Færslusöfn

Erindi Leibniz við samtímann

eftir Henry Alexander Henrysson

Þegar fjallað er um sögu margvíslegra vísindagreina kemur nafn þýska heimspekingins Gottfried Wilhelm Leibniz (1646-1716) gjarnan fyrir. Hans er minnst sem eins mesta fjölfræðings mannkynssögunnar. Þrátt fyrir að opinbert starf hans mesta hluta ævi sinnar hafi verið bókavarsla og sagnfræðigrúsk við hirð furstans í Hannover, þá tók hann engu að síður að sér (í sumum tilfellum óumbeðinn) ýmiss konar menningar-, vísinda- og lögfræðileg málefni. Hann varð forstöðumaður myntsláttunnar og stjórnaði námagreftri í ríkinu. Vél- og verkfræðilegar vangaveltur vöktu einnig mikla athygli. Reiknivél hans er líklega þeirra þekktust, en hún gat ekki aðeins lagt saman og dregið frá, heldur einnig margfaldað, deilt og fundið rætur talna. Áður hafði hann fundið upp örsmæðareikninginn og tvíundatölustærðfræði sem við þekkjum í dag í tölvunarfræðum. Leibniz hannaði mælitæki til þess að mæla tíma, fjarlægðir og veður, og hann hannaði sjóngler, vagna, vindmyllur, dælur og gírkassa. Hann skrifaði ritgerðir um heimspeki, guðfræði, eðlisfræði, stærðfræði, tölfræði, efnafræði, grasafræði, jarðfræði, sagnfræði, lögfræði, stjórnspeki, hagfræði, textafræði og skjalavörslu og voru þau öll hvert á sínu sviði með því besta sem ritað var í Evrópu á þeim tíma.

Öll þessi misjöfnu starf- og áhugasvið endurspegla þó ekki beint persónuleika Leibniz eins og freistandi er að álykta. Fátt var honum meira á móti skapi en að menn væru að vasast í hinu og þessu eins og um aðskilda hluti væri að ræða. Hann hafði megna andúð á öllu ósamræmi, missætti og mishljómi. Að vísu verður að taka það fram að slík andúð var töluvert einkenni á tíðarandanum. Hugsun og persónuleiki Leibniz samræmdist ágætlega þeim barokkstíl sem þá var ráðandi. Andúð hans beindist fyrst og fremst að því hvernig kristnir menn höfðu skipst upp í andstæðar fylkingar. Ástæða þess að hann tók það svo nærri sér eru líklega sárin sem þýsku ríkin báru enn, þegar hann var ungur, eftir 30 ára stríðið (1618-1648) svokallaða. Í Hannover höfðu hugleiðingar hans um að setja fram einhvers konar grundvallarguðfræði, sem allir kristnir menn gætu verið sammála um og því sameinast að nýju, sérstakt gildi. Þar var furstafjölskyldan kaþólsk en þegnar hennar upp til hópa mótmælendatrúar og því voru ekki síður pólitískar en persónulegar ástæður fyrir viðleitni Leibniz. Í heimspeki sinni vonaðist hann einnig til að afhjúpa og sameina það sem hann áleit vera rétt og satt í öllum heimspeki- og hugmyndakerfum samtímans – sama hversu ósamræmanleg þau voru. Hann taldi að þau hefðu öll rétt fyrir sér að einhverju leyti. Heimspeki hans var sem sagt ætlað að vera viðbragð við – og lausn á – deilum kaþólikka og mótmælenda, efnishyggju Tómasar Hobbes (1588-1679) og tvíhyggju Descartes (1596-1650), vélhyggju flestra samtímaheimspekinga og markhyggju aristótelískrar skólaspeki.

Hið heimspekilega verkefni sem Leibniz taldi sig vera að leysa var að veita lesendum sínum skilning á þeim heimi sem þeir byggja og stöðu þeirra í honum. Enda þótt ég tali hér um þetta sem heimspekilegt verkefni er ekki hægt að horfa framhjá þeirri guðfræði sem leikur stórt hlutverk í því. Hún kemur til þar sem Leibniz var sannfærður um að áðurnefnd markmið næðust aðeins ef mannkynið reyndi að setja sig í spor Guðs þar sem hann skapaði heiminn og fyrirbæri hans samkvæmt sinni bestu vitund. Upphafspunkt finnur Leibniz í því, sem hann telur vera augljós sannindi, þ.e.a.s. hvernig hugur Guðs takmarkast af þeim lögmálum sem við köllum lögmál hugsunarinnar. Líkt og konungur getur ekki frekar en kotbóndi hugsað án tillits til mótsagnarlögmálsins, þá er Guð engu betur settur en konungurinn. Rökfræðilögmál duga þó ekki ein og sér til þess að útskýra hvers vegna heimurinn er eins og hann er. Þess vegna telur Leibniz að Guð sé einnig bundinn af öðru lögmáli sem hann kallar lögmál hinnar fullnægjandi ástæðu. Val Guðs á þessum tiltekna heimi stjórnast af löngun til þess að gera það besta sem mögulegt er (hann gerir einungis það sem hann telur sig hafa fullnægjandi ástæðu fyrir) og því er tilkomin sú skoðun Leibniz að við búum í hinum besta mögulega heimi. Stærstur hluti heimspeki og náttúruvísinda Leibniz fer svo í að útskýra hvað hann á nákvæmlega við með þessu. Til dæmis þarf hann að útskýra hvers vegna Guð gat ekki haft hamingju mannsins eina að leiðarljósi. Val hins besta krefst einnig hreins skilnings á þeim fyrirbærum sem geta passað saman. Leibniz telur að slíkur skilningur sé ekki mögulegur nema á einingum. Samsettar verundir valdi hættu á misskilningi. Þess vegna setur Guð ekkert í mögulegan heim nema órjúfanlegar eindir, sem Leibniz kallaði undir lok ævi sinnar mónöður. Þessar mónöður eru eilífar þar sem upplausn getur aðeins átt sér stað í hinu samsetta og einu eiginleikarnir sem greina eina frá annarri (engar tvær geta verið eins) eru skynjanir og langanir. Þær eru allar óefnislegar og svipar því til sála en á milli þeirra er stigskipting þannig að aðeins mannssálir teljast raunverulegar sálir. Heimspeki Leibniz telst form af hughyggju þar sem efnislegur veruleiki er ekki raunverulegt eðli hlutanna. Orsakatengsl eru heldur ekki raunveruleg þar sem mónöðurnar eru „gluggalausar“ eins og Leibniz orðar það. Allt það sem mun koma fyrir hverja þeirra er ritað í hugtaki hennar og stjórnast þær allar af svokölluðu fyrirframákveðnu samræmi. Ofan á þessa heimsmynd skapar Leibniz síðan siðferðilega sýn þar sem tilgangur hvers einstaklings er að líkja eftir vali Guðs með skilningsgáfuna eina að vopni. Guð hefur því svo fyrirkomið að hverjum og einum sé refsað og umbunað eftir því sem honum tekst til, en réttlætisvitund Guðs kemur þó helst fram í því að hann hefur gefið hverjum og einum möguleikann á því að þroska anda sinn og sjá hvað býr undir ásýnd veruleikans, sem Leibniz viðurkennir að geti virðst æði ruglingsleg.

Svona skyndikynni af heimspeki Leibniz verða einmitt tilefni til þess að menn banda henni frá sér sem heldur furðulegri þulu yfir innstu leyndardóma raunveruleikans, byggðri upp af sérstakri blöndu reyfarakennds hugmyndaflugs og grárrar forneskju. Frægt er að breski heimspekingurinn Bertand Russell (1872-1970) orðaði fyrstu kynni sín af heimspeki Leibniz eitthvað á þá leið að hún væri eins og ævintýri sem þrátt fyrir fullkomið röklegt samhengi væri algjörlega gripið úr lausu lofti. Hvers vegna skyldum við þá hafa áhuga á að lesa þessa heimspeki enn í dag? Eitt mögulegt svar við þeirri spurningu byggist á því að „fjölfræði“ Leibniz snýst ekki einfaldlega um að vita sem mest um sem flest heldur beinist hún fyrst og fremst að því að byggja á frumforsendum eða grunnlögmálum raunveruleikans. Hún er dæmi um það sem vantar stundum svo sárlega í vísindi samtímans, þ.e. gagnrýna en um leið fordómalausa sýn yfir þann grundvöll sem er flestum vísindum sameiginlegur. Það eru augljós sannindi að enginn getur geymt alla þá þekkingu sem er til staðar í heiminum, en jafn skarpþenkjandi höfuð og það sem bar ábúðarmiklar hárkollur Leibniz gat engu frekar fyrir þrjúhundruð árum torgað öllum hinum sammannlega viskubrunni. Áherslur hans voru aðrar en við temjum okkur í dag á tímum endalauss upplýsingaflæðis og lítils skilnings, en þær eru sýnu mikilvægari fyrir vikið.

En jafnvel þó menn hafni þessari skoðun minni á heimspeki Leibniz og mikilvægi hennar í samtímanum, þá verður því heldur ekki neitað að hann setur fram svör – svör sem halda sínu gegn flestri þeirri gagnrýni sem að þeim hefur verið beint – við flestum þeim dýpstu spurningum sem mannsandinn hefur spurt sig. Heimspeki Leibniz svarar auðvitað óbeint óteljandi spurningum sem fólk á það til að velta fyrir sér, en þær sem hún svarar beint eru meðal annars spurningar um tengsl anda og efnis, ástæðu hins illa í heiminum, uppruna og eðli mannlegrar þekkingar, eðli stærðfræðinnar og hvað það þýðir að vera einstaklingur af ákveðinni tegund eða innan ákveðins hóps. Þessi svör hafa svo í gegnum tíðina, og líklega aldrei meira heldur en á allra síðustu áratugum, höfðað til margs konar hópa. Í grófum dráttum má skipta þeim í tvennt. Í fyrri hópnum eru þeir sem takast hvorki sérstaklega tæknilega, né kerfisbundið, á við heimspeki Leibniz og líta meira á hana sem einhvers konar lífsspeki. Þennan hóp skipa til dæmis þeir sem líta fyrst og fremst til frumlegrar guðshugmyndar Leibniz og reyna þannig að leita kristindóms og guðstrúar utan hefðbundinna trúfélaga. Þar má meðal annars finna Vesturlandabúa sem leita í austurlensk trúarbrögð og marga svokallaða nýaldarsinna. Sumir umhverfissinnar notast einnig við dæmi og rökstuðning úr verkum Leibniz til þess að efla málstað sinn. Pólitískt séð (enda þótt ekki sé verið að vísa beint til pólitískra hugmynda Leibniz) þá telja jafnframt þeir sem berjast gegn útlendingahatri og fyrir fjölmenningu sig geta lært margt af frumspeki hans. Í seinni hópnum má finna einslitari einstaklinga sem flestir tengjast háskólastofnunum. Þar má meðal annars finna marga forherta rökgreiningarheimspekinga sem eru búnir að tapa sálu sinni við að takast á við sum erfiðari atriði í heimspeki Leibniz. Heimsfræðingar velta fyrir sér sumum frumsetningum hans í fullri alvöru, en stærsta hópinn fylla væntanlega vísindasagnfræðingar sem horfa til Leibniz sem frumherja á fjölmörgum sviðum.

Það sem gerir hins vegar Leibniz öðru fremur að svo mikilsverðum heimspekingi er hversu heilsteypt hugsun hans er. Að fylgjast með manni ferðast eftir ystu mörkum skilningsgáfunnar án þess að misstíga sig er sérstök upplifun. Verk hans eru þó ekki einungis andlegir loftfimleikar. Fáir ef þá nokkrir heimspekingar í gegnum hugmyndasögu Vesturlanda hafa verið eins nátengdir þjóðfélaginu sem þeir þrifust í. Hann var fyrst og fremst hirðmaður sem hafði þá helstu köllun í lífinu að bæta líf þegna ríkisins og anda hirðarinnar. Verk Leibniz eru ekki heldur þurr og óspennandi texti, eins og frumspekilegur tónn þeirra gæti gefið fólki tilefni til að ætla. Íslenskir lesendur fá nú loksins tækifæri á að kynnast þeim í nýjum þýðingum í lærdómsriti Hins íslenska bókmenntafélags.

 

« Til baka

Hver er þá hræddur við Christian Wolff?

Um frumspeki þýska heimspekingsins Christian Wolffs (1679-1754)

eftir Henry Alexander Henrysson

Þegar nemar í heimspeki eða hugmyndasögu heyra nafn Wolffs fyrst nefnt (ef það gerist þá yfirhöfuð) er það yfirleitt í samhengi við risana tvo í þýskri heimspekisögu fyrir 19. öld, þ.e.a.s. Leibniz og Kant. Fáir athuga síðar hvort það sé ástæða til að leggja sig eftir því að kynnast heimspeki hans sérstaklega. Líklega er orsök þess fremur ljós. Sú viðkynning sem menn hljóta í almennum uppflettiritum um heimspeki og heimspekisögu vekur sjaldnast mikið hungur til þess að kynnast verkum hans frekar, hvað þá flóknari atriðum þeirra.

Christian Wolff fæddist 24. janúar árið 1679 í bænum Breslau sem nú tilheyrir Póllandi og heitir þar Wroclaw. Hann var alinn upp og menntaður í ströngum lútherskum anda og gerðu menn fremur ráð fyrir því að hann myndi læra til prests. Breslau var hins vegar að mestu kaþólskur bær og flestir vinir Wolffs voru aldir upp við kaþólskar trúarsetningar og því fór svo að sem ungur maður þá dvaldi hann löngum stundum með félögum sínum og rökræddi trúmál. Eins og svo margir mótmælendur á þessum tíma fann hann fljótt fyrir því að hann hafði ekki stuðning af eins öflugum verkum um heimspeki og trú og kaþólikkar höfðu. Því lagðist hann yfir verk skólaspekinga eins og heilags Tómasar og Suárez til þess að búa sig betur undir rökræðurnar. Einnig leitaði hann í verk örfárra höfunda sem höfðu reynt um miðja 17. öldina að laga verk Suárez að lútherskunni. Fór svo að Wolff náði nokkrum frama innan hins smáa menntasamfélags Breslau sem sérlega ákveðinn dispútant. Wolff segir sjálfur seinna að þessar rökræður hafi hins vegar haft þau áhrif að hann varð afhuga þess konar rökræðum um trúmál og allri þeirri sérvisku sem fylgir þannig flokkadráttum og því hafi hann í æ meira mæli farið að halla sér að stærðfræðinni og þess öryggis og vissu sem hún bjóði upp á.

Tvítugur að aldri innritaðist Wolff í háskólann í Jena, þar sem Erhard Weigel hafði gert garðinn frægan með ritum sínum um stærðfræði, þekkingarfræði og aðferðafræði vísinda. Þar vakti hann fljótt athygli fyrir skrif sín um hvernig mætti nota aðferðir stærðfræðinnar í siðfræði og varð hann kennari í stærðfræði við skólann þrátt fyrir að hann væri enn ungur að árum. Það var á þessum fyrstu árum hans í hinu akademíska umhverfi sem hann vakti athygli Leibniz, sem hafði töluvert álit á þessum unga manni sem stærðfræðingi, en réð honum frá því að fást við þá heimspeki sem Wolff var í auknum mæli farinn að fást við. Árið 1706 fór svo að Leibniz og fleiri áhrifamiklir menn studdu Wolff í stöðu stærðfræðiprófessors í hinum ört vaxandi háskóla í Halle sem er skammt frá Leipzig. Þar var píetísk heimspeki ríkjandi og var hún honum lítt að skapi, enda uppfull af efasemdum um möguleika mannsins til að öðlast skýra og sanna þekkingu á heiminum. Tók hann þegar að halda fyrirlestra um heimspeki. Fyrirlestrarnir höfðu fremur skólaspekilegan stíl, en þar sem hann notaðist einnig við margar af frumforsendum Leibniz og var þar að auki fyrsti kennarinn í þýskum háskóla til þess að kenna örsmæðareikninginn í þeirri mynd sem Leibniz notaði, þá voru margir þeirrar skoðunar að Wolff væri ekkert annað en lærisveinn hirðmannsins frá Hannover. Hvaðan áhrifin komu varð þó fljótt að aukaatriði þar sem nafn Wolffs sem heimspekings öðlaðist fljótt meiri frægð en nafn Leibniz. Það kom fyrst og fremst til af því að Wolff varð gríðarlega afkastamikill höfundur heimspekiverka á þýsku og má í raun segja að hann hafi skapað hinn þýska heimspekilega orðaforða í þessum verkum. Verkin lofuðu öryggri þekkingu til handa þeim sem kynnu að beita stærðfræðilegri hugsun á allt milli himins og jarðar. Þau voru hvorki sérstaklega aðgengileg, fyrir utan að vera skrifuð á móðurmálinu, né skemmtileg en náðu þó gríðarlegri útbreiðslu og frægðarsól Wolffs tók að rísa hærra og hærra um alla Evrópu. Vísindaakademíunum í öllum helstu borgum Evrópu fannst ekki annað hægt en að bjóða þessum lærða prófessor að gerast félagi og bækur hans voru kenndar í öðrum þýskum háskólum. Hinn þýskumælandi heimur hafði eignast sinn eigin heimspeking.

Í Halle var hins vegar ekki allt með felldu. Heimildum ber engan veginn saman um hverjar voru hinar raunverulegu ástæður fyrir öldurótinu í þessum annars friðsæla prússneska háskóla, en það er ljóst að eftir því sem frægð Wolffs jókst þá unnu fleiri og fleiri markvisst gegn honum. Líklega var öfund helsta rót þessarar ókyrrðar, en innan veggja skólans voru menn sem höfðu náin tengsl við Friðrik Vilhjálm I. konung og áttu þeir auðvelt með að finna klöguefni á hinn sífellt sjálfsöruggari stærðfræðiprófessor. Fyrsta stóru klögumálið var að Wolff ynni gegn hinum píetíska anda ríkisins í þeim verkum sínum sem lofuðu austurlenska heimspeki þar sem hún sýndi fram á einhvers konar náttúrulegt siðferði sem þyrfti ekki á opinberuninni að halda. Einnig litu yfirvöld hornauga hina almennu rökhyggju sem kom fram í heimspeki Wolffs og sem margir honum andsnúnir túlkuðu sem hreina löghyggju. Fór svo á endanum að árið 1723 var Wolff gert að yfirgefa Prússland innan sólarhrings og fáum árum seinna voru öll verk hans bönnuð.

Þessi gjörningur, sem var ætlað að þagga niður í Wolff, snérist fljótt upp í andhverfu sína. Hann fékk stöðu í Marburg og hófst þegar handa við að endurskrifa (og endurbæta) verk sín á þýsku yfir á latínu til þess að ná til víðari lesendahóps. Þessi nýju verk ásamt þeirri frétt að hann væri heimspekingur sem hafði orðið að flýja dauðadóm vegna skoðana sinna varð til þess að frægðarsól hans reis upp fyrir sjóndeildarhring alls hins lærða heims. Jafnvel lærdómsheimur píetista tók hann upp á sína arma, þar sem hann þótti skömminni skárri en allur sá deismi sem þá var að spretta upp. Á um tuttugu ára tímabili frá 1730 til 1750 var hann án nokkurs vafa frægasti hugsuður Evrópu. Friðrik mikli tók við krúnunni árið 1740 og kallaði Wolff þegar til baka til Halle þar sem hann tók við aðalstign og lauk ferli sínum. Fyrirlestrar hans þóttu ekki merkilegir undir lokin, en hann var þeim mun afkastmeiri í ritstörfum sínum. Yngri menn sáu líka um að breiða út heimspeki hans sem var ráðandi við flesta háskóla og aðrar æðri menntastofnanir í Norðurevrópu.

Þrátt fyrir að wolffískar kennslubækur hafi verið kenndar allt fram á 19. öld í mörgum þessara skóla er einkennilegt hvernig varla er minnst á heimspeki hans í verkum sem fjalla um hápunkt upplýsingarinnar. Hvernig má það vera að stærsta nafn í heimspeki þeirrar aldar sem kennd er við upplýsingu svo til gufar upp? Ástæður þessa eru að sjálfsögðu of flóknar til þess að það sé hægt að fara í þær hér. Eftir miðja öldina verða flókin pólitísk straumhvörf sem við erum ennþá að vinna úr. Margt af því sem við kennum við upplýsinguna á sér kannski litla rót í raunveruleikanum. Sérstaklega er okkur hætt við að fegra um of menn og málefni sem voru ofarlega á baugi á þessum tíma og láta eins og það sem fellur ekki að þeirri mynd hafi verið fremur tilfallandi og ekki raunverulegur hluti anda upplýsingarinnar. Í raun og veru má segja að það hversu erfitt er að henda reiður á upplýsingunni sé um leið eðli hennar. En það er ekki þar með sagt að maður geti þar af leiðandi dregið þá ályktun að upplýsingin hafi verið byggð á röngum forsendum og að grundvöllur hennar sé meingallaður. Það sem snýr að fræðimönnum samtímans er að greiða úr þeim flókna vef sem þræðir hugmyndasögu 18. aldar flæktust í eftir því hvernig pólitískir vindar blésu.

Ef við horfum framhjá þessum flækjum mætti einnig nefna hvernig persónuleiki Wolffs og framsetning hans á eigin heimspeki hafa ekki hjálpað honum að haldast á þeim stalli í heimspekisögunni sem honum ber. Wolff var aldrei lítillátur maður og fáir heimspekingar hafa gefið sig jafn mikið út fyrir, á yfirborðinu að minnsta kosti, að hafa fram að færa hinn eina sanna veg til þekkingar á heiminum. Eftir að brottreksturinn frá Halle hafði gert hann að stjörnu upplýsingarinnar um alla Evrópu jókst sjálfsálit hans upp úr öllu valdi. Samskipti hans við aðra heimspekinga urðu öll á einn veg: hann hafði rétt fyrir sér, og það skipti hann litlu máli á hversu margar tær hann steig innan veggja þeirra stofnana sem hann starfaði. Jafnvel í Marburg, þar sem hann mátti teljast heppinn að hafa fengið inni, sýndi hann litla diplómatíska tilburði. Margir mikilsverðir menn höfðu því litlar persónulegar ástæður til þess að lofa nafn Wolffs eftir að hann féll frá. En þetta eru þó einnig einungis vangaveltur. Hér gefst ekkert rúm til þess að kafa ofan í þessa sögu. Það sem er kannski eðlilegast að skoða nánar eru þau viðhorf til heimspeki Wolffs sem standa okkur nær í tíma og krefjast minni sagnfræðilegs skotgrafahernaðar.

 

« Til baka