Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar

Að sætta heimspeki og almenna skynsemi: Hume um augnapot, óendanleika og efnislegan veruleika

eftir Henry Alexander Henrysson

I

Þegar maður kennir námskeið í nýaldarheimspeki lendir maður gjarnan í vandræðum með að finna sér upphafspunkt til þess að hefja námskeiðið á. Vissulega getur verið ágætt að hefja lesturinn á Descartes en það losar mann engu að síður ekki við að útskýra grundvöll hugsunar hans og forsögu þeirrar byltingar sem hann var vissulega þátttakandi í. Ég hef stundum áhyggjur af því að það heyrir til undantekninga að sextánda öldin fái nokkurn sess í heimspekisögukennslu í grunnnámi. Fólk sem menntað er í heimspeki getur auðveldlega lokið námi með þá tilfinningu að á sextándu öld hafi vestræn hugsun gengið í gegnum nokkra lægð. Slíkt er auðvitað fjarri sanni. Það var þá sem menn fóru loks að gera sér grein fyrir hvað leyndist bæði yfir höfðum okkar og undir húð hvers og eins. Bábiljur um hreyfingu (eða hreyfingarleysi) himintungla og útlima urðu fyrir skarpri gagnrýni sem byggði á nýjum uppgötvunum. Árið 1577 getur til dæmis verið fullgilt ártal yfir upphaf nútímans. Eða þar um bil. Nákvæmar teikningar af vöðva-, æða- og taugakerfi líkamans voru þá komnar á prent og voru þar með aðgengilegar menntuðum mönnum. Og stjörnuathuganir höfðu afhjúpað galla í kenningum sem lýstu föstum himnahvelfingum.

Sautjánda öldin og fyrri hluti þeirrar átjándu voru svo auðvitað samfelld sigurganga vísinda eftir því sem margar þverhandarþykkar bækur segja okkur. Tilraunir og vísindalegar athuganir leystu frumspekilegar vangaveltur af hólmi. Að minnsta kosti á Bretlandseyjum ef marka má sumar þessara bóka. Oft er gefið í skyn að heimspekingar á meginlandinu hafi verið seinir til þegar kom að því að varpa frumspekinni fyrir borð. David Hume er gjarnan notaður til þess að orða þessa hugsun og er þá vitnað í þá fleygu málsgrein að ef bækur geymi ekki sértæk rök um magn og tölur eða reynslurök um staðreyndir og tilvist þá skuli þeim „á eld kastað því [þær geti] ekki geymt neitt annað en hártoganir og hillingar.“ Andúð Humes á svokallaðri „skólafrumspeki“ er því talin nægja til þess að flokka hann með fremstu tilraunavísindamönnum nýaldar. Sem er reyndar ekki nákvæmt. Hann var hvorki sérstaklega vel að sér í stærðfræði né eðlisfræði. Enda stundaði hann mannvísindi. Frægasta tilraun hans sameinar reyndar vísindi um manninn og stjörnur. Í henni hvetur hann lesandann til þess að pota fingri í augað á sér. Hver sá sem gerir það sér víst nóg af stjörnum og fræðist nokkuð um lífeðlisfræði í leiðinni.

II

En hér var ég að tala um sigurgöngu vísinda. Er víst að Hume hafi upplifað þróun heimspeki sautjándu og átjándu aldar þannig? Það er ekkert einfalt svar til við þeirri spurningu. Fyrst þyrfti að svara annarri spurningu: hvað snerist þessi svokallaða „sigurganga“ eiginlega um? Það er enginn vafi að þrátt fyrir að margar tilraunir hafi verið gerðar á hæpnum forsendum og teljist vart vísindalega fullgildar samkvæmt stöðlum nútímans þá var um óumdeilanlegan árangur að ræða þegar kom að því að útskýra stærri fyrirbæri veruleikans. Kepler vann til dæmis raunveruleg þrekvirki. Gangur himintungla var ekki lengur lokuð bók. Það sama gilti um hegðun margra annarra efnislegra fyrirbæra. Má segja að því stærri sem þau voru því nær komst hin nýja náttúruspeki að eðli þeirra. Þar réð auðvitað mestu að reynsluathuganir voru þar með auðveldari. Og á þeim forsendum féll raunhyggja Humes ágætlega að nýrri náttúruspeki og því mögulegt – með örlitlum tilfæringum – að telja hann andlegt skyldmenni Newtons.

En nú er það svo að eins miklum árangri og náttúruspekingar nýaldar náðu við að útskýra stærstu efnislegu fyrirbæri heimsins, þá voru þeir sérkennilega vonlausir þegar kom að því að útskýra samsetningu efnisins sjálfs. Sem var kannski ekki að undra. Þrátt fyrir að smásjárskoðun hafi náð sér á strik á sautjándu öld komust náttúruspekingar fljótt að raun um að slíkar rannsóknir segðu lítið til um samsetningu efnis. Þær vonir sem vöknuðu í byrjun við að sjá sáðfrumur skottast um á undirskál slokknuðu fyrr en varði. Þegar hugmyndir og kenningar átjándu aldar eru til umræðu jafnast stundum ekkert á við að vitna í Voltaire til þess að komast að kjarna málsins. Sérstaklega getur það komið sér vel þegar fátt annað en deilur og úrræðaleysi var einkennandi fyrir umræðuefnið. Þar var hann á heimavelli. Í Heimspekilegri orðabók sinni kemst Voltaire svo að orði í grein sinni um „efni“:

Þegar vitrustu menn er inntir eftir eðli sálarinnar geta þeir lítið sagt. Sama svar verður að duga þeim ef þeir eru spurðir um innstu náttúru efnisins. Auðvitað má finna prófessora, og þar með nemendur, sem telja sig vita allt um efni og anda. Þeir svara því til að efnið hafi rúmtak og sé deilanlegt. Ef þeir eru hins vegar spurðir um rúmtakið sjálft þá hefjast vandræðin. „Hver hlutur með rúmtak eru byggður upp af hlutum,“ segja þeir. En úr hverju eru þessi hlutar gerðir? Og er hver hluti hlutanna deilanlegur að nýju? Nú annað hvort þagna þessir góðu menn eða geta ekki hætt að tala. Við ættum að vera jafn tortryggin á hvoru tveggja. (1764)

III

Helsta vandamál náttúruvísinda sautjándu og átjándu aldar var því hvernig bæri að útskýra samsetningu efnisins. Þetta var vandamálið sem sameinaði alla heimspekinga og vísindamenn. Enginn gat látið eins og það kæmi honum ekki við. Vísindamenn ypptu vissulega margir öxlum yfir spurningum um tengsl sálar og líkama, og heimspekingar gátu brosað í kampinn yfir hálsrígnum sem endalaus stjörnuskoðun hlaut að hafa í för með sér. En enginn hugsuður gat sleppt því að hafa skoðun á því úr hverju hlutir eins og mannslíkaminn, himinhnettir og hestur Alexanders mikla væru í raun samansettir. Áskorunin var að gera sér grein fyrir hvernig rúmfræði og efnisvísindi ynnu í raun saman. Voru raunveruleg ódeili til eða voru einfaldlega tilfallandi ástæður fyrir því að vissar agnir skiptust ekki á náttúrulegan hátt?

Ég hef skoðað nokkuð hvernig einn heimspekingur – og reyndar sporgöngumaður hans – brást við áskoruninni. Svar Leibniz byggði fyrst og fremst á þeirri einföldu hugmynd að áskorunin krefðist þess af heimspekingum að þeir leituðu yfir í frumspekina. Svarið var sem sagt hvorki stærðfræðilegt né eðlisfræðilegt. En túlkun á svokölluðum mónöðufræðum sem hann setti að lokum fram er auðvitað hvorki einföld né aðgengileg. Aðeins örfá atriði virðast á hreinu. Það fyrsta er að samkvæmt Leibniz eru hlutir með rúmtak óendanlega deilanlegir. Hann sér enga ástæðu til þess að efast um stærðfræðina þar að baki. Hins vegar eru ekki þar með óendanlega margir hlutar í hverjum efnislegum hlut. Hin óendanlega deiling er einungis möguleg. Enda eru efnislegir hlutir einungis fyrirbæri. Raunverulegir hlutir eru ekki byggðir upp af efnisögnum. Verufræðilega samanstanda þeir af ögnum sem hafa ekki rúmtakseiginleika. Eftirmenn Leibniz eins og Christian Wolff höfnuðu þessari tveggja heima sýn, en héldu sig þó við frumspekilega vídd frumeindanna. Samkvæmt Wolff voru hin „náttúrulegu atóm“ eins og hann kallaði þau utan rúms en einhvers konar frumspekilegur kraftur gerði þeim kleift að bindast saman og mynda efnislega hluti.

Viðbrögðin sem þeir fá í dag eru gjarnan á þann veg að þeir hafi ekki fylgt framgangi vísinda tímabilsins og hafi þar af leiðandi verið einhvers konar afturhaldsseggir. Slíkt viðhorf byggir hins vegar á nokkuð sérkennilegri anakróníu. Og þegar maður skoðar viðbrögðin á átjándu öld kemur í ljós að því fór fjarri að menn hafi séð framgang raunvísinda ná til samsetningu efnishluta. Immanuel Kant skrifaði mikið um þetta efni og reyndi margs konar nálganir sem síður en svo bundust einni hefð fremur öðrum. Niðurstaða hans var hin kunna önnur antinómía Gagnrýni hreinnar skynsemi, en í henni takast á þessar kunnu staðhæfingar um að allt sé samsett úr raunverulegum einingum annars vegar og að engar raunverulegar einingar séu til hins vegar. Það er ómögulegt að segja að önnur staðhæfingin sé vísindalegri og að hin sé frumspekilegir draumórar. Báðar hafa nokkuð til sín máls.

IV

En hér er hugmyndin að ræða um David Hume. Í svokölluðum „Útdrætti“ úr Ritgerð um manneðlið má finna fræg orð hans um að það væri „óskandi að menn dyttu ofan á eitthvert úrræði til að sætta heimspeki og almenna skynsemi“. Það sem verður honum tilefni þessa ákalls er hið afar grimmilega stríð um „spurninguna um óendanlegan deilanleika“. Og hann telur almenna skynsemi augljóslega hafna því að hægt sé að „deila rúmsvídd óendanlega“, eins og segir í íslensku þýðingunni. Merkilegt nokk þá virðast rök Humes ekki síst byggja á þeirri neitun hans að „rúmfræðin sé nógu nákvæm vísindi til að heimila jafn hárfínar ályktanir og þær sem varða óendanlegan deilanleika.“ Hann segist svo sem ekki bjóða upp á nákvæmari vísindi en virðist vera þeirrar skoðunar að við eigum að láta okkur duga kenningar sem virki ekki gagnstæðar ímyndunarafli og skilningarvitum. Og þar hefur hann nokkuð til síns máls. Óendanlegur deilanleiki leiðir okkur að nokkrum þverstæðum sem voru vel kunnar á nýöld. Hume hafði ekki áhyggjur af þeim öllum, t.d. alls ekki þeirri að óendanleikinn gæti aðeins verið eiginleiki Guðs. En aðrar þversagnakenndar staðhæfingar trufluðu hann vissulega. Hvernig var þá hægt að ákvarða stærð efnislegs hlutar? Ef hvert og eitt fyrirbæri er byggt upp af óendanlega mörgum hlutum þá hljóta öll fyrirbæri að vera óendanlega stór í vissum skilningi. Og þar af leiðandi jafn stór. Og þannig koll af kolli.

Þegar fjallað er um vísindasögu átjándu aldar er mest gert úr því hvernig náttúruvísindi Descartes stóðust ekki nákvæmari kenningar Newtons. Menn eins og Voltaire áttu sinn þátt í því að jafnvel í Frakklandi féllu kenningar þess fyrrnefnda út af borðinu. Vandræðin við að útskýra samsetningu efnisheimsins sýna svo ekki verður um villst hversu erfitt er að flokka heimspekinga þegar kemur að þessum málum. Skoðun Humes á rúmfræði virðist ekki sýna fram á að hann hafi viljað skipa sér sérstaklega á bekk með vinningsliðinu þegar kom að því að útskýra hegðun efnislegra hluta. En hegðun efnislegra hluta er reyndar að sumu leyti óskylt fyrirbæri samsetningu þeirra. Þegar litið er yfir verk helstu hugsuða sautjándu og átjándu aldar má með nokkrum sanni segja að aðeins tveir, Galileo og Leibniz, hafi náð að senda frá sér fullmótaðar kenningar sem taka af allan vafa um hvort þeir sjá aðeins rúmfræðilega eða frumspekilega lausn á vandamálinu. Hvorugur lét áðurnefndar þverstæður stjórna lausn sinni. Galileo gaf engan afslátt af hinni rúmfræðilegu niðurstöðu og sagði hvern efnisskammt deilast í óendanlega margar agnir og Leibniz bætti því við að raunverulegir hlutir byggðust upp á ögnum sem væru handan rúms.

V

Það er til marks um hversu alvarlega Hume tók spurningar um samsetningu efnisins að þetta er í raun fyrsta heimspekilega vandamálið sem hann tekst á við í Ritgerð um manneðlið eftir að hann hefur útlistað helstu forsendur þekkingarfræði sinnar. Í öðrum hluta fyrstu bókarinnar má draga fram það sem við getum kallað verufræði Humes. Forsagan hefur komið fram hér á undan, a.m.k. að nokkru leyti. Spurningunni hvort hver partur af efni sé óendanlega deilanlegur var mögulegt að svara á margvíslegan hátt. Flestir höfundar reyndu til að mynda að greina á milli röklegrar, líkamlegrar og frumspekilegrar deilingar. En slíkt var einungis fallið til þess að fresta almennilegu svari. Hugsuðir vildu taka afstöðu til þess hvort raunverulegir efnislegir hlutir fyrir framan þá innhéldu, í einhverjum skilningi, óendalega marga parta þannig að mögulegt sé að deila hlutnum niður í slíka parta. Og þá dugði enginn aristótelískur skilningur á óendanleikanum sem gerði ráð fyrir mögulega endalausri deilingu.

Í fyrstu tveimur greinum annars hluta setur Hume fram skörp rök gegn óendanlegri deilingu sem hann byggir á þeirri spurningu hvort mögulegt sé að deila niður hugmyndum okkar og frumskynjunum af hlutum með rúmtak. Og þar nýtir hann sér eina kunnustu þversögnina hvað varðar slíka deilingu. Hún er eitthvað á þessa leið: Ef eitthvað er óendanlega deilanlegt þá hefur það óendanlega marga hluta. Og ef eitthvað hefur óendanlega marga hluta þá hlýtur það að vera óendanlega stórt. Þar af leiðir að enginn hlutur sem hefur sín takmörk í rúmi, epli, borð, stóll o.s.frv., getur verið óendanlega deilanlegur. Að sumu leyti svipar kenningu Hume hérna til upphafs Mónöðufræðanna og hvernig Leibniz færir rök fyrir því að samsettar verur hljóti að eiga sér fullkomnar einingar sem ekki er hægt að deila niður. En tvennt skilur á milli. Leibniz hafnar því að þar með hafi einingar hans rúmtak. Rök hans eru, og þar fáum við seinna atriðið, að hann fær ekki betur séð heldur en að stærðfræði geti ágætlega gert grein fyrir óendanlegri deilingu.

Margir hafa orðið til þess að gera lítið úr stærðfræðilegri nálgun Humes. En slík gagnrýni er ekki alveg á réttum slóðum. Hume er alvara með að hann er einungis að tala um raunverulega hluti sem hann skynjar. Og það eru partarnir sem skapa hlutinn, líkt og sandkorn skapa sandhrúgu. Eða eins og hann orðar það: „Við getum sagt að tuttugu menn séu til, en það er einungis vegna þess að menn eitt, tvö, þrjú o.s.frv. eru til.“ Með öðrum orðum, Hume er ekki að mótmæla formlegri eða stærðfræðilegri greiningu á mögulegri samsetningu efnishluta. Hann byggir þetta á því að það er fullkomin aðgreining til staðar milli allra hluta sem við getum skynjað. Samsettur hlutur getur ekki verið til nema vegna fullkomlega aðgreinanlegra parta.

Hume gengur reyndar það langt að hann virðist gefa í skyn að greining hans nái ekki aðeins yfir þekkingarfræðilegar forsendur okkur, þ.e. að við getum aðeins skynjað ákveðnar grunneiningar sem saman skapa samsettar verur. Í fjórðu grein annars hluta kemur fram sú hugmynd að heimurinn, þ.e. rúm og tími og hlutir sem koma fyrir í tíma og rúmi, verði sjálfur (ef svo má að orði komast) að taka tillit til þversagnarkenndrar náttúru óendanlegrar deilingar. Allt er því, bókstaflega, samansett af einhvers konar frumeindum sem svipar nokkuð til mónaða Leibniz og náttúrulegra atóma Wolffs. Hume kemst einnig að þeirri niðurstöðu að þessar eindir eða punktar hafi ekki rúmtak í þeim skilningi að þær séu deilanlegar. Og máli sínu til stuðnings dregur hann fram aðra sjónfræðitilraun sem reyndar krefst ekki þess að þátttakendur poti fingri upp í augað sitt. Hann segir okkur að gera punkt á blað og færa okkur svo langt í burtu að punkturinn hverfi. Í þeirri fjarlægð sem punkturinn hverfur sjónum er hann ódeilanlegur þáttur í frumskynjun af rúmtaki. Á þann hátt getur eitthvað sem hefur ekkert rúmtak verið grunnur venjulegs hlutar í rúmvídd.

Hume viðurkennir reyndar seinna (í fimmtu grein) að raunverulegt eðli efnisins sé honum hulið. Gengur hann þar í smiðju Lockes og kunna frásögn þess síðarnefnda af því hvernig við getum ekki þekkt raunverulegt eðli gulls. En þar er verið að ræða um hegðun og eiginleika efnislegra hluta. Slíkar vangaveltur verða svo Hume verkfæri til þess að setja fram kenningu um orsakasamband milli efnislegra hluta og svo framvegis. Hann telur sig þess umkominn að hafna möguleikanum á óendanlegri deilingu einungis út frá því hvernig hlutir tengjast skynfærum. Sem getur varla talist alveg nákvæmt. Það getur verið að kenningin hans sé studd gögnum um það hvernig við kynnumst efnislegum hlutum, en þversögnin sem verður kveikjan, og raunar forsendan, að kenningu hans hefur lítið með þessa reynslu að gera.

VI

Nú væri kannski ekki úr vegi að rifja upp skilyrði Humes fyrir því að verk færu ekki á eldinn? Getur verið að svar hans við því hvort efnisheimurinn sé óendanlega deilanlegur falli hvorki undir „sértæk rök um magn og tölur“ né geymi „reynslurök um staðreyndir og tilvist“? Vissulega má segja að Hume fari ekki langt út fyrir það sem hægt er að rekja til þeirra eiginleika sem við á fáum úr frumskynjunum og svo hugmyndum. En þá má ekki heldur gleyma því að hvatinn sem fær Hume til þess að staldra við er blanda af frumspekilegum vangaveltum sem snúa til dæmis að því að samsettir hlutir hafi minni eða síðri verufræðilega stöðu heldur en hlutar þeirra. Áhyggjur Humes af þversagnarkenndu eðli óendanlegs fjölda efnisagna í hlut í „rúmsvíddinni“ eru einnig dæmi um frumspekilega nálgun sem er í grunninn síður en svo frábrugðin nálgun átjándu aldar heimspekinga sem við teljum tilheyra alls óskyldri hefð.

Tilraun Humes til þess að sætta heimspeki og almenna skynsemi tók á sig margar myndir. Margt af því getur virst sérkennilegt líkt og aðrar svipaðar tilraunir í sögu heimspekinnar. Sú hugmynd að það sem hefur óendanlega marga parta þurfi þar með að vera óendanlega stórt tengist ekki sérstaklega almennri skynsemi og gengur jafnvel gegn henni. Ástæðan fyrir vandræðum heimspekinga átjándu aldar við að ná utan um þetta vandamál – og raunar fyrir því hversu erfitt við eigum með að gera okkur grein fyrir tilraunum þeirra í samtímanum – getur verið sú að verufræði og almenn skynsemi eiga litla samleið. Verufræði í anda Aristótelesar sem gerir ráð fyrir því að að minnsta kosti sum efnisleg fyrirbæri séu raunverulegar heildir, verufræði Leibniz sem hafnar efnislegum verundum og aflfræði í anda Wolffs, Boscovich og Kants eiga það sameiginlegt að vera heimspekilega fágaðar kenningar um veruleikann. Og þær eiga það allar sameiginlegt að þær gætu allar verið sannar. Það sama á við um kenningu Humes. En að setja slíkar kenningar fram í nafni almennrar skynsemi fremur en til dæmis röklegrar greiningar hlýtur að teljast nokkuð hæpið.

Erindi flutt á málþingi sem Félag áhugamanna um heimspeki efndi til um skoska heimspekinginn David Hume, laugardaginn 26. nóvember 2011 í ReykjavíkurAkademíunni.

Bryan Magee ræðir við R. M. Hare um siðfræði

eftir Bryan Magee

INNGANGUR

„Mest hamingja sem flestra er undirstaða siðferðis og löggjafar.“ Þetta er meginstaðhæfing nytjastefnunnar sem mér virðist langáhrifamesta siðfræðin í bresku samfélagi nú á dögum. Alltaf þegar Englendingar sem hafa stjórnmál eða opinber störf að atvinnu, eða hvaða annað svið opinberrar stjórnsýslu sem er, koma saman til að ræða hvað skuli gert eru margar ef ekki flestar af þeim ósögðu forsendum sem liggja til grundvallar umræðunni forsendur grófrar – oft ekki þaulhugsaðrar – nytjastefnu. En samt er þessi heimspeki alls ekki ný af nálinni. Grunnregla hennar var sett fram af Francis Hutcheson1 fyrir tveimur og hálfri öld, og henni var sprautað inn í blóðrás félagslegrar hugsunar fyrir einni og hálfri öld af Jeremy Bentham.2 Bentham og fylgismenn hans – fyrst og fremst John Stuart Mill – höfðu áhrif á hugsun heillar valdastéttar í Bretlandi á öðrum helmingi nítjándu aldar, aðallega fyrir tilstilli menntakerfisins. Og þau hafa varað í stofnunum Bretlands til þessa dags. Hér höfum við ágætt dæmi um hvernig heimspeki, sem í fyrstu er sett fram og komið á framfæri af mönnum sem eru eingöngu hugmyndasmiðir, getur haft bein áhrif á daglegt líf milljóna manna. Hins vegar fer því fjarri að nytjastefnan njóti stuðnings alls staðar og hjá öllum. Í samfélagsmálum er hún dregin í efa bæði af hinum róttæka vinstri og hægri væng stjórnmála og einnig af mörgu trúuðu fólki. Í háskólum sætir hún æ oftar árásum atvinnuheimspekinga. Þessi deila verður skoðuð nánar hér á eftir, en fyrst vil ég setja hana í víðara samhengi siðfræðinnar sem slíkrar. Ég hef fengið hingað til mín prófessor í siðfræði við Oxford háskóla, R. M. Hare [1919–2002], til að ræða þessi mál.

SAMRÆÐA

Magee  Mig langar að fara aftur til undirstöðuatriða greinarinnar og byrja þar og ég geri það með því að spyrja djúptækustu spurningarinnar: Hvað er siðfræði?

Hare  Hvað við segjum að siðfræði sé mun ráðast af því hvað við teljum að heimspekin sjálf sé. Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar leitast við að varpa ljósi á vandamál af ýmsu tæi með því að gera sér ljósari grein fyrir hugtökunum sem vandamálin voru sett fram með. „Heim­spekilegt vandamál“ er einfaldlega vandamál sem talið er að hægt sé að fjalla um með þessum hætti. Siðfræði er engin undantekning: Vandamálin sem hún leitast við að varpa ljósi á eru raun­hæf mál um siðferði. Hvernig gætum við ákveðið hvað væri sanngjörn kauphækkun, svo dæmi sé tekið, ef við hefðum enga hugmynd um hvað „sanngjarn“ merkir og þess vegna enga hugmynd um hvað mundi gera út um slíkar spurningar?

Magee  Það er eitt sem ég held við verðum að gera ljóst en það er munurinn á siðfræðingi og siðapostula. Það er sérstaklega mikilvægt að gera þetta með tilliti til fullyrðingar þinnar (og minnar) að siðfræðingurinn geti lagt eitthvað raunhæft af mörkum til lausnar á raunverulegum siðrænum vandamálum – vegna þess að þeir gera það ekki, er ekki svo, með því að segja fólki hvað það eigi að gera en það gerir siðapostulinn?

Hare  Í stað þess að „segja fólki hvað það eigi að gera“ (sem hljómar svolítið eins og við værum öll í hernum) hefðirðu kannski átt að segja „að hugsa um hvað það, eða aðrir í tilteknum að­stæðum, ætti að gera“. Í þeim skilningi eru flest okkar siðapostular, sum vitrari en önnur. Siðfræðingurinn er öðruvísi sökum þess að hann nálgast þessi vandamál með sérstakri færni (þó það sé færni sem allar greindar manneskjur geta tileinkað sér ef þær reyna). Þetta er hæfnin til að skilja fullkomlega og skýrt orðin sem notuð eru til að setja fram siðferðilegar spurningar og vita þannig nákvæmlega hvers við erum að spyrja og þess vegna hvaða röksemdir eru okkur tiltækar þegar við svörum þeim og hverjar þeirra muni standast.

Magee  Hvaða siðferðishugtök er gagnlegast að rannaka á þennan hátt?

Hare  Heimspekingar hafa mismunandi skoðanir á þessu. Iris Murdoch skrifaði bók sem heitir The Sovereignty of Good sem gefur til kynna með titlinum, að ég hygg, að hún taldi að „góður“ væri mikilvægasta hugtakið. Aðrir hafa talið að „skylda“ væri það. Og enn aðrir vilja að við rannsökum afmarkaðri hugtök á borð við „góðvild“ og „réttlæti“. Ég sjálfur tel að það sé gagnlegt að rannsaka öll þessi hugtök en hef upp á undanfarið einbeitt mér að orðinu „ætti“ vegna þess að það er einfaldasta siðferðishugtakið og einnig það miðlægasta – því að þegar allt kemur til alls viljum við að lokum vita, er það ekki, hvað við ættum að gera?

Magee  Þú hefur lýst viðfangsefni siðfræðinnar eingöngu sem greiningu á siðferðilegum hug­tökum. Hvað um kenningar, líkön og forsendur athafna, ákvarðanir, valkosti? Greining á þessu er líka heimspekileg iðja og vissulega mikilvæg, eða hvað?

Hare  Það held ég; en það sem mikilvægast er að rannsaka á gagnrýninn hátt auk hugtaka, og með hugtökum, eru röksemdafærslur til að sjá hvort þær eru góðar eða vondar. Með því að öðlast skilning á hugtökunum getum við prófað röksemdafærslurnar og þess vegna kenningarnar sem þau eru notuð til að styðja. Að skilja hugtak er að skilja röklega eiginleika þess og þess vegna að vita hvaða ályktanir sem nota það ganga upp.

Magee  Hvað geta hugtakagreining og greining á siðferðilegum rökfærslum lagt af mörkum til að leysa raunhæf vandamál?

Hare  Ja, hvernig mundum við leysa raunhæf vandamál ef við vissum ekki hvað væru góð og hvað væru vond rök? Og hvernig vissum við það ef við skildum ekki hvað spurningarnar sem við værum að spyrja merkja?

Magee  Það sem ég hafði í huga þegar ég spurði þig síðustu spurningarinnar var þetta: Þú ert rökgreiningarheimspekingur og þú lítur á hlutverk þitt fyrst og fremst sem það að skýra hugtök og rökfærslur. En það eru til aðrar tegundir heimspekinga – marxistar, til dæmis, og nytjastefnu­menn – sem sjá heimspekina ekki í sama ljósi. Þeir eru vissir um að afstaða þeirra skipti máli í reynd – svo sannarlega, í tilviki marxista og nytjastefnumanna er augljóst að það skiptir máli í reynd, það sést greinilega að svo er. Hvaða máli skiptir afstaða þín í samanburði við afstöðu þeirra?

Hare  Ég er reyndar nytjastefnumaður í hefð Mills sem taldi rökfræði skipta svo miklu máli að hann skrifaði heilan doðrant um hana, og honum var vel ljóst hve mikilvægt er að rannsaka hugtök. Marxistar eru líka nytjastefnumenn, þó af mjög ólíkri gerð. Eins og hinir miklu bresku nytjastefnumenn, en ólíkt flestum marxistum, tel ég að siðferðilegar röksemdir þurfi á stuðningi að halda, ekki einungis með nákvæmri könnun staðreyndanna um siðferðilegar aðstæður okkar heldur og með nákvæmri rannsókn á röksemdafærslum okkar sem aðeins verður gert með því að gera sér skýra grein fyrir hugtökunum og hvernig þau virka.

Magee  Telurðu siðfræðina sem kemur frá marxistum vera á vitsmunalega lágu stigi?

Hare  Vitsmunalegt stig marxískrar hugsunar, sumt af henni, er hátt á sinn hátt. Þessir menn hafa lagt mjög mikið af mörkum til skilnings okkar á samfélaginu. Framlag Marx til félagsfræði og ef til vill hagfræði skiptir mjög miklu máli, þó betra hefði verið ef það hefði verið skýrara – ef það gæfi ekki tilefni til svo margra ólíkra túlkana sem lærisveinar hans slást um eins og guðfræðingar. En hvað heimspekina varðar var hann ekki í raun og veru með hugmyndina um hvað heimspekingur þarf að gera til að veita sína sérstöku aðstoð við að leysa raunhæf vandamál.

Magee  Eru ekki margir hinna yngri heimspekinga nú á dögum, líkt og marxistar og nytjastefnumenn gærdagsins, að hverfa frá „einberri” skýringu hugtaka til beinnar umfjöllunar um siðferðileg álitamál?

Hare  Mér virðist að hér sé um ranga andstæðu að ræða. Þeir heimspekingar sem halda sig geta komist hjá að skýra hugtök og horfast í augu við raunveruleg siðferðileg vandamál í lífinu sjálfu eru eins og pípulagningarmaðurinn sem þýtur út til vinnu og skilur öll verkfæri sín eftir og gleymir öllu sem hann vissi um pípulagningu. Hann er þá ekkert betur í stakk búinn en húsráðandinn til að stöðva lekann.

Magee  Þú ert með öðrum orðum að segja að atvinnutæki heimspekingsins séu greining hugtaka og rökgreining og að noti hann þau ekki meira en aðrir þá sé hann ekki að leggja það af mörkum sem hann er sérstaklega hæfur til.

Hare  Já. Hann kemur að minna gagni en fjöldi stjórnmálamanna og blaðamanna vegna þess að hann skortir reynslu þeirra.

Magee  Úr því að minnst er á stjórnmálamenn þá hefur alltaf verið talið að sérstakt samband væri milli siðfræði og stjórnmálafræði en í nálægri fortíð hafa þessi tengsl veikst töluvert. Hvað viltu segja um þetta?

Hare  Ég er ekki viss um hve nálæga fortíð þú átt við. Um þessar mundir skrifa heimspekingar áreiðanlega heilmikið um mál sem hafa pólitíska þýðingu, en það ætti ekki að gera of mikið úr hve ný þessi þróun er. Ég birti fyrstu grein mína á þessu sviði árið 1955 og geri ég meira af því nú þá er það vegna þess að ég tel mig vera betur í stakk búinn til að gera það eftir þær grunnrannsóknir sem ég hef verið að fást við síðan þá. Ég vildi vona að sama gæti átt við um rökgreiningarheimspekinga almennt enda þótt sumir þeirra telji sig verða, því miður og hörmulega, að skilja verkfæri sín eftir þegar þeir leyfa sér að skrifa um stjórnmál. Róttæklingar segja stundum að rökgreiningarheimspekingar skrifi ekkert „sem skiptir máli“, en það sem þeir eiga við með þessu er að þeir skrifi ekki nóg af því sem er róttæklingum að skapi pólitískt séð. Ef ég má vera á heimaslóðum andartak skulum við líta á ástandið í Oxford. Heimspeki-, stjórnmála- og hagfræðiskólinn hefur menntað fjölda færra stjórnmálafræðinga með heimspekilegan bakgrunn, sem sumir þeirra eru enn við kennslu þar, með því að flétta saman heimspeki og félagsvísindi. Á prófinu fyrir þessa háskólagráðu eru tvö verkefni sem kallast „siðfræði og stjórnmálaheimspeki“ og „stjórnmálakenningar“ en svið þeirra skarast svo mikið að séu nemendur að taka hið síðarnefnda mega þeir ekki svara pólitísku spurningunum í hinu fyrrnefnda því að þá fengju þeir tvöfalda einkunn fyrir einfalda vinnu. Prófverkefnið „stjórnmálakenningar“ er samið af stjórnmálafræðingunum og þeir gefa einkunn ásamt heimspekingunum, og samkvæmt minni reynslu eru einkunnirnar jafn samhljóða og einkunnir ólíkra prófenda innan sömu fræði­greinar eru venjulega. Og það eru önnur prófverkefni stjórnmálalegs eðlis sem heimspekingar hjálpa oft til við að fara yfir og meta. Hér er engin vísbending um klofning milli greinanna. Það er líka ákaflega fjörug umræða meðal kennara á þessum greinamörkum. Ég er í hópi sem kemur saman í Allrasálnagarði og ræðir málefni á því sviði sem hið víðlesna nýja bandaríska tímarit Philosophy and Public Affairs gerir ítarleg skil. Það vill svo skemmtilega til að þessi hópur stjórnmálafræðinga, lögfræðinga og heimspekinga sem byrjar með þeim ásetningi að ræða raunhæf málefni sem eru ofarlega á baugi hefur mjög fljótlega uppgötvað að rannsókn á þessum málefnum, sé farið djúpt í hana, leiðir beint til þeirra áríðandi vandamála í kennilegri siðfræði sem þú sagðir að við værum að hverfa frá. Svo við erum í raun að hverfa aftur til þeirra með nýjum skilningi á mikilvægi þeirra.

Magee  Það sem ég hef orðið áskynja bara á undanförnum fáum árum er vaxandi tilhneiging hjá siðfræðingum að fást við vandamál á félagslegum sviðum öðrum en þeim sem eru strangt tekið stjórnmálaleg – vandamál í hagfræðikenningum, til dæmis, eða í stefnu í fólksfjöldamálum.

Hare  En þetta er efniviður stjórnmála nú á dögum; heimspekingar eru að leggja til orrustu. Það sem þú segir er vissulega að gerast enda þótt það byrjaði fyrir nokkru. Derek Parfit, sem ásamt lögfræðingnum Ronald Dworkin stofnaði hópinn sem ég nefndi rétt áðan, er að skrifa um stefnu í fólksfjöldamálum sem ristir dýpra en nokkuð annað sem ég þekki, og hann ásamt nokkrum öðrum heimspekingum halda viðvarandi málstofu á þessu og skyldum sviðum sem er ein þeirra mest spennandi í Oxford. Tómstundaiðja mín hefur verið umhverfisskipulag og ég tók allvirkan þátt í því áður en ég gerðist atvinnuheimspekingur fyrir þrjátíu árum; og ég held satt að segja að heimspekin hafi hjálpað mér við þá tegund rannsókna. Ég geri ekki svo mikið af þessu nú orðið og ástæðan er kannski athyglisverð: Það er vegna þess að umhverfisskipulag (og sérstaklega skipulag flutninga sem ég hef mest fengist við, sökum þess að það er svo miðlægt í umhverfisvandamálum) er nú orðið svo miklu tæknilegra en það var. Þetta þýðir að þeir sem eru áhugamenn, eins og ég, geta í rauninni ekki gert mikið í því nú sem er ómaksins vert. Ég var vanur að skrifa greinar í Traffic Engineering and Control, en ég mundi ekki dirfast að gera það nú vegna þess að viðfangsefnið er orðið svo stærðfræðilegt og erfitt. Maður var vanur að geta gert umferðarspár sem tóku til heillar borgar eins og til dæmis Oxford, með erfiðismunum með blýanti og blaði, að íbúatölunni gefinni; og ég gerði nokkrar í tengslum við vegadeiluna í Oxord, en nú verður maður að nota tölvu og ég hef ekki lært það. Þetta er kennidæmi um það sem kemur fyrir heimspekinginn. Ef ég hefði hug á að sérhæfa mig í þessu efni yrði ég að gefa heimspekina upp á bátinn – ég hefði ekki tíma.

Magee  Þegar kemur að raunverulegum samfélagsmálum líkt og þessu neitarðu því samt að viðhorf í siðfræði sem eru opinskátt „pólitísk“ eins og til dæmis marxisminn (og jafnvel vissar tegundir tilvistarstefnu) hafi meira að segja?

Hare  Þeir sem aðhyllast þessi viðhorf hafa meira að segja í þeim skilningi að þeir nota fleiri orð: Bækur þeirra eru venjulega lengri. Enda þótt það séu nokkrir góðir heimspekingar sem aðhyllast þessar stefnur gerir algengari tegundin lítið annað en blása upp blöðrur af mismunandi lögun og lit, fullar af engu nema andardrætti þeirra sjálfra, sem svífa hingað yfir Ermarsundið eða Atlantshafið, og sé stungið í þær með oddhvassri nál er mjög erfitt að segja hvað var í þeim nema að það var sennilega eldfimt og áreiðanlega ölvandi. Ég held ekki að þetta fólk geri neitt til að leysa úr raunhæfum vandamálum. Það eykur kannski útblásturinn dálítið umfram það sem eðlileg árásarhneigð hópa framleiðir hvort eð er; en vegna gallaðrar pípulagningar lendir mest af honum á gleraugum fólks.

Magee  Með öðrum orðum álítur þú að þessum öndverðu heimspekilegu viðhorfum hætti til að vera skrautleg mælskulist en skorti bitastætt innihald. Og þetta stafar sumpart af því að þau skortir einnig röklega nákvæmni.

Hare  Nákvæmni er lykilorðið.

Magee  Mælskulist er einnig lykilorð.

Hare  Ég fordæmi ekki mælskulist þar sem hún á heima – ég sjálfur var nú rétt áðan að leyfa mér að viðhafa hana – að því tilskildu að nákvæmnin sé þar líka. Og mælskulist sumra þessara manna er mjög góð. Þeir hafa haft áhrif á söguna á þann hátt sem við rökgreiningar­heimspekingar höfum, því miður, ekki haft – enn þá – nema við teljum með fyrri tíma rökgreiningarheimspekinga eins og Locke og Mill. Ef við förum alveg aftur til Hegels og manna á borð við hann, rómantísku heimspekinganna eins og hin tegundin hefur verið kölluð, þá hafa þeir haft gífurleg áhrif á söguna – til hins verra, að mínum dómi.

Magee  Það er leitt fyrir rökgreiningarheimspeki að hún hefur ekki þessa hæfni til að hafa örvandi áhrif á fjöldann. En það felst kannski í eðli greinarinnar.

Hare  Ég er viss um að svo er vegna þess að til að miðla því sem læra má af rökgreiningarheimspeki verður maður að gera meira en að örva fólk: Maður verður að fá það til að hugsa, en það er langtum óþægilegra.

Magee  Ég held það hafi verið Whitehead sem sagði að við mundum gera næstum hvað sem væri til að komast hjá að hugsa.

Hare  Síðari tíma saga hugmyndaheimsins sýnir þetta mjög svo vel.

Magee  Rétt áðan varstu að tala um nokkur af þeim vandamálum í athafnaheiminum sem þú sjálfur hefur fengist við sem siðfræðingur. Af því sem þú segir mætti ætla að siðfræði sé í grundvallaratriðum blendingsgrein, sambland af viðfangsefnum sem sum varða staðreyndir eða eru reynslubundin og sum sem eru greinandi eða óháð reynslu. Er þetta í raun svona? Og ef svo er gerir það hana ólíka öðrum greinum heimspeki?

Hare  Það held ég ekki. Vissulega er mikilvægt að greina milli þessara tveggja tegunda viðfangsefna. Það sem þú segir minnir mig á hina frægu spurningu Kants í upphafi bókarinnar Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni: „Væri það ekki betra fyrir allan þennan lærða iðnað ef þeir sem eru vanir að útvega, í samræmi við smekk almennings, sambland af hinu reynslu­bundna og röklega í ýmsum hlutföllum sem þeir þekkja ekki einu sinni sjálfir – hinir sjálfskipuðu „skapandi hugsuðir“ andstætt „orðhenglunum“ sem sjá um þann hluta sem er eingöngu röklegur – ef þeir væru varaðir við því að inna af hendi samtímis tvö verk mjög ólík hvað aðferð snertir, og hvort um sig þarfnast kannski sérstaks hæfileika og sameining beggja í einni manneskju býr til eintóma klastrara?“

Magee  Ertu sammála Kant?

Hare  Mér fer að hitna í hamsi alveg eins og honum þegar ég hitti þessa klastrara. En þetta er ekki síðasta orðið hjá honum. Hann heldur áfram og lætur það liggja milli hluta hvort röklegi hlutinn „eigi að vera í höndum allra siðapostula (en til eru herskarar af þeim) eða einungis í höndum þeirra sem hafa köllun til verksins.“ Hann krefst þess aðeins að báðir hlutar sið­fræðinnar séu stranglega aðskildir, og í því efni er ég vissulega sammála honum. Maður verður að vita hvenær hann er að fjalla um annan og hvenær um hinn.

Magee  Þú átt við að maður verði að hafa það á hreinu hvenær hann er að fjalla um rökhæfingar og hvenær um staðreyndir.

Hare  Staðreyndir og efnislegar spurningar almennt, því að sumar efnislegar spurningar – til að mynda siðferðilegar spurningar – snúast ekki eingöngu um staðreyndir heldur um hvað við ættum að gera. En ég er sammála því að báðar verður að greina frá hugtakalegum spurningum eða rökhæfingum hvaða tegund heimspeki sem maður fæst við – þótt siðfræði sé kannski sérstaklega móttækileg fyrir ruglingi af þessu tæi.

Magee  Við skulum nú líta á núverandi ástand greinarinnar. Geturðu sagt eitthvað um hvað siðfræðingar hafa aðallega verið að fást við á undanförnum árum?

Hare  Í siðfræðikenningum hefur aðalspurningin á undanförnum árum snúist um hvort hægt sé að leiða matskenndar niðurstöður af forsendum sem byggjast á staðreyndum. Er hægt að leiða gildi af staðreyndum? Er hægt að fá „ætti“ út úr „er“? Þetta á ekki bara við um rökgreiningar­heimspeki; það liggur til grundvallar deilunum milli tilvistarstefnumanna og andstæðinga þeirra, svo dæmi sé tekið. Þeir setja þó hlutina öðruvísi fram, og vegna skorts á færni í rökgreiningu leyfa þeir sér heilmikla ástæðulausa angist til að losa sig úr vandræðum sínum sem krefst þess að gerður sé nokkur afar mikilvægur og frekar erfiður greinarmunur. En ég held ekki að hægt sé að gera mikið sem kemur að gagni í siðfræði nema maður hafi skilið til hlítar rökin báðum megin við þessa spurningu sem snýst um „er“ og „ætti“.

Magee  Þegar þú spyrð: „Er hægt að fá ‘ætti’ út úr ‘er’?“ þá er þetta svo snúin spurning, og samt svo mikið grundvallaratriði, að þú fyrirgefur mér kannski ef ég reyni að útskýra það dálítið. Viðtekna staðhæfingin er, er það ekki, að engan gildisdóm, siðadóm, stefnu eða ákvörðun leiði nauðsynlega af staðreyndum? Samkvæmt þessari skoðun eru staðreyndir og gildi röklega óháð hvort öðru. Og þetta sjálfstæði er tvíeggjað: Alveg eins og gildi eru óháð staðreyndum þannig eru staðreyndir óháðar gildum, til að mynda forgangskostum okkar. Ég skal koma með dæmi. Það væri gagnstætt því sem við báðir viljum geta trúað ef vísindamönnum tækist að sanna að einhverjir kynþættir séu erfðafræðilega verr gefnir vitsmunalega en aðrir. Það kæmi illa við okkur að uppgötva að þetta væri þannig. En þó, sé það staðreynd er það staðreynd og við verðum að viðurkenna það sem staðreynd og neita því ekki. Enn síður ættum við að reyna að þagga það niður með því til dæmis að koma í veg fyrir að vísindamenn skrifi um það eða haldi um það fyrirlestra. Í stuttu máli, staðreyndir eru óháðar óskum okkar. En samt sem áður mundi enga sérstaka stefnu í félagsmálum leiða nauðsynlega af þessari staðreynd. Sumir kynnu að segja: „Jæja, sé þessi hópur miður gefinn en hinn þarf samfélagið að verja minna af fjármunum sínum til að mennta hann.“ En aðrir gætu með sama rétti sagt: „Þvert á móti, sé þetta fólk fætt með minni greind þarf samfélagið að verja meira af fjármunum sínum til að mennta það.“ Það væri með öðrum orðum algerlega undir fólki komið að hvaða stefnuákvörðun það kæmist í ljósi sömu staðreyndar.

Þessi hugmynd að staðreyndir og gildi séu óháð hvort öðru er grundvallaratriði í menningu okkar sem byggist á vísindum, það mætti jafnvel segja menningu sem vísindin drottna yfir. Samfélagsvísindin hafa líka tekið hugmyndina upp í miklum mæli: Einkum eru félagsfræðingar að reyna að þróa það sem þeir kalla „gildisfrjálsa félagsfræði.“ Hugmyndin hefur jafnvel smitað bókmenntagagnrýni. En samt samþykkja hana ekki allir. Hvorum megin í deilunni ert þú?

Hare  Sömu megin og ég tel þig vera: Ég er þeirrar skoðunar að staðreyndir og gildi séu aðskilin. En auðvitað á ég ekki við með því, eins og sumir hafa skilið það, að staðreyndirnar skipti ekki máli fyrir spurningar um gildi. Þegar við reynum að svara spurningum um gildi, eða ef því er að skipta reyna að ákveða hvað gera skuli, þá erum við að gera upp á milli tveggja eða fleiri raunhæfra valkosta og hvað felst í valkostunum ræðst af staðreyndunum. Það sem ég á við er að, í dæminu sem þú nefnir, sé verið að ákveða hvort ætti að veita fólkinu sem talið er að hafi lakari vitsmunalega hæfileika meiri eða minni menntun þá mun það ráðast af því, er það ekki, hvað verið væri að gera ef þetta eða hitt væri gert, og það ræðst af afleiðingum þess að gera það, svo í raun og veru er verið að velja milli afleiðinganna. Ef ég þá spyr: „Ætti að veita þeim meiri eða ætti að veita þeim minni menntun?“ þá verður að greina orðtökin „veita þeim meira“ og „veita þeim minna“ með skírskotun til fjölmargra staðreynda um afleiðingarnar af því að gera þetta.

Magee  Ákvörðun eða stefna, sem merkir matskenndur forgangskostur, verður því að tengjast hinum raunverulegu aðstæðum eigi hún ekki að vera algerlega fráleit eða handahófskennd?

Hare  Það er rétt, já. Og enginn, mér vitanlega, sem heldur fast fram greinarmuni staðreynda og gilda vill halda því fram að ekki sé hægt að nota staðreyndir á þennan hátt í siðferðilegum röksemdafærslum.

Magee  En það eru til, er ekki svo, heimspekingar sem vilja halda því fram að jafnvel þegar öll kurl eru komin til grafar þá séu staðreyndir og gildi eftir sem áður einhvern veginn blönduð?

Hare  Þeir eru til. Ég held ekki að við höfum tíma til að ræða þetta en leyfist mér að segja að ég hef aldrei séð nein rök fyrir þessari skoðun sem byggðist ekki á hugtakaruglingi.

Magee  Eitt sem sannfærir mig um að það sé rangt er að þeim sem halda því fram að hægt sé að leiða staðhæfingar um gildi af staðhæfingum um staðreyndir hefur aldrei tekist það. Enginn þeirra hefur nokkurn tíma sýnt okkur eitt einasta sannfærandi dæmi.

Hare  Ekki um einfalda skilyrðislausa matskennda ályktun af forsendum um staðreyndir af þeirri gerð sem mundi hjálpa til við að leysa raunhæft vandamál á borð við það sem þú varst að lýsa. Það eru til ályktanir um gildi af staðreyndum eins og þessi: „Allir Grikkir eru menn, svo ef ekki ætti að éta menn þá ætti ekki að éta Grikki“; og þessi: „Jack gerði nákvæmlega það sem Bill gerði og kringumstæður þeirra, skapgerð o.s.frv. voru alveg eins, svo ef setja ætti Bill í fangelsi þá ætti að setja Jack í fangelsi“. Ég hef notað ályktanir af þessari gerð. Það eru einfaldar skilyrðislausar efnislegar ályktanir sem ekki er hægt að draga, þar sem engin ef og þess háttar eru.

Magee  Hverjir eru nokkrir hinna merkari heimspekinga sem eru þér ósammála í þessu efni?

Hare  Ég nefni nokkra sem líklegt er að séu vel þekkt nöfn enda þótt þeir séu reyndar ekki aðalverjendur ályktana um gildi af staðreyndum í fræðilegri heimspeki. Tökum til að mynda John Rawls í Harvard. Hann hefur skrifað bókina A Theory of Justice sem hefur hlotið mjög mikið lof og ég er þess fullviss að hann tilheyrir þeirri hlið þessarar deilu sem er andstæð okkur. Það er að segja hann telur að hægt sé að leiða gildisdóma af staðhæfingum um staðreyndir. En skoðirðu bók hans og spyrð: „Beitir hann nokkurn tíma gildri afleiðslurökfærslu út frá staðreyndum til gilda til að sýna að einhver siðferðileg ályktun sé sönn?“ Ég held ekki að hann geri það. Það sem hann gerir í staðinn er að skírskota til innsæishugmynda og setja fram staðhæfingar sem hann vonast til að við föllumst á; og hér hefur hann talsvert til síns máls því vegna þess hvernig við höfum verið alin upp þá hafa mörg okkar sömu innsæishugmyndir eða fordóma og Rawls. En sem röksemdafærsla hangir hún í rauninni ekki saman.

Magee  Geturðu komið með dæmi um þetta hjá honum?

Hare  Má ég setja málið í sitt víðara samhengi? Hann er aðallega að tala um skiptaréttlæti, og það hafa komið út nokkrar merkisbækur um það efni nýlega, sérstaklega bók Rawls, og einnig bók eftir Robert Nozick, Anarchy, State and Utopia. Hann starfar líka við Harvard og það er undarlegt að tveir menn með svona áþekkan bakgrunn skyldu skrifa bækur sem eru gjörólíkar í pólitísku tilliti. Það sýnir að við getum ekki treyst því að fólk fái sömu innsæishugmyndir. Báðir þessir höfundar höfða til innsæis – til þess sem þeir vona að lesendur þeirra muni fallast á, og samt komast þeir að næstum því andstæðum niðurstöðum – ekki alveg andstæðum af því að alger andstæða við afstöðu Nozicks er afstaða jafnréttissinna en Rawls er ekki alger jafnréttissinni. Jafnréttissinnar segja að gæðum í samfélaginu ætti að dreifa jafnt nema einhver knýjandi nauðsyn sé til þess víkja frá ströngum jöfnuði. Nozick er á þveröfugri skoðun. Hann telur að við eigum sem frjálsir menn rétt á því að skiptast á gæðum (að því tilskildu að við höfum aflað þeirra á réttlátan hátt og skiptin séu réttlát) þar til ef svo vill til að hin vaxandi áhrif allra þessara sanngjörnu skipta leiði af sér gríðarlegan ójöfnuð. Rawls er mitt á milli þessara tveggja viðhorfa; hann telur að réttlátt hagkerfi sé það sem gerir það besta fyrir þá sem eru verst settir. Sé staða þeirra sem eru verst settir eins góð og hún getur verið virðist Rawls vera nokkuð sama hvað verður um hina. Við höfum þá þessi þrjú viðhorf (og ég leyfi mér að segja að ég aðhyllist ekkert þeirra), og hið furðulega er að það virðast ekki vera nein rök af því tæi sem beitt er í bókum þeirra Rawls og Nozicks sem mundu gera út um málið, því allt sem þeir geta gert er að vísa til innsæishugmynda þeirra sjálfra og lesenda þeirra, sem eru breytilegar eftir því hvar maður stendur í stjórnmálum.

Magee  Þetta leiðir til einnar þeirra spurninga sem er mikilvægust allra. Hvernig dæmir maður milli gerólíkra viðhorfa eins og þessara?

Hare  Til að sýna Rawls sanngirni er siðferðilegur hugsunarháttur hans þess eðlis að hann gæti svarað spurningu þinni ef hann vildi beita honum og reiddi sig ekki alltaf á innsæi. Eins og Brian Barry sagði í bók sinni um Rawls er þessi aðferð hans mjög lík minni hvað röklega eiginleika snertir og hefði Rawls bara beitt rökfræðinni sem er undirskilin í aðferð hans og hafnað innsæi þá hefði hann getað gert miklu betur. Ástæðan fyrir því að hann gerði það ekki er sú að hefði hann gert það þá hefði hann endað sem einhvers konar nytjastefnumaður, og hann taldi það verri örlög en dauða. Innsæið sagði honum að hann mætti ekki vera nytjastefnumaður; hann treysti því ekki á rökfræðina, hann treysti á innsæið.

Magee  Þú hefur orðað það skýrt og skilmerkilega að það gengur ekki að byggja siðferðilegt viðhorf á innsæi af því að ólíkar manneskjur hafa ólíkt innsæi – en merkir það að þú hafnir innsæi? Telurðu að við ættum að ýta því til hliðar?

Hare  Nei, alls ekki. Innsæishugmyndir eru mjög mikilvægar en þær eru ekki það eina. Ástæðan fyrir því að þær eru mikilvægar er sú að í flestum siðferðilegum klípum höfum við ekki tíma til að hugsa, og stundum væri hættulegt að hugsa, eins og Hamlet komst að raun um. Þess vegna var það mjög viturlegt af þeim sem ólu okkur upp að innræta okkur vissar tilhneigingar sem gera flest okkar, svo dæmi sé tekið, ákaflega treg til að segja ósatt og mjög fús til að segja, ef einhver annar segir ósatt, að hann hafi gert rangt. Sama á við um grimmd. Standirðu einhvern að því, nú á dögum í þessu landi, að lúberja hund – hvað þá manneskju – segirðu strax að hann sé að gera rangt. Við höfum sem sé verið alin upp með innsæistilfinningu fyrir hvað sé rétt og hvað sé rangt og það er mjög æskilegt að við séum alin upp þannig. Værum við ekki alin upp á þann hátt mundum við hegða okkur miklu verr. Ég er því vissulega hlynntur innsæishugmyndum. En spurningin er: „Hvaða innsæishugmyndum?“ Setjum nú svo, þegar þú ert að ala börnin þín upp, þá spyrjirðu sjálfan þig: „Er rétt að innræta þeim þá innsæishugmynd að menn með sítt hár séu verri en menn með stutt hár?“ eða, á alvarlegri nótum, „Er rétt að innræta þeim að það sé rangt að halda fram hjá?“ Hvernig skerðu úr um þetta? Sértu að velta því fyrir þér hvort innsæishugmyndir þínar séu í raun og veru þær bestu, og ef börn þín eða aðrir vefengja þær, hvað þá? Innsæishyggja – sú skoðun að við vitum með innsæi að siðadómar séu sannir og verði ekki vefengdir – getur ekki svarað þessari spurningu. Við þurfum hærra stig siðferðilegrar hugsunar sem getur gagnrýnt innsæishugmyndir – gagnrýnið stig þar sem við getum tekið ýmsar andstæðar innsæishugmyndir, annaðhvort hjá sömu manneskju eða ólíkum manneskjum, og lagt mat á þær til að kanna hver sé best.

Magee  Hvernig á að framkvæma þessa hærra stigs hugsun? Hafni maður innsæi sem leið til að skera úr milli ósamrýmanlegra röksemda og telji ekki heldur að hægt sé að leiða siðadóma af staðreyndum, hvaða hlutverki gegna þá rökhugsun og skynsamlegar rökfærslur í málefnum sem eru sérstaklega siðferðileg?

Hare  Ég vildi gjarnan, ef ég má, taka þetta í áföngum. Ég held að rökfærsla geti komið að gagni hér – hún getur komið að miklu meira gagni en hún hefur gert hingað til – en við skulum taka fyrsta áfangann. Hann er, eins og ég sagði hér áðan, að rökfræðinni er beitt til að skýra hugtökin sem notuð eru í þessum deilum, eins og hugtakið sanngjarnt eða réttlátt, og til að varpa ljósi á röklega eiginleika þeirra. Annar áfanginn er þessi: Þegar búið er að skýra þessi hugtök verður hægt að greina eina tegund spurningar frá annarri. Allar þessar pólitísku og siðferðilegu spurningar koma til okkar eins og sambland eða blanda af nokkrum ólíkum tegundum spurninga. Í fyrsta lagi höfum við hversdagslegar staðreyndaspurningar um aðstæðurnar sem við erum í og afleiðingar þeirra athafna eða stefnumála sem við eigum kost á. Þar næst koma rökfræðilegu spurningarnar sem ég nefndi rétt áðan um eðli hugtakanna sem verið er að beita – merkingu orðanna – og fólk fer eflaust að tala í kross þegar það skilur þessar spurningar sem spurningar um staðreyndir en það eru þær ekki. Til að mynda í deilunni um fóstureyðingar heldur það að um sé að ræða spurningu um staðreynd á hvaða stigi fóstrið breytist í mannveru. En hér er reyndar um að ræða þrjár spurningar (eða flokka spurninga), ekki eina. Það eru spurningar um staðreyndir í þröngum skilningi – aðallega læknisfræðilegar spurningar um núverandi ástand fóstursins og móður þess og líklega framtíð þeirra sé fóstrinu ekki eytt; og það eru spurningar um hvernig við ætlum að nota orðið „mannvera“; og að lokum, þriðji flokkur spurninga sem ég hef ekki nefnt enn þá, eru spurningar um gildi á borð við „Hvernig ætti að fara með fóstur, sem þannig er lýst, eða mannverur, í hinni mismunandi merkingu orðanna?“ Með því að blanda saman þessum tegundum spurninga snýst fólk í hringi og fer aldrei að kljást við þriðju tegundina sem vitaskuld er sú mikilvægasta. Annað framlag heimspekingsins er að aðskilja allar þessar ólíku spurningar, og þá sjáum við að hægt er að gera út um staðreyndaspurningarnar með aðferðum reynslubundinna rannsókna og ráða fram úr rökfræðilegu og hugtakalegu spurningunum, með aðstoð heimspekilegra rökfræðinga ef þess gerist þörf, með því að ákveða merkingu orðanna, eða ef við viljum breyta merkingu þeirra hvað við ætlum þá að láta þau merkja. Og þá eru eftir spurningarnar um gildi sem kann að vera auðveldara að svara þegar við höfum losað okkur við hinar, vegna þess að við getum loksins séð þær skýrt og aðgreindar frá þessum öðrum tegundum spurninga.

Magee  Hvernig er hægt að beita rökfræði á spurningar sem eru einvörðungu um gildi?

Hare  Þetta er mikilvægasta málið í siðfræði um þessar mundir, eins og það hefur alltaf verið. Þú spyrð mig réttilega hvernig rökfræði geti komið að gagni við að svara hinum mikilvægu spurningum um gildi eftir að þær hafa verið greindar frá hinum, eins og ég hef verið að reyna að gera alla tíð. Fólk hefur snúist í hringi af því að það heldur að hér sé um að ræða ógöngur, en ég held að til sé leið áfram. Skoðanir mínar eru ögn áþekkar skoðunum Kants – þótt ég hiki við að segja þetta af því að ég er aldrei viss um hvað Kant er nákvæmlega að segja; hann er svo óskýr höfundur. En það sem ég vil segja um siðferðishugtökin er að þau hafa tvo eiginleika sem saman nægja til að láta í té rökfræði fyrir siðferðilega röksemdafærslu. Hinn fyrri er sá sem heimspekingar kalla „alhæfanleika“. Þetta þýðir í grófum dráttum að siðadóm sem ég felli um eitthvert mál verður líka að fella um öll mál sem eru nákvæmlega eins. Síðari eiginleikinn kallast „forskriftareðli“. Þetta merkir að hinir miðlægu siðadómar varða athafnir okkar (vitanlega eru aðrir ekki jafn miðlægir siðadómar sem hafa ekki þennan eiginleika.) Ef við trúum þeim þá munum við breyta í samræmi við þá ef við getum. Ég held því fram að þessir tveir formlegu eiginleikar, einir sér, nægi til að láta í té rökfræði sem getur í raun og veru hjálpað til við siðferðilegar röksemdafærslur.

Magee  Þú ert farinn að tala eins og siðfræði, alltént hvað eina hlið hennar varðar, sé grein af meiði rökfræðinnar.

Hare  Ég tel hana vera það. „Ætti“, svo dæmi sé tekið, er háttarhugtak alveg eins og „verða að“ og „geta“. Rökfræðingar eru með tegund rökfræði sem þeir kalla háttarökfræði og fjallar um hugtök á borð við nauðsyn og möguleika; og til er tegund háttarökfræði sem kallast skyldurökfræði og fjallar um það að vera skuldbundinn og það að vera leyfilegt (það er að segja um setningar sem byrja á „Ég ætti að“ og „Það er í lagi að“). Hinn formlegi hluti siðfræðinnar, sem allt annað verður að byggjast á, er einfaldlega skyldurökfræði. Ég er ekki sérfræðingur í formlegri rökfræði en ég lít svo á að ég leggi eitthvað af mörkum til greinarinnar óformlega á minn leikmannshátt.

Magee  Hér áðan lýstirðu þér sem einskonar nytjastefnumanni. Nú talarðu eins og þú sért einskonar kantisti. Eru kantistar og nytjastefnumenn ekki venjulega taldir vera á öndverðum meiði?

Hare  Fylgismenn þessara stefna nú á dögum segja þetta stundum. Það er almennt talið að Kant og Mill, svo dæmi sé tekið, eða Bentham, séu á öndverðum meiði í siðfræði. Það er alrangt. Kant var á móti þeirri tegund nytjastefnu sem hann taldi sig hafa fundið hjá Hume – tegund sem leitast við að byggja siðferði algjörlega á reynslubundnum rannsóknum á tilfinningum manna og gerir lítið úr því sem Kant kallar „hreina röklega hlutann“. Hins vegar taldi Mill að nytjareglan sín væri í samræmi við hið skilyrðislausa skylduboð Kants, túlkuð á þann eina hátt sem gefur henni einhverja merkingu; og það er erfitt að vera ekki sammála honum. Kant var að tala um form siðferðilegrar hugsunar, nytjastefnumennirnir um inntak hennar þar sem staðreyndir heimsins eins og þær birtast okkur hljóta að koma fram. Kannski komst Henry Sidgwick3, mestur hinna klassísku nytjastefnumanna, næst þeirri sameiningu Kants og nytjastefnunnar sem þörf er fyrir og er vissulega möguleg.

Magee  Hvað telurðu vera rétt og hvað telurðu vera rangt í hvoru þessara viðhorfa?

Hare  Ég skal segja þér hvað ég tel mig hafa lært af hvorri þessara hugmyndastefna um sig. Af Kant hef ég lært mikilvægi röklega þáttarins í siðferðilegri hugsun. Við getum ekki án hans verið; við þurfum að kanna rökfræðina. Ég er Kant ekki sammála þegar hann heldur því fram að þessi þáttur geti líka verið efnislegur. Tractatus Wittgensteins sannfærði mig um að efnisleg röksannindi séu hvorki til né nauðsynleg hugsun okkar. Það er að segja, við getum ekki með rökhugsun einni saman komist að efnislegum niðurstöðum, hvort heldur um staðreyndir eða gildi. Rökfræðin sannar þá eiginleika hugtaka sem eru eingöngu formlegir. Viljum við staðreyndir verðum við að rannsaka, og viljum við gildi verðum við að velja. (Hinn sjálfráði vilji Kants er langtum betri og réttari tjáning þessarar hugmyndar en tilfinningar Humes). En hvort heldur við rannsökum eða veljum, jafnskjótt og við reynum að segja hvað við sjáum eða veljum, setur rökgerð hugtakanna okkur skorður. Þetta er kantismi í hnotskurn, eða öllu heldur hógværari útgáfa mín af honum.

Frá nytjastefnumönnum tek ég þá hugmynd að siðferðileg hugsun okkar verði að fara fram í heiminum eins og hann er. Það skiptir máli að fólkið í honum er eins og það er og aðstæður þess eru eins og þær eru. Engar siðareglur sem eiga að vera raunhæfar er hægt að setja saman öðruvísi en með því að sjá hinar raunverulegu afleiðingar þess, í lífinu, að fara eftir þessum reglum.

Magee  Hvernig svararðu hinni venjulegu mótbáru gegn nytjastefnunni að vegna þess að mælikvarði hennar er meiri hamingja sem flestra þá sé hægt að gera skelfilega hluti í hennar nafni? Eftirfarandi ögrun við nytjastefnuna er orðin vel þekkt. Séu tveir sjúklingar á sjúkrahúsi að deyja vegna þess að þá vantar góð nýru og einn vegna þess að hann vantar góðan maga, og hægt væri að bjarga þeim öllum með ígræðslu líffæra, og ef inn í þetta sjúkrahús kæmi fullkomlega heilbrigður maður til að heimsækja einhvern annan veikan ættingja, þá ætti með nytjastefnurökum að sundurlima heilbrigða manninn og skipta líffærum hans milli sjúklinganna – af því að með því móti mundi aðeins einn maður deyja og þrír lifa, en að öðrum kosti mundu þrír deyja og aðeins einn lifa.

Hare  Ja hérna, heimspekingar eru alltaf að búa til falleg dæmi á borð við þetta, en siðareglur verður að finna upp fyrir heiminn eins og hann er. Hugsum okkur bara hverjar yrðu afleiðingarnar í hinum raunverulega heimi ef læknar og aðrir samþykktu þá reglu að það væri í lagi að taka gesti á sjúkrahúsum fasta og stela líffærum þeirra! Þessi fjarstæðukenndu dæmi koma í raun og veru vali á siðareglum ekkert við. Það sem nytjastefnumenn ættu að segja við dæmi af þessu tæi er að reglurnar sem við ættum að innræta okkur til raunhæfra nota – innsæið sem við ættum að leggja rækt við – eru þær sem hafa það sem þeir kalla „mestu viðurkenningar-nytsemi“. Þetta þýðir reglurnar sem er fyrir bestu að séu almennt viðurkenndar í samfélaginu. Þetta á bæði við það sem kallast athafna-nytjastefna og reglu-nytjastefna því að með athöfnum okkar – með því hvernig við lifum eftir reglum okkar – erum við að valda góðum eða vondum afleiðingum og þetta eru afleiðingarnar af því að samþykkja reglurnar sem við förum eftir. Að hafa eða trúa á reglu tengist, bæði röklega og sálrænt, staðföstum vilja til að fara eftir henni. Ég er samþykkur öllu þessu. Ég gæti orðað það með kantískari kenningu minni á þessa leið: „Hugsaðu þér að þú verðir að velja reglur til almennrar upptöku í samfélaginu – eða bara fyrir þig sjálfan – og þú megir ekki velja þær með tilliti til eigin hags; þú verður að velja eins og þú gætir verið þiggjandinn þegar þú og aðrir færu eftir þessum reglum. Hvaða reglur mundirðu þá velja?“ Ég hygg að ef við spyrðum okkur þessarar spurningar þá vissum við hvaða innsæishugmyndir við veldum – að svo miklu leyti sem það er sálrænt séð mögulegt að breyta inngrónum siðareglum manns. Alltént vissum við hvaða siðareglur við mundum reyna að innræta börnum okkar – ef til vill okkur sjálfum.

Magee  Mér skilst að þú sért að segja að við ættum að velja siðareglur okkar, og velja þær innsæishugmyndir sem við reynum að innræta börnum okkar, á grundvelli þess hverjar muni verða afleiðingarnar af því að taka þær upp; og að þannig sé heimur staðreyndanna samofinn vali okkar á siðareglum.

Hare  Það er alveg rétt. Bestu innsæishugmyndirnar eru þær sem best er að hafa og þær sem best er að hafa eru þær sem gera okkur kleift að lifa sem best í samfélagi hvert við annað. En ég skal útskýra fyrir þér hvernig við ættum að framkvæma valið. Séu siðadómar alhæfanlegir – sem sagt, verði maður að fella sömu dóma um tilvik sem eru nákvæmlega eins – þá hentar það reyndar ekki steggnum sem hentar gæsinni – því að þrátt fyrir lögin um mismunun kynjanna kann að vera munur sem skiptir máli á gæsum og steggjum (steggir geta ekki orpið eggjum, svo dæmi sé tekið) – en það sem hentar þessari gæs hlýtur að henta gæs sem er nákvæmlega eins, hver sem hún er, séu kringumstæðurnar eins. Ég verð því að segja við sjálfan mig: „Ef ég ætti að gera þér þetta þá ætti einhver annar að gera mér það í kringumstæðum sem eru nákvæmlega eins.“ Og því verð ég að spyrja sjálfan mig: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa að einhver annar ætti að gera mér það í svipuðum kringumstæðum? Segjum að það væri ég sem ætti að gera það við: vel ég samt að það sé gert?“ Mér virðist þetta vera mjög öflugt tæki í siðferðilegri rökfærslu og það tæki sem stöðugt er verið að nota með góðum árangri. Reyndar væri hægt að draga allar skoðanir mínar um siðferðilega rökfærslu saman í gullnu regluna: „Það sem þú vilt að aðrir geri þér skaltu líka gera þeim.“

Magee  Geturðu gefið okkur raunhæft dæmi?

Hare  Þú átt við dæmi um heimfærslu þeirrar tegundar hugsunar sem ég er að mæla með undir raunhæft málefni? Gott dæmi væri það sem kom sjálfum mér til að leggja stund á siðfræði: deilur friðarsinna og andstæðinga þeirra. Meginrökin með friðarstefnu eru hvernig það er fyrir fólk að verða að þola afleiðingar stríðs. Ein af ástæðunum gegn því, til að mynda, að Bandaríkjamenn háðu stríðið í Víetnam voru hinar skelfilegu þjáningar sem voru afleiðingar þess stríðs. Hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna, eða hver annar sem er, búið við reglu sem krefðist þess að svona lagað væri gert þá væri það rök fyrir því að varpa reglunni fyrir róða. Og ég hygg að þeir hefðu horfið frá henni ef þeir hefðu þurft að spyrja sig spurningar eins og þeirrar sem ég spurði rétt áðan: „Er ég reiðubúinn að fyrirskipa slíka reglu hver svo sem staða mín verður á því sviði sem hún gildir?“

Í öðrum tilvikum kynnu að vera mótrök. Tökum dæmi: Enda þótt seinni heimsstyrjöldin hefði í för með sér gríðarlegar þjáningar hefði það sennilega orðið verra fyrir næstum alla, að Þjóðverjum meðtöldum, hefðum við ekki tekið þátt í henni. Alltént var það mín ástæða fyrir að berjast í henni. En maður verður að skoða staðreyndirnar til að ákveða hvaða reglum hann ætti að fylgja. Ég sjálfur mundi ekki taka upp algerlega ósveigjanlegar friðarsinnareglur því að ég tel að afleiðingar þess að allir í minni stöðu (þ.e. stöðu þar sem einhver á borð við Hitler hefur hafið árásarstríð) hefðu slíka reglu yrðu langtum verri en afleiðingar þess að fylgja þeirri reglu sem ég reyndar fylgi og leyfir mér að berjast í tilteknum styrjöldum.

Magee  Við höfum tekið fyrir heilmikið efni í umræðu okkar. Við höfum talað um hlutverk rökfræði í siðferðilegum rökfærslum og hlutverk staðreynda og innsæis og um það hvernig þetta tengist innbyrðis á fremur flókna vegu. Mig langar til að ljúka þessu með því að taka dæmi úr verkum þínum og skoða það í ljósi alls þessa. Í upphafi umræðu okkar vékst þú til að mynda að þeirri spurningu hvað væru „sanngjörn“ laun. Geturðu sagt eitthvað um hvernig þú sem heimspekingur mundir fara að því að rannsaka hugtak eins og þetta?

Hare  Þetta er í rauninni besta dæmið því að það er svo mikið í umræðunni núna og skiptir svo miklu máli og samfélag okkar er, ef til vill, á leiðinni að liðast í sundur vegna skorts á heimspekilegum skilningi á því. Ég tel að heimspekingar geti hjálpað til við þessi vandamál ef fólk hlustaði bara á þá. Við höfum námumennina sem álíta að það sé ósanngjarnt fái þeir ekki hærra kaup fyrir óþægilega vinnu sína. Og við höfum ellilífeyrisþegann sem telur það ósanngjarnt að hann deyi úr kulda vegna þess að verð á eldsneyti hefur hækkað svo mikið. Hvernig fer maður að því að leysa deilur eins og þessar? Að mínum dómi tekur maður til við það með því að spyrja: „Hverjar eru réttlætisreglurnar, reglurnar um sanngjarna skiptingu gæða í samfélaginu sem hefðu, væru þær viðurkenndar, bestu afleiðingarnar þegar á allt er litið fyrir fólkið í því samfélagi?“ Ef við gætum fundið reglur um sanngjörn skipti sem samfélagið almennt gæti fallist á og myndi skipta gæðum á sem bestan hátt fyrir fólkið í þessu samfélagi tekið sem heild, þá værum við laus úr vandræðunum. Ef maður skilur þetta þá er það ekki spurning um að bíta bara í sig einhverja hugmynd um sanngirni sem hann hefur lært, til dæmis, af félögum sínum eða eitthvað sem hann hefur séð í dagblöðunum. En þetta er það sem fólk gerir: það bítur í sig þessi órökstuddu réttindi, þessar hugmyndir um sanngirni sem það gagnrýnir ekki og þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í slagsmálum hvert við annað. Ef við, í stað þess að gera það, gætum spurt okkur: „Hvaða hugmynd um sanngirni ættum við að hafa? Hvaða hugmynd væri best fyrir okkur að hafa í samfélagi okkar?“ þá er hugsanlegt að við gætum verið sammála.

Magee  Hvernig framkvæmir þú sem heimspekingur leitina? Hvernig ferðu að því að reyna að finna svarið við spurningum þínum?

Hare  Þegar hér er komið þarf ég kannski að kalla til aðrar fræðigreinar því að staðreyndirnar eru mikilvægar, eins og ég sagði, og ég hef enga sérfræðiþekkingu á þeim. Heimspekingurinn getur aðeins útskýrt spurninguna og sagt: „Þetta er spurningin sem við verðum að snúa okkur að.“ Ég hef kannski hjálpað til með því að setja spurninguna fram á skýrari hátt en hún var sett fram áður. Ég hef útskýrt hvað það er sem þarf að finna – að hverju maður er að leita, og það er verkefni hagfræðinganna, til dæmis, og félagsvísindamanna almennt, að framkvæma leitina að mögulegum lausnum – að reglum sem mundu í hinum raunverulega heimi okkar uppfylla skilyrðin sem ég hef sagt að þær verði að uppfylla. Jafnvel þessir ákaflega færu menn finna stundum ekki lausnirnar vegna þess að þeim er ekki alveg ljóst að hverju þeir eru að leita, og það er þar sem heimspekingurinn getur ef til vill lagt hönd á plóginn.

Magee  Finnst þér stundum sem heimspekingi að fólk á þessum öðrum sviðum – og ég mundi bæta stjórnmálamönnum við – veiti ekki nægilega athygli útskýringu hugtaka, röksemda og málefna sem þú og aðrir heimspekingar geta lagt til?

Hare  Sumir þeirra gera það og sumir ekki. Til eru heimspekilega menntaðir stjórnmálamenn, eins og þú sjálfur, og meðal hagfræðinga er, svo dæmi sé tekið, Amartya Sen sem er líka mjög góður heimspekingur. Heimspekingar (einkum nytjastefnumenn) geta mikið lært af hagfræðingum á borð við hann. Og það væri betra ef enn fleiri góðir heimspekingar tækjust á við þessi málefni og færri slæmir sem útbreiða meiri rugling en skýrleika. Í yfirstandandi umræðum um spurningar af þessu tæi finnur maður orð eins og sanngjarn, réttindi, réttlæti og þvíumlík notuð, jafnvel stundum af heimspekingum, eins og það lægi í augum uppi hvað væri sanngjarnt eða réttlátt – eins og við þyrftum ekki að spyrja okkur hvort innsæishugmyndir okkar sjálfra um sanngirni ætti að draga í efa. En ég held að ef fólk mundi gagnrýna innsæishugmyndir sínar (eða fordóma) um hvað sé sanngjarnt og hvað réttlátt og leitast við að skilja innsæishugmyndir og fordóma annarra þá væru meiri líkur til þess að við gætum orðið sammála.

Magee  Og kjarninn í viðhorfi þínu í heild er að þessi gagnkvæmi skilningur byggist ekki einungis á samhygð eða samkennd heldur einnig á beitingu rökhugsunar á siðferðileg úrlausnarefni.

Hare  Þetta er ágæt samantekt.

                                                                                                                     Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Francis Hutcheson (1694–1746) var breskur siðfræðingur, stjórnspekingur og fagurfræðingur. Hafði mikil áhrif á heimspeki Humes, einkum hvað varðar tilfinningalífið.

2. Jeremy Bentham (1748–1832) var enskur lögspekingur og siðfræðingur. Hann var frumkvöðull nytja­stefnunnar og hélt fram svokölluðu „hámarkshamingjulögmáli”. Hann var áhrifamikill umbótasinni í stjórnmálum, félagsmálum og menntamálum og hafði mikil áhrif á John Stuart Mill.

3. Henry Sidgwick (1838–1900) var enskur heimspekingur. Mikilvægasta verk hans er The Methods of Ethics. Almennt er litið á þetta verk sem klassíska framsetningu á hinum ólíku tegundum röksemda í siðfræði.

Samhuglægni hjá Heidegger og Merleau-Ponty

eftir Jóhann Helga Heiðdal

Fyrir nokkru var hér á Heimspekivefnum birt grein eftir undirritaðan um samhuglægni í fyrir­bærafræði Husserls (http://heimspeki.hi.is/?p=2923).1 Í þessari grein er samhuglægni skoðuð hjá fyrirbærafræðingum sem komu á eftir Husserl: Martin Heidegger og Maurice Merleau-Ponty.

Tæki og tól Heideggers

Þótt Heidegger sé frægasti lærisveinn Husserls er heimspeki þeirra ólík um margt. Hér gefst ekki rúm til að ræða öll þessi atriði sem greina að heimspeki þeirra. Helsta atriðið er einfaldlega það að Heidegger vildi breyta viðfangsefni fyrirbærafræðinnar. Hann taldi það vera misskilning að hægt væri að finna sameiginlega og hlutlæga formgerð vitundarinnar eins og draumur Husserls kvað á um. Þess í stað vildi Heidegger breyta fyrirbærafræðinni í verufræðilega rannsókn á því sem er. Hann rannsakar sjálfið (Dasein)2 í hversdagsleika sínum; hvernig umhverfi þess og skilningur eru gefin í vitundinni áður en fræðileg íhugun á sér stað. Í þessu samhengi er að­greining Heideggers milli tvenns konar skilnings á hlutunum í umhverfi okkar sérstaklega mikilvæg. Greinarmunurinn felst í því sem Heidegger kallar að upplifa hluti sem tiltæka (zuhanden) annars vegar og fyrirliggjandi (vorhanden) hins vegar.3

      Greining Heideggers á Dasein byrjar á þeirri einföldu staðreynd að Dasein er alltaf til staðar í heiminum og hefur vissar fyrirframgefnar hugmyndir um veru sína áður en fræðileg hugsun á sér stað. Vísindalegur skilningur á heiminum og hlutunum í honum er með öðrum orðum atburður sem kemur á eftir okkar hversdagslega skilningi. Samkvæmt greiningu Heideggers skiljum við þá hluti sem verða á vegi okkur fyrst á tiltækan hátt. Tengsl okkar við hlutina í kringum okkur byggjast fyrst á því að við höfum viss not fyrir þá; til dæmis er blýantur til að skrifa með, hnífur er til að skera með, sími er til að hringja með. Þetta er viss tegund ætlunar, hlutir eru gefnir í reynslu okkar áður en fræðileg, vísindaleg íhugun á sér stað. Íhugun um eiginleika hlutanna, til dæmis um gerð þeirra og efnasamsetningu, er athöfn sem kemur síðar.

      Þessi fyrirbærafræðilega staðreynd bendir á óyggjandi hátt til samhuglægni. Vera Dasein í heiminum gerir ráð fyrir öðrum af því að: „Þetta leiðir til þess að samfara skilningnum er ávallt búið að varpa fram sérstakri mögulegri veru með öðrum og sérstakri veru sem beinist að verum sem byggja sama heim. Þar eð vera-í-heiminum tilheyrir grundvallar samsetningu Dasein er tilvist Dasein í eðli sínu vera-með-öðrum sem vera-á-meðal vera sem byggja sama heim.“4

      Mikilvægasta framlag Heideggers er greining hans á tólum (Das Zeug)5. Eins og hann bendir á eru tól notuð á ýmsan hátt. Þess vegna eru tólin ávallt nauðsynlega og óhjákvæmilega skilin innan viss samhengis. Ef við gerum okkur ekki grein fyrir samhenginu myndum við ekki geta notað tólið sem um ræðir: „Tól verða alltaf á vegi okkar innan samhengis. Sérhvert tól felur í sér samhengið og er aðeins þetta tól með tilliti til þess samhengis.“6

      Þannig skilur Heidegger öll tól út frá notkunarhætti þeirra.7 Tólin eru með öðrum orðum fyrst og fremst skilin út frá notkunarhætti þeirra, ekki með hjálp fræðilegrar íhugunar. Við getum aðeins skilið og notað eitthvert tól ef við höfum skilið það sem visst fyrirbæri og „aðeins ef við höfum nú þegar varpað skilningi okkar á notkunartengslin.“8 Við fáum á vissan hátt í kaupbæti samhuglægni með skilningi okkar á mismunandi tólum. Það stafar af því að við skiljum samtímis að aðrir hafa framleitt þessi tól, notað þau og kennt öðrum að nota þau. Hversdagsleg tengsl okkar við margvísleg tól gera nauðsynlega ráð fyrir öðrum sjálfum. Þetta er grundvallareiginleiki tilvistar okkar sem við komumst ekki undan. Eins og Heidegger útskýrir: „Í notkun tóla er Dasein alltaf einnig nú þegar mjög vel að sér í tilvist-með-öðrum og það skiptir engu máli hvort annað Dasein sé raunverulega til staðar.“9 Það er því ekki hægt að skilja hann öðruvísi en á þann hátt að fyrirbærafræðileg reynsla okkar af hinum eigi sér ekki upprunalega stað við fyrstu kynni. Hinn er alltaf nauðsynlega fyrirframgefinn í allri reynslu Dasein frá upphafi. Þótt annað sjálf hefði aldrei orðið á vegi okkar samanstæði tilvist okkar samt sem áður af tilvísunum í önnur sjálf. Þetta er óumflýjanlegur eiginleiki tilvistarinnar, fyrirbæri sem Heidegger kallaði Mit-Sein.

      Það er því misskilningur að við finnum okkur fyrst í heimi og hittum seinna meir önnur sjálf, sem svo leiðir til ýmissa heimspekilegra vandamála (sem allir heimspekingar ættu að kannast við.) Vera-með-öðrum er fremur grundvallar eiginleiki Dasein frá upphafi og þannig inn­byggður eiginleiki tilverunnar. Heidegger sér hið svokallaða vandamál um aðra huga sem gervi-vandamál sem gufar upp þegar ítarleg fyrirbærafræðileg greining á Dasein í hversdagsleika þess á sér stað. Hann skrifar:

Dasein er ekki fyrst aðeins vera-með-öðrum og rís þaðan í veru-með-einum-öðrum í hlutlægan heim og kemst þannig út úr hlutunum. Þessi nálgun myndi vera alveg jafn misheppnuð og huglæg hughyggja sem byrjar út frá sjálfi sem svo útvegar sér viðfang fyrir sig. Að byrja með ég-þú (I-thou) sambandi milli tveggja sjálfa myndi leiða af sér að fyrst væru tvö sjálf sem seinna kæmu svo á sambandi sín á milli. Líkt og Dasein er alltaf í grunninn með-öðrum er það einnig í grunninn með því tiltæka og nærliggjandi. Á sama hátt er Dasein heldur ekki fyrst aðeins á meðal hluta og uppgötvar svo annað slagið þessa hluti með sína eigin tilvist. Heldur er Dasein vera-með-öðrum og verum sem dvelja í sama heim.10

Afstaða Heideggers til fyrirbærafræðilegrar samhuglægni er því sú að tilvist okkar, sem grund­vallast á veru-í-heiminum, gerir alltaf þegar ráð fyrir hinum í gegnum félagslega vídd Dasein. Fyrirbærafræðileg greining á Dasein og tilvist þess leiðir þennan sannleika í ljós.

Merleau-Ponty og líkamleg vera-í-heiminum

Merleau-Ponty deilir innsýn Heideggers í mikilvægi tóla og áhrif þeirra á hinn samhuglæga heim. Hann nýtir sér einnig hugtak Heideggers um veru-í-heiminum sem grundvallareiginleika tilvistar­innar. Fyrir honum erum við alltaf umlukin sameiginlegum menningarheimi sem inniheldur ýmsa hluti sem þjóna ólíkum markmiðum. Þessir hlutir gera beint ráð fyrir öðrum sjálfum og spila mikilvægt hlutverk í reynslu okkar af heiminum og hinum: „Einhver notar pípuna til að reykja, skeiðina til að borða, bjölluna til að hringja inn, og það er í gegnum skynjunina á mannlegri gjörð og annarri manneskju sem skynjunin á menningarheimi er staðfest.“11 Að hans mati fer þessi aðgerð fram undir vissri nafnleysis blæju eins og hann lýsir því.12 Hún vísar sem sagt ekki til neinnar sérstakrar félagslegrar persónu sem við höfum persónuleg kynni af heldur til hins nafn­lausa hins og ópersónulegu heildarinnar.

      Ólíkt Heidegger sem tefldi fram mjög abstrakt greiningu á formgerð tilvistar Dasein, leggur Merleau-Ponty mikla áherslu á líkamleika. Hann vill afhjúpa heiminn og hinn í raunverulegri skynjun okkar á þeim. Til að þetta sé mögulegt er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að öll skynjun á sér stað út frá líkama okkar og sjónarhorni hans. Líkamar okkar hafa vissa stað­setningu í rúminu sem hefur mikil áhrif á það hvernig hlutir eru skynjaðir. Þetta er atriði sem lítið hefur verið gert úr í vísindum og heimspeki að mati Merleau-Ponty. Í gegnum nákvæma fyrirbærafræðilega greiningu er hægt að brjótast úr viðjum gamalla, kreddukenndra hugsunar­hátta og kenninga um samband hugar og líkama, kenninga sem leiða af sér heimspekileg vandamál um tilvist annarra huga og upplifun okkar á hinum. Hann skrifar: „Tilvist annarra er vandamál og svívirðilegt fyrir hlutlæga hugsun.“13 Það er aðeins þegar við setjum okkur í hlutlægar, vísindalegar og/eða fræðilegar stellingar sem dagleg fyrirbæri eins og samhuglægni og hinn verða að einhvers konar erfiðu, óútskýrðu heimspekilegu vandamáli. Því segir hann: „Skynjun á öðru fólki og hinum samhuglæga heim er aðeins vandamál fyrir fullorðna.“14

      Fyrir Merleau-Ponty er heimurinn því samhuglægur alveg frá byrjun. Til að undirstrika þennan punkt nýtir hann sér dæmi úr uppeldissálfræði. Hann beinir spjótum sínum að ungabörnum og reynslu þeirra. Hann var mjög áhugasamur sálfræðilegar rannsóknir á börnum og taldi þær geta sagt okkur margt um reynslu okkar og skynjun á heiminum.15 Í frægu dæmi ritar hann:

Fimmtán mánaða gamalt barn opnar munninn ef ég að gamni tek einn fingur þess og læst bíta hann. En samt þarf barnið varla að horfa á andlit sitt í spegli og tennur þess eru ekki eins og mínar. Staðreyndin er sú að munnur þess og tennur, eins og það finnur fyrir þeim að innan, er um leið fært um að fram­kvæma sömu aðgerð. Bit hefur samstundis, fyrir barninu, samhuglægt mikil­vægi.16

Ungt barn getur um leið áttað sig á ætlun hins, tileinkað sér hana og framkvæmt sömu aðgerð. Hvernig ber að skilja þetta? Barnið er ljóslega of ungt til að geta framkvæmt einhvers konar huglæga íhugun. Merleau-Ponty ræðir einnig hliðstæðurök sem kveða á um að við yfirfærum okkar eigin upplifun og reynslu yfir á aðra en kemst að því að þau eru ófullnægjandi og hafnar þeim.7

      Annað atriði sem Merleau-Ponty bendir á er að reynsla okkar af hinum þarfnist ekki neinnar hugrænnar áreynslu. Þegar við skynjum tilfinningar einhvers svo sem reiði, sorg, pirring skynjum við ekki hinn fyrst og drögum síðar ályktun um hugarástands hans og hvernig honum líður. Við skynjum beint tilfinninguna sjálfa:

Ég skynja hinn sem hluta af hegðun, til dæmis, ég skynja sorgina eða reiðina í atferli hins, í andliti hans eða höndum án þess að vísa til neinnar „innri“ reynslu sorgar eða reiði. Og af því að sorg og reiði eru ólíkar leiðir til að tilheyra heiminum, án skiptingar í líkama og vitundar og eiga jafnt við atferli hins, sjáanlegar í fyrirbærafræðilega líkama hans, og eigin atferli eins og það birtist mér.18

Þetta hefur víðtækar afleiðingar, ekki bara fyrir fyrirbærafræði eða skilning á samhuglægni heldur gjörvalla heimspekisöguna. Ef við fylgjum Merleau-Ponty skiljum við kartesíska tvíhyggju hugar og líkama við okkur. Óhætt er að segja að sú áhrifamikla og lífseiga afstaða sé helsta skotmark ekki bara Merleau-Pontys heldur einnig Husserls og Heideggers. Skynjun okkar á hinum er bein skynjun. Við skynjum ekki aðeins líkamann sem vísbendingu um að eitthvað eigi sér stað innan í þessum hlut sem er fyrir framan okkur, einhvers konar huga sem er okkur ósýnilegur. Samband hugar og líkama er flóknara og allt annars eðlis en Descartes og hinir mörgu fylgjendur hans skildu það. Með hjálp Merleau-Pontys brjótumst við út úr því kverkataki sem gömul og úrelt hugtök hafa enn á okkur og takmarka þannig skilning okkar.

      Merleau-Ponty vildi, líkt og Husserl, viðhalda annarleika hins. Hinn er alltaf skynjaður sem annar og því, jafnvel þótt við skynjum tilfinningar hins beint, eru þær ekki mínar tilfinningar. Það er mikilvægt að þessi greinarmunur þurrkist ekki út. Það myndi útrýma greinarmuninum á sjálfinu og hinum eins og hann bendir á: „Páll þjáist af því hann hefur misst konuna sína eða er reiður af því að úri hans var stolið. En ég þjáist hins vegar af því að Páll er sorgmæddur, eða ég er reiður af því að hann er reiður, og aðstæður okkar geta ekki verið yfirfærðar inn í hver aðra.“19 Þótt hinn sé alltaf gefinn í fyrirbærafræðilegu reynslu okkar og sé eitthvað óhjákvæmilegt og frumstætt, grundvallar eiginleiki tilvist okkar og reynslu, er hinn samt sem áður skynjaður sem hinn. Skynjanir sjálfsins og skynjanir hins eru tvö ólík fyrirbæri.

Eins og við höfum séð tekur Heidegger upp þráðinn frá Husserl og undirstrikar mikilvægi samhuglægni enn frekar með að sýna fram á hvernig hinn er alltaf gefinn í hversdagslegri tilvist okkar í gegnum tól. Merleau-Ponty nýtir sér það besta úr báðum fyrirrennurum sínum en fer á sama tíma fram úr þeim og kemur með sterkar og sannfærandi fyrirbærafræðilegar lýsingar sem stangast á við gamlar og úr sér gengnar hugmyndir um sjálfið, líkamann, hinn og samhuglægni. Ef fyrirbærafræðileg afstaða er tekin upp hverfa ýmis gömul heimspekileg vandamál sem lengi hefur verið glímt við. Eitt af því er vandamálið um aðra huga. Eins og fyrirbærafræðingurinn Dan Zahavi orðar það: „Vandamálið um aðra huga er nákvæmlega eitt af þessum gervi-vandamálum sem hafa allt of lengi byrgt heimspekingum sýn.“20

      Hér hefur verið stiklað á stóru en ég hef reynt að draga fram aðalatriðin varðandi fyrirbærafræði og hvernig hún hefur tekist á við samhuglægni. Ég hef einblínt á Heidegger og Merleau-Ponty þar sem þeir eru hvað áhrifamestu hugsuðir stefnunnar. Vissulega mætti nefna mun fleiri sem hafa lagt mikið af mörkum, hvort sem þeir kalli sig fyrirbærafræðinga eða ekki.21 En þetta ágrip ætti þó að vera nóg til að sýna fram á að fyrirbærafræði hefur alls ekki vanrækt eða vanvirt mikilvægi sameiginlegrar reynslu okkar og upplifun okkar á hvert öðru heldur þvert á móti er það eitt af helstu viðfangsefnum fyrirbærafræðinnar og hefur hún alið af sér margar og frumlegar uppgötvanir sem allir þeir sem standa í deilum um svipuð efni í samtímanum myndu græða mikið á að kynna sér betur.

Neðanmálsgreinar

1. Björn Þorsteinsson hefur þýtt „intersubjektivitet“ sem „samveruleika“ í Zahavi, D. Fyrirbærafræði (Reykjavík: Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan, 2008) sjá orðalista, bls. 125. Að mínu mati nær sú þýðing ekki merkingu orðsins almennilega, þar eð það undirstrikar ekki nóg að þetta sé huglægt fyrirbæri sjálfsverunnar. Í þessari grein styðst ég þó að ýmsu leyti við þýðingar Björns á fyrirbærafræðilegum hugtökum í riti Zahavis.

2. Björn Þorsteinsson þýðir hugtakið „Dasein“ sem „þarveru“, í Fyrirbærafræði, bls. 126.

3. Björn Þorsteinsson fjallar m.a. um þennan greinarmun í „Hvernig er hægt að útskýra heimspeki Heideggers á mannamáli?“. Vísindavefurinn 27.1.2009. http://visindavefur.is/?id=18095. (Skoðað 10.4.2011).

4. Heidegger, M. The Basic Problems of Phenomenology, A. Hofstadter þýð. (Bloomington: Indiana University Press, 1982), bls. 278.

5. Das Zeug er hugtak sem erfitt er að þýða (eins og mörg önnur hugtök Heideggers). Ég notast hér við tól en það er þýtt sem equipment á ensku. En ég vil undirstrika að með þessu hugtaki á hann ekki aðeins við tólin eða hlutina sem við notum í daglegu lífi, það er víðfeðmara. Tól eru alltaf upprunalega skilin á merkingarbæran hátt sem fyrirbæri sem hægt er að gera eitthvað með og það er þessi eiginleiki, til-þess-að (in-order-to á ensku) sem Heidegger er einnig að reyna að fanga með hugtakin

6. Heidegger, M. The Basic Problems of Phenomenology, A. Hofstadter þýð. (Bloomington: Indiana University Press, 1982), bls. 292.

7. Sama rit, bls. 292.

8. Sama rit, bls. 293.

9. Sama rit, bls. 292.

10. Sama rit, bls. 296-297

11. Merleau-Ponty, M. Phenomenology of Perception, C. Smith þýð. (New York.: Routledge Classics, 2002) bls. 405.

12. Sama rit, bls. 405.

13. Sama rit, bls. 406.

14. Sama rit, bls. 413.

15. Fyrir ítarlega skoðun og gagnrýni Merleau-Pontys á barnasálfræði síns tíma og mikilvægi skynjunar barna sjá: Merleau-Ponty, M. „The Child’s Relations with Others.“ Í The Primacy of Perception, W.Cobb, þýð. (Evanston: Northwestern University Press, 1964).

16. Merleau-Ponty, M. Phenomenology of Perception, C. Smith þýð. (New York.: Routledge Classics, 2002) bls. 410.

17. Sama rit, bls. 410. Hér þarf þó að taka fram að Merleau-Ponty, þrátt fyrir að ráðast hér á hliðstæðurökin, byggir að mestu leyti á vinnu Schelers sem hann minnist einnig á. Fyrir ítarlega, fyrirbærafræðilega gagnrýni á hliðstæðurökin sjá rit Schelers, The Nature of Sympathy.

18. Sama rit, bls. 414-41

19. Sama rit, bls. 415.

20. Zahavi, D. „Beyond Empathy. Phenomenological Approaches to Intersubjectivity“. Í Journal of Consciousness Studies, 8/5-7, 2001, bls. 151-167 og bls. 154-155.

21. Til dæmis Scheler, Stein, Levinas, Hartmann, Sartre, de Beauvoir, Ricoeur, Derrida svo einhverjir séu nefndir, en áfram mætti lengi telja.

Hugleiðingar um The Radicant eftir Nicolas Bourriaud

eftir Egil Arnarson

Gegn postmódernisma …

Nýlegt rit Nicolas Bourriaud, The Radicant, er augljóslega ákveðið uppgjör við postmódernisma og því tjóni sem sú stefna hefur valdið í samtímalistrýni. Hafi sú kenning verið hugsuð sem andóf gegn hvers konar eðlishyggju er ljóst að hún felst nú á dögum einkum í því að beita eðlis­hyggjukenndu sjónarhorni á viðfangsefnin, a.m.k. á sviði listar: Vegna áhrifa postmódernismans veitir listrýnirinn ekki sjálfu listaverkinu eða listamanninum sem slíkum áhuga, heldur hópnum sem hann er álitinn tilheyra. Og þar eð slíkir hópar, s.s. þjóðarbrot og takmörkuð málsvæði, eiga það á hættu að leysast upp í ólgusjó hnattvæðingarinnar, felst þessi sýn á listsköpun umfram allt í því að lýsa listamanninum sem hugsanlegu fórnarlambi þeirra sviptivinda sem leika um heim­inn allan og verður jafnvel í því að smætta hann niður í tegund í útrýmingarhættu.

Þessa sýn gagnrýnir Bourriaud með ýmsum hætti.

Fyrir það fyrsta er sérlega lítillækkandi að velta umfram allt uppruna listamannsins fyrir sér fremur en t.d. að forvitnast um hugmyndir hans og hvernig hann reynir að koma þeim til skila.

En eins og Bourriaud sýnir einnig fram á, má skoða postmódernisma sem rökrétt viðbrögð við endalok ákveðins efnahagsskeiðs á 8. áratugnum sem byggði á þeirri tálsýn, að við myndum ávallt njóta orkuauðlinda í ótakmörkuðum mæli. Samhliða þessu efnahagsskeiði á 20. öld ríkti módernisminn í listum sem heillaðist einmitt af óþrjótandi orku og sprengikrafti hennar. En þegar tímabili módernískrar róttækni í listum lauk og hvers kyns hugmyndir um stefnumark sögunnar glötuðu um leið trúverðugleika sínum, fylgdi því í fyrstu ákveðið sorgarferli sem einkenndist af stöðugum leik að ólíkum sögulegum stíltegundum. Síðar, þegar kalda stríðinu var lokið, hófst skeið eftirlendufræða og fjölmenningarstefnu, m.a. listrænnar. Aftur var þar um að ræða sögu­skeið sem rímaði við hnattvæðinguna og opnun nýrra markaða. Hins vegar nær þessi fjöl­menningarstefna ekki lengur að lýsa eða skýra nýjustu straumum og stefnum í samtímalist; sem „gagnrýnið skýringarmódel“ er fjölmenningarstefnan „í kreppu“ (184). Og þetta sýnir Bourriaud þegar hann lýsir verkum hinna ýmsu listamanna um heim allan.

… og gegn módernisma

En hvað á þá að taka við af fjölmenningarstefnu? Það er a.m.k. ljóst að ekki kemur til greina að hverfa aftur til 20. aldar módernisma, því hvað sem endalokum postmódernismans líður, þá er módernisminn áfram allt eins úreltur: sem stórsaga er hann allt eins ótrúverðugur og hann hefur verið síðastliðna áratugi. Þar fyrir utan geymir módernisminn ýmsa þætti sem vart er hægt að fallast á, svo sem algildisstefnu sem byggði þó aðeins á svæðisbundinni, þ.e. vestrænni, menningu er gat því aðeins birst á öðrum svæðum heimsins sem menningarleg nýlendustefna. Enn fremur heillaðist módernisminn alltaf af þeirri hugmynd að geta máð út fortíðina til þess að reisa nýja sjálfsmynd, þ.e. með því að rífa upp gamlar rætur og stinga nýjum í svörðinn – en þannig mætti einmitt lýsa róttækni.

Nýtt upphaf af þeim toga er þó með öllu óhugsandi, heldur Bourriaud fram, þar eð með „öllum þeim skarkala sem einkennir okkar tíma og endurspeglast í óreiðukenndri fjölgun menningar­afurða, mynda, miðla og athugasemda […] höfum við ekki einu sinni yfir myndrænu formi eða hugtaki að ráða sem mætti hugsa nýtt upphaf út frá og enn síður rökréttan valkost við umhverfið sem við lifum í.“ (48) Því þarf ekki að koma á óvart að „öll róttækni virðist hafa horfið úr listinni. Og ef hugtakið er notað til þess að lýsa einhverjum nýlegum verkum verður að viðurkennast að því býr að baki í senn leti og söknuður.“ (46)

Það sem er áhugavert í þessu sambandi er að Bourriaud lýsir engu að síður yfir hollustu sinni eða tryggð við „þá áætlun sem módernisminn hleypti af stokkunum [sem] viðburði á sviði hug­myndanna (um leið og maður tekur suma hluti fram yfir aðra)“ (36). Þannig lifir módernisminn áfram sem sannleiks-viðburður í skilningi franska heimspekingsins Alain Badiou, sem mætti skýra sem hugsjón er felur í sér ákveðið algildi (þ.e. fyrir allt mannkyn) en þarfnast mismunandi birtingarmynda fyrir ólík tímabil og aðstæður. Það sem Bourriaud virðist hafa í huga sem sannleiks-viðburð módernismans er hugsjónin um heimslist sem hvílir á sannri algildisstefnu (en ekki menningarlegri heimsvaldastefnu) og hrinti þeirri fjölmenningarsinnuðu eðlishyggju af stalli sem virðist búa í postmódernismanum. Þetta er það sem hugtök Bourriaud um annan nú­tíma (e. altermodernity) og rótskeyting1 (e. radicancy) snúast um.

Efnishyggja hendingarinnar

Það sem mér þótti sérlega ánægjulegt að finna í The Radicant – þar eð hún er ekki beinlínis hugsuð sem heimspekilegt rit – var að Bourriaud skyldi setja fram heimspekilegan og jafnvel frumspekilegan grunn að t.a.m. 1) höfnun sinni á því að skilgreina beri sjálfsemd út frá uppruna, 2) höfnun sinni á stórsögu módernismans og annarra stefna og að 3) upphafningu sinni á hinu brothætta eða fallvalta, hvort heldur það birtist sem veruháttur eða sem viðeigandi viðfangsefni lista (en allt eru þetta stef sem hann minntist á í fyrirlestri sínum í gær). Þennan fræðilega grunn sækir hann einkum í ein af seinustu skrifum franska heimspekingsins Louis Althusser þar sem hann setur fram hugmyndir sínar um „efnishyggju hendingarinnar“ eða „efnishyggju á­rekstrarins“. Um er að ræða hugmyndir sem Althusser kvaðst áður hafa leitast við að leiða af verkum Marx en sem skjóti þó fram að þeim síðarnefnda með mismunandi hætti aftur og aftur upp kollinum í verkum Machiavelli, Hobbes, Spinoza, Rousseau o.fl.

Með því að byggja á atómisma forn-gríska heimspekingsins Epíkúrosar og lýsingu hans á því hvernig allir hlutir hafi orðið til í árekstri sveigjandi ódeila sem þannig taki á sig fastmótaðar myndir, leiðir Althusser að því líkum að „sveigjan eða frávikin [séu] undirstaða alls veruleika“ (153): Allt byggir á tilviljanakenndum árekstrum, þ. á m. náttúrulögmál, sem og önnur lögmál, s.s. á sviði siðferðis eða fagurfræði; öll eru þau fallvölt og tímabundin þar eð nýr árekstur gæti leyst þau upp (og mun gera það fyrr eða síðar), eins og allt annað fastmótað skipulag. Því sé ekki fyrir neinum miklum uppruna eða ástæðu allra hluta fyrir að fara, hvað þá sameiginlegt eða nauð­synlegt stefnumark þeirra, heldur hefur einfaldlega ávallt verið til staðar tóm sem er fullt af stefnulausum ódeilum.

Svo við vitum í Althusser: „Við munum segja að efnishyggja árekstrarins sé einnig að öllu leyfi fólgin í því að hafna Lokatakmarkinu, hvers kyns tilgangshyggju, hvort heldur af röklegum, veraldlegum, siðferðilegum, stjórnmálalegum eða fagurfræðilegum toga. Við munum loks segja að efnishyggja árekstrarins sé ekki efnishyggja sjálfsverunnar (guðs eða öreigastéttarinnar), heldur ferlis, ferlis án sjálfsveru, sem lætur sjálfsverurnar (einstaklinga eða aðra) sem því fylgja þeirri skipan sem hlýst af þróun þess, án þess að hún hafi eitthvert ákvarðanlegt markmið.“2 Þar af leiðir að t.d. marxismi „árekstrarins“, sem Althusser er þá fulltrúi fyrir, yrði að fallast á að stórsagan um sigur öreigastéttarinnar markaði ekki endalok sögunnar, heldur aðeins sögulok kapítalismans (og e.t.v. því aðeins tímabundin en ekki endanleg sögulok). Með öðrum orðum getur aðeins verið að finna tímabundna merkingu innan sögunnar; sagan sem slík hefur enga tiltekna merkingu.

Rótskeyttir listamenn

Hvaða ályktanir ber listinni að draga af þessari heimspeki? Að mati Bourriaud er „fagurfræði sem byggir á efnishyggju árekstrarins vitaskuld andsnúin tilgangshyggju módernismans, sem boðaði ákveðna stefnu og upphaf listsögunnar“(157). „Listamenn sem vinna út frá þeirri […] hugmynd að menning sé eins konar verkfærakassi vita að listin á sér hvorki uppruna né frumspekilegt stefnumark og að verkin sem þeir sýna eru aldrei sköpuð heldur ákveðið stig í eftirfram­leiðslunni3. Líkt og efnishyggjusinnuðu heimspekingarnir sem Althusser dregur upp mynd af4 […] vita þeir hvorki hvert lestin [sem þeir taka] stefnir né hvaðan hún kemur. Þeim er líka alveg sama: þeir bara halda áfram.“(158)

Flakk af slíku tagi álítur Bourriaud vera æ meira einkennandi fyrir okkar tíma. Ekki er þar aðeins um að ræða hina fjármálalegu hlið hnattvæðingarinnar, heldur bætast til að mynda um 10 milljónir á ári við þann stóra hóp flóttafólks og farandverkafólks sem fyrir er. Aftur og aftur þarf fólk því að skjóta rótum, uppruni þess er orðinn flókinn og stefnan sem það tekur oft aðeins mörkuð til bráðabirgða. Um listamenn gildir hið sama: Þeir takast á við eigin samtíma með því að fást við hvað allar sjálfsmyndir eru orðnar óstöðugar, með því að sýna að sérhver skipan mála er tilfallandi en ekki nauðsynleg, ávallt sé til valkostur við ríkjandi skipulag og að rætur þeirra sjálfra séu aðeins tímabundnar. Til þess að orða þessa hugsun kynnir Bourriaud ýmis ný hugtök til sögunnar, svo sem „merkingarfara“ (e. semionaut) sem „ferðbúa“ (e. viatorize) eigin rætur, koma hreyfingu á þær til þess að skjóta aftur rótum á nýju svæði og flækja þær við aðrar rætur með aðstoð „þýðingar“ og verða þannig að nýjum „kreólum“. Vitaskuld þarf að lesa bókina til þess að fá fyllri mynd af því hvað felst í því að vera „rótskeyttur“ eða „rótskeytandi“ listamaður. En í þessu ferli leysa listamenn ekki upp eigin sjálfsemd heldur þróa hana áfram, enda „er það hreyfingin sem gerir sjálfsemd kleift að mótast“ (55).

Og hér?

Ef ég reyni nú – af veikum listfræðilegum mætti – að leita að dæmum um „radicant“ listaverk á þessari sýningu5, virðist mér sem ýmis þeirra fáist fremur við rætur íslenskrar myndlistarhefðar fremur en rætur t.d. sjálfsmyndar Íslendinga: Einar Garibaldi festir upp á vegg málverk eftir Kjarval sem búið er að loka í viðarkassa og gæti þannig beðið þess að verða sent á annað safn eða kannski í geymslu. Svo er að sjá sem Þór Vigfússon brjóti upp (með glerverki, þ.e. glerbroti) hluta af módernísku málverki eftir Svavar Guðnason á meðan Tumi Magnússon komi flæði á grunn­þætti þess í vídeóverki. Einar Falur Ingólfsson tekur ljósmynd af bænum Snartartungu í Bitrufirði og umhverfi þess frá sama sjónarhóli og W.G. Collingwood hafði málað landslagsmynd rúmri öld fyrr og dregur þannig fram muninn á mynd Collingwood og veruleikans í dag.

Leikurinn að rótunum nær þó út fyrir íslenska málverkið í endurprentun Rúríar á gamalli mynd af íslenskri stúlku – sem hún nefnir „That day …“ – og er væntanlega tilraun til þess að láta okkur varða þessa fjarlægu fígúru: hvað var stúlkan að hugsa um eða að upplifa þennan tiltekna dag? Ólöf Nordal sýnir nokkrar ljósmyndir af lömbum (annað þeirra ávallt tvíhöfða) á mosabreiðum með snævi þakin fjöll í fjarska. Allt saman mjög íslensk mótív – en telst þetta til að mynda vera „rótskeytt“ list? Um það er ég ekki endilega viss. Það virðist að talsverðu leyti velta á ætlun lista­mannsins.
Við getum einnig spurt okkur, að því gefnu að um „rótskeytt“ verk sé að ræða, hvort listamennirnir flæki rætur sínar við rætur annarra? Enn á ný skortir mig svör en mér kæmi á óvart ef ekki væri fyrir því að fara að einhverju marki. Ég kasta boltanum einfaldlega út í sal með þá spurningu – og til listafólksins sjálfs.

Brottför, þýðing og umræður

The Radicant er einkum lýsing á ýmsum straumum á listasviðinu sem má sjá verða til um heim allan um þessar mundir. Með endurteknum hætti boðar ritið þó ákveðna „pólitík“ (í breiðum skilningi) innan listarinnar, þ.e.a.s. það gefur vísbendingar um hvers konar list væri áhugaverð og mikilvæg í dag. Í umræðum gærdagsins var Bourriaud inntur eftir því hvort það væri ekki mótsagnakennt að vera í senn lýsandi og boðandi í greiningu sinni. Væntanlega hefur hann rétt fyrir sér þegar hann segir það ekki vera vandamál, enda fari það bara eftir samhenginu hverju sinni hvor hliðin það sé sem birtist hverju sinni á einum og sama peningnum.

Sú stjórnlist (eða „strategía“) sem Bourriaud ýjar aftur og aftur að í bók sinni (en skýrir þó ekki fyrr en í lok hennar) er nokkuð sem hann nefnir „brottför“. Eins og ykkur er kunnugt um er exódus notað um brotthvarf gyðinga úr Egyptalandi í Gamla Testamentinu. Til þess að skýra í hvaða skilningi Bourriaud notar orðið vitnar hann í þýska heimspekinginn Peter Sloterdijk, sem segir brottförina vera þann tímapunkt þegar „alla hluti þarf að endurmeta með hliðsjón af því hvort hægt er að bera þá með sér – jafnvel þótt það feli í sér þá áhættu að skilja eftir hvaðeina það sem er of þungt fyrir menn að bera.“ Í þessu fólust „umskiptin frá staðbundinni menningu til hirðingja­heimsins“ sem urðu kleif með því að þýða eldri kennileiti yfir í nýtt samhengi. Módernismi 20. aldar var dæmi um slíka brottför, að dómi Bourriaud: „listahefðir heimsins alls […] komu í ljós og voru metnar upp á nýtt“ frá sjónarhóli þeirrar stefnu. „Í dag,“ bætir hann við, „hefur sjónarhornið snúist við og spurningin er orðin sú hvernig listin getur skilgreint og búið í hnattvæddum menningarheimi, þvert á alla þá stöðlun sem hnattvæðing gerir ráð fyrir.“ Vandinn er nefnilega sá, að hnattvæðingin í senn staðlar heiminn sem við lifum í og veldur „sífelldri ókyrrð“ innan hans. Listamenn sem eru „rótskeyttir“ og taka þá pólitísku áskorun sem vandanum fylgir alvarlega „iðka þýðingu og skipuleggja umræður sem munu leiða til nýs sameiginlegs skilnings“. Þess vegna „verða þeir að koma hlutunum aftur á hreyfingu – koma af stað nýrri andófs-hreyfingu (counter-movement) – með því að hefja nýja brottför,“ segir Bourriaud að síðustu.

Að svo komnu máli vil ég aðeins gera tvær athugasemdir og kannski afmarka boðskap The Radicant þannig úr sitt hvorri áttinni.

Það kann að þykja athyglisvert að í verkum sínum nota Michael Hardt og Toni Negri hugtakið „exódus“ með svipuðum hætti: Það er með því að hverfa frá Veldinu (hinum fjölþætta kapítalisma vorra tíma) sem mergðin (sem postmódern ígildi öreigastéttarinnar) storkar því og nær að endingu að ráða niðurlögum þess. En í samanburði við þá kemur í ljós að „brottförin“ hjá Bourriaud er aðeins listræns eðlis, þ.e.a.s. að hún felst aðeins í því að tengja saman ólíkar „rætur“ með „þýðingu“ og skapa þannig „umræður“. Hardt og Negri ganga mikla lengra með því að sjá fyrir sér lýðræðislega stjórn mergðarinnar á sameiginlegum gæðum mannkyns.
Engu að síður velti ég því fyrir mér hvort áherslan á stjórnmál sé hér ekki of rík. Með því er ekki ætlunin að segja að list megi ekki vera pólitísk eða þá aðeins upp að vissu „magni“. Hins vegar virðist hættan vera sú að list verði umfram allt metin eftir því hvaða pólitíska boðskap hún hafi að geyma eða hvernig hún geti komið að notum í „baráttunni“. Ekki svo að skilja að þetta sé eitthvað sem hægt sé að saka Bourriaud um að iðka. En hvað sem líður öllu því áhugaverða sem er að finna í þessari bók hans virðist hún leggja of mikið upp úr þessum ákveðna þætti listarinnar.

Íslensk útgáfa af erindi sem haldið var í tengslum við málþingið Önnur Sjónarmið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, helgina 13.–14. ágúst 2011. Sjá nánar: http://www.listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/­tabid-2185/3362_read-27625/

Neðanmálsgreinar

1. Orðið „radicant“ sem er titill bókar Bourriaud er í frönsku lýsingarháttur nútíðar á sögn sem er þó aðeins til í latínu, þ.e. radicare, sem merkir að stinga rótum. (Enska sögnin „eradicate“ er einnig leidd af henni.) Þar sem „rótskjótandi“ virðist heldur óþjál þýðing á „radicant“ er orðið hér þýtt sem lýsingarháttur þátíðar, „rótskeyttur“ (sbr. harðskeyttur).

2. Louis Althusser: „Le courant souterrain du matérialisme de la rencontre (1982)“, Écrits philosophiques et politiques. Tome I, STOCK/IMEC: París 1994, s. 577.

3. Sjá bók Bourriaud: Postproduction. Culture as Screenplay: How Art Reprograms the World. Lukas & Sternberg. New York 2002. Sjá: http://www9.georgetown.edu/faculty/irvinem/theory/Bourriaud-Postproduction2.pdf

4. Hér er vísað í textann „Portrait du philosophe matérialiste“, Écrits philosophiques et politiques. Tome I, s. 595-596.

5. Sjónarmið – Á mótum myndlistar og heimspeki, Hafnarhúsi, 21. maí – 4. september 2011. Sjá: http://lista­safnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2182/3368_read-1768/date-1662/

Gagnrýni

eftir Valtý Guðmundsson

      Eitt af því, sem einna tilfinnanlegastur skortur er á á Íslandi, er það sem á útlendu máli kallast »krítík«. Það kveður jafnvel svo rammt að, að við eigum einu sinni ekki neitt orð yfir hugmyndina í málinu. Að »krítísera« er eiginlega það, að láta sjer ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eigin­leika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori. Þetta virðist oss að mætti kalla á íslenzku gagnrýni og gagnrýninn þann mann, sem sýnt er um að gagnrýna hlutina.
      Gagnrýnin er nauðsynleg fyrir þjóðlífið eins og saltið fyrir matinn. Vanti gagnrýnina, er hætt við, að sumt kunni að taka að rotna eða að minnsta kosti að þeim, sem eiga að súpa seyðið af gjörðum forgöngumanna þjóðfjelagsins, finnist það nokkuð dauft á bragðið, og að svo geti farið með tímanum, að þeir, sem hafa óbilaðar bragðtaugar, fái velgju, en hinir, sem líklega verða miklu fleiri, missi algerlega smekkinn, og er það ekki síður hættulegt.
      Í engum efnum finnst oss jafnmikil þörf á gagnrýninni nú sem stendur á Íslandi eins og í öllu, er lýtur að þjóðmálum og stjórnarfari. Það vantar að vísu eigi, að blöðin finni að ýmsu og lofi annað, en gagnrýni þeirra er þó vanalega ekki á marga fiska. Hún er að jafnaði nokkuð handa­hófsleg og hættir við að bera keim af annaðhvort eintómum gullhamraslætti eða illvígu hnútu­kasti, fremur en af verulegri gagnrýni. Til þessa liggja auðvitað sjerstakar ástæður. Er þar fyrst að telja þá, að þar sem blaðamennskan er mestmegnis höfð í hjáverkum, þá er ekki von að blaða­mennirnir geti lagzt mjög djúpt. Í annan stað er sjóndeildarhringur þeirra sumra hverra svo tak­markaður, að varla verður ætlazt til, að þeir geti dæmt um það, sem mikið víðsýni þarf til að gagn­rýna, enda hættir þeim opt við að einblína fremur á ávextina, en að skoða orsakasambandið og grafa fyrir ræturnar.
      Þá er og nærsýni sú, sem stafar af dvergvexti þjóðfjelagsins; því þar sem þjóðfjelagið er svo smávaxið, að hver þekkir annan, þar er jafnan hætt við, að það ráði miklu í dómum um einstaka menn og framkomu þeirra, hvort menn bera til þeirra hlýjan hug eða hafa ýmugust á þeim. Að lokum má telja einstrengingslega og misskilda þjóðernistilfinningu, sem hjá sumum mönnum er farin að fá á sig hinn megnasta kínverskublæ, er í ýmsum málum dregur glýju eða jafnvel ský á augu manna, svo þeir verða stundum hálfblindir, og eru svo að streitast við að hlaða gorgeirsmúr kringum landið, til þess að varna öllum útlendum áhrifum, en »bara ef lúsin íslenzk er, er þeim bitið sómi«. Þetta öfugstreymi í þjóðernistilfinningunni er hinn mesti þröskuldur í vegi fyrir sannri gagnrýni, því ekkert er eins hættulegt fyrir hana og það, ef tilfinningin ber skynsemina ofurliði.
      En blaðamennirnir íslenzku eiga líka við ramman reip að draga, þegar þeir eru að gagnrýna gjörðir embættismannanna eða annara forkólfa þjóðfjelagsins. Þó maður skyldi halda, að einmitt þeir menn, er hafa það hlutverk með höndum, að beitast fyrir í alþjóðarmálum, hefðu töluvert rýmri sjóndeildarhring en flestir aðrir, sýnir þó reynslan, að flestir þeirra eru svo herfilega nærsýnir, að þeir stökkva upp á nef sjer og skoða það sem persónulega móðgun við sig, ef eitthvað er fundið að gjörðum þeirra í opinberum málum. Það er sama hvort það er amtmaður, sýslumaður, bæjar­fógeti eða alþingisforseti, allir rjúka þeir undir eins í málaferli, ef eitthvað er fundið að framkomu þeirra í opinberum málum, og reyna þannig að bæla niður alla verulega gagnrýni. Þeim virðist ekki vera það ljóst, að þeir menn, sem hafa opinber störf á hendi, eru skyldir að þola gagnrýni. Þeir munu nú segja sem svo, að þá verði líka gagnrýnin að vera sanngjörn og benda jafnt á gott sem illt. Það er nú að vísu rjett; en þó ber þess að geta, að það er ofboð eðlilegt, að blöðin einkum bendi á það, sem þeim þykir ábótavant, en láti hitt fremur liggja í þagnargildi. Það er miklu minni þörf á, að geta um það, sem er eins og allir vildu helzt kjósa, heldur en hitt, sem aflaga fer, nema hið góða sje svo framúrskarandi, að það geti orðið öðrum til eptirdæmis, og þá mun það sjaldan látið liggja í láginni. Það fer líkt með þetta eins og veðrið í kunningjabrjefunum. Sje alls ekkert minnzt á það í brjefunum, þá er óhætt að treysta því, að það hafi verið allgott, því það er æfinlega tekið fram, ef það hefur verið illt, og eins ef það hefur verið framúrskarandi gott.
      Það er nú að vísu víðar pottur brotinn í þessum efnum. Það ber víðar við en á íslandi, að forkólfar þjóðfjelagsins leitist við að þagga niður gagnrýnisraddir blaðanna með málaferlum, þó meira kveði að því þar en annars staðar. En sá er munurinn, að blöð annara landa hafa vanalega svo mikið bolmagn, að það gerir þeim ekkert til, þó þau sjeu dæmd í töluverðar sektir, og láta því hvorki þær nje fangelsisvist aptra sjer frá, að beita gagnrýni sinni, þegar þeim fmnst þörf á henni fyrir þjóðfjelagið. Því auðvitað getur gagnrýnin verið rjett og nauðsynleg, þó einhver lagagrein, sem teygja má sem hrátt skinn, heimili hana ekki að öllu leyti.
      Á Íslandi er aptur efnahagur blaðanna — af þvi þau eru svo mörg og svo smá — svo bág­borinn, að þau þola ekki nein áföll, og því síður mega þau við því, að ritstjórarnir hætti sjer svo langt fyrir sannfæring sína, að þeir verði dæmdir í fangelsisvist. Þá væri blaðið líklega úr sögunni í sama vetfangi. Afleiðingin af þessu verður hugleysi og ósjálfstæði, því »fátæklingurinn, sem jafnan er upp á aðra kominn, getur aldrei orðið fullkomlega sjálfstæður nje frjáls« (Eimr. I, n). Og svo kemur vaninn í tilbót, svo að menn jafnvel leiða hjá sjer, að finna að því, sem þó ekki gæti bakað þeim neina lagalega ábyrgð, og öll veruleg gagnrýni fer út um þúfur.
Og hver er svo afleiðingin af þessari vöntun á fullkominni gagnrýni? Hún er sú, að siðferðislegt þrek, sjálfstæði, drengskapur, orðheldni, óhlutdrægni og aðrir andlegir mannkostir fara óðum þverrandi hjá þjóðinni. Þetta er harður dómur, en því miður er hann sannur, þótt grátlegt sje til þess að vita. Það kveður jafnvel svo rammt að þessu, að þetta er farið að koma ótvíræðlega í ljós á sjálfu alþingi Íslendinga, hjá hinum útvöldu fulltrúum þjóðarinnar. Allir vita, hversu nauðsynlegt það er álitið fyrir þá, sem um eitthvað hafa sótt til þingsins, að vera sjálfir viðstaddir á áheyranda­pöllunum, til þess að »horfa atkvæði út úr þingmönnum«.
      Þó að nokkuð mikið kunni nú að vera gert úr því, þá er þó hitt eigi að síður víst, að þetta álit hefur við töluverð rök að styðjast. Það er sannreynt, að marga þingmenn brestur kjark til að greiða atkvæði á móti þeim mönnum, sem sjálfir eru við staddir, þótt þeir annars mundu hafa gert það. Þetta hefur meðal annars leitt til þess, að sumir menn, sem eitthvað þykjast eiga undir sjer, eru farnir að leggja í vana sinn að sitja í Rvík allan þingtímann, þó þeir hafi þar ekkert annað að gera en að reyna að hafa áhrif á þingmenn og embættismenn. Og áhrifin af veru þeirra hafa stundum komið svo berlega í ljós, að það er til stórkostlegrar minnkunar fyrir þingið og þjóðhöfðingja vora. Þá eru atkvæðasvikin ekki góður vottur. Eins og menn vita, verða menn á öllum þingum, til þess að þingstörfin geti farið í nokkru lagi, opt að vera búnir að koma sjer saman um það, áður en á þingfund er gengið, hvernig menn ætli sjer að snúast við því og því máli.
      Þetta gera menn líka á alþingi, en þar hefur það á seinni árum sýnt sig, að menn fyrirverða sig ekki fyrir að svíkjast um að greiða atkvæði eins og þeir hafa lofað fyrirfram, — ekki einungis frá einum degi til annars, heldur jafnvel frá einni klukkustund til annarar. Mest kveður að þessu við allar kosningar, einkum í hinar þýðingarmestu nefndir þingsins t. d. í fjárlaganefnd. Þessi alda er jafnvel farin að rísa svo hátt, að sumir þeirra, er skipa hin efstu virðingarsæti þingsins, hafa ekki gætt betur sóma síns en svo, að gera sig seka í þessari óhæfu. Og í einu máli kom það fyrir á síðasta þingi, að rúmur þriðjungur deildarmanna í neðri deild (7 þingmenn) svikust um að greiða atkvæði, eins og þeir höfðu lofað fyrirfram. En þá átti líka einstakur maður í hlut, sem í það sinn sat á áheyrandapalli, þótt hann aldrei hefði sjezt þar allan þingtímann áður, nema þegar mera­frumvarpið var á ferðinni, enda gekk og meðferð þess honum að óskum. Sá skortur á siðferðis­legu þreki, sú ósjálfstæði og sá ódrengskapur, sem lýsir sjer í slíkri meðferð á löggjafarmálum þjóðarinnar, er harla athugaverður, enda hefur merkur maður sagt oss, að einmitt fyrir þær sakir hafi einn hinn mesti hæfileikamaður landsins hrökklazt út úr þinginu (ɔ: neitað að taka endur­kosning), af því hann gat ekki átt í því, að eiga að búa við sífeld svik.
      »Samvizkulaus þingmaður er óttalegt orð«, sagði síra Einar Jónsson í þingsetningarræðu sinni 1895, og þá setningu munu allir þingmenn fúsir til að undirskrifa. En þær systurnar Theóría og Praxis eiga nú ekki ætíð samleið í heiminum. Þær fara stundum sín í hvora áttina. Að lofa að greiða atkvæði sitt svo og svo í jafnþýðingarmiklum málum og þeim, sem eru til meðferðar á alþingi, og svíkjast svo um það rjett á eptir verðum vjer einmitt að kalla samvizkuleysi, og þyki mönnum slíkt fjarri sönnu, þá bendir það óneitanlega á, að tilfinningin fyrir því, sem almennt er kallað samvizkusemi, sje sannarlega farin að verða eitthvað geggjuð hjá þjóðinni. Og merkilegt er það, að ekkert af blöðunum minnist á slíkt sem þetta, og vitum vjer þó fyrir víst, að þeim er það fullkunnugt, að minnsta kosti sumum hverjum.
      Viðlíka skortur á sjálfstæði, einurð og drengskap kemur og eigi allsjaldan fram við umræður­nar á alþingi. Það vantar ekki að menn sjeu nógu frakkir í því, að dangla á stjórninni, og ausi á hana hrakyrðum, bæði fyrir það, sem henni er að kenna og ekki að kenna — af því stjórnin er nógu langt í burtu og aldrei heyrir, hvað menn segja. En eigi landshöfðingi eða aðrir nærstaddir embættismenn í hlut, þá vill nú stundum koma annað hljóð í strokkinn. Þá leggja menn optast niður rófuna og verða annaðhvort klumsa eða gera sjer tæpitungu og fara í kringum efnið eins og köttur í kringum heitt soð. Maður getur nú skilið í þessu um embættismennina, en erfiðara er að skilja, hvað bændum gengur til. Og þó er það sannast að segja, að einmitt hjá sumum þeirra kveður hvað mest að þessum heigulskap og einurðarleysi.
      Þó oss væri skapi næst, að minnast á margt fleira athugavert í fari bæði þingmanna og embættismanna — og nóg sje til —, þá ætlum vjer þó að láta hjer staðar numið að sinni, enda stendur það ekki oss næst að gagnrýna alþingi opinberlega. Vjer höfum aðeins viljað benda á, að þörf væri á að gera það, því ef hættuleg átumein fá að grafa um sig óátalin hjá beztu mönnum þjóðarinnar — og menn verða að ætla, að ekki sje valið af verri endanum, þegar verið er að kjósa sjer löggjafa —, þá er öllu þjóðfjelaginu stofnað í voða. Ef svo fer um hið græna trjeð, hvernig mun þá fara um hinn feyskna stofn.

V.G.

Greinin birtist upprunalega í Eimreiðinni 2. árg. 3. tbl. (01.09.1896)

Egóistinn og skugginn hans: Einstaklingur og samfélag í heimspeki Nietzsches

eftir Kristján Guðjónsson

Stjórnmál Nietzsches …

Á 12 sekúndna fresti deyr afrískt ungbarn úr alnæmi. Þú hefur tvo afarkosti, gerðu eitthvað eða gerðu ekkert! Það sem þú gerir hefur engin áhrif, en með því að gera ekkert gerir þú illt verra. Veldu núna! –

Pólitískar óánægjuraddir eru óþreytandi við að benda okkur á að með aðgerðaleysi séum við að styðja hið ríkjandi ástand. „Hver tjáning sem vinnur ekki gegn er tekin sem staðfesting; hver bending sem ekki eyðileggur er túlkuð sem samþykki.“1 Hver maður stendur frammi fyrir afar­kostum egóisma og fórnfýsi; ég vel milli mín og þín. Vinstrið úthrópar egóismann á meðan hægrið telur fórnfýsina falska; allt sé í raun gert af eigingjörnum hvötum. Hið pólitíska val er svo réttlætt með tilvísunum til „samúðar“, „frelsis“ og „manneðlis“.
Friedrich Nietzsche neitaði því að til væru slík sjálfgefin gildi. Við slíka afneitun vaknar hins vegar spurningin um hvernig hægt sé að taka nokkra afstöðu þegar engin óumdeilanleg hugtök eða gildi eru til að byggja afstöðuna á. Ef maðurinn er „mælikvarði alls“, hvað mælir þá gegn grimmri einstaklingshyggju? Skrif Nietzsches virka ó-pólitísk og hafa því verið gagnrýnd fyrir að einbeita sér um of að einstaklingnum en gefa skipulagningu samfélagsins lítinn gaum. Slík gagnrýni á tilvistarspekinga er alþekkt og byggist á þeirri útbreiddu skoðun að hver hugsandi maður hafi einungis tvo valmöguleika í lífinu: að þroska sjálfan sig eða bjarga heiminum. Sá sem velur fyrri möguleikann er ítrekað úthrópaður sem getulaus eiginhagsmunaseggur í fílabeinsturni for­réttindanna, sá síðari sem barnalegur hugsjónamaður.
Harðlínumenn úr röðum vinstri og hægri manna – og nánast allra pólitískra fylkinga þar á milli – hafa reynt að eigna sér heimspeki Nietzsches og nýtt hugmyndir hans sér til stuðnings. Hinir ólíkustu hópar hafa samsamað sig hugmyndum hans og heimfært á sjálfa sig. Kjarnyrtur og á vissan hátt sundurlaus spakmælastíll Nietzsches gefur mönnum mikið frelsi við að túlka textann og gerir þeim þannig auðvelt að lesa út nánast hvað sem þeir vilja. En allar tilraunir til að setja hann í lokaðan ramma stjórnmálastefna eða hugmyndakerfa eru þó dæmdar til að misheppnast. Fyrir nánast hverja fullyrðingu í textanum finnum við aðra sem virðist ógilda þá fyrri.2 Nietzsche segir okkur allt, en á sama tíma ekkert.
Í þessari ritgerð ætla ég að skoða hvers vegna engri einni stjórnmálastefnu hefur tekist að eigna sér heimspeki Nietzsches á óumdeilanlegan hátt og hvort að það sé í raun mögulegt að mynda kerfi úr samfélags- og stjórnmálatengdri hugsun hans. Ef svo er ekki er eðlilegt að spyrja hvort einstaklingur sem samþykkir forsendur Nietzsches neyðist ekki nauðsynlega út í einstaklings­hyggju og pólitískt aðgerðaleysi. Svarið tel ég velta á því hvort við tökum hina hefðbundnu tví­skiptingu athafna í einstaklingsmiðaðar, sem stefna að því að fullkomna sjálfið, og samfélags­miðaðar, sem stefna að fullkomnu samfélagi, gilda. Mér virðist sem Nietzsche stígi handan þessarar tvískiptingar. „Það er full ástæða til að draga í efa að andstæður séu yfirleitt til“3 og því er mögulegt að andstæðurnar séu því frekar tvær hliðar á sama peningnum: það sé nauð­synlegur hluti af sjálfsþroska einstaklings að taka þátt í að bæta heiminn en á sama tíma geti heimurinn ekki batnað nema fyrir tilstilli sjálfsþroska einstaklingsins. Þá þurfum við ekki lengur að líta á lífið sem vegasalt milli eigingirni og óeigingirni, þar sem önnur hliðin er ávallt látin hanga í lausu lofti. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er mikilvæg ekki aðeins í fræðilegum skilningi heldur einnig tilvistarlegum. Erum við dæmd til þess að velja í sífellu milli eigingjarnra og fórnfúsra gjörða; milli andstæðna sem aldrei geta veitt okkur nema helming þeirrar lífsfyllingar sem við þráum; sjálfstæðis og samfélags? Þurfum við að velja annan möguleikann á kostnað hins eða getum við að komist handan tvískiptingar einstaklings og samfélags?

… Handan ríkisins.

Í þau fáu skipti sem að Nietzsche ræðir stjórnmál samtíma síns er það af fyllstu andúð og fyrirlitningu. Hann gagnrýnir jöfnum höndum leiðtoga heimsins og þá sem mótmæla ríkjandi ástandi. Þá fyrri sakar hann um vangetu og eiginhagsmunasemi en hina síðari um að draga allt fólk niður í meðalmennsku með úrkynjuðum hugmyndum um lýðræði og jafnan rétt allra. Það eru skiptar skoðanir á því hvort Nietzsche hafi einungis verið mótfallinn stjórnmálum eins og þau voru stunduð á hans tíma (og eru í raun enn stunduð) eða sjálfri grunnhugmyndinni um stjórnmál4 – hvort það hafi verið lýðræðisríkið eða ríkið sjálft sem hann mótmælti.
Lýðræðishugmyndin, sem var tiltölulega ný af nálinni í evrópsku samfélagi, var eitt helsta sjúk­leikamerki nútímans að mati Nietzsches. Sú trú að meirihluti fjöldans skyldi stjórna samfélaginu taldi hann að myndi leiða til þess að lægsti mögulegi samnefnarinn yrði ávallt hafður að leiðar­ljósi; jafnræði væri til þess fallið að draga þann besta niður á plan hins versta. Lýðurinn gæti sem heild ekki tekið skynsamlegar ákvarðanir enda taldi Nietzsche hann stjórnast af hjarðeðli sem stjórnmálamenn nýttu sér með lýðskrumi og múgæsingu. Ólíkt lýðræðissinnum dáði hann ein­valda og stríðsherra á borð við Napóleon Bonaparte og Júlíus Sesar. En þegar hann hrósaði einræðisherrunum var það vegna þeirra persónulegu sjálfsuppgötvana, atorku, sjálfstæðis og samkvæmni við sjálfa sig, fremur en vegna pólitískra sigra og gildis þeirra fyrir heildina eða aðra þjóðfélagsþegna. Hann áleit hvorki einræði né alræði vera fýsilegt sem slíkt, enda gera slíkar hugmyndir ráð fyrir valdi ríkisins.
Hvert einasta ríki ógnar manninn með fjölþættu ofbeldi og neyðir til fylgispektar við sjálft sig. Mennirnir hlýða ekki sjálfum sér af ótta við hefnd samfélagsins. Ríkið kúgar og heftir bæði líkamlegt og andlegt frelsi þegnanna. Hlýðnin sem ríkið krefst af borgurunum er ávallt slæm því að sjálfsuppgötvun einstaklingsins getur einungis átt sér stað ef hann er frjáls undan böndum fylgispektar. Ríkið er til vegna hjarðhegðunar mannsins – leti og ótta við sjálfstæði – og að sama skapa hvetur það til slíkrar hegðunar. Líkt og kirkjan sem hætti að vera tenging við Guð og varð að skurðgoði vill ríkið vera dýrkað á ógagnrýninn hátt. Þegar ríkið verður að markmiði í sjálfu sér upplifa þeir þegnanna sem hafa raunverulega sjálfsmeðvitund sig aðeins sem hluta af því ef hagsmunir ríkisins fara fullkomlega saman við hagsmuni og hvatir þeirra sjálfra. Stjórnmálin, baráttan um stjórnun ríkja, byggjast þess vegna á eiginhagsmunum. Hin hefðbundnu stjórnmál verða nauðsynlega að valdabaráttu ólíkra hagsmunaaðila.
Vegna þeirrar dökku myndar sem Nietzsche málar af ríkinu hafi sumir reynt að stimpla hann sem stjórnleysingja; byltingarsinna gegn ríki og valdi, hugsjónamann fyrir heilögu frelsi einstak­lingsins. En þvert á móti ræðst hann hvað harkalegast á þá sem mynda pólitískt kerfi úr slíkum hugsjónum þ.e. anarkista. Þá álítur hann óþolinmóða „stjórnleysingjahunda“ og efsta og fyrir­litlegasta stig hinnar óheillavænlegu lýðræðistrúar.5 Það er nefnilega ekki aðeins valdapólitík innan ríkisins sem hann telur rotna, heldur einnig, og kannski enn frekar, hugsjónapólitík. Slík stjórnmálaleg virkni siglir undir fölsku flaggi hugsjóna og siðferðilegra gilda sem eiga rætur að rekja til þeirrar sömu valdabaráttu og hagsmunastríðs sem einkennir hefðbundin valdastjórnmál. Hvati slíkra stjórnmála er einfaldlega betur falinn.
Hvatinn sem liggur stjórnmálum að baki er þó ekki það eina sem Nietzsche gagnrýnir heldur einnig sú sjálfsblekking að stjórnmál geti yfirleitt haft nokkur áhrif á það sem skipti í raun máli. „Hvernig ætti pólitísk nýjung að gera, í eitt skipti fyrir öll, manninn að ánægðum íbúa jarðarinnar?“ spyr Nietzsche og telur svarið liggja í augum uppi.6 Slík nýjung getur það ekki, hvort sem að hún gerir manninn að einræðisherra eða íbúa í útópísku sameignarsamfélagi. Spurningunni um hamingju og hjálpræði verður ekki svarað innan sviðs stjórnmálanna heldur af hverjum einstak­ling fyrir sig. En hvers vegna telur Nietzsche stjórnmálin ófær um hafa áhrif og veita einstaklingum samfélagsins hjálpræði og hamingju? Snúast stjórnmál ekki einmitt um að búa til þær aðstæður sem gera einstaklingum kleift að þroska sjálfa sig og líða vel í samfélagi við aðra menn?

… Handan sannleikans.

Nútímastjórnmál byggja á þeirri grundvallarhugmynd að samfélagsleg staða einstaklinga skuli á einhvern hátt vera réttlætt. Íhaldsmenn réttlæta ríkjandi misskiptingu í samfélaginu með tilvísunum til náttúrlegs frelsis okkar og réttar til eigna en jafnaðarmenn vísa til hins náttúrlega réttar hvers manns til mannsæmandi lífs. Siðferðileg hugtök á borð við jafnrétti og frelsi, réttindi og skyldu, hafa því orðið að helsta markmiðum stjórnmálabaráttunnar án þess að grundvöllur þeirra hafi verið íhugaður nægilega. Það sem að Nietzsche sér því sameiginlegt með stjórnmálastefnum nútímans – allt frá íhaldi til kommúnisma og anarkisma til hófsamrar miðjustefnu – er að hver einasta þeirra stendur fyrir ákveðna hugmyndafræði. Hugmyndafræði væri hægt að skilgreina sem „hvert það hugmyndakerfi sem fjallar um mannlega hegðun og félagslegt líf, sem inniheldur sín eigin siðalögmál og telur sig miðla einhverjum algildum sannleika“.7 Hver einasta hugmyndafræði gefur sér því a.m.k. eina forsendu; eitt gildi sem er fyrirfram talið óyggjandi satt. Þar af leiðandi grundvallast stjórnmálin á trú á frumspekilegan og hlutlægan, sammannlegan sannleika. Þessari trú ræðst Nietzsche harkalega gegn í ritum sínum.
Í ritgerðinni Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi, frá árinu 1873, færir hinn ungi Nietzsche rök gegn því að til sé ytri sannleikur sem við getum á einhvern hátt komist í tæri við. Hann heldur því fram að tungumálið brengli raunveruleikann óhjákvæmilega. Afneitun á sannleikanum varð eitt af meginstefum hans í gegnum árin en þá með breyttum röksemdum. Þegar fram leið þróaði hann með sér kenningu sem hefur síðan verið nefnd sjónarhornshyggja. Hún byggist á þeirri athugun að það eina sem við getum þekkt með nokkurri vissu er okkar einstaklingsbundna sjónarhorn. Sjónarhornið er hinn eini mögulegi sannleikur, handan hans er enginn hlutlægur veruleiki eða hlutur-í-sjálfum-sér. Viðfangsefnið er þó ekki á valdi skynjandans, það er ekki gjörsamlega huglægt, heldur getur það orðið „hlutlægara“ eftir því sem það er skynjað frá fleiri sjónarhornum, þ.e. þegar fleiri tækjum skynjunar er beitt á hlutinn. Því er hið röklausa, listræna sjónarhorn ekki fullkomlega rétt og þess þá heldur hið rökbundna vísindasjónarhorn, en saman geta þau sýnt okkur heildstæðari og ítarlegri raunveruleika. Þrátt fyrir þetta telur Nietzsche það ómögulegt að komast undan því í hversdagslegu tali og samskiptum að flokka hluti í sanna og ósanna. Goðsögnin um sannleikann á ekki uppruna sinn að rekja til ytri frumspekilegs raunveruleika heldur í þörf mannsins fyrir slíkan sannleika og því krefst hann þess að við viðurkennum ávallt takmarkanir staðhæfinga um sannleikann. Sannleiksþörfin er manninum þó síður en svo eðlislæg, heldur kviknaði hún með sköpun siðferðisins. Kenningin um tilkomu siðferðisins er einmitt miðlæg í heimspeki Nietzsches.
Samkvæmt sifjafræðilegri greiningu Nietzsches skilgreindu fornir aðalsmenn sig sem „góða“. Skilgreiningin gekk út frá virkni einstaklingsins sjálfs en ekki ytri veruleika. Þeir voru „góðir“ vegna líkamlegra og samfélagslegra yfirburða sinna en almúginn var „lélegur“ vegna skorts á slíkum gæðum. Skiptingin í góða og lélega menn var ekki siðferðislega gildishlaðin frekar en skipting í stóra og litla menn og krafðist engrar réttlætingar. Vilji til valds en getuleysi til að koma honum í framkvæmd gerði það að verkum að hinn „lélegi“ almúgi, sem Nietzsche kallaði yfirleitt þrælana, varð reiður og bitur. Í stað þess að kenna sjálfum sér og getuleysi sínu um eigin þjáningu beindi þrællinn biturð sinni út á við, að húsbóndanum sem naut gæða lífsins algjörlega laus við biturt hugarangur. Biturðin varð loks að skapandi afli þegar hinn kraftlausi maður skilgreindi dyggðir aðalsins sem „illar“ og þær gjörðir sem voru hvað ólíkastar þeim sem „góðar“. Þetta voru athafnir sem kröfðust einskis af þeim veikari, s.s. hlýðni og hollusta, og högnuðust fjöldanum; samúð, fórnfýsi, gjafmildi o.s.frv. Þar sem þrællinn gat ekki bent á sjálfan sig sem uppsprettu þessara gilda og þar sem náttúran er í grunninn ó-siðleg varð hann að leita utan hinnar sýnilegu náttúru eftir réttlætingu. Slíkt siðferði hreinlega kallaði á sköpun guða og hugmyndar um æðri veruleika.
Trúarbrögðin voru því lítið annað en tæki í þágu siðferðisins. Sú hrörnun kristninnar sem var að eiga sér stað á tíma Nietzsches minnkaði ekki tilhneigingu manna til að leita út fyrir eigin upplifanir að réttlætingu á siðferðilegum gildum heldur beindu menn sjónum sínum að öðrum yfirnáttúrulegum hugmyndum. Í stað „vilja Guðs“ var nú vísað til „eðli mannsins“ eða „náttúrulegra réttinda“. Grunnvandamálið að mati Nietzsches er í rauninni ekki það að slík hugtök séu búin til, því þau eru aðeins óhjákvæmilegar afleiðingar af þeirri trú að leita skuli siðferðilegrar réttlætingar á athöfnum. Þar sem öll gildi sem við teljum okkur hafa fundið eru í raun manngerð munum við nauðsynlega greina mótsögn eða skort á undirstöðu í hverju þeirra. Þegar vísindaleg vinnubrögð og rökvísi ruddu sér til rúms hlaut þessi leit að bíta í skottið á sjálfri sér og fæða af sér helsta sjúkdóm nútímans að mati Nietzsches; níhilismann. Sú bölsýna tómhyggja byggir á þeirri villu að gera ráð fyrir að alheimurinn ætti að vera gildishlaðinn en það ekki. Vandamálið er hins vegar ekki að heimurinn sé tilgangslaus, að Guð sé dauður, heldur er það spurningin sjálf – hvort heimurinn hafi tilgang eða hvort Guð sé til – sem er merkingarlaus. En maðurinn vill vilja og jafnvel „frekar vilja tóm heldur en ekki vilja.“8 Á sama hátt vildi Sókrates heldur vita að hann vissi ekkert heldur en ekki vita. Það er hins vegar tilgangslaust að spyrja um hlutinn-í-sjálfum-sér eða frumspekilegan sannleika. Spurningar velta á heimsmynd sem dregur upp andstæðu milli náttúrunnar og tilbúins ytri heims. Ef hugmyndafræði byggir ávallt á hugmyndinni um óyggjandi sannleika og slíkur sannleikur er tálsýn þá er ljóst að hún hylur veruleika einstaklingsins í stað þess að varpa ljósi á hann. Þessi blekking hlýtur að vinna gegn sjálfs-uppgötvun og þroska einstaklingsins sem felst í því að komast undan oki hins viðtekna og því sem aðrir kalla satt; treysta betur á eigin rökvit, tilfinningar og gildismat.
Stjórnspekingar benda oft á að vænlegt umhverfi sé forsenda þess að einstaklingur geti þroskað sig. Hugmyndafræðin sé þess vegna leið að markmiði: til að maður geti hafist handa við sjálfs­þroska verði maður fyrst að breyta kúgandi aðstæðum sínum. Þetta byggir þó á þeirri hugsun að maðurinn sé algjörlega á valdi aðstæðna sinna og kristallast m.a. í orðum Karls Marx: „maður er ekki sköpunarverk sinnar eigin meðvitundar, þvert á móti, formgerð hugans byggist á skipulagi efnisins.“9 Slíkt félagslegt viðhorf til lífsins telur að við þurfum skoða samfélagið ítarlega áður en við getum skilið einstaklinginn. Einstaklingurinn er eins og hlekkur í keðju eða líffæri í líkama.
Andstæðan er þá sálfræðilegt viðhorf sem horfir á samfélagið sem lítið annað en safn einstak­linga. Þeir sem aðhyllast slíkt viðhorf telja að einstaklingurinn sé eini raunverulegi gerandinn í eigin sjálfsþroska. Staða hans í samfélaginu er aukaatriði. Slíkt viðhorf hefur verið til á meðal einstaklingshyggjumanna allt frá Stóuspekingum á þriðju öld fyrir Krist til einstaklingshyggju-anarkista nítjándu aldarinnar. Gagnrýnendur hins félagslega viðhorfs benda hins vegar á hvernig hinn félagslega þenkjandi maður færi í raun allt lífið inn á svið stjórnmálanna. Hver einasta hugsun, sem og gjörð er talin vera mótuð af stjórn- eða framleiðsluskipaninni og leysir þannig einstaklinginn undan ábyrgð á eigin hamingju. Hann getur bent út á við, á vondu kapítalistana eða illa ríkisskrímslið, og kennt þeim um óhamingju sína. Með því að viðurkenna ekki eigið hugsanafrelsi uppfyllir hann eigin spádóm og lætur meinta efnislega kúgun ná yfir á andlega sviðið. Þó að hugurinn sé frjáls er honum talin trú um að hann sé það ekki. Þar sem slíkur einstaklingur álítur samfélagsbyltingu forsendu andlegrar byltingar mun hann ekki reyna á eigin sjálfsþroska fyrr en botninn er sleginn í botnlausa baráttu. Deilunni um hvernig samfélaginu skuli stjórnað verður haldið áfram á meðan menn trúa að samfélaginu verði yfirhöfuð stjórnað og á meðan þeir leita að töfralausnum við vandamálum samfélagsins. Það er hins vegar ekki til neinn einn sammannlegur sannleikur og því ekki bara eitt samfélagslegt vandamál sem við erum að glíma við heldur óteljandi einstaklingsbundin. Eitt pólitískt svar nægir aldrei til að fullnægja þörfum fjölda mismunandi einstaklinga. Til að bæta gráu ofan á svart þá er hið ídealíska svar sem einstaklingurinn berst fyrir oftast fyrirframgefin kredda. Einstaklingurinn hefur samþykkt þennan sannleika því hann hefur ekki gefið sér tíma til að finna sinn eigin. Hvernig á maður að vita hvað er best fyrir aðra ef hann veit ekki einu sinni hvað er honum sjálfum fyrir bestu?
Aðgerðarsinninn lifir í blekkingu. Ef hann ætlar að knýja fram hið fullkomna samfélag áður en hann leitast við að uppgötva sitt eigið sjálf, mun hann hvorki þroska sjálfan sig né bjarga heiminum.

… Handan sælunnar.

Hin forna guðfræðilega mynd af manninum er horfin. Ef við getum ekki upp­götvað nýja mynd af manninum sem mun aftur láta hann finna fyrir sínum eðlislæga virðuleika, mun ríkið í höndum harðstjóra krefjast þess að hann gefi sig því á vald og dýrka; og að lokum munu menn tapa allri virðingu hver fyrir öðrum, allar samfélagslegar byggingar verða brotnar, og menn munu aðeins stefna að því að ræna eða notfæra sér hvern annan. Spurningin er hvort hægt sé að gefa manninum nýja mynd af sjálfum sér án þess að taka sem gefna nokkra yfirnáttúrulega forsendu, sem reynslan getur ekki staðfest og við getum ekki, af fyllsta ráðvendi, sleppt því að efast um.10

Það virðist ljóst að sá sem samþykkir afneitun Nietzsches á sannleikanum og siðferðinu og vill ekki festast í pólitísku kapphlaupi án marks virðist beina athyglinni aftur að sjálfum sér. En hvað felst í því? Þýðir það að eina markmið lífsins sé okkar eigin ánægja; það að við séum kúguð sé óheppilegt, en algjört aukaatriði; það að aðrir séu kúgaðir, af okkur sjálfum eða öðrum, skipti okkur nákvæmlega engu máli; það að við höfum fullan rétt til að sleppa okkur í óhófi og nautna&shyMhyggju, hvort sem við borgum brúsann sjálf eða setjum hann á reikning annarra? Sá eiginhagsmunaseggur sem myndi haga sér þannig væri hins vegar langt frá því líferni sem Nietzsche sjálfur sagði frá og lofaði í síðustu bókinni sinni Ecce Homo? Þar talaði hann um hið agaða og heilsusamlega líferni sem hann sjálfur hafði tileinkað sér. Minnir slíkur eiginhags­munaseggur kannski frekar á hinn óhamda aðalsmann fornaldarinnar eða tengist hann jafnvel þeirri níhílísku lífsskoðun sem Nietzsche fannst svo lítið til koma?
Ef við skoðum forsendur nautnahyggjunnar sjáum við að hún byggir á heimsmynd sem gerir ráð fyrir að hver einstaklingur stefni ávallt, og ætti að stefna, að því að hámarka eigin hamingju. Hugtakið hamingju er hægt að skilja á a.m.k. tvo mismunandi vegu. Ef það er skilið í hinni víðari merkingu þ.e. „það sem gefur lífinu tilgang“, eða „það sem hver maður stefnir á að öðlast í lífinu“, verður setning á borð við: maðurinn stefnir að hamingju í lífinu, augljóslega að tvítekningu. Ef hamingja á ekki vera tómt hugtak þarf hún að standa í hinum þrengri skilningi, sem einhvers konar líkamleg vellíðan og/eða andleg sæla. Þessi hugsun fer oft saman við þá kenningu að hver gjörð sé í raun sjálfmiðuð. Þá er góðvild og góðgerðastarf bara enn ein leiðin til að láta sér sjálfum líða vel. En jafnvel þó að við samþykktum kenninguna virðist það alls ekki ljóst að hver sjálfmiðuð athöfn stefni að því einu að veita gerandanum ánægju. Réttlæting nautnaseggsins á lífsmáta sínum virðist velta á gildi ánægjunnar fyrir lífið en sú forsenda hvílir hins vegar ekki á neinum óyggjandi grunni. Það er því greinileg hugmyndafræðileg villa nautnahyggjumannsins, að mati Nietzsches, að telja gildi sælunnar yfir sársaukann óumdeilanlegt.
Hann er þó ekki sá eini sem gengur út frá þessari villu heldur virðast nánast allir þeir sem hingað til hafa byggt siðferðis- eða stjórnmálakenningar á öðru en guðlegum bókstöfum talið sæluna nauðsynlega betri en sársaukann. Nautnahyggjumaðurinn telur það sinn persónulega rétt að njóta sem mestrar ánægju, nytjahyggjumaðurinn telur það rétt allra. Tómhyggjumaðurinn metur ánægju engu síður, en vegna skorts á þessari sjálfsögðu hamingju virðist honum heimurinn bersýnilega merkingarlaus og vondur. Fyrir stóumanninn felst ánægja í því að vera laus við hina andlegu þjáningu sem fylgir daglegu amstri og hversdagslegum tilfinningum. Þegar hann er algjörlega laus úr fjötrum hinna mannlegu tilfinninga er markmiðinu náð; aðgerðalaus sæla. Vellíðan er sameiginlegt gildi þeirra allra, þrætueplið er í hverju hún felst og hvernig hana skuli fanga. Nietzsche sker sig úr þessum hópi með því að benda á hinar jákvæðu afleiðingar þjáningarinnar. Þær vanmetnu afleiðingar eru jafnvel betri en þær fyrirlitlegu sem vellíðunin hefur í för með sér.
Með tortímingu hugmyndarinnar um gildi sælunnar fram yfir sársaukann virðist síðasta vígið hafa fallið. Nú finnum við fyrir stefnuleysinu sem sturlaði maðurinn á markaðstorginu spurði um: „Erum við ekki sífellt í frjálsu falli? Afturábak, til hliðar, áfram, í allar áttir?“11 Við höfum nákvæm­lega ekkert til þess að leiðbeina okkur í lífinu.

… Handan mannskepnunnar.

Innra samræmi virðist vera það eina sem við getum einbeitt okkur að. Nietzsche telur því að eina „dyggðin“ sem ekki sé hægt að losa sig undan sé hugmyndin um heiðarleika. Heiðarleiki er ekki eitthvað sem kemur einungis fram í samskiptum milli einstaklinga heldur er það fyrst og fremst afstaða sem einstaklingur tekur gagnvart sjálfum sér. Sá sem er heiðarlegur við sjálfan sig leitast við að stefna í þá átt sem hans sanna rödd, hvatir, hyggjuvit og langanir beina honum í. Hann framkvæmir það sem hann vill og vill það sem hann framkvæmir. Þessi má þó ekki fylgja aðeins einum hluta hvata sinna, hvort sem það er skynsemi eða losti, heldur verður hann að skapa úr þeim heildstæða einingu. Sá sem leitast einungis við að uppfylla vellíðunarstuðul nautnahvata sinna er ekki á nokkurn hátt heiðarlegri en sá sem fylgir hugsunarlaust hugmynda­fræðilegum straumum síns tíma. En hvað er það sem maður vill? Hvað er það sem sjálfmiðaðar athafnir stefna að?
Þar sem Nietzsche lítur á manninn sem náttúrulega veru, telur hann það óhjákvæmilegt að hann fylgi sömu lögmálum og önnur náttúruleg fyrirbæri. Það sem knýr okkur áfram er því viljinn-til-valds, ekki einungis til líkamlegs valds yfir öðrum verum heldur andlegs valds yfir okkum sjálfum. Þetta virðist vera grundvallarlögmál náttúrunnar hjá Nietzsche því jafnvel atómin sem mynda alheiminn fylgja hvert og eitt viljanum-til-valds. Hvert náttúrulegt fyrirbæri stefnir því að því að yfirstíga eigin hömlur. Með því að hlusta eftir mismunandi röddum sjálfsins fylgir maður viljanum-til-valds í átt að fullkomnun hæfileika sinna og að því, sem ætti að vera endanlegt markmið hvers náttúrulegs hlutar, að yfirstíga sjálfan sig. Við eigum að yfirstíga manninn. Þessari fullkomnun einstaklingsins gaf Nietzsche nafnið Übermensch. Slíkur ofurmaður er frummynd sem hver maður ætti að stefna á, skapalónið sem hann mælir sig við. Líf slíks einstaklingsins er virkt og skapandi ferli sem stefnir að sjálfsuppgötvun og fullkomnun persónulegra hæfileika.
Sjálfsþroskinn er þó ekki bein og greið leið heldur mun maður óhjákvæmilega villast og gera ótal mistök. En ólíkt hinum venjulega manni sem lifir lífinu eins og það sé „hugsunarlaus tilviljun“12 hefur slíkur maður a.m.k. skýrt takmark. Lifandinn verður eins og listamaður og lífið eins og listaverk í sköpun. Þegar maður byrjar að lifa samkvæmt slíkri lífssýn verður hver einasta athöfn skref í átt að markmiði og jafnvel röng skref gegna því hlutverki að gera manni grein fyrir því hvar hinn rétti vegur liggur. Þegar maður uppgötvar það getur maður fyrst byrjað að elska örlög sín. Sá sem lifir slíku lífi mun ekki bölva púkanum sem skýrir honum frá hinni eilífu endurtekningu, jafnvel þó að hann þyrfti að lifa sama lífinu ítrekað til eilífðarnóns myndi hann alltaf taka sömu ákvarðanir, því hann framkvæmdi það sem hann vildi og vildi það sem hann framkvæmdi – hvert skref var nauðsynlegt. „Maðurinn sem fullkomnar sjálfan sig og upphefur efnisleika sinn öðlast hina endanlegu ánægju og upplifir svo yfirþyrmandi gleði að hann hættir að hafa áhyggjur af „réttlæt­ingu“ á heiminum: hann samþykkir hann áfram, aftur á bak, og „um alla eilífð“.“13 Spurningar um Guð og tilgang heimsins hætta að skipta máli. Það má vafalaust segja að hver einasta athöfn þess sem stefnir á ofurmennið sé sjálfsmiðuð og í augum þeirra sem ekki skilja markmið hans jafnvel eigingjörn. Það virðist Nietzsche þó ljóst að slíkur maður myndi ekki sækjast eftir þeim lítilvægu og aumkunarverðu hlutum sem mennirnir tengja oftast við eigingirni. Þrátt fyrir að ekkert stæði í vegi fyrir því að hann myndi öðlast fjárhagslegan gróða á annarra kostnað eða troðast fram fyrir í röð þá væri það einfaldlega fyrir neðan hans áhugasvið og hið æðra markmið sem hann stefnir ítrekað að.

… Handan einstaklingsins.

Nietzsche telur menningu hvorki vera díalektíska framvindu í átt að hegelsku frelsi andans né röklega framþróun í átt að fullkomnun mannsins eða útópískri framtíð. Mannkynið réttlætir ekki tilveru sína með vellíðan fjöldans heldur þeim einstökum manneskjum, snillingum, sem skjóta upp kollinum með nokkuð jöfnu millibili á að því er virðist handahófskenndum stöðum á hnett­inum.
„[Að] vinna linnulaust að framleiðslu mikilla einstaklinga – þetta og aðeins þetta ætti að vera hlutverk [samfélagsins].“14 Það væri auðvelt að skilja þetta sem svo að við, hinir venjulegu menn, ættum einfaldlega að þakka fyrir að vera þrælar og þjónar hinna miklu manna – þeir sem hafi ekki snilligáfu eigi vart rétt til lífs. En ef við hlustum örlítið betur heyrum við hvar blekkingin liggur.
Í bókinni Af sifjafræði siðferðisins bendir Nietzsche á tvítekninguna sem felst í setningum á borð við „eldingunni slær niður“, „atómið hreyfist“ eða „maðurinn gerir“. Hann telur okkur aðeins hafa reynslu af athöfninni en aldrei frumlaginu sjálfu. Eldingin er ekki til nema sem ljósblossi og druna og á sama hátt er manneskja ekkert annað en allar gjörðir hennar samanlagðar. Frumlag er tilbúningur tungumálsins og hugmyndin um einstaklinginn þar með manngerð. Við ættum ekki að greina milli efnislegs einstaklings og huglægs samfélags, heldur milli allra gjörða, sam­skipta, áhrifa, og tengsla sem saman tákna einstakling annars vegar og svo hins vegar alls þess sem á engan snertiflöt við þessa fylkingu athafna. „[Hugtakið] „einstaklingar“ eins og fólk jafnt og heimspekingar hafa skilið það hingað til, er mistök: einstaklingar eru ekkert, þeir eru ekki frumeindir, þeir eru ekki „hlekkir í keðjunni“, þeir eru ekki aðeins arfleifð liðinnar tíðar, – hver einstaklingur er heilt mannkyn,“ allt frá upphafi fram að honum sjálfum.15 Við ættum því ekki endilega að skilja Nietzsche bókstaflega þegar hann talar um þá mikilfenglegu einstaklinga sem gefa mannkyninu gildi sitt. „Hvert einasta okkar ber í sér, sem kjarna tilveru sinnar, skapandi einstakleika.“16 Hver manneskja er þetta mannkyn, þessi menning og náttúra, og hennar eigið líf öðlast gildi með fullkomnun snillinnar sem í henni býr. Þegar Nietzsche talar um hina einstöku snillinga í fjöldanum gæti hann átt við hin sérstöku augnablik ævinnar; augnablikin þar sem manni tekst að fullkomna hæfileika sína. Það eru þau sem réttlæta tilveruna.
Þessi fullkomnun getur þó ekki falist í hverju sem er, heldur álítur Nietzsche að snilligáfa mannsins hljóti að byggjast á þeim hæfileikum sem skilja okkur frá dýrunum. „Svo lengi sem einhver þráir lífið eins og hann þráir hamingjuna, hefur hann ekki beint augnaráði sínu yfir sjónarhorn dýrsins, eini munurinn er að hann þráir meðvitað það sem dýrið þarfnast af blindri eðlishvöt.“17 Menningin setur hverju og einu okkar aðeins eitt markmið: „að stuðla innan okkar sem utan, að sköpun heimspekinganna, listamannanna og dýrlinganna, og vinna þannig að fullkomnun náttúrunnar.“18 Fyrir efni þessarar ritgerðar er það fyrst og fremst dýrlingurinn sem skiptir sköpum, sá „sem hefur gert sjálf sitt að engu og upplifir lífið ekki lengur – eða næstum ekki lengur – sem einstaklingsbundna þjáningu, heldur aðeins sem djúpstæða tilfinningu fyrir jöfnuði, samneyti, og einingu allra lifandi hluta.“19
Hinir sérmannlegu hæfileikar eru því: hugsunin, sköpunin og jafnaðarhugmyndin. Markmið okkar ætti að vera að fullkomna þessa sérmannlegu hæfileika okkar – aðeins þannig yfirstígum við manninn. Menningin felst svo í því að yfirstíga misræmi milli þess innra og ytra. Það á auðvitað við um misræmið milli þess sem knýr manneskjuna áfram og þess sem hún gerir, milli skaparans og sköpunarverksins. En líka milli einstaklingsins sjálfs og samfélagsins. Um leið og við leitum heimspekingsins, listamannsins og dýrlingsins innra með okkur reynum við að skapa kjöraðstæður fyrir þessa sérmannlegu hæfileika.
Einstaklingur sem stefnir að því að þroska og uppgötva sjálfan sig er tilbúinn að fórna hverju sem er fyrir það markmið. Slíkur maður elskar sjálfan sig og lífið sjálft óendanlega mikið. Þegar samræmi milli innri tilfinninga og ytri athafna einstaklingsins er horfið framkvæmir hann hverja athöfn af takmarkalausri ást á nágrönnum sínum sem og fjandmönnum. Slíkur maður væri mun sjálfmiðaðri en nokkur eiginhagsmunaseggur en munurinn fælist hins vegar í því að eigingjarni maðurinn svífst einskis til að öðlast ómerkileg og almenn gæði, á meðan sjálfsmiðaði maðurinn stefnir á hinn bóginn ótrautt á gæði sem hann einn getur öðlast – það að yfirstíga sjálfan sig. Hann svífst einskis, hann er tilbúinn að fórna öðrum manneskjum en þó fyrst og fremst sjálfum sér. Það er því hrein tilviljun hvort hagsmunir annarra manneskja skarist á við þetta ferli, og helst er líklegt að ofurmaðurinn standi í óvart vegi fyrir manneskjum sem eru á höttunum eftir ómerkilegum gæðum. Þrátt fyrir að vera sjálfsmiðaður væri slíkur maður einnig jafnréttissinni, ekki af því að hann vill draga heildina niður á plan lægsta samnefnarans, heldur vegna þess að hann „lyftir sjálfum sér og öllum öðrum upp (með því að viðurkenna dyggðir þeirra, hjálpa þeim, fagna góðum árangri).“20 Til að fullkomna sjálfan sig leitast þessi maður við að eyða misræminu milli hins innra og ytra. Það er nauðsynlegur hluti af sjálfsþroska hans að reyna að skapa annan, heiðarlegri, náttúrulegri heimi. En hvers vegna réðst Nietzsche þá svo heiftarlega á grunnhug­myndina sem liggur samfélagsbreytingum að baki?
Þrátt fyrir að Nietzsche hafi ítrekað ráðist gegn og gert lítið úr stjórnmálum er ekki þar með sagt að hann hafi álitið þau gagnslaus. Hann deildi á siðferðið og röksemina, ekki vegna þess að hann mat siðleysi eða rökleysu betur, heldur vegna þess að í samfélaginu var hið fyrrnefnda talið óumdeilanlega betra en hið síðara. Það er hlutverk heimspekingsins að gagnrýna ríkjandi hugmyndafræði. Þrátt fyrir að Nietzsche hafi kannski fyrirlitið stjórnmál og aldrei tekið þátt í þeim sjálfur, þá tel ég pólitíska þátttöku vel samræmanlega við mynd Nietzsches af manninum sem leitast við að fullkomna sjálfan sig og eigin hæfileika. Í textum Nietzsches koma raunar á einstaka stöðum fyrir áþreifanlegar hugmyndir um stjórnmál en þeim er drekkt innan um óteljandi árásir á hefðbundin stjórnmál. Þetta er líklega vegna þess að slíkar árásir þurfa nauðsynlega að vera fyrsta skrefið í átt að því að yfirstíga stjórnmál; á undan hinum skapandi barnsanda, kemur eyðileggjandi ljónið. Hlutverkið sem Nietzsche tók á sig, bæði fyrir sig og samfélagið, var að vera þetta skaðræðisljón sem reif niður viðteknar skoðanir til þess að ný hugsun gæti risið á grunn­inum. Stjórnmál eru á villigötum og þurfa nauðsynlega að vera brotin niður með hamri heimspekinnar áður en hægt er að taka sig til og byggja eitthvað nýtt úr rústunum. Hinn siðlausi maður getur ekki yfirstigið siðferðið, það getur aðeins sá sem bæði þekkir siðleysi og siðsemi, líkt og hinn röksami getur yfirstigið rökfræðina. Á sama hátt getur aðeins sá sem þekkir kosti og takmarkanir samfélagsmiðaðra sem og sjálfsmiðaðra athafna yfirstigið muninn þar á milli.

Heimildaskrá

Carroll, John. Break-Out from the Crystal Palace, The Anarcho-Psychological Critique: Stirner, Nietzsche, Dostoevsky. Routledge og Kegan Paul. 1974. London, Bretlandi.

Carroll, John. Break-Out from the Crystal Palace, The Anarcho-Psychological Critique: Stirner, Nietzsche, Dostoevsky. Routledge og Kegan Paul. 1974. London, Bretlandi.

Kaufmann, Walter. Nietzsche; Philosopher, Psychologist, Antichrist. Princeton University Press. 1974. New Jersey, BNA.

Nietzsche, Friedrich. Handan góðs og ills. Íslensk þýðing Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason. Hið Íslenska Bókmenntafélag. 2005. Reykjavík.

Nietzsche, Friedrich. The Anti-Christ, Ecce Homo, Twilight of the Idols; and other writings. Þýð. Judith Norman. Cambridge University Press. 2005. Cambridge, Bretlandi.

Nietzsche, Friedrich. The Basic Writings of Nietzsche. Þýð. Walter Kaufmann. The Modern Library. 1992. New York, BNA.

Nietzsche, Friedrich. The Gay Science, with a prelude in rhymes and an appendix of songs. Þýð. Walter Kaufmann. Vintage Books. 1974. New York, BNA.

Nietzsche, Friedrich. Human, All Too Human, A book for the free spirits. Þýð. R.J. Hollingdale. Cambridge University Press. 1986. Cambridge, Bretlandi.

Nietzsche, Friedrich. Unfashionable Observations. Þýð. Richard T. Gray. Stanford University Press. 1995. California, BNA.

Neðanmálsgreinar

1. Friedrich Nietzsche, Unfashionable Observations, ensk þýð. Richard T. Gray, (California, Stanford University Press, 1995), bls. 187. – Allar skáletranir í tilvitnunum eru úr upprunalegum texta. Allar þýðingar úr ensku eru höfundar ritgerðarinnar.

2. Með því að rita á svo mótsagnakenndan hátt, tókst honum meðvitað að gera okkur það nánast ómögulegt að fylgja honum á kreddufullan hátt, eða láta kenningar hans styðja við heildstæð hugmyndafræðileg kerfi. Sú kenning sem er þróuð út frá hugsun Nietzsches segir eflaust meira um skoðanir kenningasmiðsins en heimspekingsins. Sjálfur lifi ég alls ekki í þeirri blekkingu að þessi ritgerð sé undanskilin slíkri gagnrýni.

3. Friedrich Nietzsche, Handan góðs og ills, ísl. þýð. Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason (Reykjavík, Hið Íslenska Bókmenntafélag, 2005), bls. 82.

4. Í grein sinni Is Nietzsche a Political Thinker? (1997, International Journal of Philosophical Studies 5 (1): 1-13.) færir Martha Nussbaum rök fyrir því að ekki skuli telja Nietzsche til stjórnmálalegra hugsuða, enda uppfylli hann varla neitt þeirra skilyrða sem segja má að skilgreini hugsun um stjórnmál.

5. Nietzsche, Beyond Good and Evil, ensk þýð. Helen Zimmern (Rockville, Serenety Publishers, 2007), bls. 81.

6. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 197.

7. John Carroll. Break-Out from the Crystal Palace (London: Routledge og Paul Keegan, 1974), bls. 17.

8. Friedrich Nietzsche, The Basic Writings of Nietzsche, ensk þýð. Walter Kaufmann (New York: Modern Library, 1992), bls. 533.

9. Bók Dawkins The Blind Watchmaker kom fyrst út 1986 og var endurprentuð með viðbæti 1991.

10. Walter Kaufmann, Nietzsche (New Jersey: Princeton University Press, 1974), bls. 167.

11. Friedrich Nietzsche, The Gay Science, ensk þýð. Walter Kaufmann ( New York: Vintage Books, 1974), bls. 181.

12. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 173.

13. Nietzsche, The Basic Writings of Nietzsche, bls. 712.

14. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 215.

15. Friedrich Nietzsche, Anti-Christ, Ecce Homo, Twilight of the Idols and other writings, ensk þýð. Judith Norman ( Cambridge: Cambridge University Press, 2005), bls. 208.

16. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 192.

17. Sama rit, bls. 209.

18. Sama rit, bls. 213.

19. Sama rit, bls. 213.

20. Friedrich Nietzsche, Human, All Too Human, ensk þýð. R.J. Hollingdale (Cambridge: Cambridge University Press, 1986), bls. 136.

Um áróður

eftir Jóhann Sæmundsson

(Flutt 25. marz 1945)

        Fyrir rúmlega hundrað árum starfaði félagsskapur í Parísarborg, sem tók að sér að ábyrgjast rithöfundum, að leikrit þeirra næðu almenningshylli. Félag þetta hét Société d´Assurance de succés dramatique. Hvert það leikritaskáld, sem vildi komast áfram og hljóta viðurkenningu fyrir verk sín, neyddist til að tryggja sér aðstoð þessa félags og greiða því skatt. Hver, sem var svo óforsjáll að gera þetta ekki, gat átt það á hættu, að leikrit hans félli gersamlega í grýtta jörð og yrði einskis metið af almenningi, hversu gott, sem það var, en á hinn bóginn hafði félagið á valdi sínu að tryggja bögubósum húsfylli hvað eftir annað og almannalof fyrir skáldleg tilþrif, ef þeir leituðu aðstoðar þess.
        Félagsmenn skiptu með sér verkum og störfuðu í 7 deildum. Fyrsta deildin hafði það hlutverk að vekja áhuga og forvitni almennings, áður en sýningar hófust. Menn úr þeirri deild stóðu hjá götuauglýsingum leikhússins og töluðu fjálglega um hið stórfenglega listaverk, sem nú ætti að fara að sýna. Þeir áttu að kynda undir áhuga vegfarenda og nefndust chauffeurs.
        Hinar deildirnar 6 skiptu með sér verkum innan veggja leikhússins. Fyrst má þar nefna klapparana (tapageurs), sem klöppuðu lof í lófa á viðeigandi stöðum, svo að undir tók, og hleyptu af stað fagnaðarlátum. Í öðru lagi voru svonefndir cisseurs, sem áttu að hafa yfir fyrir munni sér sérstök, athyglisverð atriði í leikritinu, svo að þau færu ekki fram hjá áhorfendum. Þá voru rieurs, hlæjendur, sem ráku upp skellihlátur við hverri tilraun til fyndni, en næst komu grátendur, pleureurs, sem snöktu og flóðu allir í tárum, þegar sorgleg atvik komu fyrir. Sérstakir menn léku hlutverk hinna listfróðu og voru nefndir connaisseurs. Það voru hæglátir, virðulegir menn, sem kinkuðu kolli við og við og sögðu: Frábært, stórkostlegt, skáld af guðs náð, og ámóta hrósyrði. Loks voru svonefndir chatouilleurs (kitlendur), sem gengu um á milli þátta og töluðu hátt um hrifningu sína yfir dásemdum listaverksins.
        Þessi aðferð þótti ekki viðeigandi til lengdar. Hún þótti ekki vænleg til að þroska listasmekk almennings og lyfta honum á æðra stig. Félagið var því fljótlega bannað. En eftir það þótti fólki ekki nærri eins gaman að fara í leikhús og áður. Ólga tilfinninganna hafði hjaðnað. Nú sat þarna fólk, sem varð að gera það upp við sjálft sig, hvenær það ætti að klappa, hlæja, gráta. Hin örugga forusta var horfin, og ýmsir óskuðu að fá félagið leyst úr banni, þótt þeir vissu, hvernig allt var í pottinn búið.
        Þetta félag lét sig engu skipta, hvernig leikritin voru, er það tók að sér að afla lýðhylli. Það tók fé af rithöfundunum fyrir ómak sitt, en af sinni hálfu tókst það á hendur að skapa þjóðhollt al­menningsálit og sannfæra leikhússgesti um, að það væri góð list, sem á boðstólum var. Starf­semi þess var skipulögð þannig, að þetta tókst um allan fjölda manna. Félagið beitti ekki listfræðslu eða neinum hlutlægum aðferðum til að ná marki sínu. Markmið þess var ekki að skapa heilbrigt almenningsálit, heldur að koma af stað múgsefjun og skapa hliðhollt almenningsálit með því móti. Starfsaðferðir þess voru einfaldar og líklegar til árangurs. Með þeirri verkaskiptingu, sem að framan var getið, var séð fyrir því, að einstaklingarnir fengju ekki tóm til að hugsa sjálfir, kryfja til mergjar og mynda sér skoðun sem einstaklingar. Dómurinn var kveðinn upp fyrir fram, fólkið þurfti ekki annað en taka undir. Þegar lófatak, hlátur eða grátur hljómaði um salinn, var ýtt við frumstæðum hvötum fólksins, einstaklingarnir máðust út, en runnu með ástríðu­þunga inn í hópsálina.
        Hér er ekki minnzt á þetta félag af því, að það sé neitt sérstakt fyrirbrigði í veraldarsögunni, heldur vegna þess, að það er dálítil spegilmynd af því, sem ætíð hefur verið að gerast í heiminum, frá því að mennirnir fóru að lifa í samfélagi. Markmið þess var skoðanasmíði. Það setti fórnarlömb sín í andlegt steypumót, þar sem hamrað var á þeim. Það sannfærði menn með leiktjöldum, hvað sem veruleikanum leið, og beitti til þess töluverðri sálfræðilegri tækni á skipulegan hátt.
        Tæknin, sem beitt er til sálnaveið, hefur tekið töluverðum breytingum síðasta mannsaldurinn, eftir því sem þekking á sálarlífi manna hefur aukizt. Sú þekking hefur verið tekin æ meira í þjónustu áróðursins, enda má nú segja, að skipulagður áróður sé orðinn hrein vísindagrein.
        Orðið áróður er ekki gamalt í íslenzku máli. Það er þýðing á erlenda orðinu propaganda, sem dregið er af stofnun, er Gregorius XV setti á fót í Rómaborg árið 1622 og nefndist Congregatio de propaganda fide. Hlutverk hennar var að útbreiða kaþólska trú meðal annarra þjóða. Nú er orðið propaganda almennt notað í erlendum málum til að tákna hvers konar stofnanir eða kerfis­bundna viðleitni, er hefur sem markmið að útbreiða sérstakar kenningar eða skoðanir og afla þeim nýrra fylgismanna. Þessi viðleitni getur verið svo víðtæk, að heil stórveldi standi á bak við hana, og hún getur verið svo takmörkuð í upphafi, að aðeins sé um að ræða einn einstakling, er hefur upp raust sína til að snúa öðrum til fylgis við skoðanir sínar eða hugsjónir.
        Áróðurstæknin hefur nú náð slíkri fullkomnun, að ekki verður hikað við að telja áróðurinn eitt hið allra voldugasta vopn mannsandans, vopn, sem beita má bæði til ills og góðs. Orðið áróður hefur smám saman fengið lakari og lakari merkingu og er á góðum vegi með að verða skammar­yrði. Þetta stafar af því, hve oft áróðursvopnunum er beitt til bölvunar, með fullkomnu miskunnar­leysi og mannfyrirlitningu. Ýmsar skýrgreiningar á áróðri bera keim af persónulegri andúð manna á honum, sem stafar af því hve honum hefur verið misbeitt.
        En það er full ástæða til að taka skýrt fram og leggja áherzlu á það, að áróður er í eðli sínu hlutlaust hugtak frá siðfræðilegu sjónarmiði. Hann er tvíeggjað vopn, sem beita má til ills eða góðs. „En hvað er illt og hvað gott?“ munu menn spyrja. Skoðanir manna um þetta eru ekki síður skiptar en um margt annað í þessum heimi. Siðgæðishugmyndir manna, trúarbrögð og fjölmargt annað er svo breytilegt, t.d. eftir þjóðernum, að það vekur enga furðu, þótt erfitt reynist að skýr­greina á algildan hátt, hvað sé illt og hvað sé gott. Hér verður heldur ekki gerð tilraun til þess.
        Maðurinn er dýr, sem gætt er sömu eðlishvötum og ýmis önnur dýr. En hann er jafnframt gæddur miklu fullkomnara og fjölbreyttara vitsmunalífi en dýrin, og í því eru yfirburðir hans fólgnir. Vegna vitsmuna sinna er honum kleift að skilja, rannsaka, bera saman, gagnrýna, álykta og uppgötva. Hann getur þjálfað þessa eiginleika sína og þroskað og breikkað þannig bilið milli sín og dýranna með hverri kynslóð. Því betur sem manninum tekst að rækta vitsmuni sína og alla æðri eiginleika, sem þeim eru tengdir, þeim mun óháðari verður hann hinum frumstæðu eðlis­hvötum, er blunda í eðli hans. Meðan hann var dýr á lægra stigi, var hann þræll eðlishvata sinna. Þær stjórnuðu lífi hans. Með auknum þroska hefur hann þokazt nær því marki að verða herra eðlishvata sinna, göfga þær og gera þær að aflstöð til nýrra afreka á þroskabraut sinni.
        Ef alin er sú ósk í brjósti manninum til handa, að hann megi vaxa að vizku og þroska, verður einnig að rísa gegn hverju því, sem miðar að því að þoka honum niður á við og skipa honum aftur á bekk með hinum óæðri dýrum.
        Áróður nútímans er oft þannig rekinn, að varla er hægt að hugsa sér öllu áhrifaríkari aðferð til að svipta manninn valdi á sjálfum sér, gera hann að leiksoppi hinna frumstæðustu hvata og hrekja hann niður á bekk með skynlausum skepnum. Slíkur áróður er ein af þeim meginhættum, sem ógna framtíð mannkynsins. Styrjöldin, sem nú geisar, verður að verulegu leyti rakin til nýtízku áróðurs, sem hefur verið rekinn með algerri beitingu hvers konar vísindalegrar tækni, er við varð komið.
        Margt hefur verið ritað um menntun og fræðslu sem andstæðu áróðursins. En oft og einatt er mjög erfitt að greina þar á milli. Lokatakmark alls áróðurs er að sannfæra, fá menn til að trúa. Til þess eru notaðar bæði beinar og óbeinar aðferðir. Áróðurinn fer jafnan skemmstu leið að mark­inu og gerir sér far um að sannfæra sem flesta á sem stytztum tíma og með sem auðveldustum hætti. Hann leggur ekki áherzluna á að sanna, heldur sannfæra.
        Menntun og fræðsla leggur hins vegar áherzlu á að sannfæra með sönnunum, þ.e. maðurinn telur þetta eða hitt satt og rétt, er hann hefur vegið rök og gagnrök, leitað að öllum hugsanlegum möguleikum og komizt að ákveðinni niðurstöðu með rökréttri hugsun. Þó mundi hver sá, sem leitar sannrar þekkingar, hugsa líkt og Ari fróði, að skylt sé að hafa það jafnan, er sannara kynni að reynast, því sannleiksleitandinn er aldrei of viss í sinni sök. En því fer einnig oft mjög fjarri, að fræðslan sé eða geti verið með þessu sniði. Nægir að nefna trúarbragðakennslu og t.d. sögu­kennslu. Kennslubækur í sögu eru oft svo litaðar af þjóðernisanda, að margt, sem í þeim stendur, mætti skoða sem fjandsamlegan áróður í garð annarra þjóða. Stundum kemur það og fyrir, að sagnaritarinn getur ekki varðveitt hlutleysi sitt gagnvart sögupersónunum, en litar frásögn­ina vegna tilfinningamats sjálfs sín á mönnum og málefnum, og gætir þá áhrifanna síðar meir í skoðunum þeirra, er lesa. Af þessu leiðir, að fræðsla er oft menguð áróðri og .því erfitt eða ókleift að draga þar markalínu á milli.
        Fræðslan miðar þó að því, almennt skoðað, að þroska óháða dómgreind. Komizt hefur verið þannig að orði, að með fræðslunni sé fólki kennt, hvernig fara eigi að því að hugsa, en tilgangur áróðursins sé sá að kenna fólkinu, hvað það eigi að hugsa. Með öðrum orðum: Fræðsla, menntun og þekking er lykillinn að andlegu frelsi einstaklingsins. En áróður, sem náð hefur takmarki sínu til fulls, hneppir andlegt líf einstaklingsins í ákveðna fjötra. Andleg framtakssemi hans er vængstýfð. Andlegt líf hans rennur í farvegi, sem áróðursmeistararnir hafa skapað.
        Áróður er ævagamall, þótt hann hafi aldrei verið annað eins stórveldi í andans heimi og síðustu áratugina. Áróður, beinn eða óbeinn, hefur jafnan fylgt valdinu. Hann hefur fylgt valdi kirkjunnar, valdi konunga, valdi auðsins, valdi hins sterka. Það er nútímatækni fyrst og fremst að þakka eða kenna, ásamt æ fullkomnari skipulagningu, hversu áróðurinn hefur færzt í aukana.
        Í heimsstyrjöldinni 1914 – 1918 var áróðri beitt í ríkum mæli sem öflugu hernaðarvopni bæði af Þjóðverjum, Bretum og Bandaríkjamönnum. Sá áróður var þó fábreyttur miðað við það, sem nú er, af því að tæknin hafði ekki náð sömu fullkomnun og nú.
        Aldous Huxley hefur sagt, að áróðursmaðurinn sé maður, er veitir framrás lind, sem þegar er til. Ef hann grafi í jarðveg, þar sem ekkert vatn er til, sé erfiði hans unnið fyrir gýg. Með þessu er hvergi nærri allt sagt. Ég hygg, að oft eigi betur við að lýsa starfi hans þannig, að hann veiti lindinni í farvegi, sem þegar eru til, eftir því sem honum hentar og hann hefur skarpskyggni til. Ég vil meira að segja hætta á að halda því fram, að hann geti seitt fram nýjar lindir með töfrastaf sínum. Skal ég nú skýra þetta nánar. Ég gat þess áðan, að áróðurinn skírskotaði fyrst og framst til hinna frumstæðu hvata mannsins, til þeirra hvata, sem eru sameiginlegar dýrum og mönnum. Samkvæmt þeim skilningi eru hvatirnar sá farvegur, sem áróðursmaðurinn notar, og sá farvegur er til fyrir fram. Þegar einhver frumhvöt eða eðlishvöt er vakin hjá einstaklingnum, brýzt fram hjá honum ákveðin geðshræring eftir því, hver hvötin er. Geðshræringin („emotion“) er jafnan mjög skammvinn og skapar ekki varanlegt hugarástand eða hugð („sentiment“), eins og það er nefnt á máli sálfræðinga. En varanlegt hugarástand eða hugð skapast að lokum, ef einhver eðlishvöt fær síendurtekin tækifæri til að brjótast út eftir ákveðnum farvegi, og þess má ennfremur geta, að hugðirnar, sem til skilningsauka má nefna varanlegar tilfinningar til betri aðgreiningar frá hinum skammvinnu tilfinningum, geðshræringunum, liggja mjög oft til grundvallar ýmsum venjum vorum, ekki aðeins athafnarvenjum, heldur andlegum venjum, eins og þær birtast í hugsunum og tilfinningalífi.
        Ég skal skýra þetta nánar með dæmi. Bardagahvötin er ein af eðlishvötum manna og dýra. Hún er auðvakin, t.d. ef afkvæminu er ógnað, þ.e.a.s. ef atvik ber að, sem gengur í berhögg við móðurhvötina. Almennt má orða það svo, að bardagahvötin sé jafnan vakin, ef stefnt er að því að hindra, að einhver eðlishvöt nái marki sínu. Þannig hefst oft grimmilegur bardagi milli hunda út af beini. Fæðuöflunarhvöt beggja er fyrst vakin og sækir að sínu marki, en þar sem hundarnir eru tveir eða fleiri, er tvísýnt um árangurinn, og þá hefst bardaginn. Hið sama á við, þegar menn slást upp á líf og dauða út af kvenfólki, með þeim mismun, að hér er það kynhvötin, sem hindruð er í framrás sinni með tilkomu meðbiðilsins.
        Af því, sem sagt hefur verið, er ljóst, að bardagahvötin er vakin, ef reynt er að stífla framrás annarra eðlishvata. Þegar einhver eðlishvöt er vakin, fylgir því ákveðin geðshræring, eins og áður var sagt. Sú geðshræring, sem er fylgifiskur bardagahvatarinnar, er reiðin. Sé bardagahvötin vakin hvað eftir annað, brýzt út reiði í hvert sinn, en að lokum sprettur upp af þessari rót varanleg tilfinning eða hugð, sem sé hatur.
        Þetta einfalda dæmi nægir til að skýra, hvernig hægt er að skapa varanlegt hugarástand, t.d. hatrið, með því að hamra á einni einustu frumhvöt, og það er engu síður hægt að hamra á henni með lygi og prettum en með því, að raunverulegt tilefni komi til. En það er einmitt þetta, sem einkennir áróðurinn svo mjög, að hann sést oft ekki fyrir, en stefnir að markinu án þess að skeyta um rétt eða rangt, eins og raun ber vitni.
        Ég ætla að sýna hér dæmi þess, hvers konar aðferðir eru notaðar í áróðri í sinni svörtustu mynd, svo að áheyrendur skilji betur, hvílíkt hyldýpi mannfyrirlitningar þar er um að ræða, er svo ber undir. Dæmið, sem ég tek, er Óðurinn um hatrið eftir Heinrich Vierordt frá árinu 1914.

        Ó, blessaða Þýzkaland, þú verður að rista rúnir hatursins á sál þína, djúpt og óafmáanlega. Lengi hefur þig vantað þetta tákn, mjög lengi. Það hrópar um hefnigirni, hefnd, æði. Kæfðu með þér hverja mannlega tilfinningu, og skund­aðu til orrustu.
        Ó, Þýzkaland, hataðu! Dreptu allar milljónir fjandmanna þinna, og reistu minnisvarða úr rjúkandi líkum, sem nær upp til skýja.
        Ó, Þýzkaland, hataðu nú! Gyrtu þig vopnum, og rektu byssusting þinn gegnum hjarta hvers einasta óvinar. Taktu enga fanga. Þaggaðu niður í þeim öllum. Breyttu nágrannalöndum þínum í eyðimörk.
        Ó, Þýzkaland, hataðu! Heilbrigði mun spretta undan bræði þinni. Kljúfðu þá í herðar niður með öxum eða höggum byssuskefta. Þessir ræningjar eru villidýr, þeir eru ekki menn.Láttu hnefa þinn fullnægja dómi drottins.
        Ó, Þýzkalands, augnablik hatursins er komið! Greiddu þung högg og stór. Herflokkar, stórir og smáir, geysizt fram! Að lokum munt þú sjá þá á rústum heimsins, læknaða að fullu af þinni fornu fíflsku: að þykja vænt um útlendinga.

        Það er óþarft að fara mörgum orðum um, hvílík áhrif kvæði eins og þetta getur haft á stríðstímum til að tendra bál heiftar og haturs, halda því við og örva til gereyðingar, sem er öfgafyllsta og trylltasta útrásarform bardagahvatarinnar. Svona herhvöt getur verkað fullvel á einstaklinginn út af fyrir sig, þegar hann er upptendraður af föðurlandsást. Höfundurinn gleymir ekki heldur að nota ættjarðarástina sem bakgrunn, og takmark hans er múgsefjun af trylltustu tegund. Hann ávarpar fósturjörðina sem hina blíðu móður, er verði að rista rúnir hatursins á sál sína og kasta fyrir borð öllum mannlegum tilfinningum. Ættjörðin og þjóðin renna saman í eitt, einstaklingurinn er máður út, hann er einnig falinn í hinu lotningarfulla og ástríðuþrungna ávarpi: Ó, Þýzkaland. Með þessari tækni verður kvæðið miklu öflugra vopn til múgsefnunar meðal hermannanna. Maður sér þá í anda ganga í fylkingu, gráa fyrir járnum, jörðin endurómar hátt­bundið fótatak þeirra. Þeir syngja þennan óð, Ó, :Þýzkaland – augnabliks viðkvæmni – hataðu! – Svipirnir harðna, hendurnar kreppast um byssuskeftin, þúsundir fóta stíga þungt til jarðar, svo að glymur í steinlögðu strætinu. Þúsundir sálna renna saman í eina hópsál. –
        Hér hefur verið drepið á, hvernig taka má bardagahvöt mannsins og hamra á henni, unz vaxið hefur upp rótgróið hatur. Bardagahvötin er óspart notuð sem farvegur til þess að veita áróðrinum í. Áróðursmaðurinn stefnir að því að sannfæra aðra um, að hans málstaður sé betri eða réttari en málstaður andstæðingsins; hann sé óvinur, er haldi réttinum fyrir manni eða annað þess háttar. Í íslenzkum blöðum sér maður stundum frásagnir um, að „ágætur baráttuhugur hafi verið í fundarmönnum“ á pólitískum flokksfundum, „vígstaðan“ sé í bezta lagi og svo framvegis. Sýnir þetta, að þeir, sem í blöðin rita, skynja ósjálfrátt, að leikið er óspart á bardagahvötina, þótt mannvíg séu engin og hæpið að tala um „vígstöðu“ hér hjá okkur.
        Í hernaðarlöndum hlúir vopnaburður og heræfingar að bardagahvötinni og það á fleiri en einn veg, ekki sízt, ef börn eru vanin við vopnaburð þegar á unga aldri, eins og á sér stað í facista­ríkjunum og Sovétríkjunum. Það, sem menn læra, glæðir oft yfirburðakennd þeirra gagnvart þeim, sem minna kunna, og maðurinn er ekki ófús til að sýna yfirburði sína. Einkennisbúningar, orður og afreksmerki glæða einnig yfirburðakenndina, en sú framhvöt, sem þarna er notuð sem far­vegur, er sjálfshafningarhvötin.
        Í áróðri er því oftast þannig hagað, að áróðursmaðurinn leikur á margar frumhvatir í senn og gerir þær að bandamönnum sínum. Hann skjallar þá, sem hann ætlar að vinna til fylgis við sig, og vekur hjá þeim sjálfshafningarhvötina og þá geðshræringu, sem henni fylgir, sem sé jákvæða sjálfstilfinningu, er endað getur með því, ef nógu oft er á þessu hamrað, að sérstakir flokkar, stéttir eða þjóðir telji sig öllum öðrum betri og fremri. Öflunarhvötin er einnig óspart notuð. Henni fylgir sú tilfinning, að maður eigi eitthvað, og er hún sérstaklega rík hjá nirflinum. Með því að vekja öflunarhvötina og þar með eignartilfinninguna, er auðvelt fyrir áróðursmanninn að sýna fram á, hve andstæðingurinn sé svívirðilegur að gína yfir hlut annarra. Áróðursmaðurinn notar fleiri farvegi í frumeðli mannsins en þetta.. Hann vekur til dæmis viðbjóð, sem er geðshræring, er fylgir einni af eðlishvötum manna og dýra, sem birtist í sinni frumstæðustu mynd, er menn hrækja ein­hverjum óþverra út úr sér. Áróðursmaðurinn getur bæði vakið reiði og viðbjóð, en að lokum hatur á andstæðingi sínum með því að útmála grimmd hans, lygar og hvers konar mannvonzku. Þá notar hann oft forvitnishvötina sem hjálpartæki. Bæði notar hann hana sem nokkurs konar könnunartæki til þess að komast að, hvers menn vænta og óska, svo að hann geti leikið á þá strengi, en einnig til að skerpa athyglina um stundarsakir, og þá notar hann tækifærið, meðan hugurinn er eitt spurningarmerki, að smeygja inn einhverju atriði, er hann vill, að festist vel í minni. Oft notar hann spurningarformið í þessu skyni. Á eftir spurningunni bíður hann oft – til að auka eftirvæntinguna, áður en hann svarar sjálfur, svo að áheyrendur fái tóm til að svara sjálfir í huganum. Með þessu móti getur ýmislegt áunnizt. Þetta getur verið aðferð til að venja fólk á að álykta per analogiam, þ.e.a.s.út frá samlíkingum. Huga þess er beint inn á ákveðna braut, t.d. með því að minna á atburði, ræður eða blaðaskrif. Þá er varpað fram spurningu og fólkið látið botna vísuna sjálft. Oft er það þá unnið, að fólkið er farið að taka undir sjálft með áróðurs­manninum og dæma andstæðinginn. Ef áheyrendur gefa annað svar í huganum en ætlazt hefur verið til, verður þeim enn minnistæðara svar áróðursmannsins og útlistanir en ella mundi. Fyrir bragðið verður áróðurinn áhrifaríkari en ef fluttur væri í beinni frásögn, án spurninga.
        Gerum ráð fyrir, að spurt væri t.d., hvaða maður það væri, sem hefði safnað að sér mönnum og krafizt af þeim hollustu, ella léti hann drepa hina beztu þeirra. Þeir hefðu látið kúgast að vísu, en hann hefði þó tekið sonu þeirra og nánustu vandamenn sem gísla til tryggingar .því, að þeir héldu trúnað við sig. Nú á tímum mundu áreiðanlega flestir svara, að þetta hafi verið Adolf Hitler, Quisling eða einhver slíkur. Menn mundu álykta út frá fréttum um atburði líðandi stundar. Það er mjög ólíklegt, að nokkur mundi svara, að þetta hefði getað verið Ólafur konungur Tryggvason, er hann kristnaði Þrændur. Gerum ráð fyrir, að spurt væri, hver það hefði verið, er sótti að stað einum og hafði m eð sér tignan gísl úr hópi óvinanna og boðaði þeim, að hann mundi hafa gísl þennan fremstan, svo að hann félli fyrstur fyrir skotunum, ef óvinurinn gæfist ekki upp. Sjálfsagt mundi svarið verða líkt og áður. Fæstir mundu hugsa til Jóns Arasonar, er hann sótti að Skálholtsstað með Martein biskup Einarsson sem gísl.
        Þessi dæmi eru tekin af handahófi til að sýna, hve hætt er við, að fólk álykti út frá samanburði, sem gerður er í skyndingu með hliðsjón af nærtækum dæmum, og hversu auðvelt er að leiða fólk út á villigötur í þessum efnum, ef áróðri er beitt til þess.
        Sköpunarhvötin er oft notuð sem farvegur fyrir áróður. Henni fylgir tilfinning um sköpunarmátt, sem ýtir undir sjálfshafninguna. Þetta vopn er t.d. mjög sterkt í þýzkum og rússneskum áróðri. Stórkostleg mannvirki verka sannfærandi á fjöldann, verkin beinlínis tala til hans. Þetta vopn er raunar notað alls staðar. T.d. gera allir stjórnmálaflokkar sér mikið far um að telja upp og minna á, hvað þeir hafi gert fyrir fólkið og hvað þeir ætli að gera. Dæmin eru nærtæk.
        Áróðursmenn leggja oft mikið kapp á að gera andstæðinga sína hlægilega, og þetta er með beittustu vopnunum. Sálfræðingar segja, að hláturinn sé hjálparráð, sem manninum einum sé gefið til þess ýmist að komast hjá að finna til skapraunar eða samúðar. Með því að vekja hlátur á kostnað andstæðingsins, kemur áróðursmaðurinn í veg fyrir, að málstaður andstæðingsins hljóti samúð áheyrenda, en í stað þess engist hann undir hlátrasköllunum með særða sjálfs­tilfinningu. En þetta vopn er nokkuð vandmeðfarið, því að svo getur farið, ef skotið er yfir markið, að áróðursmaðurinn uppskeri reiði og gremju eða verði að athlægi, en andstæðingurinn hljóti samúð áheyrenda.
        Sú eðlishvöt, sem er bezti bandamaður áróðursmannsins, er þó vafalaust hjarðhvötin. Áróðursmaðurinn stefnir að því að sannfæra fjöldann, og honum er mikill styrkur í þeirri breytingu, sem einstaklingurinn tekur, þegar hann er kominn á fjöldafund.
        Tilfinningar, hugsanir og athafnir mannhóps eru frábrugðnar því, sem er hjá hverjum einstaklingi í hópnum. Hópurinn er því nokkurs konar einstaklingur út af fyrir sig, samsettur að vísu, en með ákveðnum sérkennum.
        Hjarðhvötin er sú eðlishvöt, sem rekur mennina til að stofna samfélag, og bæði sjálfshafningarhvötin og sjálfslægingarhvötin, er skipta mönnum í foringja og fylgismenn, væru meiningarleysa og ekki til, ef menn lifðu sem einangraðir einstaklingar. Þar sem margir menn eru saman komnir, gætir þess mjög, að hver tekur eftir öðrum, bæði hvað snertir tilfinningar, hugsanir og athafnir. Tilfinningar hópsins mótast af samkennd, hugsanirnar af sefjun og athafn­irnar af eftiröpun. Ef eitt barnið í óvitahóp fer að orga, fara hin líka að orga, ef einn maður í miklum fjölda fer að góna beint upp í loftið, fara hinir að gera það líka.
        Allir áróðursmenn, lýðskrumarar, foringjar og mælskumenn allra tíma hafa stuðzt við þessa sérstöku eiginleika hópsálarinnar.
        Það, sem nú hefur verið sagt um áróður, hygg ég að gildi um allan áróður, hvar sem er, hvort sem er í lýðræðislöndum eða einræðislöndum. Áróður í einræðisríkjum er þó svæsnari og grimmilegri, enda hægara um vik, þar sem hann hefur bókstaflega öll menningartæki í þjónustu sinni, svo sem blöð, bækur, tímarit, útvarp, leikhús, kvikmyndir, hljómlist, málaralist, högg­myndalist og húsagerðarlist. Engin gagnrýni eða and-áróður kemst þar að. Áróðurinn er settur í fullkomið kerfi, og eftirlitskerfið er jafn fullkomið, en kúgun og lífláti beitt eftir þörfum.
        Áróðurinn í lýðræðisríkjunum er vægari, og gagnrýnin kemur þar að miklu haldi sem mótvægi. En eðli áróðursins er hið sama. Hann skírskotar til sömu frumstæðu hvatanna og leitast við að sannfæra fólk með tilfinningum, en ekki rökum fyrst og fremst.
        Áróður getur verið bæði beinn og óbeinn. Dæmi um beinan áróður eru nærtæk. Áróður Hitlers er eitthvert ljósasta dæmið.
        Óbeinn áróður er yfirleitt miklu skæðara vopn en beinn áróður, því að margir búast til andlegrar varnar, þegar reynt er að þröngva þeim til að trúa og til þess notaðar klunnalegar aðferðir. Þegar óbeinum aðferðum er beitt, hefur einstaklingurinn ekki vitund um, að verið sé að sefja hann. Honum finnst þvert á móti, að hann hafi sjálfur komizt að merkilegri niðurstöðu og finnur jafnvel talsvert til sín fyrir. Hann er þá líklegur til að leggja í aðra til að sannfæra þá, og vel geta andmæli þeirra orðið til þess að styrkja sannfæringu hans enn betur, því að honum finnst, að skoðunin sé einkauppgötvun hans sjálfs og andlegt afkvæmi.
        Sígilt dæmi, er lýsir aðdáanlega beitingu óbeins áróðurs og áhrifum hans, er ræða Antoníusar yfir líki Cæsars í leikriti Shakespeares.
        Banamaður Cæsars, Brútus, kemur inn á sviðið og er ákaft hylltur af lýðnum. Antoníus hefur mál sitt. Naumast mælir hann eitt styggðaryrði um Brútus, en lofar hann á hvert reipi. En hann leikur á tilfinningar fólksins á hinn breytilegasta hátt. Hann vekur hjá því viðkvæmni, aðdáun á Cæsar og afrekum hans, vekur forvitni þess og ágirnd með því að sínefna erfðaskrána. Hann vekur meðaumkun, hrylling og bræði með því að sýna sár Cæsars – „hina þöglu munna“, sem hann biður að tala fyrir sig.
        „Brennum Brútus inni!“ hrópar lýðurinn að lokum.
        Ég ætla að leyfa mér að lesa þessa ræðu Antoníusar í lauslegri þýðingu:

        „Vinir mínir, Rómverjar, landar mínir, hlustið á mig. Ég kem til þess að jarða Cæsar – ekki til þess að lofa hann.
        Hið illa, sem menn aðhafast, lifir eftir þá. En góðverk þeirra fara oft í gröfina með þeim. Látið svo fara um Cæsar. Göfugmennið Brútus sagði ykkur, að Cæsar hafi verið metorðagjarn. Hafi hann verið það, þá var það sorgleg misgerð, og Cæsar hefur tekið sorgleg gjöld fyrir. Ég kom hingað með leyfi Brútusar og hinna – því að Brútus er sæmdarmaður, og það eru hinir allir, allir sæmdarmenn – til þess að tala yfir moldum Cæsars. Hann var vinur minn, tryggur mér og rétt­látur við mig. En Brútus segir, að hann hafi verið metorðagjarn, og Brútus er sæmdarmaður. Hann flutti marga fanga heim til Rómar, og lausnargjald þeirra fyllti fjárhirzlur ríkisins. Virtist þetta verk Cæsars bera vitni um metorðagirnd hans? Þegar fátæklingarnir grétu, grét Cæsar líka. Met­orðagirndin ætti að vera úr harðara efni. En Brútus segir, að hann hafi verið metorðagjarn, og Brútus er sæmdarmaður. Þið sáuð allir, að á Lúpercatshátíðinni bauð ég honum konungskórónu þrisvar – og hann neitaði henni þrisvar. Var þetta metorðagirnd? En þó segir Brútus, að hann hafi verið metorðagjarn, og vissulega er Brútus heiðursmaður. Ég tala ekki hér til þess að ósanna orð Brútusar, heldur er ég hér til þess að tala um það, sem ég veit. Einu sinni unnuð þið honum allir og ekki að ástæðulausu. Hvaða ástæða bannar ykkur þá að syrgja hann? Ó, dómgreind, þú ert flúin til skynlausra dýranna, og mennirnir hafa misst vitið. Sýnið mér umburðarlyndi. Hjarta mitt er í kistunni hjá Cæsari, og ég verð að bíða unz það kemur til mín aftur.
        Það er ekki lengra síðan en í gær, að orð Cæsars hefðu getað boðið öllum heiminum byrginn; nú liggur hann þarna og enginn svo fátækur, að sýni honum lotningu.
        Ó, þið góðu menn, ef ég girntist að æsa upp hugi ykkar og hjörtu til uppreisnar og ofsa, þá mundi ég gera Brútusi rangt til, Cassíusi rangt til, sem þið allir vitið, að eru heiðursmenn. Ég vil heldur gera hinum látna rangt, gera sjálfum mér rangt og ykkur líka en að gera öðrum eins heiðursmönnum rangt til. En hér er pergamentsskjal með innsigli Cæsars, ég fann það í einka­herbergi hans; það er erfðaskrá hans. Ef alþýðan aðeins heyrði erfðaskrána – en þið afsakið, að ég ætla ekki að lesa hana – þá mundi hún fara og kyssa sár Cæsars látins, dýfa klútum sínum í hið heilaga blóð hans. Já, þeir mundu meira að segja biðja um hár af höfði honum til minningar og á banasænginni geta þess í erfðaskrám sínum og ánefna afkvæmum sínum sem dýrmæta dánargjöf.
        Verið þolinmóðir, góðu vinir. Ég má ekki lesa erfðaskrána, það er ekki rétt, að þið fáið að vita, hve mjög Cæsar unni ykkur. Þið eruð ekki trémenn, ekki gerðir úr steini; – þið eru menn. Og af því að þið eruð menn, munduð þið æsast upp og verða óðir, ef þið heyrðuð erfðaskrána. Það er gott, að þið vitið ekki, að þið eruð erfingjar hans; því að – ó, hvað mundi þá verða, ef þið vissuð það?
        Svo að þið ætlið þá að neyða mig til að lesa erfðaskrána? Sláið þá hring um lík Cæsars, og ég ætla að sýna ykkur manninn, sem gerði erfðaskrána. Á ég að koma niður? Viljið þið veita mér leyfi til þess?
        Ef þið eigið nokkur tár til, þá búizt nú til að gráta þeim. Þið þekkið allir skikkju Cæsars. Ég man, þegar hann bar hana í fyrsta sinn. Það var eitt sumarkvöld í tjaldi hans. Þann dag sigraðist hann á Nervum.
        Sko! Hér fór rýtingur Cassíusar í gegn, sjáið þið rifuna, sem hinn illgjarni Casca gerði. Í gegnum þessa stungu rak Brútus, ástvinur Cæsars, rýting sinn, og þegar hann dró bölvaðan kutann úr sárinu, sjáið þið, hvernig blóð Cæsars elti hann, rétt eins og það rynni út til þess að ganga úr skugga um, hvort það væri Brútus, sem barði svona óvingjarnlega að dyrum. Því að þið vitið, að Brútus var engill í augum Cæsars. Dæmið þið, guðir, hve heitt Cæsar unni honum. Þetta var allra óvinveittasta stungan, því að þegar hinn göfuglyndi Cæsar sá hann reka í sig rýtinginn, þá varð honum vanþakklætið sterkara en vopn drottinssvikanna og gersigraði hann. Þá sprakk hið mikla hjarta hans, og með skikkjuna sveipaða um andlit sér féll hinn voldugi Cæsar rétt við fótstallinn undir líkneski Pompejusar, sem blóðlækur rann um alla stund. Ó, hvílíkt fall, kæru landar! Þá féll ég og þið – og allir féllum við niður, en blóðþyrstir drottinssvikararnir sveifluðu sverðum yfir okkur.
        Ó, nú grátið þig, og ég sé, að þið finnið mátt meðaumkunarinnar. Þetta eru dýrmætir dropar (c: tárin). Góðir drengir! Hvað er þetta! Eruð þið að gráta, þótt þið sjáið ekki annað en skorna skikkju Cæsars? Sjáið hérna. Hér er hann sjálfur, sundur tættur af drottinssvikurum, eins og þið sjáið.
        Góðir vinir, kæru vinir, ég ætla ekki að æsa ykkur upp í neinn ógnar ofsa. Þeir, sem hafa unnið þetta verk, eru heiðursmenn. Ég veit því miður ekki, hvaða einkaástæður þeir hafa haft, sem knúðu þá til þess að gera þetta. Þeir eru vitrir og vandaðir menn og munu vafalaust svara ykkur með rökum. Ég er ekki hingað kominn, vinir mínir, til þess að stela hjörtum ykkar. Ég er ekki mælskumaður eins og Brútus. Ég er, eins og þið allir vitið, blátt áfram og berorður maður, sem elska vin minn, og það vissu þeir vel, sem leyfðu mér að tala hér opinberlega um hann. Því að hvorki hef ég ritaða ræðu, orðgnótt né verðleika, aðburði, gott ræðusnið né mælskuþrótt til þess að æsa menn upp. Ég tala einungis blátt áfram. Ég segi ykkur það eitt, sem þið vitið sjálfir; ég sýni ykkur sár hins ljúfa Cæsars, vesalings, vesalings þögla munna og bið þá að tala fyrir mig. En ef ég væri Brútus og Brútus væri Antoníus, þá væri hér sá Antoníus, sem róti gæti komið á hugi ykkar og gætt hvert sár Cæsars talandi tungu, sem hræra skyldi steina Rómaborgar til þess að rísa upp til mótþróa.
        Hvað er nú, vinir, þið farið og gerið eitthvað, sem þið vitið ekki hvað er. Með hverju hefur Cæsar verðskuldað ást ykkar? Ó, þið vitið það ekki. – Ég verð þá að segja ykkur það. Þið hafið gleymt erfðaskránni, sem ég sagði ykkur frá.
        Hér er þá erfðaskráin og undir henni innsigli Cæsars.
        Hverjum rómverskum borgara gefur hann, hverjum einstökum manni, 75 drökmur.
        Auk þess hefur hann arfleitt ykkur að skógargötum sínum, laufskálum og hinum nýju aldingörðum sínum hérna megin Tíberárinnar; hann hefur arfleitt ykkur að þessu og erfingja ykkar um aldir alda: almennings skemmtistaðir, sem þið megið nú ganga um ykkur til hressingar.
        Hér var Cæsar. Hvenær mun koma annar slíkur?“

*

        Ég minntist áðan á áróðursaðferðir Hitlers. Óþarft mun að skýra þær með dæmum, en ekki er úr vegi að rifja upp siðareglur hans varðandi áróður, eins og þær birtast í 6. kafla bókar hans, Mein Kampf.
        Efnislega eru helstu reglurnar þessar:
        1. Vertu aldrei hlutlægur (objektiv). Segðu aldrei neitt gott um andstæðing, aldrei neitt illt um skoðanabræður þína. Málaðu svart og hvítt.
        Hvað yrði sagt um sápuauglýsingu, sem léti þess getið, að aðrar sáputegundir væru góðar? Maður mundi hrista höfuðið. Á sama hátt er þessu farið með alla pólitíska auglýsingarstarfsemi.
        Hlutverk árðóðurs er ekki að meta, hvað sé rétt og hvað rangt, en einungis að leggja áherzlu á, að rétturinn sé allur þess flokks, sem maður fylgir að málum. Í áróðri á ekki að leggja fram sannleikann á hlutlægan hátt, svo fremi það geti orðið andstæðingnum að nokkru liði. Ekki á heldur að bera sannleikann á borð fyrir fjöldann með fullri hreinskilni.
        Um það eitt á að hugsa, hvernig maður geti bezt komið ár sinni fyrir borð.
        Það væri meginfirra að minnast þannig á orsakir heimsstyrjaldarinnar (fyrri), að svo gæti virzt sem Þýzkaland ætti þar nokkra sök. Umsvifalaust ber að velta sakarbyrðinni yfir á andstæðinginn, jafnvel þótt það sé ekki í samræmi við staðreyndir.
        2. Áróðurinn ber ætíð að miða við þá áheyrendur, sem sízt eru dómbærir, því að þeir eru jafn­an í meiri hluta. Því fleiri sem hlusta á, þeim mun lægra ber að leggjast í áróðrinum.
        3. Áróðurinn á ætíð að skírskota til framstæðra kennda og hvata, aldrei til vitsmunanna.
        4. Maður á að láta sér nægja fáein aðalatriði og „slagorð“, sem endurtekin eru sí og æ. Endurtekningin er mikilvægust af öllu.
        Þetta eru í stuttu máli meginreglur Adolfs Hitlers um áróður, og það er óþarft að taka fram, að hann hefur yfirleitt ekki brugðið mikið út af þeim. Hann segir á öðrum stað í bók sinni, að þýzka þjóðin hafi ekki hugmynd um, hvernig afvegaleiða verði þjóð, ef maður ætli sér að vinna fylgi fjöldans.
        Mönnum blöskrar ef til vill þessi hugsanaferill, og Hitler er ekki einn um hann. Rússneskur siðfræðiheimspekingur, Preobrasjenski, hefur komizt þannig að orði: „Lygi og svik eru oft mikilvæg vopn í baráttu hinna arðrændu stétta við fjendur sína … Það er allt annað að strá ryki í augun á óvini sínum en að reyna að leika á stríðsbróður sinn eða félaga.“
        Þetta er gamla sagan um, að tilgangurinn helgi meðalið. Í sjálfu sér er lofsverðara, að játað sé hreinskilnislega, að engin vopn séu svo ódrengileg, að ekki megi nota , heldur en hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar og afneita hennar krafti, berja sér á brjóst, hneykslast yfir prettum, blekkingum, rógi og lygi, en nota þó öll þessi vopn og þykjast vera heiðvirður og meta sann­leikann mest allra dyggða.
        Óvandaður áróður, afskræming staðreynda, ósannindi og blekkingar, hálfsagður sannleikur, þögn um mikilvægar staðreyndir er orðið svo algengt nú á dögum, einnig í lýðræðislöndum, einnig hér, að mikil hætta er á ferðum. Reynt er að sannfæra fjöldann með tillfinningum, sem eru hið frumstæða útrásarform eðlishvatanna, en miklu síður með hlutlægum rökum, sem skírskota til óháðrar dómgreindar og hins æðra vitsmunalífs, sem manninum er gefið og greinir hann frá dýrunum. Að vísu er það bót í máli, að óvandaður áróður, ósannindi og blekkingar koma þeim, er þessu beita, oft óþægilega í koll. Fólk vill vita sannleikann, og allar þessar óvönduðu aðferðir heppnast aðeins að svo miklu leyti sem fólk trúir því, að það fái að vita það, sem er satt og rétt. Ef það uppgötvar óheilindin, snýst það gegn þeim, er blekktu það.
        En menn eru oft í hinum mesta vanda með að gera upp við sig, hvað sé satt og rétt í einhverju máli, um einhvern mann, um einhvern flokk, um eitthvert ríki, þótt þeir séu allir af vilja gerðir.Frásagnir blaða, bóka og útvarpsstöðva eru oft svo sundurleitar, að menn hrista höfuðið og vita ekkert, hverju þeir mega trúa. Hægt væri að sýna með mörgum dæmum, hve margt ber oft á milli í frásögnum íslenzkra blaða af mönnum og málefnum. Það skal ekki gert hér, enda geta allir sannfærzt um þetta með því að gera samanburð. En einmitt þetta, að mönnum er oft á tíðum gert næsta ókleift að mynda sér óhlutdrægar skoðanir með því að beita óháðri dómgreind sinni, stuðlar mjög að því, að þeir verða leiksoppar í höndum óhlutvandra áróðursmanna. Þegar svo er og rekin er skipulögð starfsemi til að móta skoðanir manna á þennan hátt með tilfinningum einum, er ekki hægt að tala um lýðræði. Slyngustu áróðursmennirnir ráða með því að styðjast við hvers konar hleypidóma og múgsefjun, er þeir koma af stað með margvíslegri sálfræðilegri og verklegri tækni.
        Og almenningur er ekki miklu betur settur en leikhússgestirnir í Parísarborg fyrir rúmlega hundrað árum, þegar Société d´Assurance de Succés dramatique tók að sér að steypa þá upp í móti sínu.
        Eins og nú standa sakir, eru áróðursmennirnir mestu ráðandi á leiksviðinu víða um heim. Það er mikils um vert, að almenningur geri sér þetta ljóst og fái opin augun fyrir því, hve oft hann er blekktur, hvaða ráðum er beitt til þess og hversu sárt maðurinn er oft leikinn sem vitsmuna­vera. Full nauðsyn væri á því, að kennsla væri veitt í því, hversu helzt mætti forðast vélabrögð áróðurs, því að hann ógnar nú svo mjög sannri þekkingu og leitinni að henni.

Inngangur ritstjóra að Hug 2011

Niður með náttúruna
nördum er því fremur ofaukið.
Hvern skyldi skyrmisferli gruna
er skimar yfir þvílíkt lið.

Niður með náttúruna
náinn hefur hún margfaldað.
Hennar ljóta lasta runa
er lengri en svo að verði tíundað.

Heimspekingar eru stundum spurðir álits á samtímaviðburðum, áhrifum þeirra og þýðingu. Merk­ustu viðburðirnir eiga það gjarnan sammerkt að þeim hafa verið gerð góð skil í sjónvarpi. Áhrif þeirra hafa jafnvel staðið í beinum tengslum við endursýningar þeirra. Sjónvarpið getur einnig sjálft framleitt atvik sem breyta sjónarhorni áhorfenda til frambúðar. Þarf þá ekki merka viðburði til. Dæmi um slíkt atvik eru játningar breska sjónvarpsmannsins Stephens Fry fyrir nokkrum misserum. Við gerð náttúrulífsþáttar sem hann hafði umsjón með varð hann fyrir því óláni að þurfa að sofa í tjaldi úti í guðsgrænni náttúrunni. Upplifun hans af þeirri raun sem hann taldi sig ganga í gegnum vegna þessa var slík að hún hafði varanleg áhrif á alla hugsun mína um mann og náttúru. Lýsing Frys á þeirri þolraun að þurfa að hlusta á brimgný Indlandshafsins á aðra hönd og „háværasta frumskóg heims“ á hina var að sönnu átakanleg. Honum varð svo mikið um að hann taldi upp „wife“ meðal þess sem hann saknaði mest þá stundina, þegar hann meinti augljóslega „Wi-Fi“.
    Sú skoðun að maðurinn standi andspænis náttúrunni og að sá hluti hennar sem búi innra með honum teljist vart til mennsku hans á sér býsna langa sögu innan vestrænnar heimspeki. Stund­um er þessari skoðun lýst sem „tvíhyggju“. Sú lýsing er svo sem ekki alltaf nákvæm. Tvíhyggja getur verið margs konar. Yfirleitt snýst hún þó um að eitthvað sem við kennum frekar við hugar­starfsemi (hugtök, huglægir eiginleikar, sálin) er talið eðlisólíkt því sem við sjáum í kringum (og raunar stundum á og í) okkur og kennum við „náttúruleg“ fyrirbæri. Vinsældir tvíhyggju hafa hins vegar farið þverrandi í heimspeki samtímans. Kenningar sem byggja á fjöleðli veruleikans og stífri flokkunaráráttu eiga í vök að verjast fyrir heildstæðari nálgunum. Heimspekin sjálf er þó verr haldin af tvíeðli en margar aðrar greinar. Innan fræðasamfélagsins reynir hún bæði að vera milda móðirin og ólátabelgurinn sem brýtur allar reglur. Hún reynir að kenna öðrum vísindum hvernig á að hugsa en um leið telur hún sig vera hafna yfir þröngar skorður fræðilegra hefða. Hún heldur utan um rammann og reynir um leið að komast út fyrir hann.
    Sigríður Þorgeirsdóttir hefur á undanförnum árum skapað sér nokkra sérstöðu meðal íslenskra heimspekinga með því að sameina öguð fræðileg vinnubrögð tilraunum til þess að spenna út mörk heimspekilegra rannsókna á nýstárlegan hátt. Í þessu hefti Hugar er birt áhuga­vert viðtal við Sigríði þar sem hún segir meðal annars frá því hversu undarlegt það sé að spyrja einhvern sem leggur stund á heimspeki hvað hann eða hún ætli sér að gera við heimspekina; nær væri að spyrja hvað heimspekin muni gera við viðkomandi. En eins og lesendur viðtalsins munu skjótt gera sér grein fyrir er Sigríður löngu orðin virkur þátttakandi í sambandinu milli hennar sjálfrar og þessarar fræðigreinar sem hún tók svo miklu ástfóstri við. Alþjóðlegi jafnréttis­skólinn GEST og Edda, öndvegissetur í gagnrýnum samtímarannsóknum, eru dæmi um nýjar víddir í rannsóknastarfi og kennslu við Háskóla Íslands og hefur Sigríður unnið mikilvægt og ómælt starf til þess að gera þær að veruleika. Ásamt þessu frumkvöðlastarfi hefur hún einnig birt fjölda greina og bókarkafla um heimspeki sem eftir hefur verið tekið á alþjóðlegum vettvangi. Það var því mikið gleðiefni að hún féllst á viðtalið sem Kristian Guttesen, meistaranemi í heimspeki, tók við hana á sumarmánuðum.
    Forveri minn í stól ritstjóra Hugar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, segir frá því í inngangi sínum að 21. hefti tímaritsins að hún hafi í grunnnámi sínu við Háskóla Íslands aldrei setið tíma hjá kven­kyns kennara. Ég sat eina málstofu sem Sigríður kenndi undir lok náms míns við Háskóla Ís­lands. Vissulega voru það mikil viðbrigði að sitja tíma hjá kvenmanni, en mér er þó minnistæðast hversu sterk áhrif sérstök sýn Sigríðar á heimspekina hafði á mig. Málstofan nefndist „Heimspeki og/eða frumspeki“ og í henni lásum við Sygdommen til Døden eftir Kierkegaard og „Was ist Metaphysik?“ eftir Heidegger. Í tilefni af viðtalinu við Sigríði vildi ég birta íslenskar þýðingar þessara texta. Verk Kierkegaards er auðvitað töluvert að vöxtum og því læt ég duga að birta íslenska þýðingu á formála, inngangi og upphafi fyrsta kafla verksins, en ritgerð Heideggers er birt í heild sinni. Þýðing Magnúsar D. Baldurssonar á henni hefur lengi gengið manna á milli í handriti og er það sérstakt tilhlökkunarefni að geta loksins komið henni á prent með góðfúslegu leyfi Klostermann-útgáfunnar. Sjálfur er ég ákaflega þakklátur fyrir að hafa kynnst frumspekilegri sýn þessara tveggja heimspekinga áður en ég hélt út í framhaldsnám. Áhrif þeirra eru ekki bein í heimspekirannsóknum mínum, en það er geysilega mikilvægt að hafa tilfinningu fyrir því hvernig frumspekin er samofin grundvallargeðshræringum tilvistar okkar. Frumspekileg hugtök eins og „nauðsyn“ og „möguleiki“ byggja ekki einungis á röklegum grunni.
    Þema heftisins sameinar tvo þætti sem ég tengi hvað skýrast við heimspeki Sigríðar: frumspeki og náttúru. Þemað er sem sagt frumspekileg vídd náttúruhugtaksins. Á undanförnum árum hefur umræða um siðferðilega vídd hugtaksins loksins náð einhverju flugi á Íslandi. Þetta hefti er tilraun til þess að vekja annars konar umræðu þar sem náttúruhugtakið einskorðast ekki við hlutverk sitt sem einhvers konar samheiti við „umhverfi“. Hugtakið er margrætt og viðhorf okkar til náttúrunnar mótast af þessari margræðni ekki síður en þeirri birtingarmynd sem hún getur tekið á sig og er svo vel lýst í texta Megasar sem skreytir þessi inngangsorð. Á Hugvísindaþingi 2011 var haldin málstofa sem helguð var þemanu þar sem „náttúran öll og eðli manns“ voru rædd. Í málstofunni lagði ritstjóri til nokkrar hugmyndir sem hér koma saman sem inngangur að þemagreinunum. Þar koma fram efasemdir um að hægt sé að ræða um náttúru sem fyrirbæri sem standi andspænis manninum. Jafnvel í vísindabyltingu sautjándu aldar virðist sem fáir heimspekingar hafi raunverulega talið að natura eða eðli veruleikans sé eitthvað sem við upp­götvum og skilgreinum sem andstæðu hins mannlega.
    Greinarnar sem tilheyra þemanu spanna eins vítt svið og mögulegt var að vonast eftir. Björn Þorsteinsson ríður á vaðið með grein sem kryfur samband manns og náttúru í félagi við kunna grein Páls Skúlasonar „Hugleiðingar við Öskju“. Björn kallar einnig til liðs við sig ekki ómerkari hugsuði en Hegel, Lacan og Žižek til þess að takast á við spurninguna hvort náttúran þurfi að minna á vél þótt hún fylgi einhverjum reglum. Eyja Margrét Brynjarsdóttir kafar djúpt ofan í eðli verufræðinnar sjálfrar og spyr hvort aðferðir náttúru- eða tilraunavísinda eigi við innan greinar­innar. Styðst hún við tvö áhugaverð dæmi í rannsókn sinni. Margar siðfræðikenningar sem vísa til náttúrunnar byggja lauslega á hinu forna stóulögmáli um að maðurinn eigi að lifa í samræmi við náttúruna. Svavar Hrafn Svavarsson skrifar ítarlega grein um þetta lögmál og þær flóknu myndir sem siðfræði stóumanna tekur á sig. Róbert Jack ræðir í sinni grein aðra vídd náttúruhugtaksins eins og það tengist mannlegu eðli í heimspeki fornaldar þegar hann veltir upp áhugaverðri túlkun á svokölluðum „ástarstiga“ Platons. Róbert bendir á að sú leið sem stiginn táknar til æðstu náttúru mannsins byggi á svipaðri sýn til mannlegs þroska og finna má í sálfræði samtímans. Síðasta þemagreinin er ávöxtur samstarfs Sigríðar Þorgeirsdóttur og Guðbjargar R. Jóhannes­dóttur þar sem þær ræða fegurð náttúrunnar og náttúrulega fegurð á áleitinn hátt. Í grein sinni sýna þær fram á hvernig náttúrufegurð krefur okkur um að láta af þröngri sýn á einstaklingseðlið og opna okkur fyrir stund fegurðarinnar þegar skilin milli mannsins og náttúrunnar mást út.

Niður með náttúruna
Neðar neðst og dýpst
Þar sem öskrin djöfla duna
Og dásemd guðs aldrei þrífst

Niður með náttúruna
Nógu sé dýflyssandi hennar lægð
Fyrir goselda og gaddabruna
Grið fái hún engin né vægð

    Ef eitthvert eitt heimspekilegt hugtak hefur verið áberandi á árinu 2011 þá er það „gagnrýnin hugsun“. Tvær ráðstefnur hafa verið haldnar í Háskóla Íslands um gagnrýna hugsun og kennslu hennar og þrjár stofnanir innan Háskólans hafa nú tekið höndum saman og hrundið af stað verkefni sem snýr að eflingu kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Ein niðurstaða þeirrar vinnu er vefurinn www.gagnryninhugsun.hi.is, sem hefur vakið nokkra athygli undanfarið. Umræða um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar hófst þó hvorki í ár né í kjölfar at­burðanna fyrir þremur árum. Í raun má segja að á Íslandi hafi myndast sérstök hefð um gagnrýna hugsun. Sú hefð hefur verið að þróast síðan Páll Skúlason ritaði greinina „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ á seinni hluta níunda áratugs síðustu aldar. Íslenska hefðin er sem sagt nokkuð frábrugðin því sem kennt er við Critical Thinking í enskumælandi löndum svo dæmi sé tekið. Þegar vísað er til „hefðar“ í þessu samhengi er auðvitað ekki verið að vísa til þess að íslenskir heimspekingar séu sammála um allt það sem viðkemur gagnrýninni hugsun. Ólafur Páll Jónsson passar vel inn í þessa íslensku hefð en hefur jafnframt skapað sér ákveðna sérstöðu í umræðunni. Í grein sinni „Hugsandi manneskjur“, sem er eina sjálfstæða heimspeki­ritgerðin sem birtist í þessu hefti sem tengist ekki þemanu, ræðir Ólafur Páll á skemmtilegan hátt hvernig gagnrýnin hugsun og kennsla hennar getur ekki aðeins snúist um óhlutbundnar reglur. Gagnrýnin hugsun, sú hugsun sem beinist að öllum hliðum hvers máls, verður einnig að byggja á þáttum sem felast í skynjun okkar og tilfinningalífi.
    Ólafur Páll hefði þó áreiðanlega haft sitt hvað fram að færa um þemað. Bók hans Náttúra, vald og verðmæti, sem kom út árið 2007, er eitt öflugasta innlegg í umræðuna um málefni náttúrunnar sem gefið hefur verið út á íslensku og er gott dæmi um hvernig umræðan um umhverfismál á Íslandi hefur þroskast á síðustu árum. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar ritdóm um bókina en Guðbjörg hefur sjálf verið í fararbroddi þessarar umræðu. Nokkrir aðrir ritdómar birtast einnig í heftinu. Erla Karlsdóttir skrifar um eitt áhugaverðasta verkefni Sigríðar Þorgeirsdóttur á síðustu árum, verkið Birth, Death and Feminity. Philosophies of Embodiment, sem hún vann ásamt þeim Söru Heinämaa, Robin May Schott og Vigdis Songe-Møller. Egill Arnarson skrifar um greinasafn Jóns Ólafssonar Andóf, ágreiningur og áróður þar sem möguleikar heimspekinnar til þátttöku í umræðu samtímans eru greindir. Einnig eru birtir ritdómar um tvö nýleg verk sem Heimspeki­stofnun hefur gefið út. Róbert Jack fjallar um Tíma heimspekinnar í framhaldsskólum eftir Kristínu Hildi Sætran og Jakob Guðmundur Rúnarsson gagnrýnir Í sátt við óvissuna. Bók um efahyggju og heimspekilega þekkingarfræði eftir Atla Harðarson.
    Að lokum vill ritstjóri nefna nokkur atriði sem sitja í honum í kjölfar vinnunnar við heftið. Í fyrsta lagi má rifja upp þá augljósu staðreynd að Hugur er fræðitímarit. Slík tímarit byggja fyrst og fremst á tvennu: að fá fólk til að ritrýna og að fólk sætti sig við ritrýni. Mér er bæði ljúft og skylt að þakka því fólki sem tók að sér ritrýni fyrir þetta hefti fyrir þá ágætu vinnu sem það innti af hendi. Það er von mín að fræðimenn haldi áfram að taka að sér það vanþakkláta starf á komandi árum. Vönduð ritrýni er ein mikilvægasta forsenda fræðilegrar heimspekilegrar umræðu á Íslandi. Einnig þakka ég þeim höfundum sem eiga greinar í heftinu fyrir samstarfið. Hér var byrjað á að ræða þá þörf heimspekinnar að brjóta af sér hlekki greinarinnar. Ég vona að við getum öll verið sammála um að hvernig svo sem heimspeki mun þróast á næstu árum og áratugum þá muni krafan um að ritrýndar greinar í Hug innihaldi þaulhugsaðar, málefnalegar rökfærslur af heimspekilegum toga vera áfram í heiðri höfð.

Henry Alexander Henrysson

Skipulagsrökin

eftir Ben Dupré

Litist um í veröldinni: Skoðið heildina og alla hluta hennar, og þið munuð komast að raun um að hún er ekkert annað en risavaxin vél sem greinist í óendanlegan fjölda smærri véla sem aftur greinast á sama hátt, út fyrir mörk mannlegrar skynjunar og sálargáfna. Allar þessar margvíslegu vélar, og jafnvel smæstu hlutar þeirra, eru samstilltar með þvílíkri nákvæmni að allir, sem á annað borð hafa virt þær fyrir sér, hrífast til aðdáunar. Furðuleg samhæfing markmiða og leiða í gervallri náttúrunni líkist nákvæmlega mannaverkum sem sprottin eru af ásetningi, hugsun, visku og viti þótt hún taki þeim langt fram. Úr því afleiðingarnar líkjast hver annarri hljótum við að álykta eftir öllum líkingareglum að orsakirnar séu einnig svipaðar og höfundur náttúrunnar sé áþekkur manns­andanum, enda þótt hann sé gæddur langtum stórbrotnari sálargáfum í hlutfalli við mikilleika þess verks sem hann hefur unnið. Með þessum reynslurökum, og þeim einum saman, gerum við hvort tveggja: að sanna tilvist guðdóms og líkingu hans við mannsanda og mannvit.

Þessa gagnorðu framsetningu skipulagsrakanna fyrir tilvist Guðs leggur David Hume í munn formælanda þeirra Kleanþesar í bókinni Samræður um trúarbrögðin (Dialogues Concerning Natural Religion) sem kom út að honum látnum árið 1779.1 Ætlun Humes var að setja rökin fram í þeim tilgangi að hrekja þau – og flestir telja að honum hafi tekist með ágætum að rífa þau í tætlur. En það er til marks um varanleika og aðdráttarafl þessara raka að þau lifðu ekki aðeins af niðursöllun Humes heldur hafa þau haldið áfram að skjóta upp kollinum í breyttum búningi til þessa dags. Þótt áhrif þeirra hafi kannski verið í hámarki á 18. öld er hægt að rekja upphaf þeirra aftur til fornaldar og þau hafa reyndar aldrei farið úr tísku.

Hvernig rökin virka.

Ævarandi styrkur skipulagsrakanna byggist á því áhrifamikla og almenna innsæi að fegurð, skipulag, margslungin gerð og að því er virðist tilgangur í heiminum kringum okkur geti einfaldlega ekki verið afurðir tilviljunarkenndra og hugsunarlausra náttúruferla.2 Mönnum finnst að það hljóti að vera til einhver gerandi sem er gæddur óhugsanlega miklum vitsmunum og færni sem þarf til að skipuleggja og búa til öll dásamlegu fyrirbærin í náttúrunni. Þau eru svo afbragðsvel upphugsuð og hönnuð til að gegna hinum margvíslegu hlutverkum sínum. Tökum mannsaugað sem dæmi: Það er svo flókin smíð og furðulega vel lagað að tilgangi sínum að það hlýtur að hafa verið hannað til þess.

Rökfærslan byrjar með því að telja upp nokkur eftirlætisdæmi um slíka (að því er virðist) hugvitssemi í náttúrunni og heldur venjulega áfram með því að benda á hliðstæðu við smíðisgripi manna sem sýna greinilega merki uppruna síns. Þannig að rétt eins og úr, svo dæmi sé tekið, er listilega hannað og smíðað í ákveðnum tilgangi og fær okkur til að álykta um tilvist úrsmiðs, þannig fá hin óteljandi merki um, að því er virðist, ætlun og tilgang í náttúrunni okkur til að álykta að hér sé líka hönnuður að verki: arkitekt fær um að skipuleggja og hanna undur alheimsins. Og eini hönnuðurinn með afl til að ráða við slíkt verkefni er Guð.

Gallar á hönnun.

Þrátt fyrir varanlegt aðdráttarafl skipulagsrakanna hafa komið fram nokkrar alvarlegar mótbárur gegn þeim, frá Hume og öðrum. Eftirfarandi mótbárur eru meðal hinna skæðari.

Rökfærsla út frá hliðstæðu gengur út á að halda því fram að séu tveir hlutir nægilega líkir í ákveðnum þekktum atriðum þá sé réttlætanlegt að gera ráð fyrir að þeir líkist einnig í öðrum, óþekktum atriðum. Menn og sjimpansar eru nægilega líkir lífeðlis- og atferlislega svo að gera má ráð fyrir að þeir, líkt og við, finni til sársauka, svo dæmi sé tekið (þó við getum aldrei vitað það með vissu). Styrkur hliðstæðurökfærslu ræðst af því hve mikil líking sem máli skiptir er milli hlutanna sem bornir eru saman. En líkingaratriðin milli smíðisgripa manna (t.d. myndavéla) og náttúrlegra hluta (t.d. augna í spendýrum) eru í raun tiltölulega fá, svo að allar niðurstöður sem við komumst að með hliðstæðu­rökum eru haldlitlar í samræmi við það.

Skipulagsrökin virðast berskjölduð fyrir vítarunu. Ef hin undursamlega fegurð og skipulag alheimsins þarfnast hönnuðar, hve miklu frekar þarfnast hans þá ekki þessi undraheimur og arkitektinn á bak við þetta allt? Ef við þurfum hönnuð lítur út fyrir að við þurfum yfirhönnuð og síðan yfir-yfirhönnuð og svo koll af kolli.

Það sem helst mælir með skipulagsrökunum er að þau útskýra hvernig náttúruundur eins og manns­augað verða til og virka svo vel. En það eru einmitt slík undur og hæfni þeirra til að gegna ákveðnu hlutverki sem hægt er að útskýra með kenningu Darwins um þróun með náttúruvali, án nokkurra yfirnáttúrlegra afskipta vitiborins hönnuðar. Guðlegi úrsmiðurinn virðist hafa misst vinnu sína til blinda úrsmiðsins.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að skipulagsrökin hafi verið samþykkt þá eru takmörk fyrir því hve mikið hefur í raun og veru verið viðurkennt. Margir „smíðisgripir“ náttúrunnar kynnu að benda til þess að þeir hafi verið hannaðir af nefnd svo að við gætum þurft teymi guða, og við erum áreiðanlega ekki takmörkuð við eitt. Næstum því allir náttúrugripir, hversu mikilfenglegir sem þeir eru almennt, eru ekki alfullkomnir í einstökum atriðum. Bendir ekki gölluð hönnun til gallaðs (ekki-almáttugs) hönnuðar? Almennt séð gerir hið mikla böl í heiminum siðferði skapara hans tortryggilegt. Og vitaskuld er engin knýjandi ástæða til að ætla að hönnuðurinn, hversu gott verk sem hann vann, sé enn á lífi.

Guðlegi úrsmiðurinn og sá blindi.

Í bók sinni Náttúrleg guðfræði frá 1802 setti guðfræðingurinn William Paley fram eina frægustu út­listun á skipulagsrökunum. Ef svo vildi til að maður fyndi úti í óbyggðum armbands- eða vasaúr mundi hann óhjákvæmilega álykta af hinni flóknu gerð og nákvæmni smíðinnar að það hlyti að vera handaverk úrsmiðs. Á sama hátt er maður, þegar hann skoðar hin undursamlegu verk náttúrunnar, knúinn til að álykta að þau hljóti líka eiga sér skapara – Guð. Með vísun til hinnar myndrænu líkingar Paleys lýsir breski líffræðingurinn Richard Dawkins náttúruvalsferlinu sem „blindum úrsmið“ vegna þess að það mótar í blindni hinar flóknu formgerðir náttúrunnar án nokkurrar framsýni, tilgangs eða stefnu.3

Fínstilling í alheimi.

Sum nútímaafbrigði af skipulagsrökunum byggja á því hve afar ólíklegt er að öll skilyrðin í alheimi hafi verið nákvæmlega eins og þau urðu að vera til þess að líf gæti þróast og dafnað. Hefðu einhverjar af hinum mörgu breytum, svo sem þyngdarkrafturinn og upphaflegur hiti alheimsins sem var að þenjast út, verið örlítið öðruvísi mundi líf ekki hafa myndast. Í stuttu máli virðist vera vísbending um svo nákvæma fínstillingu alheimsins, að gera verði ráð fyrir að hún sé verk ákaflega máttugs fínstillara. En ólíklegir hlutir gerast. Það er ótrúlega ólíklegt að maður fái gríðarstóran happdrættisvinning en það er mögulegt, og fengi maður vinninginn mundi hann ekki telja að einhver hefði hagrætt útkomunni honum í hag – hann mundi þakka hana óvenjulegri heppni. Það kann vel að vera ólíklegt að líf þróaðist, en það er aðeins vegna þess að það gerðist að við erum hér til að hafa orð á því hve ólíklegt það var – og til að draga rangar ályktanir af hve ólíklegt var að það gerðist!4

Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Þessi bók kom út í íslenskri þýðingu undirritaðs árið 1972 (önnur útg. 2002) sem Lærdómsrit hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Strangt tekið ætti hún að heita Samræður um náttúrleg trúarbrögð.

2. Skipulagsrökin (e. the argument from design) eru einnig þekkt undir heitinu tilgangsrökin (e. the teleological argument). ‘Teleological’ er leitt af gríska orðinu telos sem merkir ‘markmið’ eða ‘til­gangur’ vegna þess að hugmyndin sem liggur rökunum til grundvallar er að tilgangurinn sem við (að því er virðist) uppgötvum í starfsemi náttúrunnar sé vísbending um markvissan geranda sem ber ábyrgð á henni.

3. Bók Dawkins The Blind Watchmaker kom fyrst út 1986 og var endurprentuð með viðbæti 1991.

4. Þýtt úr bókinni 50 Philosophy Ideas You Really Need to Know eftir Ben Dupré sem kom út árið 2007. Heimspekivefurinn fékk góðfúslegt leyfi Quercus-útgáfunnar til þess að birta þessa þýðingu.

Úr engu er ekkert komið

eftir Svein Eldon

Fyrsti háskólafyrirlesturinn í heimspeki sem ég sótti hófst á því að prófessorinn, sem var í brúnum munkakufli, leit hvössum og ásakandi augum á nýnemana sem flestir voru ungir reglubræður í reglu Heilags Frans af Assisi, og sagði: „ex nihilio nihil fit!“ og bætti við: „Ef einhver efast um þetta er best að hann hætti námi í heimspeki nú þegar áður en það er um seinan. Hann á ekkert erindi í heimspekinám.“ Mér varð all hverft við, ekki einungis vegna hins hvassa augnaráðs prófessorsins, heldur fremur vegna þess að ég skildi ekki hvert hann var að fara og því ekki hvort að ég ætti nokkuð erindi í heimspekinám. „Úr hverju skapaði Guð himinn og jörð“, spurði ég prófessorinn, föður Rabbitte, eftir að ég hafði safnað hugrekki. „Þú skilur ekki enn hugtakið ‚sköpun‘, svo að ég ætla ekki að svara þér nú“, var svarið sem bergmálaði í gotnesku hvolfþaki hins kalda, dimma og raka fyrirlestrarsalar. Nú fjörutíu árum seinna er ég engu nær um sköpun eða hvort ég hafi átt nokkuð erindi í heimspekinám og því stend ég hér nú næsta hálftímann.

Af umfjöllun Humes er augljóst að hann beinir spjótum sínum fremst að rykföllnum heimspekikreddum samtíma síns, sem hann álítur margar eiga rót sína að rekja til heimspeki munka á miðöldum. Hann minnir um margt á Vínarhringinn, sem starfaði á síðustu öld. Ætlun beggja var að eyða kreddum og ákafi beggja var mikill.

Úr engu er ekkert komið og ef svo er ætti allt að vera komið úr einhverju. Spurningin er hvort allt eigi sér þá eina og sömu frumorsök, „Big Bang“.

Hugum stuttlega að upphafi alheimsins.

Það er ekki án mótsagnar unnt að gera sér í hugarlund að alheimurinn hefði ekki fæðst og væri ekki til. Það er mótsagnalaust unnt að ímynda sér að hann hafi ætíð verið til, þó það sé vissulega vísindalega sannað að öll frumefni alheimsins eigi sér upphaf. Er unnt er að hugsa sér að eitthvað sem er til, hafi aldrei orðið til, heldur sé eilíft?

Við getum ekki ímyndað okkur gap Ginnunga, tómið. Við getum einungis gert okkur í hugarlund stað án hluta og atvika. Hugtakið tóm er háð hugtakinu hlutur eða ferli, hugtakið gerir ráð fyrir hlutum og atvikum. Hugtakið segir: Ekki hlutir, ekki ferli, það er allt og sumt sem það segir í raun. Án nokkurs hlutar er hvorki tími eða rúm. Og reyndar engin hugsun heldur, því öll hugsun okkar gerir ráð fyrir hlutum, ferlum og atvikum. Tíminn og rúmið urðu til við fæðingu fyrsta hlutarins (eða atviksins). Hugsum okkur að fyrsti hluturinn sem varð til hafi hætt að vera til því sem næst samstundis og hann varð til og eftir það hefði ekkert gerst. Hyrfi þá tími og rúm jafnframt samtímis? Tíminn hyrfi ekki (þó vissulega stæði hann kyrr, því við gætum nú talað um fyrir og eftir atvikið. Rúmið hyrfi því ómögulegt er að staðsetja nokkurn hlut án annara hluta.

Nóg um þetta, enda auðvelt að verða áttavilltur og segja ekkert af viti um alheiminn. Hann er heldur ekki efni þessa stutta erindis.

Hume heldur því fram að ekki sé unnt að sýna fram á að öll atvik eigi sér orsök. Í þessum fyrirlestri ætla ég ekki að túlka Hume, heldur að velta stuttlega fyrir mér, hvort að það sé kredda að úr engu sé ekkert komið.

Hugum að orðum Humes. Hann skrifar: „Ekkert er auðveldara en að hugsa sér hvaða hlut sem er, hlut sem ekki er til nú, en er til eftir eitt augnablik, án þess að önnur hugmynd, hugmyndin um orsök komi þar að… Það er því augljóslega unnt að skilja að hugmyndina um orsök frá hugmyndinni um upphaf tilveru.“ (Þýðing höfundar) (Treatise on Human Nature, bók I, I. hluti , III. kafli)

Hume virðist ætla að unnt sé að ímynda sér að hvaða hlutur sem vera skal sé eitt augnablik ekki til og til næsta augnablik, án þess að við leiðum hugann að orsök þess að hann varð til, sem er önnur hugmynd. Hvert er maðurinn að fara? Við getum ímyndað okkur að það sé engin lampi á borðinu fyrir framan mig nú en ef ég nú loka augunum í eina sekúndu, er lampi á borðinu jafnskjótt og ég opna augun. Ekkert er auðveldara en að ímynda sér þetta. Hvernig lampinn kom á borðið er annað mál og ég get ímyndað mér ýmsar skýringar á því. Gallinn á Gjöf Njarðar (eða fremur Davíðs) er þó sá að ef að ég ímynda mér þetta þá ímynda ég mér einnig að einhver hafi sett lampann á borðið, annars ímynda ég mér ekki að það sem var ekki á borðinu en er þar nú, sé ekki lampi heldur mín eigin skynvilla. Rétt eins og ég get ímyndað mér lampalaust borð og lampa á sama borði, get ég ímyndað mér borðið lampalaust og lampa á borðinu sem einhver hefur sett á borðið, því það er að ímynda sér nákvæmlega það sama. Ef ekki, hver er þá munurinn? Lampi á borði og lampi sem einhver, hver sem er, hefur sett á borð, er sami hlutur. „Sem einhver hefur sett á borðið“, bætir engu við „lampi á borðinu“, merkingin er sú sama. Merkingin er sú sama, vegna þess að upplýsingagildi „sem einhver, hver sem er, hefur sett á borðið“ er ekkert. Reynið góðir áheyrendur að ímynda ykkur lampa á borðinu sem enginn setti á borðið. Ekkert er einfaldara, því það er að ímynda sé borðið lampalaust! Hvað annað gæti það verið? Hver setti lampann á borðið er annað og óskylt mál, en ekki að lampinn var settur á borðið af einhverjum.

Það er erfitt að ímynda sér skynvillur en auðvelt að gera ráð fyrir þeim. Skynvilla, jafnvel ímynduð skynvilla, hlýtur að eiga sér skýringu, eitthvað hlýtur að hafa orsakað hana. Orð eins og hlutur, atvik og atburður eru notuð í daglegu tali á ákveðinn hátt og í hvert eitt sinn í ákveðnum tilgangi. Ef merking orðanna er ekki nægilega skýr eiga engin tjáskipti sér stað. Orðin eru ekki til í tómarúmi, þau eru hluti af daglegu lífi okkar og daglegt líf okkar veitir þeim merkingu. Skilningur okkar á heiminum, er ekki okkar einkamál og er að mestu fengin úr því samfélagi sem ólumst upp í, eins og reyndar flest okkar viðhorf. Skilningur samfélagsins á heiminum er skapaður af íbúum samfélagsins, bæði lifandi og dauðum, því við erfum viðhorf. Hver þessi viðhorf eru fer að mestu eftir hvernig baráttu samfélagsins við umhverfið er háttað. Sönnun þess að hugmyndir og viðhorf samfélags eru sannleikanum samkvæm er að samfélagið er til, það hefur ekki liðið undir lok, dáið út.

Hume virðist ætla að einstaklingurinn geti einn og sér skapað sér viðhorf og skoðanir, með skilningarvitin ein að vopni og án þess að aðrir menn komi þar að. Þetta er rangt hjá Hume. Einstaklingur sem ekki elst upp í eða er í mannlegu samfélagi, er dýr sem lifir eins og önnur villt dýr í kring um hann. Maður sem yfirgefur mannlegt samfélag og býr einn, heldur áfram að leggja svipaðan skilning á umhverfið og hann gerði þegar hann bjó meðal manna. Uppeldi og kennsla felst ekki síst í að kenna okkur að vera það sem kallast „nýtir þjóðfélagsþegnar“, dugandi fólk, sem getur drukkið í sig viðhorf og hugmyndir samfélagsins. Útlendingum er oft ekki treyst vegna þess að engin veit hversu hugmyndir þeirra og viðhorf eru lík okkar eigin.

En aftur að aðalefni þessa spjalls.

Lampi sem lýsir ekki lengur og hvorki er unnt að skipta um peru í eða gera við, er ekki lengur lampi heldur málm-, plast- eða trébútur. Lampi sem birtist á borði án þess að hafa verið settur þar lýsir vart neinum, ímyndaður lampi á borði lýsir vart heldur nema að við ímyndum okkur það og við getum ímyndað okkur fleira en við eigum orð yfir og orð eigum við einungis yfir fyrirbæri vorrar sameiginlegu reynslu, því sameiginleg reynsla veitir orðunum merkingu.

Ef ég geri mér í hugarlund hlut eða fyrirbæri er ég sjálfur orsök eða höfundur þessa ímyndaða hlutar eða fyrirbæris. Ég get vissulega gert mér í hugarlund eitthvert fyribæri t.d. að þessi fyrirlestrarsalur fyllist af reyk, án þess að ég geri mér einnig samtímis í hugarlund orsök reyksins. En ekki veit ég hvað ég á að gera mér í hugarlund, ef að ég á að gera mér í hugarlund að salurinn fyllist af reyk og að fyrir því sé enginn orsök, því það er engin reykur án elds. Hume virðist ætla að þarna sé engin munur, það sé einn og sami hlutur að ímynda sér reyk sem eigi sér orsök og reyk sem eigi sér enga orsök. Að ímynda sér reyk og að ímynda sér orsök reiks, t.d. eld, sé tvennt ólíkt. Ef unnt er að ímynda sér reyk án þess að leiða hugann samtímis að eldi, eru þetta tveir hlutir og ekki ekkert annað en vani að leiða hugann jafnan að eldi ef maður verður var við reyk. Ekkert er athugavert við þessa staðhæfingu Humes, en hún breytir engu um það sem ég sagði hér ofan. Ég get auðveldlega ímyndað mér að salurinn fyllist af reyk, án þess að leiða hugann jafnframt að því hvort að það eigi sér orsök eða ekki. Þó er það svo, að það er ég sjálfur sem er höfundur reyksins, þó ég leiði ekki hugann endilega að þeirri staðreynd. Get ég gert mér í hugarlund reyk sem ég geri mér ekki í hugarlund? Varla.

Hugsum okkur að við séum í bifreið kunningja okkar sem heitir Davíð á leið til Keflavíkur. Í Straumsvík drepur bíllinn á sér. Davíð ræsir bílinn og við ökum áfram. Í nánd við Hvassahraun drepur bíllinn aftur á sér og í þetta sinn tekst Davíð ekki að ræsa bílinn á nýjan leik. Við spyrjum hvort hann viti hvað sé að bílnum og hvað sé nú til ráða. Hann svarar að ekkert sé að bílnum og að bíllinn sé ekki bensínlaus. Hann geti ekkert gert bílinn hagi sér svona stundum. Hvernig bregðumst við við þessum tíðindum? Ef kunningja okkar er full alvara hlýtur hann annaðhvort að vera mjög fákunnugur um bíla eða hann hefur misst vitið. Varla er hann að stríða okkur. Hann veit að við erum að verða of sein til að ná fluginu til Glasgow og þótt hann sé stríðinn er hann ekki illgjarn. Líklegasta skýringin er sú að hann veit ekki hvað hann á að taka til bragðs, en vill ekki opinbera fákunnáttu sína.

Af hverju efumst við um að kunningi okkar hafi rétt fyrir sér? Hvað vitum við um bíla? Enginn okkar er bifvélavirki. Getur ekki verið að bílar drepi á sér af ástæðulausu? Skiptir nokkru máli hvort bílinn drap á sér vegna þess að hann er bensínlaus, eða hvort hann drap á sér af ástæðulausu? Hvort heldur sem er komust við ekki lengra og við missum af fluginu.

Ef Davíð hefði haldið því fram að bíllinn væri bensínlaus, hefðum við getað minnt hann á að fylla tankinn með bensíni í Hafnarfirði. Ef Davíð, aftur á móti, þverneitar að orsök sé fyrir því að bílinn drap á sér, er ekki unnt fyrir okkur að ræða málið nánar við hann. Heimsmynd hans er greinilega svo gjörólík okkar, að öll umræða um málið er gagnslaus. Það er eitt að vera ósammála um hvaða orsök eða orsakir séu fyrir því að bíllinn drap á sér og annað að vera ósammála um hvort orsök sé að finna fyrir því atviki. Við getum gengið úr skugga um hvort bíllinn er bensínlaus, en við getum ekki gengið úr skugga um hvort orsök sé að finna fyrir því að bíllinn drap á sér. Við getum gengið úr skugga um HVAÐA orsök er fyrir því að bíllinn drap á sér, en við getum ekki gengið úr skugga um HVORT orsök sé fyrir því að hann drap á sér. Ef við finnum enga orsök fyrir því að bíllinn drap á sér, er ekki þar með sagt að við álítum að enga orsök sé að finna fyrir því. Engin rökfræðileg mótsögn er í því að halda því fram að atvik geti átt sér stað án nokkurrar orsakar. En ef við höldum því fram, þá förum við yfir takmörk hins skiljanlega yfir í heim hins óskiljanlega. Við köstum fyrir róða forsendum sem liggja til grundvallar allri hugsun, máli og skilningi. Það er ekki unnt að neinu viti að ræða þessar forsendur því þær liggja til grundvallar alls máls og alls skilnings. Þessu til staðfestingar getum við velt fyrir okkur hvernig við færum að því að afsanna staðhæfinguna að ekkert gerist án orsakar. Engin reynsla gerir slíka afsönnun mögulega. Yrðingin er þó ekki með öllu án innihalds, því við getum, eins og Hume, velt innihaldi hennar fyrir okkur og reynt að gera okkur í hugarlund kringumstæður þar sem hún væri ósönn.

Vera má að allar þær orsakir sem við tínum til fyrir því af hverju bíllinn drap á sér séu ekki orsök þess að hann drap á sér, er ekki þar með sagt að engin orsök sé fyrir því að hann drap á sér. Það er engin mótsögn falin í því að álíta að orsök sé fyrir því að bíllinn drap á sér, þó að við álítum eða jafnvel göngum úr skugga um að hvaða orsök sem við tínum til sé ekki orsök þess að hann drap á sér. Fyrir hvaða orsök sem vera skal, má vera satt að hún sé ekki orsök þess að bíllinn drap á sér, þótt vandséð sé að bíllinn hafi drepið á sér án orsakar.

Eitt af því sem angrar Hume er sú einfalda staðreynd að ekki er unnt að benda á sambandið á milli orsakar og afleiðingu með fingrunum. Við KOMUMST AÐ því hver er orsök einhvers. Ef orsök þess að bíllinn drap á sér var bensínleysi, getum við bent með fingrunum á tóman tankinn, en ekki á bensínleysið. Það að bensíntankurinn er tómur er niðurstaða rannsóknar og sú niðurstaða getur verið röng. Einnig má vera að bensínleysið sé ekki orsök þess að bíllinn drap á sér, því bíllinn hefur bæði bensínvél og vél sem er rafknúin. Hume hefur því rétt fyrir sér í því að við getum vel ímyndað okkur að bíll verði bensínlaus, án þess að bíllinn hætti að ganga. En ef bíllinn hættir að ganga gerir hann það ekki án ástæðu þó að sú ástæða sé ekki nauðsynlega það að hann varð bensínlaus.

Það er eitt að leiða hugann að einhverjum fyrirbærum eða hlutum sem slíkum án þess að leiða hugann að orsökum þeirra og allt annað að leiða hugann að raunverulegum fyrirbærum og hlutum án þess að leiða hugann að orsökum þeirra. Við getum velt fyrir okkur eiginleikum þríhyrnings og píramída án þess að leiða hugann að orsök þess að slíkar fígúrur séu til. Við getum íhugað leyndardóma píramídans mikla í Khufu í Egyptalandi án þess að leiða hugann að því að hann er mannvirki. En við getum vart gert okkur í hugarlund að enginn hafi byggt hann, fremur en við getum ímyndað okkur að engin ástæða hafi verið fyrir byggingu hans.

Þakka áheyrnina!

Erindið var flutt á málþingi Félags áhugamanna um heimspeki um heimspeki David Hume, sem haldið var laugardaginn 26. nóvember 2011.