Greinasafn fyrir merki: Camus

Hugsað um aðra í plágunni miðri

Camus og hugsjónin

eftir Björn Þorsteinsson

I

 
Plágan eftir Albert Camus1 er að mörgu leyti einföld bók, jafnvel of einföld – að minnsta kosti á yfirborðinu. Sögusviðið er skýrt afmarkað, framvindan línuleg, sögupersónurnar vissulega nokkuð margar en að henda reiður á þeim er þó barnaleikur fyrir hvern þann sem lesið hefur Dostojevskí eða Márquez. Stíllinn er hreinn og beinn og undir merkjum hlutlægninnar – að vísu setur höfundurinn þann lágmarks-snúning á textann að gera hlutlægnina sjálfa að umfjöllunarefni. Textinn er nefnilega skýrsla sem ein aðalpersónan, eða kannski helsta aðalpersónan, færir til bókar. En í sjálfu sér er ekkert vafamál að allt sem hann segir er „satt og rétt“ (269) – meira um það á eftir. Hvert er svo innihald bókarinnar, um hvað snýst málið? Titillinn fer langt með að skýra frá því: Plágan er sagan af því þegar sú skæða farsótt, sem í almannarómi nefnist plágan, stingur sér niður í borg einni á strönd Norður-Afríku. Þarna er á ferðinni sjúkdómur sem er alræmdur úr sögunni og hefur á ýmsum tímum lagt heilu borgirnar í eyði, eða svo gott sem; og úr Íslands­sögunni er hún þekkt undir því myrka heiti svartidauði sem er órofa tengt ártalinu 1402 í hugum þeirra sem lesið hafa sögu íslensku þjóðarinnar.2 Þetta er bakteríusjúkdómur og er fyrst og fremst bundinn við nagdýr, segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir í svari við spurningu á Vísinda­vefnum, en fyrir kemur að hann berst í menn, þökk sé flóm sem þrífast á nagdýrunum og eiga það til að bíta menn líka. Og þegar sjúkdómurinn er á annað borð kominn í menn smitast hann eins og hvert annað kvef eða flensa: með úðasmiti.
      Strax í upphafi Plágunnar, þ.e. bókar Camus og þeirrar plágu sem bókin segir frá, er sagt frá rottu sem skríður út úr myrku skoti í anddyri húss, „reikul í spori og vot um feldinn“, að aðalsögu­hetjunni, Rieux lækni, ásjáandi. Það er engu líkara en að rottan vilji leita ásjár hjá lækninum:

Hún nam staðar, virtist reyna að ná jafnvæginu, hélt síðan af stað í áttina til læknisins, nam enn staðar, snerist um sjálfa sig, rak upp lágt vein og koll­steyptist að lokum um leið og blóð spýttist út um hálfopinn hvoftinn. Læknirinn leit á hana rétt í svip, hélt síðan upp til sín. (9)

Skemmst er frá því að segja að þetta sviplega andlát rottunnar er fyrirboði mikilla ótíðinda. Rotturnar streyma fram, upp og út, og drepast síðan, og jafnframt tekur mannfólkið að kenna sér meins. Framrás plágunnar reynist óstöðvandi, enda eru mótefnin máttlaus og af skornum skammti, og læknirinn verður að láta sér nægja að stinga á kýlum og hleypa greftrinum út í stað þess að ráðast að rótum vandans.
      Látum þetta nægja um söguþráðinn, að minnsta kosti í bili; sagan fjallar í fáum orðum sagt um baráttu Rieux læknis og ýmissa félaga hans við óværuna. Þannig verður plágan tákn fyrir hið illa í heiminum, það sem kvelur menn og pínir, sviptir þá lífskraftinum, lífslönguninni eða hrein­lega lífinu sjálfu – eða ástvinum sínum. Rieux læknir og önnur persóna bókarinnar, Raymond Rambert blaðamaður frá París, eiga einmitt báðir við það að stríða í bókinni að konurnar sem þeir elska eru utan seilingar, þ.e. utan marka borgarinnar sem enginn má yfirgefa eftir að hún var sett í sóttkví. Þeir taka þessu hlutskipti sínu á ólíkan hátt: Rieux með þeirri stóísku ró og botn­lausu skyldurækni sem gegnsýrir hann, en Rambert með áköfum tilraunum til að sleppa úr prísundinni sem útheimtir fjárútlát og samskipti við ýmsa skuggalega náunga. Svo fer þó að tilraunir Ramberts fara fyrir lítið og hann sættir sig við að lifa með plágunni eins og allir aðrir.
      Þannig er Rambert fulltrúi einstaklingshyggju, þeirrar skoðunar að einstaklingurinn eigi að leita eigin hamingju hvað sem það kostar og burtséð frá aðstæðum samferðamanna sinna, þeirra sem standa honum næst hverju sinni í líkamlegum skilningi. Rieux er aftur á móti fulltrúi þeirrar skoðunar – eða hugsjónar – að það verði að hjálpa bágstöddum eftir því sem kostur er, eins þótt það kosti persónulegar fórnir. En hann fer vel með þessa skoðun, hann treður henni til dæmis ekki upp á Rambert heldur ræðir við hann í mesta bróðerni um þessi mál og hvetur raunar Rambert til að flýja. Því verður þó ekki á móti mælt að hann er því feginn er Rambert afræður að lokum að vera um kyrrt, og er greinilega sammála Rambert er hann lýsir því yfir að „það kann að vera skammarlegt að sitja einn að hamingjunni.“ (187)

II

 
Fyrr í bókinni lætur Rambert þau orð falla, andspænis Rieux og ósveigjanlegri skyldurækni hans, að sá síðarnefndi skilji ekki tilfinningar fólks, að hann tali máli skynseminnar og líti á málin frá fræðilegu sjónarmiði. Í framhaldinu sakar hann Rieux um að hafa ekki „hugsað um neinn“ (78). Lítum nánar á þetta.
      Orðið sem Jón Óskar velur að þýða sem „hið fræðilega“ eða „hið fræðilega sjónarmið“ er franska orðið abstraction. „Vous êtes dans l’abstraction“ (84) segir Rambert við Rieux, og Jón Óskar hefur þar „þér lítið á þetta frá fræðilegu sjónarmiði“, en ef til vill væri ekki síðra að þýða þessa setningu á ögn beinni hátt og segja „þér lifið og hrærist á sviði hins óhlutbundna“. (Ég veit að „óhlutbundinn“ er ekki fallegt orð út af fyrir sig, en eigum við ekki að sættast á að fræðileg nákvæmni þarf stundum að syndga gagnvart fegurðarhugmyndum af kyni hreinleikans.) Gott og vel, en hvað felst þá í þessari ásökun? Að læknirinn, vísindamaðurinn sem reynir að sjá til þess að fólk fái bót meina sinna, sé af einhvers konar eðlislægum ástæðum dæmdur til að líta á, og meðhöndla, manneskjurnar sem leita á náðir hans fyrst og fremst sem sjúklinga, tilvik, dæmi um tiltekin almenn fyrirbæri, þ.e. sjúkdóma. Þannig fórnar læknirninn hinu einstaka á altari hins almenna. Hann sér ekki manneskjuna á bak við sjúklinginn, mannveruna af holdi og blóði, með fortíð, langanir og áform – þegar öllu er á botninn hvolft er sýn hans bundin við sjúkdóminn, farsóttina sem ber að stöðva og kveða niður. Og staðreyndin er sú að hið óhlutbundna eða fræðilega sjónarhorn er nauðsynlegt vegna þess að sjúkdómurinn sjálfur er ekkert tilfinningamál – hann er sjálfur „fræðilegur“ í þeim skilningi að hann fer ekki í manngreinarálit. Hann sér ekki heldur hið einstaka, einstaklingurinn er honum hjóm eitt, hann sér ekkert annað en líkama sem hann getur tekið sér bólfestu í. Bakterían er blind á annað en eigin afkomu, í henni líkamnast, með leyfi að segja, sú togstreita milli lífsmagns og dauðahvatar sem Freud lýsti svo eftirminni­lega. Lífið í öllum sínum myndum er ein allsherjar viðleitni til að viðhalda sjálfu sér gegn því sem mun alltaf reynast ofurefli dauðans – lífið er útúrdúr í sögu hins dauða efnis. Það er í þessum skilningi sem lífið er alltaf öðrum þræði dauði, að lifa er að vera á leið til dauðans. Eða, svo gripið sé til orðalags í anda Heideggers: „sá sem kemur er alltaf jafnframt á förum“, eða, með öðrum orðum og í þetta skiptið í anda Derrida: „við birtumst til þess eins að hverfa aftur“.
      Þannig verður plágan að myndhverfingu fyrir lífið sjálft: „En hvað er plágan? Hún er lífið og hana nú“ (274, þýðingu breytt) segir ein sögupersónan undir lok bókarinnar. Eða öllu heldur: plágan, og/eða bakterían sem ber hana, er fulltrúi fyrir það eyðingarafl sem býr í lífinu sjálfu – það afl sem veldur því að við erum ekki eilíf. Lífið er aldrei algjört, það er aldrei ómengað líf – það ber alltaf frjókorn dauðleikans í sér. Þessa staðreynd, sem kenna má við tilvistarstefnu ef menn vilja, má reyndar allt eins víkka út þannig að hún nái til alls sem er: raunar er það svo, eins og við vitum, að hvaðeina í heiminum er í stöðugri verðandi, hvort sem það telst lifandi eða dautt. Tímans tönn vinnur á öllu sem er. Eða, orðað í hina áttina: væri enginn tími, ef tímans tönn væri ekki til, þá væri Veran algild, óbifanleg og óhaggandi – og þá væri engin saga og engin framvinda, engin fæðing og enginn dauði. Ekkert líf – og engin plága heldur.

III

 
En við vorum að tala um hið óhlutbundna eða hið fræðilega eins og Jón Óskar vill kalla það. Plágan sjálf er óhlutbundin í þeim skilningi að hún er fulltrúi fyrir, eða dæmi um, einhvers konar innra lögmál lífsins sem býr að baki þeim hversdagslega og kunnuglega veruleika sem við lifum og hrærumst í. Sjúkdómurinn sjálfur er hið almenna sem tekur sér bólfestu í hinu einstaka – bakteríu eða hýsli (þ.e., þegar um menn er að ræða, sjúklingi). Og í víðari merkingu er sjúk­dómurinn lífið sjálft í eilífri baráttu þess við dauðann, eða ætti maður kannski að tala um eilíft faðmlag lífs og dauða hér? En hver er merking alls þessa? Hver er tilgangurinn? Hvað ber að gera, hvernig eigum við, mannverurnar (sem spyrjum svona spurninga), að bregðast við plágunni – úr því að við vitum að hún snýr alltaf aftur og verður í reynd aldrei kveðin að fullu niður? Ein höfuðpersóna bókarinnar er presturinn Paneloux. Eins og guðsmanni sæmir heldur hann mikla predikun yfir íbúum borgarinnar þegar plágan stendur sem hæst, og rekur hana í fæstum orðum sagt til forsjónar Guðs, sem sé ofvaxin skilningi dauðlegra manna. Þannig ljær hann þjáningunni merkingu, sem að vísu er ekki þessa heims, þ.e. í raun ekki á manna færi – og talar þá t.d. um „þann girnilega eilífðarljóma sem er á bakvið allar þjáningar“ (88). Eins og nærri má geta sættir Rieux læknir sig ekki við þessar skýringar – „til dauðadags neita ég að elska það sköpunarverk, er lætur börn kveljast“, segir hann (196). Engu að síður er það ekki svo að Rieux trúi ekki á neitt í þeim skilningi að hann finni enga merkingu í plágunni og baráttunni gegn henni. Um það bera störf hans órækt vitni, en þegar á reynir er hann einnig fær um að klæða þessa lífsskoðun sína, eða hugsjón, í orð. Á einum stað segir hann t.d. að það að venjast örvæntingunni sé verra en örvæntingin sjálf (163). Og í samtali við aðra mikla hetju bókarinnar, aðkomumanninn Jean Tarrou, lætur hann þau orð falla að „[h]ið sama [gildi] um pláguna og allt illt í þessum heimi. Hún kann að geta stækkað einstaka menn.“ (112-113) Í þessu felst þó ekki afdráttarlaus yfirlýsing um að drepsóttin sé að einhverju leyti, þ.e. fyrir þessa einstaka – eða einstöku? – menn, af hinu góða. Máli skiptir, segir Rieux, „að vinna bug á eymdinni“ en ekki „að sýna fram á ágæti hennar“. Að þessu leyti greinir læknirinn sig frá prestinum. Hann neitar að sættast við eymdina og gefst ekki upp þó að baráttan virðist vonlaus – baráttan gegn „sköpuninni eins og hún birtist“ (114), hvorki meira né minna.
      Þannig rís maðurinn upp gegn fjarstæðunni og skapar sér merkingu – með því að leita hennar. Dygðin er fólgin í leitinni, í viðleitninni. Aftur á móti er „hörmulegasti lösturinn“, að sögn sögumanns, fólginn í þeirri „fávísi að þykjast allt vita og þar af leiðandi hafa vald til að deyða“ (118). Gegn drambi fullvissunnar tefla Rieux og félagar hans dygð sem þeir nefna heiðarleika, og Tarrou skilgreinir sem svo: „Heiðarlegur er sá, sem fæsta sýkir og sjaldnast gerir sig sekan um hugsunarleysi. Og til þess að vera aldrei viðutan þarf vilja og áreynslu.“ (227) Við berum öll sýkilinn í okkur, hann er lögmálið, hann er „[þ]að sem er eðlilegt“, og þó að það sé slítandi að vera „pláguberi“ (eins og Tarrou orðar það) kostar það enn meira þrek að vera það ekki. „Þess vegna eru allir þreytulegir, því að nú á dögum eru allir meira og minna sýktir.“ (227)

IV

 
„Til þess að berjast gegn einhverju fræðilegu þarf maðurinn að líkjast því dálítið“ (82) segir sögumaðurinn á einum stað og hefur þar lækninn Rieux í huga. Og þetta má augljóslega til sanns vegar færa. Til að geta unnið gegn plágunni verður læknirinn að viðhafa hið kalda augna­ráð hlutlægninnar – að vissu marki að minnsta kosti. Hann má ekki týna sér í hinum einstöku atriðum. Þar með er hann fulltrúi réttlætisins, þess réttlætis sem dreifir sér jafnt á alla. En slíkt er einmitt réttlæti plágunnar sjálfrar, hið „algera réttlæti“, eins og Camus orðar það hreint út, sem leggst jafnt á alla, hvort heldur fangelsisstjórann eða „hinn illræmdasta fanga“ (152; sbr. 166) svo dæmi sé tekið. En þegar að er gáð er þetta ekki alveg svona einfalt. Enda þótt gagnvart dauðanum ríki „óaðfinnanlegt jafnrétti“ (212) var málum í reynd öðruvísi háttað, er plágan geisaði, meðal þeirra sem enn lifðu. Misskiptingin jókst: „Fátækar fjölskyldur komust […] í hinar mestu kröggur, en ríkisfólkið hafði allt til alls.“ (212) Og raunar var það svo að plágan náði fyrst útbreiðslu í úthverfum borgarinnar, þar sem hinir efnaminni bjuggu (11) – þó að hún hafi að vísu ekki látið þar við sitja og barið fljótlega að dyrum hjá góðborgurum (23). Þannig lætur sú skoðun á sér kræla í sögunni að í reynd standi ekki allir jafnt að vígi þegar pláguna ber að garði – þá eru tilvistaraðstæður allra einmitt ekki jafngildar. Og í beinu framhaldi má benda á að augnaráð sögumannsins, og líklega verður ekki lengur komist hjá því að nefna að sögumaðurinn er Rieux sjálfur, beri vott um svo mikla fjarlægð á viðfangsefnið að á köflum er vandséð hvort um væntumþykju eða vanvirðingu er að ræða. Þannig er Rieux augljóslega ekki laus við það yfirlæti sem oft fylgir þeim sem verja ævinni í að hjálpa öðrum. Svona lýsir hann borgarbúum í upphafi bókarinnar:

Borgarbúar vinna mjög mikið en æ og ævinlega í þeim tilgangi að verða ríkir. Þeir hafa einkum áhuga á verzlun og una sér öllum stundum við gróðabrallið. Að sjálfsögðu kunna þeir einnig að meta óbrotnar skemmtanir, þeir elska konur, kvikmyndir og sjóböð. En þeir hafa næg hyggindi til að geyma sér þessar skemmtanir þar til á laugardagskvöldum og sunnudögum, en reyna hina daga vikunnar að græða mikla peninga. (5-6)

      Hugum nánar að konunum á eftir – og spyrjum okkur fyrst að því, hvernig þessum óbrotnu en skemmtanagjörnu aurasálum reiðir af í plágunni. Camus lýsir því hvernig hóglífinu vex fiskur um hrygg, fólk verður til dæmis ófeimnara við að haldast í hendur á götum úti, og jafnframt vex lífslöngunin, eins og „ávallt [gerist] í brjósti ógæfunnar“ (108; 176). Kjarninn er sá að engin róttæk breyting verður á háttum þeirra, og undir lok bókarinnar veltir Tarrou fyrir sér þeirri spurningu hvort plágan hafi breytt einhverju og kemst að þeirri ögn mótsagnakenndu niðurstöðu

að drepsóttin mundi breyta borginni og ekki breyta henni, að heitasta ósk borgarbúa væri auðvitað að haga sér eins og ekkert hefði breytzt og þar af leiðandi mundi, í vissum skilningi, ekkert vera breytt, en hinsvegar gætu menn ekki gleymt öllu, þótt þeir væru allir af vilja gerðir og plágan mundi því skilja eftir sig spor, að minnsta kosti í hjörtum manna. (249)

      Undir lok bókarinnar kemst Rieux engu að síður að þeirri niðurstöðu, þar sem hann þvælist um götur borgarinnar innan um múginn, að hann sé „einn af þeim“. Og ástæða þess að hann ákveður að skrifa „annál“ sinn er einmitt sú að hann vill ekki „vera […] einn þeirra sem þegja“, hann vill „vitna með þeim, sem drepsóttin hrjáði, til að skilja eftir þótt ekki sé annað en minningu um ranglæti það og ofbeldi, er þeir höfðu verið beittir, og til þess að segja frá þeim einföldu sannindum, sem menn læra á drepsóttartímum, að það er fleira aðdáunarvert en fyrirlitlegt í fari mannanna.“ (275) Engu að síður er Rieux einmitt ekki „einn af þeim“ – eins og kemur fram strax í framhaldinu – því að hann einn veit, hann veit að „drepsóttarsýkillinn hvorki deyr né hverfur nokkurn tíma“, og að hann getur gosið upp aftur hvenær sem er.

V

 
Plágan nær til allra jafnt, segir sögumaður, en í Plágunni eru engu að síður undarlegar fjarvistir. Þegar blaðamaðurinn Rambert er kynntur til sögu snemma í bókinni kemur fram að hann sé kominn til borgarinnar til að „rannsaka lifnaðarhætti Araba fyrir eitt af stórblöðum Parísar og vildi fá upplýsingar um heilbrigðisástand þeirra“. Rieux verður fyrir svörum og segir að ástand Arab­anna sé „ekki gott“ – en víkur svo talinu að öðru, nánar tiltekið skyldum blaðamanna við sann­leikann. Arabar koma ekki meira við sögu í bókinni – sem má heita merkileg staðreynd. Sagan gerist í borginni Oran, sem er lýst á mjög raunsannan hátt, og þó að frásögnin sé ekki tímasett nákvæmlega bendir allt til að hún gerist í samtíma Camus, þ.e. á fimmta áratug tuttugustu aldar, en þá voru „Arabar“, þ.e. íbúar af norðurafrískum ættum en ekki evrópskum, um helmingur íbúa borgarinnar. (Í bókinni kemur fram á einum stað að íbúarnir séu 200.000 talsins. (70))
      En meiri athygli vekur þó e.t.v. nær algjör fjarvera kvenna úr sögunni. Plágan er sagan af glímu hvítra karlmanna við farsótt. Konur í sögunni eru teljandi á fingrum annarrar handar, og engin þeirra er nafngreind fullum fetum; eina konan sem hefur eitthvert nafn yfirhöfuð er móðir Rieux læknis, sem heitir – frú Rieux. Hlutverk kvenna í sögunni er fólgið í tvennu: endalausum fjarvistum (eins og eiginkona Rieux og kærasta Ramberts) eða kyrrlátri heimasetu (eins og móðir Rieux læknis). Sú síðastnefnda sér um húsverkin hjá Rieux lækni eftir að kona hans hverfur af heimilinu (hann getur auðvitað ekki séð um sig sjálfur – til þess er hann líklega einmitt „of fræðilegur“ í hugsun og háttum) og hjúkrar Tarrou eftir að hann veikist. Við það tækifæri skrifar Tarrou hjá sér lofsyrði um hjartagæsku hennar og hlédrægni, sem er dygð sem móðir hans hafði líka til að bera í ríkum mæli og hann kann því sérlega vel að meta. Eiginkona Rieux kemur lítillega við sögu í upphafi bókarinnar, þar sem hún er orðin veik af ótilgreindum sjúkdómi – sem ekki er þó plágan – og hafði fallist á að fara „til dvalar á heilsuhæli uppi til fjalla“. Hún liggur í rúminu og „[býr] sig þannig undir erfiða ferð“. Rieux horfir á hana: „Enda þótt hún væri þrítug að aldri og veikindin hefðu markað svip hennar, var andlit hennar síungt í augum [hans].“ (9) Litlu síðar kveður Rieux hana á brautarstöðinni með þeim orðum að „hann hefði átt að gæta hennar, en hann hefði hrapallega vanrækt það.“ (11) Hún vill ekki við það kannast.
      Í þessu sambandi er líka athyglisvert að þegar borgarbúum er lýst í upphafi bókarinnar, eins og áður kom fram, er tekið svo til orða að helsta skemmtun þeirra sé fólgin í þrennu: konum, kvik­myndum og sjóböðum. Með fullri virðingu fyrir kvikmyndum og sjóböðum þykir mér undarlegt að ljá þeim sama sess og helmingi mannkyns. En það er engu líkara en konur séu ekkert annað en þetta í augum sögumannsins (að minnsta kosti): þær eru viðföng – skemmtunar, þ.e.a.s. skemmtunar karlmanna –, nú eða hlédrægar þjónustustúlkur sem þó fá ekki að leggja minnsta skerf til baráttunnar gegn óværunni sem allt vill lifandi drepa.
      Þannig virðist mér að hið fræðilega, óhlutbundna augnaráð endi kannski með því að snúast gegn sögumanninum sjálfum, og/eða höfundinum, í fleiri en einum skilningi. Allt hans tal um að plágan hitti alla fyrir jafnt reynist þegar að er gáð vera eins konar yfirbreiðsla yfir þá skoðun að baráttan gegn plágunni, sem „stækkar einstaka menn“, sé einmitt ekki eitthvað fyrir alla (konur og kalla). Plágan, sem sjúkdómur og myndhverfing, virðist vera alfarið á verksviði karlmanna af evrópskum ættum. Sumir þeirra eru áreiðanlega pláguberar, en aðrir – einstakir, einstaka menn – verða læknar. Konur (og Arabar) eru aftur á móti einvörðungu fórnarlömb. Hið óhlutbundna réttlæti plágunnar nær vissulega til þeirra, en hið óhlutbundna, fræðilega viðhorf sem dugar gegn plágunni, og stækkar menn og gefur þeim eitthvað í líkingu við raunverulegan tilgang í fjarstæðu­kenndum heimi, er þeim greinilega ofvaxið.

VI

 
Ljúkum þessu svona: Eitt fallegasta atriðið í Plágunni er frásögn af sjóbaði. Þegar plágan er byrjuð að láta undan síga fá Rieux og Tarrou leyfi til að fara út fyrir borgarmörkin og niður að sjó:

ieux stakk sér fyrst. Þótt honum fyndist sjórinn kaldur íkomu, var hann ekki fyrr kominn úr kafinu, en honum þótti hann hlýr. […] Hann heyrði þungt skvamp og vissi, að nú hafði Tarrou stungið sér. Rieux velti sér á bakið […]. Hann dró djúpt andann. Nú heyrði hann gjálfur. Það varð æ greinilegra, kynlega skýrt í þögn og einmanaleik næturinnar. Tarrou var á leiðinni, og brátt heyrði hann andardrátt hans. Rieux sneri sér við, synti upp að hlið vinar síns og stillti sundtök sín við hans. […] Í nokkrar mínútur syntu þeir jafnhliða […], tveir einir langt frá öðrum mönnum, að síðustu lausir úr viðjum borgarinnar og plágunnar. (231)

Hvað sem segja má um þær útilokanir sem hið fræðilega augnaráð sagnamanns og höfundar hafa í för með sér má ekki gleyma því – og skilja – að Plágan er mögnuð táknsaga um þann „veika mátt“ sem felst í samstöðu mannanna andspænis blindri einstaklingshyggju og græðgi dauðahvatarinnar.

Tilvísanir

1. Albert Camus, Plágan, Jón Óskar þýddi, Reykjavík, Heimskringla 1952 [1947].

2. Haraldur Briem. „Er svartidauði enn þá til og eru til lækningar við honum?“. Vísindavefurinn 20.3.2000. http://visindavefur.is/?id=263. (Skoðað 9.12.2010).

Erindið var flutt á málþinginu „Fjögur högg á dyr ógæfunnar“ í Þjóðminjasafninu 10. des. 2010