Greinasafn fyrir merki: lýðræði

Hugsanir á dósum: um hjarðhugsun og andlega leti

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Upp úr miðjum fjórða áratug síðustu aldar var heimspekingurinn Susan Stebbing fengin til að semja nokkur útvarpserindi til flutnings hjá BBC. Af flutningi erindanna í útvarpi varð einhverra hluta vegna aldrei – kannski setti vanheilsa Stebbing þar strik í reikninginn – en í staðinn vann Stebbing upp úr þeim bók sem kom út árið 1939 undir heitinu Thinking to Some Purpose eða Hugsun að einhverju gagni. Eins og heitið gefur til kynna var helsta markmið bókarinnar að veita leiðsögn um skýra og vandaða hugsun, en í þeim efnum þótti Stebbing ýmislegt betur mega fara í bresku samfélagi. Hún skrifar:

Það er knýjandi þörf nú á dögum fyrir borgara í lýðræðisríki að hugsa vel. Prent­frelsi og frelsi þingsins nægja ekki. Vandi okkar stafar að hluta til af okkar eigin heimsku, að hluta til af hagnýtingu þessarar heimsku og að hluta til af okkar eigin fordómum og persónulegu löngunum.

Í bókinni kemur Stebbing inn á ýmis atriði er varða góða hugsun en meðal annars kynnir hún til sögunnar það sem hún kallar „potted thinking“, eða „hugsanir á dósum“. Um þær segir hún:

…fáar sannar staðhæfingar um flókið ástand er hægt að túlka með einni setningu.…Við föllum auðveldlega í þá gryfju að samþykkja samþjappaðar staðhæfingar sem spara okkur fyrirhöfnina við að hugsa.

Þessum samþjöppuðu, og þar með ófullkomnu, staðhæfingum líkir Stebbing við dósakjöt sem hefur verið soðið niður og þar með tapað mikilvægum næringarefnum. Dósakjötið getur vissu­lega haft sína kosti, verið þægilegt í notkun og auðvelt að grípa til þess, en það hefur ekki sama næringargildi og ferskt kjöt. Þar að auki er lykilatriði að dósakjötið, eigi það að vera brúklegt, sé unnið úr fersku kjöti. Hið sama gildir um hugsanir á dósum: þótt það geti stundum verið ástæða til að stytta sér leið í hugsun og einfalda hlutina þá þurfa slíkar hugsanir að eiga uppruna sinn í almennilegum hugsunum sem hugsaðar hafa verið til enda. Stebbing segir svo:

Ekki skal halda í [dósahugsun] þegar aðstæður hafa breyst og nýir þættir komið til sögunnar. Við ættum ekki að láta ávana í hugsun okkar loka hugum okkar eða reiða okkur á slagorð til að spara okkur vinnuna við að hugsa. Vítamín eru nauðsynleg fyrir vöxt líkama okkar; gagnrýnin yfirheyrsla dósa­hugsana okkar er nauðsynleg til að þroska getu okkar til að hugsa að einhverju gagni.

Ég tel að hinn rúmlega 70 ára gamli boðskapur Stebbing eigi fullt erindi við okkur í dag. Ég fæ ekki betur séð en dósahugsanir á borð við þær sem Stebbing lýsir sé að finna út um allt hér og nú. Við tileinkum okkur alls konar slagorð og frasa og byggjum skoðanir okkar á mikilvægum málum á þeim og engu öðru. Eins og Stebbing bendir líka á geta slagorð verið gagnleg í ákveðnum tilvikum, t.d. í því skyni að vekja athygli á einhverjum málstað, en þegar skoðana­myndun er byggð á slagorðunum einum saman án þess að kafað sé dýpra skortir eitthvað á hugsunina. Margir sjá sér hag í því að við hugsum ekki of mikið eða djúpt, að hegðun okkar sé frekar byggð á dósahugsunum sem að okkur eru réttar og sem við gagnrýnum aldrei. Þar koma líklega til tveir áhrifaþættir: peningar og völd. Þeir sem ásælast peningana okkar vilja hafa áhrif á hegðun okkar þannig að við kaupum það sem þeir hafa til sölu og ýmsar stofnanir sem ásælast völd vilja hafa áhrif á hegðun okkar svo að við höldum okkur á mottunni og séum ekki fyrir þeim. Auðvitað geta þessir áhrifaþættir svo fléttast saman. Þar sem hrein valdbeiting þykir ekki við hæfi í lýðræðisríki þykir vænlegra að stýra okkur gegnum hugsanir okkar heldur en að berja bókstaflega á okkur. Og við erum upp til hópa stillt og prúð, alla vega svona oftast, tökum við okkar dósum og gerum eins og fyrir okkur er lagt. Eða hvað er það annað en dósahugsun þegar við trúum því að líf okkar verði betra og innihaldsríkara ef við göngum í buxum með einhverju tilteknu merki, að við getum ekki verið góðar og almennilegar manneskjur án þess að sverja yfirnáttúrulegri veru formúlukenndan hollustueið, eða að fullkomlega réttlátt samfélag með fullu jafnrétti öllum til handa sé rétt handan við hornið, bara ef við erum þolinmóð og látum alla jafnréttisbaráttu eiga sig? Þetta eru allt dæmi um staðhæfingar sem reynslan gefur okkur gnægð efnis til að afsanna og ætti ekki að þurfa sérlega djúpan hugsuð til að sjá í gegnum þær.

Að einhverju leyti er mannlegri félagsþörf þarna um að kenna. Við viljum búa í samfélagi með öðrum manneskjum og til þess þarf okkur að lynda sæmilega vel við þær. Hjá flestum okkar eru fyrstu viðbrögðin að vilja þóknast öðru fólki fremur en að lenda upp á kant við það. Samskipti yrðu flóknari ef við værum öllum stundum, við öll tækifæri, með gagnrýnina skrúfaða upp í hæstu stillingu og værum með sífelldar aðfinnslur við samferðafólk okkar. En hræðslan við vanþóknun annarra getur gengið helst til langt; þá fáum við það sem kallað hefur verið hjarðhugsun, þegar við hættum alveg að hugsa sjálfstætt og fylgjum bara hugsun fjöldans, eða því sem við teljum vera hugsun fjöldans. Við fylgjum þá því sem okkur er sagt af ótta við útskúfun eða í það minnsta óvinsældir. En fleira kemur til. Oft fylgjum við fjöldanum vegna þess að við treystum ekki á eigin dómgreind, lítum svo á að fjöldinn hljóti að hafa rétt fyrir sér og teljum því ástæðulaust að fara að gera athugasemdir við það. Eða kannski viljum við bara halda friðinn. Annað fyrirbæri sem er tengt vantrausti á eigin dómgreind er leti. Traustri dómgreind þarf að fylgja þekking á mál­efnunum og til að öðlast hana þarf að gefa sér tíma til að kynna sér málin og ekki síður til að velta þeim fyrir sér, hugsa um þau. Stundum nennum við því hreinlega ekki.

Andleg leti og hvatar til hjarðhugsunar hafa gagnverkandi áhrif hvert á annað. Við nennum ekki að setja okkur almennilega inn í málin, höfum fyrir vikið ekkert vit á umræðuefninu, látum eiga sig að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tökum bara undir með fjöldanum. Og á hinn bóginn hlýtur það að vera þannig að ef við erum hrædd við að setja fram sjálfstæðar skoðanir, eða jafnvel treystum okkur ekki til að mynda þær, þá venjum við okkur ekki á að ígrunda hlutina heldur temjum okkur að láta bara mata okkur, líðum bara áfram í letivímu. Mötunin er áberandi í þessu tæknivædda upplýsingasamfélagi sem við lifum í: Við fáum snyrtilega upplýsingapakka í notendavænum umbúðum og gleypum, oftast án þess að velta því fyrir okkur að einhver manneskja, jafnbrigðul og við sjálf, hafi þarna á hinum endanum sett saman upplýsingapakkann eftir að hafa valið innihald hans (og þá hafnað ýmsu öðru), dregið ályktanir og ákveðið hvernig þetta skyldi sett saman. Og við venjumst því að svona eigi þetta að vera og kvörtum ef hnökrar verða á mötunarþjónustunni eða mötunartrogin eru ekki nógu þægilega staðsett.

Það hefur verið reynsla mín í háskólakennslu á undanförnum árum að flestar athugasemdir nemenda um þá kennslu sem þeir fá ganga út á óskir um meiri mötun. Í raun er þar verið að segja: „Ég vil hugsa minna, ekki þurfa að hafa fyrir því að draga eigin ályktanir, skilja kjarnann frá hisminu, hvað þá bera mig eftir björginni.“ Vissulega eru óskirnar ekki orðaðar nákvæmlega svona, en óskir um að kennarar gangi æ lengra í því að draga saman aðalatriðin úr námsefninu á glærum sem þeir birta á netinu, minni nemendur sífellt á hvað þeir eigi að gera, vita og kunna og hvenær þeir eigi að gera hvað gefa sterklega til kynna að nemendurnir vilji ekki þurfa að treysta á eigin dómgreind eða ályktunarhæfni. Þarna er verið að biðja um hugsanir á dósum.

Hér er ekki ætlunin að ráðast sérstaklega á háskólanema, sem eru eins og við hin hluti af því samfélagi sem við öll hrærumst í. Ég efast um að háskólanemar hafi einhverja sérstöðu í þessum efnum, þessi krafa um mötun er eitthvað sem við höfum upp til hópa vanið okkur á og hún þykir greinilega sjálfsögð, enda er svona snyrtilega frágenginn dósamatur það sem fram er reitt og byrjað á því snemma. Það þykir sjálfsagt í grunnskólum landsins að bjóða börnunum upp á tilbúnar hugsanir í einfölduðum búningi sem þeim er sagt að þau eigi að tileinka sér án nokkurrar gagnrýnnar umræðu.

Mergurinn málsins er sá að sem þátttakendur í lýðræðissamfélagi verðum við að taka ábyrgð á eigin hugsun. Til að hægt sé að halda uppi lýðræði er nauðsynlegt að þegnarnir séu upplýstir og hreinlega vandi sig við að hugsa. Við þurfum að velta fyrir okkur spurningum á borð við „Hvers konar manneskja ætla ég að vera?“, „Hver eru markmið mín í lífinu?“, „Hvað er það sem skiptir máli, hvaða gildismat hef ég?“ og „Hvað hef ég fram að færa til samfélagsins?“. Þetta eru allt spurningar sem við getum ekki leyft öðrum að svara fyrir okkur og niðursoðin svör á dósum duga skammt.

Enski heimspekingurinn Mary Wollstonecraft, sem var uppi fyrir rúmum 200 árum, tengdi saman skynsemi og siðferði á eftirminnilegan hátt. Kenning hennar felur í sér heildstætt kerfi þar sem samþætting skynsemi og tilfinninga tengist lýðræðishugsjóninni með viðkomu hjá hugmyndum um sjálfstæði, skynsemi og dygð. Í raun er ekki hægt að gera neinum þessara þátta full skil án þess að fjalla um tengsl hans við hina. Í stuttu máli telur Wollstonecraft að lýðræðið þurfi að byggja á þegnum sem eru sjálfstæðar siðferðisverur. Lýðræðishugsjónin grundvallast þannig á hugmyndinni um einstaklinginn; það þarf heilsteypta, sjálfstæða og dygðuga einstaklinga til að bera lýðræðið uppi. Sú mynd sem Wollstonecraft dregur upp af mannshuganum er þannig tengd lýðræðishugmyndinni órofa böndum.

Wollstonecraft heldur því fram að skynsemin hljóti að vera nauðsynlegur grundvöllur dygðar og segir það skrípaleik að kalla veru dygðuga ef dygðir hennar eru ekki afurð hennar eigin skynsemi. Til að athafnir okkar geti verið frjálsar og dygðugar þurfi að byggja þær á skynsamlegum ályktunum en ekki að fylgja handahófskenndu valdi annarra. Af þessum sökum fordæmir hún herþjálfun og heraga sem hún telur ósamrýmanleg frelsinu en hún er þó fyrst og fremst að gagnrýna hugmyndir sem uppi voru á hennar tímum um að konan ætti að reiða sig á skynsemi karlsins í siðferðismálum. Þessi gagnrýni á samt við um allar hugmyndir um utanaðkomandi kennivald: Siðferðisvera þarf alltaf að nota eigin skynsemi sem grunn siðferðis síns, gagnrýnis­laus hlýðni við skynsemi annarra er ekki raunveruleg dygð. Án skynsemi er ekkert siðferði eða sjálfstæði og því enginn grundvöllur fyrir lýðræði og þau réttindi sem því eiga að fylgja. Sérhver siðferðisvera hlýtur að vera skynsemisvera. En skynsemin þrífst illa án tilfinninganna, í það minnsta eru þær nauðsynlegar til að auðga hana og þær gefa okkur innsæi og reynslu sem eru skynseminni nauðsynleg.

Myndin sem þarna er dregin upp er nokkurs konar uppskrift að heilsteyptum einstaklingum. Hvort þessi uppskrift Wollstonecraft er nákvæmlega rétt skal ég ekki segja en ég er alveg sannfærð um það að hún hafi haft rétt fyrir sér í því að siðferði án skynsemi sé harla þunnur þrettándi. Ábyrg siðferðisvera tekur ekki gagnrýnislaust við reglum sem henni eru færðar heldur íhugar hún stöðu sína í heiminum og veltir fyrir sér hvers vegna tilteknar athafnir séu, eða séu ekki, réttmætar. Í umræðum um nýútkomna Rannsóknarskýrslu alþingis er mikið talað um virðingarleysi Íslend­inga við reglur og að hluti vandans hafi verið sá að reglur voru ekki virtar. Vissulega er það rétt að í aðdraganda hrunsins voru margar mikilvægar reglur brotnar sem aldrei hefði átt að brjóta. En málið snýst ekki bara um að fylgja reglum. Reglur geta bæði verið góðar og slæmar, þær eru jú settar af misvitru fólki og í mismunandi tilgangi, og þær geta líka verið mismikilvægar. Það er alls ekki æskilegt að fylgja öllum reglum í blindni, við hljótum líka að verða að treysta á eigin dómgreind þegar við förum eftir reglum og í sumum tilfellum getur verið bráðnauðsynlegt að brjóta reglu.

Niðurstaðan er sú að við megum ekki láta aðra um að hugsa fyrir okkur. Það er ekki til það hugmyndakerfi, reglukerfi eða kennivald sem fríar okkur ábyrgðinni á eigin hugsun.

Heimildir

Stebbing, L. Susan. 1939. Thinking to some purpose. Harmondsworth: Penguin Books (Pelican Series).
Wollstonecraft, Mary. 1995. A Vindication of the Rights of Men and A Vindication of the Rights of Woman. Cambridge University Press (Cambridge Texts in the History of Political Thought).

Lýðræði, Dewey og einstaklingsbundinn lífsmáti

eftir Ólaf Pál Jónsson

George Orwell hafði það til marks um spillingu tungumálsins að orð væru notuð án minnstu tilraunar til að gefa þeim ákveðna merkingu, og notkun fólks á orðinu ‘lýðræði’ er oft þessu marki brennd. Orðið stendur þá gjarnan fyrir eitthvað sem er skilyrðislaust gott – er lýðræði ekki besta stjórnarfarið? – án þess að það sé tengt við ákveðinn veruleika eða hugsjónir. Orwell segir:

Þar sem um er að tefla orð einsog lýðræði, þá er ekki nóg með að ekki sé til nein viðurkennd skilgreining, heldur hefur sú tilraun að búa hana til mætt mót­stöðu úr öllum áttum. Það er nánast undantekningarlaust litið svo á þegar við segjum að ríki sé lýðræðislegt, þá erum við að lofa það; þar af leiðir að málsvarar hvaða stjórnarfyrkrkomulags sem er að halda því fram að það sé lýðræði, og óttast að þeir kynnu að neyðast til að hætta að nota orðið ef það yrði njörvað niður við einhverja eina merkingu.1

En þótt orðið ‘lýðræði’ hafi mátt þola þessa hraksmánarlegu meðferð, þá eru þeir til sem tekið hafa upp hanskann fyrir það – og fyrir skýra hugsun almennt. Í þessu greinarkorni langar mig að gera að umtalsefni nokkrar hugmyndir Johns Dewey um lýðræði – eins og til að rifja það upp sem hann sagði fyrir nærri öld síðan. Trúr sínum pragmatisma verður Dewey seint sakaður um að tengja hugmyndina um lýðræði ekki við ákveðinn veruleika.
          Dewey lagði ríka áherslu á að orðið ‘lýðræði’, sem við tengjum alla jafna við tiltekna stjórnarhætti – þrígreiningu ríkisvaldsins og almennar kosningar – vísaði ekki síst til einstak­lingsbundins lífsmáta. Og hann hélt því jafnframt fram að þessi hugmynd hans væri síður en svo ný af nálinni.

Lýðræði sem persónulegur, einstaklingsbundinn lífsmáti felur ekki í sér neinar grundvallar nýjungar. En þegar hugmyndinni er beitt þá ljær hún gömlum hug­myndum nýja og lifandi merkingu. Þegar þessi hugmynd er virkjuð sýnir hún að öflugum andófsmönnum lýðræðisins verður einungis svarað með því að skapa persónuleg viðhorf hjá einstökum manneskjum; að við verðum að komast yfir þá tilhneigingu að halda að vörn fyrir lýðræði verði fundin í ytri athöfnum, hvort heldur hernaðarlegum eða borgaralegum, ef þær eru aðskildar frá persónu­legum viðhorfum sem eru svo inngróin að þau mynda manngerð einstak­lingsins.2

Dewey gerir ekki lítið úr ytri skilyrðum lýðræðis – lýðræðislegum stofnunum og borgaralegum rétt­indum – en hann leggur áherslu á að slíkar stofnanir eru einungis ytri skilyrði lýðræðislegs samfélags og að trúin á lýðræði er ekki trú á slíkar stofnanir heldur er hún fyrst og fremst trú á möguleika einstaklingsins. Trúin á lýðræði er trú á manneskjuna sem virka skynsemisveru. Í vörn fyrir þessa hugmynd segir hann m.a.:

Oftar en einu sinni hefur fólk úr andstæðum hornum ásakað mig um óraun­sæja, draumkennda, trú á möguleika skynseminnar og á menntun sem fylgi­fisk skynsemi. Hvað sem því líður, þá er þessi trú ekki mín uppfinning. Ég hef tekið hana upp eftir umhverfi mínu að því marki sem þetta umhverfi er innblásið af anda lýðræðisins. Því hvað er trú á lýðræði í ráðgjöf, í sannfæringu, í sam­ræðu, í upplýstu almenningsáliti sem réttir sig af þegar til lengri tíma er litið, nema trú á möguleika skynsemi hins venjulega manns til að bregðast af heilbrigðri skynsemi við frjálsu flæði staðreynda og hugmynda sem byggja á traustum grunni frjálsra rannsókna, frjálsra samtaka og frjálsra samskipta?3

Trú Deweys á möguleika lýðræðisins er þannig fyrst og fremst trú á að einstaklingar geti orðið lýðræðislegar manneskjur rétt eins og trú franska heimspekingsins Jean-Jacques Rousseau á frjálst samfélag var trú á möguleikann á frjálsum manneskjum.4  En hvað einkennir þá hina lýðræðislegu manneskju annað en að hún er frjáls og full af heilbrigðri skynsemi? Og á þessi trú Deweys erindi við okkur nú á tímum fjölmenningar þegar sú staðreynd er ófrávíkjanleg að borgararnir hafa í grundvallaratriðum ólíka lífsýn?
          Frekar en að vera úrelt, vegna fjölmenningar og sundurleitra markmiða og lífssýnar, á trú Deweys e.t.v. brýnna erindi nú en nokkru sinni fyrr. Og það er einmitt þessi einstaklingsbundna nálgun sem hér skiptir máli. Hann segir:

… lýðræðið sem lífsmáti er á rætur í einstaklingsbundinni trú í daglegri sam­vinnu við aðra. Lýðræði er sú trú að jafnvel þegar þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju til annarrar, felur það að temja sér að vinna saman af vinsemd – sem getur falið í sér, t.d. í íþróttum, samkeppni og kapp – ómetanlega viðbót við lífið. Með því að taka sérhvern ásteitingarstein – og þeir hljóta að verða fjölmargir – eftir því sem nokkur kostur er, út úr andrúmslofti og umhverfi valds og aflsmunar sem leið til úrlausnar og inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við – jafnvel djúpstæðum ágreiningi – sem einstaklinga sem við getum lært af, og að sama marki, sem vini.5

Af þessum tilvitnunum í Dewey sjáum við að grundvallar þættir hins lýðræðislega einstaklings-eðlis, eins og hann skilur það, eru bæði af toga skynsemi og tilfinninga. Þegar við eigum í ágreiningi við aðra þá leitum við lausna á vettvangi skynseminnar en, og þetta skiptir ekki síður máli, við nálgumst þá sem okkur greinir á við sem vini. Ágreiningur er alls ekki hnökrar sem æskilegt er að fjarlægja – eða breiða yfir – heldur er hann uppspretta siðferðilegra og menningar-legra verðmæta. Þetta sjónarmið fellur raunar ágætlega að nýlegum hugmyndum Chantal Mouffe um lýðræði, en hún segir m.a.:

… sjónarmið á borð við ‘ágreiningsfjölhyggju’ – sjónarmið sem sviptir hulunni af fjarstæðu þess að efna til samkomulags án útilokunar – [er] afar mikilvægt fyrir lýðræðislega stjórnmálaiðkun. Með því að vara okkur við þeirri tálsýn að nokkurn tíma sé hægt að ná fullkomnum árangri á sviði lýðræðisins neyðir hún okkur til að halda kappleik þess gangandi. Fjölhyggjulýðræðinu er lífsnauð­synlegt að ósætti hafi nægt rými og að stofnanirnar sem ósættið tjáir sig í gegnum séu ræktaðar.6

Mouffe leggur áherslu á þær stofnanir sem ósættið tjáir sig í gegnum á meðan Dewey leggur áherslu á hið persónubundna viðhorf einstaklinganna sem eiga í ósætti. En ég hygg að hvort tveggja þurfi að koma til svo að hugsjóninni um lýðræði megi þoka áfram. Lýðræði kallar á stofnanir sem ósættið fær að tjá sig í gegnum, en þessar stofnanir þarf að rækta, og það verður einungis gert á persónulegum nótum – og þá ekki síst með því að þeir sem fara með vald noti það mildilega en ekki t.d. í anda hinna stjórnlyndu athafnastjórnmála sem nú eru í móð.

Greinin birtist í Hermes • tímariti heimspekinema • árg. 2006 – 2007 • 1. tölublaði, og er birt hér með leyfi þess.

Tilvísanir

1. George Orwell, „Stjórnmál og ensk tunga“, Stjórnmál og bókmenntir, Uggi Jónsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2008, bls. 220–221.

2. John Dewey, „Creative democracy – The task before us“, The Essential Dewey, 1. bindi, Indiana University Press, 1998, bls. 341.

3. Dewey, „Creative democracy – The task before us“, bls. 342.

4. Sjá Rousseau, Samfélagssáttmálinn, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2004.

5. Dewey, „Creative democracy – The task before us“, bls. 342.

6. Chantal Mouffe, „Til varnar ágreiningslíkani um lýðræði“, Hugur, 16. ár, 2004.

« Til baka