Færslusöfn

Sigurður Nordal

Sigurður Nordal (1886–1974) Íslenskur bókmenntafræðingur, rithöfundur og heimspekingur, einn áhrifamesti menntamaður hér á landi á 20. öld, naut einkum álits vegna kenninga sinna um íslenskar fornbókmenntir en hefur síðar öðlast traustan sess í íslenskri heimspekisögu.

Fæddur að Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 14. sept. 1886, varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1906, mag. art. í norrænum fornfræðum frá Kaupmannahafnarháskóla 1912 og doktor í þeim fræðum við sama skóla 1914. Lagði eftir það stund á heimspeki í Kaupmannahöfn, hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1916 og fór til Berlínar og Oxford. Skipaður prófessor í íslenskri málfræði og menningarsögu við H.Í. 1918 og flutti veturinn 1918–1919 Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína Reykjavík. Árið 1931–1932 var hann Charles Eliot Norton prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. 1945 var hann skipaður prófessor í íslenskum fræðum án kennsluskyldu og var 1951–1957 sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Hann lést í Reykjavík 21. sept. 1974.

Heimspekilegur áhugi Sigurðar Nordals beinist einkum að lífinu, manninum og þroskanum. Heimspekin er ekki aðeins starfsgrein heldur hluti af tilveru mannsins sem frjálsrar, hugsandi veru. Meginspurningin snýst um vandann að kjósa sér sjálfráða lífsstefnu úr ótal möguleikum í því skyni að öðlast sem fyllstan þroska. Meðal helstu áhrifavalda má nefna Kierkegaard og James. Heimspeki sína setur hann aðallega fram í fyrirlestrunum um Einlyndi og marglyndi sem haldnir voru í Reykjavík 1918–1919 en ekki gefnir út fyrr en 1986 og í útvarpserindum um Líf og dauða sem flutt voru og gefin út árið 1940.

Nokkur önnur rit: Íslensk menning (1942). Fornar ástir (1919). Heildarritsafnið kom út 1996.

« Til baka

Símon Jóhannes Ágústsson

Símon Jóhannes Ágústsson (1904–1976), heimspekingur og sálfræðingur, prófessor við H.Í.

Fæddur 28. september 1904, sonur Ágústs Jóhannessonar bónda að Kjós í Reykjarfirði, Strandasýslu og Petrínu Sigrúnar Guðmundsdóttur. Stúdent 1927, stundaði síðan nám í Sorbonne-háskóla í París, licence-ès-lettres 1932, hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1933–1937, lauk doktorsprófi 26. júní 1936 með ritgerð um þýska uppeldisfræðinginn Georg Kerschensteiner. Prófessor í heimspeki við H.Í. 1948–1975.

Símon kenndi heimspekileg forspjallsvísindi við H.Í. en meginviðfangsefni hans voru þó á sviði uppeldis- og sálarfræði. Hann ritaði og þýddi kennslubækur í rökfræði, en fékkst einnig við önnur heimspekileg efni, einkum fagurfræði (List og fegurð, 1953).

Helstu rit: La doctrine de l’éducation de Georg Kerschensteiner (1936), Þroskaleiðir(1935), Leikir og leikföng (1938), Rökfræði (1948), Almenn sálarfræði (1956).

« Til baka