Hugur – tímarit um heimspeki. 23. árgangur 2011

Hugur – tímarit um heimspeki lýsir eftir efni í 23. árgang, 2011. Þema Hugar 2011 verður náttúra.

Í vestrænni heimspeki hefur náttúruhugtakið komið fram í margvíslegum myndum sem má í grófum dráttum flokka í þrennt: Það sem er eðli einhvers, það sem á við ómanngert umhverfi og það sem er andstætt andlegum eða yfirnáttúrulegum eiginleikum. Þema Hugar mun snúast um allar þessar merkingar hugtaksins eins og það kemur fyrir hjá einstökum heimspekingum, í sið­fræði, umhverfissiðfræði, vísindaheimspeki, heimspekilegri guðfræði, frumspeki, þekkingarfræði og fagurfræði.

Tekið er við frumsömdum greinum sem draga fram einhver (eða öll þessara andlita náttúru­hugtaksins. Jafnframt verða birtar heimspekilegar greinar sem ekki falla undir þema heftisins og er tekið við slíkum greinum sem og ritdómum og íslenskum þýðingum á heimspekilegu efni. Allar frumsamdar greinar sem birtast í Hug fara í gegnum nafnlausa ritrýni og ákvarðanir um birtingu eru teknar á grundvelli hennar. Viðmiðunarlengd greina er átta þúsund orð að hámarki. Höfundar eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um frágang sem má finna á Heimspekivefnum:
http://heimspeki.hi.is/?page_id=1966 (mappa undir fyrirsögninni FÁH/Hugur).

Skilafrestur efnis fyrir Hug 2011 er 15. mars 2011. Efni skal senda til ritstjóra, Henrys Alexanders Henryssonar, hah@hi.is. Þangað má jafnframt senda fyrirspurnir.