Færslusöfn

Ágúst H. Bjarnason

Ágúst H. Bjarnason (1875–1952), heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Fæddur 20. ágúst 1875, sonur Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns á Bíldudal, og Jóhönnu K. Þorleifsdóttur. Lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn 1894 og meistaraprófi (mag.art.) í heimspeki frá háskólanum þar 1901. Hlaut fyrstur styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar (1901-1904) til náms og rannsókna í heimspeki og lauk doktorsprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau. Sama ár varð hann fyrsti prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Kennslugrein hans var heimspekileg forspjallsvísindi og gegndi hann því starfi fram til 1945. Hann var rektor háskólans 1918 og 1928 og skólastjóri skólastjóri Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928–1944. Lést í Reykjavík 1952.

Ágúst ritaði fjölda greina og bóka, þ. á m. kennslubækur í heimspekilegum forspjallsvísindum. Kunnasta og áhrifamesta rit hans er Yfirlit yfir sögu mannsandans, sem byggðist á Hannesar Árnasonar fyrirlestrum og kom út í Reykjavík í fimm bindum á árunum 1905–1915, og síðar í endurskoðaðri, en ófullgerðri, útgáfu (Saga mannsandans, 1949–1954). Ritið er mjög í anda pósitívískrar söguskoðunar og vísindahyggju; þar er rakin þróun trúarlegra, heimspekilegra og vísindalegra hugmynda frá fornöld til loka 19. aldar.

Nokkur önnur rit: Almenn rökfræði (1913, 1925), Almenn sálarfræði (1916, 1938),Um tilfinningalífið (1918), Siðfræði (1924–1926), Heimsmynd vísindanna (1931),Vandamál mannlegs lífs (1943–1945).

« Til baka

Arnljótur Ólafsson

Arnljótur Ólafsson (1823–1904) prestur, hagfræðingur og þingmaður.

Fæddur 21. nóvember 1823, sonur Ólafs Björnssonar á Auðólfsstöðum og Margrétar Snæbjarnardóttur. Forsprakki stúdentauppþots í Lærða skólanum í Reykjavík (pereatsins) 1850 og var rekinn úr skóla en fékk að útskrifast 1851 og nam síðar við Kaupmannahafnarháskóla, m.a. hagfræði. Lauk prófi frá Prestaskólanum í Reykjavík 1863 og var lengst af prestur á Sauðanesi og þingmaður.

Hans er minnst í íslenskri heimspekisögu fyrir að hafa fyrstur manna notað orðiðrökfræði á prenti, í samnefndri grein í Tímariti hins íslenska bókmenntafélags árið 1891. Auk þess ritaði hann og þýddi greinar um siðfræðileg og stjórnspekileg efni.

Önnur rit: Auðfræði, Kaupmannahöfn, 1880

« Til baka

Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal (1826–1907), skáld, bókmenntafræðingur og náttúrufræðingur.

Fæddur á Eyvindarstöðum, Álftanesi, 6. okt. 1826, sonur Sveinbjarnar Egilssonar, síðar rektors, og Helgu Benediktsdóttur Gröndal. Stúdent úr Bessastaskóla 1846 og stundaði nám í náttúrufræðum og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla, lauk meistaraprófi í norrænum fornbókmenntum 1863. Kenndi við Reykjavíkurskóla 1852-1854 en fór til Louvain í Belgíu 1857 í slagtogi við Etienne Djunkovsky, kaþólskan trúboða. Sinnti ýmsum rit- og kennslustörfum, síðast við Lærða skólann 1874–1883. Lést í Reykjavík 2. ágúst 1907.

Benedikt gaf út fjölda ritverka, greina, þýðinga og skáldverka. Hann ritaði nokkuð um skáldskapar- og fagurfræði, og samdi langt, heimspekilegt kvæði, Hugfró. Í Louvain skrifaði hann ritgerð um heimspekisögu, „Um það að vita“, og gaf hana út í málgagni sínu, Gefn, 1870. Þar rekur hann sögu heimspekinnar frá öndverðu til 13. aldar, ræðir forngríska heimspeki, Platon, Aristóteles, nýplatonisma og gnosticisma og lýkur umfjöllun sinni á skólaspeki miðalda. Þegar á ritið líður verður heimspekisagan raunar að heimspekingasögu. Ritgerðin er einkum markverð fyrir þá sök að hún er fyrsta tilraun til heimspekisögu sem vitað er til að Íslendingur hafi skrifað.

Nokkur önnur rit: DægradvölHeljarslóðarorrustaRitsafn.

« Til baka

Björg C. Þorláksson

Björg C. Þorlákson (1874–1934). Málfræðingur, heimspekingur, lífeðlisfræðingur og rithöfundur.

Fædd 30. jan. 1874 að Vesturhópshólum, Húnavatnssýslu, dóttir Þorláks Þorlákssonar og Margrétar Jónsdóttur. Gekk á kvennaskóla á Ytri-Ey á Skagaströnd og kenndi þar 1894, en hélt til frekara náms í Kaupmannahöfn 1897 og lauk stúdentsprófi þar 1901. Árið 1902 lauk hún forpróf í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla, en 1903 giftist hún Sigfúsi Blöndal, hætti þá námi en átti mikinn þátt í orðabók þeirri sem við hann er kennd. Árið 1920 hlaut hún styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar til frekara náms í heimspeki, flutti Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína 1923–1924 og urðu þeir uppistaðan í doktorsritgerð hennar en hún lauk doktorsprófi frá Sorbonne-háskóla, fyrst norrænna kvenna, 17. júní 1926 (Le fondement physiologique des instincts, París, 1926). Sinnti einkum ritstörfum, rannsóknum og kennslu, gaf út allmargar greinar og þýðingar, og lét til sín taka í kvenréttindamálum. Lést 25. febrúar 1934.

Rannsóknir hennar þróuðust frá heimspekilegri sálarfræði yfir í lífeðlisfræði, þar sem hún fékkst við spurninguna um líkamlegan grundvöll andlegra eiginleika. Einkum er umfjöllun hennar um samúðarhugtakið frumleg og áhugaverð frá heimspekilegu sjónarmiði.

Nokkur önnur rit: Erindi um mentamál kvenna (1925), Svefn og draumar (1926), „Hvað er dauðinn?“ (Skírnir, 1914), „Samþróun líkama og sálar“ (Skírnir, 1928), „Undirrót og eðli ástarinnar“ (Skírnir, 1933).

« Til baka

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson (1788–1876) stærðfræðingur og heimspekingur.

Fæddur 25. maí 1788, sonur Gunnlaugs Magnússonar bónda að Tannastöðum í Hrútafirði og Ólafar Björnsdóttur. Lærði hjá ýmsum prestum og varð stúdent 1808, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla 1817 og lagði einkum fyrir sig stærðfræði, varð kennari við Bessastaðaskóla 1822 og síðar Lærða skólann í Reykjavík. Hann varði mörgum sumrum til landmælinga og afrakstur þess starfs var kort hans af Íslandi sem út kom árið 1844. Hann lést 17. mars 1876.

Helsta framlag hans til íslenskrar heimspeki er langt heimspekilegt kvæði, Njóla, sem kom fyrst út árið 1842. Í því gerir hann grein fyrir heimsskoðun sinni og lífssýn. Kvæðið hafði töluverð áhrif á sínum tíma, m.a. á Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og á Einar Benediktsson.

« Til baka

Brynjólfur Bjarnason

Brynjólfur Bjarnason (1898–1989) Stjórnmálamaður og heimspekingur.

Fæddur 24. maí 1898 að Hæli, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, lauk stúdentsprófi 1918 og forprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1919. Lagði þar stund á náttúrufræði en hætti námi 1922 og fór til Berlínar þar sem hann kynnti sér heimspeki. Var formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930–1938 og um árabil einn helsti leiðtogi íslenskra kommúnista, þingmaður fyrir Kommúnistaflokkinn og síðar Sósíalistaflokkinn og ráðherra í Nýsköpunarstjórninni 1944–1947. Lést í Hróarskeldu 16. apríl 1989, hálfu ári fyrir fall Berlínarmúrsins.

Eftir að beinum stjórnmálaferli Brynjólfs Bjarnasonar lauk sneri hann sér aftur að heimspeki og ritaði allmargar bækur sem snúast að miklu leyti um frumspekilegar spurningar út frá sambandi lögmáls og frelsis. Hugmyndir hans eru settar fram í mörgum bókum: Forn og ný vandamál (1954), Gátan mikla (1956), Vitund og verund(1961), Á mörkum mannlegrar þekkingar (1965), Lögmál og frelsi (1970), Heimur rúms og tíma (1980), Samræður um heimspeki (1987). Aðgengilegasta yfirlit um heimspeki hans er „Svar við spurningu um lífsskoðun“ í Lögmál og frelsi.

Nokkur önnur rit: Sósíalistaflokkurinn: Stefna og starfshættir (1952), Með storminn í fangið: Greinar og ræður 1937–1972, I–II (1973), 1972–1982, III (1982). Þýddi auk þess rit eftir Karl Marx og Friedrich Engels, Maó tse-tung og Líú Sjaó-sí.

« Til baka

Brynjólfur Sveinsson

Brynjólfur Sveinsson (1605–1675), biskup í Skálholti, fornfræðingur og heimspekingur.

Fæddur að Holti í Önundarfirði 14. sept. 1605, sonur Sveins prófasts Símonarsonar og seinni konu hans, Ragnheiðar Pálsdóttur. Lauk stúdentspróf frá Skálholtsskóla 1624, sigldi til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á fornfræði, heimspeki og læknisfræði. 1629 fór hann aftur til Íslands og las grísku í foreldrahúsum í 2 ár. Fór aftur utan 1631 til frekara náms og var skipaður konrektor latínuskólans í Hróarskeldu 1632 og gegndi því starfi í 6 ár. 28. nóvember 1633 hlaut hann meistaragráðu í heimspeki við Hafnarháskóla. Var biskup í Skálholti 1639–1674. Lést 5. ágúst 1675.

Merkasta framlag B.S. til íslenskrar heimspeki eru skýringar hans (á latínu) viðRökræðulist (Dialectica) Péturs Ramusar (1515–1672) sem hann las fyrir í Skálholtsskóla á árunum 1640–1643. Þar fjallar hann fyrst um eðli og skiptingu rökræðulistarinnar, síðan um orsakirnar fjórar, áhrifsorsök, formorsök, efnisorsök og tilgangsorsök, þá um afleiðingar og loks um frumlag (subjectum). Í ritinu, sem er ófullgert, leitast hann við að draga fram og skýra platónskar forsendur ramískrar heimspeki. Hlutverk rökræðulistarinnar er að laða fram náttúrulegan hæfileika mannsins til þess að beita skynseminni vel og þjálfa hann í því (sjá Hug1988).

Nokkur önnur rit: Historica de rebus islandicis narratio (1647), Maríukvæði og Krosskvæði (tileinkað Páli í Selárdal).

« Til baka

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838–1914) frá Minna-Núpi, fræðimaður og heimspekingur.

Fæddur 26. september 1838 að Minna-Núpi, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, sonur Jóns bónda Brynjólfssonar og Margrétar Jónsdóttur. Hlaut litla formlega skólagöngu, en stundaði sveitastörf og sjóróðra, uns hann varð að hætta erfiðisvinnu vegna veikinda. Eftir það sinnti hann einkum kennslu- og ritstörfum, fornleifarannsóknum og þjóðsagnasöfnun. Hann lést á Eyrarbakka 16. maí 1914.

Merkasta framlag hans til íslenskrar heimspeki er Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna sem kom út árið 1912 en hafði verið lengi í smíðum. Þar lýsir hann þróun heimspekilegrar glímu sinnar við gátur tilverunnar allt frá æskuárum og setur fram frumspekilega eindakenningu um veruleikann.

Nokkur önnur rit: Skuggsjá og ráðgáta (1875). Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum.

« Til baka

Eiríkur Briem

Eiríkur Briem (1846–1929), prestur og stærðfræðingur, kennari við Prestaskólann í Reykjavík.

Fæddur 17. júlí 1846 að Melgraseyri við Ísafjarðardjúp, sonur Eggerts Briem sýslumanns og Ingibjargar Eiríksdóttur. Stúdent 1864, lauk námi frá Prestaskólanum 1867, varð fyrst biskupsritari, en síðar prestur og prófastur í Húnaþingi. Dvaldist í Kaupkmannahöfn við nám 1879–1880 og var frá 1880 kennari við Prestaskólann í Reykjavík og kenndi þar heimspekileg forspjallsvísindi til 1911 er Háskóli Íslands var stofnaður, hlaut þá lausn frá embætti og prófessorsnafnbót. Lést í Reykjavík 27. nóvember 1929.

Eiríkur var vel að sér í heimspeki Herberts Spencers og þýddi rit eftir hann um uppeldisfræði (1884). Sjálfur samdi hann og gaf út kennslubók í rökfræði sem var ætluð til nota í Prestaskólanum, Hugsunarfræði, 1897.

« Til baka

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820–1896), bókmenntafræðingur, skáld og áhugamaður um heimspeki.

Fæddur að Bessastöðum 1820, sonur Þorgríms gullsmiðs Tómassonar og konu hans. Stúdent 1837 frá Árna Helgasyni, tók 1. og 2. lærdómspróf við Hafnarháskóla 1837-1838 og lagði síðan stund á heimspeki og bókmenntir. Skrifaði verðlaunaritgerð um franskan samtímaskáldskap („Om den nyfranske Poesi“, 1843) og varð mag. art. 1845 með ritgerð um Byron („Om Lord Byron“); titlinum var breytt í dr. phil. 1854. Ferðaðist nokkuð um Evrópu, varð 1848 ritari í danska utanríkisráðuneytinu og skrifstofustjóri þar frá 1859. Fékk 1866 lausn frá störfum með biðlaunum og eftirlaunum og hvarf aftur til Íslands, keypti Bessastaði og bjó þar frá 1868, var m.a. þingmaður og ritstjóri. Lést að Bessastöðum 1896.

Grímur var á yngri árum hallur undir heimspeki Hegels, en hneigðist síðar æ meir til fornra fræða. Í ritgerðinni „Rúm og tími“, sem birtist í Tímariti Hins íslenska Bókmenntafélags, 1885, reynir hann að leiðrétta Kant og Hegel með Aristótelesi.

Nokkur önnur rit: „Platon og Aristoteles. Tveir kapítular úr sögu heimspekinnar“,Tímarit Hins íslenska Bókmenntafélags, 18 (1897), 1–27; 19 (1898), 1–66.,Ljóðmæli 1880, Rvk, (Kh 1895, Rvk. 1906), Íslenzkar bókmenntir og heimsskoðun, Andrés Björnsson þýddi og gaf út, Reykjavík, 1975.

« Til baka