Greinasafn fyrir merki: FÁH

Gunnar Ragnarsson gerður að heiðursfélaga Félags áhugamanna um heimspeki

Aðalfundur FÁH 2014

Rökstuðningur stjórnar vegna tillögu um að
Gunnar Ragnarsson verði gerður að heiðursfélaga

gr_heidradur

Ágæta samkoma!

Í þriðju grein laga Félags áhugamanna um heimspeki segir:

„Heiðursfélaga má kjósa á aðalfundi eftir einróma tillögu stjórnar. Heiðursfélagi skal hafa stuðlað að heimspekilegum málefnum á Íslandi um árabil. Aðeins má kjósa einn heiðursfélaga í senn með þriggja ára millibili.“

Nú er það einróma tillaga stjórnar að Gunnar Ragnarsson verði tilnefndur heiðursfélagi Félags áhugamanna um heimspeki.

Hér er hvergi nærri nægjanlegt ráðrúm til að gera tæmandi grein fyrir störfum Gunnars í þágu heimspekilegra málefna hér á landi. En rétt er að gera grein fyrir þeim megin þáttum sem höfðu áhrif á þessa tillögu stjórnarinnar. En fyrst er við hæfi að fara nokkrum orðum um manninn sjálfan.

Gunnar er fæddur árið 1926 á bænum Lokinhömrum í Arnarfirði, sonur Guðbjarts Ragnars Guðmundssonar og Kristínar Sveinbjörnsdóttur. Gunnar lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1947 og stúdentsprófi, utanskóla, frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á ensku, dönsku og frönsku og tók próf í heimspekilegum forspjallsvísindum árið 1949, sem þá voru í umsjón Símons Jóh. Ágústssonar. Eftir það hélt Gunnar utan og hóf nám í ensku við Háskólann í Edinborg, en skipti seinna yfir í heimspeki sem aðalgrein og lauk meistaraprófi í henni árið 1955 með ensku, sálarfræði og listasögu sem aukagreinar.

Fyrstu árin eftir heimkomuna frá Edinborg fékkst Gunnar m.a. við stundakennslu bæði við Kennaraskólann og Námsflokka Reykjavíkur og gegndi um tíma stöðu bókavarðar við Landsbókasafn. Hann fór til framhaldsnáms í heimspeki við McGill háskóla í Montreal skólaárið 1958–59. Eftir að hafa unnið um nokkra ára skeið við gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands og kennt einn vetur sem stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík tók hann við embætti skólastjóra grunnskóla Bolungarvíkur árið 1963 og gegndi því í hartnær þrjá áratugi. Nokkur síðustu árin í Bolungarvík kenndi Gunnar heimspeki við Menntaskólann í Ísafirði.

Af þessu stutta og ófullkomna yfirliti ætti að vera ljóst að Gunnar hefur ætíð verið störfum hlaðinn. En þrátt fyrir það hefur honum engu að síður tekist að sinna „heimspekilegum málefnum“, eins og þar stendur, af einstakri elju og vandvirkni.

Má þar t.a.m. nefna útvarpserindi Gunnars. Bæði um heimspeki Alfreds North Whitehead, sem Gunnar kynnti sér sérstaklega í námsdvöl sinni í Montreal, og um heimspeki Johns Macmurray sem hann komst í tæri við á námsárum sínum í Skotlandi. Þess má geta að heimspeki þess síðarnefnda verður gerð nánari skil hér á eftir.

En líklega er Gunnar þó einna best þekktur af samferðarmönnum sínum í dag sem þýðandi heimspekilegra verka. Þeir þekkja það sem reynt hafa að starf þýðandans er bæði strembið og vanþakklátt. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir það að sem þýðandi hefur Gunnar verið um árabil óþreytandi við að kynna fyrir íslenskum lesendum mörg lykilverka vestrænnar heimspeki. Nægir þar að nefna Samræður um trúarbrögðin eftir David Hume, Nytjahyggjuna eftir John Stuart Mill, Reynsla og menntun, og Hugsun og menntun eftir John Dewey og ritgerðarsafnið Um ský og klukkur eftir Karl Popper, sem einnig verður til nánari umfjöllunar hér á eftir. Þá er ótalin sú bók sem hefur á undanförnum árum verið fyrsti leiðarvísir margra íslenskra lesanda inná brautir heimspekinnar og heimspekisögunnar, þ.e. Miklir heimspekingar. Inngangur að vestrænni heimspeki eftir Bryan Magee. Einnig mætti telja til fjöldann allan af greinum um heimspekileg efni sem birst hafa í þýðingu Gunnars í gegnum tíðina, að ógleymdum frumsömdum ritsmíðum hans, en ekki er ráðrúm til þess hér.

Áhugasömum má benda á að í næsta tölublaði Hugar mun birtast viðtal Ólafs Páls Jónssonar við Gunnar, þar sem farið verður nánar í saumana á sumum þeirra atriða sem hafa sett sterkastan svip á heimspekilega ástundun Gunnars í gegnum tíðina.

Þýðingarstarfsemi Gunnars, ein og sér, verðskuldar ærið lof allra áhugamanna um heimspeki og tryggir honum óumdeildan virðingarsess meðal þeirra.

Segja má að ritstörf Gunnars, og þá sérstaklega þýðingar hans, myndi aðra af tveimur meginstoðunum að baki þeirrar tillögu stjórnar FÁH um að veita honum nafnbót og réttindi heiðursfélaga. Hin, sem er síst veigaminni, er virk og viðvarandi þátttaka hans í starfsemi félagsins.

Þau starfsár hafa verið ærið fátíð síðustu ár, og reyndar áratugi, að Gunnar hafa ekki kveðið sér hljóðs á einhverjum vettvangi félagsins. Fáir meðlimir eru jafn tíðir gestir á skipulögðum viðburðum félagsins en Gunnar. Og fáir jafn óragir við að blanda sér í samræður okkar um þau efni sem þar ber á góma. Og oftar en ekki hefur framlag Gunnars skerpt umræðuna og dregið fram álitamál sem voru öðrum hulin. Rödd Gunnars hefur um árabil haldið uppi merkjum yfirvegunar, skynsemi og gagnrýnnar hugsunar á fundum félagsins sem og á opinberum vettvangi.

Af þessum sökum sem það er álit stjórnar að Gunnar hafi tvímælalaust „stuðlað að heimspekilegum málefnum á Íslandi um árabil“ og það sé ennfremur einmitt vegna virkrar þátttöku áhugamanna um heimspeki á borð við Gunnar sem starfsemi félagsins er yfirhöfuð möguleg.

Varla er hægt að hugsa sér heiðursfélaga sem væri betur að nafnbótinni kominn. Störf og framganga Gunnars hafa um árabil haldið heiðri heimspekinnar á lofti og því ekki nema sjálfsagt að við, áhugafólk um heimspeki, endurlaunum honum það af veikum mætti.

Þakkarorð og þýðingar

Góðir félagar og aðrir fundargestir!

Ég þakka stjórn Félags áhugamanna um heimspeki innilega fyrir þann mikla og óvænta sóma sem mér er sýndur hér í dag með því að gera mig að heiðursfélaga í þessum ágæta félagsskap.

Það hefur aldrei hvarflað að mér að ég ætti einhvern sérstakan heiður skilið fyrir þýðingar mínar á skrifum um heimspeki og menntunarfræði sem ég hef fengist við á undanförnum áratugum. Held ég hafi verið að baksa við þetta vegna áhuga á þeirri tegund hugsunar, rökræðu og skrifa sem við köllum heimspeki, en kannski ekki síður vegna þess að mér hefur fundist það skipta nokkru máli fyrir ástundun heimspekinnar hér á landi að eiga sem mest af læsilegum og skiljanlegum erlendum heimspekitextum í íslenskri þýðingu. Heimspekin er alltént kennd í skólum okkar á tungumáli sem heitir íslenska.

En nóg um það. Til að láta aðeins fleiri orð út úr mér við þetta tækifæri en fáein þakkarorð datt mér í hug að rifja upp og gera örlitla grein fyrir nokkrum áföngum á þýðandaferli mínum sem marka einskonar tímamót, ef svo mætti segja.

Það mun hafa verið síðla árs 1969 að Þorsteinn heitinn Gylfason hafði samband við mig – ég var þá skólastjóri Barna- og unglingaskólans (seinna Grunnskólans) í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp. Erindið var að biðja mig að þýða Dialogues Concerning Natural Religion eftir skoska heimspekinginn David Hume. Þorsteinn var um þetta leyti að hleypa af stokkunum Lærdómsritunum og búa undir prentun fyrstu bókina í þeim ritaflokki, Frelsið eftir J. S. Mill sem kom út 1970. Honum var greinilega mikið í mun að fá þetta klassíska rit Humes þýtt fyrir Lærdómsritaflokkinn.

Hann vissi að ég hafði lagt stund á heimspeki við Edinborgarháskóla og hlyti því að hafa lesið einhver rit eftir þennan frægasta heimspeking Skota. Ég benti Þorsteini á Pál Árdal sem væri doktor í heimspeki Humes og prófessor í Humesfræðum við háskóla í Kanada. Hann kvaðst hafa leitað til Páls en hann hefði ekki séð sér fært að taka þetta að sér.

Ég man að Þorsteinn gekk mjög eftir því að ég yrði við beiðni hans og lét loks undan. Hafði reyndar mjög óljósa hugmynd um út í hvað ég var að fara. Það reyndist mikið baks að koma íslensku sköpulagi á enska textann. Engin nothæf ensk-íslensk orðabók var þá til og maður varð því að fara ýmsar krókaleiðir í leit að orðum. Mig minnir að ég hafi verið búinn að endurskoða handskrifuðu þýðinguna tvisvar og pikka hana á ritvél (þetta var vitanlega fyrir tölvuöld!) þegar mér fannst loks vera komið þolanlegt íslenskt yfirbragð á textann. Bókin kom svo út sem lærdómsrit árið 1972, með inngangi eftir Pál Árdal, undir heitinu Samræður um trúarbrögðin. Eftir á að hyggja hefði hún að réttu lagi átt að heita Samræður um náttúrleg trúarbrögð.

Það má líklega með sanni segja að þetta rit Humes marki upphafið að öllu þýðingapuðinu sem á eftir fór. Og það tel ég vera Þorsteini Gylfasyni að þakka eða kenna!

Nokkrum árum seinna þýddi ég Nytjastefnuna eftir John S. Mill að beiðni Þorsteins. En það dróst á langinn, af ýmsum ástæðum, að sú bók kæmist á þrykk. Það var loks fyrir tilstilli Þorsteins Hilmarssonar, sem þá var ritstjóri Lærdómsritanna, að gengið var frá textanum til útgáfu (1998). Þýðingin var þá rækilega endurskoðuð með aðstoð Þorsteins. Hann gerði víða mikla bragarbót, enda fundvís á snjallar þýðingarlausnir. Á hann mikið hrós skilið fyrir að koma þessu riti á prent. Einnig á hann þakkir skildar fyrir yfirlestur og lagfæringar á mörgum þýðingum mínum.

Nokkur orð um glímuna við Karl Popper í Skýjum og klukkum. Upphaflega var þetta bara ein grein í bók Poppers Objective Knowledge sem heitir á ensku „Of Clouds and Clocks“ og greinasafnið heitir eftir. Handritið lenti í hrakningum milli nokkurra heimspekinga sem lauk með því að Gunnar Harðarson tók það að sér og hvatti mig til að þýða fleiri greinar eftir Popper svo úr gæti orðið bókarkorn. Þetta endaði svo með greinasafni upp á rúmar tvö hundruð síður sem eitt af ritum Heimspekistofnunar Háskóla Íslands.

Ég þakka nafna mínum fyrir þetta björgunarstarf!

Þá er ég kominn að Bryan Magee, þessum makalausa heimspekingi og fjölmiðlamanni. Fékk einmitt áhuga á Popper þegar ég las litla bók eftir hann um kenningar Poppers í vísindaheimspeki og þekkingarfræði. Eins og ykkur mun kunnugt er bókin Miklir heimspekingar ein af þremur samræðubókum Magees sem sprottnar eru upp úr útvarps- og sjónvarpssamræðum hans við heimspekinga í hinum enskumælandi heimi. Miklir heimspekingar er sú síðasta, kom út 1987. Hún samanstendur af 15 samræðum um kenningar frægra hugsuða í vestrænni heimspekihefð, allt frá Platoni til Wittgensteins. Kannski ekki úr vegi að geta þess að um þann síðarnefnda er samræða í öllum bókunum.

Flestir viðmælendur Magees (bara ein kona!) eru prófessorar í heimspeki og vitaskuld hálærðir hver í sínum spekingi. Í Játningum heimspekings (e. Confessions of a Philosopher) bráðskemmtileg og læsileg bók!) segist hann hafa reynt að fá viðmælendur sem voru fúsir að tala mannamál – þ.e. forðast tæknilegt „jargon“ – og það hafi hreint ekki verið auðvelt.

Ég þakka öllum þeim íslensku heimspekingum sem gerðu mér þann greiða að lesa samræðurnar yfir og leggja til margvíslegar breytingar til bóta áður en bókin fór í prentun. Það er kannski við hæfi að geta þess að nokkrar samræður úr annarri samræðubók Magees, Men of Ideas, hafa verið settar á Heimspekivefinn.

Og þá er komið að því merkilega fyrirbæri, Heimspekivefnum, sem ég hef verið í sambandi við um margra ára skeið.

Ég þakka ritstjórum vefsins – eða vefjarins , svo notað sé virðulegra eignarfallið! – fyrir að taka við og birta mestallt það mismerkilega efni sem ég hef sent þeim gegnum tíðina. Samskiptin við þá hafa verið bæði ánægjuleg og lærdómsrík. Fyrst var það Viðar Þorsteinsson, svo Egill Arnarson og nú undanfarin ár núverandi ritstjóri, Henry Alexander Henrysson. Hann hlýtur að vera búinn að fá meira en nóg af mér!

Jæja. Ég ætla nú að ljúka þessari upprifjun með því að segja nokkur orð um þýðingar mínar á verkum eftir John Dewey og tildrög þess að ég fór að glíma við þann margslungna og erfiða hugsuð.

Jónas Pálsson, fyrrv. rektor Kennaraháskóla Íslands, fór þess á leit við mig að þýða hið klassíska rit Deweys í menntunarfræðum, Experience and Education. Ég varð við beiðni Jónasar og lá yfir ótrúlega erfiðum texta í lítilli bók heilt sumar að minnsta kosti. En sú þýðingarómynd fór niður í skúffu því Jónas gekk ekki eftir henni. Það var svo löngu seinna, þegar við hjónin ákváðum að hætta við skólann í Bolungarvík, að mér datt í hug að sækja um orlof til að ganga frá þýðingunni og kynna mér betur hugmyndir Deweys í menntunarfræðum og heimspeki, og reyna að skrifa eitthvað um kenningar hans. Ég fékk þetta orlof.

Við pökkuðum saman sumarið 1991 og ég dreif mig næsta haust til Carbondale í Illinois í Bandaríkjunum þar sem er Center for Dewey Studies. Þar var ég í um það bil þrjá mánuði að reyna að komast til botns í kenningum Deweys um menntun og heimspeki. Eftir þær pælingar sannfærðist ég um að hugmyndir hans ættu erindi við okkur enn í dag þótt margar þeirra væru settar fram fyrir meira en hundrað árum. Hann var líka á „uppleið“ í heimspekiheiminum um þessar mundir.

Ég varð dolfallinn þegar ég uppgötvaði hvílík ósköp liggja eftir þennan stórbrotna hugsuð, bæði í heimspeki og menntunarfræðum, og hvílík ósköp hafa verið skrifuð um hann! Heildarútgáfan af verkum Deweys er þrjátíu og sjö þykk bindi.
Eins og ykkur mun kunnugt er John Dewey einn merkasti menntafrömuður og heimspekingur Bandaríkjamanna. Sú heimspekistefna sem hann aðhyllist kallast pragmatismi. Ég hef kallað hana verkhyggju og finnst það heiti eiga sérstaklega vel við kenningar hans um kennslu og menntun.

Sumarið sem ég hætti í Bolungarvík datt ég ofan í bókina How We Think eftir Dewey og ákvað strax að snúa henni á íslensku. Gerði þá hlé á endurskoðun þýðingarinnar á bókinni sem ég hafði sótt um orlofið út á. Þess má geta að How We Think var grundvallartexti í kennslu- og menntunarfræði í bandarískum „Schools of Education“– sem við köllum nú menntavísindasvið – í þrjá til fjóra áratugi. Báðar bækur Deweys komu út hjá Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans árið 2000: Experience and Education undir heitinu Reynsla og menntun og How We Think<&em> undir heitinu Hugsun og menntun.

Að endingu þakka ég ykkur aftur fyrir að gera mig að heiðursfélaga vegna þýðinga sem þið teljið að skipti máli fyrir framgang heimspeki hér á landi.

––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––

Gunnar Ragnarsson