Greinasafn fyrir merki: vísindaheimspeki

Úr erindinu „Drög að rökrænni kenningu um hefð“

eftir Karl Popper

Hið sérkennilega fyrirbæri sem við köllum vísindahefð hefur oft verið rætt. Menn hafa velt fyrir sér þessu furðulega fyrirbæri sem kom fram einhvern veginn einhvers staðar í Grikklandi á sjöttu og fimmtu öldunum fyrir Krist – uppfinning rökrænnar heimspeki. Hvað gerðist í raun og veru, hvers vegna gerðist það og hvernig? Sumir nútíma hugsuðir halda því fram að grískir heimspekingar hafi verið fyrstir til að reyna að skilja það sem gerist í náttúrunni. Ég ætla að sýna ykkur hvers vegna þetta er ófullnægjandi skýring.
      Fyrstu grísku heimspekingarnir reyndu vissulega að skilja það sem gerist í náttúrunni. En það gerðu líka hinir frumstæðari goðsagnahöfundar á undan þeim. Hvernig getum við lýst þeirri frumstæðu gerð skýringa sem mælikvarðar elstu grísku heimspekinganna leystu af hólmi – höfundar vísindahefðar okkar? Gróflega orðað þá sögðu hinir forvísindalegu goðsagnahöfundar þegar þeir sáu að þrumuveður var í aðsigi: „Nújá, Seifur er reiður.“ Og þegar þeir sáu að sjórinn var úfinn sögðu þeir: „Poseidon er reiður.“ Þetta var sú tegund skýringa sem þótti fullnægjandi áður en rökhyggjuhefðin innleiddi ný skýringaviðmið. Hver var í raun munurinn sem skipti sköpum? Varla er hægt að segja að nýju kenningarnar sem grísku heimspekingarnir innleiddu séu auðskiljanlegri en þær gömlu. Ég hygg að það sé langtum auðveldara að skilja þá stað­hæfingu að Seifur sé reiður en að skilja vísindalega skýringu á þrumuveðri. Og sú fullyrðing að Poseidon sé reiður er fyrir mér miklu einfaldari og miklu auðskiljanlegri skýring á hinum háu öldum hafsins en skýring út frá núningi milli loftsins og yfirborðs sjávarins.
      Ég hygg að nýjungin sem fyrstu grísku heimspekingarnir innleiddu hafi verið þessi í grófum dráttum: Þeir byrjuðu að rökræða þessi mál. Í stað þess að fallast á trúarhefðina gagnrýnilaust og sem óbreytanlega (líkt og krakkar sem mótmæla ef frænka breytir einu orði í uppáhalds­ævintýri þeirra), í stað þess bara að láta hefðina haldast vefengdu þeir hana og bjuggu jafnvel til nýja goðsögn í staðinn fyrir þá gömlu. Ég held við verðum að viðurkenna að nýju sögurnar sem þeir komu með í stað hinna gömlu hafi í grundvallaratriðum verið goðsagnir – alveg eins og gömlu sögurnar voru, en það er tvennt athyglisvert við þær.
      Hið fyrra er að þær voru ekki bara endurtekningar eða endursamning gömlu sagnanna heldur innihéldu þær ný atriði. Það er ekki svo að þetta sé í sjálfu sér mjög mikill kostur. En hið síðara og aðalatriðið er þetta: Grísku heimspekingarnir fundu upp nýja hefð – þá hefð að tileinka sér gagnrýna afstöðu til goðsagna, þá hefð að rökræða þær, þá hefð að segja ekki einungis goðsögn heldur einnig að áheyrandinn dragi hana í efa. Þegar þeir sögðu söguna voru þeir reiðubúnir fyrir sitt leyti að hlusta á hvað áheyrandanum fannst um hana – og viðurkenndu þar með þann mögu­leika að hann kynni að hafa betri skýringu en þeir. Þetta var eitthvað sem hafði ekki gerst áður. Nýr háttur á að spyrja spurninga varð til. Jafnframt skýringunni – goðsögninni – kom þessi spurning fram: „Geturðu gefið mér betri skýringu?“ Og annar heimspekingur gat svarað: „Já, það get ég.“ Eða hann sagði: „Ég veit ekki hvort ég get gefið þér betri en ég get gefið þér mjög ólíka skýringu sem dugir alveg eins vel. Þessar tvær skýringar geta ekki báðar verið réttar svo eitthvað hlýtur að vera rangt hér. Við getum ekki blátt áfram tekið báðar skýringarnar gildar. Við höfum ekki heldur neina ástæðu til að samþykkja bara aðra þeirra. Okkur langar í raun og veru að vita meira um málið. Við verðum að ræða það frekar. Við verðum að sjá hvort skýringar okkar gera í raun grein fyrir þeim hlutum sem við þekkjum þegar og kannski meira að segja fyrir einhverju sem okkur hefur yfirsést hingað til.“
      Tilgáta mín er að það sem við köllum ,vísindi‘ aðgreinist ekki frá eldri goðsögnum með því að vera aðskilið frá goðsögn heldur með því að þeim fylgir annars stigs hefð – sú hefð að ræða goðsögnina á gagnrýninn hátt. Áður var einungis fyrsta stigs hefðin. Ákveðin saga var látin ganga. Nú var að sjálfsögðu enn þá saga til að láta ganga en henni fylgdi eitthvað í líkingu við þöglan fylgitexta sem var annars eðlis: „Ég læt hana ganga til þín en segðu mér hvað þér finnst um hana. Hugleiddu hana. Kannski geturðu sagt okkur ólíka sögu.“ Þessi annars stigs hefð var hin gagnrýna afstaða eða rökfærsluviðhorfið. Hún var, að ég tel, eitthvað nýtt og hún er enn það sem er í grundvallaratriðum mikilvægt við vísindahefðina. Ef við skiljum þetta þá höfum allt öðruvísi afstöðu til allmargra vandamála vísindalegrar aðferðar. Við munum gera okkur ljóst að í vissum skilningi búa vísindin til goðsagnir alveg eins og trúarbrögðin gera. Þið munuð segja: „En goðsagnir vísindanna eru svo afar ólíkar goðsögnum trúarbragðanna.“ Vissulega eru þær ólíkar. En hvers vegna eru þær ólíkar? Vegna þess að tileinki maður sér þessa gagnrýnu afstöðu þá verða goðsagnirnar öðruvísi. Þær breytast, og þær breytast í þá átt að gefa æ betri skýringu á heiminum – á hinum ýmsu hlutum sem við getum athugað. Og þær skora einnig á okkur að athuga hluti sem við hefðum aldrei athugað án þessara kenninga eða goðsagna.
      Í þeim gagnrýnu umræðum sem nú hófust varð einnig til, í fyrsta sinn, eitthvað í líkingu við skipulega athugun. Maðurinn sem einhver goðsögn var látin ganga til, ásamt hinni þöglu en hefðbundnu beiðni: „Hvað hefurðu að segja um hana? Geturðu gagnrýnt hana?“ tæki goðsögnina og beitti henni á hina ýmsu hluti sem henni var ætlað að skýra, eins og til dæmis hreyfingar reikistjarnanna. Síðan segði hann: „Ég held ekki að þessi goðsögn sé mjög góð vegna þess að hún skýrir ekki hina raunverulegu sjáanlegu hreyfingu reikistjarnanna“ eða hvað sem við á. Þannig er það goðsögnin eða kenningin sem leiðir til hinna skipulegu athugana okkar og stýrir þeim – athugunum sem eru gerðar í þeim tilgangi að rannsaka sannleiksgildi kenningar eða goðsagnar. Útfrá þessu sjónarmiði ætti ekki að telja vöxt vísindakenninganna vera árangur af samsafni eða samsöfnun athugana; þvert á móti ætti að telja athuganirnar og samsöfnun þeirra vera árangur af vexti vísindakenninganna. (Ég hef kallað þetta leitarljóss kenninguna um vísindin – þá skoðun að vísindin sjálf varpi nýju ljósi á hluti, að þau leysi ekki bara vandamál heldur skapi þau mörg ný þegar þau gera það, og að athuganir komi þeim ekki einungis að gagni heldur leiði til nýrra athugana.) Ef við þannig svipumst um eftir nýjum athugunum til þess að rannsaka sannleiksgildi goðsagna okkar þarf það ekki að koma okkur á óvart þótt við komumst að raun um að goðsagnir sem farið er svona harkalega með breyti um eðli og að þær verði með tímanum það sem kalla mætti raunsannari eða að þær samsvari betur sýnilegum staðreyndum. Með öðrum orðum, undir þrýstingi frá gagnrýni eru goðsagnirnar neyddar til að laga sig að því verkefni að gefa okkur viðunandi og nákvæmari mynd af heiminum sem við búum í. Þetta skýrir hvers vegna vísindagoðsagnir, undir þrýstingi frá gagnrýni, verða svo ólíkar goðsögnum trúarbragð­anna. Ég held samt að við ættum að hafa það alveg á hreinu að hvað uppruna þeirra varðar verða þær eftir sem áður goðsagnir eða tilbúningur rétt eins og hinar. Þær eru ekki það sem sumir rökhyggjumenn álíta – fylgismenn athugunarkenningarinnar: Þær eru ekki samantekt athugana. Ég skal endurtaka þetta atriði. Vísindakenningar eru ekki einungis niðurstöður athugana. Þær eru, að mestu leyti, afurðir goðsagnasmíði og prófa. Próf fara sumpart fram með athugun og athugun er því mjög mikilvæg, en hlutverk hennar er ekki að búa til kenningar. Hún gegnir hlutverki sínu með því að hafna, útiloka og gagnrýna kenningar, og hún skorar á okkur að búa til nýjar goðsagnir, nýjar kenningar sem geta kannski staðist þessi athugunarpróf. Einungis ef við skiljum þetta getum við skilið mikilvægi hefðar fyrir vísindin.
      Ég skora á þá meðal ykkar sem eru á öndverðum meiði og trúa því að vísindakenningar séu niðurstöður athugana að byrja athuganir hér og nú og láta mig fá hinar vísindalegu niðurstöður þeirra. Þið segið kannski að þetta sé ósanngjarnt og að það sé ekkert markvert að athuga hér og nú. En jafnvel þótt þið gangið um til æviloka með minnisbók í hendi og skrifið niður allt sem þið athugið og ef þið að lokum arfleiðið Konunglega félagið að þessari mikilvægu minnisbók, og biðjið það að gera úr henni vísindi, þá kynni Konunglega félagið að varðveita hana sem eitthvað forvitnilegt en örugglega ekki sem uppsprettu þekkingar. Hún gæti kannski týnst í einhverjum kjallara í British Museum (sem eins og þið ef til vill vitið að hefur ekki efni á að skrá flesta dýrgripi sína), en sennilegra er að hún endi á ruslahaug.
      En þið fáið kannski eitthvað vísindalega áhugavert út ef þið segið: „Hér eru kenningarnar sem sumir vísindamenn halda fram nú á dögum. Þessar kenningar útheimta ákveðna hluti sem ætti að vera hægt að athuga við ákveðin skilyrði. Við skulum sjá hvort hægt er að athuga þá.“ Með öðrum orðum velji maður athuganir sínar með vísindaleg vandamál í huga og hina almennu stöðu vísindanna eins og hún birtist þá stundina kann vel að vera að maður geti lagt eitthvað til vísindanna. Ég vil ekki vera kreddufastur og neita að til séu undantekningar eins og til dæmis svokallaðar tilviljanakenndar uppgötvanir. (Enda þótt jafnvel þær reynist mjög oft vera gerðar undir áhrifum kenninga.) Ég segi ekki að athuganir séu ætíð lítilvægar nema þær tengist kenningum en ég vil benda á hver er aðalaðferðin í þróun vísindanna.
      Allt þetta merkir að ungum vísindamanni sem vonast til að gera uppgötvanir er illa ráðlagt ef kennari hans segir: „Farðu um og athugaðu.“ En honum er vel ráðlagt ef kennarinn segir: „Reyndu að kynna þér hvað menn eru að ræða nú á dögum í vísindunum. Finndu út hvar vand­ræði koma upp og vertu áhugasamur um ágreining. Þetta eru spursmálin sem þú ættir að tileinka þér.“ Þú ættir með öðrum orðum að kynna þér vandamálastöðuna eins og hún er hverju sinni. Þetta þýðir að þú tileinkir þér og reynir að halda áfram með rannsóknarstefnu sem hefur alla forsögu fyrri þróunar vísindanna á bak við sig, að þú takir vísindahefðina gilda. Það er mjög einfalt og afgerandi atriði en engu að síður atriði sem rökhyggjumenn gera sér oft ekki nægilega grein fyrir: að við getum ekki byrjað frá grunni, að við verðum að notfæra okkur það sem fyrirrennarar okkar hafa gert í vísindum. Ef við byrjum frá grunni þá verðum við þegar við deyjum komin álíka langt og Adam og Eva voru þegar þau dóu (eða ef þið viljið heldur álíka langt og Neanderdalsmaðurinn). Við verðum að halda áfram ákveðinni hefð. Frá því sjónarmiði hvað við viljum sem vísindamenn – skilning, forsögn, greiningu, og þar fram eftir götunum – er heimurinn sem við búum í ákaflega flókinn. Ég mundi freistast til að segja að hann sé óendanlega flókinn ef þau orð hefðu einhverja merkingu. Við vitum ekki hvar eða hvernig skuli byrja greininguna á þessum heimi. Það er engin viska sem segir okkur það. Jafnvel vísindahefðin segir okkur það ekki. Hún segir okkur aðeins hvar og hvernig aðrir byrjuðu og hvert þeir komust. Hún segir okkur að menn hafi þegar smíðað í þessum heimi einskonar fræðilegan ramma – ef til vill ekki mjög góðan en ramma sem virkar nokkurn veginn. Hann gagnast okkur sem einhvers konar net, sem hnitakerfi sem við getum vísað hinum ýmsu margslungnu fyrirbærum þessa heims til. Við notum það með því að gera athuganir á því og gagnrýna það. Þannig miðar okkur áfram.
      Það er nauðsynlegt fyrir okkur að skilja að af þeim tveimur aðalaðferðum sem við getum kannski útskýrt vöxt vísindanna með er önnur frekar léttvæg og hin mikilvæg. Sú fyrri útskýrir vísindin með söfnun þekkingar: Þau eru eins og stækkandi bókasafn (eða safn). Eftir því sem fleiri og fleiri bækur safnast því meiri og meiri þekking safnast. Hin aðferðin útskýrir þau með gagnrýni: Þau vaxa með aðferð sem er byltingarkenndari en söfnun – með aðferð sem eyði­leggur, breytir og umturnar þeim öllum, þar á meðal mikilvægasta tæki þeirra, málinu sem goðsagnir okkar og kenningar eru settar fram á.
      Það er athyglisvert að sjá að fyrri aðferðin, söfnunaraðferðin, er langtum léttvægari en menn halda. Það er miklu minna um söfnun þekkingar í vísindunum en um byltingarkenndar breytingar á vísindakenningum. Það er furðulegt og mjög áhugavert atriði því að við fyrstu sýn mætti halda að fyrir uppsöfnunarvöxt þekkingar skipti hefðin miklu máli. En því er eimitt öfugt farið. Ef vísindin gætu vaxið með einberri söfnun skipti það ekki svo miklu máli þótt vísindahefðin glataðist vegna þess að hægt væri að byrja að safna á nýjan leik hvenær sem væri. Eitthvað mundi glatast en tjónið væri ekki alvarlegt. Hins vegar ef vísindunum miðar áfram með þeirri hefð að breyta hefðbundnum goðsögnum sínum þá er þörf á einhverju til að byrja með. Hafi maður ekkert til að hnika til og breyta kemst hann aldrei neitt áleiðis. Það þarf því tvær byrjanir fyrir vísindin: nýjar goðsagnir og nýja hefð til að breyta þeim á gagnrýninn hátt. En slíkar byrjanir eru afar sjaldan gerðar. Það tók ég veit ekki hvað mörg ár frá uppfinningu lýsandi tungumáls – sem við getum sagt að hafi verið stundin þegar maðurinn varð maður – til upphafs vísindanna. Allan þennan tíma var málið, framtíðartæki vísindanna, að vaxa. Það óx ásamt vexti goðsagnarinnar – sérhvert tungumál hefur að geyma og varðveitir óteljandi goðsagnir og kenningar, jafnvel í málfræðilegri gerð sinni – og ásamt vexti hefðarinnar sem notar tungumálið til að lýsa staðreyndum og til að skýra og rökræða staðreyndir. Ef þessar hefðir væru eyðilagðar væri ekki einu sinni hægt að byrja að safna; tækið til þess skorti.

                                                                                                Gunnar Ragnarsson þýddi1

Neðanmálsgrein

1. Erindið, sem á ensku nefnist „Towards a Rational Theory of Tradition“, var haldið á þriðju árlegu ráðstefnu the Rationalist Press Association 26. júlí 1948 í Magdelan College, Oxford. Þýðingin er gerð eftir texta bókarinnar Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge (4. kafla).