Verkefni um ríkari skilning á landslagi fær styrk úr sjóði Brynjólfs Bjarnasonar

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, fékk viðurkenningu úr Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, fékk viðurkenningu úr Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, hefur hlotið viðurkenningu úr Heimspeki­sjóði Brynjólfs Bjarnasonar. Þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur styrkurinn 200.000 þúsund krónum.

Doktorsverkefni Guðbjargar R. Jóhannesdóttur, Íslenskt landslag; fagurfræði og verndargildi, er rannsókn á fagurfræði íslenskrar náttúru og liggur á mörkum þriggja fræðasviða: náttúru­fagurfræði, fyrirbærafræði og landslagsfræða. Með aukinni þekkingu á fagurfræðilegu gildi íslenskrar náttúru er mögulegt að skapa grundvöll fyrir nýjan farveg í umræðu um náttúruvernd á Íslandi þar sem áhersla er lögð á mikilvægi náttúrufegurðar og upplifun okkar af henni.

Markmiðið með verkefninu er að öðlast ríkari skilning á merkingu landslags og þeim gildum sem eru tengd við fagurfræðilega upplifun af íslenskri náttúru og afbyggja þá tvíhyggju sem hingað til hefur einkennt umræðu um gildi íslenskrar náttúru. Þessi hugmyndafræði tvíhyggju hefur leitt til þess að vísindalegt og hagrænt gildi náttúrunnar hefur haft forgang á kostnað fagurfræðilegra gilda.

Fagurfræðilegt gildi náttúrunnar hafa þannig verið vanrækt þar sem þau eru talin of huglæg, afstæð og persónuleg – og þar með ómælanleg. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á það hvernig gildi íslenskrar náttúru hefur verið túlkað of þröngt þegar kemur að ákvörðunartöku um náttúruvernd og nýtingu.

Fagurfræðileg upplifun er ekki ný af nálinni hjá Íslendingum, samanber íslenskar bókmenntir og myndlist, en í doktorsverkefninu er sjónum beint að því að gildi upplifunar á náttúrunni út frá fagurfræðilegu sjónarmiði er ekki eingöngu huglæg rómantík heldur grundvallarþáttur í lífsgæðum og skilningi á landslagi og meðferð þess. Leiðbeinendur eru Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Háskólaseturs á Hornafirði Nýheima.

Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar var stofnaður árið 1990 af Elínu Brynjólfsdóttur, dóttur Brynjólfs Bjarnasonar, og eiginmanni hennar, Godtfred Vestergaard. Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta í framhaldsnámi í heimspeki og skal styrkþegi halda fyrirlestur á vegum Félags áhugamanna um heimspeki eigi síðar en tveimur árum eftir að honum er veittur styrkurinn. Brynjólfur Bjarnason fæddist árið 1898 og stundaði sem ungur maður heimspekinám í Kaupmannahöfn og Berlín.

Heimspekiiðkun og önnur fræðastörf Brynjólfs véku þó fyrir pólitísku starfi fram á efri ár en Brynjólfur var í framvarðasveit íslenskra sósíalista, sat á þingi og gegndi ráðherraembætti. Framlag hans til íslenskrar heimspeki verður þó seint ofmetið enda má segja að hann hafi unnið brautryðjendastarf í heimspekiiðun hér á landi.

Þegar hann hóf að rita um heimspeki á 6. áratug síðustu aldar var hann nánast sá eini hér á landi sem fékkst við slíkar skriftir. Eftir að kennsla í heimspeki sem sjálfstæðri grein var tekin upp við Háskóla Íslands upp úr 1970 komst Brynjólfur í ágæt kynni við marga nemendur og kennara við skólann. Var hann m.a. gerður að fyrsta heiðursfélaga Félags áhugamanna um heimspeki.

Rit á borð við Frelsi og lögmál, Forn og ný vandamál og Á mörkum mannlegrar þekkingar bera þekkingu Brynjólfs og innsýn í sígild vandamál heimspekinnar vitni. Brynjólfur bar velferð íslenskra heimspekinga fyrir brjósti og það var einlæg ósk hans að styrkja þá til náms og er það ástæðan fyrir stofnun sjóðsins. Brynjólfur lést árið 1989.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir sjóðirnir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.


Fréttin birtist upphaflega á vef Háskóla Íslands