Eitt og annað um sambúð heimspeki og skáldskapar

eftir Björn Þorsteinsson*

I

Allir heimspekinemar sem lesið hafa fornaldarheimspeki – og aðrir vel menntaðir menn – kannast við þverstæður Zenons. Frægust þeirra er áreiðanlega sagan um monthanann Akkilles sem bauð skjaldböku í spretthlaup og taldi sér sigurinn vísan, en var svo vitlaus að gefa skjald­bökunni forskot. Allir vita hvernig þetta fór: Akkilles náði aldrei skjaldbökunni og varð að athlægi samborgara sinna. Skjaldbakan hefur sjálfsagt fagnað sigri nokkra hríð, hún hefur verið hafin á loft og krýnd lárviðarsveig og að síðustu hefur hún líklega verið höfð í súpu.
      Í glósum mínum úr tíma í fornaldarheimspeki 5. október 1990 segir frá þverstæðum Zenons. Þar af er einni svona lýst:

Maður þarf að fara úr vinnu (V) og heim (H). Til að fara alla leiðina þarf hann fyrst að fara hálfa leið, og til þess þarf hann fyrst að fara fjórðung leiðarinnar, og þá þarf hann fyrst að fara einn áttunda hluta leiðarinnar, og svo framvegis. Hann fer aldrei neitt.

      Þetta er þverstæða af því að allir heilbrigðir menn sjá að þetta er út í hött: menn komast alltaf heim til sín úr vinnu ef þeir vilja það á annað borð. Rökfræði Zenons hefur ekkert að segja í því efni; það er óhagganleg staðreynd um mannlega tilvist að maðurinn er frjáls þegar hann er búinn í vinnunni.
      Hvað sem því líður hefur þessi þverstæða Zenons áreiðanlega eitthvert gildi. Hún er til dæmis ágæt sem dæmisaga. Þannig má heimfæra hana upp á mann sem sest vígreifur niður til að semja agnarlítið erindi um heimspekilegt efni. Fyrir liggur spurning, og verkefnið er að svara henni. Það virðist ekki mikið mál. En þegar manngreyið býst til að hripa svarið á blað klofnar spurningin óðar í tvær aðrar, og hin fyrri þeirra getur jafnharðan af sér tvær í viðbót þegar við henni er hróflað, og þannig áfram afskaplega lengi. Maðurinn kemst ekki úr sporunum.
      Svona leið mér lengi vel síðastliðið miðvikudagskvöld þegar ég ætlaði að gera alvöru úr því að semja þetta erindi hér á örskömmum tíma. Ótal spurningar steyptu sér yfir mig einsog fuglar úr háloftunum og ég gat lítið annað gert en berja þær frá mér. Svo fór ég að sofa og það hefur alltaf góð áhrif. Morguninn eftir var ég fullur af kommonsens og upp frá því rak mig aldrei í vörðu.

II

Við skulum byrja á því að velta fyrir okkur hvað er líkt með skáldskap og heimspeki. Þar verður fyrst fyrir atriði sem enginn getur dregið í efa: bæði heimspeki og skáldskapur notast við orð, hvort tveggja er orðræða. En þetta samkenni nær ekki langt: heimspeki og skáldskapur eru ekki samskonar orðræða. Orðin eru aðeins tæki, og heimspekin beitir þeim á nokkuð annan hátt en skáldskapurinn. Þennan mun má kannski orða svo að heimspekin tortryggi orðin en skáld­skapurinn beri virðingu fyrir þeim. Þetta skal ég skýra nánar. Heimspekin tortryggir orðin vegna þess að hún verður ætíð að vara sig á að þau leiði hana ekki afvega. Tungumálið er fremur illa til þess fallið að tjá heimspekilega hugsun, en annað tæki hafa heimspekingarnir ekki. Íslenskan hefur til dæmis allt frá dögum Ingólfs verið til lítils annars brúkleg en tjá sig um mannvíg, sjóróðra, tíðarfar, tröll og álfa. Á síðari árum hefur markvisst verið unnið að því að bæta úr þessari örbirgð íslenskunnar, og þar hefur Háskólinn okkar lagt margt af mörkum. Með nýjustu mennta­stefnunni, þeirri sem miðast við velferð peninganna, eru hins vegar horfur á að þessari þróun verði snúið við vegna þess að það kostar eiginlega alltof mikinn pening að hugsa á íslensku. Aðrar þjóðir eru blessunarlega betur á vegi staddar en við að þessu leyti; tungumál þeirra eru vanari hugsuninni, en að vísu er ekkert þeirra beinlínis sniðið að þörfum hugsuðanna. Heimspekilegri hugsun verður því oft og óumflýjanlega orða vant, og þá verður hún að fara í kringum hlutina, búa til ný hugtök og skrítnar setningar sem ósjaldan verða afskaplega ljótar að sjá. Orð eru misjafnlega falleg, en þau eru líka misvel til þess fallin að tjá hugsun. Skáld­skapurinn sker sig frá heimspekinni í því að hann setur fegurð orðanna ofar öllu og skeytir minna um merkingu þeirra eða hugsunina sem þau tjá.
      Nú er engu líkara en ég sé kominn að einhverjum tiltölulega einföldum niðurstöðum. Og þá er rétt að staldra við og rifja upp vegna þess að einfaldar niðurstöður eru stórar fréttir; þær eru annaðhvort afskaplega nálægt hinu sanna eða víðsfjarri því, allt eftir því hvaða heimspekistefnu miðað er við. – Niðurstöðurnar eru þessar: hvort tveggja heimspeki og skáldskapur notast við orð. Skáldskapurinn sækist eftir fegurð orðanna og setur merkingu eða sannleika þeirra í annað sætið. Á hinn bóginn leggur heimspekin höfuðáherslu á sannleikann en fegurðin er ekki eins mikilvæg. Þetta má taka saman með þeim orðum að skáldskapurinn hafi orðin sjálf að markmiði en heimspekin ekki. Að vísu sé það skáldskapnum heldur til bóta ef orðin eru ekki bara falleg heldur líka sönn, og á sama hátt sé það síður en svo lýti á heimspekitexta að hann sé fallega orðaður.

III

Nú er auðvitað alveg ljóst að ef orð mín hingað til hafa með einhverjum yfirskilvitlegum hætti borist til þeirrar grísku moldar sem einu sinni var Platon má ætla að moldarkögglarnir hringsnúist með ógnarhraða, vegfarendum eflaust til mikillar undrunar. En ef Platon væri enn á meðal vor myndi hann eflaust senda á vettvang málpípu sína, Sókrates, þennan með stóra nefið, og milli okkar gæti spunnist samræða eitthvað á þessa leið:

      Sókrates tekur fyrstur til máls og segir: „Það sver ég við hundinn, heillaljúfur, að ég undrast visku þína sem sjálfur Hómer hefði verið fullsæmdur af.“
      „Þakka þér fyrir, Sókrates,“ segi ég og roðna kannski ofurlítið af einskæru monti.
      „En heyrðu samt, elskulegur,“ segir Sókrates. „Sagðirðu ekki að skáldskapurinn beindist að fegurðinni í fyrsta lagi, og í öðru lagi að sannleikanum?“
      „Jú,“ segi ég.
      „Og um heimspekina gildi hið gagnstæða, að hún beinist fyrst og fremst að sannleikanum en fegurðin komi þar á eftir?“
      „Öldungis rétt.“
      „Segðu mér þá, ástarpungurinn minn, hvort er meiri veruleiki, hinir mörgu fögru hlutir eða fegurðin sjálf? Eða hefurðu kannski ekki lesið Ríkið?“
      „Jú, jú,“ flýti ég mér að segja, „ég las það fyrir skömmu.“
      „Þú veist þá líklega að fegurðin sjálf er æðri en hinir mörgu fögru hlutir?“
      „Vissulega,“ segi ég.
      „Hvort skyldi nú skáldskapurinn beinast að fegurðinni sjálfri eða hinum mörgu fögru hlutum? Hvort fjalla verk skáldanna um hina æðstu veru eða hina síbreytilegu verðandi?“
      „Það fer nú eftir því hvert skáldið er,“ segi ég.
      „Við skulum láta Einar Ben liggja milli hluta,“ segir Sókrates. „Svaraðu heldur spurningu minni, elsku kallinn minn, og veittu mér af visku þinni, því sjálfur veit ég ekkert um þetta mál.“
      Til að þóknast Sókratesi segi ég: „Skáldin fjalla um hinn mennska veruleika, sem þú nefnir verðandina.“
      „Er það svo, lambið mitt,“ segir Sókrates. „En sagðirðu ekki áðan að skáldskapurinn beindist að fegurðinni sjálfri? Nú höfum við komist að hinu gagnstæða, semsé því að skáldskapurinn lýsi ekki öðru en hinum fögru hlutum, sem eru ekki annað en eftirlíkingar fegurðarinnar sjálfrar. Skáldskapurinn er þannig eftirlíking af eftirlíkingu, í þriðja sæti frá hinum sanna veruleika. Skáld­skapurinn er áróður, hann höfðar til tilfinninga en ekki skynsemi, og hann blekkir jafnvel hina bestu menn. Svölunin sem hann veitir er fölsk, og hann er léttúðugur eins og daðurdrós: honum er ekki alvara með neinu.“
      „Já, ég kannast við þessar hugmyndir,“ segi ég, „og vildi gjarnan ræða þær við þig.“
      „Nú, já,“ segir Sókrates og fer allur að ókyrrast. „Ég er nú reyndar frekar tímabundinn, það er partí hjá Adeimantosi og ég má ekki missa af fordrykknum. Við ljúkum bara samræðunni síðar, endilega hreint, ég hef mikinn áhuga á þessu efni.“
      Svo er Sókrates rokinn.

      Þessi málsvörn Sókratesar var óneitanlega klénni en maður á að venjast. Það er ekki góður siður að leggja látnum mönnum orð í munn, og ég geri það voðalega sjaldan. En Sókrates fékk þó að koma að kjarnanum í gagnrýni Platons á skáldskapinn, og nú skulum við sjá hvað ég hef á móti henni.

IV

Í hnotskurn eru andmæli mín á þá leið að Platon geri sig sekan um fullmikla einföldun og alhæfingu þegar hann heldur fram að allur skáldskapur beinist að sýndinni og sé þess vegna blekking og ekki til annars en svala löngunum. Mér sýnist alls ekki útilokað að skáldskapur geti beinst að veruleikanum sjálfum – platonskum eða öðrum – og að skáldskapurinn geti því aug­ljóslega sagt ýmislegt satt engu síður en heimspekin. Til dæmis er ég ekki í nokkrum vafa um að mikill sannleikur sé fólginn í verkum Dostojevskís, Kafkas og James Joyce. Ég er ekki eins viss um Sigge Stark, Louis Masterson og Snjólaugu Bragadóttur: í verkum slíkra höfunda er líklega ekki eftir miklu öðru að slægjast en svölun frumstæðra hvata, og gagnrýni Platons gæti sem best átt við allan skáldskap af þessu tagi. En svo er náttúrunni fyrir að þakka að ekki eru öll skáld einsog Snjólaug og ekki allar bækur á borð við Gefðu þig fram, Gabríel (1984) og Lokast inni í lyftu (1977). Sumur skáldskapur er góður og annar vondur, það er einfalt og allir vita það. Við skulum segja að góður skáldskapur sé sá sem lætur einhvern sannleika í ljós, en vondur sá sem reynir ekkert í þá átt. Og mér sýnist góður skáldskapur vera ónæmur fyrir ákærum Platons, enda stefnir hann í einhverjum skilningi að sama marki og heimspekin.
      Ein af ákærunum er reyndar sýnu erfiðust viðureignar. Það er sú sem snýst um að jafnt góður sem slæmur skáldskapur höfði til tilfinninga en ekki skynsemi og sé þess vegna ekki annað en áróður. Nánar skoðað snýst þessi aðfinnsla um það að aðferðir heimspekinnar séu aðrar og vandaðri en skáldskaparins, og niðurstöðurnar því margfalt tryggari: heimspekin beiti rökum, hún haldi engu fram nema hún hafi fyrir því gildar ástæður og segi þess vegna alltaf satt. Á hinn bóginn leyfi skáldskapurinn sér að slá fram hugmyndum út og suður og hipsumhaps, og það sé ekki annað en guðslukka ef einhverjar þeirra eru sannar. Megnið af staðhæfingum skáldanna hljóti þá óhjákvæmilega að vera stórhættuleg og skaðleg lygi.
      Þessi ákæra er óneitanlega býsna máttug við fyrstu sýn – en þegar grannt er skoðað má finna að minnsta kosti eitt svar við henni.
      Heimspekin beitir rökum, gott og vel. En heimspekirit eru aldrei hreinræktaðar rökfærslur í einhverjum strangrökfræðilegum skilningi: rökin eru aldrei alveg skotheld þegar öllu er á botninn hvolft. Engin heimspekibók hefur hingað til birt sannleikann á blaðsíðum sínum; heimspekingar gefa sér forsendur, og rökfærslur þeirra orka alltaf tvímælis að einhverju leyti; öll verk heim­spekinga má gagnrýna. Lesandi heimspekirits, rétt eins og sá sem les skáldsögu, ræður því sjálfur hvort hann les með gagnrýnum huga eða gefur orðum höfundarins frið. Enginn heim­spekingur hefur rök sem standast alla gagnrýni, og þess vegna ráðast örlög verka hans að endingu á því hvort lesandinn lætur sannfærast. Það gerir hann ef orðin eru nægilega sann­færandi – og sannfæringin býr í fegurð orðanna.
      Heimspekin þarf semsé að beita sömu aðferðum og skáldskapurinn; hún verður að einhverju leyti að höfða til annars en blákaldrar rökfestu. Vafalaust hefði Platon átt erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu – en jafnframt er sú kaldhæðni augljós að margar samræður Platons eru án nokkurs vafa í hópi fegurstu heimspekirita sögunnar. Og sannfæringarmáttur þeirra hefur reyndar verið slíkur að í gjörvallri heimspekisögunni er leitun að textum sem svo mikið sem jaðra við að vera sómasamlega skrifaðir.
      Heimspekin tekur sjálfa sig of alvarlega þegar hún fullyrðir að allt sem hún segi sé satt. Á sama hátt er fráleitt að fullyrða að allur skáldskapur sé lygi. Munurinn á heimspeki og skáldskap er ekki ýkja mikill. Um hvor tveggju gildir að þegar best lætur fer sannleikurinn saman við fegurð­ina. Að sönnu hættir skáldskapnum fremur en heimspekinni til að segja ósatt; en grandvörum og sómakærum lesanda sem leitar sannleikans af einurð er fyllilega treystandi til að sjá í gegnum rangfærslur af hvaða tagi sem vera skal. Heimspeki og skáldskapur eru ekki ólíkar dýrategundir: þau eru systkini. Og sálfræðingar segja að það sé eðlilegt og sjálfsagt, gott ef ekki báðum fyrir bestu, að systkini rífist og sláist endrum og eins.

Aftanmálsgrein

*  Erindi á samdrykkju á vegum Soffíu, félags heimspekinema við HÍ, 10. apríl 1992.