Ritfregnir af Sigríði Þorgeirsdóttur

Sigríður Þorgeirsdóttir   Death, Birth, and Femininity  Stil, kön, andrahet  The Body Unbound  Conversations With Landscape

Nýverið komu út nokkrar bækur sem Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki, á hlut í. Þar ber fyrst að nefna bókina Death, Birth, and Femininity. Philosophies of Embodiment, sem kom út nú í október hjá Indiana University Press í Bandaríkjunum. Bókin er samstarfsverkefni fjögurra heimspekinga, þ.e., auk Sigríðar, Sara Heinämaa, Vigdis Songe-Möller og Robin Schott sem rit­stýrir bókinni. Allar eru þær prófessorar í heimspeki við háskóla á Norðurlöndum.

Í texta aftan á bókarkápu segir að hugleiðingar um fæðingu og dauða hafi skipt miklu máli jafnt í vestrænni heimspeki sem og fyrir tilvist einstaklinga. Höfundar bókarinnar grafist fyrir um kynjaðar hliðar hefðbundinna heimspekilegra hugleiðinga um dauðann með hliðsjón af fæðingu, sköpun og mannlegu atferli. Þær reifi hugmyndir sínar í tengslum við heimspeki Heideggers, Nietzsches, Beauvoir og Arendt, sem og í ljósi meginstrauma heimspekinnar á borð við fornaldarheimspeki, tilvistarspeki, fyrirbærafræði og samfélags- og stjórnmálaheimspeki. Túlkanir þeirri bæti mikil­vægum víddum við samtímahugsun um sjálfsmynd, tíma og samfélag.

Sigríður skrifar tvo kafla bókarinnar og setur þar fram nýstárlega túlkun á heimspeki Nietzsches um fæðingu og dauða, en hugtak Nietzsches um fæðingu hefur lítt verið rannsakað í Nietzsche-fræðum. Einnig er umfjöllun hennar framlag til vaxandi skrifa um hugtak fæðingar í samtíma­heimspeki, því heimspekingar hafa löngum fjallað mikið um dauðann, en látið sig upphaf lífs og margt sem tengist fæðingu minna varða. Sigríður greinir einnig hugtak Nietzsches um fæðingu sem forvera hugtaks Hönnuh Arendt um fæðingu, en Arendt er sá heimspekingur sem innleiddi fæðingarleika í 20. aldar heimspeki sem mikilsvert hugtak til skilnings á mannlegri tilvist og mannlegu samfélagi.

Á bókarkápu er haft eftir Claudia Card að hún „viti ekki af neinu öðru verki sem tengi fæðingu og dauða á jafn vandaðan og djúpan hátt.“1

Einnig hafa nýverið birst tvær greinar eftir Sigríði á sviði femínskrar túlkunar á heimspeki Nietzsches. Í fyrsta lagi er um að ræða grein sem birtist í nýútkomnu greinasafni, Stil, kön, andrahet (Ulrika Björk og Lisa Käll (ritstj.)), sem geymir tólf greinar eftir nokkra helstu femínísku heimspekinga Norðurlanda.2 Í öðru lagi birtist í Nietzsche Studien 2009 grein eftir Sigríði um tengsl samtímakvenna og kvenheimspekinga við Nietzsche og heimspeki hans. Þess má geta að Sigríður hélt nýlega einn aðalfyrirlesturinn á þingi Nietzsche-félagsins í Þýskalandi og fjallaði hún þar um hvernig heimspeki Nietzsches birtist í skrifum þekktra kveinheimspekinga 20. aldar, þeirra Simone de Beauvoir, Hannah Arendt, Luce Irigaray og Judith Butler. Í blaðagrein um þingið sem birtist í Süddeutsche Zeitung var talað um að af fyrirlestrum þingsins hefði þessi falið í sér helsta nýmælið.3 Þá er vert að geta þess að Sigríður hefur tekið sæti í ritnefnd Nietzsche Studien, sem er eitt mikilvirtasta tímarit á sviði Nietzsche-rannsókna í heiminum.

Fyrr á þessu ári kom út á vegum Cambridge Scholars Publishing greinasafn, The Body Unbound: Philosophical Perspectives on Politics, Embodiment, and Religion, og eru ritstjórar bókarinnar utan Sigríðar Þorgeirsdóttur, Marius Timman Mjaaland og Ola Sigurdson.4 Bókin hefur að geyma greinar sem voru afrakstur ráðstefnu Norrænu samtakanna um trúarheimspeki sem var haldin við Háskóla Íslands í júní 2009 og er Sigríður í stjórn samtakanna. Þessi samtök hafa verið afar virk á undanförnum árum, haldið ráðstefnur og fjölda námskeiða fyrir doktors­nema. Í greinunum velta höfundar fyrir sér afstöðu til líkamans og merkingum hans í kristni, í Islam og í vestrænni heimspeki. Aftan á bókarkápu segir að heimspekileg nálgun á stjórnmál, líkamleika og trú leiði okkur beint inn í nokkur umdeildustu málefni menningar samtímans eins og sjálfsmorðsárásir, líkama falda undir blæjum og afklædda líkama og lífvald fyrir tilstilli tækninnar. Sögulega hefur líkaminn annars vegar verið skilinn sem fangelsi, sem fjötri sálina við forgengileika, myrkur og óreiðu. Á hinn bóginn hefur líkaminn verið agaður og honum verið stýrt í krafti vitsmuna og vilja, laga og menningar. Hinir tíu höfundar greinanna í The Body Unbound sýna að rannsóknir á mannlegum líkamleika verði að taka tilliti til sögulegra aðstæðna til þess að kryfja þær og eygja leiðir til þess að leysa líkamann úr þeim margþættu fjötrum sem hann hefur verið í.

Að lokum má geta þess að Sigríður og tveir doktorsnemar hennar í heimspeki, þau Gabriel Malenfant og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, eru hvert með sína grein í nýútkomnu greinasafni, Conversations with Landscape, sem Katrín Anna Lund og Karl Benediktsson ritstýra og kom út hjá Ashgate forlaginu nú í nóvembermánuði. Í bókinni eru greinar eftir heimspekinga, land­fræðinga, mannfræðinga, bókmennta- og listfræðinga og listamenn um landslagsfræði.5

Sigríður hefur einnig komið víðar við í starfi sínu, en hún er formaður stjórnar hins alþjóðlega jafnréttisskóla sem er starfræktur í samstarfi Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins.6 Á þessu haustmisseri eru sex nemendur við skólann, þrír frá Afganistan og þrír frá Palestínu, en starfsemi skólans er að fyrirmynd Jarðhitaskóla, Landgræðslu­skóla og Sjávarútvegsskóla Sam­einuðu þjóðanna sem eru mikilsvert framlegg Íslands í þróunarsamvinnu.  Það voru þær Irma Erlingsdóttir,     Sigríður ásamt kvennamálaráðherra Afganistan
lektor við Hugvísindadeild og forstöðumaður RIKK, og Sigríður sem unnu að stofnun jafnréttis­skólans fyrir hönd HÍ. Starf fyrir skólann hefur leitt Sigríði á nýjar slóðir, en hún fór m.a. til Afganistan s.l. vor til að kynna sér jafnréttisstarf þar og efla tengsl við samstarfsaðila jafnréttis­skólans þar. Á meðfylgjandi mynd má sjá hana með kvennamálaráðherra Afganistan sem hún átti fund með. Jafnréttisskólinn tengist starfsemi EDDU öndvegisseturs í gagnrýnum samtíma­rannsóknum þar sem Sigríður er formaður akademískrar stjórnar, en EDDA er eitt þriggja önd­vegissetra sem Rannís styrkir.7

Hér fylgir grein eftir Sigríði sem birtist í Hug á þessu ári, um kanónu og menningu heimspekinnar sem faggreinar.8

Tilvísanir

1. http://www.iupress.indiana.edu/catalog/product_info.php?products_id=428016 (Sótt 10. nóvember 2010).

2. http://www.daidalos.se/sok?11_bookView=1&11_subject=493 (Sótt 10. nóvember 2010).

3. http://www.friedrich-nietzsche-stiftung.de/presse/101018_SZ.jpg (Sótt 10. nóvember 2010).

4. http://www.amazon.com/Body-Unbound-Philosophical-Perspectives-Embodiment/dp/1443819840 (Sótt 10. nóvember 2010).

5. http://www.gowerpublishing.com/default.aspx?page=637&calcTitle=1&pageSubject=317&title_id=9836&­edition_id=12892 (Sótt 10. nóvember 2010).

6. http://www.get.hi.is (Sótt 11. nóvember 2010).

7. http://www.edda.hi.is (Sótt 11. nóvember 2010).

8. http://hi.academia.edu/SigridurThorgeirsdottir/Papers/278982/Gagnryni_a_kanonu_og_menningu_heim­spekinnar (Sótt 10. nóvember 2010).