Færslusöfn

Orðið heimspeki

Orðið heimspeki, upphaflega „heimsspeki“, er að öllum líkindum tökuþýðing úr þýsku (Weltweisheit) eða dönsku (den verdslige Visdom) og merkir bókstaflega „veraldarviska“. Orðið var notað yfir aðrar greinar fræðilegrar þekkingar en guðfræði. Þessi merking er í samræmi við hefðbundna notkun orðsins á fyrri öldum sem enn má sjá þegar lærdómsmönnum úr hinum ýmsu fræðigreinum er veitt doktorsnafnbót í heimspeki (t.d. Ph.D.)

Samkvæmt ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta dæmi um orðið „heimsspekingur“ úr þýðingu Guðbrands Þorlákssonar á Enchiridion edur Hand Bok, eftir David Chytræus og M. Chemnitz, sem prentuð var á Hólum árið 1600. Í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, sem var prentuð árið 1540, er það orð ekki notað, heldur eru heimspekingar nefndir philosophi upp á latínu. Elsta dæmið úr ritmálssafninu um „heimsspeki“ er aftur á móti úr þýðingu Þorleifs Halldórssonar á eigin latínuriti, Lofi lyginnar, frá 1711–1713. Orðið er einnig notað í kvæði Guðmundar Bergþórssonar (1657–1705), Heimspekingaskóli, en það var fyrst prentað 1785. Í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru fleiri dæmi frá 18. öld.

Í íslenskum miðaldaritum eru heimspekingar yfirleitt nefndir „spekingar“, t.d. eru „Aristóteles hinn spaki“ og „spekingurinn Plató“ nefndir í málfræðiritum. Vera má að orðið „fróðleiksást“ í Fyrstu málfræðiritgerðinni, sem talin er frá 12. öld, sé elsta tilraun til að íslenska latnesku orðmyndina philosophia.

« Til baka

Páll B. Vídalín

Páll Bjarnason Vídalín (1728–1759), heimspekinemi.

Fæddur 1728, sonur Bjarna Halldórssonar sýslumanns og Hólmfríðar Pálsdóttur. Lærði í heimaskóla og hélt til Kaupmannahafnar 1743, tók lárviðarpróf í heimspeki 1745, fór til Leipzig 1749 og lagði þar stund á ýmsar fræðigreinar, einkum heimspeki, með styrk úr konungssjóði. Lést í Leipzig 1759.

Páll þótti frábærlega vel gefinn og er framlag hans til íslenskrar heimspeki þrjár ritgerðir sem hann lét prenta eftir sig í Kaupmannahöfn: De methodo mathematico-philosophica (1745), Num philosophia facultatis inferioris nomine recte possit appellari(1747) og De voluptatibus innocuis et licitis (1748).

« Til baka

Páll Björnsson

Páll Björnsson (1621–1706), guðfræðingur og fræðimaður, prestur og prófastur í Selárdal.

Fæddur að Saurbæ á Rauðasandi 1621, sonur Björns Magnússonar og Helgu Arngrímsdóttur. Eftir nám í Hólaskóla innritaðist hann í Hafnarháskóla og lauk lárviðarprófi 1644, jafnframt því sem hann fékk lærdómsvottorð sem jafngilti guðfræðiprófi. Vígðist prestur að Selárdal 1675 og hélt það prestakall síðan. Lést 23. október 1706.

Þótt Páll sé nú einna þekktastur fyrir baráttu sína gegn göldrum og galdramönnum má ekki gleyma mikilsverðu framlagi hans til íslenskrar heimspeki, en það er siðfræðiritið Spegill þolinmæðinnar sem hann lauk 1687 og er að öllum líkindum fyrsta heimspekilega ritið sem vitað er til að frumsamið hafi verið á íslensku.

« Til baka

Sigurður Nordal

Sigurður Nordal (1886–1974) Íslenskur bókmenntafræðingur, rithöfundur og heimspekingur, einn áhrifamesti menntamaður hér á landi á 20. öld, naut einkum álits vegna kenninga sinna um íslenskar fornbókmenntir en hefur síðar öðlast traustan sess í íslenskri heimspekisögu.

Fæddur að Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 14. sept. 1886, varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1906, mag. art. í norrænum fornfræðum frá Kaupmannahafnarháskóla 1912 og doktor í þeim fræðum við sama skóla 1914. Lagði eftir það stund á heimspeki í Kaupmannahöfn, hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1916 og fór til Berlínar og Oxford. Skipaður prófessor í íslenskri málfræði og menningarsögu við H.Í. 1918 og flutti veturinn 1918–1919 Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína Reykjavík. Árið 1931–1932 var hann Charles Eliot Norton prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. 1945 var hann skipaður prófessor í íslenskum fræðum án kennsluskyldu og var 1951–1957 sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Hann lést í Reykjavík 21. sept. 1974.

Heimspekilegur áhugi Sigurðar Nordals beinist einkum að lífinu, manninum og þroskanum. Heimspekin er ekki aðeins starfsgrein heldur hluti af tilveru mannsins sem frjálsrar, hugsandi veru. Meginspurningin snýst um vandann að kjósa sér sjálfráða lífsstefnu úr ótal möguleikum í því skyni að öðlast sem fyllstan þroska. Meðal helstu áhrifavalda má nefna Kierkegaard og James. Heimspeki sína setur hann aðallega fram í fyrirlestrunum um Einlyndi og marglyndi sem haldnir voru í Reykjavík 1918–1919 en ekki gefnir út fyrr en 1986 og í útvarpserindum um Líf og dauða sem flutt voru og gefin út árið 1940.

Nokkur önnur rit: Íslensk menning (1942). Fornar ástir (1919). Heildarritsafnið kom út 1996.

« Til baka

Símon Jóhannes Ágústsson

Símon Jóhannes Ágústsson (1904–1976), heimspekingur og sálfræðingur, prófessor við H.Í.

Fæddur 28. september 1904, sonur Ágústs Jóhannessonar bónda að Kjós í Reykjarfirði, Strandasýslu og Petrínu Sigrúnar Guðmundsdóttur. Stúdent 1927, stundaði síðan nám í Sorbonne-háskóla í París, licence-ès-lettres 1932, hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1933–1937, lauk doktorsprófi 26. júní 1936 með ritgerð um þýska uppeldisfræðinginn Georg Kerschensteiner. Prófessor í heimspeki við H.Í. 1948–1975.

Símon kenndi heimspekileg forspjallsvísindi við H.Í. en meginviðfangsefni hans voru þó á sviði uppeldis- og sálarfræði. Hann ritaði og þýddi kennslubækur í rökfræði, en fékkst einnig við önnur heimspekileg efni, einkum fagurfræði (List og fegurð, 1953).

Helstu rit: La doctrine de l’éducation de Georg Kerschensteiner (1936), Þroskaleiðir(1935), Leikir og leikföng (1938), Rökfræði (1948), Almenn sálarfræði (1956).

« Til baka

Skúli Þórðarson Thorlacius

Skúli Þórðarson Thorlacius (1741–1815), fornfræðingur, heimspekingur og rektor.

Fæddur að Teigi í Fljótshlíð 10. apríl 1741 sonur Þórðar Thorlacius og Kristínar Sigurðardóttur. Varð stúdent 1758 og hélt til Kaupmannahafnar sama ár, lauk lárviðarprófi í heimspeki 1761 og guðfræðiprófi 1765, hlaut meistaranafnbót í heimspeki 1768. Varð rektor latínuskólans í Kolding 1769 og rektor frúarskóla í Kaupmannahöfn, helsta latínuskóla Danmerkur, 1777. Lést í Kaupmannahöfn 1815.

Vegna annasams og glæsilegs starfsferils liggur ekki mikið eftir Skúla heimspekilegs eðlis, en þrjár ritgerðir frá námsárum hans eru þó prentaðar:Dissertatio philosophica de infinitudo (1762), Dissertatio metaphysica de mundo(1766) og De animae per mortem cataracta seu mutationubus status animae per mortem (1767). Ritgerðirnar eru undir áhrifum frá heimspeki Christians Wolffs.

Sjá: Henry Alexander Henrysson: Frumspeki og óendanleiki í verkum Skúla Thorlaciusar (1999).

« Til baka

Sókrates, mælskulistin og áhrif samræðunnar

eftir Gunnar Harðarson

Meðal þekktustu staða í Málsvörn Sókratesar er frásögnin af því þegar Kaírefón leggur þá spurningu fyrir véfréttina í Delfí hvort nokkur væri vitrari en Sókrates. Hann fékk það svar að enginn væri vitrari. Samkvæmt Málsvörninni kom þetta svar Sókratesi mjög á óvart, því að hann vissi með sjálfum sér að hann væri „ekki vitur, hvorki í smáu né stóru“ (21b). Hann velti því lengi fyrir sér hvað guðinn gæti átt við með þessu, úr því að guðlegt svar af þessum toga hlyti í einhverjum skilningi að vera satt. Að lokum ákvað hann að sannreyna hvort guðinn hefði rétt fyrir sér, og fór til stjórnmálamanns sem var álitinn vitur í því skyni að sýna sjálfum sér og guðinum fram á að svar véfréttarinnar væri rangt. Í ljós kom að munurinn á Sókratesi og stjórnmálamanninum var sá að Sókrates vissi að hann væri ekki vitur, en stjórnmálamaðurinn hélt að hann væri vitur þótt hann væri það ekki. Stjórnmálamenn reyndust haldnir þeirri blekkingu að telja sig vita það sem þeir vissu ekki, meðan Sókrates gerði sér grein fyrir því að það sem hann vissi ekki það vissi hann ekki, en hvorki taldi sig vita það né gaf sig út fyrir að vita það.
        Sókrates lýsir því hvernig hann fer frá stjórnmálamönnum til skálda og þaðan til iðnaðarmanna og kemst að því að þeir ofmeta líka þekkingu sína, með mismunandi hætti þó. Iðnaðarmennirnir kunna sína list, en falla í þá gryfju að halda af þeim sökum að þeir beri líka skynbragð á allt annað. Skáldin reynast ekkert vit hafa á eigin verkum, því að þau yrkja af óútskýrðum innblæstri, en ekki af þekkingu, svo að það er miklu betra að leita til annarra en þeirra sjálfra til þess að öðlast einhverja vitræna skoðun á skáldverkunum. En vegna skáldskaparins telja þau sig hafa vit á öðru líka, þó að þau reynist ekki einu sinni hafa vit á sínum eigin sköpunar­verkum. Stjórnmálamennirnir eru enn annar handleggur. Þeir eru í miklu áliti meðal fylgismanna sinna, en því meira álits sem þeir njóta, þeim mun fávísari reynast þeir þegar Sókrates tekur þá tali.
        En Sókrates lét ekki við það sitja að komast að því hvort til séu vitrari menn en hann sjálfur. Hann gekk lengra:

Þegar ég fór nú að reyna manninn – ég þarf ekki að nafngreina hann, en hann var reyndar stjórnmálamaður – og þegar ég var að rannsaka hann, þá reyndist mér og leizt svo, að bæði mörgum öðrum og þó einkum honum sjálfum þætti hann vera vitur, en hann væri það ekki í raun og veru. Leitaðist ég því næst við að sýna honum fram á, að hann þættist reyndar vera vitur, en væri það ekki. (21c)

        Þetta verður undirrótin að óvinsældum Sókratesar hjá þessum hópum: Hann lætur sér ekki nægja að kanna hvort viðmælendurnir séu vitrari en hann, heldur leitast við að afhjúpa blekkingu viðmælenda sinna fyrir þeim sjálfum og öðrum viðstöddum. Þeir eru vitaskuld ósáttir við að vera sýnt fram á fávisku sína frammi fyrir fylgismönnum sínum og aðdáendum og það kann að hafa haft sínar afleiðingar fyrir Sókrates. En hvaða reynsla er það sem viðmælendurnir verða fyrir þegar þeir lenda í klónum á Sókratesi? Hvað er það sem gerist? Hvað upplifa þeir?
        Frægur kafli úr Menoni gæti fært okkur nær svari við þessari spurningu. Í þeirri samræðu hittir Sókrates Menon og ræðir við hann um hvað dygð sé. Menon er brattur og hress og hefur svörin á hraðbergi. Eftir nokkrar atrennur segir Menon að dygðin sé að sækjast eftir því sem sæmd er að og vera maður til að öðlast það. Sókrates sýnir fyrst fram á að fyrri liðurinn gildi fyrir allt og alla en að í seinni liðnum sé þversögn, þannig að það sé bæði dygð að öðlast gæðin og að öðlast þau ekki svo framarlega sem hvort tveggja gerist af dygð. Og Sókrates spyr hann í lok þessa þáttar hvað hann og Gorgías segi að dygðin sé. Þá svarar Menon með eftirminnilegum hætti:

Ég heyrði það áður en ég fann þig að þú gerir ekkert annað en bæði efar sjálfur og kemur öðrum í efa. Og núna, eftir því sem mér sýnist, villir þú sjónir fyrir mér og töfrar mig og hreint að segja galdrar mig, svo að ég er orðinn fullur af efa­semi. Ef mér leyfðist að spauga, þá sýnist mér þú öldungis vera einna líkastur, bæði í sjón og öðru, hnykkiskötunni í sjónum, því hún gerir menn dofna í hvert sinn sem menn nálægjast hana og snerta hana, og mér sýnist þú hafa gert mér eitthvað þessu líkt. Því ég er í raun og veru orðinn dofinn bæði á sál og líkama og ég get aungvu svarað þér. Og þó hef ég ótal sinnum haldið margar ræður um dyggðina og í margra áheyrn og dálaglega eftir því sem mér sýnist, en nú get ég ekki svo mikið sem sagt hvað hún er! Mér þykir þú vera forsjáll að þú hefur ekki siglt héðan eða farið utanlands, því ef þú hefðir tekið upp á þessu í annarri borg hefðirðu brátt verið rekinn í burtu eins og galdramaður. (80a-b)

        Lítum nú aðeins á hvernig Menon lýsir þessu. Hann nefnir í fyrsta lagi að Sókrates efi sjálfur og komi öðrum í efa. Hann lýsir Sókratesi sem sjónhverfingamanni, töframanni og galdramanni. Hann líkir honum við hrökkviskötu sem menn fá stuð af og verða dofnir eftir. Þetta getum við túlkað sem lýsingu á þeirri reynslu sem stafar af ástundun heimspekinnar í þeirri mynd sem Sókrates stundar hana. Menon veit ekki hvað snýr upp eða niður, hann er orðlaus, hann hafði áður haldið margar góðar ræður um dygðina, en nú stendur hann skyndilega í þeim sporum að hann veit hann ekki einu sinni hvað hún er, eins og hann segir. Hann getur ekki gert grein fyrir og kemur ekki orðum að því sem var augljóst og vandræðalaust fyrir augnabliki síðan. Þetta er oft túlkað þannig í heimspekikennslu að Sókrates komi mönnum til þess að gera sér grein fyrir vanþekkingu sinni, því að ef menn átta sig ekki á því að þeir vita ekki, þá munu þeir ekki heldur leita þekkingar. Hins vegar er spurning hversu víðtæk og djúptæk þessi uppgötvun vanþekkingar­innar er. Snýst hún einfaldlega um tiltekin atriði – til dæmis að átta sig á því að maður viti ekki hvernig maður á að skilgreina dygð – eða beinist atlaga Sókratesar að djúpstæðari grundvallar­atriðum í upplifun og skilningi á sjálfum sér og heiminum?
        Við getum kannski litið til seinni tíma efahyggjuhugsuða til að útskýra málið. Í 12. kaflanum í Rannsókn á skilningsgáfunni ræðir Hume muninn á náttúrulegri og heimspekilegri afstöðu. Samkvæmt hinni náttúrulegu afstöðu sjáum við og skynjum hlutina sjálfa án þess að velta því neitt frekar fyrir okkur, þetta er einfaldlega gefið. En um leið og við förum að velta þeim fyrir okkur sjáum við að það fær ekki staðist; skynjanir okkar eru ekki hlutirnir, en hvort hlutirnir samsvari skynjuninni getum við með engu móti vitað, því að til þess þyrftum við að geta skynjað hlutina, en það felur í sér vítarunu sem við komumst ekki fram hjá. Við sjáum þá að hin náttúrulega afstaða stenst ekki en við getum samt ekki reitt okkur á hina heimspekilegu. Afleiðingin er sú að við vitum að hin sjálfgefna, náttúrulega sýnd sem við lifum við er blekking en getum ekki fært sönnur á að hin heimspekilega fái staðist.
        Aristóteles talar um að undrunin sé upphaf heimspekinnar, en Heidegger gerir greinarmun á tvenns konar undrun; þeirri sem leiðir til heimspekinnar og þeirri sem gerir það ekki. Hin síðar­nefnda beinist að fráviki innan hversdagslegrar reynslu, en hin fyrrnefnda verður til þegar hið hversdagslega og sjálfgefna tekur á sig annarlega mynd, verður framandi og fullkomlega óskiljanlegt.
        Vera má að þarna glitti í þá reynslu sem Menon verður fyrir þegar hann líkir Sókratesi við sjónhverfingamann og rafmagnað kvikindi sem gerir hann dofinn á sál og líkama. Það er sem sé ekki einföld vanþekking sem samræður Sókratesar snúast um heldur hafa þær þau áhrif að það er eins og fótunum sé kippt undan viðmælendum hans og það sem þeir töldu sjálfsagt og eðlilegt slær þá sem óútskýranlegt og furðulegt. – Það virðist því sem svo að þessi reynsla hafi tilvistarlega vídd og feli í sér tilfinningalega upplifun sem verður eins konar skírsla eða hreinsun á borð við þá sem Aristóteles lýsir í Skáldskaparlistinni.
        Í Málsvörninni fer Sókrates ekki til mælskumanna, og eru þeir þó hluti af ákærendateyminu. Við mætum þeim hins vegar í samræðunni Gorgías og við skulum hér grípa niður í samtal Sókratesar og Gorgíasar. Þeir hafa verið að ræða spurninguna um hvað mælskulistin sé. Bak við nálgun þeirra er hugmyndin um tekhne, tækni eða list, sem byggist á kunnáttu og framleiðir eitthvað, býr eitthvað til. Eftir nokkra hringi koma þeir sér niður á eftirfarandi skilgreiningu: Mælskulistin er hæfileikinn til að sannfæra menn með orðum.
        Sókrates spyr um eðli sannfæringarinnar og viðfang hennar og gerir greinarmun á sannfæringu byggðri á þekkingu á viðfangsefninu og sannfæringu sem er ekki þannig. Í fram­haldinu kemur í ljós að sannfæring byggist annað hvort á þekkingu eða einhvers konar trú eða tilfinningu og sannfæringin sem mælskulistin skapar er af síðara taginu, hún skapar skoðun, en ekki þekkingu, á réttu og röngu.
        Það sem mælskulistin skapar er því sannfæring, hún er „hæfileikinn til að sannfæra menn með orðum“ (452e) og um hana er fjallað sem eins konar tækni- eða framleiðslugrein. Að vísu fellst Sókrates (og þar með Platon) ekki á að hún sé list – ekki frekar en Platon fellst á skáld­skapinn sem list í Ríkinu – en Aristóteles hafnar hvoru tveggja þessu viðhorfi með því að skrifa um list skáldskaparins og ræðulistina.
        Ef við nú tengjum saman samræðulist Sókratesar og mælskulistina, þá sjáum við að samræðulistin er í vissum skilningi andstæða mælskulistarinnar. Ekki bara í þeim skilningi að þetta séu tvenns konar aðferðir við að komast að inntaki skoðana, þar sem annars vegar er um að ræða skoðun sem er sennileg, en ekki nauðsynlega sönn, og hins vegar leit að sannri skoðun, þar sem viðmælandinn þreifar sjálfur fyrir sér og kemst sjálfur að jákvæðri eða neikvæðri niðurstöðu. Þá væri kannski ekki fjarri lagi að álykta sem svo að samræðulistin miði að því að leiða sannleikann í ljós, ólíkt mælskulistinni, sem ætlað er að hrífa og sannfæra. Sannfæringin sem mælskulistin orsakar er tilfinning fyrir því að skoðun manns sé sönn, afstaða sem á sér hugsanlega rætur í hversdagslegu sambandi okkar við heiminn og annað fólk og þessi sann­færing er eins konar innri tilfinning sem verður til undir ræðuhöldunum og er sköpuð með ýmiss konar mál- og hugsunarbrögðum. Leit samræðulistarinnar að sannleikanum fer í þveröfuga átt. Hún ræðst gegn þeirri sannfæringu sem mælskulistin hefur búið til og jafnframt að grundvelli þess sem hún byggir áhrifamátt sinn á. Samræðulistin er ekki eingöngu önnur leið til sann­leikans, henni er beinlínis stefnt gegn mælskulistinni. Og lýsinguna á því hvernig samræðulistin virkar, hvaða áhrif hún hefur, höfum við séð hjá Menoni. Viðmælandinn veit ekki sitt rjúkandi ráð, það sem hann taldi einfalt, augljóst, gefið, óvéfengjanlegt, er allt í einu orðið gjörsamlega framandi og hann á engin orð til að ná utan um það. Það er því hin tilfinningalega hreinsun, sem samræðulistin kemur í kring og losar um hina innri sannfæringu, sem er hið raunverulega markmið samræðulistarinnar. Sé það tilgangur mælskulistarinnar að skapa sannfæringu, þá er það tilgangur samræðulistarinnar að kollvarpa bæði sannfæringunni og grundvelli hennar og sýna viðmælendunum fram á að þeir hafi fram að þessu lifað í blekkingu. Díalektíkin framleiðir aporíu, andstæðuna við sannfæringu. Forsendan fyrir því að leita sannleikans er að gera sér grein fyrir því að maður veit ekki hver hann er og áhrif samræðunnar eru þau að afrugla við­mælandann, sem verður fyrir einhvers konar hreinsun, kaþarsis, gagnvart viðteknum skoðunum og sannfæringum, gera hann dolfallinn, skapa hjá honum hina margumtöluðu undrun gagnvart sjálfum sér og heiminum sem kann að vera eitt grundvallarskilyrði heimspekinnar. Lýsing Sókra­tesar á afstöðu sjálfs sín í Menoni virðist benda til þess að einhver svona reynsla búi að baki viskuleit hans sjálfs. Samræðulist hans á sér samkvæmt því upphaf í tiltekinni heimspekilegri reynslu og markmið samræðulistarinnar er að skapa þessa tegund af reynslu hjá viðmæland­anum. Samræðulistin er því ekki markmið í sjálfu sér, heldur tæki, sem beitt er á viðmælandann og er til þess gert að framkalla hjá honum tilfinningalega, tilvistarlega, heimspekilega reynslu sem skapar skilyrðin fyrir því að hann getur sjálfur tekið til við vísdómsleit.

Flutt á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 2010

Heimildir:
Platon, Síðustu dagar Sókratesar (Reykjavík, 1983)
Platon, Menón (Reykjavík, 1985)
Platon, Gorgías (Reykjavík, 1985)
David Hume, Rannsókn á skilningsgáfunni (Reykjavík, 1985)

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson (1791–1852), fornfræðingur, skáld og þýðandi.

Fæddur í Innri-Njarðvík 24. febrúar 1971, sonur Egils Sveinbjarnarsonar og Guðrúnar Oddsdóttur. Sigldi til Khafnar 1814 og lauk guðfræðiprófi 1819, ráðinn kennari að Bessastaðaskóla sama ár og kenndi þar grísku og sögu. Dvaldist í Kaupmannahöfn 1845-1846 og varð 1847 fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Eftir uppreisn skólasveina 1850, svokallað pereat, þar sem Arnljótur Ólafsson fór fremstur í flokki, fékk hann lausn frá embætti með sæmd og lést 17. ágúst 1852.

Sveinbjörn er kunnastur sem þýðandi Hómerskviðna og fræðimaður á sviði íslenskra fræða en í Bessastaðaskóla kenndi hann einnig rit Platons: Málsvörn SókratesarKrítonFaídon og Menón. Einnig eru skólaræður hans, þar sem hann fjallar m.a. um samband þekkingar og dygðar, athyglisverðar frá heimspekilegu sjónarmiði.

Nokkur rit: Skólaræður Sveinbjarnar Egilssonar (1968); Platon: Menón, skólaþýðing eftir Sveinbjörn Egilsson (1985).

« Til baka