Opinn fyrirlestur
Liza Haglund kennari við Södertörns Högskola í Stokkhólmi heldur fyrirlesturinn „Réttur barna og unglinga til að hugsa saman – heimspekileg samræða á öllum sviðum menntunar“ föstudaginn 9. mars kl.13.00. Það er þróunarhópur um heimspekilega samræðu í leik- og grunnskólum Garðabæjar sem stendur fyrir fyrirlestrinum. Hópurinn er styrktur af Sprotasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Félagi heimspekikennara.
Liza Haglund hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, unglingum og kennurum. Hún undirbýr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heimspekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosofiska.nu. Í kjölfar opna fyrirlestursins mun Liza kenna námskeið sem 30 kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum taka þátt í helgina 9.-10. mars. Á námskeiðinu fá kennarar þjálfun í heimspekilegri samræðu sem er kennsluaðferð sem svarar kalli nýrrar menntastefnu í lýðræðislegum vinnubrögðum, læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, jafnrétti og sköpun. Heimspekilega samræðu má flétta inn í kennslu allra námsgreina til að dýpka og aga umræðu og hugsun nemenda um þau viðfangsefni sem þeir fást við í skólanum.
Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram á ensku. Fyrirlestur og umræður í kjölfar hans fara fram í stofu 301 í Garðaskóla Garðabæ kl. 13.00-14.30.
Útdráttur úr fyrirlestri Lizu Haglund:
Eitt af markmiðum heimspekikennslu fyrir börn og unglinga er að efla gagnrýna og skapandi hugsun. Markmiðið byggir á þeirri forsendu að iðkun heimspekinnar þjálfi hugsunina og læsi í víðum skilningi. Að mati Matthew Lipman frumkvöðuls í heimspeki með börnum er það markmið heimspekinnar að gera reynsluna af skólastarfinu öllu merkingarbærara en ella. Skólinn á að vera merkingarbær en honum hefur ekki tekist það.
Nemendur geta íhugað heimspekilega fjölmarga þætti innan þeirra námsgreina sem þeir stunda í skólum. Í sögukennslu geta nemendur t.d. rökrætt að hvaða marki söguleg greining geti verið hlutlæg. Svipaðra spurninga má spyrja í félags- og náttúruvísindum, t.d. spurninga um að hvaða marki vísindin séu góð fyrir okkur. Heimspeki með börnum og unglingum er þar að auki nýtt sem tæki til að byggja upp skilning og merkingarbæra reynslu nemenda. Ástundun heimspekilegrar samræðu skapar reynslu þar sem nemandinn skilur sjálfan sig betur og stöðu sína í samfélaginu og þar með hefur heimspekikennsla siðferðilegt hlutverk.
Í fyrirlestrinum verður vísað í dæmi úr rannsóknum á hugtakaþróun og úr nýlegu þróunarverkefni í siðferðismenntun (values education) til að leggja upp umræðu um hvernig ástundun heimspekinnar getur átt sér stað á öllum sviðum menntunar.