Greinasafn fyrir merki: Geir Matti Järvelä

Óbein lýsing: Um réttmæti gagnrýni Sauls Kripke á lýsingakenningar

eftir Geir Matta Järvela

Lýsingakenningar eru tilraun til að útskýra hvernig orð vísa til hluta í heiminum. Samkvæmt þeim ákvarðast merking og tilvísun orða af ákveðinni lýsingu orða. Bandaríski heimspekingurinn Saul Kripke hefur mótmælt þessu sjónarmiði og setur fram sterka gagnrýni gegn lýsingakenningum um eiginnöfn. Honum tekst með gagnrýni sinni að fella þá kenningu að ákveðnar lýsingar ákvarði tilvísun nafna. Hann er ekki jafn sannfærandi í gagnrýni sinni á þá hugmynd að merking ákvarðist af einhvers konar ákveðinni lýsingu. Helsta vandamálið sem gagnrýni hans veldur lýsinga­kenningum er hvernig þær eiga að útskýra til hvers ákveðnar lýsingar vísa, ef slíkar kenningar vilja halda því fram að orð vísi til hluta í heiminum en ekki til hugmynda eins og Locke hélt fram.1
      Eina lausnin sem lýsingakenningar virðast hafa er að segja að eiginnöfn vísi til tungumálsins eða siðvenju ef þær vilja ekki fallast á að persónubundnar hugmyndir séu merhking tungumálsins. Verður sú lausn rökstudd hér. Sú hugmynd að tungumálið sé einhvers konar gagnagrunnur og að eiginnöfn vísi á hugtök í gagnagrunninum virðist duga til að verja ákveðna gerð lýsinga­kenninga. Sú spurning vaknar hins vegar hvort slík kenning uppfylli markmið lýsingarkenninga: Að útskýra hvernig hægt er að miðla samræmdum upplýsingum á milli einstaklinga með tungu­málinu.

Lýsingakenningar

Lýsingakenningar um eiginnöfn reyna að sýna hvernig nöfn geta vísað til hluta utan hugans á þann hátt að málnotendur geti verið vissir um hvaða hlut er verið að ræða. Þær telja að nafn þurfi sjálfstæða merkingu, óháða notendum tungumálsins, til að hægt sé að ákvarða hvaða einstak­ling orð vísi til og til að merking orða sé ekki persónubundin hugmynd, eins og Locke taldi2, sem myndi þýða að tungumálið væri gífurlega ónákvæmt verkfæri.
      Lýsingakenningar leysa þetta vandamál með því að segja nöfn standa fyrir ákveðnar lýsingar. Nafn eins og „Leonardo da Vinci“ merkir því í raun og veru eitthvað eins og „Maðurinn sem málaði Monu Lisu“. Út frá lýsingunni er hægt að skoða alla hluti og einstaklinga og sjá hver þeirra upp­fyllir þau skilyrði sem lýsingin setur. Sá einstaklingur sem málaði Monu Lisu er einstaklingurinn sem nafnið „Leonardo da Vinci“ vísar til. Með ákveðinni lýsingu er því komin aðferð sem útskýrir hvernig nöfn vísa til hluta, en ekki til hugmynda.
      Ákveðnar lýsingar útskýra í leiðinni merkingu nafna. Þegar við segjum nafn eins og „Leonardo da Vinci“ erum við að segja meira en bara eintóm orð, við erum að segja „maðurinn sem málaði Monu Lisu og var einn frægasti uppfinningamaður endurreisnarinnar“. Þetta útskýrir hvernig setningar eins og til dæmis „Jón er læknir“ hafa merkingu. Ef orðið Jón hefði enga merkingu, væri innihald setningarinnar í rauninni „einhver er læknir“, sem hljómar frekar tilgangslaust.
      Kripke lýsir yfir efasemdum um kenninguna, eða eins og hann segir sjálfur: „Það virðist vera rangt að við gefum okkur einhver atriði sem einhvern veginn með eiginleikum sínum velja ein­stakan hlut og ákvarða tilvísun okkar til hans á þann máta“.3
      Hann efast bæði um að ákveðin lýsing sé tilvísun eða merking nafna og setur fram sterk rök máli sínu til stuðnings. Rök hans eru tvenns konar; í fyrsta lagi hafna þau því að lýsingin ákvarði tilvísun, og í öðru lagi því að hún ákvarði merkingu nafna.

Mótrök gegn tilvísun

Eitt af vandamálum lýsingakenningarinnar er að ákvarða hvaða lýsing sé einstök. Lýsingar þurfa að vera einstakar fyrir þann einstakling sem nafnið vísar til. Til að mynda dugar ekki að ákveðna lýsingin á „Leonardo da Vinci“ sé „frægur maður frá endurreisnartímanum“ því sú lýsing gæti átt við alla fræga menn á miðöldum, ekki bara „Leonardo da Vinci“. Lýsingin má ekki heldur fela í sér nafnið sjálft, sem er einstakt, af því að það væri merkingarlaust. Það væri svipað og að segja: „Ég ætla að kalla hlutinn þarna Glunk“ og segja síðan „ég ætla að nota nafnið „Glunk“ um hlutinn sem ég kalla „Glunk“!“. Þetta segir í rauninni ekki neitt um hlutinn sjálfan. Því þarf lýsingin að byggjast á einhverju öðru en nafninu sjálfu.4
      Ef lýsingin má ekki fela í sér nafn, þá getur vanþekking á viðkomandi hlut valdið ruglingi. Oft býr fólk ekki yfir nægum upplýsingum um hlut til að geta vísað afgerandi til hans. Ef við erum að ræða manneskju sem við höfum ekki mikla vitneskju um, þá höfum við ekki næga þekkingu til að búa til lýsingu sem á einungis við um þá manneskju. Sem dæmi, ef venjuleg manneskja talar um Platon, þá veit hún í mesta lagi að hann var frægur heimspekingur í fornöld. Þessi lýsing á hins vegar við ótrúlega marga heimspekinga og því vísar hún ekki á einhvern ákveðinn einstakling. Lýsingakenningin gerir ráð fyrir að það þurfi einstaka lýsingu til að finna viðfang tilvísunarinnar. En fólk veit að það er að tala um Platon, ekki einhvern annan heimspeking, þrátt fyrir að hafa ekki einstaka lýsingu. Því finnst Kripke augljóst að fólk sé að benda á einstaklinginn Platon, óháð eiginleikum eða ákveðinni lýsingu á honum.5
      Ef lýsingakenningin er sönn og ákveðin lýsing ákvarðar tilvísun nafna, er líka möguleiki á að við vísum óvart á rangan hlut. Ef lýsing okkar á Einstein er „maðurinn sem setti fram afstæðiskenninguna“ þá getum við lent í vandræðum ef einhver annar hefði í raun og veru sett fram afstæðiskenninguna. Ef til dæmis Wittgenstein hefði í raun og veru sett fram afstæðis­kenninguna, þá væri lýsingin „maðurinn sem setti fram afstæðiskenninguna“ ekki lýsing á Einstein, heldur á Wittgenstein. Þetta myndi þýða að í hvert skipti sem við segðum „Einstein“ með lýsinguna „maðurinn sem setti fram afstæðiskenninguna“ í huga, þá værum við í raun og veru að tala um Wittgenstein en ekki Einstein. En þetta er augljóslega ekki satt, við værum að tala um einstaklinginn Einstein, þótt vitneskja okkar um hann væri röng.6
      Við gætum reynt að bjarga okkur með því að halda því fram að lýsingin á nafninu „Einstein“ væri „sá maður sem flestir trúa að hafi sett fram afstæðiskenninguna“ en þá erum við komin í vandræði. Ef allir í samfélaginu sem nota nafnið Einstein eru að segja „Einstein er maðurinn sem flestir trúa að hafi sett fram afstæðiskenninguna“ er ómögulegt að setja fram nýja lýsingu á nafni. Ef Wittgenstein virkilega setti fram afstæðiskenninguna, þá gæti maður sem kæmist að þeirri vitneskju ekki notað afstæðiskenninguna til að tala um Wittgenstein. Þá væru almennt viður­kenndar hugmyndir um einstaklinga sem innihéldu staðreyndavillur óbreytanlegar.
      Við virðumst flest getað notað nöfn á merkingarbæran hátt án þess að vita gífurlega mikið um þá einstaklinga sem nöfnin vísa til. Ef ákveðin lýsing væri nauðsynleg til að nota nöfn, þá kæmi í ljós að fæst okkar skildu þau nöfn sem við notum dags daglega.

Mótrök gegn merkingu

Kripke er líka andsnúinn því að ákveðin lýsing ákvarði merkingu nafna. Hann telur að viðfang nafna sé einungis hluturinn sjálfur en ekki falinn hópur lýsinga. Til að mynda telur hann að nafnið Leonardo da Vinci hafi ekki merkingu eins og „maðurinn sem málaði Monu Lisu, bjó á Ítalíu á miðöldum, var merkur uppfinningamaður …“, heldur vísi beint á einstaklinginn Leonardo da Vinci. Eiginleikar Leonardo da Vinci og hvað hann gerði í lífinu breyta því ekki við hvaða einstakling við eigum þegar við segjum nafnið.
      Til að rökstyðja gagnrýni sína skilgreinir Kripke það sem hann nefnir „fastanefnara“ og „mögulega heima“. Með mögulegum heimum á Kripke hvorki við aðrar plánetur né frumspekilega heima sem eru aðskildir okkar. Hann á einungis við að við getum ímyndað okkur heim sem er alveg eins og okkar heimur, fyrir utan að vissir hlutir eru frábrugðnir. Til að mynda þegar við segjum „ég gæti átt fjólubláan gíraffa“, erum við ekki að segja að það sé til annar heimur þar sem við eigum í raun fjólubláan gíraffa, heldur að við getum ímyndað okkur okkar heim, þannig að við ættum fjólubláan gíraffa.
      Hinsvegar telur Kripke að vissir hlutir geti aldrei verið frábrugðnir í öðrum mögulegum heimum. Til að mynda telur hann að ef við notum nöfn, þá séum við alltaf að vísa á sama hlut­inn.7 Þegar við notum nafnið Paris Hilton erum við að vísa á sömu manneskjuna í öllum mögu­legum heimum. Sama hversu mikið heimurinn okkar breytist, sama hversu mikið eiginleikar Paris Hilton breytast, þá er hún samt Paris Hilton. Kripke notar orðið „fastanefnari“ yfir slíka hluti sem eru óbreytanlegir, óháð heimum.
      Með því að beita þessum hugtökum setur Kripke fram sterk rök gegn því að lýsing ákvarði merkingu nafna. Í fyrsta lagi er hægt að beita mögulegum heimum til að fá út mótsögn. Ef merking nafnsins „Leonardo da Vinci“ er ekkert annað en „maðurinn sem málaði Monu Lisu“, þá gæti einhver sagt „Leonardo da Vinci hefði getað sleppt því að mála Monu Lisu“. Hvor setning fyrir sig er fullkomlega rökrétt, en ef raunveruleg merking orðsins Leonardo da Vinci er „maðurinn sem málaði Monu Lisu“, þá er raunveruleg merking seinni setningarinnar: „Maðurinn sem málaði Monu Lisu, hefði getað sleppt því að mála Monu Lisu“. Ef nafnið „Bertrand Russell“ þýðir einungis „maðurinn sem á fjólubláan gíraffa“, en við getum ímyndað okkur heim þar sem Bertrand Russell á ekki fjólubláan gíraffa, þá værum við með setningunni „það er til mögulegur heimur þar sem Bertrand Russell á ekki fjólubláan gíraffa“ að segja „það er til mögulegur heimur þar sem maðurinn sem á fjólubláan gíraffa á ekki fjólubláan gíraffa“. Þetta eru augljósar þver­sagnir.
      Það er líka auðvelt að koma með tvítekningar þegar nöfn eru sett fram á þennan hátt. Ef nafnið Leonardo da Vinci þýddi í raun og veru „maðurinn sem málaði Monu Lisu“ þá væri tvítekning að segja „Leonardo da Vinci var maðurinn sem málaði Monu Lisu“, setningin þýddi þá ekkert annað en „maðurinn sem málaði Monu Lisu var maðurinn sem málaði Monu Lisu.“ Setningarnar virðast þó ekki vera jafngildar, sú fyrri kennir okkur eitthvað á meðan sú seinni gefur engar nýjar upplýsingar.8
      Kripke bendir líka á að lýsingar geta verið mismunandi eftir fólki. Lýsingakenningin segir ekki til um hvaða lýsing á að gilda fyrir hvert nafn. Þannig getur ein manneskja talið að merking „Leonardo da Vinci“ sé „stórmerkur listamaður sem málaði Monu Lisu og var einnig ágætur uppfinningamaður“, á meðan annar gæti talið að lýsingin ætti að vera „mikill uppfinningamaður á miðöldum sem fann upp skriðdrekann og var einnig listamaður“. Hér virðast lýsingarnar stangast á.9
      Annað vandamál er að ef fólk hefur mismunandi skoðanir á hver lýsing er, þá virðist ekki vera sameiginleg merking með nöfnum. Ef engin sameiginleg merking er á nöfnum, þá er enginn tilgangur með þeim. Ef einn heldur að Aristoteles þýði „kennari Alexanders“ en annar „nemandi Platons“, þá eru þeir að tala um sitt hvorn hlutinn þegar þeir segja Aristoteles. Lýsingakenningin virðist þá lenda í sömu vandræðum og kenning Locke, orð gætu haft mismunandi merkingu fyrir hvern og einn notanda tungumálsins. Það myndi gera tungumálið að mjög óöruggum og ónákvæmum samskiptamáta.

Möguleg svör

Það er í raun ekkert marktækt svar sem nær að svara allri gagnrýni Kripke á tilvísunarhluta lýsingakenningarinnar. Það er nánast hægt að fullyrða að sá hluti lýsingakenningarinnar sé ógildur. Hinsvegar er hægt að svara flestum, ef ekki öllum mótrökum hans gegn merkingarhluta kenningarinnar.
      Svarið við mögulegum heimum setur Kripke fram sjálfur, þótt tilgangur hans sé ekki að benda á galla í kenningu sinni. Hann bendir á að þegar við tölum um aðra heima, erum við að gera það með reglum úr okkar eigin heimi. Til dæmis þegar við segjum að í mögulegum heimi gætum við verið að tala þýsku, erum við að fjalla um þann heim á okkar eigin tungumáli.10
      Hér virðist Kripke óvart hafa sett fram gagnrýni á eigin kenningu. Ef reglurnar í okkar heimi gilda þegar við tölum um aðra heima, þá hlýtur merking okkar á nöfnum að gilda þegar við ræðum um aðra mögulega heima. Merking nafna í þeim heimi hefur ekki áhrif á merkingu nafna í okkar heimi; ekki frekar en að orð í heimi þar sem töluð er þýska hefur áhrif á íslenskuna í okkar heimi. Lýsingakenningin notar lýsingar í okkar heimi sem merkingu nafna. Lýsingar í öðrum heimi geta ekki haft áhrif á þessa merkingu eins og hún er í okkar heimi. Í hæsta falli geta þær haft áhrif á merkingu nafna í öðrum mögulegum heimi. Samkvæmt lýsingakenningunni hefur nafnið „Leonardo da Vinci“ merkinguna „maðurinn sem málaði Monu Lisu“. Þessi lýsing á því einungis við um manninn í okkar heimi. Ef við orðum setningu eins og „Leonardo da Vinci hefði getað sleppt því að mála alla ævi“ erum við ekki að segja „maðurinn sem málaði Monu Lisu hefði getað sleppt því að mála alla ævi“, heldur erum við að segja „maðurinn sem málaði Monu Lisu, hefði í öðrum mögulegum heimi getað sleppt því að mála alla ævi“. Það virðist ekki vera nein rökvilla eða þversögn þegar setningin er túlkuð á þennan hátt. Ákveðnar lýsingar breytast ekki þegar við tölum um möguleika, það er einungis verið að tala um möguleikann á því að þær geti verið öðruvísi.
      Það er vissulega rétt hjá Kripke að lýsingakenningin á erfitt með að tala um aðra heima, en það er vegna þess að hún byggir á hlutunum eins og þeir eru. Lýsingin á Leonardo da Vinci á við af því að Leonardo da Vinci gerði þá hluti sem hann gerði. Pegasus var ekki til af því að í okkar heimi var aldrei til fljúgandi hestur sem Bellerófón átti. En við getum samt sagt „í mögulegum heimi gæti Pegasus verið til“. Það þýðir ekki að orðið „Pegasus“ vísi á mögulegan einstakling, það þýðir einfaldlega að ef alheimurinn hefði þróast öðruvísi, þá gæti orðið „Pegasus“ hugsan­lega haft aðra merkingu en það hefur. Lýsingakenningunni er sama um mögulega heima. Hún vill útskýra hvernig orð eiga við hluti í heiminum eins og hann er. Um leið og við blöndum möguleikanum á því að heimurinn sé öðruvísi en hann er í málið, erum við farin að tala um eitthvað sem er ekki raunverulegt. Við erum farin að reyna að skálda upp merkingu, og það er auðvelt að fá út þverstæðu í skáldskap. Ef við tökum orð eins og „þríhyrningur“ þá er augljóst að orðið hefur ákveðna merkingu. Þetta þýðir eitthvað með þrjú horn. Við getum auðveldlega talað um þríhyrninga með fjögur horn, hversu lítið vit sem í því kann að vera, en þótt við gætum skrifað um heim þar sem þríhyrningar hafa fjögur horn, breytir það ekki því að í okkar tungumáli og okkar heim eru þríhyrningar með þrjú horn. Á sama hátt hafa nöfn ákveðna merkingu í okkar heimi og sama hvaða skáldskap við gefum okkur um merkingu nafnanna, þá breytist okkar merking ekki. Ef lýsingakenningin er sönn, þá er merking nafna sú sem hún er í okkar heimi, alveg óháð öðrum heimum.
      Flóknara vandamál kemur í ljós þegar við tölum um einstaklinga sem voru hugsanlega aldrei til. Ef við segjum setninguna „Móses leiddi þjóð sína út úr Egyptalandi“, erum við að miðla ákveðinni merkingu. Það virðist fáránlegt að ætla að einhver sem hefur notað nafnið Móses í samtölum alla ævi, komist skyndilega að því að allar setningar sem innihaldi orðið hafi skyndi­lega afgerandi nýja merkingu og verufræðilega stöðu, allt af því að við lærum nýja staðreynd um Móses: að hann var ekki til. Ef það er einhvers konar merking bakvið nöfn á skáldsagnar­persónum, þá þarf að vera merking bakvið nöfn á raunverulegum einstaklingum.
      Það er erfiðara að svara þeim röksemdum sem snúa að banni við að nafn sé hluti af eigin lýsingu. En ekki ómögulegt. Eins og Kripke segir sjálfur:

Undarlegt nokk, ef þú veist að Einstein uppgötvaði afstæðiskenninguna og ekkert um þá kenningu, getur þú bæði vitað hver Einstein er, nefnilega sá sem uppgötvaði afstæðiskenninguna, og hver uppgötvaði afstæðiskenninguna, nefnilega Einstein, á grundvelli þeirrar þekkingar. Þetta virðist vera blygðunar­laust brot á einhvers konar forsendu sem bannar hringrök.11

      Þrátt fyrir að það virðist rangt að nota nafn sem hluta af merkingu sjálfs síns, þá er það ekki rökfræðilega rangt. Það er líka augljós munur á því að segja „Leonardo da Vinci er Leonardo da Vinci“ og á því að segja „einn hluti af merkingu orðsins Leonardo da Vinci, er að um einstakling er að ræða sem var til og er þekktur undir nafninu Leonardo da Vinci“. Nafnið virðist ekki gefa merkingu orðsins neina sérstöðu fyrr en við skiljum hvað setningin segir í raun og veru. Lýsing nafnsins „Leonardo da Vinci“ hefði hugsanlega enga merkingu ef hún væri „maðurinn sem er þekktur sem Leonardo da Vinci“. Á sama hátt ef nafnið þýddi einungis „frægur uppfinningamaður frá miðöldum“ þá væri lýsingin ekki nægilega einstök til að aðskilja hann frá öðrum frægum uppfinningamönnum á miðöldum. En þegar merkingarnar eru settar saman fáum við út að nafnið Leonardo da Vinci þýðir í það minnsta „frægur uppfinningamaður frá miðöldum sem gekk undir nafninu Leonardo da Vinci“. Þessi lýsing er bæði einstök og hefur merkingu á bak við sig. Eins þegar við komumst að því að Einstein setti fram afstæðiskenninguna, lærum við að til var ein­staklingur sem hét Einstein, að til er orð í tungumálinu yfir þann einstakling, að til er kenning sem er þekkt innan tungumálsins og að Einstein hafi sett fram þá kenningu. Þetta eru alls ekki litlar upplýsingar.
      Það virðist fullkomlega eðlilegt að hugsa sem svo að fólk geti haft mismunandi merkingu, eða ákveðna lýsingu í huga þegar það notar sama orðið. Það er hinsvegar spurning hvor nauðsynlegt sé að hafa nákvæmlega sömu merkingu í huga, eða hvort það dugi að það séu viss líkindi, eða sameinandi þættir, með lýsingunum. Ef einn aðili veit að Leonardo da Vinci málaði Monu Lisu og var talinn einn merkasti uppfinningamaður endurreisnarinnar, og annar aðili veit að Leonardo da Vinci var einn merkasti uppfinningamaður miðalda og bjó til styttu fyrir Ludovico Sforza, þá er spurning hvort lýsingar þeirra séu ekki nægilega líkar til að þeir geti vitað að um sama ein­staklinginn að ræða. Það gæti dugað að hafa nægilega miklar upplýsingar til að tengja nafnið við þær upplýsingar sem aðrir hafa.

Önnur lausn

Þrátt fyrir að Kripke takist ekki fullkomlega að fella þá kenningu að einhvers konar ákveðin lýsing ákvarði merkingu nafna, þá tekst honum á frekar afgerandi hátt að fella þá kenningu að ákveðin lýsing ákvarði tilvísun. Eina vörnin fyrir lýsingakenningar virðist vera að segja að orð vísi í tungumálið sjálft. Án tilvísunar er ekkert sem hindrar nöfn í að verða að hugmyndum, eins og Locke virðist gera ráð fyrir og ef lýsingakenningar vilja forðast að breytast í kenningu hans, þá virðist eina vörnin vera að telja að orð vísi í tungumálið. Tungumálið verður þá að einhvers konar gagnagrunni, og nöfn verða eins og öll önnur orð í þessum gagnagrunn. Nafn eins og Leonardo da Vinci verður þá ekki vísun í einstaklinginn, heldur í einhvers konar upplýsingagrunn í tungu­málinu.
      Þegar við heyrum nafnið „Sherlock Holmes“ koma upp í huga okkar allar þær upplýsingar sem við höfum um Sherlock Holmes, til dæmis að hann hafi verið skáldsagnapersóna og einkaspæjari. Sögulegir einstaklingar hafa á sama hátt ekkert viðfang, það er engin raunveruleg persóna til lengur. Þegar við heyrum nöfn eins og Leonardo da Vinci tengjum við nafnið við þekkingu okkar á einstaklingnum. Oft vitum við ekki með fullri vissu hvort sögufrægur ein­staklingur var í raun og veru til og það virðist fáránlegt að gera ráð fyrir að eðli orðsins breytist algerlega, eingöngu vegna þess að við lærum eitthvað nýtt um viðfang þess. Ef við kæmumst að því að Leonardo da Vinci hefði aldrei lifað, myndu allar eldri setningar þar sem nafn hans kemur fyrir skyndilega breyta algerlega um merkingu.
      Ef ég segi „Móses var ekki til“ er ég ekki að lýsa efasemdum um hvort einhver einstaklingur hafi framkvæmt alla þá hluti sem lýsingin gefur þeim, við erum ekki að segja að orðið „Móses“ sé merkingarlaust, við erum einfaldlega að segja að hluti af lýsingu, merkingu orðsins „Móses“ sé að hann hafi ekki verið raunveruleg persóna, rétt eins og „Æðstistrumpur“ eða „Sherlock Holmes“.
      Eina leiðin fyrir lýsingakenningar til að komast hjá kenningu Locke virðist vera að segja orð vísa á sameiginlegan gagnagrunn tungumálsins og segja tilvísun einungis vera óbeina, að orð vísi ekki beint í einstaklinga með því að lýsa einstökum aðila, heldur með því að segja orð vísa í þá hugmynd sem er sameiginleg með fólki í tungumálinu. Við þetta hverfur hinsvegar sérstaða nafna fram yfir önnur orð, þau verða bara að venjulegum orðum ásamt öllum öðrum orðum tungu­málsins, sem þrátt fyrir allt virðist vera snyrtilegri lausn en að gefa þeim frumspekilega og verufræðilega sérstöðu fram yfir alla aðra þætti tungumálsins.

Neðanmálsgreinar

1. John Locke: An Essay Concerning Human Understanding. London, 1690, 3.2.1

2. Sama rit.

3. Saul Kripke: Naming and Necessity. Blackwell Publishing 1981, bls. 93-94 [þýðing mín]

4. Sama rit, bls. 69.

5. Sama rit, bls. 81.

6. Sama rit, bls. 81.

7. Sama rit, bls. 48.

8. Sama rit, bls. 30.

9. Sama rit, bls. 57.

10. Sama rit, bls. 77.

11. Sama rit, bls. 83 [mín þýðing].