Ludwig Wittgenstein

Ludwig Wittgenstein fæddist í Vínarborg árið 1889. Hann var sonur iðjuhölds af Gyðingaættum og aldist upp við mikið ríkidæmi. Ungur ákvað hann að leggja stund á verkfræði og fékk í gegnum hana áhuga á stærðfræði. Sá áhugi vakti hann síðan til umhugsunar um undirstöður stærfræðinnar og hreina rökfræði. Að ráði Gottlobs Frege hóf hann samstarf við Bertrand Russell í Cambridge á Englandi um rannsóknir í rökfræði. Samstarf þeirra stóð yfir á árunum 1912–1913.

Á meðan Wittgenstein gegndi herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni lagði hann lokahönd á bók sína Tractatus Logico-Philosophicus þar sem hann lagði fram tímamótakenningu sína um tengslin milli rökgerðar setninga og rökgerðar heimsins. Að mati Wittgensteins var ekki mögulegt að gera grein fyrir eða tjá rökgerð setninga, þ.e. þá rökfræðilegu byggingu sem ljær tungumálinu merkingu, innan markanna sem tungumálið setur. Þar sem hann taldi að setningar tungumálsins væru eingöngu nothæfar til að lýsa stöðu mála í heiminum, þ.e. heimi reynslunnar, þá væri ekki hægt að lýsa sjálfum reglunum. „Um það sem maður getur ekki talað verður maður að þegja“ var lokaniðurstaða bókarinnar. Wittgenstein taldi sig í fúlustu alvöru hafa leyst öll vandamál heimspekinnar í ritinu og kaus samkvæmt því að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Hann flutti á ný til Austurríkis, starfaði um hríð sem barnakennari í Ölpunum og lagði stund á arkítektúr.

Það var ekki fyrr en árið 1929, eftir meira en tíu ára hlé frá heimspekistörfum, að Wittgenstein fluttist á ný til Cambridge og hóf þar kennslu og rannsóknir. Afrakstur starfs hans þar kom út að honum látnum, í bókinni Philosophical Investigations, en Wittgenstein lést árið 1951. Í þeirri bók kveður við nokkuð annan tón en í Tractatus Logico-Philosophicus, en skoðanir eru skiptar um hvort viðhorfin sem þar birtast séu mjög eðlisólík fyrri hugmyndum hans. Í Philosophical Investigations leggur Wittgenstein áherslu á að tungumálið fylgi í raun ekki (rökfræðilegum) reglum nema að svo miklu leyti sem þær eru settar af samfélagi þeirra sem nota það. Merking orða snúist einvörðungu um rétta notkun þeirra eins og hefðin skilgreinir hana.1

Þær greinar sem hér birtast eru allar góðar til að nálgast þennan merka heimspeking en grein Þorsteins Gylfasonar, „Ludwig Wittgenstein“ veitir e.t.v. besta heildarsýn á kenningar hans. Grein Ólafs Páls Jónssonar, „Efahyggja um merkingu“, fjallar sérstaklega um túlkun heimspekingsins Saul Kripke á Wittgenstein hvað varðar vandann um einkamál, (e. private language) þ.e. hugsanlegt tungumál sem skilgreinir merkingu sína án tillits til málsamfélags. Greinin „Var Wittgenstein atferlishyggjumaður?“ eftir Karl Ægi Karlsson svarar spurningunni sem titillinn vísar til. Síðastnefndu greinarnar tvær taka mið af umræðu sem tengist frekar skrifum „seinni Wittgensteins“.

Ludwig Wittgenstein er heimspekingur sem hefur vakið athygli langt út fyrir raðir heimspekinga. Það skýrist nokkuð af því hversu óvenjulegur maður hann var í öllu atgervi. Hann var frábærlega greindur, skýr og agaður í hugsun en um leið svo tilfinningasamur, siðvandur og krefjandi í samskiptum að vinir hans áttu oft fullt í fangi með hann. Hann hafði mikil áhrif á alla sem kynntust honum og vinir hans héldu merki hans á lofti með því að halda áfram að gefa út skrif hans að honum látnum.

Eftirfarandi kann að vera áhugavert fyrir þá sem vilja lesa eða fræðast um Wittgenstein:
* Kvikmyndin Wittgenstein eftir Derek Jarman. Þar er fjallað um ævi Wittgensteins út frá vináttusamböndum hans við Bertrand Russell, John Maynard Keynes o.fl. í bland við heimspekilegar vangaveltur.
* „Heimspekiævisaga“ Wittgensteins, The Duty of Genius eftir Ray Monk, er frekar nýleg og þykir góð. Monk hefur einnig skrifað ævisögu Bertrands Russell.
The Internet Encyclopedia of Philosophy er með greinargóðan, hæfilega langan og þægilegan texta um Wittgenstein hér.

Helstu rit Wittgensteins eru þau tvö sem nefnd voru hér að ofan. Auk þeirra má nefna nokkrar bækur sem fyrrverandi nemendur hans hafa tekið saman og gefið út:
On Certainty
Philosophical Remarks
Bláa bókin í þýðingu Þorbergs Þórssonar með inngangi eftir Þorstein Gylfason.

Karl Ægir Karlsson:
Var Wittgenstein atferlishyggjumaður?
Greinin birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

Oswald Hanfling:
Wittgenstein og vandamálið um meðvitundina
Grein þessi birtist í heimspekitímaritinu Think (3. tölubl., vorhefti 2003) Gunnar Ragnarsson þýddi.

Ólafur Páll Jónsson:
Efahyggja um merkingu
Greinin birtist í Hugi 10.-11. árg., 1998/1999.

Ludwig Wittgenstein:
Fyrirlestur um siðfræði
Ásamt inngangi þýðanda, Þorsteins Gylfasonar.

Bryan Magee:
Fyrri og seinni heimspeki Wittgensteins. Bryan Magee og Anthony Quinton ræðast við
Samræðan birtist upphaflega í Men of Ideas. Gunnar Ragnarsson þýddi.

 

Tilvísanir

1. Til að greina á milli þess munar sem er á hugmyndum Wittgensteins í Tractatus Logico-Philosophicus og Philosophical Investigations er stundum rætt um „fyrri“ og „seinni“ Wittgenstein.

« Til baka