eftir Jóhann Sæmundsson
(Flutt 25. marz 1945)
Fyrir rúmlega hundrað árum starfaði félagsskapur í Parísarborg, sem tók að sér að ábyrgjast rithöfundum, að leikrit þeirra næðu almenningshylli. Félag þetta hét Société d´Assurance de succés dramatique. Hvert það leikritaskáld, sem vildi komast áfram og hljóta viðurkenningu fyrir verk sín, neyddist til að tryggja sér aðstoð þessa félags og greiða því skatt. Hver, sem var svo óforsjáll að gera þetta ekki, gat átt það á hættu, að leikrit hans félli gersamlega í grýtta jörð og yrði einskis metið af almenningi, hversu gott, sem það var, en á hinn bóginn hafði félagið á valdi sínu að tryggja bögubósum húsfylli hvað eftir annað og almannalof fyrir skáldleg tilþrif, ef þeir leituðu aðstoðar þess.
Félagsmenn skiptu með sér verkum og störfuðu í 7 deildum. Fyrsta deildin hafði það hlutverk að vekja áhuga og forvitni almennings, áður en sýningar hófust. Menn úr þeirri deild stóðu hjá götuauglýsingum leikhússins og töluðu fjálglega um hið stórfenglega listaverk, sem nú ætti að fara að sýna. Þeir áttu að kynda undir áhuga vegfarenda og nefndust chauffeurs.
Hinar deildirnar 6 skiptu með sér verkum innan veggja leikhússins. Fyrst má þar nefna klapparana (tapageurs), sem klöppuðu lof í lófa á viðeigandi stöðum, svo að undir tók, og hleyptu af stað fagnaðarlátum. Í öðru lagi voru svonefndir cisseurs, sem áttu að hafa yfir fyrir munni sér sérstök, athyglisverð atriði í leikritinu, svo að þau færu ekki fram hjá áhorfendum. Þá voru rieurs, hlæjendur, sem ráku upp skellihlátur við hverri tilraun til fyndni, en næst komu grátendur, pleureurs, sem snöktu og flóðu allir í tárum, þegar sorgleg atvik komu fyrir. Sérstakir menn léku hlutverk hinna listfróðu og voru nefndir connaisseurs. Það voru hæglátir, virðulegir menn, sem kinkuðu kolli við og við og sögðu: Frábært, stórkostlegt, skáld af guðs náð, og ámóta hrósyrði. Loks voru svonefndir chatouilleurs (kitlendur), sem gengu um á milli þátta og töluðu hátt um hrifningu sína yfir dásemdum listaverksins.
Þessi aðferð þótti ekki viðeigandi til lengdar. Hún þótti ekki vænleg til að þroska listasmekk almennings og lyfta honum á æðra stig. Félagið var því fljótlega bannað. En eftir það þótti fólki ekki nærri eins gaman að fara í leikhús og áður. Ólga tilfinninganna hafði hjaðnað. Nú sat þarna fólk, sem varð að gera það upp við sjálft sig, hvenær það ætti að klappa, hlæja, gráta. Hin örugga forusta var horfin, og ýmsir óskuðu að fá félagið leyst úr banni, þótt þeir vissu, hvernig allt var í pottinn búið.
Þetta félag lét sig engu skipta, hvernig leikritin voru, er það tók að sér að afla lýðhylli. Það tók fé af rithöfundunum fyrir ómak sitt, en af sinni hálfu tókst það á hendur að skapa þjóðhollt almenningsálit og sannfæra leikhússgesti um, að það væri góð list, sem á boðstólum var. Starfsemi þess var skipulögð þannig, að þetta tókst um allan fjölda manna. Félagið beitti ekki listfræðslu eða neinum hlutlægum aðferðum til að ná marki sínu. Markmið þess var ekki að skapa heilbrigt almenningsálit, heldur að koma af stað múgsefjun og skapa hliðhollt almenningsálit með því móti. Starfsaðferðir þess voru einfaldar og líklegar til árangurs. Með þeirri verkaskiptingu, sem að framan var getið, var séð fyrir því, að einstaklingarnir fengju ekki tóm til að hugsa sjálfir, kryfja til mergjar og mynda sér skoðun sem einstaklingar. Dómurinn var kveðinn upp fyrir fram, fólkið þurfti ekki annað en taka undir. Þegar lófatak, hlátur eða grátur hljómaði um salinn, var ýtt við frumstæðum hvötum fólksins, einstaklingarnir máðust út, en runnu með ástríðuþunga inn í hópsálina.
Hér er ekki minnzt á þetta félag af því, að það sé neitt sérstakt fyrirbrigði í veraldarsögunni, heldur vegna þess, að það er dálítil spegilmynd af því, sem ætíð hefur verið að gerast í heiminum, frá því að mennirnir fóru að lifa í samfélagi. Markmið þess var skoðanasmíði. Það setti fórnarlömb sín í andlegt steypumót, þar sem hamrað var á þeim. Það sannfærði menn með leiktjöldum, hvað sem veruleikanum leið, og beitti til þess töluverðri sálfræðilegri tækni á skipulegan hátt.
Tæknin, sem beitt er til sálnaveið, hefur tekið töluverðum breytingum síðasta mannsaldurinn, eftir því sem þekking á sálarlífi manna hefur aukizt. Sú þekking hefur verið tekin æ meira í þjónustu áróðursins, enda má nú segja, að skipulagður áróður sé orðinn hrein vísindagrein.
Orðið áróður er ekki gamalt í íslenzku máli. Það er þýðing á erlenda orðinu propaganda, sem dregið er af stofnun, er Gregorius XV setti á fót í Rómaborg árið 1622 og nefndist Congregatio de propaganda fide. Hlutverk hennar var að útbreiða kaþólska trú meðal annarra þjóða. Nú er orðið propaganda almennt notað í erlendum málum til að tákna hvers konar stofnanir eða kerfisbundna viðleitni, er hefur sem markmið að útbreiða sérstakar kenningar eða skoðanir og afla þeim nýrra fylgismanna. Þessi viðleitni getur verið svo víðtæk, að heil stórveldi standi á bak við hana, og hún getur verið svo takmörkuð í upphafi, að aðeins sé um að ræða einn einstakling, er hefur upp raust sína til að snúa öðrum til fylgis við skoðanir sínar eða hugsjónir.
Áróðurstæknin hefur nú náð slíkri fullkomnun, að ekki verður hikað við að telja áróðurinn eitt hið allra voldugasta vopn mannsandans, vopn, sem beita má bæði til ills og góðs. Orðið áróður hefur smám saman fengið lakari og lakari merkingu og er á góðum vegi með að verða skammaryrði. Þetta stafar af því, hve oft áróðursvopnunum er beitt til bölvunar, með fullkomnu miskunnarleysi og mannfyrirlitningu. Ýmsar skýrgreiningar á áróðri bera keim af persónulegri andúð manna á honum, sem stafar af því hve honum hefur verið misbeitt.
En það er full ástæða til að taka skýrt fram og leggja áherzlu á það, að áróður er í eðli sínu hlutlaust hugtak frá siðfræðilegu sjónarmiði. Hann er tvíeggjað vopn, sem beita má til ills eða góðs. „En hvað er illt og hvað gott?“ munu menn spyrja. Skoðanir manna um þetta eru ekki síður skiptar en um margt annað í þessum heimi. Siðgæðishugmyndir manna, trúarbrögð og fjölmargt annað er svo breytilegt, t.d. eftir þjóðernum, að það vekur enga furðu, þótt erfitt reynist að skýrgreina á algildan hátt, hvað sé illt og hvað sé gott. Hér verður heldur ekki gerð tilraun til þess.
Maðurinn er dýr, sem gætt er sömu eðlishvötum og ýmis önnur dýr. En hann er jafnframt gæddur miklu fullkomnara og fjölbreyttara vitsmunalífi en dýrin, og í því eru yfirburðir hans fólgnir. Vegna vitsmuna sinna er honum kleift að skilja, rannsaka, bera saman, gagnrýna, álykta og uppgötva. Hann getur þjálfað þessa eiginleika sína og þroskað og breikkað þannig bilið milli sín og dýranna með hverri kynslóð. Því betur sem manninum tekst að rækta vitsmuni sína og alla æðri eiginleika, sem þeim eru tengdir, þeim mun óháðari verður hann hinum frumstæðu eðlishvötum, er blunda í eðli hans. Meðan hann var dýr á lægra stigi, var hann þræll eðlishvata sinna. Þær stjórnuðu lífi hans. Með auknum þroska hefur hann þokazt nær því marki að verða herra eðlishvata sinna, göfga þær og gera þær að aflstöð til nýrra afreka á þroskabraut sinni.
Ef alin er sú ósk í brjósti manninum til handa, að hann megi vaxa að vizku og þroska, verður einnig að rísa gegn hverju því, sem miðar að því að þoka honum niður á við og skipa honum aftur á bekk með hinum óæðri dýrum.
Áróður nútímans er oft þannig rekinn, að varla er hægt að hugsa sér öllu áhrifaríkari aðferð til að svipta manninn valdi á sjálfum sér, gera hann að leiksoppi hinna frumstæðustu hvata og hrekja hann niður á bekk með skynlausum skepnum. Slíkur áróður er ein af þeim meginhættum, sem ógna framtíð mannkynsins. Styrjöldin, sem nú geisar, verður að verulegu leyti rakin til nýtízku áróðurs, sem hefur verið rekinn með algerri beitingu hvers konar vísindalegrar tækni, er við varð komið.
Margt hefur verið ritað um menntun og fræðslu sem andstæðu áróðursins. En oft og einatt er mjög erfitt að greina þar á milli. Lokatakmark alls áróðurs er að sannfæra, fá menn til að trúa. Til þess eru notaðar bæði beinar og óbeinar aðferðir. Áróðurinn fer jafnan skemmstu leið að markinu og gerir sér far um að sannfæra sem flesta á sem stytztum tíma og með sem auðveldustum hætti. Hann leggur ekki áherzluna á að sanna, heldur sannfæra.
Menntun og fræðsla leggur hins vegar áherzlu á að sannfæra með sönnunum, þ.e. maðurinn telur þetta eða hitt satt og rétt, er hann hefur vegið rök og gagnrök, leitað að öllum hugsanlegum möguleikum og komizt að ákveðinni niðurstöðu með rökréttri hugsun. Þó mundi hver sá, sem leitar sannrar þekkingar, hugsa líkt og Ari fróði, að skylt sé að hafa það jafnan, er sannara kynni að reynast, því sannleiksleitandinn er aldrei of viss í sinni sök. En því fer einnig oft mjög fjarri, að fræðslan sé eða geti verið með þessu sniði. Nægir að nefna trúarbragðakennslu og t.d. sögukennslu. Kennslubækur í sögu eru oft svo litaðar af þjóðernisanda, að margt, sem í þeim stendur, mætti skoða sem fjandsamlegan áróður í garð annarra þjóða. Stundum kemur það og fyrir, að sagnaritarinn getur ekki varðveitt hlutleysi sitt gagnvart sögupersónunum, en litar frásögnina vegna tilfinningamats sjálfs sín á mönnum og málefnum, og gætir þá áhrifanna síðar meir í skoðunum þeirra, er lesa. Af þessu leiðir, að fræðsla er oft menguð áróðri og .því erfitt eða ókleift að draga þar markalínu á milli.
Fræðslan miðar þó að því, almennt skoðað, að þroska óháða dómgreind. Komizt hefur verið þannig að orði, að með fræðslunni sé fólki kennt, hvernig fara eigi að því að hugsa, en tilgangur áróðursins sé sá að kenna fólkinu, hvað það eigi að hugsa. Með öðrum orðum: Fræðsla, menntun og þekking er lykillinn að andlegu frelsi einstaklingsins. En áróður, sem náð hefur takmarki sínu til fulls, hneppir andlegt líf einstaklingsins í ákveðna fjötra. Andleg framtakssemi hans er vængstýfð. Andlegt líf hans rennur í farvegi, sem áróðursmeistararnir hafa skapað.
Áróður er ævagamall, þótt hann hafi aldrei verið annað eins stórveldi í andans heimi og síðustu áratugina. Áróður, beinn eða óbeinn, hefur jafnan fylgt valdinu. Hann hefur fylgt valdi kirkjunnar, valdi konunga, valdi auðsins, valdi hins sterka. Það er nútímatækni fyrst og fremst að þakka eða kenna, ásamt æ fullkomnari skipulagningu, hversu áróðurinn hefur færzt í aukana.
Í heimsstyrjöldinni 1914 – 1918 var áróðri beitt í ríkum mæli sem öflugu hernaðarvopni bæði af Þjóðverjum, Bretum og Bandaríkjamönnum. Sá áróður var þó fábreyttur miðað við það, sem nú er, af því að tæknin hafði ekki náð sömu fullkomnun og nú.
Aldous Huxley hefur sagt, að áróðursmaðurinn sé maður, er veitir framrás lind, sem þegar er til. Ef hann grafi í jarðveg, þar sem ekkert vatn er til, sé erfiði hans unnið fyrir gýg. Með þessu er hvergi nærri allt sagt. Ég hygg, að oft eigi betur við að lýsa starfi hans þannig, að hann veiti lindinni í farvegi, sem þegar eru til, eftir því sem honum hentar og hann hefur skarpskyggni til. Ég vil meira að segja hætta á að halda því fram, að hann geti seitt fram nýjar lindir með töfrastaf sínum. Skal ég nú skýra þetta nánar. Ég gat þess áðan, að áróðurinn skírskotaði fyrst og framst til hinna frumstæðu hvata mannsins, til þeirra hvata, sem eru sameiginlegar dýrum og mönnum. Samkvæmt þeim skilningi eru hvatirnar sá farvegur, sem áróðursmaðurinn notar, og sá farvegur er til fyrir fram. Þegar einhver frumhvöt eða eðlishvöt er vakin hjá einstaklingnum, brýzt fram hjá honum ákveðin geðshræring eftir því, hver hvötin er. Geðshræringin („emotion“) er jafnan mjög skammvinn og skapar ekki varanlegt hugarástand eða hugð („sentiment“), eins og það er nefnt á máli sálfræðinga. En varanlegt hugarástand eða hugð skapast að lokum, ef einhver eðlishvöt fær síendurtekin tækifæri til að brjótast út eftir ákveðnum farvegi, og þess má ennfremur geta, að hugðirnar, sem til skilningsauka má nefna varanlegar tilfinningar til betri aðgreiningar frá hinum skammvinnu tilfinningum, geðshræringunum, liggja mjög oft til grundvallar ýmsum venjum vorum, ekki aðeins athafnarvenjum, heldur andlegum venjum, eins og þær birtast í hugsunum og tilfinningalífi.
Ég skal skýra þetta nánar með dæmi. Bardagahvötin er ein af eðlishvötum manna og dýra. Hún er auðvakin, t.d. ef afkvæminu er ógnað, þ.e.a.s. ef atvik ber að, sem gengur í berhögg við móðurhvötina. Almennt má orða það svo, að bardagahvötin sé jafnan vakin, ef stefnt er að því að hindra, að einhver eðlishvöt nái marki sínu. Þannig hefst oft grimmilegur bardagi milli hunda út af beini. Fæðuöflunarhvöt beggja er fyrst vakin og sækir að sínu marki, en þar sem hundarnir eru tveir eða fleiri, er tvísýnt um árangurinn, og þá hefst bardaginn. Hið sama á við, þegar menn slást upp á líf og dauða út af kvenfólki, með þeim mismun, að hér er það kynhvötin, sem hindruð er í framrás sinni með tilkomu meðbiðilsins.
Af því, sem sagt hefur verið, er ljóst, að bardagahvötin er vakin, ef reynt er að stífla framrás annarra eðlishvata. Þegar einhver eðlishvöt er vakin, fylgir því ákveðin geðshræring, eins og áður var sagt. Sú geðshræring, sem er fylgifiskur bardagahvatarinnar, er reiðin. Sé bardagahvötin vakin hvað eftir annað, brýzt út reiði í hvert sinn, en að lokum sprettur upp af þessari rót varanleg tilfinning eða hugð, sem sé hatur.
Þetta einfalda dæmi nægir til að skýra, hvernig hægt er að skapa varanlegt hugarástand, t.d. hatrið, með því að hamra á einni einustu frumhvöt, og það er engu síður hægt að hamra á henni með lygi og prettum en með því, að raunverulegt tilefni komi til. En það er einmitt þetta, sem einkennir áróðurinn svo mjög, að hann sést oft ekki fyrir, en stefnir að markinu án þess að skeyta um rétt eða rangt, eins og raun ber vitni.
Ég ætla að sýna hér dæmi þess, hvers konar aðferðir eru notaðar í áróðri í sinni svörtustu mynd, svo að áheyrendur skilji betur, hvílíkt hyldýpi mannfyrirlitningar þar er um að ræða, er svo ber undir. Dæmið, sem ég tek, er Óðurinn um hatrið eftir Heinrich Vierordt frá árinu 1914.
Ó, blessaða Þýzkaland, þú verður að rista rúnir hatursins á sál þína, djúpt og óafmáanlega. Lengi hefur þig vantað þetta tákn, mjög lengi. Það hrópar um hefnigirni, hefnd, æði. Kæfðu með þér hverja mannlega tilfinningu, og skundaðu til orrustu.
Ó, Þýzkaland, hataðu! Dreptu allar milljónir fjandmanna þinna, og reistu minnisvarða úr rjúkandi líkum, sem nær upp til skýja.
Ó, Þýzkaland, hataðu nú! Gyrtu þig vopnum, og rektu byssusting þinn gegnum hjarta hvers einasta óvinar. Taktu enga fanga. Þaggaðu niður í þeim öllum. Breyttu nágrannalöndum þínum í eyðimörk.
Ó, Þýzkaland, hataðu! Heilbrigði mun spretta undan bræði þinni. Kljúfðu þá í herðar niður með öxum eða höggum byssuskefta. Þessir ræningjar eru villidýr, þeir eru ekki menn.Láttu hnefa þinn fullnægja dómi drottins.
Ó, Þýzkalands, augnablik hatursins er komið! Greiddu þung högg og stór. Herflokkar, stórir og smáir, geysizt fram! Að lokum munt þú sjá þá á rústum heimsins, læknaða að fullu af þinni fornu fíflsku: að þykja vænt um útlendinga.
Það er óþarft að fara mörgum orðum um, hvílík áhrif kvæði eins og þetta getur haft á stríðstímum til að tendra bál heiftar og haturs, halda því við og örva til gereyðingar, sem er öfgafyllsta og trylltasta útrásarform bardagahvatarinnar. Svona herhvöt getur verkað fullvel á einstaklinginn út af fyrir sig, þegar hann er upptendraður af föðurlandsást. Höfundurinn gleymir ekki heldur að nota ættjarðarástina sem bakgrunn, og takmark hans er múgsefjun af trylltustu tegund. Hann ávarpar fósturjörðina sem hina blíðu móður, er verði að rista rúnir hatursins á sál sína og kasta fyrir borð öllum mannlegum tilfinningum. Ættjörðin og þjóðin renna saman í eitt, einstaklingurinn er máður út, hann er einnig falinn í hinu lotningarfulla og ástríðuþrungna ávarpi: Ó, Þýzkaland. Með þessari tækni verður kvæðið miklu öflugra vopn til múgsefnunar meðal hermannanna. Maður sér þá í anda ganga í fylkingu, gráa fyrir járnum, jörðin endurómar háttbundið fótatak þeirra. Þeir syngja þennan óð, Ó, :Þýzkaland – augnabliks viðkvæmni – hataðu! – Svipirnir harðna, hendurnar kreppast um byssuskeftin, þúsundir fóta stíga þungt til jarðar, svo að glymur í steinlögðu strætinu. Þúsundir sálna renna saman í eina hópsál. –
Hér hefur verið drepið á, hvernig taka má bardagahvöt mannsins og hamra á henni, unz vaxið hefur upp rótgróið hatur. Bardagahvötin er óspart notuð sem farvegur til þess að veita áróðrinum í. Áróðursmaðurinn stefnir að því að sannfæra aðra um, að hans málstaður sé betri eða réttari en málstaður andstæðingsins; hann sé óvinur, er haldi réttinum fyrir manni eða annað þess háttar. Í íslenzkum blöðum sér maður stundum frásagnir um, að „ágætur baráttuhugur hafi verið í fundarmönnum“ á pólitískum flokksfundum, „vígstaðan“ sé í bezta lagi og svo framvegis. Sýnir þetta, að þeir, sem í blöðin rita, skynja ósjálfrátt, að leikið er óspart á bardagahvötina, þótt mannvíg séu engin og hæpið að tala um „vígstöðu“ hér hjá okkur.
Í hernaðarlöndum hlúir vopnaburður og heræfingar að bardagahvötinni og það á fleiri en einn veg, ekki sízt, ef börn eru vanin við vopnaburð þegar á unga aldri, eins og á sér stað í facistaríkjunum og Sovétríkjunum. Það, sem menn læra, glæðir oft yfirburðakennd þeirra gagnvart þeim, sem minna kunna, og maðurinn er ekki ófús til að sýna yfirburði sína. Einkennisbúningar, orður og afreksmerki glæða einnig yfirburðakenndina, en sú framhvöt, sem þarna er notuð sem farvegur, er sjálfshafningarhvötin.
Í áróðri er því oftast þannig hagað, að áróðursmaðurinn leikur á margar frumhvatir í senn og gerir þær að bandamönnum sínum. Hann skjallar þá, sem hann ætlar að vinna til fylgis við sig, og vekur hjá þeim sjálfshafningarhvötina og þá geðshræringu, sem henni fylgir, sem sé jákvæða sjálfstilfinningu, er endað getur með því, ef nógu oft er á þessu hamrað, að sérstakir flokkar, stéttir eða þjóðir telji sig öllum öðrum betri og fremri. Öflunarhvötin er einnig óspart notuð. Henni fylgir sú tilfinning, að maður eigi eitthvað, og er hún sérstaklega rík hjá nirflinum. Með því að vekja öflunarhvötina og þar með eignartilfinninguna, er auðvelt fyrir áróðursmanninn að sýna fram á, hve andstæðingurinn sé svívirðilegur að gína yfir hlut annarra. Áróðursmaðurinn notar fleiri farvegi í frumeðli mannsins en þetta.. Hann vekur til dæmis viðbjóð, sem er geðshræring, er fylgir einni af eðlishvötum manna og dýra, sem birtist í sinni frumstæðustu mynd, er menn hrækja einhverjum óþverra út úr sér. Áróðursmaðurinn getur bæði vakið reiði og viðbjóð, en að lokum hatur á andstæðingi sínum með því að útmála grimmd hans, lygar og hvers konar mannvonzku. Þá notar hann oft forvitnishvötina sem hjálpartæki. Bæði notar hann hana sem nokkurs konar könnunartæki til þess að komast að, hvers menn vænta og óska, svo að hann geti leikið á þá strengi, en einnig til að skerpa athyglina um stundarsakir, og þá notar hann tækifærið, meðan hugurinn er eitt spurningarmerki, að smeygja inn einhverju atriði, er hann vill, að festist vel í minni. Oft notar hann spurningarformið í þessu skyni. Á eftir spurningunni bíður hann oft – til að auka eftirvæntinguna, áður en hann svarar sjálfur, svo að áheyrendur fái tóm til að svara sjálfir í huganum. Með þessu móti getur ýmislegt áunnizt. Þetta getur verið aðferð til að venja fólk á að álykta per analogiam, þ.e.a.s.út frá samlíkingum. Huga þess er beint inn á ákveðna braut, t.d. með því að minna á atburði, ræður eða blaðaskrif. Þá er varpað fram spurningu og fólkið látið botna vísuna sjálft. Oft er það þá unnið, að fólkið er farið að taka undir sjálft með áróðursmanninum og dæma andstæðinginn. Ef áheyrendur gefa annað svar í huganum en ætlazt hefur verið til, verður þeim enn minnistæðara svar áróðursmannsins og útlistanir en ella mundi. Fyrir bragðið verður áróðurinn áhrifaríkari en ef fluttur væri í beinni frásögn, án spurninga.
Gerum ráð fyrir, að spurt væri t.d., hvaða maður það væri, sem hefði safnað að sér mönnum og krafizt af þeim hollustu, ella léti hann drepa hina beztu þeirra. Þeir hefðu látið kúgast að vísu, en hann hefði þó tekið sonu þeirra og nánustu vandamenn sem gísla til tryggingar .því, að þeir héldu trúnað við sig. Nú á tímum mundu áreiðanlega flestir svara, að þetta hafi verið Adolf Hitler, Quisling eða einhver slíkur. Menn mundu álykta út frá fréttum um atburði líðandi stundar. Það er mjög ólíklegt, að nokkur mundi svara, að þetta hefði getað verið Ólafur konungur Tryggvason, er hann kristnaði Þrændur. Gerum ráð fyrir, að spurt væri, hver það hefði verið, er sótti að stað einum og hafði m eð sér tignan gísl úr hópi óvinanna og boðaði þeim, að hann mundi hafa gísl þennan fremstan, svo að hann félli fyrstur fyrir skotunum, ef óvinurinn gæfist ekki upp. Sjálfsagt mundi svarið verða líkt og áður. Fæstir mundu hugsa til Jóns Arasonar, er hann sótti að Skálholtsstað með Martein biskup Einarsson sem gísl.
Þessi dæmi eru tekin af handahófi til að sýna, hve hætt er við, að fólk álykti út frá samanburði, sem gerður er í skyndingu með hliðsjón af nærtækum dæmum, og hversu auðvelt er að leiða fólk út á villigötur í þessum efnum, ef áróðri er beitt til þess.
Sköpunarhvötin er oft notuð sem farvegur fyrir áróður. Henni fylgir tilfinning um sköpunarmátt, sem ýtir undir sjálfshafninguna. Þetta vopn er t.d. mjög sterkt í þýzkum og rússneskum áróðri. Stórkostleg mannvirki verka sannfærandi á fjöldann, verkin beinlínis tala til hans. Þetta vopn er raunar notað alls staðar. T.d. gera allir stjórnmálaflokkar sér mikið far um að telja upp og minna á, hvað þeir hafi gert fyrir fólkið og hvað þeir ætli að gera. Dæmin eru nærtæk.
Áróðursmenn leggja oft mikið kapp á að gera andstæðinga sína hlægilega, og þetta er með beittustu vopnunum. Sálfræðingar segja, að hláturinn sé hjálparráð, sem manninum einum sé gefið til þess ýmist að komast hjá að finna til skapraunar eða samúðar. Með því að vekja hlátur á kostnað andstæðingsins, kemur áróðursmaðurinn í veg fyrir, að málstaður andstæðingsins hljóti samúð áheyrenda, en í stað þess engist hann undir hlátrasköllunum með særða sjálfstilfinningu. En þetta vopn er nokkuð vandmeðfarið, því að svo getur farið, ef skotið er yfir markið, að áróðursmaðurinn uppskeri reiði og gremju eða verði að athlægi, en andstæðingurinn hljóti samúð áheyrenda.
Sú eðlishvöt, sem er bezti bandamaður áróðursmannsins, er þó vafalaust hjarðhvötin. Áróðursmaðurinn stefnir að því að sannfæra fjöldann, og honum er mikill styrkur í þeirri breytingu, sem einstaklingurinn tekur, þegar hann er kominn á fjöldafund.
Tilfinningar, hugsanir og athafnir mannhóps eru frábrugðnar því, sem er hjá hverjum einstaklingi í hópnum. Hópurinn er því nokkurs konar einstaklingur út af fyrir sig, samsettur að vísu, en með ákveðnum sérkennum.
Hjarðhvötin er sú eðlishvöt, sem rekur mennina til að stofna samfélag, og bæði sjálfshafningarhvötin og sjálfslægingarhvötin, er skipta mönnum í foringja og fylgismenn, væru meiningarleysa og ekki til, ef menn lifðu sem einangraðir einstaklingar. Þar sem margir menn eru saman komnir, gætir þess mjög, að hver tekur eftir öðrum, bæði hvað snertir tilfinningar, hugsanir og athafnir. Tilfinningar hópsins mótast af samkennd, hugsanirnar af sefjun og athafnirnar af eftiröpun. Ef eitt barnið í óvitahóp fer að orga, fara hin líka að orga, ef einn maður í miklum fjölda fer að góna beint upp í loftið, fara hinir að gera það líka.
Allir áróðursmenn, lýðskrumarar, foringjar og mælskumenn allra tíma hafa stuðzt við þessa sérstöku eiginleika hópsálarinnar.
Það, sem nú hefur verið sagt um áróður, hygg ég að gildi um allan áróður, hvar sem er, hvort sem er í lýðræðislöndum eða einræðislöndum. Áróður í einræðisríkjum er þó svæsnari og grimmilegri, enda hægara um vik, þar sem hann hefur bókstaflega öll menningartæki í þjónustu sinni, svo sem blöð, bækur, tímarit, útvarp, leikhús, kvikmyndir, hljómlist, málaralist, höggmyndalist og húsagerðarlist. Engin gagnrýni eða and-áróður kemst þar að. Áróðurinn er settur í fullkomið kerfi, og eftirlitskerfið er jafn fullkomið, en kúgun og lífláti beitt eftir þörfum.
Áróðurinn í lýðræðisríkjunum er vægari, og gagnrýnin kemur þar að miklu haldi sem mótvægi. En eðli áróðursins er hið sama. Hann skírskotar til sömu frumstæðu hvatanna og leitast við að sannfæra fólk með tilfinningum, en ekki rökum fyrst og fremst.
Áróður getur verið bæði beinn og óbeinn. Dæmi um beinan áróður eru nærtæk. Áróður Hitlers er eitthvert ljósasta dæmið.
Óbeinn áróður er yfirleitt miklu skæðara vopn en beinn áróður, því að margir búast til andlegrar varnar, þegar reynt er að þröngva þeim til að trúa og til þess notaðar klunnalegar aðferðir. Þegar óbeinum aðferðum er beitt, hefur einstaklingurinn ekki vitund um, að verið sé að sefja hann. Honum finnst þvert á móti, að hann hafi sjálfur komizt að merkilegri niðurstöðu og finnur jafnvel talsvert til sín fyrir. Hann er þá líklegur til að leggja í aðra til að sannfæra þá, og vel geta andmæli þeirra orðið til þess að styrkja sannfæringu hans enn betur, því að honum finnst, að skoðunin sé einkauppgötvun hans sjálfs og andlegt afkvæmi.
Sígilt dæmi, er lýsir aðdáanlega beitingu óbeins áróðurs og áhrifum hans, er ræða Antoníusar yfir líki Cæsars í leikriti Shakespeares.
Banamaður Cæsars, Brútus, kemur inn á sviðið og er ákaft hylltur af lýðnum. Antoníus hefur mál sitt. Naumast mælir hann eitt styggðaryrði um Brútus, en lofar hann á hvert reipi. En hann leikur á tilfinningar fólksins á hinn breytilegasta hátt. Hann vekur hjá því viðkvæmni, aðdáun á Cæsar og afrekum hans, vekur forvitni þess og ágirnd með því að sínefna erfðaskrána. Hann vekur meðaumkun, hrylling og bræði með því að sýna sár Cæsars – „hina þöglu munna“, sem hann biður að tala fyrir sig.
„Brennum Brútus inni!“ hrópar lýðurinn að lokum.
Ég ætla að leyfa mér að lesa þessa ræðu Antoníusar í lauslegri þýðingu:
„Vinir mínir, Rómverjar, landar mínir, hlustið á mig. Ég kem til þess að jarða Cæsar – ekki til þess að lofa hann.
Hið illa, sem menn aðhafast, lifir eftir þá. En góðverk þeirra fara oft í gröfina með þeim. Látið svo fara um Cæsar. Göfugmennið Brútus sagði ykkur, að Cæsar hafi verið metorðagjarn. Hafi hann verið það, þá var það sorgleg misgerð, og Cæsar hefur tekið sorgleg gjöld fyrir. Ég kom hingað með leyfi Brútusar og hinna – því að Brútus er sæmdarmaður, og það eru hinir allir, allir sæmdarmenn – til þess að tala yfir moldum Cæsars. Hann var vinur minn, tryggur mér og réttlátur við mig. En Brútus segir, að hann hafi verið metorðagjarn, og Brútus er sæmdarmaður. Hann flutti marga fanga heim til Rómar, og lausnargjald þeirra fyllti fjárhirzlur ríkisins. Virtist þetta verk Cæsars bera vitni um metorðagirnd hans? Þegar fátæklingarnir grétu, grét Cæsar líka. Metorðagirndin ætti að vera úr harðara efni. En Brútus segir, að hann hafi verið metorðagjarn, og Brútus er sæmdarmaður. Þið sáuð allir, að á Lúpercatshátíðinni bauð ég honum konungskórónu þrisvar – og hann neitaði henni þrisvar. Var þetta metorðagirnd? En þó segir Brútus, að hann hafi verið metorðagjarn, og vissulega er Brútus heiðursmaður. Ég tala ekki hér til þess að ósanna orð Brútusar, heldur er ég hér til þess að tala um það, sem ég veit. Einu sinni unnuð þið honum allir og ekki að ástæðulausu. Hvaða ástæða bannar ykkur þá að syrgja hann? Ó, dómgreind, þú ert flúin til skynlausra dýranna, og mennirnir hafa misst vitið. Sýnið mér umburðarlyndi. Hjarta mitt er í kistunni hjá Cæsari, og ég verð að bíða unz það kemur til mín aftur.
Það er ekki lengra síðan en í gær, að orð Cæsars hefðu getað boðið öllum heiminum byrginn; nú liggur hann þarna og enginn svo fátækur, að sýni honum lotningu.
Ó, þið góðu menn, ef ég girntist að æsa upp hugi ykkar og hjörtu til uppreisnar og ofsa, þá mundi ég gera Brútusi rangt til, Cassíusi rangt til, sem þið allir vitið, að eru heiðursmenn. Ég vil heldur gera hinum látna rangt, gera sjálfum mér rangt og ykkur líka en að gera öðrum eins heiðursmönnum rangt til. En hér er pergamentsskjal með innsigli Cæsars, ég fann það í einkaherbergi hans; það er erfðaskrá hans. Ef alþýðan aðeins heyrði erfðaskrána – en þið afsakið, að ég ætla ekki að lesa hana – þá mundi hún fara og kyssa sár Cæsars látins, dýfa klútum sínum í hið heilaga blóð hans. Já, þeir mundu meira að segja biðja um hár af höfði honum til minningar og á banasænginni geta þess í erfðaskrám sínum og ánefna afkvæmum sínum sem dýrmæta dánargjöf.
Verið þolinmóðir, góðu vinir. Ég má ekki lesa erfðaskrána, það er ekki rétt, að þið fáið að vita, hve mjög Cæsar unni ykkur. Þið eruð ekki trémenn, ekki gerðir úr steini; – þið eru menn. Og af því að þið eruð menn, munduð þið æsast upp og verða óðir, ef þið heyrðuð erfðaskrána. Það er gott, að þið vitið ekki, að þið eruð erfingjar hans; því að – ó, hvað mundi þá verða, ef þið vissuð það?
Svo að þið ætlið þá að neyða mig til að lesa erfðaskrána? Sláið þá hring um lík Cæsars, og ég ætla að sýna ykkur manninn, sem gerði erfðaskrána. Á ég að koma niður? Viljið þið veita mér leyfi til þess?
Ef þið eigið nokkur tár til, þá búizt nú til að gráta þeim. Þið þekkið allir skikkju Cæsars. Ég man, þegar hann bar hana í fyrsta sinn. Það var eitt sumarkvöld í tjaldi hans. Þann dag sigraðist hann á Nervum.
Sko! Hér fór rýtingur Cassíusar í gegn, sjáið þið rifuna, sem hinn illgjarni Casca gerði. Í gegnum þessa stungu rak Brútus, ástvinur Cæsars, rýting sinn, og þegar hann dró bölvaðan kutann úr sárinu, sjáið þið, hvernig blóð Cæsars elti hann, rétt eins og það rynni út til þess að ganga úr skugga um, hvort það væri Brútus, sem barði svona óvingjarnlega að dyrum. Því að þið vitið, að Brútus var engill í augum Cæsars. Dæmið þið, guðir, hve heitt Cæsar unni honum. Þetta var allra óvinveittasta stungan, því að þegar hinn göfuglyndi Cæsar sá hann reka í sig rýtinginn, þá varð honum vanþakklætið sterkara en vopn drottinssvikanna og gersigraði hann. Þá sprakk hið mikla hjarta hans, og með skikkjuna sveipaða um andlit sér féll hinn voldugi Cæsar rétt við fótstallinn undir líkneski Pompejusar, sem blóðlækur rann um alla stund. Ó, hvílíkt fall, kæru landar! Þá féll ég og þið – og allir féllum við niður, en blóðþyrstir drottinssvikararnir sveifluðu sverðum yfir okkur.
Ó, nú grátið þig, og ég sé, að þið finnið mátt meðaumkunarinnar. Þetta eru dýrmætir dropar (c: tárin). Góðir drengir! Hvað er þetta! Eruð þið að gráta, þótt þið sjáið ekki annað en skorna skikkju Cæsars? Sjáið hérna. Hér er hann sjálfur, sundur tættur af drottinssvikurum, eins og þið sjáið.
Góðir vinir, kæru vinir, ég ætla ekki að æsa ykkur upp í neinn ógnar ofsa. Þeir, sem hafa unnið þetta verk, eru heiðursmenn. Ég veit því miður ekki, hvaða einkaástæður þeir hafa haft, sem knúðu þá til þess að gera þetta. Þeir eru vitrir og vandaðir menn og munu vafalaust svara ykkur með rökum. Ég er ekki hingað kominn, vinir mínir, til þess að stela hjörtum ykkar. Ég er ekki mælskumaður eins og Brútus. Ég er, eins og þið allir vitið, blátt áfram og berorður maður, sem elska vin minn, og það vissu þeir vel, sem leyfðu mér að tala hér opinberlega um hann. Því að hvorki hef ég ritaða ræðu, orðgnótt né verðleika, aðburði, gott ræðusnið né mælskuþrótt til þess að æsa menn upp. Ég tala einungis blátt áfram. Ég segi ykkur það eitt, sem þið vitið sjálfir; ég sýni ykkur sár hins ljúfa Cæsars, vesalings, vesalings þögla munna og bið þá að tala fyrir mig. En ef ég væri Brútus og Brútus væri Antoníus, þá væri hér sá Antoníus, sem róti gæti komið á hugi ykkar og gætt hvert sár Cæsars talandi tungu, sem hræra skyldi steina Rómaborgar til þess að rísa upp til mótþróa.
Hvað er nú, vinir, þið farið og gerið eitthvað, sem þið vitið ekki hvað er. Með hverju hefur Cæsar verðskuldað ást ykkar? Ó, þið vitið það ekki. – Ég verð þá að segja ykkur það. Þið hafið gleymt erfðaskránni, sem ég sagði ykkur frá.
Hér er þá erfðaskráin og undir henni innsigli Cæsars.
Hverjum rómverskum borgara gefur hann, hverjum einstökum manni, 75 drökmur.
Auk þess hefur hann arfleitt ykkur að skógargötum sínum, laufskálum og hinum nýju aldingörðum sínum hérna megin Tíberárinnar; hann hefur arfleitt ykkur að þessu og erfingja ykkar um aldir alda: almennings skemmtistaðir, sem þið megið nú ganga um ykkur til hressingar.
Hér var Cæsar. Hvenær mun koma annar slíkur?“
*
Ég minntist áðan á áróðursaðferðir Hitlers. Óþarft mun að skýra þær með dæmum, en ekki er úr vegi að rifja upp siðareglur hans varðandi áróður, eins og þær birtast í 6. kafla bókar hans, Mein Kampf.
Efnislega eru helstu reglurnar þessar:
1. Vertu aldrei hlutlægur (objektiv). Segðu aldrei neitt gott um andstæðing, aldrei neitt illt um skoðanabræður þína. Málaðu svart og hvítt.
Hvað yrði sagt um sápuauglýsingu, sem léti þess getið, að aðrar sáputegundir væru góðar? Maður mundi hrista höfuðið. Á sama hátt er þessu farið með alla pólitíska auglýsingarstarfsemi.
Hlutverk árðóðurs er ekki að meta, hvað sé rétt og hvað rangt, en einungis að leggja áherzlu á, að rétturinn sé allur þess flokks, sem maður fylgir að málum. Í áróðri á ekki að leggja fram sannleikann á hlutlægan hátt, svo fremi það geti orðið andstæðingnum að nokkru liði. Ekki á heldur að bera sannleikann á borð fyrir fjöldann með fullri hreinskilni.
Um það eitt á að hugsa, hvernig maður geti bezt komið ár sinni fyrir borð.
Það væri meginfirra að minnast þannig á orsakir heimsstyrjaldarinnar (fyrri), að svo gæti virzt sem Þýzkaland ætti þar nokkra sök. Umsvifalaust ber að velta sakarbyrðinni yfir á andstæðinginn, jafnvel þótt það sé ekki í samræmi við staðreyndir.
2. Áróðurinn ber ætíð að miða við þá áheyrendur, sem sízt eru dómbærir, því að þeir eru jafnan í meiri hluta. Því fleiri sem hlusta á, þeim mun lægra ber að leggjast í áróðrinum.
3. Áróðurinn á ætíð að skírskota til framstæðra kennda og hvata, aldrei til vitsmunanna.
4. Maður á að láta sér nægja fáein aðalatriði og „slagorð“, sem endurtekin eru sí og æ. Endurtekningin er mikilvægust af öllu.
Þetta eru í stuttu máli meginreglur Adolfs Hitlers um áróður, og það er óþarft að taka fram, að hann hefur yfirleitt ekki brugðið mikið út af þeim. Hann segir á öðrum stað í bók sinni, að þýzka þjóðin hafi ekki hugmynd um, hvernig afvegaleiða verði þjóð, ef maður ætli sér að vinna fylgi fjöldans.
Mönnum blöskrar ef til vill þessi hugsanaferill, og Hitler er ekki einn um hann. Rússneskur siðfræðiheimspekingur, Preobrasjenski, hefur komizt þannig að orði: „Lygi og svik eru oft mikilvæg vopn í baráttu hinna arðrændu stétta við fjendur sína … Það er allt annað að strá ryki í augun á óvini sínum en að reyna að leika á stríðsbróður sinn eða félaga.“
Þetta er gamla sagan um, að tilgangurinn helgi meðalið. Í sjálfu sér er lofsverðara, að játað sé hreinskilnislega, að engin vopn séu svo ódrengileg, að ekki megi nota , heldur en hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar og afneita hennar krafti, berja sér á brjóst, hneykslast yfir prettum, blekkingum, rógi og lygi, en nota þó öll þessi vopn og þykjast vera heiðvirður og meta sannleikann mest allra dyggða.
Óvandaður áróður, afskræming staðreynda, ósannindi og blekkingar, hálfsagður sannleikur, þögn um mikilvægar staðreyndir er orðið svo algengt nú á dögum, einnig í lýðræðislöndum, einnig hér, að mikil hætta er á ferðum. Reynt er að sannfæra fjöldann með tillfinningum, sem eru hið frumstæða útrásarform eðlishvatanna, en miklu síður með hlutlægum rökum, sem skírskota til óháðrar dómgreindar og hins æðra vitsmunalífs, sem manninum er gefið og greinir hann frá dýrunum. Að vísu er það bót í máli, að óvandaður áróður, ósannindi og blekkingar koma þeim, er þessu beita, oft óþægilega í koll. Fólk vill vita sannleikann, og allar þessar óvönduðu aðferðir heppnast aðeins að svo miklu leyti sem fólk trúir því, að það fái að vita það, sem er satt og rétt. Ef það uppgötvar óheilindin, snýst það gegn þeim, er blekktu það.
En menn eru oft í hinum mesta vanda með að gera upp við sig, hvað sé satt og rétt í einhverju máli, um einhvern mann, um einhvern flokk, um eitthvert ríki, þótt þeir séu allir af vilja gerðir.Frásagnir blaða, bóka og útvarpsstöðva eru oft svo sundurleitar, að menn hrista höfuðið og vita ekkert, hverju þeir mega trúa. Hægt væri að sýna með mörgum dæmum, hve margt ber oft á milli í frásögnum íslenzkra blaða af mönnum og málefnum. Það skal ekki gert hér, enda geta allir sannfærzt um þetta með því að gera samanburð. En einmitt þetta, að mönnum er oft á tíðum gert næsta ókleift að mynda sér óhlutdrægar skoðanir með því að beita óháðri dómgreind sinni, stuðlar mjög að því, að þeir verða leiksoppar í höndum óhlutvandra áróðursmanna. Þegar svo er og rekin er skipulögð starfsemi til að móta skoðanir manna á þennan hátt með tilfinningum einum, er ekki hægt að tala um lýðræði. Slyngustu áróðursmennirnir ráða með því að styðjast við hvers konar hleypidóma og múgsefjun, er þeir koma af stað með margvíslegri sálfræðilegri og verklegri tækni.
Og almenningur er ekki miklu betur settur en leikhússgestirnir í Parísarborg fyrir rúmlega hundrað árum, þegar Société d´Assurance de Succés dramatique tók að sér að steypa þá upp í móti sínu.
Eins og nú standa sakir, eru áróðursmennirnir mestu ráðandi á leiksviðinu víða um heim. Það er mikils um vert, að almenningur geri sér þetta ljóst og fái opin augun fyrir því, hve oft hann er blekktur, hvaða ráðum er beitt til þess og hversu sárt maðurinn er oft leikinn sem vitsmunavera. Full nauðsyn væri á því, að kennsla væri veitt í því, hversu helzt mætti forðast vélabrögð áróðurs, því að hann ógnar nú svo mjög sannri þekkingu og leitinni að henni.