Útdráttur Humes úr Ritgerð um manneðlið

ÚTDRÁTTUR

úr bók sem kom út nýlega undir heitinu RITGERÐ UM MANNEÐLIÐ1
Þar er aðalröksemdafærsla þessarar bókar frekar útlistuð og útskýrð
Kom fyrst út 1740

FORSPJALL

Væntingar mínar í þessu litla verki kunna að virðast nokkuð óvenjulegar þegar ég lýsi því yfir að ætlun mín er að gera stærra verk skiljanlegra fólki með venjulegar sálargáfur með því að stytta það. Það er þó víst að þeim sem eru ekki vanir óhlutbundinni rökfærslu hættir til að missa þráðinn í röksemdafærslu þar sem hún er mjög langdregin og hver hluti styrktur með öllum þeim rökum, varinn gegn öllum þeim andmælum og skýrður með öllum þeim sjónarmiðum sem höfundi detta í hug í rækilegri könnun efnisins. Slíkir lesendur munu eiga auðveldara með að skilja rökleiðslu sem er einfaldari og gagnorðari, þar sem einungis helstu staðhæfingarnar eru tengdar saman, skýrðar með nokkrum einföldum dæmum og staðfestar með fáeinum hinna sterkari raka. Þegar styttra er á milli hlutanna er betra að bera þá saman og auðveldara að rekja tengslin frá frumforsendum til lokaniðurstöðu.

Kvartað hefur verið yfir því að verkið sem lesandinn fær hér útdrátt úr sé óskýrt og torskilið, og mér er nær að halda að þetta stafi alveg eins mikið af lengd þess og því hve röksemdafærslan er óhlutbundin. Hafi ég ráðið bót á þessum óþægindum að einhverju leyti hef ég náð tilgangi mínum. Mér virtist bókin hafa slíkt yfirbragð sérkennileika og nýlundu að hún ætti að kalla á athygli almennings, sérstaklega ef mönnum finnst, eins og höfundurinn virðist gefa í skyn, að yrði heimspeki hans viðurkennd þá yrðum við að breyta frá grunni mestum hluta vísindanna. Svo djarfar tilraunir eru ætíð til gagns í fræðaheiminum vegna þess að þær losa menn undan oki kennivalds, venja þá á að hugsa sjálfstætt, gefa þeim nýjar vísbendingar sem snillingar geta farið lengra með; og með sjálfri andstöðunni skýra þær atriði sem engan grunaði áður að hefðu nein tormerki.

Höfundurinn verður að sætta sig við að bíða þolinmóður um sinn áður en hinir lærðu geta orðið sammála í afstöðu sinni til verks hans. Það er ólán hans að geta ekki skírskotað til fólksins sem í öllum málefnum sem snerta almenna skynsemi og málsnilld er talið svo óskeikull dómstóll. Hann hlýtur að verða dæmdur af hinum fáuen dómur þeirra er líklegri til að spillast af hlutdrægni og hleypidómum, einkum þar sem enginn er góður dómari í þessum efnum sem hefur ekki hugsað um þau oft. Og slíkir menn eru líklegir til að búa sér til sín eigin kerfi sem þeir einsetja sér að gefa ekki upp á bátinn. Ég vona að höfundurinn fyrirgefi að ég skipti mér af þessu máli þar sem tilgangur minn er einungis að stækka lesendahóp hans með því að fjarlægja nokkur tormerki sem hafa orðið til þess að margir skildu ekki meiningu hans.

Ég hef valið eina einfalda rökfærslu og rakið hana vandlega frá upphafi til enda. Þetta er eina atriðið sem ég hef hirt um að gera skil. Að öðru leyti er einungis drepið á einstaka kafla sem mér virtust forvitnilegir og merkilegir.

ÚTDRÁTTUR
ÚR
RITGERÐ UM MANNEÐLIÐ

Bók þessi virðist skrifuð eftir sömu aðferð og nokkur önnur verk sem hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum í Englandi. Hinn heimspekilegi andi, sem hefur tekið svo miklum framförum um gervalla Evrópu á síðastliðnum áttatíu árum, hefur tekið jafn miklum framförum í þessu konungsríki og hverju öðru sem er. Rithöfundar okkar virðast jafnvel hafa byrjað nýja tegund heimspeki sem gefur fyrirheit um meira, bæði til skemmtunar og gagns fyrir mannkynið, en nokkur önnur sem heimurinn hefur ennþá komist í kynni við. Flestir heimspekinga fornaldar sem fjölluðu um mannlegt eðli hafa sýnt meira tilfinninganæmi, rétt skynbragð á siðferði eða göfuglyndi en dýpt í rökleiðslu og hugsun. Þeir láta sér nægja að sýna almenna skynsemi mannkynsins í sem skærustu ljósi og með sem bestri hugsun og orðalagi án þess að setja sífellt fram samfellda röð staðhæfinga eða gera úr hinum ýmsu sannindum regluleg vísindi. En það er alltént tilvinnandi að prófa hvort vísindin um manninn muni ekki gefa kost á sömu nákvæmni og nokkrir hlutar náttúruspekinnar hafa reynst móttækilegir fyrir. Það virðist vera full ástæða til að ímynda sér að unnt sé að gera þau eins nákvæm og framast má verða. Ef við í rannsókn okkar á nokkrum fyrirbærum uppgötvum að þau leysast upp í eitt sameiginlegt lögmál [principle] og getum rakið þetta lögmál til annars munum við að lokum komast að þeim fáu einföldu lögmálum sem öll hin byggjast á. Og þótt við getum aldrei komist að hinum endanlegu lögmálum þá er það ánægjuefni að fara eins langt og hæfileikar okkar leyfa.

Þetta virðist hafa verið markmið síðari tíma heimspekinga okkar og einnig þessa höfundar. Hann ætlar sér að sundurgreina mannlegt eðli með skipulegum hætti og lofar að draga engar ályktanir nema þar sem reynslan heimilar. Hann talar með fyrirlitningu um tilgátur og gefur í skyn að þeir landa okkar sem hafa gert þær brottrækar úr siðrænni heimspeki hafi gert heiminum mikilsverðara gagn en Bacon lávarður sem hann telur vera föður tilraunaeðlisfræði. Í þessu sambandi nefnir hann hr. Locke, Shaftesbury lávarð, dr. Mandeville, hr. Hutcheson og dr. Butler sem virðast allir, þótt þá greini á í mörgum atriðum, sammála um að byggja hinar vönduðu rannsóknir sínar á mannlegu eðli að öllu leyti á reynslu.

Auk ánægjunnar að þekkja það sem stendur okkur næst má örugglega staðhæfa að næstum öll vísindin eru innifalin í vísindunum um mannlegt eðli og eru undir þeim komin. Eina markmið rökfræði er að útskýra lögmál og aðgerðir rökleiðsluhæfileika okkar og eðli hugmynda okkar; siðfræði og gagnrýni gaumgæfa hneigðir[tastes] okkar og viðhorf [sentiments]; og stjórnmál fjalla um menn sem samfélagsverur og háða hver öðrum. Þessari ritgerð um mannlegt eðli virðist því ætlað að vera kerfisbundin kenning um vísindin. Höfundurinn hefur lokið því sem snertir rökfræði og lagt grunninn að hinum þáttunum í greinargerð sinni um tilfinningalífið [passions].2

Hinn nafntogaði hr. Leibniz hefur sagt að það sé galli á hinum algengu rökfræðikerfum að þau eru mjög margorð þegar þau útskýra aðgerðir skilningsins við myndun rökleiðslusannana en of stuttorð þegar þau fjalla um líkindi og vísbendingar sem líf og starf eru algerlega komin undir og sem eru leiðarljós okkar jafnvel í flestum heimspekilegum heilabrotum okkar. Í þessari aðfinnslu tekur hann með The Essay on Human Understanding (Ritgerð um mannlegan skilning), Le Recherche de la Vérité (Leitin að sannleikanum) og L’Art de Penser (Listin að hugsa).3 Höfundur Ritgerðar um manneðlið virðist hafa vitað um þennan galla hjá þessum heimspekingum og hefur leitast við að bæta úr honum eftir fremsta megni. Þar sem bók hans hefur að geyma margar mjög nýjar og merkilegar vangaveltur er útilokað að gefa lesandanum rétta hugmynd um heildina. Við munum því aðallega halda okkur við útlistun hans á rökleiðslum okkar út frá orsök og afleiðingu.Takist okkur að gera lesandanum þetta skiljanlegt dugar það kannski sem sýnishorn af heildinni.

Höfundur okkar byrjar með nokkrum skilgreiningum. Hann kallar skynjun[perception] hvaðeina sem getur verið til staðar í huganum hvort sem við notum skilningarvitin eða erum í geðshræringu eða beitum hugsun og íhugun. Hann skiptir skynjunum okkar í tvær tegundir, þ.e. frumskynjanir [impressions] oghugmyndir [ideas]. Þegar við finnum til ástríðu eða geðshræringar af hvaða tæi sem er eða höfum ímyndirnar af ytri hlutum sem skilningarvitin miðla, þá er skynjun hugans það sem hann kallar frumskynjun, en það er orð sem hann notar í nýrri merkingu. Þegar við íhugum einhverja geðshræringu eða hlut sem er ekki til staðar er þessi skynjun hugmyndFrumskynjanir eru því hinar fjörlegu og sterku skynjanir okkar; hugmyndir eru hinar daufari og veikari. Þessi greinarmunur er augljós, eins augljós og greinarmunurinn á tilfinningu og hugsun.

Fyrsta staðhæfingin sem hann setur fram er að allar hugmyndir okkar, eða daufar skynjanir, séu sprottnar af frumskynjunum okkar eða sterku skynjunum, og að við getum aldrei hugsað um neitt sem við höfum ekki séð utan við okkur eða fundið til í huga okkar. Þessi staðhæfing virðist jafngilda þeirri sem hr. Locke hefur lagt sig svo fram við að sanna, það er að segja að engar hugmyndir séu meðfæddar. Nema hvað þess má geta, sem ónákvæmni hjá þeim fræga heimspekingi, að hann fellir allar skynjanir okkar undir heitið hugmynd, en í þeim skilningi er það rangt að við höfum engar meðfæddar hugmyndir. Því ljóst er að sterkari skynjanir okkar eða frumskynjanir eru meðfæddar og að náttúrleg ástúð, mætur á dygð, reiði og allar hinar geðshræringarnar eiga rætur að rekja beint til náttúrunnar. Ég er sannfærður um að hver sem skoðaði málið í þessu ljósi ætti auðvelt með að sætta alla aðila. Faðir Malebranche4 mundi eiga í vandræðum með að benda á einhverja hugsun mannshugans sem stæði ekki fyrir eitthvað sem hann hefði áður skynjað annaðhvort innra með sér eða fyrir atbeina hinna ytri skilningarvita, og yrði að viðurkenna að hvernig svo sem við kunnum að setja saman og blanda, auka og minnka hugmyndir okkar, þá eiga þær allar rætur að rekja til þessara uppsprettna. Hr. Locke mundi aftur á móti fúslega viðurkenna að allar geðshræringar okkar séu einskonar náttúrlegar eðlishvatir sem spretti af engu öðru en upprunalegri gerð mannshugans.

Höfundur okkar telur „að engin uppgötvun hefði getað verið haglegar gerð til að gera út um allar deilur um hugmyndir en þessi að frumskynjanir komi alltaf á undan þeim og að sérhver hugmynd sem ímyndunaraflið býr yfir birtist fyrst í samsvarandi frumskynjun. Þessar síðarnefndu skynjanir eru allar svo skýrar og augljósar að um þær verður ekki deilt, enda þótt margar af hugmyndum okkar séu svo óskýrar að það er næstum því ógerlegt, jafnvel fyrir hugann sem myndar þær, að greina nákvæmlega eðli þeirra og samsetningu.“ Þess vegna getur hann alltaf, hvar sem einhver hugmynd er óljós, leitað til frumskynjunarinnar sem hlýtur að gera hana skýra og nákvæma. Og þegar hann grunar að eitthvert heimspekilegt fagorð standi ekki fyrir neina hugmynd (eins og of algengt er) spyr hann ætíð af hvaða frumskynjun sú hugmynd sé leidd. Og sé ekki hægt að koma fram með neina frumskynjun ályktar hann að orðið sé merkingarlaust með öllu. Það er með þessum hætti sem hann rannsakar hugmynd okkar um verund [substance] og innsta eðli[essence]. Og óskandi væri að þessi stranga aðferð væri iðkuð meira í öllum heimspekilegum rökræðum.

Það er augljóst að allar rökleiðslur um staðreyndir byggjast á sambandi orsakar og afleiðingar og að við getum aldrei ályktað um tilvist eins hlutar af öðrum nema þeir séu tengdir saman, annaðhvort óbeint eða beint. Til þess að skilja þessar rökleiðslur verðum við því að gjörþekkja hugmyndina um orsök, og til þess verðum við að svipast um til að finna eitthvað sem er orsök annars.

Hér liggur biljarðkúla á borðinu og önnur kúla hreyfist hratt í átt til hennar. Þær skella saman og kúlan sem áður var kyrr fer nú að hreyfast. Þetta er eins fullkomið dæmi um samband orsakar og afleiðingar og nokkurt annað sem við þekkjum, annaðhvort með skynhrifum eða íhugun. Við skulum því rannsaka það. Það er augljóst að kúlurnar tvær snertust áður en hreyfingunni var miðlað og að það var ekkert bil milli höggsins og hreyfingarinnar. Samlægi í tíma og rúmi er þess vegna nauðsynlegt atriði fyrir virkni allra orsaka. Ennfremur er augljóst að hreyfingin sem var orsökin fer á undan hreyfingunni sem var afleiðingin. Undanför í tíma er því annað nauðsynlegt atriði hjá hverri orsök. En þetta er ekki allt. Prófum aðrar kúlur af sömu tegund í svipuðum aðstæðum og við munum alltaf komast að raun um að högg annarrar veldur hreyfingu hjá hinni. Hér er því þriðja atriðið, það er stöðug fylgni milli orsakar og afleiðingar. Sérhvert fyrirbæri [object] sem er eins og þessi orsök framkallar ætíð eitthvert fyrirbæri sem er eins og þessi afleiðing. Umfram þessi þrjú atriði sem eru samlægi, undanför og stöðug fylgni finn ég ekkert hjá þessari orsök. Fyrri kúlan er á hreyfingu, snertir þá síðari, og hún fer strax á hreyfingu. Og þegar ég prófa tilraunina með sömu eða svipuðum kúlum, í sömu eða svipuðum kringumstæðum, kemst ég að raun um að við hreyfingu og snertingu annarrar kúlunnar fylgir ætíð hreyfing hinnar í kjölfarið. Hvernig sem ég velti þessu efni og hvernig sem ég rannsaka það finn ég ekkert frekar.

Þessu er svona háttað þegar bæði orsök og afleiðing blasa við skilningarvitunum. Við skulum nú athuga á hverju ályktun okkar byggist þegar við ályktum af einu að annað hafi verið til eða verði til. Hugsum okkur að ég sjái kúlu hreyfast í beina línu í átt til annarrar. Ég álykta undireins að þær rekist á og að hin kúlan muni hreyfast. Þetta er ályktun frá orsök til afleiðingar og af þessari gerð eru allar rökleiðslur í hversdagslífi okkar. Á þessari ályktun byggist öll trú okkar á söguna, og til hennar á öll heimspeki rætur að rekja, að rúmfræði og talnafræði einum undanteknum. Ef við getum útskýrt ályktunina út frá árekstri tveggja kúlna þá munum við geta gert grein fyrir þessari aðgerð hugans í öllum tilvikum.

Væri maður, eins og til dæmis Adam, skapaður með fullri skilningsgáfu, án reynslu, mundi hann aldrei geta ályktað um hreyfingu hjá síðari kúlunni af hreyfingu og höggi hinnar fyrri. Það er ekki neitt sem rökvitið [reason] sér í orsökinni sem kemur okkur til að álykta um afleiðinguna. Slík ályktun, væri hún möguleg, mundi jafngilda röklegri sönnun eða rökleiðslusönnun [demonstration], með því að hún byggðist einungis á samanburði hugmynda. En engin ályktun frá orsök til afleiðingar jafngildir rökleiðslusönnun, og er þetta því til sönnunar: Hugurinn getur alltafhugsað sér að hvaða afleiðingu sem er leiði af hvaða orsök sem er, og reyndar að hvaða atburður sem er fylgi í kjölfar annars. Hvaðeina sem við hugsum okkur er mögulegt, alltént í frumspekilegum skilningi. En hvar sem rökleiðslusönnun á sér stað er hið gagnstæða ómögulegt og felur í sér mótsögn. Það er því enginn rökleiðslusönnun fyrir fylgni orsakar og afleiðingar. Og þetta er regla sem er almennt viðurkennd af heimspekingum.

Það hefði því verið nauðsynlegt fyrir Adam (væri hann ekki fylltur guðlegum innblæstri) að hafa haft reynslu af afleiðingunni sem fylgdi árekstri þessara tveggja kúlna. Hann yrði að hafa séð, í nokkrum tilvikum, að þegar önnur kúlan rakst á hina þá öðlaðist hin síðarnefnda alltaf hreyfingu. Hefði hann séð nægilegan fjölda dæma af þessu tæi, hvenær sem hann sá aðra kúluna hreyfast í átt til hinnar, þá hefði hann alltaf ályktað hiklaust að hin síðarnefnda mundi öðlast hreyfingu. Hugsun hans færi á undan sjóninni og mundi álykta í samræmi við reynslu hans í fortíðinni.

Af þessu leiðir þá að allar rökfærslur um orsök og afleiðingu byggjast á reynslu og að öll reynslurök grundvallast á þeirri tilgátu að gangur náttúrunnar verði áfram samur við sig. Við ályktum að líkar orsakir í líkum kringumstæðum muni ætíð valda líkum afleiðingum. Það kann nú að vera ómaksins vert að velta því fyrir sér hvað kemur okkur til að draga svona óendanlega mikilvæga ályktun.

Það er augljóst að Adam, þrátt fyrir alla sína þekkingu, hefði aldrei getað sannaðmeð rökleiðslu að gangur náttúrunnar hlyti að haldast óbreyttur og að framtíðin hlyti að verða í samræmi við fortíðina. Það sem er mögulegt verður aldrei sannað með rökleiðslu að sé rangt, og það er mögulegt að gangur náttúrunnar kunni að breytast fyrst við getum hugsað okkur slíka breytingu. Ég vil meira að segja ganga lengra og fullyrða að hann gæti ekki einusinni sannað með neinum sennilegumrökum að framtíðin hlyti að verða í samræmi við fortíðina. Öll sennileg rök byggjast á þeirri tilgátu að það sé samræmi milli framtíðar og fortíðar og geta því aldrei sannað það. Þetta samræmi er staðreynd og ef verður að sanna það þá er ekki um neina sönnun að ræða nema út frá reynslu. En reynsla okkar í fortíðinni getur ekki sannað neitt um framtíðina nema gert sé ráð fyrir að það þær líkist. Þetta er því atriði þar sem alls ekki er um neina sönnun að ræða og við tökum sem gefið án sönnunar.

Það er vaninn einn sem fær okkur til að gera ráð fyrir að framtíðin verði í samræmi við fortíðina. Þegar ég sé biljarðkúlu hreyfast í átt til annarrar er hugur minn undireins borinn af vana til venjulegrar afleiðingar og fer á undan sjóninni með því að hugsa sér síðarnefndu kúluna á hreyfingu. Það er ekkert í þessum hlutum skoðuðum út af fyrir sig og óháð reynslu sem fær mig til að draga slíka ályktun. Og jafnvel eftir að ég hef haft reynslu af mörgum endurteknum afleiðingum af þessu tæi þá er engin röksemdafærsla sem fær mig til að gera ráð fyrir að afleiðingin verði í samræmi við reynslu fortíðar. Öflin sem efnishlutir ganga fyrir eru óþekkt með öllu. Við þekkjum aðeins skynjanlega eiginleika þeirra. Og hvaða röklega ástæðuhöfum við til að halda að sömu öflin verði alltaf tengd sömu skynjanlegu eiginleikunum?

Það er því ekki rökvitið sem er leiðarvísir í lífinu heldur vaninn. Hann einn fær hugann, í öllum tilvikum, til að gera ráð fyrir að framtíðin verði í samræmi við fortíðina. Hversu auðvelt sem þetta skref kann að virðast gæti rökvitið aldrei um alla eilífð stigið það.

Þetta er mjög furðuleg uppgötvun en leiðir til annarra sem eru enn furðulegri.Þegar ég sé biljarðkúlu hreyfast í átt til annarrar er hugur minn undireins borinn af vana til venjulegrar afleiðingar og fer á undan sjóninni með því að hugsa sér síðarnefndu kúluna á hreyfingu. En er þetta allt? Geri ég ekkert annað en hugsamér hreyfingu kúlunnar? Jú, vissulega. Ég trúi því líka að hún muni hreyfast. Hvað er þá þessi trú? Og hvernig er hún frábrugðin einberri hugsun [conception] um eitthvað? Hér er á ferðinni ný spurning sem heimspekingum hefur ekki dottið í hug eða þeir hugleitt.

Þegar sönnun með rökleiðslu sannfærir mig um einhverja fullyrðingu fær það mig ekki aðeins til að hugsa mér staðhæfinguna heldur gerir mér líka ljóst að útilokað er að hugsa sér eitthvað gagnstætt. Það sem er röksannanlega ósatt felur í sér mótsögn, og það sem felur í sér mótsögn er ekki hægt að hugsa sér. En hvað snertir staðreyndir yfirleitt, hversu sterk sem sönnunin kann að vera út frá reynslu, þá get ég alltaf hugsað mér hið gagnstæða þótt ég geti ekki alltaf trúað því. Trúin gerir því einhvern greinarmun á hugsuninni sem við föllumst á og þeirri sem við föllumst ekki á.

Til að skýra þetta eru aðeins tvær tilgátur. Segja má að trú tengi einhverja nýja hugmynd við þær sem við kunnum að hugsa okkur án þess að fallast á þær. En þessi tilgáta er ósönn. Því að í fyrsta lagi er ekki hægt að leggja fram neina slíka hugmynd. Þegar við einfaldlega hugsum okkur hlut hugsum við okkur hann frá öllum hliðum. Við hugsum okkur hann eins og hann gæti verið til þótt við trúum ekki að hann sé til.Trú okkar á tilvist hans mundi ekki leiða í ljós neina nýja eiginleika. Við getum útmálað allan hlutinn í huganum án þess að trúa að hann sé til. Við getum á vissan hátt sett hann okkur fyrir sjónir með öllum smáatriðum stundar og staðar. Það er sjálfur hluturinn hugsaður eins og hann gæti verið til. Og þegar við trúum því getum við ekki gert neitt meira.

Í öðru lagi hefur hugurinn hæfileika til að tengja saman allar hugmyndir sem fela ekki í sér mótsögn, og þar af leiðir að ef trú væri fólgin í einhverri hugmynd sem við bætum við hugsunina eina þá væri það á valdi manns að trúa öllu sem hann getur hugsað sér, með því að bæta þessari hugmynd við.

Þar sem trú felur því í sér hugsun og er samt eitthvað meira; og þar sem hún bætir engri nýrri hugmynd við hugsunina þá leiðir af því að hún er öðruvísi hátturað hugsa sér hlut – eitthvað sem tilfinningin getur greint og er ekki háð viljanum eins og allar hugmyndir okkar eru. Hugurinn hleypur af vana frá hinum sýnilega hlut, einni kúlu sem hreyfist í átt til annarrar, til hinnar venjulegu afleiðingar, hreyfingar hjá síðarnefndu kúlunni. Hann hugsar sér ekki aðeins þessa hreyfingu heldur kennir einhvers sem er ólíkt draumórum ímyndunaraflsins í hugsuninni um hana. Nærvera þessa sýnilega hlutar og stöðug fylgni þessarar sérstöku afleiðingar gera hugmyndina ólíka fyrir tilfinninguna hinum sundurlausu hugmyndum sem koma í hugann fyrirvaralaust. Þessi ályktun virðist dálítið furðuleg, en við komumst að henni með samfelldri röð staðhæfinga sem ekki verða dregnar í efa. Til að auðvelda lesandanum að rifja upp endurtek ég þær í stuttu máli. Enga staðreynd er hægt að sanna nema út frá orsök hennar eða afleiðingu. Ekki er hægt að vita að eitt sé orsök annars nema með reynslu. Við getum ekki gefið neina röklega ástæðu fyrir því að teygja inn í framtíðina reynslu okkar í fortíðinni, heldur ræðst það að öllu leyti af vana þegar við hugsum okkur að afleiðingu leiði af venjulegri orsök hennar. En við trúum því líka, sem og hugsum okkur það, að afleiðing fylgi. Þessi trú tengir enga nýja hugmynd við hugsunina. Hún breytir aðeins hugsunarhættinum og skiptir máli fyrir tilfinninguna eða afstöðuna [sentiment]. Trú stafar því einungis af vana þar sem um staðreyndir er að ræða og hún er hugmynd sem er hugsuð á sérstakan hátt.

Höfundur okkar útskýrir síðan háttinn eða tilfinninguna sem gerir trú frábrugðna sundurlausri hugsun. Hann virðist gera sér ljóst að það er útilokað að lýsa með orðum tilfinningunni sem allir hljóta að vera sér meðvitandi um í eigin brjósti. Stundum kallar hann hana sterkari hugsun, stundum fjörlegrilíflegristöðugri eðaákafari hugsun. Og hvaða nafn sem við kunnum að gefa þessari tilfinningu sem myndar trú telur höfundur okkar eins og nærri má geta augljóst að hún hafi sterkari áhrif á hugann en uppspuni og einber hugsun. Þetta sannar hann með áhrifum hennar á geðshræringarnar og ímyndunaraflið sem hrærast einungis af sannleik eða því sem talið er vera satt. Skáldskapur, þrátt fyrir alla sína list, getur aldrei valdið geðshræringu eins og hún er í raunverulegu lífi. Hann skortir hina upprunalegu skynjun viðfangsefna sinna sem orka aldrei á tilfinninguna með sama hætti og þeir hlutir sem ráða trú okkar og skoðun.

Höfundur okkar leitast því næst við útskýra orsök þessarar fjörlegu tilfinningar með hliðstæðu við aðrar athafnir hugans, og telur sig áður hafa sannað á fullnægjandi hátt að hugmyndirnar sem við föllumst á séu öðruvísi fyrir tilfinninguna en hinar hugmyndirnar og að þessi tilfinning sé stöðugri og fjörlegri en venjuleg hugsun okkar. Rökfærsla hans virðist furðuleg, en það væri varla hægt að gera hana skiljanlega, eða alltént sennilega fyrir lesandann, án þess að fara ítarlega út í smáatriði, en það væri að fara út fyrir þau mörk sem ég hef sett mér.

Ég hef einnig sleppt mörgum röksemdum sem hann tilfærir til að sanna að trú sé einungis fólgin í sérstakri tilfinningu eða afstöðu. Ég nefni aðeins eina: reynsla okkar er ekki alltaf eins. Stundum leiðir eina afleiðingu af orsök, stundum aðra, og þá trúum við alltaf að sú afleiðing verði til sem er algengust. Ég sé biljarðkúlu hreyfast í átt til annarrar. Ég get ekki greint hvort hún snýst um öxulinn eða hafi verið slegin þannig að hún þeytist í loftköstum eftir borðinu. Í fyrra tilvikinu veit ég að hún stöðvast ekki eftir áreksturinn. Í hinu síðara getur verið að hún stöðvist. Hið fyrra er algengast og þess vegna tel ég að það gerist. En mér kemur líka hin afleiðingin í hug og hugsa mér hana mögulega og tengda við orsökina. Ef önnur hugsunin væri ekki ólík hinni hvað varðar tilfinninguna eða afstöðuna þá væri enginn munur á þeim.

Í allri þessari rökleiðslu höfum við takmarkað okkur við tengsl orsakar og afleiðingar eins og þau birtast í hreyfingum og gerningum [operations] efnisins. En sama rökleiðsla nær til aðgerða hugans. Hvort sem við íhugum áhrif viljans þegar við hreyfum líkamann eða stjórnum hugsuninni má örugglega halda því fram að við gætum aldrei sagt fyrir um afleiðinguna, með því einu að hugleiða orsökina, án reynslu. Og jafnvel eftir að við höfum reynslu af þessum afleiðingum er það vaninn einn, ekki rökvitið, sem fær okkur til að gera hana að mælikvarða á dóma okkar í framtíðinni. Þegar orsökin er sýnd fer hugurinn undireins, af vana, til hugsunarinnar um venjulega afleiðingu og trúar á hana. Þessi trú er eitthvað ólíkt hugsuninni. Hún tengir samt enga nýja hugmynd við hana. Hún lætur hana aðeins finnast öðruvísi og gerir hana sterkari og líflegri.

Þegar höfundur okkar er búinn að afgreiða þetta mikilvæga atriði varðandi eðli ályktunarinnar frá orsök til afleiðingar snýr hann til baka og rannsakar að nýju hugmyndina um þessi tengsl. Við rannsókn á hreyfingu sem ein kúla miðlar annarri fundum við ekkert nema samlægi, að orsökin fer á undan og stöðuga fylgni. En auk þessara atriða er venjulega talið að það séu nauðsynleg tengsl milli orsakar og afleiðingar og að orsökin búi yfir einhverju sem við köllum aflkraft eða orku. Spurningin er: Hvaða hugmynd tengist þessum orðum? Eigi allar hugmyndir okkar eða hugsanir rætur að rekja til frumskynjana hlýtur þetta afl annaðhvort að birtast skilningarvitum okkar eða innri tilfinningu. En því fer svo fjarri að nokkurt afl birtist skilningarvitunum í gerningum efnisins að fylgismenn Descartes hafa ekki hikað við að fullyrða að efnið sé gersneytt orku og að allir gerningar séu framkvæmdir einungis með orku hinnar æðstu veru. En spurningin kemur samt upp aftur: Hvaða hugmynd höfum við um orku eða afl jafnvel hjá hinni æðstu veru? Öll hugmynd okkar um Guð (samkvæmt þeim sem afneita meðfæddum hugmyndum) er ekkert annað en samsetning þeirra hugmynda sem við fáum með því að velta fyrir okkur aðgerðum huga okkar. Hugir okkar veita okkur enga frekari hugmynd um orku en efnið gerir. Þegar við íhugum vilja okkar fyrirfram, og einangrum hann frá reynslu, gætum við aldrei ályktað um neina afleiðingu af honum. Og þegar við grípum til reynslunnar sýnir hún okkur einungis hluti sem eru samlægir, koma í röð og fylgjast stöðugt að. Við höfum þá þegar á allt er litið annaðhvort alls enga hugmynd um afl og orku, og þessi orð eru merkingarlaus með öllu, eða þau geta ekki merkt neitt annað en þessa ákvörðun hugsunarinnar, sem fengin er með vana, að fara frá orsökinni til venjulegrar afleiðingar hennar. En hver sá sem vildi skilja þetta til hlítar verður að lesa það sem höfundurinn sjálfur segir. Það nægir ef ég get fengið hina lærðu til að skilja að hér er um nokkurn vanda að ræða og að hver sem leysir vandann verður að segja eitthvað nýtt og óvenjulegt – eins nýtt og vandinn sjálfur er.

Af öllu því sem sagt hefur verið mun lesandinn eiga hægt með að skilja að heimspekin sem þessi bók hefur að geyma er mjög efahyggjuleg og hefur tilhneigingu til að gefa okkur hugmynd um ófullkomleika og þröng takmörk skilningsgáfunnar. Næstum því öll rökleiðsla er þar smættuð niður í reynslu, og trúin sem fylgir reynslunni er útskýrð sem ekkert annað en sérstök tilfinning eða fjörleg hugsun sem verður til fyrir vana. Og ekki er þetta allt. Þegar við trúum einhverju um ytri tilveru, eða teljum að hlutur sé til andartaki eftir að hann er ekki lengur skynjaður, er þessi trú ekkert annað en tilfinning af sama tæi. Höfundur okkar leggur áherslu á nokkur önnur efahyggjuleg efni, og ályktar yfirleitt að við tökum mark á hæfileikum okkar og beitum rökvitinu einungis vegna þess að við komumst ekki hjá því. Heimspekin gerði okkur að algerum efahyggjumönnum væri náttúran ekki ofjarl hennar.

Ég ætla að ljúka rökfræði þessa höfundar með greinargerð um tvær skoðanir sem virðast sérkennandi fyrir hann sjálfan, eins og reyndar flestar skoðanir hans eru. Hann staðhæfir að sálin, að svo miklu leyti sem við getum hugsað okkur hana, sé ekkert annað en kerfi eða röð mismunandi skynjana: hita og kulda, ástar og reiði, hugsana og skynhrifa [sensations], sem allar eru samtengdar en án fullkomins einfaldleika eða samsemdar. Descartes hélt því fram að hugsun væri innsta eðli hugans, ekki þessi eða hin hugsunin heldur hugsun yfirleitt. Þetta virðist algerlega óskiljanlegt þar eð allt sem er til er einstakt, og þess vegna hljóta það að vera hinar aðskiljanlegu skynjanir okkar sem mynda hugann. Ég segi mynda hugann, ekki tilheyra honum. Hugurinn er ekki verund [substance] sem skynjanir eru innbyggðar í. Sú skoðun er jafn óskiljanleg og sú cartesíska að hugsun eða skynjun almennt sé innsta eðli hugans. Við höfum enga hugmynd um verund af neinu tæi vegna þess að við höfum enga hugmynd nema þá sem á rætur að rekja til einhverrar frumskynjunar, og við höfum enga frumskynjun af neinni verund, hvort heldur efnislegri eða andlegri. Við þekkjum ekkert nema einstaka eiginleika og skynjanir. Eins og hugmynd okkar um efnishlut, til að mynda ferskju, er einungis hugmynd um sérstakt bragð, lit, lögun, stærð, þéttleika og þar fram eftir götunum, þannig er hugmynd okkar um hug einungis hugmynd um einstakar skynjanir, án hugmyndarinnar um nokkuð sem við köllum verund, hvort heldur einfalda eða samsetta.

Hin skoðunin sem ég ætlaði að hyggja að varðar rúmfræði. Með því að höfundur okkar hefur neitað að hægt sé að deila rúmsvídd í það óendanlega þykir honum óhjákvæmilegt að hrekja þau stærðfræðilegu rök sem hafa verið færð fyrir því, og þau eru reyndar einu rökin sem skipta máli. Þetta gerir hann með því að neita að rúmfræðin sé nógu nákvæm vísindi til að heimila jafn hárfínar ályktanir og þær sem varða óendanlegan deilanleika. Rök hans má útskýra á þessa leið. Öll rúmfræði grundvallast á hugtökunum jöfnuður og mismunur og, þar af leiðandi, að því marki sem við höfum eða höfum ekki nákvæman mælikvarða á þau vensl þá leyfir vísindagreinin sjálf eða leyfir ekki mikla nákvæmni. Nú er til nákvæmur mælikvarði á jöfnuð ef við gerum ráð fyrir að stærð sé samsett af ódeilanlegum punktum. Tvær línur eru jafnar þegar fjöldi punktanna sem þær eru settar saman úr er jafn og þegar punktur í annarri samsvarar punkti í hinni. En þótt þessi mælikvarði sé nákvæmur er hann gagnslaus, þar sem við getum aldrei reiknað út punktafjöldann í línu. Auk þess byggist hann á tilgátunni um endanlegan deilanleika og getur því aldrei látið í té ályktun gegn honum. Ef við höfnum þessum mælikvarða á jöfnuð höfum við engan sem getur gert tilkall til nákvæmni. Ég finn tvo sem algengt er að nota. Tvær línur lengri en stika eru sagðar jafnar þegar þær innihalda einhverja minni stærð, svo sem þumlung, jafnmörgum sinnum. En þetta fer í hring. Því stærðin sem við köllum þumlung hjá annarri er talin vera jöfn þeirri sem við köllum þumlung hjá hinni, og spurningin er enn hvaða mælikvarða við beitum þegar við dæmum þær jafnar, eða með öðrum orðum hvað við eigum við þegar við segjum að þær séu jafnar. Ef við tökum enn minni stærðir höldum við áfram endalaust. Þetta er því enginn mælikvarði á jöfnuð. Flestir heimspekingar segja, þegar þeir eru spurðir hvað þeir eigi við með jöfnuði, að orðið verði ekki skilgreint og að það nægi að sýna okkur tvo jafna hluti, svo sem tvö þvermál hrings, til að koma okkur í skilning um þetta orð. Þetta er að taka almennt útlit hlutanna sem mælikvarða á þetta hlutfall og gerir ímyndunarafl okkar og skilningarvit endanlega dómara um það. En slíkur mælikvarði leyfir enga nákvæmni og getur aldrei látið í té niðurstöðu gagnstæða ímyndunaraflinu og skilningarvitunum. Hvort þessi spurning er réttmæt eða ekki verður að láta hinum lærðu eftir að dæma um. Þess væri vissulega óskandi að menn dyttu ofan á eitthvert úrræði til að sætta heimspeki og almenna skynsemi, sem hafa háð afar grimmileg stríð hvor við aðra um spurninguna um óendanlegan deilanleika.

Við verðum nú að taka til við að gera nokkra grein fyrir öðru bindi þessa verks sem fjallar um tilfinningalífið eða geðshræringarnar [passions]. Það er auðskiljanlegra en hið fyrra en hefur að geyma skoðanir sem eru í senn jafn nýjar og óvenjulegar. Höfundurinn byrjar á stolti og blygðun. Hann segir að hlutirnir sem vekja þessar geðshræringar séu mjög margir og að því er virðist mjög ólíkir hver öðrum. Stolt eða sjálfsálit kann að stafa af eiginleikum hugans: andríki [wit], hyggjuviti [good-sense], lærdómi, hugrekki, heiðarleika; af eiginleikum líkamans: fegurð, afli, fimi, góðum limaburði [good mien], leikni í dansi, reiðmennsku, skylmingum; af ytri kostum: landi, fjölskyldu, ættingjum, auðæfum, húsum, görðum, hrossum, hundum, fötum. Síðan kannar hann hvað það er sem allir þessir hlutir eiga sameiginlegt og veldur því að þeir hafa áhrif á tilfinningalífið. Kenning hans nær einnig til ástar og haturs og annarra tilfinninga [affections]. Þar sem ekki væri hægt að gera þessar spurningar, enda þótt forvitnilegar séu, skiljanlegar án þess að skrifa langt mál sleppum við þeim hér.

Það kemur sér kannski betur fyrir lesandann að fræðast um það sem höfundur okkar segir um frjálsan vilja. Hann hefur lagt grunninn að kenningu sinni með því sem hann sagði um orsök og afleiðingu, eins og útskýrt var hér að framan. „Það er almennt viðurkennt að gerningar efnishluta séu nauðsynlegir og að í miðlun hreyfingar þeirra, í aðdrætti þeirra og gagnkvæmri samloðun, sé ekki minnsti vottur af hvikulleika [indifference] eða frelsi.“ … „Hvaðeina sem er því að þessu leyti sambærilegt við efnið hlýtur að teljast nauðsynlegt. Til þess að við getum vitað hvort þetta eigi við um athafnir hugans getum við rannsakað efnið og athugað á hverju hugmyndin um nauðsyn í gerningum þess byggist og hvers vegna við ályktum að einn efnishlutur sé óbrigðul orsök annars eða ein athöfn óbrigðul orsök annarrar.“

„Það hefur þegar komið fram að í engu einstöku tilviki geta skilningarvit okkar eða rökvit fundið hin endanlegu tengsl nokkurs fyrirbæris og að við getum aldrei komist svo langt inn í kjarna og samsetningu efnishluta að við skiljum [perceive] lögmálið sem gagnkvæm áhrif þeirra byggjast á. Það er stöðug fylgni þeirra ein sem við höfum kynni af, og það er frá hinni stöðugu fylgni sem nauðsynin stafar þegar hugurinn er ákveðinn að fara frá einu fyrirbæri til þess sem venjulega er því samfara og álykta um tilvist annars af tilvist hins. Hér eru þá tvö atriði sem við eigum að telja ómissandi fyrir nauðsyn, þ.e.a.s. stöðug fylgni og ályktun hugans, og hvar sem við finnum þetta tvennt hljótum við að viðurkenna nauðsyn.“ Nú er ekkert augljósara en hin stöðuga fylgni einstakra athafna og einstakra hvata. Séu ekki allar athafnir stöðugt samfara viðeigandi hvötum þeirra þá er þessi óvissa ekkert meiri en sjá má dag hvern í gerningum efnisins þar sem afleiðingin er oft breytileg og óviss vegna blöndunar og óvissu um orsakirnar. Tvö grömm af ópíum munu drepa mann sem er ekki vanur því þó að tvö grömm af rabarbara muni ekki ætíð örva hægðir hans. Á svipaðan hátt mun óttinn við dauðann ætíð láta mann taka á sig tuttugu skrefa krók þótt hann muni ekki ætíð koma honum til fremja illvirki.

Og eins og athafnir viljans og hvatir þeirra fara oft stöðugt saman, er einnig ályktunin frá annarri til hinnar oft jafn örugg og nokkur rökleiðsla um efnishluti, og það er alltaf ályktun í hlutfalli við stöðugleika fylgninnar. Á þessu byggjast trú okkar á vitni, traust okkar á sögunni og reyndar alls konar líkindarök [moral evidence] og næstum því öll hegðun okkar í daglegu lífi.

Höfundur okkar heldur því fram að þessi rökfærsla setji alla deiluna í nýtt samhengi með því að koma með nýja skilgreiningu á nauðsyn. Og reyndar verða áköfustu formælendur frjáls vilja að viðurkenna þessa fylgni og ályktun hvað mannlegar athafnir snertir. Þeir munu einungis neita að þetta sé nauðsynin öll. En þá verða þeir að sýna fram á að við höfum hugmynd um eitthvað annað í gerningum efnisins, en samkvæmt rökfærslunni hér á undan er það útilokað.

Í allri þessari bók er mikil kröfugerð um nýjar uppgötvanir í heimspeki, en geti eitthvað veitt höfundinum tilkall til svo dýrlegs nafns sem þess að vera kallaðurhugvitsmaður þá er það notkun hans á lögmálinu um hugmyndatengsl sem kemur inn í mestalla heimspeki hans. Ímyndunaraflið hefur mikið vald yfir hugmyndum okkar, og það eru engar innbyrðis ólíkar hugmyndir sem það getur ekki aðskilið og tengt saman og sett inn í allar tegundir skáldskapar. En þrátt fyrir veldi ímyndunaraflsins er dulið samband á milli ákveðinna hugmynda sem veldur því að hugurinn tengir þær oftar saman og lætur eina, þegar hún birtist, innleiða aðra. Af þessu stafar það sem við köllum viðeigandi [apropos] í samræðu, samhengi ritaðs máls, og sá hugsanaþráður sem maður fylgir eðlilega jafnvel í sundurlausustudraumórum. Þessi lögmál um hugmyndatengsl eru dregin saman í þrjú, þ.e. líkingu– mynd fær okkur eðlilega til að hugsa um manninn sem hún var teiknuð af;samlægi – þegar St. Denis5 er nefnd kemur hugmyndin um París eðlilega í hugann;orsakatengsl – þegar við hugsum um soninn er okkur gjarnt að beina athyglinni að föðurnum. Það verður auðvelt að hugsa sér hve geysilega þýðingu þessi lögmál hljóta að hafa í vísindunum um mannlegt eðli ef við hugleiðum að hvað hugann varðar eru þau einu tengslin sem halda pörtum heimsins saman eða tengja okkur við manneskju eða hlut utan við okkur sjálf. Því vegna þess að það er einungis með atbeina hugsunar sem nokkuð hefur áhrif á tilfinningar [passions] okkar, og þar sem þessi lögmál eru einu tengsl hugsana okkar, þá eru þau í raun fyrir okkurlím eða bindiefni heimsins og allar aðgerðir hugans hljóta að miklu leyti að ráðast af þeim.

FINIS

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Bókin er A Treatise of Human Nature eftir David Hume (1711–76). Útdrátturinn var venjulega eignaður Adam Smith þar til hann var endurprentaður árið 1938 með inngangi eftir breska hagfræðinginn John Maynard Keynes og ítalska hagfræðinginn Piero Sraffa þar sem færðar eru óyggjandi sönnur á að Hume sjálfur sé höfundurinn.

2. Ritgerðin kom fyrst út í þremur bókum eða bindum: „Um skilningsgáfuna“ (Of the Understanding) og „Um tilfinningalífið“ (Of the Passions) 1739 og „Um siðferði og siðfræði“ (Of Morals) 1740.

3. Þessi rit munu vera An Essay Concerning Human Understanding eftir John Locke (1632–1704), De la recherche de la vérité eftir Nicolas Malebranche (1638–1715) og La Logique, ou l’art de penser (oft kallað á ensku Port–Royal Logic) eftir Antoine Arnauld (1612–94) og Pierre Nicole (1625–95).

4. Höfundur ritsins Leitin að sannleikanum, sem nefnt var hér að framan, var mikilsvirtur heimspekingur um sína daga í Frakklandi. Hann var mjög hrifinn af heimspeki Descartes (1596–1650) en ekki sammála honum í öllum efnum. Enskumælandi heimspekingar hafa skrifað talsvert um hann á síðustu áratugum.

5. Útborg Parísar. (Allar neðanmálsgreinar eru eftir þýðanda.)

« Til baka