eftir Helgu Bachmann
Þegar sú hugmynd kom fram að ég talaði á þessu þingi var ég full efasemda og er enn, ég sagði það meira að segja hreint út við meðbræður mína sem tala hér í dag. – Hvaða erindi á ég á slíkt málþing með fræðingum af ýmsu tagi. Á ég að tala um ást í leikhúsi? Ást í bókmenntum? Geðlæknirinn í hópnum sagði þá: „Helga, kannski átt þú meira erindi en nokkur okkar.“ Ég hugsaði með mér, svona á góður geðlæknir að tala við fólk og sló til.
Nei, ég tala bara um ást eins og mér finnst hún vera, auðvitað. Að elska er eins og að tala um ást, það gerist ekkert fyrr en maður hefur tekið þá ákvörðun að hætta öllum tilraunum í þá átt að vera gáfulegur – sleppt öllum hégóma og sæst á að ganga fyrir drottinn á efsta degi – á nærskyrtunni einni klæða. Ég skal játa það strax að ég er frekar hlynnt því að þessi heimsfræga tilfinning fái að halda lífi, það er sem sé mín reynsla að betra sé að búa við hana en án hennar – og tala ég þá bæði sem gefandi og þiggjandi eða neytandi – og í þessu eina tilfelli veit ég satt að segja ekki hvort sælla er að gefa en þiggja.
Við þekkjum öll þessa frægu teiknimyndaseríu úr dagblöðum „Ást er o.s.frv.“ Oftast er þetta frekar í léttum dúr og á að henta öllum – svona matreiðsla fyrir fjöldann – en ef reynt er að skyggnast á bakvið tjöldin er ljóst að innrætingin er fólgin í tillitssemi við hinn aðilann – þolandann. En það er bara alls ekki víst að sama tillitssemi henti öllum, eða m.ö.o. það sem er tillitssemi við einn er tillitsleysi við annan. Hér vil ég taka dæmi af eigin reynslu. Í blaðinu stóð: „Ást er að kreista tannkremstúpuna rétt.“ Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds, en ákvað samt að fela ekki blaðið, það var of lágkúrulegt. Sannleikurinn er nefnilega sá, eins og pólitíkusarnir segja, að fjölskylda mín, þ.e. eiginmaður og börn, kunna ekki að umgangast tannkremstúpu. Þau grípa gjarnan um hana miðja og láta gossa og gleyma síðan að skrúfa tappann á. Ég hef aldrei minnst á þetta einu orði öll þessi ár og kemur það ekki til af þolinmæði eða tillitssemi, heldur er þetta sprottið af hreinni eigingirni. Ég hef sem sé kvikindislega unun af að sjá um að halda túpunni í formi og rúlla henni nosturslega upp af hinni fullkomnu smámunasemi. Sem betur fór tók enginn eftir þessu í blaðinu eða skildi það ekki, því það er ekki allra að skilja tannkremstúpu.
Nóg um það. Ég kaus að kalla þennan pistil minn „Ást er ábyrgð“ og það er einfaldlega af því að mér finnst það. Ást fylgir ábyrgð. Sá sem elskar ber ábyrgð á þeim sem hann elskar. Hann á að fylgjast með honum og bera ábyrgð á honum og vernda hann ef nauðsyn krefur – eða eins og stendur í umferðarlögunum: „Bannað er að aka á skepnur á þjóðvegum nema brýna nauðsyn beri til, en gæta skal þó jafnframt ýtrustu varúðar“ – sem sagt, ekki angra hann nema brýna nauðsyn beri til o.s.frv. Í rauninni væri gaman ef maður hefði tíma til að snúa umferðarlögunum upp á ástina, kannski gilda þar sömu lögmál.
Ég var að tala um ábyrgð. Móðir mín átti bróður, sem fluttist ungur til Kanada eins og títt var þá um Íslendinga. Hún frétti af honum til að byrja með og síðan ekki söguna meir í ein 20 ár. Allan þann tíma hafði hún skrifað honum reglulega og sent honum fréttir af systkinum og vinum án þess að hafa hugmynd um hvort bréfin kæmust til hans, eða hvort hann væri lífs eða liðinn. Hún bar ábyrgð. Nú, nú – loks fær hún bréf, þar sem hann þakkar henni alla tryggðina í gegnum tíðina, harmar að hún missti tvö elstu börnin sín í bernsku, segir allt gott af sínum högun en endar loks bréfið á þessum orðum: „Elsku Gunna mín, ég fer nú að hætta þessu pári, en alltaf eltir helvítis ógæfan mig, heldur að ég sé nú ekki giftur í ofanálag. Þinn elskandi Loftur.“ Þessi frændi minn var semsé efasemdarmaður eða „skeptíker“. Löngu seinna, þegar þau systkinin voru bæði um sjötugt og mamma hafði loks fengið hann til að fallast á að koma í heimsókn til Íslands, þá kom það í minn hlut að aka með hana og annan bróður til Keflavíkur að taka á móti Lofti og konunni hans. Þetta varð mér ógleymanleg ferð. Þau systkinin tvö í aftursætinu, hvíthærð og göfug, þögul eins og börn, á leiðinni út á flugvöll – greinilega ögn kvíðin og áhyggjufull. – „hvernig yrði að hitta loks þennan bróður eftir 50 ár?“ – Þau báru ábyrgð. Við biðum í ofvæni eftir að sjá hann – ég kveið því mest að þekkja hann ekki – hafði aldrei séð hann. En viti menn, þarna kom hann út á tröppurnar úr vélinni og skyndilega eru þau orðin þrjú hvíthærð og göfug, hann stendur uppi í tröppu, þau tvö fyrir neðan og stara, – loks fyllast augu hans tárum, hann hristir hausinn og segir stundarhátt á vesturheimsku: „helvítis vitleysa er þetta“ og hverfur inn í vélina. Þá tóku þau á rás upp stigann og gómuðu hann ásamt konu hans, sem áður er getið, tróðu þeim í bílinn og þá voru allir glaðir. Við nánari athugun kom á daginn að drottningin, konan hans, var ekki frá Texas eða Síkagó heldur ættuð úr Þingeyjarsýslunni. Þegar hann fór sagði hann: „Nú get ég dáið glaður, af því Gunna lét mig koma heim.“ Og það gerði hann.
Það er margt líkt með skyldum og ég skil þennan frænda afar vel. Til að mynda hef ég einu sinni gengið í hjónaband og þegar ég vaknaði á brúðkaupsdaginn var ég með bullandi hita – 39 stig – það var ekkert að mér og ég fæ aldrei hita. Það kom á daginn að þetta var skelfingarhiti – hræðsla – við hvað – jú að þetta væri einhver vitleysa allt saman – ég væri ekki nokkur manneskja til að standa í þessu – það myndi ekki endast árið út. Hvað um það – við sögðum samt bæði já á réttum stað og erum ennþá að reyna, enda ekki liðin nema rétt 30 ár. Í mínu tilfelli heitir það þessvegna: „Ást er að hafa 39 stiga hita, en segja samt já.“
Hver er ég að tala um ást – leikmaður í ást – leikkona í ást – m.ö.o. ekki atvinnumaður í ást, það er sama hvað ég reyni að kalla þetta, það hljómar alltaf hálf gjálífislega.
Skrifað stendur: „Sá sem ekki hefur elskað, stendur í skuld við drottinn.“ Við getum eins snúi kröfunni við – er það ekki? Aumur er ástlaus maður, en hvert á hann að snúa sér með reikninginn?
Yngsta dóttir mín sýnir mér ástúð þegar hún límir miða yfir rúmið mitt, sem á stendur: „Við reykjum ekki hér.“ Á jólunum gaf hún mér svo flottan kveikjara í jólagjöf. Þar er ég komin að þeirri tegund ástar, sem mér finnst hvað viðkvæmust tilfinning, það er hin svokallaða móðurást, sú marglofaða, rómaða og á stall setta ást. Ég man ekki hvort við fjórmenningar, sem vitnum hér lofuðum að hafa litlar sem engar tilvitnanir en ef svo var þá ætla ég að brjóta af mér einu sinni. Ég mun ekki vitna í stórskáld eða þjóðskáld, heldur finnst mér við hæfi að vitna í aldamótaskáld, sem er óþekktur og hét Jón Jónsson, stúdent. Hann kvað:
Guð skapaði himinn og jörð
Akureyri og Hafnarfjörð
Dimmt er yfir djúpinu
En alltaf er ljós í eldhúsglugganum hjá mömmu.
Af þessu má draga lærdóm. Mæður skyldu varast að fá of sterka óðalshvöt eða eigna sér fyrsta veðrétt í afkvæmum sínum. Það getur valdið miklum óþægindum og vitleysu, þar sem móðirin verður að lokum eins og einhver leiðinda vetrarhjálp, sem allt almennilegt fólk skammast sín fyrir að þiggja. Nei við skulum fara varlega í sakirnar, það er allt í lagi með ljósið í glugganum, en ef það er kertaljós skal gæta þess að það kveiki ekki í gluggatjöldunum.
Ást er ábyrgð. Ástin verður ekki skýrð frekar en annað það dýrmætasta í lífinu, það er listin og trúin. Nei, ást er ekki að kreista tannkremstúpuna rétt, ást er að kreista tannkremstúpuna vitlaust. Frekar skal kreista manninn sinn rétt, þegar hann vill það sjálfur en gæta jafnframt ýtrustu varúðar, nema brýna nauðsyn beri til annars.