Samhengið í hugsun Jacques Derrida

Björn Þorsteinsson:

Samhengið í hugsun Jacques Derrida

Höfundarverkið sem Jacques Derrida lætur eftir sig er mikið að vöxtum og margslungið. Fræðilegir erfingjar hans eiga að sama skapi mikið verk fyrir höndum við túlkun og aflestur þeirra rituðu og töluðu tákna sem hann náði að koma frá sér áður en yfir lauk. „Arfleifð er aldrei gefin, hún er alltaf verkefni“ skrifar hann í bók sinni Vofur Marx. „Arfleifðin safnast aldrei saman, myndar aldrei samstæða heild. […] Það sem maður erfir er ætíð leyndarmál – sem segir „lestu mig – en verðurðu nokkurn tíma fær um það?““ Sá sem gerir ekki annað en endurtaka arfinn, orð fyrir orð, staf fyrir staf – hann er ekki erfingi í raun. Að erfa krefst umritunar, úrvinnslu sem felur í sér í senn að hin eftirlátnu skrif ganga aftur og að þau víkja fyrir nýbreytninni. Slíkra erfingja óskaði hann sér sjálfur: erfingja sem sýna arfleifðinni „trúnaðarlausan trúnað“.

Möguleikarnir mega heita ótæmandi. Textinn situr þarna og bíður, allir hillumetrarnir sem bera höfundarnafn hans, að ógleymdum öllum skjölunum sem komið hefur verið fyrir í skjalasafni Kaliforníuháskóla í Irvine og eflaust einhverjum textabrotum og ófrágengnum ritsmíðum sem enn liggja á víð og dreif á heimili hans í Ris-Orangis sunnan Parísar. Monsieur Texte: það var nafnbótin sem bandaríski bókmenntafræðingurinn Geoffrey Hartman, einn helsti forkólfur „afbyggingarhyggjunnar“ í Bandaríkjunum, gaf honum. Derrida var maður sem skrifaði, hann var maður skriftarinnar, en hann var einnig, og ekki síður, lesandi í sérflokki. Einstakur í sinni röð: yfirborðsmerking nægði honum sjaldnast, hann varð að kafa í textann og takast á við hinstu rök hans; að hætti franskra menntamanna trúði hann ekki á skýran og afdráttarlausan greinarmun hins meðvitaða og hins ómeðvitaða og skirrtist því ekki við að ganga lengra, og kafa dýpra, en höfundurinn sjálfur gerði (að því er best verður séð). Við slíkan lestur vex textinn en hjaðnar ekki – og hin svokallaða „afbygging“ sem Derrida telst hafa stundað felst aldrei í öðru en því að opna textann sem til athugunar er, setja hina einstöku þætti hans í nýtt samhengi og bjóða þannig hinu óvænta, atburðinum – sannleikanum – heim.

Dauðinn lætur víða á sér kræla í skrifum Derrida. Í kynngimögnuðum „bókmenntatextum“ Maurice Blanchot fann hann efnivið í lýsingu á hlutskipti okkar, okkar sem eftir lifum: dauðinn er að verki í okkur, við syrgjum hvert annað frá því að fundum okkar ber saman. Og við rætur hinnar kerfisbundnu og (of) metnaðarfullu fyrirbærafræði Husserls fann hann lögmálið um skilafrest (différance) sem liggur tilveru okkar, og alls sem er, til grundvallar: að vera, það er að vera ólíkt og að slá sér á frest, það er að vera ekki í sama skilningi og eilífðin eða Guð. Að vera er að vera endanlegur. Takmarkaður. Dauðinn er hinsta takmarkið, hinsti ómögulegi möguleikinn eins og Heidegger orðaði það.

Er heimspeki Derrida þá af tagi handanhyggjunnar eins og sú kristni sem Nietzsche og Spinoza gagnrýndu af svo miklum þrótti? Er hún ekkert annað en afturgenginn Platonismi? Er sannleikurinn ekki á okkar færi og veröldin tómur skuggaleikur hins sanna heims sem bíður fyrir handan? Ekkert gæti verið fjær sanni. Heimspeki Derrida er hvorki handanhyggja af þessum toga né kreddufesta sem telur sig geta fært sannleikann í spennitreyju mannlegs máls og stillt honum upp á leiksviði eins og trúði í sirkus. Með öðrum orðum er heimspeki Derrida ekki frumspeki í hefðbundnum skilningi heldur er hún tilraun til að móta hugsun um raunveruleikann, hvorki meira né minna, sem þó væri alltaf eitthvað annað og meira (eða minna) en einföld hluthyggja (realismi) sem gerir ekki annað en að endurtaka það sem allir sjá, og stærir sig af því. Það sem Derrida sóttist eftir varhýper-realismi. Það erfiðasta við hugsun Derrida er ef til vill þetta: að hann er stöðugt á mörkunum, að hann hafnar einfeldningslegum forsendum tvenndahugsunarinnar (með eða á móti, satt eða ekki satt) og leitast við að finna sér stað utan rökfræði andstæðnanna. Hin algjöra andstæða er einfaldasta bragð hefðbundinnar frumspeki. The oldest trick in the book. Málið snýst um að skapa nýja hugsun sem streitist í sífellu gegn freistingum tvenndaspekinnar – gegn falsinu, gegn yfirbreiðslunni, gegn lyginni, gegn „pakkalausninni“ – og heldur í staðinn á lofti ósmættanlegri helgi hins einstaka í endalausri leit að nýjum leiðum: nýjum flóttaleiðum, svo notað sé hugtak sem Deleuze mótaði en hefði allt eins getað átt rætur hjá fyrrverandi aðstoðarmanni hans Derrida.

Helgi hins einstaka: það er að segja, með öðrum orðum, mikilvægi samhengisins sem er í stöðugri verðandi en jafnframt samt við sig. Hugmynd Hegels um samsemd samsemdarinnar og mismunarins á sér beina samsvörun í hugsun Derrida. Hver er munurinn á mér sem er í dag, og mér sem var fyrir tíu árum? Ég er í senn sá sami og ég var þá og annar en ég var þá. Flóknari er þessi hugsun ekki: í senn sá sami og ólíkur, samsemd hins sama og hins ólíka, samsemdarins og mismunarins. Þannig vinnur tíminn – á okkur og á öllu öðru sem er. Laufblað fellur af hlyninum utan við gluggann minn. Það hefur gerst áður, þetta er ekkert nýtt, en samt hefur það aldrei gerst áður. Fyrsta skiptið er líka það síðasta. Þannig er því líka farið með orðin: hvert orð fyrir sig hefur aldrei áður komið fyrir í nákvæmlega þessu samhengi – en þó er ekkert nýtt við þessi orð. Annars gætum við ekki lesið þau. Samhengið er gamalt og nýtt; við erum í senn gömul og ný.

Hvers er sú hugsun megnug sem velur sér þessar leiðir í Svartaskógi og/eða aldingarði hugsunarinnar? Hún getur til dæmis mótað réttlætishugtak sem beitir sér án afláts gegn því að ríkjandi ástand, hér og nú, slái eign sinni á hið ókomna. Postular sáttarinnar og framfarahyggjunnar sem þreytast ekki á að fylla eyru okkar með yfirlýsingum um að allt sé á besta veg, að allt sé eins og best verði á kosið – og bæta síðan við: og fyrir alla muni, ekki rugga bátnum, ekki raska stöðugleikanum, ekki bjóða hættunni heim – þessir postular finna sér ekki jábræður í hugsun Jacques Derrida. Réttlætið er ekki hér og nú – en það er heldur ekki fyrirfram dæmt til að dveljast handan við sjóndeildarhringinn. Hver gæti svo sem verið þess umkominn að vísa því yfir í handanheima? Slík athöfn væri, þegar öllu er á botninn hvolft, sú sama og sú yfirlýsing að réttlætið sé hér og nú, sögunni sé lokið, ekkert sé eftir annað en að njóta sjónvarpsdagskrárinnar og fylgjast með HM í knattspyrnu á fjögurra ára fresti þangað til maður hrekkur uppaf. Er öllu fórnandi fyrir sáttina? Auðvitað ekki! Eigum við að forðast að bjóða hættunni heim? Engan veginn. Opnum gáttina, tökum á móti hinu ókomna. Skilyrðislaus gestrisni sem segir „komdu“ við aðkomumanninn og ætlast til einskis af honum. Skilyrðislaus: ómöguleg, ef til vill, hið ómögulega sjálft: en annars bíður okkar ekkert. Annað en óréttlætið.

« Til baka

One thought on “Samhengið í hugsun Jacques Derrida

  1. Bakvísun: Heimspekivefurinn » Blog Archive » Ritdómur um ritdóm um greiningu á greiningu Réttlætið og Derrida eftir Björn Þorsteinsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *