkfæri okkar. Við reynum ekki lengur að leysa vandamál okkar með rökfærsluaðferðum sem eiga við til að færa sönnur á kennisetningar eða staðfesta tilgátur. Nánar tiltekið höfum við lært að gaum­gæfa vandlega hvað hægt er að segja og hvað er ekki hægt. Það sem G. E. Moore hafði iðkað frá árdögum tuttugustu aldar hlýtur stuðning frá Wittgenstein. Og ég býst við að þegar tjaldið lyftist þá munum við einnig komast að raun um að efnistök og aðferðir Wittgensteins hafa aukið afl, umfang og nákvæmni þeirra aðferða sem Moore hefur svo lengi beitt til að kanna í smáatriðum rökgerð þess sem við segjum.

Magdalen College, Oxford                                                                              Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísun

i. Þessi ritgerð var upphaflega erindi sem enski heimspekingurinn Gilbert Ryle (1900–76) flutti í þættinum Third programme í breska ríkisútvarpinu 26. maí 1951, rúmum mánuði eftir andlát Wittgensteins (1889–1951). Það var prentað í heimspekitímaritinu Analysis, 12. árgangi, 1. hefti, í október sama ár.
Eins og fram kemur í erindi Ryles er Tractatus – fullt heiti Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki) – eina bók Wittgensteins sem kom út meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en tveimur árum seinna (1953) sem Philosophical Investigations (Rannsóknir í heimspeki), höfuðritið í svokallaðri „seinni heimspeki“ Wittgensteins, kom út. Síðan hafa komið út margar bækur eftir Wittgenstein og skulu hér nefndar The Blue and Brown Books (1958), Remarks on the Foundations of Mathematics (1956; endur­skoðuð útg. 1978), Philosophical Grammar (1969) og On Certainty (1969). Eftir að „tjaldið lyftist“, svo vísað sé til niðurlagsorða höfundar eftirfarandi ritgerðar, má með sanni segja að málspekin hafi blómstrað með Rannsóknir í heimspeki eftir Ludwig Wittgenstein að leiðarljósi.
Höfuðrit Ryles, The Concept of Mind (Hugtakið hugur) kom út 1949 og telja menn að þar gæti umtalsverðra áhrifa frá seinni heimspeki Wittgensteins. Ryle hefur verið vel kunnugur breyttri afstöðu Wittgensteins til heimspeki eins og ljóst er af erindi hans. The Blue and Brown Books höfðu lengi verið í umferð í vélritaðri „leynilegri“ útgáfu og má telja víst að Ryle hafi haft þessa texta undir höndum. Einnig þekkti hann Wittgenstein persónulega. Þessar bækur eru eiginlega drög eða uppkast að Rannsóknum í heimspeki.
Seinni heimspeki Wittgensteins hefur haft feikileg áhrif, einkum í hinum enskumælandi heimi þar sem segja má að málspeki (e. linguistic philosophy) í anda Wittgensteins hafi ráðið ríkjum. Hún hefur ekki aðeins haft áhrif á heimspeki heldur einnig á mannfræði, félagsvísindi og fleiri greinar. Mikið hefur verið og er enn skrifað um þennan áhrifamikla og umdeilda hugsuð, bæði til lofs og lasts. Þess skal getið að Bláa bókin kom út í Lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags árið 1998 í þýðingu Þorbergs Þórssonar, með ýtarlegum og fróðlegum inngangi eftir Þorstein Gylfason. Og árið 2000 kom út í sama ritaflokki bókin Ógöngur (Dilemmas) eftir Gilbert Ryle í þýðingu Garðars Á. Árnasonar. Á Heimspekivefnum er til nokkuð efni um Wittgenstein og heimspeki hans.

 

Tengsl við aðra, tengsl við náttúruna

eftir Gabriel Malenfant

I. Grundvallarspurningarnar

Vaxandi áhyggjur af umhverfismálum, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, gera það að verkum að sígild gildi hvað varðar tengsl okkar við náttúruna, siðferðileg og/eða fagurfræðileg, verða mörgum hugleikin og þar með hluti af samskiptum fólks. Slík áhrifatengsl við ómanngert umhverfi, þ.e.a.s. það umhverfi sem hefur engin manngerð sérkenni til að bera, hafa hins vegar lítið að segja þegar ákvarðanir sem varða framtíð og stjórnun umhverfisins eru teknar á sviðum iðnvæðingar og stjórnmála. Að mínu áliti kristallast þetta misræmi í tveimur spurningum. Annars vegar er það spurningin hvers konar gildi við eignum náttúrunni. Hins vegar er það spurningin hvernig við getum mælt og borið saman þessi gildi við stefnumörkun og í þær sameiginlegu aðgerðir sem valda breytingum á ómanngerðu umhverfi. Þrátt fyrir að þessar tvær hliðar á vandamálinu séu óumdeilanlega jafn mikilvægar, þá fer ekki heldur á milli mála að fyrri spurningunni verður að gera fullnægjandi skil til þess að þeirri síðari verði svarað. Þess vegna mun ég hér fyrst bjóða upp á stutta samantekt um þau gildi sem fólk telur sig sjá í náttúrunni og sambandið á milli þessara gilda.

Rannsóknir mínar á því sem hefur verið skrifað um umhverfissiðfræði hafa leitt mikilvægt atriði í ljós. Reynslan kennir að varla er hægt að koma böndum á þá ofgnótt umhverfisgilda sem blasir við í þessum ritum. Hagnýt og óhagnýt gildi virðast til dæmis gjarnan ósamanburðarhæf og eins og staðan er í dag hefur umhverfissiðfræðinni mistekist að koma böndum á það vandamál. Ég hef því reynt að þróa í heimspeki minni gagnrýnið viðhorf til helstu skiptingarinnar innan umhverfissiðfræðinnar, þ.e.a.s. á milli mannhverfs viðhorfs og hins sem hafnar allri mann­hverfingu. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að bregðast við þessari aðgreiningu þar sem hún oftar en ekki leiðir mann á villigötur.

II. Að forðast ákveðna tvíhyggju

Þeir sem gagnrýna mannhverf viðhorf geta verið mjög sannfærandi í gagnrýni sinni þegar þeir benda á að mannhverfingin geti ekki gert grein fyrir margs konar gildum sem með réttu er hægt að gera ráð fyrir í náttúrunni vegna hefða eða vegna heimspekilegra, andlegra eða siðferðilegra rannsókna. Mér sýnist þetta vera augljóst. Gagnrýni þeirra gleymir hins vegar oft að taka tillit til manngerðs eðlis þeirra eigin viðhorfs. Það er stutt heildrænni heimssýn sem gerir annað hvort ráð fyrir að náttúran hafi gildi í sjálfri sér (við getum nefnt visthverfar kenningar Naess og Leopolds sem dæmi) eða byggir á hæpinni færslu frá því sem er og þess sem manni ber að gera (eins og sjá má dæmi um í lífhverfri heimspeki Taylors og vistfemínisma Cheneys). Hins vegar er engum blöðum um það að fletta að niðurstaðan af þessum kenningum er sú að þær bjóða sjaldan upp á beitingu verklegrar skynsemi, sem svo aftur hindrar að við getum svarað seinni spurningunni sem varpað var fram í upphafi þessarar greinargerðar. Ef þær gera það hins vegar (sem nokkrar ómannhverfar kenningar gera vissulega) þá bregðast þær engu að síður hvað varðar ótvíræðar rökfærslur fyrir þeim grunni sínum sem á að renna stoðum undir gildi ómanngerðrar náttúru. Það getur því verið erfitt að velja á milli þeirra ómannhverfu kenninga sem standa til boða. Til dæmis virðist ekki mega vísa til neins sem hefur sprottið af mannlegum athöfnum eða skoðunum sem einhvers konar fyrirmyndar til þess að skera úr um hvaða kenning hefur mest fram að færa þegar kemur að samanburði gilda. Að sama skapi virðist það hafa lítið hagnýtt gildi að gera ráð fyrir að náttúran hafi til að bera gildi í sjálfri sér.

Þetta breytir þó ekki því að mannhverft gildismat í umhverfismálum býður einungis upp á mjög takmarkað svar við fyrri spurningunni að ofan. Í dag er svara helst leitað á sviði umhverfisfræði, en hún byggir á hinum frjálsa markaði, umhverfishagfræði eða visthagfræði. Ég er sannfærður um að þrátt fyrir að þessar kenningar reyni að leggja til gildi sem eru ekki hagnýt í strangasta skilningi þá geti þær ekki tengt sig við fjölmörg mikilvæg gildi. Þar eru siðferðileg gildi auðvitað mikilvægust. Að mínu áliti er ástæðan sú að ólíkt þeim heimspekingum sem eru andsnúnir mannhverfu viðhorfi, þá tengjast þeir sem hallast að hinu mannhverfa viðhorfi þeirri skoðun nánum böndum (skoðun sem er svo aftur nátengd Hobbes) að maðurinn stjórnist af sérhags­munagæslu. Það er ekki nóg með að þessi skoðun geri ekki ráð fyrir að gildi geti átt sér aðra forsendu en þá sem tengist persónulegum vilja (þá á ég við hagsýnt gildismat), hún gerir heldur ekki ráð fyrir að þessi vilji skoðist í siðferðilegu ljósi. Við þurfum því annars vegar að taka tillit til ómannhverfs viðhorfs, sem oftar en ekki byggist á mjög vafasömum trúarsetningum, og sem varla gerir ráð fyrir verklegri skynsemi (og sem þar af leiðandi snertir ekki á áhugaverðum spurningum), og hins vegar stöndum við andspænis takmörkuðu mannhverfu viðhorfi sem getur ekki tekist á við öll þau margvíslegu svið gilda sem menn tengja náttúrunni.

Þessi stutta samantekt hér að ofan er sett fram til þess að koma því mikilvæga atriði á framfæri að aðgreiningin milli mannhverfs og ómannhverfs viðhorfs í umhverfissiðfræði truflar fræði­greinina fremur en að gera gagn. Þessi togstreita getur þó varpað ljósi á hvernig hin siðferðilega hlið umhverfismála á það til að gleymast. En hvernig væri þá að velta fyrir sér gildum ómanngerðs umhverfis útfrá því gildi sem þetta umhverfi getur haft fyrir annað fólk fremur en útfrá eigin hagsmunum eða þeim gildum sem þetta umhverfi á að hafa í sjálfu sér? Væri ekki til nokkurs unnið að geta haldið eftir (sam)mannlegu siðferðismati og vangaveltum án þess að þurfa að fallast á meginstef mannhverfingarinnar; sérstaklega ef það tækist án þess að nauðsynlegt sé að fallast á skylduboð eða nytjastefnu? Hvernig væri að við reyndum að þróa einhvers konar viðhorf sem miðast fyrst og fremst við aðra, umhverfissiðfræði sem snýst um aðrar mannlegar verur?

Þessi hugmynd hefur ekki verið orðuð á þennan hátt innan fræðigreinarinnar (ég hef sjálfur nýtt mér og mótað heimspekilega hugtakið „allocentrism“ [sem má þýða sem „hin-hverfa“ andstætt „sjálf-hverfu“]), en hún stendur hins vegar ekki í neinni andstöðu við kenningar Bryans G. Norton, Avners de-Shalit, Jannas Thompson eða Andrews Light svo dæmi séu tekin. Ætlun mín er að setja gildi þess að reynsla af náttúrunni breytir hugmyndum okkar um okkar sjálf og heiminn (Norton) og gildi náttúru sem menningar og arfleifðar (de-Shalit og Thompson) í annars konar samhengi. Ég tel nauðsynlegt að komast eins langt og mögulegt er frá öllu því sem snertir ágreiningin um mannhverfinguna, jafnvel enn lengra en Light kemst með verkhyggju sinni. Til þess að geta haldið því fram að umhverfismál séu siðferðileg í eðli sínu fremur en spurning um hagsýni (jafnvel þegar ómanngert landslag er til umræðu) þá verð ég að veikja grundvöll þeirra kennisetningar Hobbes að hinn siðferðilegi gerandi stjórnist aðeins af sérhagsmunum. Enn í dag sér maður ekki betur en þessi kennisetning lifi góðu lífi í stjórnmálum og hagfræði. Með öðrum orðum: Ég verð að sýna fram á að kennisetningin byggi á röngum forsendum um manninn. Við verðum að sjá siðfræðina fyrir okkur sem hina fyrstu heimspeki.

III. Levinas og gildismat fyrir tilstilli annarra

Heimspekingurinn Emmanuel Levinas býður upp á öll nauðsynleg úrræði til þess að bregðast við Hobbes. Ég ætla honum þó hvorki að vera andstæðingur Hobbes né einhvers konar verndar­engill yfir öllu sem ég vil segja. Það væri einfaldlega rangt að halda því fram að heimspeki hans væri fullkomlega andsnúin kenningum Hobbes. Þeir eru sammála um allt nema tvö mikilvæg atriði: Þá greinir á um uppruna siðfræðinnar og samband siðfræði og stjórnmála.

Hobbes hefur auðvitað rétt fyrir sér með því að styðja einhvers konar samvinnu sem lausn þess vandamáls að öllum mönnum stafi ógn hver af öðrum. Það sem Levinas gerir er að hann spyr hvernig raunveruleg samvinna eigi að vera möguleg þar sem áhersla á sérhagsmuni sé óumflýjanleg. Hann stingur því upp á að siðferðið sé skilyrði samvinnu og því komi siðfræðin á undan stjórnmálunum (og jafnvel verufræðinni). Samkvæmt Levinas á siðfræðin sér uppruna í ósamhverfu þess siðfræðilega ójöfnuðar þegar einum manni finnst hann þurfa að breyta í þágu einhvers annars. Í stað þess að gera eins og Hobbes og smella saman siðfræði og stjórnmála­heimspeki í eina heildstæða kenningu, þá er Levinas umhugað um að benda á þau grundvallar­skil sem eru á milli þessara sviða. Ósamhverfa siðferðisins kemur því á undan stríði allra gegn öllum, á undan samvinnu, jafnrétti og jafnvel sérhagsmunum. Maður fæðist ekki sem rökleg og útsmogin vera. Það að aðrir eru til er forsenda þess að ég á mér huglæga tilveru.

Ég get með engu móti gert heimspeki Levinas almennileg skil í svo stuttu máli og því óþarfi að dvelja um of við þetta atriði. Ég vil einfaldlega koma þremur atriðum á framfæri. Í fyrsta lagi er þessi hugsun hans ein leið til að hafna þeirri skoðun Hobbes að gagnkvæmni sé grunnur alls siðferðis. Um leið get ég þó stutt þá greiningu Hobbes að jafnræði og samvinna sé grundvöllur stjórnmálalífsins. Þessi atriði skapa saman algjörlega nýjan grundvöll til þess að nálgast siðfræði og gildismat umhverfsins. Í öðru lagi er hugsun Levinas þeim kostum gædd að hún krefst ekki þeirrar „heildrænu sundrunar“ milli hins huglæga viðhorfs og gildismats sem oft má finna innan kenninga þeirra sem boða ómannhverf viðhorf til náttúrunnar. Þessi hugsun er þó ekki þess eðlis að hún dragi neinn í átt að þeirri heimsmynd eiginhagsmuna sem margir heimspekingar og hagfræðingar aðhyllast. Í þriðja og síðasta lagi þá opnar þessi hugsun leið að umhverfissiðfræði sem gerir ráð fyrir að samband einstaklings við aðra menn sé grundvallar­atriði, án þess þó að falla í þá gildru hins mannhverfa viðhorfs sem byggir mest gildismat á væntingum og löngunum einstaklinga.

Þessi nálgun sem miðast fyrst og fremst við hina býður ekki upp á altæka reglu eða viðmið um hvernig við eigum að haga okkur. Hins vegar býður hún upp á mælikvarða sem gerir okkur betur kleift að meta væntingar okkar og annarra. Kenning mín er sú að hin mannveran eigi að vera siðferðilegt markmið breytni minnar þegar kemur að umhverfismálum. Þegar þetta er haft í huga þá virðast hvort sem er duttlungar og þrár einstaklingsins eða gildi náttúrunnar í sjálfri sér, sem svo erfitt er að henda reiður á (en bæði þessi vafasömu atriði eiga að duga sem réttlæting á gerðum okkar sem snerta umhverfi og annað fólk), vart krefjast mikillar greiningar (enda þótt þau geti vel verið ruglingsleg í mörgum tilvikum). Sú áhersla sem lögð er á einhliða réttlætingu á gerðum manns (hvort a eða b verður fyrir valinu) ætti frekar að skoðast í því ljósi hvort slík hugleiðing snerti ekki hluti sem koma siðferðinu varla við. En þá geri ég ráð fyrir að siðfræði og siðferði geti einungis skoðast út frá sambandi mínu við aðra mannlega veru. Siðferðilegum hugleiðingum er nefnilega stundum bætt við rannsóknir sem hafa ekkert með siðferði að gera til þess eins að réttlæta þær siðferðilega, en eins og komið hefur fram er það mín skoðun að þessi röð sé aldrei forsvaranleg. Margs konar gildi sem hafa ekki hagnýt markmið (eins og þau sem snerta umbreytingu, arfleifð og fagurfræði) verða að verða hluti af öllu okkar gildismati á ómann­gerðu umhverfi. Ástæðan fyrir því er ekki sú að þau hafi altæk gildi eða hafi gildi í sjálfu sér heldur miklu fremur sú að ég get gert mér grein fyrir mikilvægi gildanna fyrir aðra, jafnvel þegar þau hafa ekkert að segja fyrir mig persónulega.

Eftirskrift
Ég vil þakka Heimspekivefnum kærlega fyrir að sýna áhuga á verkefnum framhaldsnema og hafa frumkvæði að birtingu greinarinnar. Sérstakar þakkir fær Henry Alexander Henrysson fyrir að hafa þýtt hana á íslensku. Ástæðan fyrir birtingunni er sú að ég hlaut nýlega viðurkenningu CINS (Canadian Institute for Nordic Studies). Þeir sem vilja kynna sér stofnunina geta gert það á heimasíðu hennar: http://www.ualberta.ca/~cins/. Þeir sem hafa áhuga á að spyrja mig nánar út í efni greinarinnar mega gjarnan skrifa mér á ensku eða frönsku á netfang mitt: gam2 (hjá) hi.is.

Fagurfræðilegt gildi íslenskrar náttúru

eftir Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur

Í Hugleiðingum við Öskju fjallar Páll Skúlason um þá mögnuðu reynslu sem ferðalangar geta orðið fyrir þegar þeir komast í kynni við landslag Öskju: „Þegar maður kynnist slíkri veröld er maður kominn á leiðarenda. Kominn í snertingu við veruleikann sjálfan. Hugurinn opnast fyrir fullkominni fegurð og maður sér loksins um hvað lífið snýst.“1 Þessi tegund náttúruupplifunar, sem kalla má fagurfræðilega upplifun2, er viðfangsefni doktorsverkefnisins Íslenskt landslag: fagurfræði og verndargildi. Fræðilegur bakgrunnur verkefnisins er í náttúru- og umhverfis­fagurfræði (e. aesthetics of nature / environmental aesthetics)3 og náttúrufyrirbærafræði (e. eco-phenomenology)4. Einnig koma landslagsfræði við sögu, en þau hafa einkum verið stunduð innan mannvistarlandfræði, fornleifafræði og mannfræði. Landslagshugtakið leikur lykilhlutverk í verkefninu, en skortur hefur verið á umfjöllun um landslagshugtakið innan heimspekinnar og því er leitað í smiðju þessara fræðigreina sem hafa rannsakað hugtakið og túlkað það m.a. út frá kenningum heimspekinga. Kenningar franska heimspekingsins Maurice Merleau-Ponty hafa t.d. orðið mannfræðingnum Tim Ingold5 og fornleifafræðingnum Christopher Tilley6 að innblæstri í túlkunum þeirra á landslagshugtakinu.

          Sú grunnskilgreining á landslagi sem gengið er út frá er að „landslag“ sé náttúrulegt umhverfi sem er upplifað fagurfræðilega.7 Slík skilgreining gerir ráð fyrir bæði hinu hlutbundna „náttúrulega umhverfi“ og huglægri skynjun, en innan landslagsfræða hefur ákveðin gjá myndast á milli hlutlægra og huglægra skilgreininga á landslagi. Í þessari stuttu grein verður í stórum dráttum sagt frá efnistökum verkefnisins og því er vert að byrja á byrjuninni, íslensku landslagi.

Íslenskt landslag

Íslenskt landslag er þekkt fyrir einstaka og óvenjulega fegurð. Samt sem áður hefur vantað fræðilega og almenna umræðu um þau verðmæti og gildi sem fólk tengir við fagurfræðilegar upplifanir eins og þá sem Páll Skúlason lýsir í Hugleiðingum við Öskju. Heimspekileg hugleiðing Páls og fleiri íslensk rit- og skáldverk fást við að fanga þessa reynslu, lýsa henni í orðum og greina þau áhrif sem hún hefur á hugsun okkar, hvað hún kennir okkur. Slík verk hafa eflaust haft áhrif á marga lesendur, og þannig hafa bókmenntir, heimspeki og listir haft áhrif á náttúrusýn Íslendinga um aldir. En það sem hefur skort er umræða á öðru stigi sem snýr að því að meta gildi þess að eiga möguleikann á slíkum upplifunum og hvort og hvernig taka eigi slíkt gildi til greina þegar ákvarðanir eru teknar um náttúruvernd- og nýtingu.

          Í almennri umræðu eru fagurfræðileg gildi, einmitt af því að þau eru tengd við fegurð, talin samsvara persónulegum og huglægum tilfinningum sem ekki er hægt að mæla og meta á hlutlægan hátt og þess vegna er talið erfitt og jafnvel ómögulegt að taka þessi gildi inn í mat á náttúruverðmætum. En áður en við setjum þessi huglægu og persónulegu gildi til hliðar verðum við að gera okkur grein fyrir því að þegar ákvarðanir um landnýtingu eru teknar þurfum við að vera upplýst um öll þau gildi sem landið býr yfir. Fáir myndu neita því að það sé eitthvað til sem heitir fagurfræðileg reynsla af náttúrunni og að slík reynsla sé mikils metin. Þrátt fyrir það hefur gildi slíkrar reynslu, fagurfræðilegt gildi, ekki verið tekið til greina við ákvarðanatöku. Áður en við tökum ákvarðanir metum við og greinum hagfræðilegt gildi lands, samfélagsleg gildi, líffræðileg gildi, og út frá þeim upplýsingum getum við tekið upplýstar ákvarðanir um hvernig best sé að nýta eða vernda landið. En upptalning á þessum gildum er ekki nóg, við verðum líka að hafa ákveðin grundvallargildi sem segja okkur hvert þessara gilda er mikilvægast.

          Eitt er víst: ekkert gildi verður nokkurn tímann talið mikilvægast ef ekki hefur verið minnst á það í upptalningunni á gildum sem þarf að meta og greina áður en ákvarðanir eru teknar. Við verðum að hafa upplýsingarnar um þau fagurfræðilegu gildi sem við tengjum við ákveðna staði, ákveðið landslag. Aðeins þá getum við ákveðið hvort við ætlum að nota þessar upplýsingar til að byggja ákvarðanir á og hvar þessi gildi eiga sér stað í grundvallargildismati okkar, í stað þess að horfa bara framhjá upplýsingunum og útiloka þar með fagurfræðileg gildi frá ákvarðanatöku áður en við vitum hvers virði þau eru okkur.

          Eins og sést best á vali á viðfangsefnum í íslenskum bókmenntum og listum, eigum við nægan orðaforða, liti og tóna til þess að lýsa náttúruupplifun. En það sem skortir er orðaforði sem felur í sér viðurkenningu á gildi þessarar reynslu og þeim verðmætum sem hún skapar: að hún sé ekki bara einhver persónuleg og listræn rómantík heldur grundvallarþáttur í lífsgæðum okkar og sjálfsmynd. Þessi skortur á orðaforða endurspeglast svo í skorti á aðferðafræði til þess að meta fagurfræðilegt gildi landslags.

          Landslag hefur verið þáttur í umhverfismati víða um Bandaríkin og Evrópu síðustu áratugi, og með tilkomu Evrópska landslagssáttmálans8 hefur áhersla á mikilvægi landslagsverndar aukist í Evrópu. Ísland er eitt fárra ríkja í Evrópu, og eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki undirritað sáttmálann.9 Landslagshugtakið hefur reynst íslenskri stjórnsýslu erfitt, einkum vegna þess að óvissa ríkir um hvernig skuli túlka og skilgreina hugtakið.10 Í greininni „Performing Expertise: Landscape, Governmentality and Conservation Planning in Iceland“ lýsa Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson niðurstöðum viðtalsrannsóknar þar sem tekin voru viðtöl við þátttakendur í undirbúningsvinnu fyrir Náttúruverndaráætlun 2004-2008.11 Þar kemur fram að viðmælendurnir áttu erfitt með að staðsetja landslagshugtakið og merkingu þess nákvæmlega, en eitt viðhorf var mest áberandi: að hugtökin landslag og fegurð voru oft lögð að jöfnu og þess vegna var landslagshugtakið talið lýsa huglægu fyrirbæri. En á sama tíma kom fram það viðhorf að til væru staðir, ákveðið landslag, sem allir telja fallegt, en þetta viðhorf gefur til kynna hlutlægan skilning á landslagi.12

          Bæði hversdagslegur og fræðilegur skilningur fólks á orðinu landslag leggur áherslu á sjónrænar hliðar, landslag er jú eitthvað sem við sjáum.13 Í ensku og íslensku máli er landslag oftast skilgreint á sjónrænan og fagurfræðilegan hátt sem landsvæði sem við sjáum og skynjum á vissan hátt og fellum fagurfræðilega dóma um.14 Innan landslagsfræða hafa þó á síðustu árum verið gerðar tilraunir til þess að snúa baki við þeirri ofuráherslu á hið sjónræna sem þeir landslagsfræðingar sem skilgreina landslag á hlutlægan hátt, sem samansafn sjónrænna, hlut­bundinna eiginleika, hafa gerst sekir um. Gagnrýnendur hlutlægu nálgunarinnar telja að ofur­áhersla á hið sjónræna valdi því að aðrir þættir skynjunar; hljóð, lykt, snerting og hreyfingar líkamans, gleymist. Að þeirra mati ætti ekki að skilgreina landslag út frá sjónrænum eiginleikum heldur út frá skynjun þess sem dvelur í landslaginu.

          Skiptingin á milli hlutlægra og huglægra nálgana í landslagsfræðum á rætur sínar í heimspekilegri fagurfræði frá Platoni til Kants15; frá Platoni og fram á 17. öld voru fagurfræðilegir eiginleikar skilgreindir sem hlutlægir eiginleikar, en á 18. öld kom fram sú hugmynd að fagur­fræðilegir eiginleikar væru aðeins í auga þess sem skynjar. Það er því sterkur hugmynda­fræðilegur og sögulegur hlekkur á milli landslagshugtaksins og fagurfræði. Þrátt fyrir þetta hefur verið viss tregða til þess að viðurkenna þessa tengingu. Þeir sem hafa gert tilraunir til þess að komast handan huglægni og hlutlægni með því að skilgreina landslag sem sambandið á milli vitundar og viðfangs, þess sem skynjar og þess sem skynjað er, hafa forðast fagurfræðilega hlið landslagshugtaksins.16 Fagurfræðilegur skilningur á landslagi er þá talinn vera of takmarkaður við hið sjónræna og slík takmörkun staðfestir aðskilnað vitundar og viðfangs, þar sem vitundin horfir á viðfangið úr fjarlægð. Á sama hátt gefa náttúrufagurfræðingar, sem fást við fagurfræðilega reynslu af náttúrunni, lítinn gaum að landslagshugtakinu sjálfu, þeir tala um fagurfræðilegt gildi náttúru eða umhverfis án þess að fjalla um að slíkt gildi sé þungamiðjan í skilningi fólks á landslagi.

Rannsóknin

Það er sterkt samband á milli fagurfræði og landslags og það þarf að færa þessi tvö sjónarhorn nær hvort öðru. Landslag er einmitt sambandið á milli vitundar og viðfangs, en þetta sérstaka samband sem skilgreinir hvað landslag er, er fagurfræðilegt samband. Það getur ekki verið hrein tilviljun að landslag sé svo oft tengt við fegurð og aðra fagurfræðilega eiginleika í hugum fólks, og það væri undarlegt að horfa fram hjá þeim skilningi á landslagshugtakinu sem er hvað algengastur í hversdagslegu máli. Í íslensku hefur landslag verið tengt við fegurð allt frá dögum Íslendingasagnanna.17 Það virðist því skynsamlegt að nota þennan hversdagslega skilning á landslagi sem á sér svo djúpar rætur í tungumálinu.

          Til þess að skapa þessa tengingu á milli landslagsfræða og náttúrufagurfræði má skoða hvernig bæði landslagshugtakið og fegurðarhugtakið hafa verið túlkuð út frá fyrirbærafræði Maurice Merleau-Ponty.18 Bæði hugtökin varpa ljósi á ákveðið svið veruleikans þar sem skilin á milli vitundar og viðfangs, huglægni og hlutlægni, verða óljós. Fegurðarhugtakið er eitt af fáum hugtökum sem býður upp á möguleikann til þess að hugsa handan við tvíhyggju vitundar og viðfangs. Ástæðan er sú að upplifunin af fegurð býr yfir þeim eiginleika að vera hvorki fullkomlega huglæg né fullkomlega hlutlæg, og það sama gildir um landslagshugtakið. Til þess að varpa skýrara ljósi á þetta „millibilsástand“ fegurðar og landslags geri ég reynsluna af ákveðnum landslagsgerðum að upphafspunkti rannsóknar minnar á fagurfræði íslenskrar náttúru. Reynslan er þetta „millibil“ í hnotskurn, þar mætast vitund og viðfang, og því ætti náin skoðun á þessum fundi að varpa ljósi á merkingu og gildi fagurfræðilegrar upplifunar af landslagi. Náttúrufagurfræði fæst við ákveðna tegund mannlegrar reynslu og þess vegna er mikilvægt að rannsóknir í náttúru­fagurfræði byggi á fagurfræðilegri reynslu. Í inngangi að greinasafninu The Aesthetics of Natural Environments, benda Allen Carlson og Arnold Berleant á að framtíðarrannsóknir í náttúru­fagurfræði:

þurfi að snúast um meira en heimspekilega greiningu og fræðilegar úttektir. Við verðum að fást við spurningar eins og: Hvernig getum við lýst raunverulegum fagurfræðilegum upplifunum sem við verðum fyrir? […] Hvaða eiginleika náttúrulegs umhverfis teljum við verðmæta? Hvers konar stíga, útsýni, og nálganir upplifum við sem aðlaðandi? […] Hvers konar skynrænir eiginleikar og hvers konar rými, magn, og áferðir hafa fagurfræðilegt aðdráttarafl?19

Raunverulegar upplifanir fólks af ákveðnu landslagi geta veitt okkur svör við mörgum af þessum spurningum sem Berleant og Carlson telja upp, en það sem er mikilvægara er að svörin við þessum spurningum munu veita okkur upplýsingar um hvers konar gildi við tengjum við slíkar upplifanir og hvaða merkingu þær gefa lífi okkar.

          Það er m.a. með þessar spurningar í huga sem ég byggi rannsókn mína á fagurfræðilegu gildi íslensks landslags á fyrirbærafræðilegum og eigindlegum rannsóknum á upplifunum af tveimur landslagsgerðum sem einkenna Ísland. Fyrirbærafræðileg rannsóknarnálgun byggir á þeirri hugmynd að upphafspunktur þekkingarleitar eigi alltaf að vera bein reynsla okkar af veru­leikanum. Þær eigindlegu rannsóknaraðferðir sem ég hef notað hafa verið þróaðar á grundvelli þessarar fyrirbærafræðilegu nálgunar, en þær felast einmitt í því að skoða upplifun og reynslu fólks af veruleikanum með því að nota t.d. opin viðtöl20 og þátttökuathuganir.21 Aðferðirnar geta verið margvíslegar en það sem einkennir eigindlega rannsóknaraðferð er að markmið hennar er alltaf að bera kennsl á persónulega sýn og upplifun fólks af rannsóknar­efninu.22

          Eigindlegu rannsóknirnar felast í þátttökuathugunum í hópferðum um háhitasvæði og jökla og opnum viðtölum við nokkra þátttakendur í ferðunum. Jöklar og háhitasvæði urðu fyrir valinu sem rannsóknarsvæði því að þessar landslagsgerðir eru einkennandi fyrir Ísland. Þær finnast mjög víða á Íslandi en eru frekar sjaldgæfar á heimsvísu. Rannsókn á fagurfræði jökla og háhitasvæða er nýnæmi vegna þess að mjög takmarkað hefur verið fjallað um merkingu slíkra landslagsgerða innan náttúrufagurfræði. Nokkrar erlendar fagurfræðikenningar hafa fjallað um þá fagurfræðilegu eiginleika sem einkenna þessar landslagsgerðir samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna (t.d. undrun, hið háleita, hlutverk ímyndunaraflsins), en þar sem íslenskt landslag hefur ekki verið skoðað sérstaklega innan náttúrufagurfræðinnar hafa þessir þættir heldur ekki verið greindir út frá íslensku samhengi og með hliðsjón af hver öðrum. Það virðist því ljóst að kenningagrunnur náttúrufagurfræðinnar dugar ekki til þess að greina fagurfræði jökla og háhitasvæða, en slík fagurfræði getur aftur á móti varpað nýju ljósi á þær kenningar náttúru­fagurfræðinnar sem fást við að greina og túlka upplifanir af villtu, ómanngerðu landslagi þar sem kraftar náttúrunnar koma sterkt fram.

          Þessar aðferðir gera þannig kleift að skoða og greina fagurfræðilega upplifun af jöklum og háhitasvæðum og nota svo þá greiningu til þess að skoða nánar hið almenna samband manns og náttúru sem skapast út frá upplifunum af slíkum landslagsgerðum. Það er sannfæring mín að það sé þörf á slíkum empirískum grundvelli innan náttúrufagurfræði og landslagsfræða; empirískur grundvöllur sem felst í að skoða ákveðnar landslagsgerðir og upplifanir af þeim til þess að öðlast skilning á þeirri fagurfræðilegu merkingu og gildum sem eru tengdar slíkum upplifunum.

          Auk þess að leggja fram nýjar nálganir innan landslagsfræða og náttúrufagurfræði þar sem áhersla er lögð á að rannsaka reynsluna af ákveðnum landslagsgerðum sem eru sjaldgæfar á heimsvísu, þarf að auka þekkingu á fagurfræðilegu gildi íslenskrar náttúru og skapa þannig grundvöll fyrir nýjan farveg í umræðu um náttúruvernd á Íslandi. Öll umræða um þann hluta landslagsmats sem snýr að fagurfræðilegu gildi er mjög stutt á veg komin hér á landi og sú umræða hefur verið föst í viðjum tvíhyggju í vissum skilningi þar sem fagurfræðilegt gildi hefur verið flokkað sem huglægt, afstætt, persónulegt, jafnvel kvenlegt og annars flokks. Til þess að skapa nýjan farveg þarf þess vegna að dýpka umræðuna um fagurfræðilegt gildi með því að skoða íslenska náttúrufegurð og upplifun af henni með hliðsjón af þeim fræðilegu kenningum sem hafa fengist við þetta viðfangsefni á erlendum vettvangi í áratugi. Vonandi tekst þannig að skapa grundvöll til þess að ræða fagurfræðilegt gildi af alvöru og til þess að Íslendingar geti betur gert sér grein fyrir og skilið mikilvægi náttúrufegurðar og upplifunar okkar af henni.

Tilvísanir

1. Páll Skúlason. 2005. Hugleiðingar við Öskju. Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan. Bls. 7.

2. Sú reynsla sem hér er kölluð fagurfræðileg upplifun getur verið af mjög ólíkum toga. Náttúru­fagurfræðingurinn Ronald W. Hepburn hefur bent á að slík upplifun geti birst á mismunandi skala frá því að vera einföld aðdáun að lit eða formi yfir í dýpri upplifun þar sem fegurð eða aðrir eiginleikar sem erfitt er að lýsa í orðum kalla fram svokallað frumspekilegt ímyndunarafl. Hið frumspekilega ímyndunarafl getur m.a. falist í því að sjá hlutina í stærra samhengi og skynja sjálfan sig sem hluta af heild. Sú upplifun sem Páll Skúlason lýsir í hugleiðingum sínum myndi þannig teljast til fagurfræðilegrar upplifunar á dýpri enda skalans. Sjá: Hepburn, Ronald. 1996. ,,Landscape and the Metaphysical Imagination”, Environmental Values 5 : 191-204.

3. Páll Skúlason. 2005. Hugleiðingar við Öskju. Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan. Bls. 7.

1. Gott yfirlit má m.a. finna í: Allen Carlson og Arnold Berleant (ritstj.). 2004. The Aesthetics of Natural Environments. Broadview Press.

4. Gott yfirlit má m.a. finna í: Charles S. Brown og Ted Toadvine (ritstj.). 2003. Eco-Phenomenology: Back to the Earth Itself. New York: State University of New York Press.

5. Tim Ingold. 2000. The Perception of the Environment: Essays on livelihood, dwelling and skill. London & New York: Routledge.

6. Christopher Tilley. 1997. A Phenomenology of Landscape: places, paths and monuments. Berg Publishers.

7. Joachim Ritter. 1989. ,,Landschaft. Zur Funktion des Ästhetischen in der modernen Gesellschaft“ í J. Ritter, Subjektivität. Frankfurt: Suhrkamp. Bls. 141-163.

8. Council of Europe. 2000. European Landscape Convention. Text+Explanatory Report. European Treaty Series No. 176 [http://conventions.coe.int/Treaty/en/Treaties/Html/176.htm] Florence: Council of Europe.

9. Umhverfisstofnun. 2003. Náttúruverndaráætlun 2004-2008 – Aðferðafræði. Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar. Reykjavík: Umhverfisstofnun. 4.kafli: Landslag og landslagsvernd. Bls. 32.

10. Sama rit. Bls. 33.

11. Edda R.H. Waage og Karl Benediktsson. 2009. ,,Performing Expertise: Landscape, Governmentality and Conservation Planning in Iceland“. Journal of Environmental Policy and Planning 9(1): 1-22.

12. Sama rit. Bls. 17.

13. Sjá t.d. Emily Brady. 2003. Aesthetics of the Natural Environment. Edinburgh: Edinburgh University Press; Karl Benediktsson. 2007. ‘Scenophobia’ and the Aesthetic Politics of Landscape. Geografiska Annaler B:Human Geography.

14. Þorvarður Árnason, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Hlynur Bárðarson og Karen Pálsdóttir. 2010. ,,Íslenskt landslag: sjónræn einkenni, flokkun og mat á fjölbreytni”. Bls. 15. Á vefnum: http://www.rammaaaetlun.is/media/gogn/Landslagskyrsla-jan2010.pdf Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan. Bls. 7.

15. Lothian, A. 1999. ,,Landscape and the Philosophy of Aesthetics: Is Landscape Quality Inherent in the Landscape or in the Eye of the Beholder?” Landscape and Urban Planning 44: 177-198.

16. Karl Benediktsson. 2007. ,,‘Scenophobia’ and the Aesthetic Politics of Landscape”. Geografiska Annaler B:Human Geography.

17. Edda R. H. Waage. 2008. „Landslag – Landsleg – Landskapur: The concept of ‘landscape’ in the Icelandic language“ (óútgefin).

18. Hér má nefna áðurnefndar túlkanir Ingold og Tilley á landslagshugtakinu og túlkun Galen A. Johnson á fegurðarhugtakinu: Galen A. Johnson. 2010. The Retrieval of the Beautiful: Thinking Through Merleau-Ponty’s Aesthetics. Evanston, Illinois: Northwestern University Press.

19. Arnold Berleant og Allen Carlson, A. 2004. Introduction to The Aesthetics of Natural Environments. Broadview Press. Bls. 26-27.

20. Opið viðtal fer þannig fram að rannsakandinn kemur til viðtalsins með nokkrar meginspurningar í huga, en leiðir ekki samtalið í gegnum stífan og nákvæman spurningalista. Markmiðið er frekar að leyfa viðmælandanum að ráða för með því að spyrja mjög opinna spurninga.

21. Þátttökuathugun (e. participation observation) felst í því að rannsakandinn kemur inn í þær aðstæður sem á að rannsaka (t.d. inn á heimili, vinnustað, fund eða önnur mannamót), fylgist nákvæmlega með atburðarrásinni, hegðun og viðbrögðum fólks innan frá, og skrifar svo nákvæma skýrslu af atburðarrásinni.

22. Steven J. Taylor og Robert Bogdan. 1998. Introduction to Qualitative Research Methods. A Guidebook and Resource. John Wiley & Sons, Inc.

Heidegger og nútíma tilvistarstefna

William Barrett og Bryan Magee ræða saman

INNGANGUR

Magee Við og við kemst alvarleg heimspeki skyndilega í tísku í hugmyndaheiminum eftir dúk og disk, venjulega sem afleiðing af einhverjum sérstökum sögulegum kringumstæðum. Milli heims­styrjaldanna tveggja gerðist þetta með marxismann, aðallega sem afleiðing af rússnesku byltingunni. Eftir heimsstyrjöldina síðari gerðist það með tilvistarstefnuna, en hún komst í tísku á meginlandi Evrópu aðallega sem svar við reynslunni af hernámi nasista. Þegar ég tala um að heimspeki sé í tísku hef ég í huga að hún verður vinsæl ekki aðeins hjá háskólafólki heldur hjá rithöfundum af öllu tæi – skáldsagnahöfundum, leikskáldum, ljóðskáldum og blaðamönnum – svo að hún fer að gegnsýra allt menningarlegt andrúmsloft einhvers tíma og staðar. Í París eftir­stríðsáranna, svo dæmi sé tekið, virtist látlaust vísað til tilvistarstefnunnar úr öllum áttum, ekki aðeins í samtölum, vissum tegundum lista og alvarlegri tegundum blaðamennsku, heldur í alþýðlegri blaðamennsku, jafnvel í skemmtanalífi almennings, einkum í kabarettum og nætur­klúbbum. Frægasta nafnið sem tengdist allri þessari hugmyndalegu og félagslegu þróun, bæði þá og nú, er nafn Jean-Paul Sartres. En tilvistarstefna þessarar aldar hófst í rauninni ekki í Frakk­landi heldur í Þýskalandi – og á tímabilinu eftir heimsstyrjöldina fyrri en ekki þá síðari. Með tilliti til hugmynda er mikilvægasti einstaklingur hreyfingarinnar ekki Sartre heldur Heidegger; það er að segja, þeir sem fjalla um nútíma tilvistarstefnu í alvöru eru næstum því einhuga um að Heidegger, sem er eldri en Sartre, sé dýpri og frumlegri hugsuður. Í þessari umræðu munum við því nálgast tilvistarstefnuna aðallega út frá verkum Heideggers – þótt við munum einnig segja eitthvað um Sartre og hvernig hann fellur inn í myndina.

Martin Heidegger fæddist í Suður-Þýskalandi árið 1889 og bjó á sama litla blettinum í Evrópu nánast alla ævi. Hann var nemandi Husserls áður en hann varð sjálfur kennari í heimspeki. Árið 1927, þrjátíu og átta ára að aldri, gaf hann út mikilvægustu bók sína, Veru og tíma. Hann lifði upp undir hálfa öld eftir það og skrifaði mikið meira, sumt mjög áhugavert, en ekkert annað sem kom frá honum átti nokkurn tíma eftir að verða jafn stórt, jafn gott eða jafn áhrifamikið og Vera og tími. Bókin er ekki auðveld aflestrar, en höfundur þess sem mér virðist vera best allra inngangsrita um tilvistarstefnuna fyrir hinn almenna lesanda ræðir hér um hana við mig. Það er William Barrett, prófessor í heimspeki við New York háskóla og höfundur hinnar ágætu bókar Irrational Man.1

UMRÆÐA

Magee Væri ég einhver sem vissi alls ekkert um heimspeki Martins Heideggers og þig langaði til að gefa mér grunnhugmynd um hana, hvernig mundirðu byrja?

Barrett Ég mundi byrja með því að reyna að staðsetja Heidegger innan sögulegs samhengis hans en það yrði stærra samhengi en það sem þú hefur gefið til kynna. Það yrði mælt í öldum frekar en áratugum. Samhengið sem ég veldi mundi reyndar vera tímabil nútíma heimspeki í heild sem byrjar með Descartes á sautjándu öld. Descartes var einn af upphafsmönnum hinna Nýju vísinda – þess sem við köllum nú nútíma vísindi – og fyrirætlun hans um að koma þeim af stað fól í sér undarlegan klofning milli vitundar og ytri heims. Hugurinn kerfisbindur náttúruna í megindlegum tilgangi – til mælinga og útreikninga, í þeim endanlega tilgangi að ráðskast með náttúruna – og um leið er vitundinni sem gerir allt þetta, hinni mannlegu hugveru, teflt gegn náttúrunni. Það sem kemur þá fram er mjög athyglisverð tvískipting milli hugar og ytri heims. Næstum því öll heimspeki á næstu tveimur og hálfri öld lagaði sig að þessari umgjörð. En í byrjun þessarar aldar sjáum við svo að farið er að brydda á uppreisn í ýmsum myndum og hjá ýmsum stefnum í heimspeki gegn þessari tvískiptingu sem rekja má til Descartes, vítt og breitt um heiminn – í Englandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Heidegger er einn af uppreisnarmönnunum gegn Descartes. Reyndar höfum við í þessari uppreisn góðan lykil að hugsun hans. Það væri hvað sem öðru líður þarna sem ég mundi byrja fræðsluna um heimspeki hans.

Magee Upphafspunktur þinn er þá þessi: Með framgangi nútíma vísinda, en gullöld þeirra var sautjánda öldin, kom sú skoðun fram í menningu okkar að veruleikinn í heild skiptist milli skynjenda og hins skynjaða eða milli hugvera og hlutvera. Til eru mannverur (og kannski líka Guð) sem skynja heiminn og til er heimurinn sem þær skynja. Þessi tvíhyggja, þessi skoðun um tvískiptingu alls veruleikans, gegnsýrir orðið hugsun okkar, heimspeki okkar og vísindi. En samt, gagnstætt því sem flestir vestrænir karlar og konur halda sennilega, er þetta viðhorf til veruleikans sérkennandi fyrir Vesturlönd og, það sem meira er, sérkennandi fyrir þau aðeins síðustu þrjár eða fjórar aldir.

Barrett Það er óþægilegt viðhorf vegna þess að í einum skilningi lifum við ekki í raun og veru með því. Ég lít ekki á þig sem hug tengdan við líkama. Og ég lít ekki heldur svo á að tilvist þín eins og ég er að tala við þig núna sé á einhvern hátt vafasöm – að hún sé eitthvað sem ég álykta. Það er gagnstætt venjulegri tilfinningu okkar fyrir hlutunum að haga okkur eins og hugurinn og hinn ytri heimur séu andstæðir hvor öðrum á þennan hátt. Uppreisnin gegn tvíhyggjunni, sem eitt af sérkennum heimspeki tuttugustu aldar, er því auðskiljanleg. Heidegger hefur sína eigin uppreisnaraðferð. Hann byrjar út frá þeim aðstæðum sem við erum í raun og veru í. Þú og ég erum saman í sama heimi – við erum tvær mannverur innan sama heims. Ég mundi byrja að kynna heimspeki Heideggers með þessu grundvallarhugtaki „að vera í heiminum“. Orðið ‘vera’ kann að gera okkur bilt við, okkur finnst það kannski langsótt og hástemmt; en við verðum að skilja það í hversdagslegustu og algengustu merkingu. Hvernig venjulegar mannverur eru áþreifanlega í heiminum er upphafspunktur okkar. Og það er þar sem við byrjum að hugsa heimspekilega.

Magee Ég verð að segja að þessi upphafspunktur er mér að skapi. Sú hugmynd að veruleikinn sé klofinn milli tveggja eðlisóskyldra verunda er nokkuð sem mér hefur aldrei þótt eðlilegt: Það var eitthvað sem ég varð að læra í skóla eða sem nemandi, og til að byrja með fannst mér það furðuleg, jafnvel framandi hugmynd. Reynsla okkar sem einstaklinga er í miklu meira samræmi við það sem þú ert nú að segja: Við stígum upp úr meðvitundarleysi frumbernskunnar til vitundar um okkur sem verur í heiminum. Við bara erum hér. Og hér byrjum við.

Barrett Strax og okkur hefur verið komið kirfilega fyrir í heiminum verður aðalverkefni heimspekinnar að lýsa. Heimspekingurinn leitast við að kanna og lýsa hinum ýmsu tilvistarháttum okkar í þessum heimi. Hér eru efnistök Heideggers gerólík efnistökum uppreisnarmanns gegn tvíhyggju Descartes á borð við G. E. Moore sem er upptekinn af vanda­málum þekkingar og skynjunar. Tökum grein Moores „Sönnun á ytri heimi“, sem hlotið hefur frægð af verðleikum. Hún var upphaflega flutt frammi fyrir áheyrendum – Bresku akademíunni, ef ég man rétt. Ég ímynda mér að þessir áheyrendur hafi ekki talið að raunveruleg tilvist þeirra í salnum sem hlustaði á Moore værri komin undir því að hann gæfi vel heppnaða sönnun á þeirri tilvist. Staðreyndin er að þegar maður ber fram þekkingarfræðilega spurningu eins og þessa verður hann þá þegar að vera í heiminum til þess að bera hana fram. Að fá aðgöngumiðann að hinum venjulega heimi er ekki háð því að maður leysi þekkingarfræðilegar ráðgátur. Þekkingarfræði er vitsmunaleg starfsemi sem við, eða sum okkar, iðkum sem verur í heimi.

Magee Felur nafnið ‘tilvistarstefna’ í sér að tilvistarheimspekingar líti á tilvist okkar í þessum heimi sem mikilvægasta heimspekilega vandamálið?

Barrett Það er vandamál í þeim skilningi að við verðum að ráða fram úr því. En það er hið gefna: það er ekki ályktað. Vandinn er þá að gefa lýsingu á því. Vel á minnst, það er mikilvægt þegar Heidegger á í hlut að leggja áherslu á að markmið hans er að lýsa. Hann er ekki fræðilegur frumspekingur. Hann er ekki að setja saman óhlutbundna kenningu um hvað hinsti veruleiki sé.

Magee Mundirðu fallast á eftirfarandi samantekt á umfjöllun okkar fram að þessu? Vestræn vísindi, tækni, heimspeki og samfélagið sjálft hafa öll þróast á tiltekinn hátt á síðustu þremur eða fjórum öldum sumpart vegna þess að náin tengsl eru milli þróunar þeirra. Meginviðfangsefni hins vestræna manns hefur verið að sigrast á náttúrunni. Þetta hefur orðið til þess að hann lítur á náttúruna með tilteknum hætti, eins og hann sé húsbóndinn en hún þrællinn, hann frumlagið en náttúran andlagið. Þetta hefur leitt til klofnings í viðhorfi hins vestræna manns til veruleikans sem hefur orðið hluti af allri hugsun hans, þar með talin vísindi hans og heimspeki. Í heimspeki, að gefnu þessu viðhorfi til veruleikans, kemur þekkingarvandinn næstum óhjákvæmilega til með að verða fyrirferðarmestur. „Hvað vitum við? Hvernig getum við vitað að við vitum? Hvað er það að vita? Er það sama og að vera viss?“ Þetta eru meginspurningar allrar heimspekihefðar okkar frá dögum Descartes. En Heidegger er ekki aðallega að fást við þessar spurningar. Hann er ekki að fást við vandamálið um hvað það sé að vita heldur um hvað það sé að vera. Hvað er það að vera til? Hvað er þessi tilvist sem við einfaldlega erum stödd í eða sitjum uppi með?

Barrett Já, þetta er rétt.

Magee Hann byrjar þá, eins og rökrétt má kallast, rannsóknir sínar með greiningu á þeim tilvistarhætti sem við höfum beinasta og milliliðalausasta reynslu af, það er að segja okkar eigin reynslu. Fyrsti hluti Veru og tíma samanstendur af nákvæmri greiningu á meðvitaðri sjálfskennd, beinni þekkingu okkar á eigin tilvist í hennar frumlægustu mynd. Hann kallar þetta „tilvistarlega greiningarhlutann“. Maður kynni að hafa ætlað að þessi reynsla væri ógreinanleg, einmitt vegna þess að hún er milliliðalaus. En Heidegger hrekur þetta með því að tengja saman með góðum árangri tvær aðferðir. Önnur er hin fyrirbærafræðilega aðferð að einbeita sér til hins ýtrasta að fyrirbærunum eins og þau eru í raun og veru upplifuð. Hin er kantíska aðferðin að spyrja sig: „Hvað þarf að vera tilfellið til þess að þetta sé tilfellið, þ. e. hver eru nauðsynleg skilyrði þessarar reynslu þannig að væru þau ekki snar þáttur í henni þá gæti ég ekki haft hana?“ Með þessari aðferð tekur hann til við að rekja sundur innri gerð meðvitaðrar sjálfskenndar okkar í aðgreinda þætti. Í fyrsta lagi – þar sem það gæti ekki hugsanlega verið nein meðvituð sjálfskennd án einhverrar skynjunar um að eitt eða annað væri að gerast – þá verður að vera einhvers konar ‘atburðasvið’, einhver ‘veröld’: Veran er því óhugsandi án þess að hún sé ‘veraldleg’. Í öðru lagi, vitneskja okkar um hvað svo sem það er sem við höfum vitneskju um merkir að það verður að vera einhvers konar þátttaka vitundar okkar í því. Þessu gefur hann heitið Sorge sem venjulega er þýtt sem ‘áhyggja’ en væri kannski betra að þýða sem ‘umhyggja’ eða ‘þátttaka’. Í þriðja lagi, ekkert af þessu er hugsanlegt án einhvers konar atburðarásar: Allt verður að hafa tímavídd – veran hlýtur því að vera í tíma. Og þar fram eftir götunum. Sérhver rannsókn er, eðli sínu samkvæmt, erfið og langvarandi, en maður fær hjá Heidegger, eins og hjá Kant, þá spennandi tilfinningu að gera sér grein fyrir að það sem maður hafði alltaf talið vera jarðhæð vitundarinnar hefur undir sér heila öðruvísi hæð sem hægt er að komast inn á og rannsaka.

Einhver sem hefur fylgst með okkur hingað til kynni að segja: „Já, þetta er allt mjög áhugavert en það er sjálfsskoðunarsálfræði, ekki heimspeki, eða hvað?“ Stutta svarið við þessu er nei. Tilgangurinn með rannsókn Heideggers er ekki að uppgötva eitthvað um mannlega hegðun, eða hvernig hugur okkar starfar, heldur að byrja að útlista tilvistarhugtakið með því að reyna að ákvarða hvað sé ósmættanlegt í því, hvað svo sem það er, sem við erum að segja um okkur sjálf þegar við segjum að við séum til. Þetta er óumdeilanlega heimspekilegt viðfangsefni. Mér finnst það að sumu leyti mest heillandi af öllum heimspekilegum viðfangsefnum. En ég geri mér grein fyrir að sumum veitist erfitt að takast á við það, ef til vill vegna þess að það er ekki í samræmi við venjulega hugsunarhætti okkar. Fyrir heimspekinga er það oft erfitt viðureignar sökum þess að það er vandamál sem er allsendis ólíkt þekkingarvandanum sem er miðlægur í hefð okkar og er þess vegna svo óvenjulegt í samhengi þeirrar hefðar.

Barrett Það er óvenjulegt. En ég vil aftur leggja áherslu á að hið miðlæga hlutverk sem þekkingarvandinn hefur helgað sér er nokkuð sem aðeins hefur einkennt heimspekina í meiri eða minni mæli eftir Descartes. Þekkingarvandinn var ræddur af fyrri tíma heimspekingum, en hann hafði ekki þá algerlega miðlægu stöðu sem hann hafði eftir Descartes. Í einhverjum skilningi hugsar Heidegger því sem svo að hann sé að hverfa aftur til Grikkja, einkum til heimspekinga fyrir daga Sókratesar.

Magee Við höfum sagt að það sem Heidegger er að reyna að gera sé að gefa lýsingu á veruleikanum sem við erum stödd í, sem merkir lýsandi greiningu á veru okkar í heiminum. Leikmaður gæti spurt: „Hver er tilgangurinn með því? Við höfum þessa tilvist. Hér erum við. Við erum að lifa hana. Í vissum skilningi er hún allt sem við höfum. Hvernig getur lýsing á því sem okkur er þegar kunnugra en nokkuð annað gefið okkur eitthvað sem skiptir máli? Já, hvað getur hún sagt okkur sem við vitum ekki nú þegar?“

Barrett Það er hið kunnuga sem venjulega reynist okkur óskiljanlegt í lífinu. Það sem er fyrir framan nefið á okkur er það sem við sjáum síðast. Það er rétt að þau einkenni mannlegrar tilvistar sem Heidegger lýsir eru að mörgu leyti hversdagsleg, en þegar við erum búin að lesa greiningu hans sjáum við þau á þann hátt sem við höfum aldrei alveg séð þau fyrr.

Magee Mundirðu segja að það sem Heidegger er að gefa okkur sé eingöngu greining á hinu hversdagslega, hinu venjulega, hinu kunnuglega?

Barrett Til að byrja með, já. En það er þá einnig áhersla á hið afbrigðilega og hið óvenjulega – hinn óhugnanlega þátt í tilverunni sem alltaf skýtur upp kollinum. Ég vil bera Heidegger að þessu leyti saman við annan heimspeking hins hversdagslega (og nota þetta orð í almennustu merkingu þess), Wittgenstein í seinni heimspeki hans. Samanburðurinn er athyglisverður vegna þess að Wittgenstein sér fyrir sér verkefni heimspekinnar sem það að greiða úr flækjunum í hversdagsmálinu svo að við getum starfað áfram á sama stigi skilvirkra samskipta innan heimsins. Í þessum skilningi getum við næstum því gert okkur í hugarlund, með Wittgenstein, þann möguleika að ef við greiddum úr öllum flækjunum í tungumálinu þá hyrfu öll vandamálin eða spurningarnar sem urðu til þess að við fórum að stunda heimspeki og heimspekin sjálf mundi því hverfa. En með Heidegger rólum við í þessum hversdagsveruleika þegar allt í einu óvenjulegar gjár opnast undir fótum okkar.

Magee Hvað ertu að hugsa um – dauðann?

Barrett Dauðinn væri eitt dæmi.

Magee Hver væru önnur?

Barrett Angist. Samviska. En tökum dauðann. Þú spurðir mig: „Hvernig geta lýsingar hans gefið okkur nokkuð sem við vitum ekki fyrir?“ Lýsingin sem hann gefur á dauðanum er lýsing sem umbyltir venjulegum hugmyndum okkar. Því hinar venjulegu hugmyndir okkar reyna af öllum mætti að sneiða hjá veruleika dauðans. Venjulega hugsum við um dauðann sem staðreynd í heiminum – eitthvað sem við lesum um í andlátsfréttum. Hann kemur fyrir annað fólk. Vissulega kemur hann fyrir mig, en ekki strax, svo að hann er eitthvað þarna úti í heiminum, enn sem komið er utan við mig. Það furðulega er að staldri ég við til að hugsa um hann sem dauða minn geri ég mér ljóst að dauði minn verður aldrei staðreynd í heiminum fyrir mig. Ég mun aldrei vita að ég sjálfur hafi dáið.

Magee Wittgenstein segir þetta í Tractatusi: „Dauðinn er ekki atburður í lífinu: Við upplifum ekki dauðann.“

Barrett Einmitt. Dauði minn er eitthvað sem hefur afar mikla þýðingu fyrir mig en þó getur hann aldrei verið staðreynd í mínum heimi. Í mínum heimi getur hann aðeins verið möguleiki. Hann er samt alltaf nálægur veruleiki. Vera má að ég sé ekki til hvenær sem er. Og þessi möguleiki „gerir að engu alla aðra möguleika mína“, eins og hann orðar það. Í þessum skilningi er hann ýtrastur allra möguleika. Og aðalatriðið hjá Heidegger er að strax og þú gerir þér ljóst að þessi möguleiki gegnsýrir tilveru þína eins og hún leggur sig getur þú annaðhvort flúið óttasleginn frá þeirri staðreynd, brotnað niður eða horfst í augu við hana. Ef þú horfist í augu við hana spyrðu þig þessarar spurningar: „Frammi fyrir þessum möguleika, hvaða merkingu hefur líf mitt?“ Með öðrum orðum, á þessu stigi hugsunar sinnar mundi Heidegger vera sammála Tolstoj að grundvallarspurningin sem sérhver maður, og þess vegna sérhver heimspekingur, verður að leggja fyrir sjálfan sig er þessi: „Fyrst dauðinn er til hvaða merkingu / tilgang hefur líf mitt?” Þessi spurning er eðlileg afleiðing af því að horfast í augu við sannleikann um hvernig við stöndum í raun og veru gagnvart dauðanum, sannleika sem stangast á við það hvernig fólk hugsar og talar venjulega um hann. Og dauðinn hugsaður sem varanlegur innri möguleiki fær alveg nýja vídd í samanburði við dauðann skoðaðan sem atburð í heiminum.

Magee Ég verð að segja einu sinni enn að þetta er nokkuð sem höfðar sterkt til mín. Enda þótt ég væri þjálfaður í gerólíkri heimspekihefð finnst mér heilmikið vit í öllu sem þú segir. Ég hef þessa tilfinningu í ríkum mæli – ég býst við að fjöldi fólks hljóti að hafa hana – að hversdagslíf okkar sé í senn ómerkilegt, innantómt, ofurkunnuglegt en samt dularfullt, furðulegt. Ég hef í enn ríkari mæli þá tilfinningu að það að horfast í augu við dauðann fái mann til að leita að einhverri merkingu eða tilgangi í lífi sínu. Hvernig fer Heidegger að því, þegar hér er komið, að svara spurningum sínum?

Barrett Hann hefur ekkert svar. Hann er bara að benda á þá formgerð mannlegrar tilvistar sem umgjörðina sem spurningarnar verða að falla inn í. Hann er að sýna fram á að þetta er vídd mannlegrar tilvistar sem einfaldlega verður að horfast í augu við. Svarið við spurningunni: „Hvaða merkingu hefur líf mitt?“ er komið undir einstaklingnum. Í þessum skilningi hefur Heidegger enga siðfræði.

Magee Þrátt fyrir það kemur það fram með eðlilegum hætti að tiltekin umræðuefni eru miðlæg í hugsun hans, og hann útfærir þau í löngu máli – þú nefndir eitt eða tvö rétt áðan. Getum við tekið þau mikilvægustu til umfjöllunar? Til að mynda er eitt einkenni lífsins sem hann veitir mikla athygli sú staðreynd að við erum einfaldlega stödd hér án þess að okkur hafi verið boðið. Okkur er öllum bara varpað inn í heiminn – reyndar merkir orðið sem hann notar um þetta hugtak bókstaflega ‘það að vera varpað eða kastað’: Geworfenheit.

Barrett Við völdum ekki foreldra okkar. Við fæddumst af þessum foreldrum, á þessum sérstaka tíma, á okkar sérstaka sögulega tímaskeiði, í sérstöku samfélagi með þá arfgerð, hver svo sem hún er, sem okkur er gefin – og með þessu verðum við að móta líf okkar. Sjálft upphaf mannlegs lífs er því eins og teningi sé varpað. Hending þess á sér djúpar rætur í óhjákvæmilegum staðreyndum. Þær eru hið ‘gefna’ fyrir okkur – svo þessu þekkingarfræðilega hugtaki sé gefin tilvistarleg merking.

Magee Og þessari ‘vörpun inn í heiminn’ og þar af leiðandi hendingu sem gegnsýrir næstum því allt sem varðar líf okkar fylgir jafn óhjákvæmilegur endanleiki, er það ekki? Ævi manns varir ákaflega stuttan tíma. Það er ekki bara þannig að við vöknum í heiminum og erum einfaldlega stödd hér, heldur erum við varla orðin vön þessu þegar því lýkur öllu aftur. Og sú staðreynd að því lýkur er fyrir flest okkar skelfileg. Hvernig ráðleggur Heidegger okkur að sætta okkur við allt þetta?

Barrett Engar forskriftir. Kjarni málsins er að hvaða ákvörðun sem við tökum til að gefa lífi okkar merkingu eða mæta dauðanum verðum við að horfast í augu við aðstæður mannsins með einum eða öðrum hætti. Hann segir þetta ekki en gefið er í skyn að kannski sé öll heimspeki svar við spurningunni um dauðann. Sókrates hafði orð á að öll heimspeki væri hugleiðing um dauðann – sem við gætum túlkað frjálslega að merkti að maðurinn mundi ekki hugsa heimspekilega þyrfti hann ekki að horfast í augu við dauðann. Værum við allir Adam sem lifðum eilíflega í garðinum Eden mundum við bara rölta um og velta fyrir okkur hinu og þessu en ekki neinu alvarlegu heimspekilegu viðfangsefni.

Magee Eitt sem Heidegger og tilvistarheimspekingar horfast í augu við, og sem ég hygg að fyrri heimspekingar hafi ekki fyllilega gert, er sú staðreynd að vitund okkur um dauðann veldur angist. Reyndar er hún skelfileg. Þessi angist frammi fyrir okkar eigin endanleika er eitt af meginþemum tilvistarheimspekinnar, er það ekki?

Barrett Jú. Og vitundin skerpist af þeirri staðreynd að það að vera til yfirleitt felur í sér að fara inn í framtíð sem hefur að geyma óumflýjanlegan dauða okkar. Hér komum við að öðru meginþema Heideggers – þeirri staðreynd að vera okkar öll er gegnsýrð af tíma. Já, þess vegna er heiti bókar hans Vera og tími. Við byrjum tilvist okkar sem verkefni í þeim skilningi að hún er eitthvað sem lagt er á okkur og við síðan tökum á okkur. Mannleg tilvist er ferli, (svo ég umorði Pope) hún er aldrei en á alltaf eftir að vera. Við erum alltaf flækt í það verkefni að skapa okkur sjálf – og alltaf út frá raunverulegum upphafspunkti okkar sem hefði getað verið öðruvísi.

Magee Og allan tímann á ferð inn í opna framtíð.

Barrett Rétt. Framtíðin er aðaltíðin hjá Heidegger vegna þess að hann sér manninn í meginatriðum sem opna veru sem stefnir fram. Ástæðan fyrir því að við smíðum hugmyndina klukku-tími og búum til úr og aðra tímamæla er einmitt sú að við ætlum að nota tíma okkar. Við erum að varpa okkur inn í framtíðina. Nútíðin hefur aðeins merkingu fyrir okkur að svo miklu leyti sem hún opnast í átt til mögulegrar framtíðar.

Magee Við vorum ekki fyrr komnir að viðfangsefninu ‘angist’ rétt áðan en við hurfum frá því og fórum að tala um ‘tíma’. Getum við farið aftur til ‘angistarinnar’ – þangað sem þú samþykktir að hún væri eitt af meginþemum tilvistarstefnunnar?

Barrett Angistin hefur átt margvíslegan feril í nútíma menningu. Fyrir fáeinum áratugum, þegar Auden gaf út bók sína The Age of Anxiety, komst hún meira að segja í tísku. Hún var það sem var ‘inni’. Fólk ræktaði angist sína – sem er heimskulegt að gera vegna þess að (minnugir umræðu okkar um dauðann) angistin er innbyggð í aðstæður okkar. Angistin er einfaldlega okkar mannlega tilvist, í óvissuástandi sínu, að koma upp á meðvitundarstig – hið einskæra óvissu­ástand mannlegrar tilvistar að titra gegnum okkur. Önnur nútíma afstaða – sumpart afleiðing þess að við erum tæknisamfélag sem ræður yfir vissum tækjum, lyfjum, úrræðum af ýmsu tæi – er að við ímyndum okkur að það hljóti að vera til eitthvert tæki eða ráð sem er þannig að við getum ýtt á hnapp og losnað við angistina. Hér er blekkingin sú að hún sé ekki eitthvað sem verður að horfast í augu við og lifa gegnum. Báðar öfgarnar eru óheppilegar. Angist er einfaldlega hluti þess að vera mannlegur. Á einum stað segir Heidegger reyndar: „Það eru til alls konar afbrigði af angist: í sumum myndum hefur hún friðsæld skapandi löngunar.“ Með öðrum orðum ef við værum ekki angistarfull sköpuðum við aldrei neitt.

Magee Tilraun mannsins til að flýja frá eigin angist, að komast undan raunveruleika eigin dauðleika, leiðir til einhvers sem er annað stórt þema tilvistarstefnunnar: firring. Við lokum augunum fyrir skelfilegum staðreyndum eigin tilvistar og leitumst raunar við að komast hjá að lifa með tilliti til þessara staðreynda. Það er eins og við séum utan við raunveruleika eigin lífs. Firring er líkt og angist nokkuð sem tilvistarstefnuheimspekingar hafa haft mikið að segja um – og bæði hugtökin hafa verið stórlega misskilin og misnotuð af nýtískulegum höfundum.

Barrett Já, reyndar hefur ‘firring’ verið svo mikið í umferð að sé orðið notað nú segir fólk: „Ó, þetta leiðinlega umræðuefni.“ Engu að síður vill svo til að þetta er eitt djúptækasta þema nútíma menningar: Hegel og Marx voru uppteknir af því og það hefur verið eitt aðaleinkenni bókmennta tuttugustu aldar. Bara sú staðreynd að siðmenning okkar hefur svo margar upplýsingaleiðir til umráða – svo að fólk veit hvað er ‘inni’ og hvað er ‘úti’ og orð eins og ‘firring’ ganga manna á milli þangað til þau verða ekkert annað en innantómar klisjur – eykur á firringu okkar, er eitt þeirra afla sem gera það. Blaður okkar um firringu gerir okkur einungis firrtari.

Magee Vitanlega, að fara með þessa hluti eins og tískufyrirbæri er að taka þá ekki alvarlega og þess vegna leið til að sneiða hjá þeim.

Barrett Já, en sjáðu til, firring kemur fyrir á nokkrum stigum. Eitt er það stig þar sem við getum týnt sjálfi okkar í hinu ópersónulega félagslega sjálfi – maður felur sig í félagslegu hlutverki sínu.

Magee Eins og Wordsworth orðaði það:

          „Veraldarvafstrið ríður okkur á slig:
          Sýknt og heilagt að afla og eyða slítur okkur út.
          Náttúran er orðin okkur fjarlæg og framandi.
          Við höfum svikið hjörtu okkar . . .“

Barrett En það er til annars konar firring. Og hún er raunverulegt vandamál, í þessum skilningi – ég orða þetta á svolítið gamansaman hátt, en ég held þú skiljir það. Hér er ég, stiginn af himnum ofan niður í London. Ég er ekki alveg búinn að finna sjálfan mig. Það virðist allt frekar framandlegt.

Magee Þér finnst þú ekki vera í sambandi við veruleikann.

Barrett Já. Þegar ég geng um göturnar er þetta framandi fólk. Eftir fáeina daga finnst mér sennilega að ég sé ‘heima’. Grunnmerking orðsins ‘firring’ er að vera framandi.

Magee Þetta finnst okkur öllum í framandi borgum. En sumum finnst þeir vera eins og framandi menn í heiminum sem slíkum.

Barrett Þeir búa í eigin skinni sem framandi menn.

Magee Við höfum nefnt helstu viðfangsefnin í Veru og tíma: þau tvö sem koma fyrir í titlinum sjálfum, og einnig dauðann, angist og firringu. Það er heilmikið annað í bókinni, mikið af því of tæknilegt, eða að minnsta kosti of erfitt, til að fjalla um í þessari stuttu samræðu. Dýrmætast af öllu er, að því er mér virðist, hin fyrirbærafræðilega greining á meðvitundinni – óvanalega djúp, hugvitssamleg og frumleg rannsókn, í raun afreksverk snillings. Í heild fjallar bókin um raunverulega djúpstæð efni. Og jafnvel þar sem hún gefur engin svör er sú staðreynd afar mikils virði að hún varpar ljósi á spurningarnar, eins og hún vissulega gerir.

Hins vegar, líkt og svo margir aðrir heimspekingar, eftir að Heidegger hafði útfært ‘stóra’ heimspeki sem ungur maður, hélt hann áfram og í einhverjum skilningi burt frá fyrri viðfangsefnum sínum. Enda þótt Vera og tími væri kynnt sem fyrra bindi þess sem átti að vera tveggja binda verk, kom annað bindið aldrei út, svo að við fengum bara hálfa bók. Hvers vegna lauk hann ekki verkinu sem hann hafði áformað?

Barrett Þetta er efni sem menn bæði rökræða og velta vöngum yfir. Heidegger reyndist hafa skilið eftir sig handritið að seinni hlutanum. Það verður gefið út sem eins konar Nachlass. En sjálfur held ég ekki að það breyti miklu fyrir skilninginn á honum. Ég held ég viti hvað hann ætlaði að segja í seinni hlutanum: Hann sagði sumt af því í fyrstu bók sinni um Kant. En þá gerist þetta – einhvers staðar í kringum 1936 – sem Heidegger fræðimenn kalla ‘vendinguna’. Honum fannst, í einhverjum skilningi, að hann hefði í Veru og tíma einskorðað athyglina um of við manninn. Hann sá að heimspeki sín var öflug gerð mannhyggju en líka að hún skildi eftir óljósa þá spurningu hverjar væru rætur mannverunnar.

Magee Þú átt við heim náttúrunnar, efnisheiminn?

Barrett Alheiminn. Í vissum skilningi, sjáðu til, mundi Heidegger kalla sig fylgismann Parmenídasar. Hann hefur skrifað um Parmenídas, gríska spekinginn sem fékk hina spennandi hugmynd: ‘alheimurinn er eitt’. Í fyrsta sinn í sögu mannsins kemur hér fram hugmyndin um alla tilveruna sem eitthvað sem við verðum að tengja okkur við í hugsun okkar. Heidegger álítur að það sem hefur gerst með nútíma menningu sé einmitt að við höfum glatað þessum alheimsrótum, orðið viðskila við tilfinninguna fyrir tengslum við heildina.

Magee Hvers vegna ætti að eigna þetta nútíma menningu sérstaklega? Er það ekki hluti af aðstæðum mannsins?

Barrett Það er það í þeim skilningi að maðurinn er vera sem flýr frá sannleikanum jafnvel þegar hann sækist eftir honum – og Parmenídes andmælti þessari ‘firringu’ hjá samtíðarmönnum sínum. En ég tel að ein af ástæðunum fyrir því að það gerist sérstaklega í menningu samtímans sé að við höfum byggt upp miklu tæknilegra samfélag. Við erum umloknari einskærum manngerðum ramma hluta en fólk var áður fyrr. Ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar ég kem til London, að hún sé nú mjög ólík þessari borg á dögum Shakespeares sem þá var miklu nær sveitinni – maður gat hreint og beint gengið út í sveit.

Magee Að setja firringu í sögulegt samhengi og þar af leiðandi með tilliti til þess sem er sérstakt við aðstæður mannsins á tuttugustu öld, er þá eitthvað sem Heidegger fór að verða upptekinn af eftir að hann hafði lokið við Veru og tíma?

Barrett Já. En seinni Heidegger er ekki kerfisbundinn, ekki einusinni kerfisbundinn á þann hátt sem hann leitast við að vera í Veru og tíma. Seinni Heidegger er aðallega að fást við vandamál skáldskapar og vandamál tækni. Hann telur að eitt af verkefnum heimspekinga á okkar tímum sé að reyna að hugsa til enda hvað tæknin felur í sér. Nútíma hugsun er of yfirborðsleg, of óekta hvað varðar viðfangsefnið tækni. Til er fólk með mjög hálfkæringslega afstöðu: Það er á móti vélum eða það er með tækni. Það er ekkert vit í því, sagði Heidegger, að maður á þessum sérstöku tímamótum í sögunni sé með eða á móti tækni. Við erum háð tækninni. Væri hún fjarlægð mundi öll siðmenningin hrynja. Þetta er áhættufé tilvistar okkar, hluti af hættuspili okkar. Á hinn bóginn er sú staðreynd sem kjarnorkusprengjan hefur gert mannlegri vitund ljósa almennt að tækninni fylgja róttækir möguleikar. Hingað til hefur fólk mótmælt tækninni sem orsök staðbundinna vandræða – atvinnuleysis, mengunar og þar fram eftir götunum – en sú hugmynd að maðurinn gæti tortímt sjálfum sér sýndi okkur hina skelfilegu möguleika innan tækniheimsins. Seinni Heidegger var að hugsa það til enda hvar í sögu mannsins rætur tæknilegrar tilveru hans liggja og hvert hún kynni að fara með hann.

Magee Hvernig tengist áhugi hans á skáldskap áhuga hans á tækni – nema hann sjái þetta tvennt sem gagnstæðar hliðar á sömu mynt?

Barrett Skáldskapur og tækni eru það. Eins og þér er vel kunnugt úr öðrum greinum heimspeki samtímans er viss tilhneiging hjá sumum heimspekingum að fara með tungumálið eins og formlegan reikning, tæki sem hægt er að ráðskast með og stjórna. Nú er það svo með ljóð, að dómi Heideggers, að það lætur ekki að kröfum vilja okkar. Skáldið getur ekki viljað yrkja ljóð, það bara kemur. Og við sem lesendur þess getum ekki heldur viljað viðbrögð okkar: Við verðum að gefa okkur ljóðinu á vald og leyfa því að orka á okkur. Heidegger tengir tæknilegar framfarir þessarar siðmenningar við fástískan vilja hennar sem verður að lokum viljinn til valds. Lykiltilvitnunin hér væri í Francis Bacon: „Við verðum að leggja náttúruna á píslarbekkinn til að knýja hana til að svara spurningum okkar“; áhrifamikil leið til að láta í ljós fylgi við tilraunaaðferðina. En staldri maður við til að hugsa, jafnvel þótt við leggjum veslings kvalda náttúruna á píslarbekkinn, verðum við samt að hlusta á viðbrögð hennar. Við verðum í einhverjum skilningi að gefa okkur sjálf, vera móttækileg. Það kemur að því að þvingunarstarf okkar verður að víkja fyrir því sem er þarna til að hlustað sé á það, hvað svo sem það er.

Magee Þetta minnir mig sterklega á upphafsatriðið hjá þér sem var viðskilnaður Heideggers við meginhefð vestrænnar heimspeki. Jafnvel byltingarkennd heimspeki innan þeirrar hefðar, eins og marxisminn, gengur að því sem vísu að það að sigrast á náttúrunni sé viðvarandi viðfangsefni mannkyns og það með réttu. En ein meginhugmynd Heideggers er andstæð þessu á róttækan hátt. Það er sú hugmynd að viljum við í raun og veru skilja aðstæður okkar – eða (orðað á annan hátt) viljum við í raun og veru skilja veruleikann – þá verðum við að reyna að þröngva okkur ekki upp á hann heldur frekar að gefa okkur honum á vald. Heldurðu að þetta tengist á einhvern alvarlegan hátt austrænum hugmyndum – hugmyndum sem maður er vanur að setja í samband við búddhatrú og hindúatrú eða austræna heimspeki almennt?

Barrett Ég held það geri það. Það eru vísbendingar um þetta í sumum seinni skrifum Heideggers þar sem stuttlega er vísað til taóisma og, á einum stað, til Zen búddhatrúar. Að sumu leyti virðist Heidegger að öll Vesturlönd séu fyrir rétti á þessum stað í sögunni. Möguleikar kjarnorkusprengjunnar leiddu honum þetta fyrir sjónir og við verðum að íhuga þá heimspekilega. Siðmenning sem sækist eindregið eftir yfirráðum og valdi kann líka á einhverjum tímapunkti að ganga af göflunum. Það kann því að koma að tímamótum þar sem við ættum að hætta að sýna vald okkar og bara láta hlutina í friði. Og, ef þú vilt, þá er hér að finna skynjun einhvers sem líkist hinum austræna anda.

Magee Ég hef fundið svo mikla ósvikna innsýn og dýpt hjá Heidegger að mér er fyrirmunað að skilja hvernig svo margir aðrir heimspekingar sem eru augljóslega gáfaðir – ég hef í huga menn eins og Rudolf Carnap, Karl Popper og A. J. Ayer – hafa getað fjallað um hann með slíku háði og fyrirlitningu sem raun ber vitni. Ekki aðeins í samtölum heldur einnig í útgefnum skrifum sínum hafa þeir hafnað verkum hans sem vitleysu í bókstaflegri merkingu, innantómri mælgi, eintómum orðaflaumi. En samt virðist mér að maður þurfi aðeins að lesa fyrsta innganginn að Veru og tíma til að sjá að fjarri því að vera einungis orðaflaumur þá er hún bæði merkileg og djúphugsuð. Hvers vegna hafa svo margir hæfir menn hafnað honum með svo mikilli fyrirlitningu?

Barrett Ja, ég vil ekki viðhafa móðgandi ummæli um ástand heimspekinnar en það er til viss tegund fagmannlegrar bjögunar. Maður hefur ákveðna sýn og henni fylgir blinda á sýn einhvers annars. Ég hygg að ein fyrirstaðan sé orðaforði Heideggers sem í byrjun fer í taugarnar á manni. En sé hann lesinn á þýsku kemst maður að raun um að hann skrifar sæmilega skýra þýsku. Ef prósi hans er borinn saman við prósa Hegels, til dæmis, þá er Heidegger skýrleikinn sjálfur. En ég er hræddur um að við finnum það alltaf í heimspeki að menn hafa dálæti á tilteknum völdum orðaforða. Þú nefndir Carnap. Ég var nemandi Carnaps í nokkur ár og ég fékk áhuga á Heidegger sumpart til að komast að því hvað væri hér á ferðinni: Gæti hann verið eins slæmur og þeir segja?

Magee Er það virkilega svo að árásir Carnaps á Heidegger komu þér í kynni við hann og þú lítir nú á hann sem að öllu leyti meiri heimspeking en Carnap?

Barrett Það er rétt . . .

Magee Áður en við hættum að fjalla um Heidegger held ég það skipti máli að leggja áherslu á að sú mynd af verkum hans sem flestir rökgreiningarheimspekingar virðast hafa og láta ganga áfram til nemenda sinna sem síðan endurtaka hana án þess að vita betur, er blátt áfram ósönn. Þeir ímynda sér að þau séu alls ekki heimspeki enda þótt ljóst sé að þau eru það. Þeir virðast gera ráð fyrir að honum sé mikið í mun að segja okkur hvernig við ættum að lifa – en eins og þú hefur lagt áherslu á forðast hann það sérstaklega. Þeir telja því að hann sé að setja reglur þegar hann er í raun að lýsa. Þeir virðast líka álíta að þetta sé allt eitt stórt sjónarspil – rómantískt, uppskrúfað og óagað – en mestur hluti Veru og tíma, að minnsta kosti, samanstendur hins vegar af frekar hægfara og mjög nákvæmri lýsandi greiningu sem væri þurrlega akademísk ef ekki væri vegna þess hve viðfangsefnið er frumlegt, spennandi og mikilvægt. Þar sem þessu er svona varið eru háðsglósur eða svívirðingar um Heidegger og heimspeki hans sem maður er vanur að heyra frá rökgreiningarheimspekingum svo fjarri sanni að þær leiða í ljós svo ekki verður um villst vanþekkingu þeirra. Bara persónulega held ég að honum hljóti að hafa virst þetta smánarlegt með öllu, ef ekki ófyrirgefanlegt. En vitanlega er hann ekki eini stóri hugsuðurinn í sögu heimspekinnar sem hefur verið ófrægður. Í sumum kringumstæðum virðist það vera hluti af gjaldinu sem hver sá þarf að greiða sem er frumlegur á róttækan hátt.

En við skulum halda áfram. Ég vil koma með annan mann inn í umræðuna. Í innganginum lofaði ég að við mundum segja eitthvað um Sartre. Ég sagði að enda þótt Sartre hafi orðið frægasti tilvistarspekingurinn, reyndar eina nafnið sem flestir setja í samband við tilvistarstefnuna, þá sé hann ekki eins frumlegur hugsuður og Heidegger. Engu að síður hefur hann lagt eitthvað af mörkum. Hvernig mundirðu lýsa helsta framlagi Sartres?

Barrett Sjálfur tel ég að sumar skáldsögur Sartres og sum leikrit hans séu mikilvægari en nokkur heimspekiskrif hans, en samt sem áður fellst ég á að hann sé töluvert snjall heimspekingur. Aðalheimspekirit hans kallast Vera og neind. Þetta er hrikalegt rangnefni. Bókin er ekki um veru og hún er ekki um neind. Sartre hefur ekki mikla tilfinningu fyrir verunni. Hverju svo sem maður kann að andmæla hjá Heidegger þá verður hann að viðurkenna að maðurinn er gegnsýrður af tilfinningu fyrir verunni. Bók Sartres er í raun og veru melódrama tveggja vitunda eins og Descartes hugsar sér þær. Auðvitað eru þær cartesískar vegna þess að hann er franskur – sérhver Frakki er hallur undir Descartes þegar gengið er nógu hart að honum. Þessar tvær vitundir skilja aldrei hvor aðra. Þær eru tveir sjálfsveruhugir sem rangtúlka hvor annan: Ég, sem sjálfsvera, þröngva mér upp á þig og breyti þér í hlutveru; þú svarar í sömu mynt. Og svo heldur þessi djöfullega samræða rangtúlkunar og misskilnings áfram. Að lokum verður ógerlegt fyrir okkur að eiga samskipti í einlægni. Þessi doðrantur Sartres er því í rauninni bók um vandamálið einlægni eða heilindi – sem er, að ég hygg, grundvallarvandamál franskra bókmennta frá Montaigne, um Molière til Prousts.

Frægasta og jákvæðasta kenning Sartres er hugmynd hans um frelsi. Það er kenningin sem náði mestri hylli almennings af því að hún gefur okkur víðfeðmustu möguleika frelsisins. Sem mannverur er frelsi okkar algert og ótakmarkað. Ekkert aftrar okkur frá að gera óteljandi fljótfærnislega og hættulega hluti hvenær sem er.

Magee Mér skilst þú eigir til að mynda við, að ég sé nú frjáls til að taka upp þennan þunga öskubakka og lemja þig í höfuðið með honum, eða stökkva ofan af þaki þessarar byggingar, eða taka næstu flugvél frá London og koma aldrei aftur það sem eftir er ævinnar. Ég get bókstaflega, ef ég vil, gert þetta allt og enginn gæti stöðvað mig. Það eru óteljandi aðrar slíkar athafnir sem ég er frjáls til að framkvæma hvenær sem er – hvaða hugsanleg athöfn sem er, hversu öfgakennd eða ofsafengin eða duttlungafull eða óvenjuleg sem hún er, sem enginn er í raun og veru í aðstöðu til aftra mér með valdi frá að gera. Og það sem Sartre leggur stöðugt áherslu á er að við horfumst ekki í augu við þessa hlið á raunveruleika aðstæðna okkar. Í staðinn látum við eins og við séum langtum takmarkaðri, langtum ófrjálsari en við erum. Þess vegna látum við stjórnast af siðvenju og því sem aðrir hugsa miklu meira en nauðsynlegt er. Við gefum ímyndunaraflinu langtum minna svigrúm í lífi okkar – og því langtum minna frelsi – en við gætum notað með skapandi hætti.

Barrett Dæmin hjá þér eru ljómandi góð – þau leggja áherslu á það sem er vafasamast í skoðun Sartres. Hvenær verður þetta algera og ótakmarkaða frelsi sjúklegt? Eyðileggjandi og sjálfseyðileggjandi? Samkvæmt hefð hefur frelsi ætíð verið tengt hugmyndinni um ábyrgð og ég mundi vilja varðveita þau tengsl. Án efa er siðvenja of þungur baggi á sumum og takmarkar möguleika þeirra til frelsis. En ég velti því fyrir mér hvort við höfum ekki ýkt hugmyndina um hamlandi hlutverk siðvenju þegar hér er komið sögu. Þeir sem eru heftir af siðvenju hafa yfirleitt ekki bein í nefinu hvort eð er. Og dágóður fjöldi þeirra sem brjóta gegn siðvenju eiga ekkert sjálfir til að brjóta gegn henni með. Á árunum milli nítján hundruð og sextíu og sjötíu sá ég dágóðan fjölda ungs fólks bjóða siðvenju byrginn og jafnvel slá um sig með tilvistarorðunum ‘ekta’ og ‘óekta’, og í flestum tilvikum var árangurinn ákaflega rýr og satt að segja óekta. Þeir hefðu verið meira ekta einstaklingar ef þeir hefðu fylgt einhverjum siðvenjum; og sumir þeirra tortímdu reyndar sjálfum sér. Það er jákvætt gildi í vissum siðvenjum: Þegar allt kemur til alls er tungumálið sjálft siðvenja og þú og ég gætum ekki verið að tala saman án þess. Fylgi maður siðvenjunum, og hafi einhvern frumleika til að bera, endar hann með því að vera óhefðbundinn hvort eð er – en án þess að leggja sig fram um það. Þetta snýst um að fara meðalveg – en Sartre kýs heldur að leggja áherslu á öfgarnar. Og sé orðræða hans skoðuð sést að tortímingarmöguleikar þessa frelsis sem hann mælir með sækja að henni, í trássi við hann sjálfan. Þannig segir hann okkur að mann sundli við tilhugsunina um þetta algera frelsi: Það er eins og að standa á hengiflugi sem ég get hvenær sem er fleygt mér fram af út í loftið. Ekkert aftrar mér. Hér er ímynd frelsisins ímynd sjálfstortímingar.

Magee En það er þó rétt hjá Sartre að ýkja þá staðreynd að veruleiki vals og frelsis sem við höfum í raun og veru í lífinu er langtum meiri en við sjálf viljum horfast í augu við lengst af, er það ekki?

Barrett Ýkjurnar eru ágætar. Spurningin er hvort hann ýkir ekki um of eina hliðina á málinu í heild. Og hér tel ég að skilningur Heideggers sé langtum dýpri en skilningur Sartres. Eigi maður að finna frelsi sitt einhvers staðar verður það að lokum að vera innan hins venjulega daglega veruleika lífsins. Eftir hið glæsilega og tilkomumikla frelsisstökk sem maður tekur einn (og ég held annars að það sé rangt að þrengja frelsisvandann í spurninguna um hina einstöku athöfn) verður hann að koma til jarðar í hversdagsheiminum aftur. Þú skellir þér með flugvél til Tahiti til að byrja nýtt líf – og þú berð sama gamla sjálfið með þér. Einstaklingurinn sem æðir út í eitthvað að vanhugsuðu máli er kannski að þjóta í ranga átt, ranga fyrir þann einstakling sem hann er. Í því tilfelli verður hann áfram, þrátt fyrir allt sýndarfrelsið, jafn blindur og þegar hann lagði af stað – og þess vegna jafn ófrjáls.

Grundvallarfrelsið, að dómi Heideggers, er frelsi okkar til að vera opin fyrir sannleikanum og kemur athafnafrelsið á eftir því. Hver er tilgangur athafnar okkar ef við sjálf erum ekki upplýst? Að vera opin fyrir sannleikanum er ekki auðvelt mál, eins og allir sálkönnuðir geta sagt manni. Sálkönnunarsjúklingurinn getur ekki séð sannleikann í aðstæðum sínum af því að hann sjálfur setur hindranir fyrir sýn sína á þær. Okkur er öllum trúandi til að sýna yfirþyrmandi þvermóðsku í því að afskræma þær mannlegu aðstæður sem við stöndum andspænis daglega. Það er erfitt að stíga skref til baka og láta vera, láta hluti sjást í réttu ljósi. Við verðum að gefa upp á bátinn, alltént um sinn, hina hamslausu frekju okkar, með allri þeirri afskræmingu sem af henni leiðir. Öll seinni skrif Heideggers eru í raun langvarandi árás á viljann til valds sem sýkir vestræna siðmenningu jafnvel þar sem um persónuleg tengsl er að ræða.

Magee Kjarni málsins er þó sá að maður getur aðeins í raun og veru skilið veruleikann, eða náttúruna, ef hann í einhverjum skilningi gefur sig henni á vald.

Barrett Já, og mundu að náttúran felur einnig í sér okkar mannlegu náttúru. Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir ekki aðeins efnisheiminum heldur einnig fólki, og ekki aðeins öðru fólki heldur okkur sjálfum: Við verðum að hætta að reyna að drottna yfir persónulegu lífi okkar. Eins og sálkönnunin sýnir getur fólk verið í stríði við sjálft sig, meðvitað gegn ómeðvituðu. Það kann að vera að við komumst á ákveðið stig þar sem við verðum að hætta að reyna að kúga til hlýðni þann hluta náttúrunnar sem er við sjálf, stig þar sem við verðum að gefa okkur henni á vald. Hið eina sem Heidegger hefur að bjóða er viss tegund hugsunar sem er (segir hann) í ætt við skáldskap að því leyti að hún íhugar veruna frekar en hluti sem hún getur ráðskast með. Þetta kann ef til vill að opna okkur fyrir einhverjum víddum í tilverunni sem eru ekki tæknilegar.

Magee En ef við viljum halda áfram að lifa í heimi sem hefur brýr og sjúkrahús og heilauppskurði þá verðum við að lifa í heimi sem er á háu tæknistigi, og þess vegna munum við verða að hugsa tæknilega, samhliða annars konar hugsun.

Barrett Hárrétt. En þetta er einmitt kjarni málsins hjá Heidegger. Fólk sem er ‘á móti tækninni’ er algerlega óekta. Það hefur ekki ígrundaða og skynsamlega söguskoðun vegna þess að tæknin er hluti af örlögum okkar. Við getum ekki lifað án hennar. Hún er vera okkar í vissum skilningi: Það sem við erum sem nútíma mannverur er að hluta það sem við erum með atbeina tækni. Svo það er einfaldlega ekki hægt að hafna henni. Allar slíkar skoðanir bera í rauninni ekki vott um neina djúpa hugsun. Samt sem áður veldur tæknin vandamálum. Ef við, til að mynda, sprengjum okkur ekki í loft upp þá verður tæknin sem við höfum nú úrelt og agnarsmá að hundrað árum liðnum – alveg eins og það er mikið af nútíma tækni sem nítjándu aldar mótmæli gegn sýnast nú úrelt. En það þýðir gerbreyting á lífi okkar sem við erum ekki undirbúin hvað hugsun okkar varðar. Hugleiðum spurninguna um erfðastjórnun, erfðatækni: Erum við tilbúin að segja hvers konar arfgerðir við viljum hanna? Sjáðu til, við öflum okkur kannski tækjanna til þess arna án þess að hafa öðlast mannlega visku til að nota þau okkur til endanlegs góðs.

Magee En ég sé ekki hvernig Heidegger kemur inn í þetta. Hvernig ætlar hann hjálpa okkur að framkvæma þess konar val?

Barrett Með því að vekja okkur til vitundar um þá staðreynd að samhliða tæknilegum hugsunarhætti okkar verðum við að tileinka okkur annars konar hugsun sem er gerólík. Ég fer í gönguferðir í skóginum í grennd við staðinn þar sem ég á heima, og fari ég í gönguferð í þessum skógi síðdegis er ég að hugsa allan tímann. En spyrji einhver þegar ég kem aftur: „Hvaða vandamál leystirðu?“ yrði ég að svara: „Ég var ekki að hugsa þess konar hugsun. Ég var að velta hinu og þessu fyrir mér, átta mig á sjálfum mér og náttúrunni.“ Ég er miklu heilbrigðari og heilli þegar ég kem til baka eftir þess konar hugleiðingar. En það má ímynda sér að spyrjandinn hugsi með sjálfum sér: „Þetta er mjög furðulegt. Hann segist hafa verið að hugsa, en hann var samt ekki að íhuga neitt vandamál og hann reiknaði ekkert út.“

Magee Ég ver miklum tíma niðursokkinn í þess konar sjálfsáttun svo það þarf ekki að sannfæra mig um gildi hennar. Samt sem áður er það í sjálfu sér ekki nóg. Þrátt fyrir allt sem þú hefur sagt sé ég það samt sem takmörkun að það vantar jákvæða kenningu hjá Heidegger, en þó takmörkun heimspekinnar sem slíkrar, viðurkenni ég. Á aukinn skilningur á aðstæðum okkar sem við öðlumst með því að kynna okkur heimspeki hans að vera óvirkur einvörðungu? Eigum við alls ekki á neinn hátt að hegða okkur öðruvísi eða lifa öðruvísi? Ef hann ætti eftir að halda áfram – eins og þeir guðfræðingar sem hann hefur haft áhrif á gera og eins og hinn vestræni maður var vanur að gera samkvæmt hefð – og segja að endanleg skýring á heiminum sé að hann hafi verið skapaður af Guði, að þessi Guð hefði ákveðnar fyrirætlanir með því að skapa heiminn og okkur, að réttur lífsmáti fyrir okkur sé að lifa í samræmi við þessar fyrirætlanir, og að Guð hafi gert ráðstafanir til að láta okkur vita hverjar þessar fyrirætlanir eru – ef Heidegger héldi áfram og segði allt þetta þá væri það eitt. En hann gerir það ekki. Hann skilur okkur enn eftir án leiðsagnar um hvernig halda skuli áfram. Hin trúarlega skoðun á heiminum gaf hinum vestræna manni bæði alheimslega skýringu og gildakerfi og þar af leiðandi markmið. Fyrir marga hefur missir trúar á Guð tekið allt þetta burt. Mörgum okkar finnst nú að við lifum í heimi án merkingar, án tilgangs, án gildis. Ég get vel ímyndað mér að einhver horfi til tilvistarspekinnar til að fá einhvern skilning á þessum hlutum. En mér virðist Heidegger ekki láta hann í té.

Barrett Nei, hann útvegar ekki það sem þú biður um. En það er ekki lítið sem þú biður um og ég velti því fyrir mér hvort heimspeki, nokkur heimspeki, geti látið í té svörin sem þú leitar. Um nokkurt skeið hefur heimspekin spurt hvort hún hafi nokkra ‘jákvæða kenningu’ – í merkingunni samhangandi kerfi staðhæfinga – upp á að bjóða. Á það er lögð áhersla aftur og aftur, og það kemur frá ýmsum stefnum í heimspeki, að heimspeki sé aðallega útskýringastarf. Minnumst hinnar afar einföldu en yfirþyrmandi setningar Wittgensteins: „Heimspekin skilur við heiminn eins og hann er.“ Hún færir okkur enga nýja vitneskju eða kenningu um heiminn. Allt þetta er arfleifðin frá Kant: Að frumspekin samanstandi einungis af stýrihugmyndum sem hafi ekkert hlutlægt inntak. Við getum áreiðanlega ekki vænst þess að heimspekin láti í té nokkuð jafn mikilvægt fyrir þorra manna og trúin var einu sinni.

Nú, Heidegger er uppi á sama tímabili í sögunni og hinir heimspekingarnir og honum eru vel ljósar takmarkanirnar sem það setur. Heimspekin á þessu tímabili kann að verða að takast á hendur hógværara hlutverk. Hjá Heidegger er þessi fallega setning einhvers staðar: „Heimspekin verður að læra að lækka flugið enn einu sinni og horfast í augu við vanmátt sinn.“ Til hvers að flýta sér að setja saman eitthvert nýtt heimspekikerfi áður en við höfum lært að lifa með spurningunum sjálfum? Við förum bara frá einni sýndarlausninni til annarrar – kerfum sem eru allsráðandi í áratug og er síðan horfið frá. Á heimspekiferli mínum, frá námsárunum til þessa dags, hef ég komist í kynni við sex ólíkar almennt viðteknar rétttrúnaðarkreddur. Og ég sé nú þegar að sú síðasta er á leið út. Hvað trúarbrögðin varðar verðum við kannski að byrja þar einnig á byrjuninni. Heidegger mundi krefjast þess að heimspekingurinn legði mat á tíðarandann og gerði sér grein fyrir því sérstaka myrkri sem grúfir yfir okkar tímaskeiði. Ég held það hafi verið Matthew Arnold sem sagði, og það mjög spámannlega, að við værum milli tveggja heima, annars sem er dauður og hins sem er ófær um að fæðast. Þetta er líka hugsun Heideggers, en skáldið sem hann vitnar í er Hölderlin: Við erum í dimmunni milli guðanna sem eru horfnir og guðsins sem enn er ókominn. Heidegger sjálfur ólst upp sem kaþólikki og var í kaþólskum prestaskóla að læra til prests þegar hann las fyrst Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant og sannfærðist af rökum Kants um að sannanirnar fyrir tilvist Guðs stæðust ekki. Hann færði sig í háskólann og nam náttúruvísindi um nokkurt skeið, síðan heimspeki. Hann er, eftir allt saman, án sérstakrar guðstrúar. Hann hefur talað um sig sem ‘guðlausan’ – eins og hann meinti þetta sem persónuleg örlög sem hann hefði orðið fyrir. En í ritgerð sem er skrifuð seint hefur hann sagt: „En samt er guðleysi mitt kannski nær Guði en heimspekileg guðstrú.“ Hann varðveitir þannig frá Kant þá sannfæringu að leiðin til Guðs sé ekki gegnum röksemdafærslur eða sannanir. Vera-okkar-til-Guðs hlýtur að vera eitthvað afar ólíkt vitsmunalegri sannfæringu eingöngu. Hann er hvorki guðleysingi né guðstrúarmaður heldur hugsuður sem undirbýr leiðina fyrir nýjan skilning á því hvað það merkir að vera trúaður.

Magee Ég er ekki trúaður í venjulegum skilningi en mér virðist grundvallarvandamálin enn vera til staðar eftir að við höfum pælt gegnum Heidegger. Hann varpar heilmiklu ljósi á allt sem við höfum verið að tala um en hann skilur samt við okkur frammi fyrir þeirri óumflýjanlegu staðreynd að við munum deyja, sem svo aftur veldur hjá okkur ákafri tilfinningalegri þörf til að finna einhverja merkingu í þessu lífi okkar og hann hefur samt ekki gefið okkur minnstu vísbendingu um hver hún kynni að vera eða jafnvel gæti verið. Það er þörf fyrir næsta skref. Hvert höldum við héðan . . . ? Mér virðist heimspeki Heideggers ekki vera möguleg endastöð. Hún er næstum því forleikur að annars konar heimspeki frekar en hún sé sjálf heimspeki.

Barrett Hún er undirbúningur undir heimspeki en ekki í þeim skilningi sem handbók í rökfræði kynni að vera talin slíkur undirbúningur. Og sú endanlegu heimspeki sem hugsun hans ryður brautina fyrir, segir Heidegger okkur, kynni að vera svo ólík því sem við höfum nú að hún yrði kannski alls ekki kölluð ‘heimspeki’. Hún kynni að vera jafn ólík þeirri heimspeki sem við höfum nú og grísk heimspeki var ólík þeirri tegund vitundar sem var á undan henni. Er Heidegger hér hinn óraunsæi draumóramaður? Ja, hugleiðum þennan einfalda en tilkomumikla sögulega bakgrunn: Heimspekin gat af sér vísindin; nú eru raunvísindin og tæknin komin og hafa gerbreytt öllu lífi mannkynsins á þessum hnetti. Hefur heimspekin nokkra nýja sýn sem svarar til þessa einstæða stigs sögulegrar tilvistar sem mannkynið hefur komist á? Kannski þetta sé ástæðan fyrir því að svo mikið af akademískri heimspeki okkar fangar ekki athygli fólks utan greinarinnar sjálfrar. Að svo miklu leyti sem við hugsum heimspekilega innan gamla hugtakarammans getum við aðeins skreytt hann með nýjum tæknilegum smáatriðum sem verða að lokum léttvæg. Viðleitnin til að finna nýja leið fyrir hugsun hlýtur óhjákvæmilega að vera tilraunakennd og hikandi. Eins og ég sagði rétt áðan talar Heidegger gjarnan um sig sem hugsuð á leiðinni. Kannski virðist hann fara of hægt á stundum, en mér líkar frekar vel við þennan hægagang Heideggers í seinni verkum hans. Sjálfur getur hann ekki skýrt frá því hver áfangastaður hans er. Til þess að geta það hefði hann nú þegar orðið að vera kominn, hingað til er hann bara á leiðinni. Eflaust hlýtur þetta ástand fálmandi leitar og biðar að reyna á þolinmæði þeirra sem mundu fagna stóru kerfi eða vildu æða út í trúarleg sinnaskipti. En hvað annað eigum við að gera?

Magee Í sumri nútíma list er sá skilningur á manninum að hann lifi í heimi án Guðs skelfilegur – til að mynda í leikritum Samuels Becketts. Beðið eftir Godot lætur í ljós á næstum því óbærilegan hátt þá einangrunartilfinningu, sem og tilfinningu um merkingarleysi, sem sá einstaklingur skynjar sem upplifir sig í heimi án tilgangs. Mér virðist vanta í verk Heideggers þá skelfingu sem gerir það að horfa á Beðið eftir Godot næstum því sársaukafullt.

Barrett Það er athyglisvert að þú skyldir nefna Beðið eftir Godot. Ég hef heyrt að Heidegger hafi séð leikritið flutt í Þýskalandi og sagt að lokinni sýningu: „Þessi maður hlýtur að hafa lesið Heidegger.“ Vel á minnst, áherslan í titlinum er á ‘beðið’ – og Heidegger segir að öll hugsun sín sé einhvers konar bið. En að halda samt fast við þessa bið felur í sér vissa yfirlýsingu: Það er eins konar könnun, eins konar leit. Heidegger fór ekki inn í fyrirheitna landið. En hann kynni að gera öðrum kleift að fara þangað.

Magee Þegar öllu er á botninn hvolft virðist mér tilvistarstefnan vera for-trúarleg. Það er að segja, fari maður gegnum þessa heimspeki skilur hún að lokum við hann á þröskuldi trúarinnar – eða kannski ætti ég frekar að segja, hún skilur við mann frammi fyrir endanlegu vali sem felur í sér trú. Að lokum, annaðhvort merkir sú staðreynd eitthvað að það sem er til skuli vera til eða að öðrum kosti er allt merkingarlaust.

Barrett Já, að svo miklu leyti sem heimspeki fæst við grundvallarviðhorf bendir hún okkur til hins trúarlega sviðs tilverunnar, hvernig svo sem við kunnum að bregðast við á því sviði.
                   
Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísun

1. William Barrett (1913–1992). – Auk bókarinnar sem Magee nefnir hefur Barrett m.a. skrifað The Illusion of Technique: A Search for Meaning in a Technological Civilization (1979) og Death of the Soul: From Descartes to the Computer (1986). Irrational Man kom fyrst út 1958 og var endurútgefin 1977; hafði reyndar verið prentuð í kiljuformi áður. Talsvert ólíka umfjöllun um Heidegger er að finna í samræðu sem Magee átti við bandaríska heimspekinginn Hubert Dreyfus í BBC 1987 undir heitinu „Husserl, Heidegger og nútíma tilvistarstefna“. Þýðingu á þeirri samræðu má lesa í bókinni Miklir heimspekingar sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi 2002. – Þýð.

Allir þurfa að læra siðfræði!

eftir Pál Skúlason

„Góðir háskólar eru gróðrarstöðvar mentalífs hjá hverri þjóð sem er, sannkallaðar uppeldisstofnanir þjóðarinnar í besta skilningi. Út frá góðum háskólum ganga hollir andlegir straumar til hinna ungu mentamanna og frá þeim út í allar æðar þjóðarlíkamans.“

Þannig mælti Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, í ræðu þegar skólinn var formlega settur á stofn 17. júní 1911. Rektorar Háskólans hafa allar götur síðan hamrað á þessu hlutverki skólans: Köllun hans sé að vinna í þágu þjóðarinnar og gera henni kleift að skapa samfélag sem sé að öllu leyti gott. Hér sé heilsteypt og réttlátt stjórnkerfi, hér dafni skapandi menningarlíf og hér sé búið í haginn fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og blómleg viðskipti. Og þessari köllun hefur Háskóli Íslands lagt sig eftir að svara í hundrað ár: Hann hefur alið upp alla helstu embættis- og stjórnmálamenn landsins, hann hefur veitt erlendri tækni og þekkingu skipulega inn í landið og stuðlað markvisst að uppbyggingu íslensks þjóðfélags á nánast öllum sviðum. Þannig hefur hann umfram flestar stofnanir samfélagsins átt þátt í því að móta íslenskan veruleika og getu þjóðarinnar til að bregðast við nýjum aðstæðum og hafa tök á eigin málefnum.

Hrun bankanna fyrir ári síðan afhjúpaði djúpstæða veikleika í uppbyggingu þeirra tveggja kerfa sem mestu skipta fyrir búskap þjóðarinnar. Hagkerfið hrundi, stjórnkerfið brást. Og mennirnir sem mótuðu þessi kerfi og stýrðu þeim voru flestir aldir upp af Háskóla Íslands einmitt til þess að annast þessi kerfi. Hvað fór úrskeiðis í uppeldi Háskóla Íslands?

Nú kann einhverjum að þykja úrelt speki og íhaldsraus að tala um Háskólann sem uppeldisstofnun, nær væri að kalla hann hjartað í hagkerfi nútímans og tala um hann sem þekkingarfyrirtæki. Þá verður spurningin: Hvernig stendur á því að Háskólinn sá ekki til þess að nemendur hans öðluðust þá þekkingu sem hefði þurft til að byggja upp hagkerfið og stjórnkerfið með viðunandi hætti. Og næsta spurning blasir við: Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?

Nú er auðvitað ekki við fyrrum nemendur Háskólans eina að sakast um ófarir íslensks samfélags. En ábyrgð þeirra og þar með Háskólans sjálfs er óneitanlega mikil. Ekki fyrst og fremst á hruni bankana, heldur á þeim stofnunum og fyrirtækjum sem hefðu átt að fyrirbyggja að svona lagað gæti gerst.

Tvær spurningar vakna: Hverju er ábótavant í menntastarfi Háskólans? Og hvernig hyggst Háskólinn bæta ráð sitt? Tilgáta mín er sú að Háskólinn hafi skilið uppeldishlutverk sitt alltof þröngum skilningi gegnum tíðina. Hann hafi litið svo á að hann ætti fyrst og fremst að útskrifa sérfræðinga sem kynnu til verka tæknilega og fræðilega. Hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því hvort þeir lærðu að nýta sér skynsamlega þá kunnáttu sem þeir öðluðust í námi sínu. Háskólinn hafi treyst því að fræðslan sem hann veitti tryggði að sérfræðingarnir yrðu af sjálfum sér sannir menntamenn sem þekkja takmarkanir fræða sinna og nýta fræðin til góðs fyrir þjóðfélagið að öllu leyti.

Þessu gat Háskólinn vafalaust treyst á meðan samfélagið var tiltölulega einfalt og auðskiljanlegt. Það er löngu liðin tíð. Háskólinn hefði fyrir löngu átt að leggja sérstaka rækt við að þjálfa nemendur sína í að rannsaka og rökræða hvernig fræðileg og tæknileg þekking nýtist samfélaginu best. Þetta verkefni hefur orðið æ mikilvægara eftir því sem sérfræðileg kunnátta hefur gegnt sífellt stærra hlutverki í samfélaginu. Um leið hefur sú hætta vaxið að þessi kunnátta sé misnotuð eða henni misbeitt til að efla tiltekna sérhagsmuni á kostnað almannaheillar. Þar með hafa líka sérfræðingar með háskólapróf fengið æ meiri völd og vægi í samfélaginu og prófgráðan verið talin staðfesting þess að þeim sé treystandi til verka. Þess vegna hefur líka ásóknin í háskólanám aukist og um leið álagið á háskólana. Hið aukna álag er, að mínum dómi, eina afsökunin sem Háskóli Íslands og aðrir háskólar kunna að hafa fyrir því að hafa vanrækt eiginlegt uppeldishlutverk sitt.

Hvernig á Háskólinn að bæta ráð sitt? Með því að tryggja að nemendur hans fái allir kennslu í siðfræði og þjálfun í að ræða á gagnrýninn hátt um málefni samfélagsins; og sú kennsla verði samtvinnuð hinum ýmsu og ólíku sérgreinum eftir því sem við á. Um leið á hann að hvetja kennara sína til að fylgist náið með því hvernig fræðin nýtast samfélaginu og taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni á grundvelli fræða sinna.

Hér má með réttu ræða um „siðfræði þekkingar“ sem snýst um að fólk tileinki sér þær dygðir sem þarf að rækta í allri umgengni við þekkinguna, öflun hennar, varðveislu og miðlun í mannlegu samfélagi. Þekkingin mótar þjóðfélagið og þess vegna er hér almannaheill í húfi.

Nám í siðfræði er ekki trygging fyrir því að fólk breyti siðferðilega rétt. En það skapar forsendur þess að fólk geti skilið og rætt réttlætismál sem brenna á samfélaginu. Lestir okkar og brenglað gildismat eiga oft þátt í að skapa ranglæti sem er óþolandi í mannlegu samfélagi. Samviska okkar og siðferðiskennd duga oft ekki til að greina kerfisbundna spillingu sem kann að leika samfélag okkar grátt án þess að við fáum rönd við reist. Gegn siðferðisböli af því tagi er ekkert ráð nema siðvit og gagnrýnin hugsun. Markmið siðfræðinnar er að efla dómgreind hvers og eins svo að við getum, hvert fyrir sig og öll saman, unnið að því að bæta samskipti okkar og samfélag.

Greinin birtist áður í Stúdentablaðinu 3. tbl 2009, og er birt hér með leyfi þess.