Um hughyggju Berkeleys

eftir Kristján Hreinsson

Einskisland

Í spilavíti von er til,
von um hagnað;
ef Guð vill okkur gefa spil
við getum fagnað.

Við heimtum öll að hingað fljótt
hjálpin berist
og aðstoð Guðs er eftirsótt
en ekkert gerist.

Sem ímyndun við erum hér
á Einskislandi;
í huga mér og huga þér
er heimsins vandi.

Er spakur Guð með spekt og trú
öll spilin stokkar
þá heimurinn er hér og nú
hugmynd okkar.

Hughyggja

Að geta það sannað að guð sé til
er grátleg byrði
sem ætti að vera um það bil
einskis virði

því sköpunarverkið er skynjun manns
sem skilur furður
og finnur að allur heimur hans
er hugarburður.

Hugarheimur

Í sterkustu litum hér mála ég mynd
af mér er ég vakna af svefni
og hæglátur sest ég við himneska lind
og hugleiði veraldleg efni.

Ég hrærist í eilífð sem aðeins er til
sem andlega skynjaður geimur
og kyrrlátur hugur minn kann á því skil
sem kallast hinn fullkomni heimur.

Sitt hlutskipti vitund mín verður að sjá
í veröld sem hlýtur að finnast
er hugmyndir mínar um huga minn fá
því hlutlæga aldrei að kynnast.

Að sjálfsögðu veit ég það vel að ég er
sú vera sem gjörla ég þekki
en utan við hugann er máluð af mér
sú mynd sem ég tilheyri ekki.