Félag heimspekikennara hefur í samvinnu við verkefni um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum hafið undirbúning að málþingi um barnaheimspeki sem haldið verður laugardaginn 13. október nk. í Verzlunarskóla Íslands. Á málþinginu munu reyndir heimspekikennarar leggja fram hugleiðingar um heimspeki og heimspekikennslu sem þátttakendur geta síðan tekið til umræðu. Stjórn Félags heimspekikennara tekur nú við tillögum að örfyrirlestrum sem fluttir verða á málþinginu. Hugmyndir og lýsingar á erindum má senda stjórninni á netfangið heimspekikennarar@gmail.com.
Að fyrrnefndu verkefni um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum standa Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þessir sömu aðilar stóðu ásamt Félagi heimspekikennara að ráðstefnu um kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í október 2011 og huga að undirbúningi málþings um innleiðingu grunnþáttanna jafnrétti, lýðræði og mannréttindi í þverfaglegu skólastarfi sem haldið verður í mars 2013.